Föstudagur 12.9.2014 - 12:37 - 2 ummæli

Skinkumelluhugmyndafræði í Flensborg

Eftirfarandi grein birtist í Kvennablaðinu í gær.   Þess má geta að ég skrifaði Magnúsi skólameistara í Flensborg í fyrrakvöld og bar upp nokkrar spurningar um þá „hugmyndafræði“ sem hann segir að karakterar skemmtikraftanna umræddu samrýmist ekki.  Magnús vildi ekki svara, en spurði í staðinn í hvaða tilgangi ég kallaði eftir svörum við þessu.  Ég útskýrði fyrir honum (þótt mér finnist ósæmilegt af forstöðumönnum opinberra stofnana að krefja spyrjendur um slíkt) að ég teldi eðlilegt að almennir borgarar grennslist fyrir um hvernig  starfsemi opinberra stofnana er háttað.  Þegar ég svo spurði aftur hvenær ég mætti búast við svörum sagði Magnús þetta:

„Hvað varðar önnur atriði spurning þinna fimm þá eru þetta einmitt mál sem verið er að vinna sig í gegnum í umræðum innan skólans. Ég vil því síður setja þau í umræðu annars staðar fyrr en við höfum náð að vinna okkur lengra áleiðis.“

Magnús hefur reyndar sjálfur sett þessi mál í umræðu í fjölmiðlum, en honum finnst sem sagt sjálfsagt að beita sér fyrir því að Byrgismelluskinkuskáldið Erpur sé fengið í staðinn fyrir aðra tvo skemmtikrafta, án þess að útskýra mismuninn í „hugmyndafræði“ þessara manna.  Magnúsi þótti líka sjálfsagt að vega með alvarlegum hætti,  á opinberum vettvangi, gegn starfsheiðri þeirra sem hann hafnaði, á grundvelli „hugmyndafræði“ sem verið er að „vinna sig gegnum í umræðum innan skólans“, og sem hann treystir sér ekki til að útskýra hver er.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort Magnús telji sjálfan sig, með þessari framgöngu sinni,  vera góða fyrirmynd nemendum skólans …[Hér er greinin úr Kvennablaðinu]

Í frétt í DV í gær var sagt frá því að Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskóla, hefði lagst gegn því að tveir tilteknir skemmtikraftar kæmu fram sem plötusnúðar á nýnemaballi skólans.  Svona útskýrir Magnús þessi ástæðuna:

„Þetta er búið að vera heilmikið umræðuefni frá því að við vissum að þessir listamenn væru ráðnir. Við lögðumst gegn því vegna þess að okkur fannst þessir persónuleikar ekki samrýmast þeirri hugmyndafræði sem við leggjum upp með í sambandi við samskipti kynjanna og annað slíkt.“

„Það sem við töldum okkur standa frammi fyrir var það að þarna væru einhver mörk sem væri verið að fara yfir og við vildum ekki vera að taka þátt í því, …“

Magnús útskýrir hvorki hvaða hugmyndafræði er um að ræða, né heldur hvernig persónuleikar umræddra skemmtikrafta „samrýmist“ henni ekki, eða af hverju „persónuleikar“ skemmtikrafta þurfi yfirleitt að samrýmast einhverri hugmyndafræði.

Auðvitað má giska á að fyrir Magnúsi vaki einhvers konar umhyggja um nemendur skólans og velferð þeirra. En þá má líka velta fyrir sér hvort Magnús telur þessa framgöngu sína vera góða fyrirmynd fyrir nemendur þegar tjáningarfrelsi og önnur borgarleg réttindi eru annars vegar.  Og hvort skólinn ætti kannski að þjálfa þá í að taka afstöðu sjálfir til ýmissa álitaefna, á grundvelli eigin gagnrýnu hugsunar, frekar en með valdboði að ofan.

Hitt er svo annað mál að það er talsverð ráðgáta hvaða hugmyndafræði það er sem Magnús Þorkelsson aðhyllist í þessum efnum.  Að minnsta kosti þegar skoðaðir eru textar annars þeirra sem samið var um að fá í staðinn fyrir hina sem ekki féllu að hugmyndafræði hans. Hér er brot úr einum slíkum texta, sem má finna allan á þessari slóð, og svo í afar lýsandi hugmyndafræðilegu myndbandi hérna.

Hér virðist sem sagt vera komin hugmyndafræði „í sambandi við samskipti kynjanna og annað slíkt“ sem Magnús telur hæfilega fyrir nemendur sína:

Kvótalaus á miðunum
hangi með liðinu,
halaðir á prikinu
skinkur nýfallnar og volgar úr Byrginu
mella er mín kapella
Hnakka slöttt,
sem pakkar skott
og þannig er ‘etta
fokkum í hórum
hómí, við lókum
mitt geim er dörtí
eins og pólskur dólgur

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.8.2014 - 22:50 - 11 ummæli

Rangfærslur og útúrsnúningar Hönnu Birnu

[Þessi grein birtist í Kvennablaðinu 28. ágúst 2014]
Mikið hefur verið fjallað um sjónvarpsviðtölin við Hönnu Birnu á Stöð 2 og í Kastljósi í fyrrakvöld, sem og fyrri yfirlýsingar hennar um lekamálið.  Ekki er vanþörf á, því Hanna Birna hefur ekki skirrst við að ljúga að Alþingi, og það oftar en einu sinni, auk þess sem hún vék sér hjá því að svara öllum spurningum í umræddum viðtölum.  Í staðinn fór hún út í móa í miðri fyrstu setningu á eftir hverri slíkri spurningu.  Hanna Birna er útsmogin í þessari iðju, og hún er líka nógu laus við þær siðferðiskröfur sem nokkurn veginn heilbrigt fólk gerir til sjálfs sín, en það er líklega nauðsynlegt til að halda út svo lengi að fara með endalaus og augljós ósannindi um sama málið.
Tvennt hef ég þó ekki séð fjallað um enn í fjölmiðlum af útúrsnúningum Hönnu Birnu.
Í fyrsta lagi hefur Hanna Birna endurtekið talað um að það þyrfti sérstakar verklagsreglur (sem hún gefur í skyn að séu ekki til) þegar lögregla rannsakar sakamál sem beinast gegn starfsmönnum ráðuneytis.  Ég get ekki ímyndað mér annað en að lögregla hafi verklagsreglur um hvernig staðið skuli að rannsókn sakamála.  Og haldi Hanna Birna að þær eigi að vera með öðrum hætti þegar ráðuneytisstarfsmenn eiga í hlut hefur hún ekki áttað sig á að gagnvart lögunum eiga allir að vera jafnir.  En það er ekki í fyrsta, og ekki í annað eða þriðja, skiptið sem hún afhjúpar algera vanþekkingu á því réttarkerfi sem hún hefur verið æðsta vald yfir.
Eigi Hanna Birna við að það þurfi sérstakar verklagsreglur þegar lögregla rannsakar yfirmann sinn, þá eru þær „reglur“ til í öllum nágrannalöndunum.  Þær eru hluti af því sem kallað er „siðferði“ og í málum af þessu tagi víkur ráðherra einfaldlega strax þegar svona stendur á.  Ekki 16% heldur hundrað prósent.
Í öðru lagi hefur Hanna Birna hamrað á því að hún hafi nauðsynlega þurft að tala við lögreglustjórann sem stýrði rannsókninni af því að í ráðuneytinu sé svo mikið af trúnaðargögnum sem megi ekki fara á flakk.  Þetta er ómögulegt að skilja öðru vísi en svo að Hanna Birna telji að lögreglan brjóti reglulega trúnað þegar hún fæst við viðkvæm gögn sem oft koma fyrir í rannsóknum hennar.  Því miður hefur ekkert fréttafólk enn spurt Hönnu Birnu hvort hún telji að slík lögbrot séu algeng innan lögreglunnar, og af hverju hún hafi ekkert gert í því fyrr, verandi æðsti yfirmaður hennar.
Við þetta má svo bæta annarri sérkennilegri staðhæfingu, frá forsætisráðherra, sem RÚV hefur útvarpað án þess að gera athugasemdir.  Hann sagði
„Ég held að það séu mannréttindi allra, þar með talið ráðherra að menn fái andmælarétt þegar þeir eru sakaðir um hluti,“
(Þetta var reyndar í annað skipti sem þetta birtist í fréttum RÚV, en ég finn ekki fyrri fréttina, enda er vefur RÚV með því lélegasta sem þekkist á netinu.)
Í fyrsta lagi hefur Umboðsmaður Alþingis ekki sakað Hönnu Birnu um eitt né neitt.  Og í öðru lagi á andmælaréttur alls ekki við það sem forsætisráðherrann er að tala um hér, eins og sjá má í stjórnsýsluögum:
13. gr. Andmælaréttur.
 Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Umboðsmaður er ekki stjórnvald, og hann hefur ekki tekið neina ákvörðun í máli Hönnu Birnu, heldur einungis farið fram á svör hennar við spurningum.  Það hefur hann reyndar gert tvívegis áður, svo Hanna Birna hefur fengið, og hefur enn, næg tækifæri til „andmæla“.

En, það kemur kannski ekki á óvart að við málum réttarkerfisins sé að taka maður  (forsætisráðherra) sem hefur jafn lítinn skilning á því og fyrirrennarinn …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.8.2014 - 10:16 - 3 ummæli

Gísli Freyr gæti sannað sakleysi sitt

Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu innanríkisráðherra, hefur verið ákærður fyrir hegningarlagabrot í starfi sínu sem aðstoðarmaður ráðherrans.  Hann er ákærður fyrir að hafa með saknæmum hætti lekið gögnum úr ráðuneytinu, þar sem markmiðið var augljóslega að sverta manneskju sem ekki gat borið hönd fyrir höfuð sér.
Gísli heldur fram sakleysi sínu, þótt hann hafi (líklega einn þeirra sem höfðu aðgang að umræddu skjali) átt mörg símtöl við blaðamenn á Vísi og Morgunblaðinu skömmu áður en þessir miðlar birtu fréttir um málið, byggðar á minnisblaðinu sem lekið var.
Miðað við málatilbúnað lögreglunnar sem rannsakaði málið, eins og hann kemur fram í nýlegum dómum Hæstaréttar, eru það þessi samtöl Gísla við fréttafólkið sem valda því að hann er grunaður, og nú ákærður.  Tímasetningar þessara símtala og fréttanna sem fylgdu í kjölfarið má sjá í þessari frétt DV.
Auðvitað þarf Gísli ekki að sanna sakleysi sitt fyrir dómstólum; það er  ákæruvaldið sem þarf að sanna að hann sé sekur. En ef það er rétt hjá Gísla að hann hafi ekki lekið skjalinu til fréttafólks þessara miðla væri honum í lófa lagið að efla trú almennings á sakleysi sitt:  Hann myndi einfaldlega biðja viðkomandi blaðamenn að stíga fram og lýsa því yfir að þessi samtöl hafi ekki tengst lekaskjalinu.  Ekkert þyrfti að koma fram um efni þessara samtala nema það.
Hefur Gísla ekki dottið í hug að bregðast þannig við grun almennings um að hann sé sekur um það svívirðilega brot sem hann er ákærður fyrir?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.8.2014 - 10:16 - 19 ummæli

Eru Samtökin 78 á rangri leið?

Það er varla ofmælt að virðingin fyrir réttindum samkynhneigðra á Íslandi hafi gerbreyst á skömmum tíma.  Það eru örfáir áratugir síðan mörgu samkynhneigðu fólki fannst sér varla vera líft á Íslandi vegna fordóma og útskúfunar.  Í dag, eins og síðustu árin, tók nær helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins þátt í Gleðigöngunni, og þær örfáu manneskjur sem leyfa sér að tala niðrandi um samkynhneigða á opinberum vettvangi eru úthrópaðar svo að þær eiga sér varla viðreisnar von á eftir.
Hafi mér ekki yfirsést mikið í baráttunni fyrir jafnrétti til handa samkynhneigðum hefur hún nánast eingöngu verið háð með jákvæðum formerkjum.  Í stað þess að leggja áherslu á að úthúða þeim sem hafa haft neikvæða afstöðu, og sýna samkynhneigða sem fórnarlömb ofsókna (sem þeir hafa vissulega stundum verið), hefur áherslan verið á að sýna samstöðu með réttindum þeirra, og reyndar einnig á að kynna ýmiss konar kynhneigð aðra en gagnkynhneigð og samkynhneigð sem sjálfsagða og eðlilega.
Í Gleðigöngunni í gær báru Samtökin 78 nokkur spjöld með niðrandi og hatursfullum ummælum um samkynhneigða, ummælum sem tekin höfðu verið af Facebook.  Markmiðið virðist vera að sýna að enn sé til fólk með ógeðfelldar hugmyndir um samkynhneigð, fólk sem er tilbúið að ausa úr sér óþverranum á samfélagsmiðlum.
Það ætti engum að koma á óvart að fordómar gegn samkynhneigð séu ekki algerlega horfnir úr samfélaginu.  Slíkar hugmyndir deyja varla fullkomlega út á örskömmum tíma.  Það eru því engin tíðindi að hægt sé að finna ummæli af þessu tagi, auk þess sem við vitum ekkert um hugarástand, eða almennt sálarástand, þeirra sem létu þau falla.
Þegar svo gríðarlegur árangur hefur náðst sem raun ber vitni, á svo skömmum tíma, og ekkert bendir til að hægt sé að eyðileggja þann árangur, er þá skynsamlegt af samtökunum sem eiga heiðurinn af þessum glæsilegu sigrum að pakka í hatramma „vörn“ gegn einstaka eftirlegukindum sem spúa hatri sínu úr stöku skúmaskoti?  Er ástæða til að ætla að einhver hætta stafi af þessu fólki?  Er kannski hugsanlegt að andúð þeirra fáu sem eftir eru í fordómunum espist við það að þeim sé veitt þessi athygli?
Nú má vera að ég hafi ekki fylgst nógu vel með Samtökunum 78, en ég tók í fyrsta skipti eftir þessum neikvæða málflutningi af hálfu samtakanna fyrir ári eða svo.  Núverandi formann hef ég líka heyrt halda því fram, án þess að benda á neitt annað en „tilfinningu“ ótilgreinds fólks, að ástandið sé að versna; að  samkynhneigt fólk finni fyrir meiri fordómum.
Það er segin saga að þeir sem vilja sjá slæmt ástand sjá það; heimsósómaraus hefur fylgt mannkyninu frá því sögur hófust.  Það er til dæmis afar algengt að fólk haldi að ofbeldi, og harkan í því, hafi aukist á svæðum þar sem gögn segja allt annað.  Ég efast um að það sé gagnlegt fyrir samkynhneigða, og okkur öll sem viljum að allri mismunun gegn þeim sé útrýmt, að hefja nú „fórnarlambsvæðingu“ samkynhneigðra.
Ég hef meiri trú á því að áframhaldandi jákvæð umfjöllun um alls konar kynhneigð, sem ekkert lát er á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, sé vænlegasta leiðin til að hrekja þá sem enn eru forpokaðir út í dagsbirtuna, þar sem þeim verður ljóst hvað hún er miklu betri en myrkur fordómanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.7.2014 - 10:16 - 13 ummæli

Er Félagsvísindastofnun í ruglinu?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, ætlar að stjórna rannsókn sem fram fer á vegum Félagsvísindastofnunar skólans, þar sem á að meta „erlenda áhrifaþætti“ bankahrunsins 2008.   Hannes er náinn vinur og pólitískur samherji ýmissa þeirra sem léku stór hlutverk í hruninu, svo sem Davíðs Oddssonar sem þá var seðlabankastjóri og tók sem slíkur ýmsar mikilvægar og umdeildar ákvarðanir, sem sumar tengdust erlendum aðilum.

Augljóst er að hér er um að ræða meiriháttar hagsmunaárekstur, af því tagi sem háskólafólk með sjálfsvirðingu forðast í lengstu lög, og vonandi sér Hannes að sér.   En jafnvel það myndi ekki fría Félagsvísindastofnun, og forystu HÍ, af ábyrgð í málinu, því Félagsvísindastofnun hefur þegar samið við Fjármálaráðuneytið um að Hannes stjórni þessari rannsókn.   Það er glórulaust athæfi af hálfu rannsóknastofnunar við háskóla.

Það er nógu slæmt að háskólastofnun taki að sér að vinna rannsókn af þessu tagi fyrir aðila (ráðumeytið) sem stjórnað er af manni (núverandi ráðherra) sem hefur gríðarleg tengsl við ýmsa þá sem voru í stórum hlutverkum í hruninu, auk þess að hafa sjálfur átt í umdeildum viðskiptum með hluti í einum af bönkunum sem hrundu.  En það er brjálæði að stofnunin skuli semja um að slík rannsókn sé framkvæmd af manni með þann bakgrunn sem Hannes hefur varðandi það sem á að rannsaka.

Það er til einföld lausn á þessu:  Að Háskóli Íslands hætti alveg að taka að sér rannsóknir fyrir aðila sem ljóst er að eiga hagsmuna að gæta og sem vonast því til að niðurstöðurnar verði þeim hagstæðar.  Slíkir hagsmunaárekstrar gera að engu það traust sem þarf að vera hægt að bera til rannsókna í háskólum.  Með því að láta nota sig með þessum hætti er HÍ að selja það sem á að vera mikilvægasta eign skólans, traustið á akademískan heiðarleika hans.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.6.2014 - 10:16 - 13 ummæli

Manndráp lögreglu, hvítþvottur saksóknara

Maður spilar of háa tónlist í íbúð sinni um nótt, en angrar að öðru leyti engan mann.  Nágranni hringir í lögreglu, kvartar yfir hávaðanum og segir hann (ranglega) koma frá manninum M.  Nágranninn segir líka, ranglega, að heyrst  hafi skothvellur og telur, einnig ranglega og án nokkurra trúverðugra skýringa, að M hafi skotið sjálfan sig til bana.  Þetta verður til þess að lögregla mætir á staðinn og drepur manninn S.
Síðastliðinn föstudag birti ríkissaksóknari skýrslu um rannsókn sína á því þegar sérsveit ríkislögreglustjóra drap mann í Hraunbæ þann 2. desember í fyrra. (Skýrslan sjálf er hér.)  Því miður hafa fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, lítið fjallað um þetta mál með öðrum hætti en að birta yfirlýsingar yfirvalda, sem hafa verið af afar skornum skammti.  Auk þess hefur nú  komið í ljós að mikilvægum upplýsingum um atburðarásina var leynt, t.d. þegar lögregla hélt blaðamannafund um málið og fegraði þar framgöngu sína.  Þótt skýrsla ríkissaksóknara varpi ljósi á sumar hliðar málsins sem áður voru óljósar sýnir skýrslan að rannsókninni virðist ekki hafa verið ætlað að leiða í ljós allan sannleikann í málinu, og alls ekki að greina ástæður þeirra augljósu mistaka lögreglunnar sem höfðu svo hryllilegar afleiðingar.
[Viðbót kl. 15:08:  Það virðist vera misskilningur af minni hálfu sem kemur fram í eftirfarandi málsgrein, að ríkissaksóknari hafi með þessu ákveðið fyrirfram að enginn lögreglumaður gæti verið sekur um refsivert athæfi.]
Í upphafi skýrslunnar er sagt frá því að lögreglumenn ríkislögreglustjóra (sem sérsveitin heyrir beint undir) hafi verið yfirheyrðir sem vitni, og þeim bent á að vitni í slikri stöðu ætti ekki að svara neinum spurningum ef í svarinu gæti „falist játning eða bending um að það hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi því siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni.“  Því virðist ríkissaksóknari hafa ákveðið í upphafi að enginn yrði yfirheyrður sem grunaður um mögulega refsiverðan verknað, en ekki er útskýrt á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin.  Auk þess lét ríkissaksóknari lögreglu framkvæma þessa rannsókn á aðgerðum lögreglu að stórum hluta, sem rýrir trúverðugleika hennar verulega.
Upphaf málsins er að nágranni mannsins sem skotinn var til bana hefur samband við lögreglu og kvartar undan tónlistarhávaða.  Nágranninn nafngreinir manninn ranglega og lögreglan áttaði sig ekki á þeim mistökum fyrr en löngu síðar, og  lögreglumenn á vettvangi vissu ekki af því fyrr en þeir voru að brjótast inn í íbúðina, og jafnvel þá var það ekki lögreglan sjálf sem lét þeim í té þær upplýsingar.
Nágranninn segist hafa heyrt skothvell, sem var rangt, því samkvæmt rannsókn lögreglu var engum skotum hleypt af í íbúðinni áður en hún kom á vettvang.  En vegna þessarar röngu staðhæfingar nágrannans er ákveðið að kalla til sérsveitina, sem vopnast og tekur sér stöðu við íbúðardyrnar.  Nágranninn (sem af óútskýrðum ástæðum er tilgreint að hafi gegnt herþjónustu) taldi líka að umræddur maður hefði skotið sjálfan sig.  Ekki er útskýrt af hverju lögreglan taldi álit nágrannans áreiðanlegt, en svo mikið er víst að hún gekk út frá því sem vísu að hann hefði giskað rétt (þótt síðar hafi komið í ljós að hann hafði rangt fyrir sér, í báðum atriðum).  Sú ranga ályktun lögreglu að nágranninn hefði rétt fyrir sér hratt hins vegar af stað atburðarás sem trúlega hefði aldrei þurft að verða, en endaði með því að lögreglan skaut manninn til bana.
Lögregla ákvað sem sagt að brjótast inn í íbúðina, og fékk til þess lásasmið utan úr bæ, en sagði honum ekki frá því að inni í íbúðinni væri maður sem talið væri að væri vopnaður og hefði hleypt af skoti.  Lásasmiðurinn var látinn vinna verk sitt algerlega óvarinn, og lögreglan á staðnum var ekki varin að fullu eins og hún hefði átt að vera, því sá lögreglumaður sem stóð næst dyrunum var ekki með skotheldan hjálm.  Þegar dyrnar voru svo opnaðar skaut íbúinn á lögreglumann fyrir utan þær, en hann sakaði ekki.  Hefði það skot lent á lásasmiðnum en ekki skildi lögreglumannsins er trúlegt að lögreglan hefði nú líf lásasmiðsins einnig á samviskunni.
Augljóst er að lögreglan stofnaði lífi lásasmiðsins í hættu, og að það var gert á fráleitum forsendum, það er að segja getgátum nágrannans einum saman.  Samt útskýrir ríkissaksóknari hvergi af hverju hér er ekki um að ræða refsivert gáleysi.  Hvergi í skýrslunni er heldur rætt um ábyrgð stjórnenda aðgerðarinnar eða annarra yfirmanna í lögreglunni sem ábyrgð ættu að bera.
Ekki var reynt að hafa samband við ættingja mannsins eða aðra þá sem hugsanlega hefðu getað náð sambandi við hann, til dæmis gegnum síma, enda fjalla verklagsreglur sérsveitar og lögreglu ekki um slíkt, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, en hann gerir engar athugasemdir við skortinn á slíkum reglum.  Lögreglan bar fyrir sig að stuttur tími hefði verið til stefnu þar til „fólk færi til vinnu, börn í skóla og leikskóla o.s.frv.“  Ekki er útskýrt af hverju ekki var til dæmis hægt að senda lögreglumenn í alla stigaganga innan skotfæris við íbúð mannsins, til að koma í veg fyrir að íbúar sýndu sig utandyra.
Ríkissaksóknari segir líka í skýrslunni:
„Ekki verður séð að forsvaranlegt hefði verið að hafa samband við ættingja S og blanda þeim í aðgerðir lögreglu, sem voru hættulegar, auk þess sem ekki er gengið að upplýsingum um ættingja um miðja nótt, hvað þá að lögreglan geti vitað hvernig sambandi á milli fólks/ættingja er háttað og geti þannig metið hvort rétt sé að kalla þá til aðstoðar.“
Það er fáránlegt að halda fram að ekki hefði verið hægt að hafa uppi á ættingjum mannsins, og fráleitt að gefa sér að enginn þeirra hefði getað fengið hann til að svara í síma, því ríkissaksóknari ákveður hér að lögreglan hafi lög að mæla án þess að færa nokkur rök fyrir þessari sérkennilegu afstöðu.
Þegar hér var komið sögu var ákveðið að reyna að svæla manninn út úr íbúðinni með því að skjóta inn í hana gashylkjum, sem ættu að neyða hann til að yfirgefa íbúðina.  Rétt er að hafa í huga að þegar það var gert hafði maðurinn engum skotum hleypt af nema þegar brotist var inn í íbúðina.  Hann hafði sem sagt engan áreitt og ekki reynt að skaða neinn nema þegar brotist var inn í íbúðina, og ekkert sem bendir til að hann hafi haft slikt í hyggju.
Sú ákvörðun að beita gasi til að svæla manninn út er illskiljanleg, því maðurinn hafði áður brugðist við innrás í íbúðina með því að skjóta, og því varð að telja afar líklegt að hann myndi skjóta á lögreglu fyrir utan íbúðina ef hann léti svælast út úr henni.  Ljóst var líka að ef það gerðist myndi lögreglan drepa hann.  Lögreglan setti því vísvitandi af stað atburðarás sem yfirgnæfandi líkur voru á að myndi enda með því að manninum yrði banað, þótt hann hefði fram að því engum ógnað eða gert sig líklegan til að skjóta, nema þegar beinlínis var ráðist á hann.  Aldrei hefur verið útskýrt með skynsamlegum hætti af hverju lögregla beið ekki átekta, enda ætti hún að þekkja ótal sögur erlendis frá þar sem umsátur af þessu tagi stendur dögum saman.
Aðgerðinni lauk svo með því að lögregla braust inn í íbúðina eftir að gríðarlegum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn um glugga og dyr, án þess að íbúinn kæmi út.  Þegar þangað var komið skaut maðurinn aftur gegn lögreglu.  Lögreglan sagði, samkvæmt ríkissaksóknara, að hún hefði ekki getað hörfað út úr íbúðinni, þótt ekki sé útskýrt af hverju, og því „neyddist“ hún til að skjóta manninn, og bana honum þannig.
Ljóst er að lögreglan hóf vopnaðar aðgerðir sínar á fölskum forsendum, sem hún reyndi ekki að sannreyna með nokkrum hætti.
Ljóst er að lögreglan setti lásasmiðinn í bráða lífshættu, og að fyrir því var engin afsökun.
Ljóst er að lögreglan réðst inn í íbúð manns sem engum hafði ógnað, sem leiddi til þess að hann skaut á lögreglumennina.
Ljóst er að lögreglan setti af stað, í stað þess að bíða átekta meðan maðurinn bærði ekki á sér og ógnaði engum, atburðarás sem nánast öruggt var að myndi leiða til þess að hún banaði honum.
Í stuttu máli er ljóst að lögreglan gerði mörg mistök, að sérsveitin ræður alls ekki við aðstæður af þessu tagi, og að það var hún sem þvingaði fram atburðarás sem leiddi til þess að hún drap mann, sem engum hafði ógnað áður en lögreglan kom til sögunnar.  Ljóst er einnig að yfirvöld, þar á meðal ríkissaksóknari, hafa engan áhuga á að upplýsa málið til fulls, og engan áhuga á að læra af mistökunum, bara að breiða yfir þau mistök sem höfðu svo hræðilegar afleiðingar.  Ljóst er því að ekkert verður gert til að koma í veg fyrir að harmleikur af þessu tagi endurtaki sig, því mikilvægara virðist vera að hvítþvo yfirvöld en að tryggja öryggi borgaranna.(Í útvarpsþættinum Harmageddon var fjallað um þetta mál í fyrradag)

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is