Mánudagur 20.6.2016 - 12:10 - 12 ummæli

MÓTUN FRAMTÍÐAR.

11225725_173710526295825_7102508128324779405_n

MÓTUN  FRAMTÍÐAR.

Fyrir tæpu ári kom út stórmerkileg bók Trausta Valssonar arkitekts sem starfað hefur sem prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla íslands um áratuga skeið.

Þetta er þrettánda bók Trausta um efnið.

Bókin fjallar um æfistarf Trausta og skipulagshugmyndir frá öndverðu með áherslu á tímabilið frá stúdentabyltingunni 1968. En um það leiti hóf Trausti nám í arkitektúr í Berlín. Trausti getur horft stoltur um farinn veg.

Þetta voru miklir umrótatímar þarna á árunum milli 1968 0g 1975 þar sem allt var litið gagnrýnum augum. Menn tóku ekkert sem gefið og allt var gagnrýnt með lausnamiðuðum hætti í mjög víðu samhengi. Menn horfðu til langrar framtíðar.

Ég hóf mitt nám á Listaakademíunni í Kaupmannahöfn á svipuðum tíma. Menn sögðu reyndar að það hafi tekið stútentabyltinguna heilt ár að komast frá París til Kaupmannahafnar þar sem hún byrjaði fyrir alvöru haustið 1969. Þarna breyttust allar áherslur. T.a.m var maðurinn og hans þarfir settar í fókus, einkabíllinn var látinn víkja í öllu samhenginu. Menn fóru að hugsa meira um mengun og auðlyndir jarðar, ást og frið.

Þetta smitaðist út í samfélagið. Sagt er  að aðgerðasinnarnir sem björguðu Bernhöftstorfunni á sínum tíma hafi verið afsprengi studentabyltingarinnar og hippakyslóðarinnar.

Trausti hóf nám í Berlin 1967 fyrir byltingu og lauk árið 1973. Hann hóf því nám sitt á gamla skólanum og lauk í nýju og öðru félagslegu umhverfi þegar byltingunni var farið að lægja.

Í mínum huga er þetta eitt merkilegasta skeið síðustu aldar. Þarna varð til kynslóðagjá eða múr. Múr sem byggður var af nýrri tónlist, nýrri myndlist, öðrum klæðaburði, öðrum markmiðum en áður tíðkuðust og nýrri sýn á byggingalist og skipulag.

Þetta var upphaf hippakynslóðarinnar.

Þetta tímabil hefur markað marga okkar og það má sjá af bók Trausta að þessi tími og þessi tíðarandi hefur markað allt hans professinella líf og viðhorf, sem betur fer.

Eftir nám í Berlín starfaði hann allnokkur á að skipulagsverkefnum hér á landi og skoðaði sérstaklega viðfangsefnið í stóru samhengi. Síðan var haldið til Berkeley í Californiu sem stundum hefur verið kallað Mekka umhverfistengds skipulags og lauk þaðan doktorsprófi árið 1967.

MÓTUN FRAMTÍÐAR er frábær bók sem opnar hugmyndaheim umhverfismótunnar fyrir fólki þannig að það skilur samhengið betur eftir að hafa lesið hana. Eftir lesturinn á fólk auðveldara með að skilja samhengið, taka þátt í umræðu um þetta, sennilega mikilvægasta hagsmunamál alls almennings, sem er skipulag borga, bæja og landsins alls.

Trausti gagnrýnir modernismann harkalega og nokkuð verðskuldað.

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því að menn spyrði modernismann og funktionalismann saman eins og um sé að ræða sama stílinn. Þetta er ekki að mínu mati ekki alveg sami hluturinn. Þessar tvær kenningar komu upp á svipuðum tíma og er modernisminn sennilega afleiðing eða jafnvel orsök funktionalismans sem Louis Sullivan setti fram um aldamótin 1900. Ég hygg að flestir arkitektar sem sitja nú sveittir við tölvurnar sínar vinni í anda Sullivans og gömlu meistaranna þó þeir hafi aldrei heyrt þá nefnda. Svo mikilvægir eru þeir í öllum störfum arkitekta.

Mér finnst þessum tveim stefnum oft ruglað saman og líður funktionalisminn oft  fyrir það.  Það örlar á þessu í doktorsritgerð Ævars Harðarsonar í ritgerð hans  frá háskólanum í Þrándheimi sem hann nefnir „Dristige Detaljer“.  Ritgerðin fjallar um galla í nútímabyggingum og þar er fjallað sérstaklega um Falling Water og modernismann.

Trausti gagnrýnir snillingana Le Corbusiere og Walter Gropius og segir hugmyndir þeirra hafi leitt til mikilla hörmunga í skipulagi. Stefna þeirra hafi þýtt að nú búa milljarðar manna í óhagkvæmu, ljótu og vélrænu umhverfi úthverfa um allan heim. Það er nokkuð til í þessu en kannski ofmælt. Því hefur til dæmis verið haldið fram að hugmyndir Le Corbusiere um uppbyggingu í Mýrinni í París hafi í upphafi verið „case study“ sem gekk  lengra en að var stefnt. Þessir menn lögðu drög að mörgum frábærum hugmyndum en því miður gerðu þeir líka mistök eins og allir snillingar. Mér finnst menn oft  horfa meira til mistaka þeirra en þess sem þeir gerðu vel.

++++++

MÓTUN FRAMTÍÐAR er skemmtileg bók sem vert er að kynna sér. Hún er óvenju aðgengileg miðað við bók af þessu tagi. Fróðleg, skemmtileg og nær tíðarandanum vel. Hún er góður vetvangur til skoðanaskipta og ætti að geta lífgað upp á umræðuna en það hefur Trausta tekist betur og oftar en flestum öðrum.

Þetta er önnur bókin um efnið sem kemur út hér á landi á stuttum tíma. Hin er bók Bjarna Reynarssonar sem fjallað hefur verið um hér á þessari síðu. Það er óhætt að mæla með báðum bókunum.

++++++

Það má til gamans lista hér upp nokkrar stefnur sem stuðst er við í byggingalistinni nú á dögum:

Funktionalismi,

Modernismi,

Postmodernismi,

Metafysik,

Brutalismi,

Minimalismi,

Dekonstruktivismi,

New Wave,

Biomorf arkitektúr,

Nýrationalismi,

Internationalismi sem er að mínu mati afskaplega slæmur og stuðlar að einsleitni um allan heim,

og Regionalismi sem er sennilega áhugaverðastur af þeim öllum og er um leið einhver staðbundin blanda af öllum stefnunum.

++++++

Sjá eftirfarandi slóðir sem tengjast efninu.

Hér er fjallað um doktorsritgerð Ævars Harðarsonar:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/01/14/gallar-i-nutimalegum-byggingum/

Og hér er umfjöllun um bók Bjarna Reynarssonar „Borgir og borgarskipulag“:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/10/06/ny-bok-borgir-og-borgarskipulag/

Og tengt:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/10/19/varist-stjornuarkitekta/

Og að lokum um funktionalismann:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/02/26/form-follows-function/

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.6.2016 - 11:29 - 5 ummæli

Hverfaskipulag – Stórgóð sýning í Ráðhúsinu.

ss

Ég átti leið um ráðhúsið í Reykjavík í gær og sá þar stórmerkilega sýningu um hverfisskipulag Reykjavíkur.

Þarna er fjallað um hverfisskipulag í 4 borgarhlutum Reykjavíkur af 10. Það eru Árbær, Breiðholt, Háleiti-Bússtaðir og Hlíðar.

Sýningin er ekki bara merkileg heldur hugmyndin um að gera hverfisskipulag fyrir alla 10 borgarhluta Reykjavíkurstórmerkilegt frumkvæði í skipulagsmálum hvert sem litið er. Aðkoma grunnskólanema að verkefninu vekur sérstaka athygli. Þarna er eftir því sem ég best veit í fyrsta sinn sem grunnskólanemar fá tækifæri til þess að kynnast skipulagsmálum í leik og starfi í sjálfu skólastarfinu.

Í þessari vinnu hefur borginni verið skipt í 10 borgarhluta sem aftur er skipt niður í 3-4 hverfi. Borgarhlutarnir hafa mismunandi staðaranda, andrúm og aðstæður sem hverfaskipulagið á að rækta. Styrkja kostina og draga úr göllunum. Skapa manneskjulega og sjálfbæra framtíðarsýn með skipulagi.

Hverfaskipulagið á að einfalda borgarbúum um að breyta eigin húsnæði innan marka hverfisskipulagsins.

Þessi hugmynd á rætur að rekja til Aðalskipulags Reykjavíkur AR 2010-2030 þar sem stóru línurnar eru lagðar.

Lögð er mikil áhersla á samráð við borgarbúa í þessu ferli. Ein leiðin til þess að ná til borgaranna var að fela nemendum í 13 grunnskólum borgarhlutanna fjögurra til þess að gera líkan af sínu hverfi. Þetta er mjög nikilvæg og skynsamleg aðferð til þess að virkja nemendur og heimilin í skipulagsumræðunni. Við fáum ekki virkilaga gott umhverfi nema með aðhaldi frá upplýstum notendum skipulagsins. Við þurfum meiri umræðu og þéttara samtal um þessi mál við upplýsta borgara. Það dugir ekki að láta arkitektana og stjórnmálamennina eina um þetta mikilvæga mál.

++++

Hjálagt eru nokkrar myndir sem ég tók á sýningunni í gær.

Til hamingju með þetta. Þeð verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Sérstaklega borgarhluta 2 sem er miðborgin og Vatnsmýrin.

+++++

P.S. Það vekur furðu og undrun að ekki hafi verið fjallað um þetta merkilega starf í fjölmiðlum að neinu marki. Skipulagsmál er gríðarlegt hagsmunamál fyrir alla. Þarna er skapaður rammi um allt okkar líf. Fjölmiðlar hafa klikkað hér að mér sýnist.

Sjá einnig:

http://hverfisskipulag.is/

Hverfisskipulag er löngu tímabært

 

+++++

Efst er ljósmynd af líkani af Árbæ og Breiðholti sem grunnskólabörn hafa smíðað. Að baki eru spjöld sem skýra út einstök atriði skipulagsins, hlaðin upplýsingum.

Að neða koma svo nokkrar myndir frá sýningunni sem óhætt er að mæla með. Til skýringar þá eru íbúðahús fjólublá, stofnanir rauðar og atvinnustarfssemi gul.

Breytt 6.06.2016. kl 14:44

Ég var upplýstur af starfsmanni skipulags- og umhverfissviðs Reykjavíkurborgar um að sýningin hafi verið tekin niður í morgun og er því ekki aðgengileg fyrir borgarbúa lenngur. Starfsmaðurinn sagði að upphaflega hafi þessi merka sýning átt að vera í húsnæði Kennaraháskólans en henni hafi verið „troðið“ inn í ráðhúsi. Ég hélt í minni miklu bjartsýni að sýningin hafi verið sett upp til þess að upplýsa þann mikla fjölda borgarbúa sem verður væntanlega í miðborginni á morgun og um helgina.

En svo er ekki.

Skipulagið víkur fyrir einhverju öðru sem fólki þykir merkilegra eða betur viðeigandi. Það er synd fyrir skipulagsumræðuna. Ég læt þessa færslu samt standa þó ég hafi hugsað hana sem auglýsingu fyrir shverfisskipulagið.

hh

Bakkarnir í Breiðholti. Þarna sést hvernig skipulagið er hugsað. Þjónusta og skólar í miðjunni. Fjölbýlishúsin næst. Síðan kemur hringvegur umhverfis þéttustu byggðina þar sem eru almenningssamgöngur. Þá koma sérbýlin og þá opin útivistarsvæði með góðu aðgengi fyrir íbúa.

ff

Hér er horft vestur eftir Bústaðaveginum. Borgarsjúkrahúsið er rautt efst til vinstri og Kringkan efst fyrir miðjugg

aa

Að ofan er uppstylling sem sennilega er hugsuð vegna leiðsagnar um sýninguna og opnar umræður um þau tækifæri sem opnast manni þegar sýningin er skoðuð.

IMG_5955-1024x683

Þórhildur Sif Blöndal og Sigurður Páll Matthíasson nemendur í 6. bekk voru stolt af þessari vinnu og tóku á móti viðurkenningarskjali frá borgarstjóra fyrir hönd hópsins.

„Þetta var bæði fræðandi og skemmtileg vinna,“ segir Sigurður og að nemendum hafi verið skipt upp í hópa til að gera líkan af Fossvogi og koma með hugmyndir um framtíðarmótun hverfisins. Foreldrar fengu svo tækifæri til að koma, skoða og bæta við góðum hugmyndum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.6.2016 - 12:51 - 4 ummæli

Dagsbirtan – Mikilvægasta byggingarefnið?

Mig minnir að það hafi verið Frank Lloyd Wright sem sagði að „dagsljósið væri mikilvægasta byggingarefnið“

Hvort sem það var FLW sem lét þessi orð falla eða einhver annar er það öllum ljóst sem kunna að upplifa arkitektúr að dagsbirtan er mikilvægust allra efna ef það er á annað borð skilgreint sem efni.  Professor Steen Ejler Rasmussen skilgreindi líka hljóðvistina sem byggingarefni og talaði um að heyra byggingalistina. Í Frakklandi er mikið talað um „son et lumiére“ þegar arkitektúr er annarsvegar.

Finnbogi Pétursson hefur einmitt unnið mikið með þessi tvö byggingarefni í list sinni, ljós og hljóð.

Á myndbandinu hér að ofan er sýnt óvenjulegt verk þar sem Finnboga hefur tekist að fanga dagbirtuna á  sterkan hátt. Maður er varla sami maðurinn (arkitektinn) eftir að hafa skoðað þetta rúmlega tveggja mínútna myndband.

Finnbogi Pétursson er sérstæður listamaður, jafnvel einstakur. Hann er fæddur 1959 og hóf nám við Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1979 og innritaðist í Grafíkdeild vegna þess að hugur hans stóð til teikningar.  Hann gerði sér hins vegar fljótt grein fyrir að teikningar hans yrðu ekki framkvæmdar með blýi eða hefðbundnum grafískum aðferðum á sléttan flöt heldur með hljóði í rými. Þessi hljóðverk hans eru þekkt. Hér hinsvegar vinnur hann með dagsbirtuna þannig að áhorfandinn heillast. Líklega skiptir öldugjáfrið líka máli í verkinu.

Ég hef haldið því fram í pistlum mínum að Ólafur Elíasson vinni með sömu verkfærum og arkitektar og með hugmyndir sem tengjast arkitektúr meira en hefðbundinni myndlist, Sama má segja um verk Finnboga.

Að neðan koma nokkrar ljósmyndir af verkum Finnboga þar sem hljóð er megintemað.

 

 

10749213_10152535605797017_1227570430_nHljóðið gárar vatnið.

H2-160318625

TessleTune-2007-Photo-Finnbogi-Petursson

“Your House” eftir Ólaf Eliasson

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2016 - 23:37 - 17 ummæli

Deiliskipulag – Reynslusaga

fr_20160407_036298-640x360

 

Lesandi síðunnar sendi mér þrjár myndir af deiliskipulagi á svokölluðum Naustareit hér í Reykjavík sem afmarkast Grófinni, Vesturgötu, Norðurstíg og Tryggvagötu.

Myndirnar sýna hvernig deiliskipulag getur þróast á tiltölulega mjög stuttum tíma, aðeins 5 árum. Þetta voru mikar breytingar. Draga má þá ályktun að forsendur skipulags séu oft veikar og að niðurstaðan sé stundum byggð á veikum grunni. Einkum þegar svo miklar breytingar eiga sér stað eins og hér á svo stuttum tíma.

Hér er ekki verið að segja að þróunin í þessu tilfelli hafi stefnt í óheppilega átt heldur er verið að benda á þetta hér til þess að vekja umræður og upplýsa lesendur um að hætta er á, eða möguleiki er á, að gjörbylta borgarhlutum á mjög stuttum tíma. Líklega vegna þess að skipulagið byggist hugsanlega á ótraustum tíðarandanum og auðvitað líka á einhverjum fjárhagslegum hagsmunum einkaaðila, því sem þjóðverjar kalla „Investoren – Architektur“.

+++++

Árið 2003 lá fyrir deiliskipulag af reitnum í heild sinni sem unnið var fyrir borgina af Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts. Deiliskipulagið er varfærnislegt og er það lögð áhersla á staðsetningu þess í borgarlandslaginu og staðaranda og andrými nærliggjandi reita. Þetta var vönduð vinna sem ætla mætti að geta staðist áreiti tíðarandans o.fl.

Tveim árum síðar  árið 2005 var gerð breyting á hluta svæðisins og skapaðir skilmálar fyrir nýbyggingu við Tryggvagötu norðan Naustsins sem reiturinn er nefndur eftir.

Svo árið 2008 var enn gerð breyting á deiliskipulaginu vestast á reitnum meðfram Norðurstíg þar sem öllu var gjörbyllt og byggingamagn aukið úr 2711 m2 í skipulagi Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts í 6767 m2 eða næstum þrefaldað.

+++++

Það má halda því fram að ekkert standi eftir af ágætu deiliskipulagi Guðrúnar aðeins 7 árum eftir að það var samþykkt.

Hvernig ætli geti staðið á því?

Hér að neðan er stuttlega farið yfir málið með skýringum við hvern skipulagsuppdrátt fyrir sig.

Breyting. 11.06.2016 – kl 10:00: Hjálmar Sveinsson, formaður skipulagsráðs, benti á það í athugasemdarkerfinu að síðasta breytingin á deiliskipulaginu var ekki gerð árið 2010 eins og í frumtexta færslunnar heldur árið 2008. Þetta hefur nú verið leiðrétt. Þessar breytingar voru því gerðar á síðustu 5 árunum fyrir Hrun en ekki 7.  Þetta  voru „skrýtnir tímar“.

 

Naustareitur_07_10_2003-small

Hér að ofan er deiliskipulag Guðrúnar Jónsdóttur af svokölluðum Naustareit. Reiturinn hefur sérstöðu í byggingarsögulegu tilliti segir í greinargerð Guðrúnar og sagt að “timburhús séu áberandi á þessu svæði og eru þar nokkur af elstu tmburhúsum borgarinnar”.

Forvinna og rannsókn Guðrúnar gengur allt til upphafsins þegar þarna var Hlíðarhúsaland um aldamótin 1500 og fjaran náði allt að húsaröðinni við Vesturgötu. Þess vegna voru þarna naust og reiturinn nefndur Naustareitur. Guðrún skoðaði ítarlega sögulegar forsendur, hún skoðaði byggingalistarleg einkenni staðarins í samhengi við umhverfið og vann sína tillögu á þeim trausta faglega grundvelli. Ég vek athygli á niðirbroti byggningarinnar við Tryggvagöti neðst til hægri á myndinni að ofan. Húsið er brotið niður í mælikvarða sem er í samræmi við umhverfið bæði hvað hæð snertir og allt uppbrot. Deiliskipulagið var samþykkt árið 2003

 

Naustareitur_18_05_2005 HÞB - small

Árið 2005 er hluti svæðisins deiliskipulagt að nýju. Hér eru ekki talin mikilvæg sjónarmið Guðrúnar um form og hlutföll.

Það sem vekur athygli mína er ekki sjálft deiliskipulagið, heldur meðferð þess í kerfinu.  Á uppdrættinum stendur: “Breytingin var ekki grenndarkynnt þar sem hún varðaði ekki hagsmuni annarra en umækjenda og Reyjavíkurborgar”. Þarna má sjá að borgin hefur sneitt hjá kröfunni um grenndarkynningu á þeim grundvelli að breytingin sé svo lítil og komi jafnvel engum við.  Og þá er spurt hver gætir hagsmuna Reykvíkinga í þessu tilfelli? Eru það embættismenn eða eru að stjórnmálamenn?

Maður veltir fyrir sé af hverju borgin skaut sér undan grenndarkynningu jafnvel þó breytingin sé lítil. Það læðist að manni sá grunur að stjórnsýslunni þyki allt þetta kynningar- og samráðsferli hið verst mál og hafi þarna leitað leiða til þess að komast hjá umræðu og veseni.

Ég hef funið fyrir þessu óþoli borgarinnar varðandi andmæli, samráð og leiðbeiningar borgaranna í skipulagsmálum. Ég hef tvisvar gert athugasemd við deiliskipulag í Reykjavíkurborg. Annarsvegar vegna Landspítalans og hinsvegar vegna deiliskipulags við Austurhöfn. Ég lagði mikla vinnu í báðar þessar athugasemdir sem voru lausnamiðaðar ábendingar um atriði sem gætu verið til bóta.

Í tilfell Landspítalans komu á níunda hundrað athugasemdir og ábendingar án þess að tillit hafi verið tekið til þeirra af hálfu borgarinnar.

Hinsvegar gerði ég ábendingu við deiliskipulag við Austurhöfn ásamt mörgum fleirum. Í athugasemdinni vegna deiliskipulags Austurhafnar var það einkum tvennt sem ég taldi vanreyfað í deiliskipulaginu. Annarsvegar var ekki gert ráð fyrir samgönguásnum sem á að ganga þarna um frá Vesturbugt og hinsvegar þótti mér skipulagsskilmálar vanreifaðir varðandi húsagerð hæðir, þakhalla og öll hlutföll og vísaði í greiningu Guðna Pálssonar og Dagnýjar Helgadóttir arkitekta í Kvosarskipulaginu frá 1986. Athugasemdir af svipuðum toga komu frá fleiri aðilum.

Borgin tók ekki tillit til athugasemda minna og annarra um aðlögun húsa á hafnarsvæðinu að Kvosararkitektúrnum í heild sinni. Líklegt er að sá vandræðagangur og almenn óánægja með útkomuna við Hafnartorg eigi rætur að rekja til þessa.

Eftir þessa reynslu hef ég ákveðið að gera ekki athugasemdir við skipulagáætlanir framar. Það hefur enga þýðingu samanber mína reynslu. Manni er ekki einu sinni þakkað fyrir.

Ég sé nú að deiliskipulagið var líka vanreifað svona sögulega séð þegar steingarðinum fræga var ekki gerð skil í skipulaginu. Þessi galli á eftir að kosta skattborgarana miklar fjárhæðir er fram heldur sem horfir.

 

TRYGGVAGOTUR.2051290. mars 2008

 

Að lokum er hér síðasta útgáfan á deiliskipulagi á þessum reit sem samþykkt var árið 2008. Þar er tekin fyrir vestasti hluti reitsins þar sem stóðu gömul hús sem nú hafa öll verið rifin. Á skipulagi Guðrúnar var gert ráð fyrir alls 2711 m2 byggingum á lóðunum en skipulagið að ofan gerir ráð fyrir 6767 m2 eða nákvæmlega 2,5 sinnum meira en fyrra skipulag.

Ef tvísmellt er á myndina má sjá þetta betur. Athygli vekur að gert er ráð fyrir kjallara í húsunum sem nær allt að fjórum hæðum niður í klöppina.

++++

Lesandinn sem sendi mér myndirnar spyr hver voru hin borgarskipulagslegu rök fyrir breytingunum á skipulagi Guðrúnar Jónssdóttur sem hún vann fyrir borgina? Breytingarnar sem gerðar voru eru að sögn til komnar af frumkvæði lóðarhafa.

++++++++++

Hér er slóð að tveim færslum um reitinn.:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/04/07/110-ara-gamalt-hus-rifid-i-midborg-reykjavikur/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/04/16/tryggvagata-hvad-kemur-i-stadinn-fyrir-thad-sem-var-rifid/

+++++++

Efst í færslunn er ljósmynd af svæðinu sem deiliskipulagið frá 2008 nær yfir og neðst er svo skondin mynd eftir listamanninn Haldór Baldursson og lýsir því hvernig hann sér miðborg Reykjavíkur í framtíðinni.

13339614_1791736311059728_4493487944751756879_n

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.5.2016 - 15:46 - 9 ummæli

Arkitektúr á norður Spáni

photo 33

Ég átti þess kost að fá að skoða byggingalist á norður Spáni siðustu daga. Þetta var auðvitað stórkostleg upplifun þar sem nema mátti rótgrónar rætur menningar og byggingalistar. Arkitektúrinn er staðbundin að formi til og ekki síður hvað allt efnisval varðar. Nýjar byggingar tóku flestar mið af staðnum og menningunni.  Hefðirnar og borgarvefurinn ásamt nýsköpun er samofin. Það var heillandi að ganga götur Vigo, Santiago de Compostela, Leon, Luga, Calahorra, San Sebastian, Bilbao og fleiri borga og þorpa. Staðrandinn var allstaðar lykilþáttur í upplifuninni.

Þarna er líka mikið af verkum stjörnuaritekta nútímans. Ég skoðaði verk Calatrava og tvö verk Frank Gehry og eitt eftir Zaha Hadid og svo var það auðvitað Oscar Niemeyer.  Þessi verk bera öll sterk höfundareinkenni arkitektanna en skorta oft menningarleg og formleg tengsl við umhverfið,.

Af þessum nýju verkum var ég ánægðastur með byggingu Frank Gehrys hjá vínbændunum Marques de Riscal i Rioja. Þar hefur verið byggt lítið hótel með um 40 herbergjum. Herbergjaálmurnar eru látlausar og einfaldar og sverja sig í arkitektúr staðarina. Ég er ekki einusinni viss um að Gerhy hafi teiknað þær. Anddyrið og aðkoman er týpisk fyrir Gehry og betri en aðrar byggingar sem ég hef skoðað eftir arkitektinn ef frá er skilin Disney Consert Hall í LA. Hinar eru Louis Vitton í París, Guggenheim í Bilbao, DZ Bankinn í Berlin, EMP í Seattle og Dancing House í Prag.

Hér fylgja nokkrar myndir sem ég tók á síma minn hjá vínbóndanum Marques de Riscal nú í vikunni. Efsa myndin er líka þaðan. Neðst kemur svo ein mynd af verki Zaha Hadid og ein af flugstöðinni í Bilbao eftir Calatrava.

Og í blálokin kemur dæmigerð götumynd sem er í fulkomnu samræmi við þau borgarhús sem eru algengust á norðurhluta Spánar og þann arkitektú sem heimamenn og gestir þeirra sækjast eftir.

++++

Bæt við kl. 18:20.

Hér eru tveir gamlir pistlar um Oscar Niemeyer:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/10/07/oscar-niemeyer-bratt-102-ara/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/12/14/ocar-niemeyer-104-ara-the-last-modernist/

Og hér er fjallað um Frank Gehry á fjórum stöðum:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/12/17/frank-gehry-i-astraliu/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/08/17/frank-gehry-a-sudur-jotlandi-the-bilbao-effect/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/03/24/new-york-by-gehry/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/06/06/gehry-%E2%80%9Cfardu-a-eftirlaun%E2%80%9D/

og hér er ein færsla sem Disney Consert Hal er nefnd:

Og hér er fjallað um Frank Gehry á fjórum stöðum:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/05/10/los-angeles/

image

photo 51

Aðkoman að Marque de Riscal kemur manni í gott skap þar sem mikil gleði er í formi og litum. Þungi hltinn er úr sama efni og hefur verið ríkjandi í Rioja um aldir, gulleitum sandstei meðan hið dæmigerða formmál Gehrys í sveigðum málmplötum kallast bæði á við landslagið í fjarska, bugðóttar vínekrurnar nær og vínviðinn og rásarunnana við þá. Þetta formmál Gehrys er víða ofnotað.

photo 23

Hér sést hvernig sandsteinninn í verki Gehrys kallast á við eldri húsin. Það er líka einkennandi ap sandsteinshluti byggingar Gehrys eru lokaðar eins og gömlu húsin. Þ.e.a.. þau samansatanda af veggjum með gluggagötum, ekki gluggaböndum eins og algengast er í nútíma húsm.

4023_l

Að ofan er gestamóttaka hjá vínbóndanum Tondonia í Rioja. Húsið er teiknað af stjörnuarkitetinum Zha Hadid sem er nýlátin. Það var tekið í nokun árið 2003. Ég var spenntur að skoða þetta en varð fyrir vonbryggðum. Það sýndi sig að húsið hentaði ekki starfsseminni og var okkur boðið að smakka vínin í gömlu húsnæði vínekrunnar. Ég hafði heyrt nokkrar sögur um að hús. Þaðer eins og höfundurinn hafi misst sjónar ag hlurverki byggingarlistarinnar sem er fyrst, fremt og síðast nýtjalist. Manni dettur í hug kennisetningu sem kennd er við Le Corbusiere eða er afsprengi kennisetningar hans. Þar segir að flugvél sé ekki flugvél nema hún geti flogið. Kannski mætti segja að þetta hús sé ekki hús vegna þess að það hentar ekki starfsseminni.

Aviles-Spain-by-Oscar-Niemeyer1

Að ofan er svo bygging Oscars Niemeyer í Aviles á norðurströnd Spánar. Arkitektinn lest fyrir nokkrum árumn tæplega 105 ára gamall.

Hér að neðan er mynd af flugstöð Calatravas í Bilbao. Byggingin er einkar skýr í uppbyggingu og allri hugmyndafræði. Það er líka sérlega vel hugað að stækkun og hnökralausu flæði notendanna, sem eru auðvitað farþegarnir. Þarna var gaman að koma, margir spennandi vinklar í starfhæfri byggingu þar sem formmálið er ekki að þvælast fyrir í sköpuninni.

3962_bilbao-airport

photo

Dæmigerð götumynd í borg eða þorpi á norður Spáni þar sem þess er gætt að nýbyggingar rjúfi ekki byggngasöguna og staðarandann heldur undirstriki þau gæði. Þarna eru oftast eingöngu byggð hús sem hvergi geta staðið annarsstaðar. Gámastíllinn sést ekki í miðborgunum þó hann sjáist víða á jaðarsvæðum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.5.2016 - 13:32 - 16 ummæli

Deiliskipulag – Hagsmunaárekstrar?

56714557a96ac56714557a96f1

Þegar ég kom frá námi var það talið óhugsandi að sami aðilinn deiliskipulagði og hannaði húsin inn í reitinn sem hann skipulagði. Þetta var vegna þess að talið var að hagsmunirnir færu ekki saman.

Deikliskipulagshöfundar voru taldir vanhæfir til þess að hanna hús inn í skipulag sitt nema að mjög takmörkuðu leyti. Ráðgjafinn gat, að margra mati ekki þjónað tveim herrum samtímis, lóðarhafa og almennings. Annaðhvort þjónaði hann öllum borgarbúum og umhverfinu eða lóðarhafa, ekki báðum.

Þegar skipulagshöfundur tók að sér að deiliskipuleggja mátti hann vita að hann mundi ekki teikna húsin á svæðinu.  Á  þessu var ein undantekning og það var þegar samkeppni var haldin um skipulag og byggingar. Það þekktust líka einstök tilfelli þar sem undantekning var gerð og höfundi skipulagsins var heimilað að teikna lítinn hluta húsa á reitnum sem hann hafði skipulagt.  En það var ekki gert fyrr en búið var að samþykkja og staðfesta skipulagið og skýr skil voru milli verkþátta. Ég man eftir að slík undantekning þurfti  formlega samþykkt í stjórnkerfi sveitarfélagsins.

Þetta er ekki svona lengur.

Nú upplifir maður hvað eftir annað að sami ráðgjafinn skipuleggur og hannar húsin inn í skipulagið. Oft skipuleggur hann fyrir lóðarhafann og leggur skipulagið inn til sveitarfélagsins á hans reikning. Þetta vinnulag gerir það að verkum að hætta er á að almannahagsmunir víki fyrir einkahagsmunum  lóðarhafa þegar þannig stendu á.  Ráðgjafarnir hafa líka hagsmuni að gæta sem ekki fara nauðsynlega saman  með hagsmunum heildarinnar og umhverfisins.

Þvert á móti.

Hagsmunir ráðgjafanna fara oft saman með hagsmunum lóðarhafa sem vill byggja mikið og stórt. Því meira byggingamagn því fleiri fermetrar verða til sölu eða leigu og því fleiri fermetrar sem byggðir eru því hærri verður þóknunin til ráðgjafans.

Þatta er áhyggjuefni.

Það má ekki misskilja mig þannig að ég sé andsnúinn mikilli nýtingu á lóðum. Þvert á móti er ég fyljgandi þéttingu svo lengi sem hún bitnar ekki á heildarmyndinni og borgarlandslaginu eins og við viljum hafa það.

Þetta verklag er ekki óalgengt erlendis og gengur oft vel þar sem lóðarhafanum (developer) er veitt kröftugt aðhald sjórnvalda og umsagnaraðila.

En ég er þeirrar skoðunar heppilegra sé  að sá sem skipuleggur einbeiti sér að hagsmunum borgaranna og umhverfisins og eftir að skipulagsvinnunni líkur eiga aðrir ráðgjafar að taka við og hanna byggingarnar með hagsmuni lóðarhafa að leiðarljósi. Svo takast þessir tveir ráðgjafar á og gæta hagsmuna sinna umbjóðenda, lóðarhafa annarsvegar og  borgaranna, borgarlandslagsins, staðarandans og manneskjulegs umhverfis hinsvegar.

Þetta nýja verklag er að verða reglan frekar en undantekning og oft hallar á heildarhagsmuni borgarbúa meðan hagsmunir lóðarhafa og ráðgjafa þeirra verða ofaná.

Þetta gengur auðvitað ekki. Það gengur ekki að sami aðilinn sitji beggja megin við borðið að óbreyttu. Þetta vinnnulag krefst mikils aðhalds og eftirfylgni frá sveitarfélaginu. Þetta hlýtur líka að valda kjörnum fulltrúum vandræðum þegar þeir fjalla um málið og eiga að gæta hagsmuna heildarinnar.

+++++

Ég nefni fimm nýleg dæmi þar sem sömu aðilar hafa skipulagt og hannað húsin: Reiturinn við Mánatún/Borgartún, þar sem sama stofan skipulagði og teiknaði öll húsin. Þar er nýtingahlutfall hærra en gerist í grenndinni. Höfðatorgsreitinn þar sem svipað var uppi á teningnum.  Álíka sögu er að segja um Barónsreit sem er að fara af stað.  Naustareitur við Tryggvagötu og Norðurstíg er af sama toga og auðvitað Landspítalinn þar sem allt forræði skipulags- og húsahönnunnar er hjá lóðarhafa. Ég endurtek að það má ekki misskilja mig í þessum skrifum. Þessi dæmi má ekki taka þannig að ég sé að hallmæla niðurstöðunni, húsunum eða deiliskipulaginu. Þetta eru eflaust allt ágæt hús og ágætt deiliskipulag. Dæmin eru tekin vegna þess að þau falla að efni pistilsins.

Þetta er ábyggilega nokkur tyrfið fyrir leikmenn að skilja en vert er að vekja athygli á þessu og hugleiða.

+++++

Efst er ljósmynd af húsum á hinum svokallaða Bílanaustsreit við Mánatún og Borgartún. Að neðan kemur mynd af Höfðatorgi og svo neðst mynd af skipulagshugmynd við Barónsreit.

HfatorgTower1small1

 

4-il2

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2016 - 14:24 - 4 ummæli

BIG brýtur blað í New York

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(13_of_32)

 

Ljósmyndarinn Laurian Ghinitoiu hefur nýlega tekið myndir af nýjasta verki íslandsvinarins og danans Bjarke Ingels í New York.

Þetta er fyrsta bygging hans í Bandaríkjunum.

Hér er um að ræða nýja  gerð skýjakljúfa courtscraper,  þar sem brotið er blað í gerð skýjakljúfa um alla jarðarkringluna. BIG hefur oft verið álasað um að skilja ekki staðarandann. Þetta er sammerkt með mörgum stjörnuarkitektum.

Afstöðumyndir og viðbrögð húsa við umhverfinu er almennt stórlega vanmetið og aldrei nægjanlega um það hugsað. Stundum sér maður umfjöllun um mannvirki þar sem engin grein er gerð fyrir næsta umhverf þess. Þetta hús er t.d. gott í NY en væri að líkindum slæmt í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Allt á sinn stað og sína stund.

Daninn, Bjarke Ingels er hér í essinu sínu. Hann skilur staðinn og anda stórborgarinnar. Í þessu íbúðahúsi í New York tekst honum vel upp. Hann tekur hefðbundið hús sem er einskonar randbyggð og togar það til þannig að úr verður nokkurskonar píramídi sem opnar sig að útsýni og sólarátt. Við þetta hámarkar hann gæði staðarins þannig að sem flestir njóti þeirra og fá bæði útsýn og dagsbirtu.

Hægt er að kynna sér þetta betur á vef New York Times eða hér gallery of under-construction photos.

Það hefur verið fjallað um verk BIG allmörgum sinnum hér á þessum vef. Pistlana má finna á leitarvélinni hér til hliðar með því að slá inn leitarorðinu BIG.

Alls er um að ræða 29 pistla.

 

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(6_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(2_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(17_of_32)

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(30_of_32)

 

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(22_of_32)

Svalir á skýjakljúf í NY. Það er ekki algild regla.

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(12_of_32)

Byggingin sker sig skemmtilega út í New York Skyline. Frávikin eru byggð á hugmyndafræði „funktionalismans“ sem markir rugla saman við „modernismann“ sem er ekki alveg það sama.

copyright_laurian_ghinitoiu_big_ny_(3_of_32)

Að neðan má sjá skýringarmynd um hugmyndina. Bjarke Ingels tekur hefðbundið randbyggðarhús og togar það til þannig að sem flestir njóta útsýnis og birtu sem best.

1297115073-w57-diagram-by-big-06-1000x6251

1297115078-w57-diagram-by-big-08-1000x6251

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2016 - 08:33 - 7 ummæli

Reykjavík – „Bláa Bókin“ – skipulagsmál fyrir meira en 50 árum.

 

 

photo

Lesandi síðunnar sendi mér þrjú eintök af hinni svokölluðu „Bláu Bók“ sem sjálfstæðismenn  í bæjarstjórn Reykjavíkur gáfu út fyrir kosningar á árum áður. Þetta eru eintök frá árunum 1954, 1962 og 1966. Þetta eru mikil rit í stóru broti með mikið af myndum og allskonar upplýsingum á 35-50 síðum.

Hér að neðan koma nokkrar myndir úr Bláu bókunum 1962 og 1966.

photo 21

Að ofan er hluti af Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1983 sem kynnt var í Bláu bókinni. Þarna sér maður tröllaukið gatnakerfi sem var er til þess að þjóna einkabílnum í miðborginni. Ef rýnt er í uppdráttinn sést Laugavegurinn sem hugsaður var sem aðal verslunargata borgarinnar ásamt götunum í Kvosinni.

Óhemju mikið af gömlum húsum eru látin víkja fyrir einkabílnum.

Grettissgata átti að verða meiriháttar safnbraut inn og út úr miðborginni. Nánast öll hús beggja vegna götunnar hefðu þurft að víkja vegna breikkunnar hennar. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg hefði þurft að víkja enda er það í miðju götustæðinu sem átti að liggja vestur að Garðastræti um Austurvöll. Suðurgata átti að liggja i gegnum Grjótaþorpið  og rústa því og tengjast svo Tryggvagötu.

Þetta skipulag var að mestu unnið af færustu erlendu sérfræðingum sem völ var á ásamt fremstu arkitektum og skipulagsmönnum landsins. Þetta sýnir manni í raun að maður á að taka álit sérfræðinga með fyrirvara.

11

Að ofan er teikning sem sýnir þvergötur Grjótaþorps milli Aðalstrætis og Garðastrætis þar sem er tröppukerfi en engir bílar. Þetta eru verslunargötur fyrir fótgangandi vegfarendur. Mér sýnist höfundarnir hafi gert ráð fyrir að hundahald í borginni yrði leyft. En enginn er REMAX loftbelgurinn!

photo 2Hér eru kosningaloforð sjálfstæðismanna vegna frágangs gatna á árunum 1962-1971. Gulu göturnar var búið að malbika á þessu kosningaári. Grænu göturnar átti að malbika á árunum 1962-1964. Bláu á árunum 1965-1968 og þær rauðu á árunum 1969-1971. Ekki veit ég annað en að þetta hafi allt meira og minna gengið eftir. Það kom mér á óvart hvað í raun er stutt síðan að götur borgarinnar voru malbikaðar.Ég man þegar Þósgata og Baldursgata voru malargötur þar sem „sprautubílar“ óku um og sprautuðu vatni á göturnar til þess að binda rykið á góðviðrisdögum.

photo 31

Það vekur athygli hvað bílaflotinn var glæsilegur í Reykjavik 1962. Bandarískir eðalvagnar raða sér meðfram götunum meðan minni bílar viðast hafa valið sér stæði inni á miðju Hallærisplaninu. Ég man að fólk sat gjarna inni í bílum sínum meðfram götunni, hlustaði á „Kanann“ og horfði á fólkið sem labbaði „Rúntinn“.

photo 41

Að ofan er skissa úr bæklingnum frá 1962 sem sýnir Fossvog og Fossvogsdal. Þarna eru hitaveittankarnir í Öskjuhlíðinni til vinstri og nokkur byggð í suðurhlíð Fossvogsdals. Það virðist vera gert ráð fyrir nokkurri hafnarstarfssemi í Fossvogi.

photo 11

Að ofan má lesa hvernig fjármunum var varið á árinu 1964. Málaflokkarnir eru nokkuð öðruvísi skilgreindir en nú. Til að mynda er einn flokkurinn „Íþróttamál, útivera og listir“  sem tóku 3,95% af fjárhagsáætluninni, heilbrigðis og hreinlætismál 9,5%, gatnagerð og umferðamál 17,27% og stærsti flokkurinn sem voru félagsmál tóku 25,1% af fjárhagsáætlun borgarinnar og 0,1% til mótöku erlendra gesta og annarrar risnu!

photo 111Hér er varið að grafa og leggja svokallað Kringlumýrarræsi sem lagt var beinustu leið út í sjó.

photo 2111

Hér er verið að steypa Miklubrautina.

Einn aðalhöfundur Aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983 var Peter Bredstorff prófessor við arkítektadeild listaháskólans í Kaupmannahöfn. Hann var þá álitinn einn sá alfrasti á sínu sviði á Norðurlöndunum. Skipulagið þótti nútímalegt og framúrskarandi á sínum tíma. En það átti engu að síður stóran þátt í að gera Reykjavík að þeirri dreifðu bílaborg sem hún er orðin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.4.2016 - 20:51 - 13 ummæli

Landspítalinn – veruleikafirring?

13062413_816341858498596_1409195663931420461_n

Ég sá í fréttum RUV rétt áðan að heilbrigðisráðherra er búinn að tryggja fjármögnun á fyrsta áfanga þjóðarsjúkrahússins.

Því ber að fagna.

Það er mikilvægt að fjármögnun sé tryggð þegar uppbygging heilbrigðiskerfisins er á dagskrá. Það gladdi mig líka að heyra að ráðherrann var ekki eins einbeittur hvað varðaði staðsetningu sjúkrahússins við Hringbraut og oftast áður. Hann vitnaði ekki í gamlar skýrslur eða réttlætti staðinn á nokkurn hátt.

Nú lagði hann ekki sitt persónulega mat undir heldur sagði að hann væri að framfylgja stefnu Alþingis um staðsetninguna og það mundi hann gera þar til breyting yrði á ef svo bæri undir, ef ég skildi rétt.

Vonandi skiptir Alþingi um stefnu og og fer að vilja sérfræðinga og mikils meirihluta þjóðarinnar og tekur endalega ákvörðun um staðsetningu spítalans í kjölfar faglegrar og opinnar staðarvalsgreiningar.

Manni virðist að sumir þeirra sem halda því fram að uppbygging Landspítalans við Hringbraut sé besti staðurinn fyrir þjóðarsjúkrahúsið skjóti skollaeyrum við öllum óskum um að nýtt opið og faglegt staðarval verði gert, vera jafnvel svoldið veruleikafirrtir.

Það hefur verið óskað eftir nýrri staðarvalsgreiningu með föstum faglegum rökum í sjö ár.  Aðstandendur og þeir sem fara með almannafé fyrir okkar hönd hafa ekki tekið þátt í samtalinu um staðsetninguna að neinu marki og ekki viljað mæta óskinni um nýja faglega og óháða staðarvalsgreiningu en svarað því til að það sé of seint. Málið sé komið of langt. Ekki verði aftur snúið.

Þetta hafa þeir sagt í sjö ár.

Veruleikinn er sá að allar forsendur fyrir staðarvalinu voru brosnar fyrir sjö árum þegar óskin um nýtt staðarval kom fram af miklum þunga. Og ekki bara það, heldur hafa komið fram ný rök og vaxandi almennar efasemdir um ákvörðunina í framhaldinu. Það hefur sýnt sig að ástand núverandi bygginga er verra en talið var. Lausnin kallar á tugmiljarða fjárfestingu í nýrri gerð þyrlna m.m.. Komið er nýtt aðalskipulag, fjárhagslegar forsendur eru aðrar o.s.frv.

Allt er breytt.

Forsendurnar fyrir Hringbrautarstaðsetningunni eru brostnar og samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti almennings og næstum allir læknar búnir að átta sig á því að staðarvalið við Hringbraut þarf að endurskoða með opnum og faglegum hætti.

Nálægðin við aðalbyggingar háskólanna eru ofmetin.  Það þarf ekki að styrkja miðborgina. Það er ekki ódýrast að byggja við Hringbraut.

Það er dýrast.

Færð hafa verið rök fyrir því að það sé ekki fljótlegra að byggja við Hringbraut.

Og yfir þessu öllu er ljóst þeim sem hafa skoðaða málið að skipulagslega, samfélagslega og umhverfislega er alls ekki víst að Hringbrautin sé besti staðurinn eins og margsinnis hefur verið rakið.

Allar þessar staðreyndir og öll þessi sjónarmið hreyfa ekki við þeim sem hafa haldið utan um þessi mál síðastliðin 14 ár. Manni finnst þeir ekki átta sig á veruleikanum sem er allt annar nú en en fyrir áratug.

Það verður ekki endanlega skorið úr um þetta mál með karpi og ritdeilum eða skoðanakönnunum.

Eina leiðin til að leysa ágrenninginn  er að gert verði opið og óháð staðarvalsmat. Og það er ekki of seint að gera það.

En tíminn styttist.

Það er sjálfsagt að taka undir þegar Kári Stefánsson segir m.a. í nýlegri grein í Morgunblaðinu.:  „Ef við værum að byrja hönnunarferlið ættum við að fá landsins bestu sérfræðinga til að meta hvort það mætti reisa húsið fljótar við Hringbraut …. Ef svarið er nei, þá höfum við frelsi til þess að velja annan og betri stað, annars ekki.“ Í sömu grein segir hann að tengslin milli Landspítalans og Háskólanna skipti engu máli sem er í samræmi við það sem við þekkjum erlendis þar sem verið er að byggja háskólasjúkrahús þar sem enginn er háskólinn.

++++

Nú hefur fjármögnun verið tryggð fyrir þessa miklu framkvæmd og því er síðasta tækifæi til þess að láta af oflætinu og líta til vilja mikls meirihluta þjóðarinnar og næstum allra  lækna og láta gera faglega úttekt á stað fyrir þetta mikla hús. Við meigum engan tíma missa.

++++

Myndin efst í færslunni er af skoðanakönnun meðal lækna. Hún er opin og ekki leynileg þannig að sjá má á könnuni hvernig einstakir læknar svara. Þarna sést að 87.2% lækna (næstum allir þáttakendur) sem þátt hafa tekið í könnuninni vilja aðra staðsetningu fyrir nýja Landspítalann. Þetta er mjög athyglisvert þar sem hér eru þáttakendur í könnuninni upplýstir um hvað verkefnið gengur út á.

13055337_813968825402566_4159112154334982351_n

Að ofan er skoðanakönnun Viðskiptablaðsins sem sýnir að  36,5% landsmanna vilja byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut en 63,5% annarsstaðar þar af 50% á Vífilsstöðum.

13043242_816191681846947_1713635227525882126_n

Í Gallupkönnun frá því í síðustu viku fyrir  samtökin um betri spítala á betri stað vilja 35,7% byggja við Hringbraut og 44,6% er því andvígt. Spurningin var svona: „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut?“

Þegar spurt var.: „Hvar vilt þú að nýr Landspítali rísi?“ sýndi sig að 61,5% vildu byggja annarsstaðar en við Hrinmgbraut.

Þurfa þeir sem véla um þessi mál ekki að fara að byrja að hlusta áður an það verður of seint, eða er einhver veruleikafyirring hér á ferð? Veruleikinn er að minnstakosti annar nú en árið 2002 þegar fyrsta staðarvalsskýrslan var gefin út.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2016 - 08:54 - 12 ummæli

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku verðlaunin fyrir menningararfleiðar/ Europa Nostra 2016

L1002048

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlýtur Evrópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleiðar/ Europa Nostra verðlaunin 2016

Evrópusambandið og Europa Nostra tilkynntu þann 7. Apríl s.l. að Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði hlyti Evópsku Menningarverðlaunin fyrir verkefni á sviði menningararfleifðar fyrir árið 2016. Sigurvegurum verður formlega afhent verðlaunin við sérstaka athöfn, sem leidd verður af Tibor Navracsics og Plácido Domigo, kvöldið 24 Maí í sögulega Zarzúela leikhúsinu í Madríd.

Við endurnýjunina sem hófst árið 2009 var mikil virðing borin fyrir upphaflegum efniviði og handverki. Notað var timbur úr gamla húsinu eins og hægt var og gömlu handverki.

Þegar það er haft í huga að um 70% arkitekta í t.a.m Frakklandi vinna að endurbyggingum eldri húsa en einungis milli 2-4% hér á landi verður það að teljast stórviðburður að íslendingum hlotnast virðulegustu verðlaun á sviði endurbygginga eldri húsa í álfunni. Einkum vegna þess að hér á landi er almennt lítil virðing borin fyrir menningararfleifðinni þegar kemur að gömlum húsum. Jafnvel þó að einungis 0,3% húsa í Reykjavík séu t.d. frá árinu 1907 eða eldra veigra menn sig við að leggja í endurnýjun þeirra fáu húsa sem til eru. Þeir vilja frekar rifa þau!

Þessi verðlaun efla vonandi skilning  almennings og stjórnmálamanna á mikilvægi menningararfleifðarinnar fyrir samfélagið og hagkerfið. Endurbygging gamalla húsa byggir brýr á milli nútímans, framtíðarinnar og fortíðarinnar.  Ekki veitir af. Manni virðist sem núverandi kynslóð hér á landi botni ekkert í þessu þegar horft er til niðurrifs húsa hér í Reykjavík að undanförnu.

Ég hef jafnvel heyrt arkitekta flokka kollega sína í annarsvegar verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingasinna eins og um sé að ræða andstæðinga þar sem verndunarsinnar eru vondir og uppbyggingasinnar góðir og bjartsýnir. Þetta er hinn mesti misskilningur sem ber vott um þekkingarleysi og/eða skort á umburðalyndi.

Evrópusambandið og Europa Nostra benda á það augljósa að húsavendun ýtir undir hagvöxt, eflir sjálfbæra þróun og hvetur til félagslegrar þátttöku, samfélagslegrar ábyrgðar og samheldni – sem skiptir meira máli nú, en nokkurn tíma áður.

Þetta þurfa íslenskir arkitektar og stjórnvöld að átta sig á. Endurnýjun eldri húsa og húsavernd er talin hluti af „Skapandi Evrópa“ (e. Creative Europe) verkefninu og skiptir miklu máli varðandi alla uppbyggingu og jákvæða og þroskandi menningu meðan niðurrif er nánast ekkert annað en ómenning í flestum tilfellum.

++++++

Hér kemur hluti úr dómnefndarálitinu eins og það kom fram í frettatilkynningu:

Franski spítalinn á Fáskrúðsfirði

„Verkefnið fólst í endurbyggingu og flutningi Franska spítalans til Fáskrúðsfjarðar þar sem hann var upprunalega byggður. Auk spítalans voru kapella, sjúkraskýli og Læknishús á sama stað, sem einnig voru gerð upp eða endurbyggð. Nafn spítalans má rekja til stofnunar hans árið 1904 til að sinna fjölda franskra sjómanna sem veiddu við strendur Íslands í um 400 ár. Við upphaf síðari heimstyrjaldarinnar hættu þeir siglingum til Íslands. Þrátt fyrir tilraunir bæjarfélagsins til að halda spítalanum gangandi var honum fljótt lokað og húsið flutt yfir fjörðinn og breytt í íbúðarhús. Árið 1980 var húsið endanlega yfirgefið og lagðist í eyði. Uppbyggingarverkefnið, sem hófst árið 2009, fólst í samstarfi arkítekta, verkfræðinga og handverksmanna Minjaverndar og innan bæjarfélagsins undir stjórn Minjaverndar.  

Þetta var stórt verkefni með það að markmiði að endurlífga þetta markverða tímabil í sögu bæjarfélagsins með því að breyta spítalanum í hótel og safn til minningar um hinn mikla fjölda sjómanna sem fórust við strendur Íslands og á spítalanum. Virðing var borin fyrir upprunalegum efniviði og handverki við endurbyggingu hússins, timbur úr gömlu byggingunni var endurnýtt og gömlu handverki beitt til hins ítrasta. “Verkefnið endurvekur ákveðið tímabil í Evrópskri sögu með því að rifja upp þessa tengingu milli Frakklands og Íslands. Samstarfshópurinn hefur lagt sig fram um að varðveita þessa merku og viðkvæmu byggingu sem og hina áhugaverðu arfleifð sem hún stendur fyrir“, sögðu dómarar verkefnisins.    

“Endurgerð byggingar eins og Franska spítalans fyrir ólíka starfsemi er vandasamt verk. Úrlausn og úrræðasemi samstarfshópsins er sérlega góð. Sú ákvörðun að blanda saman upplýsandi safni og fallegu hóteli er mark um virðingu hópsins fyrir sögu hússins og áherslu þeirra á að auka aðgengi allra að arfleifð hennar.“ Byggingin er staðsett í stórbrotnu og fallegu landslagi Fáskrúðsfjarðar og hefur laðað ferðamenn að þorpinu og þar með endurvakið stöðu þess sem athvarf fyrir þá sem eru langt að heiman.“

++++

Það er ástæða til þess að óska þeim sem stóðu að verkinu til hamingju en þeir eru Þorstein Bergsson hjá Minjavernd, Arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson hjá arkitektastofunni ARGOS.  Árni Páll Jóhannesson setti upp glæsilega sögusýningu í húsinu sem er hluti af verðlaunaverkefninu.

Sýning Árna Páls fjallar um fiskveiðar frakka sem hófust á Íslandsmiðum árið 1614 og stóðu yfir árlega fram að fyrri heimsstyrjöld 1914. Talið er að um 400 skútur hafi farist á Íslandsmiðum á einni öld frá 1810 til 1914. Allur aðbúnaður sjómannanna var hörmulegur.

Færslunni fylgja frábærar ljósmyndir sem teknar voru af Guðmundi Ingólfssyni hjá Ímynd. Efst er mynd af sýningu í húsinu sem unnin er af Árna Páli Jóhannesson Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir innan úr byggingunu og frá því þegar endurbyggingin átti sér stað.

+++++

_DSC0066Þarna er í raun um að ræða þyrpingu húsa með spítalanum, læknishúsinu, kapellu og líkhúsi. Allt umhverfi og bryggjan eru til fyrirmyndar.

_DSC9783

_DSC9594Í þessum gömlu húsum er efniskenndin og handverkið áþreyfanlegt. Maður sér pensilstrokur málarans og spónafar trésmiðsins.

_DSC9668Það er í sjálfu sér upplifun að gista á hótelum sem þessum. Það þekki ég frá Flatey á Breiðafirð þar sem sömu aðilar hafa staðið að uppbyggingu og hóteli í á annað hundrað ára gömlum húsum. Maður sér þssa nálgun víða. Ég nefni Búðir á Snæfellsnesi þó það sé aðeins á annan hátt. Fyrir ferðamanninn er gistingin hluti af upplifuninni þegar svona er búið að þeim. Það er hún ekki þegar gestum er vísað í hin svokölluðu „gámahótel“ sem víða er boðið upp á og jafnvel látin ryðja gömlum húsum úr vegi.

Herbergi invalidSjúkrahúsið er nú glæsilegt hótel. Ekki er annað að sjá en að hægt sé að koma fyrr nútimalegri hótelstarfssemi í aldagömlum húsum ef vilji og hæfileiki þeirra sem að standa er fyrir hendi. Maður veltir fyrir sér hvort ástæðan fyrir niðurifi eigi sér stað sé vegna hins gagnstæða; vilja- og hæfileikaleysi.

Kapella inni AKapellan

LKz8TCS642BUt1Plh-9YGDPoLMf0alLla9jumP1-9KQ,-ZTMKV_gbABEIriNPMh8RVhoq0vO8f955chzBx7LGowHér er hluti hússins komið á örubíl og lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar.

 

Myndir til skipta 050Ástand hússins var ekki gott þegar hafist var handa. En ljóst er að það var hvergi nærri því að vera onýtt.

Myndir til skipta 061

scan2Sagt hefur verið að arkitektarnir hjá ARGOS teikni „með hjartanu“

L1001996Í læk sem liggur meðfram húsunum til sjávar hefur verið komið fyrir allnokkrum sæbörnum hnullungum þar sem kappað hefur verið í nöfn nokkurra þeirra skipa sem fórust við Íslandsstrendur á öldum áður.

L1002000

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is