Miðvikudagur 30.3.2011 - 22:48 - 5 ummæli

Molar um málfar og miðla 572

 

 Nokkrum sinnum hefur það verið  nefnt í þessum  Molum að  Ríkissjónvarpið sýnir   viðaskiptavinum sínum dónaskap, þegar   kynntur  er   þátturinn Í  návígi og þess látið rækilega ógetið  við hvern á  að  ræða hvað. Hvaða  tilgangi þjónar það að segja okkur ekki við hvern á að  ræða?   Í besta falli er þetta  bjánalegt. Þetta er  örugglega einsdæmi  í dagskrárkynningu hjá   sjónvarpsstöð. En einsdæmin hjá  Ríkissjónvarpinu okkar eru býsna mörg. Stundum er sagt að einsdæmin séu verst.

Á Hrafnaþingi í ÍNN (29.03.2011) var áhugavert viðtal við Jafet Ólafsson  viðskiptafræðing, sem  benti á ýmsar jákvæðar hliðar í efnahagsmálum. Skemmtileg  tilbreyting  frá öfgunum,sem oftast ríða húsum í þessum þætti. Jafet skaut  fram  þeirri  hugmynd að sameina  Orkuveituna og Landsvirkjun, setja fyrirtækið á markað  og gefa   innlendum og erlendum fjárfestum kost á að eignast hlut  í  glæsilegu orkufyrirtæki. Fín hugmynd og umræðuverð. Sjónvarpsstjórinn  eyðilagði reyndar  viðtalið í lokin með  því að segja ,,að Landsvirkjun  væri með rassgatið fullt af peningum”. Ingvi Hrafn  gerir lítið úr sér og áhorfendum með svona orðbragði.

 Í fréttum Stöðvar  tvö var talað um gesti brúðkaupsins, þegar greinilega var  átt við þá sem  boðnir  væru til brúðkaupsins, gesti í brúðkaupinu. Í fréttum sama miðils var (29.03.2011) talað um að forða gjaldþroti. Molaskrifari  sættir sig  seint við  þessa  notkun  sagnarinnar að  forða,  sem þýðir að koma undan  eða bjarga. Hér  hefði  betur verið talað um að  forða frá  gjaldþroti, ekki  forða  gjaldþroti.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 10:07 - 13 ummæli

Molar um málfar og miðla 571

Skrifað er á mbl.is (29.03.2011): Danski varnarmaðurinn Mikkel Christoffersen, sem var til reynslu hjá karlaliði KR í knattspyrnu, verður ekki boðinn samningur við félagið.  Danski varnarmaðurinn verður ekki boðinn samningur! Hér átti  auðvitað  að standa: Danska varnarmanninum… verður ekki boðinn samningur. Það er  eins og sumir haldi að allar setningar þurfi að hefjast í nefnifalli.

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (29.03.2011) var talað um að tilkynna frá einhverju. Eitthvað er  tilkynnt eða sagt er frá einhverju.

Undarlega er tekið til orða í frétt  í Morgunblaðinu (29.03.2011) þar sem  segir frá því að Flugfélag Íslands sé að  svipast um  eftir  vél til kaups eða  leigu í stað vélar  sem laskaðist í  lendingu í  Grænlandi. Í frétt  Morgunblaðsins segir:  Saknar félagið vélar eftir að Dash-8 flugvél þess  skemmdist, þegar …. Rangt er að nota  sögnina að sakna í þessu samhengi. Hér er flugvélar ekki saknað, – sem betur fer. Í upphafi fréttarinnar segir:  Flugfélag Íslands  skoðar nú  að leigja eða festa kaup á….  Allt  skoða menn. Eðlilegra  væri að nota hér sögnina að kanna eða  að athuga.

Oft finnur  Molaskrifari til vanmáttar gagnvart  tungunni og oft rekst  hann á  eða heyrir  orð sem hann ekki skilur. Þannig er um  orðið kyngervi. Orðabókin segir, að það sé  kynferði í félagslegum skilningi. Molaskrifari  játar að hann er litlu nær.  Annað orð  sem  Molaskrifari ekki skildi  var notað nokkrum sinnum  óútskýrt í morgunþætti  Rásar tvö. Greinilega var gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að allir skildu orðið. Þetta var orðið úlfatími. Orðið var ekki að finna í íslensku orðabókinni. Leitarvélin Google  skilaði  435 svörum þegar spurt var. Þetta  reyndust vera   stundirnar frá því að   börn koma úr skóla  eða  leikskóla þar  til þau fara að sofa.   Foreldrum eru gefin góð ráð til að skipuleggja þennan tíma , sem mörgum virðist sérstakt  vandamál.

 Úlfatíminn  (Vargtimmen ) er   heiti magnaðrar kvikmyndar og leikrits Ingmars Bergmans með  Max von Sydow, Liv Ullman og  Erland Josephsson og   fleiri frábærum leikurum. Um Vargtimmen  segir  svo á  heimasíðu Dramataen: ”Vargtimmen är timmen mellan natt och gryning, det är timmen då de flesta människor dör, då sömnen är djupast, då mardrömmarna är verkligast. Den är timmen då den sömnlöse jagas av sin svåraste ångest, då spöken och demoner är mäktigast. Vargtimmen är också den timme då de flesta barn föds.”

Fróðlegt væri að vita  hvernig  nafnið úlfatími hefur komist inn í íslensku og fengið þá  merkingu ,sem  að ofan greinir.

Svo játar Molaskrifari líka, að þegar íþróttakona  sem  rætt var við í  sjónvarpi sagði:Fólk verður að vera  tilbúið á tánum , annars getur allt gerst, – þá  klóraði  hann  sér í höfðinu og  skildi ekki hvað verið var að segja.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.3.2011 - 08:59 - 7 ummæli

Molar um málfar og miðla 570

Úr mbl.is  fyrir fáeinum dögum: Flugumferðarstjórinn, sem hefur 20 ára starfsreynslu, hefur verið leystur undan störfum á meðan rannsókn fer fram.  Það er hægt að leysa menn frá  störfum, en  það samræmist ekki góðri málvenju að tala um að leysa menn undan störfum.  Í sömu frétt segir  að flugumferðarstjórinn hafi verið einn í flugturninum á einum fjölfarnasta flugvelli landsins (Bandaríkjanna). Eitthvað er það nú sennilega málum blandið.

Af svínunum er  hin mesta plága,   var sagt í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.03.2011) er  fjallað  var um villisvín,sem gera sig heimakomin í Berlín við litlar vinsældir borgarbúa.  Hér hefði   verið einfaldara að segja: Svínin  eru  mesta plága.

Úr mbl.is (28.03.2011): Norðmenn segja olíumengun úr Goðafossi vera að skaða fuglaríkið á friðarsvæðinu Grønningen hjá Lillesand.   Við þessa stuttu setningu leyfir Molaskrifari sér að gera þrjár athugasemdir: 1. Norðmenn segja  mengunina vera að skaða… Betra  væri: Norðmenn segja mengunina skaða… 2. Betra  væri að tala um fuglalíf en  fuglaríki. 3.  Friðað svæði  væri betra en friðarsvæði.

Í sömu frétt í mbl.is  segir: „Ástandið er nokkurn veginn undir stjórn en við óttumst aðstæðurnar fyrir sjófuglana”. Ekki getur þetta talist lipurlega orðað. Betra væri: Ástandið er viðráðanlegt,en  við óttumst að sjófuglar geti lent í olíu.

Meira úr  mbl.is: Þá mátti einnig sjá mikla sorg á svæðinu. Undarlega að orði komist svo ekki sé  meira sagt. Mogga fer lítið fram.

Velunnari Molanna sendi eftirfarandi: ,, Í kvöld (28.03.2011) er Sjónvarpið að ryðja út dagskrárliðum vegna knattspyrnuleiks. Það fer í taugarnar á mér. Ekki síst vegna þess að nú stendur yfir hér á landi  alþjóðlegt mót kvenna í íshokkí. Keppendur eru víðsvegar að úr  heiminum m.a. frá Suður-Afríku, Nýja Sjálandi osfrv. Aldrei fyrr hefur mót, svo sterkt,  svo víðfeðmt verið haldið hér á landi. Ekki hefur verið minnst á þessa keppni einu einasta orði. Ekkert sagt frá henni. Hverskonar fjölmiðlun er þetta ?”

Molaskrifari veit ekki hverskonar fjölmiðlun þetta er, nema þessi venjulega fótboltafjölmiðlun,sem ræður ríkjum  í Ríkisútvarpinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 10:21 - 1 ummæli

Moalr um málfar og miðla 569

Og voru heimamenn meira og minna með  boltann, sagði íþróttafréttamaður  Ríkisútvarpsins (27.03.2011). Molaskrifari velkist svolítið i vafa um það hvað þetta merkir.  Í sama fréttatíma var fjallað um útflutning á æðardúni og  tekið svo til orða  að æðardúnninn hefði verið fluttur af landi brott. Ekki er þetta  nú beinlínis  rangt, en ekki  er oft  tekið svona til orða  um útflutningsvörur.

Lést eftir að hann varð úti  í Reykjavík, var skrifað á  visir.is (26.03.2011) Þetta var reyndar leiðrétt og þá  stóð:  Varð úti í Reykjavík, sem er  rétt orðalag.

 Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (23.03.2011) sagði fréttamaður:  Nýjar tölur  sýna að daglegar reykingar fullorðinna heldur áfram að lækka.  Þetta er  bjöguð setning. Betur hefði farið á að segja:  Nýjar tölur sýna að daglegar reykingar fullorðinna halda áfram að minnka. Eða: Nýjar tölur sýna að  enn dregur úr reykingum  fullorðinna.

Visir.is skrifar (24.03.2011): Þjónustan var ekki ábótavant. Þjónustunni var ekki ábótavant.

Enn skal  vitnað í nýlegt  bréf frá Molavini og velunnara  móðurmálsins. Hann segir:

,, Samkvæmt lögum skal Ríkisútvarpið ohf. „leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð“.

Væri ekki rétt að hafa þetta í huga þegar fréttamenn eru ráðnir til starfa? Öllu meiri kröfur mætti og skyldi gera til einnar helstu menningarstofnunar íslensku þjóðarinnar en einkamiðla.

Að mínu viti er sérstakur málfarsráðunautur næsta óþarfur ef fréttamenn hafa gott vald á íslensku máli. Hins vegar má starf hans sín lítils þegar fréttamenn eru bögubósar. Of seint er að fara að kenna fólki íslensku þegar það er komið í eina af helstu ábyrgðarstöðum íslenskrar tungu. Annað hvort öðlast fólk þegar frá öndverðu og smám saman gott vald á málinu, hvað sem skólagöngu líður – eða þá hreint ekki. Gott vald á tungunni er einfaldlega sumum gefið, öðrum ekki. Því miður.”   Molaskrifari bætir því einu við, að þetta er hverju orði sannara.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.3.2011 - 12:21 - 3 ummæli

Molar um málfar og miðla 568

  Molaskrifari stóðst ekki mátið og sendi stutt tölvubréf í  sunnudagsþátt Sirrýjar á  Rás  tvö (27.03.2011)  þar sem útvarpsstjóri  og dagskrárstjóri sátu fyrir svörum. Vel var tekið í ábendingu  um að orðin tax free í fjölmörgum auglýsingumværu ekki lýtalaus íslenska. Hinsvegar voru  bæði útvarpsstjóri  og dagskrárstjóri mjög ánægð  með  enskuskotið leikaraslúður um misfræga leikara  sem óðamála kona hellir yfir hlustendur  á föstudagsmorgnum á  Rás tvö. Ef  auglýsingar eiga  að vera á lýtalausu íslensku máli,  á þá ekki það sama  gilda  um annað efni  í  Ríkisútvarpinu?  Þessir þættir eru býsna  langt frá því vera á   vönduðu mál. En útvarpsstjóra og dagskrárstjóra  fannst  báðum þetta vera  gott útvarpsefni. Það fannst Molaskrifar ótrúlegt heyra

Annars var gaman að heyra  hve margir lýstu  svipuðum  skoðunum  og  Molaskrifari hefur  viðrað hér um kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins um helgar.

Í fréttum Stöðvar tvö (26.03.2011) var  sagt frá  eiturlyfjasmyglinu, sem Morgunblaðið hafði greint frá þá um  morguninn. Í fréttinni tók fréttamaður svo til orða: … en konan hefur  ekki komið  við sögu lögreglu af neinu  viti áður…  Ekki komið við sögu  lögreglunnar af neinu viti!  Það er þá líklega bara stórglæpamenn, sem koma við sögu lögreglunnar af einhverju viti,-  eða  hvað?

Lést eftir að hann varð úti  í Reykjavík, var skrifað á  visir.is (26.03.2011) Þetta var reyndar leiðrétt og þá  stóð:  Varð úti í Reykjavík, sem er  rétt orðalag.

Merkilegt að fréttastofu  Ríkisútvarpsins  skuli hafa þótt það stórfrétt, að Þorvaldur Gylfason, – með fullri virðingu fyrir honum, –  skuli ætla að taka sæti í  svokölluðu stjórnlagaráði. Þetta var fyrsta frétt í  aðalkvöldfréttatíma  Ríkisútvarpsins  á laugardagskvöld (26.03.2011).

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2011 - 13:37 - 6 ummæli

Molar um málfar og miðla 567

Morgunblaðið  birti fyrst fjölmiðla (26.03.2011) frétt  um  tilraun til að smygla til landsins  miklu magni  eiturlyfja. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins sama dag var sagt frá þessu  og þess getið í framhjáhlaupi, að komið hefði fram í Morgunblaðinu, að fólkið sem að  smyglinu stóð væri íslenskt. Þetta var ómerkilegt hjá  fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hefði átt  unna Morgunblaðinu þess að láta þess getið að Morgunblaðið hefði verið fyrst til að segja frá þessu.

Í fréttinni um smygltilraunina las fréttamaður Ríkisútvarpsins hikstalaust: Yfirtollvörðurinn á Keflavíkurflugvelli segir  fundinn einn sá stærsta….. Glöggir  fréttamenn sem  hlusta á eigin lestur eiga að heyra  þegar þeir láta sv ona ambögur sér um munn fara. Yfirtollvörðurinn sagði fundinn einn  þann stærsta…, eða: Yfirtollvörðurinn sagði að fundurinn væri einn sá stærsti…

Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort hægt sé að tala um lýðheilsu fólks, eins og viðmælandi  fréttastofu Ríkisútvarpsins gerði (25.03.2011)

Það er alvarleg ásökun, þegar formaður  Bændasamtakanna heldur því fram í fréttum Ríkisútvarpsins (25.03.2011) að skýrsla  Ríkisendurskoðunar um  samskipti  ríkisvalds og hagsmunasamtaka  bænda, sé pólitískt  plagg. Einhver hlýtur  að bregðast við.

Molaskrifari er orðinn leiður á að hlusta á  eilífar fréttir af heilsufari íþróttamanna í ýmsum greinum  og endalausar  romsur um ráðningar  þjálfara innanlands og utan.  Varla getur verið  að meirihluti þjóðarinnar lifi og hrærist  með þessum málum. Getur ekki  hin fjölmenna íþróttadeild  Ríkisútvarpsins bara haldið þessu fyrir sig?

Framkvæmd losun annarra hafta verður svo ákveðin  ….  sagði fréttamaður Stöðvar tvö (25.03.2011) Hér hefði   átt að segja:  Afnám annarra hafta verður  svo ákveðið…. Í  sama fréttatíma var rætt við  Norðmann, sem var vel mæltur á íslensku, – talaði  mjög  góða  íslensku. Þú talar  alveg svakalega fína íslensku, sagði fréttamaður. Molaskrifara fannst ekkert svakalegt við  góða íslenskukunnáttu Norðmannsins. En þetta þykir nú líklega  vera nöldur !

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2011 - 10:26 - 1 ummæli

Molar um málfar og miðla 566

Í fréttum Stöðvar tvö (24.03.2011) var sagt: .. frumvarpið var síðasta leið ríkisstjórnarinnar til að …. Betra hefði verið:  Frumvarpið var   lokatilraun  (úrslitatilraun)  ríkisstjórnarinnar til að ….

Rúmlega ellefu og hálf milljón króna voru úthlutaðar til  sex verkefna. Þetta er  af fréttavef  Ríkisútvarpsins (23.03.2011) Hér hefði átt að standa: Rúmlega ellefu og hálfri milljón króna var úthlutað til sex verkefna.   

  Í framlengingunni  skiptust liðin á að ná  forystunni, sagði íþróttafréttamaður  Ríkissjónvarps (23.03.2011). Betra  hefði verið: Í framlengingunni voru  liðin  til skiptis með  forystuna.

20% pilta nota  tóbak í vörina, sagði á  vef Ríkisútvarpsins (23.03.2011).  Eðlilegra hefði verið að segja:  20% pilta taka í vörina. En á hitt er  svo að líta að ekki er víst að allir hefðu skilið það orðalag.

Velunnari tungunnar og vinur Molanna sendi eftirfarandi:

 ,,Leit inn á fréttavef Ríkisútvarpsins. Þar er fyrirsögnin Sýkn af rítalínsmygli. Við lestur fréttarinnar kemur þvert á móti fram, að hinn ákærði hafi einmitt gerst sekur um rítalínsmygl. Héraðsdómari taldi sig ekki geta dæmt manninn til refsingar vegna þess að í ákærunni hafi brotið ekki verið „tilgreint nógu nákvæmlega“.

Varla þarf annað en sæmilegt vald á íslenskri tungu til að átta sig á muninum á því „að vera sýkn“ af einhverju og því að vera ekki sakfelldur í dómsmáli.” Kærar þakkir fyrir sendinguna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 07:25 - 7 ummæli

Molar um málfar og miðla 565

Í grein í DV er skýrt  frá því (23.03.2011)  að   gjaldþrot  Seðlabankans sé  fimmfalt Icesave. Beinhörð útgjöld  vegna   gjaldþrots  Seðlabankans hafi numið  175 milljörðum króna og  gjaldþrot Seðlabanks   kosti hvert einasta mannsbarn á  Íslandi 650 þúsund krónur. Enn fremur segir í greininni, að kostnaðurinn við  Icesave sé   6% af kostnaði  skattgreiðenda vegna falls bankanna.   Morgunblaðið, sem þessa dagana fer hamförum  gegn  Icesave í samvinnu við sálufélaga sína í Útvarpi Sögu hlýtur að leiðrétta  þessar fullyrðingar Jóhanns Haukssonar  blaðamanns í greininni í DV,  – það er að segja ,ef þær eru rangar.

 Úr mbl.is (23.03.2011): Maður sem ók á dráttarvél í umferðinni á fjölfarinni götu í höfuðborginni olli töfum á umferð.  Hér  hefði átt að  tala um mann sem ók dráttarvél. Hann ók ekki á dráttarvél. Þetta er   eiginlega hálfgerð aulavilla.

 Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (23.03.2011) var oftar en einu sinni talað um að  kaupa skýringar, – í merkingunni að  taka  skýringar góðar og gildar.  Ekki getur  þetta orðalag talist  til fyrirmyndar. Í þessum Kastljóssþætti voru tvö lítt skiljanleg innslög um legókubba og  einhverskonar  auglýsingastofu í kassa á hjólum.   Það var svo meira en hjákátlegt, þegar fréttamaður Kastljóss  vottaði  kvikmyndafræðingi samúð  vegna  andláts Elizabethar Taylors eins og um náinn ættingja væri að ræða!  Sami  fréttamaður  talaði um  að meika það sem leikkona.    Málfar af þessu  tagi  ætti ekki að heyrast í Ríkissjónvarpinu. Í  Ríkisútvarpinu var sagt að  ferill leikkonunnar hefði spannað hálfa öld.  Ferill hennar hófst þegar hún var átta ára. og  hún var   sjötíu og níu ára þegar  hún lést.  Á  sjö áratugum  lék Elizabeth Taylor í   sextíu  kvikmyndum.

Mjög góður var Siglufjarðarpartur Kiljunnar (23.03.2011) og  þar átti  upptökustjórinn Ragnheiður Thorsteinsson  mikinn þátt og  góðan, eins og  Egill    að verðleikum nefndi Kiljulok. Efnið var skemmtilegt og framsetning þess með miklum ágætum. Takk.

Bakaríið Kornið er með heilsíðuauglýsingu í DV (23.03.2011). Þar er  auglýst   svokallað ,,Fermingartilboð”. Fermingartilboðið felur m.a.  í sér   ,,40 manna marsipansálmabók”.   Það á sem sagt að  kóróna ferminguna með því að éta sálmabókina. Það er ekki öll vitleysan eins, enda  væri þá lítið gaman að lifa.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 10:19 - 12 ummæli

Molar um málfar og miðla 564

Úr dv.is (22.03.2011): En nú sé staðan sú að fiskur  sé orðinn svo dýr að samtökin hafa ekki fjármagn til að kaupa þennan mikilvæga fæðuhóp fyrir skjólstæðinga sína….   Nú er fiskur sem sagt orðinn fæðuhópur.  Molaskrifari  viðurkennir, að orðið  fæðuhópur  hefur  hann aldrei  heyrt  áður  og hallast að því að  það sé  bara rugl.

Bandarísk herþota  hrapaði til jarðar í Líbíu. Í fréttum Stöðvar tvö  (22.03.2011)  var sagt að talið væri að vélarbilun hefði komið upp í þotunni. Betur var þetta orðað í fréttum Ríkissjónvarpsins en þar var sagt: Talið er að vélarbilun hafi grandað þotunni.

Molaskrifari lærir  ekki að meta  það orðalag, þegar sagt  er í Ríkisjónvarpinu  við upphaf íþróttafrétta, að  nú sé íþróttafréttamaðurinn kominn með sneisafullan íþróttapakka.  Pakki getur ekki verið sneisafullur. Það er ekkert flókið. Þetta  segir  Ríkissjónvarpið okkur  samt aftur og aftur.

Í fréttum Stöðvar tvö (22.03.2011) var sagt: … og strákarnir í 1860, sem loka munu kvöldinu.  Ágæti fréttamaður, sem þetta  sagðir: Orðin eru íslensk  en þetta er  ekki íslenska. Það er  ekki íslenska að loka  kvöldi.  Það  er aulaþýðing úr ensku.

Á dv.is er talað um Sognfjarðarfylki  í Noregi.  Fylkið  heitir á   norsku Sogn og Fjordane. Sognfjarðarfylki er ekki til.

 Á mbl. is  er skrifað (23.03.2011): Vaxtarhormónum að andvirði tugir milljóna var stolið úr lagerhúsnæði í bænum Kastrup í Danmörku.  Hér hallast Molaskrifari að því að segja  hefði átt: Vaxtarhormónum að andvirði tuga milljóna var stolið…

Mikið var rifrildið  við Ragnar Önundarson í Kastljósi (22.3.2011)  lítið áhugavert sjónvarpsefni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.3.2011 - 08:41 - 4 ummæli

Molar um málfar og miðla 563

Undarleg fjögurra dálka fyrirsögn er á forsíðu Morgunblaðsins í dag (22.03.2011): Rekin úr  nefndum. Átt er við þau Lilju Mósesdóttur og  Atla  Gíslason,sem sagt hafa sig  úr þingflokki  VG á  Alþingi.  Það   leiðir af sjálfu þegar  þau Lilja og  Atli segja sig úr þingflokki VG   geta þau ekki lengur verið fulltrúar þingflokksins í nefndum þingsins. Með úrsögn úr þingflokknum  sögðu þau sig   því samhliða  úr þeim  nefndum þingsins sem þingflokkur VG  kaus  þau í. Þetta sér hvert barn í pólitík. Morgunblaðið kýs  hinsvegar  að kynna lesendum sínum þetta mál í   annarlegu ljósi.

Í  áttafréttum Ríkisútvarpsins (22.03.2011) var tvísagt að Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hefðu sagt sig úr VG.  Þessi missögn var að  vísu leiðrétt í lok  fréttarinnar.  Þeir sem  skrifa  fréttir   á fréttastofu Ríkisútvarpsins verða líka að hlusta á fréttir  til að  geta farið rétt með.

Í Íslandi í dag á Stöð tvö (21.03.2011) var prýðilegt viðtal við Þorstein Pálsson, sem greindi  stöðuna í pólitíkinni og beitti þar  reynslurökum og skynsemi.  Reyndum fréttamanni,  Kristjáni Má,  varð það á að hlusta ekki nægilega vel á  viðmælanda sinn og  spyrja Þorstein um atriði,sem hann þegar var búinn að nefna.  Það tekur langan tíma að læra  að hlusta grannt og  vera jafnframt tilbúinn með næstu spurningu. Svona   mistök verða reyndar á bestu bæjum. 

Lögafgreiðslumaður er orðskrípi sem heyrðist í  fréttum (21.03.2011). Höfundur þess er  að líkindum alþingismaðurinn Lilja Mósesdóttir. Það á að merkja að þingmenn séu  til þess eins að afgreiða   lagafrumvörp, sem koma frá     ríkisstjórn.  Rétt myndað  væri orðið  lagaafgreiðslumaður, en það er  engu betra. Vonandi heyrist þetta ekki oftar.

Mel B. ólétt af sínu þriðja barni, segir í fyrirsögn á dv.is.  Molaskrifari er  ekki mjög  vel að sér um óléttumál og  allra síst óléttumál  frægra kvenna. Máltilfinning hans  segir  honum þó,  að hér  ætti að segja: .. ólétt að sínu þriðja barni, en ekki af  sínu þriðja barni. Ekki las Molaskrifari hinsvegar svo langt að vita   af hvers völdum konan var ólétt.

Umsjónarmenn Morgunútvarps Rásar  tvö eiga ekki að hætta sér út á þann hála ís    að  ræða mál, sem þau  ráða  ekki  við, eins og umræða þeirra um Líbíu  við  Steingrím J. Sigfússon í morgun (22.03.2011) bar glögg merki.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is