Þriðjudagur 05.04.2011 - 20:26 - 8 ummæli

Molar um málfar og miðla 577

 

Úr mbl.is (03.04.2011): Airbus og Air France fjármögnuðu leitina. Kafað var á 4.000 metra dýpi og voru m.a. sérstök leitarvélmenni notuð, en þau rannsökuðu sjávargólfið á milli Brasilíu og Vestur-Afríku.  Í netfréttinni er fyrsta málsgreinin á  ensku og þegar talað er um   sjávargólf í fréttinni þá er það  dæmigerð aulaþýðing úr  ensku. Seafloor er   ekki sjávargólf heldur sjávarbotn á íslensku. Það er  ekkert smáræðis gólf, sem nær milli Brasilíu og Vestur Afríku! Þetta minnir næstum á Staff hershöfðingja, sem kom við  sögu í stríðsfréttum Moggans fyrir áratugum!

Undarlegt er að nafnkunnir leikarar skuli  ekki  geta  látið frá sér fara auglýsingar á  sæmilega vönduðu máli.  Egill Ólafsson er andvígur   Icesave og   les  auglýsingu, sem hann er sagður hafa samið sjálfur: „Samkvæmt annálaskrifum voru íslensk börn seld í ánauð til námuvinnu á Bretlandseyjum á fimmtándu öld. Það er engin ástæða til að endurtaka áþekka framkomu vegna börnum framtíðar. Þessvegna segi ég nei við Icesave.“ Hér ætti leikarinn að segja: … vegna barna framtíðar. ….. vegna börnum  framtíðar er málvilla.  Þá er þess látið ógetið hve óendanlega lágt er hér lagst í málflutningi. Villan var seinna leiðrétt.

Á dögunum viðurkenndu útvarpsstjóri og  dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins  að orðið taxfree  væri ekki lýtalaus íslenska (!) og   ætti því ekki  heima  í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins.  En hvað  segir þetta ágæta fólk þá um skelfilega auglýsingu frá  gleraugnaverslun  sem kallar sig  Eyesland  (æsland). Í  auglýsingunni segir; Há dú jú læk æsland?  Það hefur greinilega  orðið alvarleg bilun í auglýsingadeild  Ríkisútvarpsins. Og það sem meira er. Þar er búið að vera  bilað lengi. Það er dómgreindin sem er biluð. Veit einhver um  góða, eða  bara  sæmilega dómgreind til að  lána  auglýsingadeild Ríkisútvarpsins? Það á að henda  auglýsingum sem koma frá málsóðum eins og  þeim sem samdi þessa auglýsingu.

 

Molavin  í    austurvegi sendi eftirfarandi:,, Úr frétt í Netmogga dagsins: „Meterslangt gat“ og „Hvellur hvað við er þakið rifnaði.“
Það virðist brýnt að ítreka að ensku orðin „meter, liter og virus“ eru þýdd á íslensku sem „metri, lítri og veira“ og beygjast samkvæmt því. Um hitt er fátt að segja annað en að gera verður ráð fyrir að þeir, sem ráðast til blaðamennsku kunni reglur málfræðinnar, þmt. hv- og kv-regluna. 
Hannes Hafstein komst svo að orði í ljóði sínu um Skarphéðin í brennunni: „Buldi við brestur, brotnaði þekjan.“ Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Þorvaldur Sigurðsson

  Það væri einkar gaman ef hr. Egill Ólafsson vitnaði í þennan annál sem á að hafa sagt frá meintri barnasölu og birti orðrétt það sem hann hefur fyrir satt.
  Amk. trúi ég illa að í íslenskum annálum séu örlög, og lendingarstaðir, barna sem eiga að hafa verið seld til útlanda tíunduð. Hins vegar líkist þessi meinta sala fremur frásögn Blefkens þess sem frægur varð að endemum um alla Evrópu fyrir skrautlegar og upplognar lýsingar á mannlífi á voru landi, Íslandi. Var hann enda maklega tekinn til bæna í hinu fræga riti Anatomia Blefkeniana eftir Arngrím Jónsson lærða.

 • „Meter, liter, sjávargólf, púðursnjór, Mækelanzelo….“
  Hvernig mun „vegna börnum framtíðar“ sem alast upp við svona orðræðu?
  Fjölmiðlamenn eru á sömu bylgjulengd og bankabófarnir – og ræna þjóðina því eina sem hún átti eftir – tungumálinu.

 • “ Var hann enda maklega tekinn til bæna í hinu fræga riti Anatomia Blefkeniana eftir Arngrím Jónsson lærða.“

  Mér finnst að svona eiga allir nútíma Íslendingar að orða hugsanir sínar.:

  Að Íslendingar hafi alltaf rétt fyrir sér og taki útlendingum maklega til bæna og leiðrétti þá frá villu sinni.

  Anti-Blefkenistar ná völdum í Framsóknarflokknum um næstu helgi.

 • Hlynur Þór Magnússon

  Leyfi mér að (mis)nota þennan vettvang með því að árna Eiði Svanberg Guðnasyni heilla vegna fyrsta skrefsins í fréttaljósmyndun – eða er þetta e.t.v. ekki fyrsta skrefið á því sviði? Myndin af lúxusjeppa bankastjóra í stæði ætluðu fötluðum hefur farið víða, birst á helstu fréttavefjum og vakið mikla athygli.

 • „hv- og kv-regluna“:

  Hér er væntanlega átt við „rita skal í samræmi við uppruna“.

  Þetta nú ekki mikil regla, verð ég að segja (þó að vissulega séu „kvað“ og „hvað“ af tvennum uppruna.

  Skrifar þú „hnífur“ með h-i eins og unga fólkið?

 • Haukur Kristinsson

  Eyjan í dag:

  Vefmiðillinn Smugan rifjar upp að fréttaskýringaþátturinn 60 minutes hafi gert Zug að umfjöllunarefni sökum þessa fyrir skömmu síðan en Zug þykir kjörin staður fyrir fyrirtæki sem ekki vilja leggja of mikið til í samneyslu.

  Væri ekki laust pláss fyrir nokkrar kommun þarna, Eiður?

 • Egill er mágur Hrafns sem er „fóstbróðir“ Davíðs, sem lætur sér ekki nægja sem lífsverk hrun Íslands, heldur vill framlengja ömurlegar afleiðingar þess. Það kemur sífellt á óvart hversu lágt fólk leggst.
  Þegar Hrafn var dagskrárstjóri RÚV, þangað kominn með ráðherrafyrirgreiðslu „fóstbróðursins“, var ekki flóafriður fyrir þessari klíku. Þetta tengslafólk Hrafns gerði hvern sónvarpsþáttinn á fætur öðrum á kostnað RÚV og ekki nóg með það heldur voru þessir þættir endurteknir aftur og aftur. Á þessum tíma voru samningar með þeim hætti að flytjendakostnaður við endurtekningar á íslensku efni hjá RÚV var nánast hinn sami og við gerð þess. Þannig var ausið úr fjárhirslum ríkisins. Núna hefur fólkið áhyggjur af að íslensk börn verði send til Englands. Það má benda á að það er enginn virðisaukaskattur á barnafötum í Englandi.

 • Þórður Óskarsson

  Hefur nokkur tekið eftir því að Eiður virðist ekki lesa Fréttablaðið. Alla vega hefur ekki sést nein gagnrýni á Fréttablaðið eins og allir sem í það skrifa fái 10 í íslensku.
  Getur það eitthvað tengst því að Fréttablaðið skrifar fréttir sem eru séðar með gleraugunum hans Eiðs þar sem Icesave er annað glerið og ESB hitt glerið. Svo gæti það verið að Eiður vilji ekki styggja eiganda blaðsins.

  Ég tek líka eftir því að Eiður sem hefur verið dyggasti hlustandi Útvarps Sögu er hættur að hlusta.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is