Þriðjudagur 15.3.2016 - 10:15 - 5 ummæli

Stutt þing, nýja stjórnarskrá

[þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu, en er örlítið breyttur hér]

Óháð því hvað verður um máttlausar tillögur stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra ættum við sem viljum að tillaga Stjórnlagaráðs verði samþykkt að leggja ofuráherslu á að það verði gert sem fyrst. Skynsamlegast tel ég að það verði gert eftir næstu kosningar (í apríl á næsta ári), á kjörtímabili sem standi aðeins í nokkrar vikur. Þar verði þetta mál afgreitt og boðað til nýrra kosninga í seinasta lagi í lok ágúst.

Rökin eru þessi: Ef það á að samþykkja þessa nýju stjórnarskrá þarf að gera það á tveim þingum, með kosningum á milli. Það væri glapræði að ætla að draga þá samþykkt til loka langs kjörtímabils, bæði af því að það er ástæðulaust að bíða með að þessi stjórnarskrá taki gildi og af því að á löngu kjörtímabili er hætt við að samstarf þess meirihluta sem það ætlar að gera veikist svo að málið lendi í ógöngum. Ef ætlunin er að kjörtímabilið verði ekki í fullri lengd er engin ástæða til að hafa það lengra en svo að hægt sé að ræða málið sómasamlega, og samþykkja nýju stjórnarskrána. Þannig yrði það mál afgreitt og önnur mikilvæg mál tekin fyrir strax um haustið eins og venja er, á kjörtímabili af venjulegri lengd.

Auk hættunnar á að samstaða meirihluta á þingi veikist um of á löngu kjörtímabili eykst líka hættan á að eftir það taki við meirihluti sem ekki samþykkir nýju stjórnarskrána, eins og nauðsynlegt er. Fái þeir flokkar meirihluta sem lýsa yfir þessari stefnu fyrir kosningarnar í apríl, þá ættu að vera miklar líkur á að sá meirihluti haldi í kosningum fáum mánuðum síðar, þegar ekkert hefur gerst í millitíðinni annað en það sem lofað var fyrir kosningar.

Ég tel því að Píratar ættu að reyna að komast að samkomulagi við aðra flokka um þetta. Að næsta kjörtímabil verði örstutt og á því verði samþykkt ný stjórnarskrá, í öllum aðalatriðum samhljóða tillögu Stjórnlagaráðs. Þetta verði kynnt fyrir kosningar svo kjósendur viti hvað þeir eru að kjósa. Samið verði fyrirfram um hámarkslengd á kjörtímabilinu, sem verði ekki lengra en svo að hægt verði að kjósa aftur (eftir þingrof) í seinasta lagi í lok ágúst.

Á þeim tíma sem þingið stendur verði rætt um hugsanlegar minniháttar (en engar efnislegar) breytingar á tillögu Stjórnlagaráðs. Í þeim atriðum sem ekki næst samkomulag meirihluta á þingi um breytingar, skuldbindi þeir sem standa að þessu samkomulagi sig til að samþykkja viðkomandi ákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs óbreytt.

Einnig verði lýst yfir, fyrir kosningar, að tilraunir minnihluta til að drepa málið með málþófi verði stöðvaðar, enda væri andlýðræðislegt að minnihluti þingsins gæti komið í veg fyrir að meirihluti þess samþykkti það sem meirihluti kjósenda hefði lýst yfir stuðningi við, með því að kjósa framboð sem hefðu þessa yfirlýstu stefnu.

Sjálfsagt er að reyna að semja við minnihlutann á þingi um hvernig umræðum um málið skuli háttað, og tryggja þarf að minnihlutinn fái góðan tíma til að tjá sig um það. En skýrt verður að vera að það séu tímatakmörk á umræðunni, og að henni muni ljúka með atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.2.2016 - 20:50 - Rita ummæli

Maðkað mjöl í boði Finns Árnasonar og lífeyrissjóðanna

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Finnur Árnason, forstjóri Haga sem eiga Hagkaup, Bónus og fleiri fyrirtæki, var í Kastljósi RÚV í gærkvöldi þar sem rætt var um

„nýja skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð, búvörusamninga, samkeppnismál, gagnrýni á laun hans og stjórnenda Haga og mikinn hagnað heildsölufyrirtækisins Banana sem Hagar eiga en fyrirtækið ræður yfir allt að 60 prósent af heildsölumarkaði með ávexti, grænmeti og kartöflur á Íslandi. Hagar hafa á síðustu fjórum árum fengið hátt í fimm milljarða í arð út úr því fyrirtæki, en velta þess er milli 7 og 8 milljarðar króna á ári.“

Í frétt RÚV um málið segir:

„Finnur Árnason forstjóri Haga segir það rétt að sterkara gengi hafi ekki skilað sér í lægra verði til neytenda. Hagar beri þó ekki ábyrgð.“

Auðvitað ber Finnur og fyrirtæki hans enga ábyrgð, nema gagnvart eigendum sínum. Það eina sem hann ber ábyrgð á er að græða nógu fjandi mikið. Ef það er hægt að gera með því að kaupa grænmeti erlendis sem þar hefði verið hent eða notað í svínafóður, og selja það svo á margföldu verði góðs grænmetis, þá er hann að vinna vinnuna sína fyrir eigendur. Það er ekki ætlast til þess að menn í hans stöðu hugsi um annað en að græða sem mest, sama hversu viðurstyggilegar aðferðir hans eru.

Og það er einmitt þannig sem aðferðirnar eru. Ég get a.m.k. ekki ímyndað mér að Finnur sé svo lélegur bisnissmaður (sérstaklega í ljósi þeirra ofurlauna sem hann fær) að hann láti plata sig til að borga fullu verði það ónýta rusl sem er stór hluti af grænmetinu sem selt er í verslunum Haga (og fleiri verslunum á Íslandi).

Dæmin um þetta eru óteljandi; það er sama hvort maður kaupir tómata eða lauk eða mandarínur eða epli eða salat, alltaf má maður eiga von á því að hluti af því sé skemmt, og oft þannig að það sést ekki fyrr en búið er að opna pakkana eða skera í sundur. Eitt svívirðilegasta dæmið um þetta eru innfluttar gulrætur, sem oftar en ekki eru ekki bara slepjulegar heldur bókstaflega margar skemmdar í hverjum poka, og allar eftir örfáa daga í ísskáp. Samt eru þær seldar á svo háu verði að það væri stórgróði af sölunni þótt keyptar hefðu verið fyrsta flokks gulrætur úti í búð í Glasgow og sendar heim með flugi.

Í stuttu máli er augljóst öllum sem búið hafa í nágrannalöndunum að það er eitthvað meirháttar rotið í verslun með grænmeti og ávexti á Íslandi (og svo sem margar fleiri vörur). Verðlagið er oft svívirðilega hátt, en vörurnar meira og minna ónýtt drasl.

Hitt er svo auðvitað kaldhæðni djöfulsins að lífeyrissjóðir skuli eiga stóran hlut í þessu ógeðslega fyrirtæki, og selja almenningi, sem að nafninu til á þessa lífeyrissjóði, nútímaútgáfuna af maðkaða mjöli dönsku einokunarverslunarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.1.2016 - 10:15 - 3 ummæli

Sannleiksförðun og karlaníð Hrannars B. Arnarssonar

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það er mörg manneskjan nú um stundir sem vill slá sig til riddara með því að berja sér ógurlega á brjóst og krukka með bitlausum kuta í ræksnið af karlaveldinu, sem liggur í andarslitrunum, og þótt fyrr hefði verið. Það er engin ástæða til að amast við því í sjálfu sér, en hitt er dálítið lakara að í stað þess að fagna dauða þursins espa hinir blóðþyrstu til áframhaldandi ófriðar, nú gegn helmingi samfélagsins, þeim sem hafa fæðst karlkyns, án þess að vera spurðir hvort þeir kærðu sig um það, og þótt nánast engir þeirra hafi nokkurn tíma tilheyrt neinu karlaveldi.

Nýjustu atlöguna að þessu máttfarna skrímsli gerði hinn hugumprúði riddari Hrannar B. Arnarsson, núverandi framkvæmdastjóri flokkahóps jafnaðarmannna í Norðurlandaráði. Vopn hans í árásinni eru heimildir um heimilisofbeldi á Norðurlöndunum og framferði ISIS-liða, enda virðist hann telja hvort tveggja runnið af sömu rótum, hinu illa karlaveldi.

Hrannar tvinnar saman ýmsar staðreyndir, og gerir það listavel (gefi maður sér að markmið hans hafi verið að blekkja lesandann en ekki að þjóna sannleikanum). Hann segir meðal annars þetta:

„Samkvæmt norrænum rannsóknum, er algengast að morð séu framin í tengslum við heimilisofbeldi eða í nánum samböndum einstaklinga. Á Íslandi hafa 10 slík morð verið framin á liðnum 12 árum, eða um 60% allra morða á tímabilinu og í Noregi voru 206 morð, eða um fjórðungur allra morða á tímabilinu frá 1990-2014 framin af einstaklingi sem átti í nánu sambandi við hinn myrta. Í Finnlandi eru 17 konur myrtar með þessum hætti á hverju ári og í Svíþjóð 21 kona.

Sú staðreynd blasir einfaldlega við, að jafnvel á Norðurlöndnunum, þar sem jafnrétti kynjanna er mest í öllum heiminum, er líklegra að konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum. Morð í tengslum við heimilisofbeldi eða náin sambönd einstaklinga, eru þó aðeins ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“

Í fyrri efnisgreininni talar Hrannar fyrst um öll makamorð (morð í nánum samböndum) á Íslandi, en lýkur henni svo með því að tala um konur sem myrtar eru af maka. Í seinni efnisgreininni talar hann svo eingöngu um makamorð karla á konum og staðhæfir að konur á Íslandi séu líklegri til að falla fyrir hendi maka en nokkurs annars. Vel má vera að það sé rétt, en þær tölur sem Hrannar nefnir sýna það alls ekki. Hann virðist hafa blekkt sjálfan sig, því vonandi var hann ekki vísvitandi að reyna að blekkja lesendur.

Hrannar talar hér eins og þessi 60% morða á Íslandi á síðustu 12 árum sem framin voru í tengslum við heimilisofbeldi séu morð karla á konum, og dregur þá ályktun að um sé að ræða „birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“ Samkvæmt tölum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar (neðst til hægri í þessu skjali) voru reyndar framin 11 en ekki 10 morð af þessu tagi á Íslandi á árunum 2003-14. Af þeim voru þrjú framin af konum og varla geta þau morð verið „ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla“, eða hvað?

Mér virðist (af því að skoða dóma siðasta árs í héraði og Hæstarétti) að eina makamorðið árið 2015 hafi verið þetta, þar sem kona myrti maka sinn. Miðað við það hafa á síðustu 13 árum verið framin tólf makamorð, fjögur þeirra af konum. Það er að segja, svo virðist sem einn þriðji makamorða síðustu 13 ára, eða 33%, hafi verið framinn af konum.

Samt dregur Hrannar þessa ályktun í lok greinar sinnar:

„Því ætti að vera óhætt að fullyrða að alvarlegasta ofbeldisógn samtímans er ekki hryðjuverk eða einstök trúarbrögð, heldur ofbeldi karla gagnvart konum. Og þannig hefur það verið um áratugaskeið, þó að fram til þessa hafi lítið borið á liðssafnaði eða aðgerðum okkar ástsælu stjórnmálaleiðtoga til höfuðs þessari meinsemd hins ofbeldisfulla karlaveldis – eða feðraveldis, eins og það heitir víst samkvæmt fræðunum.“

Burtséð frá því hversu óheiðarlegt það er að gefa í skyn að makamorð á Íslandi séu bara morð karla á konum, þegar staðreyndirnar eru allt aðrar, þá er líka vitfirring að tala um þessi morð sem verk einhvers konar karlaveldis. Á síðustu 13 árum (sem þessar tölur fjalla um) hefur um það bil einn af hverjum tuttugu þúsund karlmönnum á Íslandi myrt maka sinn (og ein af hverjum fjörtíu þúsund konum). Að draga þá ályktun að þessi morð tengist einhverju sem sé sameiginlegt karlmönnum, af því að 0,005% þeirra fremji svona glæp, lýsir hugsunarhætti sem á ekkert skylt við rökhugsun.

Markmið Hrannars, og flestra þeirra sem hamra endalaust á því að á Íslandi ríki karl- og feðraveldi, er ekki að færa rök fyrir máli sínu, né heldur virðist það vera að bæta eitt eða neitt, því ekki er að sjá neinar tillögur um hvernig hægt væri að fækka makamorðum sem eru víst feðraveldinu að kenna. Markmiðið er augljóslega að kynda undir venslasekt allra karlmanna; þeir skulu allir stimplaðir samsekir því örlitla broti þeirra sem eru ofbeldismenn og morðingjar. Það er sama markmiðið og allir lýðskrumarar hafa sem finnst handhægt að geta bent á tiltekinn þjóðfélagshóp og kennt honum um allt sem miður fer.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.12.2015 - 15:40 - 6 ummæli

Skrípaleikur Karls Garðarssonar með tölur

[Birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Í þessari frétt á Eyjunni er haft eftir Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknar, að gagnrýni Kára Stefánssonar á afstöðu ríkisstjórnarinnar til fjárframlaga til Landspítalans sé „pólitískur skrípaleikur“. Það rökstyður hann með því að benda á að framlög til LSH hafi aukist um 30% á síðustu þrem árum, og slíkt hafi varla gerst annars staðar á byggðu bóli. Staðhæfing Karls, um aukninguna á síðustu þrem árum, virðist vera nokkurn veginn rétt, nema hvað ekki er tekið tillit til verðþróunar (á föstu verðlagi er þetta 23,3% hækkun frá 2012 til 2015). Það vantaði hins vegar dálítið í þessa sögu hjá Karli; hann byrjaði söguna á „heppilegum“ stað. Samkvæmt gögnum frá Velferðarráðuneytinu (Tafla 5, á bls. 12), líta framlög til LSH svona út síðan 2008 (á föstu verðlagi ársins 2015, þegar búið er að bæta við því aukaframlagi sem LSH fékk á þessu ári):

2008

2009

2010

2011

2012

2013

2014

2015

49,0

45,3

40,6

40,0

39,8

42,4

43,6

49,1

Það er rétt hjá Karli að hækkunin síðustu þrjú ár hefur verið mikil. En eins og sjá má á töflunni hefur hækkunin frá árinu 2008 verið nánast engin, þ.e.a.s. 0,1 milljarður eða 0,2%. Núll komma tvö prósent …

Það segir heldur ekki alla söguna, því ljóst er að gríðarlegur niðurskurður á árunum þar á milli hefur skapað uppsafnaða fjárþörf til að halda í horfinu, sem ekki hefur verið bætt úr.  Miðað við að spítalinn hefði fengið sama framlag öll árin eru það samtals rúmir 42 milljarðar sem skorið hefur verið niður um.

Karl Garðarsson sagði sem sagt nokkurn veginn satt. En útkoman úr því sem hann sagði var hins vegar ósmekkleg lygasaga, því hann notaði þetta til að gefa í skyn að ástandið væri alls ekki svo slæmt, og að það væri eitthvað mikið að fólki sem leyfði sér að gagnrýna það.

PS. Kærar þakkir til Guðbjargar Pétursdóttur, sem benti mér á þessi gögn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.12.2015 - 11:59 - 5 ummæli

Opið bréf til Ólafar Nordal um hælisleitendur

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Sæl Ólöf,

Þegar ég ákvað að skrifa þér var það þessi frétt sem ég hafði í huga, og ætlaði eiginlega bara að fjalla um hana:

http://www.dv.is/frettir/2015/12/8/fjogurra-manna-fjolskylda-rekin-ur-landi-langveikur-sonur-faer-ekki-lyf/

Og bara að biðja þig, kurteislega og innilega, að sýna ekki þá grimmd að vísa þessu fólki úr landi. Sem ég geri hér með. En, svo rifjuðust upp fyrir mér fleiri mál sem þú berð ábyrgð á.

Íslensk yfirvöld hafa hræðilega oft komið illa fram við hælisleitendur síðustu árin. Ég þekki vel til nokkurra mála þar sem bæði Útlendingastofnun og forverar þínir á ráðherrastóli hafa tvímælalaust brotið gegn þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Ísland hefur ekki beinlínis fengið neina dóma á sig hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í málefnum hælisleitenda enn sem komið er, en óhætt er að segja að einn af forverum þínum hafi gert sig sekan um mannréttindabrot samkvæmt dómum MDE, eins og fram kemur í því sem er reifað hér, um brot sem afsökuð voru, ranglega auðvitað, með Dyflinnarreglugerðinni:

http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/sites/files/mannrettindastofnun/Mannrettindi%201%20hefti%202011%203%20pr.pdf

Nýlega var sagt frá því í fréttum að til stæði að senda hælisleitendur tilbaka til Ítalíu, með skírskotun til Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er ómannúðlegt í meira lagi, því allir vita hvernig staðan er í málum flóttamanna þar. Það er líka lítilmannlegt af jafn ríku landi og Íslandi, sem hefur tekið á móti svo ótrúlega fáum hælisleitendum. Ég vona að þú takir ekki þá áhættu að MDE muni úrskurða að þú hafir gert þig seka um mannréttindabrot, sem væri ekki bara ljótt í sjálfu sér, heldur enn verra í ljósi þess að þú ert æðsta vald í mannréttindamálum á Íslandi.

En ef þú stöðvar ekki brottvísanir til Ítalíu, sem þú hefur sjálf lýst yfir að sé ekki „öruggt land“ (sem er alveg rétt hjá þér), þá áttu á hættu að verða dæmd sek. Ekki bara af MDE, heldur líka af sögunni, eins og forverar þínir sem vísuðu gyðingum á dyr fyrir áttatíu árum eða svo.

Ef þú ert heiðarleg manneskja, sem ég geng út frá, og mannvinur, frekar en hitt, sem ég geng líka út frá, þá sé ég ekki að þú eigir neina kosti aðra en að lýsa yfir, og sjá til, að engri manneskju verði vísað tilbaka til Ítalíu, Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú reglugerð var ekki sett til að lönd eins og Ísland gætu komist hjá því að sýna mannúð og sanngirni. Að íslensk yfirvöld reyni að notfæra sér þessa reglugerð er í besta falli grimmdarlegt, en trúlega líka mannréttindabrot. Sem yrði á þína ábyrgð. Á þína ábyrgð, sem ráðherra mannréttindamála á Íslandi.

Hugsaðu málið, Ólöf. Hugsaðu málið og veltu fyrir þér hvort þú vilt kannski hætta á að veita dvalarleyfi fólki sem þú gætir mögulega komist upp með að halda fram að eigi ekki rétt á því. Eða frekar hætta á að senda fólk út í algera óvissu, eða eitthvað þaðan af verra. Hvort þú vilt hætta á að brjóta gegn því sem heilagast á að vera í mannheimum, mannréttindum. Og taka þá áhættu að verða dæmd af sögunni, eins og þeir sem úthýstu gyðingunum, og verða dæmd eins og allir nema einn vegfarendanna í sögunni um miskunnsama Samverjann.

Hugsaðu málið, Ólöf.

Bestu kveðjur,

Einar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.12.2015 - 10:15 - 9 ummæli

Femínismi, venslasekt og vondir karlar

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

[Þessi pistill hefur verið leiðréttur, þar sem upphaflega var ranglega haldið fram að um væri að ræða grein en ekki viðtal.]

Nýlega birtist þetta viðtal, þar sem körlum er, beint og óbeint, lýst sem ofbeldisfullum, og allt ofbeldi gert „karllægt“ og tengt við hugmyndir um „karlmennsku“ sem hljóta að koma spánskt fyrir sjónir þeim sem alist hafa upp meðal íslenskra karla og kvenna síðustu áratugina.

Ef til vill gengur þeim sem þannig tala gott til, í baráttunni gegn „kynbundnu“ ofbeldi. Það breytir því ekki að útkoman er frekar ógeðfelldur og niðrandi áróður gegn hópi fólks sem allt er sett undir einn hatt, á sama hátt og fordómafullt fólk talar um múslima í heilu lagi eins og þeir beri ábyrgð á voðaverkum örfárra íslamskra hryðjuverkamanna, vegna þess eins að hafa alist upp á menningarsvæði sem telur vel á annan milljarð manns. Hér er um að ræða rökvillu sem kalla mætti venslasekt (guilt by association). Verst er að margir þeir sem gera sig seka um þetta gera sér vel grein fyrir rökvillunni, en nota hana markvisst til að níða niður fólk sem tilheyrir tilteknum hópum sem það hefur ekkert val um að tilheyra.

Greinin byggir á viðtali við tvo karla sem tala eins og þeir viti nákvæmlega hvað „karlmennska“ sé, og að hún sé hræðilega ljótt fyrirbæri sem bókstaflega dýrki ofbeldi. Ekki er bara haldið fram að karlmenn séu aldir upp við það sem eðlilegt og sjálfsagt að koma illa fram við annað fólk; þetta meinta uppeldi karlmanna er líka sökudólgurinn þegar konur gera sig sekar um sams konar athæfi:

„En það gerir þetta ekki kynhlutlaust. Það þýðir bara að sumar stúlkur og konur eru farnar að taka upp hefðbundna hlutverkið sem við höfum kennt drengjum og körlum, sem felur í sér að ráðskast með og lítilsvirða aðra.“

Þetta er sérlega furðuleg staðhæfing þegar betur og betur virðist vera að koma í ljós að konur beita ekki síður ofbeldi í samböndum en karlar, og allir vita að ungar stúlkur beita kynsystur sínar oft alls konar andlegu ofbeldi, sem er ekki endilega skárra en það líkamlega. En nei, það er ekki við ofbeldiskonurnar að sakast heldur hvernig „við“ höfum „kennt“ körlum á öllum aldri að koma fram.

Hér er líka viðruð klisjan um að þegar karl beiti konu ofbeldi sé markmiðið kúgun karla sem hóps á konum sem hópi, og það þótt nánast öllum karlmönnum finnist slíkt ofbeldi viðurstyggð, auk þess sem ótrúlegt verður að telja að karl sem misþyrmi konu sé að hugsa um ímyndaða sameiginlega hagsmuni karla:

„Kynbundið ofbeldi á sér ýmis markmið. Eitt af þeim er að viðhalda valdamisræmi milli karla og kvenna, eða milli karlahópa og kvennahópa.“

Það er sturlað að halda fram að drengjum og körlum sé „kennt“ af samfélaginu að beita konur ofbeldi, en það er svo sem ekki nýtt að dólgafemínistar kynni hugmyndir sem eru fullkomlega fáránlegar, af því að það þarf að troða veruleikanum inn í kennisetningar réttu trúarbragðanna. Það er líka afar sérkennilegt að tala eins og drengjum og körlum í samfélagi okkar sé kennt að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“. Ég kannast hvorki við að hafa fengið slíka „kennslu“ né að hafa séð öðrum karlmönnum kennt þetta.

Ég skil heldur ekki hvar þessi kennsla á að fara fram. Varla í leikskólum, þar sem nánast allir starfsmenn eru konur? Og varla heldur í grunnskólunum, þar sem konur eru 80% kennara? Er það á heimilunum, þar sem um það bil helmingur foreldra er konur? Horfa mæður aðgerðalausar upp á að feður kenni sonum sínum að „ráðskast með og lítilsvirða aðra“? Eða eru konurnar sem sjá að svo stórum hluta um börn frá fæðingu til framhaldsskólaaldurs svo mikil „karlmenni“ að þær taki þátt í eða stjórni jafnvel þessu viðurstyggilega uppeldi?

Karlarnir tveir sem talað er við hafa líka hugmyndir um karlmenn sem ég kannast ekki við, og velti fyrir mér hvað fólki finnst almennt um þetta (þ.e.a.s. fólki sem ekki trúir blint á kennisetningar dólgafemínismans):

„Við karlar, sérstaklega þegar við erum ungir, erum gríðarlega hræddir um að vera ekki alvöru karlmenn, að standa ekki undir væntingum karlmanna, að vera ekki nógu karlmannlegir sjálfir. Hvaða valkosti hefur drengur eða ungur maður til að sanna fyrir sjálfum sér, vinum sínum og umheiminum að hann sé alvöru karlmaður? Til eru ýmsir valkostir. Sumir verða íþróttahetjur og nota það sem vitnisburð um karlmennsku sína. Aðrir karlar ganga til liðs við ISIS og segja: „Með því að vera stríðsmaður, með því að nota ofbeldi til að svipta aðra lífinu, þá sanna ég karlmennsku mína og óttaleysi mitt.““

Afar fáir karlmenn verða íþróttahetjur, svo fáir að fáránlegt er að draga ályktanir af því um karlmenn almennt. Sama gildir um ofbeldisfulla ISIS-liða; þeir eru örlítið brot af þýðinu sem þeir koma úr. Það sem verra er við þessa „röksemdafærslu“ er að jafnvel þótt ofbeldisfullir karlmenn líti á ofbeldið sem karlmennskutákn þá segir það nákvæmlega ekki neitt um hvað sé algengt meðal karlmanna eða í samfélaginu.

Ég held að það sé hrein firra að það hafi, a.m.k. í marga áratugi, þótt karlmannlegt á Íslandi að beita konur ofbeldi. Þeir sem halda slíku fram og að við verðum að „skilja“ af hverju (sumir) karlar beiti konur ofbeldi eru á villigötum þegar þeir tengja ofbeldið við kyn ofbeldismannsins, eins og það skýri ofbeldið.

Þeir sem tala um allt illt sem „karllæga“ eiginleika vilja gera karlmenn tortryggilega og ábyrga fyrir öllu sem miður fer í samfélaginu. Slíkt fólk mun aldrei gera gagn í baráttunni gegn ofbeldi. Þvert á móti kyndir það undir skaðlegum fordómum, alveg eins og þeir sem reyna að gera alla múslima tortryggilega, og þeir sem fyrir 70-80 árum gerðu gyðinga að blórabögglum.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is