Fimmtudagur 24.02.2011 - 08:49 - 8 ummæli

Molar um málfar og miðla 539

  Í fréttum Stöðvar tvö var talað um, að tannlæknar  væru krafnir um. Hér hefði átt að segja, að tannlæknar væru krafðir um.  Eða þess  væri krafist, að tannlæknar….

  Beygingakerfið er á undanhaldi. Enn eitt  dæmið um  það var í mbl.is (23.02.2011): Ráðuneytið hefur náð samkomulagi við forsvarsmenn skólans um að nemendur sem hófu nám sl. haust verði gert kleift að ljúka námi sínu við skólann á vorönn 2012.  Hér átti auðvitað að segja:  … nemendum … verði gert  kleift…

 Dæmi um óþarfa þolmynd úr mbl.is (23.02.2011): Jón segir að fólkið sem komst inn í Túnis hafi verið rænt af mönnum í lögreglubúningum… Um  þetta þarf svo sem ekki að hafa mörg orð.

    Í Ríkissjónvarpinu var enn einu sinni sagt (22.02.2011): … frá því  forseti synjaði  lögunum.  Molaskrifari er ekki sáttur  við þetta orðalag. Hefði fundist  betra að segja: .. frá því  forseti hafnaði því að  undirrita lögin.  Kannski er  Molaskrifari einn um þá  skoðun að ekki sé  rétt að nota sögnina að synja með þeim hætti, sem Ríkissjónvarpið gerði.

  Dagskrá íþróttahúss þjóðarinnar í Efstaleiti höfðaði ekki til Molaskrifara á þriðjudagskvöldið (22.02.2011). Hann horfði því á Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann, fulltrúa  stjórnarandstöðunnar í Icesave  saminganefndinni  útskýra málið í  samtali við Ingva Hrafn í ÍNN  stöðinni. Lárusi tókst einstaklega vel að  útskýra þetta  flókna  mál og þær áhættur sem  felast í  hvorum  þeirra tveggja kosta sem   blasa við. Annarsvegar að  samþykkja þann samning sem  fyrir liggur eða  láta málið fara  fyrir dómstóla. Eftir útlistun Lárusar  er ekki hægt að velkjast í vafa um það hvor kosturinn  sé  betri. En  auðvitað eru  þeir til sem munu halda áfram að  berja hausnum við steininn og  kyrja: Við borgum ekki. Við borgum ekki , undir stjórn Morgunblaðsins og  fyrrum forkólfa Sjálfstæðisflokksins. 

 Ragnar Hall, hæstaréttarlögmaður  gerði Icesave málinu  einnig  mjög  góð skil í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (22.02.2011). Hann talaði mannamál, þannig að allir gátu  skilið. Takk fyrir það.

 Það er til marks um vinnubrögð Morgunblaðsins í Icesave  málinu að í dag (24.02.2011) birtir  blaðið leiðréttingu frá  forstjóra  ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Hann ber af sér sakir. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins  gerði honum upp skoðanir. Laug upp á hann , heitir það á íslensku.  Ný vinnubrögð  á Mogga. Ekki hvarflar að blaðinu að biðja  viðkomandi einstakling afsökunar. Morgunblaðinu er ekkert heilagt í  blindri baráttu gegn  Icesave. Allra síst sannleikurinn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Eysteinn Sigrúnar Björnsson

  Fyrst minnst er á tannlækna, er ekki úr vegi að benda á þessa skrautlegu ambögu sem birtist í bloggi þaulmenntaðs ríkisstarfsmanns í gær:

  „Skólinn hætti að gera við tennur barna og frá því að vera best tenntust urðu íslensk börn verst tenntust.“

  En sennilega er fólk farið að tala svona, þannig að lítið er við því að gera.

  Kveðja
  ESB

 • Sæll Eiður.

  Ég geri ráð fyrir að þú fylgist lítt með íþróttum.

  Ég horfi stundum á íþróttarásir Stöðvar 2.

  Málfarið þar er með algjörum ólíkindum.

  Þeir sem lýsa kappleikjum og ekki síst sérfræðingar sem kallaðir eru í þættina tala mál sem er sérstakt rannsóknarefni.

  Mál þeirra einkennist af því að ensk orðtök eru þýdd beint yfir á íslensku.

  Í gær kepptust menn við að lýsa því yfir hversu mikilvægt væri að tiltekin fótboltalið „næðu úrslitum“. Þetta át hver upp eftir öðrum.

  Hér er á ferð enska orðasambandið “ get a result“ sem fótboltamenn þar í landi nota óspart. Það vísar vitanlega ekki til þess að „ná úrslitum“ heldur að ná góðum eða viðunandi árangri t.d. jafntefli á erfiðum útivelli.

  Menn „ná“ vitanlega ekki úrslitum, þau „verða“.

  Marga fleiri enska frasa mætti nefna t.d. tala sérfræðingar á Stöð 2 um „að taka manninn á“. Hér er um að ræða þýðingu úr ensku „take him on“ sem notað er þegar tiltekinn fótboltamaður reynir að komast framhjá andstæðingi, leika á hann.

  Þetta er svo hallærislegt að því verður vart með orðum lýst.

  Enn eitt dæmi um lamandi minnimáttarkennd Íslendinga sem tekur æ oftar á sig skelfilegar myndir.

 • „Morgunblaðinu er ekkert heilagt í blindri baráttu gegn Icesave. Allra síst sannleikurinn“, segir molaskrifari og telur sig þar með vera handhafa sannleikans. Það vill svo til að í Icesave málinu takast á mismunandi sjónarmið. Sumir halda því fram að Íslendingum sé ekki skylt að borga Icesave skuldina og óttast ekki dómstólaleiðina fari málið á þann veg. Þeir færa rök fyrir sínum málstað. Aðrir halda því fram, að nauðsynlegt sé að samþykkja samninginn vegna stöðu þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu og því að Íslendingar eigi að standa við skuldbindingar sínar. Þeir færa rök fyrir sínum málstað. Þannig ganga málin fyrir sig í lýðræðissamfélagi.
  Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram innan tíðar og eðlileg krafa fólksins er að samningurinn sé kynntur í þaula og á hlutlægan hátt. Þeir sem þegar hafa myndað sér skoðun hvort heldur með eða á móti samningnum eiga auðvitað þann rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og berjast fyrir framgangi þeirra. Allt er það í anda lýðræðis og á endanum er það svo fólkið í landinu, eftir að hafa metið alla þætti málsins, að fella sinn dóm.
  Molaskrifara getur ekki verið alvara með þeim málflutningi, sem örlar á í skrifum hans að hann mæli með skoðanakúgun. Að sannleikurinn sé aðeins einn og hann sé einn af handhöfum hans. Sovétið gamla kemur upp í hugann og jafnvel hugarfar einræðisherra við sunnanvert Miðjarðarhafið.

 • Eiríkur Kristjánsson

  „nemendur … verði“ er ekki dæmi um undanhald beygingarkerfisins (þótt það sé kannski ekki upp á sitt besta)

  Þetta er líkara því sem heitir „synesis“ eða „constructio ad sensum“ í einhverjum fræðum og er ýmist málvilla eða stílbragð eftir atvikum.

 • GSS: Eiður nefnir dæmi um ósannsögli og er að skrifa um það. Þegar einhver verður uppvís að slíku á að benda á það, og á að vera hægt án þess að viðkomandi sé sakaður um þann hroka að telja sig „handhafa sannleikans“. Það eru margar hliðar á Icesave-deilunni og tilfinningahitastigið hátt. Þeim mun mikilvægara er að halda sig við sannleikann, án þess að telja sig „handhafa hans“.

  PS: Sannleikurinn er aðeins einn. Í leitinni að honum misstíga menn sig stundum og gott ef menn viðurkenna það. En það eitt er lygi þegar maður veit betur en segir samt það sem ekki er rétt.

 • Ég vona að þjóðin beri gæfu til þess að samþykkja lögin í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjálfur efast ég ekki um hvernig færi fari málið fyrir Evrópudómstólinn. Þar er ekki látið viðgangast að hægt sé að hlaupa frá skuldbindingum og neita að borga. Enda hvernig ættu viðskipti á milli landa að ganga ef þjóðir kæmust upp með það? Það er einnig dapurlegt þetta viðhorf að tilgangurinn helgi meðalið bara ef við sleppum við að borga. Hvað með siðferðilega þætti málsins? Er Íslendingum alveg sama þó litið sé á þá sem „persona non grade“ á alþjóðlegum vettvangi?
  Hins vegar hefur myndast skuggaleg þrenning sem rær að því öllum árum að lögin verði fellt. Þetta eru þeir Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn og Ólafur Ragnar Grímsson, aðalarkitektar hrunsins. Lífsverk Davíðs er hrun Íslands, Ólafur bjó útrásarvíkingana út með fálkaorðum og fögrum umsögnum og Hannes hélt úti áróðursþáttum í ríkisútvarpinu í 30 ár þar sem hann boðaði fagnaðarerindi frjálshyggjunar, Friedman, Hayek og Adam Smith og hann hélt þessari iðju áfram eftir að honum var troðið með ráðherraofbeldi vanhæfum inn í Háskóla Íslands. Það má segja um þessa þrenningu að „hún má ekki sjá neitt aumt“ öðru vísi en að sparka í það, svo vísað sé í orð eins úr hópnum.

 • Ómar Kristjánsson

  Hvað sagði forstjóri ESA eða hvað var hann að leiðrétta hjá Mogga?

 • Athugasemd hans og leiðrétting er í Morgunblaðinu í gær, sem ég hef ekki lengur við hendina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is