Sunnudagur 10.12.2017 - 10:15 - 3 ummæli

Hversu algeng er kynferðisleg áreitni á vinnustöðum?

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Síðustu vikur hafa opnast flóðgáttir þar sem út hafa streymt frásagnir kvenna, í þúsunda tali, um ýmiss konar áreitni af hálfu karla, frá tiltölulega saklausri en durtslegri framkomu yfir í nauðganir, og allt þar á milli. Svo virðist af þessu, og því er gjarnan haldið fram í þessu átaki, að alvarleg kynferðisleg áreitni af hálfu karla sé gríðarlega algengt og útbreitt vandamál í flestum starfsgreinum. En hversu algengt er það?

Nú má auðvitað vera að stórkostleg aukning hafi orðið til hins verra frá árinu 2011, þótt það virðist frekar ósennilegt, og það er ekki útilokað að vinnustaðir Reykjavíkurborgar séu einhvern veginn miklu betri en almennt gerist, sem sýnist þó einnig ósennilegt, í ljósi þess hve þeir eru margir og fjölbreyttir.

Í viðhorfskönnun sem borgin gerði árið 2011 voru borgarstarfsmenn spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir áreitni af hálfu samstarfsfólks undangengna 12 mánuði. Könnunin náði til 6.738 starfsmanna borgarinnar og af þeim svöruðu 4.484, eða 67%. Af þeim sögðust um 0,2% hafa orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni, og um 0,3% fyrir kynferðislegri áreitni í orðum.

Sama var uppi á teningnum í könnunum Landspítalans 2010 og 2012, þar sem 1% starfsmanna (hlutföll eru gefin í heilum prósentum) sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu yfir- eða samstarfsmanna. Ég finn ekki tölur um þátttöku fyrir 2012, en 2010 voru það 2446 af 4134, eða um 59%, sem svöruðu.

Auðvitað getum við ekki verið viss um að þessar kannanir gefi fullkomna mynd af stöðunni, en á hinn bóginn hef ég ekki séð neinar kannanir af þessu tagi sem sýna allt aðra mynd.

Það er gott að talað sé opinskátt um kynferðislega áreitni, sem og aðra ósæmilega framkomu sem getur eitrað vinnuumhverfi fólks. Það er vonandi fyrsta skrefið í þá átt að tekið verði á slíkri framkomu, og að þeir sem gera sig seka um hana verði ekki lengur öruggir um að komast upp með slíkt, enda hefur það vonandi fælandi áhrif á flesta þeirra og leiðir til almennt betra vinnuumhverfis.

En það er slæmt að láta eins og þetta vandamál sé margfalt stærra í sniðum en raunin virðist vera; fjöldi frásagna af þessu tagi myndar ekki gögn sem segja til um hversu algengt þetta er, hvað þá hversu margir karlmenn stundi slíka hegðun. Og það er sérlega vont að krefjast þess að allir karlmenn taki ábyrgð á hegðun þeirra karla sem koma illa fram. Það er ekkert jákvætt við það að reyna að koma inn sektarkennd hjá þeim fjölmörgu, líklega langflestum, sem eru saklausir af alvarlegri hegðun af þessu tagi. Það er alveg jafn neikvætt og að krefjast þess að allar konur taki ábyrgð á þeim konum sem bera karla röngum sökum eða stunda umgengnistálmanir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.9.2017 - 10:15 - 7 ummæli

Skikkanlegur leigumarkaður – raunhæf lausn á húsnæðisvandanum

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er skikkanlegur leigumarkaður.

Það hefur aldrei verið til skikkanlegur leigumarkaður á Íslandi; hann hefur lengst af byggst á húsnæði sem einstaklingar hafa átt en ekki verið að nota í augnablikinu, og þess vegna verið afar ótryggur fyrir leigjandann, sem fyrirvaralítið missir heimili sitt af því að dóttir eigandans kemur allt í einu heim úr námi. Síðustu árin hafa vissulega orðið til félög sem eiga fjölda leiguíbúða, en það kemur ekki til af góðu, heldur því að þessi félög sjá sér leik á borði að raka saman gróða af því að leiguverð er orðið svo himinhátt að lítil íbúð kostar lungann úr tekjum þeirra sem minnst hafa.

Með þá háu raunvexti (og þar með ávöxtunarkröfu) sem verið hafa á Íslandi áratugum saman er útilokað að einkaaðilar geti boðið upp á leiguhúsnæði á viðunandi verði í stórum stíl. Þess vegna þarf hið opinbera að gera það mögulegt, af því að öruggt húsnæði, á viðráðanlegu verði, er grunnþörf sem við sem samfélag eigum að tryggja öllum.

Það þarf ekkert kraftaverk til að leysa þetta; hið opinbera getur einfaldlega látið byggja leiguhúsnæði og leigt út miðað við að raunvextir séu 1% en ekki þau 4% sem algeng hafa verið á Íslandi síðustu árin, enda getur ríkið tekið langtímalán erlendis á slíkum kjörum ef með þarf. Einnig gæti ríkið veitt lán á slíkum kjörum bæði leigu- og búseturéttarfélögum sem ekki væru hagnaðardrifin. Þessi 3% vaxtamunur myndi þýða 75 þúsund krónum lægri leigu á mánuði fyrir íbúð sem kostar 30 milljónir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.9.2017 - 11:06 - 9 ummæli

Hættum að misbeita Dyflinnarreglugerðinni og tökum hælisumsóknir til efnismeðferðar

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er að við hættum að misbeita Dyflinnarreglugerðinni og tökum hælisumsóknir til efnismeðferðar.

Í nýju útlendingalögunum, sem haldið var fram að bættu stöðu hælisleitenda, er ákvæði um að yfirvöld skuli ekki taka til efnismeðferðar umsóknir um hæli ef heimilt er að krefja annað ríki um að gera það.  Hér er átt við Dyflinnarreglugerðina, sem veitir heimild fyrir slíkri kröfu, en leggur engar skyldur á herðar Íslandi.  Auk þess hafa íslensk yfirvöld horft fram hjá íslensku barnalögunum, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og  viðbótarákvæðum við Dyflinnarreglugerðina sjálfa, sem skylda Ísland til að láta það ráð ákvörðunum í slíkum málum, þegar barn eru annars vegar, sem barninu er fyrir bestu (sjá umfjöllun hér).

Íslensk yfirvöld hafa skákað í því skjóli að verið sé að senda flóttafólk tilbaka til „öruggra landa“, en það er blekking, eins og lesa má um t.d. hér.

Með þessu er Ísland að misnota Dyflinnarreglugerðina, sem var ekki samþykkt til að Ísland kæmist hjá því að axla örlítinn hluta þess flóttamannavanda sem nú er í Evrópu.  Þetta er svo lítilmannlegt að maður myndi skammast sín fyrir að vera Íslendingur teldi maður sig bera einhverja ábyrgð á þessari mannvonsku.

Íslensk yfirvöld ættu auðvitað að hætta að brjóta íslenku barnalögin.  En við ættum líka að banna það algerlega að flóttafólk sé endursent á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar; Ísland ætti að skammast til að bera örlítinn hluta af þeim byrðum sem flóttamannavandinn er.  Þeim sem halda fram að það yrði efnahagsleg byrði á Íslandi að taka á móti miklu fleira flóttafólki má benda á að ekki bara er verið að flytja inn vinnuafl í stórum stíl til Íslands:  Svíþjóð tók á móti hundraðfalt fleira flóttafólki miðað við höfðatölu en Ísland þegar hæst stóð síðustu árin.  Þar var í fyrra gríðarlegur hagvöxtur.

En þótt það séu góð efnahagsleg rök fyrir því að taka á móti miklu fleira flóttafólki, og þótt það sé frábært að gera íslenskt samfélag fjölbreyttara með því, þá eru það ekki sterkustu rökin.  Heldur hitt, sem við eigum öll sameiginlegt, nefnilega mannúð, hjálpsemi og góðvild.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.9.2017 - 11:49 - 1 ummæli

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta

Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta en það er eitt mikilvægasta velferðarmálið.

Góð heilbrigðisþjónusta er grunnþörf sem við ættum að tryggja öllum borgurum, og það mega ekki vera hvatar í því kerfi sem letja fólk til að sækja sér nauðsynlega þjónustu og lyf.  Þess vegna er einfaldast að notendur greiði ekkert fyrir þjónustuna.  Auk þess að koma í veg fyrir að fólk neiti sér um slíka þjónustu myndi þetta spara umtalsverðar fjárhæðir í þeirri umsýslu sem núverandi kerfi hefur í för með sér, og þann tíma sem sjúklingar þurfa að eyða í að finna út hvað þeir eiga að borga í því flókna kerfi sem nú er í gildi.

Þetta mun auðvitað kosta aukin útgjöld úr ríkissjóði. En hér er um að ræða kostnað sem verður að borga með einhverjum hætti, til að tryggja heilsu borgaranna eins og best verður á kosið. Það er betra að greiða þann kostnað úr sameiginlegum sjóðum en að láta hvern og einn standa straum af hluta kostnaðarins fyrir sig, og viðhalda þannig því ástandi að þeir sem minnst hafa milli handanna hafi bókstaflega ekki efni á að nota heilbrigðisþjónustu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.9.2017 - 16:35 - 3 ummæli

Hvað ættum við að gera á næsta kjörtímabili?

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það verða kosningar eftir fimm vikur, og með smá heppni verður næsta kjörtímabil fjögur ár eða svo. Þær áherslur sem ég vil sjá á því kjörtímabili eru í stuttu máli þessar:

  • Samþykkjum nýju stjórnarskrána
  • Ríkið komi upp skikkanlegum leigumarkaði
  • Heilbrigðisþjónusta og lyf verði gjaldfrjáls
  • Eflum sveigjanleika og frelsi í skólakerfinu
  • Stöndum vörð um tjáningarfrelsið og önnur mannréttindi
  • Hættum að vísa brott hælisleitendum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar
  • Setjum upplýsingalög sem tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum
  • Stefnum að því að koma á lífvænlegum borgaralaunum

profkjor

Nýja stjórnarskráin: Það er óbærileg valdníðsla að sú stjórnarskrá sem kjósendur lýstu yfirgnæfandi stuðningi við helstu atriðin í 20. október 2012 skuli síðan hafa verið hunsuð af þinginu. Þessa stjórnarskrá ber að samþykkja, en til vara að tillögugerð um breytingar frá frumvarpi Stjórnlagaráðs yrði falin sams konar samkomu, sem kosin yrði beint af almenningi til þess verks.

Húsnæðismál: Viðunandi húsnæði er grunnþörf sem samfélagið ætti að leitast við að tryggja öllum borgurum. Til þess þarf fólk að geta leigt húsnæði á viðráðanlegu verði. Leigumarkaðurinn á Íslandi hefur aldrei boðið leigjendum upp á öryggi og síðustu árin hefur leiguverð verið svo hátt að leiga á lítilli íbúð kostar lungann úr tekjum þeirra tekjulægstu.

Vegna viðvarandi hárra raunvaxta er útilokað að einkaaðilar geti byggt upp leigumarkað með viðunandi leigu og öryggi til langs tíma.

Þess vegna legg ég til að hið opinbera beiti sér fyrir byggingu mörg þúsund íbúða á næstu árum sem verði leigðar hverjum sem er, til ótakmarkaðs tíma og á hóflegu verði. Eðlilegt er að miða við raunvexti upp á 1%, þar sem ríkið ætti að geta tekið erlend langtímalán á slíkum vöxtum ef með þarf. (Fyrir íbúð sem kostar 30 milljónir þýðir þetta 75.000 króna mun í leigu á mánuði, miðað við þann u.þ.b. 3% vaxtamun sem þetta er.)

Auk þess að koma upp leigumarkaði með þessum hætti væri sjálfsagt að veita búseturéttarfélögum lán á sams konar kjörum.

Heilbrigðiskerfið: Heilbrigðisþjónusta og lyf ættu að vera notendum gjaldfrjáls. Úr því það er hægt í Skotlandi, sem er ekki ríkara land en Ísland, hlýtur það að vera gerlegt á Íslandi. Auk þess að losa þá sem minnst hafa við áhyggjur af kostnaði vegna veikinda myndi þetta væntanlega spara talsverðar fjárhæðir í bókhaldi.

Mennta- og skólamál: Ég tók mikinn þátt í vinnunni við stefnu Pírata um mennta- og skólamál síðasta rúma árið (sjá hér), og tek heilshugar undir þessar tillögur. Mikilvægustu atriðin í þeim finnst mér vera aukinn sveigjanleiki og mikið frelsi skóla, nemenda og kennara till að stjórna kennslu og námi, að skólakerfið eigi að sinna menntunarhagsmunum hvers nemanda, en ekki hagsmunum atvinnnulífs og samfélags (nema óbeint), og að námsefni verði sem mest opið og ókeypis á netinu.

Mannréttindi: Það er mikilvægt að standa vörð um tjáningarfrelsið, og bæði óverjandi og hættulegt að gera tjáningu refsiverða á þeim forsendum að hún sé niðrandi fyrir tiltekna hópa fólks. Bara einstaklingar hafa mannréttindi; ekki hópar.

Hælisleitendur: Ísland ætti að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni til að vísa burt hælisleitendum til annarra landa. Hún var ekki samþykkt til að Ísland gæti verið stikkfrí í því neyðarástandi sem verið hefur í þeim málum í Evrópu síðustu árin. Samstundis þarf að stöðva brottvísanir barna, sem fara í bága við barnalög. Ísland verður betra af því að við fáum fólk frá mörgum menningarheimum.

Gagnsæi: Auk þeirra breytinga sem helst hafa verið ræddar í nýju stjórnarskránni tel ég ákvæðið um upplýsingalög afar mikilvægt. Það þarf að snúa við „sönnunarbyrðinni“; stjórnvald sem neitar að afhenda upplýsingar tafarlaust á að þurfa að vísa í vel afmörkuð undantekningarákvæði, sem helst eiga að vera í stjórnarskrá.

Borgaralaun: Vinnum að því að borgaralaun sem nægi til sómasamlegrar framfærslu verði að veruleika. Það yrði grundvöllur að samfélagi þar sem allir fengju að njóta sín án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.  Þetta er mál sem mun taka tíma að koma í gegn, og það er alls ekki raunhæft markmið fyrir næsta kjörtímabil.  Þess vegna er þetta ekki á listanum á myndinni efst í þessum pistli. Ég tel samt að við eigum að byrja strax að vinna að þessu markmiði, þótt það verði ekki að veruleika í nánustu framtíð.

 

Á þessu vefsvæði er að finna alla bloggpistla sem ég hef skrifað, á síðustu tæpum sex árum.

Höfundur er í framboði í prófkjöri Pírata fyrir alþingiskosningar 2017

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.6.2017 - 10:15 - 10 ummæli

Þegar lögreglan drap mann, að ástæðulausu

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í umræðum síðustu daga um vopnaburð lögreglu hafa margir spurt þá sem gagnrýna hann hvort þeir „treysti ekki lögreglunni“. Það er ekki alveg heiðarleg spurning í ljósi þeirrar staðreyndar að vopnuð lögregla um allan heim er alltaf að gera þau mistök að skjóta saklaust fólk, og nákvæmlega ekkert bendir til að vopnuð lögregla leiði til færri drápa á saklausum borgurum.

En það vill svo til að við höfum gögn, þótt lítil séu, um framgöngu vopnaðrar lögreglu á Íslandi þar sem maður var drepinn. Og ef við ættum að taka afstöðu til vopnaburðar hennar á grundvelli þeirra gagna yrði niðurstaðan augljós; það er stórhættulegt borgurunum að setja vopn í hendur lögreglu.

Í eina skiptið sem sérsveitin hefur drepið mann gerði hún það nefnilega að ástæðulausu, og skapaði sjálf viljandi aðstæður þar sem ljóst var að hún myndi drepa manninn. Það var afleiðing af ótrúlegu fúski, kunnáttuleysi, skeytingarleysi og árásargirnd. Og reyndar munaði hársbreidd að lögreglan ylli þar dauða annars, alsaklauss, manns sem hún kallaði sjálf á vettvang, að nauðsynjalausu, og gerði bókstaflega að skotmarki.

Allt þetta má lesa út úr skýrslu ríkissaksóknara, Sigríðar Friðjónsdóttur, og það þótt skýrslan sé ósvífinn hvítþvottur á þessu manndrápi lögreglunnar. Þess vegna finnst mér full ástæða til að endurbirta, örlítið breyttan, eftirfarandi pistil, sem birtist fyrst á Eyjunni fyrir þrem árum:

Manndráp lögreglu, hvítþvottur saksóknara

Maður spilar of háa tónlist í íbúð sinni um nótt, en angrar að öðru leyti engan mann.  Nágranni hringir í lögreglu, kvartar yfir hávaðanum og segir hann (ranglega) koma frá manninum M.  Nágranninn segir líka, ranglega, að heyrst  hafi skothvellur og telur, einnig ranglega og án nokkurra trúverðugra skýringa, að M hafi skotið sjálfan sig til bana.  Þetta verður til þess að lögregla mætir á staðinn og drepur manninn S.
Síðastliðinn föstudag birti ríkissaksóknari skýrslu um rannsókn sína á því þegar sérsveit ríkislögreglustjóra drap mann í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra. (Skýrslan sjálf er hér.)  Því miður hafa fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, lítið fjallað um þetta mál með öðrum hætti en að birta yfirlýsingar yfirvalda, sem hafa verið af afar skornum skammti.  Auk þess hefur nú  komið í ljós að mikilvægum upplýsingum um atburðarásina var leynt, t.d. þegar lögregla hélt blaðamannafund um málið og fegraði þar framgöngu sína.  Þótt skýrsla ríkissaksóknara varpi ljósi á sumar hliðar málsins sem áður voru óljósar sýnir skýrslan að rannsókninni virðist ekki hafa verið ætlað að leiða í ljós allan sannleikann í málinu, og alls ekki að greina ástæður þeirra augljósu mistaka lögreglunnar sem höfðu svo hryllilegar afleiðingar. Auk þess lét ríkissaksóknari lögreglu framkvæma þessa rannsókn á aðgerðum lögreglu að stórum hluta, sem rýrir trúverðugleika hennar verulega.
Upphaf málsins er að nágranni mannsins sem skotinn var til bana hefur samband við lögreglu og kvartar undan tónlistarhávaða.  Nágranninn nafngreinir manninn ranglega og lögreglan áttaði sig ekki á þeim mistökum fyrr en löngu síðar, og  lögreglumenn á vettvangi vissu ekki af því fyrr en þeir voru að brjótast inn í íbúðina, og jafnvel þá var það ekki lögreglan sjálf sem lét þeim í té þær upplýsingar.
Nágranninn segist hafa heyrt skothvell, sem var rangt, því samkvæmt rannsókn lögreglu var engum skotum hleypt af í íbúðinni áður en hún kom á vettvang.  En vegna þessarar röngu staðhæfingar nágrannans er ákveðið að kalla til sérsveitina, sem vopnast og tekur sér stöðu við íbúðardyrnar.  Nágranninn (sem af óútskýrðum ástæðum er tilgreint að hafi gegnt herþjónustu) taldi líka að umræddur maður hefði skotið sjálfan sig.  Ekki er útskýrt af hverju lögreglan taldi álit nágrannans áreiðanlegt, en svo mikið er víst að hún gekk út frá því sem vísu að hann hefði giskað rétt (þótt síðar hafi komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér, í báðum atriðum).  Sú ranga ályktun lögreglu að nágranninn hefði rétt fyrir sér hratt hins vegar af stað atburðarás sem trúlega hefði aldrei þurft að verða, en endaði með því að lögreglan skaut manninn til bana.
Lögregla ákvað sem sagt að brjótast inn í íbúðina, og fékk til þess lásasmið utan úr bæ, en sagði honum ekki frá því að inni í íbúðinni væri maður sem talið væri að væri vopnaður og hefði hleypt af skoti.  Lásasmiðurinn var látinn vinna verk sitt algerlega óvarinn, og lögreglan á staðnum var ekki varin að fullu eins og hún hefði átt að vera, því sá lögreglumaður sem stóð næst dyrunum var ekki með skotheldan hjálm.  Þegar dyrnar voru svo opnaðar skaut íbúinn á lögreglumann fyrir utan þær, en hann sakaði ekki.  Hefði það skot lent á lásasmiðnum en ekki skildi lögreglumannsins er trúlegt að lögreglan hefði nú líf lásasmiðsins einnig á samviskunni.
Augljóst er að lögreglan stofnaði lífi lásasmiðsins í hættu, og að það var gert á fráleitum forsendum, það er að segja getgátum nágrannans einum saman.  Samt útskýrir ríkissaksóknari hvergi af hverju hér er ekki um að ræða refsivert gáleysi.  Hvergi í skýrslunni er heldur rætt um ábyrgð stjórnenda aðgerðarinnar eða annarra yfirmanna í lögreglunni sem ábyrgð ættu að bera.
Ekki var reynt að hafa samband við ættingja mannsins eða aðra þá sem hugsanlega hefðu getað náð sambandi við hann, til dæmis gegnum síma, enda fjalla verklagsreglur sérsveitar og lögreglu ekki um slíkt, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, en hann gerir engar athugasemdir við skortinn á slíkum reglum.  Lögreglan bar fyrir sig að stuttur tími hefði verið til stefnu þar til „fólk færi til vinnu, börn í skóla og leikskóla o.s.frv.“  Ekki er útskýrt af hverju ekki var til dæmis hægt að senda lögreglumenn í alla stigaganga innan skotfæris við íbúð mannsins, til að koma í veg fyrir að íbúar sýndu sig utandyra.
Ríkissaksóknari segir líka í skýrslunni:
„Ekki verður séð að forsvaranlegt hefði verið að hafa samband við ættingja S og blanda þeim í aðgerðir lögreglu, sem voru hættulegar, auk þess sem ekki er gengið að upplýsingum um ættingja um miðja nótt, hvað þá að lögreglan geti vitað hvernig sambandi á milli fólks/ættingja er háttað og geti þannig metið hvort rétt sé að kalla þá til aðstoðar.“
Það er fáránlegt að halda fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á ættingjum mannsins, og fráleitt að gefa sér að enginn þeirra hefði getað fengið hann til að svara í síma, því ríkissaksóknari ákveður hér að lögreglan hafi lög að mæla án þess að færa nokkur rök fyrir þessari sérkennilegu afstöðu.
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að reyna að svæla manninn út úr íbúðinni með því að skjóta inn í hana gashylkjum, sem ættu að neyða hann til að yfirgefa íbúðina.  Rétt er að hafa í huga að þegar það var gert hafði maðurinn engum skotum hleypt af nema þegar brotist var inn í íbúðina.  Hann hafði sem sagt engan áreitt og ekki reynt að skaða neinn nema þegar brotist var inn í íbúðina, og ekkert sem bendir til að hann hafi haft slikt í hyggju.
Sú ákvörðun að beita gasi til að svæla manninn út er illskiljanleg, því maðurinn hafði áður brugðist við innrás í íbúðina með því að skjóta, og því varð að telja afar líklegt að hann myndi skjóta á lögreglu fyrir utan íbúðina ef hann léti svælast út úr henni.  Ljóst var líka að ef það gerðist myndi lögreglan drepa hann.  Lögreglan setti því vísvitandi af stað atburðarás sem yfirgnæfandi líkur voru á að myndi enda með því að manninum yrði banað, þótt hann hefði fram að því engum ógnað eða gert sig líklegan til að skjóta, nema þegar beinlínis var ráðist á hann.  Aldrei hefur verið útskýrt með skynsamlegum hætti af hverju lögregla beið ekki átekta, enda ætti hún að þekkja ótal sögur erlendis frá þar sem umsátur af þessu tagi stendur dögum saman.
Aðgerðinni lauk svo með því að lögregla braust inn í íbúðina eftir að gríðarlegum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn um glugga og dyr, án þess að íbúinn kæmi út.  Þegar þangað var komið skaut maðurinn aftur gegn lögreglu.  Lögreglan sagði, samkvæmt ríkissaksóknara, að hún hefði ekki getað hörfað út úr íbúðinni, þótt ekki sé útskýrt af hverju, og því „neyddist“ hún til að skjóta manninn, og bana honum þannig.
Ljóst er að lögreglan hóf vopnaðar aðgerðir sínar á fölskum forsendum, sem hún reyndi ekki að sannreyna með nokkrum hætti.
Ljóst er að lögreglan setti lásasmiðinn í bráða lífshættu, og að fyrir því var engin afsökun.
Ljóst er að lögreglan réðst inn í íbúð manns sem engum hafði ógnað, sem leiddi til þess að hann skaut á lögreglumennina.
Ljóst er að lögreglan setti af stað, í stað þess að bíða átekta meðan maðurinn bærði ekki á sér og ógnaði engum, atburðarás sem nánast öruggt var að myndi leiða til þess að hún banaði honum.
Í stuttu máli er ljóst að lögreglan gerði mörg mistök, að sérsveitin ræður alls ekki við aðstæður af þessu tagi, og að það var hún sem þvingaði fram atburðarás sem leiddi til þess að hún drap mann, sem engum hafði ógnað áður en lögreglan kom til sögunnar.  Ljóst er einnig að yfirvöld, þar á meðal ríkissaksóknari, hafa engan áhuga á að upplýsa málið til fulls, og engan áhuga á að læra af mistökunum, bara að breiða yfir þau mistök sem höfðu svo hræðilegar afleiðingar.  Ljóst er því að ekkert verður gert til að koma í veg fyrir að harmleikur af þessu tagi endurtaki sig, því mikilvægara virðist vera að hvítþvo yfirvöld en að tryggja öryggi borgaranna.(Í útvarpsþættinum Harmageddon var fjallað um þetta mál í fyrradag)

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is