Þriðjudagur 7.2.2017 - 20:03 - Rita ummæli

Hugleiðingar um stjórnmál

Stjórnmál fjalla um hvernig á að stjórna samfélagi, á hvern hátt og fyrir hvern. Flestir stjórnmálaflokkar undangenginna fimmtán til tuttugu ára segjast vera með stefnu sem sinnir öllum þegnunum, öllum stéttum og öllum hagsmunaöflum. Vandi þegnanna / kjósendanna er að greina hver segir satt og hver ósatt og fyrir hvern hver og einn flokkur starfar í raun. Ég sem kjósandi og þegn reyni að átta mig á því hvort að stjórnmálaflokkurinn sem ég ætla að kjósa muni sinna mínum hagsmunum. Ef ég er þroskaður þegn velti ég því fyrir mér hvort að hann sinnir hagsmunum heildarinnar. Helsta gagnrýni sem við höfum á stjórnmálaflokk er að hann sinni sérhagsmunum tiltekinna þjóðfélagstétta eða valdaafla umfram aðra. Í þjóðfélagsumræðunni þykir ekki gott að hygla einum hópi umfram annan og því vilja flokkar þvo slíkar ásakanir af sér.

Um miðja síðustu öld voru stjórnmálaflokkar tengdir tilteknum hagsmunaöflum og þjóðfélagsstéttum. Stjórnmálaflokkar voru afsprengi verkalýðshreyfinginarinnar, atvinnurekenda eða bænda. Þessir stjórnmálaflokkar voru einnig á fjölmiðlamarkaði og héldu þannig uppi linnulausri upplýsingagjöf um hugmyndafræði sína, greiningu á samfélaginu og gagnrýni á andstæðinga í stjórnmálum. Ég tek hér ekki tíma til að reyna að lýsa hugmyndafræði hvers og eins enda flestum kunnug. Það sem gerist á síðari hluta tuttugustu aldar er það sem ég fullyrti í upphafi að flestir stjórnmálaflokkar telja sig sinna öllum og viðurkenna ekki að þeir gangi sérstaklega erinda tiltekinna þjóðfélagshópa, stétta eða hagsmunaafla. (Þó eru undantekningar frá þessu.)

Þessi þróun hefur orðið samfara því að framvinda, samspil hagsmunaafla og stjórnun samfélagsins virðist hafa orðið flóknari. Það sem hefur gerst er að stóru hugmyndakerfin, kommúnismi og kapitalismi ónýttust, annars vegar á síðari hluta tuttugustu aldar og hins vegar í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar. Hugmyndafræði er á reiki og ekki virðast vera valkostir hjá stjórnmálaflokkum um tiltekna samfélagsgerð. Fólk ræðir ekki í hvernig samfélagi það vilji lifa í og við erum ekki að skilgreina samfélagið eða að reyna að skilja það í orðræðu. Allir ganga út frá því að samfélagið sem kerfi eigi að vera eins og það er – vera óbreytt.

Sjálfsagt má viðurkenna að framvindan sé á einhvern hátt líka flóknari vegna hvers kyns nýjunga í tölvutækni sem hafa breytt samskiptum og upplýsingagjöf. Leikritið um sögu Sölku Völku sem sýnt er í Borgarleikhúsinu minnir okkur hins vegar á það með eftirminnilegum hætti að kjarni togstreitunnar á milli hagsmunaafla samfélagsins er hin sama í dag og á þeim dögum sem sagan gerist. Reyndar ekki bara það, heldur að eðli togstreitunnar megi rekja aftur til frönsku stjórnarbyltingarinnar. (Í gamansemi er svo látið að því liggja að eini munurinn sé sá að túristar horfa nú á herlegheitin.)

Í dag reyna stjórnmálaflokkar að höfða til allra kjósenda, því að það er leiðin til að ná völdum. Flestir reyna að sýna ekki á þau spil hverra hagsmuna þeir eru að gæta í raun.   Stjórnmál hafa í þessari þróun breyst í einskonar viðskiptamódel þar sem stjórnmálaflokkar búa til loforðalista fyrir kosningar yfir aðgerðir sem þeir telja að höfði til sem flestra. Lausnir eru orðnar að söluvöru á kjósendamarkaði.

Við þessar aðstæður telja allmargir að stjórnmálaflokkur lengst til vinstri og lengst til hægri geti starfað saman eins og þær hugmyndavíddir skipti ekki lengur máli. Það liggur við að fjölmiðlamenn tali um fúllyndi hjá stjórnmálaflokki sem vill ekki vera með þessum eða hinum. Það er einnig svo við þessar aðstæður að það virðist vera tæknilegt atriði hvernig á að stjórna – það þurfi bara að finna leiðina eða semja um leiðina. Mér fannst aðeins einn stjórnmálaflokkur tengja sig við tiltekna hugmyndafræði í síðustu Alþingiskosningum.

Nú er það einmitt svo að kjarni átakanna eða togstreitunnar er í grunninn hinn sami, allt frá frönsku stjórnarbyltingunni, eins og leikritið um Sölku Völku minnir á. Togstreitan er á milli þeirra sem vilja safna að sér hvers kyns vistum og völdum og hinna sem skildir eru eftir snauðir og valda- og áhrifalausir. Við reynum nú ótrúlega svipaðan veruleika og var kveikjan að frönsku byltingunni sem var misskipting auðs og valda. ( Þó íslenskar hamfarir hafi kveikt í tundrinu.) Þar hafði yfirstéttin sankað að sér megninu af auðæfum landsins og lifði í velllystingum á meðan aðrir sultu.  2016 áttu 1% jarðarbúa meira en helming allra auðæfa á jörðinni. (Skýrsla Oxfam.) „Ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda á hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu.“ (Nútíminn 20. janúar 2015.)

Það er því kominn tími til að skilgreina helstu grunnþætti í eðli samfélagsins og þeirrar togstreitu sem þar ríkir og leggja grunn að hugmyndafræði fyrir stjórnmál. Hugmyndafræði er lýsing á því hvernig menn sjá samfélag framtíðarinnar fyrir sér – eins konar heildarsýn. Hugmyndafræðin byggir þá á grunngildum eða skilningi á því hvað skipti máli við stjórnun samfélagsins og hvernig eigi að skipta gæðum þess öllum til heilla. Hvernig við lítum á mannlegt eðli og virkjum það án þess að einn fái meira rými en annar. Nú þegar ljóst er að við erum að ganga á takmörkuð gæði jarðarinnar og andrúmsins, hlýtur að þurfa að hugsa öll viðskipti upp á nýtt. Það er ekki laust við að hægt sé að kalla það, sem að okkur steðjar, háska. Það þarf því að skilgreina háskann og smíða tillögur um breytingar sem gefa von um framtíð til handa okkur, börnum okkar og barnabörnum.

Kjósendur fer brátt að þyrsta í upplýsingar um það hvernig við ætlum að lifa af á jörðinni. Innkoma Trumps á stjórnmálasvið heimsins virðist vera eins og síðasti andardráttur þeirra risaeðlu sem trúir því að nóg sé af öllu í náttúrinni og að við getum bara haldið áfram að teygja okkur í auðævi hennar og breytt í peninga og völd og velsæld handa hinum útvöldu. Um allan heim vita menn betur og því stendur heimurinn á öndinni.

Stjórnmálahreyfing 21. aldarinnar hallar sér ekki að tilteknum hagsmunaöflum eins og í upphafi 20. aldarinnar heldur greinir stöður út frá heildarskilningi á samspili hinna ýmsu afla sem gagnast þegnunum, í fjölbreyttu samfélagi þar sem gæðum er réttlátlega skipt. Þannig má segja að sú hugmynd stjórnmálaflokka á Íslandi í dag að reyna að ná til allra kjósenda sé skref í rétt átt en það sem vantar er hvernig það samfélag lítur út sem stefna þeirra stuðlar að.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.5.2016 - 19:45 - Rita ummæli

AÐ STOFNA / DREPA STJÓRNMÁLAFLOKK

Enn leggja ungir menn til, að við sem unnum frelsi, jafnrétti og bræðralagi, að sameinaðir verði flokkar í stjórnmálum – að stofnaður verði stjórnmálaflokkur.

Ímyndum okkur að markmið stjórnmálaflokksins væri að sameina undir einum fána nokkrar fylkingar með sömu sjónarmið um líf og tilveru manna í samfélagi.

Getur sagan kennt okkur eitthvað?

Ekki er ólíklegt að við slíkar aðstæður yrðu menn sammála um að heiti á slíkum flokki ætti að hafa „“SAM“ í sér og væri það afbragðs hugmynd. Samræða myndi fljótlega sýna að ekki yrði vandi að láta málefnin ríma en síðar gæti komið í ljós að brestir í mönnum hefðu eitthvað um árangurinn að segja. Helsti brestur er íhaldssemi og í öðru lagi sjálfselska í þessu samhengi. Margir menn eru sem sagt íhaldsamir og sjálfselskir og sá sem einu sinni hefur gengið undi merki og lyft fána í baráttu, fellir hann ekki glaður til að taka upp annan fána eða annað merki. Það getur verið greypt í menn, eins og stál og hnífur var merki farandverkamanna, svo sem skáldið kvað. Sérstaklega ef málefnin hafa í engu breyst og sami frelsisandinn brennur þeim í brjósti sem áður.

Þá gæti gerst eins og gerðist til forna þegar stór ákvörðun var tekin sem skipti máli fyrir þessa fámennu þjóð sem varð að lifa í sátt í þessu landi og ekki var hægt að hlaupa til annarra landa eða komast hratt brott með öðrum hætti eins og nú er. Þá sáu menn skynsemina í því að taka upp einn sið og allir sáu vitið í því enda yrði hér ófriður sem eytt gæti byggð í landinu. Þegar Íslendingar standa frammi fyrir slíkum ógnum eiga þeir það til að sameinast um góða lausn sem allir verða sáttir við og gerist það enn í dag. Sumir vildu, á þessu forna þingi, fá að blóta sínum goðum í laumi og var þeim það leyft. Þannig var tekinn upp sami siður og ríkti meðal Evrópumanna og má segja að það hafi verið fyrsta sameining þeirra í menningarlegum efnum og kannski hjálpað það til í samskiptum og kannski viðskiptum. Það dugði þeim þó ekki til friðar fyrr en löngu síðar og blóðið hafði nært blómjurtir þeirrar álfu, stundum fremur en blessað vatnið.

Það er eins og mig rámi í, að eitthvað svipað hafi gerst réttum 1000 árum síðar þegar sameina átti nokkrar fylkingar í einum flokki, að þá var lausnin einmitt að menn fengu að blóta öðrum goðum og það á þeim stað sem hjarta hins nýja flokks átti að slá og dæla blóði í líkama baráttunnar. Skyldi þá hver fylking fá að halda sínu merki og sínum formönnum svo lengi sem verða mætti uns fylkingarnar myndu á endanum renna inn í hinn sameiginlega augljósa hugmyndasjóð sem myndaður hafði verið um frelsið, jafnréttið og bræðralagið. Þá voru það systurnar sem voru fyrstar til að leggja sig inn í þennan sjóð enda konur einhverra hluta vegna oft skynsamari en karlfauskar. Það voru sem sagt konur sem voru fyrstar til að virða hinn sameiginlega hugmyndasjóð. Enda varð það kona sem lyfti hinu nýja merki hvað hæst og kona sem gerði vel þegar mestu skipti fyrir þessa þjóð er sárvantaði gegna og heila manneskju. Þessu skal til haga haldið þó að þræðir þessara tveggja kvenna verði ekki raktir hér frekar.

Svo merkilegt sem það nú er, þá skyldi þannig valið til forystu í þessari fylkingu, með hin mörgu hjörtu merkt rósum, alþýðu, vakningu þjóðar svo ekki sé talað um frjálslyndi, að hver fulltrúi skyldi keppa við sinn meðreiðarmann í fylkingarbrjósti þegar halda skyldi til orrustu. Þá er orrustan skyldi standa og komið var fram á vígvöllinn og hver maður ætti halda hlífiskildi yfir öðrum ef þurfa þætti, þá var talið af framámönnum fylkinganna að farsælast væri til sigurs fyrir flokkinn að felldir yrðu skildirnir, þar sem menn horfðu yfir skjaldarrendurnar á andstæðingana, þannig að hver sneri að þeim er næst var og klóraðu úr honum augun. Svona var samkeppnin hörð um fylkingarbrjóstið. Gengu menn svo blóðrisa og illa sárir til orrustunnar og hvernig þeir fóru að þessu er flestum hulin ráðgáta. Þeir er studdu flokkinn, vissu ekki af þessu og aldrei var um þetta rætt af neinni alvöru fyrr en ein opinber endurskoðunarnefnd setti hlutina í samhengi.

Þá kom nefnilega í ljós að hver merkis- og fánarberi var meðal annars fremstur fyrir atbeina fjáraflamanna og var þar að því er virtist á eigin og þeirra vegum en ekki fylkingar fólksins sem að baki þeim stóðu. Hvernig þetta mátti verða til að gera veg hugmyndasjóðsins sem mestan veit ég ekki og hef aldrei skilið. Hvernig gátu menn nokkurn tíma talið að þessi háttur á að velja fólk í fylkingarbrjóst yrði til góðs, veit ég ekki og ef aldrei skilið. Þá er allt hrundi var sett samhengi á milli fjáraflamanna og þeirra er stóðu í fylkingarbrjósti flokka, ekki bara umrædds, og því um kennt að gullið hefði blindað og múlbundið, svo að sannleikurinn varð aukaatriði. Þegar við þetta bætist að það voru ekki bara peðin á skákborðinu sem voru hæluð niður í fjársjóði, sem vildu sitt, heldur einnig hinir æðstu foringjar er þeir kepptu um forystuna. Enginn vildi svo fella sín merki og sína fána því að hvert hjarta hinnar nýju fylkingar sló ekki flokknum heldur einstökum merkisberum og voru þar skjaldmeyjar og skjaldsveinar er sýndu hörku. Hver merkis- og fánaberi hafði sem sagt á bakvið sig hópa sem aðstoðaði við augnklórið.

Þetta var um aðdraganda orrustunnar sjálfrar og hvernig að henni var staðið. Þegar herráðið skildi undirbúa orrustuna leitaði það í hina sömu fjársjóði og kom þá oft upp að merkisberi hafði þegar sótt þangað og var þá sjóðurinn þorrinn. Mikið fé fór í að koma merkisbera í fylkingarbrjóst og hefði samanlagður sjóður merkisbera orðið mikið fé í höndum herráðsins. Ekki vildi herráðið og þeirra pótintátar sækja fé til þess almennings sem hugmyndasjóðurinn var myndaður fyrir, til þess almennings sem að líkindum myndi njóta velsældar og fengi margfaldlega greitt til baka ef hugmyndirnar yrðu til að stýra þeirra lífi og þeirra landi. Enda voru merkisberar í reynd ekki á þeirra vegum heldur fjáraflamanna. Það mátti ekki þó að lagt væri til að almenningurinn legði sem svaraði andvirði einnar þriggja rétta máltíðar á miðlungs veitingahúsi á hverju ári. Það var talið til of mikils mælst þó að vitað væri að tap í orrustunni um hugmyndirnar myndi taka margar máltíðir af almenningnum sem barist var fyrir. Einhverra hluta vegna átti frelsis- og lýðræðisbarátta að vera kostuð af Jóakim Aðalönd en ekki af þeim Andresi, Andresínu, Mikka Mús og Feitamúla og slíku alþýðufólki. Þetta er algjörlega óskiljanlegt. Svona geta menn nú vafist gjörsamlega inn í sjálfan sig og er þetta saga mannskyns í hnotskurn því að oft er það svo, eftir á að hyggja, að villugjörðir fyrri tíða eru samtímanum mikil ráðgáta. Menn spyrja sig hvernig menn gátu hagað sér svo undarlega í fortíðinni og með dæsingum segja fyrri tíða menn heimska.

Verra er ef samtíminn er enn á sama stað þrátt fyrir augljósar villur. Þá er ekki ólíklegt í ljósi þess sem sagt hefur verið hér að hver og einn sem telur sig vera til forystu fallinn efist um að flokkurinn sé flokkur og að fylkingarnar séu sundraðar og huga verði enn á ný að rótunum. Látið verði reyna á hugmyndasjóðinn. Reynt verði að gera hugmyndasjóðinn að því sem baráttan snýst um. Hugmyndirnar verði látnar skína af himninum og lýsa til framtíðar.

Hvernig er best að drepa stjórnmálaflokk?

Þekkingin er öllum nærtæk.

Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér.

Svo einfalt er það nú.

Með baráttukveðju,

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 5.5.2016 - 12:36 - 2 ummæli

RÍKIÐ

Öll ríki eru tegundir af samfélögum og öllum samfélögum er komið á til að gera eitthvað gott, vegna þess að mannkynið reynir ætíð að gera það sem það telur að leiði til góðs. En ef öll samfélög stefna að gæðum, þá hlýtur stjórnmálalegt samfélag sem er æðst þeirra að vera umfram önnur í því að stefna að æðstu gæðum. (Aristoteles) *

Ríki hafa ekki myndast fyrir tilviljun og viðhald þeirra ekki heldur. Við sem einstaklingar viljum vera þegnar í ríki. Við viljum tilheyra ríki vegna þess að við vitum að þannig hámörkum við velsæld okkar. Án skipulegs samfélags værum við í stöðugu stríði, eins og þegar dýr merkurinnar keppa um bráð. Samfélag er hópur fólks sem hefur komið sér saman um verkaskiptingu og sérhæfingu til þess einmitt að vinna að velsæld sinni og afkomenda sinna. Þannig getur leikskólakennarinn jafnt sem iðnrekandinn sérhæft sig og báðir notið góðs. Með þessum hætti leiðir samfélag til góðs og samfélag sem er meðvitað stjórnað til að ná tilteknum markmiðum eða árangri fyrir einstaklinga þess er betra og æðra. Aristoteles er einmitt að benda á að samfélag sem er stjórnað skipulega og meðvitað er betra en önnur samfélög. Hann kallar þetta í minni þýðingu stjórnmálasamfélag. (political community)

Ríki er hægt að grundvalla á hefðum og siðum en einnig á formlegum yfirlýsingum sem við köllum stjórnarskrár. Það eru til  ríki sem hafa ekki stjórnarskrá svo sem Bretland, Nýja Sjáland og Ísrael. Ísland fékk stjórnarskrá frá danska kónginum á 19. öld. Við tókum merkilegt skref í átt að nýrri stjórnarskrá með tillögu stjórnlagaráðs frá 2011 sem þjóðin hefur samþykkt að lögð verði til grundvallar í frekari vinnu. Í stjórnarskrá eru þau atriði talin upp sem þjóðin leggur hamingju sinni og velsæld til grundvallar, hvað varðar stjórnskipan og gildi.

Við viljum að stjórnarskráin lýsi þeim leikreglum sem á að fara eftir í lýðræðisríkinu Íslandi. Það er ekkert undur að um slíkt geti ríkt ágreiningur enda er ekki líklegt að hægt sé að setja saman sáttmála um samfélag þar sem allir þegnarnir geti hámarkað hagsmuni sína. Það virðist vera einkenni á eðli manna eins og dýra að hver og einn vill tryggja sína einkahagsmuni og því aðeins samþykkja sameiginlega hagsmuni að þeir stuðli að einkahagsmunum viðkomandi. Svo kann að vera að einstök samfélög eða ríki séu þroskaðri en önnur, þannig að menn sjái fleiri einkahagsmunum fullnægt með því að tryggja sameiginlega hagsmuni. Kannski geta menn komið sér saman um skipulag sem hámarkar velsæld allra.

Frumvarp Stjórnlagaráðs frá 2011 fjallar um hugmynd Aristotlesesar um eðli og markmið ríkisins eins og hún birtist í tilvitnun minni hér að framan. Í frumvarpinu er útfærð skipan sem á að tryggja sameiginlega hagsmuni og velsæld okkar sem þjóðar og er þar lagður mikilvægur nýr grunnur að framtíð íslenska ríkisins. Mig grunar hins vegar að okkur beri að sjá nútíma ríkið, Ísland, með öðrum og víðtækari hætti. Ég tel að við lifum og störfum í stjórnmálasamfélagi eins og ég hef verið að lýsa en það  hefur orðið eðlisbreyting á samfélagi okkar, því að við erum ekki bara undirseld stjórnmálasamfélaginu í lífi okkar og störfum.

Sú klisja að fjölmiðlar séu fjórða valdið í ríkinu þroskaðist í orðræðu á síðari hluta 20. aldar á svipuðum tíma og pappírsfjölmiðlar urðu sjálfstæðari en áður og óháðari stjórnmálum. Lengi vel voru fjölmiðlar hluti af stjórnmálavaldinu og þar með hluti af stjórnmálasamfélaginu. Enn eru þar sterkar tengingar og jafnframt hefur vald þeirra aukist. Við erum einnig með fjölmiðla sem við köllum samfélagsmiðla og eru einkafjölmiðlar hvers þjóðfélagsþegns. Þannig getur einstaklingur í dag náð eyrum allrar þjóðarinnar á dagparti ef hann hefur nægilega krassandi upplýsingar. Opinber fjölmiðill setti forsætisráðherra þjóðarinnar af á nokkrum dögum nýlega sem sýnir hvert vald fjölmiðla getur verið við tilteknar aðstæður. Fjölmiðlar eru ekki fjórða valdið eins og klisjan segir. Sú hugsun gefur í skin að þeir séu fjórða valdið í þrískiptingu ríkisvaldsins.  Fjölmiðlar eru sjálfstætt vald og eru að mestu óháðir stjórnmálum þegar allar gerðir þeirra eru teknar saman og þá sérsaklega ef við lítum á að hver og einn þegn sem heldur úti samfélagsmiðli sé tegund af fjölmiðli. Fjölmiðlar eru sem sagt þegar orðnir sérstakt vald sem hafa afgerandi áhrif á framvindu samfélagins. Þannig getum við sagt að samfélagið sem við lifum í búi við stjórnmálavald og fjölmiðlavald sem ræður hamingju okkar og velsæld. Þetta dugar samt ekki sem skýring á því hvað ræður framvindu íslensks samfélags.

Eitt vald enn hefur ekki verið talið hér, er fjármálavaldið. Við sjáum á atburðum síðustu vikna að fjármálavaldið lifir sjálfstæðu lífi. Þeir sem eiga peninga segja sig úr lögum við samfélagið og telja sig hafna yfir samfélagssáttmálann (stjórnarskrá). Þeir telja sig sem sagt ekki vera undirselda stjórnarskrá, lögum og siðferði landsins. Hér að framan tók ég dæmi af leikskólakennara og iðnrekanda. Gagnvart fjármálavaldinu gætu leikskólakennarinn og iðnrekandinn verið samherjar því að iðnrekandinn þarf fólk og tæki og markað til að selja varning sinn og getur því ekki sagt sig úr lögum við samfélagið eða það eðlilega samhengi sem myndar samfélagið. (Þegnar leggja í sameiginlegan sjóð til að standa að nauðsynlegum sameiginlegum verkefnum – menntun, heilbrigið, samgöngum og svo frv.)

Iðnrekandinn stjórnar að öllum líkindum fyrirtæki sem er í eigu hluthafa og þar gætu línurnar orðið óskýrar. Fjármálavaldið lifir sjálfstæðu lífi fyrir utan veruleika venjulegra manna og þess sem þeir taka sér fyrir hendur í daglegu lífi. Í bók sinni „Other peoples money“ lýsir John Kay þeirri eðlisbreytingu sem orðið hefur á samfélaginu á tuttugustu öld. Hann segir sögu fjármálavæðingar (financialization) samfélagsins sem er sérstaklega áberandi frá um 1980 til okkar daga. Fjármálavæðingin hefur skilað okkur því að örfá prósent manna á jörðinni á næstum allt sem hægt er að eiga og þetta á einnig við á Íslandi. Misskiptingin sem af þessu hlýst er því orðinn stórkostlegur vandi í heiminum. Fjármálavaldið hefur afgerandi áhrif á hamingju og velsæld hins venjulega manns.

Fjármálavaldið hefur orðið áberand á Íslandi sem gerandi í samfélagslegri framvindu á sama tíma eins og annars staðar í heiminum. Það nær að blómstar hér með aðkomu tiltekinna stjórnmálaflokka sem tengdust því og nærðu það með stjórnvaldsákvörðunum og starfsemi sinni. Þessir stjórnmálaflokkar eru  Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og einnig Samfylkingin að minnsta kosti fyrir hrun. Píratar eru greinilegt mótvægi þar sem áherslur þeirra eru fyrst og fremst umbætur til að auka áhrif þegnanna yfir eigin lífi, hamingju og velsæld. VG er einnig í andstöðu við fjármálavaldið, sjálfsagt bæði af lýðræðislegum ástæðum og vegna hugmyndafræðilegrar sögu sinnar.

Það er rétt sem margir segja að hægri vinstri pólitík sé ekki til lengur en skýringin liggur í þeim eðlisbreytingum sem orðið hafa. Átakalína stjórnmálanna er ekki um hægri vinstri eða miðju. Stjórnmálavaldið dugar ekki lengur til ákvarðana um samfélagsgerðina og framvindu samfélagsins. Átakalínan er um lýðræði og almannavald annars vegar og fjármálavaldið hins vegar. Samfélagið býr við þrjú valdakerfi sem er stjórnmálavaldið, fjölmiðlavaldið og fjármálavaldið. Nú þurfa stjórnmálaflokkar að koma sér upp skýrum línum um hvar þeir standa í þeirri baráttu sem í hönd fer.

Ásgeir Beinteinsson

*Every state is a community of some kind, and every community is established with a view to some good; for mankind always act in order to obtain that which they think good. But, if all communities aim at some good, the state or political community, which is the highest of all, and which embraces all the rest, aims a good in a greater degree than any other, and at the highest good. (Upphaf Politica – eftir Aristoteles.)

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.2.2016 - 12:42 - 1 ummæli

Íslandsklukkan

„Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á Þingvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hringt til dóma og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi leingur aldur hennar með sannindum. En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari.“ (Íslandsklukkan, þriðja útgáfa 1969, eftir Halldór Laxness.)

Getum við með stolti sagt að klukkan sú arna, lýðræðisklukkan, hljómi enn í vitund okkar? Höfum við ekki brotið allar okkar klukkur? Hvað bendir til að hér í Norður Atlantshafinu búi þjóð sem á sér sögu um lýðvald, annað en frásagnir leiðsögumanna í rútum. Þjóð sem átti klukku sem glumdi þessu lýðvaldi með hreinum tóni.

Hinn hreini tónn réttlætis, lýðræðis og sanngirni verður til staðar á meðan menn hugsa og þroskast og finna til. Á hverjum tíma er það bara spurning um hávaðann í þeim sem telja að þeir nái ekki að graðka til sín nægilegum auðæfum og völdum sem drekkir hinum hreina tóni. Þessi hreini tónn lifir í ungu fólki á hverjum tíma og þá er von. Það bendir margt til að unga fólkið sé að hafna hinum gráðugu og valdasjúku. Unga fólkið er að vísu sjálft að drukkna í hávaða nýrra samfélagsmiðla svo að vonin er veik en hún er þarna. Kannski eru samfélagsmiðlarnir líka að skila einhverjum sannleika um menn og málefni sem kveikir frelsiselda í brjóstum innan um glauminn og sjálfsdýrkunina.

Klukkan glymur okkur í samtímanum, vekur og hvetur til dáða þá sem unna hinum hreina tóni.  „Gamlir stjórnmálaflokkar“ sjá ekki hvað er að gerast, þeir átta sig ekki á hlutverkum sínum og lesa ekki í atburðarásina. Klukkan glymur nú endurbættu lýðræði. Ef ég man rétt þá taldi Karl Marx að kapítalisminn myndi þróast yfir í alræði öreiganna. Karl Marx átti kannski við alræði almennings. Vitneskjan sem almenningur býr yfir sýnir spillingu og illt innræti hinna gráðugu.  Almenningur vill ekki láta valdasýki þeirra stjórna hamingju sinni. Almenningur vill hafa vald á örlögum sínum.

Stjórnmálastarf er mikilvægur hornsteinn góðs samfélags en því miður hefur „gömlu“ stjórnmálaflokkunum ekki tekist að fylgja samfélagsvitundinni og eru dagaðir uppi eins og nátttröll í sólskini morgundagsins. Piratar skynja hvað er að gerast og enduróma greinilega það sem stór hluti almennings er að hugsa ef marka má ítrekað ótrúlegt fylgi þeirra í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Nú er lýðræðislegt formleysi þeirra að gera þeim óleik.

Ég starfaði lengi í einum ágætum stjórnmálaflokki og tilheyri honum enn, greiði árgjald og í styrktarsjóð hans. Þessi flokkur var grasrótartengdur en missti tenginguna vegna þess að valdaöfl innan flokksins vildu halda prófkjörum sem leið til að velja fulltrúa sína, þrátt fyrir tillögur í umbótahreyfingu hans. Prófkjörsaðferðin er í eðli sínu þannig að áhugasamir einstaklingar sem hafa sjálfir trú á því að þeir séu vel hæfir, reyna að telja flokksfélögunum trú um ágæti sitt (sem er gott!) en það eru vinir og vandamenn sem ganga tímabundið í flokkinn sem skipta sköpum um hverjir ná markmiðum sínum. Þetta gerir það að verkum að fulltrúarnir hafa ekki þörf fyrir lifandi grasrót hugsandi flokksfélaga. Smátt og smátt finna áhugasamir flokksmenn í grasrótinni að þeirra er ekki þörf nema til að sinna verkum, sjálfboðaliðaverkum. Einkenni á pólitískri flokkshegðun þeirra, sem ná að verða launaðir fulltrúar flokksins á opinberum vettvangi, er að þeir mæta ekki á fundi sem staðfestir tilfinningu almennra flokksmannanna um að ekki sé þörf fyrir umræðu um þjóðfélagsmál. Það er einnig sterkt einkenni á hegðun fulltrúanna að þeir hafa ekki áhuga á skoðunum almennra flokksmanna enda telja þeir sig ekki þurfa á þeim að halda til að ná markmiðum sínum í pólitík. Markmiðum sínum í pólitík!  (Það eru sem betur fer heiðarlegar undantekningar frá þessu.) Eftir ákveðin tíma þá kyrkist flokksstarfið og flokkurinn tapar fylgi sínu.

Tenging við almenning er nauðsynleg hverjum stjórnmálaflokki eða -manni og það verður að þróa leiðir til að finna hæfasta og besta fólkið til að sinna erindi þeirrar hugmyndafræði sem sameinast hefur verið um í stjórnmálaflokki. Ef stjórnmálaflokkur er ekki í raunverulegum tengslum við almenning er hann einskis virði. Gamla aðferðin þegar stillt var upp á lista í reykfylltum bakherbergjum gengur ekki og heldur ekki prófkjörsleiðin eins og hún hefur þróast. Mikilvægt er að tryggja hlustun á kjörum almennings og hugmyndum hans um lífið, tilveruna og hamingjuna. Kannski býður ný tækni upp á að þetta sé hægt. Hvaða flokkur nýtir sér slíkar aðferðir?

Klukkan glymur og tónninn er lýðræði, gagnsæi, réttlæti og heiðarleiki. Það er lýðræðishreyfing í landinu og eitt af börnum hennar er undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar vegna þess að heilbrigðismál á Íslandi eru í ólestri. Fyrir nokkrum misserum breyttu almannamótmæli um tíma atburðarrás í kringum Evrópusambandsmálið. Í þessum málum og mörgum öðrum er alþýðan að krefjast aðkomu. Sumir segja daprir að ekkert hafi gerst þegar hrunadansinn hætti. Jú það gerðist eitthvað, því að kirkja hins gamla tíma sökk ofan í jörðina. Almenningur mun ekki sætta sig við stjórnun sjálfselskandi eiginhagsmunaseggja sem taka bæði fé og sæld til einkaeignar. Ekki er gott ef skipting gæða verður svipuð og var fyrir frönsku byltinguna – við vitum hvernig það fór. 10% Íslendinga eiga 75% af auðnum. Nú eiga 1% jarðarbúa 99% af auð jarðarinnar. Bernie Sanders forsetaframbjóðandi berst nú fyrir millistéttina í Bandaríkjunum sem er horfin. Þetta er ástand í heiminum sem ekki verður við unað. Allir búa við upplýsingar um ástandið sem kveikja munu bál og klukkan glymur.

Samfélags- og fjölmiðlar segja okkur sögur eins og þær berast af vörum fólks hráar og stundum ógnvænlegar. Oft ósannar og fram settar af illu eða fávísu innræti en líka oft sannar og heiðarlegar sem mikilvægt er að heyra af. Það er stórhættulegt að fjölmiðlar skuli ekki standa sig betur í umfjöllun með heiðarlegum rannsóknum á því sem er að gerast. Sterkustu fjölmiðlarnir bjóða of oft upp á míkrófónrannsóknir. Rannsóknin er þá þannig að einn fær að fullyrða eitthvað í míkrófón og síðan er annar fenginn til að bregðast við samtímis eða síðar. Enginn hlutlaus rannsókn fer fram engin blaðamennska. Blaðamenn hafa gleymt siðareglum sínum og þá sérstaklega reglu númer 3. (Heiðarlegum undantekningum fjölgar sem betur fer!)

Formlegir fjölmiðlar magna því miður oft seiði hasars og óánægju í stað þess að vinna vel úr gögnum og rannsaka þau mörgu mál sem vakin er athygli á. Þeirra er að þjónusta almenning með tilgátum um sannleikann í hverju máli og greinandi spurningum til þeirra sem bera ábyrgð. Fjölmiðlarnir eru undirseldir því að lifa af, hafa kannski ekki áhuga og sennilega ekki getu til að vinna vel, því að peningarnir stjórna.

Íslandsklukkan glymur og þar heyrum við tón lýðræðis, gagnsæis og heiðarleika. Það er greinilegt að almenningur hlustar og heyrir og er að bregðast við. Það er von og kannski eigum við enn okkar Íslandsklukku.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 13.2.2016 - 18:11 - Rita ummæli

Við lifum á undarlegum tímum

„Þetta voru beztu tímar og hinir verstu, öld vizku og öld heimsku, trúarskeið og skeið vantrúar, árstíð ljóss og árstíð myrkurs, vordagar vonarinnar og vetur örvæntingarinnar. Við áttum allt í vændum, við áttum ekkert í vændum, við vorum öll á hraðri leið til himna, við vorum öll að fara beint til helvitis, í stuttu máli sagt, tímarnir þá voru svo líkir því, sem þeir eru nú, að sumir þeirra er mest höfðu sig í frammi, kröfðust þess, að allt væri til góðs eða ills, látið heita annaðhvort í ökkla eða eyra.“ (Lesbók Morgunblaðsins 10. mars 1970. Þýðing Jónasar Haralz á upphafi Sögu tveggja borga eftir Charles Dickens.)

Við lifum á undarlegum tímum, þar sem litlar örður, lítil orð, viðburðir í daglegum athöfnum manna velta samfélagi okkar á hliðina í orðræðu. Menn rjúka upp til handa og fóta, dæma og „fordæma“ í bókstaflegri merkingu út frá einni örðu, einu orði einni athöfn sem sagt er frá í fjölmiðli. Stórir og smáir stökkva upp á nef sér og fella dóma með gífuryrðum svo að sá sem fyrir verður, sá sem virtist hafa fallið um örðuna, sem virtist hafa sagt orðið, gert eitthvað á þann hátt sem greint var frá verður að eilífu ómerkingur og aumur maður.

Dómur felldur og ekki aftur tekinn. Oft er það dómur felldur á fjallinu svo allir heyri en leiðréttingin er gerð í dalnum, jafnvel í kjarri, svo fáir heyra. (Ef leiðrétt er!)  Þeir sem heyrðu dóminn á fjallinu verða áfram engu nær og í þeirra augum verður ómerkingurinn hvort sem það er nú stofnun eða einstaklingur að eilífu svo í huga þeirra.

Það er áhættusamt að lifa og starfa í þess samfélagi þar sem allir geta orðið að skotspæni bæði háir sem lágir, fyrirmenn og alþýðumenn, fólk og fyrirtæki. Allir geta breytt sér á augabragði í dómara, refsivald og útdeilt refsingu með einni handarhreyfingu á lyklaborði. Þetta er ekki samfélag samræmis og samhljóms.

Nýlega hlýddi ég á afar áhugverðan fyrirlestur um samhengi tónlistar og speki Konfúsíusar. Konfúsíus var þeirrar skoðunar að halda ætti samfélagi manna saman með siðum og hefðum frekar en lögum og reglum. Þannig yrði það á ábyrgð hvers og eins að samfélagið héldist saman – yrði samhljóma. Samhljómur samfélagsins væri undir því kominn að hver og einn stæði sig í því að leika á sitt hljóðfæri hina sameiginlegu hljómkviðu og þá er pákan jafn mikilvæg og fiðlan sem leiðir, trompetinn jafn mikilvægur og þríhornið. (Hér verð ég að taka fram að þetta er útlegging mín.)

Margir sem velt hafa fyrir sér íslensku samfélagi tala um að það sé agalaust. Sumir segja að siðleysi sé inngróinn hluti af  því og benda á að hrunadansinn og hrunið séu skýr dæmi um hversu siðleysið var almennt, viðtekið og sjálfsagt. Á hinn bóginn er íslensk samfélagsvitund mjög skynsöm og framfarasinnuð. Mörg dæmi eru um að íslensk vitund og hugsun sé fremri hvað varðar ýmiss samfélagsleg réttindi og skilning á hlutskipt einstaklinga og hópa. Hér er best að vera ekki að taka dæmi.

Það virðist vanta samhljóm og undirliggjandi sið sem stýri gerðum okkar en það virðist einnig vera svo að þegar þarf að taka höndum saman, þá er það hægt. Siðurinn á að vera æðri en lögin því að siðlega þurfum við að ákveða að fara eftir lögum. Ef við viðurkennum ekki lögin og reglurnar sem gilda þá er siðurinn rofinn og dauður. Lög eru ekkert annað en skráning á augljósum siðum sem við teljum svo vera. Lög geta verið flókin og óskiljanleg og um skilning á þeim takast saksóknarar og verjendur á fyrir framan dómara sem eiga að hafa yfirsýn og reynslu til að skera úr hvað rétt er. Lögin eru skráðar leikreglur sem við höfum ákveðið að hafa til að hjálpa okkur við að tryggja samhljóminn en hann er siðurinn.

Mennirnir eru ófullkomnir, því að þeir eru aðeins dýr sem hafa lært að hugsa og fengið meðvitund um sjálfa sig. Menn þurfa því nauðsynlega að koma sér upp siðum, siðvenjum, lögum og reglum til að hjálpa sér, svo að ekki skapist ófriður sem hreinlega getur endað í dauða þeirra eða samfélagsins. Vegna ófullkomleika síns þá verður maðurinn að vera í stöðugri samræðu, með samferðamönnum sínum, með börnum sínum heima í stofunni, í dægurumræðu fjölmiðlanna og á þeim vettvöngum sem stofnaðir hafa verið til að ráða fyrir ríki og sveitarfélögum í lýðræðissamfélagi. Það er í samræðunni sem við styrkjum siðinn sem í raun liggur öllu samfélaginu til grundvallar.

Siðurinn, í okkur hverju og einu er grundvöllurinn og þar hefur Konfúsíus rétt fyrir sér. Kenning Konfúsíusar er eina heimspekikenningin sem hefur haldið saman ríki í yfir 2000 ár og því hlýtur eitthvað að vera í henni sem við getum lært af. Nú er Konfúsíus þriðja stoðin undir kínverska veldinu sem brátt verður voldugasta ríki jarðar en hinar tvær eru kapítalisminn og kenningar Marx og Lenín. (Eins undarlega blanda og þetta er!)

Ef til vill verður það ætíð svo á hverjum tíma mannsandans að mannskepnan þurfi að búa við ótrúlegar andstæður þar sem vit og vitleysa keppa, því að andinn og náttúran í manninum verði ætíð í stöðugri baráttu. Dýrið sem við erum, vill ná völdum yfir andanum og skynseminni. Margir eru fórnarlömb líkama síns (dýrsins) hvort sem það eru fýsnir af einhverjum toga, ánetjun einhvers eða hreinlega græðgi. Samfélagið myndi hins vegar ekki virka nema af því að lang flestir hafa stjórn á dýrinu eða þó að þeir missi einstöku sinnum stjórn á því þá ná þeir flestir völdum á endanum. Siðurinn liggur undir í hinu hugsandi dýri og siðurinn verður til með samræðu því að í samræðunni gerum við tilraunir með ranglæti og réttlæti. Það eru því hættumerki ef kynslóðirnar eru hættar að ræða saman, því að hinir öldnu hafa oft náð góðu viti í tilveruna sem þeir geta miðlað. Það eru líka hættumerki ef menn fullyrða og dæma út frá óathuguðum upplýsingum sem hent er á loft í fjölmiðlum. Slíkar upplýsingar sem menn henda á lofti, haga sér stundum eins og bjúgverplar og lenda í kolli þeirra sem bregðast við.

Um þroska mannsins og baráttu mannsandans segir Konfúsíus:

„Þrennt er það sem hefðarmenn verða að varast. Í æsku þegar ókyrrð er í blóði og vessum, þá verða þeir að vara sig á kynþokka kvenna, þegar þeim hefur vaxið ásmegin og blóð og vessar fyllast þrótti og festu, þá verða þeir að varast baráttumóð, og á gamalsaldri er blóð og vessum hefur hnignað verða þeir að vara sig á ágirnd.“ (Speki Konfúsíusar í þýðingu Ragnars Baldurssonar. Iðunn 1989. bls. 211, kafli XVI -7 )

Ýmsir ráðamenn, bæði formlegir og óformlegir, mættu hugleiða og láta sér að kenningu verða eftirfarandi speki Konfúsíusar:

„Hefðarmaður veltir fyrir sér níu atriðum. Hann veltir fyrir sér hvort honum sé ljóst það sem hann sér, hvort hann heyri rétt það sem honum berst til eyrna, hvort svipur hans sé hlýlegur, hvort hann sé tignarlegur í fasi, hvort hann sé vandur að virðingu sinni í starfi, hvernig hann geti leitað sér upplýsinga ef hann er í vafa, hvort að það leiði ekki til vandræða ef hann reiðist, og hver siðferðisskyla hans sé þegar hann eygir eitthvað sem hann getur öðlast.“ (Speki Konfúsíusar í þýðingu Ragnars Baldurssonar. Iðunn 1989. bls. 211, kafli XVI -10 )

Við lifum á undarlegum tímum þar sem hættur eru við hvert fótmál ef speki er hunsuð.

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.12.2014 - 16:11 - 1 ummæli

HRINGLSDROTTINSSAGA HRÍMLANDS.

Í Hrímlandi eru tvö héruð og er annað Mondor og þar eru hinir megandi vel en hitt er Aldor þar sem hinir lítt megandi dvelja. Mondorar ráða yfir Aldorum bæði vegna mikilla fjársjóða og svo hins að þeir hafa ævinlega tögl og hagldir í flestu sem þeir vilja. Munnmæli herma að eitt sinn hafi Aldorar ríkt yfir Hrímlandi. Þykir það óáreiðanleg sögn en í henni felst að dag einn muni þeir aftur ríkja yfir Hrímlandi.

Mondorar slæva Aldora með gjöfum og ala á bældum hvötum þeirra til alsnægta. Mondorar koma því svo fyrir að Aldorar hyggi aðeins að kroppum sínum og hverjum þeim nautnum er láti þá gleyma viti sínu.

Margan seiðinn hefur Sagomand hinn hvíti magnað Aldorum svo þeir gleymi viti sínu og hefur hann seiðmann með sér einn mikinn og vel tengdan, og jafnvel betur tengdan, Mondorum en Sagomand hinn hvíti er. Þykir það mikið undur meðal Mondora hvað Sagomand hinn hvíti hefur mikið vald yfir Beromand skáldaða en svo heitir seiðmaðurinn.

Síðasti stóri seiður Sagomands var að gera Aldorum þá trú að þeir ættu meira í bústöðum sínum. Mögnuðu þá Aldorar Sagomand hinn hvíta svo mikið með vilja sínum að jafnvel Beromand hinn skáldaði varð að lúta í duft og sverja Sagomand og Mondor hollustu sína og sinna bláu hersveita. Getur hver maður ímyndað sér skjaldarmerki þeirra en hér verður ekki getið um það svo frásögnin klénist ekki.

Sá er þó munur á eiginlegum völdum Sagomands hins hvíta og Beromands hins skáldaða að hinn fyrrnefndi á illa búnar sveitir úr iðrum jarðar en hinn síðanefndi betur búnar af landi og sjó. Er því með þeim mikill ójöfnuður og er óvíst að þungvopnaðir menn Beromands hins skáldaða séu búnir til að þola lengi miskunnarlaust, flárátt og lítt grundað ofríki Sagomands hins hvíta.

Þá þykir mikið undur á hvern hátt Sagomand hinn hvíti magnar seið sinn því að hann hefur þann vana að stökkva inn á alvöllinn og slá fram romsunni svo að mikið bál verður en hverfur jafnskjótt til tjalda sinna eða búða. Notar Sagomand auga eitt mikið logandi sem horfir um Hrímland og hvarflar það um héruðin, finna menn mikið fyrir því og setur að þeim kjánahroll. Geta menn sig hvergi hrært fyrir ónotatilfinningu á meðan glyrnan er á þeim.

Nú magnar Sagomand hinn hvíti enn mikinn seið. Hyggst hann nú ganga milli bols og höfuðs á öllu því er byggt hafði verið á hinum fornu túnum sem var heilsa, menntun og frelsi. Þá ríkti ögn meiri jöfnuður milli Mondora og Aldora og höfðu hinir síðarnefndu nokkra möguleika til þess að komast til nokkurs frama meðal Mondora. Hitt var einnig að fjársjóðir Mondora voru minni að vöxtum og var því hlutdeild Aldora í Hrímlandi meiri.

Einn af forverum Sagomands hins hvíta var Dagomand hinn hárprúði, einn mikill seiðkarl sem ríkti meðal Mondora og yfir Hrímlandi öllu um áratugi. Vald hans var af allt öðrum toga en Sagomands hins hvíta því að það var af orðkynngi og bölyrðum gert og notaði hann mikið smér. Það var í seið hans er skil urðu gleggri milli Mondora og Aldora. Reyndar fór það svo að Mondorar urðu svo gjálífir af völdum sínum og fjárráðum að þeir átu á sig skít. Féll þá hver um annan þveran svo að Mondorar misstu áhrif sín og völd um tíma. Er sagt að Dagomand hinn hárprúði standi á bakvið Beromand hinn skáldaða og eru það undur og stórmerki því að ekki var hin fyrri vegferð Dagomands hins hárprúða til sóma. Enginn má þó við mögnuðum göldrum í Hrímlandi fremur en öðrum ríkjum í hinum ímyndaða heimi þessarar sögu.

Föruneyti heilsu, mennta og frelsis kom saman nýlega og úthrópaði seiðinn. Vildi föruneytið með samkomu sinni magna upp hvað rangt væri í seiðnum. Ekki mögnuðu þeir gegn öllum seiðnum því að hvorki höfðu þeir afl til þess né vit og þor til að magna gegn öllum Mondorum og því er Sagomand hinn hvíti stendur fyrir. Hvarf svo mögnun þeirra máttleysislega í muldri Hrímverja en svo nefnast þeir er í þvísa landi búa. Föruneyti heilsu, mennta og frelsis tekst ekki að magna upp viljann til að Hrímverjar sameini sín héruð og taki upp einn sið er öllum mætti vel líka þar sem heilsa, menntun og frelsi væri öllum ætlað. Nokkrir Aldorar eiga sér von í brjósti og sumir trúa flökkusögu.

Gengur sú saga meðal Aldora að dag nokkurn muni vitkinn Alsgáður koma í hreysi eitt í dalnum Bag þar sem Frjánn hinn litli býr. Er sagt að Frjánn hinn litli búi yfir töfrasteini og beri í vasa sínum. Steinn þessi hafi þá náttúru, að sé honum kastað í eldgíg verði af svo mikið ljós að nánast allir Aldorar og nokkuð af Mondorum sjái það – sjái ljósið. Helst þó þeir Mondorar er koma af landi og sjó en síst þeir er úr iðrum jarðar koma.

Þetta er því miður saga sem ekki er trúandi á, því að enginn veit hvar Bagdalur er eða hver þessi Frjánn hinn litli er. Fáir eru lifandi meðal Aldora sem hafa séð vitkann Alsgáðan hinn gráa en hver veit. Mega menn vona?

Menn geta aðeins vonað.

Ásgeir Beinteinsson

 

 

Flokkar: Dægurmál · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 2.12.2014 - 22:34 - Rita ummæli

HUGLEIÐING UM HUGLEIÐINGAR UM GAGNRÝNA HUGSUN

Hugleiðing í upphafi málþings í Hannesarholti um bókina „Hugleiðingar um gagnrýna hugsun“ eftir þá Henry Alexander Henrysson og Pál Skúlason.

2. desember 2014

 

Ágætu gestir, ágætu höfundar

Mér er mikill heiður sýndur með því að vera beðinn um að ávarpa fundinn og takk fyrir það.

Ég varð undrandi þegar Henry fór þess á leit við mig að ég segði hér nokkur orð í tilefni af útgáfu þessarar bókar, því að hvað veit ég „fræðilega“ um gagnrýna hugsun – auðvitað ekki neitt. Kannski er það mikilvægt vegna þess að bókin á erindi við alla. Ég vil taka fram í upphafi að ég er fyrst og fremst leikmaður – ég er skólastjóri í grunnskóla.

Hvers vegna vilja höfundar að við séum gagnrýnin og að við stundum gagnrýna hugsun?

Það er sjálfsagt vegna þess að það eru meiri líkur en minni á því að mannsandinn, samfélag manna, læri og þroskist með gagnrýninni hugsun þannig að heimur okkar verði betri. Við náum betri tökum á náttúrunni sem nærir okkur, betri tökum á tækninni til að auðvelda okkur lífið og betri tökum á hugsunum okkar og ígrundunum um hvort tveggja og síðast en ekki síst betri tökum á okkur sjálfum.

Mikilvægi gagnrýninnar hugsunar virðist vera nokkuð sjálfgefin. Ef þessi sannindi væru að renna upp fyrir okkur í kvöld myndum við hlaupa út í nóttina hrópandi af ánægju yfir því að hafa fundið sannleikann. Gagnrýnin hugsun er ekki ný sannindi en fyrir þau sannindi skiptir máli að fá í hendurnar bók sem veldur því verkefni vel að gera okkur að gagnrýnni hugsuðum. Bókin er mikilvæg vegna þess að íslenskan verður að eiga marga og vel skrifaða texta um gagnrýna hugsun til þess að rækta tungutakið. Bókin er mikilvæg varða á þeirri vegferð sem hin menntaða vitund okkar er á.

Fyrir mér hefur gagnrýnin hugsun fjórar hliðar. Í fyrsta lagi finnst mér gagnrýnin hugsun vera aðferð hugans, tegund af hugartækni eða hugarleikni. Í öðru lagi finnst mér hún vera afstaða. Í þriðja lagi tel ég að gagnrýnin hugsun geti verið menningarfyrirbrigði. Í fjórða lagi virðist gagnrýnin hugsun snúast um spurningar.

Ég leyfi mér að halda því fram að ólík tungumál feli í sér mismunandi tæki til gagnrýninnar hugsunar. Ólík tungumál og þá ólík menning tekur mannheima ólíkum tökum og þá getum við spurt okkur hvort íslenskan dugi til gagnrýninnar hugsunar. „Hugleiðing um gagnrýna hugsun“ er vel skrifaður, skýr og skiljanlegur texti sem rennur um hugann sem tær lækur. Vitundin er farvegurinn sem textinn rennur um, rífur úr bökkunum og þyrlast um stiklur.

Erindi bókarinnar er að bæta menntun og það mun hún gera. Bókin gerir það sama fyrir gagnrýna hugsun og ritgerð Þórbergs Þórðarsonar „Einum kennt, öðrum bent“ gerði fyrir íslenskan stíl. Þórbergur tók Hornstrendingabók og rakti sig í gegnum textann, skilgreindi og gaf tilteknum stílvillum heiti, þannig að menn gætu skrifað betri, skiljanlegri og skýrari íslenska texta.

Lestur  „Hugleiðinga um gagnrýna hugsun“ vekur upp hugrenningatengsl við þá orðræðu sem fram fer í samfélaginu í dag. Stundum er svo að erfitt er að halda athygli við lesturinn. Ég held þess vegna að ekki sé endilega mikilvægt til að njóta bókarinnar að lesa hana frá upphafi til enda í einu lagi því að flestir kaflar standa sjálfstæðir sem útleggingar á tilteknum innihaldsríkum hugleiðingum. Það er jafnvel svo að hægt er að klippa textann í sundur í margar fullyrðingar sem standa fullkomlega sjálfstæðar sem athugsemdir um hugsunina, venjur hennar, íhaldssemi, fordóma og rökvillur. Hugsun sem er í leit að sannleika bæði um innri sem ytri veruleika okkar.

Nú þegar ætti bókin að vera gagnleg fyrir blaðamenn og stjórnmálamenn, einnig fræðimenn sem hyggjast móta texta fyrir ungt fólk í grunnskólum og framhaldsskólum til að þjálfa gagnrýna hugsun. Reyndar hlýtur hún að ganga sem texti fyrir nemendur í framhaldsskólum. Þá er ég þeirrar skoðunar að allir kennarar, hvaða aldri sem þeir sinna í starfi sínu ættu að lesa og hugleiða með bókinni því að gagnrýnin hugsun á erindi við alla sem nema. Almenningur sem hefur ánægju af því að hugleiða lífið og tilveruna getur sótt efnivið í bókina sem er uppfull af tærri hugsun um flest það er sækir á hugsandi gagnrýna menn.

 

Hvert er verkefnið sem fyrir okkur liggur og hvers vegna er brýnt að gera gagnrýnni hugsun hærra undir höfði? Það er sem betur fer á dagskrá í menntun barna og ungmenna á Íslandi og um allan hinn vestræna heim. Ný aðalnámskrá snýst um að við eigum að hjálpa börnunum til að verða hæfir einstaklingar. Við eigum að leggja þekkingu og leikni til grundvallar hæfni nemendanna. Þegar aðalnámskrá grunnskóla er lesin sést að yfirheiti þorra hæfniviðmiða er gagnrýnin hugsun.

 

Menning vesturlanda er orðin meðvituð um mikilvægi þess að leggja áherslu á hæfni í stað þess að leggja áherslu á tiltekna þekkingu. Gæði hugsunarinnar um veröldina er komin í staðinn fyrir magn staðreynda. Þannig gerir ný aðalnámskrá kröfu um að við kennum gagnrýna hugsun.

 

Við eigum að færa okkur frá mikilvægi þekkingar yfir í mikilvægi hæfni en er íslenskan fær um að vera gagnrýnin? Er menning okkur fær um að vera gagnrýnin? Hvað segir dægurumræðan ykkur um gagnrýna hugsun?

 

Ég ætla að vitna í tvö skáld. Skáld hugsa djúpt af því að þau lifa í vitund sinni sem oft reynist jafnframt vera vitund þjóðarinnar hjá góðum skáldum.

 

Hallgrímur Helgason minnist á íslenska tungu í skáldsögunni „Konan við þúsund gráður“ sem út kom árið 2011:

 

„Við Íslendingar erum hins vegar eina þjóð heimsins sem tignaði svo mál sitt að hún kaus að nota það sem minnst en varðveita ósnert líkt og helgan og eilífan þjóðarmeydóm. Þess vegna er íslenskan óspjölluð mey á sjötugsaldri…(síðar).. Íslensk þagnahefð er því samofin íslenskri sagnahefð“

(Konan við 1000° bls. 82. Hallgrímur Helgason 2011)

 

Halldór Laxness talaði um vandamál skáldskapar á fundi hjá Stúdentafélagi Reykjavíkur 1954 og þar segir hann á einum stað:

 

„Íslenskur hugsunarháttur hneigist lítt til heimspeki, að minnstakosti er hann fjarri allri heimspekilegri reglu, vér erum eins og þér vitið í fyrsta lagi sagnaþjóð og höllumst að áþreifanlegum hugmyndum; vér semjum dæmisögur úr tilveru okkar. Má einnig vera að of vindasamt sé á Íslandi til þess að mönnum sé  freisting í að setjast niður í makindum og skoða á sér naflann; en það er altaf gaman að góðri sögu, ekki síst þegar stormurinn bylur á þekjunni.“

(Dagur í senn. Vandamál skáldskapar á vorum dögum. 1954)

 

Nú verður það ekki sagt um íslenskuna að hún hafi ekki nýst vel í heimspeki í nokkra áratugi en spurningin sem vakir yfir er þessi; Hvað þarf að beita tungumáli lengi á engjar gagnrýninnar hugsunar og heimspeki svo það fitni? Hin spurningin er hvort að við séum ekki bara fyrst og fremst sagnaþjóð eins og skáldin segja? Það merkilega er að ég get lagt inn svar við síðari spurningunni og svarið tengist einmitt mikilvægi þess að hefja gagnrýna hugsun til vegs í menntakerfinu.

Síðasta vetur höfðu Íslendingar áhyggjur af unglingunum okkar í Pisa. Nú hefur verið rannsakað hverjir séu styrkleikar og veikleikar þeirra í prófinu. Styrkleikar unglinganna okkar í læsi 2009 eru tengdar frásögnum af persónum. Það sem þeim finnst erfitt eru textar með lýsingum þar sem starf eða samfélag er samhengið.

Í frásögn af örlögum einstaklinga fylgjum við söguþræði og spyrjum einskis nema um örlög sögupersónanna en annað gildir um upplýsandi og fræðandi texta. Þeir eiga að vekja okkur löngun til að vita meira og spyrja hvers vegna. Þannig eru slíkir textar fremur uppspretta gagnrýninnar hugsunar því að þeir eru í langflestum tilfellum að setja „manninn“ á svið. Þannig eru vísindatextar að segja okkur eitthvað um eðli náttúrunnar sem við mennirnir erum í og sagnfræðitextar setja okkur mennina í sögulegt samhengi í mannkynssögunni.

 

Það eru óplægðir akrar fyrir fræðilega og lýsandi texta sem gefa tilefni til gagnrýninnar hugsunar. Við erum stödd á tímamótum og nú verður að gera eitthvað. „Hugleiðingar um gagnrýna hugsun“ kemur út á réttum tíma.

Bókina þyrfti að gefa út á góðum pappír og innbundna með gylltum stöfum og leðurkjöl, þannig að hún gæti staðið falleg og áberandi í hillu og legið opin á hvaða opnu sem væri á borði til ígrundunar þeim er nytu hennar. Hún mætti jafnframt vera með góðum spássíum, þannig að skrifa mætti snyrtilegar athugasemdir með blýanti því að textinn kippir stöðugt í vitundarspotta og lætur hugann spinna nýjar hugmyndir og vekur spurningar sem skipta máli.

 

Það er eitt „að“ í þessari bók sem á ekki að vera og það er á bls. 47 og það er það eina sem ég finn að þessari bók.

 

Það er sem sagt einu AÐ-I ofaukið

 

Takk fyrir,

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.11.2014 - 20:35 - 1 ummæli

Tvö höfuð eitt hjarta

Tvíhöfði er sá sem er með tvö höfuð. Grín tvíeykið sem kallar sig „tvíhöfða“  eru tveir menn með sama grínið. Grín þeirra er samspil tveggja þar sem annar er stundum eins og talsmaður skynsemi á meðan hinn orðar það sem í hjartanu býr og lætur allt vaða. Þetta er góð aðferð til að sýna fleiri en eina hlið í gamanmálum.

Margskonar samspil m.a. í mönnum hefur þetta tvíeðli. Þannig á hver lifandi maður í stöðugri baráttu við sjálfan sig. Hver maður vill láta reglu og skynsemi ráða lífi sínu en tilfinningarnar og náttúran vilja taka völdin. Menn læra af þessari baráttu á milli andans og efnisins og þannig þroskast velflestir menn eftir því sem líður á ævina. Það er í þessari baráttu meðal annars sem aldnir eru vitrir og geta veitt hinum yngri leiðsögn. Þeir sem ná völdum yfir líkama sínum þeir eru farsælir og líka vegna þess að þeir hafa ekki bara skynsemi og reglu að leiðarljósi heldur hafa tilfinningarnar sem förunaut. Þeir gæta þess að láta tilfinningarnar ekki stjórna sér. Tilfinningarnar taka þátt í innra samtali í hverju því máli sem vinna þarf úr og þannig verða menn farsælir.

Við köllum menn hinna ýmsu starfsgreina fagmenn og við viljum að þeir kunni fag sitt vel. Við segjum að sá sem smíðar fallegan hlut sé góður smiður og það mun ekki hafa áhrif á fegurð hlutarins þó að smiðurinn sé leiðinlegur eða jafnvel siðlaus. Tannlæknir á nokkurn skyldleika við smiðinn því að hann er að hluta til handverksmaður sem vinnur að iðn sinni inn í höfði okkar. Það skiptir ekki máli þó að hann sé leiðinlegur en ef við fréttum að hann væri ofbeldisfullur þá myndum við hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til hans. Það er vegna þess að við gætum átt það á hættu að hann missti stjórn á sér í miðri aðgerð og réðist á okkur.

Læknar eru mikilvæg faggrein. Læknar eiga sér eið Hippokratesar sem er svona í nútímaútgáfu:

Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.

Þessi eiður á uppruna sinn frá því um 460 fyrir Krist og það þykir til marks um góða fagmennsku í dag ef fagstétt hefur komið sér upp slíku viðmiði um breytni. Þetta er siðaregla. Það er einnig til marks um þroska samfélags ef það heldur sínar siðareglur. Menn sletta stundum og kalla þetta „prinsipp“ sem er mikilvægt að hafa. Maður með gott siðvit segir ekki eitt í dag og annað á morgun nema að mjög góð rök liggi því til grundvallar.

Fagmennska lækna felst í því að þeir fylgi þessum fyrirmælum, þessari siðareglu, um hegðun sína og gjörðir. Læknir má ekki láta skoðun sína á lyndiseinkunn manns ráða því hvort að hann læknar hann.  Læknir þarf að gera meira en þetta. Læknirinn má ekki láta andlát eins sjúklings fá á sig persónulega því að slíkur læknir yrði ekki lengi starfhæfur. Læknirinn hefur skyldur við aðra dauðvona sjúklinga. Læknirinn verður að láta skynsemina ráða í þessu en verður ekki lengi læknir ef hann hefur ekki tilfinningarnar að förunaut. Fagmaðurinn, læknirinn lærir að hlusta á tilfinningar sínar án þess að láta þær bera sig ofurliði í starfi.

Svipaða hluti er hægt að segja um aðrar fagstéttir. Kennari sem tekur aðdróttanir eins nemanda persónulega og tekst á við hann í reiði er ekki starfi sínu vaxinn. Kennari sem lætur hóp nemenda gjalda fyrir gjörðir eins þeirra er ekki góður kennari. Í þessu má hann ekki láta tilfinningarnar ráða. Skynsemi og þekking ættu til dæmis að segja honum að barnið sem kemur illa fram getur búið við aðstæður sem hafa hindrað þroska þess og siðvit eða það býr við líkamlegar hamlanir sem stýra gjörðum þess. Kennari þarf að gæta þess að beita aga og reglu á sinn hóp en sá sem gerir það eingöngu verður strangur og vondur kennari en sá sem gerir það með tilfinningar sínar sem fylginaut hann verður farsæll. Börn átta sig fljótlega á þessu og tala um að bestu kennararnir séu strangir en góðir.

Þannig verður ekki annað sagt en að fagmaðurinn þurfi að láta sér vaxa tvö höfuð á líkama með eitt hjarta. Við treystum fagmanninum hvort sem hann er læknir eða kennari á meðan hann talar sem læknir eða kennari. Um leið og læknir fer að ræða við aðstandendur sjúklings á þeim nótum að hann sé nú svo þreyttur eða sjúklingurinn hafi verið svekkjandi eða leiðinlegur og því gangi illa með hann, vekur það ótta hjá aðstandendum. Ef kennarinn segir að barn fari í taugarnar á sér vekur það ótta hjá foreldrunum sem hætta að treysta kennaranum.

Embættismaður má ekki draga eigin persónu inn í svör við eðlilegum spurningum fréttamanns. Fréttamaðurinn, fagmaðurinn gegnir skyldum sínum sem fréttamaður og spyr þeirra spurninga sem honum finnst mikilvægt að fá svör við fyrir almenning, sem hann þjónar. Embættismaður og það hátt settur lögreglumaður á ekki að gera fréttamanninum upp að hann sé persónulega að níðast á sér. Embættismaður sannar ekki ágæti sitt í viðtali með vísun í flekklausan feril – hann getur aðeins hughreyst sjálfan sig með því. Lögreglustjóri á alls ekki að verja sig spurningum í réttarríki sem hann hefur tekið að sér að varðveita í starfi sínu. Í réttarríkinu, í lýðræðisríkinu eru spurningarnar vopn og verjur réttlætis og sannleika.

Það er ekki af ástæðulausu að gyðja réttlætis er með bundið fyrir augun því að ekki má hún berja ásjónu hins sakfellda augum því að þá gætu tilfinningarnar haft áhrif á niðurstöðu hennar. Hún hlustar á rök með og á móti og kveður upp dóm sinn.

Getur lögreglustjóri sem sækir rök í hjarta sitt stjórnað lögregluliði. Lögreglumenn verða að gæta þess öðrum fremur að láta tilfinningarnar ekki ráða. Lögregluliðið sem stóð vaktina í hruninu lét tilfinningarnar ekki ráða gerðum sínum. Við værum í vondum málum ef lögreglumenn tækju atlögur mótmælenda persónulega. Gerðu þeir það þá myndi reiðin taka völdin og reiður maður gerir mistök.

Embættismaðurinn, fagmaðurinn getur gert þau mistök að láta tilfinningarnar bera sig ofurliði. Venjulegir breyskir menn eiga auðvelt með að fyrirgefa slíkt því að hver og einn þekkir baráttuna úr eigin kroppi. Það er því miður þannig að embættismaðurinn, fagmaðurinn verður fyrst að átta sig á mistökum sínum því að einungis undir þeim kringumstæðum er hægt að fyrirgefa – þegar menn skilja að þeir hafi gert mistök.

Þegnarnir vilja að þeir sem eru settir yfir þá séu fagmenn og sem slíkir verða þeir því miður að láta sér vaxa tvö höfuð því að hlutverkin eru tvö. Annars vegar er maðurinn, faðirinn, móðirin og hins vegar er embættismaðurinn. Við teljum mikilvægt að þessum tveimur höfðum stjórni eitt gott hjarta.

Ef höfuðin tvö á embættismanninum eða stjórnmálamanninum rugla saman reitum sínum þá verða þegnarnir áhyggjufullir.

Ásgeir Beinteinsson

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.11.2014 - 19:18 - 7 ummæli

Mótmæla – dólgshætti?

Það er komin upp einkennileg staða í þessu landi. Fólk safnast saman á Austurvelli – þessum forna grasnytjareit og andans miðju til að mótmæla dólgshætti stjórnvalda. Ég minnist þess ekki áður að slíkt hafi verið í brennipunkti mótmæla. Dólg merkir orrusta og sá sem er dólgslegur er fruntalegur og uppivöðslusamur og slíkur maður er óvinveittur. Það er því mat mótmælenda að stjórnvöld séu óvinveitt þjóðinni. Miðað við það sem á gengur í stjórnun landsins og miðað við hegðun og framkomu þeirra einstaklinga sem mynda stjórnvaldið sýnist mér einmitt að hegðunin sé dólgsleg. Ég þarf ekki að tíunda dæmin, því þau eru hverjum manni augljós. Það er sem sagt verið að mótmæla stöðunni og það er eins og þeir sem ráða fyrir þessu landi kunni ekki mannganginn.

Ef við líkjum stjórnun landsins við skák og svo virðist að stjórnendurnir séu ekki klárir á mannganginum, hvað er þá til bragðs? Við þekkjum úr mannkynssögunni, að hinum og þessum stjórnmálamönnum og stundum rithöfundum hafi tekist að kenna hinn stjórnmálalega manngang og heimurinn orðið svolítið betri á eftir. Í dag finnst manni ýmislegt undarlegt sem fyrri tíma ráðamenn töldu rétt og höfðu að viðmiðum fyrir breytni sinni. Í barnaskap segir maður stundum að menn hafi verið svo vitlausir í gamla daga en vitum að hið siðaða samfélag var bara ekki komið lengra.

Mikið vildi ég að við ættum stjórnmálamann eða rithöfund sem næði inn að hjartarótum Íslendinga með þekkingu sem sýndi vanvisku stjórnvalda í þessu landi. Því að það er ótrúlega merkilegt hvað ráðherrann, svo eitt dæmi sé tekið út fyrir sviga, sem hefur brotið flest það  sem telst siðleg breytni og góð stjórnsýsla skuli eiga svo mikið fylgi meðal þjóðarinnar. Já, það er merkilegt hvað ráðherra innanríkismála nýtur mikils stuðnings í þessu landi en merkilegast þó að hann skuli njóta óskoraðs stuðnings stærsta stjórnmálaflokksins. Dapurleg staðreynd um íslensk stjórnmál og dapurleg staða.

Hvers vegna er þetta svona? Fjölmiðillinn sem fletti ofna af lögbrotinu á heiður skilinn fyrir og nú aðrir sem sýna dag hvern hvað íslensk stjórnsýsla er frumstæð og stutt á veg komin. Fjölmiðlar virðast máttlausir í hlutverkum sínum – það sýnir hið mikla fylgi við ráðherrann. Almannasjónvarpið, sem er áhrifaríkast, hefur ekki myndugleik til að greina atburðarrásina í sundur og sýna óhæfuna svo að alþýða manna átti sig á vanvirðunni og dólgshættinum. Almannaútvarpið reynir og gerir margt gott en almannasjónvarpið stundar míkrófónblaðamennsku. Fyrst er míkrófónn rekinn upp í einn og svo líður dagur og míkrófónninn er rekinn upp í annan – og líka afbrotamanninn. (Á miðöldum var mönnum refsað á torgum. Er það nú orðið verkefni almannasjónvarpsins í dag?)  Sannleikurinn er þess sem lék best við míkrófóninn. Allt snýst um að hafa eitthvað á dagskrá á hverjum degi, ekki inntakið, ekki niðurstaða rannsóknarinnar. Kannski er þetta vegna þess að almannasjónvarpið má ekki styggja valdhafana með alvöru greiningu og gagnrýni, því þá gæti farið illa fyrir einhverjum.

Ekki eru líkur á því að meðvituð og ábyrg grasrót þeirra stjórnmálaflokka sem stjórna þessu landi standi upp og segi að leikurinn sé tapaður hjá umræddum ráðherra. Nú eða í annarri þeirri skemmdarstarfsemi sem er í gangi. Þeir stjórnmálaflokkar sem stjórna landinu virðast ekki eiga meðvitaða og ábyrga grasrót. Hefur nokkur stjórnmálaflokkur í dag meðvitaða og ábyrga grasrót? Er grasrót stjórnmálaflokkanna ekki bara samansafn fylgifiska einstakra stjórnmálamanna og er það ekki þess vegna sem þeir geta hagað sér dólgslega.

Margir stjórnmálamenn eru eigið sköpunarverk. Stór hópur stjórnmálamanna kemst áfram í stjórnmálaflokkum vegna þess að þeir eru sjálfir sannfærðir um eigið ágæti og kaupa sér á einn eða annan hátt fylgi til að ná inn á lista til valda. Þeir eru ekki í forystu vegna þess að stór hópur í flokknum hafi valið þá vegna manngildis þeirra, visku eða heiðarleika. Þeir eru í forystu af því að þeim tókst betur en þeim næsta að afla fylgis við sína persónu, ekki hitt sem hún stendur fyrir. Slíkir sjálfskapaðir stjórnmálamenn verða hrokafullir og þeir haga sér dólgslega þegar vegið er að þeim og völdum þeirra sem þeir telja sig réttborna til.

Þeir eru svo sjálfskapaðir að það hefur enginn vald yfir þeim. Í dag er til dæmis enginn verkstjóri í ríkisstjórninni. Ráðherrann sem hefur brotið af sér á að ákveða sjálfur hvort hann hættir og er það augljóslega í samræmi við siðareglur sjálfskapaðra stjórnmálamanna.

Hvað er hægt að gera annað en að tromma á álgirðingar og hlusta á fólk tala uppi á vörubrettum fyrir framan Alþingishúsið?

Hversu langt duga fjesbækur og instagrömm og bloggfærslur í baráttunni við hrokafulla dólgastjórn sem hefur rúmt svigrúm til að taka allar þær almannastofnanir niður sem henni sýnist á þeim tíma sem hún hefur?

Eru það ekki mannréttindi að búa við hrokalausa valdstjórn? Eru það ekki mannréttindi að geta treyst þeim sem stjórna landinu? Er ekki til einhver stofnun í útlöndum sem við getum biðlað til? Hvað myndi Feneyjanefndin segja um ástandið? Getur ekki einhver málsmetandi einsaklingur lýst ástandinu og beðið nefndina að hafa skoðun á því?

Það verður enginn friður í þessu landi á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður á heimilum þessa lands á meðan staðan er eins og hún er. Það verður enginn friður í sálum okkar á meðan staðan er eins og hún er.

Það þarf einhvern veginn að snúa taflinu við.

 

Ásgeir Beinteinsson

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 8.2.2014 - 12:55 - 2 ummæli

Tapið í PISA

Íslendingar töpuðu í PISA og enginn skilur neitt í neinu.  Yfirborðskennd umfjöllun fjölmiðla skilur þjóðina eftir vonsvikna með brotna sjálfsmynd um hæfni sína og hæfileika. Niðurstaða þjóðarinnar er rökrétt miðað við framsetninguna og umræðuna um að við Íslendingar séum bara svona heimskir – við kunnum ekki lexíurnar okkar. Hitt er svo verra að strákar virðast kunna minna en stúlkur.

Hvað er PISA? PISA er skammstöfun og stendur fyrir; Programme for International Student Assessment. Þetta er alþjóðlegt verkefni til að meta nemendur og er unnin af OECD sem er Efnahags og framfarastofnun Evrópu. (Allmörg ríki utan OECD taka þátt.) Rannsóknin var fyrst gerð árið 2000 og hefur síðan verið á þriggja ára fresti. Heimurinn er eitt markaðssvæði og þeir sem ráða ferðinni í heiminum vilja hafa tæki til að meta hæfni þeirra nemenda sem eru um það bil að sækja framhaldsskóla og háskóla. Það er litið svo á að menntunarstig og hæfni 15 ára nemenda geti spáð fyrir um velgengni þjóðar á alþjóðlegum efnahagsmarkaði – segi fyrir um samkeppnishæfni þjóðar. Það sem er slæmt við að ganga illa í PISA er að þjóðinni muni líklega ganga illa í því að keppa um peningana á hinum alþjóðlega markaði. Hin hliðin á því að ganga illa er að það særir stolt þjóðarinnar að „tapa“ í PISA eins og öðrum keppnum.

Það sem er óvenjulegt við þátttöku Íslands er að allir 15 ára nemendur taka þátt en í öllum öðrum þátttökulöndum tekur úrtak nemenda þátt. Þeir sem lenda í úrtakinu erlendis eru þá sérstakir og þá oft ekki margir í hverjum skóla. Hvaða áhrif hefur þessi ákvörðun þeirra sem leggja prófið fyrir á Íslandi á niðurstöðuna? Fyrir nokkrum árum uppgötvuðu menn að viðhorf unglinganna á Íslandi til PISA var neikvætt þannig að reynt var með ýmsum ráðum að „jassa“ þátttökuna upp. Það kann að skýra hvers vegna okkur gekk betur 2009 en 2006 svo dæmi sé tekið. Hvers vegna er ekki notuð sama aðferðarfræði við fyrirlögn hér, eins og erlendis? Jú menn vilja tryggja að niðurstöðurnar fyrir Ísland séu alveg öruggar. Þessi munur á aðferðarfræði kann þó að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Um það leyti sem fyrsta Pisakönnunin er gerð árið 2000 þá hefja íslensk yfirvöld innleiðingu á nýrri stefnu fyrir grunnmenntun í landinu. Það ár voru Íslendingar nokkuð sáttir við niðurstöðu landsins í könnuninni. Þessi stefna var rædd talsvert á síðari hluta tíunda áratugar tuttugustu aldar og átti rætur í samþykkt sem Ísland var aðili að sem er Salamanca yfirlýsingin (1994). Í inngangi segir svo: „VIÐ HÖFUM HUGFASTAR endurteknar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, síðast og eindregnast í Viðmiðunarreglum um jöfnun tækifæra fyrir fatlað fólk, samþykktum árið 1993, þar sem lagt er að ríkjum heims að tryggja að skólaganga fatlaðra verði heildstæður þáttur í almenna menntakerfinu.“

Salamanca yfirlýsingin er síðan framkvæmd í stefnu sem kölluð hefur verið „skóli án aðgreiningar“. Um aldamótin er gerð viðamikil rannsókn  sérkennslu í Reykjavík og í framhaldi mótuð stefna og samfara henni eru nánast allar sérdeildir við grunnskólana í Reykjavík lagðar niður. Í sérdeildunum voru nemendur sem áttu erfitt uppdráttar í stórum námshópum og í erfiðleikum með einbeitingu og hegðun. Spyrja má hvort að þeir nemendur sem tilheyrðu deildunum hafi verið fatlaðir í merkingu Salamanca-yfirlýsingarinnar. Stefnan gengur í gildi snemma árs 2002. Það er þekkt úr fræðum breytingarstjórnunar að breytingar takist ekki nema að hópurinn sem tekur þátt geri sér grein fyrir þörfinni fyrir breytingunni. Viðhorf starfsfólks í skólunum var kannað á þessum tíma og í ljós kom að 60% hafði neikvætt viðhorf til stefnunnar. 25% leist vel á stefnuna. Strax á þeim fundi sem stefnan var kynnt lýstu skólastjórar áhyggjum af þeim nemendum sem tilheyrðu sérdeildunum. Skólastjórar í Reykjavík hafa ítrekað frá árinu 2002 lýst yfir áhyggjum sínum af stefnunni og sömu áhyggjur má sjá á prenti í viðauka 7 við stefnu fræðsluyfirvalda í Reykjavík frá árinu 2012; Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur – stefna skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur.

Í viðauka 7 stendur:

Lausleg athugun okkar hefur leitt í ljós að skólastjórar í grunnskólum borgarinnar telja að þeim takist ekki að mæta þörfum um 92 nemenda með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir. Líðan þessara nemenda, samnemenda þeirra og líðan starfsfólks er okkur mikið áhyggjuefni. Helstu orsakir teljum við vera skort á úrræðum til skemmri og lengri tíma og skort á fjármagni í heimaskólunum.

Grunur skólastjóra er að þetta sé mun stærri hópur. Eins og áður segir höfðu skólastjórar ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum af þessum nemendum í 10 ár. Einn nemandi með alvarlegan atferlisvanda og geðraskanir getur tekið heilan skóla í gíslingu. Í gíslingu merkir að skólastjórnandi verður eitt af úrræðunum fyrir barnið og gerir hann þá ekkert annað á meðan. Það merkir einnig að nemandinn svekkir skólasystkini sín þannig að þau eru vansæl – til dæmis vegna ljótra orða og hugmynda sem hann lætur frá sér fara í heyrandi hljóði, hann atyrðir og jafnvel ræðst á skólasystkini sín og starfsfólk.

Í febrúar 2012 kom út skýrsla á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara sem var könnun á kjörum og aðstæðum kennara. Svör kennara tala sínu máli um skóla án aðgreiningar: Hvert er viðhorf þitt til hugmyndafræðinnar á bakvið skóla á aðgreiningar. 7,9% voru mjög jákvæðir. 34,2% voru jákvæðir. Samtals teljast jákvæðir vera 42,1%. 26,1% eru neikvæðir eða mjög neikvæðir. 31,8% tóku ekki afstöðu. Hvernig gengur að fara eftir hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar? 32.6% gengur vel eða mjög vel að fara eftir hugmyndafræðinni.

Skóli án aðgreiningar lítur svona út á gólfinu hjá kennaranum: 20 til 25 nemendur eru í bekknum og þroskamunur á milli nemenda getur verið tvö til fjögur ár. Einn nemandi býr við fötlun svo að hann fær stuðningsaðila allan daginn. (Þetta er undantekning.) Tveir til þrír nemendur búa við greindan athyglisbrest þannig að þeir geta ekki einbeitt sér. Finna þarf leiðir til að þeir haldi athygli sinni án þess að þeir trufli aðra. Einn nemandi talar ekki íslensku og heldur ekki tungumál sem kennarinn kann. Einn nemandi býr við geðröskun sem jafnvel ekki finnst skýring á og hefur því hvorki sérstakt fjármagn til stuðnings og ekki er annan stuðning að fá nema að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri eru reglulega kallaðir til. (Tími þeirra nýtist þá ekki í stjórnun og stefnumótun á meðan!) Oft þarf að fá foreldra á vettvang til að róa barnið og fara með það heim. Við þessar aðstæður fer mikil orka kennarans í að láta öllum líða vel og ná einhverjum framförum í námi og þroska. Rannsóknir sýna að íslenskum börnum líður vel í skólanum – það hefur því eitthvað tekist.

Það er ljóst að skóli án aðgreiningar snýst ekki um árangur í námi því að stefnan snýst fyrst og fremst um að í hverjum bekk sé fjölbreyttur hópur nemenda sem líður vel. Það er línulegt samhengi á milli innleiðingar skóla án aðgreiningar og stöðu okkar í PISA. Þá er auðvitað ekki undarlegt að við séum í hópi þeirra sem við viljum bera okkur saman við sem eru Norðurlöndin. Skóli án aðgreiningar fellur vel að hugmyndafræði hins svokallaða norræna samfélagsmódels. Það er hins vegar ljóst að yfirvöld þurfa að hlusta á kennara og skólastjórnendur og finna leiðir til að auka námsárangur í skóla án aðgreiningar. Íslenski

grunnskólinn býður upp á mjög fjölbreytt nám þar sem list- og verkgreinar eru í hávegum hafðar og það er fjölbreyttur nemendahópur sem nýtur hans. Grunnskólinn á Íslandi er góður en það má bæta námsárangur í samanburði við aðrar þjóðir. Það yrði best gert með því að hlusta á starfsfólk grunnskólanna, bæta endurmenntun, styrkja faglega kennsluráðgjöf og þróa sjálfsmat.

Ef sigur í „PISA-keppninni“ felur í sér að við þurfum að hafa okkar skóla eins og í Singapúr, sem er í öðru sæti, þá er sigur ekki eftirsóknarverður því að þá skóla hef ég séð með eigin augum.

 

Ásgeir Beinteinsson

skólastjóri Háteigsskóla

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is