Þriðjudagur 2.8.2016 - 12:39 - FB ummæli ()

Kisur

Kettir hafa fylgt mér alla ævina, og ég veit ekki hvernig veröldin eiginlega væri ef það væru engir kettir til. Þar til fyrir fáum árum var hér á heimilinu grátt fress sem hét Bangsi og var hjá okkur í tæp átján ár. Og mikill sjónarsviptir að honum þegar hann dó eins og nærri má geta. Þá einhvern veginn myndaðist sú stemning að við tækjum ekki að okkur annan kött, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn, því að Bangsi heitinn var svo mikill karakter að manni fannst sem aðrir og yngri kettir myndu verða léttvægir fundnir í samanburði við hinn aldna höfðingja. En enginn ræður sínum næturstað, og innan skamms voru hér komnir tveir kettir sem hafa fylgt okkur síðan. Dóttir af heimilinu hafði farið að búa með kærasta úti í bæ og þau höfðu fengið sér þessar tvær kisur, fress og læðu, en svo skildi leiðir dótturinnar og kærastans og hún flutti aftur heim með sínar kisur og síðan eru liðin tvö ár; dóttirin reyndar að mestu farin að nýju en kisurnar eru hér enn, una vel hag sínum og á þeim er ekkert fararsnið að sjá.

Fress og heimspekingur

Það er mikið gaman að stúdera ólíkan karakter bæði fólks og dýra sem maður kynnist, og víst á það við um kettina. Þessi tvö sem dóttirin kom með og eru síðan mínir heimiliskettir eru mjög ólík. Fressið er að mestu hvítt en með svörtu ívafi og heitir John Stuart Mill, eins og heimspekingurinn kunni, en dóttirin var semsé í heimspekinámi í Háskólanum þegar hún eignaðist hann sem kettling og var þá upptekin af skrifum áðurnefnds heimspekings sem var enskur og uppi á nítjándu öld; meðal annars þekktur sem málsvari kvenréttinda á sinni tíð. Nafni hans, kötturinn okkar, sem yfirleitt er bara kallaður Stúi, er reyndar ekki mjög heimspekilegur, en ég er þó feginn að hann kom ekki inn í líf dóttur minnar skömmu síðar þegar hún var farinn að skrifa lokaritgerð um Friedrich Nietzsche og orðin heltekin af hans skrifum og hugmyndum. Kisinn okkar, sú hreina sál, hefði einhvern veginn alls ekki risið undir því nafni.

Stúi köttur er stór og hraustlegur; hann er með svo stórar klær og öflugar loppur að þegar hann tekur sig til og fer að brýna klærnar á húsgögnum þá liggur við að hann sundri viðkomandi mublu. Hann væri með öðrum orðum vel útbúinn til ýmissa illverka, en hins vegar er ekkert illt til í hans fari og einhvern veginn þá er erfitt að ímynda sér hann setja klóna í fólk eða dýr, nema þá eingöngu í áminningarskyni þegar hann vill fá harðfisk. Hann fagnar öðrum köttum sem koma í garðinn eða upp á tröppurnar, nema þeir sýni af sér fjandskap; þá er Stúi fljótur að taka til fótanna og láta sig hverfa.

Dúlla með ljónshjartað

Kjarkleysi stóra fresskattarins okkar hefði stundum verið kennt við „merarhjarta“, en það er annað uppi á teningnum með læðuna litlu; hún er með ljónshjarta. Læðan er að mestu svört en með hvítu ívafi, og trúlega var dóttirin að lesa hina frægu spænsku skáldsögu „Don Kíkóta“, eftir Miquel Cervantes, því að kisa heitir eftir draumadís riddarans sjónumhrygga úr nefndri bók: „Dúlsinea“ – oftast bara kölluð Dúlla. Dúlla kisa er lítil og grönn; kannski ber stærð hennar þess einhver merki að hún fékk aldrei móðurmjólk en mun hafa fundist nýfædd og yfirgefin í skafli, en verið bjargað til lífs af góðu fólki. Það er fleira í fari Dúllu kisu sem kannski bendir til þessa uppruna hennar, eins og að hún mjálmar stundum eins og nýfæddur kettlingur, stutt og mjög veikt, líkist meira tísti; þetta gerir hún helst ef hún er að biðja um klapp og gott atlæti; en svo ræður hún líka yfir fleiri hljómtilbrigðum. Kisa er mjóslegin eins og ég nefndi, er með vaxtarlag sem minnir á síamsketti, og eflaust rennur eitthvað þannig blóð í æðum hennar, augun verða til dæmis næstum alveg blá í vissum birtuskilyrðum. En þessi litla mjóa kisa er kjörkuð eins og áður sagði; ef nágrannakettir, jafnvel stærðar slöttólfar, koma of nálægt húsinu, inn á svæði okkar katta, og jafnvel með ógnandi tilburðum þá pillar stóra fressið Stúi sér í burtu, en litla Dúlla er hvergi bangin, sveiflar kló á móti þeim nýkomnu með með miklum og ógnandi hljóðum, og það þótt aðvífandi köttur sé á engan hátt með ýfingar. Og þá er ekkert kettlingatíst í minni!

Kisinn sem horfir inn um eldhúsgluggann

Kettir eru, eins og flestir vita, mjög hændir að sínum heimilum. En það er mikil vitleysa sem stundum heyrist að þeir bindist ekki fólki. Þvert á móti hefur reynsla mín af nánum samgangi við þessa dýrategund í meira en hálfa öld fært mér heim sanninn um hvað þeir eru félagslyndir, og elskir að sínum eigendum. Vissulega eru þeir mjög bundnir heimaslóðum, eins og sést meðal annars á því að ekkert myndi köttum þykja óþarfara en ferðalög. Eða tilbreyting yfirleitt; þegar Bjartur í Sumarhúsum fékk sér fressið þá vildi kötturinn helst hjá engum öðrum vera en þeirri karlægu kellingu Hallberu, þar á bænum, enda kunni kisi „að meta höfuðkost ellinnar, sem er uppáfinningarleysið,“ eins og segir í Sjálfstæðu fólki. Mínir kettir halda sig mest á garðblettinum hér fyrir framan húsið þegar þeir fara út og sjá lítinn tilgang með lengri ferðalögum. Að vísu eru nákvæmlega eins litlir garðblettir fyrir framan næstu hús bæði ofar og neðar í götunni, og kannski má segja að það sé lítil meining með því að fara úr einum þeirra í annan; þetta er allt eins. Önnur dóttir mín, sem býr ekki langt frá, er líka með fresskött sem er ákaflega hændur að sínu fólki og sínu heimili; hún sótti hann á sínum tíma fullorðinn og heimilislausan á Kattholt, og hann er svo ákveðinn í að týna ekki þessu „nýja“ heimili sínu (þar sem hann er búinn að vera í meira en fimm ár) að þegar hann fer út þá stillir hann sér upp fyrir utan eldhúsgluggann og horfir inn, með hlýju í augum.

Þegar Bangsi fór í pössun

Auðvitað er sálarlíf svona dýra miklu ríkara og flóknara en margir gera sér grein fyrir, og hugtak eins og „skynlaus skepna“ að sjálfsögðu verstu öfugmæli. Eins og margir hafa upplifað þá gleyma dýr eins og hundar eða kettir mjög seint því sem þeim er vel eða illa gert; vinum sínum sem vikið hafa að þeim góðu fagna þau ævina á enda. Ég upplifði hve vel kettir muna mjög eftirminnilega fyrir hálfum öðrum áratug, og þurfti svosem ekki að koma á óvart því að þar var um að ræða sjálft heimili hans og ekki var liðið nema rúmt ár. Þá fluttumst við fjölskyldan til Berlínar til ársdvalar en þurftum að koma einhvers staðar fyrir á meðan gráa hálfpersneska kisanum okkar sem ég gat um hér í upphafi og hét Bangsi. Honum stóð til boða að vera hjá tengdaforeldrum mínum suður í Kópavogi, og var þar svosem ekki í kot vísað, hjá gegnheilum dýravinum. En eins og mig grunaði varð hann því lítt feginn að vera tekinn út af sínu ástkæra heimili og settur upp í bíl og ámátleg voru hljóðin þegar hann sá húsið sitt fjarlægjast og ég fann að hann myndi vera að hugsa að nú myndi hann aldrei rata heim á ný. Svo var hann kominn inn á nýja staðinn, stífur af skelfingu eftir ökutúrinn og þær hremmingar, og flúði umsvifalaust inn í skáp þar sem hann hélt sig að mestu næstu tvær vikur; hætti sér bara út til að sinna frumþörfum á meðan fólkið svaf. En smám saman fór hann að treysta sér til að hitta sitt nýja heimafólk enda mætti hann engu nema elskusemi, og brátt varð „gistiheimilið“ honum mikil paradís; hann fékk að sitja á matmálstímum við borðið með heimilisfólkinu, honum var strokið og klappað, og þegar tengdapabbi varð þess áskynja að Bangsa þótti notalegt að fá rjómaís á nóttum þá vaknaði hann alltaf að minnsta kosti einu sinni per nótt þar á eftir, til að gefa Bangsa ís; hann sagði mér síðar að Bangsa hefði þótt best að sleikja ísinn ef hann var örlítið búinn að mýkjast og þiðna á mannsfingri.

En svo kom hann aftur heim

Tæpum þrettán mánuðum seinna komum við og sóttum hann; aftur var lagt á hann það sem honum þótti verst af öllu, sem var bílferð; aftur sá hann heimili þar sem honum leið vel hverfa eitthvert út í buskann. Og maður var alveg búinn undir að hann yrði aftur smeykur er hann kæmi til baka eftir allan þennan tíma. Hann var stífur og með hraðan hjartslátt þegar ég bar hann inn eftir bílferðina, og leit í uppnámi í kringum sig eftir að ég setti hann niður á stofugólfið heima, og mér fannst eins líklegt að hann myndi finna skáp til að fela sig í á meðan hann jafnaði sig. En það tók hann ekki nema nokkrar sekúndur að átta sig á hvert hann væri kominn, og hann varð svo glaður að hann tímdi ekki að sofa í meira en sólarhring, heldur gekk hann um íbúðina með sælusvip og nuddaði sér malandi upp við allt og alla.

Kattardýr eru eins og fólk veit lýrískari en flest önnur, enda hafa skáld heimsins ort um þau ljóð. Einhvern tíma var Steinn Steinarr spurður hvað honum þætti um brautryðjanda franskrar nútímaljóðlistar, snillinginn Charles Baudelaire. Og Steinn á að hafa svarað eitthvað á þessa leið: „Já, hann orti svo laglega um ketti“. Annað höfuðskáld íslenskt, Jón Helgason, orti ljóðið „Á afmæli kattarins“. Það er tíu erindi, og meðal annars þessi fjögur:

Viðsjárverð þykir mér glyrnan gul,
geymir á bak við sig marga dul,
óargardýranna eðli grimmt
á sér í heilanum fylgsni dimmt.

Alla tíð var þó með okkur vel,
einlægt mér reyndist þitt hugarþel,
síðan ég forðum þig blindan bar,
breiddi á þig sæng þegar kaldast var.

Mjúkur, með kirfileg kampahár
kemurðu að dyrum í morgunsár
upp þig úr munnvatni allan þværð,
augunum lygnir í sæld og værð.

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.
(Úr landsuðri, 1939)

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.5.2016 - 11:00 - FB ummæli ()

Sannleikurinn um höfund Njálu (Þetta er einfaldara en margir halda)

Ég hef eins og mörgum er kunnugt hugsað mikið um sögu Íslands á þeirri herrans öld hinni þrettándu, þegar borgarastríð geisaði í landinu en þegar jafnframt voru hér skrifaðar þær bækur sem við eigum flest að þakka og eru okkar dýrasta eign, þar á meðal Íslendingasögurnar. Ég hef skrifað um þá öld fjórar skáldsögur byggðar á heimildum, reynt að lifa mig inn í tímana og fólkið sem þá bjó hér, og jafnframt lesið margt af því sem um þessa tíma hefur verið skrifað, bæði af samtímahöfundum og seinni tíma fræðimönnum. Og merkilegt nokk þá fann ég alltaf betur og betur hvernig atburðir og stórmerki þessarar mögnuðu aldar endurspeglast í frægustu og bestu Íslendingasögunum, sem þó á að heita svo að fjalli um atburði mörgum öldum fyrr, en flestar Íslendingasagnanna gerast á fyrstu einni til tveimur öldum eftir að Ísland fór að byggjast í stórum stíl, sem talið er vera um 870 eftir Krist.

Ráðgátan mikla …

Það merkilegasta sem þessar pælingar mínar og rannsóknir hafa fært mér heim sanninn um er að mér finnst ekki leika lengur neinn vafi á því hver skrifaði okkar frægustu bókmenntaperlu, sjálfa Njálu, sem aldrei hættir að vekja aðdáun bókmenntafólks og gengur reglulega í endurnýjun vinsældanna, nú síðast hér á landi með stórvinsælli sýningu í Borgarleikhúsinu. Um niðurstöðurnar hef ég skrifað fræðilegar greinar, yfirlesnar af virtum fræðimönnum, í tímarit eins og hinn tveggja alda gamla Skírni Hins íslenska bókmenntafélags, en mér þykir rétt að deila þeim einnig í alþýðlegum miðlum sem margir lesa, og því set ég nú enn á blað línur um það málefni.

Þessi spurning um höfund Njálu hefur eins og flestir vita verið talin mikil ráðgáta, og sú opinbera skoðun sem ég ólst upp við var einhvern veginn þannig að höfundurinn gæti næstum hafa verið hver sem er; um allt land hafi menn fengist við skriftir og að bara einhver munkur eða prestur eða kannski höfðingi hafi einn góðan veðurdag tekið sér fjöðurstaf í hönd og skrifað þetta margslungna listaverk. Á hinn bóginn blasir það við þeim sem hafa reynslu af því að skrifa fagurbókmenntir, eða hafa gert rannsókn á tilurð slíkra verka að sínu sérsviði, að það skrifar ekki hvaða viðvaningur sem er bækur á borð við stærstu og merkustu Íslendingasögurnar. Til þess þarf langa og mikla reynslu af gerð bóka í þeim dúr, ásamt ómældum hæfileikum. Jafnvel almestu snillingar frá okkar tímum hafa allir verið lengi að koma sér upp þannig færni; Halldór Laxness hafði til að mynda í hálfan annan áratug einbeitt sér að gerð skáldverka og skrifað margar bækur, sumar hverjar frekar viðvaningslegar, áður en hann gat sett saman verk sem líkja má við Njálu eða Eglu, eins og Sjálfstætt fólk eða Heimsljós.

Hverjir voru stórskáldin þá?

Þessi augljósa staðreynd hlýtur að beina helst sjónum að frægustu nafnkunnu höfundum þrettándu aldarinnar, og sá ágæti bóndi og Njálufræðingur Helgi heitinn á Hrafnkelsstöðum sagði einfaldlega: Snorri Sturluson hlýtur að hafa skrifað Njálu; besti höfundurinn skrifaði örugglega bestu bókina. Og margir vinir mínir í rithöfundastétt hafa sagt eitthvað á þessa leið: Það er næstum útilokað að svo fámennt og frumstætt samfélag sem Ísland var á þrettándu öld hafi átt fleiri en einn höfund af því tagi sem gat skrifað Heimskringlu, Eglu og Njálu!

Allt er þetta skynsamlega hugsað, en fellur samt á því að fullsannað þykir að Njála hafi ekki verið skrifuð fyrr en nálægt 1280, fjórum áratugum eftir fall Snorra Sturlusonar. Og svo er það hin staðreyndin að við þekkjum annan höfund af sama formati og Snorri frá umræddri öld, en það var bróðursonur hans og lærisveinn, Sturla Þórðarson. Við vitum að hann skrifaði meðal annars og af mikilli hind lengsta og mikilvægasta hluta Sturlungu, sem við hér til einföldunar skulum kalla Sturlungubók Sturlu Þórðarsonar. (Oftast kölluð Íslendingasaga, sem er mjög ruglandi nema fyrir innvígða, enda ekki um „íslendingasögu“ að ræða.)

Matthías Johannessen og fleiri

Góðir menn höfðu á undan mér beint sjónum sínum að tengslum Sturlu við Njálu, ekki síst Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri, sem hefur skrifað margt merkilegt um þessi mál og var mér mikill innblástur. Bæði innlendir og erlendir fræðimenn hafa tekið eftir mörgum sérkennilegum hliðstæðum og samsvörunum á milli Njálu og Sturlungubókar Sturlu, þar á meðal og ekki síst Barði heitinn Guðmundsson, sagnfræðingur og þjóðskjalavörður, þótt mér sýnist að hann hafi dregið af þeim fljótfærnislega ályktun, af því tagi sem þeir sem enga reynslu hafa af bókmenntaskrifum eru líklegir til að draga. Alls konar hliðstæður og enduróm má finna á milli þessara tveggja bóka, sem eru álíka langar, og eru samsvaranirnar gjarnan á svipuðum slóðum eða í hliðstæðum köflum. Ef allar yrðu taldar saman mætti telja þær í hundruðum. Og er sú staðreynd ein sterk vísbending um að sami höfundur hafi verið að verki. Að auki hnaut ég svo um eitt í viðbót sem báðar bækur eiga sameiginlegt og snertir sjálfa formgerð þeirra og efnisskipan, sem ég nú skal greina frá.

Efnispartarnir þrír

Eins og allir vita sem þekkja til Njálu þá skiptist hún mjög klárlega í þrjá afmarkaða hluta: Fyrsta partinn sem kalla má Gunnarssögu, svo tekur við Brennusagan og svo loks hefndarkaflinn, þar sem Kári er í forgrunni. Sturlungubók Sturlu er oftast gefin út og skoðuð sem partur af stærra verki, Sturlungu, og þá vafin inn í hana eftir tímaröð. En hún er líka til sjálfstæð (til dæmis í þjóðhátíðarútgáfu frá 1974) og sé hún skoðuð þannig sést að hún, rétt eins og Njála, skiptist í þrjá afmarkaða efnishluta. Og það sem meira er: þessum efnishlutum þremur má lýsa nákvæmlega eins í báðum bókum. Og það jafnt í smáum atriðum sem stórum.

Allt eins og úr sömu deiglunni

Prófum þessa lýsingu: Eftir kynningu á persónum, sviðsmynd og helstu aðstæðum fer frásögnin smám saman að hverfast um eina aðalpersónu. Sú söguhetja er ungur karlmaður, sem ber af öðrum fyrir fríðleik og líkamlegt atgervi. Eftir sigursæla för til útlanda snýr hann heim og verður bæði dáður og öfundaður. Hetjan gerir sig seka um ofmetnað eða ofdirfsku, hlýðir ekki ráðum eldri og vitrari manna, færist of mikið í fang og eignast of marga volduga óvini sem loks taka höndum saman og ráðast að söguhetjunni og fella í bardaga.

Kannast menn við rulluna? Svona er nærtækt að lýsa jafnt fyrsta hluta Brennunjálssögu og Gunnari, sem og fyrsta hluta umræddrar Sturlungubókar og Sturlu Sighvatssyni í því verki.

Annar hluti beggja bóka snýst svo um megindramað, aðför að íslensku stórbýli og brennu sem fylgir; í báðum bókum er ætlunin að drepa fjóra menn, en einn þeirra sleppur, og á báðum stöðum eru ellefu sagðir farast í brunanum, eða ellefu lík finnast í rústunum. Í báðum bókum er upp komin hættuleg staða, undangengin víg kalla á hefndir, en gerð er tilraun til að útkljá mál með sáttum án blóðsúthellinga. Svo virðist sem það ætli að takast, en þá gerist það sama: kona ragmanar lykilmann til að ganga úr sættinni og hefna með vopnum. Báðir menn verða rauðir sem blóð en eiga engan annan kost en að bregðast við frýjunarorðum kvennanna; önnur vildi láta hefna eiginmanns síns, hin föður síns. Í aðdraganda árásar verður ýmislegt hliðstætt sem of langt væri að telja upp, en nefna má að þeir Ingjaldur á Keldum í Njálu og Hrafn Oddsson í Íslendingasögu lenda í samskonar klemmu, reynt er að fá þá til að taka þátt í árásinni en þeir vilja ekki vera með, en heldur ekki svíkja árásarmenn með því að segja til þeirra; reyna í vandræðum sínum að vara við með almennum orðum sem duga ekki. Síðan er árás gerð á bæina. Varist er af mikilli hörku úr dyrum og gættum uns árásarmenn eiga tvo kosti, frá að hverfa eða bera eld að húsunum, og svo framvegis, og í samskonar atburðarás þekkjum við framhaldið, með öllum þeim merkilegu hliðstæðum sem á undan voru nefndar. Þetta eru auðvitað Njálsbrenna og Flugumýrarbrenna.

Um þriðja hluta beggja verka þarf svo ekki að fjölyrða, hann snýst um að einn þeirra fjögurra sem ætlunin var að drepa hefur sloppið úr eldinum, það fréttir brennumannaflokkurinn daginn eftir og verður mönnum þá að orði að þetta muni þýða bana margra þeirra. Sem svo verður, með tveimur hefndarleiðöngrum þar sem, í báðum bókum, fimm brennumenn eru felldir í þeim fyrri og átta í hinum síðari. Og í hefndarköflunum sjást svo enn fleiri einkennilegar hliðstæður, t.d. undir lokin þegar íslenskur maður er staddur erlendis og heyrir þar sem hann stendur úti fyrir dyrum hvar maður innandyra gerir lítið úr banastund eins þeirra sem voru viðriðnir brunann; Kári í Njálu heyrir hæðst að lítilmannlegum dauða Skarphéðins í Njálu, Þórður kakali það sama um Kolbein grön í Sturlungubók Sturlu; báðir hlaupa inn og höggva til bana hina glaðhlakkalegu sögusmettu.

Af hverju er þetta svona?

Sumir hafa reynt að skýra þessar óumdeildu samsvaranir með ágiskun um að höfundur Njálu kunni að hafa verið nýbúinn að lesa Sturlungu og einfaldlega undir svona miklum áhrifum af henni er hann reit hina fyrrnefndu. Báðar eru reyndar taldar samsettar á svipuðu árabili (ca. 1270–80) en vert er að minnast þess að á þeim tíma var engin bókaútgáfa eða prentun og fyrir vikið sáralítil bókadreifing. Og engin sérstök ástæða til að ætla að handrit Sturlungubókar Sturlu hafa yfirgefið ritstofu hans við Breiðafjörð fyrr en eftir hans dag (hann dó 30. júlí 1284).

Njála er augljóslega einhvers konar skáldleg eða jafnvel mýtólógísk og siðferðileg útlegging á þeim dramatísku atburðum sem Sturla Þórðarson var viðriðinn í lífinu og hann segir frá í sínu verki um Sturlungastríðin; þannig er Njáll gerður að hálfheilögum mannasætti og kristilegum friðflytjanda, sem hliðstætt fórnarlamb hinnar bókarinnar, Gissur Þorvaldsson, goði á Flugumýri, var augljóslega ekki. Og Gunnarskaflinn í Njálu er útlegging á þeirri stóru ráðgátu sem Sturla löngum glímdi við, að það er sitthvað gæfa og gjörvileiki.

Engir fræðimenn hafa andmælt mér á prenti um þessi mál, en margir vikið að mér góðu, í skrifum og spjalli. Og einn af okkar helstu miðaldafræðimönnum gekkst inn á kenninguna um Sturlu sem aðalbókmenntahöfund sinna tíma í fínum fyrirlestri í Reykholti fyrir einu eða tveimur árum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.4.2016 - 11:34 - FB ummæli ()

Að hlæja óvinsæl yfirvöld í hel

Það hefur löngum verið beittasta vopn almennings í löndum þar sem stjórnvöld eru óvinsæl en neita að hverfa frá kjötkötlunum að segja um þau neyðarlega brandara. Einn brandarinn sem gekk á meðal fólks sem þurfti að búa við hin illa þokkuðu stjórnvöld Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins var einhvernveginn á þessa leið: Háskólastúdent í hagfræði í Austur-Berlín er beðinn um að lýsa efnahagsástandinu í Bandaríkjunum og hann svarar óhikað: „Bandaríkin færast óðfluga nær hyldýpi kreppunnar og innan fárra ára munu þau steypast ofan í logandi öngþveitið!“ Prófdómarar klappa, þetta er fullkomið svar, verðskuldar hæstu einkunn. Og næsta spurning snýst um að lýsa efnahagsástandinu í Sovétríkjunum, og það kemur líka hratt, hárrétt og óhikað: „Sovétríkin nálgast Bandaríkin óðfluga og munu innan fárra ára taka fram úr þeim!“

„Orður titlar úrelt þing …“

Þótt stjórnvöld séu fyrirlitin en þaulsætin, vanræki þegnana og sýni þeim grimmd á meðan valdastéttin baðar sig í munaði, þá lumar almenningur alltaf á þessu beitta vopni, það er að segja húmornum. Eins og sást meðal annars í nefndum kommúnistaríkjum í austanverðri Evrópu á sinni tíð. Húmorsleysi valdhafanna þar var auðvitað hlægilegt í sjálfu sér, og sumu þarf ekki einu sinni að gera grín að: til dæmis orðu- og nafnbótafarganinu sem þeir voru alltaf að hlaða hver á annan; pólitískir kommissarar sem aldrei höfðu komið á vígstöðvar, menn sem aldrei höfðu gert neitt hetjulegra en að njósna um og kúga samlanda sína, fengu miklu fleiri og hærri orður og nafnbætur fyrir hugrekki og hetjuskap en sannar stríðshetjur úr fremstu víglínu. Þessi andi lifir enn eins og menn vita í Norður-Kóreu, og margir hafa séð myndir af helstu ráðamönnum þar með orðurnar sínar og heiðursmerki sem ekki bara fylla jakkana bæði að framan og aftan heldur líka buxnaskálmarnar niður fyrir hné – þetta er eins og að horfa á trúða.

Falsson og frystikista kommúnismans

Sumt pólitískt grín er semsagt þannig að það semur sig sjálft, og varla neinu við það að bæta. Sá sem nú væri að semja stjórnmálarevíu á Íslandi gæti ekki samið neitt dramatískara og fyndnara en sænska sjónvarpsviðtalið frá liðnum sunnudegi. Hefði það aldrei átt sér stað heldur bara verið samið af til dæmis Spaugstofumönnum eða Fóstbræðrum, þá hefði eflaust heyrst sú krítík úr ýmsum áttum að nú hefðu höfundarnir skotið yfir markið; svona vitleysa myndi auðvitað aldrei gerast í alvörunni. Og sama á við það ef þeir hefðu látið braskfyrirtæki í skattaskjóli í eigu fjármálaráðherrans og félaga hans heita „Falsson“.

En við vorum að tala um Austur-Evrópu á tímum Kalda stríðsins og þannig samfélög – „frystikistu kommúnismans“ kallaði það einhver – og það grín sem almenningur gat búið sér til um þjóðfélagsmálin og valdhafana. Og reyndar lágu leiðtogar og valdastétt þeirra ríkja gjarnan meira en vel við höggi, með sinn hégómleika og megalómaníu. Og var það þeim mun furðulegra sem það blasti betur við að gjarnan voru þetta afar litlir kallar, smámenni til orðs og æðis en höfðu flotið upp í æðstu stöður og embætti, eins og taðkögglar í vatni. En reyndar fer það gjarnan svo í valdakerfi og pólitík þar sem persónueiginleikar eins og þeir sem kenndir eru við músina sem læðist reynast helst ávísun á frama; í einræðisflokkum og valdakerfi þar sem menn komast því hærra eftir því sem þeir eru falskari og lygnari, viljugri til að sýna tvískinnung, sýna hærra settum meiri hollustu, með tilheyrandi rassasleikjum, og eru jafnan tilbúnir til að selja ömmu sína í von um bitling. Mörgum eru í fersku minni síðustu dagar Sjáseskú-hjónanna í Rúmeníu, og hversu furðulegt var að sjá að því lítilsiglda fólki skyldi hafa tekist að trúa því að það væri ígildi þjóðfrelsara og sólkonunga í þessu fátæka landi með sinni kúguðu þjóð; þau höfðu meira að segja látið rífa niður alla hina gamalgrónu miðborg Búkarest til að byggja þar í staðinn yfir sig sjálf stærstu forsetahöll í heimi. Og svo við lítum á ný til Norður-Kóreu; bara útlitið og merkikertissvipurinn á því útblásna barni sem þar fer nú með einræðisvöld er þannig að Coen-bræður eða Monty Python myndu veigra sér við að hafa hann í skrípamynd – það væri eiginlega „overkill“.

Austur-Evrópu húmorinn

Einn Austur-Evrópubrandaranna var svona: Kennari spyr ungan nemanda hver sé munurinn á kapítalista og kommúnista. Barnið svarar: „Kapítalistinn elskar peninga en kommúnistinn elskar fólk.“ „Mjög gott!“ segir kennarinn. „Og hvernig birtist þetta?“ „Kapítalistinn læsir peningana sína niðri,“ segir nemandinn, „en kommúnistinn læsir …“ „Já, þetta er orðið gott,“ sagði þá kennarinn. Önnur sagan var svona: Þrír menn sátu í fangaklefa í DDR og ræddu um fyrir hvað þeir sætu inni. Einn sagði: „Ég kom fimm mínútum of seint til vinnu, og það þótti spilla fyrir.“ Annar sagði: „Ég kom alltaf fimm mínútum of snemma til vinnu, og þá var því slegið föstu að ég væri að njósna.“ Sá þriðji sagði: „Ég mætti alltaf á réttum tíma, svo þeir föttuðu að ég hefði náð mér í úr frá Vesturlöndum.“

Eitt sinn voru Erich Honecker og Mielke, æðsti lögregluforinginn í DDR, að ræða um áhugamál sín, eða hobbí. Honecker sagði: „Ég safna saman öllum bröndurum sem eru sagðir um mig.“ Þá sagði Mielke: „Mitt hobbí er í rauninni mjög svipað: „Ég safna saman öllum sem segja brandara um þig.“

Þannig gamansemi í þjóðsögum og bókmenntum

Húmor af þessu tagi, svona litlar gamansamar sögur þar sem valdhafar eru dregnir sundur og saman í háði, er reyndar náskyldur þjóðsögum og ævintýrum; einhverskonar varnarleikur hinna undirokuðu. Enda sjáum við í svo mörgum þjóðsögum, til dæmis nýrri snilldarútgáfu á Grimmsævintýrum endursögðum, sem kom út á íslensku fyrir síðustu jól, að hetjur þeirra sagna eru gjarnan hinir smæstu; kotungar, undirokaðir yngstu bræður, að ekki sé talað um sjálfa Öskubusku. Hinir „litlu“ í samfélögunum reynast í slíkum sögum gjarnan úrræðabestir og útsjónarsamastir, auk þess að hafa unnið sér inn góðvild dýra og ýmissa vætta með breytni sinni, á meðan hinir eldri eru stirðir og hugsa hægt og hafa áður sýnt öllum og öllu tillitsleysi og yfirgang. Eins og húsdýrin sem á að slá af vegna þess að þau eru orðin gagnslaus að áliti mannanna, en sem taka sig saman um að halda hópinn og stofna hljómsveit. Þetta er ein af mínum uppáhaldssögum í veröldinni, hét áður „Brimaborgarsöngvararnir“ en í hinni nýju endursögn Philips Pullman og þýðingu Silju Aðalsteins „Tónsnillingarnir frá Brimaborg“; þeir lenda í háska er þeir hitta hættulegan ræningjaflokk, en reynast honum miklu hugvitssamari. Úr bókmenntum liðinna alda þekkjum við margar slíkar sögur, og eru oftast kenndar við „píkaresku.“ Fræg bókmenntaverk hafa verið skrifuð dálítið í sama anda; ein vinsælasta skáldsaga liðinnar aldar er eins og allir vitar „Góði dátinn Svejk“ og þar er það mælska og hugvitssemi hinna óbreyttu sem oftast skilur foringja og hershöfðingja eftir sem berstrípaða trúða. Þegar bókin kom fyrst út var Habsborgaraveldið mikla reyndar liðið undir lok, en hefði svo ekki verið hefði hún án efa orðið því gamla keisaradæmi ærið skeinuhætt.

„Hvað myndi gerast ef einhver dræpi Walter Ulbricht?“

Walter Ulbricht var á undan Honecker leiðtogi Austur-Þýskalands eða DDR, þessa undarlega Stasi-samfélags þar sem líklega var betur fylgst með þegnunum en annars eru dæmi um í sögunni. Þar var svo nákvæmlega njósnað um borgarana að það þótti hreinlega vera kostur í tilfellum eins og ef menn þurftu að taka leigubíl; bílstjórinn vissi hver þú varst og hvar þú áttir heima.

Walter Ulbricht var að sjálfsögðu skreyttur mörgum orðum og heiðursmerkjum, meðal annars einni sem mikið var spaugað með, en hún var fyrir hetjuskap í Spænsku borgarastyrjöldinni. Hetjuskap sem ekki margir aðrir könnuðust við, og síst þeir sem sjálfir höfðu verið á vígstöðvunum á móti fasistaherjum Francos. Konan hans, Lotte Ulbricht, var líka höfði í háum sessi, og hún hagaði sér eins og drottning eða móðir allrar þjóðarinnar, þótt hún hefði síst orð á sér fyrir mannkosti; mildi, þokka eða skemmtilegheit. Ein alþýðusagan var svona: Tveir DDR-borgarar hittust á Alexanderplatz og tóku tal saman. Og annar segir við hinn: „Hugsaðu þér, í Bandaríkjunum skutu þeir forsetann! Hvað heldurðu að myndi gerast hér ef einhver kæmi og dræpi Walter Ulbricht?“ Hinn svaraði: „Ekki veit ég hvað myndi gerast þá. En ég er samt nokkuð viss um að skipakóngurinn Onassis myndi ekki giftast ekkjunni.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2016 - 17:22 - FB ummæli ()

Minningar frá hrundögunum 2008

Það er ógleymanlegt þetta haust stórra atburða og mikilla tilfinninga, og byrjaði allt í mikilli gleði; í byrjun september vorum við fjölskyldan í miðbænum með hálfri þjóðinni að fagna silfurmeisturunum í handbolta frá Ólympíuleikunum í Peking; það var þar og við það tilefni sem frasinn „stórasta land í heimi“ heyrðist fyrst. Svo hélt ég sjálfur utan annan október í langþráða skemmtiferð og ætlað að vera tæpa viku á ferðinni. Maður hafði reyndar dagana á undan heyrt um að það væri mikill órói í fjármálaheiminum; Glitnir var að fara á hausinn, íslenska efnahagsundrið, sem hafði um sinn gert okkur að ríkustu þjóð landsins virtist standa á brauðfótum. En það var verið að funda, menn reiknuðu með aðgerðum frá ríkisstjórninni; engan óraði fyrir því að allt gæti hrunið, það var bara ómögulegt. Og þegar maður var kominn út til Spánar þá var heimsins áhyggja fjarri; við vorum fjórir gamlir bekkjarbræður út Menntaskólanum við Tjörnina í þessari för; sigldum í heila viku glaðir á seglskútu í Miðjarðarhafinu ,stemningin í hópnum var frábær, við höfðum ekki verið í svona félagsskap allir saman í áratugi, veðrið var snilld og með góðum byr, lífið frábært.

Meðan Róm brann

Það er dálítið skrýtið til þess að hugsa að þegar mesta efnahagskreppa í manna minnum reið yfir Ísland, þegar allt bankakerfið hrundi á einu bretti og hrein neyð virtist skyndilega vofa yfir landinu sem hafði árum saman baðað sig í peningum og hagsæld, þá skuli maður hafa verið á siglingu, áhyggjulaus og glaður í Miðjarðarhafinu.

Það hljómar allavega eitthvað einkennilega. Að vísu vorum við bara á seglskútu, en ekki einhverri af lúxussnekkjum útrásarinnar, en það er sama. Við sigldum á daginn, fyrir nes og framhjá klettum, inn í víkur og voga, heimsóttum ólíka hafnarbæi á kvöldum, og þá fóru menn að huga að farsímum sínum eftir að hafa komist í hafnasturturnar og við vorum svo sestir með drykk í hlýrri kvöldgolunni, og alltaf urðu fréttirnar að heiman enn ískyggilegri en þær höfðu verið daginn áður, og hafði það þó hljómað sem heimsendir.

Við töluðum auðvitað við eiginkonur okkar og heyrðum kvíðann, ríkisstjórnin hafði fundað allan daginn, menn bjuggust við að heyra um björgunaraðgerðir innan skamms. Svo fréttist að það yrðu engar aðgerðir. Það væri nefnilega ekkert hægt að gera. Það væri allt farið á hausinn. Við áttum vini í bissneslífinu, þeir skulfu og nötruðu; einn okkar átti vin sem var einn af auðugustu milljarðamæringunum, einn af þeim sem áttu einkaþotu; hann var orðinn mjög hrokafullur uppá síðkastið, hafði ekki nennt í eitt tvö ár að hitta menn sem áttu minna en hundrað milljarða eða svara símtölum frá slíkum ræflum; nú hringdi hann, einn af okkur bátsverjum fór upp á bryggju með farsímann við eyrað, kom svo aftur aðeins sleginn og undrandi; þetta var auðkýfingurinn, bljúgur og viðkvæmur, var bara að hringja til að athuga hvort hann ætti ekki einhverja vini ennþá. Daginn efir var Geir Haarde í sjónvarpinu: Guð blessi Ísland. Við heyrðum að það væri allt að lamast heima, hæpið að hægt yrði að kaupa eldsneyti eða lyf til landsins. Spurning hvort ekki yrði matarskortur. „Ég mun nú alltaf geta gaukað að ykkur saltfiski strákar mínir,“ sagði einn í áhöfninni, en hann fæst við fiskverkun. Einhver heyrði að Baugur væri farinn á hausinn, og þar með allar búðirnar. Ég sendi sms á góðan vin minn heima: „Er Baugur farinn á hausinn?“ Og fékk heldur kaldhamrað svar: „Baugur?? Það er allt farið á hausinn!“ Við fundum að íslensk kreditkort voru ekki lengur tekinn gild í spænskum hraðbönkum. Ískyggilegast fyrir mig var samt að heyra að líklega væri Icelandair líka um það bil að rúlla, að vélar félagsins yrðu kyrrsettar á erlendum flugvöllum; ég átti að fljúga með þeim heim daginn eftir.

Priority pass

 Ég flaug frá Palma um hádegisbil og var lentur á Heathrowflugvelli um tvöleytið að staðartíma um eftirmiðdaginn; vélin mín til Keflavíkur var ekki á áætlun fyrr en um átta eða níuleytið um kvöldið svo ég átti fyrir höndum langa bið á þessum stóra enska alþjóðaflugvelli. Sem var á sinn hátt heldur kvíðvænlegt, ekki síst út af hinu óljósa ástandi heimafyrir; maður vissi að það væri undir hælinn lagt hvort íslensk greiðslukort virkuðu lengur, og þótt svo færi að greiðsluvélar tækju þau gild hafði enginn hugmynd um gengi íslenska gjaldmiðilsins í hamförunum; maður gat vænst þess að bjór og róstbífsamloka myndi kosta þegar upp væri staðið eitthvað í líkingu við tvenn daglaun. En ég var svo heppinn að hafa í veskinu aðgang að betri stofu flugvallarins, „The lounge“; eins og flestir aðrir Íslendingar reyndist maður hafa ferðast á fyrsta farrými í lífinu undanfarin velti- og bóluár, og einhverntíma þegar bankinn minn, sem síðan er farinn á hausinn í gjaldþroti af heimssögulegri stærð, fann upp á því að öppgreida hjá mér kreditkortið fylgdi með „Priority Pass“ – aðgangur að „lánsum“ á flestum skárri flugvöllum, og nú gat ég semsé fundið mér athvarf á slíkum stað allan eftirmiðdaginn og fram á kvöld; þar voru leðursófasett og mikið úrval dagblaða og tímarita, maður gat setið í friði eins og breskur hefðarmaður í chesterfieldsófa, vantaði bara opinn eld í arni og hund við lappirnar – svo var líka boðið upp á bjór og maísflögur með salsaídýfu.

 Háð og níð í íhaldspressunni

Og þarna kom ég mér fyrir. Þar var mjög rólegt og fámennt lengi eftirmiðdagsins, en mér þurfti ekki að leiðast, því að frá sjónarhóli Íslendings höfðu bresku dagblöðin sjaldan verið eins spennandi og einmitt þennan dag; forsíðurnar og raunar megnið af fréttasíðum gjörvallrar bresku pressunnar voru undirlagðar af fréttum um efnhagshamfarirnar á Íslandi, menn höfðu aldrei upplifað annað eins; gjörvallt bankakerfi heils ríkis á hliðina á einni nóttu, „total economical meltdown“ í nágrannalandinu í norðri, og það sem gerði málið enn meira krassandi var að á umliðnum fáum árum höfðu menn staðið á öndinni yfir sívaxandi veldi ungra íslenskra auðmanna sem virtist allt verða að gulli; þeir höfðu keypt upp fyrirtæki, fasteignir og verslunarkeðjur um allar Bretlandseyjar, og opnað bankaútibú sem gátu boðið betri kjör en virðuleg og gamalgróin fjármálafyrirtæki í The City; að auki höfðu þessir Íslensku greifar sífellt verið með í sínu föruneyti, sínu staffi hreinlega, forystumenn þjóðarinnar, forseta og ráðherra sem voru óþreytandi að tala við breska fjölmiðla og útskýra þá staðreynd að íslenskir braskarar virtust geta breytt vatni í vín á vegna þess  að þeir væru afkomendur þeirra frjálsbornu ofurmenna sem áður buðu hafi og stormum byrginn og sigldu þá sjói sem engir aðrir þorðu að hætta sér út á og og birtust fyrir vikið á ströndum framandi landa eins og geimfarar frá fjarlægum stjörnum og legðu undir sig löndin. Og upprifjanir á þeim ræðuhöldum og öðrum slíkum fylltu nú spaltana hjá dálkahöfundum sömu blaða, og enskir eru meistarar háðs og tvíræðni í slíkum skrifum, ekki síst voru pistlahöfundar íhaldspressunnar nístandi naprir; ég las lengi dags Daily Telegraph og Daily Mail fullur af samblandi aðdáunar á stílsnilld og hugkvæmni þessara penna og hryllings yfir því af hve ríkri innistæðu þórðargleði þeirra reyndist vera yfir ógæfu lands míns og þjóðar.

Svo tók lánsið að fyllast

Ég tók varla eftir því að fleira fólk var komið inn í Lánsið; undir kvöld var raunar allt að fyllast – þegar leið að brottför Icalandairvélarinnar til Keflavíkur – þar sem ég sat mynduðu fjórir stæðilegir leðursófar ferhyrning og ég sat í horni eins þeirra falinn á bakvið dagblaðið, og það rann upp fyrir mér að það fólk sem í kringum mig var sest talaði íslensku. Að svo miklu leyti sem eitthvað var talað; maður fann að í hvert sinn sem einhver hugðist taka til máls var sem hann þyrfti fyrst að lyfta þungum steini frá hjarta sér. Þegar ég fletti blaðinu sá ég að flestir horfðu í gaupnir sér eða ofan í borðið; fólk í fínum jakkfötum og með skrautleg bindi og hálsklúta, og það var auðheyrilegt á öllu að þau komu beint úr íslenska efnahagsundrinu, hverra rústum fólk var nú að hæðast að um allan heim, og ég fann að þessi samlandar mínir voru að sjálfsögðu á þann hátt verr settir en ég sjálfur, sem hafði ekki áhyggjur af öðru en því að samfélag mitt og heimaland var á augabragði sokkið í botnlausa skuldahít, að það var greinilega búið á umliðnum dögum að tapa atvinnu sinni, lífinu sem það hafði lifað, og kannski aleigunni með; þetta var fólk úr banka- og fjármálageiranum á leið heim; í London höfðu þau engin erindi lengur; voru tæpast velkomin ef að var gáð.

„Önnur gildi í lífinu“

Ég heyrði það skiptast á orðum, sem það dró upp úr sér með erfiðismunum, eins og fólk sem vill létta af hjarta sér talar við sína nánustu. Ég ætlaði að leggja frá mér blaðið og heilsa fólkinu, eins og siður er Íslendinga og kurteisisvenja, en fannst ég þá þegar vera búinn að liggja á hleri, það væri orðið of seint að láta fólkið vita að bakvið blaðið í horninu leyndist maður sem skildi þeirra tungumál, svo ég sat um stund hreyfingarlaus, beið færis að smokra mér burt svo lítið bæri á, úr þessu trúnaðarsamtali í sófunum fjórum inni í betri stofunni. Og heyri þá einn þeirra segja:

-Þetta kennir manni kannski að fara að lifa fyrir önnur gildi í lífinu.

Gegnum síður Daily mail fann ég streyma undrunarbylgjur frá þeim hinum. Hvað gat maðurinn átt við? Uns eitt þeirra spurði:

-Eins og hvaða gildi?

-Tja, eins og kannski fjölskyldu og vini..? sagði samlandi minn afsakandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.3.2016 - 13:00 - FB ummæli ()

Guðfeður og Cosa Nostra

Ekki fyrir löngu sá ég enn einu sinni allar „Godfather“-myndirnar og alltaf sér maður betur og betur hversu mikið snilldarverk þessi flokkur er, og þó sérstaklega tvær þær fyrstu. Og merkilegast er kannski að frá sjónarhóli kvikmyndafræðanna eru þessar myndir í rauninni mjög hefðbundnar; þær byggja ekki fyrst og fremst á frumlegum og glæsilegum myndlistarverkum heldur eru það element eins og  mannlýsingar og samtöl sem eru snilldin; að því leyti eru þessar kvikmyndir bornar uppi af nokkurskonar bókmenntalegum, epískum styrk. Sum af frásagnarelementum þessara kvikmynda jaðra jafnvel við að vera billeg: þannig er sagt í öllum kennslubókum um handritsgerð fyrir kvikmyndir að menn skuli forðast að kynna persónur með því að láta aðra tala um þær, en í hinu glæsilega upphafsatriði fyrstu Guðföðurmyndarinnar situr Michael Corleone, leikinn af Al Pacino, og segir nýrri kærustu sinni, Kay, sem er túlkuð af Diane Keaton, deili á mörgum af persónum myndarinnar; á þann hátt eru þær kynntar til sögu. En þetta gengur upp vegna þess að samtalið er svo frábærlega samið.

Mario Puzo

Kvikmyndirnar eru eins og flestir vita byggðar á bókmenntaverki, samnefndri bók eftir rithöfundinn Mario Puzo. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að hann var mikill snillingur, og það er alveg þess virði fyrir unnendur kvikmyndanna að lesa jafnframt bókina. Hún er reyndar ekki gallalaus; í bókinni eru persónur og frásagnarþættir sem virka sem óþarfi og þannig hefur löngum köflum verið sleppt úr kvikmyndahandritunum. Það er líka merkilegt að í rauninni ætlaði Puzo sér að umrædd skáldsaga yrði hálfgert aukaatriði í hans ferli; hann hafði áður fengist við að skrifa „listrænar“ skáldsögur sem fengið höfðu góða dóma en seldust lítið; hann var í miklum fjárhagskröggum og ákvað að fara smá útúrdúr og skrifa sögu sem væri líkleg til að seljast; hræra í einn „bestseller“. Og út kom meistaraverkið um Guðföðurinn, og þarf ekki taka það fram að hún gerði hann að margföldum milljarðamæringi. Það er líka merkilegt að hann sjálfur, þótt hann væri af ítölskum uppruna, hafði ekki mikla persónulega reynslu eða kynni af mafíunni; sjálfur gamli Vito Corleone, upphaflegi Guðfaðirinn, sem Marlon Brando leikur svo listilega, mun í talsmáta og sem persónuleiki vera byggður á móður höfundarins Mario Puzo, en hún var einstæð og mikil „mama grande“, eins og menn geta þá séð.

Sikiley og sameinuð Ítalía

Það er líka áhugavert fyrir unnendur kvikmyndanna og þessarar miklu sögu um Guðföðurinn að kynna sér bakgrunninn, sögu Mafíunnar. Ég er með bók sem heitir „Cosa nostra – A history of the Sicilian Mafia“ og er eftir John Dickie. Þar má sjá að tilurð mafíunnar tengist á sinn hátt sameiningu Ítalíu á nítjándu öld, en undir forystu hins fræga Garibaldi sameinuðust um 1860 ólík ríki á Ítalíuskaganum ásamt Sikiley í stórríkið eins og við þekkjum það í dag. Sikiley hafði þá öldum saman tilheyrt öðrum ríkjum eða verið á áhrifasvæði þeirra; þar höfðu Frakkar vaðið uppi og Arabar og tungumálið sem talað var þar á eyjunni þegar hún lenti undir stjórn ríkisins sem hafði Róm að höfuðborg var gjörólíkt því sem við köllum ítölsku. Og Sikileyingar áttu því ekki að venjast að fólk sem talaði þá framandi tungu væri að ráðskast með þeirra hagi, og þeir gerðu harla lítið með tilskipanir sem einhverjir útlendingar norður á Ítalíu voru að reyna að troða upp á þá. Og sama gilti um sýslumenn, lögreglu- og skattstjóra sem var verið að siga á þá af framandi yfirvöldum, og fór fyrir sumum þeirra svipað og sænska biskupnum og ribbaldanum Jóni Gerrekssyni sem okkur Íslendingum var forðum sendur en var svo settur í poka og drekkt í Brúará hér syðra.

„Sterkur leiðtogi“

Það var semsé skortur á yfir- eða miðstjórnarvaldi sem gerði það að verkum að stórbændur og aðrir guðfeður á Sikiley gátu farið sínu fram eins og smákóngar. Og við bættist að nú rann upp mikil efnahagsleg gullöld þar á eyjunni; þar fundust miklar magnesíumnámur, sem skiluðu gífurlegum tekjum en léku reyndar umhverfið grátt. Að auki var á Sikiley ræktað mikið af sítrusávöxtum, og með nýrri tækni gufuskipa með kælikerfi í lestum opnuðust nýir markaðir fyrir þessa ávexti; Evrópubúar og Bandaríkjamenn urðu að fá sítrónur, og læm út í ginið sitt. Svo peningar flæddu um Sikiley. Og slíku ástandi fylgir gjarnan Sturlungaöld, eins og við þekkjum frá okkar þrettándu öld. Á löglausum tímum koma gjarnan upp hugmyndir eða kröfur um „sterkan leiðtoga“ svona svipað og Putin hefur tekist að verða hjá Rússum og kannski hefur verið hugmynd landa vorra til forna um að gangast undir Noregskonung.

Á miðstjórn hins ítalska ríkisvalds sem sat í Rómaborg var lítið hlustað víða í hinu víðlenda ríki, en þó allra minnst í Palermo og Corleone á Sikiley. Í þannig pólitísku ástandi fara „sterkir foringjar“ gjarnan að láta á sér kræla, og bjóða sig fram til forystu, og það gerðist einmitt á Ítalíu snemma á tuttugustu öld. Einn þeirra var sá sem fékk viðurnefnið „Il Duce“ en hét eins og menn vita Benito Mussulini, og hann og hans pólitíska hreyfing, fasistarnir, sögðust ætla að koma skikki á héraðshöfðingja og glæpamenn Sikileyjar, og þannig staða; átti Mússúlíni ekki síst slíkum hetjuorðum og svardögum það að þakka að hann náði kjöri sem yfirvald allrar Ítalíu, þegar komið var fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Reyndar ætlaði hann til að byrja með að vingast við mafíósana á Sikiley og nota styrk þeirra og sambönd til að púkka undir eigin stöðu, en þegar hann kom í fyrsta sinn til Sikileyjar umkringdur her og lögreglu hallaði voldugasti guðfaðirinn á eyjunni sér að honum og sagði: „hvað ertu að gera með allt þetta lið, þú veist að hérna er það ég sem ræð hvort þú heldur lífi“. Og Il Duce skildi hótunina og var fljótur að pilla sér burt. Og svo fór að hann hóf mikið stríð gegn mafíunni, sem varð til þess að margir úr því liði fluttust til Ameríku. Og það er einmitt í því róti öllu sem hinn ungi Vito Corleone er látinn koma til New York í Godfather nr. 2, en eins og flestir muna er það Robert De Niro sem túlkar hann á yngri árum í þeirri mynd. Það var semsé vegna þessara stríða mafíósanna á Sikiley við Mússúlíni sem þeir urðu svarnir andstæðingar hans, en merkilegt nokk þá fengu þeir á sig dálítið framsækið orð fyrir að vera andfasistar, sem er í ljósi þessa kannski nokkuð ofmælt um glæpasamtökin.

Innskot um Robert De Niro

Reyndar er líklega enginn betri í að leika mafíósa en nefndur ítalskættaði leikari frá Manhattan; auk The Godfather má minna á stórkostlegan leik hans í „Analyze this“-myndunum, og í „The Untouchables“ stelur hann eiginlega senunni í aukahlutverki sem Al Capone. Hann er hins vegar ekki alinn upp innan um mafíósa – öðru nær. Ég man eftir viðtali við íslensku myndlistarkonuna frægu Louisu Matthíasdóttur, sem lengst af bjó í New York ásamt eiginmanni sínum sem einnig málaði. Viðtalið var tekið á heimili þeirra í fjölbýlishúsi á Manhattan, og það barst í tal að þar í húsinu byggju fleiri listmálarar. Og þá sagði Louisa eitthvað á þessa leið: „Já, það má nefna að hjónin í íbúðinni hérna á ganginum beint á móti mála bæði. Það var yfirleitt opið á milli, og strákurinn þeirra hann Bobby, hann kom oft hingað inn til okkar þegar hann var krakki. Nú er hann víst orðinn frægur í kvikmyndum.“ „Hvað heitir þetta fólk?“ var þá spurt. „Þau heita De Niro,“ svaraði þá Louisa Matthíasdóttir.

Upplagt inventar í góða epík

Af einhverjum ástæðum eru þessir ítölsku mafíósar alveg upplagt inventar í mikla epík og áhrifamiklar sögur, enda bækur og bíómyndir um þá legíó. Kannski er það meðal annars að þakka undarlegri blöndu af siðlausum glæpum en jafnframt furðu sterkum innri siðaboðum; fjölskyldusamheldni, vináttu og tryggð. Þetta tóku Ítalirnir með sér vestur um haf, þar sem þeir settust að í New York og víðar. Þar í mannhafinu lentu þeir í bland við aðrar litríkar þjóðir eins og Íra, sem einnig eru kaþólskir en þó á einhvern hátt gerólíkir, enda var samkomulag þjóðarbrotanna oft fremur stirt. Í einni af bestu mafíusögunum, Sopranos-sjónvarpsþáttunum, gerist það að einn af traustustu liðsmönnum Tony Soprano verður fyrir skoti og er fluttur helsærður á spítala. Vinirnir sitja að sjálfsögðu hjá honum við sjúkrabeðinn, og verða vitni að því að hann deyr en er lífgaður við aftur, með stuðtækjum. Þegar hann kemst loks til meðvitundar eru þeir spenntir að heyra hvernig lífsreynsla það sé að deyja, og hann upplýsir að hann hafi farið til helvítis. „Og hvernig var þar umhorfs?“ spyrja vinirnir. „Þar er írskur pöbb,“ sagði mafíósinn, „og þar er alltaf St. Patrick’s day.“

Það er einnar messu virði að ná sér myndirnar um Guðföðurinn, og allar hinar kvikmyndirnar og bækurnar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.2.2016 - 16:26 - FB ummæli ()

Grímur grallari

Einhvern tímann í fyrra var töluverður hvellur á samfélagsmiðlum þegar Ríkisútvarpið sjónvarp auglýsti að það væri að hefja sýningar á nýjum leiknum sjónvarpsþáttum fyrir börn frá breska sjónvarpinu, og myndu þeir heita „Bara Villi.“ Og innan sviga stóð á frummálinu: (Just William). Því að það var sem marga grunaði að hér væri átt við sögupersónu sem fyrir svona hálfri öld var eftirlæti margra íslenskra krakka og hér þá Grímur grallari. Ég var einn af þeim sem skrifaði reiðilegan status, mig minnir að ég hafi notað orðalagið að það væri „verið að spræna yfir þjóðmenninguna“, með óbeinni tilvísun í upphaf frægra blaðadeilna Thors Vilhjálmssonar við Kristmann Guðmundsson. Stundum þarf að draga fram stóru kanónurnar. Og auðvitað fór það svo að okkar góða Sjónvarp sá að sér og þættirnir hétu Grímur grallari, og Bara Villi innan sviga.

Snillingurinn Richmal Crompton

Bókaflokkurinn Just William eftir Richmal Crompton kom upphaflega út í Bretlandi á þriðja áratug liðinnar aldar og er löngu orðin bókmenntaklassík þar í landi. Það var svo upp úr 1960 sem bókaútgáfan Setberg fór að gefa flokkinn út á íslensku: „Grímur grallari“, „Grímur og útilegumennirnir“, „Áfram Grímur grallari“, „Grímur og smyglararnir“ o.s.frv. Prýðilega þýðingu gerði Guðrún Guðmundsdóttir, en þess sem gerði teikningarnar fyrir íslensku útgáfuna er ekki getið, en þær myndskreytingar eru reyndar ekkert sérstakar, svona fyrir minn smekk. Það var Arnbjörn í Setbergi sem gaf bækurnar út og þegar ég var formaður í Rithöfundasambandinu var hann formaður útgefenda svo að við hittumst stundum, og alltaf spurði ég hann hvenær hann ætlaði að endurútgefa Grím grallara. Þá sagðist hann reyndar hafa fengið stundum ákúrur á sínum tíma fyrir að bjóða upp á svona óknyttabókmenntir, eins og sumum þótti þær vera.

Hylling lífsgleðinnar

Það má kannski segja að helsta inntak bókanna sé hylling á lífsgleðinni, og þá helst í andstöðu við fágun og yfirborðsmennsku, sem ekki síst er að finna hjá Bretum, en bækurnar gerast að mestu í einhverri óskilgreindri enskri smáborg. Það er lífsgleði krakkanna, Gríms og vina hans, sem gefur tilverunni gildi. Hann er einn af þessum krökkum sem ekki getur setið kyrr, þarf að vera úti að leita uppi ævintýri, og hugmyndaflugið til þess er endalaust. Fyrir vikið þykir ekkert verra en að þurfa að sitja í prúðmannlegum stellingum, fylgja fáguðum kurteisisreglum, vera látinn klæðast sparifötum. Ein af skemmtilegustu Grímsbókunum sem ég endurlas um daginn heitir „Grímur grallari og Lotta frænka“. Þar kemur meðal annars fram að hann eigi guðmóður, sem heitir frú Krans. Og móðir Gríms finnur upp á því að fara með drenginn á ljósmyndastofu til að geta sent guðmóðurinni mynd af drengnum – fyrst þarf hann auðvitað að stríla sig upp í spariföt og stífbónaða blankskó, og það þótt það sé ekki sunnudagur. Systir hans og vinkona hennar eru sendar með drenginn á ljósmyndastofuna og þær eru að kafna af hlátri á meðan stimamjúkur ljósmyndarinn er að reyna að fá drenginn til að brosa með því að kalla hann Gimma litla, en án árangurs, því að hann er sérlega „alvarlegur“ á myndinni sem send er guðmóðurinni; „raunamæddur“ segir hún í svarbréfi, þar sem hún býður honum í afmæli til sín – sjálfsagt í von um að gleðja hans dapra geð.

Fjölskyldualbúmið

Aftur er hann kominn í sparifötin og í þetta afmæli, á meðan vinir hans eru úti í skógi að leita að hreiðrum. „Hann var reyndar fyrsti gesturinn og var vísað til stofu. Hún var með hátíðlegum glæsibrag, en þunglamaleg og ógnvekjandi eins og allt heimili frú Krans, að henni sjálfri meðtalinni.“ Hann er settur niður og látinn skoða fjölskyldualbúm, en hefur sem betur fer blýant sér til aðstoðar. En svo birtist frú Krans sjálf í stofunni „ásamt þeim gestum, sem höfðu ekki verið nógu snarráðir að afsaka fjarveru sína. Boðin hjá frú Krans voru á við jarðarför. Allur gáski koðnaði niður á þröskuldinum, og gestirnir liðu eins og vofur inn í stofuna og heilsuðu húsmóðurinni í lágum hljóðum. Rödd hennar var dimm og djúp.“

Um aðra konu í bókinni, sjálfa Lottu frænku sem getið er um í titli hennar, hugsar Grímur þegar hann lítur á hana að hún „hljóti að eyðileggja hverja skemmtun með nærveru sinni einni saman.“ Og svo bætir höfundurinn við: „Faðir hennar hafði verið í Fíladelfíusöfnuðinum, og dóttur hans hafði verið kennt að líta á dýrkendur gleðinnar sem handbendi djöfulsins.“ Einhver gæti kannski haldið, að óathuguðu máli í ljósi þessara tilvitnana, að stíll bókanna hljóti að litast af einhverri karlrembu, en þá er þess að gæta að höfundurinn, Richmal Cromton, var kona, eins og svo margir góðir barnabókahöfundar. Um hana má fræðast með því að gúgla nafn hennar, eða Just William.

Þær reynast stórfínar

Og reyndar er það svo að á endanum semur Grími stórvel við þessar gömlu stífu konur. Fólkið í veislu frú Krans fær óvænta skemmtun við að skoða fjölskyldualbúmin þar sem Grímur er með blýantinum búinn að bæta yfirskeggi og múnderingum inn á; sú gamla veit ekkert af því en finnur af hyggjuviti sínu að það er guðsyninum að þakka að það er miklu léttari og betri stemning í veislunni hennar núna en vanalega. Og Grímur dregur Lottu frænku með sér í Tívolí, og vinum sínum líka, og þótt frænkan sé í upphafi efins um húmbúkk og syndsamlegar brellur sem þar sé boðið upp á þá fer það svo að hún hrífst með fjörinu og lífsgleðinni, gleymir sér í kókoshnetukasti og ætlar ekki að geta slitið sig frá hringekjunni. Á endanum eru það drengirnir sem verða dauðuppgefnir á því hvað frænkan skemmtir sér, vinir Gríms laumast heim, en hann neyðist kúguppgefinn til að fylgja henni í öll tæki og alla viðburði. Þegar þau loks koma heim spyr Helga móðir Gríms hvort ferðin hafi ekki verið þreytandi fyrir frænkuna, sem var sest í stól og hugleiddi atburði kvöldsins: „Nei, hún gat ekki hafa gert þetta allt – ellegar séð svona margt. Það var ógerningur – alveg óhugsandi! Hana hlaut að hafa dreymt þetta. Hún hafði horft á einhvern annan gera þetta. Sjálf hlaut hún að hafa gengið um í hægðum sínum og horft á Grím skemmta sér. Þannig hlaut það að hafa verið! Hún brosti örlítið raunamædd og svaraði: „Auðvitað er ég dálítið þreytt. En mér sýndist Grímur litli skemmta sér vel.““

Grímur og sálfræðingurinn

Ég man eftir að í einni þessara bóka, sem hét „Grímur og sálfræðingurinn“ og ég eignaðist sem krakki, en er nú búinn að brjóta og týna, segir einmitt frá ungum barnasálfræðingi sem er að gera hosur sínar grænar fyrir Auði, stóru systur Gríms, og kemur í heimsókn á heimili þeirra og fær að gista þar. Sálfræðingurinn hafði mjög boðað endalausa þolinmæði fullorðinna gagnvart börnum, spurningum þeirra og fróðleiksfýsn. Til allrar óhamingju hefur Grímur haft veður af þessum kenningum unga mannsins, og það fer reyndar svo að þegar sá yfirgefur heimilið daginn eftir er hann algerlega búinn að snúa baki við sínum fyrri boðskap.

Fyrsta sagan í „Grímur grallari og Lotta frænka“ segir af því að Róbert, eldri bróðir Gríms, og vinir hans – þeir eru um tvítugt – ákveða að stofna „bolsévikafélag“ (frumútgáfan kom vel að merkja út á þriðja áratug liðinnar aldar, sem skýrir nafngiftina.) Þeim rennur nefnilega til rifja að allir eigi ekki jafnt; sjálfir eru þeir fátækir skólapiltar á meðan feður þeirra skarta digrum seðlaveskjum. Grímur kemst á snoðir um þetta og hrífst af hugmyndinni og stofnar ungherjadeild bolsévika með vinum sínum; sumir þeirra eiga líka eldri bræður í nýstofnuðum klúbbi Róberts. Það sem þeim yngri svíður auðvitað er það óréttlæti að þeir sjálfir eigi ekkert á meðan stóru bræðurnir búa yfir allskyns dásemdum eins og reiðhjólum, vasaúrum og sjálfblekungum, og jafnvel peningaseðlum. Og allt þetta verður til þess að stóru bræðurnir verða afhuga sinni jafnaðarhugsjón.

Alþjóðleg könnun

Einhvern tímann fyrir svona 20 árum tók ég þátt í alþjóðlegri könnun um hvað væru bestu barnabækur allra tíma, mig minnir að könnunin hafi verið á vegum fagblaðs sænska útgefendafélagsins, og eitthvað í tengslum við Gautaborgarmessuna. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað ég setti í efstu sætin, nema að þar var Gulleyja Stevenson og eitthvað eftir Astrid Lindgren, og ég man að þar setti ég líka eina íslenska bók: Jón Odd og Jón Bjarna eftir Guðrúnu Helga. En ég rifja þetta upp nú vegna þess að ég gleymdi, til algerrar skammar, að nefna Grallarann. En það kom þó ekki að sök því að þegar ég sá niðurstöðuna birta í umræddu blaði – ég held það hafi verið þúsund eða tíu þúsund manns hvaðanæva að úr heiminum; rithöfundar, útgefendur, kennarar, bókaverðir o.s.frv. sem svöruðu – þá var Just William-serían þar á topp tíu. Og ég bíð eftir að íslenskir útgefendur fari að hugsa sér til hreyfings og gefa út þennan bókaflokk á ný; þess má geta að aðeins partur af bókunum hefur enn komið út á íslensku, að það er að sjálfsögðu menningarþjóð til vansa.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.2.2016 - 15:52 - FB ummæli ()

Hundamenn, og kattamenn eins og við Fischer

Það er alltaf gaman að velta fyrir sér hunda- og kattafólki og jafnvel muninum á þeim ef einhver er. Sjálfur er ég kattamaður, en skil samt hundaaðdáendur vel, ég hef kynnst þannig dýrum og veit að það er ekki annað hægt en að hrífast af karakter, visku, trygglyndi og vináttu góðra hunda. Ég held það sé algengara að þeir sem mest hafi umgengist hunda eigi erfitt með að skilja hvað það er sem við kattafólkið sjáum við okkar dýr; hundamenn skilja sumir ekki hvað geti verið spennandi við ferfætlinga sem ekki láta að stjórn fyrir nokkurn mun, er hvorki hægt að siga eða skipa fyrir, elta ekki auðsveipir sinn eiganda og bera svosem ekkert sérstaka lotningu fyrir honum; ég held að þeir sem kynnst hafi köttum viti að þeir telji sig nú svona gegnumsneitt yfir mannfólkið hafna. Og að vinátta við fólk felist í því að þeir útvelja sumar manneskjursem nógu verðugar til að fá að annast sig.

Mannjöfnuður

Maður hefur stundum séð í blaðagreinum og ýmsu káseríi gerðan samjöfnuð á frægum hunda- og kattavinum, og þá hefur yfirleitt hallað mjög á hundamenn; dregnar eru upp frægar jákvæðar persónur sem aðhylltust ketti eins og Hemingway, Churchill og frægir húmanistar og þeim stillt andspænis þekktum hundamönnum á borð við Hitler og Stalín. Þetta er að vísu í gríni gert, en ekki minna ósanngjarnt fyrir það, segi ég af eigin reynslu sem aldavinur margra hundaeigenda sem jafnframt eru gegnheilt og gott fólk og eiga ekkert skylt við þau áðurnefndu fól sem þarna eru nefnd. Hinu er ekki að neita að stundum kemur fólk manni notalega á óvart með því að reynast hafa fallegt næmi fyrir dýrum, og það jafnvel hinir, í fljótu bragði, ólíklegustu menn. Og það kom mér í hug þegar ég las á dögunum stórgóða nýja bók Garðars Sverrissonar sem heitir „Yfir farinn veg með Bobby Fischer“ og fjallar um vináttu þeirra tveggja. Þar segir Garðar meðal annars frá gönguferð þeirra tveggja um Bústaðahverfið, en þetta var þegar farið var að halla undan fæti með heilsu Bobbys; hann var orðinn mæðinn og fullur verkja, og pirraður eins og slíku fylgir gjarnan; farinn að þusa.  Og þar segir:

Kattahjalið

„Heilsubótargangan var að snúast upp í hreina píslargöngu þegar lítill svartur og hvítur köttur varð á vegi okkar á miðjum göngustíg í brekkunni niður að Sogavegi. Bobby hægði á ferðinni  og bað mig að fara varlega. Kettir vilja engan æsing.

Við námum staðar og kisan líka. Bobby beygði sig og rétti fram hendurnar. Um leið gaf hann frá sér lágvært hljóð – einhverskonar kattahljóð, og um stund horfðust þau í augu, kisan og Bobby. En þá tók kisa skyndilega á rás og stökk inn í nærliggjandi garð, ógirtan og settist þar á neðstu tröppu við málmklætt steinhús.

Þannig fór um sjóferð þá, hugsaði ég og bjóst til að halda áfram göngunni. En í stað þess að halda áfram skálmaði Bobby inn í sjálfan garðinn og alla leið að tröppum hússins. Þar beygði hann sig á ný niður til kisu sem sat nú róleg og leyfði honum að strjúka sér varlega. Og nú tóku þau til við að hjala hvort til annars á mér öldungis framandi kattamáli. Á meðan þessu fór fram stóð ég álengdar og beið talsverða stund, logandi smeykur um að húsráðendur kæmu auga á Bobby, sem virtist ekki hafa af því nokkrar einustu áhyggjur. Þvert á móti virtist færast yfir hann stóísk ró, uns þau höfðu lokið kattatali sínu og Bobby sneri til baka ljómandi af innilegri gleði.

Við héldum áfram göngu okkar. Í stað þess að ræða frekar eðli Íslendinga fannst okkur nú uppbyggilegra að ræða betur eðli katta. Bobby sagði mér að á æskuárunum heima í Brooklyn hefði hann átt nokkra ketti og það væru einhver yndislegustu dýr sem hann hefði kynnst, miklu klókari og tilfinningaríkari en menn héldu, ekki síst í samskiptum við okkur mennina. Þessi ár hefði hann sífellt verið að læra eitthvað nýtt um kettina, útsjónarsemi þeirra og spaugileg uppátæki. Tíndi hann til fjölmörg dæmi þar um og hló innilega, alveg sérstaklega þó að kettinum sem alltaf vildi stökkva upp á borð til að rýna í flóknar skákstöður með honum.“

„Yfir farinn veg…“ með Garðari og Bobby

Eins og ég nefndi er bók þessi með ágætum, og oft á tíðum afar merkileg og næm mannlýsing sem þar er dregin upp. Það leituðu á mig efasemdir undir lok bókar, eftir að lýst hafði áður verið í löngu máli hve annt Bobby Fischer var um einkalíf sitt – sín prívatmál sem hann vildi ekki deila með neinum nema kannski sínum allranánustu –  af hve útmálandi nákvæmni Garðar segir frá veikindum hans undir lokin, þvagleggjum og tilheyrandi, en ég legg annars ekki á það neinn dóm – höfundurinn hlýtur sjálfur að hafa velt þessu mjög vel fyrir sér áður en hann skrifaði lokakaflana. En eins og ég nefndi þá fær maður við lestur bókarinnar um margt nýja sýn á þennan sérvitra snilling, með sín einþykku og ósveigjanlegu sjónarmið – til að mynda allt aðra sýn en maður hafði eftir að hafa séð nýlega heimildamynd um skákmeistarann heitinn, og samskipti hans við vin sinn Sæma rokk. Af blöðum bókarinnar birtist miklu manneskjulegri mynd, af gamansömum og djúpþenkjandi manni, með fleiri víddir í sinni persónu en við blöstu. Ég var reyndar búinn að fá nasasjón af þessu sama af lestri bókar um heimsmeistarann heitinn sem kom út fyrir svona tveimur árum, og Helgi Ólafsson stórmeistari skrifaði á ensku. Þar eru meðal annars mjög skemmtilegar frásagnir af veiðiferðum þeirra tveggja í slagtogi við Jóhann Sigurðarson leikara, sem Fischer kallaði alltaf Big Joe. Í kvöldsamkomum veiðiskálanna var eins og gengur gjarnan dreginn upp gítar og menn sungu saman vinsæl lög, en eins margir vita er Jóhann mikill söngvari, og hefur troðið upp í stórhlutverkum í helstu klassísku söngleikjunum í Þjóðleikhúsinu. Það breytti þó ekki því að skákmeistarinn kunni lögin og textana ekki síður en leikarinn og söng ekki af minni innlifun, og lét sig heldur ekki muna um að leiðbeina stórsöngvaranum að auki dálítið um flutninginn.

Uppáfindíngarleysið

En við vorum að tala um ketti og hunda. Halldór Laxness var hundamaður eins og flestir vita, og það sama sumar frægar persónur úr bókum hans, eins og Bjartur í Sumarhúsum. Það er samt í bókinni um Bjart, Sjálfstætt fólk, sem er ein af mínum uppáhalds kattafrásögnum í íslenskum bókmenntum. Það var eftir „reimleikana“ í fjárhúsum Bjarts, sem hann hélt fyrst vera rottugang og fór á bæi að ná sér í fresskött; „má vera grimmur.“ Það fer svo á bænum að kötturinn vill helst hvergi vera nema í horninu hjá ömmu gömlu, Hallberu, og það jafnt þótt hún eigi aldrei hlýlegt orð handa kettinum, og velji honum aldrei önnur sæmdarheiti en grey, garmur, skarn eða skratti. En kötturinn kærir sig kollóttan um það, því eins og höfundurinn segir, af innsýn sinni í sálarlíf manna og dýra, þá kunni kötturinn að meta höfuðkost ellinnar, sem er uppáfindíngarleysið.

Þveröfug tjáning

Eins og fólk veit þá hafa hundar og kettir mjög ólíkt, eða eiginlega gagnstætt, táknmál að ýmsu leyti; þegar hundar dilla skottinu eru þeir glaðir, en þegar kettir gera slíkt hið sama eru þeir í árásarhug; að sama skapi hefur þveröfuga merkingu að horfast í augu við hunda eða ketti. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að allt vill fara í hund og kött þegar þessi dýr hittast. Samt eru mörg dæmi um að hundur og köttur þrífist saman, og þá byggir það algerlega á því að hundurinn upplifi sig sem lægra settan en köttinn. Hundar eru hópdýr, og verða að vita stöðu sína í goggunarröðinni til þess að þeim líði vel, og þeim líður ekkert illa með það að vera lágt settir, það veitir þeim bara öryggistilfinningu að vera neðstir í röðinni, og það jafnt þótt einstaklingar af tegundum eins og menn eða kettir séu ofar. Hafi hundur hinsvegar þá hugmynd að hann sé skipaður hærra en köttur, þá byrja vandræðin; köttur getur aldrei sætt sig við að hundur ætli að ráðskast með hann; þá setur hann út klær og hvæsir og veinar.

Mælamaðurinn

Þar sem ég er alinn upp við ketti þá misskil ég stundum í fljótu bragði atferli hunda, og það þótt sé um að ræða þá miklu ljúflinga sem vinir mínir eiga. Einn vinur minn bjó utan borgarmarka og hafði þar risastóran úlfhund, þýskan schaefer. Jafnan þegar ég renndi í hlað kom sjefferinn æðandi til mín með miklum gleðislætti sem í fljótu bragði fyrir kattamann gat virst dálítið skerí. Eigandinn sagði stoltur: „Ef einhverjir ætluðu að koma hingað með innbrot eða annað vesen í huga, myndu þeir hugsa sig um tvisvar þegar þeir sæju dýrið standa hér á pallinum.“ Og þar hafði eigandinn örugglega rétt fyrir sér. En hann bætti því við svona í trúnaði að hinsvegar þegar ókunnugir menn stigu út úr bílnum og gengju óhikað upp að húsinu, eins og til dæmis sá sem kæmi frá Orkuveitunni að lesa á mælana, þá lúskraðist hundurinn upp í móa og léti ekki sjá sig fyrr en mælamaðurinn æki aftur á braut.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.1.2016 - 09:45 - FB ummæli ()

Pistill um þrjú óskyld málefni og þó ekki …

Hvar sem fólk er í okkar parti veraldarinnar reiknar það með að geta kveikt á útvarpi eða sjónvarpi þar sem finna má menningarlegar rásir á þjóðtungunni; þessu hlutverki hefur Ríkisútvarpið sinnt fyrir okkur í bráðum heila öld. Eins og við vitum þá eru til samskonar batterí í nágrannalöndum: BBC í Bretlandi, Danmarks Radio, Norges Kringkastning, ARD o.s.frv. í Þýskalandi, og það merkilega er að ég held að við Íslendingar höfum alltaf reiknað með eða jafnvel gert kröfu um að okkar útsendingar standi sambærilegu efni hinna fjölmennari þjóða hvergi að baki: við reiknum með jafngóðri tónlist, dagskrárgerð, leikritum og bókmenntum; jafn fræðandi kynnum og jafn innblásnum kennimönnum í útvarpsmessunum. Og þetta má kallast merkileg krafa því að þótt hver einstaklingur hér sé kannski að greiða jafn mikið í rekstur þessara stofnana á mann og tíðkast í áðurnefndum löndum þá er greiðendafjöldinn eins og allir vita miklu minni hér. En samt hefur þetta einhvern veginn lengst af gengið vel. Og þá kannski ekki síst vegna þess að okkur hefur tekist að gera okkar efni með með minni tilkostnaði en þar sem fjárráðin eru miklu meiri.

Á vegum úti

Ég á eina persónulega dæmisögu um þetta málefni. En þannig var að þegar hin fræga ameríska skáldsaga „On the road“  – Á vegum úti, í þýðingu Ólafs Gunnarssonar – var að koma út hér á landi á níunda áratug liðinnar aldar, þá gerði ég þátt fyrir RÚV um amerísku Beat-skáldin svonefndu, en umrædd bók er frægasta verkið úr þeim ranni. Beat-skáldin voru bæði skáldsagnahöfundar eins og Kerouac eða William S. Burroughs, og líka voru fræg ljóðskáld í þeirra hópi eins og Allen Ginsberg og Gregory Corso; að auki er margt í vestrænni tónlist og nútímasögu sem gaman er að skoða í samhengi við bókmenntir þessa hóps. Og ég hafði semsé gert klukkutíma þátt fyrir RÚV, með frásögnum og sýnishornum. Um svipað leyti og hann var fluttur var hér staddur danskur vinur minn, úr þarlendum bókmenntaheimi, og í ljós kom er við ræddum saman að hann hafði gert samskonar þátt fyrir DR um nákvæmlega sama málefni, og merkilegt þótti okkur að við vorum sumpart með sömu dæmin og sýnishornin, en við höfðum reyndar svipaðan bókmenntaáhuga báðir tveir. Og annað var merkilegt, við höfðum fengið nákvæmlega sömu upphæð greidda fyrir viðvikið. Semsé í krónum talið! Ég í íslenskum og hann í dönskum, þrjú þúsund minnir mig að upphæðin hafi verið hjá báðum. Miðað við núverandi gengi hefur hann semsé fengið tuttugufalt meira greitt en ég, og stemmir það svosem ágætlega við að Danir eru u.þ.b. tuttugufalt fleiri en við.

Við Íslendingar gerum ráð fyrir því að hér sé boðið upp á vandað, skemmtilegt, fræðandi efni á þjóðtungunni, en stjórnvöld fallast ekki á að það geti kostað nema eitthvert brot af því sem annars staðar kostar að halda úti slíkri dagskrá, og helst alltaf minna og minna á hverju ári. Pólitísk nefnd skipuð af menntamálaráðuneytinu telur að hér megi halda úti framleiðslu á þess konar vönduðu útvarps- og sjónvarpsefnis með lágum tilkostnaði og dugi til að vera flutt allt árið, en eins og Andri Snær Magnason rithöfundur hefur bent á er samanlagt árlegt framlag til RÚV álíka há upphæð og kostaði að gera amerísku kvikmyndina Dumb and dumber nr. 2. En hún er tæpir tveir tímar af léttu gríni.

Einhvers staðar þarna liggur hundurinn grafinn, og með hliðsjón af svona staðreyndum verða menn að leita lausna, en ekki með því að æpa bara á útvarpsstjóra að ef stofnun hans eigi við vandamál að stríða þá skuli hann gjöra svo vel að leysa þau sjálfur.

Sjúklingaskattur

Annað málefni sem mjög hefur leitað á hug minn undanfarin tvö, þrjú ár er það sem eitt sinn var kallað „sjúklingaskatturinn“, eða á þeim tíma þegar margir stjórnmálamenn virtust enn telja það vont og ósanngjarnt fyrirkomulag í okkar heilbrigðismálum að leggja efnahagslegar drápsklyfjar á fólk þegar það skyndilega missir heilsuna.

Hvað er ég að tala um hér? Jú, veikist nú fólk, segjum frískur og fullvinnandi einstaklingur, jafnvel með börn á framfæri, af alvarlegum sjúkdómi tekur að sjálfsögðu við mikil og erfið þrautaganga. Fram að því hafði lífsbaráttan gengið vel, þetta fólk hafði jafnan átt til hnífs og skeiðar og getað staðið í skilum með sitt. En þegar það greinist með skuggalegan sjúkdóm fer allt á hvolf; það hættir, að minnsta kosti tímabundið, að geta unnið, og veit jafnvel ekki betur en að það verði óvinnufært það sem það á eftir ólifað; við bætist nagandi óvissa um hvort það muni nokkurn tíma geta lifað sómasamlega á ný, eða jafnvel lifað yfirleitt. Það fer inn á spítala í rannsóknir og meðferðir, oft kvalafullar – sem bætist ofan á kvíðann yfir afkomu fjölskyldunnar. Og þar sem það gengur eftir göngum og milli bygginga á spítalasvæðinu, úr blóðprufu, yfir í röntgen, þaðan að skannanum, svo í viðtal og skoðun hjá lækni, og loks í apótekið til að ná í lyf til að fara með heim, þar til það fáum dögum síðar snýr aftur á spítalann í samskonar göngu á milli sömu deilda, þá er það jafnan látið draga upp greiðslukort á hverjum þessara staða, hverri einustu deild þar sem stoppað er og rukkað um háar upphæðir. Nákvæmlega þarna, þegar lífið er því að öðru leyti sem örðugast, fullt óvissu og kvíða. Á þennan hátt, og með fleiri aðgerðum sem tilheyra veikindunum, er fólk kannski látið reiða fram meira en milljón krónur á eins eða tveggja ára tímabili, þegar veikindin herja sárast.

Jafnvel ekki í Bretlandi

Svona er þetta. Og þetta getur ekki gengið. Svona eru ekki velferðarsamfélög. Annars staðar á Norðurlöndum er þetta að sjálfsögðu ekki svona; fárveikt fólk er þar ekki látið draga upp veskið ef það hrekst inn á spítala. Og svona er þetta ekki bara á Norðurlöndum, sem eru þekkt fyrir sína velferð. Alltaf er verið að tala um að Margaret Thatcher hafi rústað velferðarkerfinu í Bretlandi, og að hinn skelfilegi Blair hafi jafnvel bætt um betur, en samt er það enn sem fyrr svo að ef fólk í Bretlandi veikist af til dæmis krabbameini, þá er það tekið inn í spítalakerfið og veitt meðhöndlun á þess að vera látið strauja öll sín kort.

Ef einhver ætlar að segja að við höfum ekki efni á að breyta þessu rangláta og mannfjandsamlega kerfi, þá ætla ég að benda á að nýlega var ákveðið að veita 80 milljörðum af opinberu fé í hina svokölluðu skuldaleiðréttinu. Og það vita allir að drjúgur hluti alls þess fjár rennur til fólks sem er í góðum málum á okkar mælikvarða; skuldar tiltölulega lítið, miðað við sína eignastöðu, skuldar jafnvel ekki neitt – sumt af því fór til fólks sem átti fyrir meira en hundrað milljónir í hreinni eign. Allir vita að stór hluti þeirra sem fengu leiðréttingu finnur þrátt fyrir hana enga merkjanlega breytingu á lífsafkomu sinni og sinna. Og nær hefði verið að láta brot af þessu fé nýtast til þess að hætta að láta kvíðafullt fólk í nauðum greiða fyrir þá lækningu og umönnun sem alltaf hefur þótt sjálfsagt að veita sjúkum. Og ef einhver stjórnmálahreyfing fer ekki að setja þetta mál á oddinn þá þarf að stofna þannig flokk.

Forsetinn í Úrúgvæ, og víðar …

Nú eru áramót, og næsta vor verða forsetakosningar hér á landi. Þeir fimm einstaklingar sem gegnt hafa forsetaembættinu frá stofnun lýðveldisins eru allir mikið sómafólk, en samt hefur alltaf verið eitthvað hálf hallærislegt við þessa stöðu. Hún er auðvitað næsta valdalaus samkvæmt stjórnarskrá, enda svar Íslendinga við þeim konungs- og drottningarembættum sem enn eru látin halda sér vegna hefðar í nágrannalöndunum, en hafa fyrir löngu misst sitt gamla formlega hlutverk, að stjórna ríkinu. Rétt eins og utanríkisþjónusta okkar nýja og fátæka lýðveldis var á sínum tíma löguð að siðum, umbúnaði og hefðum stærri ríkja og þeim aðalsættum lengi lengi höfðu haft einkarétt á að gegna embættum ambassadora, þá hefur forsetaembættið hér alltaf lifað í hættunni við að vera fyrst og fremst upp á punt; í seinni tíð hafa menn þó farið að tala um það hlutverk forseta að fara með móralska forystu fyrir þjóðinni.

Og þá varð mér hugsað til José Mujica, sem var forseti í Úrúgvæ frá 2010 og þar til fyrr á þessu ári. Eins og margir vita, þá var það maður sem í sínu embætti hreykti sér á engan hátt, bjó sparlega, keyrði gamlan Fólksvagen, gaf 90% af sínum launum til góðgerðamála. Og honum tókst að veita þjóð sinni móralska forystu, um það er ekki deilt; boðskapur hans var jafnan skýr, um frið, jöfnuð og náungakærleik. Minnir óneitanlega á fræg dæmi úr fortíðinni: ekki var það ytri umbúnaður sem dró athygli fólks að Kristi, eða Mahatma Gandí, Tómasi af Assisí sem talaði við fugla, eða Guðmundi okkar góða Hólabiskupi. Mörgum finnst svona tal vera billegur popúlismi, en mér sýnist hins vegar að fólk í veröldinni vilji í æ ríkari mæli heyra boðskap manna og kvenna sem sýna í verki að þeim sé annað mikilvægara en vegur og hátign sjálfs sín. Franz páfi, frá nágrannalandi Úrúgvæ, Argentínu handan La Plata fljótsins, hefur gerbreytt afstöðu fólks til páfadómsins og kaþólsku kirkjunnar á undrastuttum tíma, og einmitt með auðmýkt sinni og áherslu sinni á samúð í garð olnbogabarna heimsins. Hvað sem verður úr væntanlegum kosningum og hverju sem völva Vikunnar spáir, þá mun verða hlustað á þann einstakling sem býður sig fram og hefur sýnilega lært af svona fordæmum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.12.2015 - 16:04 - FB ummæli ()

Glæný Íslendingasaga með öllu tilheyrandi

Það datt í hendur mér stórmerkileg ný skáldsaga Bergsveins Birgissonar um Geirmund heljarskinn, sem er reyndar sett upp og presenteruð sem fornsaga, og stælt allt form ritraðarinnar „Íslenzk fornrit“ með skyldugri „samræmdri stafsetningu fornri“ ásamt formála og neðanmálsgreinum; allt er þetta sett saman af miklum stílgaldri og yfrið nóg um húmor. Þótt bókin sé skáldsaga þá byggir hún á fornum fræðum, Geirmundur heljarskinn var söguleg persóna og einn af landnámsmönnum og hans er að góðu getið í gömlum bókum, meðal annars Sturlubók Landnámu þar sem hann er sagður göfugastur landnámsmanna. Bergsveinn, sem samdi meðal annars hina vinsælu skáldsögu „Svar við bréfi Helgu“ er háskólakennari í norrænu í Björgvin, og hann hefur mikið rannsakað sögu Geirmundar, meðal annars gefið út á norsku fræðibók um Geirmund sem heitir „Den svarte vikingen“ þar sem hann viðrar þá kenningu að móðir hans hafi verið nokkurs konar inúíti frá norðurströnd Rússlands austan Kólaskaga, sem norrænir menn kölluðu Bjarmaland, og að þangað hafi menn siglt á víkingaskipum úr Noregi til að kaupa af Björmum ekki síst rostungaafurðir, sem voru mjög nauðsynlegar til að tryggja úthafssiglingar. Og að Geirmundur hafi dvalið löngum hjá ættingjum sínum þarna fyrir austan, og lært af þeim mikilvæg fræði um hvernig umgangast skyldi þessi veiðidýr. Úr rostungahúðum voru gerð bestu reipi þess tíma, svarðreipin; húð dýranna – svörðurinn – var hringskorin í sextíu faðma ræmur og þær fléttaðar þannig saman að úr varð reipi sem dugði best fyrir seglabúnað í miklu álagi. Að auki var af þykku fitulagi dýranna brædd tjara sem varði skipsskrokka betur en annað, og sömuleiðis fengust auðvitað af rostungum tennurnar sem var eftirsótt vara svo að næstum mátti líkja við gull og silfur á þessum árum.

Rostungar í norrænni sögu

Ég held það hafi verið Helgi Guðmundsson, prófessor emeritus, sem fyrstur vakti athygli á mikilvægi rostunga fyrir víkingatímann, og þá í sambandi við ábatasama verslun við byggðir norrænna veiðimanna í Grænlandi; um það má lesa í bók hans „Um haf innan“ (1997). Bergsveinn bætir við þeirri hugmynd að það hafi líka verið vegna rostunga sem menn sóttu fyrst til Íslands, og þá með sérfræðinginn Geirmund heljarskinn í fararbroddi; að vestanlands og á Vestfjörðum hafi verið mikið um þessi dýr; Geirmundur á samkvæmt heimildum að hafa verið í kunningsskap við Ketil flatnef sem, eins og stendur í Laxdælu, sagði um Ísland að í þá veiðistöð vildi hann aldrei fara – og segir það nokkuð um  hvernig menn litu á landið í þá tíð. Fræðimenn greinir reyndar á um hvort það hafi verið rostungar á Íslandi á þessum tíma; sumir segja að það hafi verið orðið of hlýtt til að hér hafi verið lífvænlegt fyrir þannig dýr, segja að rostungatennur hafi samt eflaust verið hér mörg í fjörum frá því árferði var kaldara. Þessu er Bergsveinn ekki sammála, og færir fyrir því góð rök; hér voru látur víða um land, en það eru staðir þar sem selir kæpa, en vestanlands eru líka hvallátur. Einu hvalir sem kæpa á landi eru þeir sem kölluðust rosmhvalir – eða rostungar; það má líka benda á örnefni hér vestanlands eins og Rosmhvalanes, sem tæpast hefði heitið svo nema af því þar var þau dýr að finna.

Þetta eru afar skemmtilegar pælingar hjá Bergsveini í báðum nefndum bókum; hvalgrafir er einnig að finna vestanlands, og þar telur hann að menn hafi gert að veiðidýrum. Að hvallátrum urðu menn að fara með varúð; blóðbað eða rányrkja, sem auðvelt er að stunda á slíkum stað, er að vísu ábatasöm í eitt sinn, en rostungar snúa aldrei aftur á stað þar sem slíkt hefur hent. Og er þá jafnframt skýringin á því að þessi dýr hurfu héðan smám saman; Geirmundur heljarskinn sem ólst upp hjá Björmum lærði þar að umgangast veiðistaði þannig að þeir entust lengur.

Hermenn og sækonungar

Geirmundur og hans menn voru víkingar, og það sama tvíburabróðir hans Hámundur sem nam land í Eyjafirði. Þetta var víkingaöld og rostungaafurðir geysieftirsóttar; í nýlendum víkinga á Bretlandseyjum seldu þeir afurðirnar og eftirspurnin var mikil; í gömlum heimildum eru sagnir um einstaka flota víkingaskipa sem töldu hátt í annað þúsund fley, og hefur þurft óhemju af reipum og tjöru fyrir öll þessi skip. Í formálanum gerir Bergsteinn grín að þeim sem stöðugt andæfa því að víkingar hafi numið hér land, að það hafi bara verið bændur. „Er þetta í ætt við þann vilja miðaldamanna að gera landnámsmenn að bændum, alla sem einn, á fræðimáli gjarnan kallað „farming hypothesis“ um landnámið, og undravert hve gagnrýnislaust menn hafa síðan gleypt þá skýringu“ segir í Geirmundarsögu Bergsveins, formála, bls X. Og bætir hann þó við þeirri einkunn sem sagnaritarinn Þórður Narfason gaf tvíburabræðrunum í Geirmundarþætti sínum: „er þeir bræður voru kallaðir mestir hermenn og sækonungar í þann tíma.“

Víkinga- eða bændaferðir?

Þetta minnir mig á að fyrr á árinu skrifaði ég hér á þessum sama vettvangi grein um miðaldir, þar sem meðal annars var vísað til þess tíma þegar víkingar fundu og námu Ísland, og þegar hún birtist á eyjan.is svaraði einhver strax í miklum afgæðingi á kommentakerfinu og sagði: „Er nú eina ferðina enn verið að éta upp ruglið um að ‘víkingar’ hafi numið og byggt Ísland!“ Engin deili vissi ég á manninum sem þessu hreytti nema hann hét nokkuð algengu nafni; síðar reiknaði ég út að þetta væri einn af okkar rosknu fræðimönnum sem, kannski af einhverju öfugu snobbi, vilja að það hafi bara verið bændur en engir sækonungar sem hingað sigldu. Svo ég í öðru kommenti bauð upp á svofellda málamiðlun: „Á víkingatímanum, eða víkingaöldinni, héldu norrænir menn í útrás frá Skandinavíu á víkingaskipum, herjuðu á lönd og lögðu sum undir sig; fóru í víking. Á þann hátt gerðu þeir að sínum ýmsar eyjar eins og Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltlandseyjar, Færeyjar, Ísland, Grænland, og jafnvel Nýfundnaland. Og að auki stór landsvæði á Írlandi, Englandi, Skotlandi, norðurparti Frakklands – Normandie – og stórum pörtum af Mið- og Austur-Evrópu. Hér á Íslandi hefur orðið einhver pólitískur rétttrúnaður um að ekki megi kenna landnám okkar lands við víkinga, því þetta hafi bara verið bændur. Er þá ekki best að kenna alla þessa útrás við bændur: bændaöldin, bændaskipin, bændaferðir, að leggjast í bónda?“

Gamansemi Geirmundarsögu

Það er lýsandi fyrir húmor Bergsveins að hann eiginlega ritdæmir bókina sjálfur í formálanum; hann segir að sagan skiptist í þrjá þætti sem eru „misjafnir af straumþunga og blæ, misjafnir að gæðum mætti jafnvel segja.“ Annars er gamansemin þannig að lesendum hlýtur að koma Gerpla Halldórs Laxness í hug; lítum bara á þessa tilvitnun: „Hann kom at þeim og sá hvar Hvítingr með fám fylgisveinum steikti dýrakjöt í dæl nökkurri í rjóðri. Ok þá er Hvítingr beygði sig yfir kjötit, sem háttr hans var, at gæta hvárt steikt væri, þá fór hann niðr á knén svá at rassklofit ganaði. Þá sendi Gunnvaldr ör sína ok kom millim þjóhnappa konungs ok smó inn í þarmaraufina með hljóði svá sem smellt er í góm. Stóð örin hálf út úr munni honum með fleskbita þann á oddi er hann aðgætti hvárt steiktr væri. Lét Hvítings þar líf sitt en Gunnvaldr komst undan.“ (Bergsveinn, bls. 9)

Höfundurinn sjálfur sleginn af

Annað dæmi um gamansemi sögunnar og merkilegt hlutverk höfundarins sjálfs má finna á bls. 82: „Þat lifir í sögnum at maðr nökkurr kom til Geirmundar á þeim inum sömu dögum. Hét sá Bergsveinn ok var kynjaðr af Rogalandi, son Birgis blöðruskalla af Jaðri. Hann var maðr brúnamikill og jarpr á hár, limalangr og mjósleginn ok var lítil sæmð at líkamsburðum.“ Þessi maður, sem sagt er í neðanmálsgrein á sömu síðu að komi ekki fyrir í öðrum heimildum og að ekkert sé varðveitt af skáldskap hans, er sumsé höfundurinn sjálfur. Hann fær óblíðar móttökur hjá Geirmundi, er lagður a höggstokk og sleginn af og er þar með úr sögunni. Álíka hefur reyndar áður hent í sögum, samanber þann franska höfund sem sumir kalla Ullabjakk.

Það á annars að heita að Brandur príor Halldórsson hafi skrifað söguna á ofanverðri tólftu öld, sem er allsnemmt fyrir Íslendingasögu, og kannski væri ég ósammála Bergsveini hinum fróða um ritunartíma þannig bóka, og mér sýnist einnig að hann telji að kristilegar umvandanir í fornum textum af þessu tagi beri vott um að þeir séu skrifaðir árla í okkar sögu; sjálfum finnst mér að þannig móraliseringar og útleggingar eins og í Fóstbræðrasögu séu merki um þróaðan húmor höfundar, rétt eins og á við hjá Bergsveini sjálfum. Svona er sagt frá heimsóknum aðalpersónunnar í kvennabúr sitt í Geirmundarsögu:

„Og þá er fýstin kviknaði honum er sagt að þvílíkt æði rynni á hann at hann gat sorðit laust við sleitr þannug at þá hann hafði leyst um girnð með einni konu gripi hann lostugr til hinnar næstu ok öll var sú nautnaeðja lostavessum blandin með pissi ok skvettum ok svampi ok skvumpl, ok þat biðjum vér Guð Drottin, Jesus Christus, at fyrirgefa vára villu ok þá eirarlausu þrælkan ok hórdóm er fannast í váru landi þá er þjóð var bernsk ok engi maðr vissi it blessaða ljós er hér skyldi frelsa oss. Því eigi skildu þeir af at það var synð er náttúra fýsti til ok því læsti hinn ósýnilegi óvinr klóm sínum í þá ok hélt föstum í járngreip synða.“

Heyr vára apólógíu, Drottinn.“

Ég heyrði einhvers staðar gagnrýnanda vera að velta því fyrir sér hvað höfundurinn væri að fara með þessari bók, hvert væri erindi hans. Bergsveinn kemur hér sumpart með nýja og ferska sýn á landnámið hér og upphaf okkar þjóðar, og gerir það með bók sem logar af stílgaldri og húmor. Og það held ég að megi kallast ærið erindi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.12.2015 - 15:07 - FB ummæli ()

Það gerist margt skemmtilegt

Ég man svo langt að Baldur og Konni voru mikilhæfustu skemmtikraftar landsins; töframaðurinn og búktalarinn Baldur Georgs og dúkkan sem hann hélt á, sneri höfðinu hingað og þangað og lét gamminn geisa; svaraði spurningum Baldurs, oft með gamanmálum og útúrsnúningi. Ég sá þá í Tívolíinu í Vatnsmýrinni; á milli þess sem hann spjallaði við Konna um málefni samtímans þá sýndi Baldur ótrúleg töfrabrögð; hann meðal annars tók spotta af reipi, hnýtti á hann hnút, og dró svo hnútinn af og rétti einhverjum sem stóð framarlega í áhorfendaskaranum. Reipið var heilt eftir og þótt hann hnýtti þrjá, fjóra hnúta, sem einhver heppinn krakki fékk svo að eiga, var snærisspottinn alltaf jafn heill. Minn draumur var að verða svo heppinn að fá svona hnút, en það voru margir um hituna og stærri krakkar en ég tróðu sér næst sviðinu.

Konni var einnig á hljómplötum, söng meðal annars „Búkolla í Bankastræti“ með Alfreð Clausen, þar sem er  viðlagið „Hahahæ hlustaðu á / nú hef ég skrýtnu að segja frá!“ og á þetta hlýddi ég með öllum skilningarvitum þegar það kom í útvarpinu, þótt sá þanki hafi hvarflað að mér síðar að mesti galdurinn fari kannski af búktali þegar það er komið á plötu. En það eru seinni tíma áhyggjur og kannski óþarfar úr því sem komið er. Seinna átti ég eftir að víkja opinberlega að aðdáun minni á Baldri og Konna, meðal annars í skáldsögunni „Þetta eru asnar Guðjón“ frá 1981, og þegar ég eitt misseri hafði umsjón með þætti í útvarpinu sem ég kallaði „Söngur Villiandarinnar“ þá spilaði ég að sjálfsögðu „Búkolla í Bankastræti“ og lét fylgja verðskulduð lofsyrði. Seinna hef ég stundum hitt á málskrafi skemmtilega menn sem hafa orðið mér sammála um að trédúkkan Konni væri rakin persóna í kvikmynd; Tómas Tómasson bassaleikari sagði mér til að mynda þá sögu að eitt sinn fyrir svona hálfri öld hafi hópur skemmtikrafta verið á ferð milli staða í rútu, en að upp hafi komið magakveisa í hópnum svo að rútan hafi reglulega þurft að stoppa til að hleypa einhverjum út í móa. Sá eini sem var laus við magakveisuna var Konni, sem sat fremst í rútunni í fangi síns meistara, og jafnan þegar rútan stoppaði og einhver kom hlaupandi fram í að opnum rútudyrum hafi Konni rétt til hans vöndul af klósettpappír og sagt: „Gleymdu ekki skjölunum!“

Lesið fyrir barþjóninn

Víkur nú að öðru. Í pistli sem ég birti fyrir nokkrum dögum sagði ég meðal annars frá atvikum sem orðið hafa í upplestrarferðum um landið, þar á meðal ævintýrum okkar Jónasar heitins Árnasonar, söngleikjaskálds með meiru, á Vopnafirði. En hér á höfuðborgarsvæðinu hefur líka ýmislegt borið við þegar menn eru fengnir til að koma og lesa upp. Stundum kemur fyrir að það mæta ekki mjög margir, meðal annars þegar svo ber undir að alveg hefur láðst að kynna viðburðinn, og kemur mér þá í hug saga sem vinur minn og nafni, Einar Már Guðmundsson, sagði mér eitt sinn, og ég veit hann fyrirgefur mér þótt ég láti fljóta með hér. Það var einhver kráareigandi sem hafði fengið þá hugmynd að lokka til sín fólk með því að bjóða gestum sínum að hlusta á bókmenntir, og hafði samið við Einar Má um að koma tiltekið síðdegi. Hann gleymdi svo að láta vita af væntanlegum viðburði, þannig að þegar skáldið mætti var enginn á staðnum nema barþjónninn, sem eflaust hefur verið með svuntu að þurrka af glösum, eftir venju sinnar starfsstéttar.  „Og hvað varð úr þessu?“ spurði ég nafna. „Nú, úrþví ég var kominn, þá las ég bara fyrir barþjóninn!“ svaraði hann. Og hafa eflaust báðir unað vel við sitt.

„Hann er orðinn ósköp lélegur“

Það mun hafa verið árið 1992, ég var nýbúinn að gefa út „Heimskra manna ráð“ og var beðinn um að koma og lesa upp á Bókasafni Kópavogs, eitthvert síðdegi í jólaösinni. Þetta var eitthvað lítið auglýst, bara sett upp handskrifað spjald í anddyri safnsins, og þegar ég kom var mér sagt heldur vandræðalega að það væri næstum enginn á staðnum. Þó væru tveir gamlir menn sem sætu inni í einum bás, og að þeir væru komnir vegna upplestrarins. Nú, safnið borgaði fyrir svona heimsókn eftir taxta Rithöfundasambandsins, svo að ég lét mér þetta vel líka. Fór inn í básinn og las um hríð fyrir gömlu mennina sem hlustuðu af mikilli athygli. Annan þeirra þekkti ég reyndar, en það var ljóðskáldið kunna, Jón úr Vör. Að loknum lestrinum fór ég og tók í höndina á Jóni og þakkaði honum fyrir þann heiður að koma og hlusta á mig, en þegar ég ætlaði að snúa mér að hinum gamla manninum stóð hann upp, rétti mér höndina og sagði: „Ég vil sérstaklega þakka þér fyrir, Einar Kárason, að þú hefur látið mín að góðu getið, bæði í ræðu og riti.“ Ég horfði á manninn og kom honum ekki fyrir mig, og spurði: „Hver ert þú aftur?“ „Ég er Baldur Georgs, töframaður,“ svaraði hann. Ég varð dálítið uppnuminn, gat ekkert sagt, en þau skipti sem ég sá hann í Tívolí flugu í gegnum hugann, og nú fannst mér vera bætt fyrir hnútana sem ég aldrei fékk.

Loks sagði ég: „Hvernig hefur Konni það?“ Þá varð Baldur einlægur til augnanna, hann þrýsti hönd mína og sagði: „Hann er orðinn ósköp lélegur.“ Ekki löngu seinna frétti ég svo um andlát Baldurs.

Kaffivélin

Ég sagði í síðasta pistli frá því hve kúltúrinn í kringum upplestra hefur breyst mikið á þessum áratugum sem ég hef verið í bransanum; áður var mjög algengt að höfundar væru beðnir um að koma eitthvert þangað sem fólk hafði safnast saman og þar áttu þeir að kveðja sér hljóðs og lesa kauplaust yfir hausamótunum á fólki með þeirri röksemd að „það yrði góð kynning fyrir þig“. Og þar sem þetta var kauplaust þá tók það enginn sérlega alvarlega, enginn stjórnaði dagskrá eða kynnti upplesarann, þetta var stundum ekkert auglýst fyrirfram og margir á staðnum voru ekki komnir til að þegja og hlusta á aðra. Nú er sviðið mjög breytt, víða í fyrirtækjum, félögum og stofnunum er orðin vinsæl hefð að efna til bókmenntadagskrár, gjarna á jólaföstunni. Höfundar eru fengnir til að koma og þeim að sjálfsögðu greitt fyrir tíma sinn og ómak, og allir taka þetta alvarlega og vanda sig; oft er mjög gaman að koma í svona heimsóknir. Það geta samt komið upp óvænt atvik, og það gerðist til dæmis í fyrra þegar ég var fenginn til að koma í ágætt tryggingafélag hér í borginni og segja frá Sturlungaöld og lesa upp úr bókinni „Skálmöld“.

Allt var það undirbúið af fagmennsku og elskusemi, það var hringt og mér boðið að koma gegn sanngjarnri þóknun, það var tekið á móti mér þegar ég mætti á staðinn, það var búið að skreyta kaffistofuna og boðið upp á smákökur og drykk, svo var ég kynntur og ég stóð upp með bókina, sagði nokkrar sögur og um hvað væri verið að fjalla, hóf svo að lesa kafla sem ég taldi vera grípandi og jafnvel fyndna og höfðu reynst vel. Og þeir gerðu það líka núna;  ég fékk mjög ánægjulegar viðtökur og fólk hlustaði af athygli. Þá opnuðust dyrnar og einn starfsmanna kom inn, trúlega var hann rétt að stíga upp frá sínum verkefnum við skrifborðið og var augljóslega kominn til að ná sér í kaffi – hann gekk beint að kaffivélinni án þess að líta til hægri né vinstri. Þetta var nýtískuleg kaffivél sem byrjaði á að mala kaffið með miklum skruðningum og þeytti svo mjólk með háværu pípi.

Engin truflun

Fólk varð mjög skrýtið á svipinn, og ekki var laust við að manni fataðist lesturinn; sem betur fer er ég orðinn nokkuð sjóaður í þessum bransa, því að óvanara fólk hefði sumt farið á taugum. Þegar maðurinn var að ljúka sínum athöfnum leit hann í kringum sig og það var eins og hann þá áttaði sig á að eitthvað væri óvenjulegt; hann horfði á mig með spurnarsvip. „Er ég nokkuð að trufla þig, vinur?“ spurði ég. „Neinei!“ sagði hann og brosti elskulega og af fullkomnu umburðarlyndi. Svo hvarf hann á braut og við hin héldum áfram með dagskrána. Hálfu ári seinna höfðu menn frá tryggingafélaginu samband því að þau voru að undarbúa árshátíð og þar átti að sýna myndband, sem ég var beðinn um að taka þátt í; það gekk út á að viðkomandi starfsmaður gekk inn í giftingarathafnir, jarðarfarir og alls kyns mikilvæg augnablik og fór að laga sér kaffi með miklum óhljóðum. Alveg án þess að láta ytri aðstæður trufla sig. Og mér skilst að þetta hafi allt vakið mikla lukku.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is