Þriðjudagur 5.1.2016 - 17:23 - Rita ummæli

Dæmigert áramótaheit – nema þetta er ókeypis.

Nú er sá tími ársins runninn upp þegar ég íhuga iðulega hvort ég eigi að gerast styrktaraðili einhverra góðra líkamsræktarstöðva. Nýtt ár, nýtt líf, og ný ég með hjálp spinning, tabata og yoga. Þar sé ég mig fyrir mér í nýjum flottum íþróttaskóm og -galla að takast á við enn eitt áramótaheitið. Oft nær það ekki lengra en svo að ég mæti í 4-5 skipti og svo eru það aðeins regluleg styrktarframlög til stöðvarinnar næstu mánuðina með sjálfvirkum færslum á kreditkortið.

Ég rek þessa andúð mína á líkamsrækt og hollri hreyfingu aftur í grunnskóla.  Leikfimi var sá hluti skólans sem ég þoldi ekki.  Þrisvar í viku átti ég skyndilega að geta hlaupið, hoppað yfir tréhesta og klifrað upp reipi, – allt eitthvað sem ég forðaðist eins og pestina í mínu daglega lífi sem hinn fullkomni bókaormur. Einkunnaspjaldið bar áhugaleysi mínu skýrt merki og oft bölvaði ég djöfullegu samsæri menntayfirvalda um að draga niður meðaleinkunn mína…

Þegar ég fór sjálf að ráða meira yfir mínum tíma gerði ég þó nokkrar tilraunir til að byrja að hreyfa mig af einhverju viti.  Mestur árangur minn á því sviði var að klára hálft maraþon, – rétt áður en tímatöku lauk, á þrjóskunni einni saman enda búin að tilkynna þátttöku mína opinberlega og komin með fullt af áheitum fyrir gott málefni.  Ég lagðist svo í rúmið í viku með þær verstu harðsperrur sem ég hef nokkurn timann upplifað og hef ekki hlaupið síðan.

Þessi hegðun er víst nokkuð algeng, þ.e.a.s. að gerast árlegur styrktaraðili líkamsræktarstöðva á grundvelli þeirrar tálsýnar að innra með okkur búið lítið bælt líkamsræktartröll. Svo algeng er hún að atferlisfræðingar hafa lagst í rannsóknir og skilgreiningar á henni.

Ekki nóg með það heldur er viðskiptalíkan margra stöðva skipulagt í kringum nákvæmlega þessa hegðun, ekki hvað síst hjá þeim sem rukka lægstu ársgjöldin.  Í grein á NPR er fjallað um bandaríska líkamsræktarkeðju sem heitir Planet Fitness.  Mánaðarlegt gjald hennar er um $10 til $20 og eru að jafnaði um 6.500 meðlimir á hverri stöð.  Hins vegar getur hver stöð aðeins tekið á móti um 300 manns hverju sinni, sem veldur engum vandræðum þar sem langflestir láta aðeins örsjaldan sjá sig.

Áramótaheitið í ár er því að spara peninginn og taka mínimalistann á þettaMarkmiðið er 18 mínútur af hreyfingu á dag og hún á ekki að kosta neinar krónur, einkunnir eða nýja íþróttaskó.

Aðalvopnið verður YouTube þar sem má finna snilldarsíður um líkamsrækt, sem kosta ekkert umfram nettenginguna.    Má þar nefna BeFIT með fjöldann allan af myndböndum meðal annars með Jillian Michaels, Denise Austin, Jane Fonda, Scott Herman, Kym Johnson og fleiri.

Einnig Blogilates með Cassy Ho.  Æfingarnar hennar er mjög fínar, sem og ráðleggingar um matarræði.  Best er þó myndbandið hennar um The „perfect“ body.

Og að lokum Yoga with Adriene sem er í sérstöku uppáhaldi hjá mér en hún er að byrja nýtt ár með Yoga Camp.

Hér má finna fleiri fína tengla.

Ég vonast til að þetta geti verið raunhæf leið til að ná árangri fyrir engan pening í stað þess að ná engum árangri fyrir fúlgur fjár :)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.12.2015 - 11:43 - 1 ummæli

Guðjón Samúelsson og íbúðir

Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska byggingalist og Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins 1920 til 1950.  Nokkur umræða hefur skapast um hugmyndir hans um viðbyggingu við Alþingi og sýnist sitt hverjum.  Hins vegar tel ég að við getum nýtt verk Guðjóns sem uppsprettu hugmynda mun víðar en þar.

Guðjón Samúelsson hannaði nefnilega nokkur af vinsælustu íbúðarhúsum höfuðborgarinnar þar með talið verkamannabústaðina sem afmarkast af fjórum götum; Hringbraut, Hofsvallagötu, Ásvallagötu og Bræðraborgarstíg, Bankahúsin svokölluð við Framnesveg og Hamragarða við Hávallagötu.

Ég er sérstaklega hrifin af verkamannabústöðunum við Hringbraut enda saga þeirra einkar merkileg þegar litið er til hagkvæmra byggingalausna á samfélagslegum forsendum.  Árið 1930 hóf Byggingarfélag alþýðu undirbúning að byggingu þeirra á lóðinni með samkeppni.  Niðurstaðan varð þó að nýta ekki samkeppnistillögurnar heldur fela Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins að hanna húsin.  Með honum starfaði Einar Erlendsson, fulltrúi á skrifstofu Húsameistara ríkisins.

Framhlid_Verkamannabustadir

Húsin voru reist á árunum 1931-1935, en fyrstu íbúðirnar voru teknar í notkun í maí árið 1932. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru samfelld tveggja hæða húsaröð sem mynda hring umhverfis reitinn með 110 55 m2 íbúðum og sameiginlegum húsagarði í miðju. Hringbraut_GS_innra_skipulag

Sambyggingin skiptist upp í sjálfstæð stigahús með fjórum íbúðum.  Forgarðar í sólarátt eru götumegin meðfram Hringbraut, en annars eru húsin byggð þétt við gangstétt. 

Hringbraut_GS

Í lok umfjöllunar bókarinnar Hæg breytileg átt (2015) um þátt félagslegra íbúða í húsagerðarsögu 20. aldar er nefnt að áratugum seinna er enn bent á verkamannabústaðina við Hringbraut sem „…frábærlega vel heppnað dæmi um borgarbyggð sem er manneskjuleg og vistvæn í nútímaskilningi, augljóslega mótuð að íslensku veðurfari og byggingarháttum.“ af erlendum sérfræðingum í borgarskipulagi og arkitektúr.

Fyrirmynd verkamannabústaðanna við Hringbraut er grein sem Guðjón Samúelsson skrifaði nokkrum árum áður með útfærslum á hagkvæmum og betri húsnæðislausnum.  Í henni má finna aðra tillögu frá Guðjóni sem minnir á Bankahúsin svonefndu við Framnesveg, sem hann teiknaði stuttu síðar og Landsbankinn kostaði í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð.  Þar fléttast misstórar húsagerðir saman í eina lengju, og annað hvert hús með burst fram á götu.  Húsin eru undir sterkum enskum áhrifum, þannig að hver íbúð hafi sérinngang og eigin garð sem nota mætti til bæði matjurtaræktar og skrúðgarðyrkju. Um er að ræða 12 íbúða sambyggingu, raðhús á þremur hæðum.

Óhætt er að segja að Guðjón hafi með hönnun húsanna aðlagað alþjóðlegar strauma að þjóðlegum einkennum í byggingarlist, burstabæinn sjálfan.

Bankahusin_Framnesvegi

Annað hús sem snertir mitt samvinnu- og framsóknarhjarta er Hamragarðar við Hávallagötu sem Guðjón teiknaði og var byggt af SÍS sem skólastjórabústaður fyrir Jónas frá Hriflu.

Hamragardar_Havallagata

Heimildir:

Aron Freyr Leifsson (2012), Íbúð verkamannsins á teikniborði arkitektsins – áhrif funksjónalisma á hönnun verkamannabústaðanna við Hringbraut, lokaritgerð við hönnunar- og arkitektúrdeild, Listaháskóli Íslands.

Bankahúsin Framnesvegi 20 til 26 B, Reykjavík, friðuð (2010), Minjastofnun.is 11. nóv. 2010.

Hæg Breytileg Átt (2015)

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.11.2015 - 08:01 - Rita ummæli

Hitt bréfið

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.11.2015 - 12:15 - 1 ummæli

Íslenski draumurinn

Þrjátíu nemendur mæta í próf í framhaldsskóla.  Það styttist í útskrift.  Á snögunum við prófstofuna hanga úlpur í röðum eins og klipptar út úr auglýsingum 66°Norður og annarra helstu vörumerkja.  Áætlað verðmæti 1,2 -2,7 milljónir króna. Í hrúgu á borði má sjá nýjustu snjallsímana frá Samsung og Apple. Áætlað verðmæti 2,1-3,0 milljónir króna.

Spenna er í loftinu.  Útskriftarhópurinn er búinn að hittast reglulega til að skipuleggja dimmissjón búninga og útskriftarferðina.  Kaupa þarf ný föt fyrir útskriftina og stúdentshúfuna, auk þess að undirbúa þarf veisluna. Áætlað verðmæti 6,4-7,9 milljónir króna.

Allt hlutir sem þarf að kaupa. Allir hlutir sem þarf að vinna fyrir.

Íslenskir framhaldsskólanemar vinna meira með námi en evrópskir jafnaldrar þeirra.  Um 40% af framhaldsskólanemum hafa unnið meira en 12 tíma á viku með námi, og þegar þau ljúka námi hafa mörg hver unnið samanlegt milli eitt og tvö ársverk á almennum vinnumarkaði.

Álagið er mikið. Kvíði, þunglyndi og streita eru allt einkenni álags. Mat nemendanna sjálfra í könnun 2013 er að andleg heilsa þeirra sé lakari en í fyrri könnunum.

Berum við foreldrarnir ábyrgð á þessu með því að eltast stöðugt við „íslenska drauminn“ um stærra hús, stærri jeppa, fleiri utanlandsferðir, Michael Kors töskuna og nýjustu gerð af iPhone?

Er ekki í lagi að fá lánaða stúdentshúfuna, búa til dimmissjón búningana sjálf, endurnýta sparifötin, sleppa útskriftarferðinni og flagga spjallsíma í stað snjallsíma? Og eiga í staðinn meiri tíma til að vera með vinum og fjölskyldu og sinna náminu?

Að gefa „íslenska draumnum“ einfaldlega langt nef?

—————

Kostnaðarforsendur

Úlpur: 40.000-90.000 kr.

Símar: 50.000-150.000 kr.

Útskrift: Útskriftarferð 100-150þ, húfa 9þ, ný föt 40þ, veisla 50þ, búningur 15þ = 214.000- 264.000 kr.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.10.2015 - 18:31 - Rita ummæli

Vextir og húsnæðisverð

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um áhrif vaxta á húsnæðisverð og rætt við Sigurð Erlingsson, fv. forstjóra Íbúðalánasjóðs og Má Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík.

Þeir segja báðir að lækkandi vextir af íbúðalánum muni stuðla að frekari hækkun húsnæðisverðs vegna þess að greiðslubyrði lána lækki.  „Fyrir vikið verður fólk tilbúið að skuldsetja sig meira. Þar af leiðandi verður fólk tilbúið að bjóða meira í eignir, spenna bogann aðeins meira af því það hefur meira svigrúm.“ segir Sigurður. Már bendir á að staða sé að mörgu leyti lík því sem var árið 2004 þegar erlent fjármagn byrjaði að streyma inn í landið vegna vaxtamunar.  Afnám fjármagnshafta kann að leiða til þess sama, „…þannig að vaxtastig lækkar á Íslandi, bæði hjá heimilum og fyrirtækjum, sem geta hugsanlega í náinni framtíð endurfjármagnað sig á betri kjörum.“ segir Már.

Á árunum fyrir hrun jókst kaupmáttur mikið, framboð á lánum og eftirspurn eftir þeim jókst sömuleiðis verulega og kaupgleðin fór úr böndunum.

Heildarskuldir_heimilanna_lanastofnanir

Ef litið er til síðustu 10 ára fyrir hrun má sjá stórauknar skuldir heimilanna við lánakerfið sem fóru úr 417 milljörðum króna í 1890 milljarða króna með langtímalækkun raunvaxta, auðveldara aðgengi að lánsfé og aukinni samkeppni á fasteignalánamarkaði.

Þessi aukna eftirspurn í hagkerfinu leiddi til aukinnar fjárfestingar í íbúðarhúsnæði og einkaneyslu vegna auðsáhrifa sem aftur leiddi til meiri innflutnings en ella og þar með meiri viðskiptahalla.

Skuldirnar og óstöðugleikinn jókst, og á endanum hrundi allt.

Við viljum öll sjá lægri vexti en enginn hefur áhuga á annarri kollsteypu.

Hvað er þá til ráða?

Í skýrslu breska Fjármálaeftirlitsins, The Turner Review – a regulatory response to the global banking crisis (bls. 105-112), var bent á að rétt væri að setja reglur um hámark lána í hlutfalli við verðmæti eignar sem verið er að kaupa og sem hlutfall af tekjum lántakandans.  Þetta gæti dregið úr útlánavexti og miklum verðhækkunum og dempað hagsveifluna.  Enn fremur að leyfilegum lánshlutföllum væri breytt eftir stöðu hagsveiflunnar til að vernda lántakendur og styrkja lánastofnanir.

Undir þetta hefur Seðlabanki Íslands tekið. Í skýrslu bankans Peningastefna eftir höft (bls. 26-30) er bent á að ekki er hægt að byggja eingöngu á vaxtatækinu ef tryggja á peningalegan og fjármálalegan stöðugleika á sama tíma. Fleiri stjórntæki þurfi og er þar fjallað um ýmsar útfærslur á slíkum viðbótartækjum sem hlotið hafa samheitið „þjóðhagsvarúðartæki“ (e. macro-prudential tools).  Meðal slíkra varúðartækja má t.d. nefna reglur um breytileg hámarksveð- og eiginfjárhlutföll og takmarkanir á lausafjár- og gengisáhættu.

Þessar hugmyndir myndu styðja vel við áform stjórnvalda um aukna hvata til að eignast húsnæði, – frekar en að skulda í húsnæði. Þar má nefna skuldaleiðréttingu stjórnvalda og aukinn stuðning við kaup á fyrstu íbúð með því að gera ungu fólki mögulegt að spara tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma og taka hann út skattfrjálst.

Einnig má nefna hugmynd um að vaxtabætur fari inn á höfuðstól fasteignaláns.

Látum nú skynsemina ráða.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.10.2015 - 12:32 - 2 ummæli

Hagkvæmt húsnæði: Verkmannabústaðir

Á fundi um hvernig við byggjum vandað, hagkvæmt og hratt íbúðarhúsnæði hélt Pétur Ármannsson, arkitekt, erindi um sögu hagkvæmra byggingalausna á Íslandi.  Erindið var einkar áhugavert og sýndi að við getum vel lært af fortíðinni.

Þar sýndi hann ljósmyndir og teikningar af nokkrum af vinsælustu íbúðum borgarinnar: Verkamannabústaðir við Hringbraut, vestan Hofsvallagötu.

Hringbraut_ljosmynd

Verkamannabústaðir 1931-1937 – Guðjón Samúelsson

Saga þeirra er merkileg þegar litið er til hagkvæmra byggingalausna á samfélagslegum forsendum. Árið 1930 hóf Byggingarfélag alþýðu undirbúning að byggingu þeirra.  Á svæðinu átti að byggja 100 íbúðir og efnt var til samkeppni um hönnun húsanna, sem var þá nýjung.  Á endanum var þó húsameistara ríkisins falið að hanna húsin, og voru þau í meginatriðum í samræmi við grein sem Guðjón Samúelsson skrifaði nokkrum árum áður um byggingu hagkvæms íbúðarhúsnæðis.

Í bókinni Hæg breytileg átt (2015) segir svo um grein Guðjóns: „Guðjón leggur til að bærinn láti vinna vandaða uppdrætti af sambyggingum, ekki síst fyrir efnaminni hópa og sýnir teikningar af þremur mismunandi gerðum.  Sú teikning sem hann taldi henta best gerði ráð fyrir sambyggðum húsum, hver íbúð á tveimur hæðum með sérinngangi bæði frá götu og bakgarði, auk geymslu og þvottahúss í kjallara.  Í annarri tillögu lætur hann misstórar húsagerðir fléttast saman í eina lengju, annað hvert hús með burst fram á götu, og minnir þessi lausn á Bankahúsin svonefndu við Framnesveg, sem Guðjón teiknaði stuttu síðar og Landsbankinn kostaði í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð.  Þriðja teikningin sýnir tvílyft hús með fjórum íbúðum með aðkomu um sameiginlegan stigagang.  Þetta fyrirkomulag segir Guðjón vera ódýrast og henti best fyrir leiguíbúðir.“

Þessi lausn er í aðalatriðum fyrirmyndin af Hringbrautarhúsunum, sem hann teiknaði 1931.“

„Verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru samfelld tveggja hæða húsaröð sem mynda hring umhverfis reitinn með 110 íbúðum og sameiginlegum húsagarði í miðju. Sambyggingin skiptist upp í sjálfstæð stigahús með fjórum íbúðum.  Forgarðar í sólarátt voru götumegin meðfram Hringbraut, en annars eru húsin byggð þétt við gangstétt.  Framkvæmdir við húsin hófust í júlí 1931 og var flutt inn í fyrstu íbúðirnar í maí 1932.“ (Hæg breytileg átt, 2015)

Í lok umfjöllunar bókarinnar Hæg breytileg átt (2015) um þátt félagslegra íbúða í húsagerðarsögu 20. aldar er nefnt að áratugum seinna er enn bent á verkamannabústaðina við Hringbraut sem „…frábærlega vel heppnað dæmi um borgarbyggð sem er manneskjuleg og vistvæn í nútímaskilningi, augljóslega mótuð að íslensku veðurfari og byggingarháttum.“ af erlendum sérfræðingum í borgarskipulagi og arkitektúr.

Hringbrautin var jafnframt ein fyrirmynd að nýrri íbúðabyggð í neðra-Breiðholti og Árbæ á 7. áratugnum og það sama má segja um næsta áfanga sem Gunnlaugur Halldórsson hannaði fyrir Byggingarfélag alþýðu á árunum 1936-1937 við Hringbrautina.

Er þetta ekki það sem við eigum að gera núna?  Byggja íbúðir sem eru hagkvæmar, vandaðar, manneskjulegar, vistvænar og íslenskar.

PS. Hér eru svo verkamannabústaðir sem byggður voru við Hafnarfjörð (1934) og Rauðárholti (1939).

Hafnarfjordur_Raudarholt

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.10.2015 - 09:34 - Rita ummæli

Hjálpum heimilum að skulda minna

Heimilum landsins vegnar betur.  Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika.  Skulda- og eignastaða þeirra hefur batnað verulega og ekki aðeins eru eignirnar að hækka í verði, heldur er fólk að borga niður skuldir.

Ég er glöð að sjá þetta.

Heimilin virðast hafa lært að skuldir eru ekki af hinu góða.  Lán er ekki lukka. 

En hafa allir lært?  Enn klingja í eyrum auglýsingar um hagstæð bílalán, um smálán sem redda helginni og aftur eru komnar fram hugmyndir um 90% eða jafnvel 100% lán til fasteignakaupa.

Hagfræðingar spá þenslu.  Þeir spá því að lágt atvinnuleysi, miklar kauphækkanir, auknar fjárfestingar og meiri hagvöxtur muni leiða til verðbólgu og tala um að ástandið minni á tímabilið 2003 til 2004.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform. Þar gegnir séreignastefnan ríku hlutverki, en markmiðið hlýtur þó að vera að hjálpa fólki að eignast húsnæði, en ekki bara að skulda meira.

Ég tel því að við verðum að styðja enn frekar við heimilin og hjálpa þeim að borga enn hraðar niður skuldir.

Breytum vaxtabótakerfinu í samræmi við það sem varaformaður fjárlaganefndar lagði til, þ.e. að þær fari inn á höfuðstól láns.   Á mínu borði liggja einnig tillögur um að hætta að tengja vaxtabætur við lántöku og tengja opinberan stuðning vegna húsnæðis frekar við fjölda einstaklinga á heimili ásamt tekjum og eignum þeirra líkt og stuðningur við leigjendur. Seðlabankinn lagði einnig til á sínum tíma að eitt af þjóðhagsvarúðartækjunum yrði reglur um veðsetningarhlutföll fasteignalána.  Við verðum að setja skýrar reglur um hámark veðsetningar fasteignar og að lántöku fylgi sú skylda að borga af höfuðstól lánsins. Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga skuldbundum við okkur til að styðja við fyrstu kaupendur t.d. með því að gera það varanlegt að nýta séreignasparnað sem innborgun inn á íbúð.

Einnig vil ég minna á séreignasparnaðarleið skuldaleiðréttingarinnar.  Hægt er að nýta hann til að greiða niður fyrirliggjandi fasteignalán eða að taka sparnaðinn út þegar ætlunin er að kaupa íbúðarhúsnæði eða búseturétt.

Þannig hjálpum við heimilunum að halda áfram að spara, að leggja fyrir og borga niður skuldir.

Það er kannski minna gaman og tekur lengri tíma.

En í því felst frelsi.

Frelsi frá skuldafjötrunum.  Frelsi til að vera frjáls þjóð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.10.2015 - 13:58 - 2 ummæli

Vandað, hagkvæmt, hratt – upphafsfundur um hagkvæmt húsnæði

Ég ásamt umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra bjóðum til upphafsfundar verkefnis ríkisstjórnarinnar um hagkvæmt húsnæði. Verkefnið hefur fengið yfirskriftina „Vandað, hagkvæmt, hratt“ og til upphafsfundarins eru boðnir allir helstu hagsmunaaðilar sem málefnið snertir.

Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 21. október kl. 8:30-11:00 en boðið er upp á morgunverð frá kl. 8:00. Fundarstjóri verður Þórhallur Gunnarsson.

Verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála, í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Í ljósi þess hversu brýnt málefnið er þá var ákveðið að boða fundinn við fyrsta tækifæri þar sem ráðherrarnir þrír komast allir. Margir koma að efni fundarins en áhersla er lögð á að verkefnið fari strax af stað. Upphafsfundurinn er aðeins fyrsta skrefið.

Markmið fundarins er að stilla saman strengi allra þeirra sem þurfa að koma að verkefninu. Umræður verða á borðum í sal með þjóðfundarfyrirkomulagi og er vonast til að þær skili góðum hugmyndum að leiðum til að lækka byggingarkostnað.

Við verðum í pallborði og haldin verða stutt erindi um sögu hagkvæms húsnæðis og þarfir nýrrar kynslóðar.

Dagskrá
Að loknum morgunverði setur Þórhallur Gunnarsson fundarstjóri fundinn. Þá verður efnt til pallborðsumræða ráðherranna þriggja og að þeim loknum fara fram umræður í sal með þjóðfundasniði. Að því búnu fer Pétur Ármannsson arkitekt yfir sögu hagkvæmra húsnæðislausna á Íslandi. Eftir stutt kaffihlé halda umræður áfram þar til kemur að stuttu innleggi Unu Sighvatsdóttur blaðamanns sem fjallar um þarfir og væntingar nýrra kynslóða til húsnæðis. Loks segja ráðherrarnir hver um sig nokkur orð út frá efni og umræðum fundarins.

Nauðsynlegt er tilkynna þátttöku fyrirfram.

Smelltu hér til að skrá þig á ráðstefnuna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.10.2015 - 12:38 - Rita ummæli

Er geymsla grunnþörf?

„Er ekki hægt að opna geymsluna?“ stundi ég upp úr mér um leið og ég lagði öxlina upp að hurðinni á geymslunni og ýtti hraustlega á hana.  Hurðin opnaðist hægt með drungalegu marri, enda heill sófi sem hallaði sér makindalega upp að henni. Geymslan var orðin full og gott betur.  Eftir stutt en nokkuð hávært samtal okkar hjónanna var tekin ákvörðun um að svona gengi þetta ekki lengur.  Kerru var krækt í bílinn og eftir nokkrar ferðir í Sorpu var geymslan orðin tóm og hef ég sjaldan fundið fyrir öðrum eins létti.

Ég hef oft hugsað um þetta og spurt sjálfa mig hvort þörf okkar hjónanna fyrir að geyma dót væri einsdæmi?

Varla.

Þörfin fyrir að geyma dót hefur leitt til þess að geymsla er skilgreind sem ein af okkar grunnþörfum þegar kemur að íbúðarhúsnæði. Hin aldagömlu viðmið um að við þurfum að geta sofið, eldað mat, farið á klósett og þvegið þvott í íbúðarhúsnæði okkar duga ekki lengur til, heldur verðum við líka að geta geymt dót.  Í byggingareglugerðinni segir að sérgeymsla eigi að fylgja íbúðum og tilgreinir hversu stór hún á að vera að lágmarki miðað við stærð íbúðar.

Til dæmis er minnsta leyfilega geymsla fyrir íbúð sem er 75 m2 eða stærri 6 m2.  Geymslur verða jafnframt að vera loftræstar og mega ekki vera sameiginlegar þvottahúsi. Oft eru þær enn stærri, en í nýrri íbúð sem ég skoðaði á fasteignavef Morgunblaðsins var geymsla í 124 m2 þriggja herbergja íbúð tæpir 16 m2.

Í mörgum nýjum íbúðum er geymslan hluti af íbúðinni.  Í fyrstu íbúðinni sem við keyptum notuðum við geymsluna sem litla skrifstofu, – væntanlega þar sem við höfðum ekki náð að safna miklu dóti.

Við bættum svo úr því á næstu árum sbr. söguna í upphafi.

Í núverandi íbúð er þetta víst geymslan skv. teikningunum, þar sem við höfum útbúið lítið herbergi að hætti Elsu úr Frozen.

20151011_185950_resized

20151011_185934_resized

Sex fermetra geymsla kostar 1,8 milljón króna ef miðað er við 300.000 kr. fermetraverð á íbúð, – að lágmarki og töluvert meira ef það þarf að fjármagna geymsluna með lántöku.

Okkar dót var ekki 1,8 milljóna króna virði.

En þitt?

PS.  Meira um dót til að geyma, – Pappakassar á 63 milljónir

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.9.2015 - 14:26 - 5 ummæli

Hagkvæmari íbúðir fyrir ungt fólk

Fyrir nokkru skrifaði ég um tilraunir nágrannalanda okkar til að byggja hagkvæmari og minni íbúðir fyrir námsmenn.  Hér á landi hef ég svo fylgst með af aðdáun baráttu stjórnenda Félagsstofnunar stúdenta fyrir að bjóða námsmönnum upp á fleiri íbúðir sem næst skólanum sínum á viðráðanlegu verði.

Húsnæðiskostnaður er stór hluti af útgjöldum námsmanna.

Grunnframfærsla námsmanna á Íslandi er 165.717 kr. á mánuði fyrir einstakling í leigu- eða eigin húsnæði samkvæmt lánareglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  Námsmaður má vinna sér inn allt að 930 þúsund krónur án þess að það skerði námslánið og ætti hann þá rétt á húsaleigubótum upp á 22 þúsund krónur á mánuði.  Einstaklingsíbúð á Ásgarði hjá Félagsstofnun stúdenta sem er 36 m2 kostar 79.279 kr.  á mánuði.

Þetta þýðir að námsmaður borgar 57.279 kr. fyrir húsnæði og hefur 108.438 kr. á mánuði til að lifa af yfir veturinn og nemur húsnæðiskostnaður um 35% af námslánum hans miðað við þessar forsendur.

Í yfirlýsingu stjórnvalda um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga kemur fram að byggja eigi upp nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en sem nemur 20-25% af tekjum. Til þess að markmið okkar náist má húsnæðiskostnaður námsmanns ekki vera hærri en 33.143 kr. til 41.429 kr. á mánuði þegar tekið hefur verið tillit til leigukostnaðar og opinbers húsnæðisstuðnings við leigjendur.

Danir hafa verið að fást við sama verkefni, – þ.e. að finna leiðir til að tryggja ungu fólki nægjanlega hagkvæmar íbúðir.  Niðurstaða þeirra er að það eigi að vera mögulegt að byggja einstaklingsíbúðir fyrir ungt fólk sem uppfylla þarfir þeirra og kosta ekki meira en 3200 Dkr eða 61.785 krónur á mánuði (gengi Íslandsbanka 23.9.2015) meðal annars á Kaupmannahafnarsvæðinu.

basisboligen_afslutningskonference_FullSize

Ef leigan á nýjum einstaklingsíbúðum fyrir námsmenn væri sambærileg og nefnd er í dæminu frá Danmörku, og að teknu  tilliti til áforma um breyttan húsnæðisstuðning við leigjendur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem áætlað er að grunnbætur hækki í 31 þúsund krónur, myndi námsmaður borga 30.785 krónur á mánuði fyrir húsnæði eða 18,6% af tekjum.

Námsmenn í nýjum íbúðunum fengu þannig rúmlega  26 þúsund krónur aukalega í vasann á mánuði.

Basisbolig-2_koekken-og-hems_artikel-besk

Þess vegna segjum við í yfirlýsingunni að við ætlum ekki aðeins að byggja 2.300 íbúðir og breyta húsnæðisstuðningi heldur að stjórnvöld munu á allan hátt greiða fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað.  Endurskoðun á byggingarreglugerð, skipulagslögum  og gjaldtöku sveitarfélaganna á lóðum er þar á meðal.

Basisboligen_model_1_teikning

Ef Danir geta þetta, þá getum við þetta.

 

Ítarefni:

Yfirlýsing stjórnvalda um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga

Nánari upplýsingar um Basisboligen verkefnið í Danmörku

Ungdomsboliger i lille storrelse, Statens byggeforskningsinstitut

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is