Sunnudagur 19.3.2017 - 15:48 - 1 ummæli

Íbúðaskortur og töfralausnir?

Árin 2018 / 2019 verða væntanlega árin sem byggingariðnaðurinn verður farinn að framleiða þann fjölda íbúða sem þarf til að mæta árlegri þörf markaðarins skv. áætlun Samtaka iðnaðarins.  Árin 2018/2019 eru einnig árin sem Bjarg íbúðafélag, nýtt leigufélag í eigu ASÍ og BSRB, áætlar að fyrstu leigjendurnir muni flytja inn í íbúðir þeirra.  Á sama tíma mun Félagsstofnun stúdenta og Háskólinn í Reykjavík taka í notkun fjölda nýrra stúdentaíbúðanna og það sama má væntanlega segja um Byggingafélag námsmanna.

En hvað með þangað til?

Í viðtali við Konráð Guðjónsson, sérfræðing hjá greiningardeild Arionbanka, bendir hann á að það sé engin töfralausn, engin augljós gallalaus lausn á húsnæðisvandanum nema að fjölga íbúðum.  Unga fólkið muni því áfram búa í heimahúsum, í bílskúrum og í iðnaðarhúsnæði þangað til, – og jafnvel þeim valkostum fer fækkandi eftir því sem eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði eykst einnig.

Á fésbókarsíðum Íslendinga er lausna hins vegar leitað.

Á nýlegum spjallþræði hjá Smára McCarthy, þingmanni Pírata, um leigjendamarkaðinn voru helstu tillögurnar þak á leiguverð, nýtt hagnaðarlaust leiguíbúðakerfi, lækkun skatta á langtímaleigu og bann á Airbnb.

Þak á leiguverð:  Þak á leiguverð myndi hjálpa þeim sem eru þegar í leiguíbúðum, en til lengri tíma litið getur þakið leitt til minna framboðs og að fleiri leigusalar myndu horfa til skammtímaleigu til ferðamanna.  Reynsla Dana af leiguþaki sýnir einnig mikilvægi þess að banna jafnframt uppsögn á leigusamningum ef aðeins er hægt að hækka leigu með nýjum leigusamningi.  Hér fjallar t.d the Economist um þak á leiguverð.  Svo má spyrja hversu miklar líkur eru á að ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins vilji banna hækkanir á leigu.

Nýtt verkamannabústaðakerfi:  Þetta er þegar orðið til.  Nýja hagnaðarlausa leiguíbúðakerfið byggir á lögum um almennar íbúðir frá síðasta vori og eru 3 milljarðar króna til úthlutunar í ár fyrir 18% stofnframlög ríkisins.  Sveitarfélög eiga að koma með 12% á móti.  Einnig er hægt að sækja um viðbótarframlag fyrir svæði þar sem skortur er á leiguhúsnæði, erfitt að fjármagna húsnæði og fyrir námsmenn og öryrkja.  Í fyrra var úthlutað í fyrsta sinn í kerfinu, m.a. til Bjargs íbúðafélags og Háskólans í Reykjavík vegna byggingar námsmannaíbúða við skólann.  Til að stofna leigufélagið þarf að lágmarki 1 milljón kr. í stofnfé og 15-20 manns í fulltrúaráð og stjórn félagsins.  Vonandi eru sem flestir hópar leigjenda að spyrja sig hvort þeir vilji stofna sitt eigið leigufélag.  Hér eru nánari upplýsingar. 

Lækkun skatta á langtímaleigu:  Hluti af samkomulagi við Alþýðusambandið um húsnæðismál var lækkun skatta á langtímaleigu ef um einstaklinga er að ræða.  Skatturinn er því núna 10%.  Þegar reiknuð er skattlagning og gjöld á skammtímaleigu til ferðamanna og langtímaleigu þá kemur langtímaleiga betur út fyrir leigusalann.  Þrátt fyrir þetta var 169% aukning á útleigu til ferðamanna.  Af hverju er það?

Bann á Airbnb:  Víða um heim í vinsælum ferðamannaborgum hafa menn brugðist við mikilli aukningu á íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna.  Nýlega steig bæjarstjóri Kópavogs fram og lagði til tímabundið bann á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna.  Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar taldi að krefja ætti Airbnb að afhenda yfirvöldum upplýsingar um þá sem eru að leigja út íbúðir en að öðrum kosti banna starfsemi þeirra.  Viðbrögð viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra við ummælum Gríms gáfu ekki til kynna að ráðherrarnir væru áhugasamir um bann á Airbnb.  Kannski getur Airbnb gert það sama fyrir okkur og þeir gerðu í London?

Hvað með aðrar lausnir? Hvað með þá sem vilja eiga eigið húsnæði, – ekki leigja.

Hverjar eru töfralausnirnar fyrir þau heimili?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.3.2017 - 15:39 - 4 ummæli

Af hverju skortir íbúðir?

Töluvert er fjallað um húsnæðisvanda hér á landi.  Mér hefur þótt áhugavert að lesa ýmsar innlendar skýringar á ástæðum vandans.  Hins vegar hef ég saknað þess að ekki sé horft meira til hvað erlendir sérfræðingar sem fjallað hafa um húsnæðisvanda á heimsvísu segja um bæði orsakir og lausnir til að tryggja nægt framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði.

Í skýrslu McKinsey um að auka framboð af hagkvæmu íbúðarhúsnæði á heimsvísu er bent á fjórar leiðir til að lækka verð og tryggja framboð.  Í fyrsta lagi þarf að vera nægt framboð af lóðum.  Þar benda þeir til dæmis á fjárhagslega hvata til að nýta það land sem er til staðar, nýta land í eigu hins opinbera, þétta byggð og að hluti af skipulögðu byggingarlandi sé heyrnamerktur hagkvæmum íbúðum. Í öðru lagi að auka hagkvæmnina í framleiðslu húsnæðis hvort sem litið er til hönnunar, byggingarefna eða framleiðsluna sjálfa.  Í þriðja lagi er bent á mikilvægi þess að tryggja hagkvæmni í rekstri og viðhaldi húsnæðisins og í fjórða lagi er bent á hvernig megi draga úr kostnaði þeirra sem kaupa og aðstoða þá sem byggja við að fjármagna sig.

Í skýrslu Lyons Housing Review er fjallað um húsnæðiskrísuna í Bretlandi, ástæður hennar greindar og tillögur lagðar fram til úrbóta.  Þar er taldar tvær meginástæður vandans:  Í fyrsta lagi er bent á skort á landi. Sá skortur hafi skekkt markaðinn fyrir lóðir, dregið úr hraða framleiðslu nýrra íbúða og búið til fjárhagslega hvata til að eignast og selja land.  Sveitarfélög hafi ekki haft nægar valdheimildir til að tryggja að íbúðarhúsnæði sé byggt þar sem þau vilja byggja og að sum hafa ekki viljað axla ábyrgðina af því að mæta húsnæðisþörfinni. Í öðru lagi er bent á að áður hafi bæði hið opinbera og einkaaðilar framleitt íbúðarhúsnæði.  Í dag væri treyst á örfá stór byggingafyrirtæki og einstaklingar og verktakar byggja aðeins brot af því sem þeir byggðu áður.  Á sama tíma hefur hið opinbera byggt mun minna, þrátt fyrir að hagnaðarlaus félög hafi gert sitt til að mæta þeirri þörf sem varð til við brotthvarf hins opinbera af markaðnum.

Má ekki alveg heimfæra niðurstöður þessara sérfræðinga yfir á stöðuna hér á landi?

Framboð af lóðum er takmarkaðar en áður.  Verðið er hærra.   Byggingariðnaðurinn fékk mikið högg fyrir hrunið þegar framboð af fjármagni þurrkaðist upp.  Vélar voru seldar úr landi og iðnaðarmenn fluttu erlendis í leit að vinnu.   Þegar verkamannabústaðakerfið var lagt niður hætti ríkið að byggja íbúðir og sveitarfélög hafa lítið byggt af íbúðum. Eftir hrun minnkaði mjög eftirspurn eftir húsnæði vegna skuldsetningar heimila, minni kaupgetu, auknu atvinnuleysi og takmörkuðu framboði af lánsfé.

Eftir hrun settum við svo met ár eftir ár í hversu fáar íbúðir við byggðum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.3.2017 - 08:05 - 1 ummæli

Kvíðin og illa sofin börn

Á síðustu árum hefur kvíði barna og ungmenna aukist mikið, ekki hvað síst hjá stúlkum.  Sérfræðingar hafa fylgst áhyggjufullir með þessari þróun og bent á ýmsar skýringar.  Þeir nefna aukna notkun samfélagsmiðla, prófkvíða, áhyggjur af inntöku í menntaskóla, fjárhag foreldra og frelsisskerðingu barna sem mögulega skýringu.

Minni svefn hefur einnig verið nefndur, en um 30-40% nemenda sofa um sjö klukkustundir eða minna á sólarhring.  Nefnd eru dæmi um börn sem sofa með símann við hlið sér og hrökkva upp við hverja nýja tilkynningu frá uppáhaldsmiðlinum.

Rannsóknir hafa sýnt að kvíði sem er ekki meðhöndlaður geti þróast yfir í þunglyndi, og haft alvarlegar afleiðingar með auknum líkum á ýmiss konar áhættuhegðun, brottfalli úr skóla og erfiðleikum í að fóta sig á vinnumarkaði.

Í stjórnarsáttmálanum er talað um að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslu og í framhaldsskólum.  Einnig að auka þurfi stuðning við börn foreldra með geðvanda og að sálfræðiþjónusta verði felld undir tryggingakerfið í áföngum.

Allt þetta er mikilvægt og verður spennandi að sjá hvernig ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda endurspeglar þessar áherslur.  Hins vegar tel ég einkar brýnt að við leggjum ekki aðeins áherslu á að bregðast við vandanum þegar hann er orðinn til, heldur skoðum hverjar orsakirnar eru og fyrirbyggjum kvíðann.

Eftir hrun sáum við að börnunum okkar leið betur, – ekki verr, heldur betur. Helsta skýringin var talin vera að foreldrar höfðu meiri tíma til að sinna þeim.  Við höfðum líka séð hversu mikilvægur tíminn með fjölskyldunni er þegar kemur að annarri neikvæðri hegðun eins og neysla áfengis og tóbaks. Litlir hlutir, eins og að leggja símum og tölvum á kvöldin. Setja upp sameiginlega hleðslustöð fyrir utan svefnherbergin.  Tryggja að börnin okkar sofi nóg.  Eyða meiri tíma með börnunum okkar.

Allt þetta skiptir máli, – samhliða bættri geðheilbrigðisþjónustu og mun vonandi snúa við þessari ógnvænlegu þróun.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.3.2017 - 13:31 - 1 ummæli

Karlar óskast í háskólanám

Málmsmíði er líka #kvennastarf. Húsasmíði er líka #kvennastarf. Pípulagnir eru líka #kvennastarf. Svona hljóma auglýsingar iðnskólanna. Frábært framtak og vona ég sannarlega að fleiri konur muni verða sveinar í hinum ýmsu iðngreinum þar sem þær eru í miklum minnihluta.

Á sama tíma sakna ég auglýsinganna og átakanna til að fjölga körlum í hinum ýmsu störfum þar sem nánast aðeins eru konur.

Íslenski vinnumarkaðurinn er gífurlega kynjaskiptur og er sú staðreynd talin ein helsta ástæða kynbundins launamuns. Karlar eru í miklum minnihluta í hinum ýmsu kennarastéttum, örfáir karlar starfa sem hjúkrunarfræðingar eða félagsráðgjafar og enn hefur enginn karl útskrifast sem ljósmóðir.

Allt störf sem eru líka #karlastörf. Einfaldlega verða að vera líka #karlastörf.

Kynjahallinn í háskólanámi er sláandi. Árið 2014 voru til dæmis í Háskóla Íslands, fjölmennasta háskóla landsin 8.437 konur og 4.403 karlar skráðir við nám.

Á sama tíma heyrum við ítrekaðar fréttir um yfirvofandi skort á nýliðun í þessum mikilvægu starfsgreinum. Það er verulegt vandamál ef helmingur samfélagsins horfir ekki á viðkomandi grein sem mögulegan starfsvettvang. Þannig hljóta öll áform um að auka hlut karla í þessum greinum að vera ekki aðeins mikilvægur þáttur í jafnréttisbaráttunni heldur einnig nauðsynlegt til að bregðast við þörfum vinnumarkaðarins.

Háskóladagurinn var haldinn í gær þar sem fram fór kynning á öllu háskólanámi á Íslandi. Ég vona sannarlega að þar hafi allir lagt sig fram við að kynna báðum kynjum þá fjölbreyttu og spennandi möguleika sem bjóðast í háskólanámi.

Vonandi þannig að við getum hætt að tagga störf sem #karlastörf eða #kvennastörf.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.2.2017 - 14:32 - 3 ummæli

Ertu að tapa á Airbnb?

Mikið er rætt um húsnæðisvandann þessa dagana og ekki hvað síst vandann á almenna leigumarkaðnum. Eitt af því sem talið er hafa mikil og neikvæð áhrif á hann er leiga íbúða til ferðamanna á vefsíðum á borð við Airbnb. Fleiri hundruð herbergja, íbúða og húsa má finna til útleigu á vefnum og líklega gera flestir eigendur þessara eigna það í hagnaðarskyni.  Þeir telja þannig að skammtímaleiga til ferðamanna gefi þeim meira í vasann en langtímaleiga til einstaklinga.

En er það svo?

Alexander G. Eðvardsson hjá KPMG bendir á í grein sinni í Morgunblaðinu að ekki sé sjálfgefið að útleiga húsnæðis til ferðamanna sé hagkvæmari kostur en að leigja einstaklingum í langtímaleigu.  Útleiga til ferðmanna telst vera atvinnurekstur.  Af því leiðir m.a. að sveitarfélögum er heimilt að miða álagningu fasteignagjalda við atvinnuhúsnæði, en sú álagning er þrefalt hærri en á íbúðarhúsnæði.  Skattlagning tekna vegna atvinnureksturs er einnig mun hærri en skattlagning tekna vegna leigu til einstaklinga sem búsettir eru í viðkomandi húsnæði.

Þannig er skattlagning vegna langtímaleigu nú 10%, en skattlagning á hagnað af leigu til ferðamanna er eins og á aðrar launatekjur, eða um 37% til 46% eftir heildarlaunatekjum viðkomandi einstaklings.  Því til viðbótar bætast reglur um virðisaukaskatt sem skila þarf af útleigu til ferðamanna. Engu skiptir þótt einstaklingur geri langtímaleigusamning um húsnæði við fyrirtæki, sem leigir það svo áfram til ferðamanna. Tekjur af slíkum samningi flokkast sem atvinnutekjur.

Því kann það að vera staðreynd að fyrir mjög marga er ekki hagkvæmara að leigja til ferðamanna.

Það er mikill skortur af húsnæði til langtímaleigu. Með því að skoða dæmið til enda gætir þú verið að hjálpa fjölskyldum í húsnæðisvanda og jafnframt endað með meiri pening í vasanum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.2.2017 - 12:12 - Rita ummæli

Er staða ungs fólks verri nú en 1990?

Í Silfri Egils um síðustu helgi var staða ungs fólks rædd og skapaðist nokkur umræða eftir þáttinn. Eitt af mörgu áhugaverðu í þættinum var ábending Teits Björns Einarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um skýrslu fjármálaráðherra um svokallaða kynslóðareikninga, nánar tiltekið um þróun efnahagslegrar stöðu þess þjóðfélagshóps sem á hverjum tíma er á aldrinum 20-35 ára miðað við eldri kynslóðir undanfarna tvo til þrjá áratugi að beiðni þingmanna Samfylkingarinnar á síðasta þingi.

Skýrslan var unnin af Friðriki Má Baldurssyni og Axel Hall og er sannarlega allra athygli verð.

Helstu niðurstöður skýrslunnar voru:

 1. „Þegar litið er til annarra landa hefur ungt fólk almennt dregist aftur úr í tekjum síðustu áratugi, en eftirlaunaþegar hafa framur bætt stöðu sína.  Þróunin hér er svipuð.  Það ber að undirstrika að í þessum samanburði er ekki tekið tillit til breytinga á atvinnuþátttöku.  Það hefur töluverðar afleiðingar í sumum tilvikum, t.d. varðandi samanburð á tekjum kvenna yfir langt tímabil. Svipað gildir um yngri hópa þar sem mun fleiri stunda nám en áður.
 2. Þegar þróun aldurshópa undanfarna áratugi er skoðuð sést að framvindan er lík á Íslandi og Bretlandi að því leyti að yngsti hópurinn lækkar mest, um 24% á Íslandi og 33% á Bretlandi. En síða verður þróunin frekar ólík. Á Íslandi minnkar munurinn jafnt og þétt þar til hann snýst við þegar komið er að hópnum 35-39 ára.  Tekjur eldri hópa hækkuðu svo umfram meðaltalið í nokkrum stíganda sem náði hámarki fyrir 60-64 ára.  Á Bretlandi er þetta mynstur mun óreglulegra, en lífeyrisþegar hafa stórbætt stöðu sína.  Þessi ólíka þróun kann að stafa af því að lífeyriskerfin hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum.
 3. Þegar íslensk gögn frá árunum 1990 og 2014 eru borin saman sést einnig að yngri hóparnir hafa lækkað hlutfallslega miðað við meðaltalið á undanförnum aldarfjórðungi, en þeir eldri hafa hækkað. Gögnin gefa til kynna lækkun aldurshópa milli 1990 og 2014 fram að 35 – 39 ára aldri, en hækkun eftir það. Hæstu tekjum nær fólk nú á aldrinum 45-49 ára, en ekki við 40-44 ára aldur eins og var árið 1990.
 4. Þegar þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna einstakra aldurshópa er skoðuð yfir tímabilið 1990-2014 kemur í ljós að til ársins 1997 hreyfast ferlarnir nánast alveg í sama takti. Eftir það verður framvindubrot þar sem eldri hóparnir taka verulega fram úr þeim yngri og verður bilið sífellt meira fram að fjármálakreppunni. Það dregur verulega úr bili milli hópa eftir það, en þó með þeim hætti að elstu hóparnir halda sínu forskoti.
 5. Þróun tekna eftir kynjum er ólík. Árið 1990 fóru tekjur karla nálægt því að tvöfaldast frá 20-24 ára og 40-44 ára aldri; fóru úr um 90% af meðaltekjum í 170%. Tekjur kvenna hækkuðu mun minna með aldri, fóru úr 60% við 20-24 ára aldur í 85% þegar 40-44 ára aldri var náð.  Tekjur eftir aldri eru mun líkari hjá kynjunum nú.  Engu að síður eiga konur enn nokkuð í land með að ná körlum í ráðstöfunartekjum í nánast öllum aldurshópum.
 6. Vísbendingar eru um að ferill ævitekna einstaklinga sé að breytast í þá átt að fólk byrji almennt með lægri tekjur (hlutfallslega) en áður, en tekjurnar aukist síðan hraðar með aldri og hækkunin vari lengur. Fólk nær því hámarkstekjum við hærri aldur en áður var.
 7. Nánari greining þar sem bætt er við sambúðarformi og fjölskyldugerð staðfestir fyrri niðurstöður um áhrif aldurs og kyns, en sýnir einnig að barnlausir standa verr í samanburði við barnafólk. Ekki er mikill munur á þróun einhleypra og samskattaðra.
 8. Þegar litið er á upphaf og lok tímabilsins 1990-2014 þá bendir allt til þess að áhrif skatta- og bótakerfa hafi verið lítil og fremur í þá átt að bæta stöðu yngstu hópanna. Skýringa á lakari stöðu þeirra er því að öllum líkindum ekki að leita í þeim kerfum.
 9. Mikil fjölgun hefir orðið á þeim sem stunda háskólanám. Sú fjölgun tekur til allra yngstu aldurshópanna og aukningin er mun meiri meðal kvenna en karla. Samsvarandi breytingar hafa orðið á hlutfalli þeirra sem hafa lokið háskólanámi.
 10. Tekjur eru hærri hjá þeim sem eru með háskólamenntun en þeim sem hafa lokið skemmra námi. Hins vegar hefur þessi ávinningur minnkað verulega á þessum áratug sem gögn liggja fyrir um. Svo virðist sem sköpun nýrra starfa við hæfi háskólamenntaðra hafi ekki haldið í við fjölgun þeirra og tekjuávinningur menntunar því minnkað.  Í þessu felst áskorun fyrir íslenskt samfélag.  Þessi vandi er ekki einskorðaður við Ísland.
 11. Vísbendingar eru um eftirfarandi samspil háskólamenntunar og ráðstöfunartekna fólks á aldrinum 20-34 ára:

Yngsti hópurinn, 20-24 ára, er nú í mun meira mæli í háskólanámi en áður.  Það má skýra (hlutfallslega) lægri tekjur þessa hóps að töluverðu leyti út frá þessari þróun.

Þegar komið er í eldri hópana, 25-29 ára og 30-34 ára, þá dragast tekjurnar enn niður, miðað við það sem áður var, af hærra hlutfalli þeirra sem stunda nám, þótt í minna mæli sé en í yngsta hópnum.

Þetta skilar sér i verulegri (hlutfallslegri) lækkun ráðstöfunartekna 20-24 ára.  Hóparnir 25-29 ára og 30-34 ára lækka einnig, en lækkunin er stigminnkandi.

Ekki er hægt að fullyrða að þessi áhrif séu ráðandi í framvindu tekna, þótt þau séu til staðar.

 1. Það hvenær fólk ákveður að hefja sambúð ræðst að einhverju leyti af efnahagslegum og félagslegum þáttum – tekjum, aðgangi að húsnæði o.fl. – en líklegt er að ákvörðunin sem slík hafi einnig áhrif á tekjur. Meðal barnlausra einstaklinga, hafa þeir sem eru í sambúð hærri tekjur en þeir sem eru einhleypir, hvort sem það stafar af því að fólk hefur sambúð þegar það hefur efnahagslega stöðu til þess, eða það hefur sambúð og aflar síðan tekna sem til þarf til að reka heimili; það má geta sér þess til að hvort tveggja komi til.  Gögn gefa til kynna að meðalaldur fólks við stofnun sambúðar hafi hækkað um fimm ár frá 1990.
 2. Reynslan sýnir að sterk tengsl eru milli kaupmáttar ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs. Ef einstakir hópar dragast aftur úr í kaupmætti getur það því leitt til þess að húsnæðiskaup verða þeim erfið. Gögn frá 2004 sýna að þung undiralda er í þá átt að hlutdeild eigin húsnæðis minnki hjá yngstu aldurshópum.  Hröðust var þróunin meðan fjármálakreppan reið yfir.  Lækkunin virðist stöðvast árið 2011 og einhver viðsnúningur hafa orðið síðustu ár.
 3. Fasteignaverð hefur tvöfaldast að raunvirði frá 1990, en raunvextir hafa lækkað um helming á saman tímabili. Þegar litið er til greiðslubyrði nýrra lána togast því á hækkun fasteignaverðs og lækkun raunvaxta. Þegar þessi þróun er sett í samhengi við kaupmátt yngstu hópa kemur í ljós að greiðslubyrði af dæmigerðu láni hefur ekki breyst mikið milli 1990 og 2014.  Sú staðreynd að fasteignaverð hefur hækkað verulega umfram ráðstöfunartekjur þessara aldurshópa bendir til að um þessar munir sé greiðslubyrði lána ekki aðalvandamálið fyrir ungt fólk heldur öllu fremur getan til að safna fyrir útborgun, sem reynist erfiðari hjalli að yfirstíga.
 4. Viðhorf og gildismat hefur á hverjum tíma áhrif á ákvarðanir fólks og ef slíkir undirliggjandi þættir breytast þá hefur það víðtækar afleiðingar. Efnahagsráð forseta Bandaríkjanna birti í árslok 2014 umfangsmikla skýrslu um aldamótakynslóðina þar sem teknir voru saman helstu þættir og sérkenni hennar (Council of Economic Advisers, 2014). Margt í þeirri skýrslu kemur heim og saman við það sem þessi skýrsla leiðir í ljós varðandi Ísland: Bandaríska aldamótakynslóðin hefur fjárfest meira í mannauði en fyrri kynslóðir; sú fjárfesting skilar tekjuávinningi, en hann hefur minnkað verulega og meira en hér á landi. Aldamótakynslóðin er ólíklegri til að búa í eigin húsnæði en fyrri kynslóðir á sama aldri, en líklegri til að búa í foreldrahúsum.  Þar hafa efnahagsaðstæður áhrif, en einnig nánari tengsl barna og foreldra en áður var.
 5. Í bandarísku skýrslunni kemur fram að aldamótaskynslóðin standi frammi fyrir margs konar áskorunum. Fyrir það fyrsta gefa rannsóknir til kynna að efnahagslegar aðstæður í æsku og á fyrstu fullorðinsárum marki feril einstaklinga til langs tíma og geti haft varanleg áhrif á laun, tekjur, sparnað, fjárfestingar og traust til stofnana samfélagsins. Þetta bendir til þess að efnahagskreppan mikla í Bandaríkjunum hafi haft neikvæð áhrif á þessa þætti þótt of snemmt sé að segja hversu mikil og varanleg áhrifin verði. Svipað kann að eiga við hér.“

Yngri fólk er lengur í foreldrahúsum, er lengur í námi, fer seinna á vinnumarkaðinn og eignast börn seinna.

Er þetta neikvætt?  Er þetta jákvætt? Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.2.2017 - 16:22 - 1 ummæli

Tekið á skuldavanda heimilanna

Heimilum landsins vegnar betur. Um mitt ár 2009 voru skuldir heimilanna 126% af landsframleiðslu, en eru í dag lægri en þær hafa verið í aldarfjórðung.  Þetta er árangurinn af markvissri baráttu framsóknarmanna fyrir því að taka á skuldvanda heimilanna allt frá bankahruni.  Hvort sem um var að ræða yfirdráttarlán, gengislán eða verðtryggð lán þurfti að taka á skuldavandanum með öllum tiltækum ráðum.

Heimilin eru undirstaða hagkerfisins og aðeins með því að taka á skuldvanda þeirra mætti koma hjólum efnahagslífsins af stað og hefja endurreisnina.

Því voru aðgerðir fyrir skuldsett heimili helsta kosningamálið árið 2013. Þegar ríkisstjórn undir forystu framsóknarmanna tók við völdum að loknum kosningum lá fyrir skýrt umboð kjósenda til að taka á skuldavanda íslenskra heimila og ná fram leiðréttingu á verðbólguskotinu.  Stöðnunin yrði rofin, skuldir leiðréttar, hagvöxtur aukinn og heimilin færu aftur að fjárfesta.

Sjálf leiðréttingin var valkvæm og almenn, þannig að allir þeir sem voru með verðtryggð fasteignalán á árunum 2008 og 2009 og höfðu orðið fyrir verðbólguskotinu gátu sótt um leiðréttingu.  Jafnframt voru heimilin hvött til að halda áfram að borga niður skuldir með því að nýta séreignasparnað sinn til að greiða niður höfuðstólinn.  Þeir sem orsökuðu hrunið greiddu fyrir leiðréttinguna með skatti á gömlu bankana.

Þátttakan og árangurinn af Skuldaleiðréttingunni fór fram úr björtustu vonum.  Venjuleg íslensk heimili nutu góðs af aðgerðinni þannig að 75% fór til einstaklinga með minna en 7 m.kr. í árstekjur eða hjóna með 16 m.kr. á ári. Þannig fengu tekjulægri einstaklingar meirihluta leiðréttingarinnar.  Hlutfall skulda íslenskra heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eru nú næst lægstar á Norðurlöndunum, en aðeins Finnar eru með lægra hlutfall.

Aðgerðinni var ætlað að gera upp fortíðina og byggja undir framtíðina. Því allt byggir á heimilunum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.10.2016 - 13:14 - Rita ummæli

Þúsundir Leiguheimila á næstu árum

Fyrsti umsóknarfresturinn vegna Leiguheimilanna í nýju almennu íbúðakerfi rann út þann 15. október.  Nýja kerfið fer vel á stað því fjór­tán aðilar sóttu um stofn­fram­lög úr rík­is­sjóði til bygg­ing­ar eða kaupa á 571 íbúð sem ætlað er að slá á hús­næðis­vanda tekju­lægri ein­stak­linga og milli­tekju­hópa.

Íbúðalánasjóður mun kanna hvar þörfin fyrir hagkvæmt leiguhúsnæði er mest og úthluta svo á næstu vikum allt að 1,5 milljörðum króna til verkefnisins.  Fyrstu Leiguheimilin ættu þá að geta farið í byggingu strax að lokinni úthlutun og er áætlað að fyrstu íbú­arn­ir geti flutt inn strax næsta ári.

Leigu­heim­ili er nýr val­kost­ur sem byggir á norrænum fyrirmyndum og  var komið á með frum­varpi mínu um al­menn­ar íbúðir. Leigu­heim­il­in fela í sér að fé­laga­sam­tök, sveit­ar­fé­lög og lögaðilar sem upp­fylla ákveðin skil­yrði fá stuðning hins op­in­bera til að standa að upp­bygg­ingu leigu­hús­næðis.  Þar munu íbú­ar öðlast rétt til ör­uggr­ar lang­tíma­leigu, en greiðslur verða að meðaltali 20-30% lægri en markaðsleiga er í dag.

Í sum­um til­fell­um geti hús­næðis­kostnaður leigj­enda, að teknu til­liti til hús­næðis­bóta, jafn­vel orðið allt að helm­ingi lægri en nú er. Til að geta sótt um Leigu­heim­ili þurfa tekj­ur heim­il­is­fólks að vera und­ir skil­greind­um tekju-og eigna­mörk­um sem eru yfir meðal­tekj­um nokk­urra hópa, s.s. ungs fólks, eldri borg­ara og fleiri hópa.

Aukið framboð af húsnæði mun svo koma öllum heimilum til góða til að draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaði og fjölga valkostum.

Hvernig ætli Leiguheimilin muni svo líta út?

Hér má sjá nokkrar erlendar fyrirmyndir.

WHA14_810_FINLAND3

 

Sophienborg_BO

BB_2

 

BB_3

Vilderose_gotumynd

Sem og eina uppáhalds innlenda fyrirmynd, – gömlu Verkamannabústaðirnir við Hringbraut 🙂

Framhlid_Verkamannabustadir

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.10.2016 - 12:50 - Rita ummæli

25% skattur í þágu millistéttarinnar.

Leiðréttingin var í þágu almenns launafólks, heimilanna í landinu. Nú höldum við framsóknarmenn áfram á sömu braut að draga úr byrðum millitekjufólks með betra og einfaldara skattkerfi.
Við erum sannfærð um að þetta sé hægt. Hugmyndir í þessa veru hafa meðal annars komið fram hjá Verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við viljum byggja á hugmyndafræðinni og tryggja það að afraksturinn falli millitekjuhópum í skaut.
Hugmyndir verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld
• Tvö tekjuskattsþrep 25% og 43%, í þágu meginþorra launafólks.
• Einstaklingsframtöl – samsköttun hætt.
• Barnabætur 450 þús. kr. á ári á hvert barn, upp að þremur. börnum, með 12% skerðingu og fylgja barninu.
• Vaxtabótum breytt og húsnæðisstuðningi beint til tekjulægri heimila.
• Stuðningur við að eignast heimili á að gerast utan skattkerfis,til dæmis með úrræðinu Fyrsta fasteign, Leiguheimilum og breyttu námslánakerfi.
Framsókn fyrir fólkið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.10.2016 - 17:59 - 1 ummæli

Stöðugleiki og styrk stjórn áfram

Það gengur vel á Íslandi.  Stöðugleiki og styrk efnahagsstjórn hefur einkennt kjörtímabilið.  Við framsóknarmenn viljum tryggja að svo verði áfram.  Í dag kynntu Sigurður Ingi og Lilja Dögg okkar helstu áherslumál fyrir næsta kjörtímabil, sem öll byggjast á hinum mikla árangri sem náðst hefur í stjórn landsins.

Lækkum skatta á 80% launafólks.

Við ætlum að halda áfram að efla millistéttina á Íslandi, heimilin í landinu.  Lækka þarf skatt á meginþorra launafólks í samræmi við umbótatillögur Verkefnisstjórnar um breytingar og umbætur á skattkerfinu.  Þar má helst nefna 25% skattahlutfall í neðra skattþrepinu og útgreiðanlegan persónuafslátt.

Hjálpum ungu fólki að eignast heimili.

Lækka þarf vexti.  Endurskoða þarf peningastefnuna og tryggja að fjármálakerfið vinni með samfélaginu og fyrir það.  Engin ofurlaun eða ofurbónusa og raunvextir verða að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika á Íslandi.  Við ætlum að aðstoða ungt fólk með úrræðinu Fyrsta fasteign og með fjölgun Leiguheimila þannig að öll heimili búi við húsnæðisöryggi.  Hluti námslána verði styrkur og hægt verði að fresta afborgun námslána við kaup á Fyrstu fasteign í allt að 5 ár.

Eflum velferðina, fyrir alla.

Halda þarf áfram að efla velferðarkerfið.  Lágmarkslífeyrir aldraðra verði 300 þúsund krónur á mánuði og fylgi lágmarkslaunum á almennum vinnumarkaði. Tannlækningar aldraðra verði gjaldfrjálsar og hjúkrunarrýmum fjölgað um allt land.  Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts.

Við vitum að framtíðin er björt ef rétt verður á mál­um haldið. Þar skipt­ir stöðug­leiki og festa mestu máli.  Þess vegna erum við tilbúin að starfa með öllum þeim stjórnmálaflokkum að loknum kosningum sem láta sig félagshyggju og jöfnuð varða og eru tilbúnir til að varðveita nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Okkar er valið 🙂

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is