Föstudagur 23.1.2015 - 10:15 - 4 ummæli

Hvenær fengu karlar kosningarétt?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 22. janúar]

Flestir vita núorðið að konur fengu kosningarétt til þings, án annarra takmarkana en við aldur, árið 1915. Svo mikið hefur verið talað um þetta síðustu mánuðina (og reyndar í langan tíma áður) að það hefur varla farið fram hjá nokkurri manneskju sem fylgist með. Allir „vita“ núorðið að konur fengu ekki almennan kosningarétt fyrr en 19. júní 1915, löngu á eftir körlum.

En veist þú, lesandi góður, hvenær karlar á Íslandi fengu kosningarétt til þings, óháð öðru en aldri, þ.e.a.s. þann rétt sem konur fengu árið 1915?

Staðreyndin er að það sem flestir halda sig vita um þetta er rangt. Karlar fengu  almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915. Um það má til dæmis lesa hjá Kvennasögusafni Íslands.  Af einhverjum ástæðum þykir engin ástæða til að halda á lofti þeirri staðreynd, í öllu talinu um hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna, að eignalausir karlar , t.d. verkamenn og vinnumenn í sveit, voru kúgaðir með sama hætti og konur hvað þetta varðar.

Enginn getur efast um að konur hafi sætt ýmiss konar misrétti gegnum aldirnar (þótt alltaf virðist gleymast að hlutskipti stórs hluta karla var ekki endilega neitt betra). Og það er ekkert að því að halda upp á merka áfanga í þeirri sögu. Það er hins vegar ljótt að stunda, ef ekki sögufölsun þá a.m.k. „söguförðun“ af því tagi sem hér á sér stað.  Það er gömul saga og ný að þeir sem lakast eru settir í samfélaginu eru ekki síður karlar en konur. Það virðist hins vegar ekki skipta neinu máli þegar rætt er um meint slæmt hlutskipti kvenna, eins og konur hafi það almennt mjög skítt en karlar mjög gott, á kostnað kvenna. Þau ósannindi eru endurtekin svo títt að það er vonlítið að leiðrétta þau.

Jafnrétti og spilling

En, það er ekki nóg með að hluta sannleikans sé sópað snyrtilega út í horn í áróðrinum, konur eru orðnar svo gjaldgengar í æðstu valdastöðum þess þings sem þær fengu kosningarétt til 1915 að þær fá nú að taka virkan þátt í spillingunni þar á bæ. Alþingi samþykkti nefnilega ályktun um að halda skyldi hátíð í ár vegna þessa afmælis. Fyrsti flutningsmaður var Ásta R. Jóhannesdóttir, þáverandi þingforseti. Meðal annars var samþykkt að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins. Um það starf sóttu 75 manns. Svo skemmtilega vildi til að það var einmitt Ásta R. sem hreppti hnossið í þessari hörðu samkeppni. Hún sótti sem sagt um starfið sem hún beitti sér sjálf fyrir að yrði búið til, og fékk það. Það var forsætisnefnd þingsins, sem hún hafði skömmu áður veitt forstöðu, sem réði í starfið …

Það vill líka svo skemmtilega til að í framkvæmdanefndinni sem á að  hjálpa Ástu að skipuleggja hátíðahöldin vegna þessa merka jafnréttisáfanga eru fimm manns, allt konur.

Jöfn forréttindi hjá Reykjavíkurborg

En það er ekki bara Alþingi sem ætlar að halda upp á afmælið; það ætlar Reykjavíkurborg að gera líka. Á hennar vegum verður dagskrá með 100 viðburðum. Í tilkynningu um það er ekki minnst orði á kosningarétt karla. En hver er raunveruleg stefna borgaryfirvalda í jafnréttismálum? Í aðgerðaáætlun borgarinnar í jafnréttismálum 2011-2015 segir þetta:

„Reykjavíkurborg vann launaúttekt árið 2010. Í þeirri úttekt kom í ljós að launamunur milli kynja liggur fyrst og fremst í yfirvinnu- og akstursgreiðslum.“

Aðgerðin sem fara á í af þessu tilefni er að

„Vinna greiningu á yfirvinnu- og akstursgreiðslum hjá Reykjavíkurborg og hvort stjórnendur fara að settum leikreglum.“

Þetta er eina athugasemdin, og eina aðgerðin, sem varðar launajafnrétti í þessari aðgerðaáætlun. Ljóst er að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um meintan launamun milli kynja í æðstu stöðum (því gera má ráð fyrir að fáir aðrir fái greiddan aksturskostnað og yfirvinnu nema nákvæmlega fyrir það sem ekið er og unnið). Eins og svo oft snýst jafnréttisbarátta þessa valdafólks sem sagt bara um þá sem sitja efst í valdapíramídanum.

Engu af forystufólkinu í borginni virðist detta í hug að gera raunverulegt átak til að hækka laun lágtlaunaðra kvenna. Eitt af því sem borgin gæti gert, þar sem hún ræður því alveg sjálf, er að hækka laun leikskólakennara, sem nánast allir eru konur, til dæmis til jafns við laun grunnskólakennara. Slík aðgerð myndi hafa gríðarlega launajafnandi áhrif, auk þess sem erfitt er að sjá réttlætið í lágum launum leikskólakennara. En riddarar „jafnréttisbaráttunnar“ hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa.

Afmælisfagnaðurinn vegna kosningaréttar kvenna fyrir hundrað árum verður sem sagt á sömu nótum og mestöll „jafnréttisbarátta“ síðustu ára; skrautsýning þeirra sem vilja láta líta á sig sem merkilegt forystufólk, en sem geta ekki hugsað sér að óhreinka á sér hendurnar á því sem hægt væri að gera til gagns.  Jafnréttisbarátta þess snýst um jöfn forréttindi fárra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.12.2014 - 10:15 - 9 ummæli

Bænafólk og mannréttindi

Sumt fólk telur að Tony Omos eigi ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, af því að sé hann ekki örugglega sekur, þá sé að minnsta kosti líklegt að hann sé sekur um glæpi (og það fólk virðist engu máli skipta að engar áreiðanlegar vísbendingar séu um það). Þetta fólk telur að mannréttindin sem flóttafólk á almennt að njóta eigi ekki að gilda um Tony, af því að hann sé sennilega ekki nógu góð manneskja til þess.

Margir telja að bænafólkið sem vill mótmæla fóstureyðingum (friðsamlega) við Landspítalann eigi ekki að fá að njóta þess tjáningarfrelsis að mótmæla á almannafæri, af því að skoðanir þess geti sært annað fólk.

Í báðum tilfellum er talað fyrir því að gera undantekningar frá þeirri meginreglu að mannréttindi eigi að gilda fyrir alla, og að það megi ekki takmarka þau nema ríkir almannahagsmunir séu í veði. Í báðum tilfellum er verið að krefjast þess að mannréttindi gildi ekki fyrir tiltekið fólk sem vill njóta þeirra.

Ég sé engan afgerandi mun á þessum tveim málum frá sjónarhorni mannréttinda, bara hliðstæðu. Og vísasta leiðin til að mola úr mannréttindum er að verja þau ekki skilyrðislaust.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.11.2014 - 10:15 - 3 ummæli

Spilling bak við leynd í Stjórnarráðinu?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í tveimur greinum síðustu daga (hér og hér) hef ég sagt frá tilraunum mínum til að fá upplýsingar um á hvaða forsendum stjórn Rekstrarfélags stjórnarráðsins tók þá ákvörðun að segja upp sautján ræstingakonum, sem þrifið hafa hin ýmsu ráðuneyti í mörg ár, og bjóða verkið út. Eftir meira en tveggja vikna þref við Sverri Jónsson, stjórnarformann félagsins, þar sem hann hefur borið við ómálefnalegum ástæðum fyrir að afhenda ekki umrædd gögn umyrðalaust, fékk ég það endanlega svar í gær að hann neitaði að afhenda þær upplýsingar sem sagðar eru liggja til grundvallar þessari ákvörðun.

Í ljósi þess hversu loðin svör Sverrir hefur gefið og hversu mikil leynd hvílir yfir þeim gögnum sem staðhæft er að ákvörðunin byggi á virðist full ástæða til að ætla að hér sé ekki allt með felldu.

Í stuttu máli snýst þetta um það skjal sem nefnt er í eftirfarandi broti úr fundargerð stjórnar félagsins frá 9. apríl í ár sem og upplýsingarnar í því sem Sverrir strikaði út áður en hann sendi mér þetta (þar sem [XXX] merkir að útstrikaður hefur verið (mislangur) texti):

„4. Útboð ræstinga
GHK lagði fram skjal er innihélt lýsingu á viðskiptafæri útboðs á ræstingu. Fram kom að ávinningur væri metin 15-20 milljónir árlega og að það væri sennileg vanmat á ávinningnum. [XXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXXX] Rekstrarfélagið og ANR [Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið] munu fara í heimsókn til [XX] til að fá frekari upplýsingar. Samþykkt var að halda áfram gerð útboðslýsingar og stefnt skuli á útboð í haust.“

Svo virðist sem Guðmundur H. Kjærnested (GHK), framkvæmdastjóri Rekstrarfélagsins, hafi lagt fram skjal sem á að liggja til grundvallar þeirri niðurstöðu að það myndi spara ríkinu 15-20 milljónir á ári að reka ræstingakonurnar og bjóða verkið út. Sverrir fékkst hins vegar ekki til að segja mér hvers konar skjal þetta væri eða hver hefði samið það, en svo virðist af því sem Sverrir sagði að þetta skjal hafi verið samið af utanaðkomandi einkafyrirtæki.

Það lítur því út fyrir að Rekstrarfélagið hafi fengið einkafyrirtæki til að gera fyrir sig áætlun um mögulegan ávinning af því að reka ræstingakonurnar og bjóða verkið út, en að nafn þess fyrirtækis þoli ekki dagsins ljós, né heldur hvað þetta fyrirtæki hafi reiknað út og hvernig. Ekki heldur er hægt að fá að vita hvort þetta er fyrirtæki sem hefur sjálft hagsmuni af því að verkið verði boðið út.

Miðað við undanbrögð Sverris, leyndina varðandi þetta fyrirtæki og útreikninga þess, og það hversu algengt er á Íslandi að stjórnsýslan sé notuð til að hygla einkavinum þeirra sem með völdin fara vaknar hér enn einu sinni sú spurning hvort eðlilega sé að málum staðið. Þeir sem vita svarið við því neita að tala, þótt hlutverk þeirra sé, eða ætti að vera, að starfa fyrir hagsmuni almennings og ekki aðra …

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2014 - 10:15 - Rita ummæli

Útvistun: Saumað að láglaunafólki

[Þessi grein birtist í Kvennablaðinu í gær]

Talsvert hefur verið fjallað í fjölmiðlum síðustu daga um útvistun á ræstingum í opinberum stofnunum, eins og Landspítalanum og Stjórnarráðinu. Í gær skýrði ég hér frá tilraunum mínum til að fá upplýsingar um ástæðurnar að baki því að Rekstrarfélag Stjórnarráðsins sagði nýlega upp sautján ræstingakonum, í því skyni að bjóða verkið út. Erfiðlega gengur að fá þær upplýsingar, en ýmislegt í því sem þegar er komið fram vekur grunsemdir um að málið sé ekki eins einfalt og þeir vilja vera láta sem ábyrgðina bera.

Aðgerðir af þessu tagi virðast byggja á svokallaðri Útvistunarstefnu ríkisins, þar sem segir meðal annars þetta:

„Útvistun er ætlað að auka skilvirkni í rekstri ríkisins með því að innleiða samkeppni við veitingu þjónustu. Með útvistun er þannig dregið úr kostnaði ríkisins við kaup og veitingu þjónustu.“

Það er auðvitað gott og blessað að ríkið fari eins vel með peninga og mögulegt er, og auðvitað er sjálfsagt í mörgum tilvikum að láta aðra en fasta starfsmenn hins opinbera leysa verkefni fyrir ríkið, ef það er ódýrara. Það sem vantar þó algerlega í umrædda útvistunarstefnu er krafan um að athuguð séu þau samfélagslegu áhrif sem slíkar útvistanir geti haft. Þar er annars vegar um að ræða hreina útreikninga á því hvort ríkið muni tapa eða spara á útvistun þegar tekið er tillit til allra þátta sem áhrif hafa á fjárhag ríkisins og annarra opinberra aðila.  Hins vegar um samfélagslega ábyrgð hins opinbera gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á því að vinna þess er útvistuð.

Jón Daníelsson gerði nokkuð ítarlega úttekt á því varðandi brottrekstur ræstingakvenna stjórnarráðsins, þar sem hann bendir á, meðal ýmissa annarra þátta, að talsverðar líkur séu á að einhverjar þeirra verði í kjölfarið atvinnulausar, sem óhjákvæmilega kostar hið opinbera talsvert fé. Þannig gæti útvistun á endanum valdið tapi fyrir opinbera aðila, þótt útreikningarnir sýni annað í upphafi, af því að þeim sem þá gera ber ekki að taka tillit til slíkra þátta.

Það sem er þó kannski verra er að ekkert er minnst á samfélagslega ábyrgð ríkisins þegar svona verkefni eru annars vegar. Kannski má rekja ástæðurnar til þess að stefnan var samin 2006, þegar Ísland var best í heimi, Viðskiptaráð lýsti yfir að Ísland gæti ekkert lært af hinum Norðurlöndunum af því að við stæðum þeim miklu framar á flestum sviðum, og ríkisstjórnin samþykkti nánast allar kröfur Viðskiptaráðs um lagasetningar. Í stefnunni er talað fjálglega á þessum nótum, um að útvistun og markaðsvæðing verkefna ríkisins leiði til þess að „Sérþekking og reynsla nýtist þannig atvinnulífinu í heild og styrkir alþjóðlega samkeppnisstöðu þess“, en sem sagt ekkert minnst á ábyrgð ríkisins gagnvart því fólki sem verður fyrir barðinu á slíkri útvistun til einkaaðila.

Í tilfelli ræstingakvennanna í stjórnarráðinu er verið að ráðast á kjör láglaunafólks, og trúlega hrekja margt af því út í atvinnuleysi síðustu árin sem hefðu átt að tilheyra starfsævinni. Þar er hvorki hirt um hver hinn endanlegi kostnaður verði fyrir ríkið og aðra opinbera aðila, hvað þá að nokkru máli skipti hvaða áhrif þetta muni hafa á andlega líðan kvennanna sem margar hafa sinnt þessu starfi afar lengi.

Í stuttu máli virðist útvistunarstefna ríkisins, í mörgum tilfellum, ganga út á að lækka laun fólks sem er þegar með mjög lág laun, og skipta „hagnaðinum“ sem af hlýst á milli ríkissjóðs og fólks úti í bæ sem fær að græða þannig á vinnu annarra, án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að það sé í sjálfu sér til hagsbóta fyrir almenning, þ.e.a.s. ríkið. Nema hvað alls er óvíst að sparnaður ríkisins verði nokkur, þegar tekið er tillit til áhrifa þess að segja upp viðkomandi láglaunafólki. Þess vegna er svo erfitt að verjast þeirri tilhugsun að markmiðið sé ekki síst að geta hyglt einkavinum valdsins, enda dæmin um slíkt mýmörg.

Sá grunur minnkar ekkert þegar haft er í huga að ráðherrarnir sem bera ábyrgð á þessum aðförum láta almenning borga undir sig lúxusbíla án þess að nokkur skipti sér af því hversu miklu af almannafé þeir eyða í það.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.11.2014 - 10:15 - 5 ummæli

Að reka ræstingakonur

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 23. nóvember]
Fyrir nokkrum vikum sagði Rekstrarfélag stjórnarráðins upp sautján ræstingakonum sem starfað hafa í Stjórnarráðinu.  Rekstrarfélagið sér um ýmsan rekstur fyrir þau fimm ráðuneyti sem eiga aðild að því, en það eru fjármála-, mennta- og menningarmála-, innanríkis-, forsætis- og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Eftirtaldir starfsmenn viðkomandi ráðuneyta skipa stjórn Rekstrarfélagsins en það er þetta fólk sem tók ákvörðunina um að reka þessar konur:

Formaður:  Sverrir Jónsson, fjármálaráðuneyti
Jens Pétur Hjaltested, mennta- og menningarmálaráðuneyti
Sigurborg Stefánsdóttir, innanríkisráðuneyti
Eydís Eyjólfsdóttir, forsætisráðuneyti
Stefán Guðmundsson, umhverfis- og auðlindaráðuneyti

Það eru tæpar tvær vikur síðan ég byrjaði að reyna að fá Sverri formann til að svara nokkrum spurningum um ástæður uppsagnarinnar.  Hann svaraði fljótlega upphaflegum spurningum mínum, á þessa leið (eftir svolítinn formála um hagræðingarkröfur í fjárlögum á Rekstrarfélagið):
„Breyting á fyrirkomulagi ræstinga er liður í endurskoðun á rekstri félagsins sem miðar að því að gera hann hagkvæmari.
Breytingin nú felst fyrst og fremst í því að færa ræstinguna úr fyrirkomulagi sem kallast „flatarmæld ákvæðisvinna í eftirvinnu“ í dagræstingu. Að athuguðu máli er einnig sóknarfæri í því að bjóða verkefnið út og það því ákveðið. Það er og í takt við stefnu ríkisins sem gilt hefur um langt árabil, þ.e. að útvista rekstrarverkefnum. Stjórn félagsins hefur forðast að nefna tilteknar fjárhæðir á þessari stundu, enda á eftir að auglýsa útboðið.“
Í framhaldi af þessum svörum Sverris spurði ég hann eftirfarandi spurninga um það sem fram kom í þeim (fyrst koma hér tilvitnanir í svar hans, svo spurningar mínar):
„Að athuguðu máli er einnig sóknarfæri í því að bjóða verkefnið út og það því ákveðið.“
1.  Hvers konar athugun var þar um að ræða?
„Það er og í takt við stefnu ríkisins sem gilt hefur um langt árabil, þ.e. að útvista rekstrarverkefnum.“
2.  Af hverjum var þessi stefna mótuð og hvar er hægt að sjá gögn um það?
Einnig fór ég fram á við Sverri að fá afrit af fundargerðum og öðrum gögnum hjá stjórn Rekstrarfélagsins þar sem fjallað væri um þetta mál.
Nú skyldi maður ætla að það væri einfalt mál að svara þessum spurningum, úr því að vísað er í að málið hafi verið athugað, og í stefnu ríkisins sem höfð hafi verið að leiðarljósi.  En ég fékk engin viðbrögð frá Sverri fyrr en fyrir fjórum dögum, eftir að ég hafði sagt honum að ég hygðist fjalla um málið opinberlega.  Eftir fleiri pósta fram og tilbaka fékk ég loksins svar við ofangreindum spurningum, en ég hef enn ekki fengið fullnægjandi svör við augljósum framhaldsspurningum.  Sverrir segist ætla að veita þau eftir helgi.  Gangi það eftir mun ég væntanlega skrifa nýja grein, en mér finnst nú þegar full ástæða til að segja frá því sem ég hef fengið að vita.  Hér er kjarninn í svari Sverris:
Varðandi stefnu í innkaupamálum vísa ég á heimasíðu ráðuneytisins, http://www.fjarmalaraduneyti.is/verkefni/innkaup/. Þar er m.a. að finna útvistunarstefnu, undir fyrirsögninni „Útgáfa“.
Varðandi athugunina og sóknarfærið, sem þú spyrð nánar út í, þá er átt við að með útboði skapast aukið svigrúm innan Rekstrarfélagsins til að sinna verkefnum þess m.v. óbreyttar fjárheimildir og mannskap.
Sverrir sendi mér líka fundargerðir um þessi mál.  Bitastæðast þar var  eftirfarandi, í fundargerð frá 9. apríl í ár:
4. Útboð ræstinga
GHK lagði fram skjal er innihélt lýsingu á viðskiptafæri útboðs á ræstingu. Fram kom að ávinningur væri metinn á 15-20 milljónir árlega og að það væri sennilega vanmat á ávinningnum. [útstrikaður texti] Rekstrarfélagið og ANR [Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið] munu fara í heimsókn til [útstrikaður texti] til að fá frekari upplýsingar. Samþykkt var að halda áfram gerð útboðslýsingar og stefnt skuli á útboð í haust.
Þegar ég bað um að fá skjalið sem GHK (Guðmundur H. Kjærnested, framkvæmdastjóri Rekstrarfélagsins) lagði fram á fundinum fékk ég fyrst óskýr svör, en að lokum skildist mér á Sverri að þar væri um að ræða sama einkafyrirtæki og meiningin væri að fara í heimsókn til, en nafn þess var strikað út eins og kemur fram hér að ofan.  Ég spurði Sverri hvaða fyrirtæki þetta væri, en hann vildi ekki svara því.  Ég spurði þá af hverju hann vildi það ekki og sagðist hann þá telja það sjálfsagða kurteisi við þriðja aðila (umrætt fyrirtæki) að upplýsa ekki um það nema hafa fyrst samband við það, en að það væri ekki lagaleg skylda að gera það.  Þegar ég benti honum á að „kurteisi“ væri varla gild ástæða til að tefja afhendingu upplýsinga sem bæri að afhenda samkvæmt upplýsingalögum sagði hann að hann væri bara ekki viss um hvort mætti afhenda þessi gögn, en ætlaði að kanna það.
Mig grunar sterklega, miðað við hversu laumulega er rætt um þessi mál í fundargerðinni (hún er örstutt og lítið annað í henni en það sem ég birti hér að ofan) og hversu óljósar tölurnar um ætlaðan sparnað eru, að svona liggi í málunum:  Ákvörðunin var tekin án þess að gerð hafi verið sannfærandi athugun sem leiddi í ljós að það yrði ódýrara að bjóða vinnuna út til einkafyrirtækja, þótt ekki sé tekið tillit til annars en rekstrarreiknings félagsins.   Varðandi stefnu ríkisins í útvistunarmálum, sem ég tengdi á hér að ofan, stendur eftirfarandi í henni:
Útvistun er ætlað að auka skilvirkni í rekstri ríkisins með því að innleiða samkeppni við veitingu þjónustu. Með útvistun er þannig dregið úr kostnaði ríkisins við kaup og veitingu þjónustu.
Það er því alveg ljóst að til að útvista megi verkefnum þarf það að fela í sér sparnað fyrir ríkið.  Þótt því sé haldið fram í þessari fundargerð að sparnaðurinn verði umtalsverður leiðir leynimakkið í kringum þetta til þess að eðlilegt er að hafa efasemdir um að hér sé allt sem sýnist.  Vonandi fást skýr svör frá Sverri eftir helgi um fyrirtækið sem ekki má nefna, af hverju það var fengið til að gera kostnaðaráætlun og á hverju hugmyndin um 15-20 milljóna sparnað var byggð.
En burtséð frá því hvort þessir „útreikningar“ um sparnaðinn eru réttir er hitt ekki síður alvarlegt ef ekkert tillit er tekið til þeirra fjárhagslegu afleiðinga sem þetta er líklegt til að hafa fyrir hið opinbera, ef einhverjar þessara kvenna verða atvinnulausar í kjölfarið.  Jón Daníelsson hefur skrifað ágæta úttekt á því og fleiri hliðum málsins og bent á ýmiss konar kostnað og tekjutap sem skiptir máli fyrir rekstrarreikning ríkisins sem og annarra opinberra aðila.
Það gerir þetta mál svo sérlega sláandi að hér á að reyna að spara svolitla peninga á rekstrarreikningi ríkisins, sem full ástæða er til að efast um að yrðu nema brot af því sem kosta mun að kaupa undir ráðherrana þá nýju bíla sem til stendur, en þeir munu kosta þrisvar til fimm sinnum það sem þokkalegir fólksbílar kosta.  Af einhverjum ástæðum þurfti ekki að gera neina „athugun“ áður en farið var í þau bílakaup, og ríkið virðist ekki vera með neina „stefnu“ í því, aðra en að ráðherrarnir fái að velja sér bíla eins og börn í sælgætisverslun, sem óvart hafa farið með veski foreldranna með sér.
Miðað við tregðuna við að veita þær einföldu upplýsingar sem ég bað um,  þá liggur beint við að spyrja þessarar spurningar, sem er því miður réttmæt í ljósi reynslunnar á Íslandi: Er kannski þegar búið að ákveða hvaða einkavinir valdsins fái að græða á vinnu þeirra sem ráðnir verða á endanum til að sjá um ræstingarnar í stjórnarráðinu?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.11.2014 - 10:15 - 4 ummæli

Útlendingafordómar hjá Árna Páli, eða …?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 1. nóvember síðastliðinn sagði formaður flokksins, Árni Páll Árnason, meðal annars þetta:

„Íslendingar með meiri menntun flytja utan. Útlendingar með litla skólagöngu flytja til landsins.“

Ég sendi Árna Páli tölvupóst fyrir viku (og síðan tvær ítrekanir) og spurði hvað hann hefði fyrir sér í þessari staðhæfingu. Hann hefur ekki svarað. Einu gögnin sem ég hef rekist á sem tengjast þessu er Viðhorfskönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Fjölmenningarseturs frá október 2009. Sú könnun gefur alls ekki áreiðanlega mynd af skólagöngu innflytjenda á Íslandi, af því að hún er byggð á svörum fólks sem náðist í og vildi taka þátt, svo ekki er tryggt að úrtakið sé dæmigert. En þetta eru einu gögn sem ég hef rekist á um þetta (eftir ábendingu í góðum pistli Árna Matthíassonar um útlendingafordóma, í Morgunblaðinu 4. nóvember).

Af þeim innflytjendum sem svöruðu viðhorfskönnuninni 2009 höfðu um 22% lokið starfsnámi eða iðnnámi, um 13% bóklegu framhaldsskólanámi og um 51% háskólanámi. Nú veit kannski enginn hvaða skólagöngu þeir Íslendingar hafa lokið sem flust hafa frá landinu síðustu árin, en samkvæmt tölum Hagstofunnar höfðu árið 2010 aðeins um 25% Íslendinga lokið háskólanámi og um 36% framhaldsskóla.

Nú er auðvitað ekki útilokað að Árni Páll hafi í höndunum gögn sem styðji staðhæfingu hans, en ég leyfi mér að efast um það, sérstaklega í ljósi þess að hann vill ekki svara spurningu minni, sem ætti að vera einfalt mál, ef hann getur bent á slík gögn. Sá grunur er því sterkur að hér sé Árni Páll að staðhæfa hluti sem hann veit ekki.

Það væri kannski ekki stórmál þótt formaður stjórnmálaflokks henti á lofti tölfræðilegar staðhæfingar sem hann hefur ekki neinar heimildir fyrir, en það er verra en bagalegt að gera slíkt í máli sem þessu, þar sem fordómar gegn útlendingum eru óþægilega algengir á Íslandi og ekki bætandi á þá.

Það gerir þetta mál líka verra að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Árni Páll hefur sagt „óheppilega“ hluti um útlendingamál. Í kosningasjónvarpi RÚV í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor, þar sem fjallað var um útspil Framsóknar í moskumálinu, sagði Árni nefnilega að það væri eðlilegt og málefnalegt að fólk hefði „ótta í brjósti um stöðu sína og um fólk frá framandi löndum“. Þótt hægt sé að skilja slíkan ótta, sérstaklega í samfélagi þar sem stöðugt dynur á okkur fordómaáróður, þá er skelfilegt að formaður stjórnmálaflokks haldi því fram að hann sé eðlilegur og málefnalegur.

Ég geri ekki ráð fyrir að Árni Páll sé rasisti í venjulegri merkingu þess orðs, en rasisminn, eins og svo margt annað ljótt, læðist gjarnan bakdyramegin inn í hugskot okkar. Ég geri líka ráð fyrir að langflestu Samfylkingarfólki bjóði við útlendingaandúð, og vilji ekki sjá slíkt í flokki sínum. En þá þarf líka að taka til í huga formannsins, og sjá til þess að hann losi sig við vafasamar hugmyndir og falli ekki aftur í þá gryfju að éta upp fordómana sem eru illu heilli á sveimi í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is