Laugardagur 27.5.2017 - 10:40 - FB ummæli ()

Ljósmynd stærri en heimurinn

Facebook – ljósmynd stærri en heimurinn.
Vefslóð facebook var fyrst opnuð 4. Febrúar 2004, og náði þá aðeins til nemenda í Harvard-háskóla í Boston í Bandaríkjunum, en breiddist þó fljótlega út til annarra háskóla í borginni. Fyrirrennari síðunnar var Facemash, sem stofnandi beggja slóðanna, Mark Zuckerberg (f. 1984), hleypti af stokkunum tveimur árum fyrr, en sú síða gerði út á leik þar sem borin voru saman andlit tveggja nemanda í senn og spurt hvor væri kynþokkafyllri. Þannig á facebook rót sína að rekja til leiks þar sem ljósmyndir léku lykilhlutverkið, og samanburður á fólki út frá þeim. Eins gengur frumhugmyndin strax inn á persónulegt rými einstaklinga, enda var fólk ekki spurt fyrirfram um hvort birta mætti þessar myndir. Þetta minnir á að Susan Sontag talar um í ritgerð sinni Myndheimurinn að: Ljósmyndir eru eignartaka í margvíslegnum skilningi. Í þessu tilviki voru þær það bæði beint og óbeint. Þessi lýsing hennar á kannski enn frekar við í dag eftir tilkomu facebook sem er frá og með febrúar 2011 sá aðili á netinu, og í mannkynssögunni almennt, sem hýsir flestar ljósmyndir, en þær eru taldar í milljörðum. Forskot facebook á aðra miðla hvað varðar meðferð notanda á ljósmyndum jókst enn frekar í apríl 2012 þegar fyrirtækir keypti Instagram, og er því eðlilegt, ef skoða á stöðu ljósmyndar í menningunni í dag að íhuga facebook.

Ljósmyndir, sjálfsveran og facebook.
Ljósmyndir koma inn á vald tengt sjálfverunni á ýmsan hátt. Um það segir Susan Sontag:

„ … ljósmynd er ekki aðeins lík fyrirmyndinni, tileinkuð fyrirmyndinni. Hún er hluti af og framlenging af fyrirmyndinni; og áhrifamikil aðferð við að eigna sér hana, ná valdi yfir henni.“

Sontag rekur ákveðna þróun sem hún telur hafa átt sér stað frá því að meðal frummanna var ekki gerður greinarmunur á fyrirbæri og tákni, og fram á nítjándu öld að afhelgun eftirmyndarinnar var að verða almenn á vesturlöndum. En þá kemur ljósmyndin til sögunnar og endurnýjar hin fornu tengsl milli fyrirbæris og eftirmyndar. Ljósmyndir eru nefnilega ekki aðeins túlkun á veruleikanum eins og aðrar eftirmyndir, svo sem málverk, heldur;

„eru þær líka ummerki, eitthvað sem raunveruleikinn stimplar með beinum hætti, eins og fótspor eða helgríma.“

Munurinn á myndum og raunverulegum hlutum, sem var alltaf að aukast, verður sem sagt aftur óljós með ljósmyndum, því þær „endurreisa – á algerlega veraldlegan hátt – nokkurskonar frumstæðan stall ímynda.“ Þess vegna hafa ljósmyndir aðgang að raunveruleikaskynjun okkar. Til dæmis gera þær þetta með því að „sundra samhengi hlutanna“ og með því að setja „raunveruleikann“ á sýningu og fá okkur til að endurskilgreina viðfang daglegrar reynslu. Susan Sontag telur að ljósmyndir hafi á vissan hátt snúið sköpunarferlinu sem leiðir til raunveruleikahugmyndar sjálfverunnar á haus:

„Hin frumstæða hugmynd um mátt mynda gerir ráð fyrir að myndir búi yfir eiginleikum raunverulegra hluta, en við höfum tilhneigingu til að herma upp á raunverulega hluti eiginleika mynda.“

Þannig getur facebook-síðu eigandi, með því að velja ákveðnar myndir af sér í myndaalbúm sín, en loka á aðrar, reynt að telja hugsanlegum skoðendum myndanna trú um að hann búi yfir þeim eiginleikum sem myndirnar gefa til kynna. Þetta vald facebook notandans til að skapa sjálfum sér nafn og “nærveru” í hálf-opinberu, hálf-persónulegu, rými, er áhugavert, ekki síst í því ljósi að margir menningargagnrýnendur telja að í kapítalísku markaðshagkerfi sé vegið að frelsi og lífsrými sjálfverunnar. Til dæmis segir Henri Lefebvre í formála að bókinni Hversdagslífsgagnrýni:

„Um leið varð einstaklingurinn, æ tengdari sí flóknari félagstengslum, einangraður og innhverfur. Vitund hans klofnaði í einstaklingsvitund og félagsvitund, eða opinbera vitund. Vitundin varð líka niðurhlutuð frekar sökum einstaklingshyggju, sérhæfniskrafna, aðskilnaðar þjóðfélagssviða …”

Ef þetta er rétt lýsing hjá Henri Lefebvre, þá má spyrja hvort facebook sé beint framhald af því ferli sem þarna er lýst, eða hvort í henni megi finna vetvang fyrir sjálfveruna að veita mótspyrnu gegn þessari þróun.

Ljósmyndir, facebook og veruleikaskynjun.
Í hugsun Sontag má greina syndafallstúlkun tengda ljósmyndinni, því hún segir að hin forna sýn geri lítinn greinamun á mynd og veruleika, en með ljósmyndinni þá verður bilið þarna á milli ljósara. Ljómyndin sýnir að veruleikinn eins og við skynjum hann er aðeins röð mynda, og hún á þannig þátt í að leysa upp hugmyndina um endanlegan veruleika. Þetta er sígild saga um að aukin þekking úthýsi manninum frá endanlegum, traustum veruleika Guðs, og á endanum hefur hann ekkert nema ímyndina, sem hann þarf alltaf meira af til að skapa stundlega veruleikatilfinningu. Hugleiðingar hennar í þessa veru eru til dæmis eftirfarandi:

„… þá sækist fólk í iðnríkjum eftir því að láta mynda sig – líta á sig sem ímynd, sem ljósmyndir geri raunverulega […] Það er eins og ljósmyndarar, í tilraun sinni til að sporna við sífellt fátæklegri tilfinningu fyrir veruleikanum, séu að sækjast eftir blóðgjöf.“

Þessi lýsing hennar á enn betur við í dag, þegar fólk póstar hverri myndinni af annarri, stundum ekki af merkilegri hlutum en bólgnu parketi, og fylgist síðan með kommentum og lækum (blóðgjöf) með stuttum millibilum lengi á eftir, eða þar til kominn er tími á nýja stöðufærslu.

Sontag notast nokkuð við hugmynd Platóns um frummyndirnar. Samkvæmt honum er veruleikinn sem við sjáum aðeins skuggamyndir frummynda, sem fæst okkar sjáum nokkru sinni. Sontag má segja að sé and-Platónsk því hún færir fram fyrir því rök hvernig sýndin, eins og hún birtist í ljósmyndum, getur skapað veruleikann, og jafnvel orðið megin viðmiðið á hann og á vissan hátt orðið raunverulegri en hann, nokkuð sem á vel við sem lýsing á facebook. Til marks um veruleikaupplifun í þessum anda bendir hún á að stundum þegar fólk lendir í átakanlegum aðstæðum, eigi það til að lýsa reynslunni sem svo að hún hafi verið eins og í kvikmynd. Orðrétt segir hún:

„Þvert á móti hefur raunveruleikinn í sífellt auknum mæli fengið á sig þá mynd sem birtist okkur fyrir tilstilli ljósmyndavéla. Það er algengt að fólk leggi áherslu á að reynsla þess af slysum eða ofbeldi – flugslys, skotbardagi, hryðjuverkaárás – hafi verið „eins og í kvikmynd“. Þetta er sagt til að leggja áherslu á hversu raunverulegur atburður var, og þar sem aðrar lýsingar yrðu ófullnægjandi.“

Líklegt er að ef fólk upplifir eitthvað í dag sem því finnst svo magnað að það sé „eins og í kvikmynd,“ þá geri það um slíkt stöðufærslu á facebook, og deili gjarnan með mynd. Skylt því sem Sontag lýsir er það sem margur viðurkennir fúslega í dag að svo virðist sem atburður hafi ekki fyllega átt sér stað fyrr en frá honum hefur verið greint á facebook og mynd deilt til skýringar (dæmi; útskrift, ferming, fæðing, gifting, verðlaun, tískusýning, andlát, afmæli, grein um facebook í fjölmiðli …). Þannig verður facebook oft eins og sjálfsögð framlenging atburða, framlenging sem gerir þá „raunverulegri“ en áður en þeir birtast þar. Þetta bendir til þeirrar raunveruleikaskynjunar að því fleiri sem upplifa eitthvað og bregðist við því, því raunverulegra virðist það – nokkuð sem bendir um leið til veikrar sjálfsveru, því það sem hún upplifir aðeins ein, virðist henni þá ekki jafn raunverulegt. Þarna vaknar spurningin um hvort sífeldur aðgangur að augum hóps, mati fjölda, veiki sjálfveruna fremur en styrki – því hún verður háðari sýn og mati annarra. Spyrja má hvort þetta sé dæmi um firringu.

Facebook-heilabrot.
Þegar íhugað er hvort facebook sé fullkomnun á þeirri þróun að brjóta upp sjálfsveruna og leysa upp veruleikatilfinningu hennar með því að búa til hliðarsamfélag sem fólk getur flúið inn í og forðast raunveruleikann á meðan, þá verður að spyrja; hvenær var heimurinn án firringar? Hvenær var heimurinn án þess að upplýsingar bárust milli manna í táknum og myndum? Er ekki jafnvel tungumálið miðill sem miðlar hlutum í gegnum myndir sem eru aldrei hlutlausar? Um þetta segir Slavoj Žižek í Óraplágunni:

„Hugveran er afleiðing tungumálsins í þeim skilningi að hún verður fyrst til með táknmyndum og þar af leiðandi hefur hún engan efnislegan kjarna, enga innri undirstöðu. Fyrir máltökuna – inngönguna í hinn táknræna heim – er engin hugvera, heldur einungis lífvera.“

Fólk byrjar stundum saman eftir að hafa hist eftir spjall á facebook, giftir sig, eignast börn, sem það tilkynnir um á facebook. Þegar það veikist þá er sjúkdómssagan stundum lögð fram á facebook, baráttan við sjúkdóminn jafnvel rakin þar jafnóðum. Dánartilkynningar eiga sér þar stað, jafnvel fram settar á síðu hins látna, eins og hann hafi sjálfur gert það. Stundum „lifir“ hinn látni áfram á facebook, ýmist vegna þess að enginn hefur aðgang að síðu hans til að loka henni, eða vegna þess að einhver aðstandandi heldur áfram að pósta stöðufærslum í nafni hans. Þegar það gerist er matsatriði hvort facebook sé komin jafnvel inn á svið tengt guðfræðilegum hugmyndum um framhaldslíf.

Með nútíma samskiptatækni hefur orðið óljósara hvenær samskipti snúast um upplýsingar, starf, menntun, skemmtun, hið persónulega, og svo framvegis. Tæknin hefur í stuttu máli náð að færa „samfélagið“ nær sjálfsverunni, alveg þar til sjálfsveran er farin að búa til speglun af sér eins og hún sjálf væri samfélag – eins og gerist að hluta til með facebook. Þar er „samfélag“ í kringum hvern og einn notanda.

Er þetta firring eða veitir facebook sjálfsverunni tækifæri til að sporna við klofningnum sem Henri Lefebvre talar um? Er facebook tækifæri fyrir sjálfveruna til að sameina á einum stað persónulegt rými og félagslegt rými þar sem hún getur byrjað að setja saman ólíkar hliðar sínar og gera úr þeim heild, fremur en að klofna og einangrast í ólíka parta? Margt bendi til að svarið sé að hluta; bæði og. Þá bæði og í merkingunni; fyrir suma notendur samskiptamiðla líkt og facebook þá stuðla þeir að frekari klofningi og einangrun sjálfsverunnar, en hjá öðrum hafa samskiptiamiðlar jákvæð áhrif. Ekki er hægt að fullyrða að ákveðnir samskiptamiðlar hafi almennt ákveðin sálfræðileg áhrif á fólk. Að segja til dæmis að facebook auki einmanakennd hjá fólki, er álíka nákvæmt og að segja; tungumál eykur einmanakennd hjá fólki. Þegar þetta er ígrundað má ekki gleyma að fullkomlega rétt samskipti eru ekki til. Fjarstæðurkennt er til dæmis að hugsa sér að farið sé fram á að allir í hverjum hópi tali jafn mikið, jafn mikið sé hlegið að öllum, að allir komi með jafn margar hugmyndir sem jafn mikið mark er tekið á, og svo framvegis. Þannig er þrátt fyrir góðan vilja góðs fólks, innbyggt ójafnvægi í samskiptum í nærsamfélagi, ólík gerð fólks veldur því og tilvistarbaráttan krefst þess að menn bregðist við aðstæðum og geri hluti strax, fremur en að reikna út hver talaði hve lengi og reyna að taka þátt í fullkomnum samskiptum. Hin ófrávíkjanlega togstreyta í samskiptum endurspeglast eðlilega í samskiptamiðlum, og er þá ekki hægt að kenna miðlunum sjálfum um það.

Almennt má segja að þær tilfinningar sem fólk upplifir í beinum samskiptum geti margfaldast í samskiptum gegnum samskiptamiðla, bæði til góðs og ills. Til dæmis nýtur einhver í hópnum samskiptanna meira en annar, hópurinn byggir sjálfmat einhvers upp en rífur sjálfsmat annars niður, jafnvel ómeðvitað, því nóg er að einhver upplifi samskipti þannig til að svo sé að mati viðkomandi. Kannanir á facebook notendum sýna að ef þú aðeins skoðar stöðufærslur og líkar hjá öðrum, þá eykur facebook-notkun þín einverutilfinningu þína og framandleikakend. Ef þú hins vegar ert virkur notandi þá minnka þessa tilfinningar. Þar hafa læk annara nokkuð að segja, en enn meira þó það að aðrir tjá sig um þína stöðufærslu, en það örvar sömu heilastöðvar og þegar fólk lifir félagslífi. Þannig er margt sem bendir til að í grófum dráttum endurspegli samskipti á samskiptamiðlum það sem gerist í samskiptum almennt, en geti ýkt tilfinningar bæði til góðs og ills.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.4.2017 - 13:24 - FB ummæli ()

Eitt eilífðar smáblóm: Facebook sem rými.

Michel Foucault sagði í grein sinni Um önnur rými að á miðöldum hefði ríkt stigveldi á milli ólíkra rýma sem birtist til dæmis í því að kirkjan var miðja bæjarins sem allt byggðist í kringum. Þetta stigveldi rýmis leystist upp með sólmiðjukenningu Galileis, en eftir það “tekur víðáttan (fr. étendue) við af staðsetningunni.”

“Staðsetningin ákvarðast af innbyrðis tengslum punkta eða þátta sem má lýsa formlega með runum, hríslum og neti.”

Hugleiða má hvort þessi lýsing heimspekingsins eigi ekki enn betur við eftir tilkomu facebook, þar sem vissulega má segja að staðsening ákvarðist af innbyrðis tengslum. En einnig er íhugunarvert hvort það ferli sem hófst með sólmiðjukenningu Galileis að stigveldi rýma hrundi og aðgreining þeirra út frá innbyrðis staðsetningarafstöðu hófst hafi á vissan hátt staðnæmst með rými eins og facebook:

“Andstæðum sem við göngumst við sem algjörlega gefnum, s.s. andstæðunni á milli einkarýmis og hinu opinbera rýmis, á milli fjölskyldurýmis og hins félagslega rýmis, á milli hins menningarlega rýmis og nytjarýmisins, á milli tómstundarrýmis og rýmis vinnunnar. Yfir þeim öllum hvílir enn þögul helgi.”

Ef kalla má facebook rými, þá má segja að það rjúfi þá þöglu helgi sem Foucault talar um hér og skapi stað sem sameinar öll þau aðskildu rými sem hann telur upp og skapi nýtt rými, eitthvað í anda þess sem menningarfræðingurinn Simon During kallar; “nýtt rými milli hins persónulega og hins almenna.

Samkvæmt rýmisskilgreiningum Michel Foucault mundi facebook líklega í og með kallast Útópía:

“Útópíur eru staðsetningar án raunverulegs staðar. Þetta eru staðsetningar sem samsvara hinu raunverulega rými þjóðfélagsins í almennum atriðum, ýmist með því að mynda beina eða öfuga hliðstæðu.”

En facebook fellur líka vel að því sem hann kallar Heterótópíur (Merkir; annar-staður), en þær öðlast fulla virkni segir hann þegar mennirnir eru með einhverjum hætti slitnir úr öllum tengslum við hefðbundinn tíma sinn. Inni á facebook getur núið stækkað, ef svo má segja, þar er fortíð notanda og vina nálæg í myndaalbúmum og statusa-sögu, og tími og rúm yfirunnin að vissu marki, því skyndilega er æskuvinur sem notandi hefur ekki verið í tengslum við til fjölda ára í spjallfæri. Sú breytta tímaskynjun sem facebook getur valdið er í samræmi við skilning Foucaults á Heterópíum;

“Í fyrsta lagi eru til heterótópíur þar sem tíminn safnast stöðugt upp, svo sem lista- og bókasöfn. […] Hugmyndin um að safna öllu, að koma upp einskonar allsherjar skjalageymslu, viljinn til að varðveita á einum stað alla tíma, öll tímabil, öll form, allan smekk, hugmyndin um að koma upp stað allra tíma, sem stendur sjálfur utan við tímann og er ónæmur fyrir tönn hans, það verkefni að skipuleggja einskonar stöðuga og óskilgreinda uppsöfnun tímans á óhagganlegum stað, allt þetta tilheyrir aftur á móti nútíma okkar.”

Þessa lýsingu segir hann til dæmis eiga við Lista- og bókasöfn, en ef litið er á umhverfi hvers og eins notanda á facebook, má sjá það sem lítið safn um hann, safn þar sem vinum hans, fjölskyldumeðlimum, hjúskaparstöðu, lestrarlista, kvikmyndaáhorfslista, ferðasögu, starfsferli, námsferli, æviskeiði hans hefur verið safnað saman og tími þess þéttur inn í andrána, eða það sem menningarfræðingurinn Simon Durning kallar “an eternal present.” Við gætum kannski notað um þetta orðalagið: eitt eilífðar smáblóm – sem blómstrar á facebook, þar sem einn dagur er sem þúsund ár, og þúsund ár dagur, ei meir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2016 - 17:32 - FB ummæli ()

Sagan af herra Fokk og ungfrú Obbosí

Ég keypti mjólkurfernu í búðinni hérna á Eyrarbakka, sem er ekki í frásögu færandi nema vegna þess að þegar ég settist svefnreittur niður með hafragrautsskeiðina í morgun og las á hana stóð: Nýyrðið Fokkosí er samsett úr orðunum Fokk og Obbosí og má líta svo á að orðin tvö eigi samræði í nýyrðinu. Samsetningin verður klúr því orðið fokk er svokallað fullorðinsorð en orðið obbosí svokallað barnaorð, og því birtist í samslættinum óviðeigandi tengsl líkama tveggja orða. Fyrst er vitað til að orðið skriði fram á svarta tungu á AA fundi við tjörnina í Reykjavík og segja sumir að döggvot svansfjöður hafi fylgt með. Síðan hefur það margoft heyrst á AA fundum þar, sérstaklega þegar sögur fara af því að menn í ölæði gengu óvart með öðrum en maka sínum til sængur og sögðu þegar óviðeigandi blöndun hafði átt sér stað; Fokkosí, hvað er í gangi maður!

Einnig hefur orðið gert vart við sig í leiðaraskrifum Morgunblaðsins undanfarið. Þar hefur ritstjóri meðal annars haldið því fram að sú söguskoðun að hér hafi átt sér stað hrun sé endemis bull og vitleysa, og segir að í mestalagi hafi átt sér stað slysalegur ástarleikur stjórnmála og viðskipta. Þar er fullyrt að umtalað skilti; helvítis fokkings fokk, hafi hreint ekki hljómað svo. Greint er frá því að á skiltinu vísi helvítis fokkings, til klúðurs þess sem heldur á skiltinu, og hann sé fullkomlega ábyrgur fyrir sjálfur. Hans eigin taktísku mistök séu að auglýsa það opinberlega. En lokaorðið á skiltinu, sem sumir hafa talað um sem fokk, vísi til ytra ástands sem viðkomandi skiltisberi telji sitt prívat fokkings ástand leiða af. Telur ritstjórinn það alvarlegan mislestur á sögunni að segja að þar hafi hin nafnlausa alþýða notað orðið fokk til að lýsa ástandinu í samfélaginu. Á skiltinu hafi í rauninni staðið; Helvítis fokkings fokkosí!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.1.2016 - 21:35 - FB ummæli ()

Úthlutun fiskimannalauna

Úthlutun fiskimannalauna (manna er láta veiða fyrir sig) fóru fram í dag. Alls voru tíu mánaðarlaun veitt, alls að upphæð sem þurfti fimm fullhrausta karlmenn til að bera fram og ýttu þeir núllunum á undan sér í hjólbörum.

Var sérstakur hláturskór ungra manna klæddum slaufum einum til staðar og hlógu þeir einkaframtakssönginn að sjálfum sér þar til þá blæddi mannúðarskilningi út úr eyrunum, mönnum til yndis. Var þeim hent að hlátri loknum og hlutu mikið lof fyrir.

Hugmyndin sem fiskimennirnir sóttu um út á snýst um að versla bara við Rússa, því eins og einn þeirra sagði svo hnyttilega meðan hann gúffaði í sig óhrærðu skyri; Púti er mestur maður í dag, aldrei áður hefur einum manni tekist að mylja niður hundrað og fjörtíu milljóna manna alþýðuskrílsræði þar sem jafnvel var hlustað að gamlar kerlingar niður í traust og gott vasaeinræði, án þess einu sinni köttur setti upp kryppu.

Er talið víst að Púti muni sækja um fiskimannalaun hér á landi á næsti ári og liggja menn í sjávarútvegsráðuneytinu á bæn dag og nótt til að svo megi verða. Fer sjávarútvegsráðherra þar fremstur í krjúpandi flokki, kallandi Púti Púti, emjandi og grátandi öllum stundum.

Eins og menn vita er blóðsturtan sem Púti baðar sig upp úr kvölds og morgna, og er þó manna hreinastur, við hann kennd. Sú ánægjulega frétt hefur spurst út að um jólinn tryggði sjávarútvegsráðherra sér rétt á blóðsturtupatentinu hér á landi.

Er hann krýpur hvað dýpst hafa menn komið auga á það borað lengst upp í heiðarbýli hans, sígrænu, svo tryggilega fest að hugdjörfustu leiðangursmenn treysta sér ekki til að losa um það.

Er þó talið að um sauðburð muni háttvirtur forsætisráðherra sýna handtökin og eftir að hafa dýft hendinni í rússneska gæðaolíu og hrópað heimsmet muni gullhringurinn festast á handlegg hans eins og í þjóðsögu, instantbrúðkaupið verða löglegt og við öll fáum loks að hylla leiðtoga vorn:

Hann lengi lifi, ó blóðsturtuhaus heimsins, ó blóðsturtuhaus heimsins, ó – herra krúttí Púti!

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is