Miðvikudagur 11.5.2016 - 13:32 - 16 ummæli

Deiliskipulag – Hagsmunaárekstrar?

56714557a96ac56714557a96f1

Þegar ég kom frá námi var það talið óhugsandi að sami aðilinn deiliskipulagði og hannaði húsin inn í reitinn sem hann skipulagði. Þetta var vegna þess að talið var að hagsmunirnir færu ekki saman.

Deikliskipulagshöfundar voru taldir vanhæfir til þess að hanna hús inn í skipulag sitt nema að mjög takmörkuðu leyti. Ráðgjafinn gat, að margra mati ekki þjónað tveim herrum samtímis, lóðarhafa og almennings. Annaðhvort þjónaði hann öllum borgarbúum og umhverfinu eða lóðarhafa, ekki báðum.

Þegar skipulagshöfundur tók að sér að deiliskipuleggja mátti hann vita að hann mundi ekki teikna húsin á svæðinu.  Á  þessu var ein undantekning og það var þegar samkeppni var haldin um skipulag og byggingar. Það þekktust líka einstök tilfelli þar sem undantekning var gerð og höfundi skipulagsins var heimilað að teikna lítinn hluta húsa á reitnum sem hann hafði skipulagt.  En það var ekki gert fyrr en búið var að samþykkja og staðfesta skipulagið og skýr skil voru milli verkþátta. Ég man eftir að slík undantekning þurfti  formlega samþykkt í stjórnkerfi sveitarfélagsins.

Þetta er ekki svona lengur.

Nú upplifir maður hvað eftir annað að sami ráðgjafinn skipuleggur og hannar húsin inn í skipulagið. Oft skipuleggur hann fyrir lóðarhafann og leggur skipulagið inn til sveitarfélagsins á hans reikning. Þetta vinnulag gerir það að verkum að hætta er á að almannahagsmunir víki fyrir einkahagsmunum  lóðarhafa þegar þannig stendu á.  Ráðgjafarnir hafa líka hagsmuni að gæta sem ekki fara nauðsynlega saman  með hagsmunum heildarinnar og umhverfisins.

Þvert á móti.

Hagsmunir ráðgjafanna fara oft saman með hagsmunum lóðarhafa sem vill byggja mikið og stórt. Því meira byggingamagn því fleiri fermetrar verða til sölu eða leigu og því fleiri fermetrar sem byggðir eru því hærri verður þóknunin til ráðgjafans.

Þatta er áhyggjuefni.

Það má ekki misskilja mig þannig að ég sé andsnúinn mikilli nýtingu á lóðum. Þvert á móti er ég fyljgandi þéttingu svo lengi sem hún bitnar ekki á heildarmyndinni og borgarlandslaginu eins og við viljum hafa það.

Þetta verklag er ekki óalgengt erlendis og gengur oft vel þar sem lóðarhafanum (developer) er veitt kröftugt aðhald sjórnvalda og umsagnaraðila.

En ég er þeirrar skoðunar heppilegra sé  að sá sem skipuleggur einbeiti sér að hagsmunum borgaranna og umhverfisins og eftir að skipulagsvinnunni líkur eiga aðrir ráðgjafar að taka við og hanna byggingarnar með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi. Svo takast þessir tveir ráðgjafar á og gæta hagsmuna sinna umbjóðenda, lóðarhafa annarsvegar og  borgaranna, borgarlandslagsins, staðarandans og manneskjulegs umhverfis hinsvegar.

Þetta nýja verklag er að verða reglan frekar en undantekning og oft hallar á heildarhagsmuni borgarbúa meðan hagsmunir lóðarhafa og ráðgjafa þeirra verða ofaná.

Þetta gengur auðvitað ekki. Það gengur ekki að sami aðilinn sitji beggja megin við borðið að óbreyttu. Þetta vinnnulag krefst mikils aðhalds og eftirfylgni frá sveitarfélaginu. Þetta hlýtur líka að valda kjörnum fulltrúum vandræðum þegar þeir fjalla um málið og eiga að gæta hagsmuna heildarinnar.

+++++

Ég nefni fimm nýleg dæmi þar sem sömu aðilar hafa skipulagt og hannað húsin: Reiturinn við Mánatún/Borgartún, þar sem sama stofan skipulagði og teiknaði öll húsin. Þar er nýtingahlutfall hærra en gerist í grenndinni. Höfðatorgsreitinn þar sem svipað var uppi á teningnum.  Álíka sögu er að segja um Barónsreit sem er að fara af stað.  Naustareitur við Tryggvagötu og Norðurstíg er af sama toga og auðvitað Landspítalinn þar sem allt forræði skipulags- og húsahönnunnar er hjá lóðarhafa. Ég endurtek að það má ekki misskilja mig í þessum skrifum. Þessi dæmi má ekki taka þannig að ég sé að hallmæla niðurstöðunni, húsunum eða deiliskipulaginu. Þetta eru eflaust allt ágæt hús og ágætt deiliskipulag. Dæmin eru tekin vegna þess að þau falla að efni pistilsins.

Þetta er ábyggilega nokkur tyrfið fyrir leikmenn að skilja en vert er að vekja athygli á þessu og hugleiða.

+++++

Efst er ljósmynd af húsum á hinum svokallaða Bílanaustsreit við Mánatún og Borgartún. Að neðan kemur mynd af Höfðatorgi og svo neðst mynd af skipulagshugmynd við Barónsreit.

HfatorgTower1small1

 

4-il2

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2016 - 14:24 - 4 ummæli

BIG brýtur blað í New York

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(13_of_32)

 

Ljósmyndarinn Laurian Ghinitoiu hefur nýlega tekið myndir af nýjasta verki íslandsvinarins og danans Bjarke Ingels í New York.

Þetta er fyrsta bygging hans í Bandaríkjunum.

Hér er um að ræða nýja  gerð skýjakljúfa courtscraper,  þar sem brotið er blað í gerð skýjakljúfa um alla jarðarkringluna. BIG hefur oft verið álasað um að skilja ekki staðarandann. Þetta er sammerkt með mörgum stjörnuarkitektum.

Afstöðumyndir og viðbrögð húsa við umhverfinu er almennt stórlega vanmetið og aldrei nægjanlega um það hugsað. Stundum sér maður umfjöllun um mannvirki þar sem engin grein er gerð fyrir næsta umhverf þess. Þetta hús er t.d. gott í NY en væri að líkindum slæmt í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Allt á sinn stað og sína stund.

Daninn, Bjarke Ingels er hér í essinu sínu. Hann skilur staðinn og anda stórborgarinnar. Í þessu íbúðahúsi í New York tekst honum vel upp. Hann tekur hefðbundið hús sem er einskonar randbyggð og togar það til þannig að úr verður nokkurskonar píramídi sem opnar sig að útsýni og sólarátt. Við þetta hámarkar hann gæði staðarins þannig að sem flestir njóti þeirra og fá bæði útsýn og dagsbirtu.

Hægt er að kynna sér þetta betur á vef New York Times eða hér gallery of under-construction photos.

Það hefur verið fjallað um verk BIG allmörgum sinnum hér á þessum vef. Pistlana má finna á leitarvélinni hér til hliðar með því að slá inn leitarorðinu BIG.

Alls er um að ræða 29 pistla.

 

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(6_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(2_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(17_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(30_of_32)

 

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(22_of_32)

Svalir á skýjakljúf í NY. Það er ekki algild regla.

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(12_of_32)

Byggingin sker sig skemmtilega út í New York Skyline. Frávikin eru byggð á hugmyndafræði „funktionalismans“ sem markir rugla saman við „modernismann“ sem er ekki alveg það sama.

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(3_of_32)

Að neðan má sjá skýringarmynd um hugmyndina. Bjarke Ingels tekur hefðbundið randbyggðarhús og togar það til þannig að sem flestir njóta útsýnis og birtu sem best.

1297115073-w57-diagram-by-big-06-1000x6251

1297115078-w57-diagram-by-big-08-1000x6251

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2016 - 08:33 - 7 ummæli

Reykjavík – „Bláa Bókin“ – skipulagsmál fyrir meira en 50 árum.

 

 

photo

Lesandi síðunnar sendi mér þrjú eintök af hinni svokölluðu „Bláu Bók“ sem sjálfstæðismenn  í bæjarstjórn Reykjavíkur gáfu út fyrir kosningar á árum áður. Þetta eru eintök frá árunum 1954, 1962 og 1966. Þetta eru mikil rit í stóru broti með mikið af myndum og allskonar upplýsingum á 35-50 síðum.

Hér að neðan koma nokkrar myndir úr Bláu bókunum 1962 og 1966.

photo 21

Að ofan er hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983 sem kynnt var í Bláu bókinni. Þarna sér maður tröllaukið gatnakerfi sem var er til þess að þjóna einkabílnum í miðborginni. Ef rýnt er í uppdráttinn sést Laugavegurinn sem hugsaður var sem aðal verslunargata borgarinnar ásamt götunum í Kvosinni.

Óhemju mikið af gömlum húsum eru látin víkja fyrir einkabílnum.

Grettissgata átti að verða meiriháttar safnbraut inn og út úr miðborginni. Nánast öll hús beggja vegna götunnar hefðu þurft að víkja vegna breikkunnar hennar. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefði þurft að víkja enda er það í miðju götustæðinu sem átti að liggja vestur að Garðastræti um Austurvöll. Suðurgata átti að liggja i gegnum Grjótaþorpið  og rústa því og tengjast svo Tryggvagötu.

Þetta skipulag var að mestu unnið af færustu erlendu sérfræðingum sem völ var á ásamt fremstu arkitektum og skipulagsmönnum landsins. Þetta sýnir manni í raun að maður á að taka álit sérfræðinga með fyrirvara.

11

Að ofan er teikning sem sýnir þvergötur Grjótaþorps milli Aðalstrætis og Garðastrætis þar sem er tröppukerfi en engir bílar. Þetta eru verslunargötur fyrir fótgangandi vegfarendur. Mér sýnist höfundarnir hafi gert ráð fyrir að hundahald í borginni yrði leyft. En enginn er REMAX loftbelgurinn!

photo 2Hér eru kosningaloforð sjálfstæðismanna vegna frágangs gatna á árunum 1962-1971. Gulu göturnar var búið að malbika á þessu kosningaári. Grænu göturnar átti að malbika á árunum 1962-1964. Bláu á árunum 1965-1968 og þær rauðu á árunum 1969-1971. Ekki veit ég annað en að þetta hafi allt meira og minna gengið eftir. Það kom mér á óvart hvað í raun er stutt síðan að götur borgarinnar voru malbikaðar.Ég man þegar Þósgata og Baldursgata voru malargötur þar sem „sprautubílar“ óku um og sprautuðu vatni á göturnar til þess að binda rykið á góðviðrisdögum.

photo 31

Það vekur athygli hvað bílaflotinn var glæsilegur í Reykjavik 1962. Bandarískir eðalvagnar raða sér meðfram götunum meðan minni bílar viðast hafa valið sér stæði inni á miðju Hallærisplaninu. Ég man að fólk sat gjarna inni í bílum sínum meðfram götunni, hlustaði á „Kanann“ og horfði á fólkið sem labbaði „Rúntinn“.

photo 41

Að ofan er skissa úr bæklingnum frá 1962 sem sýnir Fossvog og Fossvogsdal. Þarna eru hitaveittankarnir í Öskjuhlíðinni til vinstri og nokkur byggð í suðurhlíð Fossvogsdals. Það virðist vera gert ráð fyrir nokkurri hafnarstarfssemi í Fossvogi.

photo 11

Að ofan má lesa hvernig fjármunum var varið á árinu 1964. Málaflokkarnir eru nokkuð öðruvísi skilgreindir en nú. Til að mynda er einn flokkurinn „Íþróttamál, útivera og listir“  sem tóku 3,95% af fjárhagsáætluninni, heilbrigðis og hreinlætismál 9,5%, gatnagerð og umferðamál 17,27% og stærsti flokkurinn sem voru félagsmál tóku 25,1% af fjárhagsáætlun borgarinnar og 0,1% til mótöku erlendra gesta og annarrar risnu!

photo 111Hér er varið að grafa og leggja svokallað Kringlumýrarræsi sem lagt var beinustu leið út í sjó.

photo 2111

Hér er verið að steypa Miklubrautina.

Einn aðalhöfundur Aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983 var Peter Bredstorff prófessor við arkítektadeild listaháskólans í Kaupmannahöfn. Hann var þá álitinn einn sá alfrasti á sínu sviði á Norðurlöndunum. Skipulagið þótti nútímalegt og framúrskarandi á sínum tíma. En það átti engu að síður stóran þátt í að gera Reykjavík að þeirri dreifðu bílaborg sem hún er orðin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.4.2016 - 20:51 - 13 ummæli

Landspítalinn – veruleikafirring?

13062413_816341858498596_1409195663931420461_n

Ég sá í fréttum RUV rétt áðan að heilbrigðisráðherra er búinn að tryggja fjármögnun á fyrsta áfanga þjóðarsjúkrahússins.

Því ber að fagna.

Það er mikilvægt að fjármögnun sé tryggð þegar uppbygging heilbrigðiskerfisins er á dagskrá. Það gladdi mig líka að heyra að ráðherrann var ekki eins einbeittur hvað varðaði staðsetningu sjúkrahússins við Hringbraut og oftast áður. Hann vitnaði ekki í gamlar skýrslur eða réttlætti staðinn á nokkurn hátt.

Nú lagði hann ekki sitt persónulega mat undir heldur sagði að hann væri að framfylgja stefnu Alþingis um staðsetninguna og það mundi hann gera þar til breyting yrði á ef svo bæri undir, ef ég skildi rétt.

Vonandi skiptir Alþingi um stefnu og og fer að vilja sérfræðinga og mikils meirihluta þjóðarinnar og tekur endalega ákvörðun um staðsetningu spítalans í kjölfar faglegrar og opinnar staðarvalsgreiningar.

Manni virðist að sumir þeirra sem halda því fram að uppbygging Landspítalans við Hringbraut sé besti staðurinn fyrir þjóðarsjúkrahúsið skjóti skollaeyrum við öllum óskum um að nýtt opið og faglegt staðarval verði gert, vera jafnvel svoldið veruleikafirrtir.

Það hefur verið óskað eftir nýrri staðarvalsgreiningu með föstum faglegum rökum í sjö ár.  Aðstandendur og þeir sem fara með almannafé fyrir okkar hönd hafa ekki tekið þátt í samtalinu um staðsetninguna að neinu marki og ekki viljað mæta óskinni um nýja faglega og óháða staðarvalsgreiningu en svarað því til að það sé of seint. Málið sé komið of langt. Ekki verði aftur snúið.

Þetta hafa þeir sagt í sjö ár.

Veruleikinn er sá að allar forsendur fyrir staðarvalinu voru brosnar fyrir sjö árum þegar óskin um nýtt staðarval kom fram af miklum þunga. Og ekki bara það, heldur hafa komið fram ný rök og vaxandi almennar efasemdir um ákvörðunina í framhaldinu. Það hefur sýnt sig að ástand núverandi bygginga er verra en talið var. Lausnin kallar á tugmiljarða fjárfestingu í nýrri gerð þyrlna m.m.. Komið er nýtt aðalskipulag, fjárhagslegar forsendur eru aðrar o.s.frv.

Allt er breytt.

Forsendurnar fyrir Hringbrautarstaðsetningunni eru brostnar og samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti almennings og næstum allir læknar búnir að átta sig á því að staðarvalið við Hringbraut þarf að endurskoða með opnum og faglegum hætti.

Nálægðin við aðalbyggingar háskólanna eru ofmetin.  Það þarf ekki að styrkja miðborgina. Það er ekki ódýrast að byggja við Hringbraut.

Það er dýrast.

Færð hafa verið rök fyrir því að það sé ekki fljótlegra að byggja við Hringbraut.

Og yfir þessu öllu er ljóst þeim sem hafa skoðaða málið að skipulagslega, samfélagslega og umhverfislega er alls ekki víst að Hringbrautin sé besti staðurinn eins og margsinnis hefur verið rakið.

Allar þessar staðreyndir og öll þessi sjónarmið hreyfa ekki við þeim sem hafa haldið utan um þessi mál síðastliðin 14 ár. Manni finnst þeir ekki átta sig á veruleikanum sem er allt annar nú en en fyrir áratug.

Það verður ekki endanlega skorið úr um þetta mál með karpi og ritdeilum eða skoðanakönnunum.

Eina leiðin til að leysa ágrenninginn  er að gert verði opið og óháð staðarvalsmat. Og það er ekki of seint að gera það.

En tíminn styttist.

Það er sjálfsagt að taka undir þegar Kári Stefánsson segir m.a. í nýlegri grein í Morgunblaðinu.:  „Ef við værum að byrja hönnunarferlið ættum við að fá landsins bestu sérfræðinga til að meta hvort það mætti reisa húsið fljótar við Hringbraut …. Ef svarið er nei, þá höfum við frelsi til þess að velja annan og betri stað, annars ekki.“ Í sömu grein segir hann að tengslin milli Landspítalans og Háskólanna skipti engu máli sem er í samræmi við það sem við þekkjum erlendis þar sem verið er að byggja háskólasjúkrahús þar sem enginn er háskólinn.

++++

Nú hefur fjármögnun verið tryggð fyrir þessa miklu framkvæmd og því er síðasta tækifæi til þess að láta af oflætinu og líta til vilja mikls meirihluta þjóðarinnar og næstum allra  lækna og láta gera faglega úttekt á stað fyrir þetta mikla hús. Við meigum engan tíma missa.

++++

Myndin efst í færslunni er af skoðanakönnun meðal lækna. Hún er opin og ekki leynileg þannig að sjá má á könnuni hvernig einstakir læknar svara. Þarna sést að 87.2% lækna (næstum allir þáttakendur) sem þátt hafa tekið í könnuninni vilja aðra staðsetningu fyrir nýja Landspítalann. Þetta er mjög athyglisvert þar sem hér eru þáttakendur í könnuninni upplýstir um hvað verkefnið gengur út á.

13055337_813968825402566_4159112154334982351_n

Að ofan er skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem sýnir að  36,5% landsmanna vilja byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut en 63,5% annarsstaðar þar af 50% á Vífilsstöðum.

13043242_816191681846947_1713635227525882126_n

Í Gallupkönnun frá því í síðustu viku fyrir  samtökin um betri spítala á betri stað vilja 35,7% byggja við Hringbraut og 44,6% er því andvígt. Spurningin var svona: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut?“

Þegar spurt var.: „Hvar vilt þú að nýr Landspítali rísi?“ sýndi sig að 61,5% vildu byggja annarsstaðar en við Hrinmgbraut.

Þurfa þeir sem véla um þessi mál ekki að fara að byrja að hlusta áður an það verður of seint, eða er einhver veruleikafyirring hér á ferð? Veruleikinn er að minnstakosti annar nú en árið 2002 þegar fyrsta staðarvalsskýrslan var gefin út.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2016 - 08:54 - 12 ummæli

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku verðlaunin fyrir menningararfleiðar/ Europa Nostra 2016

L1002048

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar/ Europa Nostra verðlaunin 2016

Evrópusambandið og Europa Nostra tilkynntu þann 7. Apríl s.l. að Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlyti Evópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar fyrir árið 2016. Sigurvegurum verður formlega afhent verðlaunin við sérstaka athöfn, sem leidd verður af Tibor Navracsics og Plácido Domigo, kvöldið 24 Maí í sögulega Zarzúela leikhúsinu í Madríd.

Við endurnýjunina sem hófst árið 2009 var mikil virðing borin fyrir upphaflegum efniviði og handverki. Notað var timbur úr gamla húsinu eins og hægt var og gömlu handverki.

Þegar það er haft í huga að um 70% arkitekta í t.a.m Frakklandi vinna að endurbyggingum eldri húsa en einungis milli 2-4% hér á landi verður það að teljast stórviðburður að íslendingum hlotnast virðulegustu verðlaun á sviði endurbygginga eldri húsa í álfunni. Einkum vegna þess að hér á landi er almennt lítil virðing borin fyrir menningararfleifðinni þegar kemur að gömlum húsum. Jafnvel þó að einungis 0,3% húsa í Reykjavík séu t.d. frá árinu 1907 eða eldra veigra menn sig við að leggja í endurnýjun þeirra fáu húsa sem til eru. Þeir vilja frekar rifa þau!

Þessi verðlaun efla vonandi skilning  almennings og stjórnmálamanna á mikilvægi menningararfleifðarinnar fyrir samfélagið og hagkerfið. Endurbygging gamalla húsa byggir brýr á milli nútímans, framtíðarinnar og fortíðarinnar.  Ekki veitir af. Manni virðist sem núverandi kynslóð hér á landi botni ekkert í þessu þegar horft er til niðurrifs húsa hér í Reykjavík að undanförnu.

Ég hef jafnvel heyrt arkitekta flokka kollega sína í annarsvegar verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingasinna eins og um sé að ræða andstæðinga þar sem verndunarsinnar eru vondir og uppbyggingasinnar góðir og bjartsýnir. Þetta er hinn mesti misskilningur sem ber vott um þekkingarleysi og/eða skort á umburðalyndi.

Evrópusambandið og Europa Nostra benda á það augljósa að húsavendun ýtir undir hagvöxt, eflir sjálfbæra þróun og hvetur til félagslegrar þátttöku, samfélagslegrar ábyrgðar og samheldni – sem skiptir meira máli nú, en nokkurn tíma áður.

Þetta þurfa íslenskir arkitektar og stjórnvöld að átta sig á. Endurnýjun eldri húsa og húsavernd er talin hluti af „Skapandi Evrópa“ (e. Creative Europe) verkefninu og skiptir miklu máli varðandi alla uppbyggingu og jákvæða og þroskandi menningu meðan niðurrif er nánast ekkert annað en ómenning í flestum tilfellum.

++++++

Hér kemur hluti úr dómnefndarálitinu eins og það kom fram í frettatilkynningu:

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði

„Verkefnið fólst í endurbyggingu og flutningi Franska spítalans til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann var upprunalega byggður. Auk spítalans voru kapella, sjúkraskýli og Læknishús á sama stað, sem einnig voru gerð upp eða endurbyggð. Nafn spítalans má rekja til stofnunar hans árið 1904 til að sinna fjölda franskra sjómanna sem veiddu við strendur Íslands í um 400 ár. Við upphaf síðari heimstyrjaldarinnar hættu þeir siglingum til Íslands. Þrátt fyrir tilraunir bæjarfélagsins til að halda spítalanum gangandi var honum fljótt lokað og húsið flutt yfir fjörðinn og breytt í íbúðarhús. Árið 1980 var húsið endanlega yfirgefið og lagðist í eyði. Uppbyggingarverkefnið, sem hófst árið 2009, fólst í samstarfi arkítekta, verkfræðinga og handverksmanna Minjaverndar og innan bæjarfélagsins undir stjórn Minjaverndar.  

Þetta var stórt verkefni með það að markmiði að endurlífga þetta markverða tímabil í sögu bæjarfélagsins með því að breyta spítalanum í hótel og safn til minningar um hinn mikla fjölda sjómanna sem fórust við strendur Íslands og á spítalanum. Virðing var borin fyrir upprunalegum efniviði og handverki við endurbyggingu hússins, timbur úr gömlu byggingunni var endurnýtt og gömlu handverki beitt til hins ítrasta. “Verkefnið endurvekur ákveðið tímabil í Evrópskri sögu með því að rifja upp þessa tengingu milli Frakklands og Íslands. Samstarfshópurinn hefur lagt sig fram um að varðveita þessa merku og viðkvæmu byggingu sem og hina áhugaverðu arfleifð sem hún stendur fyrir“, sögðu dómarar verkefnisins.    

“Endurgerð byggingar eins og Franska spítalans fyrir ólíka starfsemi er vandasamt verk. Úrlausn og úrræðasemi samstarfshópsins er sérlega góð. Sú ákvörðun að blanda saman upplýsandi safni og fallegu hóteli er mark um virðingu hópsins fyrir sögu hússins og áherslu þeirra á að auka aðgengi allra að arfleifð hennar.“ Byggingin er staðsett í stórbrotnu og fallegu landslagi Fáskrúðsfjarðar og hefur laðað ferðamenn að þorpinu og þar með endurvakið stöðu þess sem athvarf fyrir þá sem eru langt að heiman.“

++++

Það er ástæða til þess að óska þeim sem stóðu að verkinu til hamingju en þeir eru Þorstein Bergsson hjá Minjavernd, Arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hjá arkitektastofunni ARGOS.  Árni Páll Jóhannesson setti upp glæsilega sögusýningu í húsinu sem er hluti af verðlaunaverkefninu.

Sýning Árna Páls fjallar um fiskveiðar frakka sem hófust á Íslandsmiðum árið 1614 og stóðu yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Talið er að um 400 skútur hafi farist á Íslandsmiðum á einni öld frá 1810 til 1914. Allur aðbúnaður sjómannanna var hörmulegur.

Færslunni fylgja frábærar ljósmyndir sem teknar voru af Guðmundi Ingólfssyni hjá Ímynd. Efst er mynd af sýningu í húsinu sem unnin er af Árna Páli Jóhannesson Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir innan úr byggingunu og frá því þegar endurbyggingin átti sér stað.

+++++

_DSC0066Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar.

_DSC9783

_DSC9594Í þessum gömlu húsum er efniskenndin og handverkið áþreyfanlegt. Maður sér pensilstrokur málarans og spónafar trésmiðsins.

_DSC9668Það er í sjálfu sér upplifun að gista á hótelum sem þessum. Það þekki ég frá Flatey á Breiðafirð þar sem sömu aðilar hafa staðið að uppbyggingu og hóteli í á annað hundrað ára gömlum húsum. Maður sér þssa nálgun víða. Ég nefni Búðir á Snæfellsnesi þó það sé aðeins á annan hátt. Fyrir ferðamanninn er gistingin hluti af upplifuninni þegar svona er búið að þeim. Það er hún ekki þegar gestum er vísað í hin svokölluðu „gámahótel“ sem víða er boðið upp á og jafnvel látin ryðja gömlum húsum úr vegi.

Herbergi invalidSjúkrahúsið er nú glæsilegt hótel. Ekki er annað að sjá en að hægt sé að koma fyrr nútimalegri hótelstarfssemi í aldagömlum húsum ef vilji og hæfileiki þeirra sem að standa er fyrir hendi. Maður veltir fyrir sér hvort ástæðan fyrir niðurifi eigi sér stað sé vegna hins gagnstæða; vilja- og hæfileikaleysi.

Kapella inni AKapellan

LKz8TCS642BUt1Plh-9YGDPoLMf0alLla9jumP1-9KQ,-ZTMKV_gbABEIriNPMh8RVhoq0vO8f955chzBx7LGowHér er hluti hússins komið á örubíl og lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar.

 

Myndir til skipta 050Ástand hússins var ekki gott þegar hafist var handa. En ljóst er að það var hvergi nærri því að vera onýtt.

Myndir til skipta 061

scan2Sagt hefur verið að arkitektarnir hjá ARGOS teikni „með hjartanu“

L1001996Í læk sem liggur meðfram húsunum til sjávar hefur verið komið fyrir allnokkrum sæbörnum hnullungum þar sem kappað hefur verið í nöfn nokkurra þeirra skipa sem fórust við Íslandsstrendur á öldum áður.

L1002000

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2016 - 12:04 - 16 ummæli

Tryggvagata.- Hvað kemur í staðinn fyrir það sem var rifið?

AR-160419607

Maður varð eiginglega orðlaus fyrir nokkrum dögum þegar það kom í ljós að 110 ára gamalt hús í miðborg Reykjavíkur var rifið í fullkomnu leyfisleysi vegna „misskilnings“.  Þennan misskilning þarf að skýra og tryggja að svonalagað geti ekki komið fyrir aftur.

Mörgum lék forvitni á að vita hvað athafnamönnunum gengi til og við hverju mætti búast á þessum viðkvæma stað?

Nú liggur það fyrir og teikningarnar komnar á veraldarvefinn.

Ég verð að segja að mér sýnist áformin um uppbyggingu á lóðunum lofi góðu. Þarna við Tryggvagötuna ætla menn að byggja ágæt hús sem falla ágætlega að miðborgararkitektúrnum ef marka má tölvumyndina að ofan.

Ef reiturinn er skoðaður í heild sinni sýnist mér að hönnunin meðfram Norðurstíg og Vesturgötu hefði getað fengið meiri yfirlegu þannig að húsin kölluðust betur á við viðkvæmt umhverfið. Austasta húsið við Tryggvagötu mætti kannski vera einni til tveim hæðum lægra.

En það er ekki meginmálið.

Meginmálið er að þarna við Tryggvagötuna er leitast við að viðhalda sérinkennum götunnar og eldri hluta borgarinnar.

Vegna fordómalausrar framgöngu verktakans á staðnum verður þarna auðvitað bara eftirlíking af Exeterhúsinu sem verður einni hæð hærra en upprunalega húsið.

Húsið á horni Tryggvagötu og Norðustígs er einnig einhver eftirlíking af húsi sem búið er að rífa ef ég skil þetta rétt.

Þrátt fyrir þessa annmarka er niðurstaðan einhverskonar leit að upphafinu og staðaranda og andrými á þessum mikilvæga stað í borginni.

Húsin við Tryggvagötu og austaverðan Norðurstíg eru teiknuð af ágætum fagmönnum hjá Gláma/Kím arkitektum.

++++

Að neðan koma tvær myndir sem birst hafa áður á þessum vef. Önnur er af Exeterhúsinu sem var tiltölulega nýuppgert þegar það var rifið og svo er mynd af rústunum. Neðst koma svo tvær teikningar frá hendi arkitektanna sem sýnir ásýnd húsanna og umfang þeirra.

fr_20160407_036243

fr_20160407_036298

2016-03-08441

Ásýnd Tryggvagötu ásamt sneiðingu

2016-03-08451

Ásýnd Norðurstígs og Vesturgötu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.4.2016 - 18:42 - 24 ummæli

Dauð byggingalist í Reykjavík

12933011_1077872472284147_95961964985007633_n

Sagt er að alþjóðlegi modernisminn sé dauður.

Sagt er að hefðbundin og staðbundin byggingarlist hafi aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Hér á landi eru margir orðnir þreyttir á hinum alþjóðlega modernisma. Þetta sjónarmið er alþjóðlegt og nýtur vaxandi fylgis.

Menn segja að modernisminn sé allstaðar, en eigi hvergi heima.

Fólk vill ekki lengur sjá hann í gömlum miðborgum. Fólk vill staðbundinn arkitektúr sem hvergi á heima annarsstaðar.

Þetta er kennt í arkitektaskólunum og það vita þetta allir. Fjárfestar, stjórnmálamenn og margir praktíserandi arkitektar virðast ekki hafa áttað sig alminnlega á þessu. Það er verið að ræða þetta um allan heim, nema hér á landi. Það er reyndar nánast engin umræða um arkitektúr hér á landi.

Heimurinn hefur skroppið saman og fólk ferðast um víða veröld til þess að skoða sérkenni staðanna sem heimafólk er að breyta og gera alþjóðlega! Fletja sérkenni staðanna út þar til þeir hverfa.

Þessi sérkenni eru að víkja fyrir alþjóðlegum modernisma. Líka hér í Reykjavík sem ætlar að gera sig að ferðamannastað!

Hús eru rifin og ný í alþjóðlegum stíl sem minnkandi eftirspurn er eftir, koma í þeirra stað.

Það nýjasta er Hafnartorg sem var víst samþykkt áðan.

Og ekki bara það heldur er eins og bæði arkitektar, verktakar og stjórnmálamenn séu bara ánægðir með þróunina.

En óbreyttir vegfarendur og ferðamenn vilja ekki sjá þetta ef marka má alþjóðlega umræðu.

Það rugla margir saman modernisma og funktionalisma. Þetta er tvennt, en samt skylt vegna þess að stefnurnar áttu sitt upphaf á svipuðum tíma.

Það furðulega er að arkitektar eru ekki sérlega meðvitaðir um þá ógn sem stafar af modernismanum í gömlum borgum. Einkum í litlum samfélögum sem ekki eiga sterk staðareinkenni eins og hér í Reykjavík.

Arkitektar hafa til að mynda ekki sameinast um að greina sérkenni Reykjavíkur. Það hafa skipulagsyfirvöld borgarinnar heldur ekki gert. Þeir hafa þvert á móti atyrt leikmenn sem hafa áhyggjur af þessu og hafa opnað á umræðu um þessi mál allt frá brunanum mikla árið 1915.

Samkvæmt fréttum RUV núna kl 18.00 ætlar „Reykjavík Development“  (eins alþjóðlega sjoppulegt og það nafn nú er) að setja hús í anda alþjóðlegs modernisma í miðborgina við Reykjavíkurhöfn.

+++

Efst er ein af fjölmörgum myndum sem finna má á netinu og fjalla um efnið. Ég mæli með að lesendur rýni í hana. Að neðan kemur svo mynd af fyrirhugaðri nýbyggingu „Reykjavík Development“ við Kalkofnsveg gengt Arnarhól.

Maður spyr sig: Hvar er Reykjavík að finna í þessum tillögum?

+++

Nýleg bók Trausta Valssonar, Mótun Framtíðar fjallar um þetta vandamál að hluta og er ástæða til að mæla með henni.

fr_20160107_029943

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2016 - 18:05 - 20 ummæli

110 ára gamalt hús rifið í miðborg Reykjavíkur

fr_20160407_036298

Enn eru hús rifin í miðborg Reykjavíkur og nú er það gert í leyfisleysi!

Á vef RUV  var rétt í þessu sagt frá því að gamalt timburhús við Reyjavíkuhöfn hafi verið rifið leyfisleysi.

Þetta er húsið Tryggvagata 12.

Húsið er 110 ára og var byggt árið 1906 og oft kallað Exeterhúsið.

Fram kemur í fréttinni á vef Reykjavíkurborgar að borgin líti málið alvarlegum augum og íhugi að kæra eigendurna til lögreglu.

Samkvæmt deiliskipulagi var heimilt að lyfta húsinu upp um eina hæð og breyta formi þaks á bakhlið og gera viðbyggingu en ekki að rífa það.

Ég veit ekki hvað er hér á ferðinni en ljóst er að þetta er talandi dæmi um yfirgang verktaka og fjárfesta í Reykjavík. Einkum innan gömlu Hringbrautar þar sem ætti að stíga sérlega varlega til jarðar varðandi allar breytingar, hvort sem um er að ræða nýbyggingar eða niðurrif hverskonar.

Þetta er skelfilegt framferði sem ekki á að líðast.

Efst er mynd af rústunum og að neðan er húsið sem nú hefur verið rifið í leyfisleysi.

 

fr_20160407_036243

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2016 - 08:17 - 5 ummæli

PARIS kvödd

4 FABRICE MOIREAU

Risinn í franskri hugsun og heimspeki, Voltaire (1694-1778), mat rökvísi og skýra hugsun ofar öllu öðru. Hann bar ægishjálm yfir alla aðra samtíðarmamenn sína á sínu sviði. 

Áður höfðu tilfinningamenn á borð við Blaise Pascal (1623-1662) sagt: “Hjartað á sín rök sem skynsemin veit ekkert um”.

Sagði John Lennon ekki einhverntíma að innsæi (intuition) skipti öllu máli, svo gæti maður rökstutt innsæið síðar. Þetta er svolítið í anda Blaise Pascal. Gott innsæi er hæfileikinn til þess að finna sannleikann án reynsluþekkingar eða rannsókna. Einhversskonar djúpur skiliningur, kannski eins og ástarsamband.

Ég hugsa um þetta núna þegar ég er að yfirgefa París eftir tveggja mánaða dvöl hér í borginni.  Það duga engin rök varðandi tilfinningar til Parísar frekar en tilfinningar til ástarinnar.

Í raun þróa allir sínar persónulegu tilfinningar til staðanna. Hvort heldur það er Flatey á Breiðafirði, Reykjavík eða Parísarborg. Þetta byrjar allt með heimsókn, orðspori, kvikmynd eða bók. Eftir það öðlast tengslin sjálfstætt líf, líf tilfinninga og innsæis, sem ekki er byggt á neinum rökum, eða svokallaðri skynsemi.

Varðandi París þá er ekki hægt að fá þar nóg af byggingalistinni, borgarskipulaginu, myndlistinni, tónlistinni, leiklistinni, matargerðarlistinni, víninu og versluninni svo ekki sé minnst á það að bara ganga göturnar. Svo er það fjölskrúðugt mannlífiðið sem byggist á þéttleikanum, sem svarar til þess að allir íbúar Reykjavíkurborgar byggju vestan Snorrabrautar. Allt er nánast í göngufæri.

Því oftar sem fólk heimsækir París og því lengur sem það dvelur þar því betur nýtur það borgarinnar.

Og alltaf þegar við höldum að við þekkjum París til hlýtar opnast nýjir vinklar og ný sjónarmið sem eru þannig að okkur finnst við ekki þekkja borgina nokkurn skapaðan hlut. Hún kemur stöðugt á óvart.

++++

Vatnslitamyndirnar sem fylgja færslunni eru eftir franska málarann Fabrice Moireau.

Fabrice-Moireau

page8

 

photo 2 (8)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2016 - 19:32 - 14 ummæli

Afskipti stjórnmálamanna af bygginga- og skipulagsmálum í París

 

3839198707_50e08e8ac5

Margar borgir í gamla heiminum uxu innan borgarmúra sem síðan voru fluttir utar eftir því sem borgirnar stækkuðu.  Þetta þekkjum við frá Kaupmannahöfn og víðar. En engin borganna er eins falleg og jafnvel sjónrænt skipulögð eða með eins mikið af sögulegum byggingum og París.

Hvernig gat þetta gerst?

París sem stendur innan hrinhvegarins (Periferíunnar) sem er einskonar ysti borgarmúr gömlu Parísar er 9,5 km í þvermál frá norðri til suðurs og 11.5 frá austri til vesturs.

París slapp betur en flestar borgir í tveim heimstyrjöldum á síðustu öld þannig að litlar skemmdir urðu af völdum styrjaldanna.

 Hún hefur líka notið sterkra einstaklinga sem voru metnaðarfullir fyrir hönd borgarinnar og höfðu mikil áhrif á gerð hennar. Frakkar voru og eru sérlega framsýnir og hugsuðu stórt.  Þeir lögðu áherslu á torgarmyndun og að mikilvægar byggingar fengju notið sín sem best á torgum og í borgarlandslaginu.

Haussmann barón og Napóleon III voru sérlega stórtækir og tillitslausir í sínum áætlunum. Á árunum 1853-1870 lögðu þeir  reglustiku yfir hverfin og ruddu burt gömlum og merkilegum byggingum til þess að fá betri birtu og betra loft inn í borgina og skapa sjónlínur. Þarna fórnuðu þeir hundruðum húsa til þess að skapa lystigarða og fegra borgina. Þetta var upphaf Belle Epoque tímabilsins.

Síðar á tuttugustu öldinni kom röð forseta sem settu mark sitt á borgina og létu byggja gríðarstórar opinberar byggingar. Sagt er að hvatinn hafi verið sá að gera sig ódauðlega, Dæmi um þessi hús eru Pombidou Center sem Georg Pombidou lét byggja eftir updráttum Richard Rogers og Renzo Piano. Gisgard d’ Estaing lét opna Musee d´Orsey og Parc de La Villette eftir Bernhard Tshumi. Francois Mitterrand var stórtækastur og lét byggja Þjóðarbókasafnið eftir Dominique Perrault, Píramidann við Louvre eftir I.M.Pei, Grand Arch í La Defence eftir Otto von Spreckelsen, Institut du Monde Arabe eftir Jean Nouvel og Bastilluóperuna.

Það verður ekki annað sagt en að þessi áhugi forsetanna á arkitektúr og byggingalist hafi skipt borgina miklu máli. Davíð Oddsson hafði mikinn áhuga á byggingum þegar hann var borgarstjóri og byggði bæði Ráðhúsið og Perluna ásamt mörgu öðru í borgarstjóratíð sinni. Nú höfum við forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem hefur mikinn og einlægann áhuga á skipulags- og byggingamálum. Þvi ber að fagna þegar áhrifamiklir menn blanda sér í bygginga-og skipulagsumræðuna.

Þótt Parísarbúar hafi í gegnum tíðina verið fúlir út í forsetana vegna yfirgangs þeirra í skipulags- og byggingamálum svo maður tali nú ekki um hegðun Napóleons III, þá verður að viðurkennast að allt þetta, eða mestur parturinn hafi verið til góðs.

Parísarborg innan hringvegarins, “Periferíunnar”, samanstendur af 20 hverfum, svo kölluðum Arrondisiments.  Á þessu svæði sem er um 10.500 hektarar búa um 2.250.000 manna sem svara til 215 íbúum á hektara. Þetta er nokkuð minna en maður hefði ætlað. En þess ber að geta að innan Períferíunnar er gríðarlega mikil atvinnustarfssemi auk þess að margar milljónir ferðamanna eru þar á degi hverjum.

Hverfi Paríar innan Periferíunnar eru eins og áður sagði 20 og er raðað í snigil þar sem hverfi nr 1 er á hægri bakka Signu þar sem eru Palais Royal og Le Louvre og fara svo réttsælis í hringi utan um miðborgina.

Þessi hverfi hafa sína stjórnsýslu svipað og allar kantónur landsins. Menn segja að í París séu 20 kantónur sem eru í einni “commune”. Hverfin eru öll með sinn borgarstjóra og sína stjórnsýslu.

Yfir þessu er svo ráðhús Parísar, Hotel de Ville, þar sem yfirborgarstjóri Parísar situr.

Bygginga og skipulagsmál eru að mestu miðstýrð þó hverfastjórnirnar ákveði mörg minniháttar atriði sem varða hverfið sérstaklega. Þar má nefna gerð göngugatna og fækkun bifreiðastæða og fl.

Miðlæg stofnuni samþykkir allar nýbyggingar og breytingar á skipulagi borgarinnar. Þetta er gríðarlega stór stofnun sem staðsett er á Boulevard Morland. Húsið sem hýsir starfssemina er ógnvekjandi bygging sem hefur yfir sér austurevrópskt stofnanayfirbragð. Arkitektar hér hafa tjáð mér að bara fyrir örfáum árum þurftu arkitektar að skila umsókum til stofnunarinnar í 19 eintökum! Það hefur víst breyst.

photo

Hér eru borgarmörkin skýr og afmarkast þau af borgarmúrum og sýkjum eins og sjást greinilega á efstu myndinni.

Paris-Historical-Map

París árið 1789, borgarmörkin eru frekar óljós. Jakopbsvegurinn liggur til suðurs út úr borginni frá Notre Dame.

 

mappa_parigi_arrondissement

Að ofan er túristakort sem sýnir borgina innan hinna eiginlegu borgarmarka eins og þau eru í dag. Borgarmörkin eru þar sem hringvegurinn  (Periferían) fer umhverfis hana.

IMG_7780Miðlæg stofnun samþykkir allar nýbyggingar og breytingar á skipulagi. Þetta er gríðarlega stór stofnun sem staðsett er á Boulevard Morland. Húsið sem hýsir starfssemina er ógnvekjandi bygging sem hefur yfir sér austurevrópskt stofnanayfirbragð.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is