Mánudagur 14.5.2018 - 10:59 - Rita ummæli

Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki Semu Erlu?

Skrapp í stutta ferð til Skotlands um helgina með gömlum félögum. Margir af þeim eru miklir heimsborgarar og taldir með gáfuðustu mönnum landsins. Samt skildu þeir ekkert í því af hverju ekki var í boði nautakjöt á indverska veitingastaðnum í Carnoustie.

Skrítið að koma heim í faðm froðufellandi andfasistana yfir sigri ungrar gyðingastúlku frá Ísrael í júróvisjón sönglagakeppninni. Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki Semu Erlu og aðra vinstri menn til að leiðbeina okkur í baráttunni gegn fasisma og rasisma? Hver yrði refsingin í fasista- og rasistalausu samfélagi Semu Erlu fyrir að panta nautakjöt á indverskum veitingastað? Geta menn borið fyrir sig fávisku eða gleymsku eða jafnvel að hafa ekki verið allsgáðir. Hlýtur að vera því íslensku andfasistarnir eru svo umburðarlyndir og lausir við ofstæki.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.4.2018 - 11:28 - Lokað fyrir ummæli

Grímulaus pólitík

Enginn skortur er á alls konar alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem kenna sig við mannréttindi og hvers kyns góðmennsku. Dæmi um slík fyrirbæri er Evrópuráðið og nefndir þess eins og ECRI og GRECO og svo má auðvitað ekki gleyma ýmsum nefndum Sameinuðu þjóðanna. Margir halda að hér sé um að ræða einhverjar hlutlausar nefndir skipuðu fagfólki, sem geti leiðbeint okkur. Það er mikill misskilningur. Þarna er pólitíkin allsráðandi þótt hún sé sveipuð skikkju hlutleysis, fræða og vísinda.

Raunveruleikinn er sá við höfum skapað forréttindastétt á himinháum launum sem er í engum tengslum við almenning, sem þó borgar brúsann. Svo eru einnig til frjáls félagasamtök víða um heim fjármögnuð af skattfé að mestu þar sem rekin er grímulaus pólitík. Þau gera þó eitthvert gagn með ýmis konar hjálparstarfi þannig að endurgjaldið er eitthvert.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.4.2018 - 09:20 - Lokað fyrir ummæli

RÚV er tímaskekkja

Í Evrópu eru menn að átta sig á hversu mikil tímaskekkja ríkisreknir ljósvaka- og netmiðlar eru. Og ekki bara timaskekkja heldur fullkomlega óeðlilegt út frá jafnræðis-og samkeppnissjónarmiðum. Eins og oft áður eru Danir fyrstir að rakna úr rotinu.

Á Íslandi eru menningar- og öryggisrökin fyrir tilvist RÚV úr sér gengin sem og rökin fyrir aðgengi allra að ljósvakamiðlum. Kannski að hollvinir RÚV reyni að beita lýðheilsusjónarmiðum eins og við hollvinir ÁTVR gerum fyrir einkasölu ríkisins á áfengi.

Eftir stendur að sumir skattgreiðendur þurfa að punga út á fimmta milljarð árlega í óþarfa. Við, sem höfum áhuga á að dreifa peningum annarra eftir eigin geðþótta, getum hugsað okkur betri nýtingu á þessu fé. Auk þess tekur ríkismiðillinn lungan af auglýsingatekjum, sem gerir frjálsa fjölmiðlun nær ómögulega. Röknum úr rotinu þótt ekki verði tekin nema lítil skref í byrjun.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.4.2018 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Dröslaði bróður mínum í kirkju

Bróðir minn, þekktur sem „okkar maður“, hefur skrifað nokkrar færslur á fésbókina um samveru okkar hér á Spáni. Frásagnir af sundafrekum og kraftgöngum hans og báglegu ástandi mínu eru með öllu ósannar. Okkar maður hefur ekki gengið lengra en til sprúttsalans úti á horni. Gangan tekur hálftíma hjá honum, sem mun vera heimsmet í hægagangi. Náði þó að drösla honum í dag í kirkju en þurfti áður að hafa talsvert fyrir því að fela á honum hornin og halann.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.3.2018 - 23:34 - Lokað fyrir ummæli

Lokað fyrir ræðuhöld

Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór, bauð vinum og vandamönnum til veislu í gær í tilefni af fimmtugsafmæli sínu, sem var að vísu fyrir mörgum mánuðum síðan.

Mér sýndist þar nær eingöngu mæta vandamenn. Fram komu skemmtikraftar á heimsmælikvarða og fluttar ræður þar sem reynt var eftir fremsta megni að hæla afmælisbarninu.

Þegar kom að stjórnarmönnum Fýlupúkafélagsins, sennilega hans einu vinum, að halda ræðu, var skyndilega lokað fyrir frekari ræðuhöld.

Menn hafa lagt fram vantrauststillögu á ráðherra af minna tilefni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.3.2018 - 15:41 - Lokað fyrir ummæli

Klæðast eins og niðursetningar í þingsal

Staksteinar Moggans hittir oft naglann á höfuðið. Fróðlegt væri að vita hver heldur þar á penna. Hann gerði að umtalsefni í morgun fyrirspurnaæði þeirra stjórnarandstæðinga sem vinna hörðum höndum við að auka traust þingsins með upphrópunum um spillingu, glæpi og óheiðarleika pólitískra andstæðinga sinna og embætttismanna. Magn og eðli fyrirspurna er orðið slíkt að stjórnsýslan er við það að lamast. Benda má fyrirspurnamönnum á að flestar þessar upplýsingar geta menn aflað sjálfir eða gegnum upplýsingaþjónustu þingsins. Svo má einnig benda þeim á að endurgreiðsla vegna aksturs þingmanna eru smápeningar miðað við að halda rándýrum embættismönnum uppteknum í óþarfa snatti. Þar að auki sinna þeir ekki mikilvægum störfum á meðan.

Að því að ég veit að fyrirspurnamönnunum er umhugað um að auka virðingu þingsins þá vil ég benda þeim á að það gerist ekki meðan þingmenn klæðast eins og niðursetningar í þingsal og fara á sokkaleistunum í ræðustól þingsins. Þótt ég sé ekki mikið fyrir boð og bönn í þeim efnum, hvað þá þekktur fyrir glæstan klæðaburð, þá set ég mörkin við að koma á nærbuxum einum fata í ræðustólinn.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is