Föstudagur 1.9.2017 - 11:03 - 6 ummæli

Hver á Víkurgarð?

+++++

Hjörleifur Stefánsson arkitekt spyr í ágætri grein í Fréttablaðinu í morgun, Hver á Víkurgarð?

Hann veltir fyrir sér hagsmunagæslu í miðborginni og bendir á það sjálfsagða að Reykjavíkurborg ætti að vera gæsluaðili hins almenna borgara og tryggja að byggingaráform gangi ekki á umhverfisgæði borgarinnar og segir „Það sem gerir Reykjavík að áhugaverðum stað lætur undan skref fyrir skref“

Þetta er alveg rétt hjá Hjörleifi.

Ég mæli með þessari grein sem er hægt að lesa hér ef tvísmellt er á myndina að ofan.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.8.2017 - 20:24 - 12 ummæli

„Þola ný hús ekki að standa úti?“

Myndin að ofan er af fyrirsögn í grein sem birtist í norskum fjölmiðlum nýlega. Fyrirsögnin er i nokkru samræmi við umfjöllunarefni doktorsritgerðar Ævars Harðarsonar arkitekts sem fjallaði um galla í nútímalegum húsum.

Norðmenn spyrja sig hvort athyglin undanfarna áratugi hafi beinst um of að umhverfisvænum byggingaefnum og baráttunni við að spara orku með aukinni einangrun og vélrænni loftræstingu. Þeir telja að markmiðin séu ágæt en afleiðingin sé slæm. Þetta hafi valdið auknum raka með myglu og og fleirum byggingagöllum sem valda mönnum áhyggjum víðast hvar í nútímalegum byggingum.

Þeir staðhæfa og alhæfa um leið og segja bara að nútíma byggingar þoli ekki að standa utandyra!

Í gamla daga þornuðu útveggirnir þegar húsin voru hituð upp vegna þess að einangrunin var minni. Tækniframfarir með vélrænni loftræsingu og lokuðum gluggum sé líka hluti af vandanum. Það sé meiri raki í húsunum nú en áður. Fólk fari oftar í bað. Þvotturinn sé þurrkaður í vélum og það er vaskað upp í vélum. Fólk noti miklu meira vatn innandyra en áður og að fólk svitni meira vegna þess að það sé heitarar í húsunum.

Þeir segja líka að þegar menn hættu að fernissera og mála með olíumálningu hafi rakinn innanfrá átt greiðari aðgang að köldum útveggnum. Timburfræðingurinn Lone Ross Gobakken hjá NIBIO segir að málningin sem við notum í dag sé verri en sú sem við notuðum fyrir 1970. Þetta á við bæði þá málningu sem notuð er innandyra og utandyra.

Það er til margs að líta og menn eru í raun nánast ráðþrota í þessum efnum. Áður nefndur Ævar Harðarsson veltir fyrir sér í doktorsritgerð sinni hvort gamli íslenski útveggurinn sé kannki besti veggurinn. Annar doktor í fræðunum og sérfræðingur í eðlisfræðilegum vandamálum húsa, Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur, er á öðru máli og segir gamla íslenska vegginn gallaðann. Báðir þessir sómamenn færa ágæt rök fyrir máli sínu en eru ekki sammála, sem sýnir að þetta er ekki einfalt mál.

Orkuveituhúsið.

Síðastliðinn föstudag var haldinn fréttamannafundur þar sem sagt var frá  miklum göllum í nýbyggingu Orkuveitunnar. Gallarnir eru svo milkir að menn telja jafnvel að það verði hagkvæmast að láta rífa húsið samanber úrklippu frá mbl.is að neðan.

Ég hef fylgst með umræðum í fjölmiðlum í dag og sé að umræðan er að mestu á algerum villigötum. Menn eru að mestu í einhverjum skotgröfum og tala um  pólitísk afskipti og velta fyrir sé hvaða stjórnmálaflokkur eða stjórnmálamaður beri nú ábyrgð á þessu.

Það er ekki mikið talað í fjölmiðlum um útfærslur og lausnir sem þarna voru notaðar. Mönnum hlýtur að vera ljóst hvað er að þó sá sem ber ábyrgðina sé ekki fundinn. Menn eru bara ekkert að lýsa því i umræðunni.

Auðvitað bera stjórnmálamenn ábyrgð á því að ráðist var í þessa vitlausu framkvæmd á þessum vitlausa stað. Líklegt er að gamla hús Rafmagnsveitu Reykjavíkur á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar hefði getað fullnægt þörfinni með einhverri smávægilegri viðbyggingu.

En stjórnmálamenn bera ekki ábyrgð á byggingargöllunum. Útfærslurnar og verklagið hefur líklega aldrei verið lagt á borð stjórnar Orkuveitunnar til samþykktar. Ráðgjafarnir hafa sinnt því starfi.

Ábyrgð á göllunum þarf að leita hjá fagmönnunum; ráðgjöfunum, verktökunum, vottunaraðilum og byrgjunum eða framleiðendum byggingaefnanna og eftirlits og úttektaraðilum. Ef faglega var að byggingunni staðið eru allir verkferlar skráðir. Allar útfærslur voru  eflaust yfirfarnar af hönnuðum eða umsjónarmönnum, eftirlitsaðilum og úttektaraðilum bæði opinberum og á þeim sem ráðnir voru á vegum verkkaupa.

Nú segir einhver aðili málsins að hann beri enga ábyrgð vegna þess að honum hafi verið falið að setja upp veggi sem Orkuveitan lagði til.  Það reyna auðvitað allir að benda á einhvern annan. Þetta fyrrir þá ekki ábyrgð. Allt húsið er byggt samkvæmt einhverjum fyrirmælum sem margir koma að. Viðkomandi þarf að sýna að hann hafi sett vegginn upp samkvæmt fyrirmælum framleiðanda. Eftirlitsaðilar á vegum verkkaupa, hönnuða eða opinberra aðila hafa tekið út verkið og samþykkt það. Og fyrirmæli framleiðanda og útfærsla í öllum smáatriðum hlýtur að hafa verið skoðuð af ráðgjöfum Orkuveitunnar.

Þegar þetta verður allt skoðað kemur eflaust í ljós að ábyrgðin er mjög dreifð.

En ég er þess fullviss að það ber enginn flokkur eða pólitískur einstaklingur í stjórn Orkuveitunnar ábyrgð á þeim hugsanlega tæknilegu göllum sem þarna er að finna.

Doktorsritgerð Ævars Harðarssonar:

 

http://ntnu.diva-portal.org/smash/record.jsf?pid=diva2:572324

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.8.2017 - 22:20 - 7 ummæli

Hlemmur Mathöll

Það er stórviðburður í Reykjavík n.k. laugardag þegar Hlemmur Mathöll opnar.

Margir hafa átt sér draum um matarmarkað í Reykjavík. Menn hafa velt þessu fyrir sér um áratugaskeið.

Arkitektarnir Gestur Ólafsson og Kristinn Ragnarsson settu einn slíkan á stofn á árunum fyrir 1980 og ráku með miklum ágætum í hátt í áratug. Markaðurinn var í rauðum tjöldum á Lækjartorgi. Hann var opinn á föstudögum allt árið og þar var selt grænmeti og fleiri afurðir beint frá framleiðanda. Maður kom þarna iðulega við til þess að kaupa allskonar ferskt grænmeti.  Ekki veit ég af hverju þetta lagðist af. Líklegt er að það hafi komið einhver þreyta í frumkvöðlana eða að reglugerðafargan hafi náð til þeirra og lagt steina í þeirra götu eins og oft vill verða þegar skortur er á lausnamiðuðum embættismönnum. Kannski var það söluskatturinn eða einhver bókhaldsmál sem lögðu steina í götu frumkvöðlanna.

Nú á laugardaginn opnar matarmarkaður formlega á Hlemmi við Rauðárárstíg milli Hverfisgötu og Laugavegar.

Hann verður rekinn í fyrrum strætisvagnamiðstöð  sem þarna er sem teiknuð var af Gunnari Hanssyni. Húsið þótti sérlega nýstárlegt á sínum tíma og fékk menningarverðlaun DV fyrir frammúrskarandi byggingalist. Húsið er úr gleri og stáli með sérlega vönduðu leirflísagólfi. Endurhæfing hússins fyrir nýja starfssemi hefur verið á höndum Tripolí arkitekta og dóttur Gunnars Hanssonar, Helgu Gunnarsdóttur arkitekts og eflaust fleirum.

Þrátt fyrir nýja og óskylda notkun er engu raskað í grunnhugmynd hússins. Þetta er enn ein staðfesting á því að óþarfi er eð rífa hús þó starfsemi og ýmsar kröfur líðandi stundar eða tíðarandinn breytist.

Um tíma safnaðist í húsinu og næsta nágrenni ógæfufólk sem gekk gjarna undir nafninu „Hlemmarar“.  Húsið fékk óorð á sig og þótt slæmt. Margir vildu rífa þetta fína hús og sögðu það ljótt sem það var aldrei.  Ég á von á að þetta eigi eftir að breytast þannig að Hlemmarar verði samheiti yfir matgæðinga og að menn eiga eftir að verða sammála um að húsið er fallegt.

Ég kíkti við þarna í dag og varð mjög ánægður. Þetta er allt fyrsta flokks og byggir nokkuð á hugmyndum, hvað hönnun snertir, frá Torvehallerne í Kaupmannahöfn sem reknar hafa verið þar í borg um nokkurt skeið. Staðsetningin er líka frábær við Borgarlínuna eins og hún var kynnt í aðalskipulaginu AR2010-2030. Staðsetningin mun líka styrkja Laugarveginn sem göngugötu og skapa pól á móti Kvosinni og Ingólfstorgi.

Þarna koma nokkur fráðbær fyritæki sem sýsla með mat.

Ég nefni Kröst grill og vínbar, Jómfrúna með smurt brauð, skemmtilega lifandi ísgerð sem heitir því skemmtilega nafni Ísleifur Heppni, handverksbakarí og margt fleira. Svo má ekki gleyma hinu framúrskarandi Borði sem við Vesturbæingar þekkjum af Ægisíðu 123 og framleiðslu þeirra á mat í hæsta gæðaflokki.

Fyrir utan húsið koma sölubásar af svipaðri gerð og þeir Festur og Kristinn ráku fyri 30-30 árum ef ég skildi rétt.

Það er synd að húsnæðið skuli ekki vera stærra. Það hefði hiklaust getað verið þreföld þessi stærð.

Til hamingju Reykjavík.

Sjá einnig:

Nokkuð hefur verið fjallað um matarmarkaði í Reykjavík hér á vefnum undanfarin ár. Hér er slóð að nokkrum þeirra:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2015/01/26/matarmarkadur-vid-midbakka/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/12/15/harpa-matarmarkadur-hus-folksins/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/10/14/fiskimarkads-tilraun-i-reykjavik-2010/

 

Ísleifur heppni framreiðir ís með nýstarlegum hætti.

KRÖST er að mér skilst grill og vínbar.

Hér kemur Jómfrúin sem selur mat útúr húsinu líkt og Borðið. Það verður gott að koma þarna við, fá sér vínglas, og kaupa inn í kvöldmatinn áður en maður hoppar upp í Borgarlínuna á leið heim.

Mathöll við Hlemm

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.8.2017 - 15:03 - 6 ummæli

Sérkenni staðanna – Hótel

Íslenski torfbærinn er fyrirmyndin, en tíu hús hafa verið reist.

 

Næsta sumar opnar nýstárleg gistiaðstaða á lóðinni Mel í landi Einholts í Biskupstungum. Hún er nýstárleg en byggir á gömlum arkitektóniskum grunni.

Þetta eru torfhús þar sem rekin verður gistiþjónusta í hæsta gæðaflokki. Torf­hús­in eru tíu tals­ins og rúma hvert um sig fjóra full­orðna. Hvert hús er um 60 fer­metr­ar að stærð.

Hugmyndin að baki húsagerðarinnar byggir á gamla ís­lenska torf­bæn­um.

Það sem maður saknar oft í nútímalegum húsum er handverkið. Hefilför, hamarsför og pensilför iðnaðarmannanna. Hér eru minnstu smá­atriði sjá­an­leg í hand­verk­inu af gamla skólanum.

Að inn­an er frá­gang­ur samt nútímalegur og vandaður.

Næst Ein­holts­vegi er í bygg­ingu þjón­ustu­hús sem er um 350 fer­metr­ar að stærð. Hönn­un þess er sagður inn­blás­in af þjóðveld­is­bæn­um í Þjórsár­dal og hef­ur einnig torfþak og hleðslur en inn­rétt­ing­ar verða í stíl við torf­hús­in tíu.

Í þjón­ustu­hús­inu verður fram­reidd­ur morg­un­verður, eldaður í hágæðaeld­húsi, og þar verða einnig mót­taka fyr­ir gesti, bar og setu­stofa.

Sumir segja eflaust að þetta sé ekkert nýtt heldur eftiröpun á því gamla. En er það ekki allt í lagi, þegar það á við og þess er óskað? Ég hef gist við svipaðar aðstæður í Afríku þar sem boðið var upp á herbergi sem var strákofi með baði! Mér líkaði það ágætlega. Ég prófaði líka svipaða gistingu í Canada á Prince Edward Island fyrir mörgum árum, þar sem hótelið var í litlum timburhúsum sem féllu vel að byggðinni sem stóð næst. Það voru sko engir gler- og álkassar þar.

Það verður gaman að fylgjast með þessu sem er að gerast við Einholt.

Ljósmyndirnar eru fengnar frá mbl.is og er ljósmyndarinn Golli. mbl.is/​Golli

Hvert hús er um 60 fermetrar að stærð.

Í hverju húsi verður eldunarkrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofubúnaði. Í setustofu verður allur venjulegur stofuybúnaður og sjónvarp. Tvo svefnherbergi með tvíbreiðum rúmum og baðherbergi verður í hverju húsi.

Í hverju húsi verður eldhúskrókur með fullbúnu eldhúsi og borðstofuborði. ...

Húsin eru um 60 fermetrar að stærð og nútímalega innréttuð.

Við hvert torfhúsanna er heit laug úr stuðlabergi úr Hrepphólum.

Við hvert hús verður setlaug sem hlaðin er úr stuðlabergi.

Sigurður segir að þótt þjónustan verði fyrsta flokks sé hugsunin ...

Steinhleðslur og allt handverk virðist vera í hæsta gæðaflokki. Hin minnstu smáatriði eru sjáanleg. Má þar nefna að naglar í ytra byrði eru með demantsformaðann haus af gömlu gerðinni.

Minnstu smáatriði eru sjáanleg í handverkinu, m.a. má nefna að ...

++++

Það sem gerir ferðalög skemtileg eru sérkenni staðanna.

Landslagið, maturinn, menningin, tungumálið og margt fleira.  Eftir því sem maður fer víðar verður þetta ljósara og eftirsóknarverðara.

En því miður dregur sífellt úr séreinkennunum.

Ég man að fyrir svona 50 árum að þegar ferðast var um Evrópu breyttist allt þegar ekið var yfir landamærin.

Það var gjarna talað annað tungumál. Það var önnur mynt og annarskonar matur. Jafnvel bílarnir voru öðruvísi. Breskir bílar á Bretlandseyjum, franskir í Frakklandi, ítalskir á Ítalíu og þýskir í Þýskalandi.  Fólkið bar líka mismunandi klæðnað og hlustaði á mismunandi tónlist. Að ferðast var stanslaus upplifun og sífellt áreiti. Ég man að Coca Cola kom ekki í verslanir í París fyrr en uppúr 1960. Í Júgoslavíu hét drykkurinn sem var eftirlíking af kók, „Jugo Cockta“, eða bara Cockta. Skelfilegur drykkur sem ég smakkaði aftur fyrir örfáum árum í Króatíu. Í Danmörku var það Jolly Cola!

Nú er allt að verða eins. Sami maturinn allstaðar, sömu drykkirnir, sama tónlistin, sama myntin víða, sömu einkennalausu bílarnir og allir tala ensku.

En það versta er að húsin eru líka að verða meira eða minna öll eins. „Internationalisminn“ í byggingalistinni fer yfir allt og honum er oftast vel tekið. Hótelin, með tilkomu hinna stóru alþjóðlegu hótelsamstæðna eru nánast eins hvar sem er í víðri veröld.

Það stefnir að því að það verði ekki eins eftirsóknarvert og áður að ferðast. Allt er að fletjast út í einhverskonar alþjóðlega einsleitni.

Túristarnir skoða landslagið, sögustaðina og flykkjast inn í gömlu borgirnar til þess að skoða sérkenni staðanna eins og þeir litu út áður en alþjóðavæðingin tók völdin. Svo hverfa þeir inn í alþjóðleg og einkennaleus hótel til þess að hvílast og borða alþjóðlega rétti.

Maður sér víða um land rísa hótel í alþjóðlegum stíl.  Byggingar sem eru ekki í neinu sambandi við umhverfi sitt og eru án þeirra sérkenna sem ferðamaðurinn er að koma til þess að upplifa og ekki eru ferðamannaiðnaðinum til framdráttar.

++++

En það eru líka byggð hótel sem eru hið gagnstæða. Hafa til að bera eftirsótt sérkenni staðanna. Þessi hotel eru þannig að gistingin  er mikilvægur hluti af upplifuninni og ferðalaginu sem alþjólegu keðjurnar eru yfirleitt alls ekki. Gistiaðstaðan sem hér er vakin athygli á í landi Einholts í Biskupstungum er dæmi um það. Hún byggir á „regionalisma“ í byggingalistinni, staðarandanum.

Ég nefni í því sambandi Hótel Flatey, Hótelið á franska spítalanum á Fáskruðsfirði, Hótel Búðir  og Fosshótel við Jökulsárlón.

Að ofan er Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði þar sem nú er rekið hótel. Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar. Húsin eru endurnýjuð samkvæmt uppdráttum ARGOS Atkitekta.

Að Búðum á Snæfellsnesi var byggt nýtt hótel í takti við það sem áður var. Sérlega velheppnað. Hannað af Kára Eiríkssyni arkitekt.

Við sérstakar aðstæður er sjálfsagt að nota vinnubúðir sem hótel. Hálendishótelið við Sigöldu  á rétt á sér vegna þess að það er á virkjanasvæðinu sjálfu. Þeim stað sem það hefur alltaf verið og gefur innsýn inn í aðstæður vinnumanna á þeim tíma sem virkjað var. Hótelið hefir hvað það varðar „sögulega skýrskotun“. En að flytja notaðar vinnubúðir með þúsund herbergjum og sáldra þeim um landið ber ekki vott um metnaðarfulla ferðaþjónustu.

Aðlaðandi hugmynd gæti verið hótel í braggahverfinu við Miðsand í Hvalfirði. Þar gætu ferðamenn fengið tækifæri til að upplifa stemmingu stríðsáranna í viðigandi umhverfi. Sofa á járnbeddum og sitja á járnstólum og fá þjónustu frá fólki klætt í klæðnaði sem tíðkaðist á stríðsárunum.

Hótel Flatey er gott dæmi um þar sem gömlu pakkhúsi hefur verið breytt í aðlaðandi gistiaðstöðu. Þetta er hótel af þeim gæðaflokki og með þeim sérkennum að það gerir sjálfa dvölina þar að eftirsóttum áfangastað

Nýtt hótel nálægt Jókulsárlóni þar sem leitað er í sérkenni staðarins við hönnun hótelsins. Arkitekt er Bjarni Snæbjörnsson.

Álkassar sem staðsettir eru í viðkvæmu landslagi eða fíngerðum smáþorpum eru ekki það sem ferðamenn munu sækjast eftir þegar fram líða stundir. Í fréttum í hadeginum var sagt frá mótmælum í San sebastian á Spáni, Róm á ítalíu og víðar þar sem fólk er að mótmæla ágangi ferðamanna sem eru að breyta þeirra nærumhverfi. Hluti af óánægjunni má m.a rekja til breytingu á félagslegu umhverfi og útliti staðanna sem eru að taka of miklum breytingu í þagu ferðamannabissnissins en ekki endilega í þágu ferðamannanna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.8.2017 - 00:07 - 2 ummæli

Gullkorn

 

Ein frægasta setning sem ég hef lesið og er skrifuð af leikmanni í byggingalist er eftir Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands og Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum..

Þar segir „We shape our buildinga; thereafter they shape us.“ Eða.: „Fyrst gefum við byggingum okkar form og í framhaldinu móta þær okkur“.

Þetta er auðvitað gullkorn hjá WC

Íslenskir listamenn hafa líka tjáð sig um efnið með sérlega fínum hætti sem eru ekki síður gullkorn.

Þetta er haft eftir Guðjóni Samúelssyni arkitekt:

„Lyndiseinkun bæjarbúa myndast að miklu leyti af bæjarfyrirkomulaginu og húsunum“. Þetta er ef til vill of mikið sagt. En það er sannreynt, að því óhagganlegra sem bæjarfyrirkomulagið er og því óvistlegri sem húsakynnin eru – þess ruddalegra er fólkið, þess ósiðaðri eru unglingarnir og þess óhreinni eru börnin“.

Og eftirfarandi gullkorn er komið frá Pétri Gunnarssyni rithöfundi

„Umhverfið er órjúfanlegur þáttur okkrar sjálfra, það setur mark sitt á persónuleika okkar, þroska og lífsviðhorf. Það er hluti af okkur og við af því. Umhverfi er ekki bara ásýnd hluta, heldur viðmót og samskipti fólks. Þagar landslag fyllist sviplausum verksmiðjum og íbúðahverfum sem í bragðleysi sínu og kotungshætti fara fram úr mestu örreytistímum Íslandssögunnar, þrátt fyrir hina svokölluðu velmegun, þá erum það við sem töpum… Við sem stöndum saman á stoppustöðvum, bíðum saman í biðröðum og sitjum föst í umferðahnút: Gerum miðbæinn lifandi. Hittumst við Skólavörðustíg og opnum þar hugmyndabanka með útibúum um allt land“.

Tvær síðastnefndu tilvitnanirnar er hægt að lesa á sýningu sem hefur staðið í Ráðhúsi Reykjavíkur með hléum frá því í mars í vor. Sýningin heitir „Hvað er í gangi?“ og fjallar um byggingaráform innan Hringbrautar í Reykjavík. Þar eru sýndar mikið af áætlunum um uppbyggingu á svæðinu innan Hringbrautar en ekkert er sýnt af mestu byggingaráformum Íslensku þjóðarinnar fyrr og síðar, Nýjum Landspítala.

Ég og þúsundir annarra veltum enn fyrir okkur hvað sé í gangi á Landspítalasvæðinu?

Sjá einnig:

Spítalinn falinn? – Hvað er í gangi?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.7.2017 - 10:22 - 17 ummæli

Seinagangur hjá byggingafulltrúa

 

Í Morgunblaðinu í morgun vekur kollegi minn, Jón Ólafur Ólafsson arkitekt, athygli á seinagangi í afgreiðsu mála hjá byggingafulltrúanum í Reykjavík. Reynsla Jóns Ólafs er sú sama og mín og flestra starfandi arkitekta.

Hann nefnir líka að þetta hafi ekki verið svona á árum áður og mál séu lengur í gegnum kerfið nú en fyrr á árum. Ég er líka sammála þessu.

Það er eitthvað að og það vita allir hvað það er.

Allt reglugerðarumhverfið er flóknara og aukin neytendavernd er umfangmeiri í reglugerðum og eftirlitsskyldurnar hafa aukist . Þetta kostar meiri vinnu og öll gögn eru flóknari en áður.

En þetta er bara hluti skýringarinnar sem ætti ekki að vera orsök alls seinagangsins.

Verkferlarnir eru slæmir og tafsamir hjá embættunum. Svigrúm í reglugerðum er of lítið. Tengsl milli ráðgjafa og embættismanna eru allt of lítil og miklu minni en áður.  Sambandið er nánast ekkert. Ekki er hægt að hringja í þann sem er með málið nema á tilteknum stuttum viðtalstímum eins og verið sé að biðja um samtal við ráðherra. Embættismennirnir hringja nánast aldrei þó um smávægilega athugasemd sé að ræða sem hægt er að leysa í stuttu símtali. Líklega voru það líka mistök að sameina  bygginganefnd og skipulagsnefnd á sínum tíma.

Málum er oft frestað á forsendum sem koma umsókninni jafnvel ekkert við eins og Jón Ólafur nefnir dæmi um.  Hann segir að gerðar séu til­efn­is­laus­ar at­huga­semd­ir sem hægi á út­gáfu leyfa og þeim frestað þessvegna. Þetta þekkja allir.

„Ég sótti til dæm­is um leyfi fyr­ir hönd eig­anda til að hækka þak í stiga­húsi og koma fyr­ir lyftu. Þetta var af­markað í um­sókn­inni. Mál­inu var hins veg­ar frestað. Bygg­ing­ar­full­trúi gerði at­huga­semd við að ekki væri gerð grein fyr­ir fyr­ir­komu­lagi pitsustaðar. Það kom mál­inu ekk­ert við. Pitsustaður­inn var á allt öðrum stað í hús­inu,“ seg­ir Jón Ólaf­ur.

Það þekkja allir arkitektar svona sögur af eigin raun og kunna þær margar.  Allir vita að seinagangur afgreiðslu byggingafulltrúa veldur óþarfa tjóni og skapraunar fólki.

Jón Ólafur seg­ir líka mik­inn mun á af­greiðslu bygg­ing­ar­full­trúa nú og á fyrri árum. Áður gátu arki­tekt­ar geta talað beint við þann embættirmenn bygg­ingarfulltrúa sem hafði með málið að gera. Síðan hafi verið sett á legg þjón­ustu­ver. Með því hafi bein sam­skipti rofnað.

„Þetta hef­ur lengt leiðina milli okk­ar, sem ráðgjafa, og emb­ætt­is­manna. Við eig­um ekki leng­ur bein­an aðgang að þeim sem eru með mál­in hjá full­trúa. Það sem meira er; eng­inn er ábyrg­ur fyr­ir er­ind­um. Það virðist und­ir hæl­inn lagt hver tek­ur á mál­um og hvernig tekið er á þeim,“ segir Jón Ólafur.

Ég man eftir því að á árum áður hringdu embættismenn til hönnuðanna ef og þegar þeir fundu eitthvað smálegt sem þurfti að lagfæra. Þeir voru lausnamiðaðir og vildu að málin fengju afgreiðslu sem fyrst. Hönnuðurinn lagaði þá bara það sem þurfti og lagði inn breytta teikningu og málið var afgreitt samdægurs. Ég hef líka orðið var við að ef maður er fastur fyrir og gagnrýnir afgreiðsluna er mikil hætta á að það bitni á verkinu og tafirnar verði enn meiri. Öruggast sé að vera þýðlyndur við embættismennina og láta allt yfir sig ganga.

Smáatriði á borð við „nf“ merkingu á einu baðherbergi („nf“ er merking um niðurfall) geta líka kostað frestun á samþykkt um 14 daga. Og þegar það hefur verið lagfært kemur jafnvel upp eitthvað nýtt sem embættismanninum „yfirsást“ í fyrra skiptið. Svona getur þetta gengið vikum og jafnvel mánuðum saman þó vitað sé að ekkert hús er byggt samkvæmt aðaluppdráttum, heldur verkteikningum sem taka á öllu sem skiptir gæði og neytendavernd máli. Verkteikningar eru líka yfirfarnar, stimplaðar og áritaðar af embættunum. Það gengur oftast vel.

Þó allir séu auðvitað að gera sitt besta þá gengur þetta ekki svona lengur.  Aðalatriðið  virðist vera að embættin og verkferlar embættanna eru ekki eins lausnamiðaðir og áður. Heldur virðist markmiðið stundum jafnvel vera að flækja málin. Oft af tilefnislausu eins og Jón Ólafur rekur í ágætu og tímabæru viðtali í Morgunblaðinu í dag.

 

Ef tvísmellt er á myndina að ofan stækkar hún þanin að hægt er að lesa viðtalið við Jón Ólaf Ólafsson arkitekt í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.7.2017 - 12:32 - 18 ummæli

Hafnarfjörður-Sleginn nýr tónn á traustum grunni

Ég hef haldið því fram allan minn starfsferil að í „Regionalismanum“ felist framtíð byggingalistarinnar.

Það er byggingalist sem reist er á grudvelli þeirrar sérstöðu sem er að finna á þeim stað sem á að byggja.

Þessi hugsun var kennd af Vitruvíusi í 10 bókum hans um arkitektúr fyrir um 2000 árum. Þetta var einnig kennt á Konunglegu Dönsku Akademíunni fyrir fagrar listir þegar ég var þar við nám fyrir 40-50 árum.

En staðbundinn arkitektúr hefur átt erfitt uppdráttar síðustu 100 árin eða svo. Alþjóðlegar stíltegundir hafa mengað staðbundinn arkitektúr hvarvetna í heiminum í miklu mæli og jafnvel svo að maður veit stundum varla hvar í heiminum maður er staddur þegar byggingalistin er skoðuð.

Það gladdi mig því mjög þegar kynnt var verðlaunatillaga um íbúðabyggð á Dvergs-reitnum í Hafnarfirði sem unnin er með hliðsjón af staðarandanum þar sem byggðin mun koma. Tillagan er unnin af arkitektum á stofunum Tripoli og Krads í samvinnu við Landmótun sem sáu um landslagshönnun á svæðinu.

Styrkur tillögunnar liggur einkum í góðri og faglegri greiningu arkitektanna á staðnum þar sem þeir byggja og grundvalla tillögugerðina á. Í sérlega faglegrin og góðri greinargerð skrifa höfundar m.a. eftirfarandi:

„Hafnarfjarðarbær hefur sjálfstæðan karakter og skemmtilegan sjarma, sem einkennist ekki hvað síst af mannlegum hlutföllum byggðar í nánum tengslum við lifandi höfn og spírandi miðbæjarlíf.“

og síðar:

„Hin nýja byggð sem rísa á á gamla Dvergsreitnum sækir leiðarstef sín í aðliggjandi umhverfi byggðarinnar. Stakstæð timburhús frá því um aldamótin 1900 standa keik með ræktarlegum trjágróðri við Brekkugötuna undir Hamrinum til austurs og handan Lækjargötunnar til norðurs með litrík söðulþök og klæðningar úr bárujárni.“

Og:

„Fyrir utan nokkur timburhús af minni gerðinni, eru flest timburhúsanna myndarlega byggð, með einkennandi tröppum, hlöðnum garðveggjum og háum sökklum sem setja reisulegan svip á hið manngerða umhverfi. Þótt þök og annað séu með svipuðu sniði, eru húsin af ólíkum stærðum og með margskonar útskot, svalir, kvisti og annað, og standa frjálslega hvert með öðru í landslaginu. Þetta yfirbragð ákveðinnar grunngerðar í byggingarlagi með margvísleg tilbrigði og persónuleg sérkenni gefur áhugaverðan tón fyrir leiðarstefjum að nýju byggðinni.“

Þessi frábæra tillaga sprettur með eðlilegum hættti upp frá greiningu höfunda á staðnum. Höfundar greina staðinn áður en hugmyndavinnan hefst. Útlitið er ekki ákveðið af arkitektunum heldur er það ákveðið af staðnum eins og vera ber.  Allt er eðlilegt og allt fellur vel að því sem fyrir er. Allt er nútímalegt og allt er tæknilega í takti við það besta í dag en er samt byggt á þeim grunni sem blasir við eftir greiningu staðarins.

Þetta sannar enn einu sinni að nútímalegur arkitektur þarf ekki að vera andstaða þess gamla eða að staðbundinn arkitektúr sé steinn í götu framfara eins og margir telja og halda fram. Því hefur jafnvel verið haldið fram af kollegum mínum að ef horft er í bakspegilinn þá geti það haldið aftur af þróun og útilokað framfarir.

Þvílík vitleysa.

Þegar ég gekk í arkitektaskóla var um þriðjungur tímans sem fór í tillögugerð notaður til þess að greina staðinn. (registrering af stedet) Þar var allt skoðað frá félagslegu sjónarmiði, fjárhagslegu, skipulagslegu, menningarlegu sjónarmiði o.s.frv. Staðarandans var leitað. Í lok greiningarinnar var ákveðið hvað skyldi byggja og hvernig? Eða hvort byggja skyldi yfirleitt.

Í deiliskipulagi við Austurbakka í Reykjavík (Hafnartorg) var hvergi að sjá neina skilgreiningu á staðnum eða greiningu einkenna umhverfisins. Það er heldur ekki að sjá nokkra tilburði til þess í húsahönnuninni sjálfri. Sama má segja um fyrirhugaða byggingu við Gamla Garð og fl.

En hér á Dvergs-reit í Hafnarfirði hafa höfumndarnir verið framsæknir, skynsamir  og faglegir. Greint staðinn og látið umhverfið ráða útlitinu. Tripoli arkitektar og Krads hafa unnið hér gott verk sem er til fyrirmyndar.

 

 

Að neðan er loftmynd af þeirri byggingu sem fyrir var. Hafnarfjarðarbær á hrós skilið fyrir framkvæmdina og dómarar í samkeppninni hafa unnið góða vinnu sem skilar sér í góðri niðurstöðu frá hendi arkitektanna. En allt hangir þetta saman. Í dómnefnd voru Þormóður Sveinsson og Gunnþóra Guðmundsdóttir arkitektar og Stefán B. Veturliðason vekkfræðingur. Fleiri bæjarfélög ætti að líta til Hafnarfjarðar þegar byggt er i grónum hverfum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.7.2017 - 08:56 - 12 ummæli

„REYKJAVÍK á tímamótum“

Nýlega kom út bókin „Reykjavík á tímamótum“, sem Dr. Bjarni Reynarsson ritstýrði.

Bjarni er einn menntaðasti og reyndasti skipulagsmaður landsins. Hann hefur komið að hefðbundinni skipulagsvinnu jafnframt því að vera afskaplega fær fræðimaður á sviðinu.

Tilefni útgáfunnar er að Reykjavík hefur tekið miklum breytingum undanfarið og mun breytast enn meir og hraðar á allra næstu árum.

Bjarni skrifar merkilegann inngang í bókina og fær síðan 30 fagmenn og sérfræðinga á ýmsum sviðum til þess að skrifa greinar um flesta þá þætti sem áhrif hafa á skipulag borgarinnar og uppbyggingu með áherslu á miðborgina, byggingu nýrra hverfa og breytingar á eldri hverfum.  Fjallað er um umhverfismál, húsnæðismál, samgöngur, jarðfræði og sögu auk hagfræðilegra málefna sem tengjast borgarskipulagi.

Það sem hefur ávallt einkennt málflutning Dr. Bjarna er hógværð og  lágstemmtur málegnalegur málflutningur sem einkennir góða fræðimenn. Óhætt er að mæla með þessari bók fyrir alla sem fjalla um skipulagsmál eða hafa áhuga á þeim. Þetta er bók sem verður betri og betri eftir því sem maður kynnist henni betur. En skipulagsmál eru mikið hagsmunamál sem snertir alla bæði fjárhagslega og félagslega.

Í inngangi leggur Bjarni út af aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 og spyr nokkurra akademiskra spurninga á borð við:

  • Boðar þessi nýja stefnumótun nýja lítt þekkta hugmyndafræði eða endurspeglar ríkjandi alþjóðlega hugmyndafræði á nýrri öld eða jafnvel afturhvarf til klassískra hugmynda um borgarskipulag fyrri alda?
  • Er þessi andstæða stefna við eldri skipulagsáætlanir í samræmi við skoðanir meirihluta Reykvíkinga og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins?
  • Hvers vegna eru flest þéttingarsvæði í eldri hverfum þar sem byggðin er þéttust fyrir?
  • Nýju þéttingarsvæðin virðast nokkuð einsleit 4-6 hæða þéttbyggð fjölbýlishúsabyggð. Svarar þessi einsleitahúsagerð óskum allra aldurshópa?
  • Sáu skipulagshöfundar fyrir þá miklu fjölgun erlendra ferðamanna sem orðið hefur og þann mikla þrýsting á að byggja hótel og gistihús í og við miðborgina?
  • Bjarni veltir líka fyrir sér staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og spyr í inngangi sínum hvort umferðamálunum sem uppbyggingu þar tengjast séu í lagi og telur skipulagsyfirvöld þurfi að sýna betur fram á hvernig leysa á þau mál.

Í bókinni er mikill fjöldi greina eins og áður sagði, alls 30 talsins þar sem tekið er á fjölda mála sem horft er á frá mörgum sjónarhornum.

Nauðsynleg bók fyrir alla sem vilja vita hvernig Reykjavík og nágrenni mun þróast á næstu árum.

Bókina Reykjavík á tímamótum tileinkar höfundur tveim fyrrum skipulagsstjórum Reykjavíkurborgar, arkitektunum Guðrúnu Jónsdóttur og Þorvaldi S. Þorvaldssyni.

++++

Ég mun á næstu vikum fjalla stuttlega um enstakar ritgerðitr í bókinni í von um að vekja fólk til umhugsunar.

+++

Reykjavík á tímamótum er að vissu marki framhald bókar sem kom frá hendi Bjarna árið 2014 og heitir Borgir og borgarskipulag.. Þetta eru ólíkar bækur þó þær fjalli um svipað efni. Borgir og borgarskipulag fjallar um þróun borga frá öndverðu með áherslu á Kaupmannahöfn og Reykjavík. Báðar eru bækurnar bæði fróðlegar og skemmtilegar aflestrar og mikið myndskreyttar.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.7.2017 - 11:49 - 18 ummæli

Hundsar borgin álit Minjastofnunnar?

Nú hefur meirihlutinní Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar ákveðið að virða að vetthugi mat dómnefndar á samkeppnistillögu um nýja studentargarða við Gamla Garð og umsögn Minjastofnunnar um tillöguna.

Þetta gerir meirihlutinn með eftirfarandi rökstuðningi. „Húsnæðisekla meðal stúdenta er brýnn vandi sem leita þarf lausnar á. Félagsstofnun stúdenta og Háskóli Íslands hafa af þvi hag að byggt sé upp á Háskólasvæðinu. Eðlilegt er að tillagan hljóti lögformlega auglýsingu.“

Í Dómnefndaráliti vegna keppninnar segir: „Dómnefnd þykir mikilvægt að unnið verði frekar með ásýnd byggingarinnar við frekari vinnslu í deiliskipulagsferli svo yfirbragð byggingarinnar samræmist betur aðliggjandi byggð“ sem þýðir að verðlaunin voru skilyrt og að þau þyrfti að vinna betur og aðlaga að núverandi umhverfi.

Minjastofnun telur  tillöguna bera með sér „veruleg og neikvæð umhverfisáhrif“ og telur lausnina „að öllu leyti óásættanlega“.

Umhverfis- og skipulagsráð velur þarna að ganga gegn þessum álitum hinna færustu manna sem vinna í umboði okkar allra.

Þar fyrir utan hefur tillagan verið mikið gagnrýnd á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum almennt. Það vekur líka athygli, ef rétt ert, að Háskóli Íslands, framvörður íslenskrar hámenningar skuli styðja þetta varklag og ganga gegn áliti Minjaverndar.

Minnihlutinn Umhvberfis- og skipulagsráðs óskaði eftir að skipulagið yrði ekki auglýst fyrr en vandlega væri búið að fara yfir athugasemdir Minjastofnunnar.

En því hafnaði meirihlutinn með fyrrgreindri bókun sem í sjálfu sér hefur ekkert með skipulagsmál að gera heldur skipulagsleysi og almennann lóðaskort í borgarlandinu.

++++

Ég hef haft miklar mætur á skipulagsmálum í borginni á flestan hátt þó eðlilega sé ýmislegt sem betur mætti fara. En ég hef aldrei orðið vitni að svo óvönduðum vinnubrögðum sem hér eru að eiga sér stað þar sem pólitískt kjörnir fulltrúar ganga svo berlega gegn helstu ráðgjöfum sínum.

Ef skipulagsuppdrátturinn að ofan er skoðaðaður sést að engu hefur verið breytt frá samkeppnistillögunni eins og dómnefnd setti skilyrðu um. Þvert á móti eru skýringarmyndir auglýstar til staðfestingar á því að svona skuli þetta líta út.

Þetta datt mér aldrei í hug að gæti gerst.

Ég átti von á að byggingareitir, húsahæðir og hugsanlega stærðir yrðu auglýstar en aldrei útlitsmyndir sem bæði dómnefnd og Minjavernd gera athugasemd við yrðu hluti af skipulaginu. Þessi sjónarmið fagaðilanna fá mikinn hljómgrunn í samfélaginu.

Svona gera menn ekki.

Þetta hlýtur eiginlega bara að vera einhver mistök.

++++

Ég verð í lokin að segja að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur staðið sig vel undanfarin sjö ár.

Þá er ég sérstaklega að tala um stóru línurnar.

Hið frábæra aðalskipulag Reykjavíkur, AR2010-2030, tekur á mjög veigamiklum málum á borð við þéttingu byggðar, samgögngumálum þar sem lagður er grunnur að samgönguás borgarinnar (Borgarlínunni),  hugmyndum um að draga úr útþennslu borgarinnar með áherslum á þéttingu í hennar stað og síðast en ekki síst hugmyndum um hverfaskipulag með áherslu á sjálfbær hverfi. Þar liggja meiri tækifæri en flesta grunar til þess að draga úr umferð einkabíla og fleira sem varðar mannvænt og heilsusamlegt borgarumhverfi.

Það sem ráðið þarf að leggja meiri áherslu á eru litlu atriðin sem varðar manneskjuna og daglegt líf milli húsanna.

Ásýnd borgarinnar,  arfleifðin og menningin hafa setið á hakanum. Þetta eru smáatriði sem skipta samt mjög  miklu máli, en ráðið hefur ekki legið nægajanlega mikið yfir þessum atriðum og ekki hlustað nægilega á grasrótina.

Ég nefni sem dæmi ásýnd Hafnartorgs, byggingar framan við RUV og það dæmi sem ég hef nú tekið til umfjöllunnar og fl.

++++

Að neðan eru tvo bréf. Annað segir frá bókunum minnihlutans í Umhverfis og slipulagsráði og hitt er umsögn Minjastofnunnar.

Endilega lesið þetta og rýnið í skipulagsuppdráttinn fyrir nýja stúdentagarða við Hringbraut og myndið ykkur skoðun og látið hana heyrast.

 

 

N´+u hefur

 

Ásýnd Gamla Garðs og Þjóðminjasafnsins við Hringbraut í dag. Götumynd sem er eitt af helstu kennileitum borgarinnar á nú að skemma vegna lóðarskorts að því er virðist.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.6.2017 - 17:55 - 20 ummæli

Borgarlínan á fullkomlega rétt á sér.

Borgarlínan á fullkomlega rétt á sér.

Hugmyndafræðin sem liggur að baki Borgarlínunnar er rökrétt og skynsamleg að mati flestra sem kynnt hafa sér málið. Hinsvegar hafa menn mismunandi skoðanir á útfærslunni og umfanginu. Það er fullkomlega eðlilegt að ræða það.

Í mínum huga er ljóst að umfangið er of mikið. Á frumniðurstöðum valkostagreiningu COWI (aðalráðgjafa verkefnisins) skynjar maður að hreppapólitík er komin í málið og öll sveitarfélögin fá sinn Borgarlínubút. Í raun sýnist manni áformin vera svo umfangsmikil að mikil hætta er á að ekkert verði úr áætlununum. Menn færa sér svo mikið í fang að upp spretta deilur og efasemdir, andstaðan verði mikil og hætta á að ekkert verði úr þessu þjóðþrifamáli.

Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að línan verði alls 57 km á lengd. Spurning er hvort farþegagrunnur upp á um 220 þúsund manns beri þetta. Hvort hann sé nægjanlega mikill? Þetta samsvarar um 3.800 manns á hvern kílómetra Borgarlínunnar!

Þessi spurning vaknar þegar þetta er borið saman við almenningsflutningakerfi af svipaðri gerð annarsstaðar. T.a.m. þeirrar sem verið er að koma á í Odense í Danmörku. Þar er gert ráð fyrir 14.5 km Borgarlínu fyrir tæplega 200 þúsund manns. Í Odense eru um 13.700 íbúar á hvern kílómetra línunnar. Þetta er 3,6 sinnum fleiri en hér. Línan í Odense á að kosta um 3.0 danska milljarða eða sem nemur um 3,2 milljarða á kílómeterinn í íslenskum krónum.

Í áætlun SSH er gert táðfyrir að hver kílómeter hér kosti um einn milljarð. Þarna munar nokkru en eflaust er til skýring á honum.

Metroið í Kaupmannahöfn er af allt öðrum toga en þjónar svipuðum tilgangi. Farþegagrunnur þar er um 1,9 milljónir íbúa Stórkaupmannahafnar. Kerfið samanstendur af tveim línum M1 og M2 og er samtals 20,4 km á lengd. Línurnar liggja samsíða á 7,7 km kafla. Að baki Metrósins eru um 93.000 íbúar á hvern kílómetra.

Ég held að pólitísk öfl sem ekki styðja Borgarlínuna eigi að hugsa sinn gang og skoða hugmyndafræðina og skilja það en ræða umfangið. Þau eiga ekki að hafna línunni en hafa áhrif á útfærslu hennar. Þau öfl sem styðja Borgarlínuna eiga líka að hugsa sinn gang og gíra þessar áætlanir niður á framkvæmanlegt plan.

+++

Í aldeilis ágætu Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 var lagt til að borgin þróist í línulega borg þar sem koma á upp öflugu almenningssamgöngukerfi meðfram svokölluðum þróunarás sem liggja á frá Vesturbugt að Keldum. Þetta ásamt því að ná utan um útþennslu borgarinnar eru án nokkurs vafa sterkustu atriði AR2010-2030.

Borgarlína aðalskipulagsins frá Vesturbugt að Keldum hefði orðið um 9 km löng. Ég hélt í einfeldni minni að þessari samgöngubót yrði komið á innan 3-5 ára.

Keyptir yrðu nokkrir litlir rafdrifnir strætisvarnar af viðeigandi gerð sem fengju forgang á öllum umferðaljósum og í sérakrein. Þeir gengu á svona 5 mínútna fresti og fengu borgarbúar að ferðast með þeim endurgjaldslaust meðan verið væri að venja fólk á þjónustuna. Byrjað yrði að aka frá Vesturbugt austur í Skeifu.

++++

Þegar ég hlustaði á kynningu aðalráðgjafa sveitarfélagann á höfuðborgarsvæðinu í lok síðasta árs hafð ég á tilfinningunni að það væri verið að selja okkur draum. Mér fannst eins og erlendu sérfræðingarnir væru að „plata sveitamanninn“ eins og sagt var í gamla daga. Þetta var eitthvað svo yndislegt og vandræðalaust. Það vantaði gagnrýni í umfjölluninni og viðvaranir. Allt var í þeirra máli mjög skýrt og hvergi örlaði á vafaatriðum. Það verður samt að segjast að þeir voru ekki vissir hvort niðurstaðan yrði léttlest eða BRT, (Hraðvagnakerfi) þó við sem sátum, og hlustuðum á þetta hafi ekki verið í neinum vafa um að léttlestarkerfið væri okkur ofviða vegna kostnaðar.

+++++

Ég var í Kaupmannahöfn þegar umræðurnar um að leggja sporvagna niður þar í borg.  Þeir voru lagðir niður 1972.

Mér fannst eins og það væri sæmileg sátt um það í borginni og einnig meðal okkar arkitektanemanna og aðgerðarsinna. Einnig meðal þeirra sem töldum einkabíllinn ætti ekki að vera undirstaða samgangna í borginni.  Helstu rökin fyrir því að leggja niður sporvagnakerfið var að það féll ekki að aukinni bifreiðaumferð. Sporvagnarnir voru með sérstökum umferðaljósum en ekki í sérrými. Þegar vagnarnir stöðvuðust urðu bílarnir líka að stöðva vegna þess að farþegar sporvagnanna gengu beint út á akbrautina þegar þeir stigu frá borði. Sama átti við um þegar stigið var um borð því teinarnir voru á miðjum götunum.

Sporvagnakerfi Kaupmannahafnar var tekið í notkun árið 1911 og rekstrinum hætt 1972  eða 61 ári síðar. Við tók hefðbundið strætisvagnakerfi sem rekið var samhliða hinu svokallaða S-Togkerfi borgarinnar sem er mjög fullkomið og byggir á hinu svokallaða „fingerplan“ Kaupmannahafnar.

Kaupmannahafnarbúar hafa ekki í hug að taka upp sporvagnakerfi eða léttlestarkerfi að nýju en hafa komið sér upp afskaplega fullkomnu kerfi sem þeir kalla METRO. Þegar byggðin á Vesturamager var skipulögð var á sama tíma samþykkt ríkisstjórn Danmerkur að koma upp METRO kerfi. Þetta var árið 1992. Framkvæmdir hófust 4 árum síðar og kerfið með tveim leiðum var tekið í notkun árið 2003 eða fyrir réttum 14 árum.

Að ofan sést hvernig Borgarlínan var teiknuð áður en hinir erlendu sérfræðingar komu að málinu og áður en formlegt samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hófst. Þetta er skýr skipulagshugmynd þar sem hin „línulega“ borg sprettur upp úr blaðinu og vísar til skýrrar skipulagshugmyndar eins og gert var í AR2010-2030.  Þetta er ný sýn á sterka skipulagsheild þar sem meginlínur samgöngukerfisins eru skýrar og augljósar. Þetta er um leið er mun raunhæfari nálgun en sú sem nú er verið að ræða um og er í kynningu. Þarna er teiknuð austur-vesturlína frá Eiðistorgi að Korputorgi og norður-suðurlína frá Elliðaárósum suður í Hafnarfjörð um Mjódd og Smáralind.

Að ofan sést hvað Borgarlínukerfið sem nú er í kynningu er flókið miðað við fyrri mynd. Þarna er hugmyndin um „línulega“ borg nánast horfin. Það er ekki auðvelt að sjá útúr þessu heildarmynd. Kortið ber merki mikilla málamiðlanna milli sveitarfélagann sem laðar fram illa strúkúrerað samgöngukerfi sem verið er að reyna að aðlaga núverandi byggð. Spurt er hvort ekki mætti aðlaga þetta að frumhugmyndum AR2010-2030 og láta svo borgarskipulagið laga sig að Borgarlínunni. Svipað og gert var í Kaupmannahöfn fyrir meira en 70 árum þegar „fingerplanen“ varð til og danir náðu böndum á stjórnlausa útþennslu stórkaupmannahafnar sem lagaði svig svo í framhaldinu að skipulagshugmyndinni með vegakerfi og lestarsamgöngum.

 

Á myndinni að ofan sést hvar þróunarásinn liggur eftir borginni endilangri. Myndin er úr AR2010-2030 og sýnir hvernig samgönguásinn og þróunarásnum var ætlað að vinna saman og styrkja hvorn annan. Þetta er ekki flókið og vel hægt að ná yfir þetta heildaryfirsýn. Þarna sér maður á teikningu hvernig hin línulega borg var hugsuð.

++++

það vekur sérstaka athygli að kynningarferlinu í þessum áfanga sem varðar aðalskipulagið lauk í dag, 20 júní en hún hefur einungis staðið þrjár í vikur frá 31.05.2017. Það er ótrúlega stuttur tími fyrir svona flókið verkefni og enganvegin hægt að taka þessa kynningu og tækifæri til að gera athugasemdir alvarlega. Málið  hefur lítið verið rætt með formlegum hætti opinberlega. Ekkert í sjónvarpi og ekkert í útvarpi.  Það er varla hægt að ætlast til þess að fólk geri athugasemdir við þetta án umræðu. En ég geri tilraun til að velta upp nokkrum spurningum og vangaveltum í þessum pistil. Kannski einhver kunmnáttumaður eða sérfræðingur geti svarað þessum vangaveltum mínum með einhverjum hættti og upplýst leaendur? Svona umfangsmikið verkefni og kostnaðarsamt þolir vel umræðu jafnvel nokkurra ára skoðun  og kynningu.

++++

Efst er mynd sem sýnir umferðavandræði á venjulegum virkum degi þegar fólk er að ferðast frá heimili sínu til vinnu sinnar. Þekkt skipulagslausn á svona vandamáli er að færa fjölmenna vinnustaði nær búsetunni og gera borgarhluta sjálfbærari varðandi atvinnu og þjónustu.  Fluttningur stærsta vinnustaður landsins, Landspítalann, með 5000 starfsmönnum og 1800 „viðskiptavinum“ á degi hverjum ásamt markvissri vinnu í hverfaskipulaginu væri gott tækifæri til þess að jafna þetta eitthvað.

+++++

Nýjung á sviði léttlesta

Teinalausar léttlestar í Kína.

Það er mikið að gerast í almannaflutningum í heiminum í dag.  Í bænum Zhuzhou í Kína voru, í byrjun mánaðarins, kynntar nýjar gerðir Léttlesta sem rúlla ekki á teinum. Kínverjarnir áttuðu sig á því að Léttlestarkerfi er of dýrt fyrir minni borgir jafnvel þó þetta sé mjög áhugaverður ferðamáti og bráðnauðsynlegur af margvíslegum ástæðum. Þess vegna kynnti CRRC Zhuzhou Institute Co Ltd „the worlds first railless train“. Restin rennur eftir venjulegum malbikuðum götum á gúmmíhjólum í stað teina. Lestarvagnarnir sem kynntir voru eru um 9 metra langir með hámarkshraða upp á 70 km á klukkustund. Þeir geta ekið 40 km á einni hleðslu og borið um 100 farþega hver. Ef þrír vagnar eru tengdir saman eins og sést á myndunum sem hér fylgja komast 300 manns fyrir í vagninum. Gert er ráð fyrir að ein lest geti flutt 500 farþega með fimm samtengdum vögnum.

Lestin fer eftir máluðum línum í götunni sem nemar í lestinni skynja. Þetta er kerfi sem þekkt er í betri bílum í dag.

Kínverjar munu taka lestina í notkun í byrjun næsta árs á um 7 km langri línu til að byrja með. Að ofan koma tvær myndir af lestinni og að neðan fróðlegt myndband um þessa nýjung.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is