Mánudagur 21.02.2011 - 16:04 - 15 ummæli

Skilgreiningar hannaðar eftir hendinni á Bessastöðum

Forseti  lýðveldisins hannar nú nýjar skilgreiningar eftir  hendinni  til að þjóna hentisemi  sinni og persónulegum  metnaði.   Þjóðin er löggjafinn,  er alveg  ný skilgreining.  Hún finnst líklega hvergi á  bókum, en  hún hentar núna, þegar  Ólafur Ragnar Grímsson er byrjaður að búa sig undir  framboð til fimmta kjörtímabilsins á Bessastöðum.  Hann er alltaf að  reyna að gera það sem enginn hefur  áður gert, jafnvel þótt með endemum sé.

  Það er annars svolítið hlálegt að  sú staða skuli  nú vera uppi, að Ólafur  Ragnar  skuli   að öllum líkindum ætla sér að sitja  fimmta kjörtímabilið á Bessastöðum  í  skjóli ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi  forsætisráðherra  og ýmissa helstu forkólfa gamla  Sjálfstæðisflokksins. Þetta er  ekki síst  hlálegt  í ljósi þess að einu sinni    sagði   forsætisráðherra um Ólaf Ragnar  Grímsson, að hann mundi aldrei, aldrei sitja sem forsætisráðherra í skjóli þess manns.  En nú gæti  farið svo að  Ólafur Ragnar sæti eitt kjörtímabil í  viðbót í skjóli  ritstjóra Morgunblaðsins á Bessastöðum. Undarleg er veröldin  og ólíklegustu menn sænga nú saman  í pólitík. (Politics makes strange bedfellows, er sagt á ensku)

 Á  blaðamannafundinum á Bessastöðum, sagðist  Ólafur    Ragnar  alls ekki vera að breyta  stjórnskipan  landsins. Auðvitað er hann að því. Ísland er lýðveldi með  þingbundinni stjórn. Forsetinn  sniðgengur  fulltrúalýðræðið og   baðar sig  nú í fjölmiðasólinni. Hann gæti þó brennt sig.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

 • Stefán Benediktsson

  „Brennt sig“. Ætli hann sé nú ekki orðinn „Well done“ þegar.

 • Augljós þráður spunninn milli ræðu forsetans, svonefndar
  „Vikingaræðu“ til heiðurs útrásar-bankastjórunum og gerða hans núna.
  HEFÐI hann HAMLAÐ þá, er augljóst að ICESAVE væri ekki til
  Gott að breiða yfir óheyrileg mistök.
  Ræðuna aftur FRAM Í DAGSLJÓSIÐ OG HEIÐURINN
  TIL ÞRJÓTANNA, SEM OKKUR ER NÚNA GERT AÐ BORGA.

 • Í Gallup könnun kemur fram að 12% þjóðarinnar treysta Alþingi. Margt kemur til en ekki síst umræðuhefðin á Alþingi og málflutningur af því tagi sem molaskrifari viðhefur. Forsetinn hefur vísað Icesave III til þjóðarinnar og nær væri fyrir fylgismenn ríkisstjórnarinnar að sætta sig við orðinn hlut og hefja málefnalega baráttu fyrir samþykkt samningsins.
  Móðursýkisleg viðbrögð fara illa í almenning og málflutningur í þess háttar hugarástandi gerir ekkert annað en skaða ríkisstjórnina í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þjóðin vill hlutlægar efnislegar umræður um samninginn og staðgóðar upplýsingar og gerir kröfu til þess. Það er lýðræðislegur réttur hennar.

 • Aðrar rökstoðir eru sérkennilegar: 1. Netkönnun þar sem þátttakendur senda inn að vild svör. 2. Hall ákvæði sem Hall sjálfur hefur staðfest að sé efnislega í samningnum. 3. Álit minnihluta Alþingis. 4. Alþingi sé ekki með endurnýjað vald til að semja. Einhvern tímann hefði þetta þótt tíðindi í lagadeild.

 • þórður guðmundsson

  ákvarðarnir sínar rökstyður ólafur ragnar með einum eða öðrum hætti

 • Niels Hermannsson

  Ólafi gafst einstakt tækifæri til að höggva á þann Gordíonshnút sem Icesave er. Fyrir því hefði hann geta fært skynsamleg og hófsamleg rök sem héldu og sem sýndu hann hafa sanna leiðtogahæfileika. Hann hefði getað sameinað og sætt, en kaus að sundra og hleypa í enn frekari óvissu. HAnn er ekki leiðtogi, hann er klappstýra. Ég gat ekki heyrt rökfærslu í orðum hans, ekki í þeirri merkingu að hann hefði unnið sig fram til niðurstöðu á grundvelli þess sem mestu skipti, sannast væri og vægi þyngst. Ræðan öll bar mikllu meiri keim afsakanna og fyrirsláttar. Hann kaus aðferð Hæstaréttar, einhvers konar stjórnmálatæknimál, eins og Hæstiréttur bar fyrir sig lagatæknimáli í máli Stjórnlagaþingsins. Ekki til að skýra afstöðu heldur til að réttlæta eigið val. Og hann sniðgekk þær spurningar fréttamanna sem beindust að þætti túlkunar í laga- og stjórnmálahefð. Með undanslætti sínum hefur hann vísað gamalli og erfiðri spurningu til fólks undir erfiðum kringumstæðum: Hvort viljum við heldur þola órétt eða sýna öðrum órétt. Þetta er valið í Icesave. Auðvitða er ekkert réttlæti með stórum staf í að almenningur borgi fyrir þjófnað annarra, en verðum við menn að meiri af því að senda allan reikninginn af íslenskum bófum á almenning annarra landa?

 • Haukur Kristinsson

  Málið er að Ólafur Ragnar Grímsson er “überfordert”, eins og það heitir á þýsku. Hann hefur ekki vitsmuni, manndóm eða karakter til að taka rétt á þessu erfiða og að mörgu leiti flókna máli. Vonum að eftirmaður hans hafi meiri vitsmuni og verði sá “höfðingi”, sem embættinu sæmir.

 • Jakob Andersen

  Segjum svo að icesave verður hafnað í kosningar. Og segjum svo að bretar, hollendingar og íslendingar semja upp á nýtt og samþykkja nýtt icesave (icesave 4). Hvað gerist þá?
  Nú er flestir sammála um að hér verður kjósið um icesave samningin eða dómstólaleiðina. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að forsetann getur varla ekki leyft sig að skrifa undir nýjan lög um icesave (icesave 4) án þess að vera í mótsögn við sjálfan sig.
  Eitthvað gæti bent til þess að forsetann kemur í veg fyrir að það verður samið um Icesave. Ef þetta er rétt þá er forsetann auðvitað í polítík.

 • Róbert Trausti Árnason

  Tíminn 11.janúar 1968 geymir þessa klausu;
  „Það er skýrasta dæmið um vanþróun íslenskra stjórnmála og drottnun óðapólitíkurinnar á Íslandi, að í hásæti ríkisstjórnarinnar skuli sitja valdasjúkur Tumi Þumall.“

 • Lana Kolbrún Eddudóttir

  Aðeins út í önnur málefni. Eftirfarandi frétt af Ríkisfréttstofunni ætti að vera með fyrirsögnina: Finnið fimm villur (eða sjö eða níu…)

  …………………………………………….

  Tyrkir spenntir fyrir íslensku fé

  Útflutningur á sauðfé á fæti gæti hafist aftur eftir ríflega hundrað ára hlé. Tyrkir hafa áhuga á að kaupa íslensk lömb til slátrunar á Tyrklandi.
  Íslenskir sauðfjárbændur höfðu drjúgar tekjur af útflutningi lifandi sauðfjár til Bretlands, til slátrunar þar, frá því á 7. áratug 19. aldar til ársins 1896 þegar bann var sett við því að flytja þangað lifandi sláturfé. Bretarnir greyddu fyrir sauðféð í gulli og sáu þá margir íslenskir bændur peninga í fyrsta sinni.

  Nú er sagan hugsanlega að endurtaka sig en nú eru það Tyrkir sem hafa áhuga á því að flytja inn sláturfé frá Íslandi. Í Tyrklandi er slátrað 62 milljónum dilka á ári og er sauðfjárslátrun hvergi meiri í heiminum, nema í Kína. Tyrkneskir kjötkaupmenn komu hingað til lands í síðustu viku og hafa þeir áhuga á að flytja út lambakjöt en enn meiri áhuga á að lömbum á fæti. Ef til kemur verður sauðféð flutt út í skipum sem taka frá 4 til 18 þúsund lömb í ferð. Aðbúnaður um borð er allgóður því lömbin eru fóðruð á nýsprottnu grasi, sem ræktað er í gámum, og hafa greiðan aðgang að fersku vatni.

  Ekki hefur verið látið reyna á hvort sauðaútflutingur frá Íslandi stenst allar reglugerðir en væntanlega mun það skýrast innan tíðar. Það liggur heldur ekki fyrir hversu hátt verð tyrkirnir eru tilbúnir að greiða fyrir fé á fæti.

  Áhugi erlendra kaupenda á íslensku lambakjöti hefur aldrei verið jafn mikill en íslenskar afurðastöðvar fá fjölda fyrirspurna í hverri viku.

 • Eiður Guðnason

  Lana Kolbrún, takk fyrir þetta. Ritstjórn er engin á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Raunar virðist þar skorta metnað til vandvirkni, metnað til að gera vel. Það er slæmt.

  Róbert Trausti, – var það ekki Ólafur Ragnar sem skrifaði þetta um Bjarna Benediktsson, uppnefndi hann hinn „valdasjúka Tuma þumal“? Það er einkennilegt að fylgjast með því hverjir hrósa nú Ólafi Ragnari í hásstert.

 • Eiður Guðnason

  — í hástert, – átti þetta að vera.

 • Róbert Trausti Árnason

  Sæll Eiður
  Rétt til getið hjá þér. Hrós Skjallsveitarmanna úr XD er því vissulega einkennilegt.

 • Það er einkennilegt að sjá hve vanstilltir menn eru að ausa óhróðri yfir forsetann fyrir það að hann skuli gefa þjóðinni kost á að afgreiða Icesave milliliðalaust, sem er þó eðlilegt framhald af ákvörðun hans í fyrra. Nú er bara að kjósa og halda ró sinni. – Vill ekki Róbert Trausti, fyrrverandi forsetaritari ef ég man rétt, halda áfram að grafa upp tilvitnanir? Það er ýmsilegt fleira athyglisvert í merkri bók Elíasar Snæland um Möðruvallahreyfinguna.

 • Róbert Trausti Árnason

  Sæll Eiður.
  Ég rótaði í gamla heyinu í Bessastaðadagbóknum mínum og fann fjölmörg gullkorn handa starfsmanni RÚV. Til dæmis þessi; 1.“You ain´t seen nothing yet!“ Frá 24.02.2005. 2.“Ég tilheyri þjóðkirkjunni eins og fleiri, en þrátt fyrir það er ég nokkuð sannfærður um að Guð er ekki til.“ Frá 21.03.1980. 3.“Auðvitað er ég kristinn maður eins og þorri þjóðarinnar og hef verið í þjóðkirkjunni, skírður, fermdur og trúi á þann Guð, sem að sérstaklega amma mín kenndi mér að trúa á.“ Frá 10.06.1996.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is