Föstudagur 24.7.2015 - 00:06 - 7 ummæli

Betri stað fyrir betri spítala

adalskipulag_framhlid-3

Fljótlega eftir að ákveðið var að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík var samin skýrsla um staðsetningu sameinaðs sjúkrahúss. Skýrslan var gefin út í janúar 2002 og er að mestu faglega unnin og til þess fallin að taka ákvörðun um staðsetningu við Hringbraut.

Síðan skýrslan var gefin úr hefur allt breyst í umhverfinu, hvort heldur varðar skipulagslegt umhverfi, félagslegt eða fjárhagslegt. Staðsetning sjúkrahússins við Hringbraut stenst ekki lengur þann veruleika sem nú blasir við 13 árum síðar.

Ástæðurnar eru margar. Nægir þar að nefna umferðamálin.

Á skipulagi sem stuðst var við árið 2002 voru fyrirhuguð göng frá Landspítalanum undir Öskjuhlíð með tengingu við Kringlumýrarbraut í Fossvogi, og áfram undir Kópavog og alla leið að Reykjanesbraut við Smáralind. Önnur göng áttu að koma undir Þingholtin með tengingu spítalans við Sæbraut nálægt Hörpu. Gert var ráð fyrir mislægum gatnamótum á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Leggja átti Miklubraut í stokk við Klambratún. Flugvöllurinní Vatnsmýri og starfsemi þar var snar þáttur niðurstöðunnar.

Nú liggur fyrir nýtt aðalskipulag Reykjavíkur þar sem allt þetta er lagt á hilluna.

Árið 2004 var samin önnur skýrsla. Þar segir m.a. „…besti kosturinn er án efa bygging nýs sjúkrahúss frá grunni en ef ekki verður ráðist í svo fjárfreka framkvæmd nú verður að skoða aðrar leiðir“. Útreikningar hafa sýnt að það er um 20 milljörðum ódýrara að byggja á nýjum stað en að endurnóta og byggja við núverandi húsnæði. Þar fyrir utan hagnast þjóðfélagið um milljarða á ári hverju við að flytja sjúkrahúsið nær þungamiðju búsetunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þriðja skýrslan sem stundum er nefnd kom svo í febrúar 2008. Sú skýrsla er rýr og byggir ekki á neinum tilgreindum gögnum sem vitnað er í. Það er fullkomlega óábyrgt að byggja ákvörðun um staðsetningu spítalans á henni.

Þegar gögn málsins eru skoðuð er því ljóst að skipulagslegar forsendur staðarvalsins eru að langmestu brostnar.

Áhyggjur þeirra sem telja að bygging nýs spítala geti tafist vegna endurskoðunar á staðarvalinu eru skiljanlegar. Slík endurskoðun er hinsvegar nauðsynleg og mun ekki seinka opnun sjúkrahússins þó að byggingaframkvæmdir hefðust nokkrum mánuðum síðar en nú er áformað.

+++++

Pistill þessi birtist í Fréttablaðinu í gær.

+++++

Myndin efst í færslunni er  af Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  sem staðfest var 20. desember 2002. Þar má sjá þær umferðatengngar göng sem voru fyrirhugaðar þegar staðarvalsskýrslan frá 2002 var unnin og tengdust Landspítalanum. Ekkert stendur eftir af þessum áætlunum í aðalskipulaginu sem samþykkt var í fyrra.

Er það verjandi fyrir ráðherra heilbrigðismála, fjármála og umhverfismála að leyfa að framkvæmdir fyrir um 100 milljarða verði hafnar við Hringbraut á grundvelli þeirra gagna sem  liggja fyrir?

Nýtt faglegt stðarval verður að fara fram af óháðum aðilum þar sem tekið er mið af núverandi aðstæðum. Ef svo ólíklega vill til að niðurstaðan verði Hringbraut þá er rétt að haga framhaldinu í samræmi við það.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.7.2015 - 13:44 - 15 ummæli

Landsbankinn og borgarlandslagið.

 

Hagsmunagæslumenn almennings, þingmennirnir Elín Hirts og Gunnlaugur Þór Þórðarsson og margir fleiri hafa gert athugasemdir við fyrirætlanir Landsbankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar fyrir bankann. Þau hafa fært ýmis siðfræðileg og hagræn rök fyrir því að þetta sé ekki skynsamlegt.

Í Fréttablaðinu í morgun svarar bankastjórinn Steinþór Pálsson fyrir hönd bankans  án nokkurra skipulagslegrar eða samfélagslegrar röksemdarfærslu. Hann segir einungis að fjarfestingin muni skila sér í reikninga bankans. Með öðrum orðum telur hann að fjárhagslegir hagsmunir bankans eigi að ráða för. Ekkert annað.

++++

Því er haldið fram að bankarnir hér á landi  hafi grætt um 500 miljarða frá endurreisn þeirra eftir Hrun.

Þetta er stjarnfræðileg upphæð.

Hún er svo stór að engin skilur hana.

Þetta jafnast á við um fimm fullbúna nýja Landspítala. Eða 15 þúsund meðalstórum íbúðum og enn aftur rúmlega einum meðal fjölskyldubifreið til allra fjölskyldna í landinu og meira en það o.s.frv.

Fyrirtæki sem svona er statt fyrir þarf að líta til samfélagsins.  Hugsa minna um eigin hag og meira til almennings.  Bankinn getur ekki lifað án samfélagsins en samfélagið getur vel komist af án Landsbankans.  Þess vegna þarf bankinn að sýna samfélagslega ábyrgð þegar svona stendur á.

++++

Ég ætla ekki  að hætta mér frekar inn á þessar brautir heldur líta til bankans í borgarlandslaginu og staðsetningu hans í tengslum við aðalskipulag borgarinnar.

++++

Eitt af því sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 gengur út á er að skapa meira jafnvægi í landnotkuninni þannig að draga megi úr umferð einkabifreiða og gera borgina sjálfbærari.

Bent hefur verið á að það eru of mörg atvinnutækifæri í vesturhluta borgarinnar og of lítið framboð af íbúðahúsnæði. Atvinnutækifærin eru flest vestan Kringlumýrarbrautar meðan búsetan er að mestu í austurhluta borgarinnar.

Aðalskipulagið bregst við þessu með þéttingu byggðar og fjölgun íbúða í vesturhlutanum og uppbyggingu íbúðahúsnæðis  á  Vatnsmýrarsvæðinu. Hún þarf til mótvægis að fjölga atvinnutækifærum austar í borginni. Hluti af lausn vandans er að  koma upp öflugum almenningssamgöngum frá Vesturbugt að Keldum sem stuðla að línulegri borg þar sem atvinnutækifæri og búseta yrðu fléttuð saman inn í borgarvefinn.

Fyrir 13 árum höfðu menn miklar áhyggjur af miðbörginni og töldu hana vera að slummast og deyja. Nú árið 2015 er hún orðin svo sterk að það þarf að huga að mótvægisaðgerðum. Dreifa álaginu varðandi verslun, skemmtanir og þjónustu. Færa tilboðin um atvinnutækifæri austar í borgina í tengslum við samgönguásinn um leið og íbúðum fyrir fólk sem býr í borginni verði fjölgað í vesturhlutanu: Kannski að Landsbankinn ætti að framselja lóð sína undir íbúðahúsnæði. Kannski sérhannað fyrir aldraða, einhleypa og námsmenn? Það er eðlilegt út frá samfélaginu og þróuninni að fjölga íbúðum við Austurhöfn og færa almenna skrifstofustarfssemi austar.

Landsbankinn gæti því haft höfuðstöðvar sínar áfram í sínu glæsilega sögulega húsi meðan stoðdeildir yrðu annarsstaðar.  Auðvitað er þetta ekki jafn hagkvæmt fyrir bankann og hann mun ekki græða eins mikið.  En fórnarkostnaðurinn kæmi samfélaginu, borgarlandslaginu og aðalskipulaginu AR2010-2030 til góða.

++++

Efst í færslunni er vinningstillaga BIG arkitekta og félaga að höfuðstöðvum Landsbankans sem var gerð fyrir Hrun. Að neðan er svo skýringarmynd af svæðinu við Austurhöfn.

++++

Það má bæta því við að þessi gamli banki, elsti banki landsins ætti frekar sitja sem fastast á sínum stað og hlúa þannig að sögu sinni í sínu merkilega gamla húsi við eina elstu götu borgarinnar.  Núverandi húsnæði bankans er líklega starfrænt ekki jafn hentugt og hugsanleg nýbygging. En ímynd bankans og það traust sem er samtvinnað gömlu byggingunni við Austurstræti er með þeim hætti að varla er metið til fjár.

Svo er sagt að þróuniní bankastarfssemi verði sú að ekki þurfi höfuðstððvar bankalengur  eins og við þekkjum í dag.  Talað er um lágverðsbanka („low cost banking“). Menn muni nota símann sin í ríkara mæli til þess að sinna bankaviðskiptum, svokallaða „mobile money“ sem dregur verulega úr kosnaði neytandans varðandi bankamviðskipti. Þetta hefur Thomas Möller fjallað um á Hringbraut.is og telur þessa þróun vera á leið hingað til lands.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.7.2015 - 16:44 - 16 ummæli

Lækjargata – Hin sögulega vídd

 

11665570_10207512092586131_3281059351348502681_n

Birkir Ingibjartsson er einn örfárra arkitekta sem taka þátt í almennri umræðu um skipulag og arkitektúr.

Það ber að þakka honum og þeim kollegum hans sem tjá sig opinberlega um þennan mikilvæga málaflokk.

Birkir  tjáir sig eins og flestir á málefnalegan hátt og er upplýsandi.

Hann hikar ekki við að leggja sínar hugmyndir fram til þess að lífga upp á umræðuna með það að markmiði að reyna að laða fram góða niðurstöðu í kjölfarið og ná sáttum ef þannig stendur á.

Í ummælum við síðasta pistil  á þessum vef segir hann m.a. um fyrirhugaðar byggingar við Lækjargötu:

„Að ætla byggja lægra en 4 hæðir á þessum stað væri sóun á afar góðu byggingarlandi og erfitt að mínu mati að réttlæta slíka stefnu. Meira byggingarmagn = meira fólk = sterkari miðbær.

Við götuna (Lækjargötu) standa nú bara eftir 2-3 hús sem eru lægri og því erfitt að sjá hver rökin fyrir því eru að temja hæð nýbygginga á þessum stað við 3 hæðir. Miklu raunhæfara væri að leyfa þessum lægri húsum að vaxa um 1-2 hæðir. Húsin hinum megin götunnar liggja nokkuð tilbaka frá götunni og sitja þar að auki ofar í landinu. Á milli hinna stærri húsa og þeirra smærri sem sitja ofar myndast því að mínu mati mun sterkara og jafnara göturými þar sem báðar hliðar götunnar talast á í stað þess þau sem ofar sitji drottni yfir þeim lægra settu…!

Það breytir því ekki að ég sé enga ástæðu fyrir því að leyfa ekki Bankanum að standa. Tillaga Glámu/Kím vitnar í raun til bankans með sínu uppbroti og því væri áhugavert að vita af hverju honum er ekki leyft að standa.

Ósk verkkaupa er mín ágiskun.

Ef bankinn fær að standa við hlið tveggja ~4 hæða nýbygginga verður uppbrotið mun sterkara og byggingin mun aðlagast mun betur að götunni auk þess sem hinni sögulegu vídd götunnar er haldið til haga og á lífi“

++++

Skoða má tillöguna um hótelið við Lækjargötu á eftirfarandi slóð:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

++++

Efst er mynd þar sem Birkir hefur gert í framhaldi af athugasemdinni við síðustu færslu og fellt gamla Iðnaðarbankahúsið inn í vinningstillöguna, þannig að saga götunnar og bankans er gefið áframhaldandi líf.

Þarna varpar Birkir með myndrænum hætti, sjónarmiði margra arkitekta og annarra, inn í umræðuna.

Ég þakka Birki Ingibjartsyni fyrir það.

Strax hér að neðan er tillaga sú sem verkkaupi kýs að byggja og neðst kemur svo mynd af Lækjargötunni áður en húsin sunnan við bankabygginguna brunnu. Í öðru þeirra bjó hinn ástsæli dómkirkjuprestur Sr. Bjarni Jónsson.

 

821957

Reykjavik Laekjargata, anno 1962

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.7.2015 - 08:12 - 22 ummæli

Lækjargata – Fortíðarþrá?

 

Aðalstræti -1021

Fyrir helgina var sagt frá niðurstöðu i samkeppni um nýtt hótel  við Lækjargötu í Reykjavík. Húsið á að standa á horninu við Vonarstræti þar sem nú eru bifreiðastæði og byggingin sem Iðnaðarbankinn lét reisa yfir starfssemi sína fyrir hálfri öld. Tillagan gerir ráð fyrir að hús Iðnaðarbankans víki fyrir nýbyggingum. Sem er sennnilega óþarfi. Iðnaðarbankahúsið er þarna og gæti fært mikilvæga sögu áfram til komandi kynslóða.

Það er skemmst frá því að segja að tillögunni var afar illa tekið. Það vakti athygli mína að hinir mætustu menn voru jafnvel stóryrtir og vildu ekki sjá þessa byggingu á þessum stað. Uppnefndu tillöguna og kölluðu hana „kassagerðararkitektúr“ og þaðan af verra.

Hvernig ætli standi á því?

Sennilega er það vegna þess að mönnum þykir vænt um Lækjargötuna og telja hana eina merkilegustu götu borgarinnar. Það er sennilga líka vegna þess að fyrir nokkrum áratugum unnu aðgerðarsinnarnir í Torfusamtökunum sigur í baráttu sinni og komu í veg fyrir að gömul hús við Lækjargötu, Bernhöftstorfan, yrði rifin og  ráðuneytisbygging kæmi í staðinn.

Menn muna líka eftir því að 1986 var samþykkt deiliskipulag fyrir Kvosina. Þar var mikil rannsóknarvinna lögð fram til þess að átta sig á anda staðarins og sögulega vídd Kvosarinnar. Niðurstaðan var sú að lagðir voru fram skýringaruppdrættir sem gáfu til kynna hvernig byggingar í Kvosinni og nágrenni hennar gætu litið út. Það var fundinn einskona arkitektóniskur samnefnari fyrir Kvosina. Þessar leiðbeiningar hafa haldið og margir vonuðust eftir að þær næðu yfir stærra svæði í framtíðinn. T.a.m. hafnarsvæðið allt norður að Hörpu.

Þriðja atriðið og það sem mestu máli skiptir í þessum framgangi í umræðu um arkitektúr og skipulag er að fólk almennt er farið að hafa meiri áhuga á efninu en verið hefur og hefur áttað sig á að umræðan og skoðanir þess skiptir máli. Það segir að umhverfið sé of mikils virði til að láta arkitekta, fjárfesta og stjórnmálamenn eina um málið.

Almennir borgarar eru í ört vaxandi mæli farnir að hafa skoðun á skipulags- og byggingarmálum og láta hana hiklaust í ljós.

Því ber að fagna.

+++++

Ég fyrir minn hlut hef ég nokkrar áhyggjur af þessari tillögu að nýju hóteli við Lækjargötu. Hún tekur ekki mið af þeim húsum sem fyrir eru í götunlínunni til beggja handa við húsið og húsanna handan götunnar. Hún tekur ekki mið af og þeim vísbendingum sem Kvosarskipulagið gaf fyrirheit um. Þá er ég ekki bara að tala um hæð hússins eða nýtingarhlutfall (sem er að sögn minna en deiliskipulagið leyfir).

Ég er að hugsa um arkitektóniska nálgun, gluggasetningu, efnisval, þök og fl. sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Heldur skynjar maður þetta, þetta er líka tilfinningamál eða innsæji sem ástæðulaust er að vanmeta.  Tillöguna skortir tillitssemi og skilning á því andrými sem er að finna í götunni, andrými sem fólk vill viðhalda. Höfundarnir og dómnefnd virðast ekki hafa fylgst með umræðunni og/eða ekki hafa sama skilning á mikilægi götunnar og flestir þeir sem um þessi mál véla eða tekið þátt i umræðunni.

+++++

Efst í færslunni er skissa úr Kvosarskipulaginu frá 1986 sem hefur haldið að mestu allar götur síðan. Nokkur hús við Aðalstræti hafa verið byggð samkvæmt deiliskipulaginu. Líka nokkur nýju húsanna við Lækjargötu. Deiliskipulagið einkennist af tiltölulega grönnum byggingum sem mótast að vissu marki af gömlum lóðarmörkum.

 

Varðandi aukinn  áhuga fólks á arkitektúr og skipulagi þá vek ég athygli á  teikningu sem Magnea Guðmundsdóttir arkitekt hefur teiknað af því hvernig „endurlífga“ mætti lækinn sem er undir götunni og breyta götumyndinni eins og sjá má hér að ofan. Þetta er að vissu marki fortíðarþrá sem virkar, ef marka má reynslu víða um lönd.

Hugmyndin felur í sér að helmingi núverandi akstursleiðar verði breytt í eins konar síki eins og þekkt eru í ýmsum borgum.  Þetta var gert með svipuðum hætti í Árósum í Danmörku með þeim afleiðingum að fasteignaverð hækkaði við götuna og mannlíf bættist verulega.

Þó Magnea hafi sett þetta svona fallega fram á hugmyndin sér langa sögu. Sennilega allt frá því að lækurinn var settur í stokk á sínum tíma en hann var þá a vissu marki opið klóak. En þarna rennur ekki lengur skolp. Deiliskipulag Kvosarinnar frá 1986 sem áður var nefnt tók á þessu og staðaranda Kvosarinnar allrar.

Að ofan er falleg hugmynd að byggingum á umræddum stað sem ég fann á netinu og var sett þar inn í tilefni umræðunnar um helgina. Ég veit ekki hvaðan hún er kominn eða hver er höfundurinn. Þarna sést hvernig húsin taka tillit til gamalla lóðarmarka í formi, efnisvali og/eða lit, sem tengir nýbygginguna við sögu staðarins og anda hans.

07.07.2008:

Það hefur nú verið upplýst að teikningin að ofan er skýringarmynd vegna deiliskipulags á reitnum. Deiliskipulagið var gert af THG arkitektum árið 2008.

Að ofan má sjá byggingar, nýjar og gamlar við Aðalstræti í Reykjavík. Þarna eru að mestu  nýbyggingar sem ná frá Vesturgötu í norðri að Túngötu í suðri. Þetta eru nánast allt Hótel. Nyrstu húsin eru ný og byggð amkvæmt Kvosarskipulaginu frá 1986. Þá kemur Morgunblaðshöllin sem er vissulega stílbrot en segir samt sína sögu á sama hátt og hús Iðnaðarbamkans í Lækjargötu gerir þar.  Sögu sem ástæðulaust er að þurrka út. Fast við Morgunblaðshúsið er hús Tryggingarmiðstöðvarinnar sem byggt er samkvæmt Kvosarskipulaginu. Næst kemur elsta hús Reykjavíkur sem er hluti Innréttinganna. Svo er það Ísafoldarhús Björns Jónssonar ráðherra.

Þá koma þrjú hús þar sem eitt er gamalt og tvö ný. Þau eru byggð samkvæmt sérstöku deiliskipulagi Grjótaþorps að ég held og teiknuð af Argos arkitektum.  Nýtingarhlutfall þarna errúmlega 2.  Öðru nýju húsanna hefur verið gefð útlit Fjalarkattarins sem var áður þar sem bygging Tryggingarmiðstöðvarinnar er nú. Svo er það gamalt hús sem þarna hefur verið í meira en 100 ár og loks nýbygging á horninu sem hefur turn sem er söguleg skýrsakotun til hússins Uppsala sem þarna stóð áður.

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/11/27/svona-a-ad-byggja-i-101/#comment

821970

821957

Að ofan eru tvær myndir af umræddri tillögu að hóteli við Lækjargötu. Það verður að segjast eins og er að sá sem þetta ritar þekkir tillöguna eingöngu af takmörkuðum upplýsingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum um helgina.

——-

06.07.2015. kl 15:30. Hér er bætt við slóð að tillögunni og tilheyrandi greinargerð.:

http://www.glamakim.is/2015/07/06/laekjargata-12-hugmyndasamkeppni-um-hotel-i-kvosinni/

 

++++

Að neðan koma svo aftur tvær teikningar af húsum við höfnina. Þau eru sama marki brennd og eru ekki sérlega reykvískar. Þessar byggingar „flétta sig ekki inn í borgarvefinn“ eins og Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt, hefur stundum orðað það við svipaðar aðstæður. Í mínum huga er þetta alþjóðlegur óstaðbundinn arkitektúr sem er óttalega leiðinlegur almennt séð ef leyfilegt er að alhæfa útfá þessum takmörkuðu upplýsingum. Þessar byggingar hafa ekki verið mikið í umræðunni og vekja ekki eins mikil viðbrögð og húsið í Lækjargötu. Sennilega vegna þess að fólki finnst ekki eins vænt um hafnarbakkann og Lækjargötu.

 

06.07.2015. jkl 15:30.  Hér að neðan kemur síða úr deiliskipulagi Kvosarinnar frá 1986 til glöggvunar. Hún sýnir útlit að Lækjargötu til austurs fyrir og eftir. Af einhverjum ástæðum er myndin teigð í hæðina. Ég bið afsökunnar á því.

Lækjargata 1986170

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.7.2015 - 11:06 - 6 ummæli

Betra Breiðholt í endurnýjun.

IMG_2727

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi aldrei að rífa nein hús, heldur endurhæfa þau og aðlaga þörfum líðandi stundar, byggja við þau og/eða breyta.  Þetta á bæði við einstakar byggingar og skipulög.

Sagt hefur verið að hús og borgir séu eins og lifandi vefur, eins og tré.

Christopher Alexander sagði reyndar  „A CITY IS NOT A TREE“, sem er auðvitað rétt þó það sé líka rangt. Það er alltaf verið að byggja við hús og borgir, og tré eru alltaf að vaxa í ýmsar áttir út frá rótinni.

Nú er að hefjast endurbætur á efra Breiðholt sem  er um þessar mundir 45 ára gamalt. Stóra blokkin við Æsufell var samþykkt árið 1970.

Breiðholtið er nú í svokölluðu hverfaskipulagsferli.

Skipulagið gekk í upphafi út á að koma verslun og þjónustu fyrir inni við miðju hverfinu og raða íbúðahúsinum umhverfis.  Allt átti að vera í göngufæri og við hendina. Byggðin var þéttust næst þjónustunni og skólunum svipað og hefur tíðkast í borgum og bæjum um aldir.

En verslunarhættir breyttust með almennri eign einkabifreiða og verslun og þjónusta fluttist Úr íbúðahverfunum inn á iðnaðar- og hafnarsvæði. Þetta gerðist með velþóknun skipulagsyfirvalda. Við það losnaði húnæði á góðum stöðum víðsvegar í borgarlandslaginu. Líka í Breiðholti.

++++

Hér fylgja nokkrar myndir af aflögðu veslunarhúsnæði  sem breytt hefur verið á snilldarhátt í íbúðir.

Verkið er unnið hjá GP arkitektum af Guðna Pálssyni arkitekt. Myndirnar sem fylgja eru teknar Af Sigurgeir Sigurjónssyni ljósmyndara.

Breytingin á húsinu byggist á deiliskipulagi frá 2005. Þá mátti byggja 2 hæðir ofan á húsið, hafa 19 íbúðir og 13 bílastæði.  Á þessu ári fékkst  samþykkt breytt deiliskipulag og fjölga  íbúðum í 24 og bílastæði  sem áður voru undir húsinu voru ærð út fyrir bygginguna.

Húsið er steypt, neðsti hlutinn klæddur með steinsteyptum plötum 8 mm þykkar, sem eru sagaðar niður ( plötur 150×300 sm) og skrúfaðar á trégrind. Timburklæðning er grófhefluð fura lituð ljós. Furan er norrænn viður og á betur við hér á okkar slóðum en mahognílitaða klæðningin, sem hefur verið ansi mikið notuð hér á Íslandi. Allstaðar eru svalir  1.6m á dýbt með handriði úr hertu gleri.

Aðkoma að íbúðum er frá svalagangi að norðanverðu sem er ekki það besta sem menn kjósa en sennilega eini möguleikinn hér.

Þetta er mjög gott dæmi um hvernig nota má þær fjárfestingar sem fyrir eru til þess að endurnýja það umhverfi sem fyrir er og sýnir að óþarfi er að rífa allt og byggja upp á nýtt.

++++

Heimasíða GP arkitekta er þessi:  http://gpark.is/

IMG_2733

IMG_2730

IMG_2726

IMG_2728

Að neðan koma svo þrjár ljósmyndir af húsinu áður en hönnuðurinn kom að verkinu.

IMG_2734

 

IMG_2737

IMG_2736

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.6.2015 - 22:56 - 10 ummæli

Ártúnshöfði – Elliðaárvogur – Úrslit í samkeppni.

ellidahofn-c2-kort

Síðdegis í dag voru kynnt úrslit í humyndasamkeppni um rammaskipulag við Elliðaárvog, Ártúnshöfða og Bryggjuhverfi.

Það gladdi mig mjög að höfundar vinningstillögunnar sýndu skilning á þeirri heildarmynd sem aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 dregur upp. En ein sterkasta einstaka hugmynd í skipulaginu er samgönguás þess. En samgönguás aðalskipulagsins verður hryggjarstykki borgarinnar þegar fram líða stundir ef vel tekst til og mun binda hana saman sem eina línulega borg í stað þess að vera samansafn  af  sundurleitum úthverfum.

Samkvæmt AR2010-2030 á samgönguásinn að liggja frá Örfirisey austur að Keldum. Þarna er fyrirhuguð þétt almenningsumferð með háu þjónustustigi.  Það er ekki víst að þessi hugmynd nái fram að ganga nema skipulagsyfirvöld hlúi að henni við hverja einustu skipulagsákvörðun sem tekin er, stórar og smáar. Ég má til með að geta þess að í nýlegu deiliskipulagi við Austurhöfn var ekki tekið nægjanlegt tillit til hugmyndarinar. Það olli mér áhyggjum.

Vinningstillagan ryður braut fyrir þessa mikilvægu hugmynd mun betur en aðrar tillögur í samkeppninni og festir ásinn nánast í sessi verði hún að veruleika. Þetta er meira mál en margan grunar og jafnvel skipulagsfólk sér ekki það gríðarlega tækifæri fyrir borgina alla sem í honum felst að mér sýnist. Það sem einkennir vinningstillöguna er fyrst og fremst samönguásinn en  einnig  áhersla á lýðheilsu, sjálfbærni og vistvæna hugsun.

Tillagan skapar skýrar einingar í heildstæðu hverfi með margvíslegri útfærslu byggðarreita sem býður upp á fjölbreyttar húsagerðir sem að vísu mættu vera fjölbreyttari. Hún gerir ráð fyrir aðlaðandi og fjölbreyttum almenningsrýmum og góðu samspili sjávar, lands og byggðar. Og það mikilvægast er að í tillögunni er verslun og þjónust staðsett m.t.t. samgönguáss og í göngufjarlægð frá öllum íbúðum og atvinnutækifærum.

Vinningstillagan var unnin af Arkís arkitektum ehf, Landslagi ehf, Verkís hf með aðstoð Dr. Bjarna Reynarssonar og uppfyllti best og flest markmið aðalskipulags Reykjavíkur eins og segir í dómnefndaráliti.

Aðrir þáttakendur voru Batteríið arkitektar, Teiknistofan Storð, VSB verkfræðistofa.  Karl Kvaran, OLGGA ofl.  Gláma Kím, Kurt og Pí, Efla, Studio Vulkan.  Teiknistofan Tröð, Mannvit.

Samtals reiknar tillagan með u.þ.b. 816.200 m² viðbótarbyggingarmagni og 5100 íbúðum í 3-5 hæða húsum.

++++

Að neðan koma nokkrar áhugaverðar myndir sem fengnar voru á vef Reykjavíkurborgar. Á efstu myndinn sést skýrt hvar samgönguásinn mun liggja og hvar miðhverfi sjálbærs borgarhluta er myndaður á krossgötum. Hjólreiða- og göngustígur liggur liðlega um elliðaárósa inn í hverfið og í gegnum það.

+++++

Ég mæli eindregið með að lesendur kynni sér dómnefndarálitið og vinningstillöguna nánar sem finna má á eftirfarandi slóðum.

Álti dómnefndar 

Verðlaunatillagan

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/#comments

 

 

 

 

 

ellidahofn-06

fr_20150623_017853fr_20150623_017852

ellidahofn-tjorn

bryggja3Verðlaunahafar, dómnefnd ásamt borgarstjóra og formanni umhverfis- og skipulagsráðs: Matthildur Kr. Elmarsdóttir, Björn Ólafs, Egill Guðmundsson, Björn Axelsson, Sunna Kristinsdóttir, Magnea Guðmundsdóttir, Þráinn Hauksson, Guðjón L. Sigurðsson, Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, Darió Nunes, Björn Guðbrandsson,Svava Þorleifsdóttir, Gísli Rafn Guðmundsson, Dagur B. Eggertsson og Hjálmar Sveinsson.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.6.2015 - 12:47 - 11 ummæli

Nýr spítali á 173 dögum!

u00-fig2

Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær.

Þörfin var mikil.

Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu.

Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra.

Hornsteinninn var lagður í upphafi framkvæmdanna þann 26 apríl 1902, reisugildi var haldið eftir 44 daga eða 9. júní 1902 0g húsið vígt, fullbúið og tekið í notkun 16. október 1902 eða réttum 173 dögum síðar.

Á þessum tíma voru engin rafmagnsverkfæri, engir kranar, engar tölvur og engin gæðakerfi. Í þessu samhengi veltir maður fyrir sér hvort maður hafi gengið götuna til góðs.

Spítalinn var stórhýsi á sínum tíma. Það var kjallari, tvær hæðir, og ris. Í upphafi voru 40 sjúkrarúm í byggingunni en fjölgaði ört eftir þörfinni. Spítalinn sem á horni Túngötu og Ægisgötu.

Þegar sjúkrahúsið var opnað bjuggu 7296 manns í Rykjavík en nú búa þar 122 þúsund eða 17 sinnum fleiri.

40 rúma sjúkrahús árið 1902 svarar til 686 rúma sjúkrahúss í dag.

+++++

Nú 113 árum síðar er verið að ræða staðsetningu nýs Landspítala og hefur sú umræða staðið nánast stanslaust í 13 ár.

Maður spyr sig hvernig standi á því?

++++

Efst er mynd af Landakotstúni, tekin milli 1920 og 1930. Frá vinstri eru Landakotsskóli,
prestbústaðurinn, spítalinn og Landakotskirkja sem síðar varð íþróttahús ÍR.
Sigurjón Jónsson bóksali tók myndina.

photo d

 

photo b

Landakotsspítali var stórhýsi á sínum tíma ens og má sjá á myndinni að ofan.

photo a

Að ofan er skemmtileg mynd sem tekin er á Túngötunni framan við spítalann. Takið eftir moldargötunni og girðingunum. Sennilega hefur fé gengið laust í borginni á þessum tíma.

Spítalinn var rifinn árið 1964.  Að neðan er mynd af rústum hans.

u00-fig4

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.6.2015 - 13:48 - 5 ummæli

Can Lis eftir Utzon

tumblr_mf33i1ujDV1rtnstco2_500

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt hefur sent síðunni áhugaverða grein um arkitektinn Can Lis. En Can Lis er hús sem Utzon byggði fyrir sig á Mallorca.    Höfundur pistilsins er flinkur og reyndur praktiserandi arkitekt sem hefur starfað alla sína tíð erlendis. Stefán hugsar mikið um anda staðanna og regionalismann sem á mikið erindi til samtímans. Ef fólk vill lesa fleiri pistla eftir stefán má slá upp nafni hans í leitarvélinni hér til hliðar. Gefum Stefáni orðið.:

Þræðir upprunans.

Að vorlagi árið 2001 þáði ég boð vinar míns að sigla á gamalli og glæsilegri seglskútu hans umhverfis Mallorca.Við heimsóttum m.a. Joönnu Kunstmann, listaverkasala skammt frá Santanyi við suðausturströnd eyjunnar.  Nutum þess að vera bæði á landi og til sjós.Þessir dagar voru fullir af gleði og fullvissu um að þarna við Miðjarðarhafið eiga Norðurlandabúar sínar gömlu rætur.

Á morgnana var  gjarna spjallað saman í  „Galeria Joanna Kunstmann“ við Plaza de Canal,  þá mjög þekkt listaverkasala á eyjunni.

Í  ljós kom,að fjölskylda danska arkitektsins Utzon, einkum einkadóttir hans Lin,voru tíðir gestir í Galeria Johönnu.

Úr helli  í hof.

Skoðunaferð í eigið hús Jörn Utzon, þar sem Lin bjó á þeim árum,var skipulögð

Utzon fjölskyldan fann sitt  „draumaland“ við Miðjarðarhafið á klettafleti,sem sem stendur beint á klettavegg við hafið nálægt Porto Petro á austurströnd Mallorca.

Eftir að hafa flúið Ástralíu og  Óperunna í Sydney, eins og kunngt er,  flutti Jörn  með konu og börn  í  kringum 1970 á Mallorca og framkvæmdir þar draum sinn um hús við suðrænt haf.

Því miður  varð birtan og endurspeglunin við sjóinn þeim Utzonhjónum um of  og þegar ég var þarna voru hjónin flutt út og dóttirin tekið við .

Áður enn húsið var byggt dvaldi Jörn oft í helli,sem var  í klettavegg á nýju lóðinni ,horfði til suðurs í átt að Alsír í  Norður Afríku,(þar sem Albert Camus fæddist og óx upp) og lét sig dreyma um  „paradís“ á jörð.

Can Lis,eins og Jörn skírði húsið nafni konu sinnar,  er  að vissu leiti tákn um tálsýn „norðurlandabúa“ hvað rómantískt paradís suðursins snertir,já einskonar „manifest“ slíks draums.

En  Can Lis er þó fyrst og fremst óviðjafnanlegt verk arkitektúrs,  eitt athyglisverðasta einkahús 20.aldar og því lærdómsríkt að beina því augsýn.

Hér varð til frábært dæmi um hús,sem vex og verður hluti af umhverfinu.

Utzon hleður með þeim stein,sem í aldaraðir var notaður á   eyjunni, og gerir það svo snildarlega,að þegar verkinu var lokið fékk hann kveðju frá spænskum kollega sínum á eyjunni : “to Utzon who show us our own stone“.

Þetta sýnir,að ekki er sjálfsagt, að arkitektar sjái  einkenni hvers staðar  og flétti jafn eðlilega inní staðarhætti og hér er var gert.

Utzon tekur upp þann þráð,sem sýnilegur er á bóndabýlum eyjunnar svo og þeim  veggjum,sem aðskilja einkaland bænda .  Allt húsið er hlaðið úr dæmigerðum,  ljósgulum sandstein Mallorca.

Auk þess eru að öðru leiti eingöngu staðbundin efni notuð,t.d. þakskegg úr leir,  tréverk úr þeim við,sem á staðnum vex ,   majorcaleirflísar á gólfum .

Byggingarhlutar eins og innigarðar,  terössur,eða glerjaðar flísar eru dæmigerð staðareinkenni.

Sú nálgun Utzons, að leita ekki langt yfir skammt ,er að vísu óháð Christopher Alexander (sem birti „The Timeless Way of Building“ 1979)  en í mörgu álíka sýn á byggingalist.

Mannsverk og náttúran.

Á vissan hátt er húsið eins og það sé ekki „hannað“.  Bygginging  fékk að „vaxa“ og varð  ekki endanlegt form fyrr en í lokin.  En  þessi aðferð skilar  eðlilegri og  tímalausri byggingu.

Hér er til staðar „gamallt og nýtt“  eins og  sjálfsagður  hluti umhverfis.

Grunnhugmyndin :  fjórar einingar ,hver um sig sjálfstæð en tengdar saman með  dæmigerðum innigörðum Spánar,  er í átt af húsaþyrpingum gömlu bóndabæja eyjunnar.

Hver eining í húsi Utzons hefur ákveðið hlutverk: setustofa,eldhús ásamt borðstofu,svefn og gestaálma.

Aðkoman að húsinu er svo látlaus,  að engum dettur í hug,að nokkuð athyglisvert sé  innandyra.

Því stærri verður upplifunin þegar sjórinn blasir fyrst við þegar inn er gengið.

Já:hér er fullkomið útsýni:allar gluggaeiningar eru settar utaná veggi svo að eingöngu gler sést innanfrá.

Formin „klassísk“ með einfaldleika og  léttleika,sem einkennir oft gömul býli á Mallorca.  Þykkir,hlaðnir veggir og innréttingar úr trévið. Súlur, bitar og bogaloft ekki falin.

Rýmin milli inngangs og  innirýma,yfirbyggð útirými og terrössur:hér má upplifa sólina og stein,birtu og haf í  uppruna sína.  Náttúran og verk mannsins eru ofin saman í eina heild.

Albert Camus segir okkur að það „að finna tengsl sín við jörðina,  ást sína á nokkrum manneskjum,vita að sá staður er til þar sem hjartað er sátt,  er býsna margt á einni æfi“ ( Noces 1938 /þýðing: Ásdís R. Magnúsdóttir,A.C.: Ritgerðasöfn 2014).

Hús Utzons á Mallorca endurspeglar þennan samhljóm manns og veraldar,sem Camus fjallar svo snildarlega um  í Noces,þar sem hann segir okkur frá  ytri og innri ferðalögum umhverfis síns og upplifunar.

+++++

Hér eru slóðar að öðrum pistlum eftir Gunnlaug Stefán ásam slóð að pistli um Utzon:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/02/04/flettad-inn-i-landslagid/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/12/20/margbreytni-rymis/

Að neðan eru nokkrar myndir af Can Lis ásamt grunnmyndum sniði og fl.

can_lis_mallorca

tumblr_mf33i1ujDV1rtnstco1_1280

 

 

KAS-CA-CAN_LIS-TOTALST_PLAN-03-_905

CroppedWatermarkImage1170700-can_feliz_drawing_1

openhouse-barcelona-architecture-can-lis-and-can-feliz-jc3b8rn-utzon-mallorca-3

JAU_Can-Lis_Yoshiharu-Tsukamoto_stage2

546198bfad460ab03223ec767699ad3e

 

Ég þakka Gunnlaugi Stefáni Baldurssyni pistilinn sem er fróðlegur fræðilegur og skemmtilegur.

Mig langar að bæta því við að Utzon fæddist 1919 og var jafnaldri professorsins míns Jörgen Bo (teiknaði Lousiana og m.fl) og var á sama tíma  og á Akademíunni og Tobiasar Faber sem var rektor Akademíunnar þegar ég las þar. Þeir voru allir góðir félagar.

Það má skjóta því hér inn að á þeim tíma sem ég stundaði ná á Akademíunni voru flestir prófessorar og kennarar skólans þungavigtarmenn í byggingalistinni. Þetta einkenndi skólann á margann hátt.

En eins og gengur með alt skabandi fólk voru þeir líka aðgerðarsinnar og engar geðluðrur.  Í ævisögu Utzon segir frá því að þeir Utzon og Faber, sem bjuggu saman á námsárunum, söfnuðu saman 30-40 dúfum á Ráðhústorginu. Þetta var á stríðsárunum og Danmörk hersetin af þjóðverjum. Þeir fóru með dúfurnar í pappakassa niður á Charlottenborg við Kongens Nytorv. Máluði merki breska flughersins á vængi fuglanna og slepptu þeim út um glugga Akademíunnar. Dúfurnar flugu yfri hersetinni borginni og höfðust við á Ráðhústorginu í nokkra daga þar sem þýskir hermenn fullvopnaðir gátu ekkert ráðið við Royal Air Force. Ekki fara sögur af þeim meira og var þetta vandræðalaust fyrir þá skóla- og herbergisfélaga Faber og Utzon þó þeir hafi fengið skammir í skólanum, sem fóru reyndar lágt.

Að neðan er mynd af þeim hjónum tekin skömmu áður en Utzon dó árið 2008. Lis Utzon, sem húsið heitir eftir dó 92 ára gömul árið 2010.

266166

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.6.2015 - 15:15 - 3 ummæli

Móðir náttúra endurheimtir sitt

Ljósmyndarinn  Tang Yuhong sem býr í Nanning í Kína sýnir hér nokkrar fallegar ljósmyndir sem eru teknar í yfirgefnu sjávarþorpi í Kína.

Á ljósmyndunum sést hvernig móðir náttúra endurheimtir svæði sem er vissulega hennar og skapar um leið dulræna stemmingu.

Þorpið er á Shengsi eyjum sem eru eyjar við ósa Yangze fljóts. Með tímanum mun þorpið hverfa í gróðri svipað og í Machu Picho í Perú. En það þorp var tínt og falið gróðri í 400 ár þar til það fannst árið 1911.


 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.6.2015 - 01:39 - 10 ummæli

Spennandi öríbúð – aðeins 25m2

Zoku by Concrete

Nú er landverð og byggingakostnaður orðinn svo hár í miðborgum vestrænna borga að venjulegt launafólk hefur varla efni á að búa þar. Fjárfestar og hönnuðir hafa brugðist við þessu og minnkað íbúðirnar þannig að fólk hafi efni á að búa í miðborgunum.  Þessi þróun hefur gerst hægt en markvisst.

Menn hafa byggt litlar íbúðir í marga áratugi en nú eru hönnuðir að einbeita sér að því að nýta þessa fáu fermetra sem best með margskonar útsjónarsemi og nægjusemi.

Maður sér margskinar útfærslur af þessu á veraldarvefnum.

Hér fylgja myndir af einni í Hollandi. Þetta var hugmynd sem þróaðist sem stúdentagarður en er íbúðahótel með 133 íbúðum sem eru aðeins 25 m2 hver. Þarna er svefnherbergi, stofa, baðherbergi, vinnuaðstaða, borðstofa og eldhús með ísskáp, uppþvottavél, eldavél og vaski.

Allt á 25 fermetrum!

Aldeilis frábærar íbúðir sem flestir einstaklingar og barnslaust pör geta verið ánægð með. Upplögð fyrsta íbúð og kjörin lausn fyrir fráskilda.

Ekki er leyfilegt að byggja svona hús hér á landi vegna ákvæða í byggingareglugerð.

Myndirnar skýra sig að mestu sjálfar.

Sjá einnig:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/04/micro-ibudir/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/09/micro-einbylishus/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/07/17/micro-hus-micro-lodir/

 

 

 

Zoku by Concrete

Svefnaðstaðan er hilla sem gengið er upp á um útdreginn stiga. Rúmið er 180 cm á breidd.

Zoku by Concrete

Vinnuaðstaðan er á ganginum í útskoti sem nægir fyrir alla venjulega tölvu- og  skrifstofuvinnu.

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Zoku by Concrete

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is