Sunnudagur 20.02.2011 - 11:15 - 6 ummæli

Molar um málfar og miðla 536

Óljóst er hvenær Goðafoss verður fluttur af strandstað í Noregi, segir á fréttavef  Ríkisútvarpsins (19.02.2011). Nákvæmlega sama orðalag var reyndar notað í hádegisfréttum.  Það er ekki í samræmi við málvenju að tala um að flytja  skip af strandstað.  Skip  eru ekki flutt af strandstað. Vonandi  verður Goðafoss fljótlega dreginn á  flot af skerinu.

 Undarlegt er  að tala  um Halldór Laxness og Ólínu Andrésdóttur sem „textahöfunda“ eins og gert var í  Útsvari   (18.02.2011).  Bæði voru þau  skáld og ortu ljóð.  Og ekki hækkaði  risið á þessari þjóðarstofnun , þegar útvarpsstjórinn  gerði lítið úr  Bandalagi íslenskra listamanna í hádegisfréttum daginn eftir (19.02.2011).  Bandalagið hafi gerst svo  djarft að  gagnrýna íþróttadekrið  í  Efstaleiti.  Það er engu líkara en listamenn eigi ekki upp á pallborðið hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins.  

Af mbl.is (19.02.2011): Skíðasvæðið í Bláfjöllum verður lokað í dag vegna mikils vinds.  Betra hefði verið að segja  að lokað væri vegna hvassviðris. Kannski er þetta bara  sérviska Molaskrifara.

 Í sunnudagsblaði  Moggans  (20.02.2011) er talað um áætlunarskipið Titanic.Áætlunarskip ?  Eðlilegast hefði verið  að  tala um farþegaskipið  Titanic.

  Þeir sem stjórna auglýsingadeild Ríkisútvarpsins eru ekki starfi sínu vaxnir.   Auglýsingadeildin í Efstaleiti  tekur við öllu  sem að henni er rétt athugasemdalaust. Á föstudagskvöld i (18.02.2011) var sagt í auglýsingu, að tiltekin fyrirtæki felldu niður virðisaukaskatt af vörum um helgina.   Þetta eru ósannindi. Fyrirtæki geta ekki fellt niður virðisaukaskatt. Fyrirtæki geta veitt afslátt, sem  nemur virðisaukaskattsprósentunni.   Þetta er því miður  bara enn eitt  dæmið um óvönduð  vinnubrögð í Efstaleitinu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Hlynur Þór Magnússon

  Um árabil hafa verslanir auglýst „tax-free daga“. Óttalega þykir mér orðalagið hvimleitt – auk þess sem hér er einungis um afslátt að ræða en ekki niðurfellingu á lögboðnum gjöldum, eins og pistilritari nefnir.

 • Strangt tekið er þetta auðvitað rétt hjá ykkur með Vaskinn. Og Tax-Free er vissulega enska.

  En afdráttarlaus krafa um smásmyglislega nákvæmni þegar engin hætta er á að misskilningi (nema með einbeittum vilja) er nú ekki uppskrift af skemmtilegum boðskiptaheimi, er það, ha, strákar 🙂

 • Og nú er ég farinn inn í herbergi til að flengja mig fyrir að hafa glapist á muninum á „af“ og „að“.

  Mea Maxima Culpa

 • Í hádegisfréttum Bylgjunnar talaði fréttakona um „Kól Gaddaffí“ en hún hélt greinilega að nafn hans væri þannig, að Col. væri fyrra nafn hans en það er auðvitað bara stytting á colonel eða hershöfðingi (sem hann er oft kallaður). Fréttakonan hefur eflaust bara lesið einhverja erlenda frétt á netinu þar sem þessi stytting kom fram. Semsagt ekki mikil fréttavinna þar á bæ, það er nú t.d. nóg að gúggla Gaddafi og þar kemur strax wikipediu grein þar sem farið er yfir nafn hans í byrjun.

 • Kristján Kristinsson

  Sæll Eiður,
  Ég verð að segja að þessi stöðugu skrif þín og árásir á RÚV jaðra við einelti og starfsheiðri þeirra sem starfa þar. Sérstaklega finnast mér skrif þín um morgunútvarp Rásar 2 mjög dapurleg og ómakleg. Ég hvet þig eindregið að vera málefnalegri og kurteisari í umræðu þinni um menn og málefni.
  Með kveðju.

 • Eiður Guðnason

  Kristján, efni og efnistök í morgunútvarpi Rásar tvö eru oftlega fyrir neðan það Ríkisútvarpið ætti að bjóða okkur. Nefni til dæmis slúðurþætti frá Bandaríkjunum þar sem hlustendur eru ávarpaðir á enskuskotnu hrognamáli. Það á að gera kröfur til Ríkisútvarpsins og Ríkisútvarpið á að gera kröfur til starfsmanna , – ekki síst varðandi málfar.
  Málfar í morgunútvarpi Rásar tvö er ekki til fyrirmyndar. Það er ekki ókurteisi og það er ekki ómálefnalegt að gera athugasemdir við ambögur og enskuslettur í Ríkisútvarpinu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is