Laugardagur 26.02.2011 - 18:24 - 37 ummæli

Ofbeldisóramenn og Flensborgarskóli

Moggabloggið er merkilegt. Fyrir áhugamenn um lágkúru og óþverrahugsun er það oft hreinasta gullnáma. 

Eftir að héraðsdómur staðfesti að nímenningarnir svokölluðu hefðu verið í fullum rétti þegar þeir ásamt um 20 öðrum hugðust mótmæla getuleysi stjórnvalda þann 8. desember 2008 og sýknaði þau af árás á Alþingi, húsbroti og tilraun til að hleypa upp löglegum fundi steig Baldur Hermannsson fram á ritvöllinn á Moggablogginu til að fussa yfir sýknunni. Annar bloggari Vilhjálmur Eyþórsson tók undir þusið í athugasemdum og í kjölfarið skiptust þessir herramenn á skoðunum. 

Vilhjálmur vildi að sakborningarnir yrðu settir í búr eða gapastokk og þeir svo ætti að grýtta þá og að sparkað í þá. Baldur Hermannson tók undir með þessum orðum:

Og sýna kellingunum kynferðislega áreitni. Ekki má gleyma því.

Vilhjálmi fannst þetta góð hugmynd, sérstaklega vegna þess að þær væru “femínistar”, og bætti við að það yrði að refsa karlmönnum í hópnum af sömu ástæðu. Þeir væru femínistar og „karlkvendi“.

Raunar er karkyns- hlutinn af hyskinu vafalaust líka feministar, en slík karlkvendi ættu að sæta alveg sérstaklega illri og ómannúðlegri meðferð.

Þessum orðaskiptum þeirra félaga var eytt eftir að stjórnendum moggabloggsins var gert viðvart hverskonar samræður færu fram í athugasemdakerfi Baldurs. Baldri þótti það vont:

Til upplýsingar: að kröfu Árna Matthíassonar hafa nokkrar athugasemdir verið fjarlægðar úr keðjunni. …  Harður heimur…

 Mér bregður alltaf þegar ég sé menn grínast með ofbeldi eða nauðganir. Og það er eitthvað alveg sérstaklega ógeðfellt þegar gamlir visnir karlar eru að “grínast” með að nauðga konum vegna þess að þær séu “femínistar”.

En ég sá enga ástæðu til að vera að gera veður útaf þessu máli. Þetta er í raun ekki í frásögur færandi því það vill allt of oft brenna við að Moggabloggið sé vettvangur fyrir óþverrarugl af þessu tagi. Baldur Hermannsson er líka vel þekktur fyrir undarlegar skoðanir sínar, og það er ágæt regla að láta ruglaða menn helst afskiptalausa. 

Snorri Páll Jónsson, einn sýknuðu nímenninganna, benti hins vegar á Baldur væri menntaskólakennari við Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Svo vill til að Snorri var nemandi við þennan skóla og það var því eðlilegt að hann sendi skólastjórnendum bréf til að vekja athygli á framferði þessara kennara við skólann.

Þó menntaskólakennarar eigi að fá að tjá sig um öll þjóðfélagsmál og pólítík er augljóslega ekki hægt að líða að þeir séu að hvetja opinberlega til kynbundins ofbeldis eða að opinbera ofbeldisóra sína fyrir alþjóð. Stjórnendum skólans hefur áður verið bent á að Baldur hafi hvatt til ofbeldis á bloggsíðu sinni, meðal annars í „búsáhaldabyltingunni“, þegar hann hvatti til þess að stofnaðar yrðu hvítliðasveitir til að berja mótmælendur. Þá var skólayfirvöldum bent á að það væri bagalegt að kennarar væru að hvetja til ofbeldis gegn mótmælendum þegar langlíklegast væri að einhverjir nemenda skólans og foreldrar annarra væru meðal mótmælenda á Austurvelli.

Bréf Snorra birtist í Fjarðarpóstinum 24 febrúar.

Þetta voru viðbrögð Flensborgar:

Vegna skrifa Snorra Páls Jónssonar í Fjarðarpóstinn 24. febrúar sl. vilja stjórnendur skólans taka eftirfarandi fram. Stjórnendur Flensborgarskólans harma að Snorri sé að draga sinn gamla skóla inn í persónlegar deilur hans og Baldurs Hermannssonar. Skólinn tekur á engan hátt afstöðu í málinu að öðru leiti en að minna starfsmenn sína, nemendur,- og aðra, á að gæta hófs í orðum sínum og framgöngu. Ekki síst að gæta þess að framganga þeirra skaði ekki skólann og aðra sem ekki eiga hlut að máli.

Það eru ekki „persónulegar“ deilur Snorra og Baldurs að Baldur og bloggvinir hans láti sig dreyma um að nauðga konum og beita fólk grófu ofbeldi vegna pólítískra skoðana þess. Hér er á ferð alvarlegt mál sem varðar almannahagsmuni, alla vegana hagsmuni nemenda í Flensborgarskóla, unglinga sem þessi ofbeldisóramaður umgengst dags daglega. Það hlýtur því að vera sjálfsögð krafa að Flensborg fordæmi framgöngu Baldurs í netheimum – það er eðlismunur á því að gæta ekki „hófs“ í orðum sínum og að hvetja til ofbeldis og nauðgana.

Þess í stað kvartar stjórn Flensborgar undan því að Snorri sé að vekja athygli á viðbjóðnum. Opinberir ofbeldis- og nauðgunarórar kennara eru ekki einkamál eða „persónulegar deilur“.

Uppfært:

Lesandi síðunnar benti á að Baldur hefur áður „grínast“ á Facebook með að konur sem hann segir vera „kellingar“ vilji láta nauðga sér:

Flokkar: Íslensk stjórnmál · skítlegt innræti

«
»

Ummæli (37)

 • Hallgrímur Hróðmarsson

  Maður skammast sín fyrir stjórnendur Flensborgarskóla. Það er lágkúrulegt að segja að hér sé um „persónulega deilu“ milli kennara og nemanda skólans að ræða. Ég kenndi við skólann á árunum 1972 til 1979 og við kennararnir voru óhræddir að láta skoðanir okkar í ljósi en við gættum þess að halda málflutningnum á siðuðu plani.

 • Og hvenær hefðu Ólafur Briem heitinn og aðrir heiðursmenn sem kenndu okkur Hallgrími Hróðmarssyni forðum daga, látið sér annað eins um munn fara?

  Aldrei.

 • Ásdís Jónsdóttir

  Mér finnst leitt að heyra að þeir kennarar sem starfa nú við minn gamla skóla hafi svona ótrúlega skítlegt eðli, leyfi mér að fullyrða að sú stjórn sem þá var hefði aldrei varið slíka hegðun.

 • Viðbrögð Fleansborgarskóla eru til háborinnar skammar. Kennari við skólann ræðst á hóp ungmenna, þar á meðal nemanda við skólann, með rætnu og subbulegu orðfæri. Nemandinn vekur réttilega athygli á sóðaskapnum. Það er fráleitt að kalla það deilur við kennarann.

  Eðlileg lágmarksviðbrögð hefðu verið að biðja nemandann afsökunar og senda kennarann á námskeið í mannasiðum.

 • Mörður Ingólfsson

  Ég skrifaði „Stjórnendum“ skólans og sendi á flensborg@flensborg.is

  Ég hvet alla til að segja „Stjórnendum“ skólans skoðun sína á þessu máli.

 • Aristóteles

  Jafnvel þó að þeir hafi átt í persónulegum deilum áður, þá kemur það ekki þessu tiltekna máli við. Hann skrifaði það sem hann skrifaði óháð því.

  p.s. skólinn kann ekki að skrifa „leyti“. „Leiti“ þýðir hæð/hóll

 • Elías Halldór

  Þegar ég fór ungur inn á vinnumarkaðinn þá blöskraði mér stanslaust orðbragðið hjá gömlum íhaldssömum körlum á kaffistofunni. Mér finnst koma vel á vondan er þessi hugsunarháttur afhjúpast svona fyrir allra augum á Internetinu.
  Hvað Vilhjálm Eyþórsson varðar, þá hef ég lesið aðsendar greinar hans í Morgunblaðinu frá því um miðjan áttunda áratuginn. Hann gerir sér sjálfsagt ekki grein fyrir því hversu fyndnar þær eru. Þar eru viss umræðuefni sem koma ávallt upp eins og skrattinn úr sauðarleggnum og fær mann til að halda að hann þyrfti sérstaka meðferð til að fá bót meina sinna eins og lýst er hér: http://www.theonion.com/articles/revolutionary-new-homophobia-immersion-therapy-inv,19264/

 • Hvar eru siðareglur kennara? Ég hélt að allir faghópar ættu sér siðareglur. Hvað finnst öðrum kennurum í Flensborgarskóla um að kenna við hliðina á þeim sem hvetur til slíks ógeðs? Sjáið í anda að læknir t..d á Landspítalanum eða í Heilsugæslunni gæti í friði hvatt til kynbundins ofbeldis??? Glætan spætan!

 • Þótt vont sé þá er moggabloggið nú illskást af þeim leiðum þar sem fólk tjáir skoðanir sínar um fréttir. Kommentin á Eyjunni og DV fá mann til að sjá eftir því að heimurinn hafi ekki brunnið til ösku í kjarnorkustyrjöld í kalda stríðinu.

 • Þetta er ömurlegt mál, ekki síst vegna þess hversu ótrúlega heimskulega Flensborg tekur á þessu. Það er helst að manni detti í hug að ástæðan sé sú að stjórnendur skólans séu hræddir við að styggja Baldur, sem er augljóslega snargalinn. Fyrst maðurinn tjáir sig svona opinberlega getur maður rétt ímyndað sér hvernig hann er á kaffistofunni.
  Það er bara vonandi að það sé hægt að beita skólann nægilegum þrýstingi til að stjórnendur hans treysti sér til að takast á við þá óþverrapöddu sem Baldur óneitanlega er. Á bloggsíðu hans eru t.d. allar konur „kellingar“ og eitthvað þaðan af ógeðfelldara. Ég vorkenni kvenkyns nemendum hans, og finnst reyndar ófært að manni sem er augljóslega haldinn þetta djúpstæðu kvenhatri og mannfyrirlitningu sé hleypt nálægt ungmennum.

  En í annað: Það er góður punktur að best sé að líkja moggablogginu öllu við athugasemdaskrif á fréttir á eyjunni og dv, því fæstar bloggfærslur á moggablogginu eru lengri en meðalathugasemd á eyjunni. En á sama tíma er Moggabloggið blogg – þar eru einstaklingar með eigin persónulegar síður þar sem þeir geta kerfisbundið haldið til haga skoðunum sínum og þar sem aðrir geta nálgast skoðanir viðkomandi – og á þessum síðum fara síðan fram umræður, oft í smærri hópum en t.d. í athugasemdakerfi eyjunnar. Þar með geta menn sem hafa mjög ógeðfelldar hugmyndir safnað í kringum sig hóp lesenda sem geta síðan skipst á óþverraskoðunum í kommentum á þessum bloggsíðum. (Gott dæmi eru þessar umræður á síðu Baldurs, þar sem tvö snargalin gamalmenni eru að æsa upp viðurstyggð í hvor öðrum!) Það hafa ekki myndast nein slík encho-chambers fyrir óþverra, hvorki á eyjunni né dv. Að því leyti finnst mér óþverrinn á moggablogginu skaðlegri en það rugl sem veður stundum uppi í athugasemdum eyjunnar.

  Það má samt ekki gleyma því að á moggablogginu er líka heilmikið af ágætu og vel meinandi fólki, og hið sama má segja um kommentaskrifara eyjunnar. Mín reynsla af kommentaskrifurum á þessari bloggsíðu er að þeir séu nánast allir málefnalegir og hafi eitthvað fram að færa með athugasemdum sínum. Og verstu vitleysingarnir eru sjaldnast „nafnleysingjar“, heldur koma fram undir nafni.

 • Þá veit maður hvaða framhaldsskóla á ekki að treysta fyrir 16 ára ungviðinu þegar þar að kemur (mörg ár í það).

 • Gott framtak hjá þér FreedomFries (Magnús) að benda á þetta og halda því til streitu. Allt of fáir kippa sér upp við svona gubbi á netinu, það virðist allt vera leyfilegt ef það er sagt eða skrifað á blogginu.
  Takk annars fyrir fræðandi blog, mættir endilega skrifa meira :)

  kv Laplace

 • Já og whatever. Hvað skal segja um æsingamenn sem umturna orðum og æsa óstoðuga.

  Er ekki bara kynferdisleg areitni ordin ad naudgun, bara svona thegar thad hentar illa gefnum drullusokkum.

 • „Já og whatever“… hvað eru það annað en nauðgunarórar að láta sig dreyma um að „áreita konur kynferðislega“? Og hvernig er hægt að leggja það einhvernveginn að jöfnu að benda á óþverratal menntaskólakennara sem beinlínis hvetur til ofbeldis og „kynferðislegrar áreitni“ og að vera menntaskólakennari sem situr seint á kvöldin fyrir framan tölvuna og hamast við að hvetja netheima til kynbundins ofbeldis? Og deilir síðan þessum órum sínum með öðrum samskonar mönnum?

  Baldur má mín vegna hafa alla sína óra með sjálfum sér, meðan hann geymir þá í sínum eigin kolli og inni á sínu eigin heimili – en mér finnst ógeðfelldara að hann sé að úttala sig um þá opinberlega, sérstaklega þegar þeir beinast að konunni minni.

 • Sé að Egill er búinn að taka þetta upp eftir þér. Honum er skyndilega orðið annt um konur og börn. Eftirfarandi eru ummæli Sigthors nokkurs sem hann henti út af eyjunni:

  “Fyrir nokkrum árum var viðtal við forstöðukonu stigamóta og ég furðaði mig ávallt á því að ekki skildi meira verið talað um þetta viðtal, sem mig minnir að hafi birst í kastljósinu. En þar segir hún frá því að valdamenn í þjóðfélaginu hafi verið staðnir af því að misnota börn, og var þar einnig talað um þingmenn, þá hafi þeirra aðstoðarmenn og jafnvel yfirmenn komið til hennar og sagt að þeir hafi talað við hann og hann muni ekki gera meira af þessu og svona að hann væri læknaður …. Stófurðulegt að fjölmiðlar hafi ekki tekið þetta upp.”

  Heldur Egill hlífiskildi yfir þingmönnum en hamast á bloggurum? Maður spyr sig.

 • Skrif þeirra félaga eru hörmuleg og dæma sig sjálf en förum ekki að útbreiða ritskoðun með því að fá fólk rekið úr vinnu fyrir skoðanir sínar og skrif á blogginu. Það er allt of austantjalds og McCarthy-legt. Er Baldur ekki að kenna eðlisfræði þarna í Flensborg? Hann á bara að fá að gera það í friði. En ef hann er með áróður af þessu tagi í kennslustundum þá þyrfti vitanlega að taka á því.

 • Elín, ég skil ekki hvert þú ert að fara með þessa umræðu, hvað kemur Egill þessu við þó svo hann hafi bent á þennan pistil?

 • Ef Baldur léti sér nægja að tala um stjórnmál, jafnvel þó sú umræða hans væri stóryrt, væri þetta ekki vandamál. En það er enginn að tala um að láta reka Baldur fyrir „skoðanir“ hans. En það er ekki pólítísk skoðun að hvetja til líkamlegs ofbeldis og kynferðislegs ofbeldis gegn fólki sem hefur aðrar pólítískar skoðanir en maður sjálfur – og það er sérstaklega varhugavert að starfandi kennarar séu með slíkar yfirlýsingar.

  Það er ekki McCarthyismi að vekja athygli á því að það sé varhugavert að menn sem ræða ofbeldis- og nauðgunaróra opinberlega séu í hlutverki uppalenda í skólum landsins.

  Ég veit ekki hvort það þarf að láta reka Baldur, en mér finnst að Flensborg þurfi að taka öðru vísi á þessu máli en þeir kusu að gera, þmt. að skólinn ávíti hann opinberlega fyrir skrifin og láti almenning vita að skólayfirvöld líti skrif af þessu tagi alvarlegum augum.

 • Held að stjórnendur Flensborgar þurfi að fara að skilja það að það sem að kennarar skólans segja endurspeglast á þeim, hvort sem að þau vilja það eða ekki.

  Það minnsta sem að stjórnendurnir geta gert er að biðja manninn um að vanda aðeins málfar sitt og um hvernig hann orðar hlutina.

  Þegar að grín um kynferðislegt ofbeldi og líkamsmeiðingar er komið á opinberan vettvang þá er það komið út fyrir eitthvað einkamál aðilans. Það er þá frá þeirri stund farið að nálgast það að vera talið til skoðanna mannsins og þar af leiðandi lýsandi fyrir persónuleikann.

  Og þegar að persónuleikinn er farinn að anga af kynferðisofbeldismanni eða hneigð í þá átt þá er þetta farið að snerta opinberan vinnuveitendann aðeins meira en lítið.

 • Já, ég veit, þetta er meira en bara pólitískar skoðanir. Það er fullbilleg og fljótfærnistlegt af mér að afgreiða þetta svona. Ég teldi að skólinn ætti að kalla hann inn á teppi og ræða þetta við hann. Mér litist síður á opinberar vítur og því síður brottrekstur.

 • Ein ástæða fyrir því að mér finnst að skólinn eigi að víta Baldur opinberlega er sú að fyrstu viðbrögð skólans voru að gagnrýna Snorra Pál fyrir að hafa vakið athygli á málinu – skólinn ákvað því að taka opinbera afstöðu með Baldri. Til þess að bæta fyrir það núna þarf skólinn að taka afdráttarlaust opinbera afstöðu gegn þessum viðurstyggðarskrifum hans.

 • Held að síðuritari og aðrir vinstrimenn mættu verða sér út um smá húmor.
  Og í því tilfelli að einhver vinstrimaðurinn froðufelli, og segi að þetta sé sko ekkert fyndið, þá bendi ég viðkomandi aftur á, að verða sér úti um smá húmor.

 • Já. Síðuskrifari er alveg auðvitað ferlega húmorslaus að finnast ekki fyndið að tvö gamlamenni sitji heima hjá sér og grínist með að beita eiginkonu hans ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Já alveg ferlegt húmorsleysi.

 • Mig langar að segja gáfulega hluti, mig langar að hafa á þessu skoðanir, mig langar að vera reið og skrifa bréf, mig langar að taka þátt. En mér finnst ég lömuð. Þetta er sami Baldur Hermannsson og sagði í apríl síðastliðnum á netinu um femínista hér í bæ: „Undir niðri dauðlangar hana í nauðgun, það er nú heila málið.“

  Sjá mynd hér: http://twitpic.com/1jltfs/full

  Þegar ég las þessi ummæli og tók þessa mynd hélt ég að þetta væri dulnefni. Mér datt aldrei í hug að þessi maður væri til. En að hann sé ekki bara til heldur kenni unglingum á vegum hins opinbera er of mikið til þess að það sé hægt að einu sinni verða reiður eða öskra. Mig langar bara að grenja.

 • Ótrúlegt hvernig skólayfirvöld þessa skóla snúa alvarlegum brotum kennara uppá fv nemanda sinn sem aðeins upplýsir um brotin.

  Það segi ég sem kennari sjálfur að það er ólíðandi með öllu að neinn kennari eða starfsmaður skóla hvetji til þeirra verka og viðhorfa til slíkra verka og athafna svo sem nauðganna sem upplýst er hér að tilgreindur kennari skóla hvetji til — ef rétt er eftir haft.

 • Ég tók mynd af þessu, Helgi, þetta fer ekki á milli mála. Mögulega nennir einhver að skrolla aftur í tímann á FB hjá Geira í Goldfinger og finna þetta aftur. Þetta var örugglega seint í apríl í fyrra.

 • Gæti x-2011 mögulega útskýrt fyrir okkur húmorslausa fólkinu (í eitt skipti fyrir öll) hvað nákvæmlega er fyndið við þetta?

 • Valur. Talskona Stígamóta sagði þingmenn hafa misnotað börn. Egill fjarlægði ummælin. Ef hann hefði ekki gert það hefði Hildur getað tekið mynd af þeim og grenjað yfir þeim. En endilega tölum bara um Baldur. Hann er í svo ömurlegum flokki.

 • „Hildur getað tekið mynd af þeim og grenjað yfir þeim. En endilega tölum bara um Baldur. Hann er í svo ömurlegum flokki.“

  Hvað á þetta eiginlega að þýða? Að Hildur sé að „grenja“ yfir því að Baldri Hermanssyni finnist fyndið að nauðga konum, og að það séu pólítískar ofsóknir að vilja gera athugasemd við þessháttar þankagang? Annars: Í hvaða stjórnmálaflokki er Baldur?

 • „Mig langar bara að grenja.“ Hún sagði það sjálf. Má ég ekki segja það?

 • Eru það pólitískar ofsóknir að fjarlægja ummæli um þingmann að misnota börn? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt.

 • Elín Sigurðardóttir.
  Egill Helgason er með bloggsíðu, http://silfuregils.eyjan.is. Þar geturðu rætt þetta mál um fjarlægðu ummælin, sem er önnur umræða en hér fer fram.

  Finnst þér ekkert athugavert við þau skrif Baldurs Hermannssonar sem hér eru rædd?

 • Kristján G. Kristjánsson

  Það er ekki í lagi með þig, þú sem þykist heita Elín Sigurðardóttir.

 • Svo skal böl bæta að benda á annað verra, ertu að reyna að segja það Elín?

  Vitanlega á að ávíta þennan sóðakjaft!

 • Það er ofboðsleg smjörklípulykt af innleggjum Elínar. Hún virðist hafa lært listina af Hannesarjafna.

  En aftur að Baldri. Muna ekki allir eftir þáttaröðinni „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins“. það var athyglisverður flokkur sem að tók á mörgum kaunum samfélagsins með svo ónærgætnum hætti að þeir misstu alveg marks nema sem gamanefni. Þess vegna held ég að kallinn sé bara með nokkuð óslípaðan húmor en sé ekki haldin nauðgunarórum umfram aðra menn.

  Þessir þættir voru sýndir upp úr 91´, skömmu eftir valdatöku Hannesarjafna undir dyggri stjórn kommisars Krumma. Þetta var um svipað leyti og Gísli Marteinn var „uppgötvaður“.

 • Jón Skafti Gestsson

  það má líka bæta því við að Baldur hefur verið staðinn að því að skrifa innlegg á bloggsíður annara undir nokkrum mismunandi nöfnum þar sem hann tekur undir með sjálfum sér. Sjá t.d. þetta hér. athugasemd 30 http://thorsaari.blog.is/blog/thorsaari/entry/840389/

 • Ömurlegur málflutningur Baldurs Hermannssonar þar sem hann gerir lítið úr landráðum og kynferðisbrotum gegn fólki sem hann kallar “hippakerlingar”: http://baldher.blog.is/blog/baldher/entry/1135943/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is