Sunnudagur 03.04.2011 - 20:01 - 13 ummæli

Molar um málfar og miðla 575

Líklega þarf svolítinn tíma  til að venjast veðurfréttum Ríkissjónvarpsins í  nýjum búningi. Flest er þó þar til bóta, mest  það sem  Molaskrifari hefur  oft  beðið um, –  að fá að  sjá  til veðurs í vesturheimi.  Takk fyrir það.  En ágætu   sjónvarpsmenn,  hlífið okkur við þessum iðandi, órólega  bakgrunni fréttalesara. Hann er algjörlega óþolandi. Því fyrr því betra…….

 Í fréttum Ríkissjónvarps (03.04.2011) var   sagt frá  samningaviðræðum. Tvívegis  notaði fréttamaður orðmyndina   viðræðanna   (ef. flt.). Molaskrifari er hallast að því, að hér hefði fréttamaður átt að segja: viðræðnanna , en er ekki viss í sinni sök.  Í sama fréttatíma var sagt: ..  og voru  öll sund lokuð  fyrir honum. Hér  hefði  Molaskrifara fallið betur ef sagt hefði verið: Og  voru honum öll sund lokuð. Margir eiga í erfiðleikum með   að bera rétt fram  heiti ríkisins Connecticut.  C-ið í miðju orðinu heyrist ekki í framburði. Það heyrðist mjög  skýrt í framburði íþróttafréttamanns í þessum fréttatíma.  

Undarlegt er að  fréttamenn skuli  sífellt  tala um ársgrundvöll  þegar nægir að tala um ár. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.04.2011) var talað um  sparnað á ársgrundvelli. Átt var við  sparnað  á ári. Menn ættu að spara  ársgrundvöllinn.

Í þessum sama fréttatíma   Ríkisútvarpsins var  talað um samninga sem hefðu verið þinglýstir. Þetta er  rangt. Rétt hefði verið að  tala um samninga,sem  hefði verið þinglýst. Samningarnir  voru ekki þinglýstir. Samningunum var þinglýst.

Enn eitt dæmið um nefnifallssýkina úr mbl.is (02.04.2011): 19:20 Sérsveitarmenn frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum tókst að frelsa olíuflutningaskip úr hendi sjóræningja í dag. Þetta er eiginlega óskiljanlegt. Hér ætti að standa: Sérsveitarmönnum tókst…

Í  fréttum Stöðvar tvö (03.04.2011) var talað um  að  stíga  út  af sporinu.  Venja er  að  tala um að fara út af sporinu, þegar eitthvað fer úrskeiðis. Í sama fréttatíma var talað um að láta fé  rakna til  einhvers. Málvenja er að tala um að láta  fé af hendi  rakna til einhvers, þegar veittur er fjárstuðningur..

Þegar íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins segir (02.04.2011) að  allur  botninn hafi  dottið úr leik liðsins, þá er hann að bulla. Við tölum um að botninn  detti úr  einhverju sem  reynist ónýtt eða  á sandi  reist. En að  tala um allan  botninn  eins    gert var,  er   út í hött.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Samkvæmt beygingavef Árnastofnunar má segja bæði viðræðanna og viðræðnanna:

  http://bin.arnastofnun.is/leit.php?q=vi%C3%B0r%C3%A6%C3%B0ur&ordmyndir=on

 • Ég myndi alveg hiklaust segja „viðræðnanna“. Eiður: Greinarnar sem þú skrifar hér eru oft áhugaverðar og fræðandi. Fátt er eins hressandi og vangaveltur um íslenskt málfar!

  Með kveðju,

  Margeir Steinar Karlsson

 • Sammála, – kærar þakkir Margeir Steinar.

 • Oflæti og yfirborðsmennska einkennir allan umbúnað frétta Ríkissjónvarps. Við sem bjuggumst ekki við neinu höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Meiri athygli vekur málfar barnanna á fréttastofunni, nú í síðast kvöld um óöld á Fílabeinsströndinni: „…mörg hundrað manns hafa verið myrtar og yfir milljón lagst á flótta.“ Tungumálð úrkynjast í takt við siðina, það er gömul saga og ný.

 • Hanna Kr. Hallgrímsdóttir

  Og nú kallar Mogginn hafsbotninn sjávargólf.

 • Var að reka augun í sjávargólfið !

 • Held að maður þurfi ekki að siða fólk fyrir framburð á erlendum stöðum. Ekki margir erlendir miðlar sem bera Reykjavík fram þannig að það sé nálægt íslenskum framburði, hvað þá Eyjafjallajökull.

  Ef það stendur Connecticut þá má auðvitað segja það eins og það er ritað!

 • Steingrímur Jónsson

  Þakka þér fyrir góða pistla Eiður. Ég er nánast alltaf er ég sammála þér en núna vill ég gera smá „athugasemd“ við ársgrundvöllinn. Það er rétt hjá þér að orðið ársgrundvöllur er ofnotað.

  Hins vegar verður stundum að nota „ársgrundvöllinn“ en einnig má nota orðalagið „miðað við heilt ár“ sem ég kann betur við. Tökum dæmi.

  Vextir eru 3% á sex mánuðum eða 6,09% á ársgrundvelli.

  Einnig má segja.

  Vextir eru 3% á sex mánuðum eða 6,09% miðað við heilt ár.

  Sumir segja „vextir eru 3% á sex mánuðum eða 6% á ári. Þetta er augljóslega vitlaust.

  Því þarf að nota „ársgrundvöllinn“ eða „miðað við heilt ár“

  Ef sagt væri

  „Undarlegt er að fréttamenn skuli sífellt tala um ársgrundvöll þegar nægir að tala um ár. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.04.2011) var talað um sparnað á ársgrundvelli. Átt var við sparnað á ári. Menn ættu að spara ársgrundvöllinn“.

 • JBJ
  „Ég held að maður þurfi að siða fólk fyrir framburð“
  þegar það í ríkisfjölmiðli ber erlent orð fram að hætti þriðja máls – ensku.
  Í barnatímanum í dag var Ítalinn Micaelangelo kallaður [mækelanzelo] upp á ensku.

 • Arnbjörn

  Sumir flaska á þessu:
  „Farewell Leicester Square“

 • Benedikt

  Þessi „frétt“ er núna á Pressunni.

  „Leikkonan Halle Berry er dugleg að hugsa um sjálfa sig og þykir hún vera ein vel vaxnasta leikkonan í Hollywood.“

  Við þetta er engu að bæta.

 • Jú þessu í Mogganum í dag: FLUGVÉLIN H Æ F Ð I ÁLFTINA!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sex? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is