Miðvikudagur 18.1.2017 - 11:02 - 5 ummæli

Byggt við Háskólabíó og aukaafurðir í samkeppnum

 

tollhusid2lett

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum reyna þeir að skilgreina spurninguna sem sett er fram í keppnislýsingunni og svara henni í samhengi við skilgreinungu keppandans á viðfangsefninu. Þetta er einmitt það sem veldur því að samkeppnistillögur eru mismunandi. Ef allir keppendur skilgreindu keppnislýsinguna eins og allir læsu umhverfið og skilgreindu það yrðu allar lausnirnar áþekkar.

Í samkeppnum vakna líka spurningar hjá keppendum sem ekki er beinlínis spurt um í keppnislýsingum.  Þá kemur oft ýmislegt í ljós sem gerir arkitektasamkeppnir sérlega spennandi.

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum þá líta þeir á samkeppnisverkefnið í stóru samhengi. Langt út fyrir samkeppnismörkin.  Þetta er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt.  Þessu vinnulagi fylgja oft ýmsar smáhugmyndir sem falla utan sjálfs samkeppnisverkefnisins og hafa auðvitað ekki afgerandi áhrif á niðurstöðu dómnefndar. Tilgangurinn með þáttökunni í samkeppninni var oft ekki að sigra, heldur ekki síður að leggja eitthvað til málanna.

Þegar samkeppni var haldin um Listasafn Reykjavíkur fyrir allmörgum árum gat að líta  hugmynd um endurmótun Tryggvagötu í einni samkeppnistilögunni. Þetta tengdist hugmyndum arkitektanna á teiknistofunni ARGOS, um aðkomu að safninu.

Hugmynd ARGOS er afar einföld og gengur út á að færa meginþorra bílastæða yfir götuna í skugga og opna solríkt svæði framan við mynd Gerðar Helgadóttur á suðurvegg Tollhússins. Þannig opnast rúmgott útivistarsvæði fyrir fólk og listaverkið fær loks notið sín.  Nú er ástandið þannig að bílarnir eru baðaðir í sól um leið og þeir skyggja á listaverkið og fólkið gengur handan götunnar í skugganum.

Þegar horft er á skissuna að ofan veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju, heilsu- og hagsbóta?

kropp-heildlettÍ samkeppni um nýtt skrifstofuhús fyrir Alþingi árið 1985 fannst tveim keppendum, Hjörleifi Stefánssyni og Þóri Helgasyni (Tore Lie Ballestad) arkitektum að rétt væri að ganga út frá verndun húsanna á svæðinu við tillögugerðina. Þessi hugmynd gekk þvert á keppnislýsinguna. Þeir félaga spurðu samt hvort tillagan yrði tekin til dóms ef hún kæmi fram. Dómnefnd svaraði því játandi og þeir skiluðu inn frábærri tillögu sem er nánast sú sama og varð síðar ofaná og nú er verið að framkvæma.

Þetta var djörf tillaga en þótti ekki í samræmi við tíðarandann.  Aðrir þátttakendur og meirihluti dómnefndar töldu að rétt væri að húsunum við Kirkjustræti yrði fargað fyrir nýbygginguna. Það má gera ráð fyrir að Hjörleifur og Þórir  hafi vitað að það var ekki til árangurs fallið að nálgast lausnina með verndun í huga. En af hugsjónninni einni lögðu þeir af stað í þessa vegferð. Tveir dómaranna, Ingvar Gíslason forseti þingsins og undirritaður töldu þetta góða nálgun og vildu að tillagan færi í sæti eða að hún hlyti innkaup. Við vorum í miklum minnihluta en fengum hana innkeypta.

Sjá myndina að ofan og takið eftir að Vonarstræti 12 hefur, samkvæmt tillögunni, verið flutt í Kirkjustræti eins og raunin varð 30 árum síðar.  Allar verðlaunatillögur gerðu ráð fyrir 100% niðurrifi við Kirkjustræti. Hinir síðustu verða stundum fyrstir.

+++++++

Að neðan eru svo nokkrar teikningar sem lagðar voru til dóms í samkeppni um nýtt tónlistarhús í Reykjavík 1. mars 1986.  Samkeppnislýsing gerði ráð fyrir að húsið risi austast í Laugardal rétt við íþróttahús Tennis- og Badmintonfélags Reykjavíkur.  Keppnislýsingu fylgdi  ítarleg húsrýmisáætlun sem var skýr og metnaðarfull.  Höfundar tillögunnar hér að neðan fundu tvennt að lýsingunni. Í fyrsta lagi töldu þeir staðsetninguna ranga af tveim ástæðum. Þeir töldu ekki rétt að skerða útivistarsvæðið í Laugardal og að tónlistarhúsið ætti að tengjhast miðborginni betur og fyrirliggjandi hótelstarfssemi. Í öðru lagi vissu keppendur, og í raun allir, að samtökin um byggingu tónlistarhúss höfðu ekki aðgang að þeim fjármunum sem til þurfti. Eftir þessa greiningu keppendanna spurðu þeir hvort tillaga sem byggði með öðrum hætti á öðrum stað en uppfyllti husrýmisáætlunina fyrir umtalsvert minna fé yrði tekin til dóms? Þeir vildu leggja fram tillögu á betri stað sem kostaði verulega minna en var áætlað. Svarið var á sama hátt og þegar Hjörleifur og Tore spurðu vegna annarrar nálgunar varðandi skrifstofubyggingu Alþingis en það var sérstaklega tekið fram í svarinu að tillagan yrði ekki verðlaunuð.

Ungu arkitektarnir ákváðu, af hugsjónaástæðum, að kasta sér út í vinnuna í von um að umræður færu af stað um þessa nálgun sem þeim þótti skynsamari en áætlun dómnefndar. Tillagan fékk engin verðlaun og ekki innkaup. En hún vakti mikla athygli og umræður. Fjallað var um hana í blöðum og hún var tekin til umræðu í Samtökunum um Tónlistarhús í Reykjavík sem fengu frumritin að láni og hafa ekki sést síðan. Svo fundust þessar teikningar nýverið og eru birta hér.

Það má kannski segja að sem betur fer var tónlistarhúsið ekki byggt þarna inni í Laugardal þó að það sé miðlægara nú en fyrir rúmum 30 árum. Einkum vegna tilkomu samgönguáss AR2010-2030. Í staðin fengum við Hörpu sem er skynsamlega staðsett og þjónar tilgangi sínum vel

 

 

helgi_scan-951afgstodum

Af afstöðumyndinni má sjá að gert var ráð fyrir öflugri tengingu við almenningsflutningakerfið við Suðurgötu. En á þessum árum var mikið rætt um tengingu Suðurgötunnar  til suðurs yfir Skerjafjörð. Þarna var líka lögð fram sem aukaafurð tenging við hugsanlegan tónlistarskóla sunnan við Háskólabíó. Það er húsið nr 3 við Dunhaga sem gefið var svoldið Aaltóskt yfirbragð með æfingarsölum í viftuformi.

haskolabio-1

Á sneiðingunum sést hvernig svölum var skotið inn í bíosalinn til þass að fullnægja kröfum um sætafjölda eins og fram kom í húsrýmisáætlun.

 

helgi_scan-961afst

Fækka þurfti sætum vegna aðlögunar að kröfum um fyrsta flokks hljómburð í salnum sem breyta átti úr bíoi í fyrsta flokks hljómlistarsal.

 

haskolabio-3-efri-haed

haskolabio-4-utlit-asfstodumynd

 

 

Að ofan er afstöðumyndin.  Þar má lesa að Hagatorgi hefur verið breytt þannig að umferðinni er beint út á stofnbrautir t.d. Suðurgötu þar sem góð tenging er til annarra borgarhluta. Neshaginn hefur verið lagður niður milli Neskirkju og Melaskóla til þess að draga úr umferð inn í íbúðahverfin á Melum og Högum.

Þessi samnorræna arkitektasamkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldin skömmu eftir stofnun samtaka um tónlistarhús og var aðal viðfangsefni þeirra á árunum 1985 til 1987.   Guðmundur Jónsson arkitekt  í Osló varð hlutskarpastur og hlaut 1. verðlaun. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr en hins vegar má líta svo á að hún hafi markaðssett hugmyndina um tónlistarhús meðal almennings og ráðamanna sem endaði með því að Harpa var byggð.

Það muna það allir sem tóku þátt í samkeppni um nýtt Tónlistarhús í Reykjavik að kvöldið fyrir skiladag, þann 28. febrúar 1986 var forsætisráðherra svíþjóðar myrtur á götu í Stokkhólmi. Tillagan var gerð með fullri vitund og samþykkis Guðmunda Kr. Kristissonar arkitekts og annars höfundar Háskólabíós. Hinn arkitektinn, Gunnlaugur Halldórsson, var nýlátinn. Hann hafði látist fyrr í mánuðinum og vissi ekki af þessu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.1.2017 - 15:29 - 6 ummæli

Stefnuyfirlýsingin 2017 og skipulagsmálin

935457

Það var fagnaðarefni að lesa stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vorið 2013,  fyrir tæpum fjórum árum. Þar var í fyrsta skipti tekið á skipulagsmálum í stjórnarsáttmála og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð var fylgt eftir. En í sáttmálanum stóð orðrétt:

“Ríkisstjórnin telur mikilvægt að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Sett verða lög um sérstök verndarsvæði í byggð í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu og Norður-Ameríku. Markmiðið er að vernda sögulega byggð. Þannig verði framkvæmdir til þess fallnar að styrkja heildarmynd svæðis sem nýtur verndar til samræmis við upprunaleg einkenni þess og auka þannig á menningarlegan styrk þess og aðdráttarafl”.

Það má segja að þetta hafi verið óvenjulegt ákvæði í stjórnarsáttmála og allir gerðu ráð fyrir að þetta mundi að  hafa töluverð áhrif á skipulagsmál í landinu.

Á öðrum stað í sáttmálanum frá 2013 stóð:

„Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst“.

Þessi setning var túlkuð þannig að nú ætti að koma núverandi húsnæði Landspítalans í lag og samhliða finna „varanlega lausn“ á framtíðarhúsnæði spítalans. En byrjunin á þeirri vegferð hlýtur að vera að finna framtíðarstaðsetningu spítalans með faglegum hætti. En engin slík staðarvalsgreining lá fyrir þá og liggur heldur ekki fyrir í dag.

Svo var ákvæði um Reykjavíkurflugvöll  þar sem stóð:

Reykjavíkurflugvöllur er grundvallarþáttur í samgöngum landsins. Til þess að hann geti áfram gegnt því mikilvæga þjónustuhlutverki sem hann hefur gert gagnvart landinu öllu þarf að tryggja framtíðarstaðsetningu hans í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu.“

Eins og fyrr segir var ánægjulegt að lesa þessa stefnuyfirlýsingu og maður fylltist bjartsýni. Nú þegar litið er til baka sér maður að ekkert hefur gengið eftir þrátt fyrir mikinn persónulegan áhuga einstakra ráðherra á öllum þessum málum. Tilraunir til þess að verja staðaranda Reykjavíkur á viðkvæmum stöðum mistókst að mestu og nægir þar að nefna uppbyggingu við Austurbakka Reykjavíkurhafnar. Sumt tókst vel eins og t.a.m. Hljómalindarreitur sem er byggður í anda þessarrar stefnuyfirlýsingar.

Húsakostur Landspítalans hefur fengið að grotna niður og „varanleg lausn“ til framtíðar á húsnæðismálum spítalans er ekki fundin vegna þess að staðarvalsgreining hefur ekki farið fram.  Það virðist sem embættismenn hafi þvælst fyrir málinu þannig að fagleg vinna hefur ekki átt hljómgrunn hjá stjórnmálamönnum.  Heldur hefur fúskinu verið haldið áfram allt kjörtímabilið hvað þetta varðar.

Og umræðan Reykjavíkurflugvöll er nánast enn á sama stað.

+++++

Í stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar  sem undirritaður var í fyrradag kveður við annan tón.

Skipulags- og húsnæðismálum er nánast ýtt út af borðinu en þrjú einstök atriði nefnd og þar af eitt af mikilli festu.

Orðrétt stendur.:

„Uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut verður hraðað eins og kostur er og byggingu meðferðarkjarna lokið árið 2023.“ 

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en að hafnað sé sjálfsagðri ósk um að faglega verði staðið að uppbyggingu landspítalans og leitað þeirrar „varanlegu lausnar“ sem nefnd var í sáttmálanum frá 2013.  Ekki er sérstaklega minnst á viðhald og endurhæfingu eldra húsnæðis sem er orðið beinlínis heilsuspillandi ef marka má fréttir. Í mínum huga er þarna verið að ganga þvert á eitt helsta slagorð Bjartrar Framtíðar í kosningabaráttunni sem allir muna: „Ekkert Fúsk“. Þetta er nánast svo mikið áfall að líkja má við náttúruhafarir. En vonandi áttar nýr heilbrigðisráðherra sig á málinu þegar hann fer að kynna sér það.

Tvö önnur atriði sem varða skipulagsmál eru nefnd í sáttmálanum frá í fyrradag. Annarsvegar orðrétt: „Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu“.  Sem er ákaflega skynsamlegt og hinsvegar:  „Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila.“  Sem segir okkur að þetta flugvallarmál hjakkar enn í sama farinu og fyrir tæpum, fjórum árum.

Svo er talað um að „sérstök  höfuðborgarstefni verði mótuð“ án þess að skilgreina það nánar. En eins og allir vita er höfuðborgin ekki eingöngu fyrir höfuðborgarbúa og það er til margs að líta í því samhengi.

++++

Ég hef spurt að því áður og spyr enn; Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að stjórnvöld og embættismenn hafni því að gerð verði óháð fagleg staðarvalsgreining vegna staðsetningar spítalans þannig að „varanleg lausn finnist“?   Það hefur verið óskað eftir þessu í áratug eða alveg frá því að þær stoðir sem héldu uppi staðarvalinu frá 2002 féllu.  Svari nú hver fyrir sig.

Og hver er ástæðan fyrir því að ekki hefur verið kynnt með nútíma tölvumyndum hvernig fyrirhugaður meðferðarkjarni Landsítalans fari í borgarlandslaginu? Til dæmis með bílferð um Miklubraut frá Kringlumýrarbraut að Suðurgötu og aftur til baka frá Hofsvallagötu að Snorrabraut.  Kannski líka yfirflugsmyndir og „Walk through“ um gömlu Hringbaut og Bústaðaveg.  Svari þessu hver fyrir sig.

Mér er sagt að svona myndir séu til, menn vilji bara ekki sýna þær. Ég veit ekki hvort það sé satt en það er auðvelt og kostar smápening að gera svona myndir. Nýr Landspítali ohf ætti að láta gera svona myndir af óháðum aðila úr því að þau eru svona sannfærð um verk sitt. Það getur bara hjálpað til að leysa hluta deilunnar um þetta mikla hús.

++++

Efst er mynd sem sýnir formennina handsala samkomulagið í fyrradag.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.1.2017 - 22:57 - 10 ummæli

Vegamótastígur – Gamalt hús flutt – Nýtt hús byggt

 

 

15822858_10154950115523281_2929064311313900075_n

Í dag var húsið Vegamótastígur 9 lyft af sökkli sínum og flutt á baklóð að Grettisgötu 54. Þessi framkvæmd hefur verið mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum.

Í stuttu máli virðist hér vera á ferðinni skipulag sem ber öll megineinkenni verklags sem ekki fæðir af sér bestu hugsanlega niðurstöðu fyrir umhverfið.  Skipulagið virðist vera unnið með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi og jafnvel á kostnað umhverfisins.

Það er almennt álitið að skipulagið eigi að þjóna heildinni meðan hús sem er byggt inn í skipulagið eigi að þjóna einkahagsmunum lóðarhafa. Þess vegna var það á árum áður ekki talið gott að sami aðilinn geri deiliskipulagið, jafnvel á reikning lóðarhafa og hannaði svo húsin í beinu framhaldi. Þá er hætta á að skipulagið þjóni lóðarhafa fyrst og fremst og hagsmunir heildarinnar víki. Menn vildu að þarna kæmu tveir ráðgjafar að verkinu. Annar, sá sem gerði  deiliskipulagið, hafði hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hugsaði um vegfarandann og borgarbúann. Svo kæmi húsahönnuðurinn og hannaði hús fyrir notandan. Ef svo kæmu upp einhverjir hagsmunaárekstrar þá tækjust þessir tveir ráðgjafar á.

Ef rýnt er í uppbygginguna við Vegamótastíg  þá sést strax að sömu aðilarnir gerðu deiliskipulagið og hönnuðu húsið. Þá vaknar spurningin hver gætti hagsmuna heildarinnar, vegfarandans, í þessu ferli. Það hlýtur þá að vera borgin og skipulags- og umhvefisráð.

vegamotastigur

Að ofan er teikning af fyrirhugaðri byggingu sem kemur í stað þeirrar sem var flutt. Því verður ekki haldið fram að þessi bygging fari illa þarna. Enda tekur hún mið af húsi Máls og Menningar, Rúblunni, að verulegu marki.  En maður hefði líka viljað að nýbyggingin tæki mið af aðliggjandi húsi við Grettisgötu og auðvitað helst að gamla húsinu nr. 9 við Veghúsastíg. Það er frá 1904 og óvenju fallegt að formi til. Þar bjuggu líka þeir Kjarval og Laxness um tíma þó það skipti litlu máli í þessu samhengi.

En maður spyr sig hvernig þetta hefði litið út ef menn hefðu sæst við nýtingarhlutfall uppá 3.0 í stað 5,0 og gamla húsinu Vegamótastíg 9 gefið tækifæri til að standa. Það hefði örugglega ekki þjónað lóðarhafa jafn vel en flestir vegfarendur hefðu líklega tekið þeirri niðurstöðu fagnandi.  Það hefði sennilega orðið niðurstaða skipulagshöfundar sem falið væri að gæta að heildinni og staðarandanum. Hann hefði sennilega reynt að halda gamla húsinu á sínum stað og færa sól og il í stíginn og bjórgarðinn handan götunnar (Vegamót). Hann hefði unnið sína vinnu með hagsmuni heildarinnar og vegfarandans að leiðarljósi. Gamla húsið hefði getað orðið glæsileg aðkoma í flott hótel á þessum stað. Kannski með tengingu í húsin við hliðina, Rúbluna og húsin við Grettisgötu.

 

vegamotastigur_7_9_17_11_20151-page-001

Ef rýnt er í deiliskipulagið sem liggur til grundvallar framkvæmdarinnar þá sér maður að byggingamagnið er gríðarlegt. Menn hafa gætt hagsmuna lóðarhafans vel ef ég skil þetta rétt.  Í stað gamla hússins sem var 137 m2 kemur stórbygging uppá fimm hæðir og tvöföldum kjallara. Alls tæplega 2000 fermetrar . Byggingamagnið á lóðunum er 14 faldað.

Þarna er byggingamagnið hámarkað með nýtingarhlutfall uppá 4,9. En það þýðir að byggingarnar eru um 5 sinnum stærri að grunnfleti en lóðin. Til samanburðar má nefna að nýtingahlutfallið er víða í Skuggahverfinu um 2,0 og fer upp í um 4,5 þar sem það er mest. En þar standa 17-19 hæða hús.

Eins og lesa má af skilmálum gerir deiliskipulagið ráð fyrir að að þarna verði eitt bifreiðastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelstarfssemi.  Í skilmálum er gert ráð fyrir að þessum stæðum verði komið fyrir í tveim kjöllurum hússins. Lauslega reiknað ætti bílastæðaþörfin því að vera um 15 stæði vegna byggingarainnar, þar sem eitt á að henta fötluðum. Teikningarnar gera ekki ráð fyrir einu einasta stæði. Ekki einu sinni fyrir „drop off“ stæði fyrir leigubíla þrátt fyrir að þarna verði gistirými fyrir tæplega 80 manns og meðalstór veitingastaður.

Það er rétt að taka fram að í skilmálum er gefin heimild  til þess að kaupa sig frá þessari kröfu. Það er eð segja að borginnni er greitt fyrir að falla frá þessari kvöð. Það þýðir ekki að þörfin hverfi. Það er í almennt ekki hægt að kaupa sig frá frumþörfum. Þarfirnar hverfa ekki þó greidd sé einhver fjárhæð.  Það er hinsvegar hugmyndin að þegar svona stendur á er hægt að greiða sig frá því að þörfinni sé fullnægt á sjálfri lóðinni.  Þá vaknar skylda borgarinnar til þess að fullnægja þörfinni einhversstaðar í grenndinni. Þó ég þekki það ekki þá geri ég ráð fyrir að borgin sé að vinna að byggingu meiriháttar bílastæðahúss einhversstaðar þarna nærri því þetta er ekki eina framkvæmdin sem keypt hefur sig frá því að útvega bifreiðastæði fyrir hús. Við vitum um stór bílastæði á hafnarsvæðinu sem fyrirhugað er að byggja en ég veit ekki hvort þau eiga að koma í stað þeirra sem menn hafa greitt sig frá þarna á Vegamótastíg og þar um kring.

Það er rétt að upplýsa að núgildandi deiliskipulag byggir á deiliskipulagi frá í apríl 2002 sem var endurskoðað í apríl árið 2008 og mynd er sýnd af hér að neðan. En í því skipulagi var bætt við neðri kjallara.  Núgildandi deiliskipulag er frá því í Júli 2015. Þessi mikla nýting á rætur sínar að rekja allar götur til skipulagsins frá árinu 2002.

 

15871828_10154875079644291_7730425769366875353_n

Að ofan má sjá eldri tillögu að húsi á sömu lóð. Þarna hefur gamla húsinu verið lyft uppá þak nýbyggingarinnar. Þetta virkar framandi en er svoldið skemmtilegt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.12.2016 - 15:41 - 11 ummæli

Reykjavík – Aleppo

13339614_1791736311059728_4493487944751756879_n

Prince Charles af Wales, sagði á árunum um 1990 að breskir arkitektar hefðu valdið meira tjóni undanfarin 40 ár í miðborg Lundúna en Deutsche Luftwaffe í seinni heimstirjöldinni!  Þetta var auðvitað arrogant og fékk prinsinn bágt fyrir. Einkum frá aritektum. Ég hitti mann í haust sem sagði að Reykjavík liti út eins og Aleppo með niðurbrotnar og sprengdar byggingar út um allt. Þetta er auðvitað ofmælt og  líka hrokafullt. En þetta segir okkur samt að fólk er uggandi yfir þeirri þróun sem verið hefur undanfarin ár og líst ekkert á hana. Lítur á niðurrifið eldri húsa og nýbyggingar sem ekki eru aðlagaðar nánasta umhverfi mjög svörtum augum.

Ég var að fara yfir færslur mínar á árinu sem er að líða og sé að það sem mest var lesið varðaði niðurrif gamalla húsa í Reykjavík. Það kom mér sannast sagna ekki á óvart. Niðurrif gamalla húsa og jafnvel nánast heilu reitanna í Reykjavík hafa verið sláandi. Hús hafa verið rifin sem aldrei fyrr og þeim öllum fórnað af fullkomnu tillitsleysi við það sem fyrir var að því er virðist. Engin skráning fór fram fyrir niðurrifið. Hvorki með ljósmyndum né uppmælingu og teikningum. Oftast voru þessar ákvarðanir byggðar á deiliskipulagi sem samþykkt var fyrir síðasta Hrun og stjórnmálamenn hafa ekki átt margra kosta völ til þess að afstýra þessum ósköpum.

Mestur hluti þessa niðurrifs var framkvæmt með stuðningi arkitekta. Þeir gerðu deiliskipulag sem kallaði á niðurrifið og þeir teiknuðu húsin sem risu í þeirra stað. Oft voru þetta sömu arkitektarnir sem nánast lögðu til að húsin yrðu rifini og teiknuðu svo húsin sem komu í staðinn.

Samfélagsleg ábyrgð kollega minna er mikil.

Í lok ársins sýndi sig ábyrgðafull framkoma stjórnmálamanna í þessu samhengi. Borgaryfirvöld höfnuðu umsókn um að rífa niður gömul hús á tveim stöðum í borginni. Annarsvegar við Veghúsastíg og hinsvegar á horni Bragagötu/Freyjugötu. Umhverfisráð taldi að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.  Þetta er hárrétt og samræmist reyndar opinberri menningarstefnu í mannvirkjagerð. Það var tími til kominn að menn spyrntu við fótum varðandi niðurrifið. Ég hefði auðvitað óskað að sú viðspyrna hefði komið frá arkitektum, en svo var ekki. Hún kom frá stjórnmálamönnum. Þetta gefur von um breytt viðhorf stjórnmálamanna á komandi árum og hugsanlegt aðhald gagnvart arkitektum og fjárfestum.

En hvað með kollega mína?

Er samfélagslegri ábyrgð kollega minna ábótavant? Þeir deiliskipuleggja og nánast dæma jafnvel áægt hús til niðurrifs. Þeir hanna hús í gamalt og gróið umhverfi sem öllum þykir vænt um og jafnvel elska með þeim hætti að það sem fyrir er er skúbbað til hliðar, víkur þó það sé ekki rifið. Þetta sér maður víða. Ég nefni Austurhöfn og nýlegar tillögur um skrifstorfubyggingu fyrir Alþingi sem er nýlega afstaðin.  Þar studdi dómnefnd tillögu í þriðja sæti sem að margra mati átti ekki erindi á einn viðkvæmasta stað í borginni. Í dagblöðunum í gær var fjallað um byggingu íbúðablokka sunnan útvarpshússins. Íbúðablokkirnar skyggja á eina helstu og merkusti stofnun þjóðarinnar. Það liggur i augum uppi að aldrei á að byggja neitt sem rýrir þau umhverfisgæði sem fyrir eru. En í því dæmi á að byggja íbúðablokkir sem rýra ásýnd einnar af helstu menningarstofnunnar landsins, RUV. Mér sýnist allir vera sammála um þetta arkitektar hafa tekið að sér að deiliskipuleggja og hanna hús sem ekki eru í samræmi um hugsjónina um betra umhverfi og virðingu fyrir því sem fyrir er. Ástæðan kann að vera sú að þetta hafi verið í forsögn samkeppi um byggingarnar. En allar tillögur í samkeppninni gerðu ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.

Í gær var líka kynnt í blöðunum hótelbygging í Borgarnesi. Borgarnes er eitthvað alfallegasta bæjarstæði á Íslandi. Fíngerð húsin á nesinu, nálægð við sjóinn og fjallahringurinn er einstakur. Þarna hafa arkitektar lagt til að byggt verði 4-5 hæða hótelkassi sem engan samhljóm hefur við nánasta umhverfi ef rétt er skilið. Húsið styrkir ekki staðarandann heldur veikir hann.

+++++

Arkitektar þurfa á nýju ári að taka sig á og sýna samfélagslega ábyrgð. Taka þátt í umræðunni og upplýsa notendur skipulagsins og bygginganna um þá möguleika og þau tækifæri sem við blasa. Hafa skoðun og láta hana í ljós og ekki síður að skipta um skoðun ef þannig stendur á. Ekki hoppa gagnrýnislaust á öll þau verkefni sem þeim býðst. Vera samfélagslega gagnrýnir og sýna ábyrgð líkt og stjórnmálamenn hafa gert varðandi Veghúsastíg og horn Bragagötu og Freyjugötu. Standa með byggingalistinni og umhverfinu öllu í hverju því verki sem þeir taka sér fyrir hendur.

+++++

Efst er skopmynd af hugsanlegri framtíð eins og Haldór Baldursson sér hana. Þarna er búið að rífa alla þá Reykjavík sem við elskum og túristarnir koma að heimsækja. Nema eitt hús „The very famous Colorful bárujarnshús in Reykjavík“

Myndirnar að neðan voru teknar í haust af nokkrum niðurrifsvæðanna í miðborg Reykjavíkur.

+++++

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða í von um að það gangi betur á næsta ári..

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

 

fr_20160407_036298-640x360-640x360

photo-4-640x480

photo-1-1-640x480

photo-2-1

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2016 - 12:50 - 14 ummæli

Alþingi – „Guð býr í smáatriðunum“

 

oddfellow

 

Um helgina féll dómur í samkeppni um nýja skrifstofubyggingu Alþingis. Hér er um mikilvæga byggingu að ræða á mikilvægum stað.

Eftir að hafa skoðað verðlaunatillögu Studio Granda  kom í huga kennisetning Mies van der Rohe: „God is in the details“ eða „Guð býr í smáatriðunum“.  Styrkur tillögunnar liggur ekki bara í stóru línunum heldur ekki síður í fjölmörgum smátriðum sem skipta sköpum á þessum stað. Þarna er sterk skýrskotun til sögu staðarins, sögu þjóðarinnar og jarðfræðinnar.  Þetta er sterk og starfhæf bygging, ef ég skil rétt, en veikleikann má helst rekja til galla í  því sem mestu veldur, deiliskipulaginu, sem höfundum hefur tekist að lágmarka í hugmyndavinnu sinni.

Í greinargerð með tillögunni stendur að nýbyggingin standi á stað sem opnar gátt inní fortíðina og söguna. Þarna er vísað til þeirra fornleifa sem eru á lóðinni. Útveggir hússins rísa uppúr rústum landnámsins og líkjast jarðlögum sem hlaðast upp í tímans rás. Þeir eru lagskiptir eins og samfélagið, sem á sér rætur einmitt á þessum stað, en vitna einnig um fjölbreytileikann í marglaga heild.

Svo vitnað sé áfram í greinargerð höfunda:

„Í Tjarnargötu víkja húsveggirnir fyrir fornleifunum og vegfarendur horfa beint ofan í fortíðina. Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli. Húsið er sjálfstætt tengistykki á milli smágerðs hornhússins og umfangsmikilar nýbyggingarinnar. Tjarnargatan þjónar sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis, en þar er gestum sleppt út og hægt að leggja. 

Við Vonarstræti speglar framhlið hússins sig í horntjörn Ráðhússins, en hún myndar fallegan forgrunn og aðkomutorg. Götuhliðin skiptist í tvö stök hús með ljósgeil á milli sem opnast á móti suðri með mosaþekju neðst sem tengist trjágróðri götunnar í kring. Umfangi nýbyggingarinnar er skipt niður í þrjú hús svo hún samlagist betur fínlegum mælikvarða byggðarinnar í Kvosinni.  

Á jarðhæð opna samfelldir gluggaveggir andlit hússins að götunni. Fyrir innan starfa nefndir þingsins fyrir opnum tjöldum eða luktum eftir atvikum“.

Við Oddfellowhúsið opnast gönguleið um mjótt sund sem breikkar til norðurs þar sem sólin nær inn á baklóðina. Gróðursvæði er framan við opið fundarherbergi og ráðstefnusal. 

„Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni“. 

tjarnargata

Hér er litið suður Tjarnargötu. Í greinargerð má lesa að húsveggirnir eru látnir víkja fyrir fornleifunum og vegfarendum gefin kostur á að horfa beint ofan í fortíðina af gangstéttinni. Ef ég skil rétt er maðurinn sem stendur vinstramegin í götunni að horfa á fornminjarnar sem þar eru og verða.  Skrifstofa forseta Alþingis er á lofti yfir járnvinnsluofnum frá 9. og 10 öld og rauðajárnið smitast í kápuna, úr Corten stáli.  Í útliti að Tjarnargötu er bilið milli gamla hússins við Kirkjustræti og nýbyggingarinnar brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum en aðliggjandi hús og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Tjarnargatan sem á að þjóna sem aðkoma að nýbyggingu Alþingis hefði þurft að vera breiðari og fá meira vægi sem tenging frá Víkurgarði (Fógetagarði) að tjörn ráðhússins og þaðan suður Tjarnargötu í Hljómskálagarð og alla leið að friðlandi Vatnsmýrarinnar.  En þetta er eitt þeirra atriða sem ákveðið var í deiliskipulaginu að gera ekki.

horntjarn

Láréttar línur í útlitunum er skýrskotun til sögunnar og jarðlaga sem myndast í tímans rás. Hugmyndin að lagskiptum útveggjum snýst ekki einungis um jarðlög tímans heldur einnig um það sem við skiljum eftir okkur. Með hugvitssemi í anda landnámsmannanna, sem unnu kol og járn úr engu, er hægt að umbreyta úrgangi í byggingarefni, líkt og náttúran myndbreytir jarðefnum í stein eða tíminn ruslahaugi í fornminjar. Úrgangsgler verður glersteinn, brotajárn járnsteinn, plast að kubbum, steypumulningur hleðslusteinn o.s.frv. Náttúran tekur svo við með fléttum og frumgróðri sem koma sjálf.

Einnig er hægt að tengja þessar láréttu línur gamla alþingishúsinu og skálanum nýja þar við hliðina. Hugsanlega  hefði mátt gefa þessum húskroppum örlítið mismunandi áferð til þess að ná því uppbroti í götuhliðinni sem einkennir götumyndir Kvosarinnar. Athygli er vakin á að gólfsíðir gluggar eru á jarðhæð.  Þar fyrir innan eru fundarherbergi nefndasviðs þingsins. Þetta færir lýðræðið nær fólkinu í landinu. Auðvitað verður dregið fyrir þegar ástæður gefa tilefni til. Þessi opnun fundarherbergjanna á jarðhæð er djörf og líklega ekki öllum að skapi. Þarna eru hin svokölluðu „reykfylltu“ fundarherbergi að vissu marki, opnuð út á götu.

 

kirkjustrati

Í Kirkjustræti er nýju steinskífuklæddu húsi bætt í eyðu í gömlu húsaröðinni án þess að raska götumyndinni. Þetta er nánast skólabókardæmi um hvernig má fella nútímalegt hús inn í eldra borgarumhverfi þannig að vel fari. Nútímalegar byggingar þurfa ekki að vera í andstöðu við það sem fyrir er. Þvert á móti.

inngangur

loftmynd

Að ofan er afstöðumynd þar sem greina má tengigang úr nýbyggingunni um skála Alþingis og þaðan inn í gamla Alþingishúsið. Bílastæðin í innigarðinu  eru líklega einhver misstök.

img004

Að ofan eru útlitsmyndir að götum. Efst er ásýnd að Vonarstræti.  Í miðið er útlit að Tjarnargötu þar sem bilið milli gamla hússins við Kirkústræti og nýbyggingarinnar er brúað með nútímalegu húsi sem er minna í öllum hlutföllum og með þekktu formi sem einkennt hefur byggðina í Reykjavík um aldir. Svo neðst er ásýnd að Kirkjustræti sem er sérlega vel heppnuð.

img007

Að ofan er deiliskipulag Alþingisreitsins sem samþykkt var 16. júní 2016.  Þar má sjá að verðlaunatillaga Studio Granda er, eðlilega, sniðin að skipulaginu hvað húsahæðir og byggingalínur snertir. Höfundunum hefur tekist að brjóta byggingamassann upp í meira mæli en skipulagið gerði ráð fyrir og bætt við ýmsu smálegu sem færir svæðinu aðlaðandi andrúm.  Helstu gallar við þetta deiliskipulag er að rýmra hefði mátt vera um nyrðsta hluta Tjarnargötunnar, húsahæðir hefðu mátt vera minni og uppbrot meira í götumyndum. Hugsanlega hefðu ákvæði um þakhalla eða þakgerð líka haft einhver áhrif til bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2016 - 12:08 - 7 ummæli

Samgönguás og Borgarlína til bjartrar framtíðar.

12194019_10207971557189573_1315250953_o

 

Hryggjarstykkið í Aðalskipulagi Reykjavíkur er að mínu mati samgöngu- og þróunarásinn sem liggur frá Vesturbugt, inn Hverfisgötu og Suðurlandsbraut alla leið að Keldum og hugsanlega áfram að Úlfarsárdal og Korputorgi. Hugmyndin gefur tækifæri til þess að binda borgina saman í heildstæða línulega borg þar sem gott er að búa og mikil tækifæri verða til varðadi samgöngur ef vel er á haldið. Hugmyndin mun gefa tækifæri til mun meiri og betri landnotkunar en áður. Fasteignaverð mun hækka meðfram línunni og skipulagslegar forsendur fyrir mun meiri landnotkun verður til.

Borgin verður vistvænni og líflegri. Borgarhlutar eins og Úlfarsárdalur, Grafarvogur og Keldnaholt tengjast öðrum hlutum borgarinnar og verða starfrænn og virkur hluti hennar.

Núna fyrir um hálfum mánuði var haldinn kynningarfundur um hina svokölluðu „borgarlínu“ svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins í Iðnó. Þetta var glæsilegur fundur þar sem erlendir sérfræðingar frá danska ráðgjafafyritækinu COWI kynntu hugmyndir um „high class public transport systems“. Þetta var metnaðarfullt og það var augljós mikill áhugi á því framfaraspori sem almannaflutningar eru. Þær eru í raun forsenda fyrir vexti höfuðborgarsvæðisins og þegar til langs tíma er litið hagkvæmt, vistvænt og mikið kjaramál þar sem einkabíllinn er mjög kostnaðarsamur fyrir jafnt einstaklinga og samfélag. Og svo í síðustu viku var undirrituð af bvorgarstjóra og sveitastjórum höfuðborgarsvæðisins viljayfirlýsing vegna verkefnisins. Þetta vísar allt til betri vegar.

En víkjum aftur að samgönguásnum.

Í færslu hér fyrir bráðum fjórum árum þegar samgönguásinn var kynntur var sagt að enga skipulagsákvörðun mætti taka án þess að hún sé spegluð í þessum áformum.

Til þess að skýra þetta nefni ég bara eitt atriði sem taka hefði þurft tillit til í þeirri skipulagsvinnu sem farið hefur fram síðan AR2010-2030 var samþykkt. Það er að ákveða nákvæmlega hvar samgönguásinn á að liggja og hvar stoppistöðvarnar verða og hvernig þær eiga að vera. Sumir telja þetta þrjú atriði sem kann vel að vera. En ég álít þetta svo samtvinnað að ekki er hægt að skilja þarna á milli frekar en milli bols og höfuðs.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030  er nánast búið að ákveða hvar línan á að liggja en það eru um Geirsgötu, Hverfisgötu, Laugarveg, Suðurlandsbraut yfir Elliðaártnar og alla leið að keldum. Til lengri framtíðar má reikna með að hún gangi alla leið að Korputorgi og Úlfarsárdal.

Í nýjustu útgáfu frá National Association of City Transportation Officials, NACTO, í bandaríkjunum,  „Transit Street Design Guide“  er að finna ýmsar útgáfur af stoppistöðvum.  Þar er oftast gert ráð fyrir sérmerktum akreinum fyrir vagnana.  Allsstaðar er gert ráð fyrir að hæð gangstéttanna við stoppistöðvarnar séu þannig að fólk í hjólastólum eða með barnavagna geti gengið beint inn í vagnana hindrunarlaust.  Við deiliskipulag Austurbakka, endurmótun Hverfisgötu og fl hefði þurft að gera ráð fyrir stoppistöðvum, staðsetningu þeirra og útfærslu. Í aðalatriðumn er talað um þrjár gerðir stoppistöðva í skýrslu NACTO:

1. Gangstéttastopp

nacto-vias-exclusivas-buses

Strætóstopp við gangstéttar eru líklega algengasta gerðin vegna þess að þær kosta minnst og það tekur stuttan tíma að koma þeim upp. Þar fyrir utan henta þær vel yrir flestar tegundir gatna með blandaðri umferð og þar sem strætisvagnareinarnar eru ekki endilega sérmerktar strætó. Sjálfar stoppistöðvarnar verða þó sérmerktar almenningsflutningum

2. Stærri stoppistöðvar á miðri götu

 

© NACTO

Í mörgum borgum víða um heim verður sífellt algengara að gerðar eru sérmerktrar reynar fyrir strætó í miðjum götunum. Á skýringarmyndinni að ofan er gert ráð fyrir sérmerktum reinum fyrir vagnana í báðar áttir en vel er hugsanlegt að hafa eina rein fyrir vagnana og láta þá bara mætast á stoppistöðvunum. Það gæti hentað vel í Reykjavík. t.d. á Geirsgötu og Hverfisgötu þar sem þrengsli eru. NACTO telur þessa lausn hafa marga kosti eins og meira öryggi fyrir farþega, meira rekstraröryggi og möguleika á tíðari ferðum og betri ásýnd.

3. Stærri gangstáttarstoppistöð

 

© NACTO

Þetta er hugsað þar sem áætlun er óregluleg eða ónákvæm. Þetta er auðvitað ekkert sem hentar samgönguásnum eins og hann er hugsaður ef ég skil rétt en gæti átt við þar sem „borgarlínan“ mætir samgönguásnum og þjóna sem skiptistöð. NACTO mælir með að gangstéttin þarna sé breikkuð til þess að tefja ekki fyrir gangandi umferð sem er sú vistvænasta og mikilvægasta.

Um þetta má lesa nánar hér, NACTO.

+++++++

easybus-airport-transfers-morzine-morzine

inside-bus

Einhvern vegin var ég svo bjartsýnn þegar Aðalskipulagið og þessar hugmyndir voru unnar og kynntar veturinn 2012-2013 að ég taldi að samgönguásinn yrði kominn í rekstur innan 3-5 ára, jafnvel fyrr. Borgin mundi kaupa svona 10-12 litla vagna, gjarna rafdrifna og setja þá í rekstur. Þetta væru svona skutlur eins og við þekkjum af flugvöllum þar sem manni er ekið frá flugstöð til bílaleigu o.þ.h. Vagnarnir tækju svona 15 manns í sæti og 15-20 í stæði og ækju milli Vesturbugtar og Skeifunnar með 5 mínútna millibili og helst ókeypis fyrir alla undir 18 ára og yfir t.d. 65. Svo í beinu framhaldi væri farið að brúa Elliðár vegna þessarrar samgöngubóta og verkefnið klárað með öllum stoppistöðvum á svona 10 árum. Þetta fannst mér blasa við.

 

adalskipulag-2010-2030

Að ofan er aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030. Þarna má greinilega sjá hvernig verið er að móta línulega borg. Það er guli dregillinn á kortinu sem fer eftir borginni endilangri. Hugmyndin gengur út á að binda þessa losaralegu og sundurlausu borg saman með ás sem einkennist af borgargötu með þéttleika sem getur borið vistvæna almenningumferð  i háum gæðaflokki („high class public transport systems“)  í blandi við einkabílaumferð.  Þetta gefur líka tækifæri til þess að þétta byggðina og auka nýtingarhlutfall verulega meðfram ásnum. Áhersla er einnig lögð á góða aðstöðu gangandi og hjólandi vegfarenda á samgönguásnum. Ef þetta gengur eftir verða Sæbraut og Miklabraut hluti af stoðkerfi borgarinnar líkt og sú aðveita og fráveita sem við þekkjum. Þróunarásinn verður gata þar sem fólk sækir þjónustu, nýtur göturýmanna og velur sér vinnustað og búsetu í grenndinni. Þarna verður heildstæð breiðgata sem allir borgarbúar eiga erindi til og skapar línulega borg iðandi af mannlífi og góðri þjónustu af öllu tagi.

 

ar-707029971

Hér að ofan eru fyrstu hugmyndir sem ég sá að svokallaðri borgarlínu. Ég óttast að áherslan á hana muni tefja fyrir uppbyggingu samgönguáss aðalskipulagsins sem hefur setið á hakanum síðan aðalskipulagið var samþykkt sýnist mér. Aðalskipulagið AR2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn 26.11.2013.

Síðan þá hefur mikið gerst í skipulagsmálum meðfram samgönguásnum.  Opin samkeppni var haldin um brýr yfir Elliðaárósa þar sem ekki var tekið mið af fyrirhuguðum samgönguás ef ég skil rétt. Veklok vegna brúnna var í lok september 2013. Þá var haldin lokuð samkeppni um svokallaða Vogabygð í grennd við Súðarvog þar sem gert var ráð fyrir samgönguásnum í forsögninni en hún var ekki áberandi í lausnum keppenda.  Síðan aðalskipulagið var samþykkt var gengið frá deiliskipulagi við Austurbakka þar sem samgönguásinn fer um án þess að gert hafi verið sérstaklega ráð fyrir honum. Deiliskipulagið var samþykkt í borgarráði 05.06.2014 með síðari breytingum. Hverfisgatan hefur verið endurskipulögð og endurnýjuð á smekklegan hátt en þar er ekki að sjá að gert hafi verið ráð fyrir samgönguásnum. Í samkeppni á síðasta ári um rammaskipulag við Elliðaárvog og Ártúnsholt var í forsögn gert ráð fyrir samgöngúásnum og honum gerð ágæt skil í tillögugerð flestra þátttakenda en ekki allra.

Allt þetta veldur vonbrigðum vegna þess að ef hugur fylgir máli þá er ekki hægt að taka neinar skipulagsákvarðanir, stórar eða smáar án þess að taka tillit til samgönguássins. Annars er hætta á að ekkert verði úr þessu eins og oft eru örlög góðra hugmynda og fyrirætlana.

croppud-austurhofn

Að ofan er deiliskipulagið við Austurbakka sem samþykkt var í borgarráði í júní 2014 eða rúmlega ári eftir að aðalskipulagið var staðfest. Þrátt fyrir Það eru ekki gerðar neinar sérstakar ráðstafanir í skipulaginu vegna samgönguássins.  Það er margt fleira við þetta deiliskipulag að athuga sem ekki tengist samgönguásnum beint. Ég endurtek það sem ég hef sagt um þetta í pistlum mínum áður. Þarna vantar kröfur um arkitektóniska aðlögun bygginga að næsta nágrenni eins og gert var í Kvosaraskipulaginu frá 1986 og á hinum rómaða Hljómalindarreit. það er í raun krafa um þetta í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þarna er lega gatna skrítin. Gaman gefði verið ef Geirsgatan hefði fengið stefnu á Arnarhól miðjan þar sem stytta Ingólfs er með sviðsturn Þjóleikhússins sem bakkgrunn. Þetta er mikilvægara en margan grunar. Við þekkjum nokkur dæmi í Reykjavík þar sem þetta hefur tekist vel. Það er skólavörðustigur og Hallgrímskirkja þekktasta dæmið. Og svo er þetta með bolverkið sem virtist koma öllum á óvart. Auðvitað átti það eins og venjulegar fornminjar að vera skipulagsforsenda.

ho%cc%88fudborgarsvaedid-2040

Að ofan er svo ein af lykilmyndum aðalskipulagsins og svæðaskipulags höfuðborgarsvæðisins. Af myndinni má lesa ýmislegt og er hún tilefni mikillar umræðu enda snilldarmynd sem sýnir gríðarleg tækifæri til langrar framtíðar fyrir Reykjavík og höfuðborgarsvæðið allt. Það er t.a.m. augljóst í mínum augum að þar sem pílurnar krossast við Elliðaár má byggja gríðarlega þétt. Þar er gott tækifæri fyrir ýmsar stofnanir og þjónustu. Þarna má koma fyrir miklum fjölda íbúða og þarna er eðlilegur staður fyrir aðalumferðamiðstöð höfuðborgarsvæðisins með góðum tengingum til Keflavíkur, austurfyrir fjall og norður og vestur á land.  Þarna fer auk þess samgönguás Reykjavíkur hjá. Það er ljóst að markmiðið að stöðva útþennslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og gera það aðlaðandi og vistvænt næst ekki nema með öflugu almenningssamgöngukerfi og þar er samgönguásinn forsenda.

+++++

Efst í færslunni er mynd sem sýnir samgönguásinn af meiri nákvæmni en hann er sýndur í AR2010-2030. Myndina sem er gerð af Gísla Rafni borgarhönnuði má stækka með því að tvísmella

+++++

Hér eru svo að lokum tveir tenglar sem tengjast efninu.

Annar  frá National Association of City Transportation Officials, NACTO, í bandarkíjunum.

+++++

Hinn er frá breska arkitektafélaginu RIBA  sem gaf fyrir nokkru út skýrslu sem heitir „City Health Check: How Design Can Save Lives and Money“  þar sem litið er á samhengið milli lýðheilsu og borgarskipulags þar sem spurt er hvort spara megi fjámuni í heilsugæslu með skipulagsákvörðunum.
Svarið er tvímælalaust „já“ og það er hægt að spara umtalsverða fjármuni með því að stöðva útþennslu borga og stuðla að góðum almannasamgöngum.

Skýrsluna má lesa hér:

https://www.architecture.com/RIBA/Campaigns%20and%20issues/CityHealthCheck/CityHealthCheck.aspx

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.12.2016 - 08:38 - 6 ummæli

Háhýsi

VLUU L100, M100 / Samsung L100, M100

“NEW YORK by Gehry” er 76 hæða bygging  sem var formlega opnuð þann 19. mars 2011. Fyrir fimm árum þegar arkitektinn, Frank Gehry, hélt upp á 82 ára afmæli sitt.

Byggingunni var vel tekið og var lofuð af gagnrýnendum byggingalistar.  Gagnrýnandi NY Times áleit þetta besta skýjaklúf í NY síðan Ero Saarinen teiknaði CBS bygginguna fyrir 51 ári og The New Yorker taldi þetta fallegasta háhysi borgarinnar frá öndverðu.

Margir gagnrýnendur byggingalistar hafa sagt “farðu nú á eftirlaun Frank Gehry” eftir að hafa skoðað síðari verk arkitektsins sem þeim þótti bera keim af elliglöpum.

Nú fimm árum síðar og eftir að  þessi bygging hefur risið spyrja sömu gagnrýnendur “Hver er svona góður sem vinnur hjá Gehry um þessar mundir?“

Því verður ekki neitað að gamli maðurinn hefur skotið yngri mönnum langt aftur fyrir sig í þessu verki vegna þess að það hefur átt sér stað viss stöðnun í byggingu háhýsa undanfarna áratugi.

Því er líka haldið fram að  hús Gehry  við Spruce Street í New York sé ekki neitt frábrugðið háhýsum almennt ef frá er talið ornamentið í útlitinu!

Það er verið að byggja hundruð þúsunda háhýsa um allan heim sem eru að mestu eins og háhýsi voru fyrir 50-70 árum. Engar teljandi framfarir eða þróun er að sjá í gerð eða formi háhýsa.

new-york-by-gehry-8-spruce-street-01

Press Kit

Að ofan er frumskissa Gehrys af  8 Bruce Street byggingunni í NY.

original

jpappraisal-jumbo

Að ofan eru tvær myndir af íbúðum hússins og að neðan má sjá Frank Gehry skoða hluta af útliti hússins í mælikvarðanum 1:1

 

Press Kit

 

dezeen_8-spruce-street-by-frank-gehry_03

a95f7c6c12f1559f30ee3da34f05321c

 

8-spruce-st-9443-1000pxHér að neðan koma svo tvö nýleg háhýsi hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldeilis ágæt en eru af sama toga og háhýsi um víða veröld síðustu meira en hálfa öldina. Þau eru svolítið einkennalaus og gætu staðið nánast hvar sem er.

Það er allmikið um afbrigði af svona húsum að finna um allan heim og sum bara skemmtileg. Mörg eru mjög staðbundin eins og hús BIG í NY o. fl. sem mætti jafnvel flokka undir regionalisma. http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/05/04/big-brytur-blad-i-new-york/

b510c93834b3ccbf4bf1f55c3e16dae4

 

100_3378

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2016 - 15:24 - 19 ummæli

„Urban Sprawl“ og þétting byggðar!

 

 

3-urban-sprawl

 

Það er í fullkomnu samræmi við umræðuna sem er áberandi um allan heim um útþennslu borga, að borgaryfirvöld í Reykjavík séu að reyna að stemma stigu við útþennslu byggðar.  Þetta er kallað „Urban Sprawl – the uncontrolled expansion of urban areas“, ef einhver vill googla þetta. En menn eru víðast að tala um að hafa stjórn á þennslunni – ekki stöðva hana.

Það er ljóst að markmiðið með hægja á útþennslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu er skynsamlegt og næst ekki nema með öflugu almenningssamgöngukerfi og markvissu skipulagi. Dreifðar borgir þar sem notkun einkabílsins er forsenda búsetunnar leiðir af sér verri lífsgæði, miklu hærri framfærslukostnað og margfaldan samgöngukostnað. Einkabílisminn stuðlar að styttri líftíma, meiri hættu á sykursýki og öðrum lífsstílssjúkdómum vegna hreyfingarleysis svo ekki sé talað um þátt hennar í hlýnun jarðar.

+++++

Árið 2004 gaf Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur út drög að úttekt á landnotkun vegna gatnakerfisins í Reykjavík. Í skýrslunni er að finna ógnvænlegar  tölur um landnotkun gatnakerfisins. Þar kemur m.a. fram að landnotkun vegna samgöngumannvirkja í Reykjavík er um 48% af landrýminu, opin svæði eru 10% og byggð svæði 42% af landinu. Byggðin tekur minna land en göturnar.

Í skýrslunni má einnig lesa að bifreiðastæðin í borginni þekja milli 475  og 700 hektara lands sem er tæplega fimm sinnum meira en Reykjavíkurflugvöllur tekur í Vatnsmýrinni.

Í drögunum er tafla þar sem borið er saman flatarmál gatnakerfis við fjölda íbúða í völdum hverfum borgarinnar.  Þar kemur fram að þróunin hefur gengið í óheillavænlega átt undanfarna áratugi.  Hverfin urðu með hverjum nýjum áfanga frekari á landrými þegar gatnakerfið er skoðað.

Til dæmis fara um 75 fermetrar lands í samgöngumannvirki á hverja íbúð í nýja Vesturbæ (sunnan Hringbrautar), 152 fermetrar á íbúð í Fossvogi, 257 fermetrar á íbúð í Grafarholti.  Í Staðarhverfi fara heilir 322 fermetrar undir samgöngumannvirki vegna hverrar íbúðar, sem er  meira en fjórum sinnum meira en í Vesturbæ sunnan Hringbrautar (107).

Hver var ástæðan fyrir þessari öfugþróun?

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að skipulag borgarinnar hafi verið óvistvænt og dýrt á árunum eftir 1980. Það er jafnvel hægt að ganga enn lengra og halda því fram að það hafi verið illa og ófaglega unnið, svona þegar á heildina er litið.

++++++

Allt frá því um 1980 hafa verið færð sterk rök fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Helstu rökin voru almannahagsmunir, bætt þjónusta, sparnaður á landi auk þess að stuðla að hagkvæmara almannasamgöngukerfa og borgarrekstri almennt. Þar var almenn sátt um þessi sjónarmið.  Þess vegna kemur það á óvart að land undir samgöngumannvirki hafa sífellt tekið meira landrýni með hverjum nýjum áfanga ef marka má skýrsluna.

Þessi þróun er sérkennileg vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að dreifð byggð er óhagkvæm í alla staði. Hvort sem horft er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað frá sjónarmiðum borgarsjóðs og verulega óhagkvæmt semfélagslega.

Höfundar skipulags í austurhluta borgarinnar, verkkaupinn og ráðgjafar hans hafa alltaf verið meðvitaðir um alla ókosti dreifðrar byggðar. Það er líka skrítið að fólk sem skipuleggur borgarhverfi þar sem samgöngumannvirki taka sem nemur 322 fermetrum á íbúð sé á sama tíma að tala um að hrekja Reykjavíkurflugvöll úr borginni vegna þess að landið sér svo verðmætt!!

Nú hafa skipulagsyfirvöld tekið á þessu með hörku og ber að þakka þeim það. Hinsvegar læðist að manni sá grunur að fólk sjái ekki þann möguleika sem fellst í því að skapa þétta byggð í úthverfunum. Maður spyr sig af hverju ekki má byggja t.a.m. í Úlfarsárdal hverfi með þéttleika á borð við Vestubæ sunnan Hringbrautar sem algert hámark? Kannski má þannig finna hluta af því vandamáli sem við er að glíma, húsnæðisskortinum á höfuðborgarsvæðinu! Væri ekki hugsanlegt að leyfa þennslu sem er þó ekki stjórnlaus eins og áður þekktist.

Er ekki hugsanlegt að leyfa útþennsluna undir ströngu eftirliti? Byggja þétta byggð á jaðri núverandi byggðar. Þétta byggð sem býður uppá hátt þjónustustig og góðar vistvænar samgöngur!

+++++++

Hér að neðan er dæmigert „urban sprawl“ frá Bandaríjunum og neðst er að finna þéttingu byggðar í París á tímum Haussmann. Þessi byggð er norðasutan við Montmartre og átti að hýsa 10.000 verkamenn. Byggðin stendur enn þó hún hafi verið byggð fyrir verkafólk fyrir tæpum 150 árum.

scorpions-and-centaurs-suburbs-100-x

pariskowloon1

Vegna ummæla Finns Birgissonar hér í athugasemdarkerfinu bæti ég við þrem myndum af þéttustu byggð Parísar í dag og upplýsi að þetta þykir ekki eftirsóknarverð búseta á okkar dögum þó hún hafi verið talon ágæt á sínum tíma. Byggðinnu hefur verið líkt við „The Walled City“ í Hong Kong sem fjallað hefur verið um á þessum vef.

pariskowloon

pariscitadel6

pariscitadel5

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2016 - 22:20 - 16 ummæli

Hljómalindarreitur til fyrirmyndar

 fullsizerender66

Nú er um það bil að ljúka breytingum á svokölluðum Hljómalindarreit í Reykjavík.

Fyrir réttum fjórum árum var haldinn kynningarfundur á vegum borgarinnar vegna þess að deiliskipulagi á reitnum hafði verið breytt. Byggingarmagn hafði verið minnkað frá eldra skipulagi og áhersla lögð á að „minni“ staðarins yrði virt. Þara var að mér skilst átt við að nýjarbyggingar og þær sem gerðar skyldu upp yrðu í anda þess umhverfis sem fyrir var. Þarna var í raun verið að kalla eftir að andi staðarnins héldist.

Þessi skilaboð voru síðan árettuð í deiliskipulaginu sem unnið var af arkitektastofunni Studio Granda.

Það er sérstakega ánægjulegt að vera vitni að því að þessi mikilvægu gildi hafi nú fengið niðurstöðu sem er í samræmi við markmiðin.

Vonandi verður þetta viðmið sem farið verður eftir í framhaldinu. Það var lagt upp með þessi sömu viðmið í Kvosarskipulaginu frá 1986 en því var vikið til hliðar þegar deiliskipulagið við Austurbakka var unnið.

Hljómalindarreitur afmarkast af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Byggðin á reitnum var sundurleit, annars vegar timburhús byggð fyrir 1915 og hins vegar steinsteyptar randbyggingar byggðar 1920-1956. Reiturinn var þétt byggður á horni Laugavegs/Smiðjustígs og á horni Hverfisgötu/Klapparstígs, en á horni Laugavegs/Klapparstígs og Smiðjustígs/ Hverfisgötu voru lítil hús og jafnvel auðar lóðir.

Nú er þarna heilsteyptur reitur með fjölbreyttum húsum sem eiga djúpar rætur í því sem fyrir var og í anda Reykjavíkur. Það má halda því fram að þarna komi regionalisminn fram í skipulaginu og hönnun húsanna.

Tilgangur hins nýja deiliskipulags var að koma til móts við breyttar áherslur og hugmyndir borgarbúa um uppbyggingu viðkvæmra miðborgarsvæða. Markmiðið var að styrkja stöðu eldri húsa á reitnum og setja þau í lifandi samhengi við vel hannaðar nýbyggingar. Það hefur tekist.

Hér eiga allir sem komu að máliu hrós skilið; skipulagsyfirvöld, deiliskipulagshöfundar, húsahönnuðir og húsbyggjendur.

fullsizerender

 Hér er litið upp Hverfisgötu. Það er auðséð að þarna hafa menn leitað forma, lita og áferðar í það sem áður var þarna og maður skynjar  einkenni svæðisins.

 img_0504

 Hér er litið niður Hverfisgötu.

fullsizerender3

Hér er svipmynd af ófullgerðum innigarði sem er milli Hverfisgötu og Laugarvegar. Garðurinn sem er almannarými og öllum opinn lofar góðu.

7

Hér er aðalinngangur hótels markaður á áberandi í götumynd Smiðjustígs, en samt hógværan hátt.

 fullsizerender44

Aftur svipmynd af innigarðinum sem er opin öllum. Þarna verða verslanir og veitingahús á jarðhæð og íbúðir og hótelherbergi á efri hæðum.

528762_10151199073185042_2021205699_n

Hér er hluti af yfirlitsmynd sem gerð var af arkitektastofunni Studio Granda. Yfirlitsmyndin ásamt skýringarmyndum sem  fylgja í færslunni sýna skilning höfunda á staðnum og styrk hans og tækifærum semþarna eru. Slíkur skilningur er ekki öllum gefinn.

310605_10151199073250042_366260343_n

Hér eru gamlar myndir af þeim húsum sem nú hefur verið breytt og endurbætt í mynd þess sem fyrir var. Á myndinni efst til vinstri sést að húsið Laugavegur 19 hefur verið lyft um eina hæð.  Beint fyrir neðan er mynd af Hverfisötu 28 sem einnig var lyft og hefur nú verið málað rautt eins og sjá má á nýju myndunum sem teknar voru í dag.

377759_10151199101880042_645135990_nHér að ofan eru ásýndir Laugarvegs og Smiðjustígs. Miðbyggingun Smiðjustígur 4 er ný. En í forsögn skilmála fyrir allan reitinn var sagt að húsin sem þarna ættu að risa skyldu hafa „minni“ þess sem fyrir var. Þetta er í raun ákall skipulagsyfirvalda og deiliskipulagshöfunda um að menn skuli hafa hinn svokallaða „regionalisma“ í huga þegar hús eru byggð eða endurnýjuð á reitnum. Þetta ákvæði ætti að vera allstaðar þar sem deiliskipulag er í eldri hverfum. Það var t.a.m. ekki farið fram á þetta á svokölluðu Hafnbartorgi eins og allir vita sem fylgst hafa með því.

579554_10151199073350042_404798391_nHér að ofan eru skýringarmyndir sem fylgdu deiliskipulaginu. Engar slíkar fylgdu deiliskipulaginu við Austurbakka. En þar eru nú gríðarlega stórkallaleg stórhýsi að koma upp úr jörðinni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2016 - 07:20 - 11 ummæli

Innlit hjá Helmut Schmidt v.s. Donald Trump

 untitled

Maður fær stundum tækifæri til þess að kynnast heimilum manna sem eru eða hafa verið áberandi í umræðunni. Við þekkjum Gljúfrastein, Gunnarshús, heimili Jörn Utzon á Mallorca og heimili Hemmingway á Key West og fl.  Oftast finnur maður fyrir námd þeirra mikilmenna sem þar bjuggu um sig og sitt fólk.  Það geislar af þessum heimilum andrúm sem húsráðandinn skapaði.

Mig langar til þess að sýna nokkrar ljósmyndir af heimilum tveggja mikilvirkra stjórnmálamanna.

Annarsvegar er það  heimili Helmut Schmdt (1918-2015) kanslara Vesturþýskalands á árunum 1974-1982 og hinsvegar Donald Trump (1946-) nýkjörins forseta bandaríkjanna.

Heimili Schmidt einkennist af djúpum persónuleika þar sem er að finna mikið af bókum, myndlist sem hann hefur safnað að sér eftir sinni ósk og sínum persónulegum skoðunum. Maður skynjar festu og öryggi. Það er manneskjulegt yfirbragð yfir öllu. Hvert sem litið er. Þarna eru ýmsir smáhlutir sem húsráðendum hefur þótt vænt um og þarna er taflborð og lítill flygill. Þarna er líka allnokkuð safn af vínflöskum sýnist mér. Allt þetta segir manni mikið um manninn og eiginkonu hans Loka. Svo hafa hlutirnir vissa „patinu“, maður sér að hlutirnir hafa verið notaðir og bækurnar lesnar.

Þetta er heimili sem á sér djúpar rætur í menningu þess samfélags sem Shmidt tók þátt í að skapa og hann var sprottinn úr

Takið bara eftir vinnuherbergi hans þar sem bækur eru áberandi ásamt ýmsum smáhlutum sem voru honum kærir og segja vissa sögu um manninn og hans persónu.

++++

Neðst koma svo nokkrar myndir úr íbúð Donald Trupmp í The Trump Tower á Manhattan í New York. Í mínum augum eru íbúðin full af hlutum sem ættu frekar heima í franskri höll en í skýjakljúfi á Fifth Avenue. Húsgögnin og myndlistin virka eins og drasl í þessu umhverfi þó enginn vafi liggi á að allt er þetta frumgerð húsgagna og lista af bestu fáanlegu gerð. Af heimilinu má lesa heilmikið um mannin sem ég ætla ekki að fara að gera hér hér.

Takið eftir bókinni á sófaborðinu á neðstu myndinni. Henni hefur sennilega aldrei verið flett

 

untitled4

untitled1

untitled6

untitled7

helmut-und-loki-schmidt-stiftung-startseite-2-1200x503

9

untitled11

Að ofan er svo ljósmynd af Helmut Schmidt sem tekin var á hans efri árum. Kanslarinn var mikill reykingamaður og lifði til 97 ára aldurs. Að neðan koma svo nokkrar myndir af núverandi heimili verðandi forseta Bandaríkjanna á Fifth Avenue í New York.

gallery-1462813673-donald-trump-index

 

donald-melania-trump-manhattan-penthouse_11

gallery-1462816039-donald-trump-1

donald-melania-trump-manhattan-penthouse_3

2012-04-19-trump1

2d9411ad00000578-3303819-image-a-1_1446653257605

 trumphomes28n-6-web

Hér er linkur að síðu sem sýnir heimili kanslarans betur:

Startseite

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is