Mánudagur 23.11.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Tónlistarkennslu inn í skólakerfið?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Það hafa lengi staðið yfir átök milli tónlistarskóla og þeirra sveitarfélaga sem hafa borgað skólunum, að hluta, fyrir þá menntun sem þeir veita. Ég hef ekki fylgst náið með þessu, en sýnist að þessi átök séu að harðna, í kjölfar þess að þrengt sé að þessu námi, hugsanlega vegna slæmrar fjárhagsstöðu sveitarfélaga, sem virðist a.m.k. eiga við um Reykjavíkurborg.

Það er rétt að taka fram að ég er enginn sérstakur áhugamaður um tónlist og á engra hagsmuna að gæta varðandi þetta mál. Mér finnst hins vegar illskiljanlegt af hverju eftirfarandi lausn virðist ekki einu sinni vera til umræðu:

Tónlistarnám verði flutt inn í grunn- og framhaldsskóla, sem val fyrir þá nemendur sem það kjósa.

Auðvitað þyrfti eitthvað annað að detta út í staðinn hjá þeim nemendum sem velja slíkt nám í grunnskólunum, en er líklegt að það gæti haft einhver slæm áhrif á menntun þeirra nemenda?

Rökin fyrir þessu væru að tónlistarnám er síst minna gefandi og „mikilvægt“ en annað nám (ég held að flest nám í grunnskóla sé mun minna „mikilvægt“ en flestir vilja vera láta, og í framhaldsskólum hafa nemendur umtalsvert val). Af hverju ætti til dæmis frekar að hafa kennslu í dönsku og eðlisfræði í grunnskóla, eða bjóða frekar upp á efnafræði og rússnesku en tónlist í framhaldsskóla?

Ein afleiðing af því að innlima tónlistarkennslu í grunnskólana yrði augljóslega sparnaður fyrir sveitarfélögin, því þá þyrftu þau ekki lengur að borga sérstaklega fyrir tónlistarkennslu eins og nú er.

Yrðu þá ekki allir ánægðir?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.11.2015 - 15:10 - 1 ummæli

Rangar sakargiftir og rannsókn sakamála

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Hugsum okkur að A beri B þeim röngu sökum að hafa framið alvarlegt brot. Þannig hefur A framið alvarlegt brot en B ekki. Þá er auðvitað eðlilegt að ekkert verði aðhafst í rannsókn á broti A, fyrr en rannsókn, og hugsanlega réttarmeðferð, á brotinu sem B var ranglega sökuð um er lokið. Sú meðferð tekur marga mánuði, hugsanlega meira en ár.

Að vísu verður næsta vonlaust að rannsaka hið raunverulega brot, sem A framdi, þegar sú niðurstaða hefur fengist að ekki sé fótur fyrir upphaflegum sakargiftum. Ýmiss konar gögn sem varpað gætu ljósi á það mál eru nefnilega löngu horfin, svo sem símaskýrslur og símaminni viðkomandi, auk þess sem minni fólks um hver sagði hvað, eða hver gerði hvað, fyrir ári er yfirleitt afar óáreiðanlegt.

En það er samt fullkomlega eðlilegt að sakargiftirnar, sem voru eina brotið í málinu, verði til þess að ekki megi rannsaka þær fyrr en það er of seint. Eða …?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.11.2015 - 10:15 - 11 ummæli

Grimmdarverkin sem við fremjum í dag

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í seinni heimsstyrjöldinni voru íslenskar stúlkur sem leyfðu sér að umgangast erlenda hermenn fangelsaðar fyrir vikið og beittar harðræði. Svo virðist sem fáir hafi þá leyft sér að gagnrýna þetta opinberlega og framáfólk í samfélaginu var fremst í flokki í þessum ofsóknum.

Árið 1951 stóðu dönsk yfirvöld fyrir því að 22 grænlensk börn voru tekin af heimilum sínum og flutt til Danmerkur, í óþökk foreldra þeirra. Þau áttu að læra að verða fyrirmynd annarra grænlenskra barna þegar þau sneru aftur til heimalandsins ári síðar, þar sem þeim var komið fyrir á sérstökum barnaheimili, en ekki hjá eigin fjölskyldum. Samtökin Barnaheill (Red Barnet) og Rauði Krossinn í Danmörku sáu um framkvæmdina. Börnunum farnaðist mörgum illa í lífinu, og sum styttu sér aldur.

Á sjötta og sjöunda áratugnum voru ungir drengir teknir af heimilum sínum og sendir vestur í Breiðavík þar sem þeim var misþyrmt andlega og líkamlega. Allt var þetta á vegum yfirvalda, og aftur voru ýmsir „virtir“ góðborgarar með í ráðum og fáir sem hreyfðu andmælum opinberlega.

Langt fram á nítjándu öld voru börn undir tíu ára aldri látin vinna allt að sextán tíma á dag í Bretlandi, meðal annars í kolanámum.

Fyrir tvö hundruð árum var þrælahald útbreitt í Bandaríkjunum, og þurfti borgarastyrjöld löngu síðar til að útrýma því.

Í öllum þessum tilfellum, og ótalmörgum öðrum, voru framin grimmdarverk á varnarlausu fólki, með þegjandi samþykki samfélagsins, og jafnvel litið á þau sem sjálfsagðan hlut. Svo snerist almenningsálitið og í dag eru allir sammála um að fordæma það sem okkur finnst augljós grimmd.

En þeir sem voru uppi á þessum tímum gátu fæstir séð nokkuð athugvert við það sem síðar var fordæmt sem óbærilegt mannúðarleysi. Þannig var þrælahaldið almennt álitið sjálfsagt árið 1800 í Bandaríkjunum og barnaþrælkunin í Bretlandi fyrir rúmum hundrað árum. Á Íslandi var álitið eðlilegt upp úr 1940 að refsa ungum konum harðlega fyrir að umgangast hermenn. Tuttugu árum síðar var sjálfsagt mál að rífa unga drengi frá fjölskyldum sínum og vinum og koma þeim fyrir í vist þar sem níðst var á þeim varnarlausum. Og í dag, árið 2015 er álitið fullkomlega eðlilegt að …

Já, hvað gæti það verið í dag sem við kippum okkur ekki upp við en verðum fordæmd fyrir eftir hundrað ár? Því varla var fullkomnun mannsandans náð á sviði mannúðar í fyrra? Eða erum við einmitt endastöð hinnar mannlegu fullkomnunar?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.9.2015 - 10:15 - 5 ummæli

Hvernig fáum við nýjan Hæstarétt?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu]

Mikið hefur verið deilt um úrskurði Hæstaréttar síðustu árin, og sem betur fer er það að færast í aukana að lögfræðingar viðri gagnrýni á störf réttarins. Það er gott, því Hæstiréttur þarf eiginlega frekar en flestar aðrar stofnanir á gagnrýni að halda, þar sem enginn er yfir hann settur, og nánast ómögulegt að hrófla við því sem hann ákveður, jafnvel þegar það er tóm þvæla. Reyndar hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) margsinnis slegið á puttana á dómurum Hæstaréttar, en hann er eini aðilinn sem það getur, og aðeins á mjög takmörkuðu sviði, auk þess sem það er afar erfitt að fá MDE til að taka mál til meðferðar.

Það heyrist oft sú krafa, beint og óbeint, að „hreinsað verði út úr“ Hæstarétti, þegar fólki misbjóða úrskurðir hans. Það er rétt að taka fram að ég er stundum alveg ósammála almenningsálitinu um ýmsa úrskurði réttarins (sérstaklega hvað varðar sýknun ákærðra í sakamálum, sem mér finnst stundum að njóti ekki þess réttar sem þeir eiga að hafa í réttarríki). Ég er líka „íhaldssamur“ að því leyti að ég vil alls ekki að hægt sé að „hreinsa út“ dómara þótt mörgum líki ekki við úrskurði þeirra. En það er vandamál að lítið er hægt að gera þegar dómstólar fella dóma sem eru rangir, og það gera þeir auðvitað stundum. Skref í rétta átt er endurupptökunefndin sem nýlega hefur fengið það verkefni að gera tillögur til ríkissaksóknara um endurupptöku sakamála, eins og gerst hefur nýlega varðandi Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Það er þó vandamál að nefndin gerir bara tillögu til ríkissaksóknara, sem sendir málið svo til Hæstaréttar, þannig að það er fólk í sömu stöðum og stofnunum og þeir sem felldu ranga úrskurði sem á að taka málið upp að nýju.

Annað vandamál sem mér virðist tröllríða Hæstarétti (og að vissu marki öllu réttarkerfinu) er að íslensk lögfræði hefur frá upphafi, í hundrað ár, verið búin til í litlum andapolli. Auðvitað er ekki um að ræða eina litla klíku í einu litlu bakherbergi, en þegar nánast allir lögfræðingar landsins og hver einasti dómari, hefur í hundrað ár komið úr sama þrönga umhverfinu, nefnilega lagadeild Háskóla Íslands, þá er ekki við öðru að búast en að það hafi neikvæð áhrif á víðsýni í stéttinni. Íslensk lögfræði er líklega einhver einangraðasta fræðigreinin í heiminum, og það er að stórum hluta sjálfvalið, því háskólalögfræðingar í nágrannalöndum stunda margir miklar rannsóknir sem birtast á alþjóðavettvangi, en það virðist enn frekar sjaldgæft á Íslandi, a.m.k. í HÍ.

Það er ekki í lagi að reka dómara af því að einhverjum finnist þeir ekki dæma rétt. Það er ekki heldur í lagi að hunsa niðurstöðu nefndar sem á að vinna á faglegum forsendum, nema hægt sé að sýna fram á með óyggjandi hætti að hún hafi komist að rangri niðurstöðu. Slíkir möguleikar verða fyrr eða síðar misnotaðir af þeim sem „okkur“ líkar ekki við. Ef það er ástæða til að leiðrétta kynjahallann í dómnefndinni sem nýlega felldi umdeildan úrskurð um hæfi umsækjenda um starf Hæstaréttardómara, þá verður greinilega að gera það með lagabreytingu, úr því Hæstiréttur hefur lagt blessun sína yfir skipun hennar.

Að „reka“ alla Hæstaréttardómara

En, þótt almennt megi ekki reka dómara, þá er hægt að breyta lögum, á eðlilegan og skynsaman hátt, og losna þannig á einu bretti við alla dómara í Hæstarétti, svo hægt sé að byrja með hreint borð. Það er ekki bara mögulegt, það er eiginlega sjálfsagt mál að gera það á allra næstu árum, af eftirfarandi ástæðum:

Lengi hefur verið talað um að koma á fót millidómsstigi, meðal annars til að minnka álagið á Hæstarétti, sem verður að taka fyrir hvert einasta mál sem áfrýjað er frá héraðsdómi. Flest nágrannalöndin eru með slíkt millidómsstig, og síðan með einhvers konar Hæstarétt sem eingöngu úrskurðar í „mikilvægum“ málum (þótt mikilvægið sé skilgreint með ólíkum hætti).

Miðað við það gífurlega álag sem er á Hæstarétti, og sem veldur því að dómarar geta afar sjaldan allir sett sig vel inn í þau mál sem þeir þurfa að dæma í, virðist skynsamlegt að koma á millidómsstigi. Hæstiréttur tæki þá til dæmis aðeins fyrir mál sem hann teldi sjálfur ástæðu til að efast um að rétt hefði verið dæmt í á millidómsstiginu og svo þau mál sem ástæða væri til að fella fordæmisgefandi dóma um.

Ef skipan dómsmála verður breytt með þessum afgerandi hætti er ljóst að leggja á núverandi Hæstarétt niður, þar sem arftaki hans fær allt annað og nýtt hlutverk. Það þýðir sjálfkrafa að núverandi dómarar eiga engan sérstakan rétt á sæti í nýjum æðsta dómstól; þeir yrðu að sækja um slík störf eins og aðrir.

Ferskan Hæstarétt fyrir nýja stjórnarskrá

En það er önnur ástæða fyrir því að setja ætti á laggirnar nýjan æðsta dómstól, með nýjum dómurum. Það ætti nefnilega að samþykkja fljótlega þá stjórnarskrá sem óhætt virðist að segja að almenningur í landinu vilji fá í staðinn fyrir þá sem nú er í gildi. Þegar það gerist er kjörið tækifæri að stokka upp dómskerfið, og fá nýjan æðsta dómstól, vonandi að stórum hluta með nýju fólki, sem byrjar með hreint borð, en ekki það rykfallna ræksni sem nú er setið við.

Þótt ég sé andvígur kynjakvótum er ég vongóður um að ef skipað yrði upp á nýtt í (nýjan) Hæstarétt, þá yrðu kynjahlutföllin talsvert öðru vísi en nú, ekki síst vegna þess að konum hefur fjölgað gífurlega meðal yngri lögfræðinga, og kannski er kominn tími til að yngja svolítið upp í þeim viðhorfum sem eru ráðandi í Hæstarétti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.8.2015 - 12:12 - 3 ummæli

Stórfelld áfengisvandamál Kópaskersbúa

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Eins og allir vita jókst heildaráfengisneysla gríðarlega þegar bjórinn var leyfður á Íslandi, auk þess sem stór hluti þjóðarinnar fór að drekka bjór í tíma og ótíma, meðal annars ótæpilega á vinnutíma. (Not). Eins og allir vita fór áfengisneysla algerlega úr böndunum þegar komið var á kjörbúðafyrirkomulagi í vínbúðum ÁTVR. (Sömu uppgötvun var reyndar búið að gera í Svíþjóð, þar sem templurum og öðru hreintrúarfólki tókst nokkrum árum lengur að sporna við þeim ófögnuði en sálufélögum þeirra á Íslandi). (Not). Eins og allir vita (a.m.k. í Svíþjóð; íslensku templurunum datt aldrei í hug að nota þessa „röksemdafærslu“) jókst heimilisofbeldi gríðarlega þegar farið var að hafa ríkið opið á laugardögum. (Not).

Eins og allir vita myndi það auka til muna alls konar hörmungar ef Íslendingar fengju að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Enda hefur komið í ljós að á þeim stað þar sem þetta hefur verið prófað í tilraunaskyni, Kópaskeri, er meirihluti þorpsbúa nú kominn suður í meðferð, eða ætti að vera á leiðinni þangað. Og þorpið er rústir einar, sem um ráfa þessir örfáu hræður sem höfðu nægan viljastyrk til að keyra frekar í klukkutíma til Þórshafnar eða Húsavíkur, þar sem sala á matvælum og áfengi er enn aðskilin.

PS. Takk, Arnar, fyrir að benda á þessar hörmungar á Kópaskeri: http://blog.pressan.is/arnarsig/2015/08/21/vin-i-matvoruverslun/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.7.2015 - 10:15 - 9 ummæli

Prestarnir okkar sem nauðga

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Fyrir nokkrum vikum hélt Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju, predikun sem bar yfirskriftina „Drengirnir okkar sem nauðga„. Það virðist vera svo að nauðgarar fyrirfinnist í öllum þjóðfélagshópum, þeir séu engin „sérstök tegund“, umfram það að vera nauðgarar. Því liggur beint við að álykta að meðal presta séu ekki síður nauðgarar en meðal annarra samfélagshópa. Þess vegna er fyrirsögn þessa pistils alveg jafn eðlileg og réttlætanleg og yfirskriftin á predikun Guðbjargar.

En, í hvorugu tilfellinu er þetta réttlætanlegt. Í báðum tilfellum er talað um fólk sem tilheyrir tilteknum hópi sem nauðgara, þótt það að tilheyra slíkum hópi þýði auðvitað alls ekki að viðkomandi sé einu sinni líklegur til að vera nauðgari.

Fyrir skömmu sagði svo Steinunn Stefánsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands, þetta í ræðu:

„Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem sá ótrúlegi hlutur gerist aftur og aftur, að lítill mjúkur og ilmandi hvítvoðungur taki einhverjum áratugum síðar upp á því að nauðga vinkonu sinni eða beita konu sína ofbeldi.“

Talið um „drengina okkar sem nauðga“, um að karlar sem hópur kúgi konur sem hóp, hvað þá að nauðganir séu „eitt skýrasta birtingarform karllægra yfirráða í samfélaginu almennt“(*), eru af sama toga og hatursáróður gegn gyðingum eða múslimum eða konum. Hér er um að ræða það sem á ensku er kallað „guilt by association“, og gæti á íslensku heitað venslasekt, þar sem sök er klínt á saklaust fólk af því að það tilheyrir hópi sem ásakandinn hefur illan bifur á, vegna fordóma.

Þessi sóðalegi áróður, þar sem allt illt sem sumir karlar gera (og reyndar konur líka) er gert að sakarefni fyrir karlmenn sem hóp, er afar algengur, jafnvel meðal fólks í valda- og áhrifastöðum. En hann er ekki til þess fallinn að bæta eitt eða neitt, ekki frekar en annar áróður af sama toga. Nema valdastöðu þeirra sem nota hann sér til framdráttar.

Og þessi áróður verður ekki skárri fyrir þá blíðmælgi sem bæði Guðbjörg og Steinunn nota hér. Þvert á móti er það vitnisburður um nöturlegt viðhorf í samfélaginu að annars kurteist fólk skuli tala eins það sé sjálfsagt mál að spyrða unga drengi og jafnvel (karlkyns) hvítvoðunga við nauðganir. Það ætti að vekja alveg jafn hörð viðbrögð og ef við töluðum daglega um prestana okkar sem nauðgara.

(*) Úr meistararitgerð Guðrúnar M. Guðmundsdóttur í mannfræði við Háskóla Íslands árið 2004, „Af hverju nauðga karlar?“, aðalleiðbeinandi Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is