Laugardagur 20.5.2017 - 23:31 - FB ummæli ()

Hagsmunir eða íhaldssemi?

Árið 1996 var mikill meirihluti þjóðarinnar andsnúinn gerð Hvalfjarðargangnanna. Af þeim sem voru andsnúnir hugðust samt 25% nota göngin engu að síður.

Nú styttist í opnun á lágvöruverðsversluninni Costco sem sameinar heild- og smásölustig á einum stað. Í versluninni er myndarleg áfengisverslun, aðgengileg fyirr alla en einungis opin fyrir fáa útvalda sem hafa vínveitingaleyfi.

Hverjar ætli séu líkur á að þeir sem nú eru andsnúnir viðskiptafrelsi með áfengi, myndu engu að síður vilja versla ósómann undir Fríhafnarverðum í Costco?

  Kampavín í hillum Costco á Íslandi, einungis fyrir veitingamenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.4.2017 - 23:55 - FB ummæli ()

Sósíalismi í framkvæmd

Í kapítalísku hagkerfi geta hinir ríku orðið áhrifamiklir en í sósíalísku ríki verða hinir áhrifamiklu ríkir. Þannig varð dóttir Hugo Chavez ríkust allra í Venezuela vegna þess að í framkvæmd eru jú alltaf einhverjir jafnari en aðrir.

Þekkt er að Castro lifði í vellystingum, reykti sérframleidda vindla og drakk Vega Sicilia og Cheval Blanc en flaskan af slíkum vínum kosta sem nemur árslaunum verkamanns í Kúbu.

Áður en íslenskir félagshyggjumenn fundu upp lágmarkslaunin streymdu þeir í vinnuferðir til Kúbu þar sem þeir fengu að launum að hlíða á boðskap einræðisherrans Kastró. Engin þörf var að berjast fyrir bættum kjörum á Kúbu, það eitt að upplifa sameiginlega eymd í fyrirmyndarríkinu dugði.

Embættismenn á Kúbu þurfa þó ekki endilega að arðræna samborgara sína til að lifa í vellystingum því margskonar útflutningur er stundaður af embættismönnum frá sælueyjuni, t.d. fíkniefnasmygl um víða veröld.

Nýjasti ríkisiðnaðurinn er svo mannsal sem eins og fram kemur í nýrri skýrslu sem unnin er af samtökunum Cuban Arcive, stendur nú með miklum blóma, reyndar fágæt undantekning á getuleysi kúbönsku stjórnmálastéttarinnar.

Enn hefur ekki komið fram hvort hinn nýi Sósíalistaflokkur Íslands ætli að samsama sig þeim sem fyrir eru, hvort heldur er í Kína, Kúbu eða Norður Kóreu en landsmenn hljóta að bíða spenntir eftir stefnuskránni…..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.4.2017 - 10:04 - FB ummæli ()

Viltu hagnast?

Nú virðist sem þýskur banki hafi þóst kaupa hlut í Búnaðarbankanum af ríkinu en í raun verið búin að framselja bréfin fyrir kaupin.

Tugþúsundir kotroskinna Íslendinga skráðu sig fyrir bréfum í ríkisbönkunum í hlutafjárútboðunum um aldamótin. Um leið voru margir þeirra búnir að framselja bréfin til óþekktra aðila í gegnum fjármálafyrirtæki og eignuðust hlutabréfin því aldrei nema að nafninu til; ætluðu sér aldrei að taka þátt í framtíðaruppbyggingu bankans, svöruðu einfaldlega í huganum spurningunni ,,viltu hagnast“ með ,,engri áhættu“

Þáverandi Viðskiptaráðherra taldi kennitöluviðskiptin ekki samrýmast stefnu þáverandi ríkisstjórnar en skipti svo um skoðun. Mikill áhugi var fyrir öllum þessum útboðum, 10.734 aðilar skráðu sig fyrir hlut í FBA, 12.200 í Landsbankanum og tæplega 93 þúsund í Búnaðarbankanum, sem var rúmlega þriðjungur þjóðarinnar. Mikil samþjöppun hlutafjár átti sér stað síðan, 25 stærstu hluthafar FBA reyndust eiga 84% hlutafjárs. í Landsbankanum fækkaði hluthöfum um rúmlega 5000 og hluthöfum í Búnaðarbankanum fækkaði um 60 þúsund á sama tímabili.

Það er sjaldan bara einn Óli…..

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 22.4.2017 - 17:53 - FB ummæli ()

Lög og óregla.

Ef marka má skoðanakannanir á Íslandi, getum við státað okkur af einhverri fullkomnustu áfengislöggjöf á byggðu bóli. Ísland er líka eina landið í heimi þar sem fleiri treysta þingmönnum til að reka smásöluverslanir með áfengi heldur en til almennrar lagasetningar sbr. skoðanakannanir á trausti til Alþingis.

Á Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð er einungis talið óhætt að ríkisstarfsmenn taki við greiðslu á kassa fyrir áfengi í smásölu eins og við öll vitum og flest erum sammála um.

Í öllum ofangreindum löndum er þó ríkisborgurum heimilt að versla vín af hvaða víninnflytjanda sem er (án milligöngu starfsmanna ríkiseinokunarverslana) svo fremi að vínsalinn eigi heima í útlöndum. Þannig má íslenskur víninnflytjandi selja norskum neytenda áfengi en ekki íslenskum og svo öfugt, allt í nafni lýðheilsu sko….

Á Íslandi hefur áfengisverslunum fjölgað úr 13 í 51 á 20 árum, undir formerkjum ,,torvelds aðgengis” (til samanburðar eru 30 Bónus búðir í landinu) Ein meginástæða þessarar fjölgunar er skýlaus krafa sveitarstjórna um allt land þess efnis að áfengi sé verslað í heimabyggð undir formerkjum byggðastefnu. Sveitarfélög keppast líka við að gefa út sem flest vínveitingaleyfi til veitingahúsa en hafna því alfarið að fá leyfi til að heimila sveitungum sínum að einkareka áfengisverslanir þar sem áfengi yrði aðgreint frá öðrum neysluvörum (nákvæmlega eins og háttar til með núverandi löggjöf með ríkisverslanirnar).

Ríkiseinokunarverslunin ÁTVR rekur einnig heildsölu með tóbak fyrir tóbaksheildsala. Engin veit af hverju en framlegðin af tóbaksheildsölunni niðurgreiðir hinsvegar smásölu með áfengi. Engin kostnaðargreining er í bókhaldi ÁTVR á tóbakshlutanum en allir vita út af hverju það er. Þannig niðurgreiðir í raun hið opinbera smásöluverslun með áfengi í nafni ,,torvelds aðgengis”

En lengi má gott bæta. Rétt eins og við tryggjum lýðheilsu með því að heimila okkur sjálfum að versla við erlenda vínsala, gætum við flutt inn nokkra reglugerðargullmola, fegurðin kemur jú að utan:

 • Í Utah fylki í USA er óheimilt að selja áfengi ef neyðarástand skapast, t.d. af náttúruhamförum.
 • Í Ohio er óheimilt að auglýsa áfengi með jólasveininum, myndrænt eða með tilvísun. Einnig er óheimilt að gefa fiskum áfengi. Hvorutveggja ætti vel heima í íslenskri löggjöf.
 • Í Texas er óheimilt að taka fleiri en þrjá sopa standandi á vínveitingastað.
 • Í Newton PA, er karlmönnum óheimilt að kaupa áfengi nema með skriflegri heimild eiginkonu.
 • Í Utah er óheimilt að blanda áfenga drykki að viðskiptavininum sjáandi. Skilrúm, oft úr möttu gleri ,,Gyðinga gardína” þarf að vera á milli.
 • Í Washington DC er vínbúðum óheimlt að selja minna en fimm eintök af ör-flöskum ,,miniatueres” að kröfu veitingastaða í fylkinu. ,,Hugsunin” að baki þessarar reglu er að viðskiptavinir á leið á vínveitingastað, gætu keypt 1-2 flöskur til að blanda sjálfir í gosglös inni á veitingastöðunum. Að þurfa að burðast með fimm slíkar flöskur gerði svindlið hinsvegar síður aðlaðandi.
 • Í Norður Dakóta er óheimilt að selja bjór og saltkringlur saman. Augljós lýðheilsurök hér á ferð enda saltkringlur afar óholl fæða.
 • Í New Hampshire er óheimilt að fara í lautarferð og neyta áfengis í kirkjugörðum, auðvitað nokkuð augljóst því hvaða samleið á vínandi með framliðnum?
 • Í Indiana er óheimlt að blanda saman mjólkurvörum og áfengi. Viðbúið að þetta myndi mæta harðri andstöðu frá félagi mjólkur- og lýðheilsufræðinga og þyrfti því að ræða betur á meðal lýðheilsufræðinga.
 • Í Iowa er óheimilt að skrifa áfengi á reikning neytanda, ósóminn skal staðgreiddur.
 • Í Omaha er óheimilt að selja bjór yfir 4% að styrkleika, kældan. Við munum auðvitað vel hvernig gamli góði Villi útrýmdi rónunum úr miðbænum með því að láta fjarlægja bjórkælinn úr ríkinu í Austurstræti.
 • Í Boliviu er giftum konum óheimilt að drekka meira en eitt áfengisglas á almannafæri til að fyrirbyggja daður. Af augljósum ástæðum á slíkt ekki við um menn enda vísindalega sannað að slíkur breiskleiki hrjáir ekki karlmenn undir áhrifum.
 • Í Tyrklandi er óheimilt að selja áfengi á kosningadegi. Einhverjar brotalamir hljóta að vera á eftirfylgni þessara laga enda útilokað að einhver ódrukkinn hafi kosið Erdogan.
 • Í Skotlandi er óheimilt að klæðast nærfötum undir Skotapilsi, sektin er sanngjörn, tveir bjórar.

En það er auðvitað ekki svo að við getum ekki lagt eitthvað til málanna sem útlenskir gætu tekið upp. Undir formerkjum ,,torvelds aðgengis” fá stórnotendur, þ.e. þeir sem kaupa fyrir meira en kr. 100.000 í einu, ósómann sendann heim frítt frá einokunarverslunum hins opinbera. Sama á við ef neytandi býr í meira en 35km frá næsta útibúi (sem brátt verður enginn ef fjölgun ústölustaða heldur áfram með sama hraða og verið hefur).

Einnig hefur íslensku einokunarversluninni verið afhent sérstakt reglugerðarvald sem m.a. birtist í að ÁTVR bannar sölu á stærri umbúðum en þriggja lítra. Stofnunin hefur nefnilega fundið það út að stærri einingar hafi í för með sér aukinn ,,freistnivanda” fyrir þá sem eru veikir fyrir sopanum. Þeir veiklyndu geta hinsvegar keypt eins margar 3ja lítra einingar og þurfa þykir til að tóra út daginn.

Samkvæmt lýðheilsufræðinni fylgir aukinn freistnivandi stærri umbúðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.3.2017 - 15:32 - FB ummæli ()

Eiturkokteill Ögmundar

Banvænasta stjórnarstefna veraldar er sósíalismi sem varlega áætlað hefur kostað 100milljónir manna lífið, allt í göfugum tilgangi auðvitað. Einhver eitraðasti kokteill sem fundinn hefur verið upp í seinni tíð er blanda af sósíalisma og lýðheilsufræði. Þannig lofsyngur Ögmundur Jónasson ríkiseinokunarverslanir hins opinbera í nýlegri grein í Fréttablaðinu sem gæti verið sjálfstæður viðauki við bók George Orwell 1984.

Ekki veit bréfritari hvort Ögmundur sé betri í að stjórna eigin áfengisneyslu en annara en almennt virðist svo vera að þeir sem síst skyldi, telja sig hæfasta til að hafa forsjá fyrir öðrum.

Það að banna fullveðja einstaklingum að eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur á borð við vín kallar Ögmundur ,,samfélagslega aðkomu” Sjónvarpsandlitið Páll Magnússon telur sig hinsvegar ekki vera forsjárhyggjusinna heldur ,,umhyggjusinna“ sem Ögmundur tekur auðvitað undir. Ögmundur tiltekur síðan það sem hann nefnir ,,málefnalegar spurningar og vangaveltur” ríkisrekstrinum til stuðnings:

a) betra utanumhald og minni ágang markaðsafla

Hér er Ögmundur að sjálfsögðu að vitna til þess hversu vel hefur til tekist í Leifsstöð að flétta saman snyrtivörum, áfengi, sælgæti og leikföngum og pakka svo öllu saman inn í áfengisauglýsingar ,,True Icelandic Experience“

b) er betri fyrir ríkissjóð og þar af leiðandi okkur sem skattgreiðendur

Hér talar Ögmundur út um afturendann á George Orwell vitandi að rekstur sérverslana ÁTVR er niðurgreiddur með hagnaði af tóbaksgjaldi. Ef við gæfum okkur að ekki væri til ÁTVR í dag og stofna ætti til slíks óskapnaðar sem kosta myndi 2,5 milljarða á ári, myndi Ögmundur auðvitað réttilega spyrja hvar ætti að skera niður í velferðarþjónustunni fyrir því?

c) ,,færir okkur hagstæðara verðlag (hátt útsöluverð stjórnast af álagningu)“

George Orwell gæti ekki orðið stoltari, stríð er friður og frelsi er ánauð. Eina verslunarformið sem er betra en einokun er jú ríkisrekin einokun. Þess vegna rekum við jú einmitt Samkeppniseftirlit. 

Hátt verðlag stýrist af álagningu, einokunarverslun er best

 

d) tryggir meira úrval

Já einmitt, svona rétt eins og mjólkurbúðirnar forðum færðu okkur meira úrval af mjólk auk þess sem framboð á hárvötnum og bökunardropum er ekki svipur hjá sjón eftir að ríkiseinokun lauk á þeim nauðsynjavörum.

 

e) dregur úr aðstöðumun þéttbýlis og dreifbýlis; ef þetta er svo, er þá ekki sjálfsagt að halda í það fyrirkomulag sem við búum við?

Flestar verslunarkeðjur auglýsa ,,sama vöruverð um land allt“ þar með talið Anton Berg vínflöskur. Eina undantekningin er Keflavíkurflugvöllur þar sem góðgætið kostar tvöfalt meira þó án gjalda og vsk.

Það fyrirkomulag ,,sem við búum við“ er einmitt byggt á þeirri hugmyndafræði að einstaklingurinn er grunneining samfélagsins. Viðskiptafrelsi er ekki einasta stærsta hagsmunamál hverrar þjóðar heldur varðar líka atvinnufrelsi sem jafnframt flokkast sem mannréttindi. Ef tveir einstaklingar vilja eiga viðskipti sín á milli með löglegar neysluvörur og borga af því skatta og skyldur, skiptir skoðun ráðríkra engu máli allra síst þeirra sem styðjast við hugmyndafræði sem fyrir löngu ætti að vera búið að henda á ruslahauga sögunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.3.2017 - 14:54 - FB ummæli ()

Hér varð hrun…..

….í skuldsetningu!

Stóra fréttin er að góðærið núna er ekki tekið að láni frekar en styrking krónunnar. Auðvitað er erfitt að tilheyra klerkastétt svartsýniskirkjunnar á Íslandi undir forystu Gunnars Smára, Ragnars (V.R. byltingarmanns) og Jónasar Kristjáns. Þeirra tími mun líklega ekki koma fyrr en þeir sjálfir komast til valda. Veruleikinn er hinsvegar sá að aldrei hefur blásið jafn byrlega fyrir íslensku samfélagi sem nú, samkvæmt lögmálinu um að þjóðinni vegnar vel þá vinstri mönnum vegnar illa.


Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.3.2017 - 15:46 - FB ummæli ()

Einokunarverslun með áfengisflöskur

Einhver brengluðustu rök gegn viðskiptafrelsi með áfengi byggja á þeirri trú sumra að einokunarverslun færi neytendum lægra verð og betra úrval. Oft er vitnað til þess að álagning í verslunum verði mun hærri heldur en rekstrarsnillingar hjá ÁTVR þurfi til að láta enda ná saman.

Fyrir það fyrsta er auðvitað engin arðsemi af rekstri sérverslana sem standa galtómar fram að hádegi á föstudögum flestar vikur. Eins og rakið hefur verið kemur allur hagnaður ÁTVR til vegna heildsölu með tóbak.

Skoðanakannanir virðast sýna að fæstir landsmenn treysta Alþingismönnum til lagasetninga en mun fleiri treysta þeim til að reka smásöluverslanir, hugsanlega í rökréttu samhengi við að þeir sem ekki geti stjórnað eigin neyslu, séu best fallnir til að stjórna neyslu annara.

Ríkisssjóður rekur ekki bara eina einokunarverslun með áfengi heldur tvær. Hin einokunarverslunin er fríhöfnin í Keflavík þar sem áfenginu er stillt upp við hliðina á fílakarmellum. Það er mikil lýðheilsustefna virk í versluninni og hið tvöfalda siðgæði ríkisins um aukið aðgengi að alkóhóli á sér hvergi sterkari birtingarmyndir. Þar geta viðskiptavinir ríkisins gert reyfarakaup á Anthon Berg súkkulaðivíni og borgað kr. 1.699 krónur tollfrjálst í stað 899 kr. í Bónus með tollum og virðisaukaskatti – á sama verði um land allt!

Myndin úr Leifsstöð er tekin 27. febrúar 2017 þegar gengi Evru var kr. 114. Fríhöfnin hinsvegar borgaði kr. 110 til að standa undir nafni. Viðskiptavinir sem borguðu í Evrum, greiddu því í raun kr. 1755 fyrir vínið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 14.2.2017 - 09:45 - FB ummæli ()

Forstjóri deCode segir deCode ekki vera til….

…..og talar að handan….

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 17.1.2017 - 09:11 - FB ummæli ()

Sá á fund sem finnur

Er máltæki sem Einar Oddur heitinn taldi að lægi til grundvallar ferðagleði starfsmanna hins opinbera. Um þessar mundir eru 10 embættismenn staddir í  Vín á ráðstefnu um kynjaða hagstjórn, þ.m.t. Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar en eins og flestir vita eru mannréttindi víða fótum troðin í borginni.

Vafalítið mun fulltrúi Svíþjóðar kynna kynja-snjómokstur en þarlendir samfélagsverkfræðingar þykja vera lengst komnir í að útvíkka sín fræði yfir á hin ólíkustu svið mannlegs lífs. Upphaf kynjaðs snjómoksturs á rætur sínar í uppgötvun kynjafræðinga á að konur notuðu gangstéttar meira en karlar og því bæri að moka gangstéttar fyrst en stofnbrautir síðar.

Á ferð bréfritara í Svíþjóð nýlega var reyndar kvartað nokkuð undan hinum kynjalegum áherslum. Stjórnendur snjómokstursvéla áttu líka erfitt með að skilja hvar kynjaðar áherslur liggja sem skrifast auðvitað á reikning feðraveldisins enda talsverður kynjahalli í greininni.

Ókynjað hefði snjónum líklega verið mokað af hafnarbakkanum í sjóinn en slíkt gengur ekki undir kynjuðum snjómokstursáherslum.

Ókynjað hefði snjónum líklega verið mokað af hafnarbakkanum í sjóinn en slíkt gengur ekki undir kynjuðum snjómokstursáherslum í Stokkhólmi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 11.12.2016 - 22:34 - FB ummæli ()

Dómsdagsspámenn

Líklega er starf dómsdagsspámannsins það vanþakklátasta í heimi. Fyrir það fyrsta hafa slíkir alltaf rangt fyrir sér þar til einn daginn að engin verður eftir til að þakka fyrir spánna.

Einhverjir afkastamestu bölmóðsmenn Íslandssögunnar sitja enn við skrif þeir Jónas Kristjánsson og Gunnar Smári Egilsson og ættu báðir tilkall til titilsins ,,endaþarmar íslenskrar fréttamennsku“ ef Eiríkur Jónsson hefði ekki eignað sér hann hér um árið.

Gunnar Smári er æðsti prestur Svartsýniskirkjunnar á Íslandi en þó undarlegt megi virðast hafa bölmóðsmessurnar ekki náð eyrum hluthafa sem enn dæla peningum í útópíuhugmyndir klerksins á sviði fjölmiðlunar.

Það sem Jónas og Gunnar eiga sameiginlegt er fyrirlitningin á heimsku og þýlindi þjóðarinnar en eins og rakið hefur verið hér hefur Jónas kallað samlanda sína ,,bjána“ 3.990 sinnum á síðustu árum.

Þýlindið hefur verið Jónasi hugleikið lengi. Þannig skrifaði hann um Hvalfjarðargöngin:

Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum…. skattekjur verða minni vegna minni bensínnotkunar við að aka fjörðinn.

Í mestu kaupmáttaraukningu þjóðarinnar skrifar Gunnar Smári um ,,orðræðu“ og ,,þrælslund“ og hvetur til byltingar áður en ríkisstjórn er mynduð:

Langlundargeð almennings og þrælslund var eitt helsta einkenni íslensks samfélags, þess tíma sem kallaður hefur verið Gamla Ísland….Fæstir stjórnmálamenn hafa í raun breytt hegðun sinni og orðræðu.

Að vanda fær útgerðin sína sneið:

Útgerðarmenn hafa til dæmis ekki verið valdameiri í íslensku samfélagi en eftir Hrun. Gengisfall krónunnar og lækkun veiðigjalda færði þeim gríðarlegan auð og þeim auði fylgir mikið vald.

Veruleikinn er hinsvegar sá að útgerðarmenn fengu 180 krónur fyrir hverja Evru 2009 en fá í dag kr. 118 en borga engu að síður 24 milljarða til samfélagsins árlega.

Gunnari Smára er enn tíðrætt um ,,hrunið“ sem í dag er að verða að kennsluefni í sagnfræði í skólum landsins. Á því sviði er Gunnar auðvitað sérfróður enda fáir afrekað jafn mörg hrun á sínum ferli, hvort heldur er Nyhedsavisen, Dagsbrún auk fjölda annara fyrirtækja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is