Fimmtudagur 23.6.2016 - 19:34 - FB ummæli ()

Grátið á EM

Eitthvert stærsta stund í íslenskri íþróttasögu rann upp í París í gær þegar Íslendingar komust í 16 liða úrslit á EM  karla í fótbolta.  Það var ótrúlegt að sjá 12000 Íslendinga standa saman á leiknum og hvetja liðið til dáða.  Það hlýtur að vera heimsmet í þáttöku miðað við höfðatölu.  Að leik loknum faðmaðist fólk, kunnugir sem ókunnugir.   Hraustustu menn og konur viknuðu, þar á meðal ég sjálf, og tárin brutust fram. Þetta var ólýsanleg stund.  Ég mun muna alla ævi hvar ég var stödd 22. júní árið 2016 milli klukkan 18-20:30 að staðartíma.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.6.2016 - 21:29 - FB ummæli ()

Óþolandi launamunur kynjanna

Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld færist launamunur kynjanna í aukanna hér á landi. Við þessu verður að bregðast strax. Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn lýsti í fréttum sjónvarpsins aðferðum sem Reykjavíkurborg beitir til að jafn launamuninn og þar hefur vel tekist til. Það hlýtur að vera skýr krafa kjósenda að tekið verði á þessu sem er ekki annað er mannréttindabrot, að mínu mati.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.6.2016 - 19:25 - FB ummæli ()

Boðflennur í eigin afmæli

Mér finnst algerlega út í hött að fólki sé haldið frá hátíðahöldunum á Austurvelli með grindverki lögreglunnar. Þetta er hátíð þjóðarinnar en ekki fyrirmenna og erlendra sendimanna. Þetta er hátíðlegasti hluti þjóðhátíðarinnar að mínu mati, þ.e. athöfnin fyrir hádegi á Austurvelli og svo athöfnin í Hólavallakirkjugarði við leiði Jóns Sigurðsson.  Margir hafa það fyrir fastan sið að mæta á Austurvöll, hlusta á fjallkonuna o.s.fv. Fólk var komið þarna prúðbúið í tilefni dagsins í hátíðarskapi, en var síðan eins og boðflennur í eigin afmæli, girt af með járngrindum, sem áttu að hindra að lýðurinn kæmist of nálægt hátíðahöldunum sem fram fóru.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.6.2016 - 17:32 - FB ummæli ()

Hvar eru almannahagsmunir?

Dómur Hæstaréttar um að loka beri NA-SV braut Reykjavíkurflugvallar er gríðarleg vonbrigði fyrir mig sem stjórnmálamann, og nefndarmann í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem barist hefur fyrir því að flugvöllurinn fái að vera áfram í Vatnsmýrinni og hann megi nýta að fullu með öryggishagsmuni borgaranna að leiðarljósi, s.s. í sjúkraflugi. En hver ber ábyrgð?  Minn eigin flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, getur ekki vikist undan ábyrgð og ekki heldur Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi innanríkisráðherra.  Samt hafði Landsfundur lýst yfir eindregnum stuðningi við Reykjavíkurflugvöll.  Þetta eru ekki lýðræðisleg vinnubrögð eða í skásta falli léleg vinnubrögð.

Úr dómi Hæstaréttar í dag:

,,Þegar efni skjalsins 25. október 2013 er túlkað er hafið yfir skynsamlegan vafa að með því gekkst innanríkisráðherra undir þá skuldbindingu að tilkynna um lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli samtímis því að nýtt deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið yrði auglýst og að þá skyldi jafnframt endurskoða gildandi skipulagsreglur fyrir flugvöllinn til samræmis. Atvik í aðdraganda að gerð þessa skjals og atvik sem síðar urðu, ekki síst tilkynningar innanríkisráðuneytisins til Isavia ohf., eins og gerð hefur verð grein fyrir að framan, renna enn frekari stoðum undir þennan skilning. Verður ekki dregin önnur ályktun en sú að stjórnvaldsákvörðun um lokun flugbrautarinnar hafi þegar verið tekin, svo og um að skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll skyldu endurskoðaðar og að skuldbindingar þær sem um ræðir lúti að því við hvaða aðstæður þessar ákvarðanir yrðu framkvæmdar.“

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri eru einhver helstu lífsgæði okkar Íslendinga; flugvöllur inn í miðri höfuðborg, já það eru lífsgæði. Reykjavík er nefnilega höfuðborg allra landsmanna og þangað þurfa landsmenn eðlilega margt að sækja. Við eigum að vera stolt flugvellinum okkar sem þjónar svo mörgum en ekki að finna honum allt til foráttu. Flugvöllurinn afar mikilvægur fyrir sjúkraflug enda steinsnar frá Landspítalanum sem er eina bráðasjúkrahús landsins og eykur þar með öryggi þeirra sem búa á landsbyggðinni.  NA-SV brautin, sem nú verður að loka, hefur verið talin nauðsynleg í því að hafa það öryggisnet sem þéttast og best.  Þetta er að mati sjúkraflugmanna og fleiri.

Hvar eru almannahagsmunir í þessu máli?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2016 - 19:10 - FB ummæli ()

Hvar eru konurnar?

Fyrsti fundur í Þjóðhagsráði var í dag. ASÍ og BSRB komu ekki að stofnun ráðsins sem er synd, en vonandi koma þeir inn í ráðið. Þjóðhagsráð er stofnað í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í fyrra. Yfirlýsingin var gefin út til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.  En myndin af ný skipaða þjóðhagsráði vekur athygli.  Hvar eru konurnar?Nýtt þjóðhagsráð

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.6.2016 - 20:54 - FB ummæli ()

Spennandi tímar framundan

Fréttatilkynning

Seltjarnarnesi 5. júní 2016

 

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningarnar sem fram fara í haust.

Prófkjör Sjálfstæðisflokkins í Suðvesturkjördæmi fer fram í lok ágúst eða byrjun september.

Ég var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminum árið 2013 og hef setið í utanríkismálanefnd Alþingis, umhverfis- og samgöngunefnd, Norðurlandaráði, þar sem ég er varaformaður Íslandsdeildar og velferðarnefnd á kjörtímabilinu.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að þakka Ragnheiðir Ríkharðsdóttur þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins sem nú skipar 2. sæti listans í Suðurvesturkjördæmi fyrir heiðarleika, stefnufestu og dugnað í sínum störfum.  Hennar skarð verður vandfyllt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hún hefur sem kunnugt er tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér áfram.

Virðingarfyllst,

Elín Hirst

alþingismaður

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.6.2016 - 12:10 - FB ummæli ()

Vel gert Alþingi!

Í gærkvöldi samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem ég var fyrsti flutningsmaður að um aðgerðir/rannsóknir til að sporna við súrnun sjávar. Ég er afar ánægð með það. Því miður er kaldi sjórinn hér í Norðurhöfum að súrna hratt vegna loftslagsbreytinga með ófyrirsjánlegum afleiðingum á lífríkið og um leið mikilvægustu auðlind okkar þjóða- fiskinn í sjónum. Hér er því afar gott skref stigið til að auka rannsóknir til þess að mæta hinni alvarlegu stöðu.  Auk þess tel ég að við Íslendingar eigum í kjölfarið að leggja áherslu á sérþekkingu okkar á þessu sviði í sameiginlegu átaki þjóða heims í loftslagsmálum.

En það voru fleiri mikilvæg mál samþykkt í gærkvöld í eindreginni sátt þingheims og var gaman að upplifa það.  Þar má nefna ný útlendingalög, lög um breytta greiðsluþáttöku sjúklinga í kostnaði sem eru mikil réttabót.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.5.2016 - 22:41 - FB ummæli ()

Kúluskítur, já takk

Við viljum kúluskítinn til baka í Mývatni. Japanir hafa náð því. Við getum það líka.

 

Kúluskítur er heiti kúlulaga vaxtarforms grænþörungsins Aegagropila linnaei (fræðiheiti), en hann getur einnig tekið á sig önnur form. Kúluskíturinn leikur þýðingarmikið hlutverk í lífríki þeirra stöðuvatna sem hann finnst í, meðal annars sem skjól lítilla dýrategunda ogkísilþörunga. Kúluskíturinn er alfriðaður.

Kúluskítur er grænleitur, loðinn og getur orðið allt að 15 cm í þvermál. Hann er í raun vefur hárfínna þráða sem vaxa út frá miðju og mynda þannig kúlaga flóka. Hver kúla er sjálfstæð planta sem liggur laus frá botni vatnsins. Talið er að hann lifi einungis á örfáum stöðum í heiminum, og aðallega í Akanvatni í Japan en einnig hefur hann fundist í Mývatni. Í Japan er honum haldinn sérstök hátíð í október með skrúðgöngu og dansi.

Kúluskíturinn í Mývatni fannst árið 1978 og voru þá tugir miljóna af honum. Árið 2012 hafði honum fækkað verulega og talið þá að einungis nokkur hundruð væru eftir af honum.[1] Árið 2014 virðist hann algerlega vera horfin og er talið að það sé af mannavöldum.[2]

  • Heimild: https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%BAlusk%C3%ADtur

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2016 - 11:27 - FB ummæli ()

Hvað er í gangi á Bessastöðum?

Það verður að segjast að þögnin frá Bessastöðum er þrúgandi á meðan erlenda pressan setur íslenska forsetaembættið í afar neikvætt ljós vegna skattamála eiginkonu forsetans. Nauðsynlegt er að fá svör frá embættinu um hvað hér er á ferðinni.  Það getur ekki beðið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2016 - 21:28 - FB ummæli ()

Hrós til fjölmiðla

Fjölmiðlar eiga hrós skilið fyrir að hafa hér forgöngu um að leiða hið sanna í ljós í svokölluðu Panamaskjalamáli, sem sýnir enn og aftur mikilvægi þeirra í lýðræðissamfélagi.

Það er bráðnauðsynlegt að fá öll fjárhagsmálefni ráðamanna fram í dagsljósið til að rýra ekki traust frekar en orðið er. Nöfn þeirra óheilindamanna sem fela eigur í skattaskjólum í þeim tilgangi að komast hjá því að greiða skatta til samfélagsins þarf líka að upplýsa.

Líkar þetta

Líkar þetta

Love

Haha

Wow

Leið/ur

Reið(ur)

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is