Miðvikudagur 25.2.2015 - 10:57 - Rita ummæli

Fjármögnun Háskóla Íslands

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 24. febrúar]

Í fréttum RÚV í gærkvöldi  (byrjar á 5:53) töluðu bæði forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Magnús Karl Magnússon, og háskólaráðsmaðurinn Jakob Ó. Sigurðsson um bága fjárhagsstöðu skólans, og Magnús talaði um að það þyrfti að endurfjármagna háskólakerfið í heild sinni og að þetta þyrftu frambjóðendur til rektors HÍ að láta til sín taka.

Til að sannfæra stjórnvöld um að skynsamlegt sé að veita meira fé í HÍ þarf skólinn að leggja fram sannfærandi stefnu sem felur í sér þess konar breytingar á starfi hans sem líklegar eru til að nýta fjármuni hans betur. Ekki bara til að bregðast sem best við núverandi fjárskorti, heldur líka til að tryggt sé að aukið fé verði vel notað.

Eitt af því sem oft er kvartað yfir, og örugglega réttilega, er að í HÍ séu of margir nemendur miðað við kennara. Ein leið til að laga þetta er að fjölga kennurum. Hin leiðin er að fækka nemendum, og við verðum að vera tilbúin að ræða þann möguleika, og hvort það sé e.t.v. skynsamlegt út frá gæðum skólans, jafnvel þótt hann fengi miklu meira fé. Þótt vissulega sé hægt að þjóna þörfum nemenda með talsvert ólíkan bakgrunn og getu eru takmörk fyrir því hversu mikil sú breidd má vera áður en hún kemur niður á kennslunni.

Það hefur verið rætt um að endurskipuleggja háskólakerfið í heild sinni frá því fyrir hrun. Eftir hrun var talað um það sem nauðsyn, í ljósi yfirvofandi niðurskurðar, en út úr því kom nákvæmlega ekki neitt. Eitt af því sem Háskóli Íslands ætti að vera tilbúinn að ræða í þeim efnum er hvort Ísland ætti að hafa svipað tvískipt kerfi og er í flestum sambærilegum löndum, þar sem lítill hluti nemenda stundar nám í háskólum með mikla áherslu á rannsóknir, en meirihlutinn í skólum þar sem áherslan er á kennslu. Það er a.m.k. erfitt að skilja af hverju Ísland á að geta staðið undir háskólakerfi þar sem allt akademískt starfsfólk hefur rannsóknaskyldu.

Ein leið til að nýta fé HÍ betur er að aflétta rannsóknaskyldunni á því starfsfólki sem ekki stundar rannsóknir af þeim gæðum sem stefna skólans miðast við að efla, þ.e.a.s. rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð. Þannig myndi sparast mikill tími, sem hægt væri að nota í annað, meðal annars að sinna kennslu og þróun hennar betur.

Hér má lesa um heildarstefnu mín fyrir HÍ.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Þriðjudagur 24.2.2015 - 10:15 - 3 ummæli

Góð háskólakennsla og slæm

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 23. febrúar]

Líklega hafa allir sem gengið hafa í háskóla kynnst bæði góðri og slæmri kennslu. Það er reyndar einstaklingsbundið hvað hentar hverjum nemanda best, og sömuleiðis geta kennarar átt auðveldara með að gera góða hluti með einni aðferð frekar en annarri. Þó eru til kennsluaðferðir sem mér finnst óhætt að segja að séu alltaf vondar. Ég tek til dæmis hiklaust undir það sem Edda Konráðsdóttir, oddviti Röskvu, sagði í nýlegu viðtali, að námsmat sem byggir eingögnu á lokaprófi sé úrelt. Og ekki bara úrelt, heldur hefur slíkt námsmat aldrei verið til þess fallið að hvetja nemendur.

Eins og ég skýrði frá nýlega ætla ég að sækja um starf rektors við Háskóla Íslands. Eitt af því sem mig langar að koma til leiðar eru fjölbreyttari kennsluhættir og námsmat sem stuðlar að betri menntun nemenda.

Hvert er markmið námsins?

Reynsla mín af háskólakennslu er frá Svíþjóð, Íslandi og Skotlandi, auk þess sem ég var aðstoðarkennari með námi í Bandaríkjunum. Ég var sjálfur í grunnnámi við University of Pennsylvania og doktorsnámi við MIT. Eins og nánast er algilt um bandaríska háskóla lærði ég margt annað í grunnnáminu en aðalfagið stærðfræði (og heimspeki sem ég tók sem aukafag), svo ég kynntist kennsluháttum í ýmsum deildum. Sammerkt þeim öllum var mikil áhersla á sífellda verkefnavinnu yfir alla önnina, og námsmatið byggðist að stórum hluta, stundum alfarið, á verkefnavinnu. Þetta virðist gilda um flesta háskóla í Bandaríkjunum, og hugmyndin er einföld:

Til að nemendum gangi vel í námi þurfa þeir að vinna stöðugt; nám snýst ekki um að troða í sig staðreyndum á skömmum tíma og skila þeim svo aftur í nokkurra klukkustunda prófi, heldur um að tileinka sér ákveðna færni. Þótt óhjákvæmilegt sé að nemendur læri utanað ýmsar staðreyndir, þá sæmir það ekki góðri kennslu að gera þess konar utanbókarlærdóm að markmiði í sjálfu sér, heldur ætti utanbókarþekking að vera afleiðing vinnunnar.

Slík verkefni eru breytileg eftir námsgreinum, og geta til dæmis verið að skrifa ritgerð um strauma og stefnur í menntavísindum á miðri tuttugustu öld eða að greina leysanleika í tilteknum flokki diffurjafna, eða að lýsa samspili ýmissa frumulíffæra. Þótt óhjákvæmilegt sé að nemendur læri (nánast utanað) ýmiss konar einfaldar staðreyndir, eins og t.d. hvenær Piaget setti fram tilteknar kenningar, eða formúlu fyrir lausnum fyrsta stigs diffurjöfnu, eða hvað er sérstakt við erfðaefni hvatbera, þá sæmir það ekki góðri kennslu að gera þess konar utanbókarlærdóm að markmiði í sjálfu sér, hún á að þjálfa nemendur til að takast á við verkefni sem enn hafa ekki verið samin.

Sennilega myndu flestir kennarar taka undir þessar tvær staðhæfingar:

 • Til að nemendum gangi vel í námi þurfa þeir að vinna stöðugt.
 • Námsmat hefur afgerandi áhrif á hegðun nemenda í náminu.

Þrátt fyrir að þetta sé flestum ljóst eru dæmi um að æðstu menntastofnanir landsins bjóði upp á námskeið þar sem námsmatið byggist alfarið á skriflegu lokaprófi, þar sem nemendur eru bæði í tímapressu og einangraðir frá umheiminum og þeim tækjum sem við notum núorðið öll til að sækja okkur upplýsingar. Að háskólar, sem vilja láta líta á sig sem framverði þróunar, sætti sig við það er illskiljanlegt.

Hvernig fer góð kennsla fram?

Það er ekki til nein algild uppskrift að góðum kennsluháttum en ég álít að til þess að gera námskeið gott þurfi kennari að geta svarað eftirfarandi spurningum:

 • Hvert er markmið námskeiðsins? (Hvað eiga nemendur að geta að því loknu?)
 • Hvað þurfa nemendur að gera til að ná því markmiði?
 • Hvað get ég gert til að nemendurnir geri það?

Svarið við fyrstu spurningunni má ekki aðeins vera „að nemendur geti svarað spurningum úr tilteknu námsefni“ og svarið við annarri spurningunni má ekki bara vera leslisti, heldur verður kennarinn að vita í hvaða færni nemendur þurfa að þjálfast. Síðast en ekki síst þarf kennarinn að vita hvernig hann hjálpar nemendunum sem best til að öðlast þá færni.

Þegar ég fékk í fyrsta sinn tækifæri til að búa til nýtt námskeið velti ég því fyrir mér hvernig ég hefði sjálfur viljað hafa kennsluna, sem nemandi, enda var ég ekki sáttur við hversu margir stærðfræðingar kenndu stærðfræðina eins og þeim var „kennd“ hún, en ekki eins og þeir lærðu hana í raun. Niðurstaðan var að ég vildi vinna við umfangsmikil og erfið verkefni, og geta kallað á kennara þegar ég strandaði, til að komast á flot aftur.

Þetta var þriðja árs námskeið í stærðfræði fyrir töluvnarfræðinema. Það var að hluta byggt á fyrirlestrum en í stað hefðbundinna „dæmatíma“ þar sem kennari reiknar á töflu, var áherslan á vinnutíma þar sem nemendur unnu að erfiðum skilaverkefnum og fengu aðstoð kennara eftir þörfum. Í lokin var svo munnlegt próf en markmið þess var eingöngu að ganga úr skugga um að nemandinn hefði náð raunverulegum tökum á viðfangsefninu; einkunnin byggðist undantekningalítið á þeim úrlausnum sem þeir höfðu skilað.

Það er hægt að bæta kennsluna við HÍ

Þetta er auðvitað ekki eina kennsluaðferðin sem ég tel góða í stærðfræði, hvað þá í öðrum greinum, aðeins eitt dæmi um það sem hægt er að gera til að bæta kennsluna. Háskóli Íslands býr yfir ágætri þekkingu miðað við margt sem kemur fram í Handbók fyrir kennara og þá þekkingu þarf að nýta betur.

Það útheimtir hinsvegar vinnu og áhuga að þróa góðar kennsluaðferðir og við getum ekki búist við framförum nema sú vinna kennara sé metin að verðleikum og þeim búnar kjöraðstæður til að ná markmiðum sínum. Ég tel því mikilvægt að næsti rektor HÍ skapi starfsfólki þær aðstæður sem þarf til að slík þróunarvinna megi blómstra.

Á blogginu mínu og Facebook-síðunni er hægt að koma á framfæri spurningum og innleggi í umræðuna um háskólamálin, en einnig með því að senda mér póst, annað hvort á Facebook eða á einar@alum.mit.edu.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Fimmtudagur 12.2.2015 - 09:15 - 12 ummæli

Sæki um starf rektors við Háskóla Íslands

Ég hef ákveðið að sækja um stöðu rektors við Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að ég þykist vita hvernig hægt væri að bæta skólann til muna, í samræmi við yfirlýsta stefnu hans, og því finnst mér sjálfsagt að bjóðast til að leiða slíkt breytingastarf.

Það eru starfsmenn og stúdentar háskólans sem velja rektor, og af því að ég er ekki í aðstöðu til að koma stefnu minni á framfæri við þá innan skólans ætla ég að gera það með því að birta hana hér, og á Facebook-síðu sem ég hef sett upp í þeim tilgangi. Ég mun leitast við að svara spurningum sem fólk kann að hafa um stefnu mína og hvernig ég hyggst ná markmiðum hennar, á báðum þessum síðum. Spurningum er hægt að koma á framfæri með því að tjá sig í athugasemdakerfinu hér að neðan, eða á Facebook-síðunni, og með því að senda mér póst, annað hvort á þá síðu eða á netfang mitt, einar@alum.mit.edu.

Eins og að ofan segir lít ég svo á að það þurfi að gera umtalsverðar breytingar á starfi HÍ til að skólanum miði vel áfram í þá átt sem stefna hans markar. Því legg ég áherslu á það sem þarf að breyta, í stefnu minni sem ég birti hér að neðan, og sem ég mun skila með umsókn minni.

Ég veit ekki hvernig háskólinn hyggst standa að kynningu á þeim umsækjendum sem verða metnir hæfir, en mér skilst að hingað til hafi enginn utan skólans áður sótt um starf rektors (enda var það lengi vel ómögulegt), og svo virðist sem skipulagið á þessu ferli miðist enn við að umsækjendur séu úr skólanum, eða a.m.k. búsettir á Íslandi. Ég vona þó að skólinnn sjái til þess að umsækjendur utan skólans fái tækifæri til að kynna stefnu og hugmyndir sínar vandlega fyrir þeim sem munu kjósa rektor.

Á heimasíðu minni við University of Strathclyde í Glasgow má meðal annars finna ferilskrá mína.

Hér að neðan er stefna mín, og hér á pdf-formi.


 

Stefna mín fyrir Háskóla Íslands

Yfirlýst stefna Háskóla Íslands er að verða umtalsvert betri, í samanburði við það sem best gerist í heiminum í rannsóknum og kennslu. Þessi stefna er í aðalatriðum góð, en til að markmið hennar geti orðið að veruleika þarf að gera eftirfarandi breytingar:

 • Efla rannsóknastarf skólans með því að veita rannsóknafé hans fyrst og fremst til þeirra sem eru virkir og öflugir þátttakendur á þeim alþjóðavettvangi sem nánast allt fræðastarf tilheyrir.
 • Gera þeim sem aðallega munu stunda kennslu kleift að einbeita sér að henni, og umbuna þeim fyrir gott starf á þeim vettvangi.
 • Afleggja núverandi vinnumatskerfi og meta í staðinn gæði framlags starfsmanna, bæði í rannsóknum og kennslu.

Rannsóknir

Til að efla rannsóknastarf skólans þarf að nota það fé sem ætlað er til rannsókna í það starf sem stenst gæðakröfurnar sem yfirlýst stefna skólans miðast við. Það þýðir meðal annars að ekki ættu allir akademískir starfsmenn að hafa rannsóknaskyldu. Horfast verður í augu við að hluti akademískra starfsmanna skólans stundar ekki rannsóknir af þeim gæðum og umfangi sem miða verður við, og því ættu þeir starfsmenn að einbeita sér að kennslu. Þannig yrði hægt að veita meira fé í rannsóknir þeirra sem stunda gott fræðastarf í alþjóðlegum samanburði.

Sérstaklega þarf að stuðla að uppbyggingu góðra rannsóknahópa, af því að það örvar starf þeirra sem fyrir eru og laðar að öflugt vísindafólk á öllum stigum. Uppbyggingu slíkra hópa á að hafa í huga þegar rannsóknafé er útdeilt í samkeppni innan skólans.

Til að gera okkur grein fyrir stöðu hinna ýmsu deilda skólans í alþjóðavísindasamfélaginu ætti að láta gera ítarlega óháða úttekt á rannsóknastarfi þeirra. Slíkar úttektir ætti svo að endurtaka á fimm ára fresti, til að meta framfarir. (Hér má t.d. benda á úttektir sem gerðar voru í háskólunum í Helsinki, Uppsölum og Lundi árin 2005-8, en þeir eru meðal samanburðarháskóla HÍ sem nefndir eru í stefnu skólans.)

Kennsla

Það er of algengt að háskólar láti sig litlu varða hvernig kennsla fer fram og hversu vel hún gagnast nemendunum. Þótt ekki séu til neinar töfraaðferðir sem allir geta notað þá eru til vondar kennsluaðferðir sem enn tíðkast of víða, og sem ekki eru til þess fallnar að hjálpa nemendum að menntast á skilvirkan hátt. Góður háskóli verður að vinna markvisst að því að bæta kennsluna og skapa umhverfi sem gerir kennarum kleift að leggja metnað sinn í það. Hlutverk kennara er fyrst og fremst að aðstoða nemendur við að ná sjálfstæðum tökum á því sem námið snýst um, en ekki bara að tileinka sér þekktar aðferðir við að leysa þekkt viðfangsefni. Sérstaklega verður að styðja þá sem vilja prófa nýjungar, halda saman reynslunni af slíku og sjá til að hún sé aðgengileg öðrum kennurum.

Séu nemendur óánægðir með kennsluna er það undantekningalítið merki um að eitthvað sé að, og við því þarf alltaf að bregðast. Það er því mikilvægt að fá fram skoðanir nemenda um það sem miður fer, og reyna að bæta úr því sé um réttmæta gagnrýni að ræða. Því þarf að sjá til þess að stöðugt sé fylgst með viðhorfum nemenda, og að þeir geti alltaf komið skoðunum sínum á framfæri við óháða aðila innan skólans, sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif til úrbóta.

Það er ekki auðvelt að meta gæði kennslu, en þar sem hún er annað af tveimur aðalhlutverkum háskóla verður ekki vikist hjá því. Þetta er sérlega mikilvægt þegar rannsóknaskylda verður aflögð hjá sumum starfsmönnum, sem verður þá umbunað fyrst og fremst fyrir það sem þeir gera vel í kennslunni. Á þessu verða yfirmenn deilda og sviða að bera ábyrgð.

Skipa þarf sérstakan aðstoðarrektor yfir kennslumálin, sem ber ábyrgð á að unnið sé af alefli að því að bæta kennsluna stöðugt í öllum skólanum.

Vinnumat

Núverandi vinnumatskerfi HÍ fyrir rannsóknastarf hefur afgerandi áhrif á framgang og laun. Það hvetur starfsmenn til að birta mikið, og í mörgum smáum hlutum, en gerir nánast engan greinarmun á gæðum. Þetta fer í bága við markmið skólans um að verða sterkur í rannsóknum í alþjóðlegum samanburði. Í staðinn þarf að meta gæði rannsóknastarfs einstakra starfsmanna á þann hátt sem almennt er gert í alþjóðlega fræðasamfélaginu, með jafningjamati.

Einn möguleiki er að fá, á fárra ára fresti, hóp óháðs (erlends) fræðafólks til að meta framlag hvers starfsmanns síðustu fimm árin eða svo. Niðurstaða úr slíku mati myndi ráða skiptingu rannsóknafjárins milli sviða, eða hugsanlega deilda, en ekki til einstakra starfsmanna. Það væri síðan á ábyrgð sviðs- og/eða deildarforseta að ákvarða rannsóknahlutfall hvers starfsmanns. Kerfi af þessu tagi hefur verið notað við Háskólann í Reykjavík í nokkur ár og mat á gæðum rannsókna háskóladeilda, sem hefur áhrif á útdeilingu rannsóknafjár frá hinu opinbera, fer t.d. fram með ofangreindum hætti í Bretlandi (þar sem metnar eru fjórar bestu greinar hvers starfsmanns frá siðustu fimm árum, a.m.k. í raunvísindum).

Skynsamlegast er að afnema það kerfi launauppbóta sem fást á grundvelli vinnumats, og miða við að hver starfsmaður sé á föstum launum.

Ákvörðun launa þarf að byggjast á mati á gæðum starfs, bæði í kennslu og rannsóknum, en ekki á magni framlags. Þær ákvarðanir verða að vera á ábyrgð sviðs- og deildaforseta, og byggjast á eins vönduðu mati og hægt er að koma við. Nauðsynlegt er að starfsmenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við slíkar ákvarðanir, og hugsanlega væri hægt að skipa fulltrúa starfsmanna sem gætu talað máli þeirra og gætt þess að sanngirni væri viðhöfð.

Ráðningar og framgangur

Til að styrkja rannsóknir skólans er nauðsynlegt þegar ráðið er í akademískar stöður að ráða alltaf öflugt (eða efnilegt ungt) rannsóknafólk. Nánast allar slíkar stöður á að auglýsa á alþjóðavettvangi og sjá til þess að umsóknarfrestur og aðrar tímasetningar geri stöðurnar samkeppnishæfar alþjóðlega. Kröfur fyrir framgang í starfi þurfa að vera sambærilegar við þá skóla sem raunhæft er að við getum náð að gæðum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nýdoktorastöður, sem eru mikilvægar fyrir frjótt rannsóknaumhverfi, þurfa að vera aðlaðandi á alþjóðamarkaðnum. Ekki ber að líta á þær sem fordyri að föstu akademísku starfi innan skólans, því slíkar stöður eiga ekki síst að stuðla að hreyfanleika í alþjóðasamfélaginu. Í lektorsstöður á að ráða fólk sem mjög líklegt er að uppfylli kröfur um framgang í prófessorsstöðu innan 10 ára, og styðja það vel í uppbyggingu rannsókna sinna og kennslu.

Akademískir starfsmenn eiga að bera uppi kennslu skólans, með aðstoð doktorsnema og nýdoktora. Stundakennara á að nota sem minnst, og fyrst og fremst þar sem nauðsynleg sérþekking er ekki sjálfsagður hluti af fræðasviðum fastra starfsmanna.

Hvert getum við náð?

Í stefnu HÍ 2006-11 voru taldir upp átta háskólar sem HÍ vildi bera sig saman við og sem lenda gjarnan á listum yfir hundrað bestu háskóla í heimi. Það er óraunsætt að gera ráð fyrir að HÍ geti orðið jafn góður þessum skólum á næstu tíu árum, og tilgangslítið að reyna að horfa lengra fram í tímann þegar starf skólans er skipulagt. Við stefnum samt í rétta átt með því að bera okkur saman við þessa skóla.

Það er ekki skynsamlegt að reyna að ná hátt á listum yfir góða háskóla með því að einblína á þau atriði sem þar eru mæld. Til dæmis getur ekki verið markmið í sjálfu sér að fjölga doktorsnemum; fjölgun þeirra á að vera afleiðing þess að skólinn bjóði upp á sterkt og aðlaðandi rannsóknaumhverfi á sumum sviðum. Við þurfum einfaldlega að bæta starf skólans, og þótt það sé ekki auðvelt er það ekki heldur flókið mál. Til þess þurfum við að laða til okkar æ fleira gott rannsóknafólk, búa því umhverfi sem það þrífst í, og leggja okkur fram um að bæta alla kennslu skólans.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

Fimmtudagur 29.1.2015 - 10:15 - 5 ummæli

Réttleysi fátækra og tilfinningarök — Auði svarað

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 28. janúar]

Auður Styrkársdóttir skrifaði í gær grein í Kvennablaðið sem hún nefnir „Rangfærslur um kosningaréttinn“ og telur sig þurfa að „leiðrétta það sem rangt er farið með“ í grein eftir Steinunni Ólínu og annarri eftir mig, um kosningarétt kvenna og karla.

Það eina sem hún fjallar um í minni grein, og sem hún segir sjálf að snúist um smekk (og þar með ekki um rétt eða rangt), er hvort það hafi verið rétt hjá mér að tala um það sem „almennan“ rétt þegar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt. (Það gerðist ekki 1915, eins og löngum hefur verið haldið fram, heldur 1916, eins og Steinunn Ólína greinir hér frá, og athyglisvert að það fólk sem hefur rannsakað þetta mál og talað svo mikið um það skuli ekki hafa áttað sig á þessu.)

Það er vissulega rétt hjá Auði að auk aldurstakmarkana (upphaflega við 40 ár) voru sett fleiri skilyrði fyrir kosningarétti, svo sem að manneskja mætti ekki hafa verið svipt fjárræði eða hafa „óhreint“ sakavottorð. Það má því alveg til sanns vegar færa sem Auður segir að ég hafi notað orðið „almennur“ of frjálslega um þann kosningarétt sem konur 40 ára og eldri fengu 1916, sem og jafngamlir karlar sem áður höfðu ekki notið hans, af því að þeir voru verkamenn eða vinnumenn.

En það ætti hins vegar að vera ljóst af því sem ég sagði að ég var að benda á að það voru ekki bara konur yfir 40 ára aldri sem fengu þarna kosningarétt í fyrsta sinn, heldur líka margir karlar á sama aldri. Að lakast settu karlarnir í samfélaginu voru að þessu leyti alveg jafn kúgaðir og konur almennt. Og að þrátt fyrir allt það sem skrifað hefur verið og talað um mikilvægi þessa áfanga hefur nánast aldrei verið minnst á þessa karla, sem tilheyrðu þeim lægstsettu í samfélaginu.

Alveg sérstaklega var ég að vekja athygli á því sem mér finnst vera „söguförðun“ í umfjölluninni um þetta mál, að það er jafnan talað eins og þessir lægst settu karlar skipti engu máli. Þannig er það nefnilega oft enn þann dag í dag, að þeir karlar sem verst hafa það í samfélaginu eru síst í betri stöðu en lægst settur konurnar, og á þessu virðist lítil breyting hafa orðið, enda eiga þessir karlar sér fáa málsvara. Og „jafnréttisbarátta“ þeirra sem aldrei tala um annað en meinta mismunun gagnvart konum er ekki meiri jafnréttisbarátta en svo að karlar eru þar einfaldlega ekki taldir með.

Auður segir líka að það hafi verið 14% karla sem fengu kosningarétt 1916, og setur spurningamerki við það hvort það hafi verið „stór hluti“ karla (eins og Steinunn Ólína talaði um). Auðvitað má deila um það hvað sé stórt í þessu samhengi, en ég sé ekki tilganginn í því. Það sem máli skiptir er að þessi 14% karla höfðu ekki kosningarétt áður, sem var jafn ósæmilegt gagnvart þeim eins og það var gagnvart konum. Þetta hlutfall karla samsvarar nú um 18 þúsund körlum yfir átján ára aldri. Það sem verið var að ræða er hliðstætt því að 18 þúsund karlar á kosningaaldri hefðu ekki kosningarétt í dag, vegna þess að þeir væru of fátækir. Engum dytti í hug í dag að það væri ekki stórkostlegt mannréttindabrot, og fáum myndi detta í hug  að gera að umræðuefni hvort þar væri um að ræða „stóran hlut“ karlmanna. Nema kannski gallhörðum femínistum …

Það er ekki úr vegi að hafa í huga í þessu sambandi að 14% er einmitt mjög nálægt því að vera hlutfall svartra í Bandaríkjunum í dag.

Fyrir utan ofangreint segir Auður bara þetta um það sem ég skrifaði:

„Um annað í grein Einars Steingrímssonar get ég ekki fjallað, enda fremur á sviði tilfinningaskoðana en staðreynda og býður ekki upp á rökræður.“

Auður telur sem sagt að það séu „tilfinningaskoðanir“ að ég

 • geri athugasemdir við að þessum staðreyndum um kosningarétt karla er lítt haldið á lofti í málflutningi þeirra aðila (þ.á.m. Auðar) sem standa að hátíðahöldunum vegna kosningaréttar kvenna,
 • haldi fram að um spillingu hafi verið að ræða þegar Ásta R. þingforseti beitti sér fyrir því að Alþingi fjármagnaði stöðu framkvæmdastjóra vegna hátíðahaldanna, sótti sjálf um og fékk starfið (í „samkeppni“ við 74 aðra), starf sem var úthlutað af forsætisnefndinni sem hún hafði skömmu áður veitt forstöðu,
 • spyrji hvers konar jafnréttisstefna það sé hjá Reykjavíkurborg að ætla að jafna laun hæstsettu embættismanna hennar, en láti sér ekki detta í hug að hækka lág laun leikskólakennara sem nánast allir eru konur.

Burtséð frá því hvað átt sé við með að þetta séu „tilfinningaskoðanir“ þá er athyglisvert að nota slíkan stimpil til að afgreiða skoðanir. Þetta er nefnilega klassísk aðferð karlrembusvína við að gera lítið úr skoðunum kvenna …

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.1.2015 - 10:15 - 4 ummæli

Hvenær fengu karlar kosningarétt?

[Þessi grein birtist fyrst í Kvennablaðinu 22. janúar]

Flestir vita núorðið að konur fengu kosningarétt til þings, án annarra takmarkana en við aldur, árið 1915. Svo mikið hefur verið talað um þetta síðustu mánuðina (og reyndar í langan tíma áður) að það hefur varla farið fram hjá nokkurri manneskju sem fylgist með. Allir „vita“ núorðið að konur fengu ekki almennan kosningarétt fyrr en 19. júní 1915, löngu á eftir körlum.

En veist þú, lesandi góður, hvenær karlar á Íslandi fengu kosningarétt til þings, óháð öðru en aldri, þ.e.a.s. þann rétt sem konur fengu árið 1915?

Staðreyndin er að það sem flestir halda sig vita um þetta er rangt. Karlar fengu  almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915. Um það má til dæmis lesa hjá Kvennasögusafni Íslands.  Af einhverjum ástæðum þykir engin ástæða til að halda á lofti þeirri staðreynd, í öllu talinu um hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna, að eignalausir karlar , t.d. verkamenn og vinnumenn í sveit, voru kúgaðir með sama hætti og konur hvað þetta varðar.

Enginn getur efast um að konur hafi sætt ýmiss konar misrétti gegnum aldirnar (þótt alltaf virðist gleymast að hlutskipti stórs hluta karla var ekki endilega neitt betra). Og það er ekkert að því að halda upp á merka áfanga í þeirri sögu. Það er hins vegar ljótt að stunda, ef ekki sögufölsun þá a.m.k. „söguförðun“ af því tagi sem hér á sér stað.  Það er gömul saga og ný að þeir sem lakast eru settir í samfélaginu eru ekki síður karlar en konur. Það virðist hins vegar ekki skipta neinu máli þegar rætt er um meint slæmt hlutskipti kvenna, eins og konur hafi það almennt mjög skítt en karlar mjög gott, á kostnað kvenna. Þau ósannindi eru endurtekin svo títt að það er vonlítið að leiðrétta þau.

Jafnrétti og spilling

En, það er ekki nóg með að hluta sannleikans sé sópað snyrtilega út í horn í áróðrinum, konur eru orðnar svo gjaldgengar í æðstu valdastöðum þess þings sem þær fengu kosningarétt til 1915 að þær fá nú að taka virkan þátt í spillingunni þar á bæ. Alþingi samþykkti nefnilega ályktun um að halda skyldi hátíð í ár vegna þessa afmælis. Fyrsti flutningsmaður var Ásta R. Jóhannesdóttir, þáverandi þingforseti. Meðal annars var samþykkt að ráða framkvæmdastjóra verkefnisins. Um það starf sóttu 75 manns. Svo skemmtilega vildi til að það var einmitt Ásta R. sem hreppti hnossið í þessari hörðu samkeppni. Hún sótti sem sagt um starfið sem hún beitti sér sjálf fyrir að yrði búið til, og fékk það. Það var forsætisnefnd þingsins, sem hún hafði skömmu áður veitt forstöðu, sem réði í starfið …

Það vill líka svo skemmtilega til að í framkvæmdanefndinni sem á að  hjálpa Ástu að skipuleggja hátíðahöldin vegna þessa merka jafnréttisáfanga eru fimm manns, allt konur.

Jöfn forréttindi hjá Reykjavíkurborg

En það er ekki bara Alþingi sem ætlar að halda upp á afmælið; það ætlar Reykjavíkurborg að gera líka. Á hennar vegum verður dagskrá með 100 viðburðum. Í tilkynningu um það er ekki minnst orði á kosningarétt karla. En hver er raunveruleg stefna borgaryfirvalda í jafnréttismálum? Í aðgerðaáætlun borgarinnar í jafnréttismálum 2011-2015 segir þetta:

„Reykjavíkurborg vann launaúttekt árið 2010. Í þeirri úttekt kom í ljós að launamunur milli kynja liggur fyrst og fremst í yfirvinnu- og akstursgreiðslum.“

Aðgerðin sem fara á í af þessu tilefni er að

„Vinna greiningu á yfirvinnu- og akstursgreiðslum hjá Reykjavíkurborg og hvort stjórnendur fara að settum leikreglum.“

Þetta er eina athugasemdin, og eina aðgerðin, sem varðar launajafnrétti í þessari aðgerðaáætlun. Ljóst er að hér er fyrst og fremst verið að fjalla um meintan launamun milli kynja í æðstu stöðum (því gera má ráð fyrir að fáir aðrir fái greiddan aksturskostnað og yfirvinnu nema nákvæmlega fyrir það sem ekið er og unnið). Eins og svo oft snýst jafnréttisbarátta þessa valdafólks sem sagt bara um þá sem sitja efst í valdapíramídanum.

Engu af forystufólkinu í borginni virðist detta í hug að gera raunverulegt átak til að hækka laun lágtlaunaðra kvenna. Eitt af því sem borgin gæti gert, þar sem hún ræður því alveg sjálf, er að hækka laun leikskólakennara, sem nánast allir eru konur, til dæmis til jafns við laun grunnskólakennara. Slík aðgerð myndi hafa gríðarlega launajafnandi áhrif, auk þess sem erfitt er að sjá réttlætið í lágum launum leikskólakennara. En riddarar „jafnréttisbaráttunnar“ hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa.

Afmælisfagnaðurinn vegna kosningaréttar kvenna fyrir hundrað árum verður sem sagt á sömu nótum og mestöll „jafnréttisbarátta“ síðustu ára; skrautsýning þeirra sem vilja láta líta á sig sem merkilegt forystufólk, en sem geta ekki hugsað sér að óhreinka á sér hendurnar á því sem hægt væri að gera til gagns.  Jafnréttisbarátta þess snýst um jöfn forréttindi fárra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.12.2014 - 10:15 - 9 ummæli

Bænafólk og mannréttindi

Sumt fólk telur að Tony Omos eigi ekki að fá landvistarleyfi á Íslandi, af því að sé hann ekki örugglega sekur, þá sé að minnsta kosti líklegt að hann sé sekur um glæpi (og það fólk virðist engu máli skipta að engar áreiðanlegar vísbendingar séu um það). Þetta fólk telur að mannréttindin sem flóttafólk á almennt að njóta eigi ekki að gilda um Tony, af því að hann sé sennilega ekki nógu góð manneskja til þess.

Margir telja að bænafólkið sem vill mótmæla fóstureyðingum (friðsamlega) við Landspítalann eigi ekki að fá að njóta þess tjáningarfrelsis að mótmæla á almannafæri, af því að skoðanir þess geti sært annað fólk.

Í báðum tilfellum er talað fyrir því að gera undantekningar frá þeirri meginreglu að mannréttindi eigi að gilda fyrir alla, og að það megi ekki takmarka þau nema ríkir almannahagsmunir séu í veði. Í báðum tilfellum er verið að krefjast þess að mannréttindi gildi ekki fyrir tiltekið fólk sem vill njóta þeirra.

Ég sé engan afgerandi mun á þessum tveim málum frá sjónarhorni mannréttinda, bara hliðstæðu. Og vísasta leiðin til að mola úr mannréttindum er að verja þau ekki skilyrðislaust.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is