Fimmtudagur 19.01.2012 - 11:34 - Lokað fyrir ummæli

Baráttan um biskupsstólinn!

Sigríður Guðmarsdóttir og Kristján Valur Ingólfsson hafa nú gefið kost á sér í biskupskjöri. Hvortveggja ákaflega hæfar manneskjur og vel menntaðar sem myndu valda embættinu vel.  Sigríður ætti að höfða til þeirra sem vilja (róttækar) breytingar á kirkju (og samfélagi) að mörgu leyti sömu hópa og vilja nýtt Ísland. Kristján Valur ætti að höfða fremur til þeirra sem vilja yfirvegaðar breytingar, góða kjölfestu og reynslu. Sigríður höfðar, eðli máls samkvæmt, einnig til þeirra sem telja áríðandi að fá konu í stól biskups í öllu falli feminista.  Kristján fremur til þeirra sem vilja líta til hæfileika fremur en kynferðis.  Þarna eru þó ekki skörp skil því að bæði eru jafnréttissinnuð.

Ágætar manneskjur eru með hendina á húninum.  Má þar nefna Sigurð Árna Þórðarson sem stendur alveg á pari við ofannefndar manneskjur í hæfileikum og Jónu Hrönn Bolladóttur sem er prýðilega hæf og  lætur til sín taka hvar sem hún fer og eins og Sigríður ætti að höfða til kvenna og þeirra sem vilja glænýja hugsun.

Það hefur orðið gjörbreyting á biskupskjöri.  Áður voru þetta rúmlega 200 manns aðallega prestar. Nú eru þetta yfir 500 manns að uppistöðu til sóknarnefndarformenn. Sóknarnefndarmenn eru með allt öðru vísi bakgrunn en prestar.  Þetta eru praktískir birnir og birnur sem hafa fyrst og fremst áhyggjur af fjárhag sókna sinna.  Á meðan afstaða presta mótast af margflóknum kenninga, kunningja -, aldurs (m.a. því hvort að menn hafa verið saman í deild)-  og ættartengslum þá er hið nýja ráðandi afl líklegt til að stjórnast meira af almenningsáliti og flokkapólitík.  Þegar hygg ég að það ferli sé hafið að sóknarnefndarformenn fundi með hver öðrum og þeir sterkustu þeirra á meðal beiti áhrifum sínum eins og í öllu mannlegu félagi.  Þarna mun ekki eiga sér stað samráð á sóknargrunni milli prests og sóknarnefndarformanns þar sem presturinn leggur dóm á kenningarlega þáttinn heldur munu leikmenn leita hvorn annann uppi og í raun og veru ráða niðurstöðu. Í þessu umhverfi er vissulega er gott að vera kvenframbjóðandi þar sem sterk krafan er sú að kona verði biskup en það verður líka gott að vera yfirvegaður reynslubolti.  Líklegt er að frambjóðendur hagi sér meira og minna eins og pólitíkusar á næstu vikum, reyni að höfða til sem flestra og verði því varkárir og yfirvegaðir en jafnframt róttækir og spennandi.  Og nú reynir á hver hefur besta biskupsnefið.

Og það getur skipt máli fyrir íslenskt samfélag hver verður biskup. Þetta er í öllu falli áhrifastaða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

 • Hulda Guðmundsdóttir

  Sæll vertu. For-dómar eru vissulega það, að dæma eitthvað fyrirfram. Og það sem við bæði gerum er að vísa í ,,talsmáta“ sem heyrst hefur um leika og lærða og er einmitt dæmi um það þegar fólki eru gerðar upp skoðanir og viðhorf, án athugana.

  Þú gefur þér þá forsendu að sóknarnefndarformenn muni beita áhrifum sínum og ,,í raun og veru ráða niðurstöðu“. Þetta eru for-dómar til óþurftar.

  Best væri ef fundað yrði i hverri sókn, prestur og leikmenn saman, þar sem farið væri yfir mikilvægustu málefnin sem blasa við í kirkjunni. Menn myndu kappkosta að bera hag Þjóðkirkjunnar /samfélagsins fyrir brjósti og búa til spurningar fyrir frambjóðendur um málefni sem eru brýn. Þá væri aldeilis gott ef við hefðum síðan góðan tíma til að fá frambjóðendur í heimsókn t.d. í hvert prestakall, þannig að samtal gæti orðið, helst yfir ljúfum kaffibolla. Nú er hins vegar við búið að timi verði svo skammur frá 29. febrúar þegar framboðsfresti lýkur og fram að kosningum sem heyrst hefur að verði um miðjan mars, að við missum algjörlega af því tækifæri sem ,,samtalið“ gæti gefið okkur öllum í kirkjunni.
  Mér þykir slæmt ef þessi asi verður á kosningunum sjálfum. Rýmri tími fram að þeim gæti nefnilega boðið upp á mikilvægt samtal sem ég held að við viljum flest að náist og sýnir sig að er þarft. Frambjóðendur þurfa tíma til að fara um héruð, kynna sig og kynnast kirkjunni.

  Munum að við erum kirkjan og öll af vilja gerð, bæði leikir og lærðir ekki satt – til að sýna ábyrgð og virðingu fyrir því verkefni að velja biskup Íslands.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is