Laugardagur 1.10.2016 - 17:43 - 2 ummæli

Niðurrif – Brotið blað í Reykjavík

IMG_6949

Í Morgnblaðinu í morgum mátti lesa að meirihluti umhvefis- og skipulagsráðs Reykjavíkur lagðist gegn því að að heimilað yrði að rífa niður hús við Freyjugötu 16 á horninu við Valastíg og húsið við hliðina sem er nr 35 við Bragagötu og stendur á horni Bragagötu og Freyjugötu.

Umhverfisráð telur að “húsverndunarsjónarmið og varðstaða um byggðarmynstur gömlu Reykjavíkur verði að vera í forgangi þegar þess sé kostur”.

Við sem höfum fylgst með þessum málum vitum hinsvega að tækifærið til þess að standa vörð um byggðamynstur Reykjavíkur liggur alltaf fyrir og hefur alltaf legið fyrir hendi og verið besti kosturinn.

Húsin sem um ræðir eru frá þriðja áratug síðustu aldar og virðast í sjálfu sér ekki sérlega merkileg út af fyrir sig en eru mikilvæg og merkileg í þeirri bæjarmynd sem við elskum og ferðamennir koma til þess að sjá og upplifa.

Hér er brotið blað í skipulagsmálum í Reykjavík hvað verndun húsa og byggðarmynstur varðar. Borgaryfirvöld sýna hér í fyrsta sinn svo eftir sé tekið að þeim er annt um borgina okkar, staðaranda hennar og einkenni. Þau reyna hér að standa í lappirnar með hagsmui heildarinnar að leiðarljósi.

Það er auðvitað komin tími til. Borgaryfirvöld hafa undanfarið dregið lappirnar hvað þetta varðar undanfarin ár eða hitt sem er líklegra haft við ofurefli að etja.

Þetta er ekki létt verk fyrir kjörna fulltrúa okkar í borgarstjórn. Andstæðingarnir eru oft öflugir fjáraflamenn, löngu úr sér gengin deiliskipulög og síðast en ekki síst ráðgjafar landeigenda og jafnvel borgarinnar sjálfar, skipulagshöfundarnir sem unnið hafa þessi deiliskipulög fyrir landeigendur og oft fyrir borgina sjálfa. Og það versta er, eins og margoft hefur verið bent á þá hafa þessir ráðgjafar stundum leikið tveim skjöldum. Deiliskiulagt fyrir borgina og almannahafsmuni og samtímis eða í beinu framhaldi hannað byggingarnar með sérhagsmuni landeigenda að markmiði.

Það gengur auðvitað ekki og ætti að banna.

En til hamingju Reykvíkingar að okkar kjörnu fulltrúar hafi nú loks spyrnt við fótum með það að markmiði að vernda og varðveita staðaranda Reykjavíkur og séreinkenni hennar.

+++++

Myndirnar sem fylgja voru teknar í dag af umræddum húsum.

Sjá einning eftirfarandi færslu:

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

IMG_6947

IMG_6948

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2016 - 10:57 - 2 ummæli

Ásmundur Sveinsson og byggingalistin.

c503759a0e3930ea3ec02dc8cb1f9765

„Ég vildi óska þess að skólarnir ynnu mikið að því að opna augu mannverunnar svo þau gætu notið þess sem þau sjá og fundið til ef eitthvað er heimskulega unnið eða vitlaust gert“.

Þetta sagði Ásmundur Sveinsson myndhöggvari  sem var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Hann var þeirrar skoðunar að listin ætti heima hjá fólkinu sjálfu sem hluti af landslagi borgarinnar og honum var annt um að á Íslandi byggðist borg sem væri bæði „praktísk og falleg“.

Nýlega var sýndur sjónvarpsþáttur á RUV um Ásmund Sveinsson (1893-1984) myndhöggvara undir heitinu „Íslendingar“. Í þættinum fjallar Ásmmundur nokkuð um byggingar og byggingalist. Ég leyfi mér að drepa á nokkrum atriðum, orðrétt.

Ásmundur var sannfærður um að það væri ómögulegt að leggja stund á abstraktlist án þess að áhugi fyrir byggingarlist sprytti fram. Hann vildi opna augu Íslendinga fyrir umhverfi sínu og að Reykvíkingar hefðu skoðun á því hvernig borg þeir byggðu.

Íslendingar geta rifist um vísur — en ekki götur og hús

„Í því sambandi hef ég verið dálítið svæsinn,“ sagði Ásmundur í sjónvarpsviðtali við RÚV 1970. „Ég hef verið að segja að Íslendingar eru bókaormar; þeir geta rifist um vísu og geta eytt mörgum dálkum í blöðum um hvort vísan sé rétt kveðinn, eða kannski bara alls ekki kveðin. Það er náttúrulega allt í lagi, ég vil hafa góðar vísur.

En hafa þeir ekki auga fyrir því að nú er verið að byggja nýja borg hér og eyða mörgum milljónum í það? Það er aldrei rifist um götur og hús í blöðunum. Ég vil láta vera krítik á þessu! Þegar arkitekt gerir gott, þá á að hæla honum, en ef hann gerir vont, þá á að húðskamma hann. Þetta er ekki gert! Og af hverju? Af því að fólki er sama hvað það sér. Það er ekki búið að opna augun fyrir því að við erum að skapa hér bæ, sem við eigum öll.“

Ásmundur sagði að ábyrgð þeirra sem komu að uppbyggingu Reykjavíkur væri mikil gagnvart komandi kynslóðum.:

„Ég held að það þurfi bæði í skólum og víða bara að koma við þetta, að maður hafi nautn af að gera fallegan bæ og praktískan,“ sagði hann í sama viðtali. „Ég er alveg handviss um að næsta kynslóð krítíseri þennan bæ miklu meira heldur en einhverja vísu, hvort hún sé illa kveðin eða alls ekki kveðin. Því þetta þýðir svo mikið í framtíðinni. Það er framtíðin sem á að taka við þessum bæ og okkar villur verða áreiðanlega reiknaðar.“

 

++++++++

Hér er tengill að umfjöllun RUV

http://ruv.is/frett/ef-arkitekt-gerir-vont-tha-a-ad-hudskamma-hann

++++++++

Torbergur-Tordarsson-Espera1

Ég leyfi mér að vitna aftur í textabút úr Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson (1883-1974) sem var af sömu kynslóð og Ásmundur Sveinsson.

Gömlu mennirnir voru greinilega mjög áhugasamir um byggingalist.

“Allir Íslendingar kunna að lesa bækur.

En hversu margir kunna að lesa hús?

Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur.

Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd.

Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd.

Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna.

Bókin er lygin um það”.

++++++

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2016 - 14:25 - 4 ummæli

Guðrún Jónsdóttir arkitekt, 1935 -2016

AR-706109971

 

Guðrún Jóns­dótt­ir arki­tekt og heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands lést á Land­spít­al­an­um við Hring­braut 2. sept­em­ber sl., 81 árs að aldri.

Ég heyrði fyrst af Guðrúnu þegar ég var í námi í byggingarlist í Kaupmannahöfn þegar hún var kosin formaður Arkitektafélags Íslands árið 1971.

Í þá daga var allnokkur umræða um byggingarlist og skipulag í Arkitektafélaginu. Haldnir voru 6-8 félagsfundir árlega um ýmislegt sem snerti skipulags- og byggingarmál fyrir utan sjálfsögð hagsmunamál stéttar arkitekta.

Guðrún var áberandi í umræðunni, einkum hvað varðaði verndun eldri húsa og skipulagsmál. Hún var ástríðufull í sínum málflutningi og leyndi sér ekki ást hennar og umhyggja fyrir því sem vel var gert, hvort heldur það var gamalt eða nýtt.

Ræddar voru hugmyndir, húsafriðun og skipulag með málefnalegum hætti, lausnamiðað en alls ekki átakalaust. Einstakar byggingar voru einnig á dagskrá. Þetta voru fróðlegir fundir og afar skemmtilegir. Maður missti helst ekki af einum einasta fundi.

Það sem vakti sérstaka athygli mína á þessum fundum var málflutningur eldri kynslóðarinnar sem var lausnamiðaður og veitti sterka viðspyrnu í mörgum málum. Þar var málflutningur Guðrúnar Jónsdóttur engin undantekning. Hún var ástríðufull og tilfinningarík og flutti mál sitt með festu og faglegum rökum og var fylgin sér.  Tekist var á um þéttingu byggðar og margt fleira. Hún slakaði aldrei á þessum einlæga áhuga sínum og þátttöku í umræðunni. Ég heyrði síðast í henni í viðtali í þætti Lísu Pálsdóttur, Flakk, núna snemmsumars þar sem hún ræddi skipulag Landspítalans af hógværð og festu. Viðtalið var tekið við sjúkrabeðið á Landspítalanum þar sem hún lést.

Guðrún var ráðin forstöðumaður Þróunarstofnunar Reykjavíkur og í framhaldi Borgarskipulags Reykjavíkur 1980­‑1984. Á þessum tíma beitti hún sér fyrir þéttingu byggðar vestan Elliðaáa og vildi draga úr útþenslu borgarinnar, það gerði hún þó með öðrum hætti en við erum að kynnast þessa dagana.

Þarna var lagt upp með lága, þétta byggð inni á vannýttum reitum borgarinnar. Ég nefni Suðurhlíðar og svæðin við Vesturbrún og Austurbrún og skipulag og samkeppni um lága, þétta byggð við Frostaskjól o.fl.

Íbúðabyggð var henni hugleikin enda nam hún list sína á Konunglegu dönsku Listaakademíunni hjá færustu mönnum á Norðurlöndum á þessu sviði, professorunum Viggo Möller-Jensen og Tyge Arnfred.

Eitt var þó verkið sem því miður náði ekki fram að ganga en það var endurskipulagstillaga hennar í Skuggahverfinu þar sem lögð var áhersla á sjálfsprottið umhverfi þar sem verndun eldri húsa var veitt verðskulduð athygli.

Ég hef aldrei séð þetta skipulag en Guðrún bauðst til að sýna mér það við tækifæri og skýra út. Þetta tækifæri hefur nú runnið mér úr greipum sökum sinnuleysis af minni hálfu. En ég hef á tilfinningunni að faglegur metnaður Guðrúnar í þessu verki og festa hennar og trúnaður við þau faglegu gildi sem að þessu skipulagi lágu hafi kostað hana stöðuna, að hluta til að minnsta kosti.

Það er vissulega missir að arkitektum eins og Guðrúnu sem var ástríðufull í allri sinni framgöngu í skipulags- og byggingarmálum.

Blessuð sé minning hennar.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 12:25 - 14 ummæli

Hallgrímskirkja v.s. Grundtvigskirkja

Ibsen_1

Grundtvigskirkjan í Kaupmannahöfn og Hallgrímskirkja í Reykjavík eiga margt sameiginlegt.

 • Þær eru báðar reistar í nafni helstu sálmaskálda landanna, prestanna Hallgríms Péturssonar á Íslandi(1614-1674) og N.F.S. Grundtvigs í Danmörku (1783-1872).
 • Þær eru báðar byggðar á hæð, Bispebjerg og Skólavörðuholti.
 • Þær eru báðar byggðar á tuttugustu öldinni og eru gegnheilar. Það er að segja að sama efni og áferð er utan á kirkjunum og innan.
 • Þær eru báðar gotneskar í aðaformmáli en sækja innblástur í aðstæður á staðnum. Grundtvikskirkjan í hefðbundinn danskan arkitektúr og Hallgrímskirkja að hluta til í íslendskt landslag (!).
 • Þær eru báðar sterk kennileiti þar sem þær standa umkringdar tiltölulega lágri byggð.
 • Báðar hafa þær inngang sem veitir að götu með lágreistum húsum.
 • Þær eru báðar þrískipa.
 • Þær eru báðar hannaðar af sterkustu arkitektum sinnar kynslóðar, Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) og P.V.J Klint (1853-1930). Kaare Klint sonur Jensen Klint (1888-1954) kláraði bygginguna fyrir föður sinn, en hann var jafnaldri Guðjóns.
 • Kirkjurnar voru báðar lengi í smíðum. Það var byrjað fyrr á Grundtvigskirkju eða árið 1921 eftir samkeppni sem haldin var 1912-13 og smíðinni lauk 1940. Byrjað var á Hallgrímskirkju 1945 0g var hún vígð 1986.
 • Kirkjurnar tvær eru álíka langar, Grundtvigskirkja er 70 metrar og Hállgrímskirkja er  69 metrar.
 • Kirkjurnar eru svipaðar að stærð. Hallgrímskirkja er 1676 m2 að flatarmáli  og manni sýnist að Grunndtvigskirkja sé svipuð að stærð, kannski aðeins stærri. Margir telja Hallgrímskirkju stærstu kirkjuna á Íslandi. Það stendur meira að segja á nokkrum Wikipediasíðum og ferðabæklingum. Því fer víðs fjarri, Grafarvogskirkja er langtum stærri í fermetrum talið eða  2890 m2. Sennilega eru sætin eitthvað fleiri í Hallgrímskirkju sem er auðvitað líka mælikvarði.

það sem greinir kirkjurnar að er bísna margt og hallar þar oft á Hallgrímskirkju nema kannski það að Hallgrímskirkja er sennilega þekktari en Grundtvigskirkjan í Danmörku.

Grundtvigskirkja sver sig í hefðirnar í danskri byggingalist meðan Hallgrímskirkja er meira svona „kjúriositet“ svipað og verk Gaudis í Barcelona. Ekki endilega góð byggingalist en forvitlileg og jafnvel skemmileg og með fallega vinkla á nokkrum stöðum. Gaudi í Barcelona og Hallgrímskirkja í Reykjavík laða að sér ferðamenn.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af Grundtvigskirkju sem var byggð úr viðhaldsfríum gulum dönskum múrsteini samkvæmt aldagamalli hefð og tvær af Hallgrímskirkju sem er byggð úr steinsteypu sem var skigreind sem „varanlegt efni“ um miðja síðustu öld en er það auðvitað ekki eins og dæmin sanna.

Maður veltir fyrir sér hvort Guðjón Samúelsson hafi sótt innblástur til kollega síns í Danmörku þegar hann lagði drögin að helsta kennileiti Reykjavíkurborgar, Hallgrímskirkju.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

 

Rune_Brimer

Inngangur Gruntvigskirkju er þrí skiptur eins og turninn, faðirinn, sonurinn og hinn heilagi andi. Súlnaskipan innandyra er einnig með skýrskotun til dulinnar þekkingar.

Ibsen_2

Hliðarskip Grundtvigskirkju.

Ibsen_4

Miðskip Grundtvigskirkju.

1380371_4699874234199_379070906_n

Miðskip Hallgrímskirkju.

 9_-Hallgrímskirkja

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2016 - 10:37 - 23 ummæli

Niðurrif eldri húsa í Reykjavík

photo 5

Aldrei hafa jafn mörg hús í Reykjavík verið rifin á jafn stuttum tíma til þess að vikja fyrir nýbyggingum og undanfarin misseri.

Þetta er auðvitað tímaskekkja. Þetta er verklag sem ekki er notað lengur þar sem ég þekki til. Menn eru almennt hættir að vinna svona í gömlum borgarhlutum.

Á flestum öðrum stöðum eru gömlu húsin endurnýjuð, aðlöguð nútímaakröfum og nýrri starfssemi þegar það þá við. Það er byggt við þau í samræmi við það sem fyrir er og eins og aðstæður gefa tilefni til. Fólki þykir vænt um borgirnar sínar og umhverfið.

Mér hefur verið sagt að meira en 70% af vinnu arkitekta í Frakklandi gangi út á þetta; Að endurnýja og  aðlaga eldri hús að samtímanum og nýum hlutverkum þeirra.

Hér á landi er þetta sennilega nálægt 4%. Hin 96% arkitekta vinna við að byggja nýtt. Oft á lóðum þar sem gömul hús  stóðu fyrir. Og gildir, að því er virðist, einu hvort þau séu friðuð og falleg. Menn virðast ekki leggja mat á gersemin. Þeir virðast helteknir af nýbyggingarfíkn.

+++

Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að nú vinnur Skipulagsráð Reykjavíkur að því að 117 ára gamalt friðað hús við Veghúsastíg í Reykjavík verði rifið.

Þetta er merkilegt sögufrægt, lítið og sérlega fallegt hús sem stendur fallega þar sem það er. Umhverfis húsið standa falleg timburhús og einn gamall steinbær að Klapparstíg 19, sem nýtur sérstöðu sinnar í krafti umrædds húss, Veghúsa. En Veghúsastígur dregur nafn sitt af þessu litla húsi sem er einungis um 30 m2 að grunnfleti.

Nú hyggja borgaryfirvöld á að samþykkja að friðað hús,Veghús við Veghúsastíg í Reykjavík, verði rifið. Það verður að líkindum rifið fyrir hagsmuni fjáraflamanna sem vilja ávaxta pund sitt.

Húsið sem gaf götunni nafn var byggt árið 1899 og er því 117 ára um þessar mundir. Þetta er sérlega fallegt hús sem gefur nærliggjandi umhverfi sterkt yfirbragð. Þetta litla hús er að stofni til um 30 fermetrar að grunnfleti með kjallara og risi.

Það verður eftirsjá af þessu húsi fyrir næsta nágrenni og Reykjavíkurborg alla.

++++

Þetta fallega sögulega litla hús sem myndin er af efst og neðst íærslnni hefur verið notað af útigangsfólki fengið að drabbast niður af ásetningi að því er virðist.

En af hverju vill borgin láta rífa friðað hús sem auk þess er sögulegt, fallegt og mikilvægt fyrir nærliggjandi umhverfi?

Ég veit það ekki og skil það ekki, en tel skýringuna vera að finna í gamalkunnu skipulags stefi sem svona mál festast stundum í.

Við gerð deiliskipulaga verða oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja verða til í þessu ferli. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau eru sett í skammtímaleigu m.a. í þeim tilgangi að láta þau drabbast niður þar til þau verða nær ónýt.

Þessi ganga um þennan dimma táradal nær nánast alltaf fullum skilningi borgaryfirvalda sem ganga til liðs við fjáraflamennina í andstöðu við staðaranda Reykjavíkur og vilja mikils hluta borgarbúa.

Þetta er einmitt tilfellið hér þegar Veghús eru á dagskrá. Húsið var látið drabbast niður og svo er það látið víkja fyrir nýju deiliskipulagi.

Þarna leggjast allir, að því virðist, á eitt til þesss að losna við þetta ágæta, fallega friðaða hús. Eigendur vilja ávaxta pund sitt og njóta velvilja og stuðning borgarskipulagsins til að ná sínu fram. Allt á kostnað arfleifðarinnar, staðarandans og almannahagsmuna.

++++

Ég gerði mér ferð niður á Veghúsastíg til þess að geta lagt mat mitt á húsið og umhverfi þess og sá strax að hér er sorglegt lítið slys í uppsiglingu, sem er hluti af miklu stærra máli þar sem  sterk öfl ráða ferðinni og   eru að verki í miðborg Reykjavíkur innan Hringbrautar.

Á þrem svæðum sem eru innan við 200 metrum frá Veghúsastíg 1. hafa undanfarið verið rifin niður fjöldi ágætra bygginga til þess eins að auka nýtingu lóðanna og byggja hagkvæmari og söluvænlegri hús fyrir eigendur fasteignanna.

Að neðan koma myndir sem ég tók á símann minn af þessum svæðum.

 

photo 1

Á lóð á horni Hverfisgötu og Frakkastígs stóðu að mig minnir þrjú hús sem nú eru horfin.

photo 2

Lóðum við Frakkastíg milli Laugavegar og Hverfissgötu hafa verið sameinaðar í nýju deiliskipulagi frá árinu 2013. Þarna voru rifin 6-8 hús sum um 100 ára gömul. Í staðin kemur nýbygging sem ég átta mig ekki á hvernig mun líta út.

 

photo 4

Hér á lóðunum umhverfis stórhýsi Sindra að Hverfisgötu 42  er verið að breyta í samræmi við deiliskipulag frá 2015.  Þarna stóðu ágæt hús sem nú eru horfin.

fr_20160407_036298-640x360

Hér er svo í lokin þekkt dæmi um niðurrif nú i sumar þar sem allnokkur hús voru látin víkja fyrir nýbyggingum. Þeirra á meðal eitt sem samkomulag var um að látið væri standa. Þetta er hinn svokallaði Naustareitur á mótum Tryggvagötu, Norðurstígs og Vesturgötu.

Hér í blálokin koma svo tvær myndir af steinbænum að Klapparstíg 19,  og Veghúsum sem mætast á opnu svæði til suðvesturs á horni Veghúsastígar og Klapparstígs.

photo 2

 

photo 1

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.8.2016 - 23:47 - 7 ummæli

Nýtt hótel nálægt Jökulsárlóni

FossHotel-GLACIER-35-800x450

Nýlega var tekið í notkun nýtt hótel, Fosshotel Jökulsárlón sem stendur á Hnappavöllum við rætur Öræfajökuls. Hnappavellir eru á milli Skaftafells og Jökulsárlóns.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á þessu hóteli vegna þess að það kveður við nokkuð annan tón en gengur og gerist í hótelbyggingum á Íslandi.

Hér hafa arkitektarnir Bjarni Snæbjörnsson og Snædís Bjarnadóttir nálgast verkefnið með óvenjulegum hætti. Þau hafa skoðað staðinn og umhverfið og látið það ráða hugmyndavinunni.  Húsin eru brotin upp í einingar og form og efisval kallast á við næsta umhverfi. Þarna er svart timbur sem hljómar með svörtum sandinum og gras á þakinu eins og tíðkast hefur á Íslandi um aldir. Útveggjunum er hallað lítillega og kallast þannig á við fjöllin í grenndinni.

Þetta er tiltölulega einfalt eins og allt sem vel er gert. Allt er hógvært og án prjáls eða tilvitnanna í þá stjörnuarkitekta sem margir eru sífellt að apa eftir og einkenna tíðarandann.

Regionalisminn er í raun svo sjálfsagður að maður áttar sig varla á því hvernig stendur á að menn eru að velta einhverju öðru fyrir sér.

Það þarf að vanda betur til hótelbygginga á Íslandi. Það þarf að gæta að sérkennum staðanna og Íslands sem áfangastaðar og ferðamannastaðar. Líta þarf á gistinguna sem mikilvægan hluta af ferðalaginu, jafnvel þann mikilvægasta.

Kunningi minn sagði mér frá vellauðugum ítala sem hefur vanið komu sína hingað til lands. Hann taldi aðeins tvö hótel á landsbyggðinni vera þess virði að heimsækja þau. Það voru Búðir á Snæfellsnesi annarsvegar og Franski spítalinn á Fáskrúðsfirð hinsvegar. Hann hafði ekki komið á Hótel Flatey og sennilega hefur hann ekki enn gist á því hóteli sem hér er fjallað um. Kannski hann geti innan tíðar nefnt fjögur hótel á landsbyggðinn sem vert er að gista á.

 

excellent-new-hotel-with

fosshotel-glacier-lagoon-2

Efniskenndin er mikilvæg. Hér er nánast óunninn borðaviðurinn málaður svartur og kallast á við svartann sandinn og berg fjallanna. Á þökum er torf eins og tíðkaðist um aldir hér á landi. Í klæðningunni má lesa vöxt viðarins, hamarshögg smiðsins, greina námdina við handverkið. Klæðningin mun grána og eldast, taka á sig „patínu“ tímans með reisn og veðrast og eldast eins og henni ber. Þessi gæði hafa nútímabyggingarefni á borð við ýmsar málm- og plastklæðningar ekki uppá að bjóða frekar en álgluggakerfi þau sem mikið eru tekin á gjörvallri jarðarkringlunni á okkar dögum.

FossHotel-GLACIER-18-800x534

FossHotel-GLACIER-30-800x534

Innréttinga eru margar hannaðar af Leif Welding.

FossHotel-GLACIER-Suite-800x466

Dæmi um herbergi þar sem útsýni er óheft og rúmgóðum „windowseats“. Rúllugardínur er hægt að draga fyrir glugga fyrir ljósfælna og hlédræga.

 

Glacier-Lagoon-Sheep-800x800

Sauðkindin mun hafa óheftan aðgang að húsinu eins og aðliggjandi náttúra.

FossHotel-GLACIER-15-800x534

Myndirnar í færslunni eru flestar teknar af Eddie Peter Hobson og Unni Evu Arnarsdóttur.

Sjá einnig þessa færslu en þar segir m.a.:

„Víða á landsbyggðinni er ferðaþjónustan að vinna með staðinn sérstaklega af miklum metnaði. Þar er ferðamennskan tekin lengra þannig að sjálf gistingin verður hluti af upplifun ferðamannsins. Húsin eru það sem kallað er á ensku “site specific” og henta þeim eina stað sem þau eru reist og staðsett.

Stefnt er að því að laða að ferðamenn sem kunna að meta sérstöðuna og anda staðarins þannig að þeir geti einnig notið sjálfrar gistingarinnar í þvi samhengi. Þetta er metnaðarfullur þankagangur sem mun skila miklu til langs tíma litið litið“.

Vinnubúðahótel ?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.8.2016 - 16:06 - 9 ummæli

Nýtt þjóðarsjúkrahús – Færri sjúkrarúm!

13872840_866011736864941_7488623266263201316_n
AÐ SAMEINA STARFSEMINA Á EINUM STAÐ
Vissir þú að árið 2015 voru að jafnaði 683 sólarhringsrúm til ráðstöfunar á Landspítalanum. Þar af voru 281 staðsett við Hringbraut, 168 í Fossvogi en 234 annarsstaðar. Í nýja meðferðarkjarnanum verða 184 legurými. Ekki verður hægt að uppfylla sömu gæðakröfur í gömlu húsunum og í því nýja en til að nálgst þær mun rúmum fækka verulega.
Hér er reiknað með helmings fækkun og að fjöldi sjúkrarúma sem staðsett eru annarsstaðar verði óbreyttur.

Flestir eru sammála um að sjúkrarúmum þyrfti að fjölga vegna fólksfjölgunar, hærri aldurs landsmanna, fjölda ferðamanna og nýrra tækja. Einnig væri mjög æskilegt að flytja hluta af legurýmum sem nú eru annarsstaðar en við Hringbraut og í Fossvogi á nýja spítalann.
En staðreyndin er sú að sjúkrarúmum mun fækka.
Fækka um 124 sjúkrarúm.
Augljósa svarið við þessu er að flytja ekki starfsemi úr Fossvogi á Hringbraut. Þess vegna er langlíklegast að „gamli góði Borgarspítalinn“ muni nýtast sem slíkur næstu áratugina og að ekkert verði af sameiningu.

(Heimildir: Hagdeild Landspítalans og SPÍTAL hönnunarteymi).
+++
Textinn að ofan og myndin sem fylgir er fengin á facebook síðu Samtakanna um betri spítala á betri stað. Þó þeta fjalli ekki með beinum hætti um Arkitektúr, skipulag og staðarprýði þá tengist efnið þeirri umræðu sem hefur fariðö fram á þessum vef um undirbúning framkvæmda vegn sameinigar spíttalanna í Reykjavík og staðsetningu hans.
https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad/
 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 23.7.2016 - 18:36 - 8 ummæli

Ný menningar og verslunarmiðstöð

 

polyform-vanlse-solstra-overview-1024x614

Í aðdraganda Hrunsins var sagt frá þvíí fjölmiðlum að verslunarhúsnæði í Reykjavík væri um það bil 8 fermetrar á hvern íbúa.

Ef ég man rétt þá hefur þörfin í fræðunum verið álitin rúmlega 3 fermetrar verslunarhúsnæðis á hvern íbúa.  Þá er reiknað með bæði dagvöruverslunum og sérvöruverslunum í víðum skilningi. En þetta viðmið er auðvitað umdeilt.

Það er almennt talið að dagvöruverslanir á borð við matarbúðir, bakarí  og þess háttar eigi að staðsetja í göngu- eða hjólafær frá heimilum fólks.

Sérvöruverslanir meiga vera lengra í burtu. Það eru verslanir sem selja föt, búsáhöld og þess háttar.

Bifreiðabúðir og verslanir sem selja heimilistæki, húsgögn,  gróður og runna, þurfa enganvegin að vera í göngufæri við heimilin.

Ég veit ekki hver staðan er í dag í þesum málum í Reykjavík í dag en ég hygg að hún sé svipuð og í aðdraganda Hrunsins 2008.

++++++

Nú standa yfir miklar framkæmdir í vesturbæ Kaupmannahafnar, Vanlöse.  Verið er að byggja um 40 þúsund fermetra verslunar- og þjónustumiðstöð með íbúðahúsnæði uppá  á 15 þúsund fermetra. Í þessum tölum er tveggja hæða bílakjallari undir allri samstæðunni ekki talin með.

Verslunar og menningarmiðsöðin á að þjóna markhópi sem telur 177.000 manns. Þetta er hópur sem er tæplega 50% stærri en íbúar Reykjavíkur. Með opnun miðstöðvarinnar eykst verslunarhúsnæði markaðssvæðisins um 25 þúsund fermetra eða sem svarar um 0,13 m2 á hvern íbúa. Þetta er ekki mikil aukning en vekur samt nokkra athygli og jafnvel áhyggjum vegna þess að húsnæði verslunar umfram þörf getur haft áhryf á verðlag.

Kannanir hafa sýnt að íbúar í Vanlöse versla 80-85% af dagvöruverslun sinni í heimabyggð meðan að sérvörur eru einungis keypt að einum fimmta lókalt. Þessu á verslunarmiðstöðin m.a. að breyta.

Þarna er, hvað skipulagið varðar, vandað til verka. Miðstöðin er byggð við hliðina á járnbrautarsöð og tengd hinu stórgóða metrokerfi Kaupmannahafnar og er því vel tengt nánast öllum íbúum á stórkaupmannahafnarsvæðinu og jafnvel öllu norður Sjálandi.   En þrátt fyrir þessar gríðarlega öflugu almenningssamgöngum að verslunarmiðstöðinni er gert ráð fyrir 400 bifreiðastæðum  neðanjarðar og um 1700 hjólreiðastæðum við verslunarmiðstöðina.

Í byrjun virtist öll skipulagsvinna og skipulagsáætlanir ætla að ganga eftir nema hvað fjárhaginn varðaði. Dæmið gekk ekki upp fyrr en búið var að bæta við  15000 fermetra íbúðahúsnæði ofan á verslunar- og menningarmiðstöðina.

+++++

En af hverju er verið að fjalla um danska verslunarmiðstöð á íslenskum vef sem fjallar um arkitektúr og skipulag?

Það er ekki vegna skipulagsins eða framkvæmdarinar heldur vegna hinnar arkitektónisku nálgunar sem hér er á ferðinni.

Þegar tölvumyndirnar eru skoðaðar þá veltir maður furir sér formmáli arkitektanna og efnisvalinu  sem varð fyrir valinu. Maður sér ekki tengslin við umhverfið og staðareinkenni Vanlöse. (gulur og rauður múrsteinn og danskur þakhalli) Hinsvegar sér maður arkitektóniskan skyldleika við það sem nú er verið að byggja í Raykjavík,  einkum við Austurhöfnina.

Þar er verið að byggja hús sem hafa takmörkuð séreinkenni Reykjavíkur eins og hér í Vanlöse þar sem verið er að byggja hús sem eru ekki arkitektóniskt í miklum tengslum við staðinn þó skipulagið geri það.

Það sem virðist sameigimlegt við framkvæmdirnar í Vanlöse og í Reykjavík er að arkitektarnir líta til svipaðra átta þegar þeir sækja innblásturinn. Þeir skoða sennilega sömu blöðin og sömu vefsíðurnar. Horfa til sömu stjörnuarkitektanna. Skoða vefsíður sem einkennast af internationalismanum og leggja ekki áherslu á séreinkenna staðanna, regionalismanns.

Internationalisminn er eins fjarri regionalismanum og hugsast getur og andstaða hans.

Sem betur fer sér maður að alvarlega þenkjandi arkitektar og fræðimenn veita regionalismanum sífellt meiri athygli.

Internationalisminn á víða við en ekki þar sem einhver sérstaða er og staðbundið andrúm er að finna sem er eftirsóknarverð eða sterkur staðarandi á einhverjar djúpar rætur.

galleria_polyform_1

 

VAN151208center12314535_1758201377734369_3558707216006189098_o

 

galleria_polyform_4

Ofan á verslunarmiðstöðina kemur íbúðabyggð með leiksvæðum og torgum,  veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum.

Flokkar: Óflokkað · Íþróttir

Mánudagur 18.7.2016 - 18:29 - 6 ummæli

„Þannig týnist tíminn“ um Framtíðarskipulag Landspítalans

11232945_734076576725125_3677565254141439588_n

Ólafur Örn Arnarson yfirlæknir skrifaði grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 26. febrúar árið 2002  um framtíðarskipulag Landspítalans. Tilefnið var andsvar við grein Ingólfs Þórissonar sem birtist í sama blaði fyrr í mánuðinum vegna athugasemda Ólafs við skýrslu ráðherraskipaðrar nefndar um Framtíðaruppbyggingu Landspítala.

Ingólfur var þá framkvæmdastjóri tækni og eigna spítalans. Í dag 14 árum síðar er Ingólfur enn að störfum vegna uppbyggingar spítalans.

Ég birti þessa grein núna vegna þess að þau sjónarmið og varnaðarorð sem Ólafur Örn nefnir eiga jafnvel við nú og fyrir hàlfum öðrum àratug.

Það sem gerst hefur frá því að fyrsta staðarvalsskýrslan kom fram er helst það að þær stoðir sem skýrslan stóð á og báru hana uppi eru flestar brostnar.

Það sama á við þær skýrslur sem síðar voru gerðar.

Það hefur verið gagnrýnt að athugasemdir um staðsetningu Landspítalans við Hringbrayut séu of seint fram komnar. Það er auðvitað tóm vitleysa. Menn hafa gagnrýnt staðsetninguna frá upphafi og með miklum þunga og faglegum rökum frá árinu 2009.

Vandinn er sà að ráðamenn byrjuðu of seint að hlusta og embættismenn tóku sig til með stjórnmàlamönnum að verja verk sítt. Flestar þær stoðir sem stóðu undir àkvörðuninni um staðsetningu spítalans við Hringbraut eru nú brostnar. Þeir sem að uppbyggingu spítalans við Hringbraut standa berjast nú með þögninni einni við að verja verk sitt og hafna því að nýtt óhàð staðarvalsmat sé gert til þess að setja niður þessa deilu. Það er er auðvitað óàbyrgt  og óskiljanlegt.

Nú og allar götur frá því 2009 eða jafnvel frá 2002 hafa forsvarsmenn framkvæmdarinnar sagt: „Það er orðið of seint að endurmeta staðsetninguna“.

Þannig týnist tíminn.

Það er aldrei of seint að endurskoða ákvarðanir og sérstaklega þegar flest rök segja að verið sé að feta ranga slóð.

Þeir sem með málið fara hafna „gagnrýnni hugsun, kerfisfræði, víðsýni heildrænna lausna“ vitandi að allt hefur breyst frà því að staðsetning spítalans var àkveðin àrið 2002,  flugvöllurinn i Vatnsmýri, öll umferðamàlin, hagfræðiúttektir, menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð og síðast en ekki síst nýtt og stòrgott aðalskipulag fyrir Reykjavik benda á að hér sé ekki faglega unnið.

En allt þetta  og hvert um sig gefur tilefni til þess að endurmeta staðsetninguna með faglegum hætti.

Að stinga höfðinu í sandinn eins og menn hafa gert er fullkomið àbyrgðaleysi.

Hér kemur 14 ára gömul greinsem ég mæli með eftir Ólaf Örn Arnarssonar í heild sinni sem heitir:

FRAMTÍDARSKIPAG LANDSPÍTALANS

UNDIRRITAÐUR ritaði grein í Mbl. 6. febrúar sl. vegna skýrslu sem ráðherraskipuð nefnd lagði fram um framtíðaruppbyggingu Landspítala  háskólasjúkrahúss. Ingólfur Þórisson framkvæmdastjóri tækni og eigna var ritari nefndarinnar og gerir nokkrar athugasemdir við grein mína í Mbl. 13. febrúar sl.

Ingólfur misskilur hlutverk ráðgjafa Ementor. Þeir eru ekki aðeins rekstrarráðgjafar heldur hafa þeir unnið að úttekt á þörfum og fyrirkomulagi spítala á Norður-löndum og í Þýskalandi.

Það er rétt að arkitektar koma síðan til skjalanna og útfæra hugmyndir ráðgjafanna. Þessir ráð-gjafar gerðu mjög ítarlega úttekt á starfsemi og framtíðarþörfum spítalans. Niðurstaða þeirra var sú að besta lausnin væri bygging nýs spítala frá grunni. Kostnaður við það væri hinsvegar svo mikill (um 40–50 milljarðar króna) að fjármagn fengist örugglega ekki til þess.

Ementor benti því á þá leið að sameina í Fossvogi skurðstofur, gjörgæsludeildir, myndgreiningu og rannsóknastofur sem er dýr starfsemi og flytja þangað einnig þær legudeildir sem háðar eru þessari þjónustu. Önnur starfsemi yrði á Hringbraut og sem mest af núverandi húsnæði notað áfram.

Ráðgjafarnir töldu að þessi aðgerð væri forsenda þess að hagræðing næðist með sameiningu spítalanna. Óbreytt ástand með þessa starfsemi á tveimur stöðum mun ekki ná því markmiði. Þörf fyrir nýbyggingar í Fossvogi væru því á næstu árum um 30 þúsund fermetrar sem hægt væri að byggja í áföngum. Þessi leið væri sú fljótvirkasta og hagkvæmasta sem völ væri á.

Ingólfur upplýsir nú að starfs-nefnd ráðherra hafi ekki einu sinni skoðað þessar hugmyndir og þar af leiðandi ekki gert sér grein fyrir kostum þeirra og göllum. Má samt áætla að þessi leið sé mun ódýrari en sú sem nefndin leggur til og gæti þar munað allt að tveim tugum milljarða króna.

Staðsetning spítalans

Í skýrslu nefndarinnar er mikið rætt um nauðsyn þess að spítalinn sé staðsettur á lóð í nágrenni við háskólann og það talin vera forsenda þess að spítalinn geti gegnt hlutverki sínu sem háskólaspítali. Á fundi í byrjun apríl 2001 þar sem Ementor kynnti niðurstöður sínar fyrir þróunarnefnd spítalans (sem þá var enn starfandi) lýstu fulltrúar háskólans yfir því að þessi staðsetning skipti engu máli fyrir þetta hlutverk.

Undirritaður hefur nýlega látið af störfum eftir að hafa unnið á spítölum hér og erlendis í 40 ár. Alls staðar hafa menn rætt um þríþætt hlutverk spítala:

 1. Þjónusta við sjúklinga
 2. Kennsla heilbrigðisstarfsfólks
 3. Rannsóknir

Yfirgnæfandi í þessu efni er að sjálfsögðu þjónustan við sjúklingana. Umfang þessa þáttar í starfseminni er vafalítið vel yfir 90% af heildarstarfseminni. Það er því mjög nauðsynlegt að taka tillit til hagsmuna þeirra sem eiga erindi við spítalann.

Um 4.000 starfsmenn munu þurfa að mæta til vinnu á hverjum degi alla daga ársins. Hátt í 30 þúsund sjúklingar leggjast inn og ef til vill kemur annar eins fjöldi í heimsóknir. Um 50–60 þúsund koma á slysadeild á hverju ári.

Komur á dag- og göngudeildir skipta hundruðum þúsunda.

Nú vill svo til að spítalinn þjónar íbúum höfuðborgarsvæðisins sem eini spítali þess. Staðsetning hans hlýtur því að skipta miklu máli fyrir allt þetta fólk. Byggðin á höfuðborg-arsvæðinu hefur breyst mikið síðan spítalinn við Hringbraut var byggður í útjaðri hans fyrir 70 árum. Miðja byggðarinnar er samkvæmt upplýsingum skipulagsfræðings í Ráðhúsi Reykjavíkur nokkru austan við spítalann í Fossvogi. Þessi staðreynd er ekki nefnd í skýrslunni.

Mikið af atvinnustarfsemi er á austurhluta svæðisins og aðal umferðaræðar frá Vestur- og Suðurlandi ásamt Reykjanesbraut eru þar einnig. Framtíð nýrrar byggð-ar er ofan við Vesturlandsveg. Kringlumýrarbraut er við túnfót-inn.

Kennslu- og háskólahlutverk spítalans fer fram hvar sem spít-alinn er staðsettur og verður auð-vitað að laga sig að þörfum sjúklinganna. Samband hans við rannsóknar- og þróunarfyrirtæki getur gengið ágætlega þó staðsetningin sé í Fossvogi og mikil samskipti t.d. við Íslenska erfðagreiningu munu fara að mestu fram á rafrænan hátt.

Umferðarmannvirki

Ingólfur telur að kostnaður við umferðarmannvirki sem gera þarf ef spítalinn verður byggður eigi ekki að koma til álita við útreikning á kostnaði. Ég hélt að hugmyndin um færslu Hringbrautar hefði komið að frumkvæði ríkisins þegar svokölluð Week’s áætlun um þróun spítalans var gerð. Ríki og borg munu hafa gert um þetta samkomulag 1971 og ríkið átti að borga kostnaðinn gegn því að spítalinn fengi stærri lóð.

Ef mögulegt væri að fresta þessari framkvæmd enn mætti nota það fé sem ætlað er til þessa verks og flýta gerð mislægra gatnamóta t.d. við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Það er framkvæmd sem mun skila sér fljótt aftur í lægri slysa- og dánartíðni. Tenging lóðar spítalans við Kringlumýrarbraut kostar smáaura í samanburði við færslu Hringbrautar.

Niðurstaða

Þegar verið er að taka ákvarð-anir í svona stóru máli hljóta menn að líta til kostnaðar við fram-kvæmdirnar. Mér finnst fráleitt að nefnd ráðherra hafi ekki talið neina þörf á að skoða hugmyndir ráðgjafa sem hafa mikla reynslu í þessum efnum og þar að auki góða þekkingu á íslenskum aðstæðum. Ráðherra hlýtur að gera ráðstafanir til að skoða þennan möguleika betur. Ég hef miklar efasemdir um að nauðsynlegt fjármagn fáist nokkurn tíma til að fara út í þær miklu framkvæmdir sem nefndin leggur til. Hætt er við að nefndarálitið hljóti sömu örlög og Week’s áætlunin, þ.e.a.s. að rykfalla í einhverri skúffunni í ráðuneytinu.

Höfundur er læknir.

++++

Efst er mynd af höfuðborgarsvæðinu sem gerð var til þess að sýna ágæti Urriðaholts í stóra samhenginu og að neðan er mynd af Ólafi Erni Arnarsyni lækni sem fylgdi grein hans í Morgunblaðinu fyrir rúmum 14 árum.

 

AR-705169995

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2016 - 01:11 - 5 ummæli

EM 2016 og byggingalistin

13528790_10154969672173294_1746015633378370306_n

„We shape our buildings; thereafter they shape us“ sagði Winston Churchill. Eða „Fyrst móta mennirnir byggingrnar, og svo móta byggingarnar mennina“?

Því hefur verið haldið fram að þakka megi sparkvöllum við skólana og stóru knattspyrnuhúsunum velgengni íslendinga á EM 2016. Þanng að það á halda því fram með þessu dæmi að hin vísu orð forsætisráðherra breta standist.

 

Mér datt í hug að Googla leikvangana þar sem Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hefur farið fram og við tekið þátt í leiknum. Hér er stutt yfirlit yfir það sem ég fann. Þetta eru almennt flottir vellir sem voru byggðir eða endurbyggðirá undrastuttum tíma.

Stade de France er þjóðarleikvangur Frakklands og stendur norðan Parísarborgar í Saint-Denis milli 10 og 15 km frá miðborginni.

Völlurinn tekur 81.338 manns í sæti þegar fótboltaleikur er en eitthvað færri þegar keppt er í frjálsum íþróttum en þá er sætaskipan með örum hætti.

Völlurinn var upphaflega byggður fyrir heimsmeistarakeppnina í fótbolta árið 1998. Það var ákveðið aðeins 6 árum áður að Frakkland yrðu gestgjafar heimsmeistarakeppninnar.

Leikunum lauk með sigur Frakklands gegn Brasilíu 3-0.

Til gamans má geta þess að Michel Platini var formaður framkvæmdanefndar og það var hann sem gaf leikvanginum nafn.

Hönnun mannvirkisins var látin í hendur arkitektanna Michel Macary, Aymeric Zublena, Michel Regembal og Claude Constantini. Þeir hafa unnið gott verk en ég þekki þá ekkert.

Byggingaleyfið var gefið út 30. apríl 1995. Hornsteinninn var lagður fimm mánuðum síðar og það tók einungis 31 mánuð að ljúka verkinu. Þetta er gríðarlegt mannvirki. Til dæmis fóru um 180.000 m3 af steinsteypu í mannvirkið þó það einkennist af stáli sem meginbyggingarefni.

Eg vek athygli á því að ekki er gert ráð fyrir bifreiðastæðum fyir áhorfendum á Stade de France heldur er reiknað með að áhorfendur komi með almenningsfaratækjum. Enda væri allt of kostnaðarsamt að útvega einkabifreiðastæði fyrir meira en 80 þúsund manns á svæðinu. Stæði sem stæðu tóm 99% af tímanum.

Ef  samgönguás Aðalskipulags Reykjavík gengur eftir væri hægt að leggja öll almenningsstæði i laugardal niður og nota þá hektara sem þá losna úr viðjum einkabílsins í iðagrænar grundir til yndisauka fyrir börn, hunda, fugla og fullorðna. En forsendan er auðviað að við förum að þankagangi frakka

Að ofan er ein loftmynd frá þjóðarleikvangi Frakklands Stade de France á góðri stundu. Að neðan koma svo þrjár myndir af leikvanginum.

Þarna hefur fjöld poppara haldið konserta. Má þar nefna listamenn á borð við The Rolling Stones, Paul McCartney, Tinu Turner, U2, Celin Dion AC/DC, Coldplay, Eminem, Lady Gaga; Madonna, The Police og marga fleiri.

Það verður spennandi að fylgjast með hvernig frökkum gengur gegn Íslendingum þarna á sunnudaginn kemur!

paris-stade-de-france-4353

stadedefrance_tribunes_124818375148179600Hér sést hverig draga má áhorfendapallana til baka þegar keppt er í frjálsum íþróttum, en þá tekur völlurinn færri áhorfendur.

2043030_w1Fótboltauppstyllinng eins og verður næstkomandi sunnudag á Stade de France

1_454x340.

shutterstock_320891270

Stade Velodrome í Marselle tekur 67.394 manns í sæti og var upphaflega opnaður 1935 en formleg opnun var 1937. Hann var byggður fyrir heimsmeistarakeppnina 1938.

Síðan þá hefur hann oft verið endurnýjaður. Fyrst 1984 vegna Euro 1984 Championships og aftur fyrir heimsmeistarakeppnina 1998 og síðast 2011-2014 vegna EM 2016.

Árið 1998 var völlurin gjörsamlega endurbyggður og sætafjöldinn aukin upp í rúmlega 60.000 sæti. Vegna EM 2016 var völlurinn aftur endurbyggður og bætt við um 7000 sætum og bætt við skyggni sem nær nánast yfir allan völlinn og er einkennandi fyrir völlinn.

Við Stade Velodrome eru heldur nánast engin bifreiðastæði ætluð áhorfendum.

Framkvæmdunum lauk árið 2014.

Arkitektarnir eru Henri Ploquin, Jean-Pierre Buffi en þeim hefur telist að laða fram fallegasta form vallanna þriggja sem hér er lauslega fjallað um.

Að ofan er loftmynd af vellinum sem á sér langa sögu. Það er ótrúlegt að sjá hvað lengi er hægt að byggja við og breyta húsum án þess að byrja sífellt frá grunni. Stade Vekodrom minnir nokkuð á verk BIG í Grænlandi hvað formmál snertir þó byggingin sé annarrar gerðar og hafi annan tilgang.

Sjá má umfjöllun umverk BIG hér:

Grænland- BIG is getting bigger

Að ofan er ein mynd af mannvirkinu og að neðan koma tvær myndir til viðbótar.

image-4494090

Corporate-Hospitality-UEFA-EURO-2016-Stadion-MarseilleHér er tölvumynd af leikvanginum og næsta umhverfi hans.

stade-de-nice-euro2016

Allianz Riviera í Nice er minnsti völlurinn af þeim sem hér er fjallað um. Þar er gert ráð fyrir 35.624 áhorfendum. Þetta er alveg ný bygging, mest úr stáli og gleri. Framkvæmdir byrjuðu 2011 og þeim var lokið tveim árum síðar þann 22 september 2013.

Hér eins og á hinum tveim völlunum eru nánast engin einkabifreiðastæði enda ætlast til að áhorfendur komi á svæðið með almenningsflutningum.

Ef vel tekst til með samgönguás aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 þá má, samkvæmt þessu, leggja niður öll bifreiðastæði í Laugardalnum í Reykjavík.

Það verður spennandi að fylgjast með þeirri áætlun.

Arkitektinn er Jean-Michel Wilmont

ÁFRAM ÍSLAND!

stade-de-nice-coutTölvumynd séð úr lofti.

grand-stade-nice

Le nouveau stade de Nice, vu du cielThe real thing.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is