Miðvikudagur 23.9.2015 - 14:26 - 3 ummæli

Hagkvæmari íbúðir fyrir ungt fólk

Fyrir nokkru skrifaði ég um tilraunir nágrannalanda okkar til að byggja hagkvæmari og minni íbúðir fyrir námsmenn.  Hér á landi hef ég svo fylgst með af aðdáun baráttu stjórnenda Félagsstofnunar stúdenta fyrir að bjóða námsmönnum upp á fleiri íbúðir sem næst skólanum sínum á viðráðanlegu verði.

Húsnæðiskostnaður er stór hluti af útgjöldum námsmanna.

Grunnframfærsla námsmanna á Íslandi er 165.717 kr. á mánuði fyrir einstakling í leigu- eða eigin húsnæði samkvæmt lánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  Námsmaður má vinna sér inn allt að 930 þúsund krónur án þess að það skerði námslánið og ætti hann þá rétt á húsaleigubótum upp á 22 þúsund krónur á mánuði.  Einstaklingsíbúð á Ásgarði hjá Félagsstofnun stúdenta sem er 36 m2 kostar 79.279 kr.  á mánuði.

Þetta þýðir að námsmaður borgar 57.279 kr. fyrir húsnæði og hefur 108.438 kr. á mánuði til að lifa af yfir veturinn og nemur húsnæðiskostnaður um 35% af námslánum hans miðað við þessar forsendur.

Í yfirlýsingu stjórnvalda um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga kemur fram að byggja eigi upp nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en sem nemur 20-25% af tekjum. Til þess að markmið okkar náist má húsnæðiskostnaður námsmanns ekki vera hærri en 33.143 kr. til 41.429 kr. á mánuði þegar tekið hefur verið tillit til leigukostnaðar og opinbers húsnæðisstuðnings við leigjendur.

Danir hafa verið að fást við sama verkefni, – þ.e. að finna leiðir til að tryggja ungu fólki nægjanlega hagkvæmar íbúðir.  Niðurstaða þeirra er að það eigi að vera mögulegt að byggja einstaklingsíbúðir fyrir ungt fólk sem uppfylla þarfir þeirra og kosta ekki meira en 3200 Dkr eða 61.785 krónur á mánuði (gengi Íslandsbanka 23.9.2015) meðal annars á Kaupmannahafnarsvæðinu.

basisboligen_afslutningskonference_FullSize

Ef leigan á nýjum einstaklingsíbúðum fyrir námsmenn væri sambærileg og nefnd er í dæminu frá Danmörku, og að teknu  tilliti til áforma um breyttan húsnæðisstuðning við leigjendur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að grunnbætur hækki í 31 þúsund krónur, myndi námsmaður borga 30.785 krónur á mánuði fyrir húsnæði eða 18,6% af tekjum.

Námsmenn í nýjum íbúðunum fengu þannig rúmlega  26 þúsund krónur aukalega í vasann á mánuði.

Basisbolig-2_koekken-og-hems_artikel-besk

Þess vegna segjum við í yfirlýsingunni að við ætlum ekki aðeins að byggja 2.300 íbúðir og breyta húsnæðisstuðningi heldur að stjórnvöld munu á allan hátt greiða fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað.  Endurskoðun á byggingarreglugerð, skipulagslögum  og gjaldtöku sveitarfélaganna á lóðum er þar á meðal.

Basisboligen_model_1_teikning

Ef Danir geta þetta, þá getum við þetta.

 

Ítarefni:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga

Nánari upplýsingar um Basisboligen verkefnið í Danmörku

Ungdomsboliger i lille storrelse, Statens byggeforskningsinstitut

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.9.2015 - 08:28 - 4 ummæli

Ikea leiðin: Að ákveða verðið fyrst

IKEA er mikil uppáhaldsverslun mín.  Hvert sem litið er á heimili mínu má sjá þá aðdáun endurspeglast í heimilismunum frá IKEA: Hvíti Ecktorp sófinn sem við slökum á í fyrir framan sjónvarpið, Ingólfarnir sem raða sér eins og litlir hermenn í kringum eldhúsborðið (já, sem er líka frá IKEA), diskarnir sem við borðum á og margt, margt fleira.

Þegar ég lærði í Svíþjóð las ég um stofnanda IKEA, Ingvar Kamprad, hvernig hann byrjaði í viðskiptum sem lítill drengur við að selja eldspýtur, stofnaði IKEA 1943 við eldhúsborð frænda síns og umbylti húsgagnamarkaðnum með húsgögnum í flötum pökkum sem neytandinn setti sjálfur saman þegar heim kom.

Sophienborg_BO

En flötu pakkarnir hafa aldrei verið helsta snilldin hjá Ingvari í mínum huga. Snilldin hjá IKEA var og er að byrja á að skilgreina verðið sem flestir neytendur hafa efni á að borga og gera svo allt til að hanna vöruna, framleiðsluna og verslunina í samræmi við það.

SophienborgBO_byggingarferli

Flötu pakkarnir voru einfaldlega leið að því markmiði að bjóða heimilum upp á vel hannað vöru á verði sem þau höfðu efni á.

SophienborgBo_grunnteikning

Þegar kemur að heimilum okkar, húsunum sjálfum er oft eins og við höfum nálgast þetta frá hinni hliðinni, þar sem verðið er sett síðast við byggingu.

Því spyr ég: Af hverju getum við ekki nálgast heimilin sjálf, íbúðarhúsnæðið með sama hætti?

SophienborgBO_yfirlitsmynd

Farið IKEA leiðina?

PS: Ljósmyndirnar eru af BoKlok húsunum í SophienborgBo, Hillerød, Danmörku en BoKlok er samstarfsverkefni IKEA og Skanska um byggingu hagkvæmra húsa fyrir venjulegt fólk.

Byggingarkostnaður ásamt lóð ca. 7.900 Dkr/m² (153.292 kr/m²).  Söluverð á búseturétti  fór eftir stærð íbúðanna en var frá 4.400-5.700 Dkr/m² ((85.378 – 110.603 kr/m²) og árlegt  búsetugjald var ca. 900 Dkr/m² (17.464 kr/m²).  (Öll verð frá 2005.  Reiknað yfir í íslenskar krónur miðað við gengi 7.9.2015, Íslandsbanki)

chalkboard_quotes_ford

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.9.2015 - 13:13 - 10 ummæli

85 m² raðhús á 14,9 milljónir?

Fyrir hrun var víðar fasteignabóla en á Íslandi.  Í Danmörku náði húsnæðisverð einnig hæstu hæðum og venjulegt fólk átti í erfiðleikum með að eignast heimili, hvort sem um var að ræða kaup á húsnæði, búseturétti eða að finna leiguíbúðir á ásættanlegu verði.

Til að bregðast við þessu var farið af stað með verkefni um að byggja hagkvæmari íbúðir. Byggja átti 5000 íbúðir sem yrðu leigðar út á 5000 DKK á mánuði, eða 5×5 billige boliger með stuðningi hins opinbera. Á ýmsu gekk áður en fyrstu húsin urðu að raunveruleika. Þau risu í Vildrose, Karens Minde í Kaupmannahöfn og voru hönnuð af arkitektastofunum ONV Arkitekter og Tegnestuen Mejeriet A/S að lokinni samkeppni um smíði húsanna.  Framleiðandi húsanna var eistneska fyrirtækið Kodumaja.

Yfirlitsmynd_Vildrose

 

Vildrose samanstóð af sjö raðhúsalengjum, með 38 íbúðum á tveimur hæðum auk 44 m² sameignarhúss.  Allar íbúðirnar eru á tveimur hæðum, en þær minnstu 85 m² og þær stærstu 131 m².   Húsin eru byggð úr forsmíðuðum einingum úr timbri og voru flutt með skipum og flutningabílum á lóðina frá Eistlandi.Vilderose_gotumynd

Byggingarkostnaður Vildrose húsanna var 7.500 Dkr/m² (145.530 kr/m²).  Því til viðbótar bættist kostnaður vegna grunna og lóða þannig að heildarkostnaður varð ca. 9.000 Dkr/m² (174.636 kr/m²).  Kaupverð á búseturétti var 4.800 Dkr/m² (93.139 kr/m²) og árlegt búsetugjald var ca. 1.150 Dkr/m² (22.315 kr/m²) Fyrir íbúðir sem nutu stofnframlaga frá hinu opinbera voru greiddar 4.900 Dkr/m² (95.080 kr/m²) fyrir búseturéttinn en mun lægra búsetugjald eða 700 Dkr/m² (13.582 kr/m²).  (Allar upphæðir eru frá 2008. Reiknað yfir í íslenska krónur miðað við gengi 6.9.2015, Íslandsbanki)

Vildrose_eldhus

Horft út eftir íbúðinni í átt að inngangnum.

Þannig hefur kostað 14,9 milljónir króna að reisa 85 m² raðhús og 22,9 milljónir króna að reisa 131 m² raðhús miðað við verðlagið 2008.

Vildrose_efri_haed

Karens-Minde

Danir hafa áfram unnið að því að þróa hagkvæmar og nýstárlegar byggingaraðferðir.  Dæmi um það er samningur KAB boliger og danska Velferðarráðuneytisins um byggingu 300-400 AlmenBoliger+ við danska framleiðslufyrirtækið Scandi Byg, ONV Arkitekter, jaja architects og verkfræðiskrifstofuna Bascon. Unnið er áfram með ákveðnar grunneiningar en nú sem fjölbýlishús.

AlmenBoliger+_auglysing

 

AlmenBoliger_fjolbylishus

Meira að segja með torfþaki…

Í úttektum Dana á verkefninu er bent á að ýmislegt annað en byggingarkostnaður skiptir máli við endanlegt söluverð húsnæðis.  Lóðaverð skiptir verulegu máli, en einnig fjármögnunarkostnaður og hvað markaðurinn er tilbúinn til að borga.  Smá könnun á fasteignavef Morgunblaðsins sýnir til dæmis að erfitt er að finna nýjar íbúðir undir 300 þús. kr/m² hvað þá undir 200 þús. kr/m².

Hvað finnst ykkur? Væri hægt að gera svona á Íslandi?

PS. Kjartan Árnason, arkitekt hjá Gláma-Kím, starfaði áður hjá ONV Arkitekter og veitti mér góðfúslega ýmsar upplýsingar um verkefnin í Danmörku.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.9.2015 - 07:36 - Rita ummæli

Flóttamenn: Staðan í dag

Ég vil nota tækifærið og segja ykkur aðeins frá því sem hefur gerst í vikunni.  Forsætisráðherra skipaði ráðherranefnd á þriðjudaginn um málefni flóttamanna og innflytjenda.  Ásamt honum eiga fast sæti í nefndinni fjármálaráðherra, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og ég, auk þess að menntamálaráðherra mun koma inn vegna fræðslu- og skólamála og heilbrigðisráðherra vegna heilbrigðisþjónustu.  Aðrar ráðherra munu jafnframt geta tekið sæti ef þess þarf.  Sérfræðingahópur ráðherranefndarinnar hefur þegar fundað og nefndin mun hittast í fyrsta sinn á morgun.

Í velferðarráðuneytinu höfum við haft samband við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og upplýst um áhuga okkar á að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi.  Stofnunin hefur bent á að vandinn sé mestur í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum Sýrlands og þá sérstaklega Líbanon og brýnast að taka við flóttamönnum þaðan.  Við höfum jafnframt sett á fót verkefnisstjórn innan ráðuneytisins sem fundar daglega til að standa vel að verkefninu.

Hjá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið opið hús í gær og fyrradag þar sem fjöldi fólks kom til að fylgja eftir umsókn sinni um að gerast sjálfboðaliðar.  Víða um land eru deildir Rauða krossins að hafa samband við fólk á sínu svæði.  Áberandi var hversu opið fólkið var fyrir að taka þátt í hinum ýmsu velferðarverkefnum hjá Rauða krossinum, bæði aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur en við aðra bágstadda á borð við aldraða, fatlað fólk og fanga.  Rauði krossinn vinnur einnig úr hinum fjölmörgu boðum um aðra aðstoð sem borist hafa þeim beint.

Hinir flottu aðstandendur Facebook viðburðarins „Kæra Eygló – Sýrland kallar“ hafa sett upp aðfangaskráningarsíðu, þar sem fólk er hvatt til að skrásetja frjáls framlög til að geta tekið á móti flóttamönnum og verða gögnin afhent Rauða krossinum 7. september.  Þau benda einnig á söfnun Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og að hægt er að styrkja Rauða krossinn með fjárframlögum.

Hér má finna aðfangaskráninguna.

Nokkuð hefur verið um fyrirspurnir vegna kostnaðar við móttöku flóttamanna.  Það flækir svörin töluvert að um er að ræða nokkrar leiðir til móttöku flóttamanna.  Í Fréttablaðinu í dag er ágætis umfjöllun um hvernig við í velferðarráðuneytinu höfum staðið að þessu hingað til við móttöku kvótaflóttamanna.  Aðrar reglur hafa gilt um hælisleitendur og um fjölskyldusameiningar.

Þessu til viðbótar höfum við verið að fara yfir hina ýmsu tölvupósta og símtöl sem hafa borist okkur, svara fjölmiðlum og sinna fjölmörgum öðrum verkefnum í aðdraganda þingsetningarinnar sem verður næsta þriðjudag.  Ef ég hef enn ekki komist til að svara ykkur beint, þá vona ég að tími gefist til þess í dag eða á morgun.

Að lokum vil ég enn á ný ítreka þakkir mínar. Góðvild ykkar og vilji til að hjálpa hefur snert mig djúpt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.8.2015 - 12:18 - Rita ummæli

Staða heimila og húsnæðiskostnaður

Í Félagsvísum 2014 má finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem tengjast lífskjörum þjóðarinnar.  Þar má meðal annars finna upplýsingar um stöðu heimila á húsnæðismarkaðnum og húsnæðiskostnað frá 2004 til 2013.

Árið 2013 voru 10,7% heimila í félagslegu leiguhúsnæði, 14,2%  voru í leiguhúsnæði á almennum markaði og 2,2% sem voru í leiguhúsnæði en greiddu ekki fyrir það eða samtals 27,1% heimila á húsnæðismarkaðnum.

Rúm 17% heimila bjuggu í eigin húsnæði og skulduðu engin húsnæðislán,  55,3% voru í eigin húsnæði með húsnæðislán eða 72,9% heimila.

Hlutfallslega voru fleiri sem voru á almenna leigumarkaðnum með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað eða 17,9% þeirra heimila, en til samanburðar voru 7% heimila sem áttu eigið húsnæði með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Hlutfallsleg skipting heimila e. stöðu á húsnæðis-markaði 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011 2012 2013
Leiguhúsnæði, endurgjaldslaust 1,9 1,3 0,9 2,0 1,8 2,1 1,9 3,2 2,9 2,2
Leiguhúsnæði, úrræði 8,7 8,1 7,7 7,8 8,3 8,9 9,0 11,7 10,2 10,7
Leiguhúsnæði á almennum markaði 9,4 8,3 9,2 7,6 8,9 10,2 13,8 13,2 15,2 14,2
Samtals í leiguhúsnæði 20 17,7 17,8 17,4 19 21,2 24,7 28,1 28,3 27,1
                     
Eigin húsnæði, skuldlaust 21,3 20,6 20,9 17,4 16,8 17,4 16 17,5 17,4 17,6
Eigin húsnæði, með húsnæðislán 58,8 61,8 61,3 65,2 64,2 61,4 59,3 54,4 54,3 55,3
Samtals eigið húsnæði 80,1 82,4 82,2 82,6 81 78,8 75,3 71,9 71,7 72,9
 
% með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað 10,3 12,5 14,3 10,5 11,4 9,5 9,6 10,1 9,0 8,8
% með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað e. stöðu á húsnæðismarkaði
Eigendur, skuldlaust 6,4 7,2 7,6 6,8 5,0 4,4 3,8 5,1 4,0 7,0
Eigendur með húsnæðislán 11,3 14,1 17,2 11,8 12,6 9,9 10,1 8,8 7,7 6,8
Leigjendur sem greiða markaðsverð 12,2 16,0 13,2 9,4 17,3 15,7 16,5 21,9 18,1 17,9
Leigjendur með niðurgreidda leigu 9,0 5,6 3,6 6,3 5,1 9,0 6,7 13,6 14,0 14,4

 

Nánari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.8.2015 - 15:07 - 2 ummæli

Byggjum 2300 leiguíbúðir

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga í lok maí sl. kemur fram að ráðist verði í átak með byggingu allt að 2300 félagslegra leiguíbúða á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.  Í sumar hefur verið unnið að frumvörpum og fjármögnun þessara loforða í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og hlutaðeigandi ráðuneyta enda yfirlýsing stjórnvalda ein lykilforsenda langtíma kjarasamninga á vinnumarkaði.

Átak í uppbyggingu íbúða skiptir miklu máli núna, enda var góð samstaða um það og er gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpinu, líkt og fjármálaráðherra upplýsti í nýlegu Morgunblaðsviðtali og mun stuðla að stöðugleika til framtíðar.

Karens-Minde

Hvernig væri svona leiguíbúð?

Bygging íbúðanna verður fjármögnuð með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins sem nema núvirt 30% af stofnkostnaði.  Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga auk aukins stuðnings með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017 á að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum.  Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið.  Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.

BB_2

Eða svona?

Ríkisstjórnin hefur einnig skuldbundið sig til að styðja við almenna leigumarkaðinn með hækkun húsnæðisbóta á árunum 2016 og 2017.  Grunnfjárhæð og frítekjumörk verða hækkuð með hliðsjón af þeim tillögum sem komnar eru fram.  Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.  Skattlagning tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður einnig breytt til að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða á almenna leigumarkaðnum.

BB_3

Þessar munu rísa í Nordhavn í Kaupmannahöfn og verða tilbúnar árið 2018.

Gert er ráð fyrir að stofnframlög verði skilyrt þannig að þeir lögaðilar einir geti sótt um stofnframlög sem hyggja á rekstur með félagsleg markmið að leiðarljósi.  Þeir lögaðilar sem munu geta sótt um stofnframlög verða ekki rekin í hagnaðarskyni, og geta verið sjálfseignastofnanir, húsnæðissamvinnufélög eða hlutafélög.

Ofangreindar lausnir tryggja meira öryggi í húsnæðismálum og eru unnar í góðu og miklu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög þar sem byggt er á tillögu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhóps um húsnæðismál.

Nánari upplýsingar:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál frá 28. maí sl. í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála

Vefsvæði verkefnisstjórnar og samvinnuhóps um húsnæðismál

Tillögur teymis um virkan leigumarkað sem hluti af samvinnuhópi um húsnæðismál

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.8.2015 - 15:16 - 1 ummæli

Rauðmáluð timburhús

Eiginmaður minn ólst upp í rauðmáluðu timburhúsi í Keilufellinu í Efra-Breiðholti. Flestar af hans bestu æskuminningum tengjast þessu húsi og hverfinu sem það stóð í.  Hversu notalegt það var að vakna við hljóðið í regndropunum sem dundu á bárujárnsþakinu, litla grenitréð sem þeir bræðurnir tóku toppinn af í badminton, en gnæfir nú yfir húsið og notalega eldhúsið þar sem graslaukur og annað grænmeti úr matjurtagarðinum léku stórt hlutverk í matargerð sex manna fjölskyldunnar.

Fyrir stuttu röltum við um hverfið þar sem húsin standa enn, sum hver óbreytt en önnur mikið endurnýjuð.

IMG_1435

Timburhúsin í Keilufellinu eru viðlagasjóðshús sem voru byggð til að mæta miklum húsnæðisvanda Eyjamanna eftir að eldgos hófst í Heimaey 1973. Þegar yfir lauk hafði Viðlagasjóður reist rúmlega 550 hús á meira en tuttugu stöðum á landinu. Nærri 500 þessara húsa voru varanleg, en einnig var 60 bráðabirgðahúsum komið upp.

IMG_1433

Um var að ræða einingahús, forsmíðuð erlendis, en hér heima þurfti að hanna grunna, ganga frá lögnum og setja húsin upp.  Húsin komu flest frá Norðurlöndunum og svo Kanada. Þar af voru 40 hús byggð í Reykjavík og komu þau frá sænska framleiðandanum BPA.  Fyrst um sinn leigði Viðlagasjóður húsin til íbúanna en árið 1977 hafði sjóðurinn selt nær öll húsin eftir að margir Eyjamenn snéru aftur til Vestmannaeyja.

IMG_1420

Mikil vinna fór í að kanna hvort húsin stæðust íslenskar byggingareglugerðir, sem reyndust strangari en í framleiðslulöndunum.  Aðstæður hér á landi kölluðu líka á breytingar á mörgum húsanna, auk þess að einhver vandamál komu upp  í sumum húsanna sem tengdust lóðafrágangi og leka.

IMG_1417

Húsin í Keilufellinu voru tví- eða þrílyft með opnu bílskýli, svipuð því sem ég hef séð víðast hvar á Norðurlöndunum.  Minni húsin voru um 140 fm2 og þau stærri um 200 fm2.

IMG_1428

Nú 40 árum seinna skilst mér að þessi hús séu vinsæl í endursölu og besta er að verðið er undir 300 þúsund krónum fermetrinn.

PS. Hér má finna yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga um húsnæðismál þar sem gert er ráð fyrir byggingu allt að 2300 leiguíbúða á næstu fjórum árum með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Úthlutun stofnframlaga mun hefjast um áramótin samkvæmt loforði ríkisstjórnarinnar.  Einnig munum við auðvelda ungu fólki að kaupa húsnæði og tryggja að byggingar verði sem hagkvæmastar með auknu lóðaframboði og breyttum skipulagsferlum.

Yfirlýsingin byggir á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og er unnið áfram að frekari útfærslum á þeim. Skýrslu verkefnisstjórnarinnar má nálgast hér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.8.2015 - 19:13 - 7 ummæli

Að byggja sjálf?

„Þetta var hvítt, gamalt hús, alls ekki stórt með grænum samskeytum á hornunum og grænum hurðum og grænu túni umhverfis og þar uxu sjöstjörnur og steinbrjótar og fagurfíflar í grasinu.  Sýrenur og kirsuberjatré voru þar líka og uxu villt og utan um allt þetta reis steinveggur, lágur, grár múrveggur, vaxinn litríkum blómum.“  (Astrid Lindgren)

Þetta var lengi vel draumahúsið, – Riddaragarðurinn þar sem bræðurnir Ljónshjarta bjuggu í Kirsuberjadalnum.

broderna_lejonhjarta

Eftir heimsókn nýlega til Færeyja varð þó smá breyting á.  Núna er draumahúsið svart, með grænum samskeytum og grænum hurðum, og að sjálfsögðu grænu torfþaki.

Faereyjar_hus

Hins vegar hefur þessi draumur um minn eiginn Riddaragarð alltaf verið fjarlægur, bæði mér og ég held fjölmörgum öðrum.

Allavega á höfuðborgarsvæðinu.  Því til að byggja hús, þarf ekki bara pening heldur einnig lóð og líkt og ýmsir sveitastjórnarmenn hafa bent á hafa lóðir bæði verið fáar og dýrar.

Þessu til staðfestingar settist ég eitt rigningarkvöld niður og fletti upp lóðum á höfuðborgarsvæðinu á fasteignavef Morgunblaðsins.  Í leitarvélinni komu upp 601 lóð (bæði fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði).  Þær ódýrustu voru í Hvalfirðinum á skipulögðu sumarbústaðarlandi á hálfa milljón króna en ódýrustu einbýlishúsalóðirnar virtust vera í Mosfellsbænum þar sem upphafsverðið var í kringum 4 milljónir króna.  Þar virtust þær einnig vera flestar.

Í Reykjavík fannst 71 lóð, þar af sú ódýrasta á 7,9 milljónir króna við Iðunnarbrunn í Úlfarsárdalnum.  Í Hafnarfirði fundust 50 lóðir og ódýrasta einbýlishúsalóðin var auglýst á tæpar 12 milljónir króna.

Úrvalið virtist þannig ekki vera mikið og verðið að lágmarki 4 milljónir króna, en ekki ólíklegt að verðmiðinn væri fljótt kominn upp í 8-12 milljónir króna fyrir einbýlishúsalóð.

En hvað með húsið sjálft?

Ég hef oft nefnt drauminn minn um húsnæði undir 300 þúsund krónum fermetrinn og ýmsir talið hann ansi fjarri lagi.  Það væri varla hægt að fá litla íbúð undir 30 milljónum króna hvað þá heilt einbýlishús.

Þökk sé öðru rigningarkvöldi rakst ég á vefsíðu Fiskarhedenvillan sem framleiðir og selur forsmíðuð einingarhús á Norðurlöndunum og í Rússlandi.  Ódýrustu húsin kosta 659.000 SEK eða tæpar 11 milljónir króna með nánast öllu inniföldu, þar með talið raftækjum. Fiskarhedanvillan_pallur

Verð væri þá frá 15 milljónum króna að lágmarki plús flutningskostnaður, kostnaðurinn við grunninn, lagnir, rafmagn og svo öll vinnan við bygginguna.

Untitled
Sälen (112 fm2) á tæpar 14 milljónir króna með þremur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum eða 125 þúsund krónur/fermetrinn er ansi nærri draumnum. Hér má sjá nánari upplýsingar um hvað er innifalið.

Kannski væri jafnvel hægt að byggja upp svona hverfi?

Faereysk_gata

Er þetta hægt?  Gaman væri að heyra frá lesendum hvort þeir hafi sjálfir byggt sitt eigið heimili og hvað það hafi kostað.  Hvort það hafi verið frá grunni eða forsmíðað?

Hér eru síður með fleiri norrænum framleiðendum á forsmíðuðum húsum:

PS: Ég þekki ekki til þessara fyrirtækja, annað en það sem kemur fram á vefsíðum þeirra, og veit ekki til þess að þau tengist mér persónulega eða Framsóknarflokknum.

PSS: Unnið er að tillögu til úrbóta á húsnæðismarkaðnum samkvæmt yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga.  Hér má finna þær tillögur, þar á meðal stofnframlög til byggingar allt að 2300 leiguíbúða, aukinn húsnæðisstuðningur við efnaminni fjölskyldur, varanlegt fyrirkomulag húsnæðissparnaðar fyrir fyrstu kaupendur, endurskoðun á byggingarreglugerðinni, breytt greiðslumat o.fl.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 10:03 - 2 ummæli

Skuldsett þjóð er ekki frjáls

Ein af kröfum Evrópusambandsins sem Grikkir þurfa að gangast undir til að fá neyðarlánið er að þeir verða að selja ríkiseignir að verðmæti 50 milljarða evra.  Fjármunirnir verða notaðir til að endurgreiða lánið og endurfjármagna grísku bankana.

Mörgum finnst nóg um hörkuna gagnvart Grikkjum, ekki hvað síst að ríkiseignir skulu vera með þessum hætti teknar undan yfirráðum grískra stjórnvalda.

Ég var hins vegar ekkert hissa.

Þessi liður samkomulagsins minnti ansi mikið á ákvæði fyrsta Icesave samningsins frá 2009 um að Íslendingar gætu ekki borið fyrir sig friðhelgi fullveldis ef kröfuhafar okkar teldu ástæðu til að ganga að eignum ríkisins til fullnustu samningnum.   Þar hefðu allar eignir ríkisins verið undir, ef við af einhverjum ástæðum hefðum ekki getað staðið við samninginn.

Fyrst var talað um að þetta ákvæði væri svona „hefðbundið“ og fráleit túlkun að telja eignir og auðlindir þjóðarinnar væru undir. En áhyggjurnar voru nægar til að sett var inn sérstakt ákvæði í lögunum um ríkisábyrgðina sem takmörkuðu afsal friðhelgis.

Reynsla Grikkja sýnir að sannarlega var ástæða var til að hafa áhyggjur.

Lærdómurinn er enn á ný að þjóð sem er að drukkna í skuldum er ekki frjáls, ekki frekar en fyrirtæki eða heimili.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.7.2015 - 19:35 - 13 ummæli

Er lán lukka?

„Það er ekki hægt að spara á Íslandi,“ hef ég oft heyrt frá fólki í kringum mig og mér sjálfri.  Ég var lengi vel alveg sannfærð um þetta og gerðist því í staðinn sérfræðingur í að taka lán.

Lán varð nánast að lukku í mínum huga.

Ef það var eitthvað sem mig langaði í, þá rölti ég í næstu lánastofnun og viðkunnanlegi þjónustufulltrúinn bjargaði því fyrir mig.  Yfirdráttarlán brúaði bilið þar til LÍN borgaði út námslánin, bankalán dekkaði það sem upp á vantaði, 90% verðtryggt íbúðalán hjálpaði til við fyrstu kaupin og 100% gengistryggður bílasamningur reddaði bílnum.  Í fæstum tilvikum átti ég eitthvað sparifé upp í fjárfestingar mínar, hvort sem um var að ræða menntunina, bílinn eða íbúðakaupin.

Enda ekki hægt að spara á Íslandi.

Ég átti að vísu vini sem settu alltaf 10 til 20% af launum sínum um hver mánaðarmót inn á bankabók áður en nokkuð annað var borgað, sama reikning og fermingargjafirnar fóru inn á nokkrum árum fyrr, sem fóru hægar í gegnum háskólanámið til að þurfa ekki að taka námslán, bjuggu lengur heima til að geta sparað fyrir húsnæði eða tóku strætó í vinnuna til að geta borgað hraðar niður íbúðalánið.  Eftir hrun voru þessir vinir mínir yfirleitt mun betur staddir en ég.  Þeir áttu smá aur í bankanum ef þeir misstu vinnuna og gylliboð um meiri lán þegar fasteignabólan fór á flug höfðuðu lítið til þeirra.

Í dag þegar ég heyri enn á ný talað um að ekki sé hægt að spara og fyrir auknum lántökum þá hugsa ég til þessara vina, – sem trúðu ekki að lukkan fælist í lánum heldur eigin hagsýni og ráðdeild.

Þetta er fólkið sem ég vil gjarnan læra af og kenna mínum börnum að það er til önnur leið en sú sem ég valdi.

Þess vegna hef ég talað fyrir húsnæðissparnaði.  Þess vegna hef ég stutt séreignasparnaðarleiðina.  Þess vegna tel ég ekki neikvætt að börnin okkar hætti að vera með þeim yngri í Evrópu til að steypa sér í skuldir vegna fasteignakaupa.  Þess vegna hrekk ég við þegar aftur er byrjað að tala um 90% plús lán við fyrstu kaup.

Hvernig þá?

Lítum á tvö dæmi.  Fyrir utan flesta framhaldsskóla og háskóla má finna mikinn fjölda bíla, sem flestir kosta á bilinu 0,5 til 3 milljónir króna.  Í einum framhaldsskólabekk er ekki ólíklegt að hver nemandi sé með síma og tölvur að verðmæti 100 til 250 þúsund krónur í fórum sínum. Í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins er þannig miðað við að kostnaður vegna ökutækja sé um 73 þúsund krónur og fjarskipta um 12 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu eða samtals um 85 þúsund krónur á mánuði.

Yfir fjögurra ára tímabil eru þetta fjórar milljónir króna.

Fyrir stuttu voru auglýstar íbúðir á 322 þúsund krónur á fermetrann. Byggingarreglugerð hefur verið breytt til að hægt sé að byggja minni íbúðir og sveitarfélög vinna að því að minnka íbúðir samkvæmt skipulagi.  Tveggja herbergja, sextíu fermetra íbúð á þessu verði kostar þannig rétt tæpar 20 milljónir króna.

Fjórar milljónir króna myndu duga fyrir 20% útborgun í þannig íbúð og hana mætti jafnvel leigja út meðan farið er í frekara nám.

Einhverjir af mínum skynsömu og ráðdeildarsömu vinum höfðu reiknað þetta út fyrir löngu, keypt sér strætókort, þakkað fyrir að geta búið heima aðeins lengur og fengið sér Frelsi fyrir gamla Nokia símann.

Við gætum vel lært af þeim, nema við viljum bara hverfa aftur til ársins 2007.

Við höfum valið.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is