Fimmtudagur 01.04.2010 - 13:10 - 5 ummæli

Leiðrétting: Vísindalegur efi er um loftslagsbreytingar af mannavöldum

its-a-conspiracyÍ gær fór ég mikinn í ummælum um þá sem hafa lýst sig efasemdarmenn um loftslagsbreytingar af mannavöldum og kallaði þá ýmsum ljótum nöfnum. Reyndar beindust ummæli mín að því fólki sem styður þessar efasemdir sínar þeim rökum að vísindamenn séu alls engan veginn sammála um loftslagsbreytingar af mannavöldum – að það séu útbreiddar efasemdir meðal fræðimanna um þetta atriði, og því ekki nema eðlilegt að venjulegt fólk sé fullt efasemda.

Þetta taldi ég alrangt: Það er nánast einróma consensus meðal vísindamanna um að á síðustu áratugum hafi orðið miklar breytingar á loftslagi jarðarinnar og að rekja megi þessar breytingar til athafna manna. Máli mínu til stuðnings vísaði ég í grein í Science og aðra í Transactions American Geophysical Union þar sem þessi consensus er kortlagður. (Báðar greinarnar eru stuttar og auðlesnar – hvet alla til að lesa þær). Rök mín voru að þó hægt sé að finna vísindamenn sem efast þá séu þeir jaðarkarakterar og ekki marktækir. Vísindamenn séu nánast einróma sammála um að það sé engin ástæða til að draga vísindin að baki kenningunni um loftslagsbreytingar af mannavöldum í efa.

Ég sé nú að þetta var alrangt hjá mér, og hef sannfærst af þeim rökum að þar sem vísindamenn eru allir upp á hvern einasta á einu og sama máli, og hægt er að finna nokkra fræðimenn  sem hafa verið á launum hjá Exxon Mobil og OPEC sem efast, þá sé þetta mál alls ekki útkljáð, þvi meðan hægt er að finna visindamenn, eða annað fólk, sem eru tilbúnir til að halda einhverju fram opinberlega í skiptum fyrir auð og fjölmiðlaathygli, hlýtur málið að vera óútkljáð?

Þá hefur rifjast upp fyrir mér að vísindamenn og háskólafólk flest er vinstrimenn, andsúnið Bandaríkjunum og einkaframtakinu, þá sé ég að það er ekki til marks um samsæriskenningatrú að halda að áhersla þessa fólks á gróðurhúsaáhrifin sé samsæri þeirra gegn kapítalismanum.

Í þessu máli sem öðrum er auðvitað eðlilegt að hlusta á jaðarraddirnar og þora að ganga gegn straumnum, og ekkert skammarlegt við fólk sem er tilbúið til að láta „staðreyndir“ og skoðanir sérfræðinga villa sér sýn eða grafa undan einbeittri sannfæringu, glerharðri heimssýn eða brjóstvitinu. Svo má ekki gleyma því að undanfarna daga hefur verið sérstaklega kalt úti, og varla er það til marks um einhver gróðurhúsaáhrif? Eða hvað?

Til þess að sýna iðrun mína í verki mun ég afhenda undirritaðar afsökunarbeiðnir á ritstjórnarskrifstofum Freedomfries í Bankastræti 13b í allan dag. Einnig verður boðið upp á vöfflur með rjóma og nýuppáhellt kaffi og svo mun kammersveit ritstjórnarinnar leika undir borðum. Hrægammurinn úr húsdýragarðinum mun líka veita eiginhandaráritanir.

Flokkar: Bloggar

«
»

Ummæli (5)

 • Ef þú værir vísindamaður en ekki ákafur kálfur fastur í hönnuðu vinstra-hægra fjósi. Þá myndir þú auðvitað skýra fyrir lesendum þínum
  að vísindamenn séu allir sammála um að co2 hafi aukist en enginn sammála
  um hvaða áhrif það muni hafa. Þú myndir skýra út fremur en að þyrla upp ryki. Pistillinn hjá þér er settur upp eins og vísindamenn séu sammála um hvaða áhrif aukið co2 mun hafa. Á meðan sannleikurinn er að þeir eru einungis sammála um að co2 hafi aukist, ekkert annað.

  Meira um vinstra hægra fjósið: http://www.youtube.com/watch?v=fTahZE4q90U

 • Ég ætlaði að fara að hrósa þér fyrir þessa iðrun þína og einlægu fyrirgefningu en eithvað segir mér að þetta sé pínu kaldhæðin grein. En það er margt sem er flókið í þessu máli öllu saman og veðra- og andrúmshvolfið er virkilega margþætt og flókið kerfi sem manngerð líkön hafa aldrei almennilega náð að herma eftir. Þannig að ekki er hægt að gera neina tilraun á því hver áhrif CO2 séu á hitasveiflur jarðarinnar. Þó held ég eftir að hafa eithvað lesið mér til um þessi mál að CO2 hafi þessi áhrif sem vísindamennirnir halda fram og býst ég sterklega við því að sú sé raunin. En þá má samt ekki gera lítið úr þeim sem efast, því vísindin snúast jú um það að efast um allt sem þú veist og oft hafa kenningar sem allir hafa talið vera víst að séu sannar verið afsannaðar af einum snilling sem efaðist um það „sanna“.

  Þannig að ekki gera grín að þeim sem efast, það getur vel verið að allir vísindamennirnir hafi rangt fyrir sér þrátt fyrir að það sé langoftast ekki raunin. En veit ég fyrir víst að það eru kennarar við HÍ sem eru ekki sammála því að jörðin sé að hlýna og þeir eru alveg örugglega ekki á launum frá OPEC…

 • Kennarar sem eru ekki sammála því að jörðin sé að hlýna útaf CO2 útblæstri meinti ég… :)

 • ….helviti ad missa af vøfflunum…..meiri fyrirvara næst :)

 • Hvað með súrnun sjávars? Er það líka aprílgabb?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is