Sunnudagur 18.3.2018 - 18:09 - 11 ummæli

Landspítalinn – Er lausnin fundin?

Það voru frábærar fréttir að berast af byggingaráformum Þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem nú stendur yfir.

En þar stendur að lokið verði við þá uppbyggingu sem komin er á framkvæmdastig við Hringbraut en að það verði tafarlaust farið í staðarvalsgreiningu fyrir framtíðaruppbyggingu sjúkrahússþjónustu til lengri tíma með öryggi og sterkum samgönguleiðum að leiðarljósi.

Pólitískt er hér opnað á ný tækifæri öllum til heilla. Tækifæri sem lengi hafa verið í umræðunni en ekki tekist að ná fylgi við.

Þetta leiðir hugann að grein sem Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor skrifaði í Morgunblaðið 29. mars 2001 og gerði  að tillögu sinni að strax yrði hafist handa við byggingu “bráðaþjónustuhúss (meðferðarkjarna) án legudeilda, sem byggðar yrðu síðar” á efri hluta lóðar gamla Landspítalans.  Tillagan hlaut ekki undirtektir stjórnenda, sem notuðu næstu misserin til þess að vinna miklu stærri nýbyggingu fylgis og til þess að skoða framtíðarstaðsetningu sjúkrahússins á öllu Reykjavíkursvæðinu.  Árið 2002 ákváðu stjórnvöld, að framtíðaruppbygging sameinaðs Landspítala yrði á  lóðinni við Hringbraut.  Sú ákvörðun byggði m.a. á þeirri staðreynd, að á Hringbrautarlóð væri þá þegar miklu meira nýtanlegt byggingamagn (um 60.000 fermetrar, 67%) heldur en á lóðinni í Fossvogi (um 30.000 fermetrar, 33%).  Einnig var tekið tillit til staðsetningar kennsluspítalans í nálægð við Háskólann og flugvöllinn, nýr barnaspítali hafði verið reistur við Barónsstíg og uppbyggingarsjónarmið í miðborg Reykjavíkur vógu nokkuð. Á þessum tíma var aðalskipulag Reykjavíkur AR2001-2024 í gildi með mjög öflugum samgöngutækifærum sem flest ef ekki öll eru ekki lengur í kortunum.

Nokkrum árum síðar vakti Páll aftur athygli á hugmynd sinni og hafði hann þá unnið hana lengra í samvinnu við Magnús Skúlason arkitekt. Hann skrifaði aftur grein um málið þann 12.febrúar 2013 í Morgunblaðið og fer þar dýpra inn í málið.

Tillaga þeirra, Páls og Magnúsar, var að byggja u.þ.b. 60-70.000 m2 stækkun spítalans á efri torfunni fyrir ofan gömlu Hringbrautina, mest þar sem Hjúkrunarskólinn stendur nú. Byggð yrðu um fjögurra hæða hús auk kjallara með praktískum tengingum milli húsa. Sú stækkun er á við tvo Borgarspítala.  Stækkunina má gera í áföngum. Miðja starfseminnar yrði bráðaþjónustuhús (meðferðarkjarni). Hugmynd þessi hlaut jákvæð viðbrögð hjá íbúasamtökum miðborgarinnar ólíkt SPITAL skipulaginu. Í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar, sem upphaflega tók hugmyndinni vel, var  síðar rutt af borðinu af höfundum SPITAL tillögunnar, sem beðnir voru um álit á henni þrátt fyrir augljósa hagsmunaárekstra. Hún hefur ekki verið skoðuð nánar svo kunnugt sé, allavega ekki af óvilhöllum aðilum. Henni var líklega fórnað á altari þöggunarinnar.

Sú hugmynd sem líklega verður endurskoðuð var að halda áfram að hanna risabyggingar eins og engar breytingar hafi orðið í samfélaginu síðan 2002. Ekki neinir túristar, ekkert nýtt aðalskipulag, flugvöllurinn á sínum stað og mislæg gatnamót nánast allstaðar og ein fjögur bílagöng innan borgarmarkanna. Byggingarnar áttu mestmegnis að vera á neðri torfunni neðan við gömlu Hringbraut, samkvæmt svokölluðu SPITAL deiliskipulagi (samtals um 220.000  m2 nýrra fermetra í nokkrum áföngum í viðbót við það sem fyrir er á lóðinni sem er um 66.000 fermetrar). Ýmsir telja SPITAL hugmyndina vera miklu stærri heldur en starfsemin þarfnist næstu árin. Á móti var sagt að verið sé að hanna til miklu lengri tíma, nánast til allrar framtíðar. Spítalaklomplex uppá 300.000 m2 getur líklega þjónað meira en 600.000 manns. Kærir framtíðin sig um slíka hugmyndafræði?

allt að 300.000 m2 spítalasvæði eins og deiliskipulag SPITAL gerir ráð fyrir er allt of stórt fyrir landið, fyrir vegakerfið, fyrir Þingholtin og fyrir efnahaginn. Þetta fyrirkomulag Páls og Magnúsar virðist vera mun starfrænna og skilvirkara en þær hugmyndir sem nú er unnið eftir.  Fyrir utan hvað það fellur mun betur að gamla Landspítala Guðjóns Samúelssonar og umhverfinu öllu.

Nú er bara að endurskoða þetta Hringbrautarverkefni, trappa það niður kannski í takti við hugmyndir Páls og Magnúsar og fara tafarlaust í það verkefni að finna nýjan stað til langrar framtíðar fyri næsta sjúkrahús. Það virðist vera kominn pólitískur meirihluti fyrir því að leysa þetta mikla mál með farsælum hætti.

+++++

Efst í færslunni kemur skýringarmynd þeirra Páls Torfa yfirlæknis og prófessors og Magnúsar Skúlasonsr arkitekts.

Tillagan sýnir fullburða háskólasjúklrahús af hæfilegri stærð. 135.000 m2 sjúkrahús sem byggt yrði norðan gömlu Hringbrautar er hæfilegt fyrir 300-400 manna þjóð. Þessi framkvæmd gæti verið komin í fullan rekstur eftir örfá ár.

Litir eru notaðir til að skýra áfangana sem nánar eru greindir hér :

ÁfangI 1 (svartur): Bygging bráðaþjónustuhúss (meðferðarkjarni), legudeilda, rannsóknastofuhúss. Gamli Hjúkrunarskólinn/Eirberg verði rifin og bráðaþjónustuhús byggt þar. Í bráðaþjónustuhúsi (meðferðarkjarni) verði a.m.k. bráðamóttaka, myndgreining, skurðstofur og gjörgæslur. Byggð verði stækkanleg álma til suðurs með einni legudeildarálmu í fyrstu (8 nýjum legudeildum). Í stækkuðu rannsóknastofuhúsi (K byggingu, teikning er til) verði auk núverandi miðlægrar kjarnarannsóknastofu (klíniskrar lífefnafræði og blóðmeinafræði), sýklafræði, veirufræði, ónæmisfræði, blóðbanki og líffærameinafræði. Tengibygging verði við CD álmu milli bráðaþjónustuhúss og kvennadeildar.

Áfangi 2 (rauður): LEGUDEILDIR:  Stækkun suðurálmu með tveim nýjum legudeildarálmum.

Áfangi 3 (grænn): til SEINNI TÍMA. Seinna mætti byggja í norður frá kvennadeild og í norður frá bráðaþjónustuhúsi og sunnan geðdeildarbyggingar.

Á landinu sunnan gömlu Hringbraurar bætti bygga milli 500 og 1000 íbúðir í háum gæðaflokki fyrir fólk. En eins og allir vita er mikil og aðkallandi þörf fyrir íbúðahúsnæði í vesturhluta borgarinnar.

+++

Ef menn hefðu viljað skoða hugmynd Páls betur fyrir 17 árum væri líklega nú frábært háskólasjúkrahús þarna við Hringbraut sem fullnægði öllum þörfum starfsmanna og sjúklinga, 2300 manna íbúðabyggð á syðri hluta svæðisins og undirbúningur hafinn fyrir næsta sjúkrahús á góðum stað sem smellpassaði inn í aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðaskiðulag höfuðborgarsvæðisins. En menn hafa sólundað dýrmætum tíma í hugmyndir sem ekki eru bara rangar heldur er engin sannfæring fyrir.

+++

En best væri auðvitað að hafna allri uppbyggingu við Hringbraut og byrja að nýju á nýjum stað og hugsa til framtíðar. En þessi lausn sem hér er minnt á gæti verið málamiðlun sem sætt gæti náðst um í samfélaginu og auðvitað í pólitíkinni.

+++

Breytt 18.03.2018   Kl.:  23:35

Nú sér maður að fólk er farið að toga ályktunina fra landsfundinum til þannig að annar skilningur er lagður í hana en lesa má af henni. Hér er hún orðrétt í heild sinni eins og hún var samþykkt.:

Mér er fyrirmunað að skilja þetta öðruvísi en fram kemur í pistli mínum. Ef skilningur þeirra sem samþykktu þennan texta að ofan er sá að klára það sem er verið að hanna og stoppa svo þá er skelfileg mistök hér á ferð. Meðferðarkjarninn er miðaður við uppbygginguna eins og deiliskipulagið boðar með um 300.000 m2 byggingum sem tengjast spítalastarfseminni. Það þarf að skýra það út fyrir borgurunum, skattgreiðendum og öllum hvernig þetta er þá hugsað í smáatriðum. Svo þarf landsfundur Sjálfstæðisflokksins að hafa aðgang að fólki sem getur skrifað texta sem allir skilja.

Ég vona að þeir sem túlka þennan texta á annan veg en hann hljóðar hljóti að vera að vaða reyk.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2018 - 16:16 - 11 ummæli

Áreiðanleikakönnun fyrir Landspítalann

 

Í síðustu viku birtist grein í Kjarnanum sem heitir „Ný staðarvalsgreining fyrir þjóðarsjúkrahúsið er nauðsynleg“.

Greinina má nálgast hér:

https://kjarninn.is/skodun/2018-03-05-ny-stadarvalsgreining-fyrir-thjodarsjukrahusid-er-naudsynleg/

Í greininni er farið er yfir nokkrar þær breytingar í skipulagsmálum sem orðið hafa á þeim tæpu tveim áratugum sem liðnir eru síðan spítalanum var valinn staður við Hringbraut.

Það liggur fyrir að þegar ákveðið var að byggja þjóðarsjúkrahús Íslendinga við Hringbraut var eðlilega stuðst við þær skipulagshugmyndir sem þá voru fyrirliggjandi. Þetta var aðalskipulag Reykjavíkur AR2001-2024. Því skipulagi var hafnað og lagt til hliðar með aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030. Nýja skipulagið var allt annað, nútímalegra og betra en  það sem lagt var til grundvallar við staðarvalsákvörðun spítalans árið 2002, sem vissulega var umdeild.

Breytingarnar er ekki einungis að finna í skipulagsuppdrættinum sjálfum heldur einnig í flestum markmiðum og áherslum skipulagsins. Í AR2010-2030 er lögð áhersla á fjölgun íbúða í miðborginni og þéttingu byggðar. Það er hætt við miklar og óhemju kostnaðarsamar vegaframkvæmdir sem áttu að þjóna einkabílnum og í þeirra stað átti að leggja áherslu á almannaflutninga. Þarna er um að ræða ein fern göng vestan Elliðaáa og hátt í tug mislægra gatnamóta. Reykjavíkurflugvöllur er ekki lengur í skipulaginu og fl. Að halda því fram að ekkert hafi breyst er ótrúleg fullyrðing sem stenst enganveginn.

Síðan 2002 hefur allt breyst og nýtt aðalskipulag hefur verið samþykkt með nýnum áherslum og allt öðrum markmiðum en voru í upphafi aldarinnar. Við þessar miklu breytingar og áherslur féllu nánast öll skipulagsleg rök fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut. Í aðalskipulaginu AR2010-2030 voru lagðar fram hugmyndir um nútímalegri borg þar sem áhersla var lögð á þéttingu byggðar, þróaðar almenningssamgöngur, sjálbæra borgarhluta og manneskjulegri borg.  Allt skipulagslegt umhverfi er gjörbreytt og betra frá því að Þjóðarsjúkrahúsinu var valinn staður.

Þrátt fyrir þetta þráast fólk við og neitar að skoða staðarvalsákvörðunina í ljósi gjörbreyttra aðstæðna. Embættismannakerfið hefur allt staðið með sjálfu sér í þessu mikla máli, hafnar því að faglega sé staðið að málum og að áreiðanleikakönnun sé gerð áður en hafist er handa við uppbygginguna uppá jafnvel hundruð milljarða. Það á að halda út í óvissuna. Það er ekki hægt að túlka þessa afstöðu öðruvísi en svo að þeir óttist niðurstöðuna telji staðsetning spítalans standist ekki þessa skoðun. Sem er líklega rétt mat.

Ef við skoðum umsagnir embættismannanna  og Spítalans okkar, vegna fyrirliggjandi þingsályktunartillögu, ber allt að sama brunni. Þau vilja forðast að málið verði skoðað með opnum, faglegum og lausnamiðuðum hætti. Þau virðast ekki vilja sátt um málið heldur halda bara áfram.

Landlæknir hoppar ofan í skotgrafirnar og spyr hvort flutningsmönnum sé alvara með að leggja þingsályktunartillöguna fram? Síðan leggur hann áherslu á eitt atriði og það eru tengsl spítalans við fræðasamfélagið eins og það eitt skipti máli. Hann telur að það skipti meira máli að skólafólkið hafi um stutta og örugga leið að fara milli skólanna og sjúkrahússins á kostnað allra annarra sem þurfa að sækja sjúkrahúsið. Þar á meðal aðgengi starfsmanna, sjúklinga, aðstandenda og aðfanga.

Landspítalinn sjálfur talar ekkert um þau grundvallaratriði sem ráða eiga staðsetningunni heldur leggur áherslu á að það sé of seint að skipta um kúrs og að það taki of langan tíma að breyta um stefnu. Þessi sömu sjónarmið hafa verið endurtekin af Landspítalanum síðustu 9 ár. Það stórkostlegasta í málflutningi Landspítalans er að nú tala þau eins og þessi uppbygging við Hringbraut sé til bráðabyrgða og nú þurfi strax að taka frá lóð til framtíðaruppbyggingar á góðum stað! Efst í færslunni er mynd af fyrirhuguðum byggingum spítalans við Hringbraut en þar er gert ráð fyrir um 300 þúsund fermetrum bygginga fyrir spítalann og skilda starfssemi.  Byggingarnar eru nú tæpir 70 þúsund fermetrar, Meðfeðarkjarninn er svipaður og þá standa eftir heimildir fyrir 160 þúsund fermetrar sem hægt er að byggja. Þetta var ekki hugsað til bráðabirgða heldur til mjög langrar framtíðar. Af hverju kemur þessi nýja áhersla? Á teikningunni er ekki sýnd hin svokallaða randbyggð sem þarna á að rísa.

Aldrei hefur verið sýnd þrívíddarteikning af lóðinni fullbyggðri samkvæmt deiliskipulaginu. Og aldrei sýnt hvernig hún mun líta út í Þingholtunum þegar ekin er Hringbraut og Miklabraut.  Hvers vegna ætli það sé? Vegna þess að þetta er svo yfirþyrmandi stórt.

Landssamtökin Spítalinn Okkar segir í sinni umsögn að ekkert hafi breyts í skipulagsumhverfinu sem kalli á að málið sé skoðað að nýju. Engin rök séu fyrir þeirri staðhæfingu að skipulaginu hafi verið breytt frá árinu 2002. Þau nefna hvorki AR2001-2024 né AR2010-2030 eins og ekkert hafi breyts. Maður trúir þessu varla. Svo koma þau með þessa venjulegu runu af úreltum álitsgerðum og sleppa þeim sem ekki styðja þeirra málstað.

Háskólarektor telur megin hlutverk spítalans vera kennsluþátturinn og metur málið eingöngu út frá því. Ekki skal því mótmælt að þægilegra er fyrir fræðasamfélagið að stutt sé á milli spítalans og háskólanna. En mikilvægara er að aðgengi þeirra  sem þar eiga að vinna í sjúkrahúsinu og þeirra sem það á að þjóna, sjúklingum og aðstandendum,  sé auðvelt og greitt,  þó fræðasamfélagið eigi um eitthvað lengri veg að fara.  Gott aðgengi fræðasamfélagsins má ekki vera á kostnað aðgengis alls almennings að spítalanum.  Þessi vinkill HÍ er svo þröngur að hann sæmir varla æðstu menntastofnun landsins sem ætti að geta skoðað málið frá mjög háum sjónarhóli. Það vekur líka athfygli að vísindastofnuninn sem vinnur með tilgátur alla daga sem ýmist eru sannaðar eða hraktar vilji ekki nota svipað verklag í þessu mikla máli og fá það sannað af óháðum aðilum að það sé heillavænlegast fyrir samfélagið að byggja við Hringbraut. Sem gæti orðið niðurstaðan.

Kostulegust  er umsögn Verkfræðingafélags Íslands sem segir að það muni taka tvö ár að gera nýja staðarvalsgreiningu eða áreiðanleikakönnun eins og nú er verið að biðja um. Þetta segja þeir vitandi að þær 2-3 staðarvalsgreiningar sem gerðar voru fyrir tæpum 20 árum voru bara nokkra mánuði í vinnslu og þar inni voru auk þess ýmsar greiningar á starfssemi skjúkrahússins. Nu liggur gríðarlegt magn upplýsinga fyrir og ætti þessi vinna því að taka mun styttri tíma en fyrir 20 árum.

Að baki þeirrar fullyrðingar að það muni seinka opnun spítalans um 10-15 ár liggja engin gögn. Sagt er að að það liggi ekki önnur gögn en koma fram í einnar síðu bréfi til ráðherra vegna málsins þetta sé eingöngu byggt á „virðingu“ verksins. Maður veltir fyrir sér hvernig allt embættismannakerfið geti byggt sinn málflutning á jafn mögrum grundvelli og þessum.

Það vekur undrun að allt þetta embættismannakerfi skuli hafna nýrri greiningu eða áreiðanleikakönnun í ljósi þess að mikill meirihluti Reykvíkinga  og heilbrigðisstarfsmanna eru ósáttir við að byggt verði við á Hringbraut. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál. En fjarri því að vera óvinnandi eins og skilja má af embættismönnunum. Svona lagað verður stundum sérlega óyfirstíganlegt, flókið og flækt í augum þeirra sem skortir heildarsýn yfir verkið eða bara vilja þetta ekki.   Þeir sjá ekki skóginn fyrir trjám og finnst eintómir steinar vera í götu þeirra. Skýringin á tregðu til þess að skoða málið með opnum óháðum hætti getur bara verið ein og hún er að staðsetningin við Hringbraut standist enga skoðun.

Mér sýnist samt að umsögn Umhverfis- og skipulagssviðs  Reykjavíkurborgar vera akademiskast af öllum þessum aðilum. Þar segir að borgaryfirvöld hafi ávalt stutt ákvarðir ríkisvaldsins og viljan til að byggja við Hringbraut. En segja jafnframt að skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar muni að sjálfsögðu liðsinna heilbrigðisráðherra ef hann kjósi að skoða málið betur. Sem hlýtur að verða niðurstaðan í ljósi staðreyndanna og vilja borgaranna og starfsmanna sjúkrahússins.

 

Nánar er fjallað um málið hér í tilvitnaðri grein í Kjarnanum:

https://kjarninn.is/skodun/2018-03-05-ny-stadarvalsgreining-fyrir-thjodarsjukrahusid-er-naudsynleg/

+++

Efst í færslunni er „bráðabyrgðasjúkrahúsið“ sýnt eins og það kom út úr samkeppni um framkvæmdina fyrir 8 árum.  Síðan hefur lítið gerst.  Að neðan er frétt úr dagblaði þar sem sagt er að svifryksmengun sé mest í Reykjavík við Eiríksgötu og Hringbraut en þar náði hún stiginu „Very Unhealthy“ (afar óholl)  samkvæmt Waqi.info.  Það er sama stig og  í slæmum iðnaðarborgum í Indalandi og Kína. Og þarna ætlum við að byggja þjóðarsjúkrahúsið sem verður þar að auki stærsta byggingasvæði landsins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.3.2018 - 14:17 - 6 ummæli

Miðbær Hafnarfjarðar

 

Í Morgunblaðinu í morgun voru kynntar nýjar hugmyndir um uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar.  Þetta var einkar ánægjuleg lesning. Einkum vegna þess að arkitektarnir í samstarfi við skipulags- og byggingaráð bæjarins nálgast verkefnið í anda „regionalismans“.  Það er að segja að staðarandinn ræður ferðinni. Umhverfið ræður útliti húsanna öðru fremur. Hjálagðar myndir sem unnar eru af ASK arkitektum og gefa vonandi fyrirheit um það sem koma skal.   Arkitektarnir brjóta framhlið hússins upp þannig að það lítur út eins og sambyggð hús. Mælikvarðinn verður við þetta manneskjulegur og samræmist fínlegri byggðinni í Hafnarfirði.

Það á að þétta byggðina í gamla miðbæ Hafnarfjarðar og það koma þrjár aðrar ágætar stofur að verkinu. Það eru T.ark, Tripolí og Sei. Þéttingarsvæðið (sjá mynd að neðan) tekur yfir allt svæðið sunnan verrslunarmiðstöðvarinnar Fjörður sem, að mínu mati, voru og eru skipulagsleg og einkum arkitektónisk mistök.

Svæðið sunnan Fjarðar er nú eitt bílastæðaflæmi fyrir um 900 bíla sem samkvæmt hugmyndunum á að hafa neðanjarðar í framtíðinni.  En stæðunum  þarf líklega að fjölga verulega vegna nýbygginga og ekki síður vegna Borgarlínunar sem fer þarna framhjá. Lílega þarf að tvöfalda bílastæðaframboðið, eða jafnvel þrefalda, ef bæði miðbærinn og Borgarlínan eiga að virka.


Í þessum byggingum á að koma hótel. Arkitektarnir brjóta framhlið hússins upp þannig að það lítur út eins og sambyggð hús.

Á myndinni að ofan er merkt hvar hótelið sem myndirnar eru af mun koma og gula svæðið er þéttingarsvæðið sem fjallað er um í Morgunblaðinu í morgun.

++++

Að neðan eru svo myndir af húsum sem nú eru að rísa á viðkvæmum stað í Reykjavík. Þarna er staðarandanum kastað til hliðar og byggð hús sem eins gætu verið í útjaðri borga á borð við London, París eða Róm.  En ekki í miðborgunum.

Þegar skipulag Hafnartorgs var í kynningarferli voru gerðar allmargar athugasemdir við deiliskipulagið. Þær gengu m.a. út á að krafa yrði gerð varðandi staðarandann og að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni sem átti að fara þarna um. Vísað var í ágæta greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttur á staðarandanum þarna. Sú vinna var unnin í tengslum við Kvosardeiliskipulagið 1986 og er enn í fullu gildi. Hvorug athugasemdin var tekin til greina með þeim árangri sem við blasir. Mér hefur verið sagt af innanbúðarmanni að það hafi verið klappað í umhverfis-og skipulagsráði þegar þessar teikningar voru kynntar. Reykvíkingar geta lært af Hafnfirðingum hvað þetta varðar.

Úr því að verið er að tala um lögbundið kynningarfeli varðandi skipulagsmál þá verður ekki annað sagt en að þau séu í einhverju óstandi.

Ég nefni eitt nýlegt dæmi. Ég gerði athugasemd við deiliskipulag við Gamla Garð um mitt síðasta ár. Athugasemdum átti að skila fyrir 17. ágúst 2017 og það gerði ég. Nú tæpum sjö mánuðum seinna, 8. mars 2018, hefur ekkert svar borist frá skipulagssviðinu. Hvorki mat á athugasemdum mínum né fréttir af því ferli sem málið er í eða hvert stefnir. Það ríkir alger þögn. Ekki þakklæti fyrir áhugann sem sýndur er eða skammir fyrir að ég skuli vera að blanda mér í einhvað sem ekki varðar mína sérhagsmuni. Kannski er tilefni til þess að líta á þessa þögn sem skammir, því það er mikil vinna að gera athugasemd við skipulag. Það þekkja allir sem til þekkja.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.2.2018 - 10:53 - 15 ummæli

Miklabraut í stokk – aftur! – Hvað með Landspítalann?

 

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 var mikið bílaskipulag. Í því var gert ráð fyrir göngum undir Skólavörðuholtið að Landspítalanum og öðrum göngum frá Suður Mjódd undir allan Kópavog endilangan að Kringlumýrarabraut að miklum mislægum gatnamótum og aftur undir Öskjuhlíð að Landspítalanum. Þá var gert ráð fyrir að Miklabraut yrði sett í stokk að gatnamótum Bóstaðavegar og Snorrabraut.  Þar fyrir utan var gert ráð fyrir einum sex nýjum mislægum gatnamótum í borginni vestan Elliðaáa.

Núgildandi aðalskipulag AR2010-2030, hvarf frá þessum miklu einkabílaáætlunum. Samfara þessari breytingu hefði þurft að gera ýmsar breytingar í skipulaginu sem væru móvægisaðgerðir til þess að minnka bifreiðaumferð.  Má þar nefna meiri dreifingu atvinnu og þjónustutækifæra og flutning þeirra austar í borgina, byggja meira af íbúðum vestast í borginni, gera borgarhlutana sjálfbærari,   stuðla að breytingu á ferðavenjum borgaranna  ásamt fleiru.  Þetta hefur ekki gemngið eftir væntingum. Umferðavandinn hefur vaxið og stefnir í óefni.

Nú hafa verði lagðar fram hugmyndir um að endurvekja áratuga gamla hugmynd um Miklubraut í stokk sem var með formlegum hætti strikuð út af aðalskipulaginu AR2010-2030.  Mislæg gatnamót  á mótum Miklubrautar og  Kringlumýrarabrautar sem var líka í AR 2001-2024,  þau hafa líka verið endurvakin sýnist mér.

Maður veltir fyrir sér hvað veldur þessari miklu aðalskipulagsbreytingu sem er í raun stefnubreyting. Þarna er verið að greiða  leið fyrir einkabílismann sem áður var stefnt að því að  takmarka.

Samkvæmt frummatinu um Miklubraut í stokk opnast land sem er um 23 hektarar  þar sem nýbyggingasvæði er rúmlega helmingurinn. Gert er ráð fyrir þróunarsvæði þarna  og mikilli aukningu byggina. Samtals er um að ræða um 140.000  fermetra af íbúðum (um 1400 íbúðir) og 66.000 fermetra vegna verslunar og þjónustu. Þetta er ekki að finnna í AR2010-2030. Þessi hugmynd rýrir markmið aðalskipulagsins um línulega miðborg frá Vesturbugt að Keldum eftir Suðurlandsbraut.

Ef við gefum okkur að Meðferðarkjarni Nýja Landspítalans verði tekin í notkun samkvæmt áætlun árið 2023 og miðað er við álit Framkvæmdasýsunnar og Skipulagsstofnunnar um flækjustig skipulagsmála og tímaáætlanir. Þá verður búið að reka meðferðarkjarnann í um fimm ár þegar framkvæmdir við þennan stokk hefjast.

Þá mun þurfa að loka Miklubrautinni, Kringlumýrargatnamótin munu ýmist vera lokuð eða með skerta flutningsgetu. Það sama á við um gatnamót Snorrabrautar, Bústaðavegar og Hringbrautar. Þessar tafir og lokanir munu líklega verða viðvarandi í 6-10 ár. Ef þetta gengur eftir verður aðgengi að nýja Þjóðarsjúkrahúsinu við Hringbraut fullkomlæega óásættanlegt um margra ára skeið.

Þarna koma enn ein rök fyrir því að gera þarf nýtt og óháð staðarvalsmat vegna þessarar  miklu og nauðsynlegu framkvæmdar.

+++

Efst er ljósmynd af Miklubrautinni eins og hún var nokkrum árum eftir að hún var opnuð. Hún virkar gríðarlega stór og miklu stærri en mann óraði fyrir að þörf væri fyrir. En nú er hún orðin allt of lítil og ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst skipulagsmál.

 

Að ofan er tölvumynd sem sýnir Miklubraut eftir breytinguna samkvæmt áætlunum sem nýlega voru kynntar. Götunni er breytt úr eins kég onar hraðbraut í borgargötu, iðandi af mannlífi, seitlandi bifrteiðaumferð,  hljóðlátri Borgarlínunni, logn, sól og blíða.  Umhverfi sem flestir sækjast eftir og enginn getur verið mótfallinn. Ég held að þetta geti verið góð hugmynd sem vert er að velta fyrir sér þegar sú línulega miðborg sem AR2010-2030 stefnir að er komin upp og orðin starfhæft hryggjarstykki Reykjavíkurborgar.

 

Ef horft er á þessa mynd að ofan sér maður að það er áformað að byggja mikið á helgunarsvæði núverandi Miklubrautar ef af þessu verður. Það er auðvitað sjálfsagt og ágætis hugmynd sem liggur í augum uppi. En ef maður rýnir í myndina sér maður strax að þessi uppbygging er ekki í neinu samræmi við AR2010-2030. Þarna er í raun um stefnubreytingu að ræða því þarna er verið að færa samgönguás aðalskipulagsins til frá Suðurlandsbraut að Miklubraut og gera þar þróunarsvæði sem ekki er að finna í AR2010-2030. Í AR2010-2030 er ekki gert ráð fyrir neinu þróunar- eða uppbyggingarsvæði og ekki gert ráð fyrir Miklubraut í stokk.

 

Miklabraut í stokk á að vera um 1700 metra löng samkvæmt þessum hugmyndum og ná nánast frá Háaleitisbraut að Landspítalanum. Samkvæmt upplýsingum á stokkurinn að vera um 20 metra breiður. Til þess að koma honum fyrir þarf að grafa og sprengja um 10 metra niður í jörðina, samkvæmt tölum frá Mannviti. Jarðvinnan verður líklega um 30 metra breið. Þarna þarf því að fjarlægja meira en 5 milljónir rúmmerta af jarðvegi vegna framkvæmdanna og aka líklega um einni milljón rúmmetra af annarsslags efni til baka. Líklega færi þetta efni í landfyllingar í Örfyrisey og Bryggjuhverfi.

Við gatnamót Bústaðavegar, Hringbrautar, Snorrabrautar og Miklubrautar er  hugmyndin að endurskipuleggja allt og rífa þau mannvirki og brýr sem þar eru. Við framkvæmdina þarf að brjóta allar núverandi brýr og taka allar þessar götur úr sambandi hvora við aðra í styttri eða lengri tíma. Þannnig mun aðgengi að Nýja Þjóðarsjúkrahúsinu við Hringbraut verða mjög slæmt um langt árabil.

 

Sneiðingar í miklubraut. Á efra sniðinu er gatan eins og yrði á yfirborðinu áður en komið er að göngunum, með tveim sérrýmum fyrir Borgarlínuna og sex fyrir bíla. Við göngin verða akreinarnar jafn margar með fjórum akreinum fyrir einkabíla neðanjarðar og tvær ofanjarðar ásamt Borgarlínunni. Þessar sex bílaakreinar  munu flytja eitthvað meira vegna þess að ekki þarf að stoppa við gatnamót eða göngubrautir í neðra.

 

Í aðalskipulaginu 1996-2016 0g AR 2001-2024  var grert ráð fyrir að Miklabraut væri sett í stokk eins og sést á korninu að ofan (AR2001-2024) Þarna eru líka mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut. Hætt var við þetta í AR2010-2030.

Í AR2010-2030 sem myndiun er af að ofan sést að búið er að fella stokkinn  við Miklubraut niður í skipulaginu. Það má líka sjá að samkvæmt gildandi aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir þróunarsvæði eða samgönguás við Miklubraut. Samgöngu og þróunarás aðalskipulagsins 2010-2030 er hinsvegar meðfram Laugavegi og Suðurlandsbraut sem er í takti við meginhugmynd aðalskipulagsins um línulega miðborg.

Samgöngu og þróunarás aðalskipulagsins 2010-2030 er vel útfærður, vel hugsaður og í fullkomlega eðlilegum takti við þróun borgarinnar frá öndverðu. Undir myndinni sem er í aðalskipulaginu stendur.:  „Hugmyndin að þróunarásnum verði smám saman heildstæð breiðgata sem liggur eftir endilöngu nesinu, nokkursskonar línuleg miðborg. Þétt blönduð byggð hverfist um ásinn í þægilegri göngufjarlægð frá biðstöðvum almenningssamgangna. Sambærilegur þróunarás á síðan að liggja til suðurs frá miðborginni um framtíðarbyggð í Vatnsmýrinni og yfir í Kársnes í Kópavogi (bindandi stefna)“.

 

Hér gefur að líta fyrstu teikningu sem ég sá af hugsanlegri Borgarlínu. Umfang hennar og lega virkaði sannfærandi  þega teikningin kom fram. Þessi áætlun er í fullkomnu samræmi við AR2010-2030 ef frá er talin leiðin yfir í Kársnes.  Maður sá fyrir sér svona 20 km langa hágæða Borgarlínu sem væri svo studd með virku hefðbundnu strætisvagnakerfi út í íbúðahverfin. Nú hefur verkefnið stækkað og breyst svo mikið að það er ekki auðvelt að átta sig á því.

Hér er kort úr AR2010-2030 sem sýnir fjarlægðir og ferðatíma frá þungamiðju Reykjavíkur. Þungamiðja höfuðborgarsvæðisins er nokkru austar og sunnar.

Að ofan er skjámynd þar sem tekin eru til helstu markmið AR2010-2030 um almannaflutninga. Þarna er talað um „léttlest í framtíðinni“. Nú er verið að hverfa frá þessu eða færa á annan stað og gera kerfið flóknara og stærra.

Að ofan er mynd af fyrirhugaðri legu og umfangi Borgarlínunnar eins og hún hefur verið kynnt.  Það er allnokkur munur á þessum áætlunum og þeim sem kynntar voru í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 sem samþykkt var fyrir tæpum fimm árum, í júní 2013.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.2.2018 - 12:09 - 8 ummæli

Sand Hótel – Endurnýjun eldri húsa.

Það vekur athygli hvernig staðið var að byggingu Sand Hótels við Laugaveg.  Fjárfestarnir stóðu óvenjulega og menningalega að uppbyggingunni þarna við aðalgötu bæjarins.

Hótelinu er komið fyrir í 8 gömlum byggingum sem hafa verið endurnýjaðar og nútímavæddar fyrir nýja starfssemi á sérlega smekklegan hátt.

Aðstandendur framkvæmdanna hafa ekki bara sýnt umhverfi sínu virðingu heldur einnig hinni sögulegu vídd og hinu mikilvæga almannarými sem Laugavegurinn er.

Þeir hafa sýnt hinni sögulegu vídd skilning á margvíslegan hátt umfram hin arkitektónisku gildi.  Þeir gáfu hótelinu nafnið Sand Hótel  og er það dregið af nafni eins elsta fyritækis borgarinnar Sandholtsbakarí sem er um 100 ára gamalt um þessar mundir.  Bakaríið verður starfrækt þarna í sínu gamla húsi áfram. Þá má einnig geta þess að herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar sem stofnuð var fyrir 100 árum verður þarna áfram í sinni gömlu mynd og með sínum gömlu innréttingum.  Herrafataverslunin var stofnuð árið 1918 og hefur verið rekin í einu þessara húsa síðan 1929.  Hús Guðsteins var teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni (1896-1968)

Það að þessi tvö fyritæki fá áframhaldandi líf í götunni er mikilvægara en margan grunar. Þetta er mikilvægt fyrir almannarýmið og fjölbreytnina þar. Það hefði verið slæmt ef jarðhæð húsanna við Laugaveg hefðu verið tekin undir hótelstarfssemina eða rekstri skyldum henni. Það hefði gert götuna fátækari, einsleitnari og fyrrt hana sögunni.

Hér hefur tekist að endurnýja húsin með það að markmiði að rýra ekki mikilvægi þeirra í ríkri sögu götunnar og mikilvægi fyrir miðbæ Reykjavíkur.

Í hönnunarvinnunni hefur tekist að ná opinni og líflegri gönguleið frá Laugavegi upp á Grettisgötu.

Endurnýjun bygginganna og breyting í fyrsta flokks hótel var í höndum Sigurðar Hallgrímssonar arkitekts og innanhússarkitektanna Guðbjargar Magnúsdóttur og Rögnu Sif Þórisdóttur í náinni samvinnu við eigendur hótelsins.

Hér er á ferðinni skólabókardæmi um hvernig aðlaga má nýja og nútímalega starfssemi í gömlum húsum. Þessi nálgun er auðvitað vandasamari og seinlegri en nálgun svonefndra uppbyggingasinna í byggingalistinni sem gengur jafnan út á að rífa og byggja nýtt og nútímalegt í staðinn.

Aðlaðandi og lífleg gönguleið milli Laugavegar og Grettisgötu  er bætt við skemmtilegar götur og sund borgarinnar.

 

Gömul mynd af Sandholtsbakaríi við Laugaveg númer 36. Tekist hefur að viðhalda starfsseminni á sama stað og flétta inn í hótelreksturinn þannig að almannarýmið fær notiðsín.

Hús Guðsteins Eyjólfssonar eftir Þorleif Eyjólfsson arkitekt frá 1929.

Gamla herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar verður áfram rekin á jarðhæð hússins. Þetta er mennigarleg afstaða eigandanna sem viðheldur líflegu götulífi við Laugaveg. Ef þarna yrði starfsemi nátengd hótelrekstrinum yrði gatan fátækari.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.2.2018 - 08:15 - 36 ummæli

Kirkjusandur – Atvinnusögunni bjargað!

Það var ánægjulegt að hlusta á  borgarstjóra á íbúafundi í Borgarhluta 4 – Laugardalur í gærkvöldi. Hann fór vítt yfir framtíð og tækifæri borgarhlutans, en það sem vakti sérstaka athygli mína var hugmynd um að þyrma gamla fiskvinnsluhúsi Jupiters & Marz á Kirkjusandi sem hefur verið ógnað af nýju skipulagi þarna.

Þetta gamla hús er snar þáttur í atvinnusögu Reykjavíkur og jafnvel landsins alls.  Húsið var reist á árunum 1955-1962

Ekki veit ég hver teiknaði þessa góðu byggingu en það á eftir að skýrast. Mér finnst tveir komi til greina. Annars vegar Rögnvaldur Ólafur Johnsen, (1920-2008) en han nam byggingalist í Kaliforniu í lok seinni heimstyrjaldarinnar  en lauk ekki námi vegna McCarthyismans að mér er sagt. Hinsvegar gæti húsið líka verið eftir Sigurð Guðmundsson (1885-1958) heiðursfélaga Arkitektafélags Íslands.

Árið 1988 var byggingunni breytt í skrifstofuhús Sambands íslenskra samvinnufélaga og allskonar skálar umhverfis það rifnir. Samhliða þeirri endurnýjun var húsið klætt að utan með loftræstri álklæðningu og skipti það þá algerlegu um einkenni (karakter). Eftir fall SÍS keypti Íslandsbanki, (1995) sem síðar varð  Glitnir og aftur Íslandsbanki húsið og hafði þar aðalstöðvar sínar þar til flýja þurfti húsið vegna myglu fyrir nokkru.

Vegna skipulagsvinnu Kirkjusands óttuðust menn að þetta merkilega hús yrði látið víkja fyrir nýjum og nútímalegum byggingum og nýrri landnotkun. Maður horfði á eftir einu besta húsi Guðmundar Þórs Pálssnonar, aðalstöðvum Strætó, víkja fyrir skipulaginu. Maður óttaðist að örlög glæsilegs fiskvinnsluhúss Júpiters & Marz yrðu þau sömu.

En svo verður líklega ekki, sem betur fer.

Á íbúafundinum í gærkvöldi upplýsti borgarstjóri að hugmyndir væru uppi um að fletta álklæðningunni af húsinu og færa borgarbúum og landsmönnum öllum merkilega sögulega vídd staðarins og færa húsið í upprunalegt horf.

Þetta gladdi mig mjög og var hugsað til þeirrar atvinnusögu sem þurrkuð var út aðeins vestar við ströndina þar sem svörtu háhýsin í Skugga standa nú. En þar voru áður hús Völundar, Kveldúlfsskálarnir, byggingar Sláturfélags Suðurlands og fl.  Allt frábær og söguleg hús.  Borgin varð fátækari þegar þessum húsum var fórnað fyrir það sem kom í staðinn.

Verndun fiskvinnsluhúss Júpirer & Marz er stórkostlega góð hugmynd og mikið fagnaðarefni.

Húsið getur hentað ágætlega fyrir margskonar atvinnu- eða menningarstarfssemi á borð við Listaháskóla Íslands eða annað slíkt. Listaháskólinn er nú í kjötvinnsluhúsi Sláturfélags Suðurlands þarna skammt frá.  Þá yrði skólinn loks nánast sameinaður á einum stað í húsum „kjöts og fisks“!

Það vakti líka athygli mína hvernig staðið er að hugmyndavinnunni. Í stað þess að auglýsa enn og aftur einhverja samkeppni var handvalin teiknistofa sem hefur sýnt að hún hefur áhuga og burði til þess að leysa svona verkefni vel af hendi. En hönnuðirnir á þessu hugmyndastigi eru arkitektarnir hjá Kurt og Pi sem eru þeir sömu og hönnuðu endurnýjun Marshall hússins úti á Granda. En Marshallhúsið er eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt og tóks endurnýjunin vel.

+++

Hér er unnið samkvæmt hugmyndum verndunarsinna í byggingalistinni. En þeir halda því fram að menningarstig þjóðar komi best fram í því hvernig hún umgangengst verk genginna kynslóða.

Ég upplifi þessa hugmynd eins og að brotið hafi verið blað í baráttu verndunarsinna og þeirra sem vilja standa vörð um menningararfinn. Gömul hús og hin sögulega vídd í öllu okkar umhverfi verður sífellt mikilvægari. Vonandi tekst borginni að bjarga steinbænum við Veghúsastíg og Veghúsum að Veghúsastíg 1 eins og hugur stendur til, svo maður nefni ekki ásýnd Gamla Garðs.

++++

Að neðan koma nokkrar myndir frá Kurt og Pi og svo mynd af aðalstöðvum Stræto sem rifnar voru á síðasta ári en það átti aldrei að gerast og var alger sóun og óþarfi.

++++

Breytt 10.02.2018  Kl. 14.18

Mér láðist að geta þess í pistlinum að breytingar á húsinu sem gerðar voru fyrir SÍS voru hannaðar af  arkitekunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall.

Viðbót 13.02.2018:

Eftir smá grúsk fann ég húsa- og byggðakönnun Borgarminjasafnsins.

Þar kemur fram að fyrsta hæðin af þessu húsi er teiknuð af Sigurði Pjeturssyni. Svo kom Gísli Hermannsson að verkinu. Siðan tóku þeir félagar Ólafur Júlíusson, Jósef Reynis og Gílsli Halldórsson við og hækkuðu húsið úr einni hæð í fjórar. Og loks komu þeir Örnólfur Hall og Ormar Þór að húsinu og hækkuðu aftur um eina hæð og klæddu að utan og gáfu húsinu það útlit sem það nú ber.

Hver er hinn eiginlegi höfundarrétthafi hússins veit ég ekki en sé nú að þær teikningar sem hér eru kynntar eru í raun ekkert annað en uppmæling og/eða uppteikning af húsinu eins og það var áður en því var breytt eftir þörfum Sambands Íslenskra Samvinnufélaga.

Þess vegna má álykta að öll umræða um virðingu fyrir höfundarrétt sé ótímabær varðandi verk Kurt og Pi.

Í húsa- og byggðakönnuninni stendur; „Húsið hefur menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi Kirkjusand“.

 

Tölvumynd af húsi Júpiters & Marz frá hendi Kurt & Pi arkitekta.

Að ofan er gamla fiskvinnsluhús Jupiter & Marz dregið út í dekkri tón en umhverfið sem var. Þarna vann ég á unglingsárum í fiskvinnslu. Var í „tækjunum“ en þar var borgað hærra tímagjald enn annarsstaðar í húsinu.

Hér eru fyrirmenni að kynna sér verklagið í þessum fyrirmyndar húsi uppúr miðri síðustu öld.

 

Teikningar af húsinu og ljósmynd. Það er áberandi hvað húsið er einfalt stílhreint og fast í formi.

Frumdrög arkitektanna sem sýnir hlutföll og hugsanlegt birtuflæði á hæðum hússins.

Að neðan eru svo mynd af niðurrifi aðalstöðva Strætó sem stóðu í sama skipulagi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.2.2018 - 14:50 - 6 ummæli

Endurreisn Breiðholtsins.

 

 

Nýlega var samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur fyrirspurn varðandi byggingu 15 hæða byggingu í efra Breyðholti sem hýsa á alls 50 íbúðir af margvíslegum stærðum.

Þetta eru í raun mikil og gleðileg tíðindi því segja má að þetta sé beint framhald af jakvæðri og góðri uppbyggingu í Breiðholti sem hófst fyrir nokkrum misserum þegar vannýttu og niðurnýddu  húsi fyrir verslun og þjónustu að Eddufelli 8 var breytt í eitt af glæsilegustu fjölbýlishúsum borgarinnar.  Húsið hefur haft veruleg jákvæð áhrif á næsta umhverfi.  Það var tilnefnt til Menningarverðlauna DV á síðasta ári fyrir byggingalist. Nú hefur verið opnað þarna vinsælt kaffihús og veggjakroti sem var áberandi þarna hefur verið hætt. Þetta er allt annað og betra umhverfi en var.

Þessi tillagaum háhýsi að Eddufelli 2-6 sem samþykkt var í af skipulagsfulltrúa þann 12. janúar s.l. er í fullkomnu samræmi við hugmyndir og markmið aðalskipulagsins um þéttingu byggðar og mun

Í niðurstöðu skipulagsfulltrúa stendur:

Niðurstaða: „Meðal annars þar sem efra Breiðholtið er í eðli sínu þétt og háreist byggð þá þykir hugmynd um hærri byggingu á þessum stað áhugaverð og þess virði að skoða hana vel. Í þeirri skoðun þarf að horfa til svæðisins alls meðal annars m.t.t. þarfa þess fyrir m.a. íbúðagerðir, húsahæðir og innviða. Nú er í vinnslu hverfaskipulag fyrir Breiðholt sem borgarhluta og þetta hverfi sérstaklega. Í þeirri vinnu verður farið sérstaklega yfir stefnumörkun þessa svæðis/þessarar lóðar“

Af þessu má skilja að upphaf á endurnýjun og endurbotum á efra Breiðholti er hafið með bygginu glæsilegra bygginga sem mun lyfta borgarhlutanum upp og bæta á flesta lund. Því ber vissulega að fagna.

++++

Efst er frumskissa  af fyrirhugaðri byggingu frá hendi arkitektsins Guðna Pálssonar arkitekts sem er höfundur skipulagshugmyndarinnar.

Að neðan koma svo nokkrar töðlvumyndir sem sýna staðsetningu og útlit ens og það liggur í frumskissum. Neðst koma svo myndir af fjölbýlishúsinu að eddufelli 8 sem var tilnefnt til menningarverðlauna DV í byggingalist á síðasta ári og loks mynd af þeim niðurnýddu húsum sem fyrir voru.

Ásýnd hússins og samhengi þess við það sem fyrir er.

Háhýsið mun draga verulega úr áhrifum löngu blokkarinnar sem lengi gefur verið gagnrýnd.

Tölvumynd af svæðinu. Nýbyggingin er fyrir miðri myndinni.

Afstöðumynd. Nýbyggingin er þarna sýnd rauð.

Eddufell 8 sem hefur haft veruleg jákvæð áhrif og valdið „hugarfarsbreitingu“ í hverfinu eins og sagt er í umsögn skipulagsfulltrúa. Þarna í grenndinni hefur verið opnað kaffihús og veggjakroti hefur verið hætt.

 

Að neðan koma myndir af húsinu Eddufell 8 fyrir breytingu. Það var sóðalegt og jafnvel ógnvekjandi umhverfi sem nú er orðið aðlaðandi, fallegt og eftirsótt.

Að neðan koma loks þrjár tilvísanir eða skýringarmyndir sem sýna hús af svipaðri gerð og höfundur sér fyrir sér á þessum stað við Eddufell 2-6.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.1.2018 - 11:26 - 9 ummæli

Að fanga staðarandann

Það er ekki öllum arkitektum gefið að kunna að fanga staðarandann. Nýlega voru kynntar hugmyndir arkitekta varðandi nýbyggingar við Framnesveg 40-42, þar sem þetta hefur tekist.

Þegar horft er á myndina efst í færslunni sést að tekið er tillit til nokkurra grundvallaratriða í götumyndinni. Húsalengdinni er skipt niður þannig að hún er af svipaðri lengd og önnur hús í götunni, gluggarnir eru ekki gluggabönd eða stórir glerflekar eins og algengt er í nýbyggingum heldur göt í heillegum veggjunum. Húsahæðin er í samræmi við þau hús sem næst standa og það er halli á þökum.

Það þarf oft ekki mikið til svo byggingar falli að umhverfi sínu eins og kveðið er á um í Aðakskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Það þarf að lesa umhverfið, skilgreina kosti þess og galla. Hanna svo inn í umhverfið á þess forsendum og reyna að draga úr göllum þess og styrkja kosti þess.

Til þess að auka landnýtinguna eru húsin dýpri og það eru settir stórir þakkvistir þar sem komið er fyrir myndarlegum íbúðum eins og sjá má á tölvumyndum að neðan.

Það dylst engum sem þarna á leið um að þetta eru ný hús, byggð 2018 en þau breyta ekki anda staðarins, heldur styrkja hann.

Húsin eru teiknuð af arkitektastofunni Arkþing í Reykjavík fyrir fasteignafélagið Grunn. Innanhússhönnun er unnin af Berglindi Berndsen og Helgu Sigurbjarnardóttur innanhússarkitektum.  Í húsunum eru 9 íbúðir, 50-100 m2.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.1.2018 - 14:44 - 13 ummæli

„Að byggja sér fortíð“

„Að byggja sér fortíð“

Í umræðunni um verndun húsa og viðhald þeirra skiptast sjónarmiðin í tvö horn. Annarsvegar er hópur sem vill meðhöndla eldri byggingar af mikilli varfærni og telur jafnvel að vernda þurfi nánast öll hús á tilteknum svæðum og hinsvegar hópur sem telur að verndunarsjónarmiðin tefji fyrir framþróun og skemmi fyrir. Talað er annars vegar um verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingarsinna, sem hvort tveggja eru gildishlaðin orð í þessu samhengi. Hinir svo kölluðu uppbyggingasinnar tala jafnvel um að verndunarsinnar séu „að byggja sér fortíð“

Með þessum málflutningi eru búnar til tvær andstæðar fylkingar en það er ósanngjarnt því svoleiðis er þetta ekki. Á sama hátt mætti þá tala um nýbyggingarfíkla annars vegar og menningarsinna hins vegar. Þeir sem viðhafa slíkt tal stilla sjónarmiðunum hvoru andspænis öðru og skipta fylgjendum í tvo andstæða hópa, líkt og andstæðar pólitískar fylkingar væru að takast á. Uppbyggingarsinnarnir spyrja til að mynda hvernig miðborg við viljum eiga þegar horft er til Reykjavíkur. Þeir spyrja „hvort við viljum að miðborgin sé safn eða lifandi miðborg“ og gefa sér þannig að þetta séu andstæður. Eins og miðborg sem samanstendur af gömlum húsum geti ekki verið lifandi? Uppbyggingarsinnarnir spyrja líka „hvort við viljum leiktjöld eða „raunveruleg“ hús“. Eins og gömul hús og gamlar borgir á borð við Kaupmannahöfn, París og Róm séu hvorki raunverulegar né lifandi heldur „leiktjöld“.

Verndunarsinnar benda á að borgir séu yfirleitt hvergi meira lifandi en þar sem virðing er borin fyrir gömlum húsum og staðarandanum. Þeir halda því fram, þvert á rök uppbyggingarsinna, að menningarstig þjóða komi fyrst fram í því hvernig þær umgangast menningararfinn.

Uppbyggingarsinnar halda því fram að byggingarlistin eigi að spegla menningu og anda þess tíma er mannvirkið var reist. Það er að segja að maður eigi alltaf að byggja í samræmi við það sem er í tísku á hverjum tíma. Jafnvel er talað um að gömul hús eigi að víkja fyrir nýjum og nútímalegri húsum þegar þannig stendur á. Verndunarsinnar segja á móti að menningarstigið megi lesa af því hvernig menn fara með gömlu húsin og að næg tækifæri séu til þess að reisa byggingar sem eru í takt við tíðarandann utan gömlu borgarhlutanna.

Í öllu starfsumhverfinu eru lög og viljayfirlýsingar um hvernig byggja skuli innanum það sem fyrir er. Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er tekið á þessu skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feti „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni“. Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Þetta eru góð fyrirheit sem „uppbyggingarsinnar“ ættu að gefa sér tíma til að kynna sér og starfa eftir.

++++

Efst í færslunni og hér styrax að neðan koma dæmi um nýbyggingar sem byggðar eru í samræmi við markmið Aðalskipulag Reykjavíkur og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð.  Svo koma umdeildar byggingar við Laugaveg sem endurspegla sjónarmið „uppbyggingarsinna“. Neðst er svo ágæt nútímaleg bygging í Reykjavík, sem gæti staðið hvar sem er í víðri veröld.

++++

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.1.2018 - 12:25 - 14 ummæli

Landspítalinn og bílastæðabókhaldið.

Í Morgunblaðinu í morgun er farið yfir bílastæðabókhald þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut.

Þar kemur fram að reiknað er með  að einungis 3 til 4 af hverjum 10 komi til spítalans í einkabíl. Einungis er gert ráð fyrir 1600 bílastæðum fyrir spítalann í fyrsta áfanga hans en þá verða starfsmennirnir um 3900.

Ef ég skil rétt þá þarf framboð einkabílastæða ekki einungis að fullnægja þörfum starfsmanna heldur líka sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030 er gert ráð fyrir að 58% notfæri sér einkabílinn í framtíðinni, 12% almenningsflurninga og afgangurinn gangi, hjóli eða noti önnur samgöngutækifæri.

Í fljótu bragði verður ekki séð að bílastæðabókhald Landspítalans mæti þessum bjartsýnu áætlunum aðalskipulagsins. Það vantar mikið þar uppá.

++++

Eftir því sem maður kynnir sér betur áformin um uppbygginguna við Hringbraut því meira undrandi verður maður á þvi að þessu sé haldið áfram.

Það stendur nánast ekki steinn yfir steini í öllu þessu máli. Allar forsendur fyrir staðarvalinu eru brostnar og àætlarnirnar standast ekki lengur.

Menn á æðstu stöðum hafa halda fram í næstum áratug að allar staðarvalsgreiningar og áætlanir bendi á að Hringbraut sé besti staðurinn fyrir Þjóðarsjúkrahúsið. Nú vita allir sem hafa fylgst með umræðunni að þetta er rangt. Og hvað gera menn í því? Þeir bregðast við eins og oft áður með því að svara ekki gagnrýnisröddum.

++++

Rétt er að vekja athygli á því að þegar/ef hafist verður handa við byggingu meðferðarkjarnans þarf að leggja niður á annað hundrað bílastæði sem þarna eru núna.

++++

Efst er mynd sem fylgdi grein í Morgunblaðinu í morgun og skýrir sig sjálf og strax hér að neðan er greinin í heild sinni.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is