Miðvikudagur 10.6.2015 - 12:08 - Rita ummæli

Bætum stöðu leigjenda

Frumvarp mitt um húsnæðisbætur hefur verið lagt fram á Alþingi.  Því er ætlað að mæta breyttum veruleika íslenskra heimila.   Kostnaður fólks á leigumarkaði vegna húsaskjóls sem hlutfall af tekjum hefur hækkað verulega síðustu ár á meðan húsnæðiskostnaður fólks sem býr í eigin húsnæði hefur lækkað.  Á sama tíma hefur leigjendum fjölgað verulega.  Árið 2007 bjuggu rúm 15% fjölskyldna í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið í tæp 25%.  Staða þeirra er einnig mun erfiðari, en samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2013 voru rúm 22% leigjenda á almennum markaði undir lágtekjumörkum í samanburði við tæp 6% fjölskyldna í eigin húsnæði, sem sést hvað best í að meirihluti skjólstæðinga Umboðsmanns skuldara býr í leiguhúsnæði í dag.

Þessu hafa stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins lagt áherslu á að bæta úr í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, með því að auka stuðninginn við efnaminni fjölskyldur og einstaklinga og jafna opinberan húsnæðisstuðning til að skapa fólki raunverulegt val á milli ólíkra búsetuforma, þ.e. eignaríbúða, leiguíbúða eða búsetuíbúða.

Fyrsta skrefið verður nýtt húsnæðisbótakerfi.

Á meðfylgjandi töflu má sjá samanburð á grunnfjárhæðum húsaleigubóta og vaxtabóta í  núgildandi kerfi og dálknum lengst til hægri hverjar bætur til leigjenda verða í nýju húsnæðisbótakerfi.

Húsaleigubætur Vaxtabætur Húsnæðisbætur
Grunnfjárhæðir Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði Á ári Á mánuði
Einhleypur 264.000 22.000 400.000 33.333 372.000 31.000
Einstætt foreldri 1 barn 432.000 36.000 500.000 41.667 446.400 37.200
Einstætt foreldri 2 börn 534.000 44.500 500.000 41.667 539.400 44.950
Einstætt foreldri 3 börn 600.000 50.000 500.000 41.667 613.800 51.150
Barnlaus hjón 264.000 22.000 600.000 50.000 446.400 37.200
Hjón 1 barn 432.000 36.000 600.000 50.000 539.400 44.950
Hjón 2 börn 534.000 44.500 600.000 50.000 613.800 51.150
Hjón 3 börn 600.000 50.000 600.000 50.000 651.000 54.250

Þannig tryggjum við sanngirni á íslenskum húsnæðismarkaði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.6.2015 - 08:57 - Rita ummæli

Afnám hafta á mannamáli

Í gær var áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna kynnt í Hörpunni og þar sem áherslan var öll á þjóðarhagsmuni.  Að baki liggur gífurleg vinna og munum við seint getað fullþakkað öllu því góða fólki sem hefur unnið að þessu stóra verkefni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér áætlunina þá er hér myndband um afnám haftanna frá fjármálaráðuneytinu.

Hér er líka klippa af viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í þættinum Forystusæti fyrir Alþingiskosningarnar 2013, einnig þekkt sem „Svo ég segi það nú líklega í 5 skipti…“-viðtalið 😉

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.5.2015 - 16:57 - 5 ummæli

Risaskref í húsnæðismálum

Afar ánægjuleg tímamót urðu í dag þegar ríkisstjórnin samþykkti ráðstafanir sínar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.  Með þeim er risaskref tekið í húsnæðismálum á Íslandi, raunar stærsta skref sem stigið hefur verið í mörg ár.  Málið hefur verið ítarlega unnið og undirbúið í velferðarráðuneytinu, í mjög nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga og er nauðsynlegt og gott innlegg við gerð kjarasamninga.

Nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi verður myndað með áherslum á verulega fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða sem tryggja tekjulægri fjölskyldum og einstaklingum leiguhúsnæði til lengri tíma.  Kerfið verður fjármagnað með stofnframlagi frá ríki og sveitarfélögum og beinum vaxtaniðurgreiðslum sem nemur um 30% af stofnkostnaði. Þetta þýðir í reynd að leiga tekjulágs einstaklings verða ekki nema 20 – 25% af tekjum og er óþarfi að tíunda hversu mikil áhrif þetta hefur á leigumarkaðinn.  Fram til ársins 2019 verða byggðar um 2.300 félagslegar leiguíbúðir, eða allt að 600 á ári frá og með næsta ári og eftir það verður skoðað ítarlega hver þörfin verður. Áhersla verður lögð á hóflega stórar íbúðir, blandaða byggð og að kostnaður við byggingu húsnæðisins verði með sem hagkvæmustum hætti.  Jafnframt verður stuðlað að meira framboði og lægri leigu á almennum leigumarkaði með því að breyta skattlagningu leigutekna hjá einstaklingum. Með þessum aðgerðum getum við sagt að við náum þeim markmiðum sem ég hef stefnt að; að tryggja raunhæfan valkost á húsnæðismarkaði þar sem efnahagur er ekki lykilatriði, en öruggt húsnæði fyrir alla er í fyrirrúmi.

Ég hef líka lagt á það áherslu að hækka húsnæðisbætur. Það verður nú að veruleika á árunum 2016 og 2017 þegar ekki aðeins grunnfjárhæðin verður hækkuð ásamt frítekjumarkinu, heldur munu bætur miðast við hversu margir eru í heimili. Hækkun húsnæðisbóta mun styrkja verulega stöðu efnaminni leigjenda á markaði og jafna stöðu leigjenda og eigenda að íbúðarhúsnæði, um það er ekki nokkur vafi.

Einn er sá þáttur sem aldrei má vanmeta í þessu sambandi, en það er hvernig hægt er að aðstoða fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði. Á þessu er tekið með afgerandi hætti í tillögunum, því ákveðið hlutfall af tekjum í ákveðinn tíma verður hægt að nota skattfrjálst til fyrstu íbúðakaupa. Sett verða sérstök lög um fasteignalán og lánveitendur fá svigrúm til að horfa til fleiri þátta en eingöngu hver niðurstaða greiðslumatsins er.

Hálf öld er nú frá því að stór skref voru stigin í tengslum við kjarasamninga þar sem húsnæðismálin spiluðu jafn stórt hlutverk og nú.  Árið 1965 var uppbygging nýs hverfis tengd kjarsamningum; það var Breiðholtið. Fyrst Neðra-Breiðholt og síðar Fella- og Hólahverfi. Það var stórt skref.  Nú er tekið risaskref til framtíðar með nýju félagslegu kerfi, gríðarlegri uppbyggingu, stöðugleika á leigumarkaði og löngu tímabæru réttlæti fyrir hina efnaminni.

Framtíðin byrjar núna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.5.2015 - 14:28 - 2 ummæli

Pappakassar á 63 milljónir

Við fjölskyldan höfum flutt æði oft í gegn um árin og í hvert sinn hefur búslóðinni verið pakkað í kassa og tekin upp á nýjum stað. Alltaf voru þó nokkrir kassar sem fóru óopnaðir úr geymslu í flutningabílinn og úr honum inn í nýju geymsluna. Í þeim mátti finna ýmsa hluti sem okkur fannst við tengd nánum tilfinningaböndum.  Það voru einkunnablöð úr grunnskóla, gömul handavinna og ritgerðir sem við höfðum verið sérstaklega stolt af, uppáhalds kjólarnir af stelpunum þegar þær voru litlar, tónleikamiðar með uppáhaldshljómsveitinni og fleira.  Þeir voru aldrei opnaðir, heldur fluttir, tryggilega lokaðir, milli íverustaða, aftur og aftur.

Pappakassarnir okkar þurftu sína fermetra og um tíma leigðum við jafnvel sérstaka geymslu undir þá því ekki var nægt pláss í íbúðinni sem við bjuggum í þá stundina.

Ég fór að hugsa um pappakassana mína þegar ég las frétt í Morgunblaðinu um hvað verktaki í Garðabæ hafði gert til að lækka kostnað við íbúðarblokk sem hann var að byggja.  Leiðin sem hann fór var að minnka íbúðirnar en halda herbergjafjölda.  Þannig voru íbúðirnar áfram tveggja, þriggja, fjögurra og fimm herbergja en fermetrum var fækkað í eldhúsum, stofum og baðherbergjum og þvottahús og baðherbergi sameinuð til að gera íbúðirnar minni og ódýrari.

Með því lækkaði verðið á 3-4 herbergja íbúðum á tiltölulega dýru svæði úr um 40 milljónum króna í um 30-35 milljónir króna.  Tíu milljónir króna sem teknar eru að láni undir pappakassa og annað mikilvægt dót verða að tæplega 63 milljónum króna yfir 30 ára tímabil skv. reiknivél Íslandsbanka (verðtryggt húsnæðislán með vaxtaendurskoðun, 3,95% vöxtum og miðað við meðaltals ársverðbolgu s.l. 10 ár).

Er þess virði að borga allt að 63 milljónir undir pappakassa með gömlu dóti?

Svarið mitt er nei, – ekki hvað síst eftir að ég var minnt á hvað það er sem raunverulega skiptir máli þegar kviknaði í heimili mínu fyrir síðustu jól.

Þar voru einu tilfinningaböndin sem skiptu máli þau sem snéru að manninum mínum, dætrum mínum, kettinum og þeim góðu ættingjum og vinum sem voru tilbúin að hjálpa okkur á allan mögulegan máta.

Ekki hvað síst hvað varðaði húsaskjól.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.5.2015 - 16:26 - 7 ummæli

Öll heimili landsins, – ekki bara sum

Um hvað snúast húsnæðisfrumvörpin? Þau snúast um einstæða móður með tvö börn á örorkubótum sem býr í 50 fm2 íbúð í kjallara og hefur ekki efni á að flytja vegna hás leiguverðs.  Um eldri konu sem vill selja íbúðina sína áður en allt eigið fé hverfur í frystingu lána, en veit að það eina sem blasir við er gatan eða sófinn hjá fullorðnum börnunum eftir að hafa leitað að leiguíbúð mánuðum saman.  Um námsmann sem þakkar fyrir að fá að leigja hluta af bílskúr ættingjans þar sem allt er fullt á stúdentagörðunum.  Um foreldra fatlaða piltsins sem eru farnir að huga að því hvar hann eigi að búa til framtíðar og fá þær upplýsingar að mörg ár séu þar til komi að honum á biðlistanum.  Um barnafjölskylduna á verkamannakaupi sem hefur flutt aftur og aftur á síðustu árum með tilheyrandi róti og kostnaði þar sem langtímaleiga er varla orð sem þekkist á íslenskum leigumarkaði.

Þetta er fólkið sem segir hingað og ekki lengra.

Fólkið sem við verðum einfaldlega að huga að ef Ísland á að teljast velferðarsamfélag.

Þetta er markmiðið með vinnu að uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins.  Að tryggja að öll heimili landsins, ekki bara sum, njóti góðs af auknum kaupmætti og hagvexti í landinu. Það gerum við með því að fjölga ódýrum og hagkvæmum íbúðum og auknum húsnæðisstuðningi.

Við þurfum að styðja við öll heimili landsins, en fyrst og fremst þurfum við að styðja við þau efnaminni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.5.2015 - 18:16 - 1 ummæli

Ekki fallið frá frumvarpi um stofnframlög

Ég hef ekki fallið frá áformum sínum um að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði. Fréttir fjölmiðla um að frumvarpið hafi verið dregið til baka eiga ekki við rök að styðjast.

Í umfjöllun um húsnæðismál hef ég ítrekað vísað til þess að stjórnvöld verði að standa fyrir aðgerðum sem orðið geta til þess að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði, meðal annars með því að styðja við uppbyggingu á virkum leigumarkaði.  Ég hef einnig sagt að slíkar aðgerðir gætu orðið til þess að greiða fyrir kjarasamningum og þau mál hafa verið til skoðunar að undanförnu. Ekki er hægt að segja fyrir hvort breytingar verði gerðar á frumvarpinu en það mun skýrast á næstunni. Reynslan kennir að framfarir í félagslega húsnæðiskerfinu verða ekki án aðkomu verkalýðshreyfingarinnar og fyrir baráttu hennar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.5.2015 - 13:07 - 8 ummæli

Að lifa á dagvinnunni

„Við getum lifað á dagvinnulaununum.  Hér er ég búinn í vinnunni um 3 eða 4, mættur á æfingu hjá börnunum, og get sinnt fjölskyldunni miklu betur.“  sagði félagi minn þegar ég spurði hver væri helsti munurinn á því að búa í Noregi og á Íslandi.  Þar væri hægt að lifa á dagvinnulaununum og yfirvinna væri undantekning frekar en regla.

Þessi punktur kom svo aftur og aftur upp í samtölum mínum við brottflutta Íslendinga.

Er hægt að gera þetta á Íslandi?

Heildarvinnuálag hjá íslenskum fjölskyldum er mikið og ekki hvað síst hjá íslenskum mæðrum sem oft sinna í reynd tveimur störfum, annars vegar vinnu utan heimilis og svo fullu starf og gott betur við heimilisstörf og uppeldi barna.

Dagvinnulaun hafa verið lág, og við höfum í gegnum tíðina bætt okkur það upp með mikilli vinnu.  Langur vinnutími leiðir til minni framleiðni og skertra lífsgæða fyrir fjölskyldurnar.

Ég held að við séum ansi mörg sem myndu vilja sjá íslenskt samfélag verða meira fjölskylduvænt, þar sem við vinnum saman að því að hækka dagvinnulaun, auka framleiðni og stytta heildarvinnutímann.

PS Athugið að athugasemdir eru samþykktar inn og það getur dregist. Það er einnig hægt að gerast Facebook vinur minn og skilja eftir ummæli, eða „follow“ Twitter síðu mína.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.5.2015 - 12:35 - 2 ummæli

Kvikmyndir og konur

Í tengslum við síðustu Eddu, uppskeruhátíð kvikmyndagerðafólks á Íslandi, kom fram að engin kona var leikstjóri, handritshöfundur, kvikmyndatökumaður eða höfundur tónlistar í kvikmynd í fullri lengd árið 2014.

Þetta endurspeglar ekki aðeins stöðu kvenna í kvikmyndagerð hér á landi heldur víða annars staðar.

Kynjahallinn verður til dæmis sláandi þegar Bechdel prófinu er beitt á kvikmyndir.  Það spyr einfaldlega hvort til staðar séu allavega tvær konur sem eiga samtal við hvor aðra um eitthvað annað en karl.  Stundum er bætt við að konurnar verða að hafa nafn.

bechdel_test

Talið er að nær helmingur allra nútíma kvikmynda falli á þessu einfalda prófi.

Þar á meðal öll Hringadróttinssaga Peter Jackson ( og bækurnar sjálfar) og upprunalegu Star Wars myndirnar.

Hversu margar af íslensku kvikmyndunum myndu ná þessu prófi?

PS Athugið að athugasemdir eru samþykktar inn og það getur dregist. Það er einnig hægt að gerast Facebook vinur minn og skilja eftir ummæli, eða „follow“ Twitter síðu mína.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2015 - 12:03 - 1 ummæli

Vikulokin 18. apríl 2015

Ræddi við Helga Seljan síðastliðinn laugardag í Vikulokunum.

Ýmislegt bar á góma, ekki hvað síst stór mál er tengjast stöðunni á vinnumarkaðnum og húsnæðismálin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2015 - 11:58 - Rita ummæli

Búum til kerfi fyrir fólkið í landinu

(Viðtalið birtist fyrst í Tímanum, 11. apríl 2015):

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur verið mikið í fréttunum síðustu vikur og misseri. Velferðarmálin hafa enda verið fyrirferðarmikil í umræðunni og síðustu mánuði hefur athyglin beinst í auknum mæli að málaflokkum sem falla undir hana og hennar ráðuneyti. Nægir þar að nefna húsnæðismálin, málefni aldraðra, fatlaðra, bótakerfið, kjaramálin og málefni innflytjenda.

Sitt sýnist hverjum um hvernig staða mála er hvað þessa flokka varðar og gagnrýnendur hennar, til að mynda í stjórnarandstöðunni, hafa verið ósparir á stóru orðin um hversu lengi það hefur tekið fyrir sum málin að koma fram.  Eygló hefur hins vegar staðið föst á sínu og ítrekað sagt það sama; að betra sé að vinna þessi stóru mál vel og ítarlega en að flýta sér fram með hrákasmíð sem dugi skammt. En hvernig hefur henni fundist þessi gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Alþingi á hennar störf?

„Ég tek henni ekki persónulega, enda veit ég sem er að stjórnarandstaðan er einungis að vinna sína vinnu og í henni felst að veita okkur ráðherrum aðhald og reyna að finna veilur og galla á þeim málum sem við leggjum fram. Hins vegar get ég alveg viðurkennt að mér hefur á stundum fundist gagnrýnin byggjast á því einu að gagnrýna og þingmenn stjórnarandstöðunnar gleymi því að við eigum að reyna að vinna saman að þjóðþrifamálum, þeim málum sem koma sem flestum til góða. Ég einsetti mér þegar ég kom í þetta ráðuneyti að vinna grunnvinnuna vel, í raun byggja góðan grunn, því á honum mun þetta allt standa. Það tekur tíma að gera grunninn það sterkan og vandaðan að hann geti staðið undir öllum þeim þunga sem á honum mun hvíla. Óþolinmæði og stundarvinsældir eru ekki eitthvað sem ég tel til heilla, hvorki fyrir stjórnmálamenn né þjóðina,“ segir Eygló og það er þungi í orðum hennar.

Það hefur verið beðið eftir aðgerðum í húsnæðismálum með talsverðri óþreyju.

„Auðvitað hefði ég viljað koma fram með stóru málin fyrr en raun bar vitni. En við erum að tala um meiriháttar endurskoðun á málefnum sem skipta fólkið í landinu höfuðmáli. Heimili hvers og eins skiptir svo miklu máli. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum okkar, að eiga samastað fyrir fjölskylduna.  Sumir leggja ofuráherslu á að eignast sitt húsnæði, aðrir vilja frekar leigja. Báðir þessir hópar vilja þó sama hlutinn; val og öryggi á húsnæðismarkaði og fjárhagslegt bolmagn til að tryggja örugga og bjarta framtíð.“

Og Eygló kemur með nýja sýn á þennan stóra og mikilvæga málaflokk.

„Alltof lengi hefur mér fundist að stjórnvöld séu að reyna að troða öllum í fyrirfram mótaða og skilgreinda kassa.  Að kassarnir séu höfuðatriðið og að fólk verði með einhverju móti að koma sér inn í þá. Þessu er ég algjörlega ósammála og ég vil að við tökum skref til baka og horfum á þetta frá öðru sjónarhorni. Horfum frekar á fólkið í landinu, áttum okkur á hverjar eru þarfir þess og búum svo til kerfi sem hæfir fólkinu. Við verðum að gæta að því, ekki síst þegar við ráðumst í breytingar, að allir, sama hvar þeir búa, hafi sömu möguleika og sömu tækifæri. Þetta verðum við stjórnmálamenn einfaldlega að tryggja.“

En hver eru stóru markmiðin hjá þér í húsnæðismálunum?

„Við viljum fyrst og fremst treysta grunninn. Gefa öllum möguleika á að búa við öryggi í húsnæði sem hentar þeim.  Það segir enda að húsnæðisstefnan byggi á séreignarstefnu en stuðningi við húsnæðiskostnað heimilanna eigi að haga þannig að bæði einstaklingar og fjölskyldur geti valið sér búsetuform.  Þetta eru stór orð en þau skipta gríðarlega miklu máli.  Þetta kemur inn á það sem ég talaði um áðan, að allir eigi möguleika á að velja sér búsetuform og búa við öryggi. Þetta er grunnþörf og á slíkum þörfum eigum við ekki að gefa afslátt.

Við viljum líka styðja betur við tekjulág heimili, sérstaklega við þá sem eru að koma sér fyrir á húsnæðismarkaði í fyrsta sinn. En það þarf að varast gildrur sem þar geta leynst, ekki síst að stuðningurinn leiði beint eða óbeint til þess að þessir aðilar reisi sér hurðarás um öxl, skuldsetji sig of mikið og ráði að lokum ekki við afborganir og skuldir. Það er engum greiði gerður með því að lána of mikið. Það ættum við Íslendingar að þekkja þjóða best þegar við horfum nokkur ár aftur í tímann. “

Í húsnæðisstefnunni er líka tala um sjálfbært fjármögnunarumhverfi á húsnæðismarkaði.

„Já, við teljum það mikilvægt en á sama tíma leggjum við áherslu á að búseta ráði því ekki hvort fjármögnun fáist eða ekki. Þar á að ríkja jafnræði; fjármálastofnanir eiga ekki að stýra því hvar fólk býr. Að sama skapi teljum við að stuðningurinn eigi að vera fjölbreyttur, hann taki mið af mismunandi búsetuformi, eftir því hvort verið sé að kaupa húsnæði eða leigja.  Er ekki eðlilegt að horfa til þess að samræma enn betur hina mismunandi flokka húsnæðisbóta á borð við vaxtabætur eða húsaleigubætur og að þær byggi á sömu viðmiðum? Ég held að allir þeir sem horfi á þennan þátt séu sammála því. Kerfið verður að vera sveigjanlegt, rétt eins og þarfir fólks.“

Og Eygló bætir við:

„Við eigum að þora að skoða nýja hluti og koma til móts við þarfir fólksins í landinu. Hvernig getum við stutt við fyrstu kaup unga fólksins? Við getum til að mynda fest í sessi skattlausa úttekt séreignarsparnaðar í upphafi heimilisrekstursins. Þar væri t.d. hægt að horfa til sparnaðar í að minnsta kosti fimm ár sem síðan myndaði eigið fé sem lagt yrði fram við fyrstu íbúðakaupin og ríkið myndi styðja enn frekar við það með sérstökum stofnstyrki til unga fólksins sem væri að kaupa í fyrsta sinn eigið heimili.

Og Eygló talar líka um félagslegt stofnframlag fyrir þá sem verst standa.

„Það framlag er hugsað sem viðbót við félagslega niðurgreiðslu vaxta. Við vitum að það er mikil eftirspurn eftir félagslegu húsnæði víða um land og þetta er eitt af því sem kemur upp í flestum samtölum mínum við sveitarstjórnir. Félagslega stofnframlagið gæti til að mynda verið 4 milljónir króna á hverja íbúð en þó aldrei hærra en 20%. Sveitarfélögin myndu setja 10% sem sitt mótframlag og þannig gætu einstaklingar eða fjölskyldur sem eru í félagslegum eða fjárhagslegum vanda átt auðveldar með að koma sér þaki yfir höfuðið. Undir þetta gætu námsmenn, aldraðir, fatlaðir eða þeir sem eru undir ákveðnum tekjumörkum fallið.“

Hún bendir á að endurskoða þurfi fjölmarga þætti í þessu málaflokki og nefnir sem dæmi gjöld til sveitarfélaga.

„Já, þau hafa átt verulegan þátt í því síðustu árin að byggingarkostnaður hefur aukist langt umfram það sem eðlilegt getur talist.  Lóðaverð er oft á tíðum óraunhæft en sveitarfélögin hafa líka stundum notað liði á borð við gatnagerðargjöld til annars en útbúa lóðir, götur og holræsi. Það er ekki eðlilegt að lóðaverð sé nú komið yfir 15% af byggingarkostnaði þegar það var óverulegur hluti hans fyrir aðeins nokkrum árum.“

Það hefur ekki farið fram framhjá nokkrum þeim sem fylgst hefur með málflutningi Eyglóar að hún þekkir vel til þeirra sem eru á leigumarkaði.

„Já, ég hef verið á leigumarkaði sjálf um nokkurra ára skeið og þekki því það óöryggi sem þar ríkir.  Auðvitað hef ég sterkar skoðanir á þessum þætti og ég vil leggja mitt af mörkum til að tryggja aukið framboð leiguíbúða. Við getum gert margt á þeim vettvangi en ég nefni hér aðeins tvennt; lækka skattlagningu á tekjur af leiguíbúðum í eigu einstaklinga, t.d. með hærra frítekjumarki og hins vegar styrkja þann grunn sem fasteignafélög geta byggt á til að auka framboð leiguhúsnæðis.  Við sjáum þetta í löndum allt í kringum okkur að þar sjá fasteignafélög hag í því að búa til langtímasamband milli þeirra og leigjenda. Það skapar öryggi fyrir báða aðila. Af hverju getur það ekki gengið hér á landi líka?“ segir Eygló Harðardóttir að lokum.

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is