Fimmtudagur 4.1.2018 - 13:17 - 18 ummæli

Skipulagsráð 1978-1982 og 2010-2014

Mér eru minnistæðar tvær skipulagsnefndir í Reykjavík sem mér þótti standa sig vel. Sú fyrri var skipulagsnefnd sem var á árunum 1978-1982 undir forystu Sigurðar Harðarsonar arkitekts. Það sem einkenndi störf þeirrar nefndar var áhuginn fyrir að draga úr útþennslu borgarinnar og ná böndum á hana,  þétta byggðina,  draga úr notkun einkabíla, efla almamannasamgöngur og vernda gömul hús og staðaranda sem það hét reyndar ekki þá.

Hin skipulagsnefndin sem sem ég hef haldið mikið uppá var sú sem var undir forystu Páls Hjaltasonar arkitekts á árunum 2010-2014. Sú nefnd vann algert þrekvirki hvað varðar aðalskipulagið AR2010-2030 og ruddi úr vegi einhverju lélegasta aðalskipulagi allra tíma AR2001-2024 þar sem tilraun var gerð til að festa einkabílinn í sessi með ótal flækjum og mislægum mislægum gatnamótum.  Miklubraut í stokk og göng undir Öskjuhlíð og Digranesháls og líka undir Skólavörðuholt. Og með öllum þessum tengingum einkabíla var með þessu skipulagi Landspítalinn festur í sessi við Hringbraut með öllum þessum forsendum sem eru sem betur fer allar horfnar. Þegar maður horfir á AR2001-2024 í dag finnst manni eins og höfundarnir hafi ekki þekkt hugtakið „vistvænn“ eða „sjálfbærni“. Skipulagi var í algerri andstöðu við allar ríkjandi stefnur nánast allstaðar undangengna marga áratugi.

Manni virtist þetta vera stjórnlaust bútasaumsskipulag. Það vantaði hryggarstykkið í AR2001-2024.

Nýtt aðalskipulag, AR2010-2030 tók á útþennslunni og stuðlaði að nauðsynlegri þéttingu byggðar og lagði drög að nýrri Reykjavík sem var línuleg og vistvæn. Fólk og samgöngur var sett í fyrsta sæti, ekki einkabílar. Meginhugmynd sem kom fram í skipulaginu er hugmyndin um samgönguás eftir borginni endilangri. Þarna voru lögð drög að Borgarlínunni sem binda átti borgina saman frá Vesturbugt að Keldum. Þessi hugmynd um að byggja línulega borg opnaði mörg tækifæri sem vísuðu til hagkvæmari, skemmtilegri og vistvænni borg fyrir fólk. Það var einhver stór hugsun þarna sem miklar vonir eru bundnar við og ber að fagna.

Meðfram samgönguásnum myndaðist tækifæri til þess að skapa mjög þéttann og lifandi ás frá miðborginni og austur að Keldum, þróunnarás. Iðandi af mannlífi og með háu þjónustu og almenningssamgöngustigi. Þarna meðfram línunni voru tækifæri til þess að auka nýbyggingaheimildir verulega.  Ég nefni meðfram Laugavegi frá Hlemmi, meðfram Suðurlandsbraut, í Skeifunni með 85.000 fermetra aukningu, Vogabyggð með 400 íbúðum og 40.000 m2 atvinnuhúsnæði, Ártúnsholti þar sem er alls 115 ha þróunarsvæði samkvæmt  AR2010-2030 og svo á hinu mikla Keldnalandi sem er líklega nálægt 90 ha eða 900.000 m2.  Bara Keldur og Ártúnsholt er  talsvert stærra svæði en Vatnsmýrin svo þetta sé sett í samhengi.

AR2010-2030 tók líka á staðarandanum og borgarvernd eins og skipulagsnefndin 1978-1982 gerði. Fjallað var um þetta í síðasta pistli.

Verst þótti mér að ekki var lagt til að byggja stærsta vinnustað landsins, Landspítalann við austurenda Borgarlínunnar og þróunarássins sem þungaviktarpól á móti miðborginni og stuðla þannig að stórum góðum farþegagrunni fyrir Borgarlinuna í báðar áttir. Þarna er möguleiki að tryggja rekstrargrundvöll austur/vesturlínu Borgarlínunnar.

Í Keldnalandi má líklega byggja 1-2 milljónir fermetra atvinnuhúsnæðis sem pól á móti Miðborginni með öllum sínum atvinnutækifærim. Þetta hefði getað orðið e.k. La Defense Reykjavíkur þar sem væri Þjóðarsjúkrahúsið og læknaháskólinn með öllum sínum stoðbyggingum við annan endann og miðborgin við hinn.  Svona landnotkun mundi tryggja rekstur Borgarlínunnar nánast frá fyrsta degi með vagnana fulla í báðar áttir kvölds og morgna. En það sem borgin þarf á að halda eru fleiri atvinnutækifæri austar í borginni og fleiri íbúðatækifæri vestar í borginni til þess að jafna álagið á samgöngukerfinu. Og sem mest ætti að byggjast meðfram Borgarlínunni.

++++

Á árum áður voru nefndirnar sem fjölluðu um skipulags- og byggingamál tvær. Annarsvegar bygginganefnd og hinsvegar skipulagsnefnd. Á árunum 1978-1982 var formaður bygginganefndar Magnús Skúlason arkitekt og formaður skipulagsnefndar Sigurður Harðarson arkitekt. Í skipulagsnefndinni var meirihlutinn arkitektar og voru ekki borgarfulltrúar frekar en formennirnir. Ég held að það hafi verið mistök að sameina þessar tvær nefndir í eitt ráð, Umhverfis- og skipulagsráð.

++++

Efst í færslunni er ljósmynd sem ég tók í haust af Borgarlínunni í Grenoble í Frakklandi. Hún líður nánast mengunar- og hljóðlaust um borgina full af fólki.  Iðagrænt gras er milli teinanna og fólk stígur úr vagninum og hoppar upp á reiðhjól sem ætluð eru borgarbúum, en ekki sérstaklega ferðamönnum. Neðst kemur svo fyrstu drög sem urðu á vegi mínum um legu borgarlínunnar með aðalskiptistöð á eðlilegum stað við Elliðaárósa. Gríðarlega fín hugmynd og raunsæ ef vel er á haldið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.12.2017 - 09:54 - 17 ummæli

Verndun staðarandans – Lög og reglugerðir.

 

Varðveisla staðarandans

Þó svo að friðun einstakra menningarminja og mannvirkja sé í ágætum farvegi verður það sama ekki sagt um staðarandann, það sem á latínu kallast „genius loci“. Staðarandinn nær til alls umhverfisins og finnst ekki bara í því sem mætir auganu. Hann tekur til alls sem maður sér og skynjar á einhverjum tilteknum stað — er einhverskonar flétta minninga og skynjunar. Allt hangir þetta saman og úr þessu er ofinn vefur sem er sérstakur fyrir hvern stað. Þegar byggt er einhvers staðar í borg eða landslagi er fléttað inn í þann vef sem fyrir er en ekki byrjað á nýjum vef.

Ef vel tekst til er það ekki hönnuðurinn einn sem ákveður útlit þeirra mannvirkja sem byggja skal. Útlitið ræðst öðru fremur af staðnum og staðarandanum. Þetta er kallað staðbundin nálgun eða staðbundinn arkitektúr (e. regionalism). Fræðimaðurinn Markús Vitrúvíus (80/70 f. Kr. –15/25 e. Kr.) taldi að ekki væri hægt að byggja með sama hætti í Egyptalandi og á Iberíuskaganum. Það væri m.a. vegna þess að veðurfar væri ekki það sama á báðum stöðum, byggingarefnið væri mismunandi, handverkið öðruvísi og menningin ólík.

Í hinu tvöþúsund ára meginverki sínu, Tíu bókum um arkítektúr, talaði Vitrúvíus um „venustas, firmitas og utilitas“. „Venustas“, eða fegurðin, er einskonar tungumál forma, rýmis og hlutfalla sem kalla á minnisstæða upplifun og tengsl við hvern stað og tengir verðmætamat kynslóðanna í efni, hughrifum, rými og formi. Vitrúvíus var tækni- og framfarasinnaður og fjallar því um „firmitas“, þ.e.a.s. hversu vel hannað og rammgert tiltekið mannvirki er. Einnig má halda því fram að Vitrúvíus hafi einna fyrstur manna vakið athygli á nytjastefnunni (funktionalismanum) þegar hann talar um „utilitas“, þ.e. nytsemi eða notagildi.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og við þekkjum af dæminu Laugavegi 2-4.

Í lögum um menningarminjar frá árinu 2012 er einkum fjallað um fornminjar ýmiskonar, einstök hús og mannvirki, skip og báta, samgöngutæki, menningarlandslag og nytjahluti sem eru vitnisburður um menningarsöguna. Ekki er í lögunum sérstaklega fjallað um næsta umhverfi þess sem á að vernda eða staðarandann.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feta skuli „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni.“ Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Í skipulagslögum er lauslega tekið á staðarandanum. Þar er talað um „hverfisvernd“, sem er nátengd stað og notkun, og þess óskað að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar. Þá segir í lögunum að í eldri hverfum skuli lagt mat á varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru (gr. 5.3.2.1.) Í lögum um umhverfisvernd er líka tekið á byggðamynstri og hverfisvernd og lögð áhersla á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“

Þegar horft er yfir málið í heild virðist ganga illa að framfylgja þeim góðu fyrirheitum og markmiðum sem er að finna í skipulagi, lögum og reglugerðum. Helstu steinarnir í þessari götu eru háværar raddir hinna svokölluðu uppbyggingarsinna, tíðarandinn og fjármagnið, ásamt veikgeðja stjórnmálamönnum og ráðgjöfum þeirra, sem sífellt láta undan. Draga má þá ályktun að vilji stjórnmálamanna til þess að móta stefnuna sé mikill en þrek þeirra til að fylgja henni eftir lítið.

++++

Þessi pistill er brot úr grein um varðveislu menningarminja sem birtist í SAGA, Tímariti Sögufélagsis í haust. Í þessu tímariti birtust nokkrar greinar um varðveislu menningarminja. Greinarnar eru afar fróðlegar og eru skrifaðar af Minjastofnun Íslands, Völu Garðarsdóttur fornleifafræðingi, Hilmari Þór Björnssyni arkitekt og  Helga Þorlákssyni sagnfræðingi.

++++

Þegar horft er á hið byggða umhverfi sýnist manni stundum að hönnuðir, skipulags og byggingafulltrúuar og kjörnir fulltrúar séu ekki sérlega meðvitaðir um þær leiðbeiningar  og laga og reglugerðarumhverfi sem fara á eftir. Með færslunni eru nokkrar skýringamyndir með tilheyrandi texta.

+++

Efst í færslunni er ljósmynd eftir Sigurgeir Sigurjónssonljósmyndara  sem sýnir kannski einmitt það sem Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð og Aðalskipulag Reykjavíkur er að vinna gegn. Þ.e.a.s. ósamræmi í byggðinni og að byggð séu hús þar sem „lögð er áhersla á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 þar sem sagt er að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ með áherslu á einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

+++++

Dæmi.

Að neðan eru sýnd fjögur dæmi um hvernig góð fyrirheit í Menningarstefnu, Aðalskipulagi og reglugerðum hafa komið út í raun. Af þessum dæmum má álykta að hönnuðir, embættismenn, sjórnmálamenn og og ekki síst fjárfestar þurfi að lesa sig til og vanda sig betur.

 

 

Maður getur velt fyrir sér hvort fyrirhugaðar byggingar sem byggja á við Gamla garð samkvæmt verðlaunatillögu í samkeppni arkitekta samræmist fyrirheitum skipulagslaga, menningarstefnu og AR2010-2030 þar sem óskað eftir að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar og lað leggja skuli áherslu á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í aðalskipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Við Hafnartorg virðist ekkert af þessum skilyrðum uppfyllt. Þvert á móti eru þau beinlínis brotin þar sem þarna er verið að byggja 6 hæða hús.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og dæmið af Laugavegi 2-4 sýnir.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð á „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ og að hugað sé að  „heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ . Myndin sýnir fyrirhugaðar byggingar Landspítalans við Hringbraut og hvernig nýbyggingarnar falla að „heildarmynd og mælikvarða“ þar sem byggt er við og í eldri byggð.

++++

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.12.2017 - 13:45 - 24 ummæli

Flökkusaga um staðsetningu Landspítalans.

Nú hefur sú flökkusaga gengið í hartnær heilan áratug að „allar“ staðarvalsgreiningar hafi bent á að heppilegast sé að byggja upp þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut. Þessi fullyrðing á ekki við nein rök að styðjast og er tóm vitleysa eins og sést þega gögn málsins eru skoðuð.

++++

En þessi flökkusaga lifir og var líklega sett af stað af embættismönnum og hefur verið haldið á lífi af þeim sem eiga hagsmuni að gæta í ein tíu ár.  Alþingismenn, ráðherrar og hönnuðir hafa trúað þessu og flutt hana áfram í blaðaviðtölum og fundum og haldið henni lifandi.  Jafnvel nýr heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem ég hef miklar mætur á, trúir þessu enda er þessu eflaust haldið fast að henni eins og fyrirenurum hennar. Hún segist  telja að best sé að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut sem er eins og áður hefur verið farið yfir er þvert á álit flestra umsagnaraðila um framkvæmdina sem vijla helst að byggt verði nýtt sjúkrahús frá grunni. Hinn ágæti heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði líka á ársfundi Landspítalans fyrir tveim árum að „öll“ staðarvalsálit kæmust að sömu niðurstöðu,  þ.e.a.s. Hringbraut. Vonandi er ræðuskrifari Kristjáns ekki lengur við störf í ráðuneytinu.

+++

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að embættismenn hafi sett þessa flökkusögu af stað og haldið henni að málsaðilum af slíkum þunga að flestir trúa henni.  Allar tilraunur til þess að leiða hið sanna í ljós eru kæfðar með þöggun eins og dæmin sanna.

Opinberar stofnanir hafa verið kallaðar til að grafa upp rök gegn því að gerð verði ný staðarvalsgreining á grunvelli núverandi skipulagsumhverfis og efnahagsástands. Eins sjálfsagt og það ætti nú að vera þegar langstærsta opinbera fjárfesting sögunnar, sem varðar alla landsmenn til langrar framtíðar, er í undirbúningi.

+++

Og nú stefnir allt í að ekki verði aftur snúið.

Því miður fyrir þing, þjóð og sérstaklega sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar.

+++

Hér eru slóðar að þrem álitsgerðum sem allar benda á að best sé að byggja nýjan þjóðarspítala frá grunni. Enga sannfæringu er að finna um að Hringbraut sé besti staðurinn. Þvert á móti bendir viðamesta skýrslan á að heppilegra sé að byggja við í Fossvogi ef ekki er möguleiki á að byggja nýtt á nýjum stað. Ég held að af öllum skýrslum sem ég hef lesið sé bara ein sem bendir á Hringbraut sem eina og besta kostinn. En hún var samin árið 2002 á grunvelli aðalskipulags sem er allt annað en það sem er í gildi í dag.  Læknaráð LSH leggur til við heilbrigðis-og tryggingarnefnd Alþingis að sú skýrsla verði endurskoðuð eins og lesa má að neðan. (20. apríl 2004)

Skýrsla Ementors, okt. 2001,

Álit hjúkrunar- og læknaráðs LSH, febrúar 2004.

Álit stjórnar læknaráðs LSH til Alþingis, 20. apríl 2004,

+++

Efst í færslunni er ljósmynd af Keldnalandinu sem er í eigu ríkisins. Þarna sjá borgaryfirvöld tækifæri til þess að byggja allt að 480 íbúðir sem er ekki skynsamleg ráðstöfun á landinu. Það er líklega hægt að byggja um 500 íbúðir í lágri þéttri byggð á spildunni milli gömlu og nýju Hringbrautar vestast í borginni þar sem mikil þörf er fyrir fleiri íbúðir.  Slík uppbygging þar og nýtt þjóðarsjúkrahús í landi Keldna mundu leysa gríðarlega stór vandamál í borgarlandslaginu og væri í fullkomnu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðaskipulag höfuðborgarsvæðisins. Það blasir við að þetta er miklu betri staður en Hringbraut til þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús til framtíðar. Það er í góðum vegatengslum við Vestur- og Suðurland og til Suðurnesja. Það er í góðum tengslum við sveitarfélögin sunnan höfuðborgarinnar og gatnakerfi alls svæðaskipulagsins og svo er landið í eigu ríkisins.

Það er ekki of seinnt að grípa þetta tækifæri ef einhver er að velta því fyrir sér.

++++

++++

Viðbót dags 19.12.2017. kl 20:09

Nokkri aðilar hafa spurt í tölvupósti  hvenær ég hafi fyrst heyrt þessa flökkusögu um að öll álit hafi komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja við Hringbraut og hvenær síðast og hverjir hafi haldið þessu fram.

Ég vil svara því til að ég man ekki hvnær ég heyrði þetta fyrst en það er líklega um 2009. Hverjir hafa haldið þessu fram?  er spurt. Það eru svo margir að ég treysti mér ekki til að nefna þá því eflaust mundi ég gleyma einhverjum en síðast heyrði ég þetta á opnum fundi í Norræna húsinu þann 19. október 2017 þar sem einn af æðstu stjórnendum spítalans hélt þessu fram og sýndi við það tækifæri hjálagðar tvær skyggnur.:

Eins og sjá má á skyggnu í kynningu Landspítalans stendur orðrétt.:

„Hringbrautin hefur alltaf haft vinningin í staðarvalsgreiningum“.

Sem er ekki rétt eins og dæmin sem að ofan eru reifuð sýna.

Hér er að ofan vitnað í skýrslu erlendra ráðgjafa sem er sögð komast að þeirri niðurstöðu að byggja skuli upp við Hringbraut. Þarna stendur orðrétt:

“ 2001     Erlendir ráðgjafar leggja til að uppbyggingin verði við Hringbraut„.

Ég hef ekki fundið þessa skýrslu þó ég hafi leitað eftir henni hjá fyrirlesaranum. Hinsvegar finn ég skýrslu Ementor sem rökstyður af hverju ekki sé heppilegt að byggja við Hringbraut og telur að ef ekki er mögulegt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni sé Fossvogur besti kosturinn. Þarna skýtur skökku við.

Gera verður ráð fyrir að allir þessir aðilar hafi trúað því að þeir hafi farið með rétt mál, en sannleikurinn er annar. Þeir hafa líklega trúað flökkusögunni og ekki skoðað grunngögnin nægjanlæega vel.

++++

„Hvað EF menn hefðu…….“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.12.2017 - 18:36 - 7 ummæli

Innviðir ferðamannastaða – Viðhorfskönnun – Menn vilja staðbundar lausnir.

Sumarið 2017 stóð Landgræðslan fyrir könnun á meðal ferðamanna um viðhorf þeirra til innviða og náttúru á tveimur áfangastöðum. Landgræðslan tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands í samstarfi við Mosfellsbæ og Skaftárhrepp. Nýta á niðurstöðurnar til stefnumótunar fyrir áfangastaði í sveitarfélögunum tveim sem stóðu að könnuninni.Könnunin var hluti af svonefndu ASCENT verkefni, en það er samstarfsverkefni fimm landa um að efla fagþekkingu í uppbyggingu og náttúruvernd á áfangastöðum ferðamanna. Úrtakið var lítið á báðum stöðum eða samtals um 280 manns.

Könnunin var annarsvegar gerð í Eldhrauni í Skaftárhreppi, þar sem meirihluti gesta var erlendir ferðamenn, og hins vegar við Úlfarsfell þar sem langflestir gesta voru Íslendingar að stunda almenna útivist. Báðir staðirnir eiga það sameiginlegt, að þar blasa við ýmsar áskoranir vegna rofs eða ágangs, en þó með ólíkum hætti.

Grípum niður á þrem stöðum í skýslunni:

„Ferðamenn vilja ekki nútímaarkitektúr

Niðurstöðurnar könnunarinnar koma á margan hátt á óvart. Helst vekur það athygli hve mikill munur er á óskum ferðamanna um uppbyggingu á svæðunum og þess sem ráðgjafar telja alla jafna æskilegt. Þetta kom glöggt fram þegar gestir voru spurðir álits um æskilegt yfirbragð innviða eða mannvirkja á svæðinu, en þá nefndu einungis 2% svarenda nútímaarkitektúr, en mikill meirihluti vildi náttúrulegan, umhverfisvænan eða hefðbundinn arkitektúr. 12% svarenda merktu reyndar við staðbundinn (regional) nútímaarkitektúr, án þess að honum væri lýst nánar í spurningalistanum.

Tekið skal fram að ekki voru sýndar myndir af mismunandi stílbrigðum og því möguleiki á misskilningi, en í ljósi þess hve fáir vilja nútímalegt yfirbragð á ferðamannastöðum þá mætti jafnvel endurskoða hvernig staðið er að hönnun þeirra.“

„Ferðamenn vilja fjölbreytta göngustíga úr náttúrulegum efnum

Meirihluti svarenda vill hafa umhverfið sem náttúrulegast og að ekki séu notuð framandi efni við stígagerð. Með öðrum orðum kom fram að svarendur vilja frekar sjá möl, steinhellur eða grjót í stað timburs, malbiks eða plastgrinda (Ecogrid). Einnig kom fram eindregin ósk um að stígar væru sem fjölbreyttastir.“

„Möguleg niðurstaða

Niðurstöðurnar vekja þó upp ýmsar spurningar og þá sérstaklega um æskilegt yfirbragð og efnisval innviða á ferðamannastöðum, en miklu fjármagni er veitt í hönnun og uppbyggingu. Líklega er ekki alltaf vitað, þegar fé til framkvæmda hefur verið samþykkt, hvort framkvæmdirnar séu í samræmi við óskir og væntingar gesta og hvort þær jafnvel muni rýra umhverfið og þarmeð aðdráttarafl staðanna.“

+++++

Draga má þá ályktun af skýrslunni að ferðamenn koma hingað til lands til þess að upplifa íslensk sérkenni. Þeir vilja íslenskan staðaranda eða það sem kallað er regionalismi. Þeir vilja eitthvað sértækt og staðbundið. Þeir vilja að byggingarefnið í stígum og öðru sé að finna í nágrenninu. Þeir vilja síður nútímalegan alþjóðlegan arkitektúr sem á sér marga fylgjendur þegar kemur að hönnun innviða ferðaþjónustunnar. Þeir vilja frekar nútímalegan staðbundinn arkitektúr.

Myndirnar sem fylgja eru fengnar úr skýrslunni sem gefin var út í fyrradag.

 

 

 

Í skýrslunni kemur fram að á Úlfarsfelli þurfi að „taka á „sambúð“ vélknúinna ökutækja og göngufólks. Sumir vilja ganga á fjallið í náttúrulegri kyrrð meðan aðrir vilja þeysast um brekkurnar undir stýri.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.11.2017 - 11:16 - 12 ummæli

Staðarandinn loks til umræðu – Hafnartorg.

 

Lítill hópur arkitekta hefur undanfarna áratugi skrifað og talað um mikilvægi þess að byggja í anda þess sem kallað er „regionalismi“.  Það er að segja að taka í hönnuninni tillit til staðarandans og að útfærslur séu aðlagaðar staðháttum á hverjum stað, arkitektósniskt séð.  Þeir tala um að greina staðarandann og flétta skipulag og byggingar inn í það umhverfi sem fyrir er. Huga þurfi að hefðinni og menningunni á hverjum stað.  Þetta er kennt  í arkitektaskólunum.  Þeir vilja draga fram kosti umhverfissins og sérkenni þess og reyna að lágmarka hugsanlega galla með nýjum byggingum eða nýju skipulagi.

Nú sá ég í blöðunum að verkkaupar og ráðgjafar þeirra eru farnir að tala um að staðbundin sérkenni eiga að hafa áhrif á úrfærsluna og byggingalistina í heild sinni.   Þeir segja að nauðsynlegt sé  „að hafa í huga staðbundin sérkenni sem geti kallað á að gerðar séu mismunandi kröfur um mismunandi útfærslur“, allt eftir staðaranda á hverjum stað. Þetta kom fram í Fréttablaðinu um helgina þegar kynntar voru hugmyndir teiknistofunnar ARKÍS um að byggja þjónustustöðvar fyrir ferðamenn víða um land.

Það er mikið fagnaðarefni að staðarandinn sé kominn á dagskrá. En betur má ef duga skal. Fólk er að átta sig á því að útlit bygginga ræðst fyrst og fremst af nærliggjandi umhverfi en ekki af einhverju öðru óskilgreindu.

Það er markmið með allri umræðu um arkitektúr að ná til leikmanna, fjárfestanna og notenda húsanna. Í umræðunni um arkitektúr og skipulag hafa sérfræðingarnir skrifað og talað eins og þeir séu að tala til annarra sérfræðinga, kollega sína.  Þeim hættir til að nota tungutak og tilvísanir sem fáir skilja.

Arkitektúr og skipulag er of mikilvælgur málaflokkur til þess að láta arkitekta og stjórnmálamenn eina um hann.

++++

Myndin efst í færslunni er millifyrirsögn úr Fréttablaðinu um helgina þar sem fjallað er um þjónustustöðvar sem hannaðar eru af ARKÍS og aðlaga á hverjum stað sérstaklega.

 

 

 

Það er mikið meira fjallað um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í blöðum og ljósvakamiðlum núna en bara fyrir 5-6 árum. Það var nánast ekkert fjallað um þessi mál á árum áður. Síðast í gærkvöldi var viðtal í aðalfréttatíma RUV um Hafnartorg þar sem talað var um sálræn áhrif bygginga og gatna. Þar var rætt við Pál Jakob Líndal sem hugsað hefur mikið um þessi mál. Páll bar líka saman nýju húsin milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu annarsvegar og Hafnartorg hinsvegar.

Það virðist vera Þannig að menn haldi að skipulag væri einhverskonar nátturulögmál eða náttúruhamfarir eftir atvikum og ekki væri annað að gera en að horfa á öll ósköpin og láta þau yfir sig ganga. En það er ekki þannig. Þetta eru allt mannanna verk og stjórnmálmenn og arkitektar þurfa að læra að hlusta á þá sem gera athugasemdir.  Ábyrgðaraðilarnir þurfa að læra að taka á móti athugasemdunum af virðingu og kurteisi.

Það er sérlega holt fyrir umræðuna þegar leikmenn taka þátt í henni með upplýstum hætti. Ég nefni sem dæmi, Guðmund Hannesson lækni og sem skrifaði um skipulag, Egil Helgason fjölmiðlamann sem er mjög áhugasamur og málefnalegur í þessari umræðu og svo Sigmund Davíð Gunnlaugsson f.v. forsætisráðherra sem hefur sínar skoðanir og lætur þær í ljós. Þetta frumkvæði leikmanna opnar tækifæri fyrir umræðuna. Ég verð hinsvegar var við að sumir sérfræðinganna setja nefið upp í loftið og finnst þessir álitsgjafar vera að fara inná sitt sérsvið. Ótrúlegt en satt. Fara jafnvel í fýlu.

Í nýlegri bloggfærslu Egils Helgasonar segir hann um húsin á myndinni að ofan: „Hér í Reykjavík erum við á gríðarlegu uppbyggingarskeiði. En hér gengur allt út á að byggja sem mest og sem hraðast, húsin beinlínis þrýstast upp úr jörðinni og varla að maður skynji að neitt sé hugsað um samræmi eða fagurfræði“. Þetta er rétt hjá Agli. Þessi hús við Hafnartorg skortir allar rætur í sínu umhverfi. Þau taka ekki tillit til staðbundinna sérkenna kvosarinnar í Reykjavík þó svo að ágæt greining á staðaranda Kvosarinnar liggi fyrir og um hann hafi verið rætt um áratugaskeið.

Þegar deiliskipulag við Austurhöfnina var kynnt komu nokkrar velrökstuddar athugasemdir um að skilgreina þyrfti betur ásýnd húsanna og gerð. Skipulagsyfirvöld tóku ekki tillit til athugasemdanna með þeim árangri sem blasir nú við. Það er því ekki hægt að halda því fram að hér sé skipulagsslys á ferðinni heldur líta þessi hús svona út af fullum ásetningi og einbeittum vilja deiliskipulagshöfunda, hönnuða og stjórnmálamanna.

Þessar gluggahliðar sem snúa að Tryggvagötu munu ekki blasa svona við í framtíðinni, sem betur fer.  Byggt verður fyrir framan þetta og nýjar stórbyggingar rísa sem vonandi verða með sterkri skýrskotun til staðarandans í miðborginni.

En eins og þetta blasir við núna er það eins og „hryggðar myrkrið sorgar svarta“. Húsin flétta sig ekki inn í borgarvefinn með nokkrum hætti og endurspegla ekki anda staðarins sem er dásamaður af öllum sem hann sækja. Þarna var tækifæri til þess að gera miklu betur.

++++

Það er mikill léttir að verða þess var að staðarandinn er loks að gera vart um sig í umræðunni. Reykjavík er sennilega stærsta, líflegasta og menningarlegasta sveitaþorp í heiminum. Stöndum vörð um hana þannig og byggjum alþjóðegann stórborgararkitektúr einhversstaðar annarsstaðar en í gömlu góðu Reykjavík.

++++

Að neðan eru tvær ljósmyndir af nýbyggingum milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu sem sverja sig í anda Kvosarinnar. Húsin eru teiknuð ag arkitektunum hjá THG og falla vel að því umhverfi sem fólk þekkir og líkar vel við. Hönnunin er i fullkomnu samræmi við helstu greiningar á staðaranda Kvosarinnar frá 1986 og sátt hefur verið um.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.11.2017 - 14:44 - 21 ummæli

Staðarval LSH – forsendur

Það vita ekki margir að á árunum 2001 -2008 voru skrifaðar fimm álitsgerðir af íslenskum og erlendum sérfræðingum sem allar, að einni undantekinni, komust að þeirri niðurstöðu að best væri að bygggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunn á nýjum stað. Þetta er vissulega þvert á það sem haldið hefur verið fram í opinberri umræðu af opinberum aðilum, sem segja að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“.

Séfræðingarnir sem sömdu álitin og skýrslurnar töldu hinsvegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja annað tveggja við Fossvog eða gamla við Landspítalann við Hringbraut. Sumir sögðu Hringbraut og aðrir Fossvog.

Niðurstaðan, að byggja við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur frá 2001-2024 sem kallað er AR2001-2024.  Í því skipulagi var vel séð fyrir umferðatengingum við spítalann við Hringbraut hvaðanæfa að og ekki hægt að gera athugasemd við staðsetninguna á þeim grunni.

Á skipulagsuppdrættinum AR2001-2024,  að ofan sést þetta greinilega.

  • Gert er ráð fyrir að þeir sem koma frá Vesturlandi og Mosfellsbæ komi um Sundabraut og aki Sæbrautina að göngum undir Þingholtin (Holtsgöng) og þaðan frá Hörpu og beint að spítaladyrunum. Að auki var gert ráð fyrir göngum  í Geldinganesinu vegna þessarrar vegagerðar.
  • Þeir sem koma frá Suðurlandi áttu að aka um Miklubraut og um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og áfram í göngum um Miklubraut  að spítaladyrununum.
  • Þeir sem koma úr Grafarvogi og Grafarholti áttu að leggja leið sína um Höfðabakkann að Reykjarnesbraut og þar undir Kópavogvið Mjódd, um mislæg gatnamót við Kringlumýrarabraut og í göngum undir Öskjuhlíð að spítaladyrunum.
  • Þeir sem koma frá Suðurnesjum og Hafnarfirði ækju svo Reykjarnesbrautina um önnur göng skammt frá Smáralind og þaðan undir Kópavog um mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og undir Öskjuhlíð að spítaladyrunum. Þessi tenging átti líka að þjóna íbúum efri byggðum Kópavogs og Breiðholts.
  • Og svo má ekki gleyma þeim sem kæmu með áætlunarflugi eða sjúkraflugi utan af landi. Þeir áttu að lenda á Reykjavíkurflugvelli og labba yfir Hringbrautina og þaðan inn á spítalann.
  • Til þess að liðka fyrir umferðinni á höfuðborgarsvæðinu eru svo ein 8-9 mislæg gatnamót fyrirhuguð víðsvegar í borgarlandinu á skipulagstímabilinu samkvæmt AR2001-2024.

Öll þessi umferðaúrræði lágu fyrir framan sérfræðingana sem unnu að staðarvalsgreinungu fyrir Þjóðarsjúkrahúsið á fyrstu árum aldarinnar og höfðu úrslita áhrif um staðsetninguna.  Ekkert þeirra er í kortunum í dag.

Því má með réttu halda fram að niðurstöður greininganna  sem gerðar voru fyrir áratug eða meira séu allar úreltar hvað aðgengi að spítalanum varðar að minnsta kosti.

Skipulagið AR2001-2024 var ekki gott nútímalegt skipulag og sem betur fer er búið að fella það úr gildi.  Skipulagsyfirvöld eiga mikið hrós skilið fyrir það afrek.  AR2001-2024 var algert einkabílaskipulag sem átti rætur sínar að rekja til úrelts hugsunarháttar sem var jafnvel versta aðalskipulag allra tíma í borginni (AR1962-1984).

Þegar nýtt frábært aðalskipulag AR2010-2030 tók gildi voru allar fyrrgreindar samgöngubætur lagðar af eins og sjá má á skipulagsuppdrættinum að neðan sem tók  gildi á vormánuðum 2013 eftir að hafa verið nokkur ár í vinnslu.

Eðlileg krafa hefði verið að gera nýja staðarvalsgreiningu í kjölfar þessarra miklu breytinga sem urðu í skipulagsumhverfinu.

Það er ekki bara þetta sem lesa má af uppdrætti AR2010-2030, sem hefur  breyst. Það er líka megin hugmynd aðalskipulagsins um þéttingu byggðar og stytta vegalengdir frá heimili að vinnustað og menningarstefna skipulagsins, áhersla á almenningssamgöngur, hugmyndin um vistvæna borg og sjálfbæra borgarhluta og margt fleira sem kallar á endurskoðun staðarvals vegna þjóðarsjúkrahússins.

Þeir sem komið hafa að staðarvalinu hafa ekki talið ástæðu til þess að skoða málið að nýju í ljósi þessarra miklu breytinga. Þeir  hafa ekki ljáð hugmyndinni um endurskoðun staðarvalsins tækifæri þó eftir því hafi verið leitað undanfarin 7-8 ár af mikilli festu. Þeir verja ekki lengur staðsetninguna með skipulagslegum rökum heldur með því að segja að það sé of seint að skoða málið í ljósi nýrra og annarra aðstæðna í skipulaginu.

Ég bið lesendur endilega að skoða kortin tvö vel og bera þau saman og spegla ákvörðunartökuna um staðsetningu spítalans við Hringbraut í AR2001-2024 og aftur í kortinu af AR2010-2030.  Og veltið málinu fyrir ykkur.

 

+++++

ÝTAREFNI

++++

Hérað neðan  er slíðra frá nýlegri kynningu Landspítalans á byggingu spítalans við Hringbraut þar sem því er haldið fram að Hringbraut hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum. Þessu hefur verið haldið fram núna í bráðum áratug þó allir geti séð sem kynna sér frumgögnin að þetta er ekki rétt. Gerð er stuttlega grein fyrir þessu hér að neðan fyrir samfélagslega ábyrga og áhugasama lesendur.

 

Hérað neðan er önnur slíðra frá nýlegri kynningu Landspítalans þar sem taldar eru upp þrjár skýrslur um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.

Það sem vekur sérstaka athygli er að efst er vitnað í skýrslu erlendra ráðgjafa frá árinu 2001 og sagt að þeir leggi til að byggt verði til framtíðar við Hringbraut. Samkvæmt skýrslunni sem birt er hér að neðan er þetta ekki rétt. Þvert á móti er lagt til í skýrslu Ementor frá árinu 2001 að byggt verði við sjúkrahúsið í Fossvogi ef ekki eru tök á að velja „augljósann“ besta kost og byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjumn stað. Farið er yfir allar þessar skýrslur hér í lok þessarrar færslu. Af hverju halda menn þessu fram þegar fyrir liggur að niðurstaða skýrslunnar er allt önnur en kemur fram á kynningu Landspítalans?

 

Vegna staðhæfingar embættismanna um að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“ og ábendingar minnar um að hún sé að líkindum ekki rétt er sjálfsagt að birta þær álitsgerðir sem vitnað er í hér.

Þeir sem vilja kynna sér málið af frumgögnum geta kynnt sér skýrslurnar hér með því að smella á tenglana sem eru rauðir. Þeir mun að lestrinum loknum vera ljóst að flökkusagan um að allar skýrslur og álitsgerðir hafi bent á Hringbraut, sé röng.

Það er rannsóknarefni að finna út úr því hvernig á þessu standi, hver ber á þessu ábyrgð og í framhaldinu hvaða áhrif þessi flökkusaga hefur haft á framvindu málsins undanfarin 10 ár.

++++

Hér koma slóðir að skýrslunum og álitsgerðunum með örtuttum tilvitnunum og skýringum.

++++

Skýrsla Ementors, okt. 2001, “Landspitali – Functional development plan”.  Fossvogur kemur betur út en Hringbraut sem staðsetning fyrir uppbyggingu nýs spítala eins og lesa má hér undir fyrirsögninni 13.3.3. Niðurstöður.:

Ementor ráðleggur í skýrslu sinni að best væri að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað sem hefur afgerandi kosti og áréttar.:

Hvernig geta embættismenn svo haldið því fram að „Hringbrautin hafi alltaf haft vinninginn í staðarvalsgreiningum“ þegar þetta liggur fyrir?. Ementor telur líka að nálægð við HÍ  skipti ekki miklu máli enda vitum við að nú er verið að byggja háskólasjúkrahús víða þar sem enginn er háskólinn annar en spítalinn sjálfur.

++++

Skýrsla nefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um Framtíðaruppbygging og skipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss, janúar 2002.  og  Skýrsla nefndar um uppbyggingu Landspítala-háskólasjúkrahúss, apríl 2004 sem samsett er að mestu af sömu aðilum og sömdu skýrsluna árið 2002. Eðlilegt er að líta á þessar skýrslur sem eina og þá síðari sem framhald eða úrvinnslu þeirrar fyrri og er niðurstaðan í samræmi við það og lagt er til að byggt verði við Hringbraut.

Í þessari skýrslu var bætt við tveim breytum frá skýrslu Ementor. Þ.e.a.s. að nálægðin við háskólann væri mikilvæg sem Ementor taldi ekki vera og að þjóðarsjúkrahúsið mundi styrkja miðborgina sem var í mikilli niðurnýðslu þarna í upphafi aldarinnar. Eðlilega höfðu þessi tvö atriði áhrif til handa Hringbraut.

++++

Álit hjúkrunar- og læknaráðs LSH, febrúar 2004. “Besti kosturinn er án efa að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni, en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir” Hér er úrdráttur úr álitsgerðinni:

++++

Álit stjórnar læknaráðs LSH til Alþingis, 20. apríl 2004, þar sem læknaráð telur farsælast að nýtt sjúkrahús verði reist frá grunni

Þessi álitsgerð var gefin út tveim árum eftir að 2002 skýrslunni var skilað og er lagt til að „Endurskoðað verði hvaða staðsetning er hentugust fyrir framtíðaruppbyggingu“.

Á öðrum stað í álitinu stendur „Sjórn læknaráðs telur farsælast að nýtt sjúkrahús verði reist frá grunni. Ef Alþingi telur að ekki sé unnt að fara í svo viðamikla framkvæmd með hraði verður (neyðarlausn) að skoða aðra möguleika, þar sem eldri byggingar yrðu nýttar að miklu leyti og tengdar nýbyggingum“

++++

Skýrsla nefndar um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnnana, febrúar 2008 Þetta er í raun ekki staðarvalsskýrsla heldur yfirferð á þeirri vinnu sem áður hafði farið fram. Einkum skýrslurnar sem fyrr er getið frá 2002 0g 2004 um framtíðaruppbyggingu spítalans við Hringbraut. Þarna er einkum verið að spegla staðarvalið í AR2001-2024. Skýrsluhöfundar árétta samgöngurnar og leggja áherslu á Hlíðarfót og göng undir Öskjuhlíð alla leið suðurfyrir eða austurfyrir Kópavog verði komin áður en nýr spítali verður tekinn í gagnið. Það er eins gott að byrja gangagerðina strax í dag ef þetta á að ganga eftir. Þessar forsendur breyttust allar með tilkomu AR2010-2030 og því eins og margoft hefur komið fram úrelt.

+++

Það má vera öllum augljóst sem kynna sér málið að grundvöllur fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut er brostinn og að fylgismenn staðsetningarinnar þar hafa haldið fram vafasömum fullyrðingum um þær skýrslur og álitsgerðir sem gerðar hafa verið um staðsetninguna. Leiða má líkur að því að fullyrðingar, einkum embættismanna, hafi afvegaleitt umræðuna undanfarin ár. Fullyrðingarnar þeirra hafa haft áhrif á hina politísku umræðu þar sem stjórnmálamenn hafa eðlilega lagt traust sitt á embættismennina og þá sérfræðinga sem að málinu hafa komið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.10.2017 - 16:51 - 6 ummæli

Búnaðarbankinn- skrásetning fyrir breytingar

Það er saga að segja frá þessum myndum sem hér fylgja. Þannig var að Búnaðarbankinn hafði ákveðið að breyta afgreiðslusalnum í Austurstræti nokkuð. Það var vegna þess að þarna árið 1997, fyrir 20 árum, hafði bankinn ákveðið að breyta afgreiðslusalnum mikið enda bankastarfssemi allt önnur en á árunum fyrst eftir, stríð þegar bankinn var byggður.

Bankaafgreiðslunni hafði reyndar verið breytt smávægilega nokkrum sinnum áður. Þá í samstarfi við Gunnlaug Halldórsson arkitekt og heiðursfélaga AÍ.

Þegar ekki var lengur hjá því komist að breyta salnum til að mæta breyttri bankastarfssemi, mati bankans. Arkitektarnir sem höfðu umsjón með húsinu töldu rétt að láta skrá rýmið með ljósmyndum áður en breytingin yrði gerð. Teikningar voru fyrir hendi. Fórum þeir þess á leit við bankann að fenginn væri sérfræðingur í ljósmyndun húsa til verksins og taka af þessu myndir áður en upphaflega innréttingin yrði rifin. Það var alls ekki auðsótt, en tókst að lokum. Ljósmyndarinn Guðmundur Ingólfsson vann sitt verk algerlega á fullkominn hátt og  er hluti þeirra birtar hér með þessari færslu með hans leyfi.

Ég man að þrátt fyrir góða vinnu ljósmyndarans þótti bankanum þetta vera óþarfa vinna. En nú þökkum við fyrir að þess skrásetning með ljósmyndum hafi átt sér stað.

Ég hef haldið því fram opinberlega bæði í greinum og á ljósvakamiðlum að það ætti að vera jafn erfitt að fá að rífa gamalt hús og að byggja nýtt þegar kemur að stjórnkerfinu. Það ætti að mæla öll hús nákvæmlega upp og teikna áður en þau eru rifin og láta skrásetja þau af fagljósmyndara eins og í þessu tilfelli. Ég þekki mörg hús ´+i Reykjavík sem hafa verið rifin og engar teikningar eða ljósmyndir eru til af. Þetta er nánast kæruleysi.

Einsg að framan er getið teiknaði  Gunnlaugur halldórsson Búnaðarbankabygginguna í Austurstræti, sem er einstök og með því allra besta sem byggt var á Norðurlöndum um þær mundir. Gunnlaugur stofnaði til merkilegs samstarfs við skólafélöga sína frá Akademíunni, listamönnunum Sigurjóni  Ólafssyni og Jóni Engilberts Sigurjón gerði víravirkið sem sést á hljóðdempandi vegg bankans og Jón Engilberts málaði málverkið þar beint á móti.  Bæði verkin sóttu innblástur frá íslenskum landbúnaði.

Innréttingarnar vann Gunnlaugur ásamt Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt, sem seinna varð þekktur arkitekt. Hinn heimsfrægi danski húsgagnaarkitekt, Börge Mogensen kom einnig að verkinu og hannaði ýmsa lausamuni sérstaklega fyrir bankann.

Pétur H. Ármannsson segir um húsið í bók sinni um Gunnlaug að Búnaðarbankahúsið sé „tímamótaverk í Íslenskum arkitekt´´ur, ekkin sæíst vegna þess hversu heilsteypt modernistisk stílhugsun arkitektsins var, frá meginhugmynd niður í smæstu útfærsluatriði í búnaði, skiltum og innréttingum.“

Nú er þarna lundabúð.


Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.10.2017 - 15:58 - 4 ummæli

BORGIN – heimkynni okkar.

 

 

Ég var rétt í þesu að ljúka við einstaka bók um borgir og borgarskipulag: „Borgin – heimkynni okkar“. Bókin er skrifuð af heimspekingi og/eða bókmenntafræðingi annarsvegar og verkfræðingi hinsvegar.

Að bókinni komu hvorki arkitektar né skipulagsfræðingar.

Þó eða kannski einmitt vegna þess að höfundarnir koma úr tveim ólíkum áttum verður bókin sérlega áhugaverð og laus við kreddur og klisjur sérfræðinganna. Það er líka nokkuð víst að ef verkfræðingurinn hefði staðið einn að verkinu hefði það orðið annað og sama má segja um ef heimspekingurinn hefði einn skrifað þetta hefði bókin orðið enn önnur.

Helsti styrkur bókarinnar felst einmitt í því að þarna mætast verkfræðin og heimspekin þannig að maður tekur ekki eftir því.  Allt fléttast saman í eina rennandi heild þar sem skrifað er á lipru máli sem allir skilja.

Þetta leiðir hugann að því að oft eru bestu og áhrifamestu greinarnar og aðgerðirnar í borgarmálum einmitt komnar frá leikmönnum. Eitt frægasta og áhrifamesta dæmið er Jane Jacobs sem var aðgerðarsinni í New Yourk á sjötta áratug  síðustu aldar.  Það er nokkuð fjallað um hana í „Borgin – heimkynni okkar“. Jacobs skrifaði fræga bók sem hafði mikil áhrif og hét „The Death and Life og Great American Cities“.

Ég fyrir minn hlut las bókina nánast eins og spennusögu þar sem átökum milli hugmynda er lýst á fordómalausan hátt og út frá mismunandi sjónarmiðum. Þeim er lýst þannig í bókinni að maður finnur til með þeim öllum eins og um persónur í skáldsögu væri að ræða. Maður öðlast skilning á þeim og uppruna þeirra og finnur fyrir nærveru þeirra og hugarþeli. Maður skilur líka af hverju hugmyndirnar urðu til og af hverju þær nutu hylli og maður öðlast skilning á því hvers vegna þær urðu að láta í minni pokann.

Bókin fjallar að mestu um borgirnar undanfarna rúmu öld með garðborgunum, modernismanum í skipulagi, new towns og þar fram eftir götum og alltaf er Reykjavík nærri þó hún sé ekki alltaf sögusviðið.

Bókin er skrifuð af Hrund Skarpéðinsdóttur umferðaverkfræðingi sem starfar í Svíþjóð og Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Það er aldeilis ótrúlegt hvað allur textinn er lipur og áreynslulaus og að ekki er nokkursstaðar að finna að þarna haldi stjórnmálamaður og verkfræðingur á penna. Þetta er allt mjúkt og auðskiljanlegt fyrir leika sem lærða. En það er eimnmitt oftast galli á skrifum sérfræðinga að þeir ná ekki athygli leikmanna. Þeir eru of uppteknir af sjálfum sér. T.a m. skrifa arkitektar og tala oftast eins og þeir séu að tala við aðra arkitekta. Sama á við um verkfræðinga og hagfræðinga.

Svo er annar áberandi kostur við bókina sem er að í henni eru engar myndir sem gerir það að verkum að lesandinn verður gagnvirkur eins og verið væri að lesa skáldsögu. Lesandinn þarf að búa til sviðsmyndirnar sjálfur. Þetta er óvenjulegt þegar um er að ræða bók af þessu tagi.

Ég á von á því að þessi bók verði mikið lesin og að stofnaðir verði leshringir í Háskolanum á Hvanneyri, Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands og jafnvel Listaháskólanum ef menn eru eitthvað að hugsa um skipulagsmál á arkitektúrdeildinni þar.

++++

Þegar ég var við nám í byggingalist og skipulagsfræðum fyrir 40-50 árum í Kaupmannahöfn óttuðust við að einkabíllinn mundi drepa borgirnar. Einkabíllinn ógnaði í raun og veru borgunum eins og flæestir vita. Við trúðum því að svo mundi fara. Ég hélt þessu fram þá og hef gert fram á okkar dag.  En þetta er allt „að reddast“ sýnist mér.

Dæmi um þetta viðhorf kom fram í tónlistinni sem við spiluðum í þá daga. Við vorum hippar og sungum með Dylan af plötunni Freewheeling frá 1963:

„I don´t have no sportscar

And I don´t even care to have one

I can walk any time around the block“

 

Og Kim Larsen og félagar hans í Gasolin óttuðust eins og við hin þarna uppúr 1970, að einkabíllinn mundi drepa borgirnar og við sungum með í laginu „Stakkels Jim“ sem sat einn eftir í borginni eftir að einkabíllinn var búinn að drepa hana og hugsaði til baka.:

Der lød en stille hvisken

Og tiden gik i stå

Den dag de stilled bilerne

Og gik bort på må og få

Nu vandrer de på sletterne

Og stammens gamle mænd

De synger op til stjernerne:

Lad det aldrig ske igen

På gaden i den døde by

Der sidder Stakkels Jim

I nattens mørke drømmer han

Om den tid, der var engang

++++++

Hér er slóð að lagi Gasolin. Myndefnið sem fylgir er svoldið í anda friðarsinnanna á áttunda áratugnum.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.10.2017 - 19:41 - 9 ummæli

Landspítalinn – Glæsilegar nýbyggingar

Hönnunarteymið sem varð hlutskarpast þegar hönnun meðferðarkjarna Landspítalans var boðið út er samsett af einhverjum færustu arkitektum landsins. Þetta eru arkitektastofurnar Basalt og Hornsteinar.  Nýlega birtust á netinu og í fyrlgiblaði Morgunblaðsins fyrstu tölvumyndir af mannvirkinu. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta lítur mjög vel út. Hönnuðum hefur tekist að skapa létta og fallega byggingu með formi og efnisvali sem virðist draga úr mikilli hæð og umfangi hússins. Þetta kemur glöggt fram á hjálögðum myndum.  Arkitektarnir hafa að sögn lagt mikla áherslu á flæði fólks innan meðferðakjarnans sé þannig að auðvelt sé að rata um þessa miklu byggingu sem verður eflaust mjög starfræn. Önnur mikil áskorun er að skapa sveigjanlega byggingu sem samt á að standast meiri kröfur en aðrar byggingar þegar kemur að jarðskjálfta.  Mikil áhersla er lögð á dagsbirtu innan byggingarinnar sem hlýtur að vera vandasamt í eins djúpu húsi og hér um ræðir. Þetta lítur allt mjög vel út og lofar góðu.

+++++

Fallegar og vel hugsaðar byggingar skipta miklu máli hér eins og alls staðar annars staðar. En það er sama hversu vel þetta er allt saman hannað, staðsetningin verður ekki góð þess vegna. Staðsetningunn verður ekki bjargað með fallegum húsum. En það hjálpar. Og það er engin ástæða til þess að halda að sjúkrahús á nýjum og betri stað verði eitthvað síðri, hvað ásýndina varðar, en  hér er gefið fyrirheit um. Síður en svo.

 

++++

Það er öllum ljóst sem kynnt hafa sér málið að allt stefnir í að spítalinn verði byggður á röngum stað sem mun valda óþarfa samfélagslegu tjóni.  Ég veit ekki hvort fólk hefur áttað sig á því að þegar byrjað verður á meðferðarkjarnanum sem fallegu myndirnar tvær að ofan eru af,  þarf að leggja niður milli 120-150 bifreiðastæði sem nú eru þar sem byggingin á að rísa. Þetta er afar óheppilegt vegna þess að ljóst er að það þarf að útvega bifreiðastæði fyrir nokkur hundruð iðnaðarmenn sem munu starfa við bygginguna auk vinnuskúra og þ.h. Þetta er viðbót við núverandi bílastæðaþörf sem er af skornum skammti.

Að neðan er tafla úr gögnum deiliskipulagsins sem sýnir að gert er ráð fyrir rúmlega 53 þúsund fermetra bifreiðastæðahúsum á lóð spítalans. Þetta er gríðarlega stórara byggingar sem helst þyrfti að byggja áður en hafist er handa við meðferðarkjarnann. Biílastæðahúsin eru líklega ekki mikið minni en Smáralindin í Kópavogi og munu hýsa um 2000 bílastæði neðanjarðar og ofan. Líklega hefði verið skynsamt að byrja á að leysa bílastæðavandann áður en hinar eiginlegu byggingaframkvæmdir hefjast við meðferðarkjarnan.

++++

Þegar horft er á myndina að ofan sér maður strax að þessi mikla uppbygging á þessum stað fellur illa að því byggðamynstri sem þarna er. Í raun er vandséð að deiliskipulagið sé í samræmi við Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð frá 2007 og AR2010-2030.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir um góða hönnun að hún sé „nátengd stað og notkun og feti varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni.“Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta séu grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að „ekki sé heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Vandséð er hvernið myndin að ofan stenst þessar kröfur.

 

Á myndinni að ofan sést að fyrirhugaður meðferðarkjarni er  yfir þeim mörkum sem sett er í AR2010-2030 hvað húsahæð snertir. En þar segir að hús innan gömlu Hringbrautar skulu ekki vera hærri en 5 hæðir sem venjulega er um 15 metrar. Rétt að benda á að salarhæð í meðferðarkjarnanum er verulega mikið hærri en í hefðbundnum húsum sökum starfseminnar og tæknibúnaðar. Meðferðarkjarninn er samkvæmt deiliskipualagi 25,4 metra hár sem samsvarar venjulegu 8 hæða húsi þó hann sé teiknaður sem 6 hæðir.

++++++

Að neðan kemur svo mynd af Keldnasvæðinu þar sem fyrirhuguð Borgarlína mun liggja um vonandi innan fárra ára. Þetta land er í eigu ríkisins og það er ljóst að spítalinn mun fara vel þarna, styrkja Borgarlínuna og draga verulega úr umferð einkabíla.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.10.2017 - 08:58 - 12 ummæli

Eru arkitektar misnotaðir?

Það veit það enginn hversu mikil vinna liggur að baki einnar samkeppnistillögu arkitekta, nema að hafa reynt það á sjálfum sér.

Venjulegur vinnustundafjöldi að baki hverrar tillögu er milli 400 og 600 tímar. Þessu til viðbótar kemur prentunarkostnaður  og fl. sem eru hrein útgjöld upp á milli 50-100 þúsund krónur á hverja tillögu.

Ég var í fjölskipaðri dómnefnd í arkitektasamkeppni fyrir nokkru þar sem komu 64 tillögur. Ætla má að vinnuframlagið hafi verið samtals um  32.000 stundir vegna allra tillagnanna. Alla þessa vinnu má  verðleggja  upp á tæpann hálfan milljarð króna ef  innheimt væri samkvæmt algengum tímataxta.

Niðurstaða fékkst í samkeppninni og var almenn ánægja með hana.

En að niðurstöðunni fenginni var verkið afhent einhverjum arkitekt sem ekki var einu sinni þátttakandi í samkeppninni. Hvaða arkitekt mundi slá hendinni á móti slíku boði?

En arkitektar létu þetta yfir sig ganga möglunarlaust eins og ekkert væri.

Þetta var samkeppni um hótel við Ingólfstorg/Víkurgarð og Austurvöll ásamt útfærslu borgarrýmanna, Víkurgarð og Ingólfstorg.

Í samkeppninni var mikil áhersla lögð á borgarrýmin og þess vegna var landslagsarkitekt í dómnefndinni. Þetta var fjölskipuð dómnefnd með sjö dómurum. Þar af þrem borgarfulltrúum og aðila frá Listaháskólanum. Allt mjög metnaðarfullt.

Það komu eins og áður sagði 64 mismunandi hugmyndir um framtíð Vikurgarðs.  Sumar aldeilis ágætar.

Nú 5 árum síðar dettur borginni í hug að auglýsa aftur samkeppni um Víkurgarð. Líklega til þess að leysa vandamál sem upp hefur komið vegna málefnalegrar garnrýni á fyrirhuguðum framkvæmdum þar.

Í mínum huga er þetta alger veruleikafirring. Fyrir mér  liggur beint við að endurmeta hinar 64 tillögur af tilliti til nýrra sjónarmiða varðandi Víkurgarð og fela þeim sem skiluðu bestu tillögunni verkið í stað þess að etja arkitektastéttinni allri aftur út á foraðið vegna málsins.

+++++

Tilgangur með arkitektasamkeppnum er í aðalatriðum tvíþættur. Annarsvegar er um að ræða hugmyndaleit og hinsvegar leit að arkitekt til þess að taka að sér verkið.

Það gerist oft eftir að dómnefnd kemst að niðurstöðu að það verða breytingar á  aðstæðum sem bregðast þarf við. Þetta er mjög algengt. Ég nefni í þessu sambandi samkeppni um skrifstofuhús Alþings fyrir svona tveim áratugum. Fyrstu verðlaun hlaut Sigurður Einarsson arkitekt hjá Batteríinu ásamt félögum sínum. Það er skemmst frá því að segja að ekkert var notað af hugmyndum Sigurðar í samkeppninni í endanlegri útfærslu.  En helsti árangur samkeppninnar var að Alþingi fann arkitekt sem var hæfur og hafði áhuga á að taka að sér verkið. Það gerði hann og og tókst það með miklum ágætum.

+++++

Nú stefnir Landsbanki Íslands á að útskrifa samkeppni meðal arkitekta um höfuðstöðvar sínar í miðborginni í annað sinn á tæpum áratug.

Að mínu mati er þetta óþarfi og ósanngjarnt gagnvart arkitektastéttinni og öllum þeim sem tóku þátt í samkeppninni fyrir stuttu. Sérstaklega fyrstuverðlaunahöfunum sem eru með þeim þekktustu í faginu í heiminum í dag. Sigurvegarinn var Bjarke Ingels Gruop í Danmörku ásamt íslensku arkitektunum hjá Arkiteo. Það er sjálfsagt að leita beint til sigurvegaranna í fyrri samkeppninni og fela þeim að aðlaga verk sitt að nýjum aðstæðum og nýjum þörfum líkt og gerðist með Alþingi og fl. Það er að mínu mati ósanngjarnt að auglýsa nýja samkeppni um þetta sama verk.

Arkitektar ættu að sýna stéttvisi og standa með vinningshöfum í afstaðinni samkeppni um verkið og sannfæra útbjóðanda um að semja við BIG og Arkiteo á grundvelli þeirrar vinnu sem þegar hefur veripð unnin.

++++

Þriðja dæmið sem ég vil nefna og nú er á döfinni er samkeppni um nýja umferðamiðstöð við Hringbraut. Borgin ákvað nú í sumar, ef marka má Morgunblaðið um helgina, að etja arkitektum út í samkeppni um þetta mikla og mikilvæga mannvirki.

Þetta er merkilegt verkefni og í raun sjálfsagt að setja það í opna samkeppni þegar að því kemur. En málið er alls ekki komið það langt að tímabært sé að leggja það á herðar arkitekta að etja kappi um þetta.

Í fyrsta lagi er hin ágæta Borgarlína á frumstigi. Það eru enn að minnstakosti 3 ár þar til þær áætlanir verða komar á beinu línuna og tímabært að leggjast í hönnunarvinnu vegna aðalskiptistöðvarinnar. Í öðru lagi er fluglestin enn á hugmyndastigi og engan vegin ábyrgt að gera ráð fyrir henni enn sem komið er í samkeppni um húsið. Í þriðja lagi er það flugvöllurinn, sem er satt best að segja í vindinum og ekki vitað hvort hann verði lagður niður eða nýr byggður í hans stað annarsstaðar.  Og í fjórða lagi er ekki búið að tryggja fjármagn fyrir nokkru af  þessu, hvorki Borgarlínunni,  fluglestinni eða nýjun flugvelli á nýjum stað ef það verður ofaná. Það er heldur ekki búið að fjármagna sjálfa Umferðamiðstöðina nýju sem keppa á um og óvíst er hvernig hún á að þjóna öllu þessu.

Vissulega er hægt að vera með einhverjar upplýstar ágiskanir um þetta allt en það er óábyrgt að leggja alla þess vinnu á arkitekta á þeim grundvelli.

Það liggur ekkert á að setja þetta í samkeppni. Fyrst þarf að ljúka þeirri vinnu sem fyrr er getið.

+++

Eru arkitektar misnotaðir eða láta arkitektar misnota sig?

Eða er þetta bara allt í lagi?

+++

Hér strax að neðan eru tvær myndir sem sýna tillögu Norbert Grabensteiner að Víkurgarði sem hann lagði með tillögu sinni í samkeppni um Vikurgarð, Ingólfstorg og Austurvöll ásamt húsunum þar á milli árið 2012. Um tillöguna sem er byggð á vönduðum hugmyndagrunni má lesa nánar hér:

 

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/08/30/vikurgardur-tillaga-grabensteiner/

 

 

Eins og sjá má af hugmyndum Grabensteiner þá er tekið með miklum þokka og hugmyndaauðgi á þessum helga stað.


Að Lokum er svo ein mynd frá fyrstuverðlaunatillögu af  höfuðstöðvum Landsbankans sem haldin var fyrir tæpum 10 árum. Vinninghafinn er einn færasti og þekktasti arkitekt veraldarinnar í dag, daninn Bjarke Ingels sem vann keppnina í félagi við  íslensku teiknistofunni Arkiteo.  Það væri fengur fyrir Reykjavíkurborg og íslendinga alla að fá byggingu eftir þennan merka arkitekt byggða hér í Reykjavík.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is