Sunnudagur 19.4.2015 - 10:15 - Rita ummæli

Áfellisdómar yfir forystu Háskóla Íslands

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í gær birti ég á Facebooksíðunni sem ég notaði fyrir rektorsframboð mitt póst sem sendur var á hi-starf, en það er póstlisti við Háskóla Íslands, þar sem rædd eru málefni skólans. Þar sagði einn af öflugustu vísindamönnum landsins frá því hvernig HÍ hafði dregið hann og sex aðra umsækjendur um svar við umsóknum um stöðu í rafmagnsverkfræði í meira en fjórtán mánuði, áður en tilkynnt var að staðan hefði verið lögð niður. Ég veit ekki hver ástæðan var í því tilfelli, en þetta, að leggja niður stöður sem farið hafa gegnum umsóknarferli, er „trix“ sem oftar en einu sinni hefur verið beitt við HÍ til að komast hjá því að ráða fólk sem ekki var þóknanlegt þeim sem með völdin fóru.

Þetta er einn af mörgum áfellisdómum yfir núverandi forystu HÍ, sem ber ábyrgð á fjölda tilfella þar sem skólinn hefur hrakið frá sér öflugt vísindafólk. En það er fleira misjafnt sem forysta skólans ber ábyrgð á, hlutir sem hafa beinlínis skaðað starf skólans og orðstír hans. Það sem verra er, afar lítið er talað opinskátt um mál af þessu tagi innan skólans, þótt víða kraumi mikil óánægja undir niðri. Síðustu daga hafa þó nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn látið í sér heyra á ofangreindum póstlista. Ég segi hér frá tveimur póstum á listann, og birti viðbrögð mín við þeim (sem ég sendi líka á þennan lista).


Í öðrum póstinum var talað um „heiðarlegt vísindastarf“ og sagt frá fundi þar sem fram kom að Íslendingar einir Norðurlandaþjóða væru ekki með „kerfisbundnar leiðir til þess að hafa eftirlit með og taka á óheiðarleika í vísindastarfi“. Það kemur mér ekki á óvart, eins og kemur fram í svari sem ég sendi við þessu:

„Þessar vikur sem ég tók þátt í kosningabaráttunni við HÍ sem frambjóðandi var mér bent á nokkur dæmi um óyggjandi ritstuld við skólann. Hér er bæði um að ræða ritstuld akademískra starfsmanna og ritstuld nemenda (í lokaritgerðum) sem leiðbeinendur áttu augljóslega, vegna aðstæðna, að koma auga á. Ekkert hefur verið gert í þessum málum, og það þrátt fyrir þann stórfellda ritstuld prófessors við skólann sem framinn var fyrir tíu árum eða svo, og sem skólinn beitti engum viðurlögum við.

Þetta er augljóslega áfellisdómur yfir núverandi forystu skólans, enda vandséð að afbrot af þessu tagi væru nokkurs staðar liðin í háskóla með lágmarks siðferði.“


Hinn pósturinn var frá fyrrverandi akademískum starfsmanni skólans, sem sagði frá hörmulegum viðtökum varðandi aðbúnað og aðstoð þegar hún réði sig til HÍ 2010, fáum árum eftir doktorspróf við bandarískan háskóla. Þetta virðist ekki vera einsdæmi heldur nánast hafa verið regla við HÍ áratugum saman, þar sem ungt vísindafólk er sett í langa þrælkun, í stað þessa að búa því slík kjör að það geti blómstrað, skólanum til hagsbóta. Hér fer á eftir svar mitt við þessum pósti:

Sæl NN (og þið öll)

Þótt ég sé ekki lengur frambjóðandi ætla ég að svara þessu í stuttu máli, þótt ég svari ekki hverri spurningu fyrir sig, enda held ég flest vandamálin sem þú nefnir séu af sömu rót runnin, nefnilega skilnings- eða hirðuleysi um það hvernig gott háskólastarf er byggt.

Lausnin sem ég sé á þeim augljósa og langvarandi vanda sem þú talar um er að Háskóli Íslands fari einfaldlega að haga sér eins og þeir skólar gera sem hann vill líkjast. Það þýðir meðal annars eftirfarandi

— Að afleggja vinnumatskerfið og nota í staðinn það jafningjamat sem alls staðar er lagt til grundvallar í fræðasamfélaginu, og sem byggt er á alþjóðlegum viðmiðum. Ef forysta skólans treystir sér ekki til að taka raunverulega forystu og ábyrgð eins og forysta sæmilegra háskóla gerir, þá er vonlaust að hún muni bæta starf skólans. Sá sem skýlir sér á bak við baunatalningu af því tagi sem birtist í vinnumatskerfinu er ekki hæfur til að leiða háskóla.

— Hætta að sóa rannsóknafé skólans í rannsóknir á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu en þar sem aðallega er birt á íslensku í dag, og nota féð í staðinn til að efla allar þær góðu rannsóknir sem er að finna innan skólans.

— Vernda sérstaklega ungt vísindafólk sem er að hefja feril sinn. Svo virðist sem HÍ hafi mjög lengi, kannski alltaf, farið þveröfugt með ungt fólk en þeir skólar sem hann segist vilja bera sig saman við, þ.e.a.s. kaffært það í allt of mikilli annarri vinnu en rannsóknum, auk þess sem launin hafa verið svo lág að fólk reynir að bæta þau upp með vinnu sem tekur tíma frá rannsóknum. Það er vísasta leiðin til að skaða vísindaferil á því viðkvæma stigi varanlega.

Með því að hætta þeirri sóun sem nefnd er hér að ofan losnar tími sem hægt er að nota í kennslu, og létta þannig kennsluálagið á þeim sem ástæða er til að veita meira svigrúm fyrir rannsóknir. Þetta gerist auðvitað ekki á einni nóttu, en sé rétt haldið á málunum mun þetta fé/tími losna nokkuð hratt á næstu árum þannig að hægt sé að efla gott rannsóknastarf.

Ég segi eins og þú, NN, þótt ég hafi það mjög gott erlendis, og þótt ég hafi aldrei starfað við HÍ, að ég læt mig alltaf öðru hverju dreyma um að vinna við skólann, að því tilskildu að þessi mál séu komin í nokkurn veginn skikkanlegt horf. Enda er margt sem mig myndi langa að gera á Íslandi, t.d. varðandi menntun stærðfræðinga og stærðfræðikennara og uppbyggingu rannsókna, þar sem ég tel mig hafa eitthvað fram að færa. Væri forysta skólans að vinna vinnuna sína, og hefði í raun þann metnað sem yfirlýsingar hennar snúast um, þá myndi ég miklu frekar vilja vera óbreyttur akademískur starfsmaður við skólann en rektor.

Því má svo bæta við að þegar ég var rekinn frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010, sem leiddi til þess að tíu manna rannsóknahópur, fjármagnaður af Öndvegisstyrk, leystist upp, og allir fjórir föstu starfsmennirnir (þar af einn við HÍ) fluttu til Skotlands, gerði forysta HÍ ekki minnstu tilraun til að fá okkur yfir til sín, þrátt fyrir fyrirspurnir mínar. Það hefði þó ekki átt að vera óyfirstíganlegt á þeim tíma, eins og ég benti á, að fá menntamálaráðuneytið til að gera það kleift fjárhagslega, enda hafði forysta HR skömmu áður einmitt nefnt það sem möguleika að við færum yfir, og samningar HR voru lausir þegar þetta var.

Bestu kveðjur, með von um bjartari framtíð,

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.4.2015 - 10:15 - 1 ummæli

Hvort myndi ég kjósa Guðrúnu eða Jón Atla?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í rektorskjörinu í Háskóla Íslands s.l. mánudag fékk Jón Atli Benediktsson 48,9% greiddra atkvæða, Guðrún Nordal 39,4% og ég 9,7%. Því þarf að kjósa aftur milli Jóns og Guðrúnar, úr því að enginn fékk yfir 50%. Ég hef ekki kosningarétt (og það hafa eigendur skólans, sá almenningur sem borgar rekstur hans, ekki heldur), svo ég þarf ekki að gera upp við mig hvort þeirra ég myndi heldur kjósa. Ég ætla samt að útskýra á hvaða forsendum ég myndi taka slíka ákvörðun, ef ég þyrfti þess.

Flest af þeim atriðum sem ég tel hér upp talaði ég auðvitað um í kosningabaráttunni, en sum hef ég lítið rætt áður, þótt ég telji þau skipta miklu máli. Ég set þessi „nýju“ atriði fyrst hér að neðan, þótt hin sem ég hef áður talað um séu kannski mikilvægari.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa þetta allt hef ég skáletrað, í lok hvers kafla, þær spurningar sem ég myndi spyrja Guðrún og Jón Atla til að gera upp hug minn.

Stjórnsýsla, akademískt frelsi og umræða innan skólans

Háskóli Íslands hefur lengi notið mikillar velvildar fjölmiðla, sem birst hefur í að þeir hafa gjarnan endurvarpað hátíðlegu tali forystu skólans um hann, en sjaldan athugað veruleikann að baki. Þátttaka mín í rektorskjörinu varð til þess að margt fólk innan skólans sagði mér frá hlutum sem ekki eru í eins góðu lagi og þeir hafa e.t.v. virst utan frá séð, vegna þessarar einlitu umfjöllunar. Ég fæ ekki betur séð en að forysta skólans hafi skotið sér hjá því að taka á ýmiss konar málum sem upp hafa komið, sem hefur valdið því að óánægjan kraumar víða undir niðri. Eitt mál sem ratað hefur í fjölmiðla og sem margir innan skólans virðast enn óánægðir með er stórfellt ritstuldarmál prófessors, sem leiddi ekki til neinna viðurlaga af hálfu skólans. Það er nánast óhugsandi í háskóla með sjálfsvirðingu og óbærilegur tvískinnungur af hálfu skóla sem eðlilega refsar nemendum sínum fyrir slíkt. Ekki er að sjá að forysta skólans sé líkleg til að haga sér með öðrum hætti framvegis.

Mér sýnist líka ljóst að opinská umræða eigi sér ekki stað innan skólans um hin ýmsu vandamál hans, bæði hvað varðar akademískt starf og stjórnsýslu, og að það sé talsverð sjálfsþöggun í gangi, af því að margir óttist að verða refsað með einum eða öðrum hætti fyrir að tjá óþægilegar skoðanir og gagnrýni á yfirvöld skólans. Ég hef sett fram þá hugmynd að komið verði á fót „umboðsmanni“ akademískra starfsmanna, sem þeir gætu snúið sér til með kvartanir vegna meintra brota á akademísku frelsi. Þeir sem hafa aðgang að Facebook geta séð hana hér.

Því myndi ég spyrja Guðrúnu og Jón Atla hvort og þá hvernig þau hyggist taka á erfiðum málum, bæði varðandi misferli starfsmanna og þá kúgun sem sumir þeirra upplifa. Ég vil fá skýr svör, ekki undanbrögð og innantóman fagurgala af því tagi sem ég hef heyrt hingað til frá forystu skólans.

Hvernig á að velja rektor?

Aðferð HÍ við að velja rektor er vægast sagt óeðlileg. Þótt nauðsynlegt sé að rektor hafi sæmilegan stuðning við stefnu sína meðal starfsfólks er óeðlilegt að starfsmenn ráði því alfarið (ásamt stúdentum) hver sé æðsti yfirmaður stofnunarinnar, alveg eins og það væri ótækt að starfsmenn Vegagerðarinnar réðu hver væri forstjóri. Eigendur skólans, sá almenningur sem einnig borgar allan rekstur hans, hafa að sönnu nokkra fulltrúa, skipaða af menntamálaráðherra, í háskólaráði, sem er æðsta stjórn skólans. En háskólaráð hefur ákveðið að afsala sér öllu valdi sínu í hendur starfsfólki og stúdentum, og stimplar sjálft bara útkomuna úr rektorskjöri. Ráðið hefur heldur ekki lyft litlafingri til að kynna umsækjendur fyrir þeim sem kjósa, ekkert gert til að jafna aðstöðumun umsækjenda innan úr og utan skólans, og þar að auki beinlínis brotið reglur skólans með því að auglýsa rektorsstarfið ekki utan landsteinanna, sem bendir til andúðar á því að utanaðkomandi sæki um. Þessi fruntalega afdalamennska er einmitt ein ástæða þess að skólinn þarf sárlega á því að halda að fá utanaðkomandi rektor, og það er ein af ástæðum þess að ég vona að sá sem nú verður kosinn rektor muni ekki sitja lengur en fimm ár.

Annað sem augljóslega býður heim spillingu er að rektor er forseti háskólaráðs, og fólk innan skólans virðist sammála um að rektor hafi sem slíkur, og með öðrum hætti, mikil áhrif innan þess. Sitjandi rektor sem vill sitja áfram getur því haft afgerandi áhrif á möguleika sína, og einnig á það hver verði eftirmaður. Þetta er spilling sem er bókstaflega innbyggð í reglur skólans.

Það er líka sérkennilegt að hlusta á mærðina um það „lýðræði“, sem á að felast í því að starfsmenn kjósi rektor. Annars vegar nær það lýðræði ekki lengra en til þess „aðals“ sem starfar í skólanum og hefur persónulegra hagsmuna að gæta, en „almúginn“ sem borgar brúsann hefur engin áhrif. Hins vegar hafa stundakennarar, sem hafa á sinni könnu 30% kennslu við skólann, og búa við afar léleg kjör, ekki atkvæðisrétt, á meðan nemendur, jafnvel þeir sem bara eru skráðir í eitt námskeið, hafa slíkan rétt.

Ég tel að háskólaráð eigi að beita sér fyrir því að rektorsefni yrðu kynnt vandlega fyrir starfsfólki og stúdentum, sem fengju góð tækifæri til að spyrja spurninga og koma skoðunum sínum á framfæri. Ráðningin ætti hins vegar að vera í höndum nefndar sem hefði það hlutverk að ráða þá manneskju sem líklegust væri talin til að efla skólann, ekki til að vinna dýra og froðukennda vinsældakosningu sem þar að auki skipar starfsfólki í tvær stríðandi fylkingar eins og raunin virðist nú orðin. Starfsfólk og stúdentar ættu að hafa fulltrúa í slíkri nefnd, en aðrir í henni þyrftu að vera utanaðkomandi fólk sem nyti sæmilegs trausts, og auðvitað ætti að hafa þar óháð erlent háskólafólk.

Myndi Guðrún eða Jón Atli beita sér fyrir að betur yrði staðið að ráðningu rektors, og uppræta eigin áhrif á það ferli, alveg sérstaklega ef þau hefðu áhuga á að sitja lengur en fimm ár?

Kennslumálin

Ég fékk talsverðar skammir fyrir gagnrýni mína á slaka kennsluhætti og vont námsmat sums staðar í skólanum, og það þótt ég tæki alltaf fram að kennslan væri örugglega góð sums staðar og að augljóslega væri til ágætis þekking á góðum og slæmum kennsluháttum innan skólans. Samt vita allir sem vilja vita að kennsluhættirnir eru sums staðar óboðlegir í skólanum, og augljóst að forysta skólans hefur leitt þau vandamál hjá sér. Það er áfellisdómur yfir forystu háskóla að láta sig litlu varða hvernig kennsla fer fram, því forystan ber að sjálfsögðu ábyrgð á gæðum kennslunnar, sem er annað höfuðhlutverk háskóla, og hún verður ekki bætt alls staðar nema forystan taki raunverulega forystu í því.

Myndi Guðrún eða Jón Atli taka þá forystu í kennslumálunum sem þarf, og láta þau boð út ganga að kennsluna verði að bæta þar sem henni er ábótavant? Myndu þau beita sér fyrir því að umbunað verði fyrir góða kennslu? Og hvernig myndu þau fara að þessu?

Rannsóknir

Forysta HÍ talar og lætur eins og Íslendingar séu einhvers konar ofurmenni, og því geti skólinn, sem spannar mestallt íslenska háskólakerfið, verið með alla akademíska starfsmenn í rannsóknastöðum, sem er óþekkt í löndum með jafn stórt háskólakerfi, og það þótt rannsóknaháskólar í viðkomandi löndum hafi mun meira fé en HÍ. Þetta eru blekkingar af sama tagi og beitt var í fjármálastofnunum fyrir hrun. Afleiðingarnar fyrir HÍ verða ekki sams konar hamfarir fyrir almenning, en þeir sem einbeita sér að því að fela vandamálin munu ekki leysa þau, frekar gera þau ennþá verri, eins og sjá má af því flókna og fáránlega vinnumatskerfi sem notað hefur verið í stað þess að umbuna fyrir góðar rannsóknir og kennslu.

Hvað eru Guðrún eða Jón Atli líkleg til að gera sem leiddi af sér að rannsóknafé skólans yrði notað í rannsóknir af þeim gæðum sem miðað er við í sæmilegum skólum á alþjóðavettvangi?

Í lokin get ég svo ekki stillt mig um að birta gula spjaldið sem ég tel að eigi að sýna núverandi forystu skólans:

gula-spjaldid

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

Mánudagur 13.4.2015 - 09:15 - Rita ummæli

Er Einar Steingrímsson á móti menntun leikskólakennara?

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Í aðdraganda rektorskjörs í HÍ hefur eitt og annað sem ég hef sagt á Facebook verið dregið fram og rætt á netinu og víðar. Mér finnst bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að fólk sem situr í valdastöðum eða sækist eftir því þurfi að standa fyrir máli sínu, jafnvel varðandi hluti sem það sagði fyrir löngu. Hins vegar hefur verið snúið svolítið út úr sumu af því sem ég hef sagt, meðal annars Facebook-status sem ég skrifaði fyrir tveim og hálfu ári um menntun leikskólakennara.

Það sem ég sagði í þessum status var að ég teldi ekki að það ætti að krefjast þess að leikskólakennarar þyrftu margra ára bóklegt háskólanám. Ég sagði hins vegar ekki það sem margir hafa haldið fram, að leikskólakennarar þyrftu enga menntun, hvað þá að ég teldi eitthvað rangt við að þeir hefðu slíka menntun.

Þessi status var ekki skrifaður sem stefnuyfirlýsing, enda hefur rektor engin völd til að skipta sér af menntunarkröfum leikskólakennara. Ef ég hefði slík völd myndi ég að sjálfsögðu ekki taka neinar ákvarðanir út frá eigin hugmyndum sem kastað hefði verið fram á Facebook, hvað þá fyrir nokkrum árum, heldur leita fyrst álits sérfræðinga og foreldra og engar ákvarðanir taka fyrr en eftir ítarlegar úttektir og greiningar (öfugt við það slugs sem mér finnst allt of algengt í íslenskri stjórnsýslu).

Ég hef margoft lýst því yfir að ég muni sem rektor ekki skipta mér beinlínis af akademísku starfi deilda háskólans; ég legg áherslu á að allar ákvarðanir um slíkt séu teknar á jafningjavettvangi, þ.e.a.s. innan viðkomandi deildar eða sviðs. Ég hef t.d. svarað spurningum um þetta varðandi kynjafræði og guðfræði á framboðssíðunni minni, og sagt einmitt þetta: Ég mun sem rektor ekki skipta mér af því hvernig akademíska starfið fer fram innan einstakra deilda; slíkt á að vera á ábyrgð viðkomandi deilda og sviða.

Ég vil líka endurtaka það sem ég hef sagt oft á ýmsum vettvangi, að mér finnst vond sú afstaða sem er ansi algeng að háskólanám sé alltaf „merkilegra“ en annað nám. Ég fór sjálfur gegnum iðnnám (í stálskipasmíði í Slippstöðinni á Akureyri, áður en ég lauk svo stúdentsprófi úr öldungadeild). Í því námi, sem mér fannst afar gefandi og skemmtilegt, áttaði ég mig á því að gott starfsnám er ekkert síður krefjandi, bæði hvað varðar hæfileika og ástundun, en háskólanám, þótt af ólíkum toga sé. Þess vegna hef ég efasemdir um þá hugmynd að fyrir öll störf þurfi nám af því tagi sem á að fara fram í háskólum, þar sem höfuðáherslan er á fræðilegt bóklegt nám.

Umfram allt finnst mér mikilvægt að almenningur leyfi sér að ræða á opinberum vettvangi, eins og Facebook, alls kyns málefni sem koma okkur við, ekki síst allt menntakerfið. Og þótt mikilvægt sé að færa rök fyrir máli sínu held ég að það sé betra fyrir umræðuna að við séum óhrædd við að tjá skoðanir sem fara í bága við „viðtekin sannindi“, jafnvel þótt þær séu ekki afrakstur af löngum pælingum. Án slíkra skoðanaskipta verður umræðan aldrei sérlega frjó.

Þeim sem vilja spyrja spurninga eða leggja orð í belg um rektorsframboð mitt, og annað sem viðkemur Háskóla Íslands, bendi ég á Facebook-síðuna sem er helguð framboði mínu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.4.2015 - 10:15 - 7 ummæli

Þversagnir og staðreyndaförðun í Háskóla Íslands

[Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu í gær]

Ég er stundum skammaður fyrir að skamma Háskóla Íslands of mikið, og sumir velta því fyrir sér af hverju ég sé að sækja um starf við skóla sem ég finni allt til foráttu. Nú er það reyndar svo að ég er alltaf að benda á að í skólanum sé margt gott, bæði talsvert af góðu vísindafólki sem sumt er framúrskarandi á alþjóðavettvangi og mikil þekking á því hvað séu góðir kennsluhættir. En skólinn eyðir rannsóknafé sínu í of litlum mæli í það sem gott er innan hans, og víða eru góðir kennsluhættir algerlega hunsaðir. Með því að breyta þessu hvoru tveggja væri hægt að gera Háskóla Íslands miklu betri en hann er í dag, og það er það sem mig langar að gera. En til að bæta starf skólans þurfum við fyrst að horfast í augu við vandamálin og viðurkenna þau. Fyrr munum við ekki laga þau.

Hér ætla ég að rekja nokkur atriði í málflutningi forystu skólans sem fara í bága við starf hennar, og sem í sumum tilvikum eru bókstaflega slík fegrun á sannleikanum að við myndum hundskamma nemendur okkar fyrir að leyfa sér slíkt.

Er Háskóli Íslands einn af 300 bestu í heiminum?

Forystu skólans, ekki síst Kristínu Ingólfsdóttur rektor og aðstoðarrektornum Jóni Atla Benediktssyni sem býður sig fram til rektors, hefur orðið tíðrætt um að HÍ hafi komist inn á lista Times Higher Education yfir 300 bestu háskóla heims, þar sem hann situr nú í 250.-275. sæti. Það sem forystan nefnir aldrei er að þetta er bara einn af a.m.k. fimm vel þekktum listum yfir bestu háskóla heims. Hér eru hinir fjórir listarnir, og staða HÍ á þeim:

US News & World Report: 500 bestu, HÍ ekki með
Shanghai: 500 bestu, HÍ ekki með
CWUR: HÍ í sæti 516
QS: 800 bestu, HÍ ekki með

Ef við skoðum gögnin með þeim hætti sem háskólafólk með lágmarks virðingu fyrir góðum vinnubrögðum gerir, í stað þess að velja bara úr þeim það sem hentar okkar „málstað“, þá er staðreyndin þessi: Á helstu listum yfir bestu háskóla í heimi er HÍ að meðaltali einhvers staðar fyrir neðan 500. sæti.

Fræðsluhlutverk HÍ gagnvart samfélaginu

Mikið er talað, sérstaklega í „hátíðarræðum“, um mikilvægt fræðsluhlutverk HÍ í samfélaginu. Merkilegt nokk er HÍ þó ekki í hópi þeirra skóla heims sem leggja kapp á að birta sem mest af efni námskeiða almenningi á netinu, heldur er það efni sem birt er á Uglunni, innri vef skólans, nánast alltaf lokað almenningi. Ekki nóg með það; efni margra, ef ekki flestra, námskeiða er lokað öllum nema þeim sem hafa tekið viðkomandi námskeið. Þannig geta nemendur ekki einu sinni kynnt sér efni námskeiða sem þeir eiga eftir að taka, hvað þá að þeir geti fræðst um aðrar greinar.

Er HÍ í fararbroddi í nýsköpun og tækniþróun?

Forystuhlutverk HÍ í nýsköpun og tækniþróun er oft dásamað af forystu skólans. Samt er ennþá algengt að námsmat, jafnvel í umfangsmiklum undirstöðunámskeiðum, einskorðist við skriflegt lokapróf, í mikilli tímaþröng, þar sem nemendur eru einangraðir frá öllum tólum og gögnum sem venjan er að nota við lausn verkefna á viðkomandi sviði. Burtséð frá því að kennsluhættir af þessu tagi eru ekki til þess fallnir að þjálfa nemendur í góðum vinnubrögðum, hvað þá að frammistaða þeirra í slíku sé metin til einkunnar, þá er þetta sérkennilegur tvískinnungur í háskólastarfi á 21. öld.

Er ritstuldur alvarlegt brot?

Gríðarleg áhersla er lögð á það í öllu háskólastarfi að kynna aldrei hugverk annarra sem sín eigin. Þar sem háskólastarf snýst fyrst og fremst um hugverk er brot gegn þessu ekki síður alvarlegt en fjárdráttur í banka. Nemendum HÍ er, eins og í öðrum háskólum, refsað fyrir brot á þessu. Hins vegar eru engar sérstakar reglur um viðurlög ef akademískir starfsmenn brjóta af sér með þessum hætti. Miðað við upplýsingar frá forystu skólans hefur kennara aldrei verið refsað fyrir slíkt brot. Samt vita allir að það er ekki vegna þess að ekki hafi verið framin gríðarlega alvarleg brot af því tagi. Hvernig er hægt að búast við að nemendur taki brýningar um alvarleika ritstuldar þegar þeir vita að kennarar komast upp með slíkt án viðurlaga?

Er HÍ alþjóðlegur háskóli?

Stefna Háskóla Íslands hefur í níu ár verið að skólinn eigi að verða öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðavettvangi. Samt er ansi margt „séríslenskt“ í starfi skólans, sem aldrei fást sannfærandi skýringar á af hverju ætti að vera nauðsynlegt. Að þessu leyti minnir málflutningur forystunnar óþægilega oft á gorgeirinn í klappliði útrásarinnar fyrir hrun.

HÍ er með 18 blaðsíðna vinnumatskerfi sem liggur til grundvallar launagreiðslum og framgangi, þar sem eingöngu er metið magn, t.d. fjöldi birtinga, jafnvel í íslenskum tímaritum á svo alþjóðlegum sviðum sem sálfræði, en ekkert hirt um gæði framlags starfsmanna. Þetta er óþekkt í þeim skólum sem HÍ segist vilja líkjast. Það er líka afar algengt í góðum háskólum erlendis að leita út fyrir skólann þegar ráðið er í forystustörf. Ástæðan er augljós; bæði eiga utanaðkomandi oft auðveldara með að sjá hvað er gott og hvað slæmt í starfi skólans (og viðurkenna það), og eins er erfitt fyrir okkur flest að taka á erfiðum vandamálum í hópi fólks sem við höfum lengi tilheyrt, og þar sem við eigum vini og jafnvel óvini.

En það eru auðvitað engar „séríslenskar“ aðstæður sem afsaka heimóttarskapinn og afdalamennskuna í forystu HÍ, sem bitnar helst á því sem best er í starfi skólans. Og sú innræktun sem þar hefur átt sér stað í hundrað ár er ekki af hinu góða.

Til að HÍ geti eflst til muna, sem allar forsendur eru fyrir, þarf hann forystu sem leggur áherslu á að segja satt, viðurkenna mistök og vandamál, og einbeita sér að því að laga þau, í stað þess að flagga innistæðulausu skrumi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.4.2015 - 22:15 - 2 ummæli

Afsökunarbeiðni vegna ranghermis

Í tveimur pistlum sem birtust 14. október 2013 og 21. janúar 2014, fór ég með rangt mál um samband Háskóla Íslands og forstjóra Hjartaverndar, Vilmundar Guðnasonar.  Vilmundur er einn af öflugustu vísindamönnum landsins, og því mikill fengur fyrir HÍ að hafa í sínum röðum, en það sem ég sagði um ástæður ráðningar hans til skólans var ekki rétt, og á það var mér bent í dag.  Ég hef sett athugasemd fremst í báða pistlana, og einnig þar sem þetta kemur fyrir í hvorum þeirra.  Vilmund Guðnason og lesendur bið ég hér með afsökunar á þessum afglöpum mínum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.2.2015 - 10:57 - Rita ummæli

Fjármögnun Háskóla Íslands

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 24. febrúar]

Í fréttum RÚV í gærkvöldi  (byrjar á 5:53) töluðu bæði forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, og háskólaráðsmaðurinn Jakob Ó. Sigurðsson um bága fjárhagsstöðu skólans, og Magnús talaði um að það þyrfti að endurfjármagna háskólakerfið í heild sinni og að þetta þyrftu frambjóðendur til rektors HÍ að láta til sín taka.

Til að sannfæra stjórnvöld um að skynsamlegt sé að veita meira fé í HÍ þarf skólinn að leggja fram sannfærandi stefnu sem felur í sér þess konar breytingar á starfi hans sem líklegar eru til að nýta fjármuni hans betur. Ekki bara til að bregðast sem best við núverandi fjárskorti, heldur líka til að tryggt sé að aukið fé verði vel notað.

Eitt af því sem oft er kvartað yfir, og örugglega réttilega, er að í HÍ séu of margir nemendur miðað við kennara. Ein leið til að laga þetta er að fjölga kennurum. Hin leiðin er að fækka nemendum, og við verðum að vera tilbúin að ræða þann möguleika, og hvort það sé e.t.v. skynsamlegt út frá gæðum skólans, jafnvel þótt hann fengi miklu meira fé. Þótt vissulega sé hægt að þjóna þörfum nemenda með talsvert ólíkan bakgrunn og getu eru takmörk fyrir því hversu mikil sú breidd má vera áður en hún kemur niður á kennslunni.

Það hefur verið rætt um að endurskipuleggja háskólakerfið í heild sinni frá því fyrir hrun. Eftir hrun var talað um það sem nauðsyn, í ljósi yfirvofandi niðurskurðar, en út úr því kom nákvæmlega ekki neitt. Eitt af því sem Háskóli Íslands ætti að vera tilbúinn að ræða í þeim efnum er hvort Ísland ætti að hafa svipað tvískipt kerfi og er í flestum sambærilegum löndum, þar sem lítill hluti nemenda stundar nám í háskólum með mikla áherslu á rannsóknir, en meirihlutinn í skólum þar sem áherslan er á kennslu. Það er a.m.k. erfitt að skilja af hverju Ísland á að geta staðið undir háskólakerfi þar sem allt akademískt starfsfólk hefur rannsóknaskyldu.

Ein leið til að nýta fé HÍ betur er að aflétta rannsóknaskyldunni á því starfsfólki sem ekki stundar rannsóknir af þeim gæðum sem stefna skólans miðast við að efla, þ.e.a.s. rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð. Þannig myndi sparast mikill tími, sem hægt væri að nota í annað, meðal annars að sinna kennslu og þróun hennar betur.

Hér má lesa um heildarstefnu mín fyrir HÍ.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is