Föstudagur 24.10.2014 - 07:44 - Rita ummæli

Til hamingju með daginn!

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir réttindum kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar. Á morgun eru jafnframt 100 ár liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar og því ærin ástæða til að þakka þeim sem ruddu brautina í jafnréttisbaráttunni. Munum þó að enn eigum við mikið verk að vinna.

Ég legg ríka áherslu á að við alla stefnumótun séu skoðuð ólík áhrif stjórnvaldsákvarðana á kynin. það verður gert við mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu og þar verður jafnframt horft árangurs af samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í aðgerðahópi um launajafnrétti.

Í samvinnu þessara aðila stendur yfir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals með þátttöku 21 fyrirtækis, sveitarfélaga og stofnanna.  Verkefninu lýkur í vor og vondandi sjá vinnustaðir sér þá hag í að innleiða staðalinn. Markmiðið er að auka gagnsæi og gæði launaákvarðana og stuðla þannig að jöfnum kjörum fyrir jafnverðmæt störf. Reglugerð um vottun jafnlaunakerfa samkvæmt staðilinum mun ég undirrita í dag en þar eru skilgreindar faglegar kröfur til vottunaraðila.

Á vegum aðgerðahóps um launajafnrétti er unnið að rannsókn á stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við Háskóla Íslands og rannsókn á kynbundnum launamun í samstarfi við Hagstofuna. Niðurstöðurnar munu nýtast við langtímastefnumótun með það markmið að draga úr kynjaskiptingu starfa á íslenskum vinnumarkaði sem m.a. stafar af kynbundnu námsvali í skólakerfinu.

Ég tel óhjákvæmilegt að ráðast í átaksverkefni til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa en auk þess að hafa áhrif á launmyndun og kynbundin launamun hefur kynbundið náms- og starfsval áhrif á möguleika einstaklinga að takast á við nám og starf í samræmi við vilja og hæfileika þar sem sumar leiðir virðast útilokaðar vegna staðlaðra hugmynda um kynhlutverk.

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24.10.2014)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.10.2014 - 12:42 - Rita ummæli

Húsum okkur upp með skynseminni

Enn fjölgar sveitarfélögum sem telja skort á leiguhúsnæði. Á höfuðborgarsvæðinu telur aðeins Garðabær að framboð leiguíbúða í sveitarfélaginu sé nóg. Samtímis eru um 1.800 manns á biðlista hjá sjö stærstu sveitarfélögunum, þorrinn á höfuðborgarsvæðinu.

Stuttu eftir að ég tók við ráðherraembætti minnti ég á júlísamkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1965 um stórátak til að leysa brýnan húsnæðisskort. Samkomulagið var liður í lausn erfiðrar vinnudeilu og var samið um byggingu 1.250 íbúða fyrir lágtekjufólk í Reykjavík. Benti ég á að í aðdraganda erfiðra kjarasamninga gætu samningar af þessum toga reynst skynsamlegir.

Verkalýðshreyfingin hefur nokkra reynslu af samkomulagi við atvinnurekendur um framlög í fræðslusjóði, orlofssjóði og sjúkrasjóði og síðast árið 2011 náðist samkomulag við atvinnurekendur um að þeir greiddu árlega rúman einn milljarð króna í starfsendurhæfingarsjóði. Hvers vegna ekki að semja við atvinnurekendur um sérstakt framlag í húsnæðissjóði á vegum verkalýðsfélaganna til uppbyggingar leiguhúsnæðis fyrir félagsmenn?

Í tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála eru gerðar ýmsar tillögur til að liðka fyrir starfsemi húsnæðisfélaga sem byggja eða kaupa íbúðir til langtímaleigu til að lækka kostnað og auka hagkvæmni, meðal annars að vaxtaniðurgreiðslum verði breytt í stofnstyrki og með skattaívilnunum fyrir félögin. Unnið er að fjórum frumvörpum í velferðarráðuneytinu fyrir yfirstandandi þing sem öll styðja við þessar hugmyndir um nýtt júlísamkomulag.

Þessu til viðbótar má benda á að lífeyrissjóðirnir fjármagna stóran hluta húsnæðislána og í stjórnum þeirra sitja fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. Því ætti að vera lag til að semja um hagstæða fjármögnun í þágu launafólks.

Í mínum huga er enginn betur til þess fallinn að stofna og reka leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir almenning í landinu en verkalýðsfélögin sjálf, ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er hvað mest. Þau hafa reynsluna, þau hafa árum saman rekið leigufélög í gegnum orlofssjóðina og þekkja hvernig á að standa að þessu.

Í dag koma saman fulltrúar verkalýðsfélaganna um allt land á ársfund ASÍ, kjósa sér forseta og marka stefnuna í aðdraganda kjarasamninga. Ég trúi því og treysti að niðurstaðan verði í þágu framtíðarinnar.

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 22.október 2014)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.10.2014 - 18:00 - Rita ummæli

Háholt og ungir fangar

Mikil umræða hefur verið um málefni Barnaverndarstofu og Háholts í fjölmiðlum síðustu daga. Þessi tímalína er tekin saman þar sem misvísandi upplýsingar hafa komið fram um ákvarðanir er tengjast tímabundnum samningi Barnaverndarstofu og Háholts.

16. nóvember 2012 Fundur Barnaverndarstofu (BVS) og Velferðarráðuneytisins (VEL).  Rætt er um Háholt.  Ráðherra óskar eftir skýrslu frá BVS um þróun, stöðu og horfur í meðferð barna og unglinga.

19. desember 2012 Skýrsla til Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra frá BVS. „…Mest hefur eftirspurn eftir meðferð á Háholti skroppið saman… Á hinn bóginn er ljóst að engin önnur úrræði eru til staðar sem gætu gagnast þeim börnum sem vistast á Háholti eins og nú háttar. Hugsanleg lokun meðferðarheimilisins kemur því vart til álita án þess að úrræði sem duga séu í augsýn.“

20. febrúar 2013  Alþingi samþykkir frumvarp Helga Hjörvars um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns. Ekki var gert kostnaðarmat og í greinargerð með frumvarpinu er talið að samþykkt laganna myndi breyta litlu um vistun ungra fanga. Í nefndaráliti er aðeins nefnt að kostnaðarmat liggi ekki fyrir.

3. apríl 2013 Fyrirspurn frá BVS til innanríkisráðuneytisins (IRR) v/ nýrra lagaákvæða sem fólust í Barnasáttmála SÞ.  Gera þurfi breytingar á a.m.k. einu meðferðarheimili BVS.  BVS upplýsir að BVS og VEL séu að skoða breytingu og styrkingu meðferðarheimilisins að Háholti í Skagafirði.

26. apríl 2013 VEL upplýsir BVS um að ætlunin sé að funda með IRR, Fangelsismálastofnunar og BVS til að fara yfir verklag og nauðsynlegar breytingar á aðstæðum á heimili Barnaverndarstofu vegna fullnustu refsinga barna og til að undirbúa reglugerð.

24. júní 2013 BVS upplýsir  VEL um nýjan samning. „Gert var ráð fyrir því að um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða og því var samið til skamms tíma, þ.e.a.s. til loka árs 2013. Sú hugsun lá að baki að á þessu tímabili kæmi frekar í ljós hver raunveruleg eftirspurn eftir meðferðarrýmum væri og jafnframt hvort Háholti yrði falið það hlutverk að taka á móti föngum sem dæmir væru til afplánunnar óskilorðsbundinna fangelsisdóma… Aðilar telja að rekstrarlegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri meðferðarheimilisins séu ekki fyrir hendi nema til komi nýtt hlutverk fyrir heimilið sem gæti gerst ef því yrði falið það hlutverk að annast framkvæmd aplánunar refsivistar fanga yngri en 18. ára.“

10. júlí 2013 BVS sendir fyrirspurn til IRR um hvort ætlunin sé að nema úr gildi lögfestingu Barnasáttmála SÞ  um vistun ungra fanga, sbr. c) lið 37. gr. sáttmálans.

11. júlí 2013 IRR staðfestir við BVS að rætt hefur verið um að fresta gildistöku ákvæðisins um vistun ungra fanga.  Rökstutt að núverandi úrræði BVS dugi ekki til og staðan í ríkisfjármálunum erfið.  Fram koma efasemdir IRR um vistunarúrræði fyrir unga fanga á landsbyggðinni.

19. júlí 2013 Forstjóri BVS svarar IRR og mótmælir hugmyndum um að hreyfa við ákvæðinu og ítrekar Háholt sem bráðabirgðalausn: „…hér er um mál að ræða sem Ísland hefur undirgengist með alþjóðasamþykktum, ekki einungis vegna Barnasamnings Sþ. sem Ísland fullgilti með fyrirvara á sínum tíma, heldur jafnframt á vettvangi Evrópuráðsins enda þó ekki séu bindandi… Þessi útfærsla miðar við að Háholt í Skagafirði taki að sér afplánunarmálin og að Stuðlar sinni gæsluvarðhaldi.  Ég álít þessa lausn fullkomlega boðlega sem bráðabirgðalausn þar til úr rætist í fjárhagsmálefnum ríkisins.“

7. október 2013 IRR svarar VEL þar sem fallist er á bráðabirgðatillögu BVS um vistun ungra fanga og upplýsir VEL.

18. október 2013 BVS leggur áherslu við VEL á opnun meðferðarstofnunar sem uppfylli margþættar faglegar kröfur um meðferðarvinnu og samfélagslega aðlögun og að slík stofnun verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu til að sinna ungum föngum og eldri fíkniefnaneytendum.

8. nóvember 2013 Bréf sent frá VEL til BVS þar sem stofnuninni er falið að ganga til viðræðna um endurnýjun samnings um rekstur meðferðarheimilisins Háholt. Erindið byggir á að heimilið taki að sér að vista fanga undir átján ára aldri.

18. nóvember 2013  Fundur í VEL með BVS.  Af hálfu ráðuneytisins kom fram að forsendur til þess að leita samninga um áframhaldandi rekstur Háholts byggðist á þeim þætti er tengist afplánun ungra fanga.  BVS var minnt á að hugmyndin um samnýtingu (meðferðarheimili – afplánun) var fyrst hreyft af BVS.

31. nóvember 2013 BVS leggst nú gegn samningi við Háholt og endurnýjun þjónustusamnings.  Í staðinn eigi að ráðstafa þeim fjármunum í Stuðla og nýja meðferðarstofnun á höfuðborgarsvæðinu sem sinni börnum sem dæmd eru í gæsluvarðhald, afplána óskilorðsbundna dóma og vímuefnaneytendur sem geta ekki nýtt sér hefðbundin meðferðartilboð.

6. febrúar 2014 VEL svarar ábendingum Ríkisendurskoðunar.  Þar er greint frá tímabundnu úrræði sem er í undirbúningi vegna lögfestingar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Við gildistöku var ekki lengur heimilt að vista börn í fangelsi með fullorðnum.  Bent er á að lagasetninguna hafi borið að með það skömmum fyrirvara að afplánunarúrræði voru ekki tiltæk við gildistöku laganna.  Í því skyni að undirbúa tímabundna úrlausn varðandi vistun ungra fanga fól velferðarráðuneytið BVS að ganga til viðræðna um endurnýjun samnings um rekstur meðferðarheimilisins Háholt.

7. febrúar 2014 Ráðherra kynnir hugmyndir um gagngerar kerfisbreytingar til að tryggja börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir, fíkniefnavanda eða fjölþætt vandamál viðeigandi úrræði.  Mun það endurspeglast í nýrri framkvæmdaáætlun um barnavernd sem ráðherra hyggst leggja fram.

25. september 2014 Nefnd er skipuð til að endurskoða stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar.  Þar undir falla verkefni sem BVS sinnir nú. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur til ráðherra að einstökum verkefnum  og starfsstöðvum nýrrar stofnunar.  Engar ákvarðanir hafa verið teknar en stefnt að því að nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir páska.  BVS er boðið að taka þátt í þessari vinnu. Endanleg ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag um vistun ungra fanga verður svo tekin í samráði við innanríkisráðuneytið líkt og núverandi bráðabirgðalausn.

3. október 2014 Starfsfólk BVS bregst hart við hugmyndum um umfangsmikla endurskipulagningu á stjórnsýslu barnaverndarstarfs og félagsþjónustu.  Ítrekað er að engin ákvörðun hefur verið tekin og starfsfólk virðist ekki hafa verið upplýst um að BVS hafi verið boðið að taka þátt í þessari vinnu af hendi VEL.

6. október 2014 Fréttablaðið birtir frétt um að gera eigi samning við Háholt gegn vilja barnaverndaryfirvalda.  Í fréttinni kemur fram að Fréttablaðið hafi gögn undir höndum sem sýni samskipti BVS og VEL þess efnis.

Athugið: Samantektin er mín og byggir á gögnum málsins.  Tilvitnanir eru í gæsalöppum.

Flokkar: Barnavernd · Óflokkað

Miðvikudagur 8.10.2014 - 15:23 - Rita ummæli

Svör mín um þrýsting

Í dag kemur fram í Fréttablaðinu að svör mín hafi ekki verið skýr við spurningu um hvort ég hafi verið beitt þrýstingi vegna ákvörðunar um að semja tímabundið við Háholt.

Hér eru svörin mín sem voru send í gærkvöldi á Fréttablaðið.

Hefur þú fundið fyrir þrýstingi frá þingmönnum í norðvesturkjördæmi, aðilum í sveitastjórn Skagafjarðar, alþingismönnum eða ráðherrum, varðandi að halda starfsemi meðferðarheimilisins Háholts gangandi og endurnýja þjónususamning við Barnaverndarstofu ? Að fækka ekki opinberum störfum í héraðinu enn frekar en verið hefur?

Hvernig rökstyður þú að það sé grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri Háholts þegar nýtingarhlutfall heimilisins er eins lágt og raun ber vitni og Barnaverndarstofa mælir gegn endurnýjun samnings?

Hvers vegna leggst velferðarráðuneytið gegn ákvæði um nýtingarhlutfall í þjónustusamningum við meðferðarheimili þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun segi „mikilvægt að Barnaverndarstofa setji sem skráða reglu um hversu lágt nýtingarhlutfall meðferðarheimila má fara og í hve langan tíma það má standa til að stofan telji rétt að segja upp þjónustusamningum á grundvelli ónógrar eða dvínandi eftirspurnar. Vísa þarf til þessarar reglu í samningum,“ eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunna um þjónustusamninga Barnaverndarstofu og lok þeirra sem kom út í september.

Þar kemur fram að Barnaverndarstofa er sammála Ríkisendurskoðun en geti ekki annað en hlýtt tilmælum ráðuneytisins um að hafa ekki slíkt ákvæði. Samanber: „Einnig hefur ráðuneytið við gerð samninga um rekstur meðferðarheimila beint þeim tilmælum til Barnaverndarstofu um að ekki skuli kveðið á um lágmarksnýt-ingu í samningi. Vísar Barnaverndarstofa í þessu sambandi til nýlegra tilmæla í tengslum við fyrirhugaðan samning við rekstraraðila Háholts í Skagafirði. Barnaverndarstofa telur ekki annað fært en að hlíta slíkum fyrirmælum við gerð samninga.“

Svar mitt er:

Það eru ætíð skiptar skoðanir á öllum verkefnum velferðarráðuneytisins. Það gildir að sjálfsögðu líka um staðsetningu opinberra starfa óháð því hvort um er ræða til dæmis starfsstöð Vinnueftirlitsins í Hveragerði, staðsetningu höfuðstöðva nýrrar stjórnsýslustofnunar, starfsstöð Vinnumálastofnunar á Húsavík og starfsemi Háholts í Skagafirði.

Í niðurstöðum nefndar um réttindi barnsins um framkvæmd Barnasáttmála SÞ hér á landi frá árinu 2003 er mælst til þess að börn í varðhaldi séu haldin aðskilin frá fullorðnum. Jafnframt höfðu komið fram ábendingar frá Evrópuráðinu sama efnis. Í febrúar árið 2013 samþykkti Alþingi frumvarp þingmannsins Helga Hjörvars að lögfesta Barnasáttmála SÞ og að börnum yrði haldið aðskildum frá fullorðnum í fangelsi. Fram kom í frumvarpinu að nauðsynlegt væri að útbúa sérstaka einingu á einu af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu sem væri þannig útbúin að hægt væri að vista þar fanga undir lögaldri.

Til að bregðast við samþykkt Alþingis var það tillaga barnaverndaryfirvalda að Háholt í Skagafirði tæki að sér afplánunarmálin og Stuðlar gæsluvarðhald. Í gögnum málsins kemur fram að barnaverndaryfirvöld töldu að þessi úrlausn væri fullkomlega boðleg sem bráðabirgðalausn þar til úr rætist í fjárhagsmálefnum ríkisins. Samhliða yrði unnið að framtíðarfyrirkomulagi. Best væri að ekkert barn væri dæmt til fangelsisvistar á Íslandi, en ef og þegar það gerist verður sérstök eining að vera til staðar í samræmi við alþjóðlega samninga og samþykkt Alþingis. Niðurstaðan er að leysa þetta til bráðabirgða með þessum hætti í samræmi við tillögur barnaverndaryfirvalda. Jafnframt er settur fyrirvari í tímabundinn samning við Háholt um framtíðarskipan á vistun ungra fanga.

Hvað framtíðarlausn varðar þá hefur verið skipuð nefnd um heildarendurskoðun á stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar. Undir það falla verkefni sem nú eru á höndum Barnaverndarstofu. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur til ráðherra að einstökum verkefnum og starfsstöðvum nýrrar stofnunar. Endanleg ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag um vistun ungra fanga verður svo tekin í samráði við innanríkisráðuneytið líkt og núverandi bráðabirgðalausn.

(Fjölmiðilinn ítrekaði spurningar sína og ég svaraði aftur)

Hefur þú fundið fyrir þrýstingi frá þingmönnum í norðvesturkjördæmi, aðilum í sveitastjórn Skagafjarðar, alþingismönnum eða ráðherrum, varðandi að halda starfsemi meðferðarheimilisins Háholts gangandi og endurnýja þjónususamning við Barnaverndarstofu ? Að fækka ekki opinberum störfum í héraðinu enn frekar en verið hefur?

Nei, ég hef ekki fundið fyrir þrýstingi frá þingmönnum í norðvesturkjördæmi, aðilum í sveitastjórn Skagafjarðar, alþingismönnum eða ráðherrum. Það eru ætíð skiptar skoðanir á öllum verkefnum velferðarráðuneytisins. Það gildir að sjálfsögðu líka um staðsetningu opinberra starfa óháð því hvort um er ræða til dæmis starfsstöð Vinnueftirlitsins í Hveragerði, staðsetningu höfuðstöðva nýrrar stjórnsýslustofnunar, starfsstöð Vinnumálastofnunar á Húsavík og starfsemi Háholts í Skagafirði.

Hvernig rökstyður þú að það sé grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri Háholts þegar nýtingarhlutfall heimilisins er eins lágt og raun ber vitni og Barnaverndarstofa mælir gegn endurnýjun samnings?

Í niðurstöðum nefndar um réttindi barnsins um framkvæmd Barnasáttmála SÞ hér á landi frá árinu 2003 er mælst til þess að börn í varðhaldi séu haldin aðskilin frá fullorðnum. Jafnframt höfðu komið fram ábendingar frá Evrópuráðinu sama efnis. Í febrúar árið 2013 samþykkti Alþingi frumvarp þingmannsins Helga Hjörvars að lögfesta Barnasáttmála SÞ og að börnum yrði haldið aðskildum frá fullorðnum í fangelsi. Fram kom í frumvarpinu að nauðsynlegt væri að útbúa sérstaka einingu á einu af meðferðarheimilum Barnaverndarstofu sem væri þannig útbúin að hægt væri að vista þar fanga undir lögaldri.

Til að bregðast við samþykkt Alþingis var það tillaga Barnaverndarstofu að Háholt í Skagafirði tæki að sér afplánunarmálin og Stuðlar gæsluvarðhald. Í gögnum málsins kemur fram að barnaverndaryfirvöld töldu að þessi úrlausn væri fullkomlega boðleg sem bráðabirgðalausn þar til úr rætist í fjárhagsmálefnum ríkisins. Samhliða yrði unnið að framtíðarfyrirkomulagi. Best væri að ekkert barn væri dæmt til fangelsisvistar á Íslandi, en ef og þegar það gerist verður sérstök eining að vera til staðar í samræmi við alþjóðlega samninga og samþykkt Alþingis. Niðurstaðan er að leysa þetta til bráðabirgða með þessum hætti í samræmi við tillögur barnaverndaryfirvalda. Jafnframt er settur fyrirvari í tímabundinn samning við Háholt um framtíðarskipan á vistun ungra fanga.

Hvað framtíðarlausn varðar þá hefur verið skipuð nefnd um heildarendurskoðun á stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar. Undir það falla verkefni sem nú eru á höndum Barnaverndarstofu. Nefndinni er ætlað að koma með tillögur til ráðherra að einstökum verkefnum og starfsstöðvum nýrrar stofnunar. Endanleg ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag um vistun ungra fanga verður svo tekin í samráði við innanríkisráðuneytið líkt og núverandi bráðabirgðalausn.

Hvernig rökstyður þú að það sé grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri Háholts þegar nýtingarhlutfall heimilisins er eins lágt og raun ber vitni og Barnaverndarstofa mælir gegn endurnýjun samnings? Hvers vegna leggst velferðarráðuneytið gegn ákvæði um nýtingarhlutfall í þjónustusamningum við meðferðarheimili þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun segi „mikilvægt að Barnaverndarstofa setji sem skráða reglu um hversu lágt nýtingarhlutfall meðferðarheimila má fara og í hve langan tíma það má standa til að stofan telji rétt að segja upp þjónustusamningum á grundvelli ónógrar eða dvínandi eftirspurnar. Vísa þarf til þessarar reglu í samningum,“ eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunna um þjónustusamninga Barnaverndarstofu og lok þeirra sem kom út í september.

Rökstuðningurinn er að til að bregðast við samþykkt Alþingis var það tillaga barnaverndaryfirvalda að Háholt í Skagafirði tæki að sér afplánunarmálin og Stuðlar gæsluvarðhald. Í gögnum málsins kemur fram að barnaverndaryfirvöld töldu að þessi úrlausn væri fullkomlega boðleg sem bráðabirgðalausn þar til úr rætist í fjárhagsmálefnum ríkisins. Samhliða yrði unnið að framtíðarfyrirkomulagi. Ekki er hægt að setja nýtingarhlutfall á dóma dómstóla á ungum brotaþolum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.10.2014 - 09:13 - Rita ummæli

Aldraðir og framtíðin

Í nýlegri könnun Help Age International er lagt mat á félagslega og efnahagslega velferð eldri borgara í 96 löndum.  Ísland er í sjöunda sæti á listanum.  Það kann hins vegar að koma á óvart að helsti munurinn á okkur og Noregi sem vermir fyrsta sætið er ekki  efnahagslegar aðstæður aldraðra eða heilbrigði þeirra, heldur menntunarstig aldraðra.

Þetta eru ánægjulegar niðurstöður en um leið hvatning til að gera enn betur.  Öldruðum fjölgar hratt um allan heim. Íslendingar 70 ára og eldri eru nú rúmlega 29.000.  Eftir tuttugu ár verða þeir tvöfalt fleiri.

Í mínum huga er fjölgun aldraðra ekki vandamál – heldur staðreynd.

Okkar verkefni er að snúa umræðunni um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum.  Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af staðreyndum og raunhæfum lausnum.  Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda.

Hér á landi bera sveitarfélögin ábyrgð á félagslegri þjónustu og þar með talin ýmis þjónusta í heimahúsum, en ríkið ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu og þar með telst heimahjúkrun og hjúkrunarheimili.   Þau tilraunaverkefni sem hafa verið í gangi á Hornafirði, Akureyri og í Reykjavík sem snúa að því að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu hafa skilað miklu árangri fyrir notendur.

Í mínum huga hlýtur framtíðin því að vera sú að málefni aldraðra fari til sveitarfélaganna. Þau hafa sannarlega sýnt með yfirtöku grunnskólanna og nú síðast málefni fatlaðs fólks hvers megnug þau eru og sannfært mig enn frekar að nærþjónustan á að vera hjá sveitarfélögunum.  Þar er yfirsýnin yfir þarfir notenda, þar eru mestar líkur á að veitt séu úrræði á viðeigandi þjónustustigi og þannig skapast samlegðaráhrif sem efla sveitarstjórnarstigið til góðs fyrir íbúana.

Þáttur ríkisins í nærþjónustu á að felast í að skilgreina gæði hennar, tryggja jafnræði og sinna eftirliti. Það gerum við með stöðlum, samræmdu mati og virku eftirliti.

Við þurfum líka að hvetja til nýsköpunar á sviði velferðartækni.  Þar liggja án efa margvísleg tækifæri til að leysa ýmis hagnýt verkefni, auka öryggi fólks í heimahúsum og veita meiri þjónustu með minni tilkostnaði.

Alltaf með þarfir notenda í huga.

 

Flokkar: Aldraðir · Óflokkað

Laugardagur 4.10.2014 - 13:55 - 2 ummæli

Biðlistar og sveitastjórnir

1800 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sjö stærstu sveitarfélögunum samkvæmt könnun velferðarráðuneytisins.  Á fyrstu sex mánuðum ársins voru aðeins tæp 8% sem fengu úrlausn á sínum vanda.

Í kjördæmavikunni átti ég því góða fundi með félagsmálastjórum í flestum af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Þar ræddum við sameiginlegar áhyggjur okkar af miklum húsnæðisvanda fólks í félagslegum eða fjárhagslegum vanda og skort á húsnæðisúrræðum fyrir fatlað fólk og aldraða.

Ég lagði áherslu á að sveitarfélögin huguðu að ákvæði laga um húsnæðismál og laga um félagsþjónustu.  Þar kemur m.a. fram að húsnæðisnefndum er ætlað að gera árlega áætlanir um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu, hafa milligöngu um og frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis í því skyni og aðstoði einstaklinga við húsnæðisöflun.  Einnig er húsnæðisnefndum ætlað að aðstoða aldraða og fatlaða við húsnæðisöflun. Helst þyrfti að liggja fyrir nokkurra ára áætlun til að við getum áttað okkur á umfangi verkefnisins og hagað fjárhagsáætlunum í samræmi.

Lagaskyldan til að tryggja félagslegt húsnæði hvílir á sveitarfélögunum.  Hlutverk stjórnvalda er að leiðbeina og styðja við húsnæðisöflunina, en á endanum er ákvörðunin sveitarstjórna.

Ekki byggingaraðila.  Ekki Íbúðalánasjóðs. Ekki ráðherra.

Heldur þeirra sem fara með meirihlutavald í sveitarfélögunum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.9.2014 - 09:21 - 1 ummæli

Karlar og jafnrétti

UN Women hafa vakið athygli á mikilvægi þátttöku karla í öllu starfi á sviði jafnréttismála.    Karlar eru mun líklegri en konur til að gegna áhrifa- og valdastöðum og gegna því lykilhlutverki í að efla stöðu kvenna, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti. Benda þarf á ávinning beggja kynja af valdeflingu kvenna og auknu kynjajafnrétti.

Í mínum huga er þetta brýnt hagsmunamál beggja kynja sem auka almenn lífsgæði þjóða og styðja við lýðræðisþróun.

Ræða Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra  á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var svo sannarlega í þessum anda.  Þar kynnti hann sérstakt málþing sem við stöndum að ásamt Súrinam þar sem karlmenn munu ræða jafnrétti við aðra karlmenn.  Athyglinni verður þar beint sérstaklega að aðgerðum gegn ofbeldi gegn konum.

Utanríkisráðuneytið, velferðarráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa um tíma lagt drög að samstarfsverkefni um aukna valdeflingu kvenna og karla og jafnrétti.  Þar viljum við styðja enn frekar við verkefni Íslands á sviði jafnréttismála á alþjóðavettvangi; valdeflingu kvenna í gegnum menntun og vekjum athygli á mikilvægu hlutverki karla í jafnréttisumræðunni á alþjóðavettvangi og á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.9.2014 - 10:05 - 4 ummæli

Bílastæðahús

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með umræðunni um gámahúsin.  Fátt kom þar á óvart og endurspeglar þörfina á að halda áfram að ræða hvernig við getum hugsað út fyrir kassann og þróað íslenskt þéttbýli með nýjum hugmyndum.  Það er ástæða þess að ég fagnaði tækifærinu að styðja við verkefnið Hæg breytileg átt.  Hugsunin á bakvið verkefnið er að vinna hugmyndir um íslenskt þéttbýli.  Að leita leiða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

Að ögra viðteknum viðmiðum um hvernig íbúðarhúsnæði á að vera byggt í íslensku borgarsamfélagi.

Á vefsíðu verkefnisins segir: „Áhersla verður lögð á samfélagslega afstöðu, frjálst og óhefðbundið hugmyndaflæði, hugmyndafræðilegan og arkitektónískan styrk, vistvæna og byggingartæknilega framsækni, þétt byggðamynstur, góða nýtingu á byggðum fermetrum, og síðast en ekki síst vinnu með staðaranda og mótun úti – sem innirýma utan um daglegt líf íbúa í nýjum íbúðagerðum fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur.“

Verkefnið Bær heillaði mig sérstaklega.  Grunnhugmyndin þeirra er að byggja á bílastæðum borgarinnar í þeirri trú að minnkandi þörf verði fyrir einkabílinn og að fleiri búi einir.  Notkun einkabílsins muni breytast þar sem hann verði knúinn áfram af rafmagni og að miklu leyti sameign margra (sbr. Zipcar)  Grunneining þeirra var 2,5×5 metrar kassi. Í þeirra huga ætti heimili framtíðarinnar að ná út fyrir íbúðina og byggja meira á sameiginlegum rýmum.  Sameiginleg rými væru til dæmis þvottahús, garður, bílastæði, gróðurhús, gestarými og vinnuaðstaða.  Jafnvel kaffihús eða þjónusturými í næsta nágrenni.

Hópurinn mátaði hugmyndir sínar við bílastæði víðs vegar um borgina þar á meðal á Grettisgötunni.Grettisgata_bilastaedi

Í áætlunum hópsins var gert ráð fyrir 400.000 kr. á fermetra.  En hvernig væri að ögra viðmiðunum enn frekar? Hvað með 300.000 kr. á fermetra?  Eða jafnvel 200.000 kr. á fermetra?

Nuverandi_astand

Grodur_gardar_stadsettir

 

Undirstodukjarnar

Fullbyggt

Sed_inn_i_bilastaedahus

Hvernig gæti samstarf við fyrirtæki á borð við Container City/Abk Architects og Buro Happold eða  Caledonian Modular náð niður kostnaði á bílastæðahúsunum?

Það skiptir ekki máli hvort við köllum þessi hús gámahús, bílastæðahús eða hagkvæm, forsmíðuð einingahús.  Gleymum ekki að gömlu fallegu bárujárnshúsin okkar voru þess tíma forsmíðuð einingarhús, pöntuð eftir norskum katalogum og sett saman á staðnum eftir númerum líkt og púsluspil.

Vandinn er skortur á ódýru og hagkvæmu húsnæði. Í mínum huga hlýtur hluti af lausninni að vera að lækka kostnaðinn við að byggja húsnæði.  Við höfum þegar tekið stór skref í einföldun á byggingarreglugerðinni og nú er ætlunin að lækka verð á byggingarefni með afnámi vörugjalda.

Næstu skref hljóta að vera að nýta hugvit okkar og annarra þjóða til að fjölga vistvænum, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkostum í íslensku þéttbýli.

PS. Hæg breytileg átt er verkefni á vegum Aurora hönnunarsjóðs, Hönnunarmiðstöðvar, Reykjavíkurborgar, Samtaka Iðnaðarins, Félagsbústaða, Búseta, Félagsstofnunar stúdenta, Upphaf fasteignafélags, Listaháskóla Íslands og Velferðarráðuneytisins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.9.2014 - 10:10 - 18 ummæli

Gámafordómar

Fyrir nokkru deildi ég myndum af gámahúsum á fésbókarsíðu minni.  Það kom mér nokkuð á óvart að í stað þess að skoða myndirnar og tenglana virtist orðið gámur vera nóg til vekja neikvæð viðbrögð.

Sama virðist einkenna fréttir að Landspítalinn hefur í hyggju að nýta gáma sem skrifstofuhúsnæði fyrir starfsfólk sitt.

Því vil ég gjarnan gera enn eina tilraunina til að vinna á fordómum gegn gámum, ekki hvað síst þar sem þar má finna nokkur af mínum draumahúsum þökk sé flottum arkitektum og iðnaðarmönnum sem geta sannarlega hugsað út fyrir kassann :)

1. Maison Container Lille.  Þetta 208 fm2 einbýlishús er hannað af Patrick Partouch.  Notaðir voru 8 gámar í húsið og það tók þrjá daga að setja húsið upp á lóðinni. Nánari upplýsingar og ljósmyndir.

Maison_Gamur

Maison_Gamur_inni

2. Redondo Beach gámahús.  Húsið er hannað af DeMaria Design´s og endurnýtir 8 mismunandi stóra gáma.  Með því að nota tilbúnar einingar var hægt að byggja 70% af húsinu annars staðar en á lóðinni. Nánari upplýsingar og ljósmyndir

Redondo_Beach_Shipping_Container_Home

3.  Cover Park í Skotlandi.  Húsið er hannað af Edo Architecture og er ætlað til útleigu fyrir listamenn.  Takið sérstaklega eftir torfþakinu og hversu vel gámarnir falla inn í umhverfið við vatnið. Nánari upplýsingar og ljósmyndir.

CoverPark_torfþak

CovePark_vid_vatnid

CovePark_innan

4. Tvær útfærslur á skrifstofuhúsnæði úr gámum frá Bretlandi.

Riverside_SH

Riverside_London

5. Nýjasta draumahús okkar hjónanna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.9.2014 - 11:01 - 6 ummæli

Stúdentagarðar – fyrirmynd að félagslegu húsnæði

Nokkur umræða skapaðist í gær við pistilinn Fallegir staurar eða félagslegt húsnæði um hvað hægt er að gera fyrir félagslegt lán frá Íbúðalánasjóði til leigufélags. Félagsstofnun stúdenta hefur notað lán frá ÍLS til að fjármagna byggingu á stúdentagörðum.  Þar starfa miklir kvenskörungar sem kunna að nýta aurana og veita um leið fjölbreyttum hópi námsmanna góða þjónustu.

Oddagarðar, nýjustu stúdentagarðarnir voru teknir í notkun árið 2013. Oddagarðar eru fjögur hús við Sæmundargötu sem eru ætlaðir einstaklingum og barnlausum pörum. Annars vegar er að ræða einstaklingsherbergi með eigin baðherbergi og sameiginlegu eldhúsi, þvottahúsi, setustofu og hjólageymslu.  Húsgögn fylgja herberginu. Hins vegar eru eins og tveggja herbergja paríbúðir.  Almenn geymsla fylgir hverri íbúð, þvottavél og þurrkari er í sameign.

Húsaleiga:

Skógargarðar voru teknir í notkun árin 2009 og 2010 og eru við Skógarveg.  Þar er að finna tveggja og þriggja herbergja íbúðir fyrir fjölskyldufólk.  Ekki er sameiginlegt þvottahús heldur er gert ráð fyrir þvottavél og þurrkara í hverri íbúð. Einnig er í boði nettenging í gegnum Ethernet HÍ.

Því til viðbótar eiga væntanlega einhverjir rétt á húsaleigubótum.

Einfalt, stílhreint og án íburðar. Berum þetta saman við að búa til dæmis í atvinnuhúsnæði eða í bílnum sínum.

Kannski gæti Félagsstofnun stúdenta verið fyrirmynd verkalýðsfélaganna um hvernig er hægt að stofna og reka vel leigufélög án gróðasjónarmiða fyrir sína félagsmenn? Jafnvel líka fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um hvernig byggja á hagkvæmar leiguíbúðir fyrir fjölbreyttan hóp fólks í fjárhagsvanda?

PS. Félagsstofnun stúdenta rekur Stúdentagarða, Bóksölu stúdenta, Hámu og Stúdentakjallarann, Leikskóla stúdenta og Stúdentamiðlun. Félagsgjald er innheimt af öllum námsmönnum sem skráðir eru í HÍ.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is