Mánudagur 04.04.2011 - 21:08 - 8 ummæli

Molar um málfar og miðla 576

Eftirfarandi frétt var á bls. 2 í Morgunblaðinu og á mbl.is (04.04.2011): Dash-flugvél frá Flugfélagi Íslands hæfði svan á flugi við flugtak frá Ísafjarðarflugvelli í gærmorgun með þeim afleiðingum að svanurinn féll særður til jarðar. Að sögn sjónarvotta, sem voru í hóp-kajakferð rétt við flugvöllinn, var flugvélin rétt búin að draga inn hjólin þegar svanurinn kom aðvífandi. Þeir sögðu jafnframt að aðeins hefði munað hársbreidd að svaninum tækist ekki að sveigja frá hreyfli vélarinnar.  Þessi  frétt er  skrifuð  af einstakri snilld.  Flugvélin hæfði svan sem kom aðvífandi og aðeins munaði hársbreidd að  svaninum tækist ekki að sveigja frá  vélinni!    Snilli þeirra Moggamanna eru  engin takmörk sett, en þeir eru hittnir flugmennirnir hjá Flugfélagi Íslands.

 Í íþróttafréttum Stöðvar  tvö (04.04.2011) var  talað um að lýsa   gríðarlegri virðingu gegn  einhverjum,  átt var við að einhverjum væri  vottuð  virðing.

 Fréttamaður Ríkissjónvarps (04.04.2011) talaði um góðan þorskafla í Faxaflóa og  sagði, að netin hefðu verið úttroðin af  fiski. Þetta  orðalag hefur  Molaskrifari aldrei heyrt.  Þegar vel aflast í net    er talað um að netin séu bunkuð. Netin  voru bunkuð af þorski. Molaskrifari hefur ekki fundið þess dæmi að talað sé um úttroðin net af þorski.

 Það var engin  amböguþurrð í  sexfréttum Ríkisútvarpsins (04.04.2011). Þar var sagt: … helsta vandamál skólamáltíða á Norðurlöndunum  er …. (allsstaðar er hægt að finna vandamál), hafa stefnt hátt á annan tug háttsettra manna, hafast við bág kjör,ásakanir ,sem gerðar hafa verið á hendur, virkjunin verður staðsettt… Það væri heillaráð, ef málfarsráðunautur   stundum læsi handritabunkann, áður en hann er lesinn  fyrir okkur.      

 

Hér var á  dögunum rætt um   hvort  segja  ætti í eignarfalli  fleirtölu viðræða  eða viðræðna. Gamall skólabróðir  Molaskrifara kann enn  málfræði, sem hann lærði í  fyrsta bekk í gagnfræðaskóla, en þá lásu allir íslenska málfræði  eftir Björn Guðfinnsson: ,, Í þeirri bók, er athugagrein við nafnorðabeygingar, sem hljóðar svo: Veik kvenkynsorð, sem enda á a í nf.et. enda á –na í ef.ft. nema þau, sem enda á a í nf.et. og hafa hvorki g né k í stofni.

Svona reglur lærði maður þá utanað  og þær sitja í skallanum  á manni eftir 61 ár!”   Molaskrifari getur ekki sagt annað en þetta sé vel af sér vikið.

Umfjöllun Kastljóss um Icesave  auglýsingar (04.04.2011) var ekki merkileg. Hinsvegar má ekki á milli sjá hvor er verri hákarlsauglýsing Já-manna eða  barnaánuðarauglýsing  Egils Ólafssonar, sem er Nei-maður.  

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Anna María Sverrisdóttir

  Takk fyrir þetta Eiður. Ég leitaði í angist minni á vefsvæði Árnastofnunar þegar ég var að fara yfir íslenskuverkefni 7. bekkinga og sá þar að orðið „bóla“ var beygt í ef flt, „bólna“ Mér fannst þetta ekki ganga en viti menn, hvort tveggja er „rétt“: http://bin.arnastofnun.is/leit.php?id=16133 🙂

  En að auglýsingalestri Egils Ólafssonar þar sem fram kemur að hætta verði á að íslensk börn verði seld í kolanámur í Bretlandi ef við semjum um Icesave. Ég hélt ekki að nokkur maður sem vill láta taka sig alvarlega léti svona lagað út úr sér. Er ekki komið að því að fólk kæli sig aðeins niður í umræðunni svo þó ekki sé nema til að koma henni í sæmilega vitrænt horf

 • Eiður, ef ég man rétt var Björn heitinn Guðfinnsson, ekki Guðfinsson?

 • Þorvaldur Sigurðsson

  Björn Guðfinnsson var stærðfræðingur sem álpaðist til að læra málfræði. Þessvegna taldi hann að málinu mætti lýsa með „absolútum“ stærðfræðiformúlum eins og dauðu fyrirbæri. Það er misskilningur. Íslenskan er lifandi og vex í ýmsar áttir. Stundum koma á hana bólur, en ef þær eiga ekki framtíð fyrir sér springa þær og hjaðna. Hlutverk málfræðinga er að lýsa málinu eins og það er; en ekki eins og þeir telja að það eigi að vera.
  Vefur Árnastofnunar getur komið mörgum þeim að gagni sem ekki hefur á hreinu hvað tíðkast í orðabeygingum. Og sjá: Í húsi málsins eru margar vistarverur.

 • Haukur Kristinsson

  Þorvaldur S. „Hlutverk málfræðinga er að lýsa málinu eins og það er; en ekki eins og þeir telja að það eigi að vera“.
  Þetta kalla ég nú heldur hæpna fullyrðingu. Og hver á að segja okkur hvernig málið er? Kannski þjóðaratkvæðisgreiðsla?

 • Þorvaldur Sigurðsson

  Nei; í málfarsefnum gilda ekki Egilsstaðasamþykktir. Enginn einn getur sagt hvað sé „viðurkennt“ og „viðeigandi“. Þess vegna verður að skoða samfélagið allt og notkun þess á málinu, auk þess að kanna hvað tíðkast á hverjum stað en ekki alls staðar. Orðanotkun eins er sérviska; margra regla og allra mætti kalla lögmál. En svo koma allar undantekningarnar og breytingar sem eru í gangi og…
  Þessi mál eru bæði loðin og flókin.

 • Þorvaldur, hvað er „Egilsstaðasamþykkt“?

 • Haukur Kristinsson

  Þorvaldur. Það á að vera hægt að telja eitt réttara en annað í íslensku. Of mikið frjálslyndi gæti orðið til þess að afkomendur okkar geti ekki lengur lesið okkar fornbókmenntir, ekki einu sinni Laxness.

 • Þorvaldur Sigurðsson

  Gunnar! Góð spurning. Nú man ég ekki nákvæmlega tildrögin að tilurð þessa orðs, en í sem stystu máli snerist hún um það að á fundi á Egilsstöðum, einhverntímann um miðbik tuttugustu aldar, greindi menn á um hvað væri satt í máli og vændi hver annan um lygi. Var þá gripið til þess ráðs, til að skera úr málinu, að fundurinn greiddi atkvæði um það hvor hefði rétt fyrir sér og skyldi það vera rétt sem meiri hlutinn taldi. Hafa slíkir gerningar síðan verið kallaðar Egilsstaðasamþykktir. (Má m.a. lesa um þetta á slóðinni: http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2309126 ) Eru þær mikið notaðar í siðferðismálum og jafnvel málfarsúrskurðum.
  Haukur! Nú ætla ég ekki að verða kaþólskari en páfinn í frjálslyndisefnum, ef svo má að orði komast, og halda því fram að þú eigir við að þér finnist að hægt eigi að vera að telja eitt réttara en annað í íslensku. Því eru ekki allir málfræðingar sammála og telja jafnvel að geti leitt til allskonar ófarnaðar í félagslegum efnum. Reyndar er ég þér sammála í því að eftirsjá væri að því ef afkomendur okkar gætu hvorki lesið Njálu né Sjálfstætt fólk. Jafnvel get ég fallist á að við slíkri þróun ætti að sporna. En; það mun gerast, eins og það hefur gerst í nágrannalöndunum, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Málið mun þróast, alveg eins og það hefur þróast. Það mál sem talað er nú í upphafi 21. aldar er verulega frábrugðið því sem talað var í upphafi þeirrar 20. Og Laxness, til dæmis Íslandsklukkuna, geta unglingar almennt ekki lesið hjálparlaust nema með skýringum og þaðan af síður Njálu. Vitaskuld eru, góðu heilli, til undantekningar frá þessu en þær eru færri.
  Í hnotskurn er ég sammála þeirri málstefnu sem birtist m.a. í Málsögubók Sölva Sveinssonar, sveitunga míns. En ég geri mér engar grillur um að íslenskan verði til óbreytt um aldur og ævi.
  Og ég held ekki að ónot og skætingur í garð þeirra sem ekki tala „kórrétt“ verði til að seinka þróuninni. Hins vegar getum við sem eldri erum verið góðar fyrirmyndir. Til lengri tíma held ég að það sé affarasælast.
  Svo sé ég að við erum nokkurn veginn sammála þótt ég sé tortryggnari á framtíðina en þú.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is