Föstudagur 28.8.2015 - 00:04 - 13 ummæli

„You put your eyes in your pocket…….“

image

 

Fyrir réttum 6 árum byrjaði ég að blogga um arkitektúr, skipulag og staðarprýði.  Í fyrstu færslunni vitnaði  ég í 50 ára gamalt lag lag eftir Bob Dylan. þar sem hann segir: “ Something is happening here but you dont know what it is, do you, Mr. Jones?“

Þetta er úr laginu The Ballad of a Thin man af plötunni „Highway 61 Revisited“ frá árinu 1965. Þá var Dylan 24 ára gamall.

Dylan reynir ekki að skýra út kveðskap sinn enda veit hann eins og margir listamenn að um leið og hann fer að skýra út verkið er hætta á að hann tali listina úr listaverkinu.  En kunnugir segja hinsvegar að textinn fjalli um blaðamenn sem vita að eitthvað sé að gerast en skilja ekki hvað það er og spyrja í framhaldinu rangra spurninga.

Aðrir segja að Dylan hafi verið að fjalla um apana þrjá sem ekkert vilja segja, ekkert vilja sjá og ekkert vilja heyra!

Mér finnst almenn umræða um arkitektúr og skipulag bera keim af þessu. Fólk vill ekkert heyra eða sjá og þorir ekkert að segja. Allt virðist hagsmunatengt. Fólk heyrir það og sér sem gagnast því og segir bara það sem það hefur persónulegan hag af.

Á einum staðí laginu  segir Dylan .: „You put your eyes in your pocket and your nose on the ground. There ought to be a law against you coming around“.

Ætli Dylan hafi fundist hann vera að syngja fyrir  „girðingastaura“ þegar hann kyrjaði þetta eða var hann að segja því að þau væru eins og girðingastaurar?

Hér að neðst er svo mynd af öpunum þrem ásamt myndbandi  þar sem Dylan syngur „Ballad of a thin man“.

Endilega hlustið og íhugið textann.

 

Í fyrstu færslunni, fyrir sex árum, lagði ég út af  málverkinu “L´enigma di una giornata” (gáta dagsins (?) eftir ítalann Chirico.

Mig langar að ljúka þessum skrifum og þakka fyrir mig með því að skoða annað málverk sem sjá má efst í færslunni.  Málverkið sem varð fyrir valinu er eftir einn af bestu málurum landsins, Sigurð Örlygsson. Málverkið  frá árinu 1988 og er 180x240cm að stærð.

Málverkið heitir “Meðan skynsemin blundar” og sýnir mann sem er að stökkva upp á einhvern stall eða dökkan, veraldlegan metorðastiga. Eða kannski að falla af honum? Rétt hjá er annar stigi, ljós og gegnsær, kannski huglægur himnastigi. Stekkur maðurinn upp á rangan stiga án þess að ræða það við nokkurn mann?  Eða sér hann betri tækifæri í veraldlega stiganum en hinum háa gegnsæja og bjarta? Hann veit að eitthvað er að gerast en hefur ekki hugmynd um hvað það er og kannski vill hann ekkert vita hvað er að gerast.

Maðurinn hefur fyrir andliti sínu trekt. Spurningin er hvort þetta sé sjónauki sem snýr öfugt? Öfugur snjónauki gerir allt minna en það er í raun. Og þá gildir einu hvort um tækifæri eða ógnanir sé að ræða. Kannski er þetta öfugt gjallarhorn sem gerir allt sem maðurinn segir að litlu eða engu? Eða er þarna þöggun í gangi? Er þetta þöggunartrekt? Er maðurinn múlbundinn?

Og þokan umhverfis allt þetta. Er þetta þoka óvissunnar eða doðans í allri umræðunni?

Leynist  hugsanlega einhverf von í þokunni?

Hver er svo maðurinn? Er hann táknmynd einhvers? Stjórnvalda kannski?  Embættismanna? Táknmynd örlagavalda eða geðlurða? Er hann fulltrúi þeirra sem segja skoðanir sínar en enginn heyrir vegna trektarinnar eða tregðunnar?  Kannski er hann viljalaus og skoðanalaus arkitekt, án fótfestu og svífur þarna eins og fjöður í loftinu, allt eftir því hvernig vindurinn blæs í þeim tilgangi einum að halda bissnissnum gangandi  ……  „bisniss as júsúal“.

Og svo er það kvörnin, er þetta kannski púðurkvörn? Full af orku?

Er hann kannski með augun í vasanum og veit ekkert hvað er að grast? Kannski voru mistök hans að fylgja ekki hjörðinni og vera þýðlyndur. Það gefst oft vel þegar til skamms tíma er litið.

Þetta frábæra málverk setur fram milljón spurningar sem ég ætla ekki að reyna að svara. Spurningarnar og svörin er einungis að finna í augum þeirra sem horfa, heyra og kunna að sjá.

+++

Steen Ejler Rasmussen arkitekt og prófessor á Konunglegu Listaakademiunni í Kaupmannahöfn endaði öll sín skrif með kveðjunni „Med mange venlige hilsener“.  Steen var lærimeistari Halldórs Gunnlaugssonar heiðurfélaga Arkitektafélags Íslands þegar hann las við akademíuna.  Við deild Steen Ejler tók leibeinandi minn og prófessor Jörgen Bo.  Sten Ejler skrifaði reyndar heila bók sem hét þetta „Med mange venlige hilsener. (Gyldendal 1971)

Ég ætla að enda þetta á svipaðan hátt og Steen Ejler segi.:

Með mörgum vingjarnlegum kveðjum.

 

 

 

 

 

 

 


Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.8.2015 - 10:11 - 18 ummæli

Umræðan um skipulagsmál.

http://s3.amazonaws.com/rapgenius/vitruvius.jpg

Ég hef oft efast um sjónarmið mín og þær ályktanir sem ég dreg af ýmsum áætlunum sem varða skipulag og byggingalist. En ég styðst eins og ég get við fagleg sjónarmið sem lögð eru fram og geri mér far um að reyna að skilja það sem liggur á borðum. Eflaust hef ég stundum rangt fyrir mér varðandi einstaka mál.

Stundum tekst mér ekki að skilja hvert menn eru að fara og þess vegna reyni ég að skapa umræðu um efnið á þessum vef og víðar í von um að umræðan verði upplýsandi og lausnamiðuð.  Stundum reyni ég að þvinga fram viðbrögð með því að vera svolítið ögrandi. Geri mér jafnvel upp skoðanir. Það tekst stundum að laða fram viðbrögð en ekki alltaf.  Það er hinsvegar ekki óalgengt að ég fái viðbrögð á netfang mitt, eða þeir hringi. Þetta eru oftast aðilar sem tengjast viðkomandi máli beint og segjast ekki vilja taka þátt í opinberri umræðu um málið.  Oft „stöðu sinnar vegna“

Gott dæmi um þetta eru áformin um að byggja Landspítala við Hringbraut.  Ég hef skrifað pistla um þessa spurningu í sex ár, velt ýmsum steinum og leitað svara við aðkallandi spurningum.

Sannast sagna skil ég ekki af hverju það gengur svona illa að ná upp faglegri og lausnamiðaðri opinberri umræðu um þetta mikla mál.

Þetta hefur nánast verið einræða þó þeim sem eru svipaðrar skoðunnar og ég hafi fjölgað verulega.

Ég hef líkt þessu við samtal við girðingastaur. Samtalið er ekki gagnvirkt. Þeir sem véla um þessi mál fyrir hönd skattgreiðenda taka nánast ekkert þátt í umræðunni.  Svara nánast engu og leiða umræðuna hjá sér.  Það er líklega vegna þess að þeir telja þögnina vera bestu vörnina í vonlausri málefnalegri stöðu sinni. Kannski eru svörin ekki fyrir hendi!

Þeir sýna með þessu vissa forherðingu, yfirlæti eða jafnvel hroka gagnvart hinum leitandi sem auðvitað borga allan reikninginn.

Eins og kom fram í nýlegum pistli mínum hafa vandaðar skoðanakannanir sýnt að um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31%  landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir. Fjárhagsleg  og skipulagsleg rök benda til þess að uppbygging við Hringbraut sé óheppileg. Jafnvel röng.

Það hefur verið óskað eftir faglegu staðarvali í ein sex ár án nokkurra viðbragða.

++++

Arkitektar hafa ekki tjáð sig mikið um málið. Sennilega vegna þess að stór hluti þeirra hefur komið að málinu eða eiga persónulegra hagsmuna að gæta.

Ég spurði á fésbókarsíðu arkitekta þar sem eru skráðir um 500 arkitektar og ástríðufullir áhugamenn um skipulag og arkitektúr  um efnið.

Ég bað sérfræðingana sem lesa FB síðu arkitekta um að taka þátt í umræðunni og gera mér og fjölda annarra sem efast um staðsetninguna við Hringbraut þann greiða að róa okkur og sannfæra okkur um að Hringbrautargangan sé gengin til góðs. Ég óskaði eftir faglegum rökstuðningi fyrir staðarvalinu.

Okkur sárvantar fagleg skipulagsleg rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut.  Ég auglýsti  beinlíns eftir þeim.

Enginn svaraði í fyrstu svo ég endurtók bón mína til sérfræðinganna nokkrum dögum seinna.

++++

Þá kom eitt svar .

Það var frá ágætum kollega mínum úr teyminu sem vann að deiliskipulaginu sem nú liggur fyrir og er væntanlega vel að sér í þessu máli.

Hann byrjaði á því að hnýta í okkur sem erum að leita svara við sjálfsögðum faglegum og velrökstuddum  spurningum vegna staðarvalsins og sagði orðrétt að það væri „auðvelt að strá ryki í augu almennings með einföldum upphrópunum sem er vitað að valda ursla. Ábyrgðarlaus gagnrýni fagmanna getur tafið mál eins og bráðnauðsynlega uppbyggingu Landspítalans“. 

Það er ekki beint málinu til framdráttar að byrja svona. Hann segir mig og fl. vera með ófaglega og  óábyrgar upphrópanir til þess eins að valda usla!!!.  Þessi tilvitnun upplýsir ekkert og er einungis til þess fallin  að draga úr umræðunni. Þarna virðist reynt að þagga niður í fólki og kæfa umræðuna. 

Svona ummæli draga úr áhuga fólks fyrir að ræða arkitektúr og skipulagsmál opinberlega. Maður missir eiginlega áhuga á samtalinu þegar svona svar birtist frá fagmanni sem ætti að þekkja vel til málanna og hefur af þessu atvinnu.

Maður sem ber samfélagslega ábyrgð vegna vinnu sinnar og á að sýna þeim sem borgar honum launin virðingu og þakka þann áhuga sem viðkomandi sýnir verki hans.

Skipulagshöfundurinn vísaði ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings eða skipulagsrök vegna staðsetningarinnar, sem kom á óvart og er varla boðlegt.

Það verður samt að geta þess að  hann fann þrjár ástæður fyrir því að byggja skyldi við Hringbraut. Engin þeirra byggði á skipulagslegum forsendum.

Atriðin þrjú voru þessi, orðrétt:

“Hafa ber í huga að ekki er um nýja lóð að ræða. Landspítalinn tók til starfa 20. des. 1930. Það er því bráðum komin 85 ára reynsla af staðsetningunni við Hringbraut.”

Í öðru lagi:

“Ekki verður séð að gagnrýnendur núverandi staðsetningar séu sammála um neinn annan ákveðinn kost. “

Og að lokum:

“Verði hætt við frekari uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og hann byggður annarsstaðar mun það óhjákvæmilega seinka opnun á nýjum spítala um að a.m.k. 3 ár.”

Svo kom „læk“ hjörðin sem lækaði eins og um væri að ræða íþróttakappleik þar sem menn halda auðvitað með sínu liði skilyrðislaust og oftast líka umhugsunarlaust.

++++++

Því hefur verið haldið fram að við sem erum í vafa um staðsetninguna við Hringbarut „skellum skollaeyrum við staðreyndum“ og „sjáum ekki heildarmyndina“. Mér sýnist þvert á móti að aðstandendur framkvæmdarinnar skjóti skollaeyrum við gagnrýninni og velja að svara engu eins og dæmin sanna. Þögn þeirra hefur komið málinu í þá stöðu sem það er nú í.  Fullkomna óvissu!

Að ofan eru dæmi um svörin sem fást. Þau eru ekki faglegs- eða skipulagslegs eðlis heldur bera einkenni flótta frá málefnalegri umræðu.

Forsvarsmenn verkefnisins hafa líka sagt okkur að þeir hafi fengið það verkefni frá Alþingi að undirbúa byggingu spítalans við Hringbraut og ekki annarsstaðar (Þarna virðist Alþingi hafa tekið til sín skipulagsvaldið). Það er að segja að þeir vilja ekki ræða staðsetninguna með faglegum hætti og bera fyrir sig boð frá Alþingi.  Þarna er á ferðinni alger skortur á hinni svokölluðu „samfélagslegu ábyrgð“ hjá fagfólkinu, sem er mikið rómuð um þessar mundir og mikið kallað eftir.

Það má líka skjóta því hér inn að við sem erum í vafa um staðsetninguna skoðum þá heildarmynd sem Aðalskipulag Reykjavíkur hefur dregið upp. Við skoðum líka þá félagslegu mynd sem við blasir og þá fjárhagslegu mynd sem nýlega var dregin upp.

Fylgjendurnir sýnist mér vera að skoða heildarmynd sem þeir sjálfir hafa skapað og er að margra mati ekki lengur í tengslum við þann veruleika sem blasir við í dag. Það hefur verið sýnt fram á að hinar svokölluðu staðarvalsskýrslur, sem eru þrjár, standa ekki undir nafni þó stundum sé vitnað í þær. Ég er til dæmis fullur efasemda um hvort borgarstjórinn og heilbrigðisráðherra hafi nokkurntíman lesið skýrslurnar og kynnt sér þó þeir hafi vitnað í þær. Til þess eru þeir of vandaðir menn. En þeir fara ekki rangt með því skýrslurnar benda á Hringbraut.

+++++

Draga má þá ályktun af því sem að ofan stendur að það virðist ekki nokkur leið að ná upp faglegri og málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga mál. Menn ýmist svara ekki eða hlaupa útundan sér.

Manni fallast hendur.

++++++

Myndin efst í færslunni er eftir Leonardo da Vinci en tilvitunin er meira en 2000 ára gömul og er eftir Marcus Vitruvius Pollio (70-80 f.kr – 15 e.kr) sem var fræðimaður sem einbeitti sér að byggingalist.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.8.2015 - 00:13 - 23 ummæli

„Hvað EF menn hefðu…….“

Vilhjálmur Ari Arason læknir skrifaði aldeilis ágæta grein hér á Eyjuna fyrir stuttu þar sem hann veltir fyrir sér hvaða tækifæri byðust ef menn væru opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala og tekur mið af nýju sjúkrahúsi í Hilleröð í Danmörku sem á að taka við gömlum spítala inni í borginni.

Vilhjálmur virðist hafna fyrirhuguðum bútasaum vegna Landspítalans við Hringbraut og segir m.a.:

„Hvað EF menn hefðu verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum?  Hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa?  Sömu aðilar og unnu samkeppni um nýjan Landspítala við Hringbraut, CF Möller, unnu samskonar samkeppni í Danmörku nýlega á Norður-Sjálandi, nánar tiltekið við Nýja Hilleröd sjúkrahúsið. Um er að ræða um 140.000 fermetra húsnæði sem er svipað og heildaráfanginn allur við Hringbraut, en sem kosta á mun minna, eða rúmlega 80 milljarða umreiknað í íslenskar krónur. Það sem er ekki síður markvert að skoða er byggingahraðinn á nýju opnu svæði miðsvæðis þar. Auglýst var eftir hönnunartillögum 2014, framkvæmdir eru nú að hefjast og spítalinn á að vera tilbúinn eftir 5 ár, þ.e. 2020. Hvað EF við hefðum hugsað og farið sömu leið og Danirnir?“

Hér er færsla Vilhjálms í heild sinni:

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2015/08/12/hvad-ef-nyjum-landspitala-er-valinn-betri-stadur/#respond

++++

Það má líka velta fyrir sér til hvers landið og byggingar núverandi spítala yrðu notaðar EF menn hefðu „verið opnari“ fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala?

Það er ljóst á þá hefði landið verið nýtt í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030.

Núverandi byggingar fengju hlutverk sem miðbæjinn vantar og mikil eftirspurn er eftir eins og t.a.m.  fyrir hótel.  Í núverandi byggingum  gætu líka verið hjúkrunarheimili eða skrifstofur fyrir veigamikil fyritæki á borð við Landsbankann o.fl.  Gamla aðalbygging Landspítalans fengi eflaust viðeigandi mikilvægt opinbert hlutverk.

Landið sunnan Gömlu Hringbrautar yrði líklega íbúðavæði ef markmið AR2010-2030 fengju að ráða. Þar væri hægt að koma fyrir um 500 stórum lúxus sérbýlum í anda þess sem sýnt er á myndunum að neðan. Þarna gætu búið  nokkuð á annað þúsund manns sem stuðlaði að jöfnun húsnæðis- og atvinnutækifæra í borginni eins og AR 2010-2030 stefnir að.

Efst er mynd sem tekin er úr færslu Vilhjálms Ara Arasonar af nýju sjúkrahúsi í Danmörku og sýnir hvernig sjúkrahús sem byggt er á „besta stað“ (green field) gæti litið út.

Hönnun á sjúkrahúsinu í Hilleröd var boðin út á síðasta ári og byggingin verður tekin í notkun eftir 5 ár.  Alls um 140 þúsund fermetrar sem er svipað og Landspítalinn þarf.

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

Víða um heim eru byggðar glæsilegar gæðaíbúðir í lágri þéttri byggð. Eitt þeirra er íbúðasvæði við Essex í Englandi eftir Alison Brooks Architects. Þessi íbúðabyggð fékk nýlega viðurkenningu sem besta nýja íbúðabyggðin í Englandi.

Þetta eru rúmgóð hús á tveim til þrem hæðum með meiri lofthæð en gengur og gerist. Þéttleikinn er 56 íbúðir á hektara sem er mjög mikið á reykvískan mælikvarða. Sérstaklega er eftir því tekið hvað íbúðirnar eru bjartar og samskipti íbúanna og götulíf þægilegt. Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð.

Koma mætti 500 íbúðim í þessum gæðaflokki á svæðinu sunnan Hringbrautar ef Nýja Hringbraut og helgunarsvæði hennar er tekið með ásamt landinu undir „þjóðvegasjoppunni“ og umferðamiðstöðinni yrði bætt við.  Á þennan hátt mætti tengja Valssvæðið annarri byggð í borginni á eðlilegan hátt. Og HR tengdist borgarlandinu loks á eðlilegri hátt.

 Lesa má um þessa íbúðabyggð hér:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/30/deiliskipulag-i-vatnsmyri-onnur-nalgun/#comments

Myndina að ofan fann ég á veraldarvefnum og var textinn við hana: „Bílastæði-gata-gata-bílastæði-gata-bílastæði“  Myndin og textinn lýsir vel langri röð skipulagsmistaka. Þarna eru miklar götur sem lagðar voru á grunvelli skipulags sem aldrei varð og vonandi aldrei verður. Ef ný Hringbraut hefði ekki verið lögð og gamla Hringbrautin látin nægja þá væri sunnan gömlu Hringbrautarinnar nægjanlegt rými fyrir um 500 lúxus sérbýli í svipuðum gæðaflokki og myndirnar að ofan. .

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/images/islenska/verkefnid/samkeppni/samkeppni_um_forhonnun/vinningtillaga_=_spital/02-landspitali-1af%5B1%5D.jpg

http://blog.pressan.is/arkitektur/files/2011/09/nyr_landsspitali_498x230.jpg

Ef fer sem horfir verður aðalsjúkrahús landsmanna (kannski það eina á höfuðborgarsvæðinu) rekið á stærsta byggingastað landsins jafnvel um áratugi með öllum þeim óþægindum sem því tilheyrir og glamrandi stórvirkum vinnuvélum og jarðvegssprengingum allt umhverfis starfandi sjúkrahús.

Þetta eftirsóknarverða land sem hentar mun betur til íbúðabygginga verður að líkindum að mestu autt næstu áratugi. Það er líklega á skjön við nýtt aðalskipulag.

Myndirnar að ofan sýnir í stórum dráttum hvernig sjúkrahúsið við Hringbraut mun líta út.

Hér að neðan er grunnmynd deiliskipulagsins sem nú er ætlunin að framkvæma.

http://blog.pressan.is/arkitektur/files/2011/09/nhlsh-30082011-deiliskipulaglett.jpg

Í færslu Vilhjálms Ara Arasonar var slóði að myndbandinu a neðan. Myndbandið sýnir sjúkrahúsið við Hilleröð í Danmörku. Það er af svipaðri stærð og fyrirhugaður Nýr Landspítali. Það er augljóst að þarna er lögð áhersla á manneskjulegt um, hverfi þar sem sjúklingurinn er í algerum forgrunni.

Danir ákváðu  þarna, af margvíslegum ástæðum,  að byggja ekki við eldri byggingar inni í borginni heldur byggja á „green field“ enda væri það bæði betra, hagkvæmara og fljótelgra auk þess að flækjustig og óvissa væri minni.

Endilega skoðið þetta fallega myndband.

Það er leiðinlegt að hugsa til þess að allt bendir til  að fjárfest verði í byggingum upp á milli 80 og 120 milljarða án þess að fyrir liggi heildstætt faglegt mat á staðarvalinu. Að auki hefur verið reiknað út að Hringbrautarlóðin muni kosta landsmenn um 100 milljarða meira á núvirði en ef byggt yrði á svokölluðum „besta stað“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.8.2015 - 22:10 - 8 ummæli

Landspítalinn – Skoðun heilbrigðistarfsfólks á staðsetningunni.

Samtök um betri spítala á betri stað hafa beðið MMR um að gera nokkrar skoðanakannanir varðandi staðsetningu Landspítalans. Þetta er röð kannanna þar sem heilbrigðisstarfsmenn hafa verið spurðir sérstaklega (læknar, hjúkrunarfólk og sjukraflutningamenn) og svo úrtak úr þjóðskrá.   Niðurstöðurnar hafa verið nánast á eina lund.  Línuritið að ofan er fengið af Facebooksíðu samtakanna og fjallar eingöngu um svör frá sjúkraflutningamönnum. Með línuritinu fylgdi eftirfarandi texti á FB síðu samtakanna:

++++

„Viðhorfskönnun meðal sjúkraflutningamanna varðandi staðsetningu framtíðar Landspítalans.

51 af um 200 hafa svarað eða um 25%.

Niðurstöðurnar eru sláandi.
Um 85% eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut.
Um 35% vilja hafa spítalann í Fossvogi, um 29% á Vífilsstöðum en einungis um 8% við Hringbraut.

Vitað er að um 70% lækna eru skeptískir á Hringbrautina og samkvæmt nýrri MMR könnun eru einungis 31% almennings ánægð með Hringbrautina.

Við samtökin BSBS höfum sýnt fram á að það má fá betri spítala á nýjum og betri stað fyrir minna fé en ef byggt verður við Hringbraut. Núvirtur sparnaður verður jafnvel yfir 100 milljarðar króna.

Þó að byrjað verði á nýjum stað þarf það ekki að tefja málið því tími við skiptulag og hönnun vinnast upp með meiri byggingarhraða þar sem pláss verður til að byggja spítalann án truflana fyrir nærliggjandi starfsemi.

Við, almenningur, þurfum að láta fulltrúana okkar á Alþingi, í Borgarstjórn og viðar vita af því hvað okkur finnst um þetta mál. Við krefjumst þess að þeir hlusti þegar svona stórt mál er í húfi fyrir okkur öll.“

++++

Það ber alls ekki að túlka þetta sem svo að skoðanakannanir eigi að ráða hér ferð, heldur skýtur þetta stoðum undir þá kröfu að formlegt og faglegt staðarval fari fram.   En það er nokkuð ljóst að flestir þeirra sem kynnt hafa sér málin sjá að uppbygging við Hringbraut er óheppileg.

En þetta á ekki að breyta því að endanlegt staðarval á auðvitað að ákveða í kjölfar vandaðrar og faglegrar úttektar á þeim kostum sem bjóðast.

Það er fullkomlega óábyrgt að halda áfram og hefja framkvæmdir án þess að staðarval verði faglega unnið.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.8.2015 - 07:20 - 10 ummæli

Flatey og Halldór Kiljan Laxness

 

Place_337_2___Selected

Halldór Kiljan Laxness lætur eftirfarandi falla um Flatey á Breiðafirði í bók sinni Dagleið á Fjöllum (útg 1937):

+++

„Það var að morgni dags snemma í júní. Ég steig þá í fyrsta sinn á land í þessari yndisey þar sem öll mannverk höfðu yfirbragð fortíðarinnar, en náttúran svip hinnar eilífu fegurðar. Æðarkollurnar litu vingjarnlega til mannanna, og það var næstum hægt að taka þær í fang sér. Mér hefur alltaf síðan fundist hér ríkja annað tímabil en í öðrum hlutum heims; að þessi eyja sé utan við almanakið. Alltaf þegar ég stíg á land í Flatey síðan, finn ég þessa eilífðarkennd. Það er kannski af því að ég var svo ungur þegar ég kom hingað fyrst, að mér fannst ég sjálfur vera eilífur; að gista einn mánuð, tvo mánuði, á fallegum stað, aðeins til að mega liggja guðslangan daginn í þanginu og horfa á hreyfingar fuglanna og hlusta á kliðinn, það var eins og annar lítill greiði við sjálfan sig og allt aðrir dagar en nú, þegar maður kemur þreyttur af langferð til góðs vinar seint um kvöld og verður að leggja af stað í býtið að morgni – – – –

– – – –  Það eru liðin fimmtán ár.

Mér er aftur vísað á tvö vesturherbergin uppi á lofti í gesthúsinu eins og þegar ég kom hér fyrst. Það er aftur björt júnínótt eins og þá. Aftur horfi ég á þessi lágreistu rifluðu hús og hlýði á klið sjófuglsins fyrir utan gluggann eins og þá, hinir liðnu áhyggjulausu dagar tvítugsáranna koma til mín aftur, óendanlegir, án kvölds. Og ég finn allt í einu, að þessi kliður sjófuglsins er mér meira virði en öll heimsins tónlist, sem ég þó elska svo mikið. Kannski er þetta sjálf óskanna en þar sem sælan býr, þar sem tíminn líður ekki“

+++

Það hefur lítið breyst í Flatey og Vestureyjum síðan Halldór Kiljan Laxnes skrifaði þetta. Flatey er enn „utan almanaksins“,  hreyfing fuglanna og kliðurinn er sá sami og þarna standa þau enn „lágreist rifluð húsin“.

Mér er minnisstætt þegar ég var lítill drengur í Svefneyjum að maður tók æðarkolluna „í fangið“ af hreiðrinu og lagði hana til hliðar. Hún horfði á meðan maður tók hluta af dúninum, skygndi eggin, tók eitt eða tvö, lagaði svo hreiðrið til og lagði kolluna aftur á hreiðrið og gekk að næsta hreiðri.

Sjá einnig:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/06/21/hella-flatey-og-serkenni-stadanna/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/12/09/ranakofinn-i-svefneyjum-elsta-hus-a-islandi/

 

http://www.ruv.is/sites/default/files/styles/1000x563/public/80122215.jpg?itok=Kd9dWl8t

 

flatey-660x330

 

https://ullarsokkurinn.files.wordpress.com/2011/05/kria1.jpg

http://www.skessuhorn.is/images/Mynd_1648239.jpg

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.8.2015 - 16:03 - 7 ummæli

Hörputorg og Hafnargarðurinn

Horpuborg jpeg

 

Það er sérlega ánægjulegt þegar „leikmenn“ tjá sig um arkitektúr skipulag og staðarprýði af þekkingu og ástríðu. Þetta er það sem við þurfum, almennan upplýstan notanda umhverfisins sem segir sína skoðun. Notandur sem eru gagnrýnir og lausnamiðaðir.

Arkitektúr og skipulag er allt of mikilvægt svið að það sé óhætt að láta arkitekta og stjórnmalamenn eina um málið.

 Einn þeirra leikmanna  sem eru virkir í umræðunni um arkitektúr og skipulag er Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir og prófessor sem skrifaði eftirfarandi grein í Morgublaðið fyrir nokkrum dögum. Þetta er athyglisverður og skemmtilegur lestur sem ég mæli með.

 

Hörputorg og Hafnargarðurinn?

París

Flestu fólki líkar vel við miðborg Parísar. Skyldi það vera tilviljun? Nei, ástæðan er sú að borgin var skipulögð með það fyrir augum að hún væri harmónísk, þ.e. að byggingar féllu að hver annarri með ákveðnu mynstri, sem George-Eugene Haussmann sagði fyrir um. Sem dæmi var ætlast til þess að byggingar sem stæðu hlið við hlið væru sex hæðir og svalir væru á 3. og 6. hæð. Verslanir á 1. hæð og góðar íbúðir fyrir ofan. Arkitektar og verktakar gátu ekki leyft sér, að byggja hvað sem þeim sýndist á úthlutaðri lóð.

Reykjavík

Reykjavík byggðist upp frá lokum átjándu aldar en eiginlegt götuskipulag varla fyrr en um 100 árum síðar. Vegna lágrar sólstöðu og skuggavarps voru menn framan af á því að hús ættu varla að fara yfir 3-4 hæðir. En hér var enginn Haussmann og er ekki enn þótt markir merkismenn hafi lagt til byggingasögu Reykjavíkur. Byggðin varð því sundurleit en samt nokkuð í samræmi við 4 hæða hugmyndina innan gömlu Hringbrautarinnar, sem hér er til umfjöllunar.

Verktakaskipulag

Eftir síðari heimsstyrjöld varð breyting og svo virðist sem vaxandi stefnuleysi hafi ráðið för en að verktakar hafi fengið að valsa frjálslega um. Verktakar tóku að byggja hús sem harmónera mörg hver ekki við umhverfið, þ.e. gömlu byggðina, auk þess sem ekki hefur verið gætt að því að tryggja mannlíf í miðborginni með brottflutningi verslunar og íbúa þaðan.

Mætti lesandinn ímynda sér hvernig Reykjavík liti út ef ekki væri Morgunblaðshöllin og nýbyggingar við hana, Landssímahúsið við Austurvöll, viðbótin við Útvegsbankahúsið (Héraðsdóm) og svarta furðuverkið á Lækjartorgi. Í staðinn væru lægri og smærri hús í samræmi við gamla umhverfið í kring. Ímyndið ykkur Ingólfstorg. Sá sem þetta ritar sér birtuna og sólina streyma inn í götur og torg ef ekki væru þessi hús. Hann fagnar því einnig, að endurbyggð voru gömul hús við Lækjartorg eftir brunann mikla og að forðað var niðurrifi gamalla húsa á mótum Skólavörðustígs og Laugavegar þar sem verktakar höfðu stórvaxnar hugmyndir. Á sama tíma jókst því miður skuggavarpið í Skuggahverfinu vegna nýrra háhýsa.

Hvar er Haussmann?

En áfram skal byggja og enn eru N.N. verktakar á ferð. Enginn veit hverjir þeir eru eða hver gaf þeim valdið. Þeir tilkynna bara fyrirætlanir sínar. Skipulagsyfirvöld og kjörnir fulltrúar almennings segjast engu ráða vegna furðulegrar skaðabótaskyldu gagnvart verktökunum. Hver leyfði kjörnum fulltrúum að gefa frá sér vald og ábyrgð? Birtar hafa verið myndir af fáránlegum hugmyndum að hóteli við Lækjargötu þar sem langeldurinn stóð. Og nú síðast birtist risavaxið deiliskipulag sunnan við Hörpu, sem augljóslega mun loka sjónlínum úr miðborginni að Hörpunni og Esjunni. Maður sýpur hveljur og veltir því fyrir sér hvort við Reykvíkingar getum virkilega ekki fundið einhvern Haussmann? Kaupstaðurinn á að vera fagur og mannvænn þótt vissulega þurfi að tryggja að hann sé ekki dautt safn gamalla húsa.

Tillaga

Á myndinni efst  er fyrirliggjandi deiliskipulag sunnan við Hörpu, ég kalla það Hörpuborg. Byggingarmagn Hörpuborgar er 62.000 fermetrar eða jafn stórt og fyrri áfangi fyrirhugaðra nýbygginga Landspítalans, sem sprengja á niður í gömlu Hringbrautina (annað byggingarslys í uppsiglingu, sem ég hef fjallað um áður og bent á lausn á). Ég er talsmaður þess að reist verði hótel við Hörpuna á norðvesturbakka lóðarinnar en tillaga mín er sú að ekki verði byggt austanvert á lóðinni frá Hörpu að Lækjartorgi og að svarta húsið á Lækjartorgi verði rifið. Holan við Hörpuna verði notuð að hluta til þess að hleypa Geirsgötu í stokk neðanjarðar/sjávar og undir hótelbygginguna eða komi upp sunnan við hótelið. Með þessum hætti myndast stórt torg, Hörputorg, sem væri gönguleið frá Hörpu alveg að Lækjartorgi og myndi kallast á við Arnarhól (sjá mynd 2) og myndi nýtast til mannfagnaða borgarbúa. Gamli hafnargarðurinn fengi að standa á Hörputorgi og etv yrði Lækurinn opnaður á ný. Útsýni að Hörpu og Esjunni og frá Hörpunni að Lækjargötu væri tryggt. Íhuga ætti að auki að minnka byggingarmagn á suðvesturhluta lóðarinnar og setja þar niður smærri og lægri byggingar. En stóru húsin, þ.m.t. höfuðstöðvar Landsbankans, verði utan gamla kaupstaðarins.

Höfundur er læknir, áhugamaður um fegurð og mannlíf í gömlu Reykjavík.

 

Horputorg jpeg2

 

HafnargarðurinnMynd 2. Holan við hörpuna yrði notuð fyrir Geisgötu sem yrði neðanjarðar og gamli hafnarkanturinn fléttaður inn í Hörputorg sem samnýttist Arnarhól.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.7.2015 - 17:00 - 9 ummæli

BRT – Samgönguás Reykjavíkur?

Indy-Connect_Explaining-BRT

Nú er fólk að stinga saman nefjum og velta fyrir sér hvaða samgöngukerfi henti fyrir samgönguás Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.

Nærliiggjandi er að skoða hefðbundinn strætó. En sennilega mun hann ekki standast væntingar.

BRT eða Bus Rapid Transit er samgöngukerfi sem byggir á svipaðri hugmynd og hin svokölluðu léttlestarkerfi nem að BRT ekki á teinum heldur venjulegum dekkjum og fer aðeins hægar. Þetta er mun ódýrara en léttlestarkerfin. Þetta eru í raun rafdrifnir fólksflutningabílar sem aka í sérrými og eru mjög afkastamiklir miðað við fjárfestingu. Miklu hagkvæmara en léttlestar. Engir teinar og engar loftlínur og umferðaljós eru styllt þannig að BRT er alltaf á grænu ljósi!.

Lagðar hafa verið fram hugmyndir að svipuðu kerfi þar sem ekið er eftir einni akrein í báðar áttir. Það er að segja að farartækin nota eina akrein nema stoppistöðvum sem eru einskonar brautarpallar þar sem þau mætast. Þetta kerfi er það aleinfaldasta sem ég ef heyrt um og að líkindum það langódýrasta.

Bæjaryfrvöld taka frá eina akrein á leið kerfisins.  Í Reykjavík væri það leiðin eftir samgönguásnum frá Vesturbugt að Keldum. Stoppistöðvar væru með um 7-800 metra millibili og á þeim mætast vagnarnir á mikilvægum stöðum á leið sinni í sitt hvora áttina.

Vagnarnir í kerfinu verði rafdrifnir og ekki er lengra milli vagna en 5 mínútur. Aðgengi er á sama plani og gangstéttarnar og vagnarnir taka við barnavögnum, hjólastólum og reiðhjólum. Og að sjálfsögðu með Wi-Fi þónustu.

Samgönguás aðalskipuags Reykjavíkur er sennilega merkilegasta einstaka nýjungin í því merkilega skipulagi og ég hef heyrt að borgin hyggist hefja vinnu við að útfæra hugmyndina nánar.  Aðalatriðið í þeirri hugmyndavinnu er að sníða sér stakk eftir vexti. Finna lausn sem samfélagið hefur efni á. Leita leiða til þess að koma á fót starfrænum, hagkvæmum og góðum almenningsflutningum milli skilgreindra tveggja höfuðpóla Reykjavíkurborgar sem byggir á sögulegum grunn,. Vesturbugt-Keldur.  Þannig væri hægt að skapa virka línulega borg á þéttasta svæði hennar og tengja restina af borginni þannig að allir verði í göngu eða hjólafæri við samgönguásinn.. Aðrir samgöngúásar tengdust svo þessum meginás eins og tilefni er til og þörf krefur og aðalskipulag og svæðaskipulag kallar eftir.

Byrja mætti á þvi að kaupa svona 8 litla rafdrifna almenningsvagna og hefja rekstur þeirra sem allra fyrst á þesari tæplega 9 km leið. Mikilvægt er að strax í byrjun verði boðið uppá þjónustustig sem er yfir væntingum sem svarar til þess að það komi vagn á um 5 mínútna millibili.

Ef þetta tekst vel verður ekki aftur snúið og fasteignaverð mun hækka meðfram samgönguásnum og íbúðahverfi í grennd munu blómstra með minni einkabílaumferð og skemmtilegra götulífi. Niðurstaðan yrði enn betri borg fyrir fólk.

 

 

Samgönguás

Hér að ofan er Google mynd þar sem samgönguásinn er lauslega teiknaður inn. Hann gæti legið frá Vesturbugt með fyrstu stoppistöð á Kalkofnsvegi sem er um 800 metrar þaðan. Svo yrði stoppað t. d. við Frakkastíg, Hlemm, Kringlumýrarbraut, Laugardalshöll, Glæsibæ, Skeiðarvog, Súðarvog Funahöfða og að lokum Keldur.

Þvert á þessa línu koma svo þveranis með öðrum almenningssamgöngum eins og sjá máað neðan  á uppdrætti úr nýlegu svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

 

Höfuðborgarsvæðið 2040

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.7.2015 - 00:06 - 8 ummæli

Betri stað fyrir betri spítala

adalskipulag_framhlid-3

Fljótlega eftir að ákveðið var að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík var samin skýrsla um staðsetningu sameinaðs sjúkrahúss. Skýrslan var gefin út í janúar 2002 og er að mestu faglega unnin og til þess fallin að taka ákvörðun um staðsetningu við Hringbraut.

Síðan skýrslan var gefin úr hefur allt breyst í umhverfinu, hvort heldur varðar skipulagslegt umhverfi, félagslegt eða fjárhagslegt. Staðsetning sjúkrahússins við Hringbraut stenst ekki lengur þann veruleika sem nú blasir við 13 árum síðar.

Ástæðurnar eru margar. Nægir þar að nefna umferðamálin.

Á skipulagi sem stuðst var við árið 2002 voru fyrirhuguð göng frá Landspítalanum undir Öskjuhlíð með tengingu við Kringlumýrarbraut í Fossvogi, og áfram undir Kópavog og alla leið að Reykjanesbraut við Smáralind. Önnur göng áttu að koma undir Þingholtin með tengingu spítalans við Sæbraut nálægt Hörpu. Gert var ráð fyrir mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Leggja átti Miklubraut í stokk við Klambratún. Flugvöllurinní Vatnsmýri og starfsemi þar var snar þáttur niðurstöðunnar.

Nú liggur fyrir nýtt aðalskipulag Reykjavíkur þar sem allt þetta er lagt á hilluna.

Árið 2004 var samin önnur skýrsla. Þar segir m.a. „…besti kosturinn er án efa bygging nýs sjúkrahúss frá grunni en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir“. Útreikningar hafa sýnt að það er um 20 milljörðum ódýrara að byggja á nýjum stað en að endurnóta og byggja við núverandi húsnæði. Þar fyrir utan hagnast þjóðfélagið um milljarða á ári hverju við að flytja sjúkrahúsið nær þungamiðju búsetunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðja skýrslan sem stundum er nefnd kom svo í febrúar 2008. Sú skýrsla er rýr og byggir ekki á neinum tilgreindum gögnum sem vitnað er í. Það er fullkomlega óábyrgt að byggja ákvörðun um staðsetningu spítalans á henni.

Þegar gögn málsins eru skoðuð er því ljóst að skipulagslegar forsendur staðarvalsins eru að langmestu brostnar.

Áhyggjur þeirra sem telja að bygging nýs spítala geti tafist vegna endurskoðunar á staðarvalinu eru skiljanlegar. Slík endurskoðun er hinsvegar nauðsynleg og mun ekki seinka opnun sjúkrahússins þó að byggingaframkvæmdir hefðust nokkrum mánuðum síðar en nú er áformað.

+++++

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu í gær.

+++++

Myndin efst í færslunni er  af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  sem staðfest var 20. desember 2002. Þar má sjá þær umferðatengngar göng sem voru fyrirhugaðar þegar staðarvalsskýrslan frá 2002 var unnin og tengdust Landspítalanum. Ekkert stendur eftir af þessum áætlunum í aðalskipulaginu sem samþykkt var í fyrra.

Er það verjandi fyrir ráðherra heilbrigðismála, fjármála og umhverfismála að leyfa að framkvæmdir fyrir um 100 milljarða verði hafnar við Hringbraut á grundvelli þeirra gagna sem  liggja fyrir?

Nýtt faglegt stðarval verður að fara fram af óháðum aðilum þar sem tekið er mið af núverandi aðstæðum. Ef svo ólíklega vill til að niðurstaðan verði Hringbraut þá er rétt að haga framhaldinu í samræmi við það.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 13:44 - 15 ummæli

Landsbankinn og borgarlandslagið.

 

Hagsmunagæslumenn almennings, þingmennirnir Elín Hirts og Gunnlaugur Þór Þórðarsson og margir fleiri hafa gert athugasemdir við fyrirætlanir Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir bankann. Þau hafa fært ýmis siðfræðileg og hagræn rök fyrir því að þetta sé ekki skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í morgun svarar bankastjórinn Steinþór Pálsson fyrir hönd bankans  án nokkurra skipulagslegrar eða samfélagslegrar röksemdarfærslu. Hann segir einungis að fjarfestingin muni skila sér í reikninga bankans. Með öðrum orðum telur hann að fjárhagslegir hagsmunir bankans eigi að ráða för. Ekkert annað.

++++

Því er haldið fram að bankarnir hér á landi  hafi grætt um 500 miljarða frá endurreisn þeirra eftir Hrun.

Þetta er stjarnfræðileg upphæð.

Hún er svo stór að engin skilur hana.

Þetta jafnast á við um fimm fullbúna nýja Landspítala. Eða 15 þúsund meðalstórum íbúðum og enn aftur rúmlega einum meðal fjölskyldubifreið til allra fjölskyldna í landinu og meira en það o.s.frv.

Fyrirtæki sem svona er statt fyrir þarf að líta til samfélagsins.  Hugsa minna um eigin hag og meira til almennings.  Bankinn getur ekki lifað án samfélagsins en samfélagið getur vel komist af án Landsbankans.  Þess vegna þarf bankinn að sýna samfélagslega ábyrgð þegar svona stendur á.

++++

Ég ætla ekki  að hætta mér frekar inn á þessar brautir heldur líta til bankans í borgarlandslaginu og staðsetningu hans í tengslum við aðalskipulag borgarinnar.

++++

Eitt af því sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 gengur út á er að skapa meira jafnvægi í landnotkuninni þannig að draga megi úr umferð einkabifreiða og gera borgina sjálfbærari.

Bent hefur verið á að það eru of mörg atvinnutækifæri í vesturhluta borgarinnar og of lítið framboð af íbúðahúsnæði. Atvinnutækifærin eru flest vestan Kringlumýrarbrautar meðan búsetan er að mestu í austurhluta borgarinnar.

Aðalskipulagið bregst við þessu með þéttingu byggðar og fjölgun íbúða í vesturhlutanum og uppbyggingu íbúðahúsnæðis  á  Vatnsmýrarsvæðinu. Hún þarf til mótvægis að fjölga atvinnutækifærum austar í borginni. Hluti af lausn vandans er að  koma upp öflugum almenningssamgöngum frá Vesturbugt að Keldum sem stuðla að línulegri borg þar sem atvinnutækifæri og búseta yrðu fléttuð saman inn í borgarvefinn.

Fyrir 13 árum höfðu menn miklar áhyggjur af miðbörginni og töldu hana vera að slummast og deyja. Nú árið 2015 er hún orðin svo sterk að það þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Dreifa álaginu varðandi verslun, skemmtanir og þjónustu. Færa tilboðin um atvinnutækifæri austar í borgina í tengslum við samgönguásinn um leið og íbúðum fyrir fólk sem býr í borginni verði fjölgað í vesturhlutanu: Kannski að Landsbankinn ætti að framselja lóð sína undir íbúðahúsnæði. Kannski sérhannað fyrir aldraða, einhleypa og námsmenn? Það er eðlilegt út frá samfélaginu og þróuninni að fjölga íbúðum við Austurhöfn og færa almenna skrifstofustarfssemi austar.

Landsbankinn gæti því haft höfuðstöðvar sínar áfram í sínu glæsilega sögulega húsi meðan stoðdeildir yrðu annarsstaðar.  Auðvitað er þetta ekki jafn hagkvæmt fyrir bankann og hann mun ekki græða eins mikið.  En fórnarkostnaðurinn kæmi samfélaginu, borgarlandslaginu og aðalskipulaginu AR2010-2030 til góða.

++++

Efst í færslunni er vinningstillaga BIG arkitekta og félaga að höfuðstöðvum Landsbankans sem var gerð fyrir Hrun. Að neðan er svo skýringarmynd af svæðinu við Austurhöfn.

++++

Það má bæta því við að þessi gamli banki, elsti banki landsins ætti frekar sitja sem fastast á sínum stað og hlúa þannig að sögu sinni í sínu merkilega gamla húsi við eina elstu götu borgarinnar.  Núverandi húsnæði bankans er líklega starfrænt ekki jafn hentugt og hugsanleg nýbygging. En ímynd bankans og það traust sem er samtvinnað gömlu byggingunni við Austurstræti er með þeim hætti að varla er metið til fjár.

Svo er sagt að þróuniní bankastarfssemi verði sú að ekki þurfi höfuðstððvar bankalengur  eins og við þekkjum í dag.  Talað er um lágverðsbanka („low cost banking“). Menn muni nota símann sin í ríkara mæli til þess að sinna bankaviðskiptum, svokallaða „mobile money“ sem dregur verulega úr kosnaði neytandans varðandi bankamviðskipti. Þetta hefur Thomas Möller fjallað um á Hringbraut.is og telur þessa þróun vera á leið hingað til lands.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.7.2015 - 16:44 - 16 ummæli

Lækjargata – Hin sögulega vídd

 

11665570_10207512092586131_3281059351348502681_n

Birkir Ingibjartsson er einn örfárra arkitekta sem taka þátt í almennri umræðu um skipulag og arkitektúr.

Það ber að þakka honum og þeim kollegum hans sem tjá sig opinberlega um þennan mikilvæga málaflokk.

Birkir  tjáir sig eins og flestir á málefnalegan hátt og er upplýsandi.

Hann hikar ekki við að leggja sínar hugmyndir fram til þess að lífga upp á umræðuna með það að markmiði að reyna að laða fram góða niðurstöðu í kjölfarið og ná sáttum ef þannig stendur á.

Í ummælum við síðasta pistil  á þessum vef segir hann m.a. um fyrirhugaðar byggingar við Lækjargötu:

„Að ætla byggja lægra en 4 hæðir á þessum stað væri sóun á afar góðu byggingarlandi og erfitt að mínu mati að réttlæta slíka stefnu. Meira byggingarmagn = meira fólk = sterkari miðbær.

Við götuna (Lækjargötu) standa nú bara eftir 2-3 hús sem eru lægri og því erfitt að sjá hver rökin fyrir því eru að temja hæð nýbygginga á þessum stað við 3 hæðir. Miklu raunhæfara væri að leyfa þessum lægri húsum að vaxa um 1-2 hæðir. Húsin hinum megin götunnar liggja nokkuð tilbaka frá götunni og sitja þar að auki ofar í landinu. Á milli hinna stærri húsa og þeirra smærri sem sitja ofar myndast því að mínu mati mun sterkara og jafnara göturými þar sem báðar hliðar götunnar talast á í stað þess þau sem ofar sitji drottni yfir þeim lægra settu…!

Það breytir því ekki að ég sé enga ástæðu fyrir því að leyfa ekki Bankanum að standa. Tillaga Glámu/Kím vitnar í raun til bankans með sínu uppbroti og því væri áhugavert að vita af hverju honum er ekki leyft að standa.

Ósk verkkaupa er mín ágiskun.

Ef bankinn fær að standa við hlið tveggja ~4 hæða nýbygginga verður uppbrotið mun sterkara og byggingin mun aðlagast mun betur að götunni auk þess sem hinni sögulegu vídd götunnar er haldið til haga og á lífi“

++++

Skoða má tillöguna um hótelið við Lækjargötu á eftirfarandi slóð:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

++++

Efst er mynd þar sem Birkir hefur gert í framhaldi af athugasemdinni við síðustu færslu og fellt gamla Iðnaðarbankahúsið inn í vinningstillöguna, þannig að saga götunnar og bankans er gefið áframhaldandi líf.

Þarna varpar Birkir með myndrænum hætti, sjónarmiði margra arkitekta og annarra, inn í umræðuna.

Ég þakka Birki Ingibjartsyni fyrir það.

Strax hér að neðan er tillaga sú sem verkkaupi kýs að byggja og neðst kemur svo mynd af Lækjargötunni áður en húsin sunnan við bankabygginguna brunnu. Í öðru þeirra bjó hinn ástsæli dómkirkjuprestur Sr. Bjarni Jónsson.

 

821957

Reykjavik Laekjargata, anno 1962

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is