Þriðjudagur 7.4.2015 - 14:31 - Rita ummæli

Húsnæði fyrir þá fátækustu

1800 manns voru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögunum samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins.  Á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 voru aðeins 8% sem fengu úrlausn á sínum vanda.  Á fundum mínum með sveitarfélögum víða um land hafa komið fram verulegar áhyggjur af  húsnæðismálum fólks í félagslegum eða fjárhagslegum vanda og skort á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk, námsmenn og aldraða.

Í skýrslu Velferðarvaktarinnar um aðgerðir til að vinna bug á fátækt er lögð m.a. áhersla á húsnæðismál. Þar þurfi sérstaklega að taka tillit til efnalítilla barnafjölskyldna og einstaklinga sem búa við fátækt þegar unnið er að úrbótum. Benti Velferðarvaktin á að viðunandi húsnæðisstaða fólks er talin vera forsenda þess að hægt sé að hjálpa fólki að takast á við félagslegan eða fjárhagslegan vanda sinn.

Í niðurstöðum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála var talið að hægt væri að lækka leigu til þessara hópa verulega með því að veita stofnframlög fremur en lán með niðurgreiddum vöxtum.  Stofnframlög ættu einnig að koma frá sveitarfélögum og þau gætu verið í formi gatnagerðargjalda, lóða, fjárframlaga og/eða ábyrgða.  Aukið eigið fé myndi mögulega líka leiða til betri lánskjara á markaði til þessara félaga og leiða til jafnvel enn hagstæðari leigukjara. Samhliða þessari breytingu þyrfti að ráðast í átak til að fjölga íbúðum félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða með stofnframlögum. Stofnframlögin yrðu þannig einn af nokkrum lykilþáttum í nýju húsnæðiskerfi fyrir fólkið í landinu, þar sem kerfið er fyrir fólkið en ekki öfugt.

Um þetta snýst frumvarp mitt um stofnframlög til félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.  Að tryggja að tekjulægsta fólkið á Íslandi hafi þak yfir höfuðið, öruggan samastað fyrir sig og fjölskylduna sína.

Eitthvað sem íslenskt samfélag á að geta boðið upp á.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.1.2015 - 16:21 - 1 ummæli

Hvar eru framtíðarstörfin?

Ég rakst fyrir stuttu á grein frá Forbes um hvaða störf það yrði eftirspurn eftir í náinni framtíð?  Skv. þeim var talið að röðunin yrði eftirfarandi á árunum 2010 til 2020:

1. Hjúkrunarfræðingar (e. registered nurse) + 26%

2. Verslunarmenn (e. retail salesperson) +16,6%

3.– 4. Aðstoð við hjúkrun og heimaþjónustu (e. home health aides & personal care aides) + 69,4% -70,5% 2010-2020

5. Skrifstofumenn (e. office clerks) +16,6%

6. Matreiðslumenn og framreiðslumenn (e. combined food preparation and serving workers, including fast food) +14,8%

7. Þjónustufulltrúar (e. customer service representatives) +15,5%

8. Vörubílstjórar (e. heavy and tractor- trailer truck drivers) +20,6%

9. Vöruflutningamenn (e. laborers and freight, stock and material movers) +15,4%

10. Framhalds– og háskólakennarar (e. postsecondary teachers) +17,4%

Áhugavert er að skoða spá Forbes í samhengi við tölur um atvinnuleysi eftir menntun á Íslandi í desember 2014.

Um 44% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá voru einungis með grunnskólamenntun, 24% voru með háskólamenntun, 12% með stúdentspróf sem lokapróf, 11% með ýmiss konar framhaldsnám og 9% með iðnmenntun.  Menntun skiptir þannig greinilega máli, en líka hver menntunin er.

Af iðnmenntuðum þá voru fæstir í hópi atvinnuleitenda með próf í hárgreiðslu en flestir með próf í húsasmíði.  Atvinnuleysi meðal matreiðslumanna fór lækkandi nokkuð stöðugt á árinu.  Nokkrar sveiflur eru í atvinnuleysi hjá iðnmenntuðu fólki eftir árstíðum, en atvinnuleysi meðal húsasmiða minnkar umtalsvert yfir sumarmánuðina.

Langalgengast var að atvinnuleitendur með háskólamenntun væru með viðskiptafræðimenntun, hvort sem um var að ræða konur eða karla. Munaði umtalsverðu í fjölda  í samanburði við aðra menntun.  Næst algengast var að karlar með lögfræðimenntun væru atvinnulausir en hjá konum voru hópar atvinnuleitenda með lögfræðimenntun og grunnskólakennaramenntun nánast jafn stórir.  Eitthvað algengara virtist vera að fólk með grunnskólakennaramenntun væri atvinnulaust á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Lítið vottaði fyrir atvinnuleysi hjá heilbrigðismenntuðu starfsfólki, nema vera skyldi hjá þeim sem voru með sálfræðimenntun.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.12.2014 - 11:38 - Rita ummæli

Framtíðin er velferðartækni

Tækni hefur þegar gjörbreytt lífi okkar.  En ég er sannfærð um að tæknibyltingin er rétt að byrja, ekki hvað síst þegar kemur að velferðartækni.

Velferðartækni er ýmis tæki og tæknitengdar lausnir sem einstaklingar nota til að taka virkari þátt í samfélaginu, auka lífsgæði sín og hjálpa sér sjálfir.

Hér eru nokkur myndbönd um þá tækniþróun sem á sér stað og gæti gjörbreytt lífi bæði fólks með skerta færni og allra hinna.

 

Blindur maður ekur bíl

Fylki í Bandaríkjunum hafa þegar leyft bíla án bílstjóra til að fyrirtæki geti prófað bílana sína á vegum.  Google  er að spá því að árið 2017 gæti orðið árið sem þessir bílar koma á almennan markað.

 

Hugurinn stýrir gervihöndum

Les Baugh missti báðar hendurnar í slysi fyrir 40 árum.  Hann tók þátt í tilraunaverkefni á John Hopkins spítala þar sem hann fékk tvær gervihendur sem hann hreyfði með huganum.

 

Lamaður maður tekur fyrstu spyrnuna í HM í fótbolta

Juliano Pinto sparkaði fyrsta boltanum á HM í Brasílíu í sumar þrátt fyrir að vera lamaður, íklæddur stoðgrind sem hann stýrði með huganum.

 

Tækni hjálpar öldruðum til sjálfstæðrar búsetu

Ýmsar tæknilausnir eru þegar komnar á markað til að hjálpa öldruðu fólki að búa lengur sjálfstætt.  Einfaldasta dæmið er kannski öryggishnappurinn en sífellt koma þróaðri lausnir á markað.

Ég er sannfærð um að Íslendingar geti orðið í fremstu röð við að nýta sér velferðartækni.  Við búum við sterka innviði, stuttar boðleiðir í okkar litla samfélagi, styðjumst þegar við gott velferðarkerfi auk þess að búa yfir almennri tækniþekkingu.

Hins vegar erum við stutt á veg komin, ekki hvað síst þegar við berum okkur saman við nágrannaþjóðirnar.

Því höfum við verið að móta stefnu um nýsköpun og tækni í félagsþjónustu á Íslandi sem við munum vonandi hrinda í framkvæmd á nýju ári.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.11.2014 - 14:46 - 2 ummæli

Skattlagning skulda

Í skýrslu Seðlabankans Peningastefna eftir höft er fjallað um lærdóm okkar af hruninu. Þar er talað um mikilvægi þess að hugað sér að undirliggjandi ójafnvægi á fjármálamörkuðum og samspili ójafnvægis við efnahagsþróunina.   Þættir eins og vöxtur útlána og peningamagns í umferð, eignaverðsbólur, aukin skuldsetning og stækkun efnahagsreikninga og aukin áhætta.

Lærdómurinn sem bankinn talaði um var ekki hvað síst hin gífurlega hraða skuldsetning.  Frá árslokum 2002 til ársloka 2007 jukust skuldir fyrirtækja um 222%.  Þegar skuldirnar höfðu náð hámarki sínu eftir hrunið á árinu 2009, þá höfðu skuldir fyrirtækja aukist frá sama tíma árið 2002 um 276%.  Á sama tíma höfðu skuldir íslenskra heimila farið úr 26% í 43%.

Skuldir-fyrirtækja-og-heimila-stærri

Niðurstaða bankans er að hið hefðbundna vaxtatæki dugi ekki eitt og sér til að taka á þessu ójafnvægi og tryggja verðstöðugleika.  Það þurfi fleiri verkfæri og nefnir bankinn meðal annars sveiflujafnandi eiginfjárkröfur, greiðslur í sérstaka afskriftasjóði, reglur um lánsfjárhlutföll, takmarkanir á veðsetningu eigna og gjaldmiðlamisræmi, takmörk á lánveitingum til ofþandra geira og takmörk á útlánavöxt.  Þetta eru leiðir sem ýmis lönd hafa notað til að stýra betur peningamálum sínum.

Nú höfum við bætt í púkkið tæki sem ég tel að ýmsir ættu að skoða vel.

Skattlagning á skuldir fyrirtækja, ekki hvað síst fjármálafyrirtækja.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.11.2014 - 10:37 - 1 ummæli

Leiðrétting: tölulegar staðreyndir

  • Umfang leiðréttingarinnar er 150 ma.kr. og verður að fullu lokið í ársbyrjun 2016, á rúmu einu ári en ekki 4 líkt og áður hefur verið kynnt.
  • Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir: 80 ma.kr. í leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra lána og 70 ma.kr. í skattleysi séreignasparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól.
  • Skattfrelsi við innborgun séreignasparnaðar á höfuðstól (20 ma.kr.) og bein leiðrétting á forsendubresti (80 ma.kr.) færir viðmið leiðréttingarinnar niður í 4% verðbólgu yfir viðmiðunartímabilið við fullnýtingu leiðréttingarinnar. Framlag ríkisins leiðréttir því alla verðbólgu áranna 2008-2009 yfir 4,0%.  Inngreiðslur séreignasparnaðar eru hrein viðbót við það.
  • Á árunum 2015-2017 munu ráðstöfunartekjur hjá þátttakendum aukast um 130-200 þús. kr. á ári eða 17%.
  • Við fullnýtingu leiðréttingarinnar geta lán lækkað um eða yfir 20%.
  • Afborganir og vaxtagjöld heimilanna lækka um 22% til ársins 2017.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.11.2014 - 18:14 - 5 ummæli

Vilji var það sem þurfti

Í febrúar 2010 birti ASÍ könnun þar sem kom fram að 91% aðspurðra sögðu að gera yrði meira fyrir heimilin.  Þegar spurt var hvað stjórnvöld ættu að gera nefndu langflestir lækkun höfuðstóls, 13% nefndu aðgerðir til að koma til móts við fólk með síhækkandi húsnæðislán og 12% nefndu afnám verðtryggingar.

Flest svörin snéru þannig að lækkun eða leiðréttingu fasteignalána.

Nú í nóvember 2014 er loksins komið til móts við óskir almennings.  Niðurstöður leiðréttingarinnar hafa verið birtar 69 þúsund heimilum á vefsíðu verkefnisins; leidretting.is

Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna.  Heimili sem nýtur hámarksleiðréttingar getur hins vegar lækkað höfuðstól láns síns um meira en sex milljónir króna á þremur árum.  Til dæmis getur heimili með meðallán tekið um aldamótin lækkað höfuðstól lánsins um 20% nýti það sér hámarks skattfrelsi séreignarlífeyrissparnaðar. Heildarumfang aðgerðarinnar er um 150 milljarðar króna.   Á árunum 2015-2017 munu ráðstöfunartekjur hjá þátttakendum aukast um 130-200 þús.kr. á ári eða 17%.  Afborganir og vaxtagjöld heimilanna lækka um 22% til ársins 2017.

Leiðréttingin er fyrsta stóra aðgerðin af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu.  Markmiðið með þeim öllum er að búa íslenskum heimilum heilbrigðara og betra umhverfi.  Þar má nefna losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbyggingu húsnæðiskerfisins og endurskipulagningu Íbúðalánasjóðs.  Öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, eiga að njóta góðs af breytingunum.

Forsenda árangurs er að vilji liggi fyrir til góðra verka til hagsbóta fyrir íslensk heimili.

Sá vilji er skýr hjá ríkisstjórninni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.11.2014 - 18:35 - 7 ummæli

Skuldaleiðréttingin í höfn

Fyrsta stóra efnahagsaðgerð stjórnvalda er í höfn.  Í dag voru niðurstöður leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum kynntar og á morgun verða niðurstöðurnar birtar 69 þúsund heimilum á vefsíðu verkefnisins, leidretting.is

Skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tvíþættar.  Annars vegar aðgerðir til beinnar niðurfærslu á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar lækkun höfuðstóls með skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar í þrjú ár.

Bein lækkun höfuðstóls í leiðréttingunni er að meðaltali um 1,3 milljónir króna.  Heimili sem nýtur hámarksleiðréttingar getur hins vegar lækkað höfuðstól láns síns um meira en sex milljónir króna á þremur árum.  Til dæmis getur heimili með meðallán tekið um aldamótin lækkað höfuðstól lánsins um 20% nýti það sér hámarks skattfrelsi séreignarlífeyrissparnaðar.

Í aðdraganda kosninganna sögðu báðir stjórnarflokkar að það væri forgangsmál að bregðast við skulda-og greiðsluvanda íslenskra heimila.  Leiðrétta yrði stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán og skattaafsláttur yrði veittur sem myndi greiðast beint inn á höfuðstól lánsins.

Í stjórnarsáttmálanum segir: Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Á síðasta kjörtímabili leit um tíma út fyrir að við hefðum glatað tækifærinu til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán.  Krafa kjósenda í síðustu kosningum var hins vegar skýr.  Leiðréttingin væri réttlætismál og með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur tekist að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu.

Til hagsbóta fyrir íslensk heimili.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.11.2014 - 16:49 - 6 ummæli

Þarf húsnæði að vera dýrt?

Á þriðjudaginn er STEFNUMÓT íslensks byggingariðnaðar. Þar ætla fulltrúar atvinnugreina, stofnana og hagsmunaaðila að koma sama til að móta sameiginlega stefnu í tengslum við íslenskan byggingariðnað. Vil ég hvetja alla áhugasama til að mæta og taka þátt.

Ég vona að þar verði rætt hvernig íslenskur byggingariðnaður getur beitt sér fyrir að byggt verði meira og ódýrara húsnæði, ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu.   Ekki er verið að byggja nóg til að mæta fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og þær íbúðir sem verið er að byggja eru of stórar og dýrar.

Við leit á fasteignavef Morgunblaðsins að húsnæði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu undir 25 m.kr.  fundust 242 eignir og ég gat ekki séð að meðal þeirra væri nýbyggð fasteign.  Nokkrar lóðir í Mosfellsbænum, en ekki neinar nýjar íbúðir í byggingu.

Hugsanlega kann skýringin  að vera að menn telja það einfaldlega ekki skila nægjanlegum arði að byggja minna og ódýrara.  En þá vil ég benda á nokkur dæmi um hversu miklu það getur skilað að bjóða fólki upp á hagkvæmar vörur.

Kannst einhver við Ikea, Walmart eða Bónus?

Mín von er að aukið samstarf muni leiða til þess að við sjáum nýjar íbúðir auglýstar á næstu misserum á 300.000 kr. eða minna á fermetra.

Ýmsir hafa sagt við mig að það sé ekki mögulegt.

Mikið væri gaman ef íslenskur byggingariðnaður sýndi og sannaði að með samvinnu er allt mögulegt.

Líka að byggja ódýrara húsnæði fyrir íslenskar fjölskyldur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.10.2014 - 07:44 - Rita ummæli

Til hamingju með daginn!

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir réttindum kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar. Á morgun eru jafnframt 100 ár liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar og því ærin ástæða til að þakka þeim sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttunni. Munum þó að enn eigum við mikið verk að vinna.

Ég legg ríka áherslu á að við alla stefnumótun séu skoðuð ólík áhrif stjórnvaldsákvarðana á kynin. það verður gert við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu og þar verður jafnframt horft árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti.

Í samvinnu þessara aðila stendur yfir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals með þátttöku 21 fyrirtækis, sveitarfélaga og stofnanna.  Verkefninu lýkur í vor og vondandi sjá vinnustaðir sér þá hag í að innleiða staðalinn. Markmiðið er að auka gagnsæi og gæði launaákvarðana og stuðla þannig að jöfnum kjörum fyrir jafnverðmæt störf. Reglugerð um vottun jafnlaunakerfa samkvæmt staðilinum mun ég undirrita í dag en þar eru skilgreindar faglegar kröfur til vottunaraðila.

Á vegum aðgerðahóps um launajafnrétti er unnið að rannsókn á stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Háskóla Íslands og rannsókn á kynbundnum launamun í samstarfi við Hagstofuna. Niðurstöðurnar munu nýtast við langtímastefnumótun með það markmið að draga úr kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði sem m.a. stafar af kynbundnu námsvali í skólakerfinu.

Ég tel óhjákvæmilegt að ráðast í átaksverkefni til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa en auk þess að hafa áhrif á launmyndun og kynbundin launamun hefur kynbundið náms- og starfsval áhrif á möguleika einstaklinga að takast á við nám og starf í samræmi við vilja og hæfileika þar sem sumar leiðir virðast útilokaðar vegna staðlaðra hugmynda um kynhlutverk.

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24.10.2014)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.10.2014 - 12:42 - Rita ummæli

Húsum okkur upp með skynseminni

Enn fjölgar sveitarfélögum sem telja skort á leiguhúsnæði. Á höfuðborgarsvæðinu telur aðeins Garðabær að framboð leiguíbúða í sveitarfélaginu sé nóg. Samtímis eru um 1.800 manns á biðlista hjá sjö stærstu sveitarfélögunum, þorrinn á höfuðborgarsvæðinu.

Stuttu eftir að ég tók við ráðherraembætti minnti ég á júlísamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1965 um stórátak til að leysa brýnan húsnæðisskort. Samkomulagið var liður í lausn erfiðrar vinnudeilu og var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Benti ég á að í aðdraganda erfiðra kjarasamninga gætu samningar af þessum toga reynst skynsamlegir.

Verkalýðshreyfingin hefur nokkra reynslu af samkomulagi við atvinnurekendur um framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 náðist samkomulag við atvinnurekendur um að þeir greiddu árlega rúman einn milljarð króna í starfsendurhæfingarsjóði. Hvers vegna ekki að semja við atvinnurekendur um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar leiguhúsnæðis fyrir félagsmenn?

Í tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála eru gerðar ýmsar tillögur til að liðka fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til langtímaleigu til að lækka kostnað og auka hagkvæmni, meðal annars að vaxtaniðurgreiðslum verði breytt í stofnstyrki og með skattaívilnunum fyrir félögin. Unnið er að fjórum frumvörpum í velferðarráðuneytinu fyrir yfirstandandi þing sem öll styðja við þessar hugmyndir um nýtt júlísamkomulag.

Þessu til viðbótar má benda á að lífeyrissjóðirnir fjármagna stóran hluta húsnæðislána og í stjórnum þeirra sitja fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Því ætti að vera lag til að semja um hagstæða fjármögnun í þágu launafólks.

Í mínum huga er enginn betur til þess fallinn að stofna og reka leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir almenning í landinu en verkalýðsfélögin sjálf, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest. Þau hafa reynsluna, þau hafa árum saman rekið leigufélög í gegnum orlofssjóðina og þekkja hvernig á að standa að þessu.

Í dag koma saman fulltrúar verkalýðsfélaganna um allt land á ársfund ASÍ, kjósa sér forseta og marka stefnuna í aðdraganda kjarasamninga. Ég trúi því og treysti að niðurstaðan verði í þágu framtíðarinnar.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 22.október 2014)

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is