Þriðjudagur 20.6.2017 - 17:55 - 19 ummæli

Borgarlínan á fullkomlega rétt á sér.

Borgarlínan á fullkomlega rétt á sér.

Hugmyndafræðin sem liggur að baki Borgarlínunnar er rökrétt og skynsamleg að mati flestra sem kynnt hafa sér málið. Hinsvegar hafa menn mismunandi skoðanir á útfærslunni og umfanginu. Það er fullkomlega eðlilegt að ræða það.

Í mínum huga er ljóst að umfangið er of mikið. Á frumniðurstöðum valkostagreiningu COWI (aðalráðgjafa verkefnisins) skynjar maður að hreppapólitík er komin í málið og öll sveitarfélögin fá sinn Borgarlínubút. Í raun sýnist manni áformin vera svo umfangsmikil að mikil hætta er á að ekkert verði úr áætlununum. Menn færa sér svo mikið í fang að upp spretta deilur og efasemdir, andstaðan verði mikil og hætta á að ekkert verði úr þessu þjóðþrifamáli.

Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að línan verði alls 57 km á lengd. Spurning er hvort farþegagrunnur upp á um 220 þúsund manns beri þetta. Hvort hann sé nægjanlega mikill? Þetta samsvarar um 3.800 manns á hvern kílómetra Borgarlínunnar!

Þessi spurning vaknar þegar þetta er borið saman við almenningsflutningakerfi af svipaðri gerð annarsstaðar. T.a.m. þeirrar sem verið er að koma á í Odense í Danmörku. Þar er gert ráð fyrir 14.5 km Borgarlínu fyrir tæplega 200 þúsund manns. Í Odense eru um 13.700 íbúar á hvern kílómetra línunnar. Þetta er 3,6 sinnum fleiri en hér. Línan í Odense á að kosta um 3.0 danska milljarða eða sem nemur um 3,2 milljarða á kílómeterinn í íslenskum krónum.

Í áætlun SSH er gert táðfyrir að hver kílómeter hér kosti um einn milljarð. Þarna munar nokkru en eflaust er til skýring á honum.

Metroið í Kaupmannahöfn er af allt öðrum toga en þjónar svipuðum tilgangi. Farþegagrunnur þar er um 1,9 milljónir íbúa Stórkaupmannahafnar. Kerfið samanstendur af tveim línum M1 og M2 og er samtals 20,4 km á lengd. Línurnar liggja samsíða á 7,7 km kafla. Að baki Metrósins eru um 93.000 íbúar á hvern kílómetra.

Ég held að pólitísk öfl sem ekki styðja Borgarlínuna eigi að hugsa sinn gang og skoða hugmyndafræðina og skilja það en ræða umfangið. Þau eiga ekki að hafna línunni en hafa áhrif á útfærslu hennar. Þau öfl sem styðja Borgarlínuna eiga líka að hugsa sinn gang og gíra þessar áætlanir niður á framkvæmanlegt plan.

+++

Í aldeilis ágætu Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030 var lagt til að borgin þróist í línulega borg þar sem koma á upp öflugu almenningssamgöngukerfi meðfram svokölluðum þróunarás sem liggja á frá Vesturbugt að Keldum. Þetta ásamt því að ná utan um útþennslu borgarinnar eru án nokkurs vafa sterkustu atriði AR2010-2030.

Borgarlína aðalskipulagsins frá Vesturbugt að Keldum hefði orðið um 9 km löng. Ég hélt í einfeldni minni að þessari samgöngubót yrði komið á innan 3-5 ára.

Keyptir yrðu nokkrir litlir rafdrifnir strætisvarnar af viðeigandi gerð sem fengju forgang á öllum umferðaljósum og í sérakrein. Þeir gengu á svona 5 mínútna fresti og fengu borgarbúar að ferðast með þeim endurgjaldslaust meðan verið væri að venja fólk á þjónustuna. Byrjað yrði að aka frá Vesturbugt austur í Skeifu.

++++

Þegar ég hlustaði á kynningu aðalráðgjafa sveitarfélagann á höfuðborgarsvæðinu í lok síðasta árs hafð ég á tilfinningunni að það væri verið að selja okkur draum. Mér fannst eins og erlendu sérfræðingarnir væru að „plata sveitamanninn“ eins og sagt var í gamla daga. Þetta var eitthvað svo yndislegt og vandræðalaust. Það vantaði gagnrýni í umfjölluninni og viðvaranir. Allt var í þeirra máli mjög skýrt og hvergi örlaði á vafaatriðum. Það verður samt að segjast að þeir voru ekki vissir hvort niðurstaðan yrði léttlest eða BRT, (Hraðvagnakerfi) þó við sem sátum, og hlustuðum á þetta hafi ekki verið í neinum vafa um að léttlestarkerfið væri okkur ofviða vegna kostnaðar.

+++++

Ég var í Kaupmannahöfn þegar umræðurnar um að leggja sporvagna niður þar í borg.  Þeir voru lagðir niður 1972.

Mér fannst eins og það væri sæmileg sátt um það í borginni og einnig meðal okkar arkitektanemanna og aðgerðarsinna. Einnig meðal þeirra sem töldum einkabíllinn ætti ekki að vera undirstaða samgangna í borginni.  Helstu rökin fyrir því að leggja niður sporvagnakerfið var að það féll ekki að aukinni bifreiðaumferð. Sporvagnarnir voru með sérstökum umferðaljósum en ekki í sérrými. Þegar vagnarnir stöðvuðust urðu bílarnir líka að stöðva vegna þess að farþegar sporvagnanna gengu beint út á akbrautina þegar þeir stigu frá borði. Sama átti við um þegar stigið var um borð því teinarnir voru á miðjum götunum.

Sporvagnakerfi Kaupmannahafnar var tekið í notkun árið 1911 og rekstrinum hætt 1972  eða 61 ári síðar. Við tók hefðbundið strætisvagnakerfi sem rekið var samhliða hinu svokallaða S-Togkerfi borgarinnar sem er mjög fullkomið og byggir á hinu svokallaða „fingerplan“ Kaupmannahafnar.

Kaupmannahafnarbúar hafa ekki í hug að taka upp sporvagnakerfi eða léttlestarkerfi að nýju en hafa komið sér upp afskaplega fullkomnu kerfi sem þeir kalla METRO. Þegar byggðin á Vesturamager var skipulögð var á sama tíma samþykkt ríkisstjórn Danmerkur að koma upp METRO kerfi. Þetta var árið 1992. Framkvæmdir hófust 4 árum síðar og kerfið með tveim leiðum var tekið í notkun árið 2003 eða fyrir réttum 14 árum.

Að ofan sést hvernig Borgarlínan var teiknuð áður en hinir erlendu sérfræðingar komu að málinu og áður en formlegt samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hófst. Þetta er skýr skipulagshugmynd þar sem hin „línulega“ borg sprettur upp úr blaðinu og vísar til skýrrar skipulagshugmyndar eins og gert var í AR2010-2030.  Þetta er ný sýn á sterka skipulagsheild þar sem meginlínur samgöngukerfisins eru skýrar og augljósar. Þetta er um leið er mun raunhæfari nálgun en sú sem nú er verið að ræða um og er í kynningu. Þarna er teiknuð austur-vesturlína frá Eiðistorgi að Korputorgi og norður-suðurlína frá Elliðaárósum suður í Hafnarfjörð um Mjódd og Smáralind.

Að ofan sést hvað Borgarlínukerfið sem nú er í kynningu er flókið miðað við fyrri mynd. Þarna er hugmyndin um „línulega“ borg nánast horfin. Það er ekki auðvelt að sjá útúr þessu heildarmynd. Kortið ber merki mikilla málamiðlanna milli sveitarfélagann sem laðar fram illa strúkúrerað samgöngukerfi sem verið er að reyna að aðlaga núverandi byggð. Spurt er hvort ekki mætti aðlaga þetta að frumhugmyndum AR2010-2030 og láta svo borgarskipulagið laga sig að Borgarlínunni. Svipað og gert var í Kaupmannahöfn fyrir meira en 70 árum þegar „fingerplanen“ varð til og danir náðu böndum á stjórnlausa útþennslu stórkaupmannahafnar sem lagaði svig svo í framhaldinu að skipulagshugmyndinni með vegakerfi og lestarsamgöngum.

 

Á myndinni að ofan sést hvar þróunarásinn liggur eftir borginni endilangri. Myndin er úr AR2010-2030 og sýnir hvernig samgönguásinn og þróunarásnum var ætlað að vinna saman og styrkja hvorn annan. Þetta er ekki flókið og vel hægt að ná yfir þetta heildaryfirsýn. Þarna sér maður á teikningu hvernig hin línulega borg var hugsuð.

++++

það vekur sérstaka athygli að kynningarferlinu í þessum áfanga sem varðar aðalskipulagið lauk í dag, 20 júní en hún hefur einungis staðið þrjár í vikur frá 31.05.2017. Það er ótrúlega stuttur tími fyrir svona flókið verkefni og enganvegin hægt að taka þessa kynningu og tækifæri til að gera athugasemdir alvarlega. Málið  hefur lítið verið rætt með formlegum hætti opinberlega. Ekkert í sjónvarpi og ekkert í útvarpi.  Það er varla hægt að ætlast til þess að fólk geri athugasemdir við þetta án umræðu. En ég geri tilraun til að velta upp nokkrum spurningum og vangaveltum í þessum pistil. Kannski einhver kunmnáttumaður eða sérfræðingur geti svarað þessum vangaveltum mínum með einhverjum hættti og upplýst leaendur? Svona umfangsmikið verkefni og kostnaðarsamt þolir vel umræðu jafnvel nokkurra ára skoðun  og kynningu.

++++

Efst er mynd sem sýnir umferðavandræði á venjulegum virkum degi þegar fólk er að ferðast frá heimili sínu til vinnu sinnar. Þekkt skipulagslausn á svona vandamáli er að færa fjölmenna vinnustaði nær búsetunni og gera borgarhluta sjálfbærari varðandi atvinnu og þjónustu.  Fluttningur stærsta vinnustaður landsins, Landspítalann, með 5000 starfsmönnum og 1800 „viðskiptavinum“ á degi hverjum ásamt markvissri vinnu í hverfaskipulaginu væri gott tækifæri til þess að jafna þetta eitthvað.

+++++

Nýjung á sviði léttlesta

Teinalausar léttlestar í Kína.

Það er mikið að gerast í almannaflutningum í heiminum í dag.  Í bænum Zhuzhou í Kína voru, í byrjun mánaðarins, kynntar nýjar gerðir Léttlesta sem rúlla ekki á teinum. Kínverjarnir áttuðu sig á því að Léttlestarkerfi er of dýrt fyrir minni borgir jafnvel þó þetta sé mjög áhugaverður ferðamáti og bráðnauðsynlegur af margvíslegum ástæðum. Þess vegna kynnti CRRC Zhuzhou Institute Co Ltd „the worlds first railless train“. Restin rennur eftir venjulegum malbikuðum götum á gúmmíhjólum í stað teina. Lestarvagnarnir sem kynntir voru eru um 9 metra langir með hámarkshraða upp á 70 km á klukkustund. Þeir geta ekið 40 km á einni hleðslu og borið um 100 farþega hver. Ef þrír vagnar eru tengdir saman eins og sést á myndunum sem hér fylgja komast 300 manns fyrir í vagninum. Gert er ráð fyrir að ein lest geti flutt 500 farþega með fimm samtengdum vögnum.

Lestin fer eftir máluðum línum í götunni sem nemar í lestinni skynja. Þetta er kerfi sem þekkt er í betri bílum í dag.

Kínverjar munu taka lestina í notkun í byrjun næsta árs á um 7 km langri línu til að byrja með. Að ofan koma tvær myndir af lestinni og að neðan fróðlegt myndband um þessa nýjung.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.6.2017 - 10:44 - 19 ummæli

Stúdentagarðar – Aðhald Minjastofnunnar

 

Það er ánægjulegt að verða vitni að því að Minjastofnun Íslands veitir aðhald að eigin frumkvæði þegar stofnuninni þykir ástæða til.

Í Morgunblaðinu í morgun kemur fram að Minja­stofn­un Íslands tel­ur að fyr­ir­huguð upp­bygg­ing nýrra stúd­enta­í­búða á lóð Gamla Garðs á Hring­braut 29 feli í sér veru­leg og nei­kvæð um­hverf­isáhrif þar sem list­rænt mik­il­vægri skipu­lags­heild verði raskað með óaft­ur­kræf­um hætti.

„Það eru mjög fá dæmi um það í skipu­lags­sögu Reykja­vík­ur að svona stórt stofn­ana­svæði hafi frá upp­hafi verið mótað með ákveðna list­ræna heild­ar­sýn í huga og alla tíð síðan hafi menn virt þá grunnþætti. Þannig hafa menn ekki raskað skeif­unni fyr­ir fram­an Há­skóla Íslands né sér­kenn­um svæðis­ins í kring,“ seg­ir Pét­ur H. Ármanns­son, sviðstjóri um­hverf­is- og skipu­lags­sviðs Minja­stofn­un­ar, í Morg­un­blaðinu í dag.

Í áliti Minja­stofn­un­ar sem sent hef­ur verið Reykja­vík­ur­borg seg­ir að með fyr­ir­hugaðri upp­bygg­ingu aust­an við Gamla Garð muni fram­hlið húss­ins hverfa að mestu á bak við ný­bygg­ing­ar. Við það rask­ist mik­il­væg og ein­stæð skipu­lags­heild í borg­ar­mynd Reykja­vík­ur. Þegar fyrstuverðlauna tillaga í nýafstaðinni samkeppni um húsið er skoðuð getur maður ekki veraið annað en sammála áliti Minjastofnunnar.

Í áliti Minjastofnunar segir einnig:  „Þjóðminjasafnið og Gamli Garður eru verk sama höfundar og kallast á. Þjóðminjasafnshúsið er hannað eins og bakgrunnur við Gamla Garð og saman mynda þau tilkomumikinn jaðar háskólasvæðisins við þá merku breiðgötu sem Hringbrautin er en hún er líka einstök í skipulagssögu Reykjavíkur. Hún er fyrsta og eina breiðgatan sem hefur verið skipulögð og mótuð með merkum byggingum í kringum gamla bæinn.“

Stúdentagarðurinn við Hringbraut, Gamli Garður, er fyrsta byggingin sem reis á lóð Háskóla Íslands á Melunum á árunum 1933-34 en það var Sigurður Guðmundsson arkitekt (1885-1958) sem teiknaði húsið. Sigurður, sem var heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands, teiknaði líka þjóðminjasafnið eins og áður er getið, Austurbæjarskólann, Elliheimilið Grund, Hafnarhúsið, Fossvogskirkju (ásamt Eiríki Einarssyni) og margt fleira.

Það eru nokkur atriði sem einkenna samspil húsanna í þessu umhverfi. Þar er fyrst að telja stigaturnana í húsunum tveim, Gamla Garði og Þjóðminjasafninu. Þessi trurnar kallast á og eru sterkustu einkenni götumyndarinnar ásamt valmaþökunum. Stgagangurinn sunnan í Gamla Garði skiptir líka máli ásamt útveggjagerðinni í húsunum í kring sem eru fletir með gluggaopum í stað gluggabanda eða gluggum sem spanna frá gólfi til lofts eins,  og mikið er „tekið“ nútildags.

Vinningstillagan er unnin af afar færu arkitektateymi sem treystandi er til þess að aðlaga hugmynd sína að þeim veruleika sem blasir við. Það verður spennandi að fylgjast með frekari úrvinnslu teymisins  í framhaldi af áliti Minjastofnunnar. Það er rétt að minna á að í dómnefndarálitisem dagsett er 27.mars 2017  stóð “ Dómnefnd þykir mikilvægt að unnið verði frekar með ásýnd byggingarinnar við frekari vinnslu í deiliskipulagsferli svo yfirbragð byggingarinnar samræmist betur aðliggjandi byggð“. Af þessu má skilja að það hafi legið fyrir frá dómsdegi að endurskoða ætti tillöguna.

++++

Efst er mynd af „tilkomumiklum jaðri háskólasvæðisins“ þar sem í orðsins fyllstu merkinu er tveggja turna tal.  Inngangur í gamla Garð er um þennan turn sem mætti nota áfram sem aðaltengingu milli húsanna og meginstoð fyrir lóðrett flæði í byggingunum, bæði gömlu og nýju. Af einhverjum ástæðum, sem ég átta mig ekki á, var inngangi í Þjóðminjasafninu breytt þannig að gengið er inn að aftan. Aðalstigahúsið er í turninum sem sést á myndinni eins og höfundurinn Sigurður Guðmundsson gekk frá byggingunni.

Myndin að ofan lýsir vel aðstæðum á staðnum og hvernig nýbyggingin fellur að eldri húsum. Vert er að benda á að tölvuteikningin að ofan er frá sjónarhorni sem enginn hefur aðgang að og dregur úr helsta galla tillögunnar.

 

Á afstöðumyndinni má álygta að byggingamagn sé meira en lóðin og umhverfið þolir. Það eru efasemdir um byggingahlutann sem er þvert á suðurgafl Gamla Garðs. Ef húsin væru örlítið grynnri og nokkuð minni, ásýnd endurhugsuð með valmaþaki yrði miklum árangri náð.

Landmótun umhverfis húsin er sérlega vel heppnuð sýnist mér. Hinsvegar er viss óvissa varðandi skilgreiningu verksins. Er þett viðbygging eða er þetta nýbygging. Ef þetta er viðbygging verður að gera miklu meiri kröfur um aðlögun að Gamla Garði og nýta núverandi stigahús betur í öllu samhenginu. Gefa því stekari stöðu í heildinni. Manni sýnist þverbyggingin við enda Gamlagarðs vera viðbygging sem ætti þá að gangast undir forsendur gamla hússins meðan húsið austan við (neðst) virðist vera nýbygging sem ætti að gefa eitthvað meira frelsi þó það sé fjarri því að vera takmarkalaust.

 

Öll aðstaða stúdenta í þessum byggingum er til mikillar fyrirmyndar.

 

Að ofan er umrædd grein úr Morgunblaðinu í morgun sem var tilefni þessara skrifa.

+++

Sigurvegarar og höfundar tillögunnar eru: Ydda arkitektar EHF og DLD-Dagný land Design EHF.

Í dómnefnd sátu

Haukur Agnarsson formaður

Ebba Þóra Hvannberg prófessor

Eydís Bl-öndal frá stúdentaráði

Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt

Páll Gunnlaugsson arkitekt

Perla Dís Kristinsdóttir arkitekt

og

Sigurður Hallgrímsson arkitekt.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.6.2017 - 10:34 - 8 ummæli

Frank Lloyd Wright til sölu

 

Bandaríski arkitektinn Frank Lloyd Wright fædddist 8. júni 1867 í Wisconsin í bandaríkjunum. Síðan eru liðin 150 ár.

FLW er óumdeilanlega talinn fremstur arkitekta þar vestra fyrr og síðar. Hann hafði mikil áhrif víða um lönd. Hann sótti innbrlástur í japanska byggingalist og lét nytjastefnuna ráða ferð. En nytjastefnuna (funktionalismann) nam hann hjá meistara sínum Louis sullivan um og fyrir aldamótin 1900. FLW vann hjá fremstu arkitektum Chicagoborgar um þær mundir en það var stofa Adler & Sullivan.  Sullivan, sem FLW kallaði alltaf „meistara“ rak unga arkitektinn þegar hann komst að því að hann var að harka „framhjá“ á kvöldin og um helgar.

FLW var afbragðs teiknari eins og einkennir góða arkitekta. Hann teiknaði mikið allskonar ornament og prjál þegar hann vann hjá Sullivan.  Þetta var í raun andstætt nytjastefnunni en á þeim umbrotatímum þegar hún var í fæðingu var það sjálfsagt nauðsynlegt til að fæla viðskiptavininn ekki frá. Dæmi um þetta er Carson Pirie Scott & Co i Chicago sem  var byggt á árunum 1899-1904 þar sem FLW teiknaði prjálið á fyrstu og annarri hæð. Allt gert úr steyptu járni.  Ef grannt er skoðað þá sótti FLW líka í smiðju meistara síns Sullivan og nægir þar að nefna Getty Tomb frá 1890 og Union Station frá 1892 sem var rifin 1953-54.  Þessi hús og fleiri frá hendi Sullivans hafa greinilega haft mikil áhrif á FLW

Áhrifa FLR gætti víða. Prófessorinn minn, Jörgen Bo var undir áhrifum FLW og teiknaði hús undir japönskum áhrifum í Danmörku. Bo var mikill áhrifavaldur í danskri húsagerð uppúr miðri síðustu öld og litu margir til míns gamla prófessors til að fá innblástur. Ég man að Bo sagði eitt sinn „að maður væri fyrst orðin góður arkitekt þegar hinir góðu arkitektarnir væru farnir að herma eftir manni“.

Það hús FLW sem hér er til umfjöllunar er í St. Louis Park, stutt utan við Minneapolis og er til sölu. Húsið hefur verið í eigu sömu aðilana frá upphafi. Hjónin sem báðu arkitektinn um að hanna húsið fyrir sig eru nú um 90 ára gömul og hafa búið þarna í 50 ár.

FLW hóf hönnunarvinnuna árið 1958 , þá 91 árs gamall og lauk við alla uppdrætti áður en hann dó ári seinna þann 9 apríl 1959. Hann lifði ekki að sjá húsið fullgert. Þetta er ótrúlegt afrek af svo öldruðum manni. Hann hafði enn fullkomna stjórn á rýmisgreind sinni og höfundareinkennin voru aldrei sterkari. Hann teiknaði allt sem til hússins heyrir bæði fastar innréttingar og lausar. Hann teiknaði jafnvel loftlampa og borðlampa. Það er óhætt að segja hér eins og oft áður „Thats’s Wright all right“.

Ég bið lesendur að skoða myndirnar og reyna að átta sig á heildarmyndinni or flæði hússins. Inngangurinn og aðkoman er sérlega áhugaverð og svo er hógværðin gagnvart landslaginu áberandi en húsið stendur innst í botlangagöti þar sem er opið svæði. Landmótunin er líka áhugaverð og einstaklega vel útfærð. Húsið er frekar lítið á bandarískan mælikvarða eða um 250 m2.

En eins og áður sagði er húsið til sölu algerlega óbreytt frá hendi meistarans með húsgögnum og öllu tilheyrandi. Þeir sem hafa áhuga geta snúið sér til fasteignasölunnar: https://www.coldwellbankerhomes.com/mn/saint-louis-park/2206-parklands-lane/pid_12602097/

 Lesa má meira um FLW hér og í fleiri færslum mínum á þessu bloggi.:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/09/19/chicago-that-is-wright-all-right/

 

 

 

 

 

Húsið er gegnheilt. Þ.e.a.s. að það hefur sömu efnismeðferð að utan og innan. Takið eftir múrsteininum. Það er múrað í svokölluðu „löberforbandt“ (danska) þar sem einungis langhlið múrsteinsins snýr fram og svo er „rulleskifte“ undir gluggum. Þetta er munstur sem mikið var notað í Evrópu um aldir. Útlitið að ofan gæti vel verið hannað af dönsku húsi.

 

Engin bílskúr fylgir húsinu sem er óvenjulegt í Bandaríkjunum en það er myndarlegt bílskýli sem sjá má á myndunum að ofan.

Að neðan koma svo í lokin tvær myndir sem sýna hvernig húsið fellur að landslaginu. En þetta er óvenjulegt frá hendi FLW sem teiknaði mikið á flötu landi eins og á preriunni vestan við Chicago og víðar. Oft byggði hann í andstöðu við landið eins og í Falling Water. Ef Falling Water hefði ekki verið slíkt snilldar hús eins og raun ber vitni þá væri það nú álitið náttúruspjöll og líklega búið að rífa það fyrir löngu.

 

Ég hef verið svo heppinn að fá að skoða mörg hús eftir FLW þ.m.t.  flest hús hans í Chicago og á preríunni vestan borgarinnar ásamt húsi hans norðan við San Fransisco. Ég hef eldrei skoðað Falling Water sem mikið er lofað. Einhvernvegin hef ég aldrei haft áhuga fyrir því kannski einkum vegna þeirra afstöðu minnar að hús eigi alltaf að vera víkjandi fyrir landslaginu. Í Falling Water byggir FLW yfir gersemin sem eru aðdráttarafl staðarnis og lætur fossniðin dynja á íbúum hússins sem sjá ekki fossinn frá húsi sínu.  Ævar Harðarson fjallaði um þetta hús í dokltorsritgerð sinni og jók það ekki álit mitt á byggingunni. En ég er þar með ekki að segja að Falling Water sé ekki gott hús. Það væri nánast Guðlast að halda slíku fram. Þvert á móti er það frábært á flesta lund og óumdeilanlega mikið listaverk.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.6.2017 - 11:40 - 13 ummæli

Enn eru byggingar rifnar í Reykjavík.

Það er alltaf erfitt að horfa upp á niðurrif eldri húsa sem eiga sér sögu.

Þar er oft saga og verk liðinna kynslóða þurrkuð út. Ég las í Morgunblaðinu áðan að nú er verið að rífa gömlu höfuðstöðvar Strætisvagna Reykjavíkur við Kirkjusand!  Húsin sem er verið að rífa eru tæplega 50 ára gömul og voru teiknuð af Guðmundi Þór Pálssyni arkitekt. Þetta eru, eða voru, ágæt hús hvernig sem á er litið.

Maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði mátt fella þessi mannviski inn í nýtt deiliskipulag og gefa því um leið nýtt hlutverk? Einhverja atvinnustarfssemi, hverfisverslun eða hverfismiðstöð. Kannski leikskóla eða grenndarskóla?  Einhvern veginn finnst manni þetta hús hefði getað sómað sér vel í nýrri blandaðri miðborgarbyggð og gefið byggðinni mikilvæga sögulega vídd í leiðinni.  Sennilega voru menn eitthvað að flýta sér og ekki gefið sér tíma til þess að hugsa sig um.

Líklegt er að fyrir þessu niðurrifi liggi vel rökstuddar ástæður þó þær liggi ekki í augum uppi. En ég hugsa til Völundar- og Kveldúlfsskálanna vestar við strandlengjuna sem rifnir voru fyrir aðeins nokkrum áratugum og margir sakna.

Á Kirkjusandsreit er fyrirhuguð blönduð miðborgarbyggð. Reitnum verður skipt upp í nokkrar lóðir og er byggingarmagn í heild áætlað um 75 – 85 þúsund fermetrar.  Um helmingur byggingarmagns verður atvinnuhúsnæði, skrifstofur og þjónusta, en gert er ráð fyrir um 300 nýjum íbúðum af fjölbreyttum gerðum á svæðinu.

 

 

Að neðan koma svo tvær tölvumyndir af fyrirhugaðri byggð við Kirkjusand. Þetta virðist ágætt skipulag með tiltölulega lágri og þéttri borgarbyggð með blandaðri atvinnustarfssemig og fjölbreyttu úrvali íbúðagerða en vandséð er nauðsyn þess að byggingar Strætisvagna Reykjavíkur, SVR, hafi þurft að víkja vegna meginmarkmiða skipulagsins um blandaða miðborgarbyggð. Þvert á mót var þarna möguleiki á að gefa byggðinni sögulegar rætur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.5.2017 - 20:51 - 5 ummæli

Ræða Sigurðar Pálssonar við skólaslit MR.

Hið kunna skáld Sigurður Pálsson, hélt hátíðarræðu við skólaslit MR síðastliðinn föstudag 26 maí.  Hann lagði út frá Dylan, tímanum og tíðarandanum fyrir 50 árum þegar hann og fólk á okkar aldri lauk framhaldsskóla. Ég birti hér ræðu hans í heild sinni með leyfi höfundar. Þetta er eins og við var að búast bæði skemmtileg, fróðleg og vel skrifuð ræða sem á erindi til feliri en þeirra sem sátu í Háskólabíoi við skólaslit Menntaskólans í Reykjavík 2017.

Hann talaði  sérlega fallega um um arkitektúr,  poppmenninguna og fleira.

Hann byrjaði á tilvitnun í Nóbelsverðlaunahafann Bob Dylan.:

++++++

Ágætu nýstúdentar og aðstandendur þeirra, rektor, kennarar, júbílantar, aðrir góðir gestir.

 

While preachers preach of evil fates

         Teachers teach that knowledge waits

         Can lead to hundred-dollar plates

         Goodness hides behind its gates

         But even the president of the United States

         Sometimes must have

         To stand naked.

Svona orti ungt ljóðskáld og lagahöfundur fyrir rúmum fimmtíu árum, hann hafði lag á að draga mikilsverð sannindi saman, stundum í eina línu sem kjarnar ákveðna kennd, til dæmis The Times They Are A-changin’ en það hefur verið tilfinning mannkynsins fyrir nútímanum mestalla tuttugustu öldina, allt til dagsins í dag. The Times They Are A-changin’…

Ágætu nýstúdentar. Í dag eru tímamót í lífi ykkar, þetta er stór dagur. Við júbílantar minnumst þess að ákveðinn árafjöldi er liðinn frá því við vorum í ykkar sporum.

Tíminn. Hann er mikill húmoristi. Fimmtíu ár frá því ég stóð á þessu sviði með skjal í hönd og hvíta húfu á höfði. Ef einhver hefði sagt mér þá, að ég myndi standa á þessu sama sviði eftir fimmtíu ár, fara með ljóðlínur eftir Bob Dylan, sem hefði fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum haustið áður, þá hefði ég sagt eins og Danir segja svo skemmtilega: Nej, men hold nu kjæft du!

Tíminn. Hann er bæði mælanlegur og ómælanlegur, klukkan mælir hann, hann mælist í árum. Vissulega ekki hægt að mótmæla þeirri hlið tímans sem er mælanleg. En það er ástæða til þess að minna á hina súbjektívu hlið tímans, hina huglægu. Skynjun okkar á tímanum. Hún tengist því sem við megum aldrei missa tengslin við, okkar innri rödd.

Við vitum öll að mikilvægustu stundir lífs okkar eru ekki endilega langar mældar á klukkunni. Skynjun okkar á tíma er vissulega huglæg, ekki hlutlæg.

Tími þýðir líka kennslustund. Ég get nefnt marga kennara í MR sem létu hvern tíma líða eins og hann væri tíu mínútur, læt nægja að nefna tvö nöfn: Björn Bjarnason sem kenndi mér stærðfræði í 4. bekk og Vigdís Finnbogadóttir sem kenndi mér frönsku í fimmta bekk.

Ég man satt best að segja ekki eftir nema einu fagi þar sem mér leið eins og hver tími væri tíu tímar minnst. Það var bókfærsla í þriðja bekk, mér hefur aldrei leiðst jafn mikið, eiginlega aldrei í lífinu. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér. Þannig var að í óbærilegum leiðindum í bókfærslunni fór ég að skrifa án þess að hugsa, án þess að vitundin væri við stjórnvölinn. Þegar heim var komið varð ég steinhissa: skrifaði ég þetta? Sumar setningarnar fannst mér vera framandlegar á áhugaverðan hátt. Í raun hafði ég praktíserað ósjálfráða skrift án þess að hafa hugmynd um það, eitthvað sem súrrealistarnir í París stunduðu fjörutíu árum fyrr sem æfingu í því að virkja undirmeðvitundina. Þetta var upphafið að ljóðagerð minni og öðrum skrifum. Óbærileg leiðindin í bókfærslu. Kannski eru leiðindi stórlega vanmetin sem aflvaki. Örvæntið því ekki, kæru nýstúdentar, ef ykkur er farið að leiðast núna.

Það eru fimmtíu og fimm ár frá því að ég kom í fyrsta skipti inn í þennan sal, ég gleymi því ekki. Ég var nýkominn til Reykjavíkur, sat í landsprófsdeild Hagaskóla hér í nágrenninu, kom hingað minnir mig á kynningu sem Sinfóníuhljómsveitin var með fyrir skólafólk. En þessi salur, ég hafði hreinlega aldrei séð annað eins, hafði aldrei komið í rými þar sem var svona hátt til lofts. Og vítt til veggja. Og hlutföllin rétt og blátt klæði á sætunum, undarlegur og nútímalegur gúmmidúkur á gólfinu. Þessi frumskynjun á salnum í Háskólabíói tók sér bólfestu einhvers staðar innst í huganum og hefur ekki vikið þaðan síðan.

Stóri salurinn í Háskólabíói þar sem við erum núna, hann getur kennt okkur ýmislegt. Þetta hús er ekki lítilla sanda, lítilla sæva. Maður finnur að arkítektarnir höfðu ekki asklok fyrir himin. Hugsið ykkur þennan sal, þessa byggingu þegar hún var ekki annað en teikning á blaði. Og hugsum okkur enn lengra aftur á bak, þegar þessi bygging var ekki annað en hugmynd í höfði arkítektanna. Þá var mikils virði að hlusta á innri röddina, hún leiðbeinir. Hún predikar ekki, hún kennir. Þessi bygging er stór í sniðum af því að hún er stór í hugsun.

En mér verður hugsað til annars húss sem getur kennt okkur margt. Menntaskólinn í Reykjavík er eitt þeirra fyrirbæra sem á sér langtum lengri sögu en sem nemur mannsævinni.

Við skynjum þannig eitthvað sem er sannarlega stærra en við sjálf. Á það bæði við um skólastarfsemina og einnig hús skólans við Lækjargötu sem var tekið í notkun árið 1846. Hús sem er í réttum hlutföllum enda vissu menn þá, að enginn er yfir gullinsnið hafinn.

Þegar húsið var 140 ára var ég fenginn til að skrifa leikrit fyrir Herranótt. Ég las allt sem ég komst yfir um húsið og skólastarfsemina og heillaðist algjörlega. Leikritið heitir Húsið á hæðinni eða hring eftir hring. Aðalpersónan er húsið og svokallaðir húsandar sem búa þar í veggjunum en síðari hluti titilsins, hring eftir hring, vísar til þess að það var eins og kynslóð fram af kynslóð væru svipuð mál ofarlega á baugi, átök milli aga og agaleysis, milli hefða og byltinga og svo framvegis. Hring eftir hring, réttara væri að segja spíral eftir spíral, því það er þannig sem sagan endurtekur sig, ekki í lokuðum hring heldur spíral.

Það er ákaflega sjaldgæft hér á landi að eiga þess kost að dvelja í húsi sem á sér jafn langa sögu. Þetta var mennta- og menningarmiðstöð þjóðarinnar kynslóð fram af kynslóð. Húsið og skólastarfsemin kenna okkur eitthvað mjög mikilvægt um tímann.

Það eru forréttindi að vera þátttakandi í því ævintýri. En þetta á ekki að gera okkur MR-inga hrokafulla, þvert á móti. Þetta á að vera okkur lexía í hógværu stolti, hvatning til að vera skólanum til sóma. Stolt er algjör andstæða hroka. Aðgangur að fortíðinni getur verið og á að vera stökkpallur inn í framtíðina. Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina.

Horfum á trén, þá skynjum við að tré sem vex er kennari, lífvera sem hjálpar okkur að sjá hlutina bak við hlutina, fræið bak við tréð. Áform sem vex eins og lífvera, fjölgar sér eins og lífvera.

 

The Times They Are A-changin’.

Eitt dæmi af ótalmörgum: Enn eina ferðina stöndum við á tímamótum. Framundan eru tímar gervigreindar og alls kyns hluta sem mannleg hönd og hugur unnu áður. Og hvað með það? Jú, þá verður ljóst að sköpunarkrafturinn verður stöðugt mikilvægari, eitthvað sem gervigreindin ræður ekki við. Ekki ennþá að minnsta kosti. Sköpunarkraftur og gott samband við innri röddina skiptir öllu.

Árið 1867, fyrir nákvæmlega 150 árum lauk byggingu húss sem við þekkjum vel en það er Íþaka, bókhlaða MR, sem byggð var fyrir fé sem enskur kaupmaður, Charles Kelsall ánafnaði Latínuskólanum í erfðaskrá sinni.

Hann hafði heillast mjög af því að fámenn og sárafátæk þjóð skyldi reyna að halda uppi sjálfstæðu menningarlífi.

Ég hef verið beðinn um að koma því á framfæri að við, 50 ára stúdentar, höfum ákveðið að færa skólanum peningagjöf sem verði varið til að styrkja safnkost Íþöku.

Við vonum að gjöfin komi sér vel, þetta er örlítill þakklætisvottur okkar til skólans sem reyndi af öllu afli að koma okkur til nokkurs þroska og fór held ég langleiðina með það þó svo ekki mætti neinu muna í sumum tilfellum eins og í tilviki þess sem hér talar. Þið takið eftir því að ég notaði bæði tilfelli og tilvik í sömu setningunni, orðið tilfelli var algjört bannorð hjá íslenskukennaranum mínum í sjötta bekk. Ég hef verið að safna kjarki í fimmtíu ár að nota það og vona að það fyrirgefist eftir öll þessi ár. Enda bætti ég óðara við leyfilega orðinu, tilvik.

 

Ágætu nýstúdentar og júbílantar. Enn og aftur: hjartanlega til hamingju með daginn. Ég ætla að lokum að leyfa ykkur að heyra stutt prósaljóð sem ég skrifaði fyrir nokkru.

Það er um tímann og heitir Að vera – að verða og hljóðar svo:

 

Það er erfitt að öðlast djúpan skilning á tímanum. Það reynist miklu auðveldara að skynja hann. Jafnvel skilningur á afstæðiskenningunni breytist óðara í skynjun.

Rabbí Nachman frá Breslau sagði eitt sinn við áheyrendur sína: “Það er bannað að vera gamall.”

Þetta er ekki misheyrn, ekki missýn, hann sagði ekki bannað að verða gamall heldur vera.

Munurinn virðist lítill, einn bókstafur.

Með því að íhuga þessa setningu nánar gæti það gerst að maður skynjaði tímann í leiftursýn, skynjun sem stappaði nærri skilningi eitt augnablik, örstutt.

Verðandin er opin, það er allt í lagi að verða gamall, það er lífrænt.

En veran sjálf er helguð lífsandanum, síungum.

Einmitt þannig: það er bannað að vera gamall.

++++

Hér að neðan kemur myndband þar sem Dylan flytur lagið sem tilvitnaður texti er úr í ávarpi Sigurðar Pálssonar:

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.5.2017 - 15:37 - 4 ummæli

Geirharður Þorsteinsson arkitekt 1934-2017

Geirharður Þorsteinsson arkitekt er látinn og verður borinn til grafar á morgun.

Í mínum huga var Geirharður einstaklega flinkur arkitekt með sterka vitund um byggingalist. Hann var rökfastur og djúpþenkjandi með góða nærveru. Hann hafði skoðun á málum og lét hana óhikað í ljós. Hann var ekki þeirrar gerðar að krefjast þess að fólki væri honum endilega sammála. Hann kaus umræðuna og sagði sína skoðun og gaf fólki svigrúm til að meta hana.  Á sama hátt hlustaði hann á fólk og lagði mat á skoðanir þess en gaf því svigrúm til að halda sinni í friði. Geirharður sá skoðanir og sjónarmið takast á en ekki persónur. Það var gaman að ræða málin við Geirharð því það voru aldrei nein leiðindi þó menn væru ekki sammála og maður fór alltaf ríkari af hans fundi.

Geirharður var mjög virkur í arkitektafélagi Íslands, formaður þess um tveggja ára skeið. Hann var ritari og um tíma og var bæði í gjaldskrárnefnd, laganefnd, menntamálanefnd, samkeppnisnefnd og skemmtinefnd. Hann var sérlega virkur í allri umræðu um fagleg málefni innan félagsins. Það er mikill missir af þeirri umræðuhefð sem er nánast lögð af nú á dögum.

Nú hefur hann kvatt eftir langa baráttu við Altzeimer sjúkdóminn. Við áttum síðast tal saman á Grund fyrir um einu ári. Hann tók mér vel en mundi ekki hver ég var eða hvað ég hét. En hann sagðist kannast við mig og brosti. Samtalið var ekki eins og áður. Það var slitrótt og samhengislaust. En ég fór að spyrja hann um eitthvað sem varðaði Munchen. Svona til að segja eitthvað.  Þá lifnaði hann við og fór að segja mér frá strákapörum þeirra námsmannanna þar í borg um miðjan sjötta áratug síðurstu aldar. Þetta voru skemmtilegar lifandi og líflegar sögur af honum og „Gunna Torfa“ og einhverjum fl.  (líklega Gunnari Torfasyni verkfræðingi)  Við skemmtum okkur báðir við þetta. Hann sem sögumaður og ég sem hlustandi.  Síðasta samverustund mín með Geirharði snerist upp í að verða skemmtileg minning sem ég er þakklátur fyrir og gleymi aldrei.

+++++

Geirharður Þorsteinsson var einn þeirra arkitekta sem hafði mikla og góða yfirsýn yfið viðfangsefnið og sterk höfundareinkenni. Allt sem hann tók sér fyrir hendur var úthugsað og vel útfært í þeim anda sem tilheyrði honum og honum einum. Ég tek hér dæmi um eitt verka hans sem skýrir þetta ágætlega út fyrir þeim sem sjá.

Þetta er húsið Skildinganes 62 í Reykjavík sem teiknað var fyrir 41 ári eða árið 1976. Líklega eitt af bestu sérbýlishúsum á Íslandi.

Húsið stendur í Skerjafirði niður við sjóinn. Handan við Skerjafjörð eru iðagrænar grundir Álftaness.  Á milli er sjór og í fjörunni eru sæbarðar klappir og grjóthnullungar. Þessar aðstæður ásamt húsrýmisáætluninni hafa gefið arkitektinum innblástur. Hann velur að hafa húsið á tveim hæðum gagnvart sjónum en einni að götu. Horn hússins eru rúnnuð og mjúk eins og strandlengjan og sæbarið fjörugrjótið.   Það er gras á þakinu sem kallast á við Álftanesið í fjarska og náttúru strandlengjunnar.  Það er margt fleira sem kemur til.  En öllu þessu er mætt á snilldarlegan hátt frá hendi Geirharðar.  Þessi ávölu form sem áttu upphaf í Skildinganesinu notaði Geirharður síðar víða í byggingum sínum.

Þetta hús stendur við Skildinganes 62 og getur hvergi staðið annarsstaðar og þetta hús getur ekki verið teiknað af neinum öðrum en Geirharði Þorsteinssyni.

Geirharður varði miklum hluta starfsæfinnar í skipulagsmál sem hann sinnti af miklum áhuga, fagmennsku og með góðum  árangri, enda félagslega sinnaður.  Það er samt þannig að ég hefði viljað að hann sinnti húsahönnun í meira mæli  því þar nutu hæfileikar hans sín best eins og sést á því húsi sem hér er fjallað um.

Að neðan koma nokkrar myndir af umræddu húsi.

Húsið er fyrirferðalítið frá götunni sét. Grænt grasþakið á vel við þarna. Handan Skerjafjarðar sérst í Álftanesið.

Í húsinu er gert ráð fyrir lítilli einstaklingsíbúð með sérinngangi. Íbúðinni er gefið mikið vægi og virkar ekki sem einhver hjálega eða hliðarbúgrein í öllu samhenginu. Hún er á efri hæð hússins séð frá suðri.

Suðurhliðin er öguð í formi en samt organisk að vissu marki. Litla íbúðin er á efri hæð til vinstri með sameiginlegum svölum með aðalíbúðinni.

Aðalaðkoma og austurhlið. Þarna sést til sjávar og út á Álftanes.

Aðalinngangur og nokkrar sæbarðar steinvölur.

Götuhlið

Það er sama hvaðan litið er til hússins, allt er í samræmi og miklu jafnvægi. Höfundareinkenni Geirharðar eru augljós og leynast hvergi.

 

Að ofan er snið í húsið Skildinganes 62 frá 1976. Þetta er sérlega fallegt snið sem minnir á snið Alvars Aalto í Villa Carré frá miðjum sjötta áratugnum. En það var sagt um Aaltó að hann hafi oft byrjað á sniðinu þegar hann teiknaði hús. Sniðið gefur strax fyrirheit um umfang hússins og leguna í landinu. Nú er sagt að arkitektar byrji á að velta fyrir sé í hvaða forriti eigi að teikna!

 

 

Að ofan eru grunnmyndir hússins sem fróðlegt er að rýna í. Takið eftir litlu íbúðinni sem óskað var eftir. Hún er hvorki sett í kjallara né ris. Heldur er henni skapað rými á besta stað í húsinu. Þó lítið hafi verið fjallað um þetta hús undanfarin ár þá leikur ekki nokkur vafi á að þetta er í flokki bestu húsa á Íslandi.

Ef smellt er á myndirnar þá stækka þær.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.5.2017 - 14:20 - 10 ummæli

„Ship container swimming pool“

Lesandi síðunnar vakti athygli mína á að víða um heim er farið að afgreiða litlar sundlaugar sem gerðar eru í  20 og 40 feta skipagámum.  Eftir ábendinguna „googlaði“ ég „Ship container swimming pool“ og það opnaðist stór heimur um lausnir sem ættu að geta nýst víða hér á landi. Þetta ætti að henta vel í sumarbústaðabyggðum og jafnvel við einstaka sumarbússtaði í stað heitra potta eða jafnvel við hliðina á þeim.

Þetta virðist eitthvað svo sára einfalt að mig undrar að þetta sé ekki komið á markað hér á landi fyrir löngu þar sem meira framboð er af heitu vatni hér en víðast annarsstaðar.

Hjálagt eru nokkrar myndir sem ég fann á netinu.

+++

Efst og neðst eru myndir af gámalaugum sem felldar hafa verið á smekklegann hátt inn í menningarlandslagið.

 

Skemmtileg sérsniðin laustn þar sem er nokkur landhalli.

Að ofan  er gámalaugunum  styllt ofaná stétt eða (gerfi)grasflöt. Mér skilst að sum fyritæki úti í hinum stóra heimi leigi svona laugar út fyrir barnaafmæli og slíkt.

Hér er gámurinn lítið eða ekkert niðurgrafinn en smíðað umhverfis hann líkt og tíðkast með heita potta hér á lndi.

Hér er gámnum komið fyrir í einskonar „infinity“ laug með gleri í endanum. Skemmtilegt hefði verið að láta yfirfallið flæða yfir glerbrúnina.

Hér er sýnt hvernig komið er fyrir hefðbundnum potti og sundlaug í einum og sama gáminum sýnist mér.

Mér skilst að þessar gámalaugar séu framleiddar í „gámatali“ um víða veröld og ekið nánast fullbúnum á áfangastað.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.5.2017 - 17:50 - 17 ummæli

Landspítalinn – Sleifarlag eða harmasaga?

 

Myndin að ofan er fengin úr samkeppnistillögu SPITAL hópsins sem sigraði í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús fyrir 7 árum. Gert er ráð fyrir að tekinn verði grunnur að svonefndum meðferðarkjarna í lok ársins 2018. Þá verða liðin meira en 8 ár frá því að samkeppni um spítalann lauk og niðurstaða lá fyrir.

Á átta árum ná Danir að auglýsa samkeppni um enn stærri spítalaframkvæmd, fá niðurstöðu sem sátt er um, hanna byggingarnar, byggja þær og afhenda til rekstrar og taka á móti sjúklingum.

Varðandi Landspítalaframkvæmdina við Hringbraut gengur hvorki né rekur.

Hvernig ætli standi á þessu?

Ég átti samtal við starfsfólk á Borgarspítalanum í vikunni, sem var almennt óánægt með staðsetningu Landspítalans við Hringbraut og nánast allt fyrirkomulag þar. Þetta fólk taldi að þetta sleifarlag mætti rekja til þess að það væri ekki sannfæring meðal ráðamanna og þjóðarinnar gagnvart verkefninu.

+++

Í byrjun aldarinnar var mikill hugur í fólki. Fundin var leið til fjármögnunnar Nýs Landspítala með sölu Símanns og Síminn var seldur. Svo hurfu peningarnir allir einhvernvegin þó Síminn sé hérna ennþá og í fullum rekstri.  Þetta er reyndar atriði sem ég ekki skil.  Síminn var seldur fyrir andvirði sem átti að vera nægjanlegt til að byggja nýjan Landspítala  Svo hurfu bara peningarnir! En Síminn er áberandi í öllu okkar umhverfi og daglegu störfum á árinu 2017.

+++

Í framhaldinu af sölu Símanns var ákveði þvert á ráðgjöf erlendra sérfræðinga að bygga upp Háskólasjúkrahúsið við Hringbraut. Haldnar voru  samkeppnir o.s.frv.

En þá kom Hrunið og allt stoppaði um stund. Svo fór allt af stað aftur ári eftir Hrun og nú átti að koma byggingariðnaðinum af stað, sem hafði algerlega stöðvast á þessum tíma Byggingariðnaðinum átti að koma af stað á ný með framkvæmdinni og klára spítalann við Hringbraut með hraði.

Auglýst var eftir þáttakendum í forvali vegna nýrrar samkeppni um áramótin 2009/2010 og samkeppnisgögn afhent 12. mars árið 2010. Aðeins þrem mánuðum síðar, þann 10. júní, skiluðu þáttakendur inn tillögum sínum.  Dómur féll mánuði síðar eða þann 9. júlí 2010. Þetta tók allt gríðarlega  stuttan tíma. Fjórum mánuðum eftir að samkeppnisgögn voru afhent var verkið komið á beinu brautina að mati flestra.

Það lá greinilega mikið á.

+++++

Um áramótin 2009/2010 var haldinn stór fundur í rástefnusal Landspítalans við Hringbraut þar sem farið var yfir málið í heild sinni.

Efni fundarins var forvalið, samkeppnin og framkvæmdin.

Einn fundarmanna spurði hvenær reiknað væri með að framkvæmdir við byggingu Nýs Landspítala hæfist. Gunnar Svavarsson verkefnisstjóri varð fyrir svörum og sagði að það væri áætlað á haustmánuðum 2011. Sennilega í nóvember. Fyrirspyrjandi var ánægður með áformin en þótti þetta stuttur tími til þess að klára samkeppnina, hanna húsin til útboðs og hefja framkvæmdir. Þá leiðrétti Gunnar þann misskilning og sagði að gatnaframkvæmdir munu byrja í nóvember 2011. Þetta leit sem sagt allt vel út. Ekki kom fram á þessum fundi hvenær uppbyggingunni átti að ljúka, en miðað við tímaáætlunina vegna hönnunar og byrjun framkvæmda gerðu menn auðvitað ráð fyrir að byggingarnar stæðu fullbúnar til notkunnar um þessar mundir, árið 2017-2018.

++++

Síðan eru liðin sjö ár og það er enn rúmt ár þar til útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar verða afhent ef áætlanir standast. Húsgrunnur verður tekinn 8 árum eftir að samkeppninni lauk samkvæmt þessu! Þetta er gríðarlega langur tími. Allt of langur. Þetta hreyfist með hraða snigilsins. Á þessum mörgu árum hafa eldri byggingar drabbast niður og einungis hafnar framkvæmdir á Sjúkrahóteli, rými fyrir jáeindaskanna og nokkrir skrifstofugámar fyrir lækna hefur verið komið fyrir, (aðeins um 1-2% af heildarbyggingamagni Landspítalalóðar) annað ekki.

Samkvæmt deiliskipulagi á Landspítalalóðin að rúma alls 293.300 fermetra þar sem eldri byggingar sem á að endurhæfa eru aðeins  tæpur fjórðungur alls byggingamagnsins eða 73.600 m2. Þetta er gríðarlegt byggingamagn sem ekki er auðvelt á átta sig á. Jafnvel fyrir atvinnumann í greiningu skipulags og bygginga.

+++

Í Danmörku var haldin samkeppni um nýtt háskólasjúkrahús í Köge á Sjálandi. Köge er bær suðvestan við Kaupmannahöfn. Það vekur athygli að þar er enginn háskólinn sem segir manni að tengsl við almennan háskóla skiptir þar í landi litlu máli. Samkeppnin um sjúkrahúsið í Köge var haldin 2013 og gert er ráð fyrir að sjúkrahússbyggingin standi fullkláruð 8 árum síðar eða árið 2022. Hún er um 177.000 fermetrar.

Þetta er ekki álitið sérstaklega hröð framkvæmd þar í landi. Hún er álitin eðlileg. Þegar tekinn verður grunnur að meðferðarkjarna Landspítalans Háskólasjúkrahúss við Hringbraut í lok næsta árs verða liðin hátt á 9 ár frá því að úrslit um samkeppni vegna framkvæmdanna lá fyrir.

+++

Af hverju gengur þetta svona hægt hjá okkur? Er þetta sleifarlag? Slæleg vinnubrögð, hirðuleysi og trassaskapur? Eða er þetta ein harmasaga hugsanlega vegna þess að þetta byggist allt á veikum grunni hvað varðar skipulag, fjármál og hugmyndafræði? Ég veit ekki svarið en það er ljóst að ekki hefur tekist að ná upp faglegri umræðu um málið. Málið allt er vanreifað.

Það er sorglegt vegna þess að allt sem farið hefur verið fram á er að það fari fram óháð og hlutlaus staðarvalsgreining. Því er ítrekað hafnað og kerfið hefur makkað með einhverjum óskiljanlegum  þverpólitískum þingmeirihluta. Nú hafa svo margir komið að þessu að enginn er ábyrgur.

Menn hafa sagt undanfarin 7 ár að það væri of seint að taka upp fagleg vinnubrögð varðandi þetta mikilvæga mál!

Með sömu rökum má halda því fram að það sé orðið of seint að breyta bílaborginni Reykjavík í vistvæna borg fyrir fólk með Borgarlínunni.

++++

Efst er mynd úr samkeppnistillögu sem var valin til útfærslu þann 9. júlí 2010 og strax að neðan er svo fullunnin deiliskipulagstillaga þar sem bætt hefur verið við byggingamagnið einum 30 þúsund fermetrum næst nýju Hringbrautinni.

Neðst kemur svo mynd af Háskólasjúkrahúsi í Köge í Danmörku. Samkeppni var haldin árið 2013 og sjúkrahúsið verður tilbúið til notkunnar 2022, 8 árum síðar.

 

Að neðan er yfirlitsmynd af háskólasjúkrahúsinu í Köge suðaustan við Kaupmannahöfn. Þetta er gríðarstór bygging uppá 177.000 fermetra. Samkeppni var um húsið var boðuð árið 2013 og nú standa byggingaframkvæmdir yfir og verður lokið árið 2022.  Það er rúmt um stofnunina og aðgengi er gott. Það var ákveðið að efna til samkeppni um þessa miklu byggingu árið 2013 og allt bendir til þess að húsið verði opnað árið 2022.

Við fengum úrslit í samkeppninni um Nýjan Landspítala Háskólasjúkrahús 2010 og framkvæmdir munu hefjast rúmum 8 árum síðar ef áætlanir ganga eftir. Staðsetningin er í engu samræmi við raunveruleikann eins og hann er nú 15 árum eftir að staðurinn var valinn og forsendur staðarvalsins frá 2002 eru allar brostnar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.4.2017 - 13:24 - 32 ummæli

Borgarlínan – Reynslusaga frá Odense

Í Odense á Fjóni í Danmörku var komið upp sporvagnakerfi í september árið 1911.

Sporvagnarnir í Odense urðu strax mjög vinsælir. Á einu og hálfu ári frá því að rekstur hófst höfðu í mars 1913 2,2 miljónir borgarbúa nýtt sér þjónustuna. Þetta er gríðarlega mikið þegar það er haft í huga að bæjarbúar voru aðeins 43 þúsund á þeim tíma. Þetta samsvarar því að hver íbúi hafi nýtt sé sporvagnana 51 sinni á tímabilinu.

Þetta var auðvitað annað samfélag þarna i Odense fyrir rúmum 100 árum. Það voru færri bílar en á móti kom að nærþjónustan var nær íbúðahúsunum en nú er. Fólk gekk og hjólaði meira þá en á okkar dögum.

Sporvagnarnir í Odense voru svo lagðir niður árið 1951. Í Kaupmannahöfn voru sporvagnarnir lagðir niður árið 1972. Það sama gerðist víða um lönd. Þetta var einkum vegna þess að einkabílum hafði fjölgað verulega og sporvagnarnir töfðu fyrir umferð þeirra og töpuðu nokkuð vinsældum sínum. Sporvagnarnir gengu ekki alltaf í sérrýmum og kerfið var líka orðið gamalt og slitið víðast hvar.

Það hefur lengi verið ljóst að einkabíllinn hentar ekki sem aðalsamgöngutæki í borgum. Sú lausn gengur ekki lengur. Hún er úr sér gengin óhagkvæm og slæm fyrir umhverfið.

Nú leita menn lausna og hafa verið að þróa sporvagnakerfi upp á nýtt víða í Evrópu. Líka í Odense og hugsanlega á höfuðborgarsvæðinu hér á landi. Ég tek dæmi af Odense vegna þess að þar býr nú  álíka fjöldi og á höfuðborgarsvæðinu eða 190 þúsund manns.

Hversvegna ætli það sé og af hverju er verðið að koma upp sporvagnakerfum, sem nú heita léttlestir, víða í Evrópskum borgum? Þær voru taldar úreltar fyrir örfáum áratugum.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því.

Maður hefur fundið út úr því að fólk stígur ekki út úr einkabílum sínum af því það er þvingað til þess. Þvingunaraðferðir með gjaldtöku inn í þéttbýlið eins og um hefur verið rætt (við Kringlumýrarbraut) eða mjókka götur og fækka bílastæðum duga ekki og eru óvinsælar. Menn stíga út úr einkabílnum vegna þess að aðrir ferðamátar eru skilvirkari, þægilegri, skemmtilegri og ódýrari kostur en einkabíllinn. Einkabíllinn er líka samfélagslega óheppilegur og af mörgum álitinn leiðinlegur.  Til þess að ná þessu hafa verið valdir sporvagnar sem aka um í sérrýmum. Vagnar sem fá forgang á ljósum, eru á réttum tíma og stutt er á milli ferða. Eitt meginmálið er að akstur sporvagna er liðlegri en strætó og einkabíll.  Sporvagninn stoppar hægar og ekki annarsstaðar en á stoppistöðvum og fara hægar af stað. Það eru st-öðugir rikkir og skrikkir í strætó og einkabílum. Þetta gerir það að verkum að truflunin er minni fyrir farþega. Þetta er einkum um gott fyrir þá sem vilja lesa á leiðinni eða vafra um á netinu, lesa blogg eins og þetta!.

Ein ástæðan er líka sú að það er áratuga hefð fyrir sporvögnum í þessum borgum í Evrópu. M.a. í Odense.

En geta rafdrifnir strætisvagnar eða liðvagnar í sérrými ekki það sama?

Jú, það geta þeir að mestu.  Og ekki bara það heldur kostar slíkt kerfi umtalsvert minna en sporvagnakerfi eða léttlestakerfi. Það er einkum tvennt sem sporvagnarnir hafa framyfir BRT (bus rabit transport) og það er smávægilega meiri rykmengun af gúmmíhjólunum og svo hitt að því er haldið fram að flutningsgetan sé umtalsvert meiri. Og svo er aksturslagið annað eins og fyrr er getið.

En nú er verið að þróa sporvagnakerfi upp á nýtt í Odense. Leiðin sem verið er að leggja er 14,5 km löng og mun kosta 3 milljarða danskra króna á verðlagi 2014. Þetta er rúmlega 50 íslenskir milljarðar eða 3.5 milljarðar íslendskra á km. Í Danmörku eru svona kerfi fjármögnuð með 40% frá ríkinu, 34% frá sveitarfélögum og 265 frá svæðinu (t.a.m. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu)

++++

Hversvegna ætli það sé verið að koma upp sporvagnakerfum, sem nú heita léttlestir, víða í Evrópskum borgum?

Það eru nokkrar ástæður fyrir því en fer nokkuð eftir því hvaða stað um er að ræða.

Í Odense er það einkum þrennt. Með tilkomu nýs háskóla þar sem munu verða um 60 þúsund manneskjur mun umferðin aukast svo mikið að gatnakerfið þolir það ekki. Í öðru lagi munu göturnar ekki getað borið alla þá strætisvagna sem þarf. En léttlestin flytur jafn mikið og fjórir strætisvagnar.  Í þriðja lagi sem skiptir miklu máli þár er léttlestarkerfið ekki eins sveigjanlegt og strætó. Þetta hljómar undarlega en sannleikurinn er sá að reynslan sýnir að strax þegar ákveðið er hvar leggja á teinana þá vaknar svokölluð „skinneeffect“ eða teinaáhrif. Fasteignir meðfram línunni hækka í verði og fjáraflamenn og lánveitendur sjá mikil tækifæri. Teinaáhrif leiða af sér lobbýisma og meiri heimildir til uppbyggingar. Fjáfestar leggja fé í allskonar uppbyggingu meðfram teinunum. En það er óvissa þarna og ótti við að leiðunum verði breytt. Heimildir eru eðlilega líka auknar verulega með fram  línunum. En fjárfestar treysta ekki stjórnmálamönnunum. Þeir telja teinana traustari en samg0ngur á gúmmíhjólum. Það er auðveldara að breyta leiðarkerfum þegar um strætó er að ræða en þegar verið er að tala um léttlest á teinum. Svo má bæta því við að í Odense er hefð fyrir sporvognum sem er auðvitað það sama og léttlest. Fólk þekkir sporvagnana af góðu einu frá gamalli tíð.

Þessi rök gilda ágætlega  í Odense en ekki endilega hér. Mér sýnist samt að dönsku ráðgjafarnir COWI sem eru ráðgjafar í Odense og benda á léttlestarkerfi þar geri það sama hér. Sömu ráðgjafarnir hafa verið ráðnir af samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og leggja til léttlestarkerfi hér.

En geta rafdrifnir strætisvagnar eða liðvagnar ekki það sama og léttlestarkerfið. Hentar lettlestarkerfið okkur þó það henti ágætlega í Odense?

Er hefð fyrir sporvögnum hér? Er ekki pláss fyrir strætisvagna hér? Þurfum við jafn mikla flutningagetu hér og í Odense. er ekki hægt að útbúa sérgreinar vagnanna þannig að þeir verði jafn fastir á sínum stað og teinarnir? Þarf þetta að vera annaðhvort eða? Er ekki hugsanlegt að norður suðurlínan verði af einni gerð og austur vestur af annarri? Höfum við efni á léttlestarkerfi sem kostar 3.5 milljarða á kílómetrann? Kerfið allt á höfuðborgarsvæðinu er áætlað um 40 km og mun þá kosta um 140 milljarða. Ef við erum bjartsýn og reiknum með að fjórðungur íbúa höfuðborgarsvæðisins,  sem eru um 195 þúsund, notfæri sér Borgarlínuþjónustuna þá verður stofnkostnaðurinn allt að 3 milljónir á hvern notanda.

+++

Hér má lesa nokkuð ítarlega og vandaða skýrslu um málið.:

pdf button Borgarlínan -Hlutverk – Hvað – Hvar – Hvernig

Eftir að hafa skoðað þetta og lesið fyrirliggjandi gögn af hliðarlínunni virðist mér liðvagnar á sérakgrein með sérmerktum akstursleiðum og forgangi vera heppilegasta leiðin hér á höfuðborgarsvæðinu.

++++

Myndin efst í færslunni er af sporvagni í Odense um miðja öldina.

 

Myndin að ofan er frá hugmyndum PLH arkitekta í Kaupmannahöfn um brautarstöðvar léttlestanna í Odense í Danmörku sem mun verða tekin í notkun árið 2020. Arkitektarnir leggja áherslu á að þarna sé samræmd hönnun sem verður einkennandi.

 

Fullkomið stafrænt upplýsingakerfi á hverri stöð.

 

Að ofan eru fyrstu hugmyndir um legu Borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu.  Línurnar eru tvær; Austur-vesturlína og Norður -suðurlína. Búast má við auknum byggingaheimildum meðfram línunni og hækkuðu fasteignaverði eins og reynslan allstaðar erlendis hefur leitt í ljós. Línurnar mætast við Vogabyggð þar sem á að byggja á fjórða hundruð þúsund fermetra nýbygginga samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum. Á þessum stað verður þungamiðja almannasamgangna svæðisins ef vel tekst til. Þarn hlýtur umferðamiðstöðin og tenging til Keflavíkurflugvallar að vera staðsett.

Myndirnar hér að ofan og neðan sýna hugsanlegar nýbyggingar við Elliðaárósa þar sem aðalskiptistöð almannasamgangna er hugsuð.

 

Léttlesti í Odense  mun líta út einhvernvegin svona samkbæmt fyrirliggjandiu hugmyndum.

Yfirlitskort yfit léttlestarkerfi Odense. Það er alls 14.5 km langt og á að kosta um 50 milljarða.

Hér er hugmynd frá Siemens sem er að markaðssetja „Elecrtic rabiot bus system“.  Takið eftir að vagnarnir aka í sérrými þar sem stoppistöðvarnar eru hækkaðar þannig að fólk í hjólastól eða með barnavagna eða göngugrindur er boðið gott aðgengi.  Þetta er líka sérlega mikilvægt atriði sem varðar samgönguhjólreiðar sem yrðu virkilegur valkostur fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Svona lausn hefur minni flutningsgetu en léttlest en hefur alla aðra kosti hennar um leið og hún er mun ódýrari. Hugsanlegt er að nota aðeins eina akrein í báðar áttir og láta vagnana mætast á stoppistöðvum. Sú lausn er ódýrari og hentar vel i þröngum götum.

Í Bandaríkjunum og víðar hafa menn notað liðvagna  sem ekki aka um í sérrými. Slík þjónusta hefur alla galla strætó en enga kosti sporvagna.

++++

Reynslusaga.

Ég hef haldið fyrirlestra víða um skipulags- og byggingamál. Þar á meðal tvisvar á Rotaryfundum um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur. Þatta var um áramóin2015-2016. Ég varð þess var að fólk var almennt ekki sérlega upplýst um þetta merkilega skipulag. Eftir að hafa lýst hvaða áhrif Samgönguásinn (nú Borgarlína) mundi hafa á fasteignaverð og byggingaheimildir spurði ég hvort menn hefðu heyrt af þessu áður. Undirtektirnar voru daufar. menn höfðu reyndar lítið heyrt af samgönguásnum sem er auðvitað hryggjarstykki skipulagsins. Þá spurði ég hvort fasteignasali væri í hópnum, en Rótaryklubbar samanstanda af sérfræðingum frá ýmsum stöðum í atvinnulífinu. Jú það var einn. hann hafði ekki mikið hugsað um þetta. Þá spurði ég hvort þessar áætlanir væru farnar að hafa áhrif á eftirspurnina í nágrenni samgönguássins og þar með talið verðið? Fasteignasalinn taldi þetta lítið rætt í fasteignabransanum og væri ekki farið að hafa áhrif á verðið. Þá spurði ég hvort AR2010-2030 lægi ekki frammi á fasteignasölu hans. Hann hvað svo ekki vera!  Af hverju ætli það sé.? Eina skýringin er sú að fjárfestar hafa ekki trú á þessu eða skipulagi fyrr en þeir sjá byggiongarnar rísa. Þeir treysta ekki skipulagsáætlunum. Þetta er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að danir velja léttlest og vonast til þess að hin svokallaða „skinneeffect“ laði fjármagn að umhverfi línunnar.

++++

03.05.2017  Viðbót.

Í Morgunblaðinu í morgun er grein um málið þar sem er viðtal við Hrafn­kel Proppé, svæðis­skipu­lags­stjóra höfuðborg­ar­svæðis­ins, sem seg­ir að kerfið verði byggt í áföng­um. Og að lega Borg­ar­lín­unn­ar um höfuðborg­ar­svæðið hafi ekki verið ákveðin. Fréttinni fylgir samt mynd af grófri legu línunnar á öllu höfuðborgarsvæðinu. Þar sést að verið er að velta fyrir sér að láta línuna ekki ná frá Kalkofnsvegi út að Vesturbugt. Það er ekki í samræmi við AR2010-2030. Forvitnilegt væri að fá að vita hver sé ástæðan fyrir þeirri breytingu.

Að neðan er tölvumynd sem fylgdi greininni og er sýnir hugsanlegt útlit stoppistöðvar við Smáralind og hugsanlega legu Borgarlínunnar eins og hún er sýnd í Morgunblaðinu í dag.

Að ofan önnur mynd úr Morgunblaðinu sem sýnir hvernig Borgarlínunni er ekki lengur ætlað að ganga að Vesturbugt og jafnvel þaðan út á Eyðisgranda eins og áður hefur verið nefnt. Nú er sýnd einhver lína sem gengur um Miklubraut og Hringbraut og þaðan út á Eypisgranda. Þetta er gríðarlega umfangsmikil frumáætlun frá COWI. Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Ég átta mig ekki á því hvernig litirnir eru skilgreindir eða hvað þeir eiga að segja okkur lesendunum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.4.2017 - 11:35 - 5 ummæli

AR2010-2030 og BORÐIÐ veitingahús

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er eitthvað það besta sem ég hef séð síðan 1927.  Það er samt auðvitað ekki gallalaust. Kostir þess eru einkum í stóru atriðunum eins og að draga úr útþennslu byggðarinnar,  hverfaskipulagið þar sem stefnt er að 8 hverfi borgarinnar verði sjálfbær hvað varðar atvinnu og þjónustu og svo auðvitað samgönguásinn sem er mikilvægasta einstaka atriðið og hryggjarstykki skipulagsins. Maður getur haft mismunandi skoðanir á einstökum atriðum skipulagsins meðan annað eru bara gallar sem þarg að leiðrétta.

Þessa galla er flesta að finna í allskonar smáatriðum sem menn kannski taka ekki eftir en reka sig fyrirvaralaust á þá og verða þá eiginlega bara hissa.

Eitt slíkt dæmi kom upp núna fyrir helgi þegar veitingastaðnum Borðið við Ægisíðu 123,  sem opnaði fyrir réttu ári, var hafnað um að fá að reka veitingahúsið í flokki II.  En veitingahúsum í þeim flokki er leyft að hafa vínveitingar.  Niðurstaða borgarinnar var kærð til Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem féllst á að hafna umsókninni um vínveitingar á þeim grundvelli að veitingastaðurinn væri í miðju íbúðahverfi og ekki við „aðalgötu“ og tilheyrir ekki nærþjónustukjarna. Þetta tvennt, aðalgata og nærþjónustukjarni eru forsendur fyrir því áð veitingastaður í flokki II sé leyfður ef ég skil þetta rétt.

Þetta er rétt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sem byggir á aðalskipulaginu sem er líklega rangt hvað þetta varðar. Göturnar eru ekki rétt flokkaðar ef flokkunin er borin saman við skilgreiningu gatnanna. Það er einmitt svona lítil atriði í aðalskipulaginu sem eru helstu gallar þess.

Ef horft er á myndina efst í færslunni sést hvar borgargötur eru merktar í vesturbæ Reykjavíkur. Sunnan Hringbrautar eru borgargöturnar fjórar. Það eru Suðurgatan, Hofsvallagata, Neshagi og Brynjólfsgata.  Maður sér strax að þarna er eitthvað vanhugsað og ekki í lagi.  Það standa engin rök til þess að flokka Neshaga og Brynjólfsgötu sem borgargötur. Hinsvegar er augljóst að Ægisíða vestan Hofsvallagötu ætti að flokka sem borgargötu (aðalgötu).

Lítum bara á skilgreiningu aðalskipulagsins á borgargötu „Borgargata.  Lykilgata viðkomandi hverfis. Helstu þjónustukjarnarog stofnanir hverfisins standa við götuna og er hún oft mikilvægasta samgöngutengingin við næsta hverfi eða borgarhluta fyrir alla helstu ferðamáta. Gata sem hefur sögulegt mikilvægi, sterka ímynd eða er mikilvægur sjónás í borgarlandslaginu.“ Neshagi og Brynjólfsgata falla ekki undir þessa skilgreiningu en það gerir Ægisíða vestan Hofsvallagötu svo sannarlega.

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er höfuðáherslan lögð á aðalgötu og hlutverk hennar.  Aðalgötur eru hinsvegar ekki áberandi í AR2010-2030 og ekki teiknaðar inn á samgöngukortin eins og sjá má á kortinu efst í færslunni þar sem borgargötur nærþjónusta, stórmarkaðir og opin svæði eru skilgreind. Á samsvarandi  kortum eru strætóleiðir teiknaðar inn ásamt hjóla- og göngustígar. Þarna eru borgargötur en ekki aðalgötur. Aðalgötur eru hinsvegar skilgreindar í texta í skipulaginu á sama hátt og borgargötur. Aðalgötur eru skilgreindar með meiri  fjölbreyttari landnotkun með áherslu á verslun, þjónustu og samfélagsþjónustu.  Ægisíða vestan Hofsvallagötu fellur undir þessa skilgreiningu og skilgreiningu borgargötu sérstaklega. Á þessum stutta kafla Ægisíðu er að finna bensínstöð (nánast vegasjoppu með verslun og dekkjaverkstæði), efnalaug, litla verslun og Borðið sem er í sama húsnæði og hverfisverslunin var til 70 ára auk þess sem þarna er umsvifamikill leikskóli. Gatan er miklu frekar aðalgata, borgargataeða nærþjónustugata en húsagata. Hún er aðalgata og borgargata þó hún sé ekki merkt sem slík á kortum AR2010-2030.

Slóðin að úrskurði ÚUA er að finna á þessari slóð:

http://www.uua.is/?c=verdic&id=1454

ÚUA hafnar kæru eigenda borðsins á grundvelli þess að þarna sé ekki um aðalgötu að ræða og vísar á myndir nr.: 15 og 16 á bls. 183 í aðalskipulaginu. Í mínu eintaki af aðalskipulaginu eru þessar myndir á síðu 171. Þarna er eitthvað misræmi sem ég skil ekki en það hlýtur að vera til skýring á.

Þessi galli á flokkun gatna aðalskipulagsins í vesturbæ Reykjavíkur þarf að lagfæra. Borgin þarf að lagfæra þetta. Hún mætti líka gjarna taka upp þá flokkun gatna sem menn hafa notað s.l. 60 ár en það voru; stofnbrautir, tengibrautir, safnbrautir og húsagötur. Þessi flokkun er góð og gagnsæ. Við þetta má svo bæta einum flokk í viðbót „borgargötum“ eins og þær eru skilgreindar í AR2010-2030 og falla vel að þeirri hugmyndafræði sem þar er lögð fram.

+++

Hér að neðan er yfirlitskort úr aðalskipulaginu AR2010-2030 sem sýnir borgarhluta 1, Vesturbæ.

 

Í vesturbæ sunnan Hringbrautar eru tvö frábær veitingahús. Hvort öðru betra. Annað er Kaffihús Vesturbæjar og hitt er Borðið.

Veitingahúsið Borðið er eitthvað það glæsilegasta hverfisveitingahús sem ég hef kynnst. Þar er góður matur sem reiddur er fram á smekklegan hátt í fallegu umhverfi af eigendunum sem geisla af þjónustulund. Þarna er hægt að kaupa ýmsa matvöru og hluti sem heyra til matargerðar. Þarna er engin hljómsveitarpallur eða myrkir krókar sem einkenna hverfisknæpur af hefðbundinni gerð sem maður þekkir erlendisfrá og menn sitja löngum stundum á sumbli. Þessi tvö veitingahús eru glæsileg hverfisprýði og mikilvæg fyrir félagslíf íbúa svæðisins og tengir þá saman með liðlegum hætti.

Til viðbótar þessu má nefna Stúdentakjallarann og Hámu á Háskólatorgi sem eru góð heim að sækja þó það sé með öðrum hætti.

Að neðan er mynd af Borðinu.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is