Fimmtudagur 2.3.2017 - 14:38 - 3 ummæli

Sumarhús við Heklurætur

Í gær varð á vegi mínum um veraldarvefinn kynning á sumarhúsi við Heklurætur eftir arkitektana á Sudío Granda. Arkitektarnir  Steve Christer og Margrét Harðardóttir reka þá stofu á Íslandi sem hefur hvað sterkustu höfundareinkennin.  Umhverfi arkitekta hefur einhvernvegin þróast þannig á undanförnum árum og jafnvel áratugum að stofurnar hafa breyst úr „arkitektastudíóum“ yfir í „arkitektafyritæki“.  Það er nokkur munur þar á. Þessi þrónun er á margan hátt ágæt en hefur haft það í för með sér að það hefur dregið úr höfundareinkennum og byggðin er sífellt að verða einsleitari og með meira og meira alþjóðlegu yfirbragði. Regionalisminn hefur á margan hátt vikið fyrir alþjóðahyggju og tískusveiflum líðandi stundar.

Það er synd.

Hér birti ég nokkrar ljósmyndir sem ég fann á veraldarvefnum af sumarhúsi þeirra á Studio Granda. Húsið er sprottið úr umhverfinu og ber sterk einkenni höfundanna.

Húsið er aðeins 68 m2 að stærð og rúmar tvö svefnherbergi og eitt alrými með eldhúsi borðstofu og stofu. Húsið stendur á bökkum Ytri Rangár í lítið grónu og viðkvæmu landi sem einkennist af sandöldum öskulagsins frá Heklu. Landsalagð  er eins og fyrr er getið viðkvæmt og einkennist af mjúkum sand- eða öskuöldum sem eru fágætar í víðri veröld. Höfundarnir og verkkaupi hafa verið meðvitaðir um þetta og valið að láta húsið víkja fyrir landslaginu og staðsett það í öldulægð og lagt gras eða gróðurteppi yfir húsið þannig að það falli að umhverfinu og sé sem minnst sjáanlegt. Útsýninu er stýrt og það er ekki litið á það sem einhvern skyndibita sem blasir allstaðar við og alltaf, heldur er það takmarkað eins og um veislumat sé að ræða. Hægur vandi og freistandi hefði verið að staðsetja húsið á ölduhæð og ná þannig útsýni til allra átta, alltaf.

Þetta er vandað hús í bæði aðalatriðum og öllum smáatriðum og getur hvergi staðið annarsstaðar. Hús sem menn ættu að taka sér til fyrirmyndar hvað nálgun verkefnisins varðar.

 

Afstöðumynd.  Án þess að ég viti þá hef ég á tilfinningunni að sumarhúsið standi í svokallaðri „sumarhúsabyggð“ þar sem lóðirnar eru allnokkrar saman. Kannski 0,5 til 1.0 hektari hver. Ef aðrir sumarhúsabyggjendur velja að byggja sumarhús af svipaðri gerð og sjá má allstaðar á landinu, í flatlendi og skóglendi þar sem húsin eru ekki aðlöguð sérstaklega að staðháttum er hætta á að það landslag og umhverfi sem er þarna undir Heklurótum missi sinn sjarma að miklum hluta.

Af grunnmyndinni má lesa einfalda heildarsýn arkitektanna á umhverfið oog sterk tök þeirra á verkefninu og þeim markmiðum sem að baki liggja. Svefnaðstaðan er í sitt hvorum enda og tiltölulega lokuð meða alrýmið er mjög opið.

++++++

Það er svoldið einkennilegt hvað lítið er fjallað um arkitektúr og skipulag í fjölmiðlum hér á landi. Þó það færist hægt í aukanna á allra síðustu árum þá erum við hvergi nærri því að ná nágrannalöndunum í þessum efnum. Það er hinsvegar allnokkuð fjallað um framkvæmdir í fjölmiðlum. Allskonar skipulagsáætlanir og fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir. En nánast aldrei um byggingalistina á hennar forsendum og þau samfélagslegu markmið eða áhrif sem af henni muni leiða. Eina fasta í þessu er tímaritið HA sem er gefið út af Hönnunarmiðstöð.

Nokkuð hefur verið gefið út af bókum og er þáttur Péturs H. Ármannssonar áberandi. Þá má nefna bókina „Borgir og borgarskipulag“ eftir Bjarna Reimarssonar um skipulagsmál, bók Björns G. Björnssonar, „Fyrsti arkitektinn“ um Rögnvald Ólafsson,  og bækur á borð við „Reykjavík sem ekki varð“ eftir Guðna Valberg og Önnu Dröfn Ágústsdóttir. Arkitektarnir Hjörleifur Stefánsson og Guja Dögg hafa einnig skrifað bækur um arkitektúr og staðaranda. Trausti Valsson gaf út merkilega bók um skipulag  „Mótun Framtíðar“ sem kom út fyrir ári.

RÚV hefur sinnt þessu með  stórgóðum sjónvarpsþáttum Sigrúnar Stefánsdóttur og Egils Helgasonar um byggingalist.  Og svo útvarpsþætti Hjálmars Sveinssonar á RÁS 1 fyrir mörgum árum og úrvarpsþáttum Lísu Pálsdóttur sem allir ættu að hlusta á.

Þá er það upp talið að mestu held ég.

Ég verð mest var við umræðu um íslenska byggingalist í erlendum bókum, blöðum og á erlendum vefsíðum. Þetta er á engan hátt nægjanlegt og það sem er skrifað er erlendis um skipulag og húsagerð á Íslandi mætir ekki augum íslenskra neytenda og er nánast gangslaust í umræðunni.

+++++

Myndirnar í færslunni eru teknar af vefnum ArchDaily hjá www.archdaily.com.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2017 - 10:58 - 21 ummæli

Er fundinn staður fyrir Nýjan Landspítala?

Ég var á aldeilis ágætum kynningarfundi á vegum borgarinnar í Ráðhúsinu í fyrradag þar sem kynnt var rammaskipulag fyrir Ártúnsholt og Vogabyggð. Þarna voru líka kynntar hugmyndir um fyrirhugaða Borgarlínu höfuðborgarsvæðisins og hvernig hún tengist byggðinni sem er á dagskrá.

Það vakti sérstaka athygli mína að í tengslum við Borgarlínuna og aðalskiptistöð hennar við suðurhluta Vogabyggðar er gert ráð fyrir miklu magni nýbygginga. Byggingamagnið var vel rökstutt en ekki kom fram til hverra nota ætti að byggja öll þessi miklu hús.

Þarna er um að ræða alls 242 þúsund fermetra nýbygginga.

Það blasti við mér, sem sat þarna og hlustaði, að þetta er nokkurnvegin sama byggingamagn og áætlað er að verði byggt á Landspítalalóðinni fyrir starfssemi hans þegar hann verður nánast fullbyggður.

Er þetta kannski góður staður fyrir Nýjan Landspítala?  Ég hef lengi haft hugboð um það að óháð og fagleg staðarvalsgreining fyrir framtíðarstaðsetningu Landspítalans mundi einmitt leiða okkar á þessar slóðir  sem borgin hefur nú með skipulagslegum áætlunum sínum bent svo rækilega á sem mikið tækifæri.

Ef sjúkrahúsið yrði flutt á þennan stað mundi aðgerðin hugsanlega getað fjármagnað alla Borgarlínu höfuðborgarsvæðisins sem áætlað er að kosti milli 70-150 milljarða króna. Ég byggi þetta á mínu skipulagslega innsæji í bland við þær opinberu tölur um samfélagslegann kosnað vegna uppbyggingar spítalans við Hringbraut. Ef spítalinn yrði byggður á þessum stað, sem borgin hefur nú nánast bent á, væri hægt að hætta við eða fresta fyrirliggjandi miklum samgöngumannvirkjum. Ég nefni hugmyndina um að leggja Miklubrautina í tveggja hæða stokk, sem nú er í undirbúningi. Mislæg  gatnamót við Kringlumýrarbraut og önnur við Bústaðaveg/Breiðholtsbraut. Og svo göng undir Öskjuhlíð með mislægum gatnamótum við Kringlumýrarbraut og áfram  alla leið í Smáralind og enn önnur göng undir Þingholtin að Sæbraut við Hörpu! En allt voru þetta forsendur fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut í greinagreðum frá árinu 2002 og síðar.

Þetta svæði er í búsetumiðju borgarinnar. Vel tengt samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og helstu leiðum út á land; Suðurnes, Vesturland og Suðurland. Þarna yrði spítalinn í ágætum tengslum við Reykjavíkurflugvöll ef hann yrði áfram í Vatnsmýrinni og ef/þegar hann fer er bein braut í Hvassahraun eða til Keflavíkurflugvallar. Háskóla Íslands verður í einungis 6 mínútna akstursfjarlægð frá þessum stað ef marka má Google. Það sama á við um Háskólann í Reykjavík og vísindagarðana í Vatsmýri.

Staðurinn gefur mikla möguleika til þróunnar til mjög langs tíma í fallegu umhverfi og þarna í grenndinni er fyrirhugað að byggðar verði nýjar íbúðir fyrir tugi þúsunda íbúa. Ég nefni 500 íbúðir í Skeifunni, um 1,5 þúsund nýja íbúðir í Vogabyggð og það nýjasta, 4-5 þúsund nýjar íbúðir á Ártúnsholti og í Bryggjuhverfinu.  Alls sennilega ný búsetutækifæri fyrir meira en 20 þúsund manns.

En mikilvægasti kostur þessa tækifæris sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú kynnt er hvað spítali á þessum stað yrði vel tengdur samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Þarna eru krossgötur Borgarlínunnar, Miklabraut að Háskólanum og vestur í bæ allar götur út á Seltjarnarnes. Sæbraut að miðborginni og fyrrhugaða Sundabraut í Mosfellsbæ og vestur á land, Suðurlandsvegurinn og Breiðholtsbraut og þaðan til Hafnarfjarðar og til Suðurnesja og Keflavíkurflugvallar.

Þetta er skipulagslega og samfélagslega góður kostur sem þarna liggur fyrir framan okkur og vert er að skoða af fullri alvöru. Þetta er í raun stórkostlegur staður fyrir sjúkrahús.

++++

Efst í færslunni er mynd af uppbyggingu þar sem aðalgatnamót Borgarlínunnar eru og langstæstu mót stofnæða höfuðborgarsvæðisins fyrir bifreiðaumferð. Þetta er ótúlega spennandi svæðií búsetumiðjunni sem gæti styrkt allt höfuðborgarsvæðið og þá sérstaklega almenningsflutninga ef rétt er að farið. Þetta er svæði sem hentar Nýjum Landspítala sérlega vel.

+++

Hjálagt eru nokkrar myndir frá kynningunni borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur s.l. miðvikudag þann 22.02.2017 auk myndar úr svaðaskipulagi höfuðborgarinnar.

 

 

Á sl+iðrunni að ofan sem kynnt var á fundinum með borgarstjóra í fyrradag er fyrirhuguðum byggingum á þessum stað skipt upp í þrjá áfanga. Hér er þriðji áfanginn litaður gulur. Alls er hér um að ræða 242 þúsund fermetra nýbygginga. Vel er hugsanlegt að hafa byggingamagnið enn meira með því  að byggja í hæðina en á þessu svæði er mest gert ráð fyrir 8  hæðum á einum stað. Vel er hugsanlegt að byggja jafnhátt eða hærra víðar á þessu svæði og auka byggingamagnið ef svo ber undir.

Eins og fram kemur á þessari slíðru í kynningunni mun mikið byggingamagn á þessum stað styrkja farþegagrunn Borgarlínunnar. Í því sambandi mun stærsti vinnustaður landsins, þjóðarsjúkrahúsið, skipta sköpum og gera Borgarlínuna mögulega.

Hér að ofan er grafisk framsetning sem sýnir þessa mikilvægustu krossgötur höfuðborgarsvæðisins og landsins alls mætast. Þarna eru mikil tækifæri ef rétt er á haldið.

Eins og sést á þessari yfirlitsmynd sem kynnt var í fyrradag mætast borgarlínurnuar sem ganga austur-vestur og alla leið upp í Mosfellsbæ og norður-suðurlínan við Vogabyggð. Þetta er mikilvæg stoð undir staðsetningu Landspítalans á þessim sömu slóðum við mikilvægustu gatamót lansins bæði hvað varðar almenningsflutninga og bifreiðaumferð.

Að ofan er mynd sem fengin er úr svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem bendir á mikilvægi svæðisins við Vogabyggð fyrir allt höfuðborgarsvæðið og reyndar landið allt.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.2.2017 - 08:57 - 11 ummæli

Reykjavík aldrei fallegri ?

 

Ef spurt væri hvenær Reykjavík hafi verið fallegust þá er ekki ólíklegt að það hafi verið á þeim tíma sem myndin að ofan var tekin. Sennilega skömmu fyrir aldamotin 1900.

Húsin eru mjög samstæð hvað form, hlutföll og hvað efnisval og áferð varðar. Það eru nánast engir kvistir á húsunum.  Það er mjög mikið og gott samræmi í allri heildarmyndinni sem blasir þarna við. Staðarandinn er sterkur og einkennandi. Ég vil minna á að í þessu mati á fegurð er gerður greinarmunur á byggingalistar- og skipulagslegri fegurð annarsvegar og snyrtimennsku hinsvegar. Borgin hefur eflaust oft verið snyrtilegri en á árunum fyrir 1900, þó ég viti það ekki. Varðandi snyrtimennskuna skynja ég að fólk sjái oft ekki undirliggjandi fegurð á suppulegum og ósnyrtilegum stöðum. Þetta á við bæði hús og er algengt þegar um sveitabýli er að ræða og auðvitað líka fólk.

Myndin er tekin úr Grjótaþorpinu austur Austurstæti.

Myndin að ofan og þær að neðan eru fengnar af Facebooksíðunni Gamlar myndir. Þær eru teknar á mismunandi tímum en segja okkur mikið um miðborgina á árum áður.

Myndin hér að ofan er nokkuð yngri en efsta myndin. Þarna er búið að setja út fyrir Útvegsbankahúsinu sýnist mér. Maður sér gálgana þar sem hóffjöðrin hefur verið negld í og markar útlínur hússins.  Á Þessari mynd er byggingalistin orðin órólegri en á fyrstu myndinni.

Þessi mynd er tekin fljótlega eftir brunann mikla í Reykjavík 1915. Maður sér Landakotsspítalann sem byggður var 1906 og grunna eftir húsin við Austurstæti/Austurvöll sem brunnu.

Þessi mynd er frá horni Laugavegs og Skólavörðustíg og mun vera tekin árið 1899. Þarna er komin nokkuð sterk mynd af aðalgötu bæjarins. Það virðist vel vandað til húsanna. Þarna til hægri glittir í umdeild hús að Laugarvegi 2 og 4.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.2.2017 - 13:56 - 9 ummæli

Spítalar í Reykjavík á árum áður

fullsizerenderq

Ég var að velta fyrir mér sjúkrahúsunum og byggingum sem tengjast heilsugæslu í Reykjavík á árum áður og fram á okkar dag.  Ég hripaði nokkur atriði niður um leið og ég vafraði í gegnum þetta á netinu. Þetta er merkileg saga og á margan hátt sértök, sennilega einstæð.

++++

Fyrsta byggingin þar sem heilbrigðismál voru á dagskrá er sennilega Nesstofa sem var reist á árunum 1760-1767 á vegum hinna dönsku stjórnvalda landsins að frumkvæði íslenskra ráðamanna.  Hlutverk hússins var að vera embættisbústaður fyrir fyrsta landlækni Íslands, Bjarna Pálsson sem var félagi Svefneyingsins Eggerts Ólafssonar.

Í konungsúrskurði um skipun landlæknis árið 1760 var gert ráð fyrir byggingu embættisbústaðarins á einhverri konungsjörð á Suðurlandi og varð Nes við Seltjörn fyrir valinu. Nesstofa var embættisbústaður landlæknis til ársins 1834. Síðustu verk arkitektsins Fortlings voru Bessastaðastofa og Nesstofa sem hann mun hafa lokið við að teikna vorið 1761.

Á myndinni að ofan af Nesstofu vekur tvennt athygli. Annarsvegar er það bislagið sem er úr timbri og líklega ekki samkvæmt fyrirmælum Fortlings eða danskri byggingahefð og svo er það „torfbragginn“ sem er grasi gróinn á göflunum. Þetta er sennilega misskilningur hjá þeim sem gróf prentplötuna og bislagið viðbót sem heimamenn hafa smíðað vegna veðurfarsins.

+++++

Það má skjóta því hér inn að  talið er að eitt fyrsta elliheimili landsins hafi verið reist í Ólafsfirði á fjórtándu öld. Það hét Kvíabekkur og var spítali og heimili fyrir gamla presta, en það þótti kostur við staðsetninguna að þar var góður aðgangur að fiskmeti.

 

fullsizerendert

Sjúkrahús Reykjavíkur var fyrsti spítalinn í Reykjavík stóð að Kirkjubrú 1 þar sem Herkastalinn stendur nú. Sjúkrahúsið var rekið af einkaaðilum í þessu húsi frá 1866 til 1884. Þarna var rými fyrir 14 sjúklinga. Húsið  blasti við þegar gengið var suður Aðalstræti frá höfninni.  Ekki veit ég hvort staðarvalið hafi ákvarðast af því að austar í götunni var Dómkirkjan en víst er að Víkurkirkjugarður hafði þar engin áhrif vegna þess að hætt var að jarðsetja þar þegar spítalinn tók til starfa.  Þetta var sérlega fallegt hús ef marka má ljósmyndir. Fallega proportionerað með smá Palladio yfirbragði. Ég sæi húsið sem kallað var „Okakerið“ (?)  gjarna endurreist einhversstaðar í borginni. En það er auðvitað borin von.  Sjúkrahúsið var á efri hæð og veitinga- og skemmtistaður á neðri hæð. Skemmtileg blanda sem kannsi er ekki til eftirbreytni. Að neðan er svo merkileg götumynd sem ég fann þar sem sjá má Kirkjustrætið (Kirkjubrú (?) alla leið að Pósthússtræti.  Á myndinni er er Okakerið til hægri með hlerum fyrir gluggum á neðri hæð og búið er að byggja Alþingishúsið. Við endan sést í Berhöftstorfuna uppi í brekkunni.

fullsizerenderjhgjgh

fullsizerenderh

Farsóttarhúsið við Þingholtsstræti 25 var almennur spítali frá 1884 Þegar Okakerinu var lokað allt til 1903 þegar aðalsjúkrahús Reykjavíkur, Landakotsspítali, tók til starfa. Starfsemi Læknaskólans fór að mestu fram í húsinu frá árinu 1902, eða þar til Háskóli Íslands tók til starfa árið 1911. Það má því segja að þetta hafi verið fyrsta háskólasjúkrahúsið hér á landi. Reykjavíkurborg keypti húsið árið 1910 og var það notað sem íbúðarhús um tíma. En árið 1910 var því breytt í sjúkrahús sem einkum átti að vista farsóttarsjúklinga og var þá gjarnan nefnt Farsóttarhúsið eða Farsótt og hefur það nafn haldist síðan.

Frá 1970 var þar aðstaða útigangsmanna en nú hefur henni verið lokað og stendur húsið tómt. Núgildandi deiliskipulag leyfir nýbyggingu á austasta hluta lóðarinnar þar sem nú má sjá leyfar af flísalögðu gólfi þar sem menn voru krufnir í rannsóknar og kennsluskini.

fullsizerendern

Myndin að ofan er af Kirkjustræti 12 sem var fyrsta húsið við strætið ef Dómkirkjan er undanskilin og stóð við hlið Alþingishússins. Því hefur nú verið komið fyrir á Árbæjarsafni og þjónar sem inngangur í safnið eða móttaka.  Húsið sem byggt er úr múrstein var tekið í notkun árið 1848 timburhæðinni var bætt ofaná árið 1882. Húsbyggjandi var Chr. L. Møller.  Halldór Kr. Friðriksson eignaðist húsið 1851. Kona hans Leopoldina Friðriksson, var dönsk. Þau eignuðust sex börn sem upp komust. Leopoldina var mikil garðræktarkona en missti garðland sitt þegar Halldór seldi landsstjórninni spildu undir byggingu Alþingishússins árið 1880.

Þarna var  var Hjúkrunarfélagið Líkn með sína starfssemi og ber það nafn þess.

Líkn var lengi íbúðarhús. Á lóð hússins var þar kindakofi, eins og fram kemur í endurminningum Árna Thorsteinsson um mikið flóð í miðbænum árið 1881: „Það mun hafa verið í þessu sama flóði, sem flæddi í kindakofann hans Halldórs Kr. Friðrikssonar í Kirkjustræti 12, og voru ærnar fluttar inn í Alþingishúsið, er þá var í byggingu. Þótti það kynleg tilviljun að kindurnar voru 32, eða nákvæmlega jafnmargar þingmönnum þeirra tíma.“

Árið 1911 seldi Leopoldina húsið Háskóla Íslands og var þar m.a. rannsóknarstofa læknadeildar. Hjúkrunarfélagið Líkn fékk húsið til afnota á árunum 1941-56 og dregur það nafn sitt af því. Þar fór m.a. fram berklaskoðun.

 

fullsizerenderr

Lauganesspítali var reistur af dönskum Oddfellowfélögum en rekinn af íslenska ríkinu frá 1898 til 1940 þegar hann var tekinn til notkunnar af setuliði bandamanna.

Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var rekinn holdsveikraspítali í Laugarnesi í þessu glæsilegu timburhúsi. Holdsveikraspítalinn í Laugarnesi var vígður 27. júlí 1898. Spítalinn var gjöf dönsku Odfellowreglunnar til íslensku þjóðarinnar. Hann var byggður fyrir gjafafé sem safnað var í Danmörku. Nokkru áður eða sumrin 1895 og 1896, ferðaðist hér um landið á vegum landstjórnarinnar danskur læknir dr. Edvard Ehler til að kynna sér útbreiðslu  holdsveiki og meðferð sjúkra á Íslandi. Ehler skrifaði blaðagreinar og hélt erindi í Danmörku og lýsti holdsveiki sem smitsjúkdóm þar sem einangrun holdsveikra og hentug spítalavist væri áhrifamesta vörnin.

Húsið brann á stríðsárunum.

holdsveikraspitalinn_i_laugarnesi

 

 

fullsizerenderw

Franski spítalinn við Lindargötu var rekinn af La Societe des Hooitezu Francais d´Islande frá 1903-1921.  Það vekur athygli að Franski spítalinn við Lindargötu, Laugarnesspítali og Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hafa allir sama eða svipað húsform.

photo-b-1024x768

Landakotsspítali við Túngötu  var 172 daga í byggingu og tók til starfa 1902. Spítalinn var helsti spítali landsins og kennslusjúkrahús (háskólasjúkrahús) þar til starfssemi Landspítalans hófst árið 1930. Þetta var tvílyft timburhús á steyptum kjallara með risi. Takið eftir myndarlegum sólstofum á fyrstu hæð og „karnapp“ á annarri hæð fyrir miðju húsi. Seinna var byggt við húsið glæsileg bygging úr steinsteypu. Spítalinn var rekinn af St. Jósefssystrum. Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra.

5_0_82

Byggt var við gamla Landakotsspítalan á fjórða áratug síðustu aldar samkvæmt nytjastefnunni eða modernismanum. Þetta var afar glæsileg bygging sem hönnuð af Sigurði Guðmundssyni arkitekt sýnist mér.  Byggingin var í hæsta gæðaflokki og fullkomlega á pari við það besta sem byggt var á meginlandi Evrópu á sama tíma. Áratugum síðar var gamli spítalinn rifinn til að rýma fyrir þeirri byggingu sem nú stendur og er eftir Einar Sveinsson arkitekt.

mm

Sjúkrahús líknarfélagsins Hvítabandið við Skólavörðustíg var opnað 1934. Reykjavíkurborg tók við rekstrinum 1944. Hvítabandið var kvennfélag sem stofnað var 1895 að bandarískri fyrirmynd. Enkunnarorð félagsins var „Fyrir Guð, heimilið og þjóðina“.  Nú er starfssemi þarna rekin á vegum Landspítalans.

mynd_4b

Borgarsjúkrahúsið í Fossvogi var opnað 1967  og hefu verið sjúkrahús þar allar götur síðan og mun að líkindum verða áfram þó áætlanir frá því um síðustu aldamót gangi út á annað.  Myndin að ofan sýnir hugmynd um stækkun hans. Spítalinn var hannaður af Einari Sveinssyni arkitekt og er mjög góð og sveigjanleg bygging með miklum stækkunarmöguleikum eins og sést á myndinni að ofan. Ekki veit ég hver gerði tölvumyndina með stækkunum að ofan.

fullsizerendersolheimar

Spítalinn Sólheimar sem rekið var í húsinu Tjarnargata 35 var reist af Jóni Laxdal tónskáldi árið 1913 og teiknað af Rögnvaldi Ólafssyni.  Árið 1918 var byggt við húsið að norðanverðu. Jón lést árið 1928 og hinn 15. maí undirritaði Guðrún Figved, fædd Laxdal, afsal að húsinu, þar sem það var selt Reykjavíkurborg fyrir kr. 320.000. Þá þegar höfðu læknarnir Bjarni Bjarnason, Eyþór Gunnarsson og Jónas Sveinsson tekið húsið á leigu og ráku þar sjúkrahús sem þeir nefndu Sólheima. Það var rekið fram yfir 1960.

 

fullsizerendernnn

Landspítalinn var opnaður í desember 1930. Hann var byggður af framsýnu fólki og í fullkomnu samræmi við fyrsta skipulag Reykjavíkur. Honum var valinn staður í útjaðri byggðarinnar í góðum tengslum við vegakerfið, Hringbraut, og aðra fyrirhugaða samgöngukosti við landsbyggðina svo sem járnbrautarstöð.

 

fullsizerendervv

Nú er á dagskrá að byggja svokallaðann Nýjan Landspítala á sama stað og sá spítali sem byggður var og tekinn í notkun 1930 eða fyrir 87 árum. Þetta er mikil blanda gamalla og nýrra húsa á viðkvæmum stað í borginni. Með í þessu eru bílastæðahús uppá 53.400 fermetra. Þessi framkvæmd er hugsuð til mjög langrar framtíðar. Myndin að ofan fylgdi vinningstillögunni í samkeppni um spítalann fyrir 8 árum. Síðan þá hefu verið bætt við um 15.000 fermetra byggingu sem ekki er inná þessari mynd. Þetta eru þriggja hæða byggingar sem spanna alla suðurmörk lóðarinnar meðfram nýju Hringbrautinni. Gaman og fróðlegt væri að sjá þessa upplýsandi tölvumynd uppfærða með áorðnum breytingum.

Skemmtilegt hefði líka verið ef hið svonefnda „Aðaltorg“ sem sést vel á myndinni og er framan við gamla Landspítalann hefði náð alla leið suður að Hringbraut. Gamli Landspítalinn á það eiginlega skilið.

++++

Inn í þessa upptalningu vantarHeilsuverndarstöðina eftir Einar Sveinsson,  Kleppsspítala eftir Rögnvald Ólafsson arkitekt, sjúkrahúss SÁÁ  inni við Grafarvog eftir Ingimar Hauk Ingimarsson arkitekt og eflaust sitthvað fleira. En það sem vekur athygli er að um 1970 voru að vissu marki  rekin fimm sæmilega stór sjúkrahús í borginni, Landakot, Landspítalinn , Borgarspítalinn, Kleppsspítali og Hvítabandið. Mörg þessara sjúkrahúsa eru í fullum rekstri enn í dag.

Stjórnvöld ákváðu árið 2000 að sameina sjúkrahúsin öll í eitt og það ætti að gera með viðbyggingum við núverandi byggingar á Landspítalalóð sem flestar ef ekki allar eru gamlar og gjörsamlega úreltar. Þessi ákvörðun hefir verið mikið umdeild með fjárhagslegum, rekstrarlegum og skipulagslegum rökum.

Síðan eru liðin 17 ár og á þeim tíma hafa allar stoðir sem stóðu undir staðarvalinu frá 2002 brostið. Ekki stendur steinn yfir steini í þeim staðarvalsúttektum sem komu í kjölfarið sem allar byggðu á þeirri fyrstu.  Stjórnvöld hafa dregið lappirnar með að láta gera opna og óháða staðarvalsgreiningu vegna gjörbreyttra aðstæðna. Slík úttekt hefði án nokkurs vafa sýnt að annaðhvort er Hringbraut rétti staðurinn eða ekki. Friður hefði fengist um málið. En nú er svo komið að stjórnvöld eru að falla á tíma tíma og hafa málað sig út í horn vegna aðgerðaleysis. Eina leiðin sem þau sjá er að hafna faglegri vinnu og halda út í fullkomna óvissu, af fullum krafti, sem líklega mun valda þjóðinni miklu tjóni til styttri og lengri tíma.  Þarna er um að ræða fjárfestingu upp á töluvert á annað hundrað milljarða króna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.1.2017 - 15:24 - 2 ummæli

Umræðan um arkitektúr og arkitektinn í umræðunni.

img008

 

Danska arkitektafélagið hefur áhyggjur af því að danskir arkitektar blandi sér ekki nægjanlega í umræðuna um störf þeirra og verk í fjörmiðlum. Félagið leggur áherslu á að þeir haldi á lofti faglegum sjónarmiðum sínum með það að markmiði að auka skilning fólks á því sem máli skiptir og varðar arkitektúr og skipulag. Félagið velti fyrir sér hvort lítilli þátttöku arkitekta í umræðunni sé um að kenna einhverju óöryggi þeirra varðandi það að tjá sig og hvernig maður ber sig að.  Til þess að mæta þessu og ráða á bót því setti arkitektafélagið upp námskeið fyrir arkitekta sem byrjar á morgun þriðjudag.

Þetta virðist oflugt námskeið.

Ég var eiginlega mjög hissa á þessu vegna þess að mér hefur alltaf fundist danskir arkitektar almennt duglegir að tjá sig. Meira að segja stundum jafnvel of duglegir. En það finnst danska arkitektafélaginu ekki.

Almenningur í Danmörku er, að mér hefur fundist, vel upplýstur. Miklu betur en sá íslenski.   Allir helstu fjölmiðlar landsins eru með sérstakt fólk á ritstjórnum sínum sem fjalla um efnið og Arkitektens Forlag gefur út þrjú víðlesin tímarit um efnið. Þar fyrir utan kemur út fjöldi bóka og tímarita fyrir almenning um efnið á hverju ári þar í landi. Svo er mikið fjallað um þetta á ljósvakamiðlum þar sem fólk tekst jafnvel á um viðfangsefni líðandi stundar. Oftast auðvitað án aðkomu stjórnmálamanna.  Þetta eru faglegar umræður en ekki flokkapólitískar.

Hér er nánast aldrei fjallað um þetta í fjömiðlum. Ef þetta er á dagskrá blaða eða ljósvakamiðla er oftast fjallað um sjálfa framkvæmdina eða flokkapólitíkina sem að baki liggur sem er allt önnur Ella. Þegar fjallað er um framkvæmdina og flokkapólitíkina eru helstu atriðin stærð og kostnaður, bílastæðafjölda, fjáröflun og framkvæmdaaðila. Og svo auðvitað karp stjórnmálamannanna sem varða tiltekið viðfangsefni.  Svo er fjallað um hverjir munu nota húsið. Einkum ef um fræg fyrirtæki eða frægt fólk er að ræða. En nánast aldrei um hugmyndafræði eða fagleg sjónarmið sem liggja að baki verkanna.

Þetta virðisr vera reglan.

Ég rakst á góða undantekningu í Mogganum á laugardaginn. Þar skrifar Sigtryggur Sigtriggsson um Alliance-húsið vestur í bæ og byggingu hótels á lóðinni. Þetta lofar allt mjög góðu.  Þar skrifar hann um arkitektúr og skipulag, umferð, vinda og húsform. Flest aðalatriðin. Í greininni má finna eftirfarandi setningu „Grunnformin að nýbyggingunni eru tekin frá Alliance-húsinu og eru húsin lágreistari en Mýrargata 26, sem stendur við hliðina, og fyrirhuguð byggð á Héðinsreit“.  Ég held, svei mér þá, að þetta sé í fyrsta sinn sem ég les texta eftir almennan blaðamann í dagblaði sem fjallað er um arkitektúr með beinum hætti.

En það verður líka að halda því til haga að Egill Helgason og Pétur Ármannsson fjölluðu um byggingalist á mjög vandaðan og skemmtilegan hátt á RUV á síðasta ári og í menningarhluta Kastljós um byggingalist í síðustu viku var ný skrifstofubygging Alþingis kynnt. Þetta eru líka undantekningar.

++++

Þrátt fyrir að umræðan sé margfalt meiri í Danmörku en hér á landi, þykir danska arkitektafélaginu mikið vanti uppá og hvetur fagfólkið til þess að láta til sín taka í umræðunni og efnir til námskeiða með það markmið að klæða danska arkitekta upp til þess að geta tekið og verið virkir í umræðunni.  Þeir vita að við fáum ekki bætt umhverfi og bætt skipulag nema að notandinn sé vel upplýstur og geti veitt faglegt og upplýst aðhald. Og það er best gert með því að arkitektar leggi  skólakerfinu og fjölmiðlum lið til að viðhalda umræðunni í grasrótinni. Arkitektar þurfa að læra að tala til almennings, hins óbreytta notanda. Það vill brenna við að arkitektar tali að mestu til annarra arkitekta og á þeirra máli. Þessu þarf að breyta.

+++++

Efst er ljósmynd af auglýsingu sem ég fékk frá danska arkitektafélahinu vegna námskeiðsins sem var hvati að þessum pistli.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.1.2017 - 17:16 - 4 ummæli

Ágætt dæmi um aðlögun að eldri byggð.

rsvujtkb-0606

 

Það er ánægjulegt þegar maður verður þess var að skipulagshöfundar vinna deiliskipulag á forsendum þess sem fyrir er. Dæmi um það er nýlegt skipulag á reit sem afmarkast af Laugavegi, Vegamótastíg, skólavörðustíg og Bergstaðastræti. Skipulagið nær einkum til húsanna Laugavegur 12b og 16, staðgreinireitur er 1.171.4

Eins og sést á myndinni efst í færslunni er um að ræða hús milli Bergstaðastrætis og Vegamótastígs.  Þarna á myndinni er afar vel endurbyggt friðað hús sem stendur á horni Bergstaðastrætis og Laugavegar.  Benedikt Stefánsson byggði húsið að Laugavegi 12 árið 1903.  Árið eftir fékk hann leyfi til að byggja geymsluhús sunnan við hús sitt, sem síðar fékk númerið 1 við Bergstaðastræti, sem nú hefur einnig verið friðað. Höfundar taka mið af þessu húsi í skilmálum og setja kröfu um útlitshönnun þar sem stendur að „gluggaskipan og efnisval skuli falla vel að hinu friðaða húsi og götumynd Laugavegar“.

Þetta gerir það að verkum að fyrirhuguð  nýbygging á eystri hluta lóðarinnar Laugavegur 12b, þar sem nú stendur einnar hæða bygging (sem sennilega hefur einhverntíma verið Laugavegur 14) verði með svipaðri áferð og af svipuðum gæðum og friðaða hornhúsið. Lagt er til að að vestara húsið Laugavegur 12b sem er frá 1891 verði varðveitt og heimild gefin til þess að byggja eina hæð „ofan á það á forsendum núverandi húss„. Eystra húsið á lóðinni sem er frá 1913 má rífa og í þess stað má reisa nýbyggingu sem getur orðið 3 hæðir og kjallari. Af skýringarmynd og skilmálum má álykta að það hús verði í arkitektónisku samræmi við húsin tvö þar vestan við.

Efst er ljósmynd af Laugavegi 12 og Laugavegi 12B

Hér strax að neðan er skýringarmynd sem fylgir skipulaginu og neðst er skipðulagsuppdrátturinn í heild sinni.

fullsizerenderaaa

Líklegt er að fjögurra hæða nýbygginginsem hér er sýnd græn fái áferð sem verður fallegri og vandaðri en skilja má af skýringarmyndinni að ofan. Þarna sést líka hverni húsin trappa niður að friðuðu húsunum á horni Laugavegar og Bergstaðastrætis.

mynd

Að ofan er deiliskipulagið sem samþykkt var í borgarráði 19. mars 2015.  Með því að tvísmella stækkar hún.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.1.2017 - 11:02 - 5 ummæli

Byggt við Háskólabíó og aukaafurðir í samkeppnum

 

tollhusid2lett

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum reyna þeir að skilgreina spurninguna sem sett er fram í keppnislýsingunni og svara henni í samhengi við skilgreinungu keppandans á viðfangsefninu. Þetta er einmitt það sem veldur því að samkeppnistillögur eru mismunandi. Ef allir keppendur skilgreindu keppnislýsinguna eins og allir læsu umhverfið og skilgreindu það yrðu allar lausnirnar áþekkar.

Í samkeppnum vakna líka spurningar hjá keppendum sem ekki er beinlínis spurt um í keppnislýsingum.  Þá kemur oft ýmislegt í ljós sem gerir arkitektasamkeppnir sérlega spennandi.

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum þá líta þeir á samkeppnisverkefnið í stóru samhengi. Langt út fyrir samkeppnismörkin.  Þetta er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt.  Þessu vinnulagi fylgja oft ýmsar smáhugmyndir sem falla utan sjálfs samkeppnisverkefnisins og hafa auðvitað ekki afgerandi áhrif á niðurstöðu dómnefndar. Tilgangurinn með þáttökunni í samkeppninni var oft ekki að sigra, heldur ekki síður að leggja eitthvað til málanna.

Þegar samkeppni var haldin um Listasafn Reykjavíkur fyrir allmörgum árum gat að líta  hugmynd um endurmótun Tryggvagötu í einni samkeppnistilögunni. Þetta tengdist hugmyndum arkitektanna á teiknistofunni ARGOS, um aðkomu að safninu.

Hugmynd ARGOS er afar einföld og gengur út á að færa meginþorra bílastæða yfir götuna í skugga og opna solríkt svæði framan við mynd Gerðar Helgadóttur á suðurvegg Tollhússins. Þannig opnast rúmgott útivistarsvæði fyrir fólk og listaverkið fær loks notið sín.  Nú er ástandið þannig að bílarnir eru baðaðir í sól um leið og þeir skyggja á listaverkið og fólkið gengur handan götunnar í skugganum.

Þegar horft er á skissuna að ofan veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju, heilsu- og hagsbóta?

kropp-heildlettÍ samkeppni um nýtt skrifstofuhús fyrir Alþingi árið 1985 fannst tveim keppendum, Hjörleifi Stefánssyni og Þóri Helgasyni (Tore Lie Ballestad) arkitektum að rétt væri að ganga út frá verndun húsanna á svæðinu við tillögugerðina. Þessi hugmynd gekk þvert á keppnislýsinguna. Þeir félaga spurðu samt hvort tillagan yrði tekin til dóms ef hún kæmi fram. Dómnefnd svaraði því játandi og þeir skiluðu inn frábærri tillögu sem er nánast sú sama og varð síðar ofaná og nú er verið að framkvæma.

Þetta var djörf tillaga en þótti ekki í samræmi við tíðarandann.  Aðrir þátttakendur og meirihluti dómnefndar töldu að rétt væri að húsunum við Kirkjustræti yrði fargað fyrir nýbygginguna. Það má gera ráð fyrir að Hjörleifur og Þórir  hafi vitað að það var ekki til árangurs fallið að nálgast lausnina með verndun í huga. En af hugsjónninni einni lögðu þeir af stað í þessa vegferð. Tveir dómaranna, Ingvar Gíslason forseti þingsins og undirritaður töldu þetta góða nálgun og vildu að tillagan færi í sæti eða að hún hlyti innkaup. Við vorum í miklum minnihluta en fengum hana innkeypta.

Sjá myndina að ofan og takið eftir að Vonarstræti 12 hefur, samkvæmt tillögunni, verið flutt í Kirkjustræti eins og raunin varð 30 árum síðar.  Allar verðlaunatillögur gerðu ráð fyrir 100% niðurrifi við Kirkjustræti. Hinir síðustu verða stundum fyrstir.

+++++++

Að neðan eru svo nokkrar teikningar sem lagðar voru til dóms í samkeppni um nýtt tónlistarhús í Reykjavík 1. mars 1986.  Samkeppnislýsing gerði ráð fyrir að húsið risi austast í Laugardal rétt við íþróttahús Tennis- og Badmintonfélags Reykjavíkur.  Keppnislýsingu fylgdi  ítarleg húsrýmisáætlun sem var skýr og metnaðarfull.  Höfundar tillögunnar hér að neðan fundu tvennt að lýsingunni. Í fyrsta lagi töldu þeir staðsetninguna ranga af tveim ástæðum. Þeir töldu ekki rétt að skerða útivistarsvæðið í Laugardal og að tónlistarhúsið ætti að tengjhast miðborginni betur og fyrirliggjandi hótelstarfssemi. Í öðru lagi vissu keppendur, og í raun allir, að samtökin um byggingu tónlistarhúss höfðu ekki aðgang að þeim fjármunum sem til þurfti. Eftir þessa greiningu keppendanna spurðu þeir hvort tillaga sem byggði með öðrum hætti á öðrum stað en uppfyllti husrýmisáætlunina fyrir umtalsvert minna fé yrði tekin til dóms? Þeir vildu leggja fram tillögu á betri stað sem kostaði verulega minna en var áætlað. Svarið var á sama hátt og þegar Hjörleifur og Tore spurðu vegna annarrar nálgunar varðandi skrifstofubyggingu Alþingis en það var sérstaklega tekið fram í svarinu að tillagan yrði ekki verðlaunuð.

Ungu arkitektarnir ákváðu, af hugsjónaástæðum, að kasta sér út í vinnuna í von um að umræður færu af stað um þessa nálgun sem þeim þótti skynsamari en áætlun dómnefndar. Tillagan fékk engin verðlaun og ekki innkaup. En hún vakti mikla athygli og umræður. Fjallað var um hana í blöðum og hún var tekin til umræðu í Samtökunum um Tónlistarhús í Reykjavík sem fengu frumritin að láni og hafa ekki sést síðan. Svo fundust þessar teikningar nýverið og eru birta hér.

Það má kannski segja að sem betur fer var tónlistarhúsið ekki byggt þarna inni í Laugardal þó að það sé miðlægara nú en fyrir rúmum 30 árum. Einkum vegna tilkomu samgönguáss AR2010-2030. Í staðin fengum við Hörpu sem er skynsamlega staðsett og þjónar tilgangi sínum vel

 

 

helgi_scan-951afgstodum

Af afstöðumyndinni má sjá að gert var ráð fyrir öflugri tengingu við almenningsflutningakerfið við Suðurgötu. En á þessum árum var mikið rætt um tengingu Suðurgötunnar  til suðurs yfir Skerjafjörð. Þarna var líka lögð fram sem aukaafurð tenging við hugsanlegan tónlistarskóla sunnan við Háskólabíó. Það er húsið nr 3 við Dunhaga sem gefið var svoldið Aaltóskt yfirbragð með æfingarsölum í viftuformi.

haskolabio-1

Á sneiðingunum sést hvernig svölum var skotið inn í bíosalinn til þass að fullnægja kröfum um sætafjölda eins og fram kom í húsrýmisáætlun.

 

helgi_scan-961afst

Fækka þurfti sætum vegna aðlögunar að kröfum um fyrsta flokks hljómburð í salnum sem breyta átti úr bíoi í fyrsta flokks hljómlistarsal.

 

haskolabio-3-efri-haed

haskolabio-4-utlit-asfstodumynd

 

 

Að ofan er afstöðumyndin.  Þar má lesa að Hagatorgi hefur verið breytt þannig að umferðinni er beint út á stofnbrautir t.d. Suðurgötu þar sem góð tenging er til annarra borgarhluta. Neshaginn hefur verið lagður niður milli Neskirkju og Melaskóla til þess að draga úr umferð inn í íbúðahverfin á Melum og Högum.

Þessi samnorræna arkitektasamkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldin skömmu eftir stofnun samtaka um tónlistarhús og var aðal viðfangsefni þeirra á árunum 1985 til 1987.   Guðmundur Jónsson arkitekt  í Osló varð hlutskarpastur og hlaut 1. verðlaun. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr en hins vegar má líta svo á að hún hafi markaðssett hugmyndina um tónlistarhús meðal almennings og ráðamanna sem endaði með því að Harpa var byggð.

Það muna það allir sem tóku þátt í samkeppni um nýtt Tónlistarhús í Reykjavik að kvöldið fyrir skiladag, þann 28. febrúar 1986 var forsætisráðherra svíþjóðar myrtur á götu í Stokkhólmi. Tillagan var gerð með fullri vitund og samþykkis Guðmunda Kr. Kristissonar arkitekts og annars höfundar Háskólabíós. Hinn arkitektinn, Gunnlaugur Halldórsson, var nýlátinn. Hann hafði látist fyrr í mánuðinum og vissi ekki af þessu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.1.2017 - 15:29 - 6 ummæli

Stefnuyfirlýsingin 2017 og skipulagsmálin

935457

Það var fagnaðarefni að lesa stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vorið 2013,  fyrir tæpum fjórum árum. Þar var í fyrsta skipti tekið á skipulagsmálum í stjórnarsáttmála og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð var fylgt eftir. En í sáttmálanum stóð orðrétt:

“Ríkisstjórnin telur mikilvægt að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Sett verða lög um sérstök verndarsvæði í byggð í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl”.

Það má segja að þetta hafi verið óvenjulegt ákvæði í stjórnarsáttmála og allir gerðu ráð fyrir að þetta mundi að  hafa töluverð áhrif á skipulagsmál í landinu.

Á öðrum stað í sáttmálanum frá 2013 stóð:

„Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst“.

Þessi setning var túlkuð þannig að nú ætti að koma núverandi húsnæði Landspítalans í lag og samhliða finna „varanlega lausn“ á framtíðarhúsnæði spítalans. En byrjunin á þeirri vegferð hlýtur að vera að finna framtíðarstaðsetningu spítalans með faglegum hætti. En engin slík staðarvalsgreining lá fyrir þá og liggur heldur ekki fyrir í dag.

Svo var ákvæði um Reykjavíkurflugvöll  þar sem stóð:

Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.“

Eins og fyrr segir var ánægjulegt að lesa þessa stefnuyfirlýsingu og maður fylltist bjartsýni. Nú þegar litið er til baka sér maður að ekkert hefur gengið eftir þrátt fyrir mikinn persónulegan áhuga einstakra ráðherra á öllum þessum málum. Tilraunir til þess að verja staðaranda Reykjavíkur á viðkvæmum stöðum mistókst að mestu og nægir þar að nefna uppbyggingu við Austurbakka Reykjavíkurhafnar. Sumt tókst vel eins og t.a.m. Hljómalindarreitur sem er byggður í anda þessarrar stefnuyfirlýsingar.

Húsakostur Landspítalans hefur fengið að grotna niður og „varanleg lausn“ til framtíðar á húsnæðismálum spítalans er ekki fundin vegna þess að staðarvalsgreining hefur ekki farið fram.  Það virðist sem embættismenn hafi þvælst fyrir málinu þannig að fagleg vinna hefur ekki átt hljómgrunn hjá stjórnmálamönnum.  Heldur hefur fúskinu verið haldið áfram allt kjörtímabilið hvað þetta varðar.

Og umræðan Reykjavíkurflugvöll er nánast enn á sama stað.

+++++

Í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar  sem undirritaður var í fyrradag kveður við annan tón.

Skipulags- og húsnæðismálum er nánast ýtt út af borðinu en þrjú einstök atriði nefnd og þar af eitt af mikilli festu.

Orðrétt stendur.:

„Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023.“ 

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en að hafnað sé sjálfsagðri ósk um að faglega verði staðið að uppbyggingu landspítalans og leitað þeirrar „varanlegu lausnar“ sem nefnd var í sáttmálanum frá 2013.  Ekki er sérstaklega minnst á viðhald og endurhæfingu eldra húsnæðis sem er orðið beinlínis heilsuspillandi ef marka má fréttir. Í mínum huga er þarna verið að ganga þvert á eitt helsta slagorð Bjartrar Framtíðar í kosningabaráttunni sem allir muna: „Ekkert Fúsk“. Þetta er nánast svo mikið áfall að líkja má við náttúruhafarir. En vonandi áttar nýr heilbrigðisráðherra sig á málinu þegar hann fer að kynna sér það.

Tvö önnur atriði sem varða skipulagsmál eru nefnd í sáttmálanum frá í fyrradag. Annarsvegar orðrétt: „Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu“.  Sem er ákaflega skynsamlegt og hinsvegar:  „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.“  Sem segir okkur að þetta flugvallarmál hjakkar enn í sama farinu og fyrir tæpum, fjórum árum.

Svo er talað um að „sérstök  höfuðborgarstefni verði mótuð“ án þess að skilgreina það nánar. En eins og allir vita er höfuðborgin ekki eingöngu fyrir höfuðborgarbúa og það er til margs að líta í því samhengi.

++++

Ég hef spurt að því áður og spyr enn; Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að stjórnvöld og embættismenn hafni því að gerð verði óháð fagleg staðarvalsgreining vegna staðsetningar spítalans þannig að „varanleg lausn finnist“?   Það hefur verið óskað eftir þessu í áratug eða alveg frá því að þær stoðir sem héldu uppi staðarvalinu frá 2002 féllu.  Svari nú hver fyrir sig.

Og hver er ástæðan fyrir því að ekki hefur verið kynnt með nútíma tölvumyndum hvernig fyrirhugaður meðferðarkjarni Landsítalans fari í borgarlandslaginu? Til dæmis með bílferð um Miklubraut frá Kringlumýrarbraut að Suðurgötu og aftur til baka frá Hofsvallagötu að Snorrabraut.  Kannski líka yfirflugsmyndir og „Walk through“ um gömlu Hringbaut og Bústaðaveg.  Svari þessu hver fyrir sig.

Mér er sagt að svona myndir séu til, menn vilji bara ekki sýna þær. Ég veit ekki hvort það sé satt en það er auðvelt og kostar smápening að gera svona myndir. Nýr Landspítali ohf ætti að láta gera svona myndir af óháðum aðila úr því að þau eru svona sannfærð um verk sitt. Það getur bara hjálpað til að leysa hluta deilunnar um þetta mikla hús.

++++

Efst er mynd sem sýnir formennina handsala samkomulagið í fyrradag.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.1.2017 - 22:57 - 10 ummæli

Vegamótastígur – Gamalt hús flutt – Nýtt hús byggt

 

 

15822858_10154950115523281_2929064311313900075_n

Í dag var húsið Vegamótastígur 9 lyft af sökkli sínum og flutt á baklóð að Grettisgötu 54. Þessi framkvæmd hefur verið mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum.

Í stuttu máli virðist hér vera á ferðinni skipulag sem ber öll megineinkenni verklags sem ekki fæðir af sér bestu hugsanlega niðurstöðu fyrir umhverfið.  Skipulagið virðist vera unnið með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi og jafnvel á kostnað umhverfisins.

Það er almennt álitið að skipulagið eigi að þjóna heildinni meðan hús sem er byggt inn í skipulagið eigi að þjóna einkahagsmunum lóðarhafa. Þess vegna var það á árum áður ekki talið gott að sami aðilinn geri deiliskipulagið, jafnvel á reikning lóðarhafa og hannaði svo húsin í beinu framhaldi. Þá er hætta á að skipulagið þjóni lóðarhafa fyrst og fremst og hagsmunir heildarinnar víki. Menn vildu að þarna kæmu tveir ráðgjafar að verkinu. Annar, sá sem gerði  deiliskipulagið, hafði hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hugsaði um vegfarandann og borgarbúann. Svo kæmi húsahönnuðurinn og hannaði hús fyrir notandan. Ef svo kæmu upp einhverjir hagsmunaárekstrar þá tækjust þessir tveir ráðgjafar á.

Ef rýnt er í uppbygginguna við Vegamótastíg  þá sést strax að sömu aðilarnir gerðu deiliskipulagið og hönnuðu húsið. Þá vaknar spurningin hver gætti hagsmuna heildarinnar, vegfarandans, í þessu ferli. Það hlýtur þá að vera borgin og skipulags- og umhvefisráð.

vegamotastigur

Að ofan er teikning af fyrirhugaðri byggingu sem kemur í stað þeirrar sem var flutt. Því verður ekki haldið fram að þessi bygging fari illa þarna. Enda tekur hún mið af húsi Máls og Menningar, Rúblunni, að verulegu marki.  En maður hefði líka viljað að nýbyggingin tæki mið af aðliggjandi húsi við Grettisgötu og auðvitað helst að gamla húsinu nr. 9 við Veghúsastíg. Það er frá 1904 og óvenju fallegt að formi til. Þar bjuggu líka þeir Kjarval og Laxness um tíma þó það skipti litlu máli í þessu samhengi.

En maður spyr sig hvernig þetta hefði litið út ef menn hefðu sæst við nýtingarhlutfall uppá 3.0 í stað 5,0 og gamla húsinu Vegamótastíg 9 gefið tækifæri til að standa. Það hefði örugglega ekki þjónað lóðarhafa jafn vel en flestir vegfarendur hefðu líklega tekið þeirri niðurstöðu fagnandi.  Það hefði sennilega orðið niðurstaða skipulagshöfundar sem falið væri að gæta að heildinni og staðarandanum. Hann hefði sennilega reynt að halda gamla húsinu á sínum stað og færa sól og il í stíginn og bjórgarðinn handan götunnar (Vegamót). Hann hefði unnið sína vinnu með hagsmuni heildarinnar og vegfarandans að leiðarljósi. Gamla húsið hefði getað orðið glæsileg aðkoma í flott hótel á þessum stað. Kannski með tengingu í húsin við hliðina, Rúbluna og húsin við Grettisgötu.

 

vegamotastigur_7_9_17_11_20151-page-001

Ef rýnt er í deiliskipulagið sem liggur til grundvallar framkvæmdarinnar þá sér maður að byggingamagnið er gríðarlegt. Menn hafa gætt hagsmuna lóðarhafans vel ef ég skil þetta rétt.  Í stað gamla hússins sem var 137 m2 kemur stórbygging uppá fimm hæðir og tvöföldum kjallara. Alls tæplega 2000 fermetrar . Byggingamagnið á lóðunum er 14 faldað.

Þarna er byggingamagnið hámarkað með nýtingarhlutfall uppá 4,9. En það þýðir að byggingarnar eru um 5 sinnum stærri að grunnfleti en lóðin. Til samanburðar má nefna að nýtingahlutfallið er víða í Skuggahverfinu um 2,0 og fer upp í um 4,5 þar sem það er mest. En þar standa 17-19 hæða hús.

Eins og lesa má af skilmálum gerir deiliskipulagið ráð fyrir að að þarna verði eitt bifreiðastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelstarfssemi.  Í skilmálum er gert ráð fyrir að þessum stæðum verði komið fyrir í tveim kjöllurum hússins. Lauslega reiknað ætti bílastæðaþörfin því að vera um 15 stæði vegna byggingarainnar, þar sem eitt á að henta fötluðum. Teikningarnar gera ekki ráð fyrir einu einasta stæði. Ekki einu sinni fyrir „drop off“ stæði fyrir leigubíla þrátt fyrir að þarna verði gistirými fyrir tæplega 80 manns og meðalstór veitingastaður.

Það er rétt að taka fram að í skilmálum er gefin heimild  til þess að kaupa sig frá þessari kröfu. Það er eð segja að borginnni er greitt fyrir að falla frá þessari kvöð. Það þýðir ekki að þörfin hverfi. Það er í almennt ekki hægt að kaupa sig frá frumþörfum. Þarfirnar hverfa ekki þó greidd sé einhver fjárhæð.  Það er hinsvegar hugmyndin að þegar svona stendur á er hægt að greiða sig frá því að þörfinni sé fullnægt á sjálfri lóðinni.  Þá vaknar skylda borgarinnar til þess að fullnægja þörfinni einhversstaðar í grenndinni. Þó ég þekki það ekki þá geri ég ráð fyrir að borgin sé að vinna að byggingu meiriháttar bílastæðahúss einhversstaðar þarna nærri því þetta er ekki eina framkvæmdin sem keypt hefur sig frá því að útvega bifreiðastæði fyrir hús. Við vitum um stór bílastæði á hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að byggja en ég veit ekki hvort þau eiga að koma í stað þeirra sem menn hafa greitt sig frá þarna á Vegamótastíg og þar um kring.

Það er rétt að upplýsa að núgildandi deiliskipulag byggir á deiliskipulagi frá í apríl 2002 sem var endurskoðað í apríl árið 2008 og mynd er sýnd af hér að neðan. En í því skipulagi var bætt við neðri kjallara.  Núgildandi deiliskipulag er frá því í Júli 2015. Þessi mikla nýting á rætur sínar að rekja allar götur til skipulagsins frá árinu 2002.

 

15871828_10154875079644291_7730425769366875353_n

Að ofan má sjá eldri tillögu að húsi á sömu lóð. Þarna hefur gamla húsinu verið lyft uppá þak nýbyggingarinnar. Þetta virkar framandi en er svoldið skemmtilegt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2016 - 15:41 - 11 ummæli

Reykjavík – Aleppo

13339614_1791736311059728_4493487944751756879_n

Prince Charles af Wales, sagði á árunum um 1990 að breskir arkitektar hefðu valdið meira tjóni undanfarin 40 ár í miðborg Lundúna en Deutsche Luftwaffe í seinni heimstirjöldinni!  Þetta var auðvitað arrogant og fékk prinsinn bágt fyrir. Einkum frá aritektum. Ég hitti mann í haust sem sagði að Reykjavík liti út eins og Aleppo með niðurbrotnar og sprengdar byggingar út um allt. Þetta er auðvitað ofmælt og  líka hrokafullt. En þetta segir okkur samt að fólk er uggandi yfir þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár og líst ekkert á hana. Lítur á niðurrifið eldri húsa og nýbyggingar sem ekki eru aðlagaðar nánasta umhverfi mjög svörtum augum.

Ég var að fara yfir færslur mínar á árinu sem er að líða og sé að það sem mest var lesið varðaði niðurrif gamalla húsa í Reykjavík. Það kom mér sannast sagna ekki á óvart. Niðurrif gamalla húsa og jafnvel nánast heilu reitanna í Reykjavík hafa verið sláandi. Hús hafa verið rifin sem aldrei fyrr og þeim öllum fórnað af fullkomnu tillitsleysi við það sem fyrir var að því er virðist. Engin skráning fór fram fyrir niðurrifið. Hvorki með ljósmyndum né uppmælingu og teikningum. Oftast voru þessar ákvarðanir byggðar á deiliskipulagi sem samþykkt var fyrir síðasta Hrun og stjórnmálamenn hafa ekki átt margra kosta völ til þess að afstýra þessum ósköpum.

Mestur hluti þessa niðurrifs var framkvæmt með stuðningi arkitekta. Þeir gerðu deiliskipulag sem kallaði á niðurrifið og þeir teiknuðu húsin sem risu í þeirra stað. Oft voru þetta sömu arkitektarnir sem nánast lögðu til að húsin yrðu rifini og teiknuðu svo húsin sem komu í staðinn.

Samfélagsleg ábyrgð kollega minna er mikil.

Í lok ársins sýndi sig ábyrgðafull framkoma stjórnmálamanna í þessu samhengi. Borgaryfirvöld höfnuðu umsókn um að rífa niður gömul hús á tveim stöðum í borginni. Annarsvegar við Veghúsastíg og hinsvegar á horni Bragagötu/Freyjugötu. Umhverfisráð taldi að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.  Þetta er hárrétt og samræmist reyndar opinberri menningarstefnu í mannvirkjagerð. Það var tími til kominn að menn spyrntu við fótum varðandi niðurrifið. Ég hefði auðvitað óskað að sú viðspyrna hefði komið frá arkitektum, en svo var ekki. Hún kom frá stjórnmálamönnum. Þetta gefur von um breytt viðhorf stjórnmálamanna á komandi árum og hugsanlegt aðhald gagnvart arkitektum og fjárfestum.

En hvað með kollega mína?

Er samfélagslegri ábyrgð kollega minna ábótavant? Þeir deiliskipuleggja og nánast dæma jafnvel áægt hús til niðurrifs. Þeir hanna hús í gamalt og gróið umhverfi sem öllum þykir vænt um og jafnvel elska með þeim hætti að það sem fyrir er er skúbbað til hliðar, víkur þó það sé ekki rifið. Þetta sér maður víða. Ég nefni Austurhöfn og nýlegar tillögur um skrifstorfubyggingu fyrir Alþingi sem er nýlega afstaðin.  Þar studdi dómnefnd tillögu í þriðja sæti sem að margra mati átti ekki erindi á einn viðkvæmasta stað í borginni. Í dagblöðunum í gær var fjallað um byggingu íbúðablokka sunnan útvarpshússins. Íbúðablokkirnar skyggja á eina helstu og merkusti stofnun þjóðarinnar. Það liggur i augum uppi að aldrei á að byggja neitt sem rýrir þau umhverfisgæði sem fyrir eru. En í því dæmi á að byggja íbúðablokkir sem rýra ásýnd einnar af helstu menningarstofnunnar landsins, RUV. Mér sýnist allir vera sammála um þetta arkitektar hafa tekið að sér að deiliskipuleggja og hanna hús sem ekki eru í samræmi um hugsjónina um betra umhverfi og virðingu fyrir því sem fyrir er. Ástæðan kann að vera sú að þetta hafi verið í forsögn samkeppi um byggingarnar. En allar tillögur í samkeppninni gerðu ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.

Í gær var líka kynnt í blöðunum hótelbygging í Borgarnesi. Borgarnes er eitthvað alfallegasta bæjarstæði á Íslandi. Fíngerð húsin á nesinu, nálægð við sjóinn og fjallahringurinn er einstakur. Þarna hafa arkitektar lagt til að byggt verði 4-5 hæða hótelkassi sem engan samhljóm hefur við nánasta umhverfi ef rétt er skilið. Húsið styrkir ekki staðarandann heldur veikir hann.

+++++

Arkitektar þurfa á nýju ári að taka sig á og sýna samfélagslega ábyrgð. Taka þátt í umræðunni og upplýsa notendur skipulagsins og bygginganna um þá möguleika og þau tækifæri sem við blasa. Hafa skoðun og láta hana í ljós og ekki síður að skipta um skoðun ef þannig stendur á. Ekki hoppa gagnrýnislaust á öll þau verkefni sem þeim býðst. Vera samfélagslega gagnrýnir og sýna ábyrgð líkt og stjórnmálamenn hafa gert varðandi Veghúsastíg og horn Bragagötu og Freyjugötu. Standa með byggingalistinni og umhverfinu öllu í hverju því verki sem þeir taka sér fyrir hendur.

+++++

Efst er skopmynd af hugsanlegri framtíð eins og Haldór Baldursson sér hana. Þarna er búið að rífa alla þá Reykjavík sem við elskum og túristarnir koma að heimsækja. Nema eitt hús „The very famous Colorful bárujarnshús in Reykjavík“

Myndirnar að neðan voru teknar í haust af nokkrum niðurrifsvæðanna í miðborg Reykjavíkur.

+++++

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða í von um að það gangi betur á næsta ári..

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

 

fr_20160407_036298-640x360-640x360

photo-4-640x480

photo-1-1-640x480

photo-2-1

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is