Miðvikudagur 26.4.2017 - 13:24 - 16 ummæli

Borgarlínan – Reynslusaga frá Odense

Í Odense á Fjóni í Danmörku var komið upp sporvagnakerfi í september árið 1911.

Sporvagnarnir í Odense urðu strax mjög vinsælir. Á einu og hálfu ári frá því að rekstur hófst höfðu í mars 1913 2,2 miljónir borgarbúa nýtt sér þjónustuna. Þetta er gríðarlega mikið þegar það er haft í huga að bæjarbúar voru aðeins 43 þúsund á þeim tíma. Þetta samsvarar því að hver íbúi hafi nýtt sé sporvagnana 51 sinni á tímabilinu.

Þetta var auðvitað annað samfélag þarna i Odense fyrir rúmum 100 árum. Það voru færri bílar en á móti kom að nærþjónustan var nær íbúðahúsunum en nú er. Fólk gekk og hjólaði meira þá en á okkar dögum.

Sporvagnarnir í Odense voru svo lagðir niður árið 1951. Í Kaupmannahöfn voru sporvagnarnir lagðir niður árið 1972. Það sama gerðist víða um lönd. Þetta var einkum vegna þess að einkabílum hafði fjölgað verulega og sporvagnarnir töfðu fyrir umferð þeirra og töpuðu nokkuð vinsældum sínum. Sporvagnarnir gengu ekki alltaf í sérrýmum og kerfið var líka orðið gamalt og slitið víðast hvar.

Það hefur lengi verið ljóst að einkabíllinn hentar ekki sem aðalsamgöngutæki í borgum. Sú lausn gengur ekki lengur. Hún er úr sér gengin óhagkvæm og slæm fyrir umhverfið.

Nú leita menn lausna og hafa verið að þróa sporvagnakerfi upp á nýtt víða í Evrópu. Líka í Odense og hugsanlega á höfuðborgarsvæðinu hér á landi. Ég tek dæmi af Odense vegna þess að þar býr nú  álíka fjöldi og á höfuðborgarsvæðinu eða 190 þúsund manns.

Hversvegna ætli það sé og af hverju er verðið að koma upp sporvagnakerfum, sem nú heita léttlestir, víða í Evrópskum borgum? Þær voru taldar úreltar fyrir örfáum áratugum.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Maður hefur fundið út úr því að fólk stígur ekki út úr einkabílum sínum af því það er þvingað til þess. Þvingunaraðferðir með gjaldtöku inn í þéttbýlið eins og um hefur verið rætt (við Kringlumýrarbraut) eða mjókka götur og fækka bílastæðum duga ekki og eru óvinsælar. Menn stíga út úr einkabílnum vegna þess að aðrir ferðamátar eru skilvirkari, þægilegri, skemmtilegri og ódýrari kostur en einkabíllinn. Einkabíllinn er líka samfélagslega óheppilegur og af mörgum álitinn leiðinlegur.  Til þess að ná þessu hafa verið valdir sporvagnar sem aka um í sérrýmum. Vagnar sem fá forgang á ljósum, eru á réttum tíma og stutt er á milli ferða. Eitt meginmálið er að akstur sporvagna er liðlegri en strætó og einkabíll.  Strætó stoppar hægar og ekki annarsstaðar en á stoppistöðvum og fara hægar af stað. Þetta gerir það að verkum að truflunin er minni fyrir farþega. Þetta er einkum um gott fyrir þá sem vilja lesa á leiðinni eða vafra um á netinu, lesa blogg eins og þetta!.

Ein ástæðan er líka sú að það er áratuga hefð fyrir sporvögnum í þessum borgum í Evrópu. M.a. í Odense.

En geta rafdrifnir strætisvagnar eða liðvagnar í sérrými ekki það sama?

Jú, það geta þeir að mestu.  Og ekki bara það heldur kostar slíkt kerfi umtalsvert minna en sporvagnakerfi eða léttlestakerfi. Það er einkum tvennt sem sporvagnarnir hafa framyfir BRT (bus rabit transport) og það er smávægilega meiri rykmengun af gúmmíhjólunum og svo hitt að því er haldið fram að flutningsgetan sé umtalsvert meiri. Og svo er aksturslagið annað eins og fyrr er getið.

En nú er verið að þróa sporvagnakerfi upp á nýtt í Odense. Leiðin sem verið er að leggja er 14,5 km löng og mun kosta 3 milljarða danskra króna á verðlagi 2014. Þetta er rúmlega 50 íslenskir milljarðar eða 3.5 milljarðar íslendskra á km. Í Danmörku eru svona kerfi fjármögnuð með 40% frá ríkinu, 34% frá sveitarfélögum og 265 frá svæðinu (t.a.m. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu)

++++

Hversvegna ætli það sé verið að koma upp sporvagnakerfum, sem nú heita léttlestir, víða í Evrópskum borgum?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því en fer nokkuð eftir því hvaða stað um er að ræða.

Í Odense er það einkum þrennt. Með tilkomu nýs háskóla þar sem munu verða um 60 þúsund manneskjur mun umferðin aukast svo mikið að gatnakerfið þolir það ekki. Í öðru lagi munu göturnar ekki getað borið alla þá strætisvagna sem þarf. En léttlestin flytur jafn mikið og fjórir strætisvagnar.  Í þriðja lagi sem skiptir miklu máli þár er léttlestarkerfið ekki eins sveigjanlegt og strætó. Þetta hljómar undarlega en sannleikurinn er sá að reynslan sýnir að strax þegar ákveðið er hvar leggja á teinana þá vaknar svokölluð „skinneeffect“ eða teinaáhrif. Fasteignir meðfram línunni hækka í verði og fjáraflamenn og lánveitendur sjá mikil tækifæri. Teinaáhrif leiða af sér lobbýisma og meiri heimildir til uppbyggingar. Fjáfestar leggja fé í allskonar uppbyggingu meðfram teinunum. En það er óvissa þarna og ótti við að leiðunum verði breytt. Heimildir eru eðlilega líka auknar verulega með fram  línunum. En fjárfestar treysta ekki stjórnmálamönnunum. Þeir telja teinana traustari en samg0ngur á gúmmíhjólum. Það er auðveldara að breyta leiðarkerfum þegar um strætó er að ræða en þegar verið er að tala um léttlest á teinum. Svo má bæta því við að í Odense er hefð fyrir sporvognum sem er auðvitað það sama og léttlest. Fólk þekkir sporvagnana af góðu einu frá gamalli tíð.

Þessi rök gilda ágætlega  í Odense en ekki endilega hér. Mér sýnist samt að dönsku ráðgjafarnir COWI sem eru ráðgjafar í Odense og benda á léttlestarkerfi þar geri það sama hér. Sömu ráðgjafarnir hafa verið ráðnir af samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og leggja til léttlestarkerfi hér.

En geta rafdrifnir strætisvagnar eða liðvagnar ekki það sama og léttlestarkerfið. Hentar lettlestarkerfið okkur þó það henti ágætlega í Odense?

Er hefð fyrir sporvögnum hér? Er ekki pláss fyrir strætisvagna hér? Þurfum við jafn mikla flutningagetu hér og í Odense. er ekki hægt að útbúa sérgreinar vagnanna þannig að þeir verði jafn fastir á sínum stað og teinarnir? Þarf þetta að vera annaðhvort eða? Er ekki hugsanlegt að norður suðurlínan verði af einni gerð og austur vestur af annarri? Höfum við efni á léttlestarkerfi sem kostar 3.5 milljarða á kílómetrann? Kerfið allt á höfuðborgarsvæðinu er áætlað um 40 km og mun þá kosta um 140 milljarða. Ef við erum bjartsýn og reiknum með að fjórðungur íbúa höfuðborgarsvæðisins,  sem eru um 195 þúsund, notfæri sér Borgarlínuþjónustuna þá verður stofnkostnaðurinn allt að 3 milljónir á hvern notanda.

+++

Hér má lesa nokkuð ítarlega og vandaða skýrslu um málið.:

pdf button Borgarlínan -Hlutverk – Hvað – Hvar – Hvernig

Eftir að hafa skoðað þetta og lesið fyrirliggjandi gögn af hliðarlínunni virðist mér liðvagnar á sérakgrein með sérmerktum akstursleiðum og forgangi vera heppilegasta leiðin hér á höfuðborgarsvæðinu.

++++

Myndin efst í færslunni er af sporvagni í Odense um miðja öldina.

 

Myndin að ofan er frá hugmyndum PLH arkitekta í Kaupmannahöfn um brautarstöðvar léttlestanna í Odense í Danmörku sem mun verða tekin í notkun árið 2020. Arkitektarnir leggja áherslu á að þarna sé samræmd hönnun sem verður einkennandi.

 

Fullkomið stafrænt upplýsingakerfi á hverri stöð.

 

Að ofan eru fyrstu hugmyndir um legu Borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Línurnar eru tvær; Austur-vesturlína og Norður -suðurlína. Búast má við auknum byggingaheimildum meðfram línunni og hækkuðu fasteignaverði eins og reynslan allstaðar erlendis hefur leitt í ljós. Línurnar mætast við Vogabyggð þar sem á að byggja á fjórða hundruð þúsund fermetra nýbygginga samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum. Á þessum stað verður þungamiðja almannasamgangna svæðisins ef vel tekst til. Þarn hlýtur umferðamiðstöðin og tenging til Keflavíkurflugvallar að vera staðsett.

Myndirnar hér að ofan og neðan sýna hugsanlegar nýbyggingar við Elliðaárósa þar sem aðalskiptistöð almannasamgangna er hugsuð.

 

Léttlesti í Odense  mun líta út einhvernvegin svona samkbæmt fyrirliggjandiu hugmyndum.

Yfirlitskort yfit léttlestarkerfi Odense. Það er alls 14.5 km langt og á að kosta um 50 milljarða.

Hér er hugmynd frá Siemens sem er að markaðssetja „Elecrtic rabiot bus system“.  Takið eftir að vagnarnir aka í sérrými þar sem stoppistöðvarnar eru hækkaðar þannig að fólk í hjólastól eða með barnavagna eða göngugrindur er boðið gott aðgengi.  Þetta er líka sérlega mikilvægt atriði sem varðar samgönguhjólreiðar sem yrðu virkilegur valkostur fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Svona lausn hefur minni flutningsgetu en léttlest en hefur alla aðra kosti hennar um leið og hún er mun ódýrari. Hugsanlegt er að nota aðeins eina akrein í báðar áttir og láta vagnana mætast á stoppistöðvum. Sú lausn er ódýrari og hentar vel i þröngum götum.

Í Bandaríkjunum og víðar hafa menn notað liðvagna  sem ekki aka um í sérrými. Slík þjónusta hefur alla galla strætó en enga kosti sporvagna.

++++

Reynslusaga.

Ég hef haldið fyrirlestra víða um skipulags- og byggingamál. Þar á meðal tvisvar á Rotaryfundum um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur. Þatta var um áramóin2015-2016. Ég varð þess var að fólk var almennt ekki sérlega upplýst um þetta merkilega skipulag. Eftir að hafa lýst hvaða áhrif Samgönguásinn (nú Borgarlína) mundi hafa á fasteignaverð og byggingaheimildir spurði ég hvort menn hefðu heyrt af þessu áður. Undirtektirnar voru daufar. menn höfðu reyndar lítið heyrt af samgönguásnum sem er auðvitað hryggjarstykki skipulagsins. Þá spurði ég hvort fasteignasali væri í hópnum, en Rótaryklubbar samanstanda af sérfræðingum frá ýmsum stöðum í atvinnulífinu. Jú það var einn. hann hafði ekki mikið hugsað um þetta. Þá spurði ég hvort þessar áætlanir væru farnar að hafa áhrif á eftirspurnina í nágrenni samgönguássins og þar með talið verðið? Fasteignasalinn taldi þetta lítið rætt í fasteignabransanum og væri ekki farið að hafa áhrif á verðið. Þá spurði ég hvort AR2010-2030 lægi ekki frammi á fasteignasölu hans. Hann hvað svo ekki vera!  Af hverju ætli það sé.? Eina skýringin er sú að fjárfestar hafa ekki trú á þessu eða skipulagi fyrr en þeir sjá byggiongarnar rísa. Þeir treysta ekki skipulagsáætlunum. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að danir velja léttlest og vonast til þess að hin svokallaða „skinneeffect“ laði fjármagn að umhverfi línunnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.4.2017 - 11:35 - 5 ummæli

AR2010-2030 og BORÐIÐ veitingahús

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er eitthvað það besta sem ég hef séð síðan 1927.  Það er samt auðvitað ekki gallalaust. Kostir þess eru einkum í stóru atriðunum eins og að draga úr útþennslu byggðarinnar,  hverfaskipulagið þar sem stefnt er að 8 hverfi borgarinnar verði sjálfbær hvað varðar atvinnu og þjónustu og svo auðvitað samgönguásinn sem er mikilvægasta einstaka atriðið og hryggjarstykki skipulagsins. Maður getur haft mismunandi skoðanir á einstökum atriðum skipulagsins meðan annað eru bara gallar sem þarg að leiðrétta.

Þessa galla er flesta að finna í allskonar smáatriðum sem menn kannski taka ekki eftir en reka sig fyrirvaralaust á þá og verða þá eiginlega bara hissa.

Eitt slíkt dæmi kom upp núna fyrir helgi þegar veitingastaðnum Borðið við Ægisíðu 123,  sem opnaði fyrir réttu ári, var hafnað um að fá að reka veitingahúsið í flokki II.  En veitingahúsum í þeim flokki er leyft að hafa vínveitingar.  Niðurstaða borgarinnar var kærð til Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem féllst á að hafna umsókninni um vínveitingar á þeim grundvelli að veitingastaðurinn væri í miðju íbúðahverfi og ekki við „aðalgötu“ og tilheyrir ekki nærþjónustukjarna. Þetta tvennt, aðalgata og nærþjónustukjarni eru forsendur fyrir því áð veitingastaður í flokki II sé leyfður ef ég skil þetta rétt.

Þetta er rétt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sem byggir á aðalskipulaginu sem er líklega rangt hvað þetta varðar. Göturnar eru ekki rétt flokkaðar ef flokkunin er borin saman við skilgreiningu gatnanna. Það er einmitt svona lítil atriði í aðalskipulaginu sem eru helstu gallar þess.

Ef horft er á myndina efst í færslunni sést hvar borgargötur eru merktar í vesturbæ Reykjavíkur. Sunnan Hringbrautar eru borgargöturnar fjórar. Það eru Suðurgatan, Hofsvallagata, Neshagi og Brynjólfsgata.  Maður sér strax að þarna er eitthvað vanhugsað og ekki í lagi.  Það standa engin rök til þess að flokka Neshaga og Brynjólfsgötu sem borgargötur. Hinsvegar er augljóst að Ægisíða vestan Hofsvallagötu ætti að flokka sem borgargötu (aðalgötu).

Lítum bara á skilgreiningu aðalskipulagsins á borgargötu „Borgargata.  Lykilgata viðkomandi hverfis. Helstu þjónustukjarnarog stofnanir hverfisins standa við götuna og er hún oft mikilvægasta samgöngutengingin við næsta hverfi eða borgarhluta fyrir alla helstu ferðamáta. Gata sem hefur sögulegt mikilvægi, sterka ímynd eða er mikilvægur sjónás í borgarlandslaginu.“ Neshagi og Brynjólfsgata falla ekki undir þessa skilgreiningu en það gerir Ægisíða vestan Hofsvallagötu svo sannarlega.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er höfuðáherslan lögð á aðalgötu og hlutverk hennar.  Aðalgötur eru hinsvegar ekki áberandi í AR2010-2030 og ekki teiknaðar inn á samgöngukortin eins og sjá má á kortinu efst í færslunni þar sem borgargötur nærþjónusta, stórmarkaðir og opin svæði eru skilgreind. Á samsvarandi  kortum eru strætóleiðir teiknaðar inn ásamt hjóla- og göngustígar. Þarna eru borgargötur en ekki aðalgötur. Aðalgötur eru hinsvegar skilgreindar í texta í skipulaginu á sama hátt og borgargötur. Aðalgötur eru skilgreindar með meiri  fjölbreyttari landnotkun með áherslu á verslun, þjónustu og samfélagsþjónustu.  Ægisíða vestan Hofsvallagötu fellur undir þessa skilgreiningu og skilgreiningu borgargötu sérstaklega. Á þessum stutta kafla Ægisíðu er að finna bensínstöð (nánast vegasjoppu með verslun og dekkjaverkstæði), efnalaug, litla verslun og Borðið sem er í sama húsnæði og hverfisverslunin var til 70 ára auk þess sem þarna er umsvifamikill leikskóli. Gatan er miklu frekar aðalgata, borgargataeða nærþjónustugata en húsagata. Hún er aðalgata og borgargata þó hún sé ekki merkt sem slík á kortum AR2010-2030.

Slóðin að úrskurði ÚUA er að finna á þessari slóð:

http://www.uua.is/?c=verdic&id=1454

ÚUA hafnar kæru eigenda borðsins á grundvelli þess að þarna sé ekki um aðalgötu að ræða og vísar á myndir nr.: 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Í mínu eintaki af aðalskipulaginu eru þessar myndir á síðu 171. Þarna er eitthvað misræmi sem ég skil ekki en það hlýtur að vera til skýring á.

Þessi galli á flokkun gatna aðalskipulagsins í vesturbæ Reykjavíkur þarf að lagfæra. Borgin þarf að lagfæra þetta. Hún mætti líka gjarna taka upp þá flokkun gatna sem menn hafa notað s.l. 60 ár en það voru; stofnbrautir, tengibrautir, safnbrautir og húsagötur. Þessi flokkun er góð og gagnsæ. Við þetta má svo bæta einum flokk í viðbót „borgargötum“ eins og þær eru skilgreindar í AR2010-2030 og falla vel að þeirri hugmyndafræði sem þar er lögð fram.

+++

Hér að neðan er yfirlitskort úr aðalskipulaginu AR2010-2030 sem sýnir borgarhluta 1, Vesturbæ.

 

Í vesturbæ sunnan Hringbrautar eru tvö frábær veitingahús. Hvort öðru betra. Annað er Kaffihús Vesturbæjar og hitt er Borðið.

Veitingahúsið Borðið er eitthvað það glæsilegasta hverfisveitingahús sem ég hef kynnst. Þar er góður matur sem reiddur er fram á smekklegan hátt í fallegu umhverfi af eigendunum sem geisla af þjónustulund. Þarna er hægt að kaupa ýmsa matvöru og hluti sem heyra til matargerðar. Þarna er engin hljómsveitarpallur eða myrkir krókar sem einkenna hverfisknæpur af hefðbundinni gerð sem maður þekkir erlendisfrá og menn sitja löngum stundum á sumbli. Þessi tvö veitingahús eru glæsileg hverfisprýði og mikilvæg fyrir félagslíf íbúa svæðisins og tengir þá saman með liðlegum hætti.

Til viðbótar þessu má nefna Stúdentakjallarann og Hámu á Háskólatorgi sem eru góð heim að sækja þó það sé með öðrum hætti.

Að neðan er mynd af Borðinu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.4.2017 - 23:06 - 7 ummæli

VERÖLD — „Tungumál ljúka upp heimum“

Það var upplifun að koma í „Veröld“ hús Stofnunnar Vigdísar Finbogadóttur í dag,  en það verður miðstöð erledra tungumála við Háskóla Íslands.

Húsið er demantur í umhverfinu, fallegt á allan hátt og vel tengt við nærliggjandi byggingar. Flæðið innandyra er heillandi það var gaman að sjá fólkið streyma liðlega um allt húsið þar sem skábrautir og tvö ólík stigahús voru áberandi í öllu flæðinu. Húsið er allt hið glæsilegasta og ekki vafamál að það verður lyftistöng fyrir kennslu og rannsóknir á sviði erlenda tungumála. Stigar og gangar eru bjartir, fallegir og spennandi og starfrænir.

Eins og myndirnar bera með sér er húsið bjart og fallegt og ber arkitektum sínum gott vitni.

En sjón er sögu ríkari. Ég mæli með að sem flestir  leggi leið sina vestur á Mela og upplifi þarna byggingalist í hæsta gæðaflokk

++++

Húsið er hannað af arkitektunmum hjá Andrúm arkitektum þeim Kristjáni Garðarssyni, Haraldi Erni Jónssyni, Gunnlaugi Magnússyni, Hirti Hannessyni.

++++

Yfirskriftin á þessum pistli „Tungumál ljúka upp heimum“ er úr grein eftir Pétur Gunnarsson og heiti á bók sem gefin var út í tilefni dagsins.

++++

Myndina efst í færslunni tók Þráinn Hauksson landslagsarkitekt sem sýnir frú Vigdísi ávarpa hátíðargesti í dag. Hinar myndirnar eru teknar víðsvegar af netinu.

 

21.04.2017 kl. 12:55

Einn álitsgjafi hefur óskað eftir að birt verði hér mynd af tölvuteikningunni sem fylgdi í samkeppninni og húsinu eins og það er.

Hér koma þær.

Þarna sést að enn er ekki kominn gróður sem hugsaður var þarna. Ég sé fyrir mér einskonar „vísdómstré“á torginu, annaðhvort linditré eins og hið fræga tré á Garði í Kaupmannahöfn. Þarna gæti líka verið myndarlegur (með tíð og tíma) hlynur seins og sá sem stendur á horni Vonarstrætis og Suðurgötu.

Það færi vel á því.

Vigdís mundi planta trénu sem svo stæði þarna í skjólinu næstu 2-300 árin.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.4.2017 - 10:06 - 9 ummæli

Brim – Marshallhúsið – ný notkun eldri húsa.

Ég hef oft haldið því fram hér í þessum pistlum að það eigi almennt ekki að rífa hús heldur að endurnýja þau og aðlaga að nýjum þörfum og nýjum kröfum. Nýlegt dæmi um velheppnað verk sem unnið er samkvæmt þessu er Marshallhúsið úti á Granda. Þar er gömlu húsi breytt þannig að það hentar sérlega vel sem menningarmiðstöð með áherslu á nútíma myndlist.  Jafn óskilt sem það er upphaflegri starfssemi hússins sem var fiskvinnsla.

Nýlega útskrifaðist ungur arkitekt, Baldur Snorrason, frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn. Útskriftarverkefni hans var af svipuðum toga og umbreyting Marshallhússins. Hann leggur til að fiskvinnsluhúsi Brims við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn verði breytt í fjölnotahús með náinni tengingu við hafnarstarfssemi. Þarna er hægt að fylgjast með fiskvinnsu, þar sem fiskur dagróðrabáta er unnin í ásýnd landkrabba, erlendra og innlendra. Þarna er viðhaldi minni báta unnið fyrir opnum tjöldum og þarna er bókasafn, fyrirlestrarsalir og veitingasala, fiskimarkaður, fundarherbergi, sýningarsalir, vinnustofur auk skrifstofa fyrir útgerðarfyritækið Brim.

Þetta er fallega leyst verkefni þar sem virðing er borin fyrir húsina í öllum grunnatriðum um leið og það er fært í nútímahorf og því  breytt þannig að það henti nýrri fjölþættri starfssemi. Þetta er sama hugmyndafræði og notuð var við endurnýjun Marshallhússins úti á Granda.  Í báðum tilfellunum  er markmiðið að varðveita húsin og skerpa á hinni sögulegu vídd og gefa þeim nýtt hlutverk við hæfi.

+++++

Vonandi er að verða hugarfarsbteyting gagnvart eldri byggingum hér á landi. Það hefur mörg áhugaverð byggingin verið látin víkja fyrir leiðinlegum húsum. Ég nefni iðnaðarhúsin gömlu í skuggahverfinu, Völundarhúsin, Kveldúlfsskemmurnar og hús Sláturfélags Suðurlands. Nú er verið að endurskipuleggja gömul iðnaðarhverfi víða og færa nýja starfssemi inn í þau. Þar er sennilega mikilvægustu svæðin Skeyfan, svæðið við Nýbýlaveg og á Kársnesi í Kópavogi eru undir.  Víða erlendis hefur svona umbreyting átt sé stað í mikilli sátt við það sem fyrir er.

++++

Hér að neðan koma nokkrar myndir af lokaverkefni Baldurs Snorrasonar arkitekts og svo í lokin eru 2-3 myndir af Marshallhúsinu sem var endurgert af arkitektunum hjá Kurt & Pi í Reykjavík.

++++

Hér er slóð að heimasíðu Baldurs:

 

https://www.behance.net/gallery/45315229/The-Maritime-Center

 

Efst í færslunni er ljósmynd af Brim skemmunum eins og þær líta út í dag. Og hér strax að ofnn er tölvumynd af húsinu óbreyttu.

 

Að ofan er líkan af Brim skemmunum eftir að þeim hefur verið breytt. Útveggurinn og þekjan er rofin á úthugsuðum stöðum til þess að hleypa dagsbirtu inn í bygginguna. Opið er niður um tvær hæðir á flestum þessarra staða þannig að birtan flæðir um flest rými byggingarinnar

 

 

Að neðan má sjá breytta skemmu og hvar þekjan er rofin og gjár myndaðar í húsið til þess að hleypa dagsbirtunni inn í bygginguna.

Öllum meginlínum hússins og gluggaskipan er haldið óbreyttu að mestu og eins lengi og þeir standa ekki í vegi fyrir nýrri og breyttri notkun.

 

 

Af sneiðingunum má lesa hvar og hvernig þekjan er rofin og nýjum gólfum er skotið inn á viðeigandi stöðum til þess að mæta nýjum þörfum.

 

Grunnmynd hússins er á sama tíma lifandi og öguð mæð góðu flæði um húsið.

Nýtt útlit þar sem helstu einkennum gömlu byggingarinnar er haldið til haga. Fólk er „dregið“ inn í bygginguna um glufur sem myndaðar hafa verið í húsið.

Innandyra er húsið auðlæsilegt og gegnsætt. Hér sést í fiskiker á fiskimarkaði.

Svipmynd af efri hæð með mikilli ofanbirtu. Bókasafn til vinsri.

Fyrirlestrarsalur.

Kaffitería.

+++++++

MARSHALLHÚSIÐ.

 

Eins og fyrr segir er Marshallhúsið af svipuðum toga og Brim skemmurnar þó svo að það sé eldra og af annarri og vandaðri gerð. Hér hefur eins og í húsi Baldurs Snorrasonar verið haldið í helstu einkenni hússins um leið og því er nánast öllu breytt og færð til nútímans. Þetta er afskaplega vel gert þar sem arkitektarnir hafa ákveðið að gera sem minnst. „Less is more“. Manni finnst eins og allt hafi alltaf verið svona ef frá er talinn barinn.  Nýtt stigahús er  þannig útfært að maður áttar sig varla á að hann hafi ekki alltaf verið þarna.

Veiringastaður á jarðhæð með nýrri tröppu upp á efri hæðir.

Veitingasalur á jarðhæð

Á efri hæðum Marshallhússins eru gallerý og vinnustofur þar sem gestir geta notið myndlistar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.4.2017 - 18:34 - 9 ummæli

180 þúsund fermetra nýbygging á 19 dögum!

 

 

Nýlega var byggð 57 hæða bygging í Changsha í Kína sem er alls um 180 þúsund fermetrar. Í húsinu er atvinnustarfssemi fyrir um 4000 manns og einar 800 íbúðir. Þeir kalla þetta Sky City sem á að vera að verulegu leiti sjálfbært. Innan byggingarinnar eru götur, stræti og skábrautir milli hæða sem eru samtals 3,6 kílómetrar að lengd. Þetta er að sögn mjög vandað hús hvað allan tæknibúnað  varðar, með 20 cm einangrun og fjórföldu gleri.

En það merkilæegasta við húsið er að það tók bara 19 daga að byggja það frá því að sökklarnir voru lagðir og þar til flutt var inn í húsið fullbyggt.  Það er að segja að það voru byggðar þrjár hæðir á dag. Eða 440 fermetrar á klukkustund allan sólahringinn. Þetta er auðvitað afrek sem er aðdáunarvert og byggist á góðu skipulagi og því að raða verksmiðjuframleiddum einingum saman á byggingastað.

Hér á landi er þetta öðruvúsi. Allt gengur miklu hægar.

T.a.m. halda Skipulagsstofnun Ríkisins og Framkvæmdasýsla Ríkisins því fram að opnun Nýja Landspítalans muni seinka um 10-15 ár  (til 2033-2038) ef farið væri í að finna nýjan og betri stað fyrir spítalann.  Það er að segja að staðarvalið, hönnunin og framkvæmdin muni taka á bilinu 16-21 ár.  Þetta er ótrúleg áætlun sem var kynnt í haust.  Að baki þessarar áætlunar liggja engin aðgengileg gögn eða mat á óvissuþáttum eða samþættingu verkáfanga eða öðru sem gjarna fylgir svona áætlunum.

Hinsvegar vitum við að úrslit í samkepni um Nýjan landspítala var kynnt fyrir um sjö árum og grunnur verður ekki tekinn fyrr en eftir rúmt ár ef frá er talið sjúkrahótelið. Þá verða liðin 8 ár frá samkeppninni.

++++++++

Neðst í færslunni er áhugavert myndband sem sýnir alla framkvæmdina frá grunni og uppúr það til fólk gat gengið til sinna starfa og á sitt heimili að 19 sólahringa verktíma loknum. Allt ferlið er sýnt á rúmum 5 mínútum.

 

Óhætt er að mæla með myndbandinu hér að neðan.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.3.2017 - 16:08 - 8 ummæli

Ný gerð Fjölbýlishúsa – Brotið blað.

Það má segja að það hafi ríkt stöðunun í þróun fjölbýilshúsa á Íslandi undanfarna nánast hálfa öld.  Algengast er að byggð séu stigahús með íbúðum til sitt hvorrar handar á stigapöllunum. Stundum er þriðju íbúðinni komið fyrir á hverri hæð. Þegar krafa um lyftur kom fundu hönnuðir  út úr því að sameina stigahúsin og gera svalagang að íbúðunum. Þannig gat lyftan þjónað fleiri íbúðum. Þetta er ekki góður kostur eins og allir vita. Hvorki hönnuðir, húsbyggjendur né kaupendur íbúðanna eru ánægðir með þetta fyrirkomulag.  M.a. til þess að koma á móts við þetta voru svo byggðir 8-18 hæða turnar þar sem lyftan þjónaði fleiri íbúðum og menn töldu sig ná meiri nýtingu á landinu.  Víðast í öllum þessum húsum voru íbúðirnar einsleitar og hver uppaf annarri.

Víða erlendis hefur mikil þróun  átt sér stað um gerð gerð fjölbýlishúsa. Ég nefni Habitat 67 eftir Moshe Safdie sem síðar skrifaði bókina „For Every One a Garden“.  Daninn  Viggo Möller-Jenssen, sem var leiðbeinandi arkitektanna Stefáns Arnar Stefánssonar, Finns Björgvinssonar og Halldórs Guðmundssonar á Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn gerði framúrstefnuleg fjölbýlishús í Farum Mitdpunkt fyrir utan Kaupmannahöfn. Og svo má ekki gleyma Bjærget í Örestaden eftir Bjarke Ingels. Þetta er löng og hægfara saga sem hefur fengið kipp undanfarin 5-10 ár víða erlendis. En hér á landi hefur verið kyrrstaða.

Nýlega kynnti arkitektastofa Halldórs Guðmundssonar nýja gerð fjölbýlishúsa í Hafnarfirði, sem brýtur blað í gerð fjölbýlishúsa hér á landi að mínu mati. Þetta er betra fjölbýlishús en maður hefur áður séð. Þau eru félagslega skemmtilega samsett og eru manneskjuleg. Þau stuðla að félagslegum samskiptum barna og fullorðinna og stuðla að æskilegri samsetningu íbúa húsanna  og jafnvel bæjarhluta.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá dreifingu íbúða eftir stærðum. Þarna eru íbúðir sem eru  30m2,  40m2,  70m2, 85m2 og 100m2. Vel væri hugsanlegt að hafa eina hæð í viðbót með svona 140-160m2 íbúðum. Þannig væri komin mikil breydd í íbúðastærðir og gerðir. Svona blöndun stuðlar að félagslegri samsetningu sem er eftirsóknarverð.

 

Hér er sýnt hvernig hæðirnar eru samsettar með 2-3 íbúðum á hverri hæð þar sem þær snúast um stigahús með einhverjum hætti sem ég hef ekki séð áður hér á landi. Stigahúsið er bjart og rúmgott með aðstöðu til óformlega samskipta og leik minni barna. Mikil dagsbirta flæðir niður stigahúsið .

Að ofan eru sýndar grunnmyndir af tveim íbúðum af mismunandi gerðum, 3-4 herbergja. Eins og sést af grunnmyndunum er eldhúsunum gefið mikið vægi sem miðja íbúðarinnar. Frá eldhúsunum eru sjónræn tengsli inn í líflegt stigahúsið.

 

Hér eru grunnmyndir af minnstu íbúðunum. Annarsvegar 20m2 og hinsvegar 30m2 að stærð. Vel er búið að íbúunum með svölum/garðskála og nothæft fyrir fólk í hjólastól.

Stigahúsið er bjart og rúmgott. Þarna gefst börnum kostur á að leika sér og fullorðnir hittast og eiga félagsleg samskipti.

Mynd innan íbúðar.

Hér er mynd innan úr 40 m2 íbúð. Takið eftir glugganum fram í stigahúsið

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.3.2017 - 16:36 - 16 ummæli

Spítalinn falinn? – Hvað er í gangi?

Í gær var opnuð afskaplega glæsileg sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem borgarbúum og öllum landsmönnum er boðið upp á að skoða og kynna sér það sem er í vændum í uppbyggingunni í miðborg Reykjavíkur innan Hringbrautar.  Sýningin ber heitið „Hvað er í gangi?“ og er tilgangurinn að gefa fólki tækifæri til þess kynnast umhverfi sínu og þeim framkvæmdum sem eru í undirbúningi.  Það er ætlast til að fólk taki afstöðu til þeirra áætlana sem eru í undirbúningi og geti rætt áformin sín á milli og opinberlega.  Þetta er mjög góður ásetningur og vona ég að þessi sýning verði „permanent“ og að það verði bætt í líkönin nýjum áætlunum og breytingum, á komandi árum. Helst þannig að líkönin fylgi hæðarlínunum (topografíunni).

Logið með þögninni.

Áhugi minn beindist sérstaklega að fyrirhuguðum framkvæmdum á Landspítalalóðinni. Ég hafði það eftir traustum heimildum fyrir nokkrum mánuðum að það væri verið að smíða líkan af allri uppbyggingu Landspítalans í mælikvarðanum 1:200.  Þess vegna gerði ég ráð fyrir að þessar miklu og umdeildu fyrirætlanir yrðu til sýnis þarna á sýningunni góðu í Ráðhúsinu. Það yrði gerð grein fyrir þeim á sýningunni og  loks opnað á umræðu um málið.

En líkanið er ekki á sýningunni.

Hversvegna?

Hvað gengur mönnum til með því að sýna ekki Landspítalann fullbyggðan þarna? Nota þetta góða tækifæri til þess að upplýsa allan almenning. Deiliskipulagið var tilbúið fyrir bráðum áratug.

Það voru mér mikil vonbrigði að sjá að aðeins eitt hús á Landspítalalóðinni var sýnt, en það er sjúkrahótelið sem á að taka í notkun síðar á þessu ári.

Ekkert annað.

Ég hugsaði „Hvað er í gangi?“

Það er mér algerlega óskiljanlegt að forsvarsmenn spítalans og skipulagsmála í borginni skuli leyfa sér að opna sýningu af þessum gæðaflokki og þessari stærðargráðu án þess að gera rækilega grein fyrir Landspítalaáformunum. Langstærsta og mikilvægasta málinu á svæðinu, sem ætti að vera kynnt á sýningunni, er sleppt.  Landspítalinn er og hefur verið umdeildasta skipulagsmál borgarinnar í meira en áratug.

Þetta getur ekki kallast annað en þöggun,- sem er ein útgáfa af lygi eins og við þekkjum.

Það hefur lengi legið fyrir grunur um að aðstandendur framkvæmdarinnar hafa ekki treyst sér í málefnalega umræðu um skipulagið.  Þeir virðast hafa gripið til þöggunnar og takmarkað upplýsingaflæði vegna fyrirætlananna. Það hafa ekki verið kynntar lifandi tölvumyndir sem sýna húsin í tengslum við umhverfið og þeirra á milli. Ég fékk upplýsingar um það í morgun frá forsvarsmönnum spítalans að þær væru ekki til!

Já, að þær væru ekki til.

Þessu á ég erfitt með að trúa vegna þess að menn gera slíkar myndir af öllum meiriháttar húsum í dag. Mín teiknistofa gerði svona myndir af litlum skólatetrum fyrir 17 árum. Oftast til þess að við fagmennirnir gætum glöggvað okkur á verkinu og hinsvegar til þess að upplýsa verkkaupa og grenndarsamfélagið, almenning. Maður sér svona myndir frá einkaðailum í dag. Svona myndir eru til sýnis á Hönnunarmars. En ekkert er til af umfangsmestu og dýrustu framkvæmd hins opinbera síðan landið byggðist! Ég trúi ekki að slíkt myndband sé ekki til vegna þess að ég tel fullvíst og hef heimild fyrir því að líkan af húsinu í mælikvarðanum 1:200 hafi verið smíðað en það er ekki sýnt í Ráðhúsinu. Því er haldið leyndu ef ég skil rétt.

Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en svo að það sé einhver þöggun í gangi varðandi alla þessa framkvæmd.

Alvarlega þenkjandi aðgerðarsinnar, sem hafa í sínum röðum fjölda sérfræðinga á öllum sviðum, hafa farið fram á að gerð verði fagleg og óháð staðarvalsgreining vegna staðsetningar spítalans. Þessi ósk hefur verið vel rökstudd en mætt fálæti hjá oddvitum skipulagsins og spítalans í ein 8 ár.  Getur það verið vegna þess að niðurstaðan þolir að þeirra mati ekki dagsljósið og umræðuna? Óttast menn að þá muni allir sjá að hugmyndin er vond? Er það þessvegna sem hún er ekki með á sýningunni? Eru menn of hræddir við að horfast í augu við skynsemina og hætta við framkvæmdina á þessum stað og byrja uppá nýtt á betri stað?

Vilja þeir ekki að almenningur fái að leggja mat á framkvæmdina útfrá líkönum?

Þetta er að mínu mati óásættanlegt. Hneyksli.

Maður spyr sig: „Hvað er í gangi?“

+++++

25.03.2017. kl.9:10 viðbót: Málsmetandi maður upplýsti síðuhaldara að líkan af meðferðarkjarna spítalans yrði sett upp á sýningunni eftir nokkrar vikur. En þess ber að geta að þetta er engin afsökun  fyrir því að spítalinn og spítalalóðin er ekki sýnd á sýningunni frá fyrsta degi. Það er liðinn hálfur árarugur síðan fyrir lágu allar grunnmyndir, sneiðingar og útlit af þessum húsim. Líklegt er að líkan af þeim sé að finna einhversstaðar í fórum aðstandenda verkefnisins. Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en fram kemur í pistlinum. Þarna er verið að leyna fólki upplýsingum sem liggja þegar fyrir.

 

Hér er nettileg viðbygging við Listasafn Einars Jónssonar, Hnitbjörg.

Hið rómaða Marshallhús úti á Granda sem opnað var fyrir viku. Sérlega fallegt líkan af stórkostlegu húsi.

Hið umdeilda Hafnartorg er nú sýnt í fyrsta sinn opinberlega. Að baki Hafnartorgs sést í fyrirhugað lúxushótel.

 

Fíngerð uppbygging við Naustareit og nýbygging í Tryggvagötu til vinstri

Marriot Hótelið við Austurbakka – Hafnartorg í baksýn

Rússneska Rétttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu

Hér er myndin efst í færslunni sýnd aftur. Þarna eiga að rísa langþráðustu byggingar landsins, „Þjóðarsjúkrahúsið“ og um leið þær umdeildustu. Deiliskipulagið var samþykkt fyrir um 7 árum. Aðstandendur virðast ekki þora að sýna líkan af þeim miklu byggingum sem þarna er fyrirhugað að byggja. Sennilega tæpir 300 þúsund fermetrar bygginga þegar Landspítalalóðin er fullbyggð!.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.3.2017 - 11:55 - 15 ummæli

Uppselt á Gullfoss!

Þegar ég kom að Gullfossi í fyrrasumar var svo þröngt um vegna fólksmergðarinnar að ánægjan við að heimsækja staðinn var ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þegar hægt var að ganga þarna um aleinn eða með sínu fólki.

Ég sá strax að timburstiginn sem gengur niður frá þjónustumiðstöðinni og bílastæðaframboðið þar fyrir neðan mundi stýra aðgenginu. Það mundu myndast biðraðir vegna þess að stiginn og stæðin tækju ekki meira. Þannig yrði aðgenginu stýrt og takmarkað vegna biðraðanna og það yrði stundum „uppselt“.

Nú les maður í Morgunblaðinu um heljarmikla framkvæmd þar sem er verið að margfalda stærð stigans svo að hann nánast ber djásninu Gullfossi ofurliði! Þetta er trappa sem minnur á eitthvað allt annað en aðgang að einhverri náttúruperlu.

Í fréttinni segir reyndar að það „verði gengið í“ að laga umhverfið og græða upp sárin vegna þessarar framkvæmdar (þó það nú væri).  Svo á að rífa gamla stigann og væntanlega græða upp sárin eftir hann.

Sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun „vonast“ að mannvirkið verði minna áberandi eftir að búið er að ganga frá umhverfinu.

Þetta er allt mjög athyglisvert, umhugsunarvert og jafnvel áhyggjuvert.

Þetta er einn af 3-4 mikilvægustu ferðamannastöðum landsins og þetta er vinnulagið. Það er bara „gengið í“ málið að því er virðist nánast umhugsunarlaust og fyrirhyggjulaust.

+++++++

Ég kannast við frönsk hjón, frá Provence, sem búa hér á landi á sumrin í svona 4 mánuði ár hvert. Þau sögðust heimsækja Gullfoss margsinnis á ári hverju með vinum sínum. Þau sögðust alltaf fara þangað um kl 8:00 á morgnanna vegna þess að eftir kl 9:00 væri ekkert varið í þetta vegna fólksfjöldans og töldu nánast uppselt á miðjum degi. Nú á heldur betur að bæta í!

+++++++

Á litum áningarstað austur á landi sem nánast enginn veit um við Hengifoss  ber maður sig öðruvísi að.  Maður er metnaðarfullur gagvart umhverfinu, náttúrunnu, menningararfinum og þeim gestunum sem þangað koma.  Maður skoðar og skilgreinir, þróar hugmyndafræði og auglýsir svo opna samkeppni um aðstöðu fyrir ferðamennina. Í keppnislýsingu er beðið um snyrtingar, aðstöðu fyrir landvörð og borð og bekki þar sem gestir geta borðað nesti sitt og hent rusli. Þessu átti að fylgja nokkuð stórt bifreiðastæði. Dómnefnarstörfum lauk í febrúar s.l. og var niðurstaðan mjög góð. Samkeppnin var á vegum Arkitektafélags íslands og Fljótsdalshrepps

+++++

Sigurvergarar voru arkitektarnir Eirik Rønning Andersen og Sigríður Anna Eggertsdóttir Zis as arkitektum.

Tillagan er frumleg og með fágað yfirbragð sem fellur vel að umhverfinu og er í góðum takti við það besta sem gerist á þessu sviði t.a.m. í Noregi þar sem menn hafa staðið sig hvað best. Höfundarnir hafa fangað anda staðarins og myndað áhugavert aðstöðurými utandyra sem er aðgreint frá bílastæðum. Aðstaðan ein er í sjálfu sér eftirsóknarverður staður þó fossinn væri ekki til staðar. Þannig þarf þetta að vera.

Hér að neðan komna nokkrar myndir af tillögunni. Myndin af galvaniseraða járnverkinu við Gullfoss er fengin af mbl.is. í dag.

+++++

Viðbót. Kl 16:40 15.03.2017

Lesandi síðunnar hafði samband og upplýsti að haldin var samkeppni um Gullfosssvæðið árið 2012. Það er því oftúlkun að segja að menn hafi  „bara „gengið í“ málið að því er virðist nánast umhugsunarlaust og fyrirhyggjulaust“ En það breytir ekki meginefni textans sem fjallar um að vanda sig í umgengni við náttúruna og takmarka álagið á liðlegan hátt þar sem þess er kostur.

http://www.honnunarmidstod.is/Frettir/Samkeppnir/skodasamkeppnir/2924

 

.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.3.2017 - 19:05 - 9 ummæli

Glatað tækifæri?

Að ofan er áhugavert myndband af tillögu Dönsku arkitektastofunnar C.F Möller í stórri samkeppni um sjúkrahús á norður Sjálandi í Danmörku. Myndbandið  sýnir hvernig sjúkrahús sem er byggt á opnu svæði gæti litið út.

Danirnir ákvaðu að byggja nýtt „supersjúkrahús“ á opnu svæði  þar sem rúmt var um það og mikil tækifæri til þróunnar til langrar framtíðar.  Þeir stóðu frammi fyrir tveim kostum. Annaðhvort að byggja nýtt sjúkrahús á nýjum stað eða tjasla við eitt af þeim sjúkrahúsum sem ákveðið var að sameina.

Þetta er í raun heillandi umhverfi og heillandi arkitektúr sem sjá má á myndbandinu.  Það hefur verið vitað í byggingalistinni um aldir að fallegt og manneskjulegt umhverfi er heilsubætandi.

Þetta eru frændur okkar Danir meðvitaðir um.

Endilega skoðið hjálagt myndband og látið ykkur dreyma.

Það hlýtur að vera eftirsóknarvert fyrir starfsfólk og sjúklinga og aðstandendur þeirra að hafa aðgang að sjúkrahúsi í svona umhverfi og í svipuðum gæðaflokki.

Tillaga C.F. Möller varð ekki fyrir valinu þegar upp var staðið.

Gert er ráð fyrir að sjúkrahúsið þjóni un 300 þúsund manns og verði tilbúið árið 2021.

Það var haldin stór samkeppni um verkið þar sem skiladagar arkitektanna voru í september 2013 og í síðari áfanga í apríl 2014.  Þarna er gert ráð fyrir að það taki 7 ár frá því að arkitektarnir skiluðu inn tillögum sínum í samleppninni þar til sjúkrahúsið er fullbyggt. byggingakostaður var áætlaður 4 milljarðar danskra króna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.3.2017 - 11:40 - 6 ummæli

15 fermetra sérbýli – í lúxusklassa?

 

Það var aldeilis ótrúlegt þegar stjórnvöld tóku sig til við að endurskoða byggingareglugerðina (nr.: 112/2012) í dýpstu byggingakreppu á landinu síðan síldin hvarf 1965-66. Breytingin var á allan hátt íþyngjandi fyrir byggingariðnaðinn og húsbyggjendur. Gerðar voru miklar kröfur umn lágmaksstærðir rýma innan íbúða og til einangrunar og ferilmála. Þetta voru allt ágætar kröfur í góðæri fyrir þá sem höfðu efni á þeim. En staðan var þannig að það var hallæri í landinu og enginn átti fé til eins eða neins. Höfundar breytinganna virtust veruleikafirrtir og skildu ekki ástandið í landinu eins og það var á þeim tíma. Reglugerðin eikenndist af takmarkalausri forræðishyggju sem lagðu þunga hönd á byggingabransann sem var nánast dauður.

Síðan þetta var hafa verði gerðar ýmsar breytingar á reglugerðinni sem mæta betur þörfum fólks og efnahag.

Hér í þessum pistli er kynnt micro hús sem ekki var hægt að byggja samkvæmt umræddri reglugerð. Það er í raun svo að á þessum 15 fermetrum hefði einungis verið hægt að koma fyrir eldhúsi og baði ef uppfylla átti kröfurnar. Og kannski með mikilli útsjónarsemi, geymslu til viðbótar!

Það er samt augljóst að í þessu húsi sem hér er fjallað um er varla hægt að búa án stuðnings frá umhverfinu.   Þarna vantar geymslu og þvóttahús. En líklega má bæta úr því með að stækka húsið um svina 3 fermetra eða sækja það sem á vantar í nágrennið. Þetta er mjög gott „annex“ við sérbýli fyrir unglinginn, garðyrkjumanninn eða heimilishjálpina, Au pair stúlkuna(drenginn) nú eða bara sem gestaherbergi eða fyrir tengdamömmu :-).

En best væri að búa til smáþyrpingar af svona húsum (4-5 hús) á þeim fjölmörgu vannýttu svæðum innan núverandi byggðar þar sem ekki er rými fyrir hefðbundin hús. En þá yrði að vera skilyrði um að íbúarnir hefðu þar lögheimili til þess að koma í veg fyrir að hugmyndin yrði misnotuð af ferðamþjónustunni.

Þetta hús sem hér er kynnt er fjöldaframleitt af fyritækinu Cubica í Costa Rica. Þeir kalla þetta Casa Cubica.  Þá er bara að taka upp símann og panta eitt stykki Casa Cubica til þess að setja í bakgarðinn eða á bílastæðið þegar einkabíllinn verður orðinn óþarfur!

Svona lýtur sérbýlið út. Fallega hlutfallað og með aðgengilegum þakgarði.

Álrýminu er stór draghurð sem opna má út á verönd sem eykur rýmiskenndina og gefur tilfinningu fyrir miklu meira olnbogarými.

 Barna eða gestaherberginu er fundinn staður. Hugsanlegt væri að sleppa efri kojunni og nýta rýmið undir fyrir vinnuborð eða hægindastóla.

Hjónarúmið er fellt niður frá veggnum. Fataskápar og skúffur við hliðina.

Eldhúsið er velútbúið með vaski, helluborði, bakara/örbylgjuofni og ísskáp. Allt í samræmi við þarfirnar í 15 fermetra sérbýli.  Þarna er hægt að elda allt það sem 2-3 einstaklingar geta í sig látið.

Þegar hjónarúminu hefur verið lyft upp að veggnum kemur í ljós ágætt vinnuborð eða borðstofuborð þar sem 4-5 manns geta setið við þægilegar aðstæður að snæðingi.

Velútbúið baðherbergi er í húsinu með sturtu o.þ.h.

Þakgarðurinn er ágæt viðbót við veröndina og garðinn. Þarna virðist húsinu komið fyrir á baklóð einhvers húss. Þarna glittir í bílskúr sýnist mér. Þessu húsi væri hægt að koma fyrir á ánast hvaða sérbýlislóð sem er á Íslandi. Einnig á flestum fjölbýlishúsalóðum.

Hér er húsinu komið fyrir í gróðursælu umhverfi. Svona húsi má koma fyrir á venjulenu bílastæði. Ef tvö bílastæði eru tekin undir húsið þá er kominn garður. Ekki er ólíklegt að nýta megi hluta bílastæðanna í borgunum undir svona byggð þegar einkabílunum fækkar.

Að ofan er grunnmynd hússins. Á netinu er sagt að þarna sé bæði þvottavél og þurrkari. Ég veit ekki hvar þau heimilistæki er að finna. Kannski í hornskápnum neðst til vinstri. Það er rétt að árétta að þetta er í raun 20 feta gámur. Algengustu gámarnir sem við þekkjum eru 40 feta.

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is