Mánudagur 13.10.2014 - 10:15 - 26 ummæli

Ósannindamanneskjan Þórey Vilhjálmsdóttir

Þórey Vilhjálmsdóttir, sem enn er aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem enn er innanríkis-(en ekki dóms- og lögreglumála-, en samt hælisleitendamála)ráðherra, hefur stefnt tveim blaðamönnum DV fyrir meiðyrði. Ástæðan er að þeir héldu því fram að Þórey væri „starfsmaður B“, sem nefndur var í dómi héraðsdóms í lekamálinu. Örfáum klukkutímum eftir að þetta ranghermi birtist í DV var það leiðrétt, og beðist afsökunar, og blaðamennirnir sendu þar að auki strax fréttatilkynningu til fjölmiðla til að tryggja að ranghermið fengi ekki meiri útbreiðslu.

Blaðamennirnir, Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, höfðu sem sagt skrifað frétt þar sem haldið var fram að „starfsmaður B“ væri Þórey, en leiðréttu það strax þegar þeir komust að því að þar var átt við hinn aðstoðarmanninn, Gísla Frey Valdórsson, sem nú sætir ákæru í lekamálinu.

Þórey hugsaði sig vel og lengi um, eins og kemur fram í yfirlýsingu frá henni um stefnuna. Niðurstaða þessarar vönduðu ígrundunar hennar var að eðlilegt sé að ummælin skammlífu verði dæmd „dauð og ómerk“ og að blaðamennirnir greiði henni þrjár milljónir króna vegna þess miska sem þetta nokkurra klukkustunda ranghermi hefði valdið henni.

Þetta er þó ekki nóg, finnst Þóreyju. Hún komst að þeirri niðurstöðu, þegar hún hafði hugsað málið vandlega, að eðlilegt væri að blaðamennirnir sætu í fangelsi í eitt ár vegna þessa.

Nú vill svo til að í sjálfri stefnunni, sem birt hefur verið opinberlega, eru rangfærslur um það sem blaðamennirnir skrifuðu um þetta mál. Í stefnunni stendur meðal annars:

„Sú umfjöllun náði svo hámarki með þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á þar sem beinlínis er fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu án þess að þær staðhæfingar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum.“

Eins og sjá má af upphafi stefnunnar, þar sem þau ummæli eru talin upp sem krafist er ómerkingar á, er hvergi „fullyrt að stefnandi hafi lekið minnisblaðinu“. Einnig segir í yfirlýsingu Þóreyjar:

„Ýjað var að því í nokkra mánuði að ég hafi lekið trúnaðargögnum þar til að blaðamennirnir bitu höfuðið af skömminni með því að birta umræddar ásakanir sem sannaðar staðhæfingar í blaðinu þann 20. júní sl.“

Þetta er líka rangt; því er hvergi haldið fram í blaðinu að um sé að ræða sannaðar staðhæfingar þess efnis að Þórey hafi lekið skjalinu.

Þórey ber sem sagt rangar sakir á blaðamenn í stefnunni, sakir sem vega að starfsheiðri þeirra, og þær ásakanir hefur hún enn ekki dregið tilbaka, mörgum dögum eftir að þær birtust. Þeir Jón Bjarki og Jóhann Páll munu þó ekki ætla að stefna Þóreyju fyrir meiðyrði, né heldur krefjast þess að hún dúsi í svartholinu í heilt ár.

Þórey hefur reyndar oftar en einu sinni sagt ósatt um lekamálið, þótt ástæðulaust sé að telja það allt upp einu sinni enn. Þess má hins vegar geta að þegar ég spurði hana, í tölvupósti, hvort hún hefði haft lekaskjalið eða eitthvert svipað skjal undir höndum svaraði hún, þann 7. janúar í ár, að hún hefði ekki haft það. Miðað við það sem kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. apríl er hins vegar ljóst að hún hafði fengið skjalið í tölvupósti þann 19. nóvember. Hér eru spurningarnar sem ég spurði Þóreyju:

Hér að neðan er texti minnisblaðs sem virðist vera það sama og fjallað var um í fréttum Fréttablaðsins/Vísis og Morgunblaðsins fyrir nokkrum vikum. Að gefnu tilefni spyr ég þig eftirfarandi spurninga:

1. Hefur þú haft þetta minnisblað, eða minnisblað með svipuðum texta, undir höndum?

2. Hefur þú afhent aðilum utan ráðuneytisins þetta minnisblað eða minnisblað með svipuðum texta um mál Tony Omos?

Og svar hennar:

Nei ég hef ekki haft þetta minnisblað og því augljóslega ekki sent það heldur.

Þórey Vilhjálmsdóttir vill að blaðamenn sem leiðréttu ranghermi um hana fáum klukkustundum eftir að það birtist verði dæmdir til að greiða henni nokkrar milljónir, og látnir sitja í fangelsi í ár. Sjálf segir hún hins vegar ósatt um blaðamennina á opinberum vettvangi, og í starfi sínu sem háttsettur starfsmaður ráðuneytis.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.10.2014 - 19:51 - 12 ummæli

Landlæknir mælir með fækkun einkabíla

Yfirlýsing frá Landlækni  (sem lesa má hér) vegna frumvarps til laga um verulegar takmarkanir á innflutningi bifreiða til einkanota:

Rannsóknir sýna að bifreiðaslys valda gríðarlegu tjóni á heilsu þeirra sem í þeim lenda, og einnig gífurlegum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna umönnunar og endurhæfingar þeirra sem lifa af. Einnig hafa rannsóknir sýnt að aðstandendur þeirra sem lenda í bifreiðaslysum og láta lífið eða örkumlast eru að öllu jöfnu undir miklu andlegu álagi í langan tíma, stundum áratugum saman þegar um er að ræða fólk sem verður ósjálfbjarga af völdum slíkra slysa. Þetta veldur ekki einungis lakari andlegri heilsu, sem einnig veldur kostnaði í heilbrigðiskerfinu, heldur má gera ráð fyrir að mikill fjöldi vinnustunda tapist vegna umönnunar aðstandenda.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að því fleiri bifreiðir sem eru í umferð, því fleiri eru slysin. Það er því ljóst að með því að takmarka verulega innflutning á bifreiðum mun bifreiðaeign landsmanna minnka til muna á tiltölulega stuttum tíma.

Afleiðingarnar af færri bifreiðum í umferð verða því ótvírætt umtalsverð fækkun alvarlegra slysa, og lækkun kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Auk þess sem að ofan greinir hafa rannsóknir sýnt að hæfileg dagleg hreyfing hefur í för með sér mikla heilsubót, og ljóst er að því færri sem eiga eigin bifreiðir því meira mun fólk þurfa að ganga. Fækkun bifreiða til einkanota mun augljóslega auka göngur almennings og bæta þar með lýðheilsu.

Því styður landlæknir eindregið framkomið frumvarp um að innflutningur einkabifreiða verði takmarkaður, með það að markmiði að einkabifreiðum verði fækkað um 50% á næstu tíu árum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.10.2014 - 10:15 - 6 ummæli

Ekki vara við ef hætta er á ferðum!

„Fjármálastöðugleikaráð birtir tilmæli sín og rökstuðning fyrir þeim í heild eða að hluta, nema birting þeirra geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fari stjórnvald ekki að tilmælum fjármálastöðugleikaráðs skal einnig birta skriflegan rökstuðning viðeigandi stjórnvalds nema birtingin geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika.“
Hversu vel gafst þessi leyndarhyggja, til verndar „fjármálastöðugleika“, fyrir síðasta hrun?  Ljóst er að ýmsir aðilar innan æðstu stjórnsýslu vissu að bankarnir voru að falli komnir um hálfu ári áður en þeir féllu.  Í stað þess að segja sannleikann þögðu þeir ekki bara, heldur lugu bókstaflega blákalt um góða stöðu bankanna, til að vernda „fjármálastöðugleika“.
Dettur einhverjum í hug að það hafi verið skynsamlegt að halda þessari stöðu leyndri í hálft ár í viðbót?
Hefði það ef til vill getað takmarkað tjónið af falli bankanna ef sagt hefði verið satt og rétt frá því hve illa þeir stóðu þegar það var orðið ljóst?
Hefði ef til vill verið betra að segja almenningi í landinu frá vonlausri stöðu bankanna, í stað þess að lána þeim tugi milljarða af almannafé rétt fyrir hrun?
Hverra hagsmuni er meiningin að verja með þeirri leynd sem á að einkenna starf þessa ráðs?  Af hverju ætti það að þjóna hagsmunum almennings að fá ekki að vita þegar hætta er á ferðum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.9.2014 - 11:02 - 18 ummæli

Alnafna dóttur þingflokksformannsins

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir „stofnun rannsóknarklasa á sviði taugavísinda og taugahrörnunarsjúkdóma“.  Ýmsir hafa látið heyra það í sér að ekki sé gott að þingmenn reyni að handstýra vísindastarfi í landinu, enda sé ómögulegt að sjá fyrir á hvaða sviðum líklegast sé að framfarir verði í vísindarannsóknum, og alls ekki sé hægt að tryggja árangur á tilteknu sérsviði með því að veita í það fé.
Það er hins vegar skemmtileg tilviljun að Sigrún á dóttur að nafni Ragnhildur Þóra Káradóttir og kona með nákvæmlega sama nafn stundar einmitt rannsóknir í „neuroscience“, sem á íslensku útleggst sem taugavísindi.   Í þjóðskrá er að vísu bara að finna eina manneskju með þessu nafni, en það hljóta að vera mistök; varla getur verið að Sigrún sé beinlínis að leggja til að Alþingi veiti sérstöku fé í rannsóknir á sérsviði dóttur sinnar?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.9.2014 - 12:37 - 2 ummæli

Skinkumelluhugmyndafræði í Flensborg

Eftirfarandi grein birtist í Kvennablaðinu í gær.   Þess má geta að ég skrifaði Magnúsi skólameistara í Flensborg í fyrrakvöld og bar upp nokkrar spurningar um þá „hugmyndafræði“ sem hann segir að karakterar skemmtikraftanna umræddu samrýmist ekki.  Magnús vildi ekki svara, en spurði í staðinn í hvaða tilgangi ég kallaði eftir svörum við þessu.  Ég útskýrði fyrir honum (þótt mér finnist ósæmilegt af forstöðumönnum opinberra stofnana að krefja spyrjendur um slíkt) að ég teldi eðlilegt að almennir borgarar grennslist fyrir um hvernig  starfsemi opinberra stofnana er háttað.  Þegar ég svo spurði aftur hvenær ég mætti búast við svörum sagði Magnús þetta:

„Hvað varðar önnur atriði spurning þinna fimm þá eru þetta einmitt mál sem verið er að vinna sig í gegnum í umræðum innan skólans. Ég vil því síður setja þau í umræðu annars staðar fyrr en við höfum náð að vinna okkur lengra áleiðis.“

Magnús hefur reyndar sjálfur sett þessi mál í umræðu í fjölmiðlum, en honum finnst sem sagt sjálfsagt að beita sér fyrir því að Byrgismelluskinkuskáldið Erpur sé fengið í staðinn fyrir aðra tvo skemmtikrafta, án þess að útskýra mismuninn í „hugmyndafræði“ þessara manna.  Magnúsi þótti líka sjálfsagt að vega með alvarlegum hætti,  á opinberum vettvangi, gegn starfsheiðri þeirra sem hann hafnaði, á grundvelli „hugmyndafræði“ sem verið er að „vinna sig gegnum í umræðum innan skólans“, og sem hann treystir sér ekki til að útskýra hver er.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort Magnús telji sjálfan sig, með þessari framgöngu sinni,  vera góða fyrirmynd nemendum skólans …[Hér er greinin úr Kvennablaðinu]

Í frétt í DV í gær var sagt frá því að Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskóla, hefði lagst gegn því að tveir tilteknir skemmtikraftar kæmu fram sem plötusnúðar á nýnemaballi skólans.  Svona útskýrir Magnús þessi ástæðuna:

„Þetta er búið að vera heilmikið umræðuefni frá því að við vissum að þessir listamenn væru ráðnir. Við lögðumst gegn því vegna þess að okkur fannst þessir persónuleikar ekki samrýmast þeirri hugmyndafræði sem við leggjum upp með í sambandi við samskipti kynjanna og annað slíkt.“

„Það sem við töldum okkur standa frammi fyrir var það að þarna væru einhver mörk sem væri verið að fara yfir og við vildum ekki vera að taka þátt í því, …“

Magnús útskýrir hvorki hvaða hugmyndafræði er um að ræða, né heldur hvernig persónuleikar umræddra skemmtikrafta „samrýmist“ henni ekki, eða af hverju „persónuleikar“ skemmtikrafta þurfi yfirleitt að samrýmast einhverri hugmyndafræði.

Auðvitað má giska á að fyrir Magnúsi vaki einhvers konar umhyggja um nemendur skólans og velferð þeirra. En þá má líka velta fyrir sér hvort Magnús telur þessa framgöngu sína vera góða fyrirmynd fyrir nemendur þegar tjáningarfrelsi og önnur borgarleg réttindi eru annars vegar.  Og hvort skólinn ætti kannski að þjálfa þá í að taka afstöðu sjálfir til ýmissa álitaefna, á grundvelli eigin gagnrýnu hugsunar, frekar en með valdboði að ofan.

Hitt er svo annað mál að það er talsverð ráðgáta hvaða hugmyndafræði það er sem Magnús Þorkelsson aðhyllist í þessum efnum.  Að minnsta kosti þegar skoðaðir eru textar annars þeirra sem samið var um að fá í staðinn fyrir hina sem ekki féllu að hugmyndafræði hans. Hér er brot úr einum slíkum texta, sem má finna allan á þessari slóð, og svo í afar lýsandi hugmyndafræðilegu myndbandi hérna.

Hér virðist sem sagt vera komin hugmyndafræði „í sambandi við samskipti kynjanna og annað slíkt“ sem Magnús telur hæfilega fyrir nemendur sína:

Kvótalaus á miðunum
hangi með liðinu,
halaðir á prikinu
skinkur nýfallnar og volgar úr Byrginu
mella er mín kapella
Hnakka slöttt,
sem pakkar skott
og þannig er ‘etta
fokkum í hórum
hómí, við lókum
mitt geim er dörtí
eins og pólskur dólgur

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.8.2014 - 22:50 - 11 ummæli

Rangfærslur og útúrsnúningar Hönnu Birnu

[Þessi grein birtist í Kvennablaðinu 28. ágúst 2014]
Mikið hefur verið fjallað um sjónvarpsviðtölin við Hönnu Birnu á Stöð 2 og í Kastljósi í fyrrakvöld, sem og fyrri yfirlýsingar hennar um lekamálið.  Ekki er vanþörf á, því Hanna Birna hefur ekki skirrst við að ljúga að Alþingi, og það oftar en einu sinni, auk þess sem hún vék sér hjá því að svara öllum spurningum í umræddum viðtölum.  Í staðinn fór hún út í móa í miðri fyrstu setningu á eftir hverri slíkri spurningu.  Hanna Birna er útsmogin í þessari iðju, og hún er líka nógu laus við þær siðferðiskröfur sem nokkurn veginn heilbrigt fólk gerir til sjálfs sín, en það er líklega nauðsynlegt til að halda út svo lengi að fara með endalaus og augljós ósannindi um sama málið.
Tvennt hef ég þó ekki séð fjallað um enn í fjölmiðlum af útúrsnúningum Hönnu Birnu.
Í fyrsta lagi hefur Hanna Birna endurtekið talað um að það þyrfti sérstakar verklagsreglur (sem hún gefur í skyn að séu ekki til) þegar lögregla rannsakar sakamál sem beinast gegn starfsmönnum ráðuneytis.  Ég get ekki ímyndað mér annað en að lögregla hafi verklagsreglur um hvernig staðið skuli að rannsókn sakamála.  Og haldi Hanna Birna að þær eigi að vera með öðrum hætti þegar ráðuneytisstarfsmenn eiga í hlut hefur hún ekki áttað sig á að gagnvart lögunum eiga allir að vera jafnir.  En það er ekki í fyrsta, og ekki í annað eða þriðja, skiptið sem hún afhjúpar algera vanþekkingu á því réttarkerfi sem hún hefur verið æðsta vald yfir.
Eigi Hanna Birna við að það þurfi sérstakar verklagsreglur þegar lögregla rannsakar yfirmann sinn, þá eru þær „reglur“ til í öllum nágrannalöndunum.  Þær eru hluti af því sem kallað er „siðferði“ og í málum af þessu tagi víkur ráðherra einfaldlega strax þegar svona stendur á.  Ekki 16% heldur hundrað prósent.
Í öðru lagi hefur Hanna Birna hamrað á því að hún hafi nauðsynlega þurft að tala við lögreglustjórann sem stýrði rannsókninni af því að í ráðuneytinu sé svo mikið af trúnaðargögnum sem megi ekki fara á flakk.  Þetta er ómögulegt að skilja öðru vísi en svo að Hanna Birna telji að lögreglan brjóti reglulega trúnað þegar hún fæst við viðkvæm gögn sem oft koma fyrir í rannsóknum hennar.  Því miður hefur ekkert fréttafólk enn spurt Hönnu Birnu hvort hún telji að slík lögbrot séu algeng innan lögreglunnar, og af hverju hún hafi ekkert gert í því fyrr, verandi æðsti yfirmaður hennar.
Við þetta má svo bæta annarri sérkennilegri staðhæfingu, frá forsætisráðherra, sem RÚV hefur útvarpað án þess að gera athugasemdir.  Hann sagði
„Ég held að það séu mannréttindi allra, þar með talið ráðherra að menn fái andmælarétt þegar þeir eru sakaðir um hluti,“
(Þetta var reyndar í annað skipti sem þetta birtist í fréttum RÚV, en ég finn ekki fyrri fréttina, enda er vefur RÚV með því lélegasta sem þekkist á netinu.)
Í fyrsta lagi hefur Umboðsmaður Alþingis ekki sakað Hönnu Birnu um eitt né neitt.  Og í öðru lagi á andmælaréttur alls ekki við það sem forsætisráðherrann er að tala um hér, eins og sjá má í stjórnsýsluögum:
13. gr. Andmælaréttur.
 Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Umboðsmaður er ekki stjórnvald, og hann hefur ekki tekið neina ákvörðun í máli Hönnu Birnu, heldur einungis farið fram á svör hennar við spurningum.  Það hefur hann reyndar gert tvívegis áður, svo Hanna Birna hefur fengið, og hefur enn, næg tækifæri til „andmæla“.

En, það kemur kannski ekki á óvart að við málum réttarkerfisins sé að taka maður  (forsætisráðherra) sem hefur jafn lítinn skilning á því og fyrirrennarinn …

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is