Laugardagur 20.12.2014 - 12:52 - 6 ummæli

Margbreytni rýmis

 

Musei de arte, saopaulo

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt hefur sent síðunni áhugaverða grein um arkitektinn Linu Bo Bardi.   Höfundur pistilsins er flinkur og reyndur praktiserandi arkitekt sem er meðvitaður um fræðimennsku byggingalistarinnar þar sem hann hugsar mikið um anda staðanna og regionalismann. Hann hefur skrifað greinar í Lesbók Morgunblaðsina, hér á þennan vef og víðar um mikilvægi „Regionalismans“ í byggingalistinni.

+++++

 

Margbreytni rýmis.

Hvað  gerir kynnigu á á arkitektúr Linu Bo Bardi (1914-1992) athyglisverða fyrir  Evrópubúa, þó að manneskjan,  að vísu með ítalskar rætur en eingöngu starfandi í Brasilíu, hafi látist fyrir tveim áratugum?

Það ,að Bo Bardi var “modern”, víðtækur hönnuður? Eða, að hún þróaði persónulegan regionalisma?

Mest um vert er að rými hennar virka eins og segull og bjóða  menn velkomna til að upplifa umgerð, sem gerir hús  spennandi. Henni tekst að mynda frjóan  ramma fyrir menntun og fræðslu sýningar og leiki bæði fyrir  líkama og sál. Og maður gerir sér grein fyrir, að heimurinn væri bara skemmtilegri ef  álíka rými væru víðar til að hressa uppá veruleikann.

Byggt fyrir fólkið.

Bo Bardi var afar frjáls í hugsun og leitaðist til að mynda byggingaramma, sem bauð mikinn sveiganleika í notkun og fyrir  breiðum hóp manna. Opinberar byggingar, listasöfn, leikhús og önnur menningarhús verða virkur hluti af borginni, örvandi fyrir “alla”. Af því að rýmin bera virðingu fyrir  mönnum mæta gestir öðru og ókunnu fólki frjálslega. Efling féagslegra samskifta er alveg í fyrirrúmi.

Bo Bardi hafnaði vísvitandi persónulegum stíl og ýmsu því, sem alltof margir arkitekar falla fyrir.

Hún hafði reyndar takmarkaðan áhuga á  straujuðum eða fáguðum arkitektúr og forðaðist  myndræn brögð fyrir glæsisíður pressunnar. Hún vann óháð og frjáls  og talsvert ólíkt  auglýsingahátterni hönnuða í dag.

Afstaða hennar er til eftirbreytni af því að byggingarnar verka  fyrst og fremst  vel á  notendur og um leið allt rými umhverfisins.

Aukaatriði er ,  að Bo Bardi byggði eingöngu í Brasilíu, því að nálgun hennar á verkefnum á við um alla sem vilja skapa gott og lifandi borgarrými hvar sem er í heimi.

Kynningin á starfi hennar í Pinakothekinu í München (til febrúarloka 2015)  er ein sú fyrsta í Evrópu og  uppsettningin vill brjóta upp hugarfar byggjenda og þeirra , sem „stýra“ vexti og framtíð byggðar.

Bo Bardi tókst með tímanum að sameina nýjum og “modern”hugsunum Evrópu með einkennum  vaxinnar hefðar  í Brasilíu. Hún er því einn af frumkvöðlum í að sameina fortíð og framtíð svo og margþætt sjónarhorn raunveruleikans í  eina heild, þ.e.hér eru tilbrigði af  regionalisma til staðar.

Að leiða til glaðværða.

Nýlega kynnti dómmnefnd nýja Guggenheimsafsins í Helsinki val sitt í seinna þrep alþjóða samkeppni.

Tillagan „quiet animal“ er athyglisverð, því að  staðareikennieinkenni, strangur kjarni Helsinki, er  mælikvarði nýbygginga í hæð og formi, en um leið  opnar húsið sig umhverfinu og nýtir til þess nýja tæknimöguleika. Rýmið, sem brúar inni og útirými gæti leitt til glaðværða í anda Bo Bardi.

Sjálfur hef ég reyndar oft reynt að framkvæma svipaðar hugsanir í mínum verkefnum.

Sem dæmi má nefna endurbyggingu Martinikirkju í Siegen: þar var  ákveðið að opna kirkjurýmið fyrir ýmiskonar menningarviðburði langt út fyrir hinar hefðbundnu athafnir og samlaga að auki útirýmið þessari hugsun. Tilætlaður árangur náðist og reynist vinsæll fyrir frumlega sjónleiki og álíka atburði eins og  myndlist eða tilburði nútímatónlistar.

Gleðineistar í megalomaníu modernisma?

Megalomania modernismans hefur undanfarin ár átt erfiðara líf miðað við seinni ártugi síðstu aldar.

Fjölmargir gleðigjafar hafa undanfarið til dæmis risið á Íslandi.  Bláa Lónið, Fuglasafnið við Mývatn eða Víkingasafnið í Njarðvík eru aðeins fáein dæmi um mikla alúð og nálgun á „íslensku umhverfi“.

Tillaga stúdenta fyrir “nýjum Miðbæ” í Reykjavík þótti mörgum nýstárleg árið 1964 : allt gamalt var rifið, ný byggð úr öllum mælikvarða staðarins og án staðaerinkenna (kynnt á Eyjunni 01/2013).

Nýir hverfisstrúktúrar á “Höfuðborgarsvæðinu”eru enn í dag oft of „nærri“ þesssum hugsunum.

Hefur kynning nýrra viðhorfa ekki enn náð til valdhafa?

Kópavogsbyggðin við og í kringum Smáralind er t.d. dæmi um tilviljunarkennt og ópersónulegt byggðarmunstur, hvorki  í  samhengi við land eða sögu. Ekkert sjánalegt, sem talar með hlýju til venjulegs fólks og býður það velkomið með opnum örmum. Þeir sem nú “ráða ferðinni” í Kópavogi mættu bregða sér í ferð í Pinakotekið, kynna sér hugsanir Bo Bardi, eða eitthvað álíka uppörvandi  og huga að því , hverju  breyta mætti til batnaðar í náinni framtíð.

+++++

Færslunni fylgja nokkrar myndir af verkum Línu Bo Bardi. Efst er mynd af Musei de arte. Að neðan koma myndir af Ladeira da Misercordia og neðst fjórar myndir af Casa Cirell, nálægt Sao Paulo, byggt 1958! Einstakt dæmi um persónulegan regonalisma,útiveggir t.d. með steinum,skeljum og gróðri.

Ef slegið er upp nafni höfundar í leitarvélinni til hægri birtast fleiri áhugaverðar greinar eftir Gunnlaug. Það er einnig hægt að slá inn orðinu Regionalismi sem kalla fram fleiri greinar um þetta ahugaverða efni.

http://blog.pressan.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

 

Ladeira da misericordia

Fabrica da Pompeia2

IMG_7765

IMG_7773

 

IMG_7775

 

IMG_7792

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.12.2014 - 04:34 - 9 ummæli

Framúrskarandi sumarhús

5_14 te1 sumarhus SBi

Vegna vinnslu bókar um Gunnlaug Halldórsson arkitekt fann Pétur H. Ármannsson arkitekt frumdrög af sumarhúsi sem Gunnlaugur teiknaði fyrir Georgiu og Svein Björnsson forseta Íslands. Húsið átti að byggja við svokallaðan Forsetahól utarlega á Reykjanesi. Húsið var aldrei byggt en það átti að rísa undir grasivöxnum hól, Litlafelli, skammt frá afleggjaranum að Reykjanesvita. Þetta var árið 1950, fyrir 64 árum.

Í bók Péturs, sem hefur verðskuldað verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár stendur m.a. um þetta hús:

„Hugmynd Gunnlaugs að sumarhúsinu byggðist álangri mjórri aðalálmu með fjórum svefnherbergjum, eldhúsi og borðstofu í einfaldri röð. Lítillega á ská út frá hennikom styttri stofuálmameð stóru eldstæði og útsýnisgluggum til suðurs og vesturs. Bratt mænisþak var á báðum álmunum. Meðfram allri suðurhlið aðalálmu átti að koma glerskáli með lágreistu þaki sem þjónaði semforstofa og tengigangurað öllum herbergjum sumarhússins. ‘I króknum þar sem álmurnar mættust var aflokaður garður í suðurátt“.

Þetta er á margan hátt dæmigert fyrir verklag Gunnlaugs Halldórssonar. Þarna teiknar hann  hefðbundið hús að grunnformi,  gleymir ekki smáatriðum hefðarinnar, eins og brattari valma á göflum. En hann sýnir jafnframt kjark til þess að brjóta hefðina með því að skekkja grunnhúsin örlitið og tengja þau saman með skakkri utanáliggjandi glerbyggngu. Þetta segir tvær sögur.

Annarsvegar þekking Gunnlaugs á hefðum og virðingu hans fyrir þeim og hinsvegar dirfsku hans til þess að brjóta þær þegar það á við.

Þessi gamla formfræði varðandi valmann er m.a. til þess að þakið virðist ekki eins flatt þar sem lengd valmans er flatari en sperranna sem ganga þvert á húskroppinn. Svo brýtur Gunnlaugur hefðina með því að skekkja þverálmuna smávegis  og bætir við glerbyggingu sem leysir um leið mörg starfræn vandamál. Og svo er ekki valmi á stofubyggingunni. Þannig skítur funktionalisminn upp kollinum í öllu því hefðbundna.

Svo má benda á að glerbyggingn mjókkar í átt að svefnherbergi forsetahjónanna en er breiðust þar sem húshlutarnir tveir mætast. Allt er þetta í fullkomnu samræmi við starfrænar hugmyndir funktionalismans.

Athygli er vakin á því að hér er um að ræða 64 ára gömul frumdrög sem sannar enn einu sinni kennisetninguna um að góð byggingalist fer aldei úr tísku.

Þetta er frábært hús sem fólk ætti að stúdera rækilega. Ég ráðlegg fólki að tvísmella á myndina að ofan því þá sækkar húnog hægt að skoða betur.

Efst eru frumdrögin sem Pétur H. Ármannsson fann í gögnum Gunnlaugs Halldórssonar.

Hér eru þrjár slóðir um vipað efni og verk Gunnlaugs Halldórssonar:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/01/17/45-ara-gamalt-sumarhus/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/10/02/gunnlaugur-halldorsson-arkitekt/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/03/18/felagsgardur-gunnlaugs-halldorssonar/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.12.2014 - 10:21 - 5 ummæli

Siðareglur arkitekta

IMG_5386-cr2

Það vita það ekki allir, en arkitektar hafa með sér öflugar siðareglur.

Í siðareglum Arkitektafélags Íslands birtast þær hugsjónir og meginreglur, sem talið er mikilvægt að arkitekt beri að hafa að leiðarljósi í störfum sínum.

Siðareglur arkitekta ganga fyrst og fremst út á þrjá meginþætti.

Í fyrsta lagi eru það atriði er varða  hag þeirra sem leita eftir þjónustu séttarinnar með beinum hætti. Í öðru lagi fjalla siðareglurnar um almannahag og samfélagslega ábyrg arkitekta og í þriðja lagi um stéttvísi og samskipti arkitekta sín á milli og milli byrgja og verktaka.

Varðandi samfélagslega ábyrgð er lögð áhersla á að arkitekt skuli í starfi sínu stuðla að aukinni virðingu fyrir og viðurkenningu á góðri byggingarlist og taka tillit til umhvefisins í víðum skilningi.

Hann skal meta áhrif verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi sem hugsast getur. Hann skal ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans. Þarna finnst mér stundum arkitektar ekki halda vöku sinni eins og siðareglurnar gera ráð fyrir.

Arkitektinn skal bera virðingu fyrir höfundarrétt annarra og leitast í samningum sínum við að fá viðurkenningu á sæmdarrétti sínum, þar á meðal nafngreiningarrétti. Þarna vantar mikið á árvekni arkitekta. Þeirra er allt of sjaldan getið þegar fjallað er um skipulags og byggingamál í fjölmiðlum og annarsstaðar.

Og mikil áhersla er lögð á  í siðareglum að arkiekt skuli fyrst og fremst gæta hagsmuna verkkaupa  og er trúnaðarmaður hans í verkum sínum. Þess vegna orkar það tvímælis þegar arkitekt þjónar tveim herrum eins og stundum gerist í skipulagi þegar hann vinnur deiliskipulag fyrir sveitarfélag og tekur jafnframt að sér að hanna húsin í þágu fjárfesta eða annarra inn í deiliskipulag sitt sem hann vann fyrir annan aðila. Þarna takast stundum  á almannahagsmunir skipulagsins og einkahagsmunir lóðarhafa.

Í siðareglum segir að arkitekt sé skylt að veita verkkaupa sem gleggstar upplýsingar um framkvæmd og áætlaðan kostnað fyrirhugaðs verkefnis og sjá til þess að gerður sé skilmerkilegur samningur um verkefnið. Samningur sem standist.

Arkitekt er sjálfstæður og óháður ráðgjafi verkkaupa í samskiptum við aðra, svo sem verktaka, vöruseljendur, ráðgjafa og aðra sem verkkaupi kaupir þjónustu af.

Þetta er úrdráttur úr siðareglum arkitekta sem sýna að það ætti að vera viss trygging fyrir viðskiptavini arkitekta að ganga úr skugga um að sá arkitekt sem ráðinn er sé traustur og virtur meðlimur í Arkitektafélagi Íslands. Arkitektar sem eru bundnir þessum siðareglum setja stafina FAÍ aftan við starfheiti sitt. Hinir sem eru utanfélags eru ekki bundnir af þessum siðareglum.

+++++

Það er viðeigandi eð geta þess að í nýrri byggingareglugerð er ekkert talað um siðareglur, samfélagslega ábyrg, Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagrð eða byggingalist. Einhver orð eða tilmæli sem varða þessa mikilvægu þætt eiga miklu meira erindi inn í reglugerðina en margt annað sem þear er að finna. En Reglugerðin er að mestu skrifuð af  embættismönnum sem er annt um eftirlitssamfélagið og heldur að þjóðfélaginu sé best stjórnað með valdboði að ofan.

Það er auðvitað tóm vitleysa eins og dæmin sanna.

+++++

Sjá einnig:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/06/05/arkitektar-samfelagsleg-abyrgd/

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.12.2014 - 14:45 - 11 ummæli

Ranakofinn í Svefneyjum – Elsta hús á Íslandi?

225868_225712984122051_7536167_n

 

Því var haldið fram þegar ég var í sveit Svefneyjum á Breiðafirði að Ranakofinn væri eldra hús en nokkuð annað í Vestureyjum Breiðafjarðar. Sumir töldu reyndar Ranakofann elsta hús hús á Íslandi.

Minjastofnun hefur ekki aldursgreint bygginguna en telur hana vera frá seinni hluta 18. aldar. Hún er sennilega miklu eldri vegna þess að það hafa verið álög á húsinu um aldir sem segir að ef þekjan fellur mun ógæfa falla á Svefneyinga. Síðast þegar þekjan féll fórst Svefneyingurinn Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðingur. Það var árið 1768.

Síðan hefur kofanum verið haldið við.

Þegar ég var í Svefneyjum var hesturinn geymdur þarna. Hann hét hinu frumlega nafni „Sörli gamli“.

Nú er hann fyrir löngu dauður. Hann var svo gamall þegar ég var þarna frá árunum 1951-1957 að mamma mín mundi eftir honum þegar hún var stelpa, en hún flutti úr eyjunum 1932, þá 12 ára gömul.

Ranakofinn úr alfaraleið og hann þekkja ekki margir.  Hann er með hlaðinni tóft úr grjóti og með streng,  Svo kemur risþak klætt torfi. Hann hefur mjög hreina og fallega grunnmynd sem endurómar í útlitinu. Kofinn er svona 9,1×5,6 metrar að utanmáli og 6,75×3,25 metrar að innanmáli.

Þegar ég var í Svefneyjum voru tveir burstabæir uppistandandi á eynni auk gamla bæjarins sem var timburhús með torfþaki og mikilli torfhleðsu á norður hlið. Annar burstabærinn var að Ökrum þar sem Sveinbjörn Pétursson hélt fé sitt og hinn var suðvestan við steinhúsið sem byggt var sennilega á fjórða áratug síðustu aldar.

Mér er sagt að af þessum fjórum torfbæjuum sé einn uppistandandi, Ranakofinn.

Sjá einnig um húsin í Flatey:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

Ljósmyndin sem fylgir færslunni er tekin af Þórði Sveinbjörnssyni sem er fæddur og uppalinn í Svefneyjum

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.12.2014 - 11:42 - 7 ummæli

Dýrasta háhýsi heims

 

 

Nú í vikunni voru opinberaðar tölur um byggingakostnað háhýsa.

Þar kom fram að nýbygging World Trade Center í New York er það lang dýrasta í heiminum.

Byggingin er teiknuð af arkitektastofunni SOM sem er þekkt vegna verka sinna. Þess má geta að Hjördís Sigurgísladóttir arkitekt hjá ArkHD arkitektum hér í Reykjavík vann hjá SOM um tíma.

Byggingin kostaði alls 3,9 miljarða dollara eða tæplega 500 miljarða íslenskra króna.  Að neðan koma töflur sem sýna samanburð á 10 dýrustu háhúsum veraldar. Þar má einnig sjá hver hannaði þessi hús. Af þessum 10 háhýsum  teiknaði SOM tvö.

Þegar myndirnar að neðan eru skoðaðar sér maður einkum  tvennt sem vekur athygli.

Í fyrsta lagi að ekki er byggt á grunnum gömlu „Twin Towers“ sem hrundu við árásina 11. september 2001. Þar má sjá tvo ferhyrnda reiti sem markera fótspor húsanna tveggja sem ráðist var á með hörmulegum afleiðingum og halda þeir þannig minningu þeirra sem þar létu lífið og húsanna uppi.  Með þessu er staðinn vörður um hina sögulegu vídd sem er mikilvægt.

Í öðru lagi staðfestir formmál hússins  þá skoðun arkitektsins og fræðimannsins Jan Gehl að nútíma háhýsi lúti svipuðim lögmálum og þegar ilmvatnsglös eru hönnuð.

Á neðstu myndinn kemur þetta skýrt fram. Hverfið líkist snyrtiborði konu sem safnar ilvatnsglösum.

Sjá einnig:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/11/17/hahysi-ilmvatn-phallus/

 

 

 

 

One World Trade Center is the most expensive skyscraper of all time says an Emporis report

 

One World Trade Center is the most expensive skyscraper of all time says an Emporis report

Skidmore, Owings & Merrill's One World Trade Centre in New York

Skidmore, Owings & Merrill's One World Trade Centre in New York

World Trade Center site

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.11.2014 - 22:43 - 13 ummæli

Ný byggingabóla – Samkeppni um íbúðabyggendur.

Í Viðskiptablaðinu fyrir rúmri viku var birt mjög góð úttekt á áætlunum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um framboð aá nýbyggðu íbúðahúsnæði á næstu fjórum árum.

Samantektin upplýsir að sveitarfélögin gera ráð fyrir að byggðar verði tæplega 8.600 íbúðir á næstu fjórum árum.

Þetta er fjölgun um 10% íbúða á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mest verður aukningin í Mosfellsbæ eða 40%. Næstmest í Garðabæ eða 23%.

Samkvæmt nóvemberútgáfu Þjóðhags Landsbankans er spáð að hækkun húsnæðisverðs til ársloka 2017 verði um 24%. Í því ljósi er maður ekki hissa á að athafnamenn, sveitarfélög og hönnuðir fái snert af „nýbyggingafíkn“.

Á vefsíðu Egils Helgasonar frá í gær er því haldið fram (stuðst er við Þjóðhag Landsbankans) að fasteignaverð hafi hækkað um rúm 6% að nafnvirði frá upphafi ársins og ætla megi að hækkunin milli áranna 2013 og 2014 verði 8,5%.  Þar er reiknað með að fasteignaverð haldi áfram að hækka mikið, um 9,5% á árinu 2015, 6,5% á árinu 2016 og 6,2% á árinu 2017.

Þetta er auðvitað aldeilis ótrúleg spá sem blæs bjartsýni í frakvæmdaaðila og bissnissfólk. Spurningi er auðvitað hvort launakjör almennings og sérstaklega ungs fólks geti borið þessa hækkun. eða eins og segir á vefsíðu Egils: „Þetta segir Landsbankinn í spá sinni. Munu laun hækka til samræmis eða verður fólki sagt að taka hærri lán?“  og er þar vitnað í Birgi Hermannsson stjórnmálafræðing.

Já, hver er sjálfum sér næstur. Bankar hafa tilhneigingu til að hugsa meira um sig en sína.

En lítum aðeins betur á áætlanir sveitarfélaganna. Áætlanir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eru þessar samkvæmt Viðskiptablaðinu.:

  • Í Reykjavík mun fjölga um 3979 íbuð eða 8%
  • Hafnarfirði um 980 íbúðir sem svarar til 10% fjölgunar
  • Seltjarnarnesi um 185 íbúðir sem gerir 11% fjölgun.
  • Mosfellsbæ fjölgar um 40% eða um c.a. 1200 íbúðir
  • Kópavogi um 1116 íbúðir sem eru 12% meira en var við síðustu áramót
  • Og í Garðabær um 1121 íbúð sem eru 23% fjölgun

Á höfuðborgarsvæðinu voru 81.900 íbúðir um s.l. áramót en verða um 90.500 árið 2018 ef þessar bjartsýnisáætlanir ganga eftir! Sumir mun eflaust kalla þetta svartsýnisáætlanir vegna þess að líkur eru á að verðfall verði vegna offramboðs á íbúðum sem fólk hefur ekki efni á að kaupa.

Ljóst er að það verður samkeppni milli sveitarfélaganna þar sem boðið er uppá margvíslega kosti. Líklegt er að samkeppnin snúist frekar um verð en gæði.  Það er allavega reynslan. Eitthvað sveitarfélaganna verður undir og einhver ná markmiðum sínum.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun ekki fjölga um 10% á næstu fjórum árum.  En vegna þess hve lítið hefur verið byggt undanfarin 6 ár er þörf á markaðnum umfram fólksfjölgun en aftur á móti var offramleiðsla af öllum gerðum húsnæðis þegar efnahagskerfið hrundi.

Svo er ekki líklegt að tekjur fólks eigi eftir að hækka í samræmi við spá Landsbankans um hækkun íbúðaverðs.

Hvernig á að bregðast vi því?

Svo bætist við miklar áætlanir um byggingu atvinnu og verslanahúsnæðis. Það er vissulega ástæða til þess að óttast nýbyggingabólu.

Hvað segja hagfræðingarnir og bankarnir við öllum þessum tölum frá sveitarfélögunum og Landsbankanum? Hvað segja samfélaglega ábyrgir arkitektar og skipulagsfræðingar? Hvað segir ASÍ?

En auðvitað reddast þetta einhvernvegin!

+++++++

Helstu heimildir eru fengnar úr merkilegri grein Viðskiptablaðsins frá 13. nóvember s.l.

Ljósmyndin efst í færslunni er eftir Ragnar F. Valsson og er fengin af netinu.

++++++

Leiðrétting 29.11.2014.

Skipulagsstjóri Mosfellsbæjar gerir athugasemd við úttekt Viðskiptablaðsin í athugasemdarkerfi síðunnar og segir að samkvæmt fjögurra ára áætlun æjarins sem gerð er í tengslum við fjárhagsáætlun sé gert ráð fyrir um 400 íbúðir á ttímabilinu 2015-2018 en ekki 1200. Hið rétta sé að það eru vissulega reiðu byggingarhæfar lóðir undir 800 íbúðir og samþykkt deiliskipulag með tæplega 400 íbúðum. Áætlanir sveitarfélagsins gera ekki ráð fyrir að það verði byggðar fleiri enn 400 íbúðir á komandi fjórum árum.

Athugasemdina má lesa í heild sinni að neðan.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.11.2014 - 07:55 - 9 ummæli

Plús orku hús

 

Allt frá orkukreppunni 1973 hafa arkitektar og verkfræðingar víða um heim verið að vinna að því að skapa „núll orku hús“. Það er að segja hús sem framleiðir alla þá orku sem það þarf sjálft á að halda. Þetta hefur stundum, næstum, tekist en ekki náð fótfestu í byggingariðnaðinum. Undanfarið hafa menn sett markið hærra og stefnt að því að byggja hús sem framleiðir meiri orku en það þarf sjálft á að halda.

Þ.e.a.s. „Plús orku hús“

Fyrir nokkru var haldin smkeppni um svokallað „Plus energihús“ á svæði sem heitir Norra Djurgaarsstaden í Stokkhólmi. Þetta var metnaðarfull samkppni með háleitum markmiðum þar sem hugsunin er   “ Think globally, act locally “ eða “ Think global, act local “

Alls bárust 16 tillögur af tveim húsum sem rúma samtals 43 íbúðir.

Sankeppnina vann Dinell Johansson arkitekt sem ætlar að byggja hús sem framleiða meiri orku en þau nota!

Byrjað er að undirbúa framkvæmdirnar og er gert ráð fyrir að þeim ljúki árið 2018. Menn gera sér engar vonir um að þetta borgi sig þegar til skamms tíma er litið en geta kannski varðað veg að vistvænni húsum.

Húsin verða sennilega það dýr í uppbyggingu að orkuvinnslan muni ekki skila því sem lagt er út, aftur í kassann.  Allavega til skamms tíma litið.  En maður á ekki bara að hugsa um sjálfan sig heldur heimsbyggðina alla og framtíð niðjanna um aldir.

Það er alltaf gaman að fylgjast með þegar nýjungar á borð við þetta líta dagsins ljós.

++++++

Árið 1996 var haldin hér á landi metnaðarfull tveggja þrepa samkeppni um félagslegar íbúðir framtíðarinnar.  Þetta var stór samkeppni þar sem aðeins ein tillaga, sem hlaut 3. sætið,  tók alvarlega á umhverfismálum og orkunotkun undir ofangreindum slagorðum, “ Think globally, act locally “ . Samkeppnin var á vegum Húsnæðismálastofnunar Ríkisins.  Ekkert varð úr frekari þróun eða  framkvæmdum.

++++++

Ég man ekki eftir því að nokkur aðili í einka- eða opinbera geiranum hafi síðan gert tilraun til þess að stuðla að framþróun íbíðahúsnæðis. Næst á undan voru það sennilega Sunnuhlíðarsamtökin sem byggðu fyrstu fjölbýlishúsin hér á landi, sem voru einangruð að utan, nánast viðhaldsfrí og með svölum með sérstöku köldu burðarkerfi vegna  svalanna.

Þetta gekk það vel að lengi á eftir hafa nánast allar byggingar hér á landi verið einangraðar að utan. Á síðustu misserum sýnist mér að farið sé að bera á staðsteyptum húsum einangruðum að innan og með kuldabrýr allt um kring líkt og algengast hefur verið frá upphafi steinsteypra húsa hér á landi.

++++++

Úpplýsingar um sænsku húsin eru fengnar frá Dagens Nyheter.

 

undefined

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.11.2014 - 12:12 - 22 ummæli

Strætóskýli SVR – 1980.

 

 

BB-skýli-Módelmynd

 

Fyrir rétt tæpum 34 árum, í desember 1980, voru kynnt úrslit í opinni samkeppni um ný strætisvagnaskýli fyrir Srætisvagna Reykjavíkur,  SVR, eins og það hét þá.

Í febrúar 1982 þegar nokkur skýli höfðu verið byggð hlutu þau Menningarverðlaun DV fyrir byggingalist.

Höfundur skýlanna er Birna Björnsdóttir húsgagna- og innanhússarkitekt sem starfað hefur alla sína starfsæfi í Kaupmannahöfn.

Hún var einn af fjórum eigendum einnar stærstu og virtustu landslagsarkitektastofu þar  landi, GHB landskab, sem unnið hefur tugi samkeppna og hannað um áratugi fyrir einstaklinga, öll helstu fyritæki Danmerkur og sveitarfélög og sjálfa konungsfjölskylduna.

Birna hefur, ein og og síðar með stofu sinni, tekið þátt í samkeppnum og unnið fjölmargar.

Hún hefur þrisvar tekið þátt í samkeppnum hér á landi og unnið til verðlauna í öll skiptin. Fyrst voru það strætóskýlin sem hér er fjallað um. Síðan vann hún stóra tveggja þrepa samkeppni um endurmótun Arnarhóls, sem ekki var framkvæmd nema að hluta, og svo var það samkeppni Reykjavíkurborgar um götugögn.

Það hefur verið sagt að góður arkitektúr og gott skipulag fari aldrei úr tísku. Þetta er alveg rétt. Góð hönnun er dæmd til að vera klassísk. Við þekkjum það öll. Við vitum líka að það sem verður voða mikið í tísku fer alveg óskaplega mikið úr tísku áður en maður veit af.

Stræðisvagnaskýli Birnu hafa hlotið tvenn æðstu verðlaun byggingalistarinnar hér á landi,:  Fyrstu verðlaun í opinni samkeppni og síðar mennigarverðlaun DV í byggingalist. Skýlin eru þeirrar gerðar að þau fara aldrei úr tísku þó þau endurspegli auðvitað anda þess tíma sem þau voru hönnuð.

Þetta segi ég nú vegna þess að Reykjavíkurborg er að velta fyrir sér að hefja byggingu skýlanna að nýju, nú 34 árum eftir að þau hlutu fyrstu verðlaun í arkitektasamkeppni og 32 árum eftir að þau hlutu menningarverðlaun DV.

Þetta er ánægjulegt og sjaldgæft þegar hverskonar hönnun á í hlut.

++++

Til marks um tíðarandann árin kringum 1980 er gaman að lesa greinargerð Birnu með samkeppnistillögunni.  Þar sést að Birna er samfélagslega meðvituð eins og einkenndi ungt fólk á þeim árum og hlýfði engum. Heldur ekki meðlimum dómnefndar, stjórnmálamönnum eða strætóbílstjórum.  Dómnefn hefur greinilega haft þroska til þess að láta gagnrýnina ekki bitna á höfindinum og verki hans.

Ég birti hér stuttan kafla úr alllangri greinargerðinni sem bera öll merki meðvitundar um ástand samfélagsins eins og það var þegar þetta er skrifað (og er að mestu enn).:

„Í minnkanndi hagvexti er nauðsynlegt að gera veg almenningsvagna meiri en nú er. Færri og færri krónur verða afgangs til að fórna á altari blikkbeljunnar.  Þar sem stjórnmálamenn fara „að vilja fólksins“ verður fólk að vilja ferðast með almenningavögnum áður en stjórnmálamenn fást til þess að veita fé til betri almenningsvagnaþjónustu.  Til þess að almenningsvagnakosturinn geti talist álitlegur fyrir neytandann fram yfir einkabílinn þurfa eftirfarandi umbætur að eiga sér stað:

1.

Vagnarnir þurfa að minnka um helming og ferðum að fjölga um helming eða meir.

2.

Á fjölförnum götum þarf að útbúa sérstakar almenningsvagnaleiðir þannig aðalmenningsvagnar verði jafnfljótir eða fljótari en einkabíllinn.

3.

Aka þarf vögnunum betur þannig að farþegar þurfi ekki aðhalda sér með báðum höndum, heldur geti lesið blöð og bækur á ferðum sínum á leið til vinnu sinnar.

4.

Fargjöld með almenningsvögnum verði í lágmarki, jafnvel ókeypis af tilliti til þjóðhagslegrar hagkvæmni þjónustunnar.

5,

Almenningsvagnabiðskýlin verði upphituð, vellýst og fráhrindandi fyrir skemmdarvarga.“

Gaman væri að sjá meira af svona greinargerðum með samkeppnum. Hlaðnar lausnamiðaðri gagnrýni þar sem samfélagsleg ábyrgð höfundarins er áberandi og hiklaus.

Sú menningarslepja sem einkennir nánast allar gerinargerðir nú á dögum er óttalega „kljén“ eins og þekktur menningargagnrýnandi orðaði það einu sinni.

++++

Efst er ljósmynd af líkani samkeppnistillögunnar í mkv 1:20. Tölvumyndir nútímans koma nú í stað svona líkana en segja miklu minna vegna þess að þær taha hugmyndaflugið frá áhorfandanum.  Að neðan koma svo nokkrar gamlar ljósmyndir og teikningar af skýlinu.

Heimasíða fyrrum teiknistofu Birnu, sem er reglulega gaman að skoða, má finna á þessari slóð:

http://www.ghb-landskab.dk/

 

 

BB-SVR-skýli-teikn

 

BB-SVR-skýli-persp

 

BB-SVR-mynd-4aa

BB-SVR-mynd-5

SVR skýli samkeppnisteikningar 004 BB-SVR-sneiding

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.11.2014 - 01:49 - 6 ummæli

Kynningarfundir og sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur

fundur_i_tjarnasal_1

Í undirbúningi er kynningarfundur og sýning um uppbyggingu íbúðahúsnæðis í Reykjavík á næstu misserum.

Þetta verður með svipuðu sniði og kynningarfundur og sýning um ýmsar framkvæmdir í borginni, sem efnt var til í Ráðhúsinu fyrir ári síðan.  Sú uppákoma var í byrjun kosningavetrar, sem hægt var að túlka sem upphaf kosningabaráttunnar.

Nú liggur sú staða ekki fyrir. Nú er ekki hægt að líta á þetta sem kosningauppákomu helur markvisst upplýsinga flóð til borgaranna í önnum dagsins og miðri vinnunni.

Sýningin verður í Ráðhúsinu 12. – 19. nóvember og kynningarfundur fyrir almenning verður haldinn fimmtudaginn 13. nóvember milli klukkan 17.00 og 19.00.

Ætlunin er að miðla því helsta sem er á döfinni varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík á næstu misserum á vegum einkaaðila og borgarinnar sjálfrar ef ég skil rétt.

Áhersla í kynningum verður lögð á samþykkt verkefni og framkvæmdir sem eru nýhafnar. Einnig mun borgin draga fram upplýsingar um verkefni á undirbúningsstigi hjá borginni og einkaaðilum.

Samhliða kynningu hvers verkefnis mun áhersla lögð á að ná fram heildarsýn á uppbyggingu íbúðahúsnæðis í borginni allri á næstu árum.

Kynningarfundir og sýning verða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Fagfólki, fjárfestum og fyrirtækjum verður boðið sérstaklega. Auk þess verður opin kynning fyrir almenning sem verður fimmtudaginn 13. nóvember kl.: 17.00 – 19.00.

Um að gera að mæta og kynna sér það sem er í vændum í höfuðborginni, mynda sér skoðun og vera virkur í umræðunni.

Ég fór á samskonar fund og sýningu í fyrra og þótti mjög upplýsandi. Þá var það Páll Hjaltason arkitekt og formaður skipulagsráðs sem leiddi fundinn ef ég men rétt.

Nú verður það Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem fer yfir málin.

Það verður spennandi að sjá og heyra hvað hefur breyst, hvernig hefur gengið á því ári sem liðið er og hvað er nýtt á nálinni.

Hjálagðar eru nokkrar myndir sem teknar voru við sama tækifæri fyrir einu ári. Ef þetta verður með svipuðum hætti í ár verður hér á ferðinni veisluhlaðborð með margvíslega rétti sem varða arkitektúr, skipulag og staðarprýði.

10367601_10152743605010042_7034039540277412210_n

10177518_10152743605695042_6742244807259103451_n

10730864_10152743605140042_2198203519400783310_n

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.11.2014 - 11:07 - 17 ummæli

Vogahverfi – Næsta heita hverfið?

 

Vinningstillaga jvantspijker + FELIXX frá Hollandi

Vinningstillaga Teiknistofunnar Traðar

 

Það er algengt um víða veröld að hverfi sem ekki hafa verið í umræðunni eða vakið athygli verða skyndilega vinsæl. (Mýrin í París, Meatpacing District í NY og m.fl) Fasteignaverð hækkar í kjölfarið og inn í hverfin flytja framsækin fyritæki og fjölskyldur fólk.   Etirspurnin eftir húsnæði af öllum gerðim eykst veruleha á þessum svæðum. Þetta er sttundum kallað „heitt svæði“.

Við þekkjum þetta frá flestum borgum.

En þetta gerist ekki hvar sem er. Það þarf að vera til staðar hvati og infrastruktúr sem getur borið umbreytinguna.

Menn hafa verði að velta fyrir sér þróuninni í Reykjavík. Hvort það sama muni gerast hér og í framhaldinu hvar?  Margir spyrja hvaða hverfi muni taka við af póstnúmerum 101 og 107 í Reykjavík, haða svæði hafa það sem þarf og hvaða svæði er hægt að umbreyta þannig að þau verði „heit“?

Ég held að það verðu póstnúmer 104 eða nánar tiltekið Vogar/Heimar og Vogabyggð.  Vogabyggð nýtt heiti á svæðinu við Súðarvog inni við Elliðaárósa.

Ég byggi þessa spá mína á þeirri stefnu sem mótuð er í aðalskipulagi Reykjavíkur AR 2010-2030 og kemur þar margt fleira til.

Eins og fram kom í forvinnu vegna Hverfaskipulagsins sem unnið var s.l. vetur hefur hverfiseiningin Vogar í Borgarhluta 4 upp á gríðarleg tækifæri  að bjóða.

Þaðan er stutt í alla þjónustu og gríðarlegt framboð af atvinnutækifærum. Stutt er í víðáttumikil útivsitasvæði í Laugardal, Elliðáárdal og þaðan upp í Heiðmörk. Þarna er veðursæld. Félagsleg samsetning og hlutfall íbúðagerða er í miklu jafnvægi eins og kom fram í forsögn hverfaskipulagsins og margt fleira.

Í Borgarhluta 4, Laugardal, eru 10 svokölluð „þróunarsvæði“ samkv. Aaðalskipulaginu. Tvö þeirra tengjast Vogum beint. Annað er Skeifan þar sem AR 2010-2030 gerir ráð fyrir að byggt verði um 85 þúsund fermetra nýbygginga með atvinnutækufærum og um 500 íbúðum.  Á þróunarsvæði við Súðarvog, svokölluð Vogabyggð, á að byggja um 40 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði og 400 íbúðir til viðbótar því sem fyrir er.

En sterkasti þátturinn er tvímælalaust hinn svokallaði samgönguás sem mun binda borgina saman í línuborg frá Vesturbugt við Granda alla leið að Keldum austast í borginni.  Samgönguásinn er sterkasta og mikilvægasta aðgerði sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir til að bæta borgina. Samgönguásinn mun breyta borginni verulega til vistvænni, betri og skemmtilegri borgar ef vel tekst til.

Í ljósi þessa eru allar aðstæður og infrastrúktúr í Vogahverfi sérlega hagstæðar og miklir möguleikar til að skapa mjög eftirsóknarverðar aðstæður.  Tækifærin til endurnýjunnar hverfisins felast í þróunarsvæðunum þar sem byggingamagn mun aukast um 130 þúsund fermetra og 900 íbúðir auk þess sem samgönguás aðalskipulagsins mun gegna lykilhlutverki.

Samgönguásinn mun liggja framjá Voghverfi og Vogabyggð og tengja hverfið miðborginni, menningu, útivist og listum annarsvegar og verslun, atvinnutækifærum og þjónustu hinsvegar. Samgönguásinn verður vonandi lífæð borgarinnar allrar.

+++++++++

Þessi þróun er þegar hafin á svæðinu við Súðarvog, „Vogabyggð“  og vinnan er komin nokkuð áleiðis.

Það er bráðum ár síðan blásið var til samkeppni um þróunarsvæðið við Súðarvog samkvæmt aðalskipulagi að undangengnu forvali. Af þeim tillögum sem bárust þóttu tvær skara framúr. Það eru tillögurnar sem birtar eru myndir af efst í færslunni.

Sú efri kom frá Hollensku arkitektastofunum jvantspijker + FELIXX  sem dómnefndin taldi áræðna og frumlega. Í dómsorði má lesa „Samgöngukerfi hverfishlutans er vel leyst og tenging Súðarvogs við Dugguvog er sannfærandi. Sameinaðar eru þær megin akstursleiðir gegnum hverfið. Nýtt miðlægt torg sem býður upp á sterka hverfismiðju er annarsvegar skemmtilega tengt göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut og hinsvegar göngubrú yfir Naustavog  leiðin tengist þannig aðalleið að skóla. Feiknarlega vel unnin tillaga og skemmtileg. „

Myndin strax fyrir neðan er unnin af  Teiknistofunni Tröð og taldi dómnefnd hana jarðbundin og raunsæja. Í dómnefndaráliti stendur „Tillagan byggir á skýrri landnotkun með atvinnuhúsnæði við Sæbraut, því næst blandaðri byggð sem nær yfir Súðavog og austast íbúðabyggð að Naustavogi. Byggðin er 3-5 hæða. Núverandi gatnakerfi er lagt til grundvallar og Súðavogur er megin ásinn í norður-suður. Dugguvogur og Súðavogur halda sér að mestu og þvergötur frá Súðavogi liggja niður að strandgönguleið. Tillagan er vel unnin og skýr, bæði í framsetningu og hugsun.“

Ég skoðaði þessar tillögur á sínum tíma áður en dómur féll og var nokkuð hrifinn af tillögu Hollendinganna en tók ekki sérstaklega eftir hinni en sé nú að hún er eins og dómnefns segir, jarðbundin, raunsæ og með skýra landnotkun.  Það var skynsamlegt af dómnefnd að spyrða framsækna tillögu Hollendingana við tillögu sem augljóslega var unnin af fólki sem, þekkir til skipulagsmála hér á landi.

Eitt sem olli mér strax vonbrigðum í báðum tillögunum var að höfundarnir höfðu ekki tekið tillit til samgönguáss aðalskipulagsins sem ætti að vera helsti burðarás hverfisins og stuðla að betra hverfi og betri vistvænni borg með minnkandi einkabílaumferð. Þetta er meginatriði aðalskipulagsins. Hitt eru tengingar hverishlutans til austurs að gamla Vogahverfinu þar sem er að finna mikilvæga stuðningsstofnanir fyrir hverfið á borð við menntaskóla og margþætta þjónustu- og íþróttastarfssemi.

+++++

Í síðustu viku voru drög að deiliskipulagi kynnt hjá borginni og ber að fagna því. Og dr0gunum var fagnað hef ég heyrt. Mér er sagt  að markmiðum AR 2010-2030 sé fylgt eftir. Ég þekki ekki tölfræði skipulagsvinnunnar en geri ráð fyrir að hún sé í samræmi við nýsamþykkt aðalskipulag varðandi landnýtingu. Ég verð samt að segja að ég er ekki alveg sammála aðalskipulaginu þarna og tel nýtinguna meiga vera nokkuð meiri en aðeins 400 íbúðum á svæðinu. Sennilega yrði til bóta ef íbúðum yrði fjölgað verulega og atvinnuhúsnæði aukið sömuleiðis. Kannski  úr 400 upp í 6-700 íbúðir og atvinnuhúsnæði úr 40 þúsund upp í 60 þúsund.  Þessi hugleiðing mín er kannski óábyrg enda eru þessar tölur mínar byggðar á tilfinningunni einni saman.

Hitt er líka mikilvægt og það er að hlutfall íbúðagerða falli að byggðinni sem er í nágrenninu, Fylla upp í skort íbúðagerða og aðvitað huga að því hvaða nýjar íbúðagerðir framtíðin mun kalla á.

Þetta stefnir í mjög gott borgarskipulag sem mun styðja vel við nærliggjandi byggð ef fer sem horfir.

Mér þykir samt enn vanta nokkuð á markviss tengsl við Vogahverfi og að betri grein sé gerð fyrir samgönguásnum en það er meginforsenda fyrir þeirri spá minni  að Vogahverfi með þróunarsvæðum í Skeifu og við Súðarvog  verði heitasta hverfni borgarinnar eftir svona 15-20 ár.

Það eru hörkuspennandi tímar framundan í skipulagsmálum í Vogum Skeifu og við Súðarvog.

++++++

Það er gaman að sjá ferska vinda blása um deiliskipulagsvinnu í borgarlandinu og að borgin sýni í verki að hún ætlar að standa við áform sín um betri vistvæna borg.  Þó íslenskt skipulags fólk sé fært í sínu fagi er alltaf gott að fá innblástur frá erlendum kollegum eins og hér í Vogabyggð.

Það leiðir hugann að því að fyrir svona 10 árum sóttist ein færasta arkitektastofa í Evrópu sem sinnir íbúða og borgarkipulagi, Vandkunsten, í Danmörku eftri að taka þátt í samkeppni um skipulag í Úlfarsárdal.  Borgi hafnaði umsókninni af óskiljanlegum ástæðum.  Ég velti fyrir mér hvort Reykjavíkurborg hefði orðið undir í baráttu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um húsbyggjendur ef Vandkúnsten hefði fengið tækifæri til þess að leggja fram sínar hugmyndir um íbúðabyggð í Ulfarsárdal?

++++

Að neðan koma myndir af skipulaginu fengnar víðsvegar af netinu. Strax að neðan kemur yfirlitsuppdráttur af sameinaðri tillögu sem sýnir að samgngúásinn er punkteraður inn eins og menn séu ekki alveg samfærðir um tilgang hans eða hafi ekki trú á honum og svo koma nokkrar fjarvíddarteikningar víðsvegar úr Vogabyggð.

Svo er að finna mjög upplýsandi myndband af skipulaginu á Facebook síðu sem stofnuð hefur verið um hverfið. Hana má finna á eftirfarandi slóð:

(https://www.facebook.com/pages/Vogabygg%C3%B0/497988203640418?fref=ts)

 

 

Skipulag22

 

 

 

Felixx_Vogabyggð_12

Picture5

Picture8

6

1

3

Picture4

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is