Laugardagur 20.9.2014 - 09:47 - Rita ummæli

Fallegir staurar eða félagslegt húsnæði?

Í könnun Velferðarráðuneytisins á úthlutun félagslegs húsnæðis hjá sjö stærstu sveitarfélögum landsins frá janúar til júní sl. kom fram að aðeins 8% þeirra sem voru á biðlista höfðu fengið úrlausn sinna mála.

Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa á árunum 2010, 2011 og 2012 svarað því til í könnun Varasjóðs húsnæðismála, að skortur væri á leiguhúsnæði. Á sama tíma er lítið sem ekkert fjárfest í félagslegu leiguhúsnæði og í dag eru um 1800 manns á biðlista hjá sjö stærstu sveitarfélögunum og þar af um 550 í brýnni þörf bara hjá Reykjavíkurborg.

Engar umsóknir liggja fyrir hjá Íbúðalánasjóði frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um lán vegna kaupa eða byggingar á félagslegu leiguhúsnæði.  Margar góðar hugmyndir eru á lofti, ekki hvað síst hjá Reykjavíkurborg sem hefur kynnt viðamikla húsnæðisáætlun og lagt áherslu á uppbyggingu á svokölluðum Reykjavíkurhúsum.

En meira þarf til.

Það þarf að setja til hliðar fjármagn.

Er það fjármagn ekki til? Ef við höldum okkur áfram við Reykjavíkurborg þá er áætlaður kostnaður við breytingar á Borgartúninu um 230 milljónir króna. Áætlaður kostnaður við breytingar á Hofsvallagötunni er 18 milljónir.  Áætlaður kostnaður við veggmyndir eftir Erró í efra Breiðholti er 38,8 milljónir.

Samtals eru þetta tæpar 290 milljónir króna.  Ef þetta fjármagn hefði verið nýtt til byggingar eða kaupa á félagslegu leiguhúsnæði hefði borgin getað fjárfest í húsnæði fyrir tæpa 2,9 milljarða króna með 90% lánum Íbúðalánasjóðs til 50 ára.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.9.2014 - 12:52 - Rita ummæli

Frumkvæði HR í samgönguviku

Það er samgönguvika. Vikan þar sem við eigum víst öll að vera að ræða samgöngur.  Ég bý í Hafnarfirði og starfa í miðborg Reykjavíkur. Algengustu lausnirnar þegar við stjórnmálamennirnir tölum um samgönguvandann á SV-horninu eru að fleiri hjóli eða noti almenningssamgöngur  eða byggja fleiri vegi, mislæg gatnamót eða brýr.

Á meðan við stjórnmálamennirnir ræðum fram og tilbaka um þessar lausnir, var skemmtilegt að sjá grein í Fréttablaðinu um frumkvæði Háskólans í Reykjavík í samgönguvikunni. Þar fylgjast stúdentafélagsmeðlimir með samgöngumáta samnemenda sinna og umbuna þeim sem skilja bílinn eftir heima eða samnýta ferðir á bílum. Þeir sem koma á hjóli, gangandi, í strætó eða margir saman í bíl fá happdrættismiða. Þeir sem koma tveir saman í bíl fá ekki happdrættismiða en þeir fá að leggja í bílastæði nálægt skólanum. Þeir sem koma einir í bíl fá bílastæðin sem eru lengst í burtu.

HR-skutla?
Því til viðbótar er skólinn að óska eftir því að fá skutlu sem gæti farið á milli BSÍ og skólans og þannig auðveldað umferð að skólanum. Andri Sigurðsson, formaður stúdentafélagsins bendir á að strætóleiðir eru ekki góðar við skólann. „Hingað gengur aðeins ein strætóleið og það á hálftímafresti. Þar að auki passar hún illa við tímatöflur annarra leiða þannig að farþegar þurfa yfirleitt að bíða í að minnsta kosti korter ef þeir þurfa að skipta um vagn. Það er kannski ekki nógu góð hvatning til að fólk taki vagninn.“

Google býður starfsfólki sínu upp á að taka G-skutluna í vinnuna og hvetur fólk til að deila bílum.  Ástæðurnar eru ýmsar. Starfsmenn spara tíma og eldsneyti*. Google telur að G-skutlan dragi úr álagi á starfsmenn, minnkar þörf fyrir bílastæði og hjálpar fyrirtækinu að laða til sín rétta starfsmenn. Fyrir almenning dregur G-skutlan úr útblæstri, sparar notkun á eldsneyti og dregur úr umferð.

Ættum við öll að fara að fyrirmynd stúdentafélags HR? Ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef HÍ, Landspítalinn, stjórnarráðið og aðrir stórir vinnustaðir í miðborg Reykjavíkur myndu bjóða starfsmönnum sínum upp á skutlu eða umbun ef þeir fara fleiri en einn saman í bíl?

Kannski yrði skyndilega engin umferðarteppa á Bústaðarveginum?

*Til samanburðar er áætlaður mánaðarlegur kostnaður vegna ökutækja og almenningssamgangna 74.131 kr. fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.9.2014 - 13:53 - 2 ummæli

Mótum framtíð fæðingarorlofs

Ísland á að vera fjölskylduvænt samfélag segir í stjórnarsáttmálanum. Nýlegar tölur um fæðingar á Íslandi sýna að árið 2013 var fyrsta árið frá 2003 þar sem frjósemi íslenskra kvenna var lægri en tveir, eða 1,932 börn á ævi hverrar konu.  Áætlað er að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.  Konur eru einnig töluvert eldri nú þegar þær eignast sín fyrstu börn.

Í samanburði á milli landa sést að svigrúm kvenna til að samræma starfsframa og fjölskyldulíf skiptir máli þegar kemur að frjósemi.  Rannsóknir hafa þannig sýnt að mæður eru tilbúnari til að eignast fleiri börn ef feður eru virkir þátttakendur í að sinna umönnun barna og heimilisstörfum. Í þeim löndum þar sem konur eru þvingaðar til að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna, er hættan að æ fleiri velji vinnumarkaðinn. Hér á landi má sjá skýr tengsl á milli breytinga á lögum um fæðingarorlof og frjósemi.  Lækkun á greiðslum í fæðingarorlofi eftir hrun virðist hafa dregið úr þátttöku karla í töku fæðingarorlofs, en þátttaka þeirra hefur skipt miklu máli við að jafna hlut kynjanna í umönnun barna eftir að fæðingarorlofi lýkur. Nú sjáum við að frjósemi kvenna minnkar.

Afleiðingin af lægri fæðingartíðni er að þjóðin eldist hraðar.

Í dag er Ísland með stysta fæðingarorlofið á Norðurlöndunum auk lengsta bilsins frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólaganga hefst. Tryggja þarf samfellu og að bæði mæður og feður geti sinnt börnunum sínum.

Af hverju breytum við ekki einfaldlega lögunum til að ná fram betri samfellu? Ástæðan er að of lítil sátt er um hvernig eigi að standa að breytingum á lögum um fæðingarorlof og styttingu bilsins á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og leikskólaganga hefst. Mikilvæg forsenda þess að farið var í breytingar á lögum um fæðingarorlof á sínum tíma var aðkoma aðila vinnumarkaðarins og sátt um leiðir. Sú sátt virðist ekki vera fyrir hendi núna. Aðilar vinnumarkaðarins leggja ýmist áherslu á lækkun tryggingargjaldsins sem takmarkar verulega svigrúm til breytinga eða krefjast annað hvort lengingar fæðingarorlofsins eða hækkun greiðslu fyrst. Óhætt er að fullyrða að aukið framboð á daggæslu frá því að fæðingarorlofi lýkur var lítið til umræðu í síðustu sveitastjórnarkosningum og fá sveitarfélög bjóða upp á ungbarnaleikskóla.

Fjölskylduvænt samfélag kostar en það er líka dýrt að fæðingum fækki og þjóðin eldist hraðar. Það kostar líka að bakslag komi í jafnréttisbaráttuna og foreldrar séu tilneyddir að velja á milli vinnumarkaðarins og barneigna. Því mun ég á næstu dögum óska eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga í formlegan starfshóp um framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.  Aðeins saman getum við búið íslenskum fjölskyldum besta mögulega umhverfi og mótað framtíðarskipan fæðingarorlofs hér á landi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.9.2014 - 07:13 - Rita ummæli

Gegn misnotkun barna

Norræn ráðstefna verður haldin í dag um kynferðisofbeldi gegn börnum – forvarnir á Norðurlöndunum.

Þar koma saman sérfræðingar af öllum Norðurlöndunum, fólk sem hefur þekkingu, áhuga og sterkan vilja til að vinna gegn þeim hræðilega glæp sem misnotkun barna felur í sér.

Misnotkun barna er víðfeðmt vandamál og geysilega flókið viðfangsefni. Ekkert samfélag er óhult en vandinn er mjög falinn. Lengi vel neituðu margir að horfast í augu við raunveruleikann og staðreyndin um misnotkun barna sem samfélagslegt mein lá í þagnargildi.

Til þess að baráttan gegn kynferðislegri misnotkun á börnum og alvarlegum afleiðingum hennar verði árangursrík þarf skýra stefnu, mikla vinnu, öflugt og þverfaglegt samstarf og samvinnu þjóða á milli.  Í þessu ljósi var það merkur áfangi þegar Evrópuráðssamningurinn um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun var gerður í Lanzarote 25. október árið 2007. Nú – sex árum eftir að samningurinn var gerður – hafa öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað hann og 32 þeirra hafa lokið innleiðingu hans, þeirra á meðal Ísland sem lauk innleiðingunni haustið 2012.

Samfélagið er orðið miklu meðvitaðra en áður um vandann og hætt að afneita honum líkt og fyrr á árum.  Nú er tekið á málum sem áður voru hunsuð, þögguð niður eða fékkst aldrei nein vitneskja um.

En gera má betur, svo miklu betur.  Forsenda fyrir bættum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi á börnum er þekking.  Með því að deila þekkingu og reynslu af því sem gefist hefur vel munum við ná betri árangri, til að tryggja velferð barna okkar.

Ráðstefnan fer fram á ensku.  Hægt verður að fylgjast með henni á vef Velferðarráðuneytisins og hefst útsending 8.30.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.8.2014 - 08:35 - 4 ummæli

Góða fréttir úr atvinnulífinu

Við erum sannarlega á leið upp úr hjólförunum.

Það sjáum við ekki hvað síst í atvinnumálunum.  Á síðasta ári fjölgaði fólki í störfum á vinnumarkaðnum verulega, eða um 6000 samanborðið við árið 2012.  Í ár höfum við séð sömu þróun.  Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að jafnaði um 3500 fleiri starfandi en á sama fjórðungi 2013.

Skemmtilegt að sjá aftur auglýst í gluggum vinnustaða eftir starfsmönnum. (Ljósmynd tekin 29.8.2014 í Garðabæ)

Skemmtilegt að sjá aftur auglýst í gluggum vinnustaða eftir starfsmönnum. (Ljósmynd tekin 29.8.2014 í Garðabæ)

 

OECD er bjartsýnt fyrir okkar hönd og spáir 4,2% atvinnuleysi á næsta ári, þremur prósentustigum minna en almennt gerist í OECD ríkjunum.  Það er vel skiljanlegt þegar horft er til þess að í maí 2014 voru aðeins Japan, Kórea og Austurríki  með minna atvinnuleysi en við samkvæmt OECD.  Við, Mexíkó og Þýskaland vorum svo saman með 4. minnsta atvinnuleysið af OECD ríkjunum.

Góðar fréttir úr atvinnulífinu gefa svo ástæðu til enn frekari bjartsýni.

———————–

PS. Vinsamlegast athugið að það getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Jafnframt áskil ég mér rétt til að hafna birtingu athugasemda.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.8.2014 - 17:48 - 2 ummæli

Jafnrétti og norræn samvinna

Á morgun er norræn ráðstefna um jafnrétti í tilefni 40 ára afmælis Norðurlandasamstarfs á sviði jafnréttismála.

Við ætlum að fjalla um jafnrétti á vinnumarkaði, menntun og aukna þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Jafnframt ætlum við að huga að stöðu lýðræðis á Norðurlöndunum þá sérstaklega með hliðsjón af stjórnmálaþátttöku kvenna í tilefni þess að verið er að fagna aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Norðurlöndunum.

Ég er einkar ánægð með að frú Vigdís Finnbogadóttir ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni sem og Margot Wallström, fv. ráðherra, fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna gegn kynferðislegu ofbeldi í hernaði.  Hún er nú stjórnarformaður Háskólans í Lundi.

Aðrir fyrirlesarar verða Gertrud Åström, formaður sænska kvennréttindafélagsins, Steen Baagoe Nielsen, lektor við Hróarskelduháskóla og fyrrverandi formaður norræns samstarfsnets um karlarannsóknir, Ingólfur Gíslason, lektor í félagsfræði við HÍ og Hege Skjeie, prófessor við Háskólann í Osló.

Ráðstefnan verður haldin í Hörpu og verður hægt að fylgjast með henni í beinni útsendingu á vefnum.

Skráning, dagskrá og nánari upplýsingar um ráðstefnuna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.8.2014 - 11:58 - 4 ummæli

Verjum þá sem minnst hafa

Fjármálaráðherra ræddi áform sín um breytingar á skatti á vörur og þjónustu á Sprengisandi síðasta sunnudag.

Þar ítrekaði hann hugmyndir sínar um að minnka bilið á milli hærra og lægra skattþreps virðisaukakerfisins og draga úr undanþágum í kerfinu.

Ég er sammála því að einfalda þarf virðisaukaskattskerfið og endurskoða löggjöfina á heildstæðan máta. En þær breytingar mega ekki bitna á þeim sem lægstar tekjur hafa.  Hægt er að komast hjá því með ýmsum mótvægisaðgerðum, svo sem hækkun persónuafsláttarins, auknum húsnæðisstuðningi og hækkun barnabóta.

Í mínum huga eru þess háttar mótvægisaðgerðir forsenda einföldunar á virðisaukaskattskerfinu.

Einföldun skattkerfisins má ekki koma niður á þeim sem minnst hafa.

 

———————–

PS. Vinsamlegast athugið að það getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Jafnframt áskil ég mér rétt til að hafna birtingu athugasemda.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.5.2014 - 13:38 - 3 ummæli

Landsbankar og höftin

Nýlega var tilkynnt um endurfjármögnun á skuldabréfi á milli gamla og nýja Landsbankans og lýstu menn yfir ánægju sinni yfir samningnum.

Mikilvægt er þó að menn komi sér niður á jörðina er varðar afnám gjaldeyrishaftanna og á það við um Landsbankanna sem og aðra.

Horfast þarf í augu við heildarmyndina, og hætta að útdeila einhverjum plástrum.

Heildstæð áætlun um afnám haftanna er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er einfaldlega miklu stærri en áður var áætlað.  Þar verða að liggja fyrir lausnir varðandi ýmis atriði s.s. snjóhengjuna og skuldaskil allra gömlu bankanna.  Tillögur þess efnis liggja ekki enn fyrir frá slitastjórnum.

Í mínum huga kemur ekkert annað kemur til greina en að tryggja að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir.  Heildstæð áætlun sem ógnar ekki greiðslujöfnuði landsins og þar með efnahagslegum stöðugleika.

Þegar hún liggur fyrir ætti að vera hægt að afnema höftin tiltölulega hratt, líkt og fjármálaráðherra hefur margítrekað.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.4.2014 - 09:05 - 2 ummæli

Heilbrigðari börn

Árið 1972 hófu vísindamenn í Bandaríkjunum að fylgjast með tveimur hópum barna frá fátækum fjölskyldum.   Öðrum hópnum var boðið upp á heilsdags leikskóla til fimm ára aldurs.  Þar fengu börnin flestar sínar daglegu máltíðir auk ýmis konar þjálfunar og leikja.  Hinn hópurinn fékk þurrmjólk, en ekkert umfram það. Markmiðið með rannsókninni var að sjá hvort sérmeðferðin myndi auka gáfur barnanna.

Svarið var já.  Hæfni ungabarnanna var svipuð í upphafi, en strax við þriggja ára aldur var marktækur munur á árangri.  Um þrítugt voru börnin sem voru svo heppin að fá sérmeðferðina fjórum sinnum líklegri til að hafa útskrifast úr háskóla en börnin í viðmiðunarhópnum.

En rúmlega fjörutíu árum seinna hafa komið fram nýjar upplýsingar, sem vísindamennirnir áttu ekki von á.  Börnin sem fengu sérmeðferðina eru líka mun heilbrigðari.  Konurnar í hópnum voru t.d. mun ólíklegri til að vera með foreinkenni hás blóðþrýstings eða aukna magafitu, sem eru áhættuþættir fyrir hjartasjúkdóma.  Þær lifðu líka heilbrigðari lífi.  Þær byrjuðu seinna að drekka áfengi og voru líklegri til að hreyfa sig og borða hollan mat en konurnar í samanburðarhópnum.

Michael Marmot, einn helsti vísindamaður heims á þessu sviði, kom til landsins stuttu eftir að ég tók við embætti ráðherra.  Þar lagði hann áherslu á að fyrstu æviárin skiptu öllu máli til að tryggja að börnum farnist sem best.  Hér eru upplýsingar um heimildamynd sem fjallaði um áhrif fátæktar á líf okkar og byggði á rannsóknum hans.

Í ráðuneytinu er nú unnið að nýrri fjölskyldustefnu og breytingum á stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar.  Von mín er að með markvissari og öflugari vinnubrögðum getum við sem vinnum með viðkvæmustu einstaklingunum í samfélaginu gert enn þá betur.  Þar tel ég mikilvægt að horfa til snemmtækrar íhlutunar vegna vanda barna og unglinga í samstarfi við heilbrigðisráðherra, því rannsóknir segja okkur einfaldlega að það skilar miklum árangri fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.3.2014 - 08:16 - 10 ummæli

Sparnaður = frelsi

Tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til handa heimilunum eru komnar fram á Alþingi.

Fátt hefur komið á óvart í umræðunni um skuldaleiðréttingarhlutann.  Hvet ég fólk til að kynna sér málið sjálft með því að fara inn á skuldaleidretting.is.  Hér eru einnig ágætis pistlar eftir Jóhannes Þór Skúlason og Marinó G. Njálsson um málið.

Umræðan um séreignasparnaðarhlutann hefur þó komið mér á óvart.  Nú síðast er dreginn á flot sérfræðingur í séreignasparnaði sem virðist beinlínis tala gegn því á forsíðu Fréttablaðsins að fólk borgi niður skuldir sínar.

Ég vona svo sannarlega að fólk hunsi þessar ráðleggingar.

Eitt helsta vandamál Íslendinga áratugum saman hefur verið of lítill sparnaður og of mikil skuldasöfnun.  Eini raunverulegi sparnaðurinn hér hefur verið lögþvingaður lífeyrissparnaður.  Við lögðum meira að segja af valfrjálsa húsnæðissparnaðarreikninga og skyldusparnaðinn og ekki tók nema nokkur ár þar til inn á húsnæðismarkaðinn komu heilu kynslóðirnar sem áttu ekkert sparifé.

Ég er af þeirri kynslóð sem lærði aldrei að spara.  Árum saman hef ég barist fyrir sjálfstæðu lífi án skulda.  Þar sem ég væri raunverulega frjáls.  Biblían hefur verið The Complete Cheapskate e. Mary Hunt.  Þar er einfaldlega lagt til að fólk borgi fyrst niður skuldir með hæstu vextina, svo koll af kolli þar til allar skuldir eru uppgreiddar. Ingólfur í spara.is hefur verið með svipaðar hugmyndir.  Hún leggur líka til að maður stofni svokallaða frelsisreikninga til að leggja fyrir fé fyrir óvæntum útgjöldum eða fyrirsjáanlegum eins og sumarfríi.

Það er von mín að með aðgerðum stjórnvalda sjáum við nýtt upphaf.  Þar sem við umbunum fólk fyrir ráðdeild, fyrir sparnað, fyrir að skulda lítið.

Þar sem við sem þjóð lærum að spara fyrir hlutunum.

Aðeins þannig getum við tryggt efnahagslegt sjálfstæði okkar um ókomna tíð.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is