Þriðjudagur 3.11.2015 - 14:44 - 1 ummæli

Brettum upp ermar

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins segir, … sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum, var síðan skipaður í ágúst 2013 og hann skilaði niðurstöðum í janúar 2014. Niðurstöðurnar birtust í meirihlutaáliti og séráliti.

Í meirihlutaáliti segir m.a. … forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðarlánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið.

Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og gengur sú vinna greiðlega. Á næstu dögum sjáum við t.d. frumvörp er varða húsnæðismarkaðinn, koma fram.

Eins og fram hefur komið í ræðum þingmanna, bæði Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins þá eru verðtryggingarmálin á borði fjármálaráðherra. Í viðtali á dögunum sagði fjármálaráðherra að nú sé verið að skoða tvær leiðir til að draga úr vægi verðtryggingarinnar – það er að banna svokölluð Íslandslán og lengja lágmarkstíma verðtryggðra lána.

Þetta eru ágæt fyrstu skref og þau þarf að stíga hratt og sem fyrst og í framhaldi af því þarf að afnema verðtrygginuna.

Þess vegna er afar ánægjulegt að sjá samþykkt efnahags – viðskiptanefndar frá Landsfundi Sjálfstæðismanna, sem fram fór fyrir stuttu síðan en þar segir … Landsfundur leggur til að ríkisstjórnin ráði færustu erlendu sérfræðinga til að leggja mat á hvernig hægt er að skipta út verðtryggðu lánaumhverfi og taka upp lánakjör sem þekkjast í nágrannalöndum okkar. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort það sé rétt heldur eingöngu hvernig það væri framkvæmt

Nú er komið að því að við brettum upp ermar og látum verkin tala.

Við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, það er verðtrygginguna. Skuldahlið heimilanna á ekki að fjármagna uppsveifluna. Það má ekki gerast, ekki í þetta skiptið.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2015 - 17:44 - 2 ummæli

Og þá varð allt brjálað …

Í störfum þingsins í gær ræddi ég meðal annars afnám verðtryggingar af neytendalánum. Ég ræddi mikilvægi þess hver næstu skref ættu að vera í málinu og nauðsyn þess að þau skref yrðu tímasett á allra næstu dögum.

Í ræðu minni í dag velti ég upp eftirfarandi spurningum. Á að afnema verðtrygginguna? Á að setja þak á verðtryggð húsnæðislán? Á að auka hvata til töku á óverðtryggðum lánum? Hver er staðan og hvernig standa málin?

Erfitt er að átta sig á því hvað veldur því að verðtryggingarmálin hafi ekki enn komið inn í þingið. Það er hægt að varpa fram þessum spurningum: Er verið að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi innan Velferðarráðuneytisins? Eða er kannski verið að bíða eftir niðurstöðum í máli Hagsmunasamtaka heimilanna er varðar lögmæti verðtryggingarinnar? Ef svo er þá er nauðsynlegt að það mál fái flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Eða er kannski ástæðan bara allt, allt önnur?

Frumvörp um afnám verðtryggingar eru á borði fjármálaráðherra.

Það má ekki gleyma því sem vel er gert. Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp til að finna leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. Þessi hópur hefur núna skilað af sér niðurstöðum.

Í lok ræðu minnar í dag minntist ég á þann Þjóðfund, sem var í morgun sem þrír ráðherrar stóðu fyrir. Hann var afar vel sóttur, hátt í 300 manns tóku þátt og ræddu húsnæðismál, ræddu m.a. hvernig ætti að fara að því að byggja hratt upp vandað og hagkvæmt húsnæði. Mjög góðar umræður áttu sér stað á fundinum.

Það er amk ljóst að tími athafna er kominn. Við verðum að afnema verðtryggingu.

Skemmst er frá því að segja að allt varð vitlaust eftir þessa ræðu mína og jafnframt ræðu Karl Garðarssonar, sem var jafnframt um afnám verðtrygginguna. Stjórnarandstaðan fór á kostum í fundarstjórn forseta.

… Þú verður að vera rólegur, þú æsir upp öll hin …

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.10.2015 - 15:20 - 2 ummæli

Hvað veldur …

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins, segir … unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er Óvissa um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum verður að linna

Á sumarþingi árið 2013 var samþykkt þingsályktun í 10 liðum sem varðaði skuldavanda íslenskra heimila, sem til var kominn vegna efnahagshrunsins haustið 2008.

Fimmti liður tillögunnar felur það í sér að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna og varða ágreining um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu. Frumvarp þessa efnis var lagt fram á sumarþingi árið 2013 og samþykkt

Það sem mig langar að velta upp, hvað veldur því að t.d. Hagsmunasamtök heimilanna, hafa nú í rúmlega 3 ár þurft að standa í málaferlum vegna lögmæti verðtryggingarinnar? Hvað veldur því að málið fái ekki flýtimeðferð? Þetta stóra mál hefur tekið of langan tíma.

Sjötti liður þeirrar tillögu sem samþykkt var á sumarþingi 2013 felur í sér að settur verði á fót sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fram kemur að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013.

Ríkisstjórnin skipaði sérfræðingahóp sem skilaði af sér tillögum og um var að ræða meirihlutaálit og sérálit. Deilt var um hvaða leið væri best en allir voru sammála um markmiðið, það er afnám verðtryggingarinnar.

Nú er það svo að verðtryggingarmálin eru á borði fjármála – og efnahagsráðherra. Nú þurfum við að vita hver næstu skref eiga að vera og mikilvægt er að þau verði tímasett á allra næstu dögum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.10.2015 - 12:17 - Lokað fyrir ummæli

Eftir einn, ei aki neinn

Þann 16. maí 2014 samþykkti Alþingi að fela  innanríkisráðherra að láta yfirfara viðurlög við ölvunar – og vímuefnaakstri, samhliða vinnu við heildarendurskoðun umferðarlaga með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Í þingsályktunartillögunni er fjallað um að skoða skuli sérstaklega 4 leiðir.

  1. Það er að lækka refsimörk ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum niður í 0,2 prómill, með samsvarandi mælingu öndunarsýnis.
  2. Að halda námskeið um alvarleika ölvunar – og vímuefnaaksturs.
  3. Að hækka sektargreiðslur vegna ölvunar – og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnarsjóð.
  4. Að skoða ný gagnleg úrræði í viðurlögum við ölvunar – og vímuefnaakstri.

Við atkvæðagreiðslu um tillöguna, var hún samþykkt með 54 greiddum atkvæðum. Einn þingmaður greiddi ekki atkvæði og 8  þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.

Markmið tillögunnar var að leitast við að fækka þeim tilvikum þar sem ökumenn aka undir áhrifum áfengis – og eða vímuefna. Í gögnum sem lögð voru fram við vinnslu tillögunnar kemur fram, m.a. í skýrslu Samgöngustofu og gögnum frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, að áfengis – og eða vímuefnaakstur sé orsök þriðjungs banaslysa í umferðinni og einnig alvarlegra umferðarslysa.

Í þinglegri meðferð kom það jafnframt fram að umferðarlög hefðu verið í heildarendurskoðun árið 2007 og á nokkrum þingum eftir það hefur frumvarp um umferðarlög verið lagt fram, en ekki náð fram að ganga. Umrædda tillögu átti að afgreiða í tengslum við frumvarpsvinnu að umferðarlögum, máli 284 sem lagt var fram þingveturinn 2013 – 2014.

Í öðrum gögnum sem Upplýsingadeild Alþingis safnaði saman vegna vinnslu málsins og varðar lagabreytingar vegna ölvunar – og eða vímuefnaaksturs á Norðurlöndunum kemur fram.

Svíar voru fyrstir þjóða til að lækka hámark leyfilegs áfengismagns í blóði. Það er úr 0,5 prómillum niður í 0,2 prómill. Í skýrslu sem kom út í kjölfarið og gefin var út af hálfu sænskra umferðaryfirvalda kom fram að öllum umferðarslysum fækkaði um 4 % og öllum banaslysum um 8 %. Auk þessa var framkvæmd samanburðarrannsókn í kjölfar lagabreytinganna. Hún staðfesti að fjöldi þeirra sem hætti við að aka undir áhrifum áfengis – og eða vímuefna hafði þrefaldast frá fyrri rannsóknum, sem voru fyrir umrædda lagabreytingu. Í ljósi þessa má draga þá ályktun um umrædd lagabreyting hafi haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi og umferðarmenningu þar í landi.

Í Danmörku voru gerðar breytingar. Þar sem hámark leyfilegs áfengismagns í blóði var sett í 0.5 prómill og 0,25 prómill vegna áfengismagns í útöndunarlofti. Þar kemur fram að fjöldi látinna í umferðarslysum vegna ölvunar hafði lækkað um 75 %.

Í sérstakri umræðu sem ég átti við innanríkisráðherra um málið, á þingi í gær, spurði ég hana nokkurra spurning. Ég spurði hvort endurskoðun umferðarlaga sé í gagni og hvort tekið sé tillit til þingsályktunartillögu um hert viðurlög við ölvunar – og eða vímuefnaakstri við þá vinnu?

Innanríkisráðherra svaraði m.a. því að endurskoðun umferðarlaga væri í gangi. Bæði væri um að ræða tæknilegt frumvarp og einnig efnislegar breytingar á umferðarlögum, þar væri tekið tillit til þingsályktunartillögunnar. Umrædd frumvörp eigi að leggja fram á vorþingi. Sjáum hvað setur, ég mun amk fylgjast vel með framgangi mála.

… horfum í það sem vel er gert. Reynum að minnka líkurnar á því að fólk lendi í slysum vegna ölvunar – og eða vímuefnaaksturs. Þessi slys, sem önnur, hafa mikil áhrif á þá sem í þeim lenda. Hvort um sé að ræða þann sem veldur því eða þann sem fyrir því verður. Minnkum þær hörmulegu afleiðinar sem verða vegna þessara slysa, fyrir alla aðila.

…. munum að eftir einn, ei aki neinn!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.10.2015 - 15:47 - Lokað fyrir ummæli

Sjö ár frá hruni

Það eru liðin sjö ár frá hruni. Hruni sem hafði gífulega mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf og fjölda einstaklinga og fjölskyldur í landinu. Atvinnuleysi jókst hratt, lán hækkuðu eins og enginn væri morgundagurinn og heimili landsins áttu sífellt erfiðara að ná endum saman. Þetta gerði það að verkum að talsverður fjöldi missti heimili sitt og í of mörgum tilvikum heyrðist af splundruðum fjölskyldum, vegna skilnaða og annarra áfalla sem dundu á. Það er óhætt að halda því fram að þetta hafi verið erfiður tími. Þess vegna er með ólíkindum að heyra nokkra einstaklinga halda því fram að hér hafi í raun ekki orðið hrun en fréttaflutningur þess efnis birtist einstaka sinnum. Það get ég bara alls ekki skilið því enn þann dag í dag sjáum við enn anga hrunsins. Enn eru til dæmi þess að einstaklingar fái ekki úrlausn sinna mála. Fá ekki ólögmætu gengistryggðu lánin leiðrétt og því miður á það sér bæði stað hjá bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum.

Á þessu kjörtímabili hefur þó verið farið í 150 milljarða króna skuldaaðgerð fyrir heimili landsins. Um er að ræða beina niðurfellingu og séreignasparnaðsleiðina. Þess má geta að í hverjum mánuði fara um 500 milljónir í formi skattaafsláttar, inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna eða inn á sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga. Auk þess eru frumvörp að bættu ástandi á leigumarkaði að detta inn í þingið á næstu dögum.

Í morgunútvarpi Bylgjunnar heyrði ég viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, þar sem hann talaði um hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að kaupa sér íbúð. Talaði hann m.a. um byggingarreglugerð og hátt lóðarverð í því samhengi. Ég er honum mjög sammála að það eru þættir sem við verðum að endurskoða í allri þeirri húsnæðisvinnu sem er í gangi.

Hins vegar er ég föst á því að við verðum að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði, það er verðtryggingunni.

Það er lykillinn að bættu ástandi á húsnæðismarkaði.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.5.2014 - 20:23 - Lokað fyrir ummæli

Rétt skal vera rétt.

Talsverð umræða hefur orðið um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. Nokkur gagnrýni hefur verið um aðgerðirnar og hefur hún m.a. snúist um að þær gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri. Þessi gagnrýni hefur verið nokkuð hávær frá stjórnarandstöðunni, sem hefur verið dugleg að halda þeirri villandi umræðu á lofti.

Tölulegar staðreyndir um skuldaleiðréttinguna

Skuldaleiðréttingafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru samtals 150 milljarðar króna að umfangi og ná þau saman, til allra þeirra heimila sem eru með verðtryggð húsnæðislán.

25 % af heildarupphæð höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 4 milljónum. Tæplega helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 6 milljónum og um 60 % leiðréttingarinnar fer til heimila með heildar árstekjur undir 8 milljónum.

Það er staðreynd að hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tækjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri.

Jafnframt er hlutdeild þeirra sem skulda 30 milljónir króna eða meira, rétt rúmlega 20 % af heildarumfangi leiðréttingarinnar. En flest heimili skulda á bilinu 10 – 30 milljónir króna, því kemur stærstur hluti leiðréttingarinnar hjá þeim hópi eða 65 % upphæðarinnar. Lægri skuld leiðir af sér lægri leiðréttingu.

Tölulegar staðreyndir um fyrri aðgerðir

Vegna þeirrar gagnrýni stjórnarandstöðunnar, að leiðrétting ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins gagnist að mestu þeim eignameiri og tekjuhærri, þá er tilvalið að rýna í tölur úr skuldaaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við félagslegan jöfnuð og réttlæti.

Þar kemur í ljós að á síðasta kjörtímabili voru samtals 45 milljarðar af verðtryggðum húsnæðisskuldum færðar niður, m.a. vegna 110 % leiðarinnar. Þær aðgerðir nýttust aðeins um 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir, þ.e. um 7.300 heimilum. Um 1% heimilanna fékk um helming niðurfærslunnar, rúmlega 20 milljarða króna. Þessi 1% heimila, það eru 775 heimili, fengu allt yfir 15 milljóna króna niðurfærslu en meðaltal niðurfærslna var 26 milljónir króna. Meðaltekjur þessara heimila á mánuði árið 2009 voru 750 þúsund krónur en um tugur þessara heimila var með meðaltekjur yfir 2 milljónir króna á mánuði. Einnig fengu um 95% þessara 775 heimila sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna.

Á gagnrýnin rétt á sér?

Ef horft er á samanburðartölur milli aðgerða ríkisstjórnar Framsóknar – og Sjálfsstæðisflokksins og hins vegar aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við réttlæti og jöfnuð, þá sýna fyrirliggjandi gögn að 30% af heildarfjárhæð 110% leiðarinnar fór til heimila með yfir 10 milljónir króna tekjur í árslaun en um 25% af núverandi aðgerðum fara til heimila með sömu tekjur.

Sérstakar vaxtabætur námu 10 milljörðum króna, á tveggja ára tímabili, í valdatíð síðustu ríkisstjórnar. Áhrif þeirra aðgerða á tekjuhópa eru að mestu leyti svipuð áhrifum skuldaleiðréttingarinnar á tekjuhópana. Þó er athyglisvert að heimili með tekjur undir 4 milljónum króna fengu 21% af sérstökum vaxtabótum en áætlað er að sami tekjuhópur fái 24% í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú.

Hægt er að halda því fram að gagnrýni stjórnarandstöðunnar sé ekki réttmæt og óhætt er að vísa henni aftur til föðurhúsanna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.4.2014 - 15:34 - Lokað fyrir ummæli

Við vinnum fyrir heimilin.

Mig langar hér að taka saman það sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er að gera fyrir heimilin í landinu.

– Fyrst ber að nefna skuldalækkun á verðtryggðum húsnæðislánum heimilanna upp á 150 milljarða króna sem nær til um 100 þúsund heimila. Um er að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Ég fer aldrei í felur með að ég hefði gjarnan viljað sjá þakið hærra í beinni niðurfellingu húsnæðisskulda, fyrir þá sem fóru verst út úr þeim efnahagshremmingnum sem hér urðu.

Í verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála er unnið að mörgum mikilvægum málum og sú vinna verður kláruð í lok þessa mánaðar og þá skilar hópurinn af sér sínum tillögum.

– Í verkefnastjórninni er unnið að verðtryggingarmálum. Unnið er út frá bæði meirihlutaáliti verðtryggingarhópsins og einnig út frá séráliti Vilhjálms Birgissonar. Mín skoðun er sú að mikilvægt sé að verðtryggingin verði afgreidd samhliða skuldaleiðréttingafrumvörpunum og verði afnumin um leið og niðurfelling húsnæðisskulda fer fram.

– Í verkefnastjórninni er unnið að nýju húsnæðislánakerfi.

– Í verkefnastjórninni er jafnframt unnið að því að koma hér upp öruggum leigumarkaði og horft er til þess hvernig við getum lækkað leigukostnað. En mikilvægt er að allir hafi val um búsetuform, séreign eða leiguhúsnæði.

– Í verkefnastjórninni er unnið að lausnum í félagslegum húsnæðismálum.

– Lyklafrumvarp er inni á borði verkefnastjórnarinnar og eins og með alla aðra vinnu hópsins þá koma tillögurnar fram í lok þessa mánaðar.

Í desember samþykktu þingmenn að fresta nauðungasölum fram í september 2014.

– Í janúar samþykktu þingmenn fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

– Í gær voru lögð fram tvö mál hér á þingi sem eru heimilunum í hag en þau koma frá hæstvirtum félags- og húsnæðismálaráðherra. Annað þeirra varðar  húsleigubætur til þeirra sem misst hafa íbúðir sínar á uppboði og leigja þær til búsetu. En það hefur ekki verið heimilt hingað til. En hitt varðar Umboðsmann skuldara og heimild til þess að sekta fjármálastofnanir ef þær draga eða neita að afhenda embætti hans upplýsingar um þau mál sem unnið er að.

Að mínu mati er umræðan um að ekkert sé verið að gera fyrir heimilin er ósanngjörn. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 31.3.2014 - 12:50 - Lokað fyrir ummæli

Baráttan skilar sér

Nú eru frumvörp ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um skuldaleiðréttingar fyrir heimilin, komin inn í þingið. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að undanfarin fimm ár hafa þingmenn Framsóknarflokksins barist fyrir því að komið yrði til móts við skuldsett heimili og loksins mun baráttan skila árangri. Vissulega hefði verið betra fyrir alla ef forsendubresturinn hefði verið leiðréttur strax árið 2009 en framsóknarmenn náðu ekki eyrum þáverandi stjórnarflokka í þeim efnum.

Nauðsynlegt er að þetta stóra og mikilvæga verkefni komist hratt í gegnum þingið. Á því eru miklar líkur þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa verið duglegir að kalla eftir frumvörpunum undanfarnar vikur, fjallað um mikilvægi þess að stjórnarflokkarnir standi við stóru orðin.

Ríkisstjórnin stendur við orð sín. Verið er að framkvæma leiðréttinguna sem boðuð var í lok nóvember.

Forsendubrestur leiðréttur

Í kynningunni í nóvember var gert ráð fyrir að verðtryggð húsnæðislán yrðu færð niður um fjárhæð sem samsvaraði  verðbótum umfram verðbólgu á tímabilinu desember 2007 – 2010. Við útreikning kom hins vegar í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á lán á árunum 2008 og 2009 og því liggur staða verðtryggra lána yfir það tímabil til grundvallar leiðréttingunni.

Umfang skuldaleiðréttingarinnar

Skuldafrumvörpin sem nú eru komin fram eru almenn aðgerð í þágu heimilanna,  en ekki sértæk. Heildarumfang leiðréttingarinnar eru áætlað um 150 milljarðar króna og mun hún ná til um 100 þúsund heimila.

Einfalt

Framkvæmdin verður einföld fyrir almenning þó um stórt og flókið verkefni sé að ræða. Einstaklingar sækja um leiðréttingarnar rafrænt á vef ríkisskattstjóra og verður umsóknartímabilið frá 15. maí – 1. september 2014. Ástæða þess að miðað er við 15. maí er sú að þá á vorþingi að vera lokið og skuldamálin að fullu afgreidd í gegnum þingið.

Ferlið mun ganga hratt fyrir sig og í lang flestum tilvikum ætti að vera hægt að sjá áhrif aðgerðarinnar strax að loknu umsóknarferli í haust.

Höfuðstólslækkun og séreignasparnaður

Frumvörp ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eru tvö, annars vegar frumvarp um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána og hins vegar frumvarp um séreignasparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Umsóknarferlinu lýkur 1. september 2014. Eftir að ríkisskattstjóri hefur afgreitt umsóknirnar fara umsækjendur strax að sjá áhrifin. Niðurfelling lánsins í heild mun birtast í heimabanka og á greiðsluseðli þar sem fasteignaláni verður skipt niður í frumlán og leiðréttingarlán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlán verður greitt af ríkissjóði, með bankaskattinum, næstu árin.

Hægt verður að byrja að nýta séreignasparnaðinn í júlí og tryggja sér um leið skattaafslátt ríkisstjórnarinnar. Ekki er um að ræða uppsafnaða inneign því stór hluti fólks nýtti hann eftir hrunið. Heldur er um að ræða séreignarsparnað næstu þriggja ára.

Hér er jafnframt um að ræða nýja hugsun í húsnæðismálum. Þeir sem eru ekki með fasteignalán geta nýtt sér séreignarsparnaðarúrræði til að spara fyrir kaup á íbúðarhúsnæði.

Að lokum

Eins og ég hef alltaf sagt þá er ég ánægð að um sé að ræða almenna aðgerð en ekki sértæka. Ég er ánægð að hún nái til um 100 þúsund heimila sem eru um 80 % heimila í landinu. Hins vegar fer ég ekki í felur með að ég hefði gjarnan viljað sjá þakið hærra til að koma betur til móts við þá sem eru í erfiðri stöðu. Jafnframt horfi ég til þess að þessi aðgerð er eingöngu einn liður af tíu í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Nú þegar er unnið að verðtryggingarmálum inni í ráðuneytum, þar sem horft er bæði til meirihlutaálits og sérálitis. Mikilvægt er að þau mál komi til umræðu í þinginu sem allra fyrst. Að mínu mati er nauðsynlegt að verðtryggingin verði afnumin um leið og aðgerðir í skuldamálum ná fram að ganga.

Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórnin vinni að bættum hag heimila í landinu. Á næstu dögum mun verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skila af sér vinnu þar sem tekið er á mörgum mikilvægum málum, eins og t.d. lyklafrumvarpinu og úrræðum á almennum og félagslegum leigumarkaði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.3.2014 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

Oft er þörf en nú er nauðsyn.

Í dag var frétt þess efnis að líklegt sé að ríkið verði af hundruðum milljóna ár hvert í sköttum vegna húsnæðis sem ólögleglega er leigt tímabundið erlendum ferðamönnum.

Einnig kemur fram að margir leigi ferðamönnum án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og sumir gefa ekkert upp.

Gerðar hafa verið vettvangsrannsóknir til að reyna koma í veg fyrir skattsvik í ferðaþjónustu en lítil gögn er hægt að hafa í höndum, fyrr en skattaskýrslur berast.

Það er nú staðreynd að mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði víða um landið. Það heyrir maður vel í kringum sig og jafnframt kemur það fram í ráðgjafaskýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála að  eftirspurnin er mikil, en skýrslan var gerð opinber á dögunum.

Ég tel það mikilvægt og styð heilshugar undir það sem fram kemur í skýrslu greiningaraðila en þar er lagt til að lækka fjármagnstekjuskatt af leigutekjum þegar einstaklingar leigja út húsnæði með langtíma leigusamningi. Með þessum hætti er hvatt til þess að leiguhúsnæði verði sparnaðarform hjá einstaklingum og slík útleiga borgi sig.

Jafnframt er það álit greiningaraðila að þetta muni hvetja til þess að eignir sem nú eru eingöngu boðnar í skammtímaleigu til ferðamanna, komi inn á almennan leigumarkað. En eins og fram hefur komið þá er talverður fjöldi íbúða í leigu án þess að tekjur séu taldar fram.

Ég tel mjög mikilvægt að líta til þeirra þátta sem eru hvetjandi til að fá íbúðir inn á leigumarkaðinn því oft er þörf en nú er nauðsyn.

Skýrslu greiningaraðila má finna hér: http://www.velferdarraduneyti.is/media/rit-og-skyrslur-2014/Tillogur-KPMG-og-Analytica-ad-framtidarskipan-husnaedismala—Lokaskyrsla-18-3-2014.pdf

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.3.2014 - 20:18 - Lokað fyrir ummæli

Umræðu um skuldaniðurfellingar sem fyrst.

Mér finnst mjög mikilvægt að stóru mál stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins komist sem fyrst að í þinginu. En að mínu mati eru það skuldamálin og afnám verðtryggingarinnar af neytendalánum.

Þetta eru málin sem beðið er eftir og búið er að bíða eftir til fjölda ára. Búið er að bíða þess að forsendubresturinn sem varð hér á undanförnum árum verði leiðréttur. Flest allir sem taka hafa þurft á sig hækkun verðtryggðra lána, bíða nú eftir aðgerðum og orðnir lang þreyttir á að bera einir þann skaða sem hér varð við efnahagshrunið 2008.

Það er afar mikilvægt að skuldamálin komist til umræðu í þinginu á næstu dögum og að samstaða verði milli þingmanna um að koma þessum málum í gegn. Einnig finnst mér mjög mikilvægt og það er mín persónulega skoðun að verðtryggingarmálin verði afgreidd samhliða frumvörpum um skuldaniðurfellingu. Mikilvægt er að mínu mati að afnám verðtryggingarinnar verði um leið og skuldaleiðréttingin verður framkvæmd, eða núna í sumar.

Einnig verðum við að huga að þeim sem eru nú með verðtryggð lán, í yfirveðsettum eignum. Þá sem geta ekki endurfjármagnað lán sín yfir í óverðtryggð lán, m.a. vegna of hárrar veðsetningar á eignum sínum og vegna hærri greiðslubyrgði af óverðtryggðum lánum.

Mér finnst mjög mikilvægt að komið sé á móts við þennan hóp og það væri m.a. hægt með því að miða verðtryggingu eldri lána við verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands eða að færa lán þeirra yfir í óverðtryggð lán, þrátt fyrir að þau séu eitthvað hærri en veðsetningarhlutfall nýrra lána kveður á um. Ef sú leið verður farin þá þarf að koma fram með mótvægisaðgerðir til að lækka greiðslur af lánunum fyrstu árin.

Það er kominn tími til að huga að bættum hag þeirra sem hér vilja búa, til þess þurfum við kjark og þor og það verðum við að hafa.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is