Miðvikudagur 20.5.2015 - 08:14 - 19 ummæli

Er staðsetning Landspítalans í uppnámi ?

 

Þegar rætt er um ágæti staðsetningar landsspítalans við Hringbraut er einkum vitnað í tvær opinberar skýrslur.

Önnur er frá árinu 2002 og heitir „Framtíðarskipulag og uppbygging Landspítala Háskólasjúkrahúss“.

Hin  er greinargerð frá árinu 2008 um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnanna þar sem skoðaðir eru byggingastaðir í Fossvogi,  við Vífilsstaði, við Hringbraut auk nýs valkosts í landi Keldna.

++++

Það sem vekur athygli er að fyrri skýrslan er úrelt og ónothæf vegna margskonar breytinga sem orðið hafa síðan hún var samin og hin frá árinu 2008 er ekki aðgengileg og finnst hvergi. Það veit eiginlega engin hvað stendur í henni. Það verður spennandi að lesa greinargerðina frá 2008 þegar hún finnst. Þar hlýtur að vera tekið sérstaklega á þeim atriðum í 2002 skýrslunni sem ekki eiga lengur við og mótvægisaðgerða vegna þeirra.

Þegar sagt er hér að skýrslan frá 2002 sé úrelt er það vegna mikilla breytinga sem orðið hafa á flestum sviðum síðan hún var samin. Margar forendur fyrir niðurstöðunni hafa breyst og eru ekki lengur fyrir hendi.

Forsendur fyrir niðurstöðu skýrslunnar frá árinu 2002 voru m.a. nálægð við flugvöllinn, göng fyrir bifreiðaumferð undir Öskjuhlíð og þaðan undir Kópavog sem tengjast átti Reykjanesbrautinni við Smáralind. (Sjá skipulagsupdrátt að neðan) Þá var ein af forsendunum, Hlíðarfótur, sem er vegur sem átti að liggja frá Hringbraut vestur og suðurfyrir Öskjuhlíð og tengjast þar Kringlumýrarbraut.

Engin af þessum samgöngubótum eru lengur á aðalskipulagi og auk þess sem höfundar skipulagsins telja að forsenda fyrir uppbyggingu á Hringbrautarlóðinni sé að flugvöllurinn fari. Þeir segja að spítalinn þá þessum stað óhugsandi ef flugvöllurinn fer ekki. Áður var forsendan að hann yrði kyrr.

Svo var áhersla lögð á að staðsetning vð Hringraut mundi styrkja miðborgina ásamt því að mikilvægt var talið að nálægð væri við HÍ.

Margir telja nú að nálægðin við HÍ sé ofmetin enda eru einungis um 150 manns sem vinna á báðum stöðunum meðan um 5000 munu vinna á spítalanum og öll samskipti með öðrum hætti en á árinu 2002. Miðborgin þurfti á stuðningi að halda fyrir 13 árum en þarf þess ekki lengur. Hún er reyndar orðin svo sterk að fólk með meðallaun og minna hefur vart efni á að búa þar lengur.

Við þetta bætast svo fjölmargir þættir sem tengjast okkar frábæra nýja aðalskipulagi, AR 2010-2030, svo sem  menningarstefnu og  samgöngustefnu sem hafa komið til síðan skýrslan var gefin út í janúar 2002.

Hringbrautarskipulagið er ekki í samræmi við þá heildarmynd sem aðalskipulagið mótar og nú blasir við.

Af þessu má sjá að skýrsluna frá 2002 er ekki hægt að nota sem rökstuðning fyrir staðsetningu spítalans lengur. En menn gera það samt. Ef grannt er skoðað m.t.t. allra breytinganna sem orðið hafa talar hún nú jafnvel gegn staðsetningu spítalans við Hringbraut.

Svo er það greinargerðin frá 2008 sem ekki finnst þó eftir hafi verið formlega leitað. Bæði hjá borginni ráðuneyti, Landspítala ohf og skipulagshöfundum eftir því að mér er sagt. Engin greinargerð frá 2008 finnst þó menn noti hana til þess að færa rök fyrir staðsetningunni við Hringbraut eins og þeir kunni hana utanað (!)

++++

Vissulega hafa verið gerðar ýmsar mótvægisaðgerðir til að mæta þeim breytingum sem hafa orðið síðan skýrslan frá 2002 var kynnt. Þar ber fyrst að nefna samgöngustefnu Landspítalans sem mörkuð er í deiliskipulaginu. Hún er ágæt og henni ber að fagna. Þar er talað um að fá fleiri til þess að ganga og hjóla ásamt því að styrkja almenningsflutninga um Hringbraut. En hafa ber í huga að samgöngukerfið á að fylgja skipulaginu en ekki öfugt. Leiðkerfi Strætó er ekki ráðandi afl í skipulagsvinnunni heldur þjónandi. Skipulagið á ekki að þjóna Strætó, heldur öfugt.

++++

Það gengur ekki að þeir sem að þessu standa líti undan og skjóti skollaeyrum við þeirri heidarmynd sem aðalskipulagið AR2010-2030 markar og þeim staðreyndum sem velviljaðir og lausnamiðaðir gagnrýnendur framkvæmdarinnar setja fram. Fylgjendur uppbyggingar við Hringbraut þurfa að skýra málið betur út fyrir fólki og svara þeirri gagnrýni sem fram hefur komið. Gagnrýni sem studd er af skipulagslegum, arkitektóniskum , menningarlegum og fjárhagslegum rökum. Þetta er lausnamiðaðri gagnrýni til bóta frá fólki sem vill byggja nýjan spítala sem fyrst.

Það gengur ekki lengur að fólk stingi höfðinu í sandinn og svari ekki gagnrýninni með faglegum hætti.

Manni sýnist að fylgjendur noti aðallega tvenn rök fyrir að halda eigi áfram á markaðri leið. Annarsvegar að það sé fyrir löngu búið að ákveða staðsetninguna og hinsvegar að það sé of seint að breyta um stefnu. Við meigum engan tíma missa og verðum að hefja framkvæmdir strax. Þessi rök eru ekki tæk enda búið að nota þau í meira en fimm dýrmæt ár.

Nú virðist forsendur ákvarðarinnar fyrir löngu brostnar og því er haldið fram að opnun sjúkrahússins muni ekki seinka að marki þó farið sé ný hagkvæmari leið. Sagt er að spítali á betri stað verði jafnvel fyrr tekinn í notkun  en Hringbrautarlausnin af margvíslegum ástæðum.

Í samræmi við allt þetta má vissulega spyrja hvort staðsetning þjóðarsjúkrahússins sé í uppnámi.

++++

Það er fróðlegt að lesa skýsluna frá árinu 2002. Hún er bæði vönduð og vel skrifuð.  Skýrsluna má finna hér:

. http://www.nyrlandspitali.is/…/framtidaruppbygging_lsh…

+++++

Á facebooksíðu Samtaka um Betri spítala á betri stað má finna ýmsan fróðleik um skipulagsmál spítalans og afleiðingar staðsetningarnar. Þar er fjallað um málið út frá skipulagslegum forsendum, starfrænum og fjárhagslegum. Flest skrifað með afar hógværum og faglegum hætti.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

+++++

Á myndinni að neðan sjést hvar Ökjuhlíðargöng eru teiknuð inn ásamt göngum undir Þingholtin. Þessi samgönguúrræði eru ekki inn í núgildandi skipulagi en voru forsendur staðarvalsins í skýrslunni frá 2002.

http://midborg.blog.is/img/tncache/400x400/04/midborg/img/adalskipulag_framhlid-2.jpg

Kannanir

Í gær var birt á síðunni „Betri Landspítali á Betri stað“ graf sem sýnir niðurstöðu í fimm könnunum um afstöðu almennings til skipulagsins. Niðurstaðan er sú andstaða almennings við uppbyggingu við Hringbraut fer vaxandi.  Það er samt rétt að vekja athygli á því að ákvörðun á borð við staðsetningu sjúkrahúss á ekki að taka með skoðanakönnunum heldur með fræðilegum og faglegum hætti og í sátt.

Við þessu þarf Landspítali ohf og heilbrigðisyfirvöd að bregðast. Annaðhvort með því að skýra fyrirliggjandi skipulag betur út fyrir almenningi eða að finna betri stað fyrir spítalann. Grafið kemur hér að neðan:

Svo í lokin er hér þriggja ára gömul yfirferð frá RUV um málið þar sem skipulagsmáin eru rædd. Fróðleg uppryfjun:

 

Ný könnun.

Viðbót: 20.05. 2015 kl 12:00

Í Ríkisútvarpinu í morgun var sagt frá nýrri könnun um Landspítalann þar sem niðurstaðan er nokkuð önnur en í þeim könnunum sem tíundaðar eru að ofan. Það er spurt um tvennt. Annarsvegar um hvort fólk sé því fylgjandi að byggður verði nýr spítali og hinsvegar hvort það væri ánægt með staðsetninguna við Hringbraut?

Niðurstaðan um hvort byggja eigi nýtt sjúkrahús kom ekki að óvart. Mikill meirihluti vill það.

Svörin við hinni spurningunni voru nokkuð á aðra lund en fyrri kannsnir. 46.6% Vilja byggja við Hringbraut en 28% eru á móti því.

En það kemur mér á óvart að andstaðan við uppbygginguna við Hringbraut skuli ekki vera meiri. Það er vegna þess að þarna er mikill munur á fyrri könnunum.

Það þarf að greina könnunina og leita skýringar á þessum mismun.

Mér dettur í hug hvort orðalag spurninganna hjá Maskina geti verið hluti af skýringunni en það kemur ekki fram á síðu Maskina sem er afskaplega slæmt. Svo er það önnur skýring sem getur skipt máli og það er að í könnun Maskínu er ekki boðið upp á annan kost. Fólk getur skilið það sem Hringbraut eða ekkert!

Hér koma nánari upplýsingar.

Mikill stuðningur við byggingu nýs Landspítala

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru um fjórir af hverjum fimm Íslendingum fylgjandi því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum en slétt 6% eru því andvíg

 

 

pie1

 

tafla1

 Tæplega helmingur sáttur við Hringbraut

Tæplega helmingur Íslendinga segist sáttur við að nýr Landspítali verði reistur við Hringbraut, verði hann á annað borð reistur. Talsvert færri (28%) segjast þó vera ósáttir við staðsetninguna við Hringbraut.

 

 

 pie1
tafla2

Viðbót 21.05.2015 kl.: 8.30

Eftir gagnrýni á að spurningarnar voru ekki birtar með úrlitum könnunarinnar hefur fyritækið Maskina sem stóð að könnuninni upplýst orðalag spurninganna tveggja.

„Orðalag spurninganna var eftirfarandi:

Ertu fylgjandi eða andvíg(ur) því að nýr Landspítali verði reistur á næstu árum?

Verði nýr Landspítali reistur, hversu sátt(ur) eða ósátt(ur) ertu við að hann rísi við Hringbraut?“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.5.2015 - 05:42 - 9 ummæli

Lítið og fagurt sumarhús

Slice / Saunders Architecture

Þegar meta á gæði byggingalistar skiptir stærðin ekki máli

Litlar byggingar upp á 15-20 fermetra geta verið áhrifameiri en 5.000-15.000 m2 hús.

Lítil hús gefa arkitektinum oftast meira frelsi en þegar hann er að hanna stórbyggingu. Þegar um lítið hús er að ræða er auðveldara fyrir hönnuðinn að gagnrýna verk sitt á hvaða stigi hönnunarinnar sem er og byrja upp á nýtt.

Þegar um stórbyggingu er að ræða er það erfiðara. Til dæmis eftir að verkfræðingar og aðrir hönnuðir eru byrjaðir á sinni vinnu er nánast ekki hægt að endurskoða teikningarnar í grundvallaratriðum. Það þarf allavega þung rök til þess og nokkurn vilja.

Þetta litla hús sem hér er kynnt ber af sér sérstakann þokka. Það er lítið og það fullnægir öllum venjulegum þörfum fyrir svona hús og það rétt tillir sér á landslagið á mjög nærgætinn hátt. Þetta er gestahús sem nýtur stuðnings frá aðalhúsinu en gæti, með smá breytingu, eins verið sjálfstætt og heildstætt sumarhús.

Húsið og veröndin ganga upp í eina óaðskiljanlega heild. Arkitektinn Todd Saunders kalla húsið „sneiðina“ sem er auðskilið. (sbr. kökusneið eða ostsneið)

Húsið er í Noregi og er teiknað af Saunders Architecture og stendur í Haugasundi.

Neðst er grunnmynd og snið.

.
Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

Slice / Saunders Architecture

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.5.2015 - 07:57 - 4 ummæli

Hvaðan kemur orðið „hönnun“?

Tryggvi Thayer  hefur skrifað áhugaveðan pistil undir heitinu „Hvaðan kemur orðið „hönnun“‘ sem fylgir hér á eftir.

Tryggvi  er verkfnastjóri Menntamiðju á Menntavísindasviði HÍ auk þess að vera adjunkt í nýsköpunarfræðum og Ph.D kandidat í stefnumótun í menntun við Háskolann í Minnesota.

Pistillinn að neðan er vel skrifaður og sérlega áhugaverður.

++++++

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls. Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design). Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

++++++

Rannsóknarsvið Tryggva snýr aðallega að framtíð menntunar í ljósi tækniþróunar. Í tengslum við það hefur hann notað hönnunarnálgun (e. design thinking) með aðferðum framtíðarfræða til að hvetja skólastjórnendur, kennara og stefnumótendur til að hugsa á skapandi hátt um mögulegar framtíðir í menntun (sjá t.d. https://www.idunn.no/dk/2014/02/constructing_optimal_futuresfor_education_-_technology_for).

 

p

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.5.2015 - 12:09 - 15 ummæli

Gömlum verðmætum tortímt

 photo11

Ég kom inn á nýinnréttað veitingahús í miðborg Reykjavíkur nýlega. Veggklæðning vakti athygli mína en hún er sennilega  í samræmi við tíðarandann.

Hönnuðurinn hafði valið að taka einar 10 ágætar gamlar spjaldhurðir (fulningshurðir) og saga þær niður og setja upp í eitthvað gjörsamlega óskiljanlegt munstur og skrúfa þær fastar á einn vegginn.

Í mínum huga er þetta ekkert annað en gróft skemmdarverk á gömlu handverki. Mér var hugsað til gömlu mannanna fyrir um hundrað árum, eða kannski 150 árum, sem með sín frumstæðu handverkfæri stunduðu iðju sína af vandvirkni og fagmennsku.

Og svo eru það lamirnar, hurðahúnarnir og rósetturnar umhverfis skráargötin. Allt gersemi í augum þeirra sem sjá og skilja svonalagað.

Svo er þetta allt skemmt af fullkomnu virðingar- og tilgangsleysi.

Mér var líka hugsað til allra gömlu húsanna sem nú er verið að endurnýja um allt land, og eyðibýlanna sem verið er að gefa nýtt líf.  Þar eru hurðir af þessari gerð eiginlega forsenda þess að vel takist til.

Svo koma menn sem handfjatla þessi verðmæti á svipaðan hátt og ISIS gera með fornminjar austur í löndum, og tortíma þeim. Allt siðað fólk er forviða yfir framgöngu ISIS manna og hneykslast. Sitja kannski með einn kaldann undir þessum vegg og hneykslast á ISIS og framferði þeirra og  virðingaleysi þeirra fyrir fortíðinni.

En þetta sér maður víða í smáu og stóru, því miður.

Að neðan og efst eru myndir af sundursöguðum hurðunum.

+++++

Til gamans vek ég athygli á skólaverkefni Aldísar Gísladóttuir sem lærði á Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn. Verkefnið er endurreisn eyðibýlis á Íslandi.  Deildin fyrir endurbyggingu eldri húsa er nú um stundir sú vinsælasta á arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn að því mér er tjáð.

Í greinargerð Aldísar stendur m.a. „Hvis de islandske gårde ikke skal forsvinde må vi gribe ind og finde en metode til at bevare kulturarven før det bliver for sent og der kun står ruiner tilbage af det liv som en gang var“

Slóðin að verkefni Aldísar er þessi:

http://studark.dk/?p=9568#more-9568

 

 

 

 

photo22

 

photo33

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.5.2015 - 08:45 - 2 ummæli

Páll Skúlason um gagnrýni

Af gefnu tilefni langar mig til þess að vitna í bókina „Pælingar“ eftir vin minn Pál Skúlason heimspeking (1945-2015)  þar sem hann veltir fyrir sér spurningunni um hvort hægt sé að kenna gagnrýna hugsun? Hann segir á einum stað:

Frá sjónarhóli vísinda og fræða skiptir svarið við spurningunni sköpum vegna þess að skipuleg þekkingar og skilningsleit er óhugsandi án gagnrýnnar hugsunar.  Ef menn væru ekki sífellt að gagnrýna kenningar, aðferðir og vinnubrögð í vísindum mundu vísindin staðna og smám saman verða úr sögunni.  Framfarir eru undir því komnar að menn efist um gildi ríkjandi kenninga,  reyni að finna á þeim veika bletti.  Þetta virðist raunar vera eitt helsta skilyrðið fyrir framförum á hvaða sviði sem vera skal:  að litið sé gagnrýnum augum á þau vinnubrögð sem tíðkast og reynt að finna önnur betri;  að reynt sé að finna galla á verki  –  hvert sem það er – til að unnt sé að gera betur.

Og síðar skrifar Páll í umræddum  bókarkafla:

Hagnýtt gildi hugmynda og skoðana er svo augljóst að raunar er ástæðulaust að eyða orðum að því.  Þó er eins og margir sjái það ekki og vanræki gersamlega að hirða um skoðanir sínar og hugmyndir, rétt eins og þeir haldi að þær geti gengið sjálfala og þurfi engrar aðhlynningar við.  Því miður er fátt eins fjarri sanni.  Hugsanir eru meðal viðkvæmustu vera í þessum heimi og þær lifa einungis og dafna í þeim sem lætur sér annt um þær.

Í dægurmálaumræðunni þyrfti fólk  að hafa þessi orð Páls Skúlasonar í huga og átta sig á að ef vel er á haldið eru það hugmyndir og hugsanir sem takast á og fleyta okkur áfram, ekki einstaklingar eða hópar.

Fólk þarf líka að átta sig á að gagnrýnendur hugmynda sem maður aðhyllist eru ekki andstæðingar,  heldur samstarfsmenn í leitinni að  þeirri slóð sem heppilegast er að feta.

Blessuð sé minning Páls Skúlasonar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.4.2015 - 11:12 - 9 ummæli

„Betri spítali á betri stað“

Nú er búið að stofna Facebooksíðuna „Samtök um betri spítala á betri stað“ sem kallar eftir opinni fordómalusri umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt sjúkrahús.

Þetta virðist vera framsýnn, faglegur og lausnamiðaður hópur sem tekur á hlutum sem enginn einstaklingur hefur haft tök á að gera með sama hætti áður.  Samkvæmt kynningunni er það þverfaglegur hópur sérfræðinga sem að síðunni standa. Þau hafa að markmiði að byggður verði spítali sem er ódýrari í byggingu og rekstri og að sjúkrahúsið verði betra en það getur orðið við Hringbraut, að hugsað sé til lengri framtíðar, öllum til heilla.

Hópurinn hefur m.a.  skoðað fjárhagshliðina og komist að því að það er hagstæðara að byggja skjúkrahúsiðá nýjum stað  austar í borginni og nær þungamiðju búsetunnar.  Þetta á bæði við um stofnkostnað og rekstur þar sem sparnaðurinn skiptir milljörðum að sögn. 

Þetta virðist vera í fyrsta sinn sem svona samanburður er gerður og hann birtur.

Á síðunni tekið á mörgum málum og framkvæmdin skoðuð frá mörgum sjónarhornum sem ekki hafa verið reifuð með sama hætti áður.

Slóðin er þessihttps://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Allar færslur „Samtaka um betri spítala á betri stað“  enda á orðunum: Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu, sem er vísbending um opna fordómalausa nálgun teymisins og ósk um skoðanaskipti.

Ég leyfi mér að birta hér tvær fésbókarfærslur trymisins. Sú fyrri er fjárhagslegursamanburður  og sá síðari fjallar um Aðalskipulag Reykjavíkur .:

 

-Fjárhagslegur samanburður eftir staðsetningu.

Þeir staðir sem bornir hafa verið saman eru Hringbraut, Fossvogur og það sem við köllum „Besti staður“ sem er staður nálægt þungamiðju búsetu höfuðborgarsvæðisins, sem liggur vel við tengibrautum umferðar. Þetta er staðurinn sem flestir eiga styst að fara á. Þennan stað á eftir að finna, það er á verksviði þeirra sem sjá um bogarskipulagið og byggingu Landspítalans.

Við miðum við að heildar byggingarmagn sem verður til ráðstöfunar á þessum þremur stöðum verði sambærilegt, annað hvort uppgert gamalt húsnæði eins og á Hringbraut og að hluta til í Fossvogi eða allt byggt nýtt frá grunni eins og á „Besta stað“. Heildar fermetrar f.u. bílastæðahús sem fyrirhugaðir eru á Hringbraut eru 153.987 og það þarf lítillega minna í Fossvogi og á Besta stað því minna er af tengibyggingum, brúm og þess háttar á þeim stöðum en á Hringbraut þar sem spítalinn yrði í rúmlega 20 húsum.

Byggingarkostnaðurinn lítur svona út með bílastæðahúsum:
Hringbraut 53,8 milljarðar króna (skv. lögum)
Fossvogur 59,1 milljarðar króna
Besti …….. 51,9 milljarðar króna

Ef tekið er tillit til fyrirsjáanlegra umferðarmannvirkja sem þarf að reisa þegar umferðaræðar springa vegna stóraukinnar umferðar er dæmið svona:
Hringbraut 74 milljarðar króna
Fossvogur 69 milljarðar króna
Besti …….. 57 milljarðar króna

Samkvæmt þessu er hagstæðast að byggja frá grunni á „Besta stað“ þó ekki sé fyrir hendi gamalt húsnæði sem má nýta eins og á hinum stöðunum. Ástæðan er m.a. að: það kostar líka að endurgera húsnæði; það er hagstætt að byggja frá grunni þar sem nóg rými er fyrir hendi o.fl. og; söluverðmæti eigna á Hringbraut og í Fossvogi er verulegt.

Þetta er fyrir utan þann stóra hag sem er af því að hafa spítalann á stað þar sem flestir eiga sem styst á hann. Þegar það er tekið með í reikninginn verður munurinn á „Besta stað“ og hinum verulega sláandi eða um 7 milljarðar króna á ári „Besta“ í vil.

Við sem þjóð höfum ekki efni á að missa af þeim hag, sérstaklega þegar þess er gætt að í neyðartilvikum eru batahorfur betri þegar stutt er á spítalann. Það munu um 100 sjúkrabílar koma að meðaltali á sólarhring að nýja spítalanum. Eins gott að stutt sé á hann.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Landspítalinn og Aðalskipulag Reykjavíkur

Ef staðsetja á spítalann í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 ( AR 2010-2030) ætti að finna honum stað sem stuðlar að styttri ferðatíma, minni umferð, minni mengun og minni þörf fyrir ný umferðamannvirki.

Þetta er best gert með því að færa þennan mannfrekasta vinnustað landsins austar í borgina, nær þungamiðju búsetu. Þannig má minnka umferðartafir, stytta ferðatíma og nýta betur umferðamannvirki sem fyrir eru.

– Takmarkanir vegna kröfu um aðlögun að gömlum byggingum

Eitt markmið aðalskipulagsins lýtur að því að ný byggð aðlagist þeirri sem fyrir er í samræmi við menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Þess utan er ákvæði í skipulaginu um að hús innan gömlu Hringbrautar verði ekki hærri en sem nemur 5 hæðum.

Erfitt er að samræma þetta mikla mannvirki þeim gömlu byggingum sem fyrir er og hæð sjúkrahússins er talin þurfa að vera mun meiri. Til að mynda er meðferðarkjarninn samkvæmt deiliskipulagi á pari við rúmlega 8 hæða íbúðarhús.

Meira um þetta síðar.

> Taktu þátt í umræðunni. Láttu í ljós skoðun þína á þessari færslu.

Sjá einnig : https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad?fref=nf

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2015 - 11:21 - 9 ummæli

Gamlar hetjur byggingalistarinnar

Mér var bent á síðu þar sem er að finna frábærar ljósmyndir af þeim arkitektum sem höfðu mest áhrif á byggingalistina á síðustu öld. Ég leyfi mér að birta þær hér. Ég veit ekki hver höfundarnir eru en myndirnar eru fengnar af síðu David Pascular Cesar.

Þetta voru allt gríðarlega sterkir arkitektar sem breyttu byggingalstinnu um allan heim. Þetta voru hetjur vegna þess að þeir voru á sama tíma frábærir fræðimenn og einstaklega sterkir hönnuðir. Þess utan voru þeir sterkar og ábersndi persónur. Það gustað af þeim hvar sem þeir gengu.

Í því sambandi má nefna að sagt var að Frank Lloyd Wright hafi haft svo mikla áru eða persónutöfra að kristalljóskrónurnar í lofti andyris Waldorf Astoria hotelsins á Lexington Avenue í NY hafi glamrað í hvert sinn sem hann gekk þar hjá.

Efst er fræg ljósmynd af Mies van der Rohe (1886-1969)

 

Frank Lloyd Wright (1867-1959) http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/09/19/chicago-that-is-wright-all-right/

 

I.M. Pei  (1917-), sem er langyngstur þeirra sem hér eru nefndi,r við meistarastykki sitt, aðalinnganginn í Louvre í París.

http://www.archdaily.com/tag/i-m-pei/

Frank Lloyd Wright sem dó 9. apríl 1959, aðeins hálfu ári áður en Guggenheim í NY var opnað almenningi. Þarna stendur hann á svölum (?) safnsins. Hönnun og bygging safnsins tók 16 ár  frá 1943 til 1959.

Braziliski arkitektinn Oscar Niemeyer  (6. f.v.)og Le Corbusiere (2.f.v.) í hóp snillinga vegna byggingar aðalstöðva Sameinuðu Þjóðanna í NY.

Í  United Nations Board of Design voru alþjóðlegur hópur arkitekta: Wallace K. Harrison (USA) – Director of Planning, N. D. Bassov (Rússland),  Gaston Brunfaut (Belgiu),  Ernest Cormier (Canada),  Le Corbusier (Frakklandi),  Liang Seu-cheng (Kína),  Sven Markelius (Svíþjóð),  Oscar Niemeyer (Brasilíu),  Howard Robertson (Englandi), G. A. Soilleux (Ástralíu),
and Julio Vilamajó (Uruguay).

Sagt var að Le Corbusiere hefði stundað myndlist fyrir hádegið og byggingalist eftir hádegið, eða öfugt. Allavega er það nokkurn vegin verklag sem flestir arkitektar gætu sætt sig við.

Oscar Niemeyer hafði gaman af konum og lifði nokkuð á aðra öld. Hann dó fyrir rúmum tveim árum og var oft kallaður „síðasti modernistinn“

http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/10/07/oscar-niemeyer-bratt-102-ara/

og

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/12/14/ocar-niemeyer-104-ara-the-last-modernist/

Philip Johnson(1906-2005) fyrir framan  Glass House.

http://www.architecturaldigest.com/architecture/2012-09/architect-philip-johnson-glass-house-modernism-article

Mies http://blog.pressan.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

og

http://blog.pressan.is/arkitektur/2011/02/28/mies-is-more-innretting-ibuda/

Louis Isadore Kahn (1901-1974) http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/02/25/louis-i-kahn-og-songvar-vidisins/

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.4.2015 - 16:21 - 19 ummæli

Spítalinn Okkar.

Landspítalinn og bætt húsnæðismál hans njóta mikils stuðnings frá öllum almenningi.

Stjórnmálamönnum er umhugað um að bæta ástandið. Læknar og starfsfólk er á einu máli um nauðsyn þess að verkefnið fari af stað sem allra fyrst.  Sama má segja um arkitekta og skipulagsræðinga. Allir eru á einu máli um að það þurfi að hefjast handa um lausn málsins eins fljótt og auðið er.

Í þessu ljósi spyr maður af hverju uppbyggingin sé ekki fyrir löngu hafin og verkefninu lokið?

Það læðist að manni sá grunur að helstu fyrirstöðuna sé að finna í því að ekkert hefur verið endirskoðað frá því um aldamót. Það kemur fram deiliskipulaginu sjálfu og þeim áætlunum sem því fylgja.

Það hefur svo mikið breyst á síðustu 15 árum að það sendur varla steinn yfir steini. Það er ekki sátt um málið.

Nýjum Landspítala ohf hefur ekki tekist að selja fóki staðsetninguna, hugmyndina og deiliskipulagið eða ekki tekist að aðlaga  hugmyndirnar að breyttum aðstæðum. Stjórnmálamenn eru hikandi og forðast ákvarðanatöku á fyrirligjandi grunni. Skoðanakannanir sýna að læknar vilja ekki þessar áætlanir og allur almenningur er að mestu á móti hugmyndunum.

Deiliskipulagið stenst ekki Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð og er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkur á margan hátt og stenst varla samgöngumarkmið aðalskipulagsins.

Talsmenn spítalans segja að ákvarðirnar hafi verið teknar fyrir löngu og þeim verði ekki breytt.

Hinir sem eru í vafa segja einmitt að ástæða sé til þess að endurkoða staðsetninguna og umsvifin vegna þess að það sé svo langt síðan að ákvörðunin var tekin og allt hafi breyst!

Frá því að umdeilanlegt staðarval fór endanlega fram árið 2002 hefur allt breyst. Ákvörðunin var tekin í byrjun góðærisins. Peningarnir sem ætlaðir voru til verksins eru ekki lengur fyrir hendi. Landverð og mat á landkostum hefur breyst. Yfir okkur hefur gengið efnahagshrun. Reykjavíkurborg hefur fengið nýtt frábært aðalskipulag og margt fleira.

Fyrir fimm árum var talið of seint að endurskoða staðsetninguna eða umsvif verkefnisins. Enn í dag eru helstu rökin fyrir því að ekki megi  breyta núverandi áætlunum einmitt að það sé of seint og að ákvörðunin löngu tekin.

Gagnrýni á deiliskipulagið ætti að vera fagnaðarefni fyrir aðstandendur deiliskipulagsins vegna þess að þeim gefst þar tækifæri til þess að rökstyðja áætlanirnar betur, selja hugmyndina. Það vilja allir veg spítalans sem mestan og greiða götu hans til farsældar. Við eigum að tala saman viðurkenna breyttar forsendur og breyta afstöðunni ef tilefni er til. Ekki stinga höfðinu í sandinn. Ná sáttum.

++++++

Ég vek athygli á því að nýjasta innlegg á hemasíðu aðstandenda spítalans  http://nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/forsida/  er frá 21. ágúst 2013 sem segir sína sögu. Síðan virðist hafa fengið snökkt ótímabært andlát fyrir bráðum tveim árum og getur því ekki tekið þátt í þeirri blómlegu umnræðu sem nú á sér stað. Eða vill kannski  ekki eiga samtal við fólk sem ber hag spítalans fyrir fyrir brjósti.

Hönnunarteymið, Spítalhópurinn, heldur ekki úti heimasíðu svo ég hafi orðið var við.

Hinsvegar er önnur síða sem er lifandi og ágæt. En það er síðan http://www.spitalinnokkar.is/is Ég ráðlegg fólki að skoða hana. Það er samt einkennandi fyrir báðar þessar síður að þær eru ekki gagnvirkar eins og er tilfinnanlegt undir liðnum „spurt og svarað“ sem má sjá hér: http://www.spitalinnokkar.is/is/spurt-og-svarad

Samtal um þessa fram,kvæmd er nánast án þáttöku aðstandenda spítalaframkvæmdarinnar.

+++++

Við eigum að fagna því þegar einhver gerir tilraun til þess að opna hurðir eða opna nýja glugga sem varpa nýju ljósi á málið. Taka til málefnalegrar umfjöllunar hugmyndir á borð við þær sem Magnús Skúlason arkitekt og Páll Torfi Önundarson professor lögðu fram fyrir mörgum árum og nýlegri ábendingu forsætisráðherra um aðra staðsetningu. Eða finna spítalanum annan stað. http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/02/24/husnaedisvandi-landspitalans-onnur-nalgun/ Svo má ekki gleyma fróðlegri síðu sem heitir Hin Hliðin þar sem safnað hefur verið saman ýmsum gögnum sem varða málið: http://nyrlandspitali.com/

+++++

Brjótum odd af oflætinu. Viðurkennum forsendubrestinn og breytingarnar frá árinu 2002, ræðum málið og endurskoðum áætlanirnar í ljósi breyttra aðstæðna ef þörf er á.

Að því loknu verður hægt að hefja framkvæmdir í sátt. Töfin er í hæsta lagi 2-4 ár. Í millitíðini leikum við biðleik í anda hugmynda Páls Torfa prófgessors og Magnúsar Skúlasonar arkitekts.

Þetta verður langstærsta opibera framkvæmd íslandssögunnar. Samkvæmt kostnaðaráætlun frá okt. 2012 mun aðeins 1. áfangi kosta um 85 milljarða króna að mér er sagt. Nauðsynlegt er að þetta mikla mál sé í stöðugri skoðun frá mörgum áttum.

+++++

Að neðan er að lokum mynd fengin af síðu Ágústar H. Bjarnasonar verkfræðings sem sýnir samhengi lóðanna sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur vakið athygli á  og heyra undir RUV og Borgarspítalann.

+++++

Hér er fjallað um útvarpsviðtal vegna málsins sem sent var út í liðinni viku: http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/04/08/likir-nyjum-spitala-a-hringbraut-vid-sko-oskubusku-foturinn-kemst-bara-ekki-i-skoinn/#.VSVelg1gk40.facebook

ruv-landspitali-001

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.4.2015 - 08:12 - 9 ummæli

Sól í Skugga

Völundur9

Ég hef stundum fjallað um skipulag í Skuggahverfinu og tekið sem dæmi um skipulagsmistök.

Vegna færslunnar „Veruleiki í kjölfar skipulagsferils“ hafa nokkrir haft samband við mig og ég hitt á götu, bæði aðliar sem hafa staðið að uppbyggingunni. Ég varð þess áskynja að þeim nánast sárnaði umfjöllun mín um hverfið. Íbúar á svæðinu sendu mér hjálagðar ljósmyndir og heimiluðu birtingu þeirra.

Ég vil taka það fram að ég vil síst af öllu valda fólki óþægindum eða hugarangri þegar ég fjalla um arkitektúr og skipulag. En það er þannig að ef maður fjallar um þessi mál af heiðarleika og segir það sem manni finnst þá getur  farið svo að umfjöllunin verði neikvæð hvað enstök atriði varða.

En það má ekki draga þá ályktun að allt sé ómögulegt og ekki við bjargandi. Þvert á móti. Því er nefnilega þannig háttað að allir eru að gera sitt besta þó árangurinn verði sjaldnast gallalaus.

En öll hverfin og öll verkin hafa líka sína kosti. Það á vissulega líka við um Skuggahverfið.

Kunningi minn sem ég hitti á götu sagði að í opinberri umræðu um skipulagið í Skuggahverfinu sé sjaldan eða aldrei rætt um konseptið á bak við 101 Skugga og þau arkitektónisku gæði sem óneitanlega má finna þar. Hann nefndi skipulag íbúða, fjölda íbuða pr. hæð, þriggja hliða íbúðir, notkun útskotsglugga til að fanga útsýni, veðurfar við innganga sem var skoðað sérstaklega o.s.frv.

Hann nefndi einnig að niðurrif hafi ekki verið mikið þar sem 101 Skuggi stendur. Sannleikurinn sé sá að engar byggingar hafi verið  rifnar vegna uppbyggingar verkefnisins 101 Skuggi. Stærsti hluti svæðisins (2. og 3. áfangi) sem verkefnið tekur til var geymsluport Eimskips (Lindargata, Vatnsstígur, Skúlagata, Frakkastígur), 1.  áfangi var reistur þar sem Kveldúlfshúsin stóðu áður en þau voru rifin í tengslum við fyrirhugaða hótelbyggingu Eimskipgs 1985, 16 árum áður en verkefnið 101 Skuggi fór af stað.(!)

Þetta breytir samt ekki því mati mínu að þetta hefði í heildina geta verið mun betra. Einn af göllunum sem eru að koma í ljós er húsið sem stendur við Frakkastíginn út í götuna og rýrir mikilvæga sjónlínu. Í fyrsta deiliskipulaginu frá um 1985 voru hæstu byggingarnar á miðjum reitunum og þær lægstu við göturnar sem liggja niður að sjó einmitt vegna sjónlínanna. (Vitastíg, Vatnsstíg, Frakkastíg og Klapparstíg).

En eins og sjá má á myndunum sem fylgja færslunni þá eru mörg góð smáatriði í byggðinni og ber þar sérstaklega að vekja athygli á görðunum milli húsanna sem eru sérstaklega aðlaðandi og mörg sólrík.

Arkitektar hvítu húsanna eru teiknuð af arkitektunum Dagnúju Helgadóttur og Guðna Pálssyni inn í upphaflegt deiliskipulag Skuggahverfisins sen nær frá Kalkofnsvegi austur að Snorrabraut. Landslagsarkitekt var Ragnhildur Skarphéðinsdóttir hjá Hornsteinum. Húsin í 101 Skugga eru teiknuð af Hornsteinum og dönsku arkitektunum Schmidt Hammer & Lassen.

Völundur1

Völundur2

Völundur3

 

Völundur4

Völundur8

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.4.2015 - 20:56 - 11 ummæli

Veruleiki í kjölfar skipulagsferils

11026132_10205308837994785_6538140549001585387_n

Að ofan er ljósmynd af götu í nýskipulögðu hverfi í miðborg Reykjavíkur.

Að skipulaginu hafa eflaust komið hinir færustu sérfræðingar á sviðinu. Skipulagið hefur farið um hendur embættismanna og stjórnmálamanna. Ráðgjafar á sviði skipulagsmála hafa lagt þetta til og færir arkitektar hafa að lokum hannað húsin inn í deiliskipulagið.

Skipulagið hefur farið í gegnum kynningarferli og gera verður ráð fyrir að þetta sé sú niðurstaða sem menn stefndu að.

Það verður að taka fram að upphaflegu skipulagi var breytt að ósk lóðarhafa ef ég skil rétt. Við þá breytingu varð til svokallað „verktakaskipulag“ þar sem lóðarhafi hafði forræði á deiliskipulaginu og auðvitað hönnun húsanna.

Á þessu svæði var áður falleg timburhúsabyggð í bland við annað eins og vandaðar iðnaðarbyggingar Kveldúlfs og Völundar.

Ljósmyndina birti ég með leyfi Finnboga Helgasonar tannsmiðs. Hann birti hana á Facebook síðu sinni rétt áðan.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is