Föstudagur 30.03.2012 - 15:46 - FB ummæli ()

Krónan veikir lífskjör almennings

Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf  birti í fyrsta sinn upplýsingar um meðallaun í 72 löndum víða um heim. Ísland er í 19. sæti þjóða þegar kemur að meðallaunum almenns launafólks í heiminum. Hæstu meðallaunin í heiminum eru í Lúxemborg en þar fær launþeginn ríflega hálfa miljón á mánuði. Laun er næst hæst í Noregi eða tæplega 470 þúsund á mánuði og á Íslandi eru meðallaunin tæplega 310 þúsund krónur.

Laun launafólks á Íslandi er í meðallagi á evrópska efnahagssvæðinu, eins og sést á myndinni fyrir neðan. Þau  eru á sama reiki og meðallaun í PIGS ríkjunum svokölluðu – Portúgal, Ítalía, Grikkland og Spánn.  Norðurlöndin raða sér öll í efstu sætin á listanum (reyndar eru ekki birtar tölur fyrir Danmörk og Holland).

Það er í sjálfum sér ekkert slæm niðurstaða að lenda í 19. sæti á lista yfir hæstu laun í heiminum. En staðreyndin er samt sem áður sú að lífskjör á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið talsvert lakari en á hinum Norðurlöndunum. Auk þess höfum við þurft að leggja meira á okkur til að búa við sömu lífsgæði, þar sem vinnuvikan hér á landi er mun lengri en í nágrannalöndunum.

Þessi sama stofnun gerði úttekt á áhrifum fjármálakreppunnar á kaupmátt launafólks um víða veröld. Í henni kom fram að efnahagskreppan kom harðar niður á  í íslenskum launþegum en nokkrum öðrum í veröldinni. Kaupmáttaraukningin sem byggðist upp hér á landi á tímabilinu 2000-07 þurrkaðist alfarið út í kjölfar hrunsins.

Þetta er  lýsandi einkenni á þeim efnahagslega óstöðugleika sem við höfum búið við. Í hvert skipti sem krónan fellur flytjast verðmæti frá almenningi til útflutningsatvinnuveganna, og veiking hennar kemur nær alltaf niður á kaupmætti launafólks. Íslenska krónan hefur fallið um 99,5% prósent gagnvart þeirri dönsku frá því íslensk króna varð lögeyrir á Íslandi fyrir áttatíu árum.

Það er algjört forgangsatriði fyrir launamenn og heimilin í landinu að skipta um gjaldmiðil. Innganga Íslands í Evrópusambandið og upptaka evru er stærsta hagsmunamál launþega og heimila í þessu landi, og eina færa leiðin til að koma á varanlegum efnahagsstöðugleika.

Meðallaun launafólks á evrópska efnahagssvæðinu í íslenskum krónum.

 Heimild: Alþjóðavinnnumálastofnunin (ILO) árið 2012

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is