Fimmtudagur 24.7.2014 - 10:37 - 5 ummæli

Matvöruverslanir aftur inn í íbúðahverfin

slides-myndir0821lett

 

Í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur er stefnt að vistvænni borg með minni bifreiðaumferð, betri þjónustu í íbúðahverfunum og meira mannlífi milli húsanna og á götunum.

Þetta eru allt góð markmið sem flestir ættu að geta sæst um.

Til þess að ná þessum markmiðum eru margar leiðir. Ein sú miklvægasta er að flytja matvöruverlanir aftur inn í íbúðahverfin.

Efst í færslunni er mynd af verslununum við Dunhaga tekin úr efstu hæð í símamannablokkinni við Dunhaga

Sennilega er myndin tekin 1960-62. Göturnar enn ómalbikaðar og engar eru gangstéttirnar. Öll sjónvarpsloftnetin vísa til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.  Í verslunarkjarnanum við Dunhaga var mjólkurbúð, hannyrðaverslunin PERLON, fiskbúð (Dóra fisksala), matvöruverslun KRON og að mig minnir skósmiður. Handan Dunhagans voru 2-3 búðir; bókabúð og hárgreiðslustofa sem er þarna ennþá og ein til viðbótar.

Skammt frá, við Fálkagötu var Stebbabúð og svo Ragnarsbúð á horni Suðurgötu og Fálkagötu, Bakaríið var og er um miðja Fálkagötu og Árnabúð á horninu á móti. Svo var ekki langt í verslunarkjarnann við Hjarðarhaga (Hagabúð) og Melabúðina sem er enn á sínum stað og fjölda annarra verslana í hverfinu.

Eins og höfundar upphaflegs skipulags gerðu ráð fyrir var allt við hendina, bæði dagvöruverslanir og skólar. Þarna var auðvelt að búa án þess að hafa einkabíl til umráða. Mikið líf var á götunum og allt í göngufæri.

En í tímans rás misstu menn einhvern vegin tök á skipulagi verslunar í hverfinu og dagvöruverslanirnar lokuðu hver af annarri eftir að verslunarstarfssemin var flutt að mestu út á hafnarsvæðin við Granda. En eins og allir vita er matvöruverslu ekki hafnsækin starfssemi.

Þegar ég segi að menn misstu tök á skipulaginu á ég við að þeir sem véluðu um skipulagsmál á þeim tíma sem heimilað var að reka matvörubúðir og „nærþjónustu“ á hafnar- og iðnaðarsvæðum hafa sennilega ekki skilið samhengi hluttanna eða verið truflaðir af tíðarandanum. Ekki skilið að allt þarf að skipuleggja og allt er háð skipulagi og allar skipulagsákvarðanir hafa afleiðingar. Þetta á við skipulag gatna, lóða og skipulag verslunar. Þessi breyting á verslunarháttum og flutningu matvöruverslunnar út úr íbúðahverfunum varð ekki til vegna óska þeirra sem versluðu.

Það voru stóru verslunarkeðjurnar sem sáu þarna viðskiptatækifæri og útbjuggu matvöruverslanir í skemmum á hafnarsvæðinu við Granda með velþóknun skipulagsyfirvalda. Varan varð ódýrari og viðskiptavinirnir töldu hagstætt að versla þar þó að um langan veg væri að fara.

Vissulega var vöruverðið lægra en kostnaður einstaklinganna við að nágast vöruna stórjókst og kostnaður sveitarfélagsins vegna gatnagerðar og viðhalds gatna varð meir en að óbreyttu. Mengun varð meiri og slysahætta jókst.

Grundvöllur verlanareksturs inni í íbúðahverfunum brast og fullkomið verslunarhúsnæði stóð tómt  í íbúðahverfunum þar sem neytandinn bjó. Þessu húsnæði var oft breytt í skrifstofur eða afspyrnulélegt íbúðahúsnæði.

Með því að leyfa verslanir utan íbúðahverfa í skemmum á hafnar- og iðnaðrvæðum misstu menn tök á skipulaginu. Sáu sennilega afleiðngarnar ekki fyrir . Upphaflegt þaulhugsað skipulag t.a.m. á Melum og Högum brast. Það virtist sem forkólfar skipulagsmála hafi farið að skipuleggja fyrir og með hagsmuni stórmarkaðanna í stað þess að skipuleggja fyrir fólkið og neytandann og bæta hverfið sem var fyrir. Þetta gerðist þrátt fyrir að samkvæmt tölfræðinni var umframframboð á verslunarhúsnæði í borginni.

Nú er í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010-2030  gerð tilraun til þess að snúa þessu við. Góðu heilli. Styrkja hverfisheildir og færa þjónustuna nær neytandanum og auka þar með gæði og mannlíf hverfanna.  Hverfaskipulag sem unnið var að í vetur er stór liður í þessu ferli.

Þótt ótrúlegt kunni að virðast heyri ég á kollegum mínum að þeir trúi ekki á þessa þróun. Þeir trúa ekki á meginmarkmið aðalskipulagsins.

Þeir halda að ekki sé hægt að snúa þessu óheillaferli við.  Hafa gefist umm eða skilja þetta ekki. Þarna er jafnvel um að ræða arkitekta sem eru stórtækir í ráðgjöf í skipulagsmálum borgarinnar.

Auðvitað kanna að vera að menn vilji ekki snúa þessu við og vilja halda áfram að aka 2-6 km til þess að sækja sér mjólk út í kaffið. Vera lausir við að mæta nágrönnum sínum á gangstéttinni o.s.frv.

En vilji maður snúa þessu við þá er það kannski ekki auðvelt en vel hægt.

Ég nefni eitt atriði sem tengist umræðunni um að leyfa sölu léttvíns í matvörubúðum. Ef krafan yrði að léttvín yrði ekki selt í verslunum yfir einhverri lágmarksstærð, segjum 200-300 m2, og alls ekki í stórmörkuðum utan íbúðahverfa mun hagur kaupmannsins á horninu vænkast. Hann mun fá nýtt tækifæri.

En það mikilvægasta er að átta sig á að skipulag hefur áhrif og afleiðingar og það þarf að, stjórna skipulaginu með almannahagsmuni í huga. Sennilega sáu þeir sem um þetta verslunarskipulag véluðu á sínum tíma ekki fyrir afleiðingarnar af því að flytja matvöruverslun út úr íbúðahverfunum og þess vegna má segja að þeir misstu tökin á matvöruverlunarskipulaginu í borginni.

+++

Sjá einni umfjöllun og umræður um efnið á eftirfarandi slóð:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

Og um léttvínssölu í matvöruverslunum hér:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2014/03/22/lettvin-i-matvoruverslanir-til-kaupmannsins-a-horninu/

 

untitledbonus

Mikið framboð er af matvöruverlunum á hafnarsvæðunum sem dró úr samkeppnishæfni kaupmannsins á horninu. Þessi skipulagsákvörðun jók bifreiðaumferð og ferðakostnað heimilanna auk þess em mannlíf á götunum dróst saman og hverfiskjarnar og grenndarsamkennd íbúanna minnkaði.

photoccc

Nú eru skrifstofur í hverfiskjarnanum við Dunhaga þar sem áður var fjöldi verlana í rúmgóðu sérhönnuðu húsnæði

photodddd

Handan hverfiskjarnans sérhannaða við Dunhaga voru 2-3 verslanir sem hefur verið breytt í íbúðarhúsnæði. Hárgreiðslustofan er þarna enn.

photoaa

Á horni Suðurgötu og Fálkagötu var Ragnarsbúð sem var ágæt matvöruverslun hins frjálsa kaupmanns. Kaupmaðurinn bjó á efri hæð hússins.

 

photobalari

Um miðja Fálkagötu er nú Björnsbakarí og á horninu á móti (sjá mynd að neðan) var Árnabúð sem lagðist af fyrir allmörgum árum. Þar er nú íbúðarhúsnæði.

photobbb

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.7.2014 - 20:49 - 13 ummæli

Það á ekki að rífa neitt – Heldur byggja við

PLH-studio_02

Því hefur oft verið haldið fram að það eigi ekki að rífa nein hús…aldrei. Menn segja að það eigi að byggja við þau og aðlaga þau breyttum þörfum líðandi stundar. Viðhalda hinni sögulegu vídd í borgarlandslaginu. Ekki láta húsin víkja skilyrðislaust.

Ég er farinn að hallast að þessu sjónarmiði. Öll hús eru börn síns tíma og segja sína sögu. Þau hafa flest eitthvað sér til ágætis.

Maður rífur ekki borgir, maður byggir við þær og bætir.

Hjálmar Sveinssson formaður uhverfis- og skipulagsráðs hefur áttað sig á þessu og segir  í Fréttablaðinu í dag þar sem  hann er að fjalla um Skeifuna og uppbyggingu þar í kjölfar brunans: „Ég tel mikilvægt að þetta verði ekki eins og gert hefur verið víða í borginni, að allt sé rifið sem fyrir er“. Þetta er vel mælt hjá formanninum.

Mörg okkar munum eftir góðum húsum í Skuggahverfinu sem voru látin víkja fyrir nýju skipulagi. Það voru Kveldúlfsskemmurnar, Völundarhúsini og byggingar Sláturfélags Suðurlands. Allt vönduð hús sem mikil eftir sjá er af. Við munum líka eftir Söginni og byggingum Ræsis við Borgartún, Skúlatún og Skúlagötu. Það er mikil eftirsjá af þessum húsum.

+++++++

Í tengslum við þetta sjónarmið birti ég hér til skýringar nokkrar myndir af húsi sem hlaut viðurkenningu fyrir að vera eitt besta dæmið um endurbyggingu gamals húss í Danmörku árið 2013.

Þetta er gömul verksmiðja á Österbró í Kaupmannahöfn þar sem landverð er mjög hátt.

Grunnstoðir hússins hafa fengið að halda sér þannig að þær nýtast nýju hlutverki fullkomlega.  Þarna er gamalt hús „moderniserað“ þannig að gamla byggingin heldur anda sínum, sögu og allri gerð. Það er samt hvergi hallað á kröfur nút´mans og nútíma arkitektúr.

Eins og áður sagði fá grunnstoðir hússins að halda sér. Jafnvel hlaupakötturinn í lofti vinnslusalarins hefur verið gerður upp.

Rýmin hafa haldið sínum verksmiðjukarakter með  6,5 metra lofthæð. Á völdum stöðum er skotið inn hæð þar sem er rými fyrir 40 vinnustöðvar.

Húsnæðið sem áður hýsti verksmiðju fyrir rafmagnstæki. Lauritz Knudsenns Fabrikker er nú höfuðstöð fyrir eina af mörgum framsæknum arkitektastofum í Kaupmannahöfn, PLH arkitekter AS.

http://www.plh.dk/

Vakin er athygli á að stiginn er iðnaðarstigi í anda hússins. Blöndun af litakennileitum á veggjum, hlílegu eikarparketti og súbergrafik skapar jafnvægi mili þess gamla og hráa og hins nýja.

+++++++

Það eru áratugir síðan fólk áttaði sig á hinni sögulegu vídd byggingarlistarinnar og fóru að horfa á eldri bygginga sem verðmæti í þeim löndum sem við höfum horft til. Ég nefni svæðið umhverfis High Line Park í NYsem margoft hefur verið fjallað unm á þessum vef. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Hjálmar Sveinsson og fulltrúar í skipulasráði skulu vera meðvitaðir um þetta tækifæri eins og fram kom í Fréttablaðinu í dag.

Það á að halda niðurrifum í lágmarki almennt séð. Horfa frekar til endurbóta og viðbygginga þega um er að ræða gamlar byggingar eða eldri borgarhluta.

Sjá einnig sambæileg hús víðsvegar að:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/09/17/andrik-skrifstofurymi/

Og umfjöllun um High Line Park og Meatpacking district í NY:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/11/17/high-line-park-i-new-york/

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

 

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

PLH-studio_04

 

PLH-studio_01-514x343

 

PLH-studio_06

PLH-studio_08

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.7.2014 - 13:22 - 11 ummæli

Vistvænt tjaldstæði í Þakgili

photoraf

 

Það vakti athygli mína þegar ég gisti í Þakgili ofan við Vík í Mýrdal um daginn að stæðið var að mestu sjálfbært hvað varðaði ferskvatn og raforku. Rafmagn fyrir snyrtiaðstöðuna var fengið frá lítilli rafsstöð sem knúin var með rennsli neysluvatns snyrtingarinnar. (sjá mynd að ofan)

Einfaldara gat það ekki verið.

Rafmagn fyrir landvörðinn og annað kom frá lítilli rafsröð sem komið var fyrir í einu gilinu í grenndinni. (sjá mynd að neðan).

Það verður ekki annað sagt en að þetta er til mikillar fyrirmyndar og staðfestir að litlar lausnir leysa oft fleiri mál en þær stóru.  Hér er sennilega vistvænasta tjaldstæði landsins og þó víðar sé leitað.

Svæðið umhverfis Þakgil er sennilega eitt skemmtilegasta göngusvæði landsins með stórbrotinni náttúru og fjallasýn hvert sem litið er.

Sjá:

http://www.thakgil.is/

 

photoraf22

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.6.2014 - 07:45 - 22 ummæli

Arkitektar – Samfélagsleg ábyrgð

Samfélagsleg ábyrgð

Því hefur verið haldið fram að arkitektinn sé milliliður milli húsbyggjandans og samfélagsins.

Arkitektinn gætir hagsmuna húsbyggjandans og tryggir að hann fái gott og starfhæft hús sem þjónar þörfum hans og ofbýður ekki pyngjunni.

Arkitektinn ber líka ábyrgð gagnvart samfélaginu og þarf að tryggja að nýbyggingin þjóni borgarrýminu eða götunni. Hann þarf að tryggja að húsið bæti umhverfið og gefi því ný tækifæri. Hann þarf að gæta þess að nýbyggingin ofbjóði ekki umhverfinu og staðarandanum heldur styrki umhverfið og kosti þess. Nýbyggingin þarf að færa umhverfinu, borgarrýminu, einhver ný gæði samfélaginu til góða.

Það má halda því fram að arkitektinn þjóni tveim herrum hvað þetta varðar. Húsbyggjandanum og samfélaginu. Sem betur fer fara hagsmunir húsbyggjandans og samfélagsins oftast saman.

En ekki alltaf. Og þá reynir á arkitektinn.

Þetta er ekki alltaf einfalt eða auðvelt. Enda ekki alltaf sem óskir verkkaupans og samfélagsins fari saman. Svo geta skoðanir samfélagsis verið misjafnar eftir einstaklingum og viðhorfum þeirra. Tíðarandinn kemur líka  inn í dæmið, hann er sennilega versti óvinur byggingalistarinnar enda er hann síbreytilegur og óútreiknanlegur.

Verst er þegar arkitektinn er blankur eða háður verkkaupanum og  þarf nauðugur að láta óskir samfélagsins víkja fyrir skammtímaþörfum verkkaupans. Verkkaupinn færir honum brauðið sem samfélagið gerir ekki með jafn beinum hætti. Örsjaldan gerist það að arkitektinn og húsbyggjandinn er sami aðilinn. Það má helst ekki gerast þegar um er að ræða byggingar á viðkvæmum stað.

Sem betur fer  nýtur arkitektinn og samfélagið  stuðnings frá skipulagsyfirvöldum sem á að þjóna samfélaginu fyrst og fremst. En það geta komið upp átök milli húsbyggjandans og skipulagsyfirvalda sem eiga að gæta hagsmuna heildarinnar, samfélagsins. Þegar þannig stendur á kemur til kasta arkitektsins að finn sáttaleið.

Stundum er húsbyggjandanum (lóðarhafanum) falið að sjá um deiliskipulagið. Þá ræður hann arkitekt til þess að vinna þá vinnu og í framhaldinu að hanna húsin. Í slíkum tilfellum verður oft rof milli hagsmuna samfélagsins og lóðarhafans. Lóðarhafinn vill byggja sem mest og stærst, oft á kostnað umhverfisins. Arkitektinn reynir að mæta kröfum og þörfum láðarhafans.

Við þekkjum dæmi um þetta í Reykjavík. Ég nefni Skuggahverfið þar sem framkvæmdaaðilinn, fjárfestirinn, breytti áður samþykktu deiliskipulagi sér til hagsbóta. Sama á við um Höfðatorg þar sem skipulagið var unnið af arkitektum lóðarhafans og svo byggingarnar í framhaldinu. Þriðja dæmið er deiliskipulag Landspítalans sem var á höndum lóðarhafa. Borgin var umsagnaraðili í þessum tilfellum en leiddi ekki vinnuna. Deiliskipulagið og húsahönnunin var unnin samtímis af sömu aðilum á reikning lóðarhafa.

Hagsmunir samfélagsins virtust víkjandi.

Svona verklag hefur stundum verið kallað „verktakaskipulag“ vegna þess að það þjónar fyrst og fremst lóðarhafanum. Það sem er sameiginlegt með þessum „verktakaskipulögum“ er að þau eru útblásin með miklu hærra nýtingarhlutfalli en nálæg byggð og síðast en ekki síst er alls engin sátt um þau.

Á svokölluðum Bílanaustsreit var svipað verklag viðhaft en með örlítið öðrum hætti. Þar voru sömu arkitektar sem deiliskipulögðu fyrir borgina (samfélagið) og hönnuðu húsin fyrir byggingaraðilann (verktakann). Þarna voru arkitektarnir fyrst að vinna fyrir samfélagið og svo fyrir verktakana. Mörkin voru óljós. Það ber að forðast að deiliskipulagshöfundar sem vinna fyrir skipulagsyfirvöld hanni líka húsin fyrir lóðarhafa. Þeir eiga hinsvegar að vera umsagnaraðilar þegar húsin eru teiknuð inn í skipulagið og gæta hagsmuna skipulagsins.

Tilraunir skipulagsyfirvalda og áhugasamra borgara til þess að hafa áhrif á deiliskipulagið og húsahönnun hefur gengið illa þegar svona er unnið og það er almennt nokkur óánægja með athugasemdarferlið hjá borgurunum. Hvorki borgin né almenningur fá við þetta ráðið þó öflug rök séu fyrir því að gera mætti betur. Borgina skortir oftast kjark eða vilja til þess að taka tillit til athugasemda og/eða ráðlegginga borgaranna.

Skipulagsyfirvöld og arkitektar eiga að forðast þetta verklag í ljósi reynslunnar. Sami ráðgjafinn á ekki að skipulaggja og hanna húsin í sitt skipulag nema í algerum undantekningartilfellum. Arkitektar og skipulagsyfirvöld þurfa að hafa samfélagsleg ábyrgð að leiðarljósi og gæta hagsmuna heildarinnar í sínum störfum. Sýna samfélagslega ábyrgð og taka tillit til athugasemda.

Í siðareglum arkitekta er beinlínis ákvæði sem segir að arkitekt skuli ætíð hafa í huga og virða hagsmuni þeirra, sem nota munu og njóta verka hans og að arkitekt skuli taka tillit til áhrifa verka sinna á mannlegt samfélag, náttúru og umhverfi í víðtækasta skilningi. Þetta sjónarmið er áréttað í menningarstefu hins opinbera og í AR2010-2030.

+++++

Efst er mynd af umdeildri byggingu við Mýrargötu. Þarna hönnuðu arkitektarnir hús inn í samþykkt deiliskipulag sem þeir komu ekki að. Þeim var vandi á höndum. Deiliskipulagið var og er umdeilt. Af einhverjum ástæðum réð engin við málið og gátu ekki, þrátt fyrir vilja, mætt gagnrýninni og stýrt skipulaginu eða húsahönnuninni  til betri vegar.

Nýtt aðalskipulag AR2010-2030 og  menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð á að fyrirbyggja niðurstöðu af þessu tagi.

Að neðan koma myndir af þeim dæmum sem nefnd eru í pistlinum.

 

 

Í Skuggahverfinu var skilmálum deiliskipulags breytt eða ekki farið eftir þeim. Í staðin fyrir þaulhugsað deiliskipulag sem sátt var um komu hærri, breiðari, frekari og svartari hús.

Við Höfðatorg var haft það verklag að deiliskipulag var í höndum lóðarhafa. Slíkt hefur verið kallað „verktakaskipulag“ þar sem hagsmunir grenndarinnar víkur oft fyrir hagsmunum lóðarhafans.

Kalla má nýtt deiliskipulag við Landspítala „verktakaskipulag“ vegna þess að það er unnið á vegum lóðarhafa og á hans kostnað. Hagsmunir hans eru settir ofar hagsmunum heildarinnar að því er virðist. Því var og er haldið fram að húsin og deiliskipulagið sé í þágu samfélagsins. Það má að vissu marki segja að rétt sé að sjálf húsin og starfssemin þar sé í þágu samfélagsins, en deilt er um hvort deiliskipulagið sé í sátt við samfélagið.

Byggingarnar á svokölluðum Bílanaustsreit eru hannaðar af sömu aðilum og deiliskipulögðu. Þetta er að því leiti svipað og gerðist í Höfðatúni, við Landspítalann og í Skuggahverfinu. Sameiginlegt með þessum deiliskipulögum er að nýtingin er meiri en víðast annarsstaðar  og byggingamassarnir ekki í samræmi við það sem fyrir er í næsta nágrenni. Í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er sérstaklega fjallað um að aðlaga skuli byggð að því sem fyrir er. Þetta er líka eitt af aðalákvæðum í opinberri menningarstefnu um mannvirkjagerð frá 2007. AR2010-2030 og siðareglur Arkitektafélagsins ganga í svipaða átt.

 

Deiliskipulag við Austurhöfn tekur ekki nægjanleg mið af nálægðri byggð í Kvosinni. Borgin vann af mikilli alúð að undirbúningi að samkeppninni um svæðið umhverfis Ingólfstorg sem lauk árið 2012. Þar var markvisst unnið að því að halda í staðaranda og sérkenni miðborgarinnar. Áherslan þar var í samræmi við skipulag Kvosarinnar frá árinu 1986 þar sem hæðir húsa voru stallaðar frá tveimur upp í sex hæðir og götuhliðar reitaðar í minni einingar.

Þess vegna kemur það á óvart að öll sú vinna og umræða sem fram hefur farið undanfarna áratugi hafi ekki skilað sér í nýju deiliskipulagi við Austurhöfn. Hlutföllin þar eru algjörlega á skjön við það sem menn höfðu áður sæst á þarna í næsta nágrenni. Við endurskoðun deiliskipulagsins voru aðalbreytingarnar þær að gatnamót Tryggvagötu og Kalkofnsvegar voru lagfærð og húsin lækkuð aðeins.

Þó skipulagið sé eins og það er þá hafa arkitektar sjálfra húsanna tækifæri til þess að hanna hús sem eru í anda þeirrar byggðar sem næst stendur og gætu lagt áherslu á og tekið mið af í Kvosinni, með styttri húslengdum, stölluðum húsahæðum, kannski frá þrem upp í sjö og auðvitað með fjölbreytilegri húsagerðum. Gert tilraun til þess að vera svoldið reykvísk!

Arkitektar eru þegar byrjaðir að hanna hús inn í deiliskipulagið við Austurhöfn. Myndirnar tvær að ofan og sú hér að neðan sýna hvernig arkitektarnir sem eru að teikna húsin sjá þau fyrir sér.  Það er öllum ljóst sem þekkja til skipulags og hönnunarmála að deiliskipulagið í sjálfusér ákveður sjaldnast þá byggingalist sem verður ofaná. Það er undir arkitektunum komið að gefa byggingunum form, útlit og karakter sem hentar staðnum þar sem á að byggja.

Við Austurhöfn er það ekki skipulagið sem þvingar fram þá niðurstöðu sem sjá má af myndum arkitektanna heldur gefur skipulagið arktektunum tækifæri innan viss ramma að laða fram hús sem henta staðnum. Það reynir á hæfileika arkitektanna til þess að greina staðinn og gefa byggingunum viðeigandi form og útlit, sem hentar staðnum og anda hans.

Þar reynir á samfélagslega ábyrgð fagmannsins.

Hafa þarf í huga að þetta er ekki miðborg einhvers banka eða hótelkeðju. Þetta er miðborg allra reykvíkinga og miðborg höfuðborgar allra landsmanna og sú miðborg sem ferðamenn sækja.

 

Streetview-Austurhofn-R12

Hér að neðan er samsett mynd af nýlegum húsum í 12 löndum um allan heim. Þarna er engan mun að finna. Allt er eins. Engin sérkenni og enginn staðarandi. Allt hundleiðinlegt og „professionelt“

Viljum við að allur heimurinn líti einhvernvegin svona út?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.6.2014 - 12:22 - 5 ummæli

María Dýrfjörð og arkitektúr

 

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Hin frábæra síða, Dezeen.com, fjallar í dag um hönnun Maríu Rutar Dýrfjörð.  Þarna er um að ræða textilhönnun sem er innblásin af byggingalist Guðjóns Samúelssonar arkitekts.

María sækir í munstur sem er að finna í Þjóðleikhúsinu, Akureyrarkirkju og Laugarneskirkju.

Orðrétt er eftirfarandi haft eftir Maríu Rut Dýrfjörð á Dezeen.com:

„Guðjón’s buildings are in precise style, stately and formal,“ said Dýrfjörð. „I connect them with patternmaking and my own passion for order and organisation. Shapes that are mirrored and repeated, lines that stretch on, brake and connect. All this forms a beautiful whole without being predictable.“

Þessi nálgun Maríu styður þá kenningu að arkitektúr sé móðir listanna.

Síðuna má nálgast hér:

http://www.dezeen.com/2014/06/02/maria-rut-dyrfjord-dark-world-icelandic-textile-prints/

og heimasíðu Maríu Rutar má nálgast í tilvitnaða textanum úr Dezeen.com

 

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Laugarneskirkja

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

 Akureyrarkirkja

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

Þjóðleikhúsið

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

María Rut Dýrfjörð Dark World Icelandic prints

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.5.2014 - 12:59 - 36 ummæli

Keflavíkurflugvöllur, ekki valkostur?

 

KEF-EUROPE

Ólafur Þórðarsson arkitekt sem býr og starfar  í New York hefur tjáð sig á vef sínum um staðsetningu flugvalla. Í tengslum við það útbjó hann fyrir allöngu kort sem sýnir staðsetningu flugvalla miðað við miðborgir. Hann kemst að því að fjarlægðin úr miðbæjarklasa höfuðborgarinnar til Leifsstöðvar er einfaldlega með því mesta sem gerist í heiminum.

Á vefsíðu sinni segir Ólafur Þórðarsson eftirfarandi varðandi teikninguna að ofan sem sýnir fjarlægð frá miðborg að völdum flugvöllum í Evrópu:

„Í dag setti ég saman, mönnum til gagns og fróðleiks, þetta kort sem sýnir fjarlægðir á flugvelli nokkurra helstu borga austurstrandar Norður Ameríku. Þetta er sem sagt úrtak frá Flórída til Kanada. Tek fram að það er ekki á einhverjar afstæðar miðjur í úthverfum, heldur fjarlægð frá flugvelli á sjálfa borgarkjarnana.

Lengst reynist á flugvöll Moskvu, eða um 42 km. Völlurinn fyrir Osló og Stokkhólm, Mílanó og svo Keflavík eru þarna á bilinu 37-39km. Miðgildið úrtaksins sennilega nærri 10 eða 11 km. Ekki ósvipað  myndinni af austurströnd (Bandaríkjanna sjá að neðan) frá Miami til Kanada. Í þessu úrtaki reynast vegalengdirnar í loftlínu vera:

 • Moskva: 42, 29, 28  (Lest)
 • Mílanó: 39, 7, 7  (Lest)
 • Keflavík: 38
 • Osló: 37  (Lest)
 • Stokkhólmur: 37, 7.3  (Lest)
 • Árósar: 30
 • Munchen: 28 (Lest)
 • Heathrow: 22 (Lest)
 • París deGaulle: 22 (Lest)
 • Aþena: 18 (Lest)
 • Gautaborg: 17
 • Berlín: 17, 8, 4 (Lest)
 • Helsinki: 15.5 (Lest)
 • Róm: 13, 7
 • Istanbúl: 13
 • Madríd: 12
 • Amsterdam: 11
 • Glasgow: 11
 • Brussel: 10
 • Frankfurt: 10
 • Prag: 10
 • Hamborg: 9, 8
 • Zurich: 9
 • Dublin: 8
 • Feneyjar: 8
 • Varsjá: 7
 • Mallorka: 7
 • Kaupmannahöfn: 6.4 (Lest)
 • Bern: 5
 • Vilnius: 5
 • Riga: 4
 • Lissabon: 4
 • Napoli: 3

Margar borgir hafa fleiri en einn flugvöll. Ekki eru teknir sérstaklega fyrir smærri flugvellir sem þjóna smærri vélum, eða fjölmargar smærri borgir með 100,000-500,000 íbúa.

Annað ber að athuga sem er að oft eru lestarsamgöngur góðar og tengjast flugvöllum beint og þá aðgengi gott í þær bæði innan borga og innan viðkomandi lands. Lestir af flugvöllum fara ekki einungis á einn endastað, heldur tengjast almenningssamgöngukerfi þá öðrum lestum í borginni. Kaupmannahöfn er einstaklega góð í þessu sambandi, þar sem bæði er skammt á Kastrup (6.5km loftlína) og lestarferðin þægileg. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif góðar lestarsamgöngur hafa haft á staðsetningu flugvalla almennt séð, eða gerð nýrra valla lengra í burtu. Evrópa stendur Bandaríkjunum framar á sviði almenningssamgangna með lestum, nema á takmörkuðum svæðum. Það er mikill munur á að geta ferðast á flugvöll með lest og ekki hafa allir aðgang að einkabíl. Reykjavík er líkari Bandaríkjunum að þessu leyti, áhersla skipulagsins hefur beinst fyrst og fremst að þörfum ökumanna einkabifreiða.

Miðað við hitt úrtakið vekur athygli að í þessu eru ekki flugvellir alveg eins nálægt miðpunkti borgarinnar. og Boston, Washington og Reykjavíkurflugvöllur. Þó eru ansi margir sem eru í svipaðri fjarlægð og Álftanes, eða þetta 3-7km“.

Á vefsíðu sinni þar sem myndin að neðan sem sýnir fjarlægðir flugvalla frá nokkrum miðborgum á vesturströnd norður Ameríku  segir Ólafur:

„Setti svo þessar upplýsingar inn á kort sem við Íslendingar þekkjum vel og eigum þá vonandi betra með að átta okkur á þessum fjarlægðum. Hér er miðjan viðmiðunin í Reykjavík; Lækjartorg -og svo fjarlægð hinna erlendu flugvalla út frá því, svona eins og ef Lækjartorg væri miðja hinna borganna. Við þessa skoðun sést betur að nokkrir vellir (Boston og Washington DC) eru svona rétt örlítið lengra frá borgarkjörnum og Reykjavíkurflugvöllur er frá Lækjartorgi. Þarna munar einhverjum hundruðum metra og á þessum völlum er lent stórum þotum. Hagkvæmni er í samgöngukerfum þessara borga og sjaldheyrt að menn ræði að fjarlægja mikilvæg samgöngumannvirki til að byggja á þeim hús. Ég verð lítið var við slíka umræðu.

Mestu vegalengd í þessu úrtaki er á aðal flugvöll New York borgar: JFK, sem er í eitthvað um 18-19km loftlínu frá fjármálahverfi Manhattan þar sem ég hef búið síðan á öldinni sem leið. Aksturinn frá Keflavík að Lækjartorgi, til samanburðar, er svona nokkurn veginn 50km (um 38km loftlína). Það má taka fram að það hefur ekki talist vera hagkvæmt að setja sérstaka járnbrautarlest frá JFK yfir á Manhattan þrátt fyrir að flugvöllurinn afgreiði stóra farþegaþotu á mínútu fresti og að langt yfir 100 ára reynsla sé í lagningu járnbrauta í borginni.

Munurinn á þessum leiðum öllum er að umferðin á þeim er mun þyngri en á höfuðborgarsvæðinu. Ekið er í gegnum þétt borgarhverfi milljónaborga og engin þessara leiða er um 30 km langa auðn nema Keflavíkurvegur. Keflavíkurvöllur, eins og menn vita, var byggður af Bandaríkjamönnum sem herflugvöllur í seinni heimsstyrjöld og augljóslega ekki staðsettur með hagkvæmnisviðmið til að þjóna Reykjavík.

Við New York borg eru flugvellir sem eru álíka langt í burtu og Keflavíkurvöllur er frá Reykjavík, en þeir teljast vera of langt í burtu til að vera til gagns. Einn þeirra er í um 70 km fjarlægð (MacArthur Airport) og stjórnaði ég þar hönnun á $65 milljóna flugstöðvarverkefni fyrir rúmum áratug. Sá völlur telst vera töluvert langt utan við radíus New York borgar hvað flugvöll varðar.

Með von um skynsamlegar ákvarðanir í þessu máli“

 

Þessi athugun Ólafs Þórðarsonar arkitekts gefur tilefni til umræðu. Ég sakna nokkuð þáttöku arkitekta í fjölmiðlum um þetta mikilvæga mál.  Það er aðeins einn sem hefur tjáð sig um Reykjavíkurflugvöll og staðsetningu hans svo tekið sé eftir og það er Örn Sigurðsson arkitekt. Honum ber að þakka fyrir það framlag.

Af hverju leiða arkitektar og skipulagsfræðingar þetta hjá sér? Það getur ekki verið að þeir hafi ekki á því skoðun vegna þess að málið hefur verið á dagskrá áratugum saman.

 

 

KEFvsEASTCOAST

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.5.2014 - 18:00 - 24 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur, sameign þjóðarinnar

 

 

 

Hér skrifar Sigurður Thoroddsen arkitekt og einn reyndasti skipulagsmaður  stéttar sinnar á Íslandi um Reykjavíkurflugvöll.

Hann fjallar hér um lagarammann,  fasteignir og starfsemi á Reykjavíkurflugvelli.  Hann segir að þó borgarstjórn hafi samþykkt að flugvöllurinn skuli hverfa úr Vatnsmýrinni sé vinnsla vegna  lagaumhverfisins sem varðar eignahald og þ.h. ekki hafin.

*********

Að undanförnu hefur nokkuð borið á því að menn telji að tiltekin lönd og svæði, sem eru sameign þjóðarinnar, séu   sveitarfélögum, félagasamtökum eða jafnvel einstaklingum til frjálsrar ráðstöfunar og afnota.

Dæmi af þessum meiði, eru hugmyndir Borgarstjórnar Reykjavíkur um að yfirtaka land Reykjavíkurflugvallar, svæði sem er fullbyggt og í notkun, og bjóða það öðrum til afnota fyrir íbúðarbyggð og stofnanir. Með öðrum orðum, að taka eignir af einum og afhenda öðrum. Til að fyrrgreindar hugmyndir séu framkvæmanlegar þarf að fjarlægja öll mannvirki á flugvallarsvæðinu, þannig að nýir aðilar geti nýtt svæðið.

Hérlendis eru engin dæmi þess að þegar byggt svæði af framangreindri stærðargráðu,  hafi verið tekið með valdboði, enda vart framkvæmalegt vegna kostnaðar.    Landið er að hluta í eigu ríkisins og hvorki liggur fyrir að ríkið vilji láta landið af hendi ásamt þeim mannvirkjum sem þar eru, s.s. flugbrautum og ýmsum byggingum, né heldur þau fyrirtæki og einstaklingar sem eiga fasteignir á flugvellinum.    Þannig að samþykki Alþingis þarf að liggja fyrir vegna lands og mannvirkja í eigu ríkisins og   eignarnám á mannvirkjum sem eru í eigu fyrirtækja og einstaklinga, Hvorugt er í vinnslu, en engu að síður er atlagan að Reykjavíkurflugvelli hafin.

Lagaramminn

Samkvæmt 72. grein Stjórnarskrár Íslands frá 1944 m.s.br. ,   kemur fram að eignarrétturinn er friðhelgur og gildir einu hvort um sé að ræða eignir ríkisins, sveitarfélaga, félagasamtaka eða einstaklinga. Ennfremur eru í 40. gr. stjórnarskrárinnar ákvæði þess efnis, að sala og/eða afnot fasteignaeigna/landsvæða í eigu ríkisins er aðeins heimil að fyrir liggi samþykki Alþingis.

Í 50.gr. skipskipulagslaga nr. 123/ 2010 eru ákvæði um eignarnám, þar sem fram kemur að sveitarstjórnir geti að uppfylltum tilteknum skilyrðum tekið eignarnámi landsvæði, fasteignir eða hluta fasteignar innan sveitarfélags ef nauðsyn ber til vegna áætlaðrar þróunar sveitarfélags samkvæmt samþykktu/staðfestu  aðalskipulagi.

Samkvæmt 51. gr.skipulagslaga nr. 13/2010 um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna og 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram  efnislega að ef hluti fasteignar er tekin eignarnámi, og að það orsakar að sá hluti fasteignar sem eftir er,   verði  vart nýtanlegur, geti eignarnámsþoli krafist þess að eignarnámið taki til eignarinnar allrar,  og að fullt verð sé greitt fyrir. Miðað við þessi lagaákvæði, orkar það tvímælis að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í bútum eða sneiðum,  þannig að hann verði smám saman ónothæfur.

Framangreind ákvæði eiga hinsvegar ekki við, þegar um er að ræða lönd og/eða fasteignir í eigu ríkisins, en í slíkum tilfellum þarf samþykki Alþingis, sbr. 40. grein Stjórnarskrárinnar, en hún er rétthærri en almenn lög. Eða með öðrum orðum, sveitarfélag getur ekki tekið lönd og/eða fasteignir ríkisins eignarnámi.

Fasteignir og starfsemi á Reykjavíkurflugvelli

Heildarstærð flugvallarsvæðisins er 128 hektarar og þar af á ríkið 62 ha og borgin 66 ha. Á svæðinu eru ný endurbyggðar flugbrautir, flugvélaakstursbrautir, flughlöð, akstursvegir, bílastæði og infrastruktur af ýmsum toga. Ennfremur eru þar hús og fasteignir sem tengjast flugstarfseminni, en þar er   engin íbúðarbyggð. Fyrirtækin sem eiga fasteignirnar  eru margvísleg og flest í fullum rekstri, þannig að þurfi þau að víkja, verður um tímabundna eða endanlega rekstrarstöðvun að ræða, sem er bótaskylt.

Á svæðinu er ýmis starfsemi eins og: Flugstjórnarmiðstöð, flugstöð, flugturn, flugskóli, slökkvistöð, Landhelgisgæsla, sjúkraflug, þyrluflug, vélaverkstæði, flugafgreiðslur, hótel, flugskýli, skrifstofur, aðstaða fyrir einkaflugmenn, geymsluhús, eldsneytisgeymslur, sandgeymsla, ratsjár- og tækjahús,

Niðurstaða

Verði ákvörðun tekin um að leggja flugvöllinn niður, tekur við áralangt flókið og kostnaðarsamt ferli eignarnáms, niðurrifs mannvirkja og fasteigna og mjög   hægfara uppbygging. Ástæðan er sú að lóðir á svæðinu verða með þeim dýrustu í landinu, þannig að það verður einungis á færi efnameiri aðila að byggja þar s.s. fjármálastofnana og stærri fyrirtækja. Í þessu sambandi er vert að benda á að dýpi niður á fast er óvíða meira en á þessu svæði.  Venjulegt fólk mun ekki hafa efni á að reisa eða kaupa þar íbúðarhús, þannig að húsnæðisvandinn sem við er að etja, verður ekki leystur þar. Hætt er við að svæðið verði um langt árabil í uppbyggingu, með þeim óþægindum sem fylgja óbyggðum svæðum í og við þéttbýli.

Reykjavík maí 2014 STH

****

Efst í færslunni er mynd þar sem búið er að merkja flugvelli valinna borga í Evrópu inn á kort af Reykjavík. Vegalengd vallanna frá borgarmiðju ræður staðsetningu á myndinni. Myndin er fengin af Facebook og er gerð af Reyni Frey Péturssyni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.5.2014 - 07:25 - 14 ummæli

Hverfisskipulag er löngu tímabært

28.02.2014-BH4 Hugmyndaskissa

Þann 1. apríl s.l. skiluðu 8 teymi arkitekta, verkfræðinga og landslagsarkitekta gögnum vegna hverfisskipulags fyrir nánast alla Reykjavíkurborg. Þetta er rýni, greiningar og lýsingar á núverandi ástandi borgarhlutanna auk mats á umhverfisþáttum.

Þetta voru gögn sem innihéldu greiningu á jafn mörgum borgarhlutum. Greiningarnar náðu til félagslegra þátta, landfræðilegra þátta, veðurfarslegara þátta, umferðalegra þátta auk auðvitað margvíslegra skipulagslegra þátta og margra fleiri atriða.

Allt var þetta skoðað og greint m.t.t. styrkleika, veikleika, tækifæra og ógnana.

Mín stofa var hluti af einu teymanna sem fjallaði um Borgarhluta 04, Laugardal. En í þeim borgarhluta eru Tún, Teigar Kleppsholt, Heimar og Vogar ásamt Skeifunni. Í teyminu voru einnig Arkitektastofa Dennis og Hjördísar ehf ásamt landslagsarkitektunum hjá Landformi ehf.

Á grundvelli þessarrar miklu vinnu og eftir samskipti við hverfisráð borgarhlutans og formlega fundi með íbúum, samtöl og óformleg samskipti  var gerð stutt lýsing á framtíðarsýn borgarhlutans þar sem áhersla var lögð á þau sjónarmið sem fram koma í aðalskipulaginu, AR-2010-2030. Þetta eru ýmis sjónarmið sem varða hagkvæmt, vistvænt og heilbrigt umhverfi með líflegu götulífi og margt fleira.

Þarna voru helstu viðfangsefni reifuð og skoðuð framtíðarsýn um skipulag borgarhlutans, hverfa, hverfiseininga og þróunarsvæða til langrar framtíðar.

Hér var ekki um skipulag að ræða heldur greininu á núverandi ástandi og lýsingu á framtíðarsýn og hugarflug sem yrði vegvísir í fyrirhuguðu framhaldi skipulagsvinnunnar. Settar voru fram hugmyndir sem höfundar töldu rétt að skoða þegar sjálf skipulagsvinnan færi af stað í næsta áfanga. Það skal áréttað að þetta var ekki hugsað sem skipulag heldur skipulagslýsing eða hugmyndabanki þar sem stefnt var að vistvænu góðu umhverfi íbúanna og heildarhagsmuna borgarinnar og þeirra sem þar dvelja og starfa.

Það sem einkennt hefur skipulagsmál borgarinnar undanfarin 20 ár eða svo hefur verið e.k. bútasaumur þar sem fjallað var um einstaka reiti án þess að til heildarinnar sé litið og hagsmunir heildarinnar settir í öndvegi. Það verklag hefur stundum skilað af sér óhagkvæmu, sundurlausu skipulagi þar sem  hallað hefur á strafræna og vistvæna harmoníu með líflegu mannlífi og fólki líður vel.

Þetta metnaðarfulla  hverfaskipulag sem hér er til umfjöllunnar er í heildinni til fyrirmyndar og það vekur furðu að ekki hafi verið lagt í þessa vegferð fyrir löngu. Verklagið hlýtur að henta minni sveitarfélögum sem mörg hver eiga í vandræðum með að finna sjálft sig og sinn einstaka staðaranda.

Í mínum kunningjahóp meðal arkitekta hefur þetta verið lengi til umræðu. Ég man eftir að á árunum í kringum 1980 var unnið með hverfi innan Hringbrautar á svipaðan hátt. Það var á höndum Teiknistofunnar Garðastræti 17.

Ekki veit ég hvernig sú vinna endaði. Sennilega sofnaði verkefnið eða var svæft.

Ef hugsað er til baka þá tel ég líklegt borgin væri öðruvísi og betri í dag ef hverfisskipulag hefði legið fyrir.

Svokölluð verktakaskipulög hefðu orðið með öðrum hætt en raun ber vitni ef fyrir hefði legið hverfisskipulag fyrir alla borgarhluta. Ég nefni breytingu á deiliskipulagi í Skuggahverfi, skipulagið við Höfðatorg og jafnvel Borgartún. Þá tel ég líklegt að nýlegt deiliskipulag á Landspítalalóð væri öðruvísi ef fyrir hefði legið hverfisskipulag þar sem hagsmunir heildarinnar eru varðir.

Umræðan um þetta merkilega hverfisskipulag átta borgarhluta í Reykjavik hefur vakið athygli mína. Mér virðist hún á villigötum. Þáttakendur í umræðunni virðast beina umræðunni að smáatriðum vinnunnar en sjá ekki stóra samhengið sem er í samræmi við samþykkt og staðfest aðalskipulag AR2010-2030 og almenn sátt er um.

Ég nefni dæmi af bílskúrum við Hjarðarhaga sem hafa mikið verið í umræðunni. Þessir bílskúrar eru auðvitað aukaatriði og skipta litlu í heildarmyndinni. Það ber frekar að líta á þá sem tækifæri eða umræðutillögu.

Höfundar hverfisskipulags Vesturbæjar lögðu fram hugmynd um aðra og meiri nýtingu  á lóðum fjölbylishúsa við Hjarðarhaga. Þessi hugmynd gæti þróast í að verða heimild sem húsfélög fjölbýlishúsanna gætu nýtt sér í framtíðinni ef þeim sýndist svo. Þarna er ekki verið að taka neitt frá þeim sem þar eiga hagsmuni, heldur bent á hugmynd sem gæti fært þeim heimild og  tækifæri ef hún fer í frekari vinnslu í sjálfri skipulagsvinnunni sem framundan er og yrði að skipulagi.

Þessi einstaki þáttur, sem í mínum huga er aukaatriði, hefur fangað athygli fjölmiðla meðan stór atriði eins og samgöngur, vistvæn byggð og myndun hverfiskjarna í hverfinu er órædd og nær ekki athygli fólks.

Það er í raun synd að þessi hverfisskipulagsvinna hafi ekki farið af stað fyrir áratugum. Ef hverfaskipulag hefði legið fyrir á níunda áratugnum þá er ólíklegt að matvöruverslun hefði verið flutt út úr íbúðahverfunum út á hafnar- og iðnaðarsvæði utan íbúðabyggðarinnar. Sú ákvörðun er reyndar með öllu óskiljanleg fólki sem lætur sig skipulagsmál varða. Enda stuðlar hún að aukinni bifreiðaumferð, meiri mengun, auknum ferðakostnað fyrir íbúa og m.fl.

****

Nú liggur fyrir lokaútgáfa lýsingar og mats á umhverfisþáttum og drög að frumtillögu 8 borgarhluta í Reykjavík. Í framhaldinu er stefnt að því að gera skipulagstillögu að borgarhlutunum sem byggð verður á  þeirri greiningu og lýsingum sem lagðar voru fram 1. apríl.

Sú vinna verður væntanlega unnin í víðtæku samráði við borgarbúa og á að ljúka eftir eitt ár, ef áætlanir ganga eftir.

****

Efst er kort sem sýnir framtíðarhugmyndir um borgarhluta 04, Laugardal. Ef rýnt er í kortið þá sést að þar er lögð áhersla á að binda borgarhlutann saman um græn svæði og sterkan samgönguás. Góð tenging á grænum svæðum verður um allan borgarhlutann og þaðan niður í miðbæ og upp í Heiðmörk og svo aftur vestur Fossvogsdal að Skerjafirði út á Seltjarnarnes.  Í framtíðarsýninni er lagt til að á samgnguásnum liðist rafknúnir hljóðlausir almenningsvagnar með stuttu millibili um grænt svæði alla leið frá Vesturbugt að Keldum. Þetta opnar gríðarleg tækifæri. Þar má líka sjá hvenig hverfismiðstöðvar með matar- og dagvöruverslun eru fléttaðar við helstu samgönguæðar  innan borgarhlutans. (ef tvísmellt er á kortið þá stækkar það)

Að neðan koma dæmi um  tvö temakort af tugum sem finna má í hverfisskipulaginu og skýringarmynd vegna skilmála og heimilda. Loks er kort úr aðalskipulagi borgarinnar þar sem Borgarhluti 04, Laugardalur er til umfjöllunnar.

Hér er slóð að færslu um svipað efni:

http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

 

Untitled.jpgVerndun

Temakort sem sýnir hús með verndargidi í Borgarhluta 04, Laugardal

Untitled.jpgStaða skipulagaStaða núverandi kilmála og heimilda í Vogum Álfheimum, Skeifu og við Súðarvog í Borgarhluta 04, Laugardal. Á þróunarsvæðum við Súðarvog og í Skeifu er gert ráð fyrir um 1000 nýjum íbúðum auk viðbótum í atvinnu og þjónustuhúsnæði.

 

Untitled.jpgGreining á skilmálum

Dæmi um greiningu á núverandi skilmálum og heimildum. Stefnt er að því að samræma skipulagsskilmála þannig að húseigendum reynist auðveldara að gera samræmdar breytingar á húsum sínum vað varðar viðbyggingar, sólstofur, bílskúra og svalir.

 

Untitled.jpgfornmynjar

Staðsetning fornleifa og minja í Borgarhluta 04, Laugardal.

Untitled.jpgadalskip

Kort úr aðalskipulagi Reykjavíkur sem fjallar um Borgarhluta 04, Lagardal.

Flokkar: Skipulag

Fimmtudagur 1.5.2014 - 08:53 - 8 ummæli

Fjöldi arkitekta miðað við höfðatölu

 

 

Í nýlegri könnun sem gerð var í tengslum við tvíæringin í Feneyjum kom í ljós að það er gríðarlega mikill munur á fjöld íbúa að baki hvers starfandi arkitekts í þeim 36 löndum sem könnunin náði til.

Þannig eru um 40 þúsund manns að baki hvers arkitekts í Kína og einungis 414 á Ítalíu.

Kípur, Spánn, Belgía, Þýskaland, Danmörk, Luxembúrg, Portúgal, Macedonia, Malta og Ítalía eru með undir 1000 íbúa á hvern arkitekt.

Á Íslandi búa nú um 325.ooo manns og álitið er að um 340 arkitektar séu tilbúnir til starfa. Rétt er að geta þess að nokkur skortur er á atvinnutækifærum fyrir þetta fólk eins og stendur, og undirboð allskonar mikil.

Ef þetta er rétt áætlað um fjölda arkitekta á Íslandi eru um 955 einstaklingar að baki hvers þeirra hérlendis.

Ef marka má þessar tölur þá má draga þá álygtun að markaður fyrir arkitekta sé mettaður hér á landi miðað við venjulegt árferði.

En það vantar greinilega arkitekta í Kína!

Og víðast í fyrrum austantjaldslöndum.

Sjáið einnig þessa færslu um svipað efni.

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/10/09/eru-of-margir-arkitektar-a-islandi/

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.4.2014 - 10:01 - 7 ummæli

Samantekt – Lokakafli um þéttbýlismyndun á Íslandi

Hér kemur síðasti hluti af þessari merkilegu samantekt Sigurðar Thoroddsen arkitekts um síðbúna þéttbýlismyndun á Íslandi. Það vekur athygli hvað Sigurði hefur tekist að fara yfir þessa miklu sögu í stuttu og skýru máli. Ég fyrir minn hlut hafði ekki gert mér grein fyrir öllu þessu samhengi hlutanna. Maður áttar sig á því að saga landsins var öðruvísi en sú sem mér var kennd í skóla. Þá var ekki mikið fjallað um góðvild dana, vistarbandið sem var eiginlega þrælahald og að hjólið sem farar- og flutningatæki kom ekki til íslands fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900. Sagan sem mér var kennd í skóla var ekki saga alþýðunnar, byggingalistarinnar eða saga búsetu og skipulags heldur saga valdastéttanna og um yfirgang dana.

Samantekt

Hér að framan hef ég fjallað um ýmsa þætti sem urðu þess valdandi að þéttbýli þróaðist svo seint á Íslandi.

Niðurstaða mín er að margir  samfallandi þættir hafi valdið þessu.:

Fram hefur komið að Dönum var  kennt um  flest  sem aflaga fór,  og  hversu langt   Ísland dróst  aftur úr öðrum þjóðum á  sviði þéttbýlismyndunar.   Ég tel rangt að skrifa megi þessa atburðarrás  á reikning  Dana,  og  hægt að benda á ýmislegt    sem sýnir  fram á hið gagnstæða.

Vegna vanþróaðrar samgöngutækni og þar af leiðandi einangrunar  landsins höfðu  Danir  takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á þróun mála, enda  framkvæmdavaldið  í Kaupmannahöfn.  Engu að síður settu Danir fram tillögur sem horfðu til framfara og urðu  sumar að veruleika,  þó áhrifin yrðu ekki eins mikil og til stóð í upphafi.  Hjá landsmönnum  var  tregða að aðlaga sig að nýjum hugmyndum og viðhorfum.   Benda má  á,  að Ísland var danskt skattland,  þannig að það hefur án efa verið hvati hjá Dönum,  að bæta hag landsmanna  og þar með að efla  skattstofnin.

Spyrja má   hvort  sagan hefði þróast með öðrum hætti,   ef stofnanir eins og biskupsstólarnir í Skálholti og að Hólum hefðu verið settir á stofn við sjávarsíðuna,  þar sem lendingarskilyrði voru góð, möguleikar á sjávarútvegi og þar með góðri  tekjuöflun,  og samskipti við aðra hluta landsins og útlönd  hefðu verið betri,   auk þess sem  amtmennirnir, fulltrúar konungs og handverksmenn af ýmsu tagi   hefðu  getað   haft þar aðsetur.

Hið andlega og veraldlega vald hefðu þar með  getað sameinast um þéttbýlismyndun sunnan lands og norðan,  og afleiðingin verið  að ýmis  þjónusta og starfsemi hefði einnig  flust þangað.  Slík þróun átti  sér stað  á Norðurlöndum og víða í Evrópu, þar sem valdastofnanir voru  staðsettar  við sjávarsíðuna,  eða við stórfljót sem jafnframt voru samgönguæðar þess tíma.  Dæmi um þetta eru: Hróarskelda, Kaupmannahöfn, Þrándheimur og  Lundur.

Án efa hafa búferlaflutningar á síðari hluta 19. aldar til Vesturheims  einnig  haft  sitt að segja. En á   árunum 1870 til 1914 fluttu um 20.000 manns búferlum vestur um haf, sem hefur verið  mikið áfall fyrir svo fámenna þjóð.    Hin opinbera skýring var   sú, að fólk hefði   yfirgefið landið vegna hafísa, votviðra  og uppskerubrests, en um slíkt var ekki að ræða á hinum Norðurlöndunum eða  í Vestur-Evrópu.

Engu að síður flutti fólk þaðan  til Vesturheims   í milljónavís.  Fólk  var einfaldlega að leita sér að betra lífi,  að    flýja fátækt og kúgun í sínu heimalandi.  Er það tilviljun að fólksflutningar héðan vestur um haf,  standa sem hæst,  um svipað leyti og Vistarbandið  er lagt af.  Vert  er þó í þessu sambandi,  að taka fram,  að  Askja gaus 1875,  og olli sá atburður   búsifjum og brottflutningi  fólks frá  Austurlandi.

Eins og að fram greinir,  var  gefin út  konungsboðskapur 1786, þess efnis að Einokunarverslunin skyldi lögð af,  og   stofnaðir   6 kaupstaðir í landinu.   Þetta var gert að frumkvæði Dana,   án efa  til að efla hag landsmanna.  Hugmyndin var sú, að á þessum stöðum yrði aðsetur  kaupmanna, embættismanna og handverksmanna  og að þar myndi rísa blómleg  byggð,  útgerð og handverk af ýmsu tagi.

Í þessu skyni,  lögðu dönsk stjórnvöld fram fjármagn til kaupa á landi undir kaupstaðina,  lóðir voru boðnar fram  endurgjaldslaust, tiltekinn skattfríðindi veitt  og styrkir til húsbygginga.  Með öðrum orðum, að á þessum stöðum  áttu að rísa hefðbundin  þéttbýli af sama tagi og í nágrannalöndunum, með aðstoð Dana og að þeirra frumkvæði.

Í þessu sambandi er vert að benda á,  að mjög hafði verið   hert á vistarbandinu um miðja 18. öld. Húsagatilskipunin sem sett var árið 1746 kvað á um réttindi og skyldur vinnuhjúa og húsbænda. Viðurlög við broti á tilskipuninni um húsagann voru ströng. Bann við lausamennsku var  sett á árið 1783 og samkvæmt því var lausmennska bönnuð öllum mönnum.  Þetta bann var sett á 3 árum áður en ákveðið var að stofna kaupstaði í landinu.

Svo furðulega sem það kann að virðast ,   var vistarbandið ekki  fellt úr gildi 1786, samhliða því að  ákvörðun  um kaupstaðina var tekin og einokunarverslunin lögð af,  þannig að almenningi var gert erfitt  fyrir  að flytjast þangað,  og þar með að bæta sinn  hag.  Þetta var í raun ótrúlegt ráðslag,  og spurning  hvort Danir   hafi  áttað sig á þessari þversögn,  eða að íslenskir stórbændur  hafi  gert það  af ráðnum hug,  til að standa í vegi fyrir því að missa frá sér ódýrt vinnuafl.

Áhrifin létu hinsvegar ekki á sér standa, því kaupstaðirnir áttu erfitt uppdráttar fyrstu áratugina,  og ekki stóð á gagnrýninni  frá ýmsum,  sem fundu þéttbýlismyndun flest   til foráttu. Það er ekki fyrr en  vistarbandið er formlega fellt úr gildi 1894,  eða um 100 árum síðar, að rofa tekur til.   Þetta tel ég eina af megin skýringum  þess,  hversu síðbúin þéttbýlismyndunin  var.

Þess má geta að árið 1874 kom  Kristján níundi konungur og færði  landsmönnum fyrstu stjórnarskrána. Meðan á heimsókninni stóð fór konungur í skoðunarferð um landið,  en þar sem ekki var enn búið að finna upp hjólið,  þurfti  að flytja konung og  fylgdarlið á hestbaki milli staða.

Um miðja 19. öld   hefst  menntun íslenskra  iðnaðarmanna,  fyrst í Kaupmannahöfn  og smám saman berst hún til landsins.   Iðnskólinn í Reykjavík var  stofnaður  1904  og þá hefst formleg iðnfræðsla og  starfsmenntun  er innleidd.   Á sama tíma hafði menntun iðnaðarmanna staðið um aldir á Norðurlöndum og annarsstaðar i Evrópu.

Þess má geta til samanburðar, að Eiffel-turninn í París var tekinn í notkun 1889, fyrsti  íslenski verkfræðingurinn lauk  prófi  1891 og sá næsti ekki fyrr en  1900.   En frá og með aldamótunum 1900  verða  miklar framfarir  á Íslandi,   með auknum  samskiptum  við aðrar þjóðir,  enda   samgöngu- og fjarskiptatækni orðin    allt  önnur og  betri.   Nýr kafli í sögu þjóðarinnar hefst, en  það er önnur  saga.

Reykjavík í mars  2014.  STH

Hér að neðan eru tvær myndir sem sýna búsetu á landinu árið 1703 0g 1860. Þarna sést að engin þéttbýlismynun er hér á landi árið 1703 en aðeins örlar á þéttbýli í Reykjavík árið 1860. Hinsvegar er mikil byggð í Grímsey árið 1703. Uppdrættirnir birtust í aðalskipulagi Reykjavíkur 1962-1984.

photo2

photo1

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is