Miðvikudagur 7.12.2016 - 08:38 - 6 ummæli

Háhýsi

VLUU L100, M100 / Samsung L100, M100

“NEW YORK by Gehry” er 76 hæða bygging  sem var formlega opnuð þann 19. mars 2011. Fyrir fimm árum þegar arkitektinn, Frank Gehry, hélt upp á 82 ára afmæli sitt.

Byggingunni var vel tekið og var lofuð af gagnrýnendum byggingalistar.  Gagnrýnandi NY Times áleit þetta besta skýjaklúf í NY síðan Ero Saarinen teiknaði CBS bygginguna fyrir 51 ári og The New Yorker taldi þetta fallegasta háhysi borgarinnar frá öndverðu.

Margir gagnrýnendur byggingalistar hafa sagt “farðu nú á eftirlaun Frank Gehry” eftir að hafa skoðað síðari verk arkitektsins sem þeim þótti bera keim af elliglöpum.

Nú fimm árum síðar og eftir að  þessi bygging hefur risið spyrja sömu gagnrýnendur “Hver er svona góður sem vinnur hjá Gehry um þessar mundir?“

Því verður ekki neitað að gamli maðurinn hefur skotið yngri mönnum langt aftur fyrir sig í þessu verki vegna þess að það hefur átt sér stað viss stöðnun í byggingu háhýsa undanfarna áratugi.

Því er líka haldið fram að  hús Gehry  við Spruce Street í New York sé ekki neitt frábrugðið háhýsum almennt ef frá er talið ornamentið í útlitinu!

Það er verið að byggja hundruð þúsunda háhýsa um allan heim sem eru að mestu eins og háhýsi voru fyrir 50-70 árum. Engar teljandi framfarir eða þróun er að sjá í gerð eða formi háhýsa.

new-york-by-gehry-8-spruce-street-01

Press Kit

Að ofan er frumskissa Gehrys af  8 Bruce Street byggingunni í NY.

original

jpappraisal-jumbo

Að ofan eru tvær myndir af íbúðum hússins og að neðan má sjá Frank Gehry skoða hluta af útliti hússins í mælikvarðanum 1:1

 

Press Kit

 

dezeen_8-spruce-street-by-frank-gehry_03

a95f7c6c12f1559f30ee3da34f05321c

 

8-spruce-st-9443-1000pxHér að neðan koma svo tvö nýleg háhýsi hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldeilis ágæt en eru af sama toga og háhýsi um víða veröld síðustu meira en hálfa öldina. Þau eru svolítið einkennalaus og gætu staðið nánast hvar sem er.

Það er allmikið um afbrigði af svona húsum að finna um allan heim og sum bara skemmtileg. Mörg eru mjög staðbundin eins og hús BIG í NY o. fl. sem mætti jafnvel flokka undir regionalisma. http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/05/04/big-brytur-blad-i-new-york/

b510c93834b3ccbf4bf1f55c3e16dae4

 

100_3378

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2016 - 15:24 - 19 ummæli

„Urban Sprawl“ og þétting byggðar!

 

 

3-urban-sprawl

 

Það er í fullkomnu samræmi við umræðuna sem er áberandi um allan heim um útþennslu borga, að borgaryfirvöld í Reykjavík séu að reyna að stemma stigu við útþennslu byggðar.  Þetta er kallað „Urban Sprawl – the uncontrolled expansion of urban areas“, ef einhver vill googla þetta. En menn eru víðast að tala um að hafa stjórn á þennslunni – ekki stöðva hana.

Það er ljóst að markmiðið með hægja á útþennslu byggðar á höfuðborgarsvæðinu er skynsamlegt og næst ekki nema með öflugu almenningssamgöngukerfi og markvissu skipulagi. Dreifðar borgir þar sem notkun einkabílsins er forsenda búsetunnar leiðir af sér verri lífsgæði, miklu hærri framfærslukostnað og margfaldan samgöngukostnað. Einkabílisminn stuðlar að styttri líftíma, meiri hættu á sykursýki og öðrum lífsstílssjúkdómum vegna hreyfingarleysis svo ekki sé talað um þátt hennar í hlýnun jarðar.

+++++

Árið 2004 gaf Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur út drög að úttekt á landnotkun vegna gatnakerfisins í Reykjavík. Í skýrslunni er að finna ógnvænlegar  tölur um landnotkun gatnakerfisins. Þar kemur m.a. fram að landnotkun vegna samgöngumannvirkja í Reykjavík er um 48% af landrýminu, opin svæði eru 10% og byggð svæði 42% af landinu. Byggðin tekur minna land en göturnar.

Í skýrslunni má einnig lesa að bifreiðastæðin í borginni þekja milli 475  og 700 hektara lands sem er tæplega fimm sinnum meira en Reykjavíkurflugvöllur tekur í Vatnsmýrinni.

Í drögunum er tafla þar sem borið er saman flatarmál gatnakerfis við fjölda íbúða í völdum hverfum borgarinnar.  Þar kemur fram að þróunin hefur gengið í óheillavænlega átt undanfarna áratugi.  Hverfin urðu með hverjum nýjum áfanga frekari á landrými þegar gatnakerfið er skoðað.

Til dæmis fara um 75 fermetrar lands í samgöngumannvirki á hverja íbúð í nýja Vesturbæ (sunnan Hringbrautar), 152 fermetrar á íbúð í Fossvogi, 257 fermetrar á íbúð í Grafarholti.  Í Staðarhverfi fara heilir 322 fermetrar undir samgöngumannvirki vegna hverrar íbúðar, sem er  meira en fjórum sinnum meira en í Vesturbæ sunnan Hringbrautar (107).

Hver var ástæðan fyrir þessari öfugþróun?

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að skipulag borgarinnar hafi verið óvistvænt og dýrt á árunum eftir 1980. Það er jafnvel hægt að ganga enn lengra og halda því fram að það hafi verið illa og ófaglega unnið, svona þegar á heildina er litið.

++++++

Allt frá því um 1980 hafa verið færð sterk rök fyrir þéttingu byggðar í Reykjavík. Helstu rökin voru almannahagsmunir, bætt þjónusta, sparnaður á landi auk þess að stuðla að hagkvæmara almannasamgöngukerfa og borgarrekstri almennt. Þar var almenn sátt um þessi sjónarmið.  Þess vegna kemur það á óvart að land undir samgöngumannvirki hafa sífellt tekið meira landrýni með hverjum nýjum áfanga ef marka má skýrsluna.

Þessi þróun er sérkennileg vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að dreifð byggð er óhagkvæm í alla staði. Hvort sem horft er á stofnkostnað eða rekstrarkostnað frá sjónarmiðum borgarsjóðs og verulega óhagkvæmt semfélagslega.

Höfundar skipulags í austurhluta borgarinnar, verkkaupinn og ráðgjafar hans hafa alltaf verið meðvitaðir um alla ókosti dreifðrar byggðar. Það er líka skrítið að fólk sem skipuleggur borgarhverfi þar sem samgöngumannvirki taka sem nemur 322 fermetrum á íbúð sé á sama tíma að tala um að hrekja Reykjavíkurflugvöll úr borginni vegna þess að landið sér svo verðmætt!!

Nú hafa skipulagsyfirvöld tekið á þessu með hörku og ber að þakka þeim það. Hinsvegar læðist að manni sá grunur að fólk sjái ekki þann möguleika sem fellst í því að skapa þétta byggð í úthverfunum. Maður spyr sig af hverju ekki má byggja t.a.m. í Úlfarsárdal hverfi með þéttleika á borð við Vestubæ sunnan Hringbrautar sem algert hámark? Kannski má þannig finna hluta af því vandamáli sem við er að glíma, húsnæðisskortinum á höfuðborgarsvæðinu! Væri ekki hugsanlegt að leyfa þennslu sem er þó ekki stjórnlaus eins og áður þekktist.

Er ekki hugsanlegt að leyfa útþennsluna undir ströngu eftirliti? Byggja þétta byggð á jaðri núverandi byggðar. Þétta byggð sem býður uppá hátt þjónustustig og góðar vistvænar samgöngur!

+++++++

Hér að neðan er dæmigert „urban sprawl“ frá Bandaríjunum og neðst er að finna þéttingu byggðar í París á tímum Haussmann. Þessi byggð er norðasutan við Montmartre og átti að hýsa 10.000 verkamenn. Byggðin stendur enn þó hún hafi verið byggð fyrir verkafólk fyrir tæpum 150 árum.

scorpions-and-centaurs-suburbs-100-x

pariskowloon1

Vegna ummæla Finns Birgissonar hér í athugasemdarkerfinu bæti ég við þrem myndum af þéttustu byggð Parísar í dag og upplýsi að þetta þykir ekki eftirsóknarverð búseta á okkar dögum þó hún hafi verið talon ágæt á sínum tíma. Byggðinnu hefur verið líkt við „The Walled City“ í Hong Kong sem fjallað hefur verið um á þessum vef.

pariskowloon

pariscitadel6

pariscitadel5

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2016 - 22:20 - 16 ummæli

Hljómalindarreitur til fyrirmyndar

 fullsizerender66

Nú er um það bil að ljúka breytingum á svokölluðum Hljómalindarreit í Reykjavík.

Fyrir réttum fjórum árum var haldinn kynningarfundur á vegum borgarinnar vegna þess að deiliskipulagi á reitnum hafði verið breytt. Byggingarmagn hafði verið minnkað frá eldra skipulagi og áhersla lögð á að „minni“ staðarins yrði virt. Þara var að mér skilst átt við að nýjarbyggingar og þær sem gerðar skyldu upp yrðu í anda þess umhverfis sem fyrir var. Þarna var í raun verið að kalla eftir að andi staðarnins héldist.

Þessi skilaboð voru síðan árettuð í deiliskipulaginu sem unnið var af arkitektastofunni Studio Granda.

Það er sérstakega ánægjulegt að vera vitni að því að þessi mikilvægu gildi hafi nú fengið niðurstöðu sem er í samræmi við markmiðin.

Vonandi verður þetta viðmið sem farið verður eftir í framhaldinu. Það var lagt upp með þessi sömu viðmið í Kvosarskipulaginu frá 1986 en því var vikið til hliðar þegar deiliskipulagið við Austurbakka var unnið.

Hljómalindarreitur afmarkast af Laugavegi, Smiðjustíg, Hverfisgötu og Klapparstíg. Byggðin á reitnum var sundurleit, annars vegar timburhús byggð fyrir 1915 og hins vegar steinsteyptar randbyggingar byggðar 1920-1956. Reiturinn var þétt byggður á horni Laugavegs/Smiðjustígs og á horni Hverfisgötu/Klapparstígs, en á horni Laugavegs/Klapparstígs og Smiðjustígs/ Hverfisgötu voru lítil hús og jafnvel auðar lóðir.

Nú er þarna heilsteyptur reitur með fjölbreyttum húsum sem eiga djúpar rætur í því sem fyrir var og í anda Reykjavíkur. Það má halda því fram að þarna komi regionalisminn fram í skipulaginu og hönnun húsanna.

Tilgangur hins nýja deiliskipulags var að koma til móts við breyttar áherslur og hugmyndir borgarbúa um uppbyggingu viðkvæmra miðborgarsvæða. Markmiðið var að styrkja stöðu eldri húsa á reitnum og setja þau í lifandi samhengi við vel hannaðar nýbyggingar. Það hefur tekist.

Hér eiga allir sem komu að máliu hrós skilið; skipulagsyfirvöld, deiliskipulagshöfundar, húsahönnuðir og húsbyggjendur.

fullsizerender

 Hér er litið upp Hverfisgötu. Það er auðséð að þarna hafa menn leitað forma, lita og áferðar í það sem áður var þarna og maður skynjar  einkenni svæðisins.

 img_0504

 Hér er litið niður Hverfisgötu.

fullsizerender3

Hér er svipmynd af ófullgerðum innigarði sem er milli Hverfisgötu og Laugarvegar. Garðurinn sem er almannarými og öllum opinn lofar góðu.

7

Hér er aðalinngangur hótels markaður á áberandi í götumynd Smiðjustígs, en samt hógværan hátt.

 fullsizerender44

Aftur svipmynd af innigarðinum sem er opin öllum. Þarna verða verslanir og veitingahús á jarðhæð og íbúðir og hótelherbergi á efri hæðum.

528762_10151199073185042_2021205699_n

Hér er hluti af yfirlitsmynd sem gerð var af arkitektastofunni Studio Granda. Yfirlitsmyndin ásamt skýringarmyndum sem  fylgja í færslunni sýna skilning höfunda á staðnum og styrk hans og tækifærum semþarna eru. Slíkur skilningur er ekki öllum gefinn.

310605_10151199073250042_366260343_n

Hér eru gamlar myndir af þeim húsum sem nú hefur verið breytt og endurbætt í mynd þess sem fyrir var. Á myndinni efst til vinstri sést að húsið Laugavegur 19 hefur verið lyft um eina hæð.  Beint fyrir neðan er mynd af Hverfisötu 28 sem einnig var lyft og hefur nú verið málað rautt eins og sjá má á nýju myndunum sem teknar voru í dag.

377759_10151199101880042_645135990_nHér að ofan eru ásýndir Laugarvegs og Smiðjustígs. Miðbyggingun Smiðjustígur 4 er ný. En í forsögn skilmála fyrir allan reitinn var sagt að húsin sem þarna ættu að risa skyldu hafa „minni“ þess sem fyrir var. Þetta er í raun ákall skipulagsyfirvalda og deiliskipulagshöfunda um að menn skuli hafa hinn svokallaða „regionalisma“ í huga þegar hús eru byggð eða endurnýjuð á reitnum. Þetta ákvæði ætti að vera allstaðar þar sem deiliskipulag er í eldri hverfum. Það var t.a.m. ekki farið fram á þetta á svokölluðu Hafnbartorgi eins og allir vita sem fylgst hafa með því.

579554_10151199073350042_404798391_nHér að ofan eru skýringarmyndir sem fylgdu deiliskipulaginu. Engar slíkar fylgdu deiliskipulaginu við Austurbakka. En þar eru nú gríðarlega stórkallaleg stórhýsi að koma upp úr jörðinni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2016 - 07:20 - 9 ummæli

Innlit hjá Helmut Schmidt v.s. Donald Trump

 untitled

Maður fær stundum tækifæri til þess að kynnast heimilum manna sem eru eða hafa verið áberandi í umræðunni. Við þekkjum Gljúfrastein, Gunnarshús, heimili Jörn Utzon á Mallorca og heimili Hemmingway á Key West og fl.  Oftast finnur maður fyrir námd þeirra mikilmenna sem þar bjuggu um sig og sitt fólk.  Það geislar af þessum heimilum andrúm sem húsráðandinn skapaði.

Mig langar til þess að sýna nokkrar ljósmyndir af heimilum tveggja mikilvirkra stjórnmálamanna.

Annarsvegar er það  heimili Helmut Schmdt (1918-2015) kanslara Vesturþýskalands á árunum 1974-1982 og hinsvegar Donald Trump (1946-) nýkjörins forseta bandaríkjanna.

Heimili Schmidt einkennist af djúpum persónuleika þar sem er að finna mikið af bókum, myndlist sem hann hefur safnað að sér eftir sinni ósk og sínum persónulegum skoðunum. Maður skynjar festu og öryggi. Það er manneskjulegt yfirbragð yfir öllu. Hvert sem litið er. Þarna eru ýmsir smáhlutir sem húsráðendum hefur þótt vænt um og þarna er taflborð og lítill flygill. Þarna er líka allnokkuð safn af vínflöskum sýnist mér. Allt þetta segir manni mikið um manninn og eiginkonu hans Loka. Svo hafa hlutirnir vissa „patinu“, maður sér að hlutirnir hafa verið notaðir og bækurnar lesnar.

Þetta er heimili sem á sér djúpar rætur í menningu þess samfélags sem Shmidt tók þátt í að skapa og hann var sprottinn úr

Takið bara eftir vinnuherbergi hans þar sem bækur eru áberandi ásamt ýmsum smáhlutum sem voru honum kærir og segja vissa sögu um manninn og hans persónu.

++++

Neðst koma svo nokkrar myndir úr íbúð Donald Trupmp í The Trump Tower á Manhattan í New York. Í mínum augum eru íbúðin full af hlutum sem ættu frekar heima í franskri höll en í skýjakljúfi á Fifth Avenue. Húsgögnin og myndlistin virka eins og drasl í þessu umhverfi þó enginn vafi liggi á að allt er þetta frumgerð húsgagna og lista af bestu fáanlegu gerð. Af heimilinu má lesa heilmikið um mannin sem ég ætla ekki að fara að gera hér hér.

Takið eftir bókinni á sófaborðinu á neðstu myndinni. Henni hefur sennilega aldrei verið flett

 

untitled4

untitled1

untitled6

untitled7

helmut-und-loki-schmidt-stiftung-startseite-2-1200x503

9

untitled11

Að ofan er svo ljósmynd af Helmut Schmidt sem tekin var á hans efri árum. Kanslarinn var mikill reykingamaður og lifði til 97 ára aldurs. Að neðan koma svo nokkrar myndir af núverandi heimili verðandi forseta Bandaríkjanna á Fifth Avenue í New York.

gallery-1462813673-donald-trump-index

 

donald-melania-trump-manhattan-penthouse_11

gallery-1462816039-donald-trump-1

donald-melania-trump-manhattan-penthouse_3

2012-04-19-trump1

2d9411ad00000578-3303819-image-a-1_1446653257605

 trumphomes28n-6-web

Hér er linkur að síðu sem sýnir heimili kanslarans betur:

Startseite

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.11.2016 - 08:33 - 6 ummæli

Flott þakíbúð í New York

93reade_photobybrucedamonte_15

 

Efst á húsinu nr.93 við Reade St. í Tribeca hverfinu í New York er stór og einstaklega falleg þakíbúð, sem byggð var ofan á gamalt fallegt fimm hæða hús frá árinu 1857.

Þetta er eitt af elstu „cast iron facade“ húsum borgarinnar.

Tribeca hverfið sem er neðst á Manhattaneyju er álitið einn besti staðurinn að búa í New York. Þar eru glæpir í lágmarki, frábærir skólar, góðar almenningssamgöngur, góður aðgangur að útivistarsvæðum við The Waterfront og Battery Park og mikið af endurnýjuðum byggingum og íbúðum á svokölluðum „industrial lofts“

Arkitektarnir Amale Andraos, Dan Wood og Sam Dufaux lögðu áherslu á að ofanábyggingin væri nútímaleg án þess að hún truflaði hina sögulegu gömlu byggingu. Byggingin sem er um 150 ára var endurnýuð að fullu innandyra en engu breytt hvað útilt varðar.  

Þetta er í samræmi við það sem nú er lögð áhersla á í arkitektaskólunum eins og fram kom í síðasta pistli.

Ytra form þakíbúðarinnar tekur mið af því að hún sjáist alls ekki frá götunni eins og sjá má af sniðinu að neðan. Íbúðin sem er á 2,5 hæð er með opinni grunnmynd og mörgum fallegum vinklum. Íbuðin er bundin saman lóðrétt með opum og ofanljósum ásamt tengingu við stórar þaksvalir á miðhæðinni.

93reade_photobybrucedamonte_07

93reade_photobybrucedamonte_18

obsidianbuilding_photocbrucedamonte_05

Þessi mynd er úr einni af þrem íbúðum neðan við þakíbúðina sem er á þrem hæðum.

93reade_photobybrucedamonte_42

06_section-01

Undir byggingunni eru tveir kjallarar og þar fyrir ofan jarðhæð og þrjár hæðir með íbúðum. Efst kemur svi þakíbúðin á þrem hæðum.

reade-st_site-section-with-view_alt

Hér sést snið sem sýnir að tveggja hæða viðbyggingin sést ekki frá götunni.

 

93reade_photobybrucedamonte_14

93reade_photobybrucedamonte_43

 

93reade_photobybrucedamonte_11

Ótrúlega fallegt gamalt hús er látið vera óbreytt. Þetta er í samræmi við það sem nú er lögð áhersla á í arkitektaskólunum eins og fram kom í síðasta pistli.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.11.2016 - 14:33 - 4 ummæli

Boston Architectural Collage

img_0325aaaaa

Á ferðum mínum hef ég oft gert mér erindi á arkitektaskólana til þess að sjá og upplifa andrúmið og hvernig skólarnir haga kennslunni. Þeir eru afar misjafnir.  Mér fannst gaman að koma á AA í London fyrir nokkrum árum. Kannski venna þess að hann minnti mig á Akademíuna í Kaupmannahöfn þegar ég stundaði þar nám.

Ég hef heimsott nokkra skóla í Bandaríkjunum. Svo sem Berkley, UCLA, Harvard og  „BAC“ sem mér þótti afar áhugaverður en UCLA sístur.

Ég hef komið oftar en einu sinni á þessa skóla og BAC heimsótti ég í annað sinn í gær.

Ég kom þarna síðast fyrir 5-6 árum. Þá tók á móti mér Theodore C Landmark sem var þá rektor skólans. Sérlega sjarmerandi maður. Hann sýndi mér skólann og sagði frá honum í tveggja tíma samtali.  En BAC mun vera fjölmennasti „post gratuate“ skóli sinnar tegundar í Bandaríkjunum.  Það var upplifun að eiga spjall við Landmark. Hann mælti með því að ég keypti bok sem heitir „101 Things I Learned in Architecture School“, sem ég auðvitað gerð og sé ekki eftir því.

BAC hefur áhugaverða stefnu varðandi verndun arfleifðarinnar.

Í heimi sem horfir stöðugt fram á nýjra tæknilegar byltingar (technological breakthrough) nýtir BAC sér tækifærið og lítur til fortíðar og skoðar hvernig nýta má hana í byggingarlistinni og hvernig megi vernda fortíðina án þess að hún sé byrði, heldur tækifæri sem opnar nýjar og betri leiðir.  Skólinn býður upp á mörg námskeið (líka online) í hvernig sinna má gömlum byggingum og menningarlandslagi til betri framtíðar. Nemendur á BAC læra hvernig framúrskarandi hönnun fyrri tíma og handverkið eru helstu gæði samfélagsins sem skylda er að varðveita og rækta.

Í heimsókn minni á BAC í gær var ég svo heppinn að hitta dean yfir landslagsdeild skólans, Maríu Bellalta og átti við hana og nokkra nemendur örstutt uppbyggjandi spjall ásamt því að skoða áhugaverða sýningu á verkum nemenda,

Það sem vakti sérstaklega athygli var að í kennslustofunni var engin talva. Þetta var eins og að koma á Akademíuna í Kaupmannahöfn fyrir 40 áru, Nemendurnir sátu í hópum eða einir og drógu hugmyndir sínar fríhendis upp á gagnsæjan pappír. Lögðu hugmyndirnar undir nýtt blað og drógu nýja línu með áherslu á það sem var nothæft á fyrra blaðinu. Lituðu aðalatriðin fríhendis með þykkum penna og héldu svona stöðugt áfram. Rúlluðu svo afrakstrinum upp og héldu heimleiðis til áframhaldandi hugmyndavinnu. Þetta var dásamlegt að sjá og upplifa.

++++++

Hér að ofan er ljósmynd af skólanum sem hýstur er í minnst tveim byggingum. Annarri sennilega 100 ára gamalli og hinni sem er svona 40 ára og einkennist af brútalisma sjöunda átarugarins.

 

fullsizerenderaa

Engar tölvur var að sjá í vinnustofunum.

fullsizerender

Studentarnir Sarah Kresock og Sara Bourqu,e vinna að hugmyndum um „recycled landscape“ ef ég skildi rétt.

img_0326aaa

Í andyrum skólans á báðum byggingunum eru nemendasýningar alla daga allt árið.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.10.2016 - 15:53 - 10 ummæli

Herzog & de Meuron í Danmörku.

fb_416_ci_160520_006_aerial_herzog_de_meuron

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að sameina þrjú sjúkrahús á norður Sjálandi í Danmörku í eitt. Þetta voru sjúkrahúsin í Hilleröd, Helsingör og Frederikssund. Eftir faglega staðarvalsgreiningu var ákveðið að byggja hið nýja sjúkrahús á opnu svæði við Hilleröd.  Hugmyndinni um að byggja við eitthvert núverandi sjúkrahúsanna var hafnað.

Þetta á að vera 124.000 fermetra bygging sem mun þjóna 310.000 manns. Þarna munu vinna um 4000 starfsmenn sem gera munu um 500.000 aðgerðir á ári. Í sjúkrahúsinu verða 662 legupláss á 24 deildum ásamt bráðamóttöku. Þarna er gert ráð fyrir 2800 bifreiðastæðum ofanjarðar (skovparkering).

Húsið er teiknað á einni af bestu teiknistofum Evrópu, svissnesku arkitektunum Herzog & de Meuron, sem unnu verkefnið í tveggja þrepa samkeppni. Staðararkitektarnir eru Vilhelm Lauritsen arkitekter í Kaupmannahöfn.

Þarna er lögð áhersla á að  skapa umhverfi sem er til fyrirmyndar jafnt fyrir sjúklinga og aðstandendur sem og starfsfólk. Á heimasíðu verkefnisins stendur: „Det handler bl.a. om at bruge kunst, lys, lyd og natur til at afhospitalisere oplevelsen af at være på et hospital. Det mener vi, at der er fremtid i.“  Já „afspítalisera“ umhverfið, draga úr spítalatilfinningunni!

Byggingaframkvæmdir á staðnum munu hefjast  í ágúst 2017 og verða að fullu lokið í lok árs 2020. Sjá tímaáætlun er neðst í færslunni.

 

fb_416_ci_160520_001_approach_herzog_de_meuron

Ein aðkomanna frá bílastæðunum

fb_416_ci_160520_003_main%20lobby_herzog_de_meuron

Byggingin sem er á þrem hæðum er samtengd á jarðhæð þar sem mikið er um gróðursæla ljósgarða til útivistar.

fb_416_ci_160520_004_central%20garden_herzog_de_meuron

fb%20416_ci_160520_002_entrance%20exterior_herzog_de_meuron

img_1807

Á líkaninu að ofan  sést vel hvernig jarðhæðin tengir allar deildir spítalans saman. Svo er notast við ljósgarða sem hleypa dagsbirtu og sólarljósi inn á hinar ýmsu vistarverur hæðarinnar eins og sjá má..

bed_ward_870_300

 

highly_installed_area_870_300

Hér að neðan er svo mynd af því sjúkrahúsi sem stjórnvöld hér á landi vilja bjóða sjúku fólki og aðstandendu upp á og þeim sem eiga að annast sjúklingana. Ekki liggur fyrir hvenær öllum þessum framkvæmdum verður lokið nema hvað varðar meðferðarkjarnann og rannsóknarhúsið. Þeim á að vera lokið árið 2023. Ekki hef ég séð tímaáætlun um endurbyggingu þeirra 66 þúsund fermetra sem þarna standa frá gamalli tíð.

untitledkjhkjhiuy

Hér að neðan eru tímaáætlun sem fengin er af heimasíðu verkefnisins í Hilleröd eins og aðrar upplýsingar í þessari færslu.

Þar sést að hönnun og uppbygging eftir að samkeppninni var lokið tekur alls um 6 ár. Þar fara allmargir þættir samsíða fram. T.a.m fer „test og indköring“ fram á síðustu tveim árunum samsíða því að byggingaframkvæmdir eru í fullum gangi. Þá fer útboðsferlið og hönnunin fram á sama tíma að verulegu marki.

timeline_0902_2015-page-001

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2016 - 12:40 - 17 ummæli

Landspítalinn – Ný staðarvalsgreining er nauðsynleg.

untitledkjhkjhiuy

Hver skyldi vera ástæðan fyrir því að forsvarsmenn Nýs Landspítala ohf og þeirra sem hafa unnið að málinu umnanfarin 16 ár hafni nýrri faglegri, opinni og óháðri staðarvalsgreiningu?

Er líklegt að embættismenn og stjórnmálamenn sem unnið hafa að uppbyggingu við Hringbraut í áratugi vilji nýha staðarvalsgreiningu eða fari að segja það sína skoðun um að byggja eigi á öðrum stað?

Í sjö ár hefur breiður hópur fólks óskað þess að ný staðarvalsgreining verði gerð. Þessi ósk er komin fram og studd með þéttum rökum og vítækum stuðningi alls almennings.

Skoðanakannanir sýna að mikill, meirihluti lækna, hjúkrunarfólks, sjúkraflutningamanna vilja nýjan spítala á betri stað og hafna Hringbrautarúrræðinu. Það sama er uppi á teningnum hjá miklum meirihluta alls almennings!

Embættismenn og stjórnmálamenn hafa öll þessi ár borið við að það sé of seint að standa faglega að undirbúningnum hvað þetta varðar og hafnað því að ný staðarvalsgreining verði gerð!

Af hverju?

Ég tel mig vita svarið.

Landspþversn

Langsnið

Efst er mynd af Landspítalalóðinni fullbyggðri og hér rétt að ofan sniðmyndir í landið. Þetta er yfirgengilega fyrirferðamikið. Margir telja að þessi áætlun stangist á við Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð sem undirrituð var af tveim ráðherrum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Illuga Gunnarssyni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.10.2016 - 00:03 - 4 ummæli

Pælingar um fagurgala í skipulagi og verklag stjórnvalda

Miðbær-1963lett

Hér kemur annar hluti greinar Hjörleifs Stefánssonar arkitekts um fagurgala í borgarskipulaginu og verklag stjórnvalda. Hér er beitt gagnrýni fagmanns á ferðinni um verklag þegar kemur að skipulagi borgarinnar og endurskoðun fyrri skipulagsákvarðanna. Hjörleifur er lausnamiðaður og skapandi í skrifum sínum.

+++++

Þegar stjórnendur borgarinnar eru spurðir hvers vegna sífellt sé gengið á söguleg gildi miðborgarinnar með alltof stórum byggingum er svarið oftast á þá leið að nýtingarhlutfall lóðanna hafi verið ákveðið fyrir löngu og ekki sé hægt að skerða það nema greiða eigendunum stórfé í skaðabætur. „Þetta er fyrri borgarstjórn að kenna” er sem sagt svarið!!!

Þeir kjósa að líta svo á að tímbundin skipulagsákvörðun um heimild til að auka nýtingu lóðar sé eign sem ekki verði aftur tekin nema gegn endurgjaldi.

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Borgaryfirvöldum ber lagaleg skylda til að endurskoða skipulagsákvarðanir eftir því sem þörf krefur, meðal annars þegar gildismat samfélagsins tekur breytingum. Þetta gildir jafnt um nýtingarhlutfall lóða sem og aðra þætti skipulagsins.

Skipulagsákvæði um að byggja megi meira á tiltekinni lóð er vísbending um að verðmæti húsa á lóðinni geti vaxið að uppfylltum margvíslegum skilyrðum. Til að svo verði þarf eigandinn að hafa getu og vilja til að ráðast í framkvæmdir og hann þarf að láta af því verða.  Þegar hann hefur með lögmætum hætti aukið við húsakost lóðar sinnar hefur verðgildi eignar hans vaxið.

Ef hann ræðst ekki í framkvæmdir eykst ekki verðgildi eignarinnar.

Það er því vægast sagt undarlegt að Reykjavíkurborg kjósi að líta svo á að henni sé ekki heimilt að skerða nýtingarhlutfall lóða nema gegn endurgjaldi.

Um þetta atriði hafa menn rætt í að minnsta kosti 30 ár. Engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur fer með völd í borgarstjórn, alltaf er sagt að eignarrétturinn sé varinn í stjórnarskrá okkar og alltaf er látið sem skipulagsákvæði um nýtingarhlutfall lóða skapi eignarrétt á því sem lóðareigandi getur haft væntingar um að gerist þegar hann hefur aukið við byggingar á lóð sinni. Það er hreint út sagt með ólíkindum að svona málflutningur viðgangist og ber vott um að samfélag okkar sé gegnsýrt af hagsmunagæslu fyrir hönd braskara. Ég veit ekki hvaða önnur orð sé hægt að hafa um þetta.[2]

Hugsum okkur dæmi:

Borgarhverfi er endurskipulagt og gert ráð fyrir verslunarmiðstöð og almenningsvagnastöð. Húseignir og lóðir í nágrenninu hækka í verði vegna væntinga um þróun hverfisins sem skipulagið vekur.

Hækkandi orkuverð, umhverfismál og breytt gildismat í víðum skilning leiðir síðar til þess að almenningssamgöngur eru endurmetnar og skipulagáætlunum breytt. Almenningsvagnastöðin verður byggð á öðrum stað en áður var ætlað. Væntingar manna um verðgildi lóðanna bregðast. Markaðsverð þeirra lækkar vegna brostinna vona en lóðir í námd við nýja staðinn hækka í verði vegna nýrra væntinga.

Ég býst við flestum þætti fráleitt að samfélaginu bæri að greiða lóðaeiendum bætur fyrir brostnar vonir í tilviki sem þessu. Ótal atriði hafa áhrif á vonir og væntingar manna og jafnvel olíukreppa í Miðausturlöndum getur leitt til breytinga á lóðaverði í New York og Reykjavík.

Skipulagsáætlanir eru nefnilega alls ekki jafngildi loforða. Þær eru hins vegar lögformleg, samfélagsleg yfirlýsing um hvert skuli stefnt í uppbyggingu og þróun borgarinnar hverju sinni miðað við gefnar forsendur. Breytist grundvallarforsendur ber að breyta skipulaginu út frá hagsmunum heildarinnar.

Þegar sett voru ný skipulagslög árið 2012 gafst tækifæri til þess að taka af allan vafa í málum af þessum toga. Hægt hefði verið að kveða skýrt á um að skaðabótaréttur myndist ekki þótt skipulagsákvæðum sem lóðahafar byggja væntingar á sé breytt vegna almannahagsmuna.

Umhverfisráðherra sem lagði fram lagafrumvarpið var gerð grein fyrir mikilvægi þess að það yrði gert en kaus að gera það ekki.

Ráðherrann hafði áður setið í skipulagsnefnd Reykjavíkur og hefði átt að skilja hversu mikilvægt væri að nota ný skipulagslög til þess að leiðrétta þennan hræðilega “misskilning” sem notaður hefur verið áratugum saman til þess að réttlæta ákvarðanir sem heimila einstaklingum og fyrirtækjum að byggja þannig að það veldur skemmdum á miðbænum.

Hann kaus að gera það ekki.

En það dugir ekki að láta deigan síga.

Við megum ekki láta þennan vesældóm viðgangast lengur. Nú skulum við vona að þeir sem skilja nauðsyn nýrrar stjórnarskrár og eru reiðubúnir til þess að berjast fyrir henni, taki í taumana og sjái til þess að næsta borgarstjórn verji sameign okkar í miðbænum fyrir ágirndinni.

++++++

Efst í færslunni er mynd af hugmyndum ungra efnilegra arkitekta um  uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur frá árinu 1963.  Þessi mynd er 20 árum yngri en hugmyndir Einars Sveinssonar húsameistara Reykjavíkur frá 1943 sem sýnd var með fyrri færslu Hjörleifs. Þessar  myndir og fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurhöfn segja okkur að við þurfum að halda vöku okkar og veita stjórnmálamönnunum aðhald. Hér er slóð að pistli sem fjallar um þetta:

 

 

Reykjavík 1963 – framtíðarhugmyndir

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.10.2016 - 13:00 - 7 ummæli

„Fagurgali sem fagurfræði“

Untitled

 

Hér birtist pistill eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt hjá Gullinsniði. Hjörleifur hefur verið virkur í umræðunni um arkitektúr og skipulag um áratugaskeið. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um efnið og þar á meðal bók um byggingarsöguleg einkenni Reykjavíkur. Bókin heitir „Andi Reykjavíkur“ og kom út árið 2008 og ætti að vera kennsluefni í öllum framhaldsskólum landsins.

Þetta er fyrri pistill af tveim.

++++++

Fagurgali sem fagurfræði

Tilgangslaust er að tala um Reykjavík sem fallega eða ljóta borg.

Heppilegri nálgun er að íhuga hvaða þættir það eru í byggðinni sem snerta tilfinningar okkar á jákvæðan og neikvæðan hátt.[1]

Sá þáttur í borgarumhverfinu sem hefur einna mest áhrif á okkur er söguleg vídd byggðarinnar. Því greinilegri sem ummerki liðinna tíma eru í byggingum, götum og torgum, þeim mun meira aðdráttarafl hefur borgin.

Dýrategundin maður laðast að gamalli byggð.

Hrörnun og forgengileiki eru líka hluti af þessu afli sem dregur manninn til sín.

Lengst af hafa arkitektar og skipulagsfræðingar nálgast viðfangsefni sín á grundvelli hugmynda sem studdar eru fagurfræðilegum vangaveltum án þess að skeyta mikið um söguleg gildi. Skipulagsfræðingurinn vill að borgin mótist eftir einni fagurfræðilegri hugmynd, einu gildismati. Þetta gerðist árið 1927 þegar stefnt var að því að borgin yrði endurbyggð og aftur 1963 þegar nýtt Aðalskipulag  stefndi að endursköpun borgarinnar á grundvelli tæknihyggju og umferðarskipulags.  Fagurfræði af þeim toga sem hér um ræðir virðist vera gagnslaus og í versta falli hættulegur fagurgali. Hún einblínir á mjög takmarkaðan þátt í umhverfissköpuninni.

Ekki var nóg með að fagurfræði módernismans liti fram hjá sögulegu gildi borgarumhverfis  heldur lýsti hún beinlínis stríði á hendur fyrri stíltegundum.

Æ síðan hefur arkitektastéttin haldið á lofti þeirri kennisetningu að nýjar byggingar eigi ekki að bera keim af eldri húsum. Mikilvægast sé að fylgja tíðarandanum sem reyndar er mótaður af stjörnuarkitektum heimsins hverju sinni og hinir minni spámenn fylgja hver eftir sinni getu. Frumleiki í sköpun bygginga var settur á stall. Mikilsvert þótti að hver bygging væri einstök og vekti athygli – lítið eða ekkert var skeytt um að hún félli að umhverfi sínu og styrkti einkenni þess.

Ný bygging var sögð falleg þótt hún ylli skaða á eldri byggð sem er þrungin merkingu og aðdráttarafli.

Við ættum að fara varlega með fegurðarhugtakið. Átta okkur á því að fegurð í merkingunni fullkomleiki út frá gildismati augnabliksins er ekki eftirsóknarverð.  Sögulegt umhverfi með mannlegum byggingum og smágerðum fyllir okkur miklu meiri vellíðan, ánægju og gleði en nýbyggt hverfi með einsleitum byggingum með alþjóðlegum blæ þótt þær fylgi tíðarandanum út í æsar.

Óhætt er að segja að Reykjavík sé sá staður sem mestu máli skiptir fyrir flesta íslendinga.

Þar er að finna vitnisburð um fyrstu byggð í landinu, lítið verslunarpláss á 18. öldinni, stjórnsýslusetur á 19. öldinni, útgerðabæ og höfuðborg á 20. öldinni og ferðamannastað á 21. öldinni.

Miðbærinn sem heild er sameign þjóðarinnar, mikilvægasti og dýrmætasti staður landsins. Hann hefur táknrænt og tilfinningalegt gildi fyrir hvert og eitt okkar.

Á löngu tímaskeiði þegar kennisetningar arkitekta og skipulagsfræðinga um alþjóðlega byggingarlist voru allsráðandi og almenningur og borgaryfirvöld uggðu ekki að mikilvægi þess að gæta að sögulegum gildum byggðarinnar, breyttist yfirbragð miðbæjarins mikið og söguleg ummerki  ýmist hurfu eða slævðust meira en góðu hófi gegnir.

Smám saman hefur þetta breyst og núorðið er almenningur og borgaryfirvöld meðvituð um mikilvægi sögulegrar byggðar, að umhverfið eigi að vera margbreytileg , að forðast eigi að láta tískusveiflur samtímans ná tökum á miðborginni. En samt sem áður er stöðugt gengið á söguleg gildi miðbæjarins.

Hér komum við að merkilegu íhugunarefni: Ef það er satt sem hér hefur verið fullyrt að það sé í mannlegu eðli að söguleg vídd umhverfis skapi vellíðan og hamingju þá skipti sköpum að skilja hvaða öfl eru að verki sem leitast við að eyðileggja slík umhverfisgæði.

Skoðum nokkur dæmi frá ýmsum tímum:

Skuggahverfið í Reykjavík byggðist að mestu leyti undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20 af sjómönnum og verkamönnum. Til að byrja með tómthús úr torfi og grjóti, seinna lítil timburhús og steinbæir úr tilhöggnu grjóti. Í byrjun 20. aldar hófst þarna atvinnuuppbygging, trésmiðjan Völundur, Kveldúlfsskálarnir, Sláturfélag Suðurlands o.fl.

Þegar halla tók á seinni hluta aldarinnar höfðu fyrirtækin ekki lengur þörf fyrir þetta  húsnæði og gamla Skuggahverfisbyggðin þótti ekki búa yfir neinu sem vert væri að varðveita.

Athafnamenn sáu að þarna væri hægt að reisa íbúðir fyrir þá sem kynnu að meta nálægðina við miðbæinn og að auki fengju íbúðirnar útsýni yfir sundin.

Borgarstjórn féllst á þetta og heimilaði niðurrif merkilegra atvinnuhúsa. Í staðinn risu háhýsi sem skyggðu á gömlu Skuggahverfishúsin og eyðulögðu það eðlilega jafnvægi milli byggðar og landslags sem fyrir var.

Enda þótt mat manna á gömlu Skuggahverfisbyggðinni hafi breyst síðan og nú sé talið brýnt að varðveita sem mest af henni, þá er enn verið að byggja háhýsi við Skúlagötu sem eyðileggja fyrir gömlu byggðinni fyrir ofan. Þessi nýju hús kunna að vera vel hönnuð og jafnvel falleg í þeim þrönga skilningi sem ég hafnaði í upphafi máls míns. En þau vekja manni slæmar tilfinningar. Þau eru alþjóðleg í útliti og víða um heim rífa menn nú hús af þessum toga þar sem þau skemma gamla og viðkvæma byggð.

Það afl sem hér er að verki heitir ágirnd.

Nýlegra dæmi má taka af Landsímahúsinu við Austurvöll. Þegar hér er komið sögu blandast varla nokkrum manni lengur hugur um að miðbæjarbyggðin sé mikilvægasti hluti borgarinnar. Eigendur Landsímahússins eru vafalítið sama sinnis. En þeir telja vænlegast að breyta húsinu í hótel og vilja hækka húsið og byggja við það með þeim hætti að það rýrir gildi miðbæjarins og borgarstjórn sem á að gæta hagsmuna heildarinnar fellst á áform þeirra.

Til þess að fá fleiri gesti en ella rýra þeir sögulegt gildi miðbæjarins sem dregur að gestina.

Aftur er það ágirnd sem knýr áfram eyðilegginguna.

Enn eitt dæmið og það nýlegasta er að eiga sér stað á þessum misserum. Nú er svo komið að borgaryfirvöld reka skipulagsstefnu í miðbænum sem í aðalatriðum snýst um að varðveita, bæta við og fylla í skörð. Það er þó engin tilviljun að þetta gerist einmitt þegar flestar fjárfestingar í fasteignum í miðbænum eiga rætur sínar í ferðamannaþjónustu en gamli bærinn laðar að ferðamennina. Hagsmunir fjárfestanna kallar á nýja skipulagsstefnu.

Miklu máli skiptir núorðið að lóðir séu ekki sameinaðar, heldur skuli varðveita smágert byggðamynstur sem birtist í lóðafjölda og smæð þeirra. Lóðafjöldi endurspeglar eigendafjölda og fjölbreytileika.

En þetta hentar ekki alls kostar þeim sem reka hótelin. Stórt hótel með fjölda herbergja er hagstæðari rekstrareining en lítil. Fjölbreytileiki miðbæjarins dregur að hótelgestina en smæð rekstrareininga í samræmi við húsastærðirnar skilar ekki hámarks hagnaði.

Þess vegna knýja þeir fram heimild til þess að hótelin þeirra teygi sig yfir nokkrar lóðir. Húsin endurspegla gamlan fjölbreytileika frá þeim tíma þegar hver lóð var sérstök eining en eitt og sama hótelið teygir sig um mörg samliggjandi hús.

Hvað varðar útlit húsanna viðhelst fjölbreytileikinn að miklu leyti en þegar kemur að innihaldinu ríkir fábreytnin.

Borgarstjórn hefði getað séð til þess að smæðin og fjölbreytnin í starfsemi húsanna hefði haldist í hendur við margbreytilegt útlit þeirra. Miðbærinn hefði verið enn áhugaverðari fyrir vikið.

Enn einu sinni er það ágirnd sem er hvatinn.

Þegar baráttan stendur milli fegurðar hins smáa og hagkvæmni hins stóra þá heggur sá er hlífa skyldi.

Þeirri skelfilegu áráttu að vilja eyða því sem manni þykir vænst um hefur Oscar Wild lýst vel í ljóðinu The Ballad of Reading Goal þar sem segir í snilldarþýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

 

Því allir myrða yndi sitt,

þess engin dyljist sál:

Vopn eins er napurt augnaráð

og annars blíðumál;

til verksins heigull velur koss,

en vaskur maður stál!

+++++++

[1] Sjá Andi Reykjavíkur. Hjörleifur Stefánsson, Forlagið 2008.

[2] Sjá: Kjarninn 20. júlí 2015. Athugasemdir við ummæli formanns skipulagsráðs í  blaðaviðtali 18. júlí 2015. Hjörleifur Stefánsson

+++++++

Efst í færslunni er mynd af miðbæjarskipulagi frá árinu 1943 gert á teiknistofu Húsameistara Reykjavíkur sem var stjórnað af Einari Sveinssyni arkitekt.

Margar tillögur um umbreytingu miðborgarinnar þóttu framsýnar og góðar á sínum tíma en þær hafa ekki elst vel. Á myndinn sést að hugmyndin var að rífa öll húsin í miðborginni.  Það standa aðeins örfá hús eftir, Alþingishúsið og Dómkirkjan og sennilega Natan & Olsen og Hótel Bor ásamt fl.. Þá er gert ráð fyrir breiðgötu í gegnum Grjótaþorpið frá Túngötu að Tryggvagötu og jafnvel niður að höfn. Þessi hugmyn var aftur tekin upp á aðalskipulaginu 1962-84.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is