Mánudagur 8.2.2016 - 08:03 - 5 ummæli

PARIS – La Belle Époque

Avenue-de-lOpera-Morning-Sunshine

La Belle Époque (Fallega tímabilið (!)) í París var tímabilið milli 1870 og 1914. Menn hafa sagt að það hafi náð milli þess að Prússastíðinu lauk og fram undir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar.

Tímabilið einkenndist af mikilli bjartsýni, friði, efnahafslegri velmegun og tæknilegum framförum. Þetta gerði það að verkum að listir hverskonar blómstruðu og næturlíf og skemmtanir urðu með öðrum hætti en áður.

Í myndlistinni blómstruðu menn á borð við Pierre Bonnard,  Paul Gauguin, Henri Matisse, Henri de Toulouse-Lautrec  og Pablo Picasso. Í Tónlistinni vor það Debussi, Stravinski, Ravel og fl. Það var líka brotið blað í bókmenntum þó þetta hafi ekki allt verið franskir listamenn.

Á þessu tímabili var  Opera Garniere og Effelturninn byggður ásamt mörgum helstu kennileitum borgarinnar. Bóhemar urðu til og lostafullur dans og revíur á borð við Can-Can í Mulin Rouges. Og svo auðvitað Folies Bergère sem var stofnað 1869.

Skömmu fyrir upphaf La Belle Epoque hafði Napóleon III falið Georges-Eugene Haussmann að endurskipuleggja París þannig að loft og birta kæmist betur inn í miðborgina og hún yrði heilbrigðari og fallegri.

Borgin var það sem á okkar dögum kallast slömm.

Í þessari  áætlun voru búlevardarnir lagðir. Í upphafi var þessu auðvitað mikið mótmælt og töldu menn (sem er eflaust líka rétt) að bulevardarnir ættu að gegna herðnaðartilgangi þannig að hægt væri að beita fallbyssum í borgarstyrjöld (oft nefnt Kanóniskt skipulag)

Þessi vinna við breytingu á borginni hófst árið 1853 og lauk að mestu um 1870 þó hún hafi haldið áfram allt til 1927.

Samfara þessu varð til byggingalist sem einkennt hefur Parísarborg æ síðan með mansardþökum og Art Nouveau (Jugendstíll) sem sjá má í mörgum byggingum og við inngang Metróstöðvanna.

Nú er París af mörgum álitin höfuðborg hámenningarinnar og ein sú fegursta í veröldinni.

++++++

Efst er samtímamynd mynd af einni af fyrstu breiðgötunum, Avenue de l´Opera sem liggur fra Louvre að Opera Garniere sem Napoleon III lét byggja .  Gríðarlegur fjöldi húsa var rifinn vegna lagningu götunnar.

Að neðan koma svo nokkrar myndir af málverkum eftir Crista Keifer þar sem tulkað er andrúmsloft í borginni fyrir aldamótin 1900.

Kief

 

Christa

Kiefer

Christa Kiefer

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.2.2016 - 11:11 - 12 ummæli

Hafnartorg – Eiga vandræðin rætur að rekja til deiliskipulagsins?

fr_20160107_029943

Líklegt er að vandræðagangurinn við Hafnartorg megi að miklum hluta rætur að rekja til deiliskipulagsins sem samþykkt var fyrir nokkrum misserum á svæðinu með breytingum í skipulagsráði 22. apríl 2015.  En þar var greining á staðaranda vanreifaður að margra mati með þeim afleiðingum sem við nú hafa verið kynntar.

Fyrir tæpu 101 ári brann mikill hluti Kvosarinnar í Reykjavík.  Þetta var 25. apríl 1915.  Síðan þá hefur verið nánast stöðug umræða um framtíð svæðisins og margvísleg sjónarmið verið uppi á borðum.

Mér fannst og finnst enn að menn hafi ekki gert betri greiningu á staðaranda Kvosarinnar í skipulagsvinnu en í deiliskipulagi Dagnýjar Helgadóttur og Guðna Pálssonar arkitekta árið 1986.  Það var fyrir réttum, 30 árum. Þar var í skilmálum gerð tilraun til þess að brúa bilið milli fortíðar nútíðar og framtíðar.  Auðvitað ekki án málamiðlana.  Mér virtist vera viss sátt um greininguna og deiliskipulagið á þeim tíma  enda var það samþykkt og hefur að mestu staðið af sér ólgur tíðarandans allar götur síðan.

Einhvern vegin fannst mér að þessa greiningu arkitektanna mætti nota við deiliskipulagsgerð á hafnarsvæðunum, einkum við Austurhöfn, eða byggja nýja greiningu og framtíðarsýn á vinnu Dagnýar og Guðna.

Dagný og Guðni gerðu á sínum tíma fallegar skýringamyndir og líkan af öllu svæðinu í mælikvarðanum 1:200. Þau lögðu áherslu á heildarmynd Kvosarinnar.  Þar var staðfest sú stefna að hús skyldu reituð niður þannig að sama áferð og útlit yrðu hvergi lengri en 10-15 metrar i götumyndinni. Hæðir yrðu stallaðar frá 2-3 hæðum upp í 6-7 hæðir með hallandi þökum með kvistum.

Þetta var talið eftirsóknarvert umhverfi sem fólk hefur sameinast um að standa vörð um og styrkja

Í AR 2010-3030 er lögð nokkur áhersla á að vernda sérkenni eldri byggðar og aðlaga nýja að hinu gamla.  Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð leggur líka áherslu á þetta. (Í AR 2010-2030 er gert ráð fyrir að hús verði ekki hærri en 5 hæðir innan Hringbrautar. Við Hafnartorg eru sýnd 6 hæða hús!)

Í  deiliskipulagi vegna Austurhafnar er ekki að sjá að öll sú vinna og öll sú umræða varðandi Kvosina hafi skilað sér í skipulagsgerðinni. Hlutföll eru öll á skjön við þau markmið sem menn hafa sæst á í Kvosinni. Sennilega er það vegna þess að höfundarnir hafa ekki álitið það skynsamlegt að færa staðaranda Kvosarskipulagsins út á hafnarbakkann. Þeir hafa ekki séð þau tækifæri felast í staðaranda  Kvosarinnar þar sem hlutföll eru samræmd og tekið er tillit til hinnar sögulegu víddar. Þeir hafa valið aðra nálgun. Nálgun sem gæti verið hvar sem er og kallast ekki á við þann miðbæ Reykjavíkur sem okkur líkar og þykir vænt um.

Maður bar auðvitað þá von í brjósti að þegar metnaðarfullir arkitektar tækju sig til við að draga upp deiliskipulag þarna og hanna húsin inn í þetta skipulag að þeir tækju mið af þeirri umræðu og þeim samþykktum sem gerð hafa verið í næsta nágrenni undanfarna áratugi og reyndu að mæta þeim. Maður vonaði að þeim tækist að túlka umhverfið í nútímalegum byggungum sem væru framhald af því sem fyrir er og hvergi geta staðið annarsstaðar.

 

12321231_10153747870254003_6249131688109958182_n

 

Það er mikilvægt að horfa á götumynd Lækjargötu og Kalkofnsvegar sem eina heild. Sama á við götumyndina frá í Pósthússtræti að höfninni þar sem er að finna Hótel Borg, Natan & Olsen húsið, Pósthúsið og Lögreglustöðina gömlu og svo byggingu Eimskips. Nýbyggingarnar við Póshthússtræti þurfa að taka mið af þessum glæsibyggingum annarsvegar og hinsvegar af götulínum Lækjargötu Allt frá Tjörninni.

 

 

 

fr_20160107_029945

 

 

 

 

fr_20160107_029942_2-1

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 31.1.2016 - 11:11 - 8 ummæli

Ný „supersygehuse“ í Danmörku

untitled

 

Undanfarið hafa danir verið að endurhæfa gamla spítala og byggja nýja. Það hefur margoft komið fram að þetta hefur ekki gengið vandræðalaust fyrir sig. Framkvæmdirnar hafa hvorki staðist tíma- né  fjárhagsáætlanir. Til að mæta hækkun kostnaðar hefur verið skorið niður.

Formaður fyrir samtökum danskra sjúklinga, Morten Freil, hefur haft af þessu miklar áhyggjur. Hann segir að niðurskurður vegna bygginganna muni leiða af sér verri þjónustu og verri aðstæður fyrir sjúklinga.

Alls eru danir að byggja sex svokölluð „súpersjúkrahús“ víða um land fyrir utan þau sjúkrahús sem verið er að endurhæfa. Alls er hér um að ræða 16 byggingastaði. Þessi nýja áætlun gengur út á að það verða aðeins á 21 stað í landinu sem sem danir geta sótt bráðaþjónustu. Til þess að mæta þessari dreifingu hefur verið ákveðið að bæta við  þrem „akuthelekoptere“ sem þjóna eiga öllu landinu.

Í greinargerð SPITAL, hönnunarteymis Landspítala Háskólasjúkrahús, undir kaflanum „Hönnunarþyrla“ segir orðrétt: „Miðað er við að þyrlur sem noti pall séu í afkastagetuflokki 1, þ.e. þyrla sem hefur þá afkastagetu að ef markhreyfill verður óvirkur þá geti hún lent á flugtaksstöðvunarsvæðinu eða haldið fluginu örugglega áfram til viðeigandi lendingarstaðar eftir þvi hvenær hreyfillinn verður óvirkur.  Í þessu verki er gert ráð fyrir stærri þyrlu en núverandi þyrla Landhelgisgæslu og var ákveðið að skoða tvær gerðir fyrir utan núverandi þyrlu. Þær þyrlur voru Sikorsky S92 og Agusta Westland Aw101.“

Þeir sem til þekkja telja að hver „hönnunarþyrla“ sem gert er ráð fyrir að þurfi að nota við sjúkraflug á þyrlupallinn á Nýja Landspítala á Hringbrautarlóðinni samkvæmt hönnunarskýrslu og ráðgjöf frá Flugmálastjórn Íslands, muni kosta um 4 milljarða króna (notuð) sem er helmimgi meira en núverandi þyrlur Langhelgisgæslunnar og er aukakostnaður talinn verða rúmlega einn milljarður á ári.

Til þess að ná yfirsýn yfir verkefnið í Danmörku gerði sjóvarpsstöðin TV2 yfirlit yfir stöðuna sem hér er léttilega reifuð.

 

 

Univeritetssygehus Köge Háskólasjúkrahúsið í Köge Háskólasjúkrahúsið í Köge á að kosta um 80 milljarða króna (4 milljarða Dkr.) og á að þjóna 290 þúsund manns. Fram að þessu hafa allar áætlanir staðist og engin teljandi vandræði komið upp. Athygli vekur að í Köge þar sem verið er að byggja háskólasjúkrahúsið er enginn háskóli annar en sjálft sjúkrahúsið. DNU-aarhus

Utan Árósa eru danir að byggja nýtt háskólasjúkrahús fyrir  um 130 milljarða íslkr. (6,5 milljarða Dkr) sem á að þjóna 303 þúsund manns.
Í fjölmiðlum hefur verið talað um nokkur vandamál með framkvæmdina:
  • Helmingur skrifstofa vegna yfirstjórnar verður sparaður
  • Miklar seinkanir hafa orðið og mun sjúkrahúsið opna þrem árum seinna en ætlað var, eða árið 2019
  • Bráðamótöku hefur verið seinkað um eitt ár.

Nyt Odense Univeritetshospital

Háskólasjúkrahúsið Í Odense verður 212 þúsund fermetrar og á að þjóna 430 þúsund manns fyrir um 130 milljarða króna (6,4 milljarða Dkr)  Þetta verður stærsta sjúkrahús Danmerkur. Þó ekki sé byrjað að byggja ennþá hafa komið uipp ýmis vandamál:

  • Árið 2013 varákveðið að miðlægt eldhús yrði ekki í sjúkrahússsamstæðinu heldur yrði maturinn keyptur utanað.
  • Nokkur seinkun er á framkvæmdinni af ýmsum ástæðum einkum hvað varðar þarfagreiningu og hönnun.

 

DNV - Gödstrup

DNV – Gødstrup.  Sjúkrahúsið mun þjóna 284 þúsund dönum og kosta rúmlega 60 milljarða íslenskra króna (3,15 Dkr) Helstu vandamálin sem upp hafa komið er tímaáætlun og kostnaðaráætlun.

 

  • Hætt var við að byggja sjúkrahótel til að spara 1,5 milljarð isl.kr. (75 milljónir Dkr)
  • Útveggjagerð var of dýr og ákveðið var að breyta henni þannig að spara mátti um 5 miljarða isl.kr (254 milljónir Dkr.)
  • Seinkun opnunnar um tvö ár.

NAU Aalborg

Nýja sjúkrahúsiðí Álaborg á að kosta um 90 milljarða isl króna (4,59 Dkr) og á að þjóna 316 þúsund manns á 155 þúsund fermetrum. Þarna hafa verið hvað mest vandamál í þessum sex „supersjúkrahúsum“. Þar verður ekki sjúkrahótel og engin fæðingardeild.

Nyt hospital i Nordsjælland

Í Hilleröd á að byggja sjúkrahús fyrir 76 milljarða isl.kr. ( 3,8, milljarða Dkr.) sem þjóna á 310 þúsund manns. Þó framkvæmdir séu varla hafnar hefur byggingastjórnin þurft að breyta upprunalegum áætlunum:

  • Húsið hefur verið minnkað úr 161 þúsund fermetrum í 136 þúsund og síðar um 16 þúsund fermetra til viðbótar.
  • Það þurfti að minnka skrifstofur, fækka verkstæðum og leggja niður miðlægt eldhús.

+++++

Hægt er að nálgast slóð TV“ hér:

http://nyheder.tv2.dk/samfund/2015-12-08-grafik-her-er-supersygehusenes-store-problemerH

++++++

Viðbót við færsluna birt kl 2:30 sunnudaginn 31. janúar 2016:

Vegna fyrirspurnar Sveinbjörns hér að neðan í athugasemdum birti ég síðu úr greinargerð SPITAL teymisins þar sem fjallað er um breytta þörf þyrlkostsins vegna staðsetningar spítalans við Hringbraut og orðrétta tilvitnun í texta eftir mann sem hefur kynnt sér málið vel.

Ef einhver veit betur og getur leiðrétt það sem þar stendur eða eða bætt við frekari upplýsingum þá væri það vel þegið. Sama á við  um tilvitnun að neðan í ummæli sérfræðings hér að neðan. Ég mun  birta leiðréttinguna og viðbótarupplýsingar strax í sérstökum pistli. 

Mikill fengur væri í að fá nákvæmt mat á þessu þyrlumáli,  og öllum kosnaði samfélagsins vegna staðsetningarinnar við Hringbraut borinn saman við aðra staði. En það fæst sennlega ekki fyrr en opið óháð mat á staðarvali fer fram.

Tilvitnunin kemur hér:

“Aðstaða fyrir þyrlusjúkraflug á Nýja Landspítalann við Hringbraut eru afar þröngar. Slíkar aðstæður kalla því nú á svokallaðar 3 mótora þyrlur (eða sambærilegar varðandi mótoröryggi og ef vélarbilun verður í einum mótor) sem þýðir um 10 milljarða króna aukafjárfestingu við endurnýjun þyrluflotans eins og hann er í dag (2 þyrlur).”

Hér að neðan kemur síða nr.: 3 í skýslu SPITAL um þyrlupall LSH.

12651310_10201496234925308_5119059865605287162_n

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.1.2016 - 11:50 - 14 ummæli

Staðarandinn hér og þar.

1937215_1242361155793359_7417136849164387548_n

Danska arkitektasofan C.F. Möller kynnti í gær teikningar af um 400 íbúðum á hafnarsvæðinu í bænum Norrtalje norðan við Stokkhólm í Svíþjóð.

Það sem einkennir hugmyndirnar og vinnu arkitektanna er leit þeirra að staðaranda bæjarins sem þeir ætla að byggja sín hús. Þeir gæta þess að öll hlutföll og uppbrot húsanna séu í samræmi við það sem fyrir er.

Að sögn arkitektanna er markmiðið að skapa umhverfi sem styrkir félagslega þróun bæjarins Norrtalje og styrkja þau einkenni, staðaranda og menningu sem þarna er og fólki líkar.  Þeir forðast umbreytingu á bænum.

Svæðið á að bjóða upp á hentugar íbúðir fyrir fólk á öllum aldri og með margvíslegan bakgrunn.

Þessi nálgun arkitektanna er áhugaverð og það er ástæða til þess að bera hana saman við þá nálgun sem íslenskir kollegar þeirra hafa valið við Austurhöfnina í Reykjavík.

Hugmyndin er að húsin verði byggð úr timbri en C.F.Möller er leiðandi arkitektastofa í timburhúsunm og eru að þróa timburús sem er meira en 20 hæðir eins og lesa má um hér.:

C.F. Møller forsker i træhøjhuse

12522919_1242361169126691_1854682314855672755_n

12552762_1242361159126692_8911057078868066469_n

 

Hér að neðan koma svo tvær myndir af fyrirhuguðum nýbyggingum í Kvosinni í Reykjavik.

fr_20160107_029943

 fr_20160107_029942_2-1

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.1.2016 - 16:31 - 25 ummæli

Nýjar skrifstofur Alþingis

10369742_557028687793518_7642504397582285583_n

Sigurður Thoroddsen arkitekt hefur sent síðunni eftirfarandi grein sem á mikið erindi í umræðu líðandi stundar um byggingarmál Alþingis. 

Þetta er yfirveguð og málefnaleg grein sem skrifuð er af þekkingu og er laus við gífuryrði og sleggjudóma sem einkennt hefur umræðuna um þessar umdeildu hugmyndir   Efst í færslunni er mynd sem margir þekkja en hefur hér verið breytt í tilefni áramóta.  Neðst er ljósmynd af húsum við Aðalstræti sem nefnd eru stuttlega í greininni :

Nýjar skrifstofur Alþingis

Kynntar hafa verið frumhugmyndir að nýjum skrifstofum og fundaaðstöðu fyrir Alþingi á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu  í Kvosinni í  Reykjavík.  Um  yrði að ræða þriggja  hæða 4500 m2 skrifstofubyggingu, ásamt rishæð og 750 m2 bílakjallara. Frumdrögin  sem eru  í  síð– klassískum stíl/klassískum endurreisnarstíl  sem var  algengur víða um Evrópu  í lok 19. aldar  og byrjun  þeirrar tuttugustu.  Þessi byggingarstíll var  einnig  algengur á Norðurlöndum, einkum opinberum byggingum og stærri íbúðarhúsum.

Víða erlendis einkum í Vestur-Evrópu eru aldagamlar borgir og bæjarhlutar sem margar hverjar hafa verið endurreistar nánast óbreyttar eftir styrjaldarátök. Önnur dæmi er að finna á Norðurlöndum í eldri bæjum,   þar sem gera hefur þurft breytingar  á gamalli verðmætri byggð  eða  reisa viðbyggingar  vegna nýrrar notkunar, að  ávalt verið tekin mið af því sem fyrir er. Dæmin eru fjölmörg og  ekki möguleiki,  í stuttir grein,  að tíunda það.

Upphaf byggðar í Reykjavík er á svæði sem afmarkast af höfninni til norðurs og Tjörninni sunnan megin, Suðurgötu að vestan og Þingholtunum að austan, eða gamla verslunarlóðin frá 1786. Nú er svæðið í daglegu tali nefnt Kvosin, þannig að forsagan er um 230 ára.  Byggðaþróun fyrir alvöru,  hófst hinsvegar ekki  fyrr en eftir miðja 19. öld.

Skiptar skoðanir hafa verið form og útlit nýbygginga í Kvosinni, og  byggingar sem þar hafa reistar,  í mörgum tilfellum einungis tekið mið af þeim stefnum og straumum í  byggingarlist sem uppi voru á hverjum tíma, án tillits til umhverfisins og eru nokkur dæmi um að slæma hönnun  á svæðinu.       Miklu vandasamra er á að hanna byggingar  í þegar byggðu  hverfi en nýju.  Í fyrra tilfellinu þarf,  að taka tillit til hagsmunaaðila og þeirrar byggðar sem fyrir er, en meira frjálsræði er yfirleitt í síðara tilfellinu.

Vandinn er sá, að á eldri svæðum hafa byggingar risið á löngum tíma og á þetta sannarlega  við  umrætt svæði.   Á  síðustu árum og áratugum hafa risið þar byggingar eða viðbyggingar sem ekki bera nægjanlega virðingu fyrir þeim  sem fyrir eru. En einnig hafa risið þar byggingar sem sómi er að,  bæði í sögulegu og byggingarlistarlegu  tilliti.  Prýðileg dæmi um þetta eru  byggingar vestan Aðalstrætis og á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Einnig tilteknar  byggingar í Grófinni.

Spurningin er, hvaða viðmið eigi gilda,  þegar byggingar eru reistar innan  elstu byggðar landsins.  Eiga  nýbyggingar á svæðinu að vera   klæddar gleri,  stáli, áli eða  vera steinsteypt  kassalöguð grámuskuleg hús með flötum þökum ? Ég tel að ekki séu neinar fastmótaðar reglur um hvernig byggja skuli á svæði sem þessu.  Aðalatriðið er að nýbyggingar falli að þeirri byggð sem fyrir er,  og að virðing sé borin fyrir fyrir þessu sögulega svæði og  þeim byggingum sem fyrir eru.

Ég álít að fyrirhuguð skrifstofubygging Alþingis á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu , samkv. þeim frumdrögum sem kynnt hafa verið, falli vel að yfirbragði byggðar  í Kosinni í Reykjavík. En að sjálfsögðu þarf að endurhanna  innra fyrirkomulag,  þannig að byggingin  henti  kröfum nútímans.

Sigurður Thoroddsen

arkitekt

Sjá einnig : http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/11/27/svona-a-ad-byggja-i-101/

img_8382

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.8.2015 - 00:04 - 13 ummæli

„You put your eyes in your pocket…….“

image

 

Fyrir réttum 6 árum byrjaði ég að blogga um arkitektúr, skipulag og staðarprýði.  Í fyrstu færslunni vitnaði  ég í 50 ára gamalt lag lag eftir Bob Dylan. þar sem hann segir: “ Something is happening here but you dont know what it is, do you, Mr. Jones?“

Þetta er úr laginu The Ballad of a Thin man af plötunni „Highway 61 Revisited“ frá árinu 1965. Þá var Dylan 24 ára gamall.

Dylan reynir ekki að skýra út kveðskap sinn enda veit hann eins og margir listamenn að um leið og hann fer að skýra út verkið er hætta á að hann tali listina úr listaverkinu.  En kunnugir segja hinsvegar að textinn fjalli um blaðamenn sem vita að eitthvað sé að gerast en skilja ekki hvað það er og spyrja í framhaldinu rangra spurninga.

Aðrir segja að Dylan hafi verið að fjalla um apana þrjá sem ekkert vilja segja, ekkert vilja sjá og ekkert vilja heyra!

Mér finnst almenn umræða um arkitektúr og skipulag bera keim af þessu. Fólk vill ekkert heyra eða sjá og þorir ekkert að segja. Allt virðist hagsmunatengt. Fólk heyrir það og sér sem gagnast því og segir bara það sem það hefur persónulegan hag af.

Á einum staðí laginu  segir Dylan .: „You put your eyes in your pocket and your nose on the ground. There ought to be a law against you coming around“.

Ætli Dylan hafi fundist hann vera að syngja fyrir  „girðingastaura“ þegar hann kyrjaði þetta eða var hann að segja því að þau væru eins og girðingastaurar?

Hér að neðst er svo mynd af öpunum þrem ásamt myndbandi  þar sem Dylan syngur „Ballad of a thin man“.

Endilega hlustið og íhugið textann.

 

Í fyrstu færslunni, fyrir sex árum, lagði ég út af  málverkinu “L´enigma di una giornata” (gáta dagsins (?) eftir ítalann Chirico.

Mig langar að ljúka þessum skrifum og þakka fyrir mig með því að skoða annað málverk sem sjá má efst í færslunni.  Málverkið sem varð fyrir valinu er eftir einn af bestu málurum landsins, Sigurð Örlygsson. Málverkið  frá árinu 1988 og er 180x240cm að stærð.

Málverkið heitir “Meðan skynsemin blundar” og sýnir mann sem er að stökkva upp á einhvern stall eða dökkan, veraldlegan metorðastiga. Eða kannski að falla af honum? Rétt hjá er annar stigi, ljós og gegnsær, kannski huglægur himnastigi. Stekkur maðurinn upp á rangan stiga án þess að ræða það við nokkurn mann?  Eða sér hann betri tækifæri í veraldlega stiganum en hinum háa gegnsæja og bjarta? Hann veit að eitthvað er að gerast en hefur ekki hugmynd um hvað það er og kannski vill hann ekkert vita hvað er að gerast.

Maðurinn hefur fyrir andliti sínu trekt. Spurningin er hvort þetta sé sjónauki sem snýr öfugt? Öfugur snjónauki gerir allt minna en það er í raun. Og þá gildir einu hvort um tækifæri eða ógnanir sé að ræða. Kannski er þetta öfugt gjallarhorn sem gerir allt sem maðurinn segir að litlu eða engu? Eða er þarna þöggun í gangi? Er þetta þöggunartrekt? Er maðurinn múlbundinn?

Og þokan umhverfis allt þetta. Er þetta þoka óvissunnar eða doðans í allri umræðunni?

Leynist  hugsanlega einhverf von í þokunni?

Hver er svo maðurinn? Er hann táknmynd einhvers? Stjórnvalda kannski?  Embættismanna? Táknmynd örlagavalda eða geðlurða? Er hann fulltrúi þeirra sem segja skoðanir sínar en enginn heyrir vegna trektarinnar eða tregðunnar?  Kannski er hann viljalaus og skoðanalaus arkitekt, án fótfestu og svífur þarna eins og fjöður í loftinu, allt eftir því hvernig vindurinn blæs í þeim tilgangi einum að halda bissnissnum gangandi  ……  „bisniss as júsúal“.

Og svo er það kvörnin, er þetta kannski púðurkvörn? Full af orku?

Er hann kannski með augun í vasanum og veit ekkert hvað er að grast? Kannski voru mistök hans að fylgja ekki hjörðinni og vera þýðlyndur. Það gefst oft vel þegar til skamms tíma er litið.

Þetta frábæra málverk setur fram milljón spurningar sem ég ætla ekki að reyna að svara. Spurningarnar og svörin er einungis að finna í augum þeirra sem horfa, heyra og kunna að sjá.

+++

Steen Ejler Rasmussen arkitekt og prófessor á Konunglegu Listaakademiunni í Kaupmannahöfn endaði öll sín skrif með kveðjunni „Med mange venlige hilsener“.  Steen var lærimeistari Halldórs Gunnlaugssonar heiðurfélaga Arkitektafélags Íslands þegar hann las við akademíuna.  Við deild Steen Ejler tók leibeinandi minn og prófessor Jörgen Bo.  Sten Ejler skrifaði reyndar heila bók sem hét þetta „Med mange venlige hilsener. (Gyldendal 1971)

Ég ætla að enda þetta á svipaðan hátt og Steen Ejler segi.:

Með mörgum vingjarnlegum kveðjum.

 

 

 

 

 

 

 


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.8.2015 - 10:11 - 18 ummæli

Umræðan um skipulagsmál.

http://s3.amazonaws.com/rapgenius/vitruvius.jpg

Ég hef oft efast um sjónarmið mín og þær ályktanir sem ég dreg af ýmsum áætlunum sem varða skipulag og byggingalist. En ég styðst eins og ég get við fagleg sjónarmið sem lögð eru fram og geri mér far um að reyna að skilja það sem liggur á borðum. Eflaust hef ég stundum rangt fyrir mér varðandi einstaka mál.

Stundum tekst mér ekki að skilja hvert menn eru að fara og þess vegna reyni ég að skapa umræðu um efnið á þessum vef og víðar í von um að umræðan verði upplýsandi og lausnamiðuð.  Stundum reyni ég að þvinga fram viðbrögð með því að vera svolítið ögrandi. Geri mér jafnvel upp skoðanir. Það tekst stundum að laða fram viðbrögð en ekki alltaf.  Það er hinsvegar ekki óalgengt að ég fái viðbrögð á netfang mitt, eða þeir hringi. Þetta eru oftast aðilar sem tengjast viðkomandi máli beint og segjast ekki vilja taka þátt í opinberri umræðu um málið.  Oft „stöðu sinnar vegna“

Gott dæmi um þetta eru áformin um að byggja Landspítala við Hringbraut.  Ég hef skrifað pistla um þessa spurningu í sex ár, velt ýmsum steinum og leitað svara við aðkallandi spurningum.

Sannast sagna skil ég ekki af hverju það gengur svona illa að ná upp faglegri og lausnamiðaðri opinberri umræðu um þetta mikla mál.

Þetta hefur nánast verið einræða þó þeim sem eru svipaðrar skoðunnar og ég hafi fjölgað verulega.

Ég hef líkt þessu við samtal við girðingastaur. Samtalið er ekki gagnvirkt. Þeir sem véla um þessi mál fyrir hönd skattgreiðenda taka nánast ekkert þátt í umræðunni.  Svara nánast engu og leiða umræðuna hjá sér.  Það er líklega vegna þess að þeir telja þögnina vera bestu vörnina í vonlausri málefnalegri stöðu sinni. Kannski eru svörin ekki fyrir hendi!

Þeir sýna með þessu vissa forherðingu, yfirlæti eða jafnvel hroka gagnvart hinum leitandi sem auðvitað borga allan reikninginn.

Eins og kom fram í nýlegum pistli mínum hafa vandaðar skoðanakannanir sýnt að um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31%  landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir. Fjárhagsleg  og skipulagsleg rök benda til þess að uppbygging við Hringbraut sé óheppileg. Jafnvel röng.

Það hefur verið óskað eftir faglegu staðarvali í ein sex ár án nokkurra viðbragða.

++++

Arkitektar hafa ekki tjáð sig mikið um málið. Sennilega vegna þess að stór hluti þeirra hefur komið að málinu eða eiga persónulegra hagsmuna að gæta.

Ég spurði á fésbókarsíðu arkitekta þar sem eru skráðir um 500 arkitektar og ástríðufullir áhugamenn um skipulag og arkitektúr  um efnið.

Ég bað sérfræðingana sem lesa FB síðu arkitekta um að taka þátt í umræðunni og gera mér og fjölda annarra sem efast um staðsetninguna við Hringbraut þann greiða að róa okkur og sannfæra okkur um að Hringbrautargangan sé gengin til góðs. Ég óskaði eftir faglegum rökstuðningi fyrir staðarvalinu.

Okkur sárvantar fagleg skipulagsleg rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut.  Ég auglýsti  beinlíns eftir þeim.

Enginn svaraði í fyrstu svo ég endurtók bón mína til sérfræðinganna nokkrum dögum seinna.

++++

Þá kom eitt svar .

Það var frá ágætum kollega mínum úr teyminu sem vann að deiliskipulaginu sem nú liggur fyrir og er væntanlega vel að sér í þessu máli.

Hann byrjaði á því að hnýta í okkur sem erum að leita svara við sjálfsögðum faglegum og velrökstuddum  spurningum vegna staðarvalsins og sagði orðrétt að það væri „auðvelt að strá ryki í augu almennings með einföldum upphrópunum sem er vitað að valda ursla. Ábyrgðarlaus gagnrýni fagmanna getur tafið mál eins og bráðnauðsynlega uppbyggingu Landspítalans“. 

Það er ekki beint málinu til framdráttar að byrja svona. Hann segir mig og fl. vera með ófaglega og  óábyrgar upphrópanir til þess eins að valda usla!!!.  Þessi tilvitnun upplýsir ekkert og er einungis til þess fallin  að draga úr umræðunni. Þarna virðist reynt að þagga niður í fólki og kæfa umræðuna. 

Svona ummæli draga úr áhuga fólks fyrir að ræða arkitektúr og skipulagsmál opinberlega. Maður missir eiginlega áhuga á samtalinu þegar svona svar birtist frá fagmanni sem ætti að þekkja vel til málanna og hefur af þessu atvinnu.

Maður sem ber samfélagslega ábyrgð vegna vinnu sinnar og á að sýna þeim sem borgar honum launin virðingu og þakka þann áhuga sem viðkomandi sýnir verki hans.

Skipulagshöfundurinn vísaði ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings eða skipulagsrök vegna staðsetningarinnar, sem kom á óvart og er varla boðlegt.

Það verður samt að geta þess að  hann fann þrjár ástæður fyrir því að byggja skyldi við Hringbraut. Engin þeirra byggði á skipulagslegum forsendum.

Atriðin þrjú voru þessi, orðrétt:

“Hafa ber í huga að ekki er um nýja lóð að ræða. Landspítalinn tók til starfa 20. des. 1930. Það er því bráðum komin 85 ára reynsla af staðsetningunni við Hringbraut.”

Í öðru lagi:

“Ekki verður séð að gagnrýnendur núverandi staðsetningar séu sammála um neinn annan ákveðinn kost. “

Og að lokum:

“Verði hætt við frekari uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hann byggður annarsstaðar mun það óhjákvæmilega seinka opnun á nýjum spítala um að a.m.k. 3 ár.”

Svo kom „læk“ hjörðin sem lækaði eins og um væri að ræða íþróttakappleik þar sem menn halda auðvitað með sínu liði skilyrðislaust og oftast líka umhugsunarlaust.

++++++

Því hefur verið haldið fram að við sem erum í vafa um staðsetninguna við Hringbarut „skellum skollaeyrum við staðreyndum“ og „sjáum ekki heildarmyndina“. Mér sýnist þvert á móti að aðstandendur framkvæmdarinnar skjóti skollaeyrum við gagnrýninni og velja að svara engu eins og dæmin sanna. Þögn þeirra hefur komið málinu í þá stöðu sem það er nú í.  Fullkomna óvissu!

Að ofan eru dæmi um svörin sem fást. Þau eru ekki faglegs- eða skipulagslegs eðlis heldur bera einkenni flótta frá málefnalegri umræðu.

Forsvarsmenn verkefnisins hafa líka sagt okkur að þeir hafi fengið það verkefni frá Alþingi að undirbúa byggingu spítalans við Hringbraut og ekki annarsstaðar (Þarna virðist Alþingi hafa tekið til sín skipulagsvaldið). Það er að segja að þeir vilja ekki ræða staðsetninguna með faglegum hætti og bera fyrir sig boð frá Alþingi.  Þarna er á ferðinni alger skortur á hinni svokölluðu „samfélagslegu ábyrgð“ hjá fagfólkinu, sem er mikið rómuð um þessar mundir og mikið kallað eftir.

Það má líka skjóta því hér inn að við sem erum í vafa um staðsetninguna skoðum þá heildarmynd sem Aðalskipulag Reykjavíkur hefur dregið upp. Við skoðum líka þá félagslegu mynd sem við blasir og þá fjárhagslegu mynd sem nýlega var dregin upp.

Fylgjendurnir sýnist mér vera að skoða heildarmynd sem þeir sjálfir hafa skapað og er að margra mati ekki lengur í tengslum við þann veruleika sem blasir við í dag. Það hefur verið sýnt fram á að hinar svokölluðu staðarvalsskýrslur, sem eru þrjár, standa ekki undir nafni þó stundum sé vitnað í þær. Ég er til dæmis fullur efasemda um hvort borgarstjórinn og heilbrigðisráðherra hafi nokkurntíman lesið skýrslurnar og kynnt sér þó þeir hafi vitnað í þær. Til þess eru þeir of vandaðir menn. En þeir fara ekki rangt með því skýrslurnar benda á Hringbraut.

+++++

Draga má þá ályktun af því sem að ofan stendur að það virðist ekki nokkur leið að ná upp faglegri og málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Menn ýmist svara ekki eða hlaupa útundan sér.

Manni fallast hendur.

++++++

Myndin efst í færslunni er eftir Leonardo da Vinci en tilvitunin er meira en 2000 ára gömul og er eftir Marcus Vitruvius Pollio (70-80 f.kr – 15 e.kr) sem var fræðimaður sem einbeitti sér að byggingalist.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.8.2015 - 00:13 - 23 ummæli

„Hvað EF menn hefðu…….“

Vilhjálmur Ari Arason læknir skrifaði aldeilis ágæta grein hér á Eyjuna fyrir stuttu þar sem hann veltir fyrir sér hvaða tækifæri byðust ef menn væru opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala og tekur mið af nýju sjúkrahúsi í Hilleröð í Danmörku sem á að taka við gömlum spítala inni í borginni.

Vilhjálmur virðist hafna fyrirhuguðum bútasaum vegna Landspítalans við Hringbraut og segir m.a.:

„Hvað EF menn hefðu verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum?  Hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa?  Sömu aðilar og unnu samkeppni um nýjan Landspítala við Hringbraut, CF Möller, unnu samskonar samkeppni í Danmörku nýlega á Norður-Sjálandi, nánar tiltekið við Nýja Hilleröd sjúkrahúsið. Um er að ræða um 140.000 fermetra húsnæði sem er svipað og heildaráfanginn allur við Hringbraut, en sem kosta á mun minna, eða rúmlega 80 milljarða umreiknað í íslenskar krónur. Það sem er ekki síður markvert að skoða er byggingahraðinn á nýju opnu svæði miðsvæðis þar. Auglýst var eftir hönnunartillögum 2014, framkvæmdir eru nú að hefjast og spítalinn á að vera tilbúinn eftir 5 ár, þ.e. 2020. Hvað EF við hefðum hugsað og farið sömu leið og Danirnir?“

Hér er færsla Vilhjálms í heild sinni:

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2015/08/12/hvad-ef-nyjum-landspitala-er-valinn-betri-stadur/#respond

++++

Það má líka velta fyrir sér til hvers landið og byggingar núverandi spítala yrðu notaðar EF menn hefðu „verið opnari“ fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala?

Það er ljóst á þá hefði landið verið nýtt í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030.

Núverandi byggingar fengju hlutverk sem miðbæjinn vantar og mikil eftirspurn er eftir eins og t.a.m.  fyrir hótel.  Í núverandi byggingum  gætu líka verið hjúkrunarheimili eða skrifstofur fyrir veigamikil fyritæki á borð við Landsbankann o.fl.  Gamla aðalbygging Landspítalans fengi eflaust viðeigandi mikilvægt opinbert hlutverk.

Landið sunnan Gömlu Hringbrautar yrði líklega íbúðavæði ef markmið AR2010-2030 fengju að ráða. Þar væri hægt að koma fyrir um 500 stórum lúxus sérbýlum í anda þess sem sýnt er á myndunum að neðan. Þarna gætu búið  nokkuð á annað þúsund manns sem stuðlaði að jöfnun húsnæðis- og atvinnutækifæra í borginni eins og AR 2010-2030 stefnir að.

Efst er mynd sem tekin er úr færslu Vilhjálms Ara Arasonar af nýju sjúkrahúsi í Danmörku og sýnir hvernig sjúkrahús sem byggt er á „besta stað“ (green field) gæti litið út.

Hönnun á sjúkrahúsinu í Hilleröd var boðin út á síðasta ári og byggingin verður tekin í notkun eftir 5 ár.  Alls um 140 þúsund fermetrar sem er svipað og Landspítalinn þarf.

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

Víða um heim eru byggðar glæsilegar gæðaíbúðir í lágri þéttri byggð. Eitt þeirra er íbúðasvæði við Essex í Englandi eftir Alison Brooks Architects. Þessi íbúðabyggð fékk nýlega viðurkenningu sem besta nýja íbúðabyggðin í Englandi.

Þetta eru rúmgóð hús á tveim til þrem hæðum með meiri lofthæð en gengur og gerist. Þéttleikinn er 56 íbúðir á hektara sem er mjög mikið á reykvískan mælikvarða. Sérstaklega er eftir því tekið hvað íbúðirnar eru bjartar og samskipti íbúanna og götulíf þægilegt. Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð.

Koma mætti 500 íbúðim í þessum gæðaflokki á svæðinu sunnan Hringbrautar ef Nýja Hringbraut og helgunarsvæði hennar er tekið með ásamt landinu undir „þjóðvegasjoppunni“ og umferðamiðstöðinni yrði bætt við.  Á þennan hátt mætti tengja Valssvæðið annarri byggð í borginni á eðlilegan hátt. Og HR tengdist borgarlandinu loks á eðlilegri hátt.

 Lesa má um þessa íbúðabyggð hér:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/30/deiliskipulag-i-vatnsmyri-onnur-nalgun/#comments

Myndina að ofan fann ég á veraldarvefnum og var textinn við hana: „Bílastæði-gata-gata-bílastæði-gata-bílastæði“  Myndin og textinn lýsir vel langri röð skipulagsmistaka. Þarna eru miklar götur sem lagðar voru á grunvelli skipulags sem aldrei varð og vonandi aldrei verður. Ef ný Hringbraut hefði ekki verið lögð og gamla Hringbrautin látin nægja þá væri sunnan gömlu Hringbrautarinnar nægjanlegt rými fyrir um 500 lúxus sérbýli í svipuðum gæðaflokki og myndirnar að ofan. .

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/images/islenska/verkefnid/samkeppni/samkeppni_um_forhonnun/vinningtillaga_=_spital/02-landspitali-1af%5B1%5D.jpg

http://blog.pressan.is/arkitektur/files/2011/09/nyr_landsspitali_498x230.jpg

Ef fer sem horfir verður aðalsjúkrahús landsmanna (kannski það eina á höfuðborgarsvæðinu) rekið á stærsta byggingastað landsins jafnvel um áratugi með öllum þeim óþægindum sem því tilheyrir og glamrandi stórvirkum vinnuvélum og jarðvegssprengingum allt umhverfis starfandi sjúkrahús.

Þetta eftirsóknarverða land sem hentar mun betur til íbúðabygginga verður að líkindum að mestu autt næstu áratugi. Það er líklega á skjön við nýtt aðalskipulag.

Myndirnar að ofan sýnir í stórum dráttum hvernig sjúkrahúsið við Hringbraut mun líta út.

Hér að neðan er grunnmynd deiliskipulagsins sem nú er ætlunin að framkvæma.

http://blog.pressan.is/arkitektur/files/2011/09/nhlsh-30082011-deiliskipulaglett.jpg

Í færslu Vilhjálms Ara Arasonar var slóði að myndbandinu a neðan. Myndbandið sýnir sjúkrahúsið við Hilleröð í Danmörku. Það er af svipaðri stærð og fyrirhugaður Nýr Landspítali. Það er augljóst að þarna er lögð áhersla á manneskjulegt um, hverfi þar sem sjúklingurinn er í algerum forgrunni.

Danir ákváðu  þarna, af margvíslegum ástæðum,  að byggja ekki við eldri byggingar inni í borginni heldur byggja á „green field“ enda væri það bæði betra, hagkvæmara og fljótelgra auk þess að flækjustig og óvissa væri minni.

Endilega skoðið þetta fallega myndband.

Það er leiðinlegt að hugsa til þess að allt bendir til  að fjárfest verði í byggingum upp á milli 80 og 120 milljarða án þess að fyrir liggi heildstætt faglegt mat á staðarvalinu. Að auki hefur verið reiknað út að Hringbrautarlóðin muni kosta landsmenn um 100 milljarða meira á núvirði en ef byggt yrði á svokölluðum „besta stað“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.8.2015 - 22:10 - 8 ummæli

Landspítalinn – Skoðun heilbrigðistarfsfólks á staðsetningunni.

Samtök um betri spítala á betri stað hafa beðið MMR um að gera nokkrar skoðanakannanir varðandi staðsetningu Landspítalans. Þetta er röð kannanna þar sem heilbrigðisstarfsmenn hafa verið spurðir sérstaklega (læknar, hjúkrunarfólk og sjukraflutningamenn) og svo úrtak úr þjóðskrá.   Niðurstöðurnar hafa verið nánast á eina lund.  Línuritið að ofan er fengið af Facebooksíðu samtakanna og fjallar eingöngu um svör frá sjúkraflutningamönnum. Með línuritinu fylgdi eftirfarandi texti á FB síðu samtakanna:

++++

„Viðhorfskönnun meðal sjúkraflutningamanna varðandi staðsetningu framtíðar Landspítalans.

51 af um 200 hafa svarað eða um 25%.

Niðurstöðurnar eru sláandi.
Um 85% eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut.
Um 35% vilja hafa spítalann í Fossvogi, um 29% á Vífilsstöðum en einungis um 8% við Hringbraut.

Vitað er að um 70% lækna eru skeptískir á Hringbrautina og samkvæmt nýrri MMR könnun eru einungis 31% almennings ánægð með Hringbrautina.

Við samtökin BSBS höfum sýnt fram á að það má fá betri spítala á nýjum og betri stað fyrir minna fé en ef byggt verður við Hringbraut. Núvirtur sparnaður verður jafnvel yfir 100 milljarðar króna.

Þó að byrjað verði á nýjum stað þarf það ekki að tefja málið því tími við skiptulag og hönnun vinnast upp með meiri byggingarhraða þar sem pláss verður til að byggja spítalann án truflana fyrir nærliggjandi starfsemi.

Við, almenningur, þurfum að láta fulltrúana okkar á Alþingi, í Borgarstjórn og viðar vita af því hvað okkur finnst um þetta mál. Við krefjumst þess að þeir hlusti þegar svona stórt mál er í húfi fyrir okkur öll.“

++++

Það ber alls ekki að túlka þetta sem svo að skoðanakannanir eigi að ráða hér ferð, heldur skýtur þetta stoðum undir þá kröfu að formlegt og faglegt staðarval fari fram.   En það er nokkuð ljóst að flestir þeirra sem kynnt hafa sér málin sjá að uppbygging við Hringbraut er óheppileg.

En þetta á ekki að breyta því að endanlegt staðarval á auðvitað að ákveða í kjölfar vandaðrar og faglegrar úttektar á þeim kostum sem bjóðast.

Það er fullkomlega óábyrgt að halda áfram og hefja framkvæmdir án þess að staðarval verði faglega unnið.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.8.2015 - 07:20 - 10 ummæli

Flatey og Halldór Kiljan Laxness

 

Place_337_2___Selected

Halldór Kiljan Laxness lætur eftirfarandi falla um Flatey á Breiðafirði í bók sinni Dagleið á Fjöllum (útg 1937):

+++

„Það var að morgni dags snemma í júní. Ég steig þá í fyrsta sinn á land í þessari yndisey þar sem öll mannverk höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar. Æðarkollurnar litu vingjarnlega til mannanna, og það var næstum hægt að taka þær í fang sér. Mér hefur alltaf síðan fundist hér ríkja annað tímabil en í öðrum hlutum heims; að þessi eyja sé utan við almanakið. Alltaf þegar ég stíg á land í Flatey síðan, finn ég þessa eilífðarkennd. Það er kannski af því að ég var svo ungur þegar ég kom hingað fyrst, að mér fannst ég sjálfur vera eilífur; að gista einn mánuð, tvo mánuði, á fallegum stað, aðeins til að mega liggja guðslangan daginn í þanginu og horfa á hreyfingar fuglanna og hlusta á kliðinn, það var eins og annar lítill greiði við sjálfan sig og allt aðrir dagar en nú, þegar maður kemur þreyttur af langferð til góðs vinar seint um kvöld og verður að leggja af stað í býtið að morgni – – – –

– – – –  Það eru liðin fimmtán ár.

Mér er aftur vísað á tvö vesturherbergin uppi á lofti í gesthúsinu eins og þegar ég kom hér fyrst. Það er aftur björt júnínótt eins og þá. Aftur horfi ég á þessi lágreistu rifluðu hús og hlýði á klið sjófuglsins fyrir utan gluggann eins og þá, hinir liðnu áhyggjulausu dagar tvítugsáranna koma til mín aftur, óendanlegir, án kvölds. Og ég finn allt í einu, að þessi kliður sjófuglsins er mér meira virði en öll heimsins tónlist, sem ég þó elska svo mikið. Kannski er þetta sjálf óskanna en þar sem sælan býr, þar sem tíminn líður ekki“

+++

Það hefur lítið breyst í Flatey og Vestureyjum síðan Halldór Kiljan Laxnes skrifaði þetta. Flatey er enn „utan almanaksins“,  hreyfing fuglanna og kliðurinn er sá sami og þarna standa þau enn „lágreist rifluð húsin“.

Mér er minnisstætt þegar ég var lítill drengur í Svefneyjum að maður tók æðarkolluna „í fangið“ af hreiðrinu og lagði hana til hliðar. Hún horfði á meðan maður tók hluta af dúninum, skygndi eggin, tók eitt eða tvö, lagaði svo hreiðrið til og lagði kolluna aftur á hreiðrið og gekk að næsta hreiðri.

Sjá einnig:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/06/21/hella-flatey-og-serkenni-stadanna/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/12/09/ranakofinn-i-svefneyjum-elsta-hus-a-islandi/

 

http://www.ruv.is/sites/default/files/styles/1000x563/public/80122215.jpg?itok=Kd9dWl8t

 

flatey-660x330

 

https://ullarsokkurinn.files.wordpress.com/2011/05/kria1.jpg

http://www.skessuhorn.is/images/Mynd_1648239.jpg

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is