Miðvikudagur 20.8.2014 - 11:58 - Rita ummæli

Verjum þá sem minnst hafa

Fjármálaráðherra ræddi áform sín um breytingar á skatti á vörur og þjónustu á Sprengisandi síðasta sunnudag.

Þar ítrekaði hann hugmyndir sínar um að minnka bilið á milli hærra og lægra skattþreps virðisaukakerfisins og draga úr undanþágum í kerfinu.

Ég er sammála því að einfalda þarf virðisaukaskattskerfið og endurskoða löggjöfina á heildstæðan máta. En þær breytingar mega ekki bitna á þeim sem lægstar tekjur hafa.  Hægt er að komast hjá því með ýmsum mótvægisaðgerðum, svo sem hækkun persónuafsláttarins, auknum húsnæðisstuðningi og hækkun barnabóta.

Í mínum huga eru þess háttar mótvægisaðgerðir forsenda einföldunar á virðisaukaskattskerfinu.

Einföldun skattkerfisins má ekki koma niður á þeim sem minnst hafa.

 

———————–

PS. Vinsamlegast athugið að það getur tekið tíma fyrir athugasemdir að birtast.  Jafnframt áskil ég mér rétt til að hafna birtingu athugasemda.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.5.2014 - 13:38 - 2 ummæli

Landsbankar og höftin

Nýlega var tilkynnt um endurfjármögnun á skuldabréfi á milli gamla og nýja Landsbankans og lýstu menn yfir ánægju sinni yfir samningnum.

Mikilvægt er þó að menn komi sér niður á jörðina er varðar afnám gjaldeyrishaftanna og á það við um Landsbankanna sem og aðra.

Horfast þarf í augu við heildarmyndina, og hætta að útdeila einhverjum plástrum.

Heildstæð áætlun um afnám haftanna er nauðsynleg í ljósi þess að vandinn er einfaldlega miklu stærri en áður var áætlað.  Þar verða að liggja fyrir lausnir varðandi ýmis atriði s.s. snjóhengjuna og skuldaskil allra gömlu bankanna.  Tillögur þess efnis liggja ekki enn fyrir frá slitastjórnum.

Í mínum huga kemur ekkert annað kemur til greina en að tryggja að þrotabú gömlu bankanna fái ekki heimildir til gjaldeyrisútflæðis fyrr en heildstæð áætlun um losun hafta liggur fyrir.  Heildstæð áætlun sem ógnar ekki greiðslujöfnuði landsins og þar með efnahagslegum stöðugleika.

Þegar hún liggur fyrir ætti að vera hægt að afnema höftin tiltölulega hratt, líkt og fjármálaráðherra hefur margítrekað.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.4.2014 - 09:05 - Rita ummæli

Heilbrigðari börn

Árið 1972 hófu vísindamenn í Bandaríkjunum að fylgjast með tveimur hópum barna frá fátækum fjölskyldum.   Öðrum hópnum var boðið upp á heilsdags leikskóla til fimm ára aldurs.  Þar fengu börnin flestar sínar daglegu máltíðir auk ýmis konar þjálfunar og leikja.  Hinn hópurinn fékk þurrmjólk, en ekkert umfram það. Markmiðið með rannsókninni var að sjá hvort sérmeðferðin myndi auka gáfur barnanna.

Svarið var já.  Hæfni ungabarnanna var svipuð í upphafi, en strax við þriggja ára aldur var marktækur munur á árangri.  Um þrítugt voru börnin sem voru svo heppin að fá sérmeðferðina fjórum sinnum líklegri til að hafa útskrifast úr háskóla en börnin í viðmiðunarhópnum.

En rúmlega fjörutíu árum seinna hafa komið fram nýjar upplýsingar, sem vísindamennirnir áttu ekki von á.  Börnin sem fengu sérmeðferðina eru líka mun heilbrigðari.  Konurnar í hópnum voru t.d. mun ólíklegri til að vera með foreinkenni hás blóðþrýstings eða aukna magafitu, sem eru áhættuþættir fyrir hjartasjúkdóma.  Þær lifðu líka heilbrigðari lífi.  Þær byrjuðu seinna að drekka áfengi og voru líklegri til að hreyfa sig og borða hollan mat en konurnar í samanburðarhópnum.

Michael Marmot, einn helsti vísindamaður heims á þessu sviði, kom til landsins stuttu eftir að ég tók við embætti ráðherra.  Þar lagði hann áherslu á að fyrstu æviárin skiptu öllu máli til að tryggja að börnum farnist sem best.  Hér eru upplýsingar um heimildamynd sem fjallaði um áhrif fátæktar á líf okkar og byggði á rannsóknum hans.

Í ráðuneytinu er nú unnið að nýrri fjölskyldustefnu og breytingum á stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar.  Von mín er að með markvissari og öflugari vinnubrögðum getum við sem vinnum með viðkvæmustu einstaklingunum í samfélaginu gert enn þá betur.  Þar tel ég mikilvægt að horfa til snemmtækrar íhlutunar vegna vanda barna og unglinga í samstarfi við heilbrigðisráðherra, því rannsóknir segja okkur einfaldlega að það skilar miklum árangri fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.3.2014 - 08:16 - 10 ummæli

Sparnaður = frelsi

Tillögur ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til handa heimilunum eru komnar fram á Alþingi.

Fátt hefur komið á óvart í umræðunni um skuldaleiðréttingarhlutann.  Hvet ég fólk til að kynna sér málið sjálft með því að fara inn á skuldaleidretting.is.  Hér eru einnig ágætis pistlar eftir Jóhannes Þór Skúlason og Marinó G. Njálsson um málið.

Umræðan um séreignasparnaðarhlutann hefur þó komið mér á óvart.  Nú síðast er dreginn á flot sérfræðingur í séreignasparnaði sem virðist beinlínis tala gegn því á forsíðu Fréttablaðsins að fólk borgi niður skuldir sínar.

Ég vona svo sannarlega að fólk hunsi þessar ráðleggingar.

Eitt helsta vandamál Íslendinga áratugum saman hefur verið of lítill sparnaður og of mikil skuldasöfnun.  Eini raunverulegi sparnaðurinn hér hefur verið lögþvingaður lífeyrissparnaður.  Við lögðum meira að segja af valfrjálsa húsnæðissparnaðarreikninga og skyldusparnaðinn og ekki tók nema nokkur ár þar til inn á húsnæðismarkaðinn komu heilu kynslóðirnar sem áttu ekkert sparifé.

Ég er af þeirri kynslóð sem lærði aldrei að spara.  Árum saman hef ég barist fyrir sjálfstæðu lífi án skulda.  Þar sem ég væri raunverulega frjáls.  Biblían hefur verið The Complete Cheapskate e. Mary Hunt.  Þar er einfaldlega lagt til að fólk borgi fyrst niður skuldir með hæstu vextina, svo koll af kolli þar til allar skuldir eru uppgreiddar. Ingólfur í spara.is hefur verið með svipaðar hugmyndir.  Hún leggur líka til að maður stofni svokallaða frelsisreikninga til að leggja fyrir fé fyrir óvæntum útgjöldum eða fyrirsjáanlegum eins og sumarfríi.

Það er von mín að með aðgerðum stjórnvalda sjáum við nýtt upphaf.  Þar sem við umbunum fólk fyrir ráðdeild, fyrir sparnað, fyrir að skulda lítið.

Þar sem við sem þjóð lærum að spara fyrir hlutunum.

Aðeins þannig getum við tryggt efnahagslegt sjálfstæði okkar um ókomna tíð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.3.2014 - 12:39 - Rita ummæli

Áfram Erna og Jóhann Þór

Nú fer að styttast í að fulltrúar okkar á Ólympíumóti fatlaðs fólks þau Erna Friðriksdóttir og Jóhann Þór Hólmgrímsson keppi í Sotsjí. Þau taka þátt bæði í svigi og stórsvigi dagana 13.-16. mars.

Skíðin sem þau nota kallast monoski eða sit-ski á ensku og setskíði á okkar ylhýra. Ég fyllist alltaf aðdáun þegar ég sé keppendur á fleygiferð niður brekku á svona skíði. Ótrúlegir hæfileikar og ekki séns á að ég gæti gert þetta.

Saga Íslands á Vetrarólympíumótum fatlaðs fólks er ekki löng. Svanur Ingvarsson tók þátt í sleðastjaki í Lillehammer 1994 og Erna skíðaði í Vancouver 2010, fyrst íslenskra kvenna. Nú er Erna að keppa aftur og Jóhann í fyrsta sinn. Ég veit að þau hafa bæði undirbúið sig gríðarlega vel fyrir leikana og verða okkur til sóma. Hugur minn verður hjá þeim í brekkunni.

Opnunarhátíðin byrjar kl. 16 og mun RÚV senda beint út frá henni.

Áfram Erna og Jóhann Þór. Áfram Ísland.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.3.2014 - 17:03 - 3 ummæli

Fréttatilkynning vegna Sotsjí

„Íslensku keppendurnir á Ólympíumóti fatlaðra komu til Sotsjí í nótt ásamt þjálfurum sínum en keppnisdagar þeirra eru 13. og 16. mars. Hugur minn er hjá þessu öfluga og efnilega íþróttafólki sem hefur lagt svo mikið á sig vegna mótsins um langt skeið. Við Íslendingar getum verið stolt af þeim.

Ég hlakkaði mikið til að vera viðstödd keppnina í Sotsjí til að fylgjast með og sýna íslensku keppendunum stuðning og verðskuldaða virðingu. Á mótinu keppa þátttakendur sín á milli í anda friðar, án tillits til litarháttar, trúarbragða eða stjórnmálaskoðana og ákvörðun mín á sínum tíma um að fara til Sotsjí byggðist á þeim anda mótsins.

Vegna þróunar mála í Úkraínu síðustu daga er það hins vegar mat mitt, að höfðu samráði við utanríkisráðuneytið, að það sé ekki rétt að ég heimsæki Rússland á þessum tíma. Ég fundaði með Ólafi Magnússyni, framkvæmdastjóra Íþróttasambands fatlaðra, í dag til að segja honum frá þessari ákvörðun og biðja hann fyrir kveðjur mínar til íslensku keppendanna; Ernu Friðriksdóttur og Jóhanns Þórs Hólmgrímssonar. Ég veit að þau verða okkur öllum til sóma.“

Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra og norrænn samstarfsráðherra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.2.2014 - 12:42 - 19 ummæli

Litlar draumaíbúðir

Eitt af áhugamálum mínum eru litlar íbúðir.  Töluverður fjöldi fólks vill velja að búa í minna húsnæði. Af hverju? Svörin eru fjölmörg.  Til að eiga minna dót.  Til að vera nægjusamari.  Til að gera meira utan heimilisins.  Til að eiga meiri pening.  Til að vera umhverfisvænni.

Hér eru nokkur myndbönd og myndir af sannkölluðum draumaíbúðum, þótt litlar séu.

39 m2 íbúð frá LifeEdited og Graham Hill

 Fullt af ljósmyndum. 

Hesthúsi breytt í íbúð í Frakklandi (virkilega hrifin af þessari)

18 m2 einbýlishús Macy Miller

millertinyhouse-048-edit

 

millertinyhouse-001

millertinyhouse-023-edit

millertinyhouse-026

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.2.2014 - 13:53 - 12 ummæli

Veldu nafn á nýja stofnun!

Við höfum sett drög að  þremur lagafrumvörpum á vefinn til umsagnar í dag.  Fyrsta frumvarpið lýtur að skipulagi þeirrar stjórnsýslu sem lögð er til að gildi á sviði jafnréttismála. Gert er ráð fyrir að ein stofnun annist stjórnsýslu á þessu sviði þannig að Jafnréttisstofa, Fjölmenningarsetur og Réttindagæsla fatlaðs fólks sameinist í nýja stofnun.   Annað frumvarpið fjallar um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna, og þriðja frumvarpið um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Nú kemur að þér!  Við viljum bæði fá umsagnir frá þér um efni frumvarpanna og nafn á nýju stofnunni. Þau nöfn sem nefnd hafa verið í þessu samhengi eru:

  • Jafnréttisstofnun,
  • Mannréttindastofa,
  • Umboðsmaður jafnréttismála,

Aðrar hugmyndir eru eru einnig vel þegnar.

Frestur til að skila umsögnum um frumvörpin rennur út 28. febrúar næstkomandi.

Umsagnir skal senda ráðuneytinu á póstfangið postur@vel.is. Í efnislínu þarf að standa: ,,Umsögn um frumvörp tengd jafnrétti.“

Óskanafnið á nýrri stofnun geturðu sent í tölvupósti á postur@vel.is eða með því að setja inn athugasemd við þessa bloggfærslu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.2.2014 - 08:09 - 2 ummæli

Karlar geta allt!

Hefur ljósfaðir tekið á móti barninu þínu? Hversu líklegt er að karl taki á móti barninu þínu í leikskólanum? Eða í grunnskólanum?

Ekki sérlega líklegt, segja tölurnar okkur. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og endurspegla tölur frá menntastofnunum á framhalds- og háskólastigi kynbundið námsval ungmenna. Enginn karl hefur útskrifast með menntun ljósmóður á Íslandi. Aðeins 2% félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru karlar, 12% starfandi félagsráðgjafa og hlutfall karla af heildarfjölda nemenda í kennaradeild menntavísindasviðs HÍ er innan við 20%.

Í störfum kennara, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því stráka og stelpur, karla og konur. Því er mikilvægt að þjónustan taki mið af báðum kynjum og starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni. Ástæður fyrir námsvali ungmenna eru vísast jafn ólíkar og þær eru margar. Staðalmyndir um það hvað sé æskilegt starfsval fyrir konur og karla virðast hins vegar enn vera ráðandi og sýna tölurnar að karlar eiga enn langt í land hvað varðar jafna þátttöku á við konur í umönnunar- og kennslustörfum.

Rannsóknir sýna að þegar annað kynið er í miklum meirihluta í ákveðinni stétt er eins og varnargarðar hafi verið reistir utan um viðkomandi stétt sem virkar hamlandi á hitt kynið. Þannig verður það nær óyfirstíganlegt fyrir einstakling af hinu kyninu að velja sér það nám og starf sem hugur þeirra og hæfileikar standa til. Einstaklingarnir fá ekki að njóta sín og samfélagið líður fyrir.

Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti er að stuðla að aðgerðum sem draga úr kynjaskiptingu starfa. Engin ein aðgerð er talin líklegri til að minnka launamun karla og kvenna en uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar. Það staðfesta bæði innlendar og erlendar rannsóknir. Aðgerðahópurinn efnir því til opins umræðufundar þar sem rætt verður um mögulegar leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hóteli Reykjavík, 13. febrúar.

Brjótum upp hinn kynbundna vinnumarkað og sýnum að karlar geta allt!

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. feb. 2014)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.2.2014 - 20:03 - 7 ummæli

Óvönduð vinna RÚV

RÚV fjallaði um breytingar á lögum um almannatryggingar í kvöldfréttum.  Þar var birt sérstaklega mynd af einni grein laganna er varðar sjúkraskrár sem dæmi um hertar eftirlitsheimildir.

Þetta er eilítið vandræðalegt fyrir fréttastofuna.

Ef fréttamaður RÚV hefði unnið heimavinnuna sína, leitað frumheimilda en ekki treyst á einstaka bloggara úti í bæ hefði hún tekið eftir að þessi grein er nánast samhljóða grein nr. 52 í eldri lögum. Þessi grein er því ekki ný, heldur hefur verið í gildi nær óbreytt frá árinu 2001 .

52. gr. í eldri lögum er svohljóðandi:

„Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa er skylt að veita læknum, eða eftir atvikum [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum],1) Tryggingastofnunar ríkisins [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar]1) þær upplýsingar sem stofnuninni eru nauðsynlegar vegna ákvörðunar um greiðslu bóta eða endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar. Þá er læknum Tryggingastofnunar [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar],1) eða [hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum]1) þegar það á við, heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er með þessum hætti skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og jafnframt gætt ákvæða laga um [sjúkraskrár]2) eftir því sem við á.“

2. gr. j í nýju lögunum (sem varð gr. 42) er svohljóðandi:

„Upplýsingaskylda heilbrigðisstarfsmanna.

Þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem bera ábyrgð á vörslu sjúkraskráa, sbr. lög um sjúkraskrár, er skylt að veita læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar þær upplýsingar og gögn sem stofnuninni eru nauðsynleg vegna ákvörðunar um greiðslu bóta og vegna eftirlitshlutverks hennar. Þá er læknum og heilbrigðisstarfsmönnum Tryggingastofnunar heimilt að skoða þann hluta sjúkraskrár sem nauðsynlegt er vegna eftirlits og reikningsgerð á hendur stofnuninni er byggð á. Skoðun skal fara fram á þeim stað þar sem sjúkraskrá er varðveitt.“

Ástæða þess að hún var í frumvarpinu var fyrst og fremst lagatiltekt og til að tryggja betra samræmi í lögunum varðandi þá þætti sem snúa að eftirlitsheimildum stofnunarinnar.

Ákvæði í gömlu greininni um persónuvernd er fært inn í nýja grein um vernd persónuupplýsinga, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga til að tryggja betri meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá TR, sem ég tel til bóta frá eldri lögum sbr.:

„Vernd persónuupplýsinga.

Þagnarskylda og meðferð persónuupplýsinga.

Starfsfólki Tryggingastofnunar og umboðsskrifstofa hennar er óheimilt að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra frá upplýsingum sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
Þagnarskyldan gildir einnig um stjórn Tryggingastofnunar og þá sem sinna verkefnum fyrir stofnunina en eru ekki starfsmenn hennar.
Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er skal Tryggingastofnun gæta þess að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga og setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá skal stofnunin jafnframt gæta ákvæða laga um sjúkraskrár eftir því sem við á.
Upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits á grundvelli ákvæða þessa kafla skal ekki varðveita lengur en nauðsynlegt er og skal þeim eytt að lokinni tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits.“

Það er sérkennilegt að þessi umræða komi upp fyrst núna þegar þetta ákvæði hefur verið í gildi í 13 ár.

En kannski las bara enginn gömlu lögin?

(Athuga: RÚV birti aðra frétt um breytingarnar á lögunum til skýringar kvöldið eftir.  Ég fjallaði jafnframt um lögin og fleira í Kastljósviðtali sama kvöld.  )

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is