Fimmtudagur 13.4.2017 - 10:15 - Rita ummæli

Sovésk lög um jafnlaunavottun

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp til laga sem myndi skylda öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri til að undirgangast jafnlaunavottun á þriggja ára fresti, en hún á að tryggja að starfsmenn fái sömu laun fyrir sambærileg störf. Frumvarpið gerir þá kröfu til fyrirtækja að þau fái slíka vottun, sem samkvæmt frumvarpinu grundvallast á staðlinum ÍST 85:2012, sem Staðlaráð Íslands gefur út, en Staðlaráðið er „samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af stöðlum“ og „setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir“.

En þótt Staðlaráðið starfi samkvæmt lögum, og reglum sem ráðherra setur, þá eru staðlarnir sem það býr til ekki aðgengilegir almenningi, nema gegn greiðslu. Til dæmis kostar það 10.730 krónur að fá að sjá staðalinn ÍST 85:2012, sem umrætt frumvarp byggir á.

Af því að lög eru fyrir almenning (og fyrirtæki) til að fara eftir er almennt talið að þau verði að vera skiljanleg þeim sem eiga að hlýða. Þess vegna gerði ég ráð fyrir að umræddur staðall myndi fylgja frumvarpinu, svo ljóst væri hvað væri verið að leiða í lög. Þar sem ég fann þó ekki staðalinn á vef Alþingis í tengslum við þetta frumvarp skrifaði ég ráðherranum, og velferðarráðuneytinu, og spurði hvort til stæði að birta staðalinn. Ég ítrekaði svo fyrirspurnina nokkrum sinnum (hafandi þá reynslu af íslenskum ráðuneytum að þau svari ekki fyrirspurnum nema eftir því sé gengið ítrekað), og fékk á endanum þetta svar (viku eftir fyrirspurnina):

„Staðlaráð Íslands gaf út staðallinn Jafnlaunakerfi ÍST 85:2012. og áskilur ráðið sér öll réttindi varðandi hann. Í staðlinum er tekið fram eftirfarandi: ,, Án skriflegs leyfis útgefanda má ekki endurprenta eða afrita þennan staðal með neinum hætti, vélrænum eða rafrænum, svo sem ljósritun, hljóðritun eða annarri aðferð sem nú er þekkt eða verður síðar fundin upp, né miðla staðlinum í rafrænu gagnasafni“. Því getur ráðuneytið ekki birt staðalinn en tekið skal fram að hægt er að kaupa hann hjá Staðlaráði Íslands.“

Félagsmálaráðherra vill sem sagt setja lög sem byggja á reglum sem ekki verða gerðar opinberar almenningi (nema þeim sem eru tilbúin að borga slatta af þúsundköllum fyrir).

Leynileg lög eru ekki íslensk uppfinning; þau voru mikið notuð í Sovétríkjunum sálugu. Engum dylst að Sjálfstæðisflokkurinn er sigursælasti sovétflokkur Vesturlanda (og í heiminum, eftir fall Sovétríkjanna), með sinn þrautskipulagða ríkisverndaða kapítalisma, sem grunur leikur á að rússneskir ólígarkar hafi lært trix sín af eftir hrun sovétsins þar eystra.

En að Viðreisn, með Þorstein í fararbroddi, ætli sér að keppa við Sjálfstæðisflokkinn einmitt í sovétmennskunni hlýtur að koma einhverjum á óvart.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.3.2017 - 11:26 - 14 ummæli

Það er einfalt mál að leysa húsnæðisvandann

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Nýlega undirritaði Dagur borgarstjóri samning um byggingu 332 íbúða á Gelgjutanga í Reykjavík. Markmiðið er væntanlega að létta svolítið þann gríðarlega þrýsting sem er á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Það er góðra gjalda vert, og kannski algert aukaatriði þótt það sé kaldhæðnislegt, að eigandi fyrirtækisins sem samið var við, og sem væntanlega mun græða þokkalega á þessu, er Ólafur Ólafsson. Hann er einn af þeim sem ábyrgð bera á hruninu, sem er ein af orsökum hins hryllilega ástands í húsnæðismálunum.

En það er samt dapurlegt að sjá borgarstjóra svokallaðra félagshyggjuflokka semja við dæmdan stórkapítalista um að byggja örfáar af þeim þúsundum íbúða sem þarf til að koma þessum málum í skikkanlegt horf, í stað þess að vinna að því að leysa vandann í eitt skipti fyrir öll.

Húsnæðisvandinn á Íslandi er margs konar. Að kaupa er brjálæðislega dýrt vegna þeirra okurvaxta sem fólk þarf að borga; þeir hafa lengi verið þrefaldir til fimmfaldir á við það sem gerist í nágrannalöndum. Hin hliðin á vandanum er að það er enginn áreiðanlegur leigumarkaður á Íslandi, öfugt við það sem gildir í flestum löndum sem við þekkjum.

Vaxtaokrið verður erfitt að losna við, geri ég ráð fyrir, meðan við höldum í örmyntina ISK. En það er einfalt mál að búa til skikkanlegan leigumarkað. Það er hægt að gera svona:

Hið opinbera (ríkið, hugsanlega fyrir sveitarfélögin) tekur erlend lán til langs tíma (t.d. 50 ára) til að byggja svo sem tíuþúsund leiguíbúðir á næstu 10 árum (og svo fleiri eftir það). Slík lán ætti að vera hægt að fá með 1% vöxtum (sjá t.d. þetta).

Með því að byggja mikinn fjölda íbúða í einu, með skipulegum hætti, má ná byggingarkostnaðinum talsvert niður. Með 1% raunvexti á lánunum gæti leigan orðið miklu lægri en gerist á höfuðborgarsvæðinu í dag, og alveg sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum, enda græða jafnvel einkaaðilar þar á því að leigja út húsnæði á hóflegu verði. Hið opinbera þyrfti ekki einu sinni að niðurgreiða vextina, þótt það væri ekki endilega frágangssök, enda fullt af slíkum niðurgreiðslum í gangi til ýmissa aðila (t.d. fá bílaleigur milljarða í afslátt af tollum á bíla sem þær kaupa).

Einkaaðilar munu aldrei sjá sér hag í að leigja út íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði meðan raunvextir eru eins háir og raun ber vitni á Íslandi, auk þess sem þeir ætla sér jafnan talsverðan hagnað. Hið opinbera getur hins vegar auðveldlega komið á fót slíkum leigumarkaði, þar sem verðið væri viðunandi, og leigjendur gætu búið eins lengi og þeim sýndist í íbúðum sínum, í stað þess að vera allt í einu hent út af því að dóttir eigendanna var að koma heim úr námi.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að hinir svokölluðu félagshyggjuflokkar á Íslandi hafa ekki hunskast til að beita sér fyrir þessu, og það fyrir löngu? Af hverju eru þeir að tala um að byggja nokkur hundruð íbúðir eins og það sé stórmál, og berja sér á brjóst fyrir það, í stað þess að vinna að því af alefli að ríki og sveitarfélög byggi þá tugi þúsunda leiguíbúða sem þarf til að húsnæðismálin komist í þokkalegt og varanlegt horf?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.12.2016 - 10:15 - 5 ummæli

Opið bréf til Steingríms J.

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

.
Sæll Steingrímur

Ég var að lesa þennan pistil Björns Vals Gíslasonar: http://bvg.is/blogg/2016/12/04/rikisstjorn-um-velferdarmal-og-jofnud

Ég geri ráð fyrir að þú hafir lesið hann líka. Því langar mig að spyrja þig hvort þú ert á sama máli og Björn, og lítir svo á að „hraðar kerfisbreytingar“, svo sem þær hægu breytingar á kvótamálunum sem aðrir flokkar hafa lagt til, séu í andstöðu við velferð og jöfnuð.

Augu þjóðarinnar hvíla á VG, því það eruð þið sem hafið það í hendi ykkar hvort mynduð verður stjórn fimm flokka, eða stjórn með Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn innanborðs. (Ákall um nýjar kosningar er óskiljanlegt; kusu kjósendur vitlaust? Á að hafa vit fyrir þeim og segja þeim að haga sér?)

Ert þú sama sinnis og Björn Valur? Er hópur áhrifafólks innan VG sem vill koma í veg fyrir að gerðar verði „kerfisbreytingar“, breytingar á því kerfi sem íslenska auðvaldið hefur notað áratugum saman til að mergsjúga þá alþýðu sem VG ættu að réttu lagi að vinna fyrir?

Eru það hagsmunir alþýðunnar, en ekki LÍÚ, að viðhalda núverandi kvótakerfi? Eru það ekki hagsmunir almennings að hann fái sjálfur að taka ákvarðanir í mikilvægum málum, svo sem í kvótamálunum, með því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur? Af hverju ættu LÍÚ, Sjálfstæðisflokkkurinn, Framsóknarflokkurinn og Björn Valur að fá að ráða yfir auðlindinni, en ekki sá yfirgnæfandi meirihluti almennings sem vill „kerfisbreytingar“ í því máli?

Það eru alls konar kerfisbreytingar sem mikill fjöldi fólks vill sjá á Íslandi. Breytingar sem hægt sé að nota til að uppræta þá spillingu sem gegnsýrir valdakerfið, bæði stjórnmála- og peningakerfið. Ætlið þið að standa gegn þeim? Ætlið þið að standa vörð um það gegnrotna kúgunarkerfi sem auðvaldið hefur komið upp, til að hægt sé að mergsjúga það fólk sem ætti að vera umbjóðendur ykkar sem kallið ykkur Vinstri Græn?

Bestu kveðjur, með von um að þú sért að hundskamma Björn Val fyrir að ganga erinda auðvaldins,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2016 - 15:21 - Rita ummæli

Opið bréf til innanríkisráðherra

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæl Ólöf

Sem innanríkisráðherra berð þú ábyrgð á þeim málum sem hér er fjallað um:http://www.frettatiminn.is/utlendingastofnun-sendir-stridshrjad-born-aftur-til-talibana/

Þetta er ekki í fyrsta, ekki í annað, ekki í þriðja skiptið sem íslensk yfirvöld sýna af sér svona viðurstyggilega grimmd.

Þú getur ekki skýlt þér á bak við það að ráðherra eigi ekki að blanda sér í afgreiðslu svona mála. Í fyrst lagi hefðir þú, sem æðsti yfirmaður þessara mála og í samræmi við þær hefðir sem gilda um frumkvæði ráðherra í lagasetningu á Íslandi, fyrir löngu átt að beita þér fyrir lagabreytingum til að stöðva þetta sturlaða miskunnarleysi.

Í öðru lagi hlýtur það að vera í þínu valdi sem ráðherra, að stöðva beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar í málum af þessu tagi (og helst að hætta því alveg; reglugerðin var EKKI samþykkt til að lönd eins og Ísland væru stikkfrí í þeim hörmungum sem flóttamannavandinn er). Það er ekkert sem krefur Ísland um að beita þessari reglugerð til að endursenda hælisleitendur, og það er því leikur einn fyrir þig að ákveða að því verði hætt.

Að endingu langar mig að minna þig á að þú ert ekki bara ráðherra dómsmála, heldur líka ráðherra mannréttindamála. Hér er verið að traðka á mannréttindum varnarlauss fólks, þar á meðal barna sem sætt hafa hrottalegri meðferð. Með þessu væri nánast örugglega verið að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem og Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagt þungar skyldur á aðildarríkin varðandi endursendingar hælisleitenda í tilfellum sem þessum.

Ábyrgðin er þín, Ólöf, og þú getur ekki skorast undan henni. Það ert þú sem berð ábyrgð á því að þessum börnum verði ekki úthýst. Það ert þú sem berð ábyrgð á velferð þeirra. Ekki leggja það á samvisku þína að hafa eyðilagt líf þessara varnarlausu barna.

Með von um að þú sjáir að þér,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2016 - 10:15 - Rita ummæli

Íkorninn býður Bjarnadýrinu upp í dans

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Einu sinn var Íkorni. Hann átti heima í skóginum. Hann dansaði á trjátoppunum og gerði grín að Bjarnadýrinu, sem var svo þunglamalegt og fúllynt og frekt. Svo kom mamma Íkornans og sagði við hann „öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“. Þá skammaðist Íkorninn sín smá og ákvað að bæta ráð sitt. Hann fór niður úr trjátoppunum og bauð Bjarnadýrinu upp í dans. Og Bjarnadýrið og Íkorninn dönsuðu saman í smá tíma. Svo missteig Bjarnadýrið sig óvart og datt ofan á Íkornann …

 


„Það er íkorninn sem dansar á trjátoppunum en ekki bjarndýrið.

Þessi furðulegu skilaboð eru mér ofarlega í huga við upphaf þings. Það hefur oft betri áhrif að sýna mýkt og sveigjanleika en að ryðjast áfram af krafti og með látum. Við fyrstu sýn er bjarndýrið tignarlegt, vöðvastælt og kraftmikið dýr en það kemst ekki á efstu toppa trésins. Við fyrstu sýn virðist íkorninn hlaupa stefnulaust fram og til baka eins og vitstola einfeldningur en það er ekki heldur svo einfalt. Íkorninn hefur skýr markmið, hann er að safna forða fyrir veturinn og öll hans taugaveiklunarlega iðja þjónar því markmiði.

Hv. þingmenn. Tökum íkornann með sinni iðjusemi og útsjónarsemi okkur til fyrirmyndar frekar en þunglamalegt valdabrölt bjarnarins.“

http://www.althingi.is/altext/raeda/142/rad20130610T220215.html

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.9.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Guðni forseti ræðst á Sjálfstæðisflokkinn

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í viðtali við erlenda fréttastofu í gær sagði Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands, að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki líklegur til að geta myndað stjórn eftir næstu kosningar:

„Sjálfstæðisflokkurinn er andsnúinn öllum kerfisbreytingum. Í ljósi þess að krafan um slíkar breytingar er gríðarlega sterk hjá flestum öðrum flokkum gæti það reynst erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda stjórn,“ sagði Guðni.

Sjálfstæðismenn eru að vonum margir reiðir og telja að með þessu sé forsetinn að blanda sér í flokkspólítísk átök sem hann ætti alls ekki að gera.  Benda þeir á að ef Guðni standi frammi fyrir því eftir næstu kosningar að velja milli þess að veita Pírötum eða Sjálfstæðisflokknum stjórnarmyndunarumboð, og veiti það Pírötum, muni augljóslega vakna grunsemdir um að hann láti fordóma sína þar ráða för.  Auk þess er hann með þessu að leggja andstæðingum Sjálfstæðisflokksins lið með því að letja kjósendur til að kjósa flokkinn, því augljóslega forðast margt fólk að kjósa flokk sem það telur eiga litla möguleika á að hafa áhrif gegnum ríkisstjórnarsamstarf.

Það er hávær krafa meðal Sjálfstæðismanna, og reyndar margra fleiri, að forsetinn biðjist afsökunar á þessum ummælum, útskýri að hann hafi með þeim gert alvarleg mistök, og viðurkenni að það hafi verið fráleitt að halda fram að hann geti vitað fyrirfram hvernig Sjálfstæðisflokkurinn muni haga hugsanlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Ekki náðist í Guðna við vinnslu þessarar fréttar.

PS.  Nei, þessi „frétt“ er uppspuni.  En Guðni var einmitt að ráðast með rakalausri gagnrýni á annan flokk, sem ætla verður að hann líti hornauga, og að hætt sé við að hann muni láta gjalda fordóma sinna eftir næstu kosningar.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is