Sunnudagur 4.2.2018 - 10:34 - FB ummæli ()

Ræður ofstækið för í Brexit?

Í skjölum sem lekið var í síðustu viku kemur fram að Brexit verði efnahagslega erfitt fyrir Breta, sama hvernig samið verði um útgönguna. Þar kemur fram að allir atvinnuvegir landsins munu finna fyrir erfiðleikum og hagvöxtur verður 8% minni en hann hefði annars verið.

Matthew Parris fyrrverandi þingmaður breska Íhaldsflokksins skrifar grein í the Times þar sem hann heldur því fram að tilraunir breskra stjórnvalda til að fela raunverulegan kostnað af Brexit, séu greinilegt merki um svik þeirra sem hafi enga trú á því sem þau eru að gera.

Parris heldur því fram að það sé alltaf að koma betur og betur í ljós hversu litla trú bresk stjórnvöld hafi á útgöngunni úr Evrópusambandinu. Þau geti ekki ákveðið sig hvernig eigi að koma Brexit í framkvæmd, treysta sér ekki til að upplýsa almenning um afleiðingarnar, halda áfram með málið hulið þoku og lifi í þeirri von að einn daginn muni kraftaverk gerast.

Flestir þingmenn Íhaldsflokksins gera sér grein fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan setti kjósendur í vonlausa stöðu og afar naumur meirihluti þeirra gerði mistök. Afleiðingarnar útgöngunnar eru sífellt að koma betur í ljós.  Meirihluti þingmanna Íhaldsflokksins, fyrir utan fámennan hóp ofstækismanna, er meðvitaður um flokkurinn er að vinna gegn hagsmunum ríkisins.

Í Súesdeilunni laug Anthony Eden forsætiráðherra Bretlands að þjóðinni og þáverandi stjórnvöld héldu raunverulegum áformum sínum leyndum.  En hvað sem því líður þá er nokkuð ljóst að Eden og ríkisstjórnin hans trúði raunverulega á það sem þau voru að gera. Það sama má segja um Íraksstríðið. Tony Blair og ríkisstjórn hans beitti blekkingum og ýkjum til að réttlæta innrásina í Írak. Blair og samstarfsmenn hans voru samt sem áður sannfærðir um að innrásinn í Írak væri gerð með breska hagsmuni að leiðarljósi.

Það sama er ekki upp á teningnum með Brexit að mati Parris. Aðferðirnar sem stjórnvöld beiti séu þær sömu en ólíkt Sues og Íraksstríðinu þá er ekki nema um helmingur ríkisstjórnarinnar og lítill hluti þingmanna Íhaldsflokksins sem raunverulega trúir á verkefnið. Það er í raun mjög fámennur hópur ofstækismanna sem ræður för.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.5.2017 - 16:30 - FB ummæli ()

Domínó áhrif af Brexit og umbætur á ESB

Þegar niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild Bretlands að Evrópusambandinu lágu fyrir töldu margir að sambandið myndi liðast í sundur.  Brexit myndi hrinda af stað dómínóáhrifum þar sem fleiri aðildarríki myndu bætast í hópinn og yfirgefa sambandið í kjölfarið. Niðurstöður þingkosninganna í Hollandi og afgerandi sigur Emmanuel Macrons í forsetakosningunum í Frakklandi er sigur fyrir hefðbundin evrópskt frjálslynt lýðræði. Segja má að Brexit og kosning Donalds Trump hafi leitt til andspyrnu almennings gegn þjóðernispoppúlisma og þeim hættum sem uppgangur slíkra afla hefði í för með sér.

Það vakti athygli þegar Macron sem er hlynntur Evrópusambandinu og auknu evrópsku samstarfi lýsti því yfir í kosningabaráttunni að sambandið þyrfti að breytast eða hætta væri á Frexit, það er útgöngu Frakklands úr Evrópusambandinu.

Mesta gagnrýnin á sambandið kemur ekki eingöngu frá jaðarflokkunum til hægri og vinstri. Margir frjálslyndir alþjóðasinnaðir miðjuflokkar, sem lengst vilja ganga í að efla evrópskt samstarf, hafa einnig kallað eftir umbótum á Evrópusambandinu til að kjósendur öðlist aftur trú á mikilvægi þess.

Guy Verhofstadt, leiðtogi frjálslyndra flokka á Evrópuþinginu, er einn af þessum stjórnmálamönnum sem vilja aukið evrópskt samstarf og kallað hefur eftir róttækum umbótum á sambandinu. Nýlega gaf Guy út bókina „Europe’s last chance: Why the european states must form a more perfect union“ sem er einskonar uppskrift af þeim róttækum umbótum sem hann telur að þurfi að eiga sér stað til að Evrópusambandið haldi velli á komandi árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 1.5.2017 - 20:04 - FB ummæli ()

Bresk stjórnvöld úti á þekju í Brexit

Þýska blaðið Franfurter Allegemeine Zeitung (FAZ) birtir ítarlega úttekt á samtali sem átti sér stað milli forsætisráðherra Bretlands, Theresu May og Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í grein FAZ bendir allt til þess að risastór gjá sé á milli breskra stjórnvalda og ESB í afstöðu þeirra til útgöngu Breta úr ESB.

Fréttin af fundinum vekur óhjákvæmilega hjá manni ónotatilfinningu alveg óháð því hvað skoðun maður hefur á útgöngu Bretlands úr ESB. Þær upplýsingar sem koma fram í greininni beina sjónum að því hveru illa undirbúin bresk stjórnvöld eru til að hefja útgönguviðræður við sambandið. Stóra fréttin er ekki sú að það sé ágreiningur til staðar heldur að breskir stjórnmálamenn virðast ekki hafa hugmynd um hvert þeir eru að stefna.

Kosningarnar sem eru framundan í Bretlandi munu ráða úrslitum um það hvort að svokallað hart eða mjúkt Brexit verði ofan á. Eins og staðan er í dag, þá eru meiri líkindur á að samningaviðræðurnar renni út í sandinn nema að bresk stjórnvöld snúist hugur og fari að nálgast málið með uppbyggilegri hætti. Það er gífurlega mikilvægt fyrir báða aðila að samningarnir skili ásættanlegri niðurstöðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.11.2016 - 17:55 - FB ummæli ()

Mun Brexit og Trump bjarga ESB?

Það kemur kannski á óvart að úrganga Breta úr sambandinu og kosning Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna gæti hjálpað ESB og stuðlað að aukinni pólitískri einingu innan sambandsins.

Hver krísan á fætur öðrum hefur dunið yfir Evrópu undanfarin ár. Má þar nefna stríðið í Úkraínu, innstreymi innflytjenda til álfunnar og skuldastaða Grikklands sem reynt hefur á evrusamstarfið.

Í fimm af sex stærstu ríkjum sambandsins hefur stuðningur við aðild aukist talsvert upp á síðkastið. Eina undantekningin er Spánn.

Það eru tvennskonar ástæður fyrir þessum aukna stuðningi við ESB. Í fyrsta lagi er úrganga Bretlands úr sambandinu eitt allsherjar klúður og í öðru lagi óttast margir Evrópubúar að kjör Trump hafi veikt samband Evrópu og Bandaríkjanna.

Til að byrja með benti flest til að úrsögn Breta myndi draga úr stuðningi við ESB og auka líkur á þjóðaratkvæðagreiðslum í öðrum aðildarríkjum. Það þveröfuga hefur átt sér stað. T.d. fyrir Brexit kosningarnar í Bretlandi voru 40% danskra kjósenda á því að halda ætti samskonar þjóðaratkvæðagreiðslu en sá stuðningur er einungis 10% í dag.

Trump hefur gefið í skyn að Bandaríkin muni eingöngu verja ríki sem greiða ákveðið hlutfall að þjóðarframleiðslu til varnarmála. Hann hefur m.a. gefið misvísandi svör um það hvort að Bandaríkin muni koma Eystrasaltríkjunum til varnar láti Rússland til skara skríða.

í mörgum Evrópuríkjum er óttast að Trump sé ekki lengur áreiðanlegur hernaðarlegur bakhjarl Evrópu. Þetta gæti haft í för með sér að draga myndi úr vægi Atlantshafsbandalagsins í vörnum Evrópu og smærri ríki ESB þyrftu að reiða sig í auknu mæli á stuðning ESB.

Carl Bildt velti því fyrir sér nýlega að ef Trump stendur fast við yfirlýsingar sínar gagnvart Evrópu og varnarsamstarfinu í NATO þá gætum við verið að sjá fram á endalok vestrænnar samvinnu, eins og það hefur tíðkast frá lokum seinna stríðs.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.9.2016 - 17:57 - FB ummæli ()

Vinsældir ESB aukast eftir Brexit

skoðanakönnun í sýnir að vinsældir ESB í Hollandi hefur aukist talsvert. Tæplega helmingur landsmanna lítur ESB aðild landsins jákvæðum augum. Stuðningur við úrsögn Hollands úr ESB eða svokallað Nexit hefur einnig dregist verulega saman, í könnuninni kom í ljós að 20 % þjóðarinnar er hlynnt úrsögn.

Margir spáðu því að að vinsældir Evrópusambandsins myndi minnka eftir að Bretland ákvað að ganga úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní. Það þveröfuga hefur átt sér.

Poppúlistinn Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins fagnaði fagnaði niðurstöðunni í Bretlandi og óttast var að flokkur hans gæti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild landsins að ESB.

Vinsældir ESB gætu dvínað á nýjan leik ef að efnahagsleg áhrif Brexit reyndast óveruleg þegar fram líða stundir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.5.2016 - 17:57 - FB ummæli ()

Uppgangur hægri popúlisma í Evrópu

Frambjóðandi Frelsisflokksins Nobert Hofer tapaði naumlega í forsetakosningunum í Austurríki sem fóru fram um helgina. Kosið var á milli fulltrúa hins þjóðernissinnaða Frelsisflokksins, yst á hægri væng stjórnmálanna, og fulltúra græningja, sem er talsvert til vinstri.

Til allra hamingju tókst hagfræðiprófessorinn Alexander van der Bellen að sigra með 50,3% prósent atkvæða. Það var aðeins 30.000 atkvæða sem skildu þá að. Með þessu úrslitum var komið í veg fyrir að hægri popúlisti yrði kosinn þjóðarleiðtogi ríkis í lýðræðislegum kosningum frá lokum seinna stríðs.

Þessi úrslit í Austurríki endurspegla þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu undanfarin áratug þar sem hægri flokkar yst á jaðrinum hafa sífellt sótt í sig veðrið. Aukin fjöldi flóttamanna, lítill efnahagslegur vöxtur í álfunni og vaxandi vonbrigði með Evrópusambandið eru vatn á millu þessara flokka.

Bandaríska blaðið the New York Times birti greiningu á úrslitum kosninga síðustu áratugina og uppgagni hægra flokka í 20 ríkjum Evrópu. Þessi flokkar ná yfir breitt svið á hinu pólitíska litrófi, frá popúlistum og þjóðernissinnum til öfga-hægri stjórnmálflokka sem flokkast sem ný-fasískir.

Stóra spurningin er hvort að þessi bylgja hægri popúlisma eigi eftir að festa rætur á Íslandi, líkt og gerst hefur í mörgum ríkjum í kringum okkur.

europe-right-wing-austria-hungary-1463897749837-superJumbo-v2

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.2.2016 - 16:33 - FB ummæli ()

Afstaða BoJo til ESB, fullveldið og klofin Íhaldsflokkur

Boris Johnson, borgarstjóri London, steig loksins fram opinberlega í gær og sagðist ætla skipa sér flokk með þeim sem styðja úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Johnson er litríkur stjórnmálamaður sem nýtur vinsælda þvert á stjórnmálaflokka. Þess vegna voru það slæmar fréttir fyrir hreyfingu þeirra sem vilja áframhaldandi verðu Breta í ESB og ekki síður fyrir David Cameron, leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Johnson hefur oft verið nefndur sem næsti arftaki Cameron.  Það sem vakir fyrir borgarstjóranum er að sækjast eftir leiðtogasæti breska íhaldsflokksins fari svo að Bretar segi sig úr sambandinu.

Þrátt fyrir að engum dylst að Johnson hefur metnað til að taka við af Cameron, þá er afstaða hans til Evrópusamstarfsins ósvikinn. Hann hefur lengi verið í hópi efasemdamanna um þátttöku Breta í ESB.  Helstu rök hans voru þau að aðildin að ESB gengur beinlínis gegn og samrýmist ekki fullveldi Bretlands.

Breska tímaritið the Economist veltir fyrir sér röksemdafærslu Johnson og annarra fullveldissinna sem er á svipaðri línu. Fullveldi er fyrir þeim sem aðhyllast þessa sýn allt eða ekkert hugtak, eins og að vera barnshafandi – annað hvort ertu það eða ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að í vestfalískum heimi dagsins í dag hefur fullveldi afstæða merkingu og fullvelda ríki eru algjörlega háð því að eiga samstarf við önnur ríki til að ná markmiðum sínum. Ríki sem neitar að deila fullveldi sínu með öðrum ríkjum hefur enga stjórn mengun sem rekur yfir landamæri, innihald fjárhagsreglugerða sem áhrif hafa á breskan efnahag, neytenda- og viðskiptaviðmið sem gilda, mengun hafsins, málefni sem varða öryggi borgaranna og efnahagskreppur svo nokkur dæmi séu tekin.

Bretland er aðili að 700 alþjóðlegum samningum sem setja skorður við breska fullveldið. Aðild landsins að Sameinuðu þjóðunum brýtur í bága við sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, þar sem ríkið getur orðið undir í atkvæðagreiðslu. Það sama má segja um Alþjóðaviðskiptastofnunina, NATO, AGS og Alþjóðabankann o.s.frv. Bretland gengst inn á þetta samstarf vitandi, eins og í tilfelli ESB, að það getur hætt samstarfinu hvenær sem því hentar. En kostnaðurinn sem af því hlýst er oftast nær of dýru verði keyptur.

Meirihluti bresku ríkisstjórnarinnar hyggst standa með Cameron en Íhaldsflokkurinn er klofin í málinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 11.2.2016 - 15:23 - FB ummæli ()

Schengen hvað er í húfi?

Evrópa horfir upp á versta flóttamannavanda sinn frá því í seinni heimsstyrjöld. Vandinn sem við er etja er gríðarlegur. Meira en miljón flóttamanna komu til Evrópu á síðasta ári og búast má við að fjöldi flóttamanna eigi enn eftir að aukast á þessu ári.

Ísland hefur verið þátttakandi í Schengen-samstarfinu frá árinu 2001. Schengen-samstarfið snýst annars vegar um að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og hins vegar um að styrkja eftirlit með ytri landamærum svæðisins.

Flóttamannastraumurinn til Evrópu hefur valdið miklum þrýstingi á að endurskoðun á Schengen. Sumir þjóðarleiðtogar aðildarríkja ESB hafa brugðist við með því að reisa girðingar og múra og uppi hafa verið hugmyndir um að leggja Schengen – samstarfið niður.

France stratégy, sem er hugveita og starfar fyrir franska forsætisráðuneytið, gerði nýverið greiningu á kostnaðnum fyrir evrópskan efnahag að leggja Schengen samstarfið niður.

Efnahagsleg áhrif þess að leggja Schengen-samstarfið niður og taka upp landamæraeftirlit yrði um 100 milljarða evra. Það samsvarar 0,8% lækkun á VLF ríkjanna sem tilheyra Schengen svæðinu.

Til lengri tíma litið myndi varanlegt landamæraeftirlit draga úr viðskiptum milli Schengen ríkjanna um 10% til 20%. Helmingur af kostnaðinum má rekja til fækkun ferðamanna, 38% til minna flæðis vinnuafls og 12% til aukins kostnaðar við vöruflutninga milli landa.

Í greiningunni kemur fram að erfitt sé að meta raunverulegan kostnað af heftum erlendum fjárfestingum og fjármagnsflutningum til langs tíma. Í skýrslunni er ekki heldur metið kostnaðinn sem af því hlýst að reka og setja upp landamæraeftirlit í öllum ríkjum Schengen svæðisins.

Áhrifin fyrir íslenska efnahag yrðu einnig talsverð. Ísland gæti ekki tekið á móti öllum þessum fjölda ferðamanna án þess að hafa aðgang að miðlægum gagnabanka sem hefur að geyma upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga? Aðild að Schengen stóreykur jafnframt möguleika á milliríkjasamvinnu gegn aukinni alþjóðlegri glæpastarfsemi svo nokkur dæmi séu tekinn.

 

europe-schengen-map

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 14.12.2015 - 11:51 - FB ummæli ()

Donald Trump og Repúblikanaflokkurinn

Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata í Bandaríkjunum, sagði í viðtali í síðustu viku að Donald Trump væri ekki lengur fyndinn og að hann væri orðinn beinlínis hættulegan. Eftir hryðjuverkaárásirnar í París og skotárásina í San Bernardino í Kaliforníu hefur Trump kallað eftir eftirliti með moskum og að múslimum verði bannað að koma til Bandaríkjanna. Þessi ummæli Trump eru að mati Hillary vatn á millu herskárra samtaka og ógn við öryggi Bandaríkjanna.

Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþing, Mitch McConnell, segir að loftlagssamningur Sameinuðu þjóðanna verði rifinn í tætlur eftir rúmt ár, ef flokkur hans vinnur sigur í forsetakosningunum sem fara fram í nóvember á næsta ári. Flestir eru sammála um að loftlagssamkomulagið sem náðist í París marki tímamót. Alls sammældust 196 ríki um nýja loftlagssamninginn í París um helgina og Obama sagði að hann gæti varðað viðsnúning fyrir heimsbyggðina í þessum málum.

Noam Chomsky, áhrifamesti þjóðfélagsrýnir samtímans, var spurður út í Donald Trump sem frambjóðenda og pólitíska landslagið í Bandaríkjunum.  Chomsky sagði að bandaríski Repúblikanaflokkurinn og Demókrataflokkurinn hefðu báðir færst langt til hægri á undanförnum áratugum. Í dag myndi afstaða þorra Demókrata flokkast undir viðhorf sem hófsamir Repúblikanar höfðu áður fyrr. Repúblikanaflokkurinn væri kominn langt út fyrir póltíska litrófið og höfðaði ekki lengur til venjulegra millistétttarkjósenda. Flestir frambjóðendur þeirra væru fyrst og fremst að þjóna hagsmunum þeirra sem ættu gífurlega mikla fjármuni og hafa yfir að ráða miklum völdum í bandarísku samfélagi.  Þegar betur væri að gáð væri munurinn á milli Donald Trump og hinna frambjóðenda flokksins sáralítill á flestum sviðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.10.2015 - 10:45 - FB ummæli ()

Stóra eða litla Bretland?

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, mun taka þátt í málþingi í Reykjavík dagana 28. til 29. október næstkomandi. Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Cameron muni lýsa því yfir á málþinginu að „norsku leiðinni“ í Evrópumálum sé ekki vænlegur kostur fyrir Bretland.

Fyrir þremur árum birti breska hugveitan European Policy Center (EPC) skýrslu sem greinir frá valmöguleikum Bretlands í samskiptum sínum við nágranna sína í Evrópu. Það eru í raun þrír valkostir í stöðunni. Óbreytt ástand innan sambandsins, gerast aðilar að EES-samstarfinu eins og Ísland og Noregur eða svissneska leiðin sem fellst í því að gera tvíhliða samninga við ESB.

Niðurstöður EPC voru að EES-leiðin muni hafa í för með sér lýðræðishalla og áhrifaleysi á innri markaðnum, sem stórt ríki eins og Breland myndi aldrei sætta sig við.

„While this may be sustainable for a small country such as Norway, it can hardly be considered as ‘more democratic’ than EU membership, and it is difficult to imagine that it would be tolerable for a country such as Britain, with its large economy, to be excluded from decision-making on the Single Market.“

Forsætisráðherrann mun jafnframt greina frá því á málþinginu að lítil tækifæri felist í því að yfirgefa Evrópusambandið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is