Föstudagur 29.8.2014 - 10:23 - 18 ummæli

Caffe-latte beltið í Kaupmannahöfn

 

Á sunnudaginn kemur verður opnað nýtt byggingaland í Kaupmannahöfn. Þetta er hafnarsvæði sem áður hét Nordhavn. Hverfið kallast á við Sydhavnen og Örestaden sem margir þekkja.  Við Sydhavnen er Sluseholmen og Örestaden þar nálægt en við Nordhavnen verður Århusgadekvarteret.

Þarna á að byggja á næstu 40-50 árum 40 þúsund manna byggð og atvinnuhúsnæði fyrir sama fjölda fólks.

Danir gera sér grein fyrir því að það verður dýrt að búa þarna og ekki á færi allra. Samkvæmt Politiken er gert ráð fyrir að íbúðir þarna kosti á annað hundrað miljónir íslenskra króna.

Menn segja að þessi byggð muni ekki eingöngu breyta borgarlandslaginu heldur einnig hinu pólitíska landslagi. Félagsleg samsetning borgaranna verði önnur á komandi árum.

Menn spá því að Socialdemokratar muni missa þá sterku stöðu sem þeir hafa haft í borginni í meira en 100 ár.

Það er að gerast það sama í Kaupmannahöfn og víða annarstaðar að vel menntað og efnameira fólk flytur inn í borgirnar. Svefnbæirnir eru að missa aðdráttarafl sitt. Fólk vill þjónustu, menningu og götulíf í nágrenni sínu.

Íbúðir á jaðarbyggðum munu lækka í verði. Verslunarkjarnar fara á hausinn vegna þess að verslunin flyst á netið og fólk með peninga flytur inn í borgirnar. Þjónusta í úthverfum er að minnka.

Áður var talað um“ Wisky Bæltet „norðan Kaupmannahafnar þar sem hinir efnameiri og „de gamle penge“ bjuggu.  Þetta svæði var líka kallað „Böf og rödvinsbæltet“.  Nú er farið að tala um „Caffe-latte bæltet“ sem einmitt gengur frá Sydhavnen til hins nýja Århusgadekvarter, þar sem miðborgin gamla er með í beltinu.

Þetta er áhugavert að skoða og spegla í hugmyndum um uppbyggingu við höfnina í Reykjavík og í Vatnsmýri. En við verðum að muna að Kaupmannahöfn er höfuðborg dana sem eru um 17 sinnum fleiri en við.

Myndbandið að ofan lýsir hugmyndum dananna vel. Þarna er sýndur arkitektúr sem gengur þvert á það sem mér sýnist vera að herast á bakkanum sunnan Hörpu í Reykjavík. HVað svo sem mönnum almennt kann að finnast um hann.

Að neðan er mynd af nýlegum húsum í Sydhavnen.

Manglende_plan_for__871388y

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.8.2014 - 12:35 - 9 ummæli

Landspítalinn aftur á dagskrá

Picture1

Núverandi forstjóri Landspítalans var í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar þann 15. ágúst s.l.  Þar lagði hann áherslu á að hefja framkvæmdir við byggingu spítalans sem fyrst til þess að koma bráðastarfsemi sjúkrahússins í eitt hús og að ef ekki væru til peningar þá þyrfti að finna aðra lausn.

Þarna opnaði forstjórinn á umræðu um aðra lausn en þá sem nú liggur fyrir.  

Páll Torfi Önundarson, prófessor í blóðsjúkdómum við HÍ og yfirlæknir á Landspítalanum brást við og skrifaði grein í Morgunblaðið sem hann hefur sent hingað til birtingar.

Ég birti greinina hér með mikilli ánægju, enda ástæða til þess að taka umræðuna upp að nýju í kjölfar þessarar opnunar forstjórans og ekki síður í tengslum við ný tækifæri sem hafa skapast með nýju aðalskipulagi.

Hér kemur grein Páls Torfa í heild sinni:

Núverandi forstjóri Landspítalans er mjög áhugasamur um framgang sjúkrahússins og er það vel. Hann er þó ekki heilagur maður eins og nafni hans, postulinn, frekar en ég. Því er engum skylt að hafa sömu skoðun og hann á réttu og röngu eða á fegurð eða byggingarlausnum á Landspítalalóð.

Í viðtali í morgunútvarpi Bylgjunnar 15. ágúst sl. sagði hann að nauðsynlegt væri að hefja nýbyggingar á Hringbrautarlóð Landspítalans sem allra fyrst til þess að koma bráðastarfsemi sjúkrahússins í eitt hús og er ég sammála því. Hann mælti með fyrirliggjandi fyrsta áfanga í SPITAL-planinu umfangsmikla – en sagði jafnframt að ef ekki væru til peningar í þá byggingu þá þyrfti að fara í aðrar lausnir sem hann nefndi „skítamix“. Mér fannst þetta sniðugt orð af því að mér finnst SPITAL-planið einmitt vera þess eðlis; allt of stórt fyrir byggingarlóðina, vitlaust staðsett, ljótt, byggt í brekku og með slæmum tengingum við gömlu húsin, sem þar með munu nýtast illa.  Áframhaldandi nýting húsanna á Hringbraut var einmitt aðalforsenda staðarvalsins, m.ö.o. að spara peninga, sem liggja víst ekki á lausu hérlendis.

Ég leyfi mér að biðja ritstjóra Morgunblaðsins að birta enn og aftur hlið við hlið mynd annars vegar af deiliskipulagstillögu SPITAL, sem gerð er fyrir milljarða, og hins vegar af tillögu minni og Magnúsar Skúlasonar arkitekts, sem enginn peningur hefur verið settur í. Svo sting ég upp á því að lesandinn sjálfur, borgarbúinn, meti hvor tillagan sé „skítamix“. Þá má hafa í huga borgarmyndina, fegurðina, Þingholtin.

Tillaga okkar Magnúsar er fullnægjandi lausn fyrir bráðastarfsemina og rannsóknarstofurnar til nokkurra áratuga og ásýnd Þingholtanna breytist ekki mikið. Valstarfsemi getur verið áfram í Fossvogi um sinn. Margir hafa haft samband við mig, arkitektar, verkfræðingar, læknar og aðrir og lýst yfir stuðningi við lausn okkar Magnúsar fyrir þessa lóð, sem lýst hefur verið í fyrri greinum bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. En þeir sömu vilja ekki segja það opinberlega. Er eitthvað að óttast?

******

Efst er mynd af tillögu Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa sem þeir telja  er fullnægjandi lausn fyrir bráðastarfsemina og rannsóknastofurnar þar sem ásýnd Þingholtanna breytist ekki mikið, ólíkt SPITAL-skipulaginu. Að neðan er svo tillaga sú sem nú liggur fyrir.

Neðst er svo mynd af húsi sem sem er álíka hátt og fyrirhugaður meðferðarkjarni sem á að rísa sunnnan við gamla Landspítalann frá því 1930.

Meðferðarkjarninn er 25,4 metrar á hæð eða sem nemur venjulegu 9 hæða húsi eða 80% hærra en viðmið aðalskipulagsins. Meðferðarkjarninn er nánast jafn hár og fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á neðstu myndinni í færslunni.  En hann er líka þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri ef ég skil uppdrættina rétt!

Það er full ástæða til þess að skoða nánar með faglegum hætti og í fullri alvöru deiliskipulagstillögu þeirra Magnúsar Skúlasonar arkitekts og Páls Torfa Önundarsonar yfirlæknis um aðra nálgun.  Aðlaga deiliskipulagið  markmiðum aðalskipulagsins um húsahæðir og aðliggjandi byggð og ekki síður að fjárhagslegri stöðu ríkisins og samfélagsins alls.

Kannski taka málið upp í heild sinni í samræmi við þá sviðsmynd sem nú blasir við. 

Fjallað er um tillögu Magnúsar skúlasonar arkitekts og Páls Torfa á þessari slóð:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/

 

 

 

Picture3

photoaaaa1

 Fjölbýlishúsið við Kleppsveg sem sýnt er á myndinni að ofan er álika hátt og fyrirhugaður meðferðakjarni SPITAL hópsins sem rísa á sunnan við gamla Landspítalann við Hringbraut.  Meðferðarkjarninn verður  þrisvar sinnum lengri en blokkin og um 17 sinnum fyrirferðameiri (að rúmmáli) ef ég skil uppdrættina rétt! Margir efast um að þingholtin og borgarlandslagið beri svo stóra byggingu á þessum stað.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.8.2014 - 08:18 - 14 ummæli

Staðfesta í borgarskipulagi

 2013-06-13 13.29.24

 

Meðal athugasemda sem bárust Reykjavíkurborg, þegar skipulag Vatnsmýrarinnar var þar til umfjöllunar í vetur, var hugleiðing Bolla Héðinssonar hagfræðings sem hann sendi sem umsögn um skipulagstillögurnar. Bolli er áhugamaður um borgarskipulag og byggingalist og tengir gjarnan þessi áhugamál fræðigrein sinni, hagfræðinni.

Hann telur fyrirhugað hverfi í Vatnsmýri boða nýja tíma  og ný tækifæri í Reykja­vík. Þar gefst færi á að byggja hverfi af þeirri tegund sem mest er þörf fyrir í borginni. 

   

Umsögn Bolla tekur á viðfangsefnum sem vert er að gefa gaum og því er hún birt hér.  Sjónarmið hans eiga erindi í skipulagsumræðuna  og vil ég þakka honum sendinguna. Ég mæli með því að fólk lesi þetta og íhugi sjónarmiðin sem þar koma fram.

Myndefnið sem fylgir færslunni er fengið frá höfundi.

 

Staðfesta í borgarskipulagi

 

Með skipulagi Vatnsmýrarinnar hillir loks undir að í Reykjavík verði til stórt heildstætt „mið­borgar­hverfi“ sem færir hana nær því að geta risið undir kröfum um blöndun búsetu og at­vinnu sem borginni er nauðsyn. Aðeins þannig fær hún gegnt hlutverki sínu sem höfuðborg og sem borg sem tryggir Íslendingum lífsgæði sem aðeins er í boði þegar borgir hafa náð ákveð­i­nni stærð.  Þessa tegund fjölbreytileika getur orðið að veruleika í því hverfi sem til stendur að byggja í Vatnsmýri.

Þegar einstakt tækifæri gefst nú til að skapa slíkt hverfi í Reykjavík þarf að vanda til verka og sýna staðfestu í uppbyggingu þess.  Þannig skiptir máli að öll Vatnsmýrin verði skipulögð sem eitt svæði þó svo að einstakir hlutar svæðisins komi inn til byggingar á mismunandi tímum.

Á svæðinu er brýnt að skapa „borgar-anda“ sem aðeins næst með samspili þess…

  • …hvernig göturnar eru lagðar,
  • …þéttleika gatna og
  • …þéttleika bygginga,
  • …hæð húsa og
  • …hlutfallinu milli atvinnuhúsnæðis og íbúða.

Þetta gildir jafnt um svæðið allt, hluta þess sem og einstakar byggingar.

Uppskriftin að skipulagi þeirra borga og borgarhluta í Evrópu sem eftirsóknarverðast þykir að búa í er afar einföld.  Yfirleitt eru þetta hverfi sem byggðust upp eða voru skipulögð á ára­bilinu 1850 – 1930.  Stærstu drættir slíks skipulags eru, að þar er víðast að finna verslanir og þjónustu á jarð­hæðum húsanna, en íbúðir á hæðunum þar fyrir ofan.

Þrátt fyrir áðurgreinda megin­drætti um hvað er að finna í einstökum húsum þá útilokar það alls ekki að þar séu einnig barnaskólar, háskólastofnanir, minni leikhús/samkomuhús o.þ.h. innan um verslanir og veitingahús auk allskyns persónulegrar þjónustu.

2013-10-15 17.03.35

Hér er komið að afar mikilvægum þætti í skipulagi hverfis af því tagi sem fyrir­­hugað er að rísi í Vatnsmýri.

Auk þess sem áður er getið um gæði Vatnsmýrar­hverfisins þá er rétt að ítreka að í því tilliti  er einna mikil­vægast samspil íbúða og þjónustu.  Þ.e. þeir sem kjósa að búa á svæðinu, þeir eru að leita eftir mann­lífi sem tengist þeirri þjónustu sem þar er að finna.  Ekki endilega vegna þess að þeir séu svo miklir notendur þeirrar þjónustu sem þar er í boði heldur að einmitt þar standi hún öllum til boða.  Því skiptir það máli að ekki verði síðar veittar undan­þágur frá skipt­ingu húsnæðisins í þjónustu og íbúða­r­hús­næði. Mikið af þeirri þjónustu fellur sjálf­sagt undir eitthvað sem nefna mætti „ómerki­lega starfsemi“ en samt ein­mitt starf­semi sem er til þess fallin að gera hverfi eftir­sóknarverð að búa í.  Hér má nefna snyrti­stofur og allskyns verslun þar sem er verið að sinna sértækum þörfum og áhugamálum viðskipta­vinanna.

Viðbúið er að þegar húseigandi telur sig ekki fá nægjanlega háa leigu fyrir þjónustuhúsnæði í hans eigu (eða telur sig ekki geta selt þjónustu­hús­næðið við því verði sem hann setur upp) þá mega borgaryfirvöld á hverjum tíma alls ekki verða við beiðnum um að breyta notkun hús­næðis­ins úr þjónustu- í íbúðarhúsnæði. Verði það gefið eftir þá glatast það samspil íbúða og þjón­ustu sem íbúarnir í hverfinu eru að leita eftir og hverfið verður smátt og smátt eins­leitt íbúða­hverfi. Þetta hafa orðið örlög þeirra fáeinu gatna í Reykjvík þar sem var að finna vísi að slíku sam­spili. T.d. Grundar­stígur, Óðins­gata svo fáeinar götur séu nefndar. Hús­eigendurnir hafa ekki talið sig fá nægjan­­lega hátt verð fyrir verslunar­­hús­næði, hvort sem er í útleigu eða sölu, svo því hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði.

Hér mega borgaryfirvöld ekki gefa eftir þum­lung.  Vanda­málið er nefnilega ekki að hús­eig­andinn fái ekki nógu háa leigu fyrir hús­næðið, heldur er vanda­málið að hús­eig­andinn er ekki reiðu­búinn að sætta sig við lága leigu fyrir hús­­næðið, fyrir einhverja þá starf­semi sem þar gæti þrifist, væri leigan nægjanlega lág. Hús­eig­andanum verður að vera ljóst frá byrjun að við­komandi hús­næði er ekki ætlað undir íbúðir og að frá þvi verði ekki hvikað.

2013-08-23 17.38.32

Gera verður ráð fyrir að vel sé séð fyrir almennings­samgöngum í Vatns­­­­mýrarskipulaginu og tryggt að strætis­vagnar séu á sérstöku akrein/spori sem geri þeim kleift að hafa forgang í umferðinni.

Í hverfum þeim sunnar í Evrópu sem hér hafa verið skoðuð til samanburðar eru húsin yfirleitt 5-7 hæðir og standa jafnframt þétt við götu, randbyggð. Viðbúið er að það séu full há hús fyrir Vatnsmýrarhverfið m.t.t. skuggavarps.  Rand­byggðin er hins vegar mjög mikilvæg til að tryggja hinn eftirsóknarverða karakter hverfisins en viðbúið er að húsin þurfi að vera lægri í Vatns­mýrar­hverfi.

2013-08-03 13.56.31

Heppileg leið til að sjá bregðast við skuggavarpinu gæti verið að hafa húsin lægri norðan megin hverrar einstakrar götu. T.d.  upp á 4-5 hæðir (í rand­byggð um­hverfis lokaðan inni­garð) á meðan að húsin sunnan megin í slíkri þyrpingu væru 3-4 hæðir.  Aldrei verður þó séð við skugga­varpinu að fullu, frekar en í borgum sunnar í Evrópur, en þetta þó viðleitni til að draga úr því.

IMG_4770

Á hinu vindasama Íslandi hefur byggð hvergi verið hönnuð bein­línis til draga úr áhrifum vinds á byggðina.  Í Vatns­mýrar­­hverfi gefst einstakt tæki­færi til þess.  Nyrst í Vatns­mýrarhverfi, úti við Hring­­­braut, gefst færi á að byggja hús af öðru tagi heldur en sunnar og innar í hverfinu án þess að það hafi áhrif á karakter hverfisins.  Þar gefst tækifæri á að hanna hús m.t.t. vinda­fars þannig að húsaröðin,  eða húsa­raðirnar, næst Hringbraut myndi með einum eða öðrum hætti „skjólvegg“ fyrir norðanátt fyrir hverfið allt. Húsin geta bæði verið allmiklu hærri en húsin almennt í hverfinu og einnig breiðari ef því er að skipta. Hér skiptir mestu máli að hönnun þeirra húsa verði þaul­prófuð áður, með líkanagerð, í þar til gerðum vind­göngum  þannig að þau raun­veru­lega brjóti vind en skapi ekki vind­hviður líkt og reyndin hefur verið með hús í hærri kantinum í Reykjavík og ná­grenni.

Staðsetning húsanna við Hring­braut  leiðir til nokkurs skugga­varps inn á Hringbraut sem kemur ekki að sök þar sem það lendir ekki á íbúða­byggð.

Auk þess sem mögu­lega er hægt að draga úr norðanvindi með þessum út­hugsuðu „vind­­brjótum“ nyrst í hverfinu þá ætti þéttleiki gatna innan hverfis­ins einnig að geta orðið til að draga úr stöðugum vindi og skapa aukna mögu­leika á meiri umferð gangandi veg­far­enda árið um kring.

IMG_4789

Annar kostur við hærri hús nyrst í hverfinu, auk veður­farslegs tillits,  er að þar gefst færi á að bæta verulega í íbúa­fjölda hverfisins án þess að karakter þess breytist að öðru leyti.  Á svæðinu nyrst gæti þéttleiki byggðarinnar verið til muna meiri vegna hærri húsa en þeir íbúar sæktu eftir sem áður inn i hverfið til suðurs eftir atvinnu og þjónustu.

Hverfið í Vatnsmýri boðar nýja tíma í Reykja­vík. Þar gefst færi á að byggja hverfi af þeirri tegund sem mest er þörf fyrir í borginni.  Borgin og nágrannasveitarfélög sjá nú þegar fyrir byggð fyrir sérbýli auk fjölbýlishúsa sem byggð eru við rúmar aðstæður með túnflötum og opnum svæðum.  Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir hverfi af því tagi sem hér að framan er lýst og þessvegna sérstaklega ánægjulegt að borgin geti brugðist við þeirri eftirspurn með jafn myndarlegum hætti og Vatnsmýrarhverfið býður upp á.

 

Hér eru slóðir að færslum sem tengujast Vatnsmýrinni.:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Ef slegið er inn orðið Vatnsmýri í leitarboxinu til hliðar koma upp fjöldi pistla um málefni Vatnsmýrarinnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.8.2014 - 11:48 - 16 ummæli

„GRETTISGATA – APARTMENTS“

photo 4

 

Viða í borgum eru til hverfi og götur sem almenn sátt er um. Þetta er oft í eldri hlutum borganna.

Gestir og ferðamenn laðast að þessum hverfum og götum. Fólk vill búa í svona umhverfi. Ástæðan er oftast sú að þar er einhver harmónía. Húsin eru kannski ekki ofurfalleg öllsömul eða góð en þau skapa saman einhverja heild sem fólki líkar. Þau fara vel saman og standa hlið við hlið og í sátt við hvert annað. Þarna er oftast eitthvað sem við erum farin að kalla staðaranda. Á þessum stöðum standa oftast hús sem flokka má undir „regionalisma“ Svo er þarna götulíf og allt gróið. Maður veit á hverju maður á von og fyllist öryggistilfinnungu. Maður veit hvar maður er staddur og samsvarar sig við húsin.

Það er líka fleira sem laðar fólk að og gerir svona hverfi eftirsóknarverð.

Það er handverkið.

Vegfarandinn og íbúinn sér og finnur fyrir handverkinu.

Mannshöndinni.

Það fer minna fyrir því í nútímahúsum.

Vegfarandinn sér hefil- og sagarförin í timbrinu, penslistrokur málaranna og strúktúr múraranna í múrverkinu, naglhausana og m.fl. Þetta er allt eitthvað svo aðlaðandi, skiljanlegt og manneskjulegt. Manni finnst jafnvel maður geti gert þetta sjálfur.  Þetta á líka við um garðana og rýmin milli húsanna.

Arkitektar á borð við Jan Gehl og Vandkunsten hafa áttað sig á þessu og skilgreint sem gæði sem fólk kann að meta. Þeir leggja áherslu á arkitektúr í augnhæð.

Þrátt fyrir þetta er þessum hverfum nú ógnað. Þeim er aðallega ógnað úr tveim áttum. Annarsvegar er þrýstingur um að breyta starfsseminni í húsunum og og hinsvegar af byggingarlistalegu inngripi með nýbyggingum og viðbyggingum sem ekki eru í samræmi við anda staðarins.

Túrisminn og breytt notkun húsa í hans þágu er ógnun. Túrisminn hefur eyðilagt margar borgir eins og við vitum. Ég nefni Feneyjar og San Gimingnano (svo nefndar séu tvær borgir sem mé voru kærar á Ítalíu), arkitektúrinn er sá sami og áður en starfssemin og mannlífið annað. Ég fyrir minn hlut nenni ekki að heimsækja svona staði.

Á svæðinu sunnan Laugavegar  er  aukin ásókn ferðaþjónustunnar ógnvaldur. Hann hefur þær afleiðingar að húsaleiga og íbúðaverð hækkar og fjólskyldufólk flytur burt. Bornin á götunum og í görðunum hverfa. Þetta ógnar götunum eins og við þekkjum þær og viljum flest hafa þær.

Önnur ógn eru svo stórhuga athafnamenn sem ráða til sín arkitekta sem hafa aðra sýn á gæði umhverfisins en flest okkar hinna.

Afleiðingin er ráðgjöf og framkvæmd sem rýra gæði hverfisins og einkenni þess. Þetta gerðist ekki í Feneyjum og San Gimignano góðu heilli. Húsin eru þau sömu en starfssemin önnur. Mér sýnist þetta sama vera að gerast ofan Laugarvegar auk þess sem verið er að byggja við húsin og reisa ný hús sem ekki eru í takti við það sem fyrir er..

Hjálagt eru sex myndir teknar í hverfinu þar sem nýbygging er á einni og ný viðbygging á annarri.

Það vakna margar spurningar þegar gengið er um hverfið ofan við Laugaveg og við- og nýbyggingar skoðaðar. Ein er hvort þarna sé verið að brjóta blað í byggingarlistinni á svo háu plani að venjulegur maður skilur ekki neitt í neinu eða hitt  að þeir sem þarna eru að tjá sig í byggingarlistinni hafi aðra sýn á umhverfið og sjái þarna önnur gæði í umhverfinu en sum okkar hinna.

 

 

photogr3

photo 1

Aðgerðarsinnum tókst að bjarga silfurreyninum við Grettisgötu sem var ógnað í skipulagsáætlunum. Það las ég í blaðinu í morgun. Borgaryfirvöld eiga að fagna hugsjónastarfi aðgerðasinna og eiga hrós skilið fyrir að bregðast við. Hér er samráð í verki. Borgaryfirvöld eiga að kalla áhugasama að borðinu og taka þeim fagnandi. Þeir vilja bara vel og eru oftast með heildarhagsmuni að leiðarljósi.  Til hamingju með þetta borg og aðgerðarsinnar.

 

photo 2

Að ofan er nýbygging við Njálsgötu og að neðan er viðbygging við gamalt hús í sömu götu. Það þarf að hafa í huga að viðbyggingin er í smíðum og ekki hægt að segja lokaorð um útkomuna. En maður bíður auðvitað spenntur eftir því að sannfærast um þessa nálgun á úrlausnarefninu.

photogr2

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.8.2014 - 20:30 - 14 ummæli

Arkitektúr án arkitekta

fingal27scave5

Fyrir einum þrem áratugum var gerð könnun á því hverjir teiknuðu húsin sem þá var verið að byggja í Reykjavík. Skoðuð voru tvö eða þrjú nýleg íbúðahverfi. Niðurstaðan var að arkitektar teiknuðu um 20% húsanna. Hin um 80%  voru teiknuð af fagfólki með aðra menntun sen byggðist ekki á byggingalist.

Einhvern vegin held ég að þetta hafi breyst. Arkitektar teikna hlutfallslega fleiri íbúðahús nú á dögum en áður.

Til þess að fyrirbyggja misskilning þá er ég ekki að segja að einungis arkitektar geti teiknað íbúðahús eða eiga að vera einir um þessi störf. Alls ekki.

Það hefur nefnilega sýnt sig að mikið af virkilega góðum húsum voru teiknuð og skipulögð á grundvelli hefða í byggingalistinni og þekkingar sem flutt var milli kynslóða og án margbrotinna teikninga og án sérstkrar menntunnar í byggingalist eins og við þekkjum hana nú á dögum.

Ég nefni íslenska torfbæjinn, Hutongs íbúðahúsin í Kína og margt fleira.

Árið 1964 kom út bókin „Architecture without architects“  sem margi arkitektar þekkja og eiga. Bókin er eftir Bernard Rudofsky og hefur verið endurútgefin og bætt nýlega. Bókin vakti mikla athygli og opnaði augu manna fyrir mikilvægi hefðanna á hverjum stað fyrir byggingalistinni. Maður sá hvernig húsin mótuðust af umhverfi sínu og menningu.

Svo sér maður víða form í náttúrinni sem minna mann á byggingalist eins og myndin efst í færslunni sýnir er auljóslega ekki gerð af menntuðum arkitektum. Þar voru meistarans hendur að verki.

Meðan á dvöl minni í Flatey á Breiðafirði stóð nýlega voru ungir strákar að verki við að byggja smáhýsi af mikill hugkvæmni.

Efniviðurinn var úr timburstafla þar sem eyjaskeggjar hafa lagt afgangs timbur vegna viðhaldsverka og endurbygginga húsasafnsins á eynni.

Útkoman er frábær byggingalist án aðkomu arkitekta eða nokkurs leiðbeinanda af nokkurri tegund.

Ungu smiðirnir voru innblásnir af staðnum og því byggingarefni sem var við hendina á sama hátt og gömlu mennirnir sem byggðu torfbæjina á öldum áður. Litlu húsin mótuðust af staðnum, kunnáttu og hugkvæmni drengjanna og því byggingarefni sem var á staðnum svipað og mátti sjá í frumútgáfu bókarinnar um arkitektúr án arkitekta.

Þetta leiðir hugan að staðbundinni byggingalist, „regionalisma“ sem nokkuð hefur verið skrifað um hér á vefnum.

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

Myndirnar að neðan sýna afrakstur byggingalistamannanna ungu í Flatey.

photo 1

Hér er suðurhlið smáhýsisins með inngangi inn í stofu og eldhús á jarðhæð. Gegið er upp tröppur um svalir inn í stofu á efri hæð með stórum gluggum með útsýni til norðurs og vesturs. Svalahandriðin eru byggð úr tveim mismunandi rúmgöflum sem voru við hendina.

photo 4

Framan við inganginn til suðausturs er morgunverönd sem gerð er úr vörubrettum. Ungur maður sem ekki kom að smíðinni stendur í dyragættinni heillaður af byggingalistinni

photo 5

Gamlir gluggar sem fargað hefur verið notuðu ungu smiðirnir til þess að skapa útsýnisstofu. Hægindastóllnum þurfti að koma fyrir áður en útveggjasmíðinni var lokið.

Að neðan er mynd af endurútgefinni bók Bernard Rudofsky, „Arkitekture Without Architects“.

 

51S5SM2VH5L

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.7.2014 - 10:37 - 28 ummæli

Matvöruverslanir aftur inn í íbúðahverfin

slides-myndir0821lett

 

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að vistvænni borg með minni bifreiðaumferð, betri þjónustu í íbúðahverfunum og meira mannlífi milli húsanna og á götunum.

Þetta eru allt góð markmið sem flestir ættu að geta sæst um.

Til þess að ná þessum markmiðum eru margar leiðir. Ein sú miklvægasta er að flytja matvöruverlanir aftur inn í íbúðahverfin.

Efst í færslunni er mynd af verslununum við Dunhaga tekin úr efstu hæð í símamannablokkinni við Dunhaga

Sennilega er myndin tekin 1960-62. Göturnar enn ómalbikaðar og engar eru gangstéttirnar. Öll sjónvarpsloftnetin vísa til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.  Í verslunarkjarnanum við Dunhaga var mjólkurbúð, hannyrðaverslunin PERLON, fiskbúð (Dóra fisksala), matvöruverslun KRON og að mig minnir skósmiður. Handan Dunhagans voru 2-3 búðir; bókabúð og hárgreiðslustofa sem er þarna ennþá og ein til viðbótar.

Skammt frá, við Fálkagötu var Stebbabúð og svo Ragnarsbúð á horni Suðurgötu og Fálkagötu, Bakaríið var og er um miðja Fálkagötu og Árnabúð á horninu á móti. Svo var ekki langt í verslunarkjarnann við Hjarðarhaga (Hagabúð) og Melabúðina sem er enn á sínum stað og fjölda annarra verslana í hverfinu.

Eins og höfundar upphaflegs skipulags gerðu ráð fyrir var allt við hendina, bæði dagvöruverslanir og skólar. Þarna var auðvelt að búa án þess að hafa einkabíl til umráða. Mikið líf var á götunum og allt í göngufæri.

En í tímans rás misstu menn einhvern vegin tök á skipulagi verslunar í hverfinu og dagvöruverslanirnar lokuðu hver af annarri eftir að verslunarstarfssemin var flutt að mestu út á hafnarsvæðin við Granda. En eins og allir vita er matvöruverslu ekki hafnsækin starfssemi.

Þegar ég segi að menn misstu tök á skipulaginu á ég við að þeir sem véluðu um skipulagsmál á þeim tíma sem heimilað var að reka matvörubúðir og „nærþjónustu“ á hafnar- og iðnaðarsvæðum hafa sennilega ekki skilið samhengi hluttanna eða verið truflaðir af tíðarandanum. Ekki skilið að allt þarf að skipuleggja og allt er háð skipulagi og allar skipulagsákvarðanir hafa afleiðingar. Þetta á við skipulag gatna, lóða og skipulag verslunar. Þessi breyting á verslunarháttum og flutningu matvöruverslunnar út úr íbúðahverfunum varð ekki til vegna óska þeirra sem versluðu.

Það voru stóru verslunarkeðjurnar sem sáu þarna viðskiptatækifæri og útbjuggu matvöruverslanir í skemmum á hafnarsvæðinu við Granda með velþóknun skipulagsyfirvalda. Varan varð ódýrari og viðskiptavinirnir töldu hagstætt að versla þar þó að um langan veg væri að fara.

Vissulega var vöruverðið lægra en kostnaður einstaklinganna við að nágast vöruna stórjókst og kostnaður sveitarfélagsins vegna gatnagerðar og viðhalds gatna varð meir en að óbreyttu. Mengun varð meiri og slysahætta jókst.

Grundvöllur verlanareksturs inni í íbúðahverfunum brast og fullkomið verslunarhúsnæði stóð tómt  í íbúðahverfunum þar sem neytandinn bjó. Þessu húsnæði var oft breytt í skrifstofur eða afspyrnulélegt íbúðahúsnæði.

Með því að leyfa verslanir utan íbúðahverfa í skemmum á hafnar- og iðnaðrvæðum misstu menn tök á skipulaginu. Sáu sennilega afleiðngarnar ekki fyrir . Upphaflegt þaulhugsað skipulag t.a.m. á Melum og Högum brast. Það virtist sem forkólfar skipulagsmála hafi farið að skipuleggja fyrir og með hagsmuni stórmarkaðanna í stað þess að skipuleggja fyrir fólkið og neytandann og bæta hverfið sem var fyrir. Þetta gerðist þrátt fyrir að samkvæmt tölfræðinni var umframframboð á verslunarhúsnæði í borginni.

Nú er í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030  gerð tilraun til þess að snúa þessu við. Góðu heilli. Styrkja hverfisheildir og færa þjónustuna nær neytandanum og auka þar með gæði og mannlíf hverfanna.  Hverfaskipulag sem unnið var að í vetur er stór liður í þessu ferli.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast heyri ég á kollegum mínum að þeir trúi ekki á þessa þróun. Þeir trúa ekki á meginmarkmið aðalskipulagsins.

Þeir halda að ekki sé hægt að snúa þessu óheillaferli við.  Hafa gefist umm eða skilja þetta ekki. Þarna er jafnvel um að ræða arkitekta sem eru stórtækir í ráðgjöf í skipulagsmálum borgarinnar.

Auðvitað kanna að vera að menn vilji ekki snúa þessu við og vilja halda áfram að aka 2-6 km til þess að sækja sér mjólk út í kaffið. Vera lausir við að mæta nágrönnum sínum á gangstéttinni o.s.frv.

En vilji maður snúa þessu við þá er það kannski ekki auðvelt en vel hægt.

Ég nefni eitt atriði sem tengist umræðunni um að leyfa sölu léttvíns í matvörubúðum. Ef krafan yrði að léttvín yrði ekki selt í verslunum yfir einhverri lágmarksstærð, segjum 200-300 m2, og alls ekki í stórmörkuðum utan íbúðahverfa mun hagur kaupmannsins á horninu vænkast. Hann mun fá nýtt tækifæri.

En það mikilvægasta er að átta sig á að skipulag hefur áhrif og afleiðingar og það þarf að, stjórna skipulaginu með almannahagsmuni í huga. Sennilega sáu þeir sem um þetta verslunarskipulag véluðu á sínum tíma ekki fyrir afleiðingarnar af því að flytja matvöruverslun út úr íbúðahverfunum og þess vegna má segja að þeir misstu tökin á matvöruverlunarskipulaginu í borginni.

+++

Sjá einni umfjöllun og umræður um efnið á eftirfarandi slóð:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

Og um léttvínssölu í matvöruverslunum hér:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/03/22/lettvin-i-matvoruverslanir-til-kaupmannsins-a-horninu/

 

untitledbonus

Mikið framboð er af matvöruverlunum á hafnarsvæðunum sem dró úr samkeppnishæfni kaupmannsins á horninu. Þessi skipulagsákvörðun jók bifreiðaumferð og ferðakostnað heimilanna auk þess em mannlíf á götunum dróst saman og hverfiskjarnar og grenndarsamkennd íbúanna minnkaði.

photoccc

Nú eru skrifstofur í hverfiskjarnanum við Dunhaga þar sem áður var fjöldi verlana í rúmgóðu sérhönnuðu húsnæði

photodddd

Handan hverfiskjarnans sérhannaða við Dunhaga voru 2-3 verslanir sem hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði. Hárgreiðslustofan er þarna enn.

photoaa

Á horni Suðurgötu og Fálkagötu var Ragnarsbúð sem var ágæt matvöruverslun hins frjálsa kaupmanns. Kaupmaðurinn bjó á efri hæð hússins.

 

photobalari

Um miðja Fálkagötu er nú Björnsbakarí og á horninu á móti (sjá mynd að neðan) var Árnabúð sem lagðist af fyrir allmörgum árum. Þar er nú íbúðarhúsnæði.

photobbb

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.7.2014 - 20:49 - 13 ummæli

Það á ekki að rífa neitt – Heldur byggja við

PLH-studio_02

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi ekki að rífa nein hús…aldrei. Menn segja að það eigi að byggja við þau og aðlaga þau breyttum þörfum líðandi stundar. Viðhalda hinni sögulegu vídd í borgarlandslaginu. Ekki láta húsin víkja skilyrðislaust.

Ég er farinn að hallast að þessu sjónarmiði. Öll hús eru börn síns tíma og segja sína sögu. Þau hafa flest eitthvað sér til ágætis.

Maður rífur ekki borgir, maður byggir við þær og bætir.

Hjálmar Sveinssson formaður uhverfis- og skipulagsráðs hefur áttað sig á þessu og segir  í Fréttablaðinu í dag þar sem  hann er að fjalla um Skeifuna og uppbyggingu þar í kjölfar brunans: „Ég tel mikilvægt að þetta verði ekki eins og gert hefur verið víða í borginni, að allt sé rifið sem fyrir er“. Þetta er vel mælt hjá formanninum.

Mörg okkar munum eftir góðum húsum í Skuggahverfinu sem voru látin víkja fyrir nýju skipulagi. Það voru Kveldúlfsskemmurnar, Völundarhúsini og byggingar Sláturfélags Suðurlands. Allt vönduð hús sem mikil eftir sjá er af. Við munum líka eftir Söginni og byggingum Ræsis við Borgartún, Skúlatún og Skúlagötu. Það er mikil eftirsjá af þessum húsum.

+++++++

Í tengslum við þetta sjónarmið birti ég hér til skýringar nokkrar myndir af húsi sem hlaut viðurkenningu fyrir að vera eitt besta dæmið um endurbyggingu gamals húss í Danmörku árið 2013.

Þetta er gömul verksmiðja á Österbró í Kaupmannahöfn þar sem landverð er mjög hátt.

Grunnstoðir hússins hafa fengið að halda sér þannig að þær nýtast nýju hlutverki fullkomlega.  Þarna er gamalt hús „moderniserað“ þannig að gamla byggingin heldur anda sínum, sögu og allri gerð. Það er samt hvergi hallað á kröfur nút´mans og nútíma arkitektúr.

Eins og áður sagði fá grunnstoðir hússins að halda sér. Jafnvel hlaupakötturinn í lofti vinnslusalarins hefur verið gerður upp.

Rýmin hafa haldið sínum verksmiðjukarakter með  6,5 metra lofthæð. Á völdum stöðum er skotið inn hæð þar sem er rými fyrir 40 vinnustöðvar.

Húsnæðið sem áður hýsti verksmiðju fyrir rafmagnstæki. Lauritz Knudsenns Fabrikker er nú höfuðstöð fyrir eina af mörgum framsæknum arkitektastofum í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter AS.

http://www.plh.dk/

Vakin er athygli á að stiginn er iðnaðarstigi í anda hússins. Blöndun af litakennileitum á veggjum, hlílegu eikarparketti og súbergrafik skapar jafnvægi mili þess gamla og hráa og hins nýja.

+++++++

Það eru áratugir síðan fólk áttaði sig á hinni sögulegu vídd byggingarlistarinnar og fóru að horfa á eldri bygginga sem verðmæti í þeim löndum sem við höfum horft til. Ég nefni svæðið umhverfis High Line Park í NYsem margoft hefur verið fjallað unm á þessum vef. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Hjálmar Sveinsson og fulltrúar í skipulasráði skulu vera meðvitaðir um þetta tækifæri eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag.

Það á að halda niðurrifum í lágmarki almennt séð. Horfa frekar til endurbóta og viðbygginga þega um er að ræða gamlar byggingar eða eldri borgarhluta.

Sjá einnig sambæileg hús víðsvegar að:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/09/17/andrik-skrifstofurymi/

Og umfjöllun um High Line Park og Meatpacking district í NY:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

PLH-studio_04

 

PLH-studio_01-514x343

 

PLH-studio_06

PLH-studio_08

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.7.2014 - 13:22 - 11 ummæli

Vistvænt tjaldstæði í Þakgili

photoraf

 

Það vakti athygli mína þegar ég gisti í Þakgili ofan við Vík í Mýrdal um daginn að stæðið var að mestu sjálfbært hvað varðaði ferskvatn og raforku. Rafmagn fyrir snyrtiaðstöðuna var fengið frá lítilli rafsstöð sem knúin var með rennsli neysluvatns snyrtingarinnar. (sjá mynd að ofan)

Einfaldara gat það ekki verið.

Rafmagn fyrir landvörðinn og annað kom frá lítilli rafsröð sem komið var fyrir í einu gilinu í grenndinni. (sjá mynd að neðan).

Það verður ekki annað sagt en að þetta er til mikillar fyrirmyndar og staðfestir að litlar lausnir leysa oft fleiri mál en þær stóru.  Hér er sennilega vistvænasta tjaldstæði landsins og þó víðar sé leitað.

Svæðið umhverfis Þakgil er sennilega eitt skemmtilegasta göngusvæði landsins með stórbrotinni náttúru og fjallasýn hvert sem litið er.

Sjá:

http://www.thakgil.is/

 

photoraf22

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.6.2014 - 07:45 - 22 ummæli

Arkitektar – Samfélagsleg ábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð

Því hefur verið haldið fram að arkitektinn sé milliliður milli húsbyggjandans og samfélagsins.

Arkitektinn gætir hagsmuna húsbyggjandans og tryggir að hann fái gott og starfhæft hús sem þjónar þörfum hans og ofbýður ekki pyngjunni.

Arkitektinn ber líka ábyrgð gagnvart samfélaginu og þarf að tryggja að nýbyggingin þjóni borgarrýminu eða götunni. Hann þarf að tryggja að húsið bæti umhverfið og gefi því ný tækifæri. Hann þarf að gæta þess að nýbyggingin ofbjóði ekki umhverfinu og staðarandanum heldur styrki umhverfið og kosti þess. Nýbyggingin þarf að færa umhverfinu, borgarrýminu, einhver ný gæði samfélaginu til góða.

Það má halda því fram að arkitektinn þjóni tveim herrum hvað þetta varðar. Húsbyggjandanum og samfélaginu. Sem betur fer fara hagsmunir húsbyggjandans og samfélagsins oftast saman.

En ekki alltaf. Og þá reynir á arkitektinn.

Þetta er ekki alltaf einfalt eða auðvelt. Enda ekki alltaf sem óskir verkkaupans og samfélagsins fari saman. Svo geta skoðanir samfélagsis verið misjafnar eftir einstaklingum og viðhorfum þeirra. Tíðarandinn kemur líka  inn í dæmið, hann er sennilega versti óvinur byggingalistarinnar enda er hann síbreytilegur og óútreiknanlegur.

Verst er þegar arkitektinn er blankur eða háður verkkaupanum og  þarf nauðugur að láta óskir samfélagsins víkja fyrir skammtímaþörfum verkkaupans. Verkkaupinn færir honum brauðið sem samfélagið gerir ekki með jafn beinum hætti. Örsjaldan gerist það að arkitektinn og húsbyggjandinn er sami aðilinn. Það má helst ekki gerast þegar um er að ræða byggingar á viðkvæmum stað.

Sem betur fer  nýtur arkitektinn og samfélagið  stuðnings frá skipulagsyfirvöldum sem á að þjóna samfélaginu fyrst og fremst. En það geta komið upp átök milli húsbyggjandans og skipulagsyfirvalda sem eiga að gæta hagsmuna heildarinnar, samfélagsins. Þegar þannig stendur á kemur til kasta arkitektsins að finn sáttaleið.

Stundum er húsbyggjandanum (lóðarhafanum) falið að sjá um deiliskipulagið. Þá ræður hann arkitekt til þess að vinna þá vinnu og í framhaldinu að hanna húsin. Í slíkum tilfellum verður oft rof milli hagsmuna samfélagsins og lóðarhafans. Lóðarhafinn vill byggja sem mest og stærst, oft á kostnað umhverfisins. Arkitektinn reynir að mæta kröfum og þörfum láðarhafans.

Við þekkjum dæmi um þetta í Reykjavík. Ég nefni Skuggahverfið þar sem framkvæmdaaðilinn, fjárfestirinn, breytti áður samþykktu deiliskipulagi sér til hagsbóta. Sama á við um Höfðatorg þar sem skipulagið var unnið af arkitektum lóðarhafans og svo byggingarnar í framhaldinu. Þriðja dæmið er deiliskipulag Landspítalans sem var á höndum lóðarhafa. Borgin var umsagnaraðili í þessum tilfellum en leiddi ekki vinnuna. Deiliskipulagið og húsahönnunin var unnin samtímis af sömu aðilum á reikning lóðarhafa.

Hagsmunir samfélagsins virtust víkjandi.

Svona verklag hefur stundum verið kallað „verktakaskipulag“ vegna þess að það þjónar fyrst og fremst lóðarhafanum. Það sem er sameiginlegt með þessum „verktakaskipulögum“ er að þau eru útblásin með miklu hærra nýtingarhlutfalli en nálæg byggð og síðast en ekki síst er alls engin sátt um þau.

Á svokölluðum Bílanaustsreit var svipað verklag viðhaft en með örlítið öðrum hætti. Þar voru sömu arkitektar sem deiliskipulögðu fyrir borgina (samfélagið) og hönnuðu húsin fyrir byggingaraðilann (verktakann). Þarna voru arkitektarnir fyrst að vinna fyrir samfélagið og svo fyrir verktakana. Mörkin voru óljós. Það ber að forðast að deiliskipulagshöfundar sem vinna fyrir skipulagsyfirvöld hanni líka húsin fyrir lóðarhafa. Þeir eiga hinsvegar að vera umsagnaraðilar þegar húsin eru teiknuð inn í skipulagið og gæta hagsmuna skipulagsins.

Tilraunir skipulagsyfirvalda og áhugasamra borgara til þess að hafa áhrif á deiliskipulagið og húsahönnun hefur gengið illa þegar svona er unnið og það er almennt nokkur óánægja með athugasemdarferlið hjá borgurunum. Hvorki borgin né almenningur fá við þetta ráðið þó öflug rök séu fyrir því að gera mætti betur. Borgina skortir oftast kjark eða vilja til þess að taka tillit til athugasemda og/eða ráðlegginga borgaranna.

Skipulagsyfirvöld og arkitektar eiga að forðast þetta verklag í ljósi reynslunnar. Sami ráðgjafinn á ekki að skipulaggja og hanna húsin í sitt skipulag nema í algerum undantekningartilfellum. Arkitektar og skipulagsyfirvöld þurfa að hafa samfélagsleg ábyrgð að leiðarljósi og gæta hagsmuna heildarinnar í sínum störfum. Sýna samfélagslega ábyrgð og taka tillit til athugasemda.

Í siðareglum arkitekta er beinlínis ákvæði sem segir að arkitekt skuli ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans og að arkitekt skuli taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi. Þetta sjónarmið er áréttað í menningarstefu hins opinbera og í AR2010-2030.

+++++

Efst er mynd af umdeildri byggingu við Mýrargötu. Þarna hönnuðu arkitektarnir hús inn í samþykkt deiliskipulag sem þeir komu ekki að. Þeim var vandi á höndum. Deiliskipulagið var og er umdeilt. Af einhverjum ástæðum réð engin við málið og gátu ekki, þrátt fyrir vilja, mætt gagnrýninni og stýrt skipulaginu eða húsahönnuninni  til betri vegar.

Nýtt aðalskipulag AR2010-2030 og  menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á að fyrirbyggja niðurstöðu af þessu tagi.

Að neðan koma myndir af þeim dæmum sem nefnd eru í pistlinum.

 

 

Í Skuggahverfinu var skilmálum deiliskipulags breytt eða ekki farið eftir þeim. Í staðin fyrir þaulhugsað deiliskipulag sem sátt var um komu hærri, breiðari, frekari og svartari hús.

Við Höfðatorg var haft það verklag að deiliskipulag var í höndum lóðarhafa. Slíkt hefur verið kallað „verktakaskipulag“ þar sem hagsmunir grenndarinnar víkur oft fyrir hagsmunum lóðarhafans.

Kalla má nýtt deiliskipulag við Landspítala „verktakaskipulag“ vegna þess að það er unnið á vegum lóðarhafa og á hans kostnað. Hagsmunir hans eru settir ofar hagsmunum heildarinnar að því er virðist. Því var og er haldið fram að húsin og deiliskipulagið sé í þágu samfélagsins. Það má að vissu marki segja að rétt sé að sjálf húsin og starfssemin þar sé í þágu samfélagsins, en deilt er um hvort deiliskipulagið sé í sátt við samfélagið.

Byggingarnar á svokölluðum Bílanaustsreit eru hannaðar af sömu aðilum og deiliskipulögðu. Þetta er að því leiti svipað og gerðist í Höfðatúni, við Landspítalann og í Skuggahverfinu. Sameiginlegt með þessum deiliskipulögum er að nýtingin er meiri en víðast annarsstaðar  og byggingamassarnir ekki í samræmi við það sem fyrir er í næsta nágrenni. Í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er sérstaklega fjallað um að aðlaga skuli byggð að því sem fyrir er. Þetta er líka eitt af aðalákvæðum í opinberri menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007. AR2010-2030 og siðareglur Arkitektafélagsins ganga í svipaða átt.

 

Deiliskipulag við Austurhöfn tekur ekki nægjanleg mið af nálægðri byggð í Kvosinni. Borgin vann af mikilli alúð að undirbúningi að samkeppninni um svæðið umhverfis Ingólfstorg sem lauk árið 2012. Þar var markvisst unnið að því að halda í staðaranda og sérkenni miðborgarinnar. Áherslan þar var í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá árinu 1986 þar sem hæðir húsa voru stallaðar frá tveimur upp í sex hæðir og götuhliðar reitaðar í minni einingar.

Þess vegna kemur það á óvart að öll sú vinna og umræða sem fram hefur farið undanfarna áratugi hafi ekki skilað sér í nýju deiliskipulagi við Austurhöfn. Hlutföllin þar eru algjörlega á skjön við það sem menn höfðu áður sæst á þarna í næsta nágrenni. Við endurskoðun deiliskipulagsins voru aðalbreytingarnar þær að gatnamót Tryggvagötu og Kalkofnsvegar voru lagfærð og húsin lækkuð aðeins.

Þó skipulagið sé eins og það er þá hafa arkitektar sjálfra húsanna tækifæri til þess að hanna hús sem eru í anda þeirrar byggðar sem næst stendur og gætu lagt áherslu á og tekið mið af í Kvosinni, með styttri húslengdum, stölluðum húsahæðum, kannski frá þrem upp í sjö og auðvitað með fjölbreytilegri húsagerðum. Gert tilraun til þess að vera svoldið reykvísk!

Arkitektar eru þegar byrjaðir að hanna hús inn í deiliskipulagið við Austurhöfn. Myndirnar tvær að ofan og sú hér að neðan sýna hvernig arkitektarnir sem eru að teikna húsin sjá þau fyrir sér.  Það er öllum ljóst sem þekkja til skipulags og hönnunarmála að deiliskipulagið í sjálfusér ákveður sjaldnast þá byggingalist sem verður ofaná. Það er undir arkitektunum komið að gefa byggingunum form, útlit og karakter sem hentar staðnum þar sem á að byggja.

Við Austurhöfn er það ekki skipulagið sem þvingar fram þá niðurstöðu sem sjá má af myndum arkitektanna heldur gefur skipulagið arktektunum tækifæri innan viss ramma að laða fram hús sem henta staðnum. Það reynir á hæfileika arkitektanna til þess að greina staðinn og gefa byggingunum viðeigandi form og útlit, sem hentar staðnum og anda hans.

Þar reynir á samfélagslega ábyrgð fagmannsins.

Hafa þarf í huga að þetta er ekki miðborg einhvers banka eða hótelkeðju. Þetta er miðborg allra reykvíkinga og miðborg höfuðborgar allra landsmanna og sú miðborg sem ferðamenn sækja.

 

Streetview-Austurhofn-R12

Hér að neðan er samsett mynd af nýlegum húsum í 12 löndum um allan heim. Þarna er engan mun að finna. Allt er eins. Engin sérkenni og enginn staðarandi. Allt hundleiðinlegt og „professionelt“

Viljum við að allur heimurinn líti einhvernvegin svona út?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.6.2014 - 12:22 - 5 ummæli

María Dýrfjörð og arkitektúr

 

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Hin frábæra síða, Dezeen.com, fjallar í dag um hönnun Maríu Rutar Dýrfjörð.  Þarna er um að ræða textilhönnun sem er innblásin af byggingalist Guðjóns Samúelssonar arkitekts.

María sækir í munstur sem er að finna í Þjóðleikhúsinu, Akureyrarkirkju og Laugarneskirkju.

Orðrétt er eftirfarandi haft eftir Maríu Rut Dýrfjörð á Dezeen.com:

„Guðjón’s buildings are in precise style, stately and formal,“ said Dýrfjörð. „I connect them with patternmaking and my own passion for order and organisation. Shapes that are mirrored and repeated, lines that stretch on, brake and connect. All this forms a beautiful whole without being predictable.“

Þessi nálgun Maríu styður þá kenningu að arkitektúr sé móðir listanna.

Síðuna má nálgast hér:

http://www.dezeen.com/2014/06/02/maria-rut-dyrfjord-dark-world-icelandic-textile-prints/

og heimasíðu Maríu Rutar má nálgast í tilvitnaða textanum úr Dezeen.com

 

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Laugarneskirkja

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

 Akureyrarkirkja

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Þjóðleikhúsið

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is