Þriðjudagur 8.2.2011 - 23:17 - 14 ummæli

Munnur, magi, hamingja

Ef maður er ekki orðinn miðaldra fimmtugur, þá er það fyrr. Hvað sem því líður er ég allavega eldri en tvævetur. Hélt upp á tímamótin á Kanarí. Áður en ég öðlaðist þá djúpu visku sem prýðir eldri-en-tvævetrungar konur, hélt ég að hið eina rétta væri að ganga á Hvannadalshnjúk til að halda upp á áfangann. Hætti við, það er víst svo  ófrumlegt (lesist „ég nenni því ekki“). Miðaldra kona á að gera það sem hana langar til, ekki finna sig knúna til að setja á svið gleðileik með ræðum og ódýru víni eða arka á ógurleg fjöll. Nema það sé það sem hugurinn girnist.

Spánverjar virðast miklir lífsnautnamenn, ef marka má Kanarí. Frábær matur, unaðsleg vín, siesta, kaffi cortado (sæluhrollur). Og matvörubúðirnar þarna, maður lifandi. En blessað fólkið er náttúrlega þjakað af Evrópusambandinu, agalegt helsi og við heppin hér á landi að búa ekki við slíkt.Meira að segja leikföng barnanna eru… *dæs*Á afmælisdaginn sjálfan birtist, mér til mikillar furðu, syngjandi hótelþerna með kampavínsflösku, tvö glös og handskrifaðan miða sem á stóð: Hamingjusamur faedingardagur. Google Translate er vinur minn og mig langar aftur til Las Palmas.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.1.2011 - 20:25 - 10 ummæli

Blómakjóll

Nýja árið leggst prýðilega í mig, enda hófst það á afmælisgjöf frá tryggingafélaginu mínu. Fékk tvo miða á voða grand sýningu í leikhúsi hér í bæ. Langt er síðan ég hef hvílst jafn vel, en eftir hlé uppgötvaði ég að sumir vilja heldur sofa heima hjá sér, því eitthvað höfðu raðirnar þynnst í salnum.

Vinkona mín segir að það sé ekkert vit að kaupa sér kort í líkamsræktarstöð, því maður borgi offjár fyrir að þramma á bretti, þótt maður geti alveg eins þrammað úti (ókeypis). Mikið til í því, enda ætla ég ekki að halda áfram. Fór eiginlega aldrei í neitt annað en á bretti og danglaði stefnulaust í einhver tæki. Fékk ömurlega  leiðsögn um salinn eitt skipti (höfðinglega innifalið í ársáskrift) og sé, svona eftirá, að lítið var á þessu öllu saman að græða fyrir mig, en hellingur fyrir stöðina. Því hef ég ákveðið að reyna annars konar líkamsrækt á þessu ári. Veit ekki alveg hvað, en finn vonandi eitthvað áður en ég verð að niðurlotum komin vegna fitu. Ábendingar vel þegnar.

Er annars á fullu við undirbúning afmælis í kyrrþey, að ósk hinnar öldnu. Blómakjóll ekki afþakkaður.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 13:19 - 8 ummæli

Árgolan

Um daginn fékk ég frá tengdamömmu fallegan blómvönd með túlípönum og skreyttum greinum. Túlípanarnir mega nú muna sinn fífil fegri en greinarnar láta ekki segja sér að þetta sé búið, ekki einu sinni þótt þær hafi verið lokaðar inni í hvítu lakki. Lífið brýtur sér leið, rétt eins og það gerði undir Eyjafjöllum í vor, þegar mjóslegnar gróðurnálar teygðu sig til himins upp úr svartri öskunni. Á mínum bæ kallast svona háttalag Óspaksstaðaseigla.

Jamm og já. Svo langar mig að smella hér inn vísukorni eftir móðursystur mína sem var jarðsett í gær.

Losaðu sút þér úr sinni

sólskinið hafðu í minni

aftur mun árgolan bjarta

ylja og gleðja þitt hjarta.

Elín Dungal

Þakka lesturinn og gleðilegt ár!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.12.2010 - 18:47 - 3 ummæli

Skammdegi

Svo er margt sinnið sem skinnið, enginn er eyland og sjaldan er ein klisjan stök. Yfirgengilega geta orð verið tilgangslaus. Að drepa niður fingri núna er til marks um dómgreindarleysi, þar sem ég er súr yfir snautlegu jólafríi. Og verra verður það næst, ef guð lofar.

Ekki bætir úr skák að jólalesturinn (sem hjá mér er eitt aðal tilhlökkunarefni jólanna) hefur engan veginn staðið undir væntingum, bæði vegna tímaskorts (vantar alveg fríið í jólafríið) og þess að eina bókin sem ég náði að lesa er Hreinsun eftir Oksanen. Það marglofaða rit olli mér vonbrigðum, þrátt fyrir að vera lipurlega skrifað. Heimurinn er maðkétið skítapleis og fólk viðbjóðsverur (sérstaklega karlmenn) ef marka má Oksanen. Gæti ég fengið örlítið meiri Disney? Fyrir áhugasama er rétt að benda á líflegar umræður um Hreinsun á bestu bókmenntasíðu landsins.

Áramótaheitin eru í mótun, rétt eins og áramótaheitin heitin voru áður en þeim var gleymt. Maður er svo fjandi laus við ósiði að það er til vandræða hver einustu áramót. Standard heit hjá mér lengi var að hætta að bölva, en það var á meðan ég trúði á kynngi orða. Nú trúi ég á líkamsrækt, bankana og hjól atvinnulífsins. Djók. Ætli ég reyni ekki að vera í betra skapi á næsta ári.

Þakka þeim sem hlýddu.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 27.11.2010 - 19:52 - 31 ummæli

Hér er lýst frati

Æði margir nenna að væla, kvarta, heimta, öskra, veina, hneykslast, útdeila eitruðum athugasemdum, rægja náungann, dæma hart. Færri nenna að gera það sem þarf, til að breyta því sem breyta þarf. Hér með lýsi ég frati á þá sem gátu, en nenntu ekki að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn og kjósa. Ekki er nú lítið búið að tönglast á  því hvað „persónukjör“ sé sniðugt því (hinn ógurlegi margúthrópaði) „fjórflokkur“ er víst svo vonlaust apparat.

Nú bauðst okkur að kjósa persónur, og það til mikilvægs starfs fyrir land og þjóð. Og bara fullt af frambærilegu og kláru fólki sem bauð sig fram. Mér er ekki sama hverjir veljast í það hlutverk að endurskoða stjórnarskrána, sem að mínu mati er já, svei mér þá, merkilegra plagg en símaskráin (þótt sú síðarnefnda virðist vekja meiri áhuga þessa dagana).  Meirihlutanum er slétt sama um stjórnarskrá lýðveldisins.

Ísland er fínt land, en stundum finnst mér leitun að jafn fordekraðri og vanþakklátri þjóð og Íslendingum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.11.2010 - 20:09 - 12 ummæli

Flýgur sækettlingasagan

Á níunda áratugnum bjó ég í Bandaríkjunum og átti litla stúlku í leikskóla. Man að mér kom dálítið spánskt fyrir sjónir hversu áhugi á risaeðlum var útbreiddur á þessum tíma, það vissi hver meðalkrakki meira um snareðlur og grameðlur en heimilisketti og hænur. Í skólum og leikskólum var einnig lögð býsna mikil áhersla á fræðslu um hvali. Á deild dóttur minnar í leikskólanum föndruðu börnin risavaxinn hval úr pappamassa og unnu margvísleg hval-læg verkefni önnur. Lítil börn lærðu að hvalir væru í útrýmingarhættu, væru „góð dýr“ og „mjög gáfaðir“ og það gengi mannsmorði næst að veiða þá. Já, risaeðlur og hvalir voru sannarlega stóra málið á níunda áratugnum í Bandaríkjunum. Segja má að öll þessi innræting fræðsla hafi skilað ágætum árangri, því í dag veiðir enginn risaeðlur og andstaða við hvalveiðar fer varla framhjá nokkrum manni.

Dóttir mín, fyrrum leikskólabarn í Ameríku, er nú orðin háskólanemi í Skotlandi, þar sem hún rannsakar m.a. efnasamsetningu fiskimjöls. Hún benti mér um daginn á samtök sem berjast gegn, ekki hvalveiðum, heldur fiskveiðum. Herferð PETA samtakanna gegn fiskveiðum (smellið hér). Þegar síðan er skoðuð má sjá margt skondið. Lesendum er t.d. bent á að fiskar hafi liðið fyrir að hafa haft „lélegan almannatengil“, sá hafi ekki staðið sig í stykkinu með því að kalla fiska fiska og leggja samtökin til að við köllum fiska sækettlinga.

Ég þýddi að gamni mínu hluta þess texta sem gefur að líta á PETA síðunni.

Margir hafa aldrei leitt hugann að því, en fiskar eru greind og áhugaverð dýr. Hver fiskur hefur sinn eigin persónuleika, rétt eins og hundar og kettir. Vissirðu að fiskar geta lært að forðast net með því að fylgjast með öðrum fiskum í hópnum og að þeir þekkja aðra einstaklinga, þ.e. torfuvini sína? Sumir fiskar safna upplýsingum með því að hlera samtöl hjá öðrum og aðrir nota verkfæri, t.d. suður afrískur fiskur sem hrygnir á lauf til að geta borið hrognin í öruggt skjól.

Þrátt fyrir að hverjum manni ætti að vera ljóst að fiskar finni fyrir sársauka, rétt eins og öll önnur dýr, hugsa sumir enn um fiska sem syndandi grænmeti…Vísindamenn segja að fiskar hafi heila- og taugakerfi sem er mjög líkt kerfi mannsins…Að halda því fram að fiskar finni ekki til er jafn heimskulegt og óvísindalegt og að segja að jörðin sé flöt.

Mjög er reynt að höfða til barna á síðunni. Þau geta lesið myndskreyttar fiskasögur (flett blöðum rafrænt), hér er ein sagan (þýðing mín):

Silli silungur var gáfaðasti sækettlingurinn í skólanum. Aðeins tveggja mánaða var hann orðinn kassavanur og hélt síðan áfram í skóla. Hann útskrifaðist með fyrsu einkunn frá Skeljaháskólanum í taugavísindum og umhverfisfræðum. Silli var veiddur og borinn á borð fyrir ungan pilt sem borðað hafði einum blýmenguðum sækettlingi of mikið, og varð pilturinn fyrir bragðið neðstur í bekknum.

Börnin geta líka farið í leik þar sem þau búa til krúttlegar myndir, velja sér fisk sækettling og skreyta hann (persónugera) með því að setja á hann hatt, kisueyru, slaufu o.s.frv. 

Að auki gefst foreldrum kostur á að kaupa margvíslegt dót fyrir börn sín á síðunni, t.d. boli með áletruninni „Fish are friends, not food“ (mig langaði næstum að senda þeim póst og spyrja af hverju þarna væri notað hið ókrúttlega orð „fiskar“).

Já, það er margt í mörgu í maganum á Ingibjörgu. Dæsti amma á meðan hún tuggði annars hugar þverskorinn sækettling með smjöri og kartöflum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.10.2010 - 11:33 - 15 ummæli

Sár

Þegar ég var barn var ég ægilega hrædd við sprautur og kveið líka iðulega fyrir því að láta fjarlægja plástra (sem í þá daga voru þykkir, brúnir og límið hélt í húðina með aðdáunarverðri viðloðun). Ég var lítil og mátti eiga lítil vandamál. Mamma greip stundum til þess bragðs að klípa mig um leið og hún kippti plástrinum snöggt af. Það er einhvers konar „böl bæta með því að benda á annað“ í sársaukabransanum.

Þekki einn pilt sem er alltaf með á hreinu hvað hann vill ekki, en þegar kemur að því sem hann vill, berst talið alltaf að því sem hann vill ekki. Það er gott að vita hvað maður vill ekki, en enn betra að vita hvað maður vill. Ef mann dreymir aldrei um að skapa eitthvað nýtt, heldur eingöngu um að mölva, bölva og brjóta, þá getur það varla talist vænleg stefna. Svona heilt yfir.

Sú gamla aðferð mömmu að dreifa sársaukanum er enn góð og gild, en í staðinn fyrir að klípa nett í handlegg er fólk farið að skera af sér útlimi og grýta í presta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 19:40 - 8 ummæli

Gleði og fréttir

Mér til undrunar datt um daginn inn um lúguna boðskort frá borgarstjóra, um að mæta í Höfða til að fylgjast með afhendingu bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar. Þar sem hún litla ég er hvorki elítuð í bókmenntum né menningu, flökraði að mér að Jóni Gnarr hefði þótt fyndið að taka slembiúrtak úr íbúaskrá Reykjavíkur og bjóða í fína veislu.  Núnú, í dag vippaði ég mér í penan gráan kjól og mætti í móttökuna, og leið obbulítið eins og statista innan um öll skáldin og andans jöfrana. Hlustaði á ágæta ræðu Jóns Gnarr og get varla lýst gleðihoppi hjartans þegar hann nefndi nafn verðlaunahafans.  Það er nefnilega Norðurmýrarmaddaman Þórdís Gísladóttir, landskunnur góðahirðis- og keramíkspekúlant. Verðlaunin hlýtur hún fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra, sem út er komin hjá Bjarti og er vitaskuld rakin tækifærisgjöf. Til hamingju Þórdís!

Annars er það helst í fréttum að því minna sem ég horfi á fréttir, því glaðari verð ég. Lifiði heil og lesiði ljóð börnin góð.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.9.2010 - 18:13 - 15 ummæli

Við fésbúkarnir

Með réttu ætti ég víst að vera orðin eins og fílamaðurinn á slæmum degi. Hafði mig loksins í að fara hring í ræktinni með leiðsögn (var margbúin að skjóta því á frest, enda önnum kafin kona á framabraut). En sumsé, ég er búin að „fara í ræktina“ síðan í janúar, og komst að því í dag að æfingatækni mín er prýðilega til þess fallin að rækta skekkju og kramarmennsku, og má víst undrum sæta að ég hafi ekki drepið mig á því að hamast kengöfugt. Fari það kolað hversu margt er að varast í henni versu.kjúklingur1Eins og ég var nú ánægð með mig.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.8.2010 - 22:20 - 10 ummæli

Ögn um ögn

Það er ekki endilega gott þegar maður hættir að blogga svo tunglum skiptir. Þarf ekki að vera slæmt heldur. Gæti best trúað að það kæmist upp í vana eins og svo margt sem maður gerir ekki. Spurning hvort ég dembi mér í Asúramatí jóga, eða íhverfa innhugun til að vega upp á móti dvínandi netiðni minni. Ég er víst allt of stressuð og tens.

Talandi um það. Nágranninn kom að máli við mig um daginn og vildi höggva niður tré (hegg) í garðinum mínum. Ég spurði hissa: „Er ekki örlítil kaldhæðni í því að vera tré og heita heggur?“

Þótt ótrúlegt megi virðast var þetta ekki hátindur sumarsins. Nei, það var Kaldbakur. Vestfirsku alparnir eru osom.

KaldbakurOg til að þið farið ekki alveg tómhent héðan, læt ég fylgja tengil á eitt eftirlætisbloggið mitt um þessar mundir. Hún Þórdís er séní.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is