Miðvikudagur 14.2.2018 - 12:09 - 8 ummæli

Sand Hótel – Endurnýjun eldri húsa.

Það vekur athygli hvernig staðið var að byggingu Sand Hótels við Laugaveg.  Fjárfestarnir stóðu óvenjulega og menningalega að uppbyggingunni þarna við aðalgötu bæjarins.

Hótelinu er komið fyrir í 8 gömlum byggingum sem hafa verið endurnýjaðar og nútímavæddar fyrir nýja starfssemi á sérlega smekklegan hátt.

Aðstandendur framkvæmdanna hafa ekki bara sýnt umhverfi sínu virðingu heldur einnig hinni sögulegu vídd og hinu mikilvæga almannarými sem Laugavegurinn er.

Þeir hafa sýnt hinni sögulegu vídd skilning á margvíslegan hátt umfram hin arkitektónisku gildi.  Þeir gáfu hótelinu nafnið Sand Hótel  og er það dregið af nafni eins elsta fyritækis borgarinnar Sandholtsbakarí sem er um 100 ára gamalt um þessar mundir.  Bakaríið verður starfrækt þarna í sínu gamla húsi áfram. Þá má einnig geta þess að herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar sem stofnuð var fyrir 100 árum verður þarna áfram í sinni gömlu mynd og með sínum gömlu innréttingum.  Herrafataverslunin var stofnuð árið 1918 og hefur verið rekin í einu þessara húsa síðan 1929.  Hús Guðsteins var teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni (1896-1968)

Það að þessi tvö fyritæki fá áframhaldandi líf í götunni er mikilvægara en margan grunar. Þetta er mikilvægt fyrir almannarýmið og fjölbreytnina þar. Það hefði verið slæmt ef jarðhæð húsanna við Laugaveg hefðu verið tekin undir hótelstarfssemina eða rekstri skyldum henni. Það hefði gert götuna fátækari, einsleitnari og fyrrt hana sögunni.

Hér hefur tekist að endurnýja húsin með það að markmiði að rýra ekki mikilvægi þeirra í ríkri sögu götunnar og mikilvægi fyrir miðbæ Reykjavíkur.

Í hönnunarvinnunni hefur tekist að ná opinni og líflegri gönguleið frá Laugavegi upp á Grettisgötu.

Endurnýjun bygginganna og breyting í fyrsta flokks hótel var í höndum Sigurðar Hallgrímssonar arkitekts og innanhússarkitektanna Guðbjargar Magnúsdóttur og Rögnu Sif Þórisdóttur í náinni samvinnu við eigendur hótelsins.

Hér er á ferðinni skólabókardæmi um hvernig aðlaga má nýja og nútímalega starfssemi í gömlum húsum. Þessi nálgun er auðvitað vandasamari og seinlegri en nálgun svonefndra uppbyggingasinna í byggingalistinni sem gengur jafnan út á að rífa og byggja nýtt og nútímalegt í staðinn.

Aðlaðandi og lífleg gönguleið milli Laugavegar og Grettisgötu  er bætt við skemmtilegar götur og sund borgarinnar.

 

Gömul mynd af Sandholtsbakaríi við Laugaveg númer 36. Tekist hefur að viðhalda starfsseminni á sama stað og flétta inn í hótelreksturinn þannig að almannarýmið fær notiðsín.

Hús Guðsteins Eyjólfssonar eftir Þorleif Eyjólfsson arkitekt frá 1929.

Gamla herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar verður áfram rekin á jarðhæð hússins. Þetta er mennigarleg afstaða eigandanna sem viðheldur líflegu götulífi við Laugaveg. Ef þarna yrði starfsemi nátengd hótelrekstrinum yrði gatan fátækari.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.2.2018 - 08:15 - 36 ummæli

Kirkjusandur – Atvinnusögunni bjargað!

Það var ánægjulegt að hlusta á  borgarstjóra á íbúafundi í Borgarhluta 4 – Laugardalur í gærkvöldi. Hann fór vítt yfir framtíð og tækifæri borgarhlutans, en það sem vakti sérstaka athygli mína var hugmynd um að þyrma gamla fiskvinnsluhúsi Jupiters & Marz á Kirkjusandi sem hefur verið ógnað af nýju skipulagi þarna.

Þetta gamla hús er snar þáttur í atvinnusögu Reykjavíkur og jafnvel landsins alls.  Húsið var reist á árunum 1955-1962

Ekki veit ég hver teiknaði þessa góðu byggingu en það á eftir að skýrast. Mér finnst tveir komi til greina. Annars vegar Rögnvaldur Ólafur Johnsen, (1920-2008) en han nam byggingalist í Kaliforniu í lok seinni heimstyrjaldarinnar  en lauk ekki námi vegna McCarthyismans að mér er sagt. Hinsvegar gæti húsið líka verið eftir Sigurð Guðmundsson (1885-1958) heiðursfélaga Arkitektafélags Íslands.

Árið 1988 var byggingunni breytt í skrifstofuhús Sambands íslenskra samvinnufélaga og allskonar skálar umhverfis það rifnir. Samhliða þeirri endurnýjun var húsið klætt að utan með loftræstri álklæðningu og skipti það þá algerlegu um einkenni (karakter). Eftir fall SÍS keypti Íslandsbanki, (1995) sem síðar varð  Glitnir og aftur Íslandsbanki húsið og hafði þar aðalstöðvar sínar þar til flýja þurfti húsið vegna myglu fyrir nokkru.

Vegna skipulagsvinnu Kirkjusands óttuðust menn að þetta merkilega hús yrði látið víkja fyrir nýjum og nútímalegum byggingum og nýrri landnotkun. Maður horfði á eftir einu besta húsi Guðmundar Þórs Pálssnonar, aðalstöðvum Strætó, víkja fyrir skipulaginu. Maður óttaðist að örlög glæsilegs fiskvinnsluhúss Júpiters & Marz yrðu þau sömu.

En svo verður líklega ekki, sem betur fer.

Á íbúafundinum í gærkvöldi upplýsti borgarstjóri að hugmyndir væru uppi um að fletta álklæðningunni af húsinu og færa borgarbúum og landsmönnum öllum merkilega sögulega vídd staðarins og færa húsið í upprunalegt horf.

Þetta gladdi mig mjög og var hugsað til þeirrar atvinnusögu sem þurrkuð var út aðeins vestar við ströndina þar sem svörtu háhýsin í Skugga standa nú. En þar voru áður hús Völundar, Kveldúlfsskálarnir, byggingar Sláturfélags Suðurlands og fl.  Allt frábær og söguleg hús.  Borgin varð fátækari þegar þessum húsum var fórnað fyrir það sem kom í staðinn.

Verndun fiskvinnsluhúss Júpirer & Marz er stórkostlega góð hugmynd og mikið fagnaðarefni.

Húsið getur hentað ágætlega fyrir margskonar atvinnu- eða menningarstarfssemi á borð við Listaháskóla Íslands eða annað slíkt. Listaháskólinn er nú í kjötvinnsluhúsi Sláturfélags Suðurlands þarna skammt frá.  Þá yrði skólinn loks nánast sameinaður á einum stað í húsum „kjöts og fisks“!

Það vakti líka athygli mína hvernig staðið er að hugmyndavinnunni. Í stað þess að auglýsa enn og aftur einhverja samkeppni var handvalin teiknistofa sem hefur sýnt að hún hefur áhuga og burði til þess að leysa svona verkefni vel af hendi. En hönnuðirnir á þessu hugmyndastigi eru arkitektarnir hjá Kurt og Pi sem eru þeir sömu og hönnuðu endurnýjun Marshall hússins úti á Granda. En Marshallhúsið er eftir Sigurð Guðmundsson arkitekt og tóks endurnýjunin vel.

+++

Hér er unnið samkvæmt hugmyndum verndunarsinna í byggingalistinni. En þeir halda því fram að menningarstig þjóðar komi best fram í því hvernig hún umgangengst verk genginna kynslóða.

Ég upplifi þessa hugmynd eins og að brotið hafi verið blað í baráttu verndunarsinna og þeirra sem vilja standa vörð um menningararfinn. Gömul hús og hin sögulega vídd í öllu okkar umhverfi verður sífellt mikilvægari. Vonandi tekst borginni að bjarga steinbænum við Veghúsastíg og Veghúsum að Veghúsastíg 1 eins og hugur stendur til, svo maður nefni ekki ásýnd Gamla Garðs.

++++

Að neðan koma nokkrar myndir frá Kurt og Pi og svo mynd af aðalstöðvum Stræto sem rifnar voru á síðasta ári en það átti aldrei að gerast og var alger sóun og óþarfi.

++++

Breytt 10.02.2018  Kl. 14.18

Mér láðist að geta þess í pistlinum að breytingar á húsinu sem gerðar voru fyrir SÍS voru hannaðar af  arkitekunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall.

Viðbót 13.02.2018:

Eftir smá grúsk fann ég húsa- og byggðakönnun Borgarminjasafnsins.

Þar kemur fram að fyrsta hæðin af þessu húsi er teiknuð af Sigurði Pjeturssyni. Svo kom Gísli Hermannsson að verkinu. Siðan tóku þeir félagar Ólafur Júlíusson, Jósef Reynis og Gílsli Halldórsson við og hækkuðu húsið úr einni hæð í fjórar. Og loks komu þeir Örnólfur Hall og Ormar Þór að húsinu og hækkuðu aftur um eina hæð og klæddu að utan og gáfu húsinu það útlit sem það nú ber.

Hver er hinn eiginlegi höfundarrétthafi hússins veit ég ekki en sé nú að þær teikningar sem hér eru kynntar eru í raun ekkert annað en uppmæling og/eða uppteikning af húsinu eins og það var áður en því var breytt eftir þörfum Sambands Íslenskra Samvinnufélaga.

Þess vegna má álykta að öll umræða um virðingu fyrir höfundarrétt sé ótímabær varðandi verk Kurt og Pi.

Í húsa- og byggðakönnuninni stendur; „Húsið hefur menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um þá atvinnustarfsemi er eitt sinn einkenndi Kirkjusand“.

 

Tölvumynd af húsi Júpiters & Marz frá hendi Kurt & Pi arkitekta.

Að ofan er gamla fiskvinnsluhús Jupiter & Marz dregið út í dekkri tón en umhverfið sem var. Þarna vann ég á unglingsárum í fiskvinnslu. Var í „tækjunum“ en þar var borgað hærra tímagjald enn annarsstaðar í húsinu.

Hér eru fyrirmenni að kynna sér verklagið í þessum fyrirmyndar húsi uppúr miðri síðustu öld.

 

Teikningar af húsinu og ljósmynd. Það er áberandi hvað húsið er einfalt stílhreint og fast í formi.

Frumdrög arkitektanna sem sýnir hlutföll og hugsanlegt birtuflæði á hæðum hússins.

Að neðan eru svo mynd af niðurrifi aðalstöðva Strætó sem stóðu í sama skipulagi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.2.2018 - 14:50 - 6 ummæli

Endurreisn Breiðholtsins.

 

 

Nýlega var samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur fyrirspurn varðandi byggingu 15 hæða byggingu í efra Breyðholti sem hýsa á alls 50 íbúðir af margvíslegum stærðum.

Þetta eru í raun mikil og gleðileg tíðindi því segja má að þetta sé beint framhald af jakvæðri og góðri uppbyggingu í Breiðholti sem hófst fyrir nokkrum misserum þegar vannýttu og niðurnýddu  húsi fyrir verslun og þjónustu að Eddufelli 8 var breytt í eitt af glæsilegustu fjölbýlishúsum borgarinnar.  Húsið hefur haft veruleg jákvæð áhrif á næsta umhverfi.  Það var tilnefnt til Menningarverðlauna DV á síðasta ári fyrir byggingalist. Nú hefur verið opnað þarna vinsælt kaffihús og veggjakroti sem var áberandi þarna hefur verið hætt. Þetta er allt annað og betra umhverfi en var.

Þessi tillagaum háhýsi að Eddufelli 2-6 sem samþykkt var í af skipulagsfulltrúa þann 12. janúar s.l. er í fullkomnu samræmi við hugmyndir og markmið aðalskipulagsins um þéttingu byggðar og mun

Í niðurstöðu skipulagsfulltrúa stendur:

Niðurstaða: „Meðal annars þar sem efra Breiðholtið er í eðli sínu þétt og háreist byggð þá þykir hugmynd um hærri byggingu á þessum stað áhugaverð og þess virði að skoða hana vel. Í þeirri skoðun þarf að horfa til svæðisins alls meðal annars m.t.t. þarfa þess fyrir m.a. íbúðagerðir, húsahæðir og innviða. Nú er í vinnslu hverfaskipulag fyrir Breiðholt sem borgarhluta og þetta hverfi sérstaklega. Í þeirri vinnu verður farið sérstaklega yfir stefnumörkun þessa svæðis/þessarar lóðar“

Af þessu má skilja að upphaf á endurnýjun og endurbotum á efra Breiðholti er hafið með bygginu glæsilegra bygginga sem mun lyfta borgarhlutanum upp og bæta á flesta lund. Því ber vissulega að fagna.

++++

Efst er frumskissa  af fyrirhugaðri byggingu frá hendi arkitektsins Guðna Pálssonar arkitekts sem er höfundur skipulagshugmyndarinnar.

Að neðan koma svo nokkrar töðlvumyndir sem sýna staðsetningu og útlit ens og það liggur í frumskissum. Neðst koma svo myndir af fjölbýlishúsinu að eddufelli 8 sem var tilnefnt til menningarverðlauna DV í byggingalist á síðasta ári og loks mynd af þeim niðurnýddu húsum sem fyrir voru.

Ásýnd hússins og samhengi þess við það sem fyrir er.

Háhýsið mun draga verulega úr áhrifum löngu blokkarinnar sem lengi gefur verið gagnrýnd.

Tölvumynd af svæðinu. Nýbyggingin er fyrir miðri myndinni.

Afstöðumynd. Nýbyggingin er þarna sýnd rauð.

Eddufell 8 sem hefur haft veruleg jákvæð áhrif og valdið „hugarfarsbreitingu“ í hverfinu eins og sagt er í umsögn skipulagsfulltrúa. Þarna í grenndinni hefur verið opnað kaffihús og veggjakroti hefur verið hætt.

 

Að neðan koma myndir af húsinu Eddufell 8 fyrir breytingu. Það var sóðalegt og jafnvel ógnvekjandi umhverfi sem nú er orðið aðlaðandi, fallegt og eftirsótt.

Að neðan koma loks þrjár tilvísanir eða skýringarmyndir sem sýna hús af svipaðri gerð og höfundur sér fyrir sér á þessum stað við Eddufell 2-6.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.1.2018 - 11:26 - 9 ummæli

Að fanga staðarandann

Það er ekki öllum arkitektum gefið að kunna að fanga staðarandann. Nýlega voru kynntar hugmyndir arkitekta varðandi nýbyggingar við Framnesveg 40-42, þar sem þetta hefur tekist.

Þegar horft er á myndina efst í færslunni sést að tekið er tillit til nokkurra grundvallaratriða í götumyndinni. Húsalengdinni er skipt niður þannig að hún er af svipaðri lengd og önnur hús í götunni, gluggarnir eru ekki gluggabönd eða stórir glerflekar eins og algengt er í nýbyggingum heldur göt í heillegum veggjunum. Húsahæðin er í samræmi við þau hús sem næst standa og það er halli á þökum.

Það þarf oft ekki mikið til svo byggingar falli að umhverfi sínu eins og kveðið er á um í Aðakskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð. Það þarf að lesa umhverfið, skilgreina kosti þess og galla. Hanna svo inn í umhverfið á þess forsendum og reyna að draga úr göllum þess og styrkja kosti þess.

Til þess að auka landnýtinguna eru húsin dýpri og það eru settir stórir þakkvistir þar sem komið er fyrir myndarlegum íbúðum eins og sjá má á tölvumyndum að neðan.

Það dylst engum sem þarna á leið um að þetta eru ný hús, byggð 2018 en þau breyta ekki anda staðarins, heldur styrkja hann.

Húsin eru teiknuð af arkitektastofunni Arkþing í Reykjavík fyrir fasteignafélagið Grunn. Innanhússhönnun er unnin af Berglindi Berndsen og Helgu Sigurbjarnardóttur innanhússarkitektum.  Í húsunum eru 9 íbúðir, 50-100 m2.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.1.2018 - 14:44 - 13 ummæli

„Að byggja sér fortíð“

„Að byggja sér fortíð“

Í umræðunni um verndun húsa og viðhald þeirra skiptast sjónarmiðin í tvö horn. Annarsvegar er hópur sem vill meðhöndla eldri byggingar af mikilli varfærni og telur jafnvel að vernda þurfi nánast öll hús á tilteknum svæðum og hinsvegar hópur sem telur að verndunarsjónarmiðin tefji fyrir framþróun og skemmi fyrir. Talað er annars vegar um verndunarsinna og hinsvegar uppbyggingarsinna, sem hvort tveggja eru gildishlaðin orð í þessu samhengi. Hinir svo kölluðu uppbyggingasinnar tala jafnvel um að verndunarsinnar séu „að byggja sér fortíð“

Með þessum málflutningi eru búnar til tvær andstæðar fylkingar en það er ósanngjarnt því svoleiðis er þetta ekki. Á sama hátt mætti þá tala um nýbyggingarfíkla annars vegar og menningarsinna hins vegar. Þeir sem viðhafa slíkt tal stilla sjónarmiðunum hvoru andspænis öðru og skipta fylgjendum í tvo andstæða hópa, líkt og andstæðar pólitískar fylkingar væru að takast á. Uppbyggingarsinnarnir spyrja til að mynda hvernig miðborg við viljum eiga þegar horft er til Reykjavíkur. Þeir spyrja „hvort við viljum að miðborgin sé safn eða lifandi miðborg“ og gefa sér þannig að þetta séu andstæður. Eins og miðborg sem samanstendur af gömlum húsum geti ekki verið lifandi? Uppbyggingarsinnarnir spyrja líka „hvort við viljum leiktjöld eða „raunveruleg“ hús“. Eins og gömul hús og gamlar borgir á borð við Kaupmannahöfn, París og Róm séu hvorki raunverulegar né lifandi heldur „leiktjöld“.

Verndunarsinnar benda á að borgir séu yfirleitt hvergi meira lifandi en þar sem virðing er borin fyrir gömlum húsum og staðarandanum. Þeir halda því fram, þvert á rök uppbyggingarsinna, að menningarstig þjóða komi fyrst fram í því hvernig þær umgangast menningararfinn.

Uppbyggingarsinnar halda því fram að byggingarlistin eigi að spegla menningu og anda þess tíma er mannvirkið var reist. Það er að segja að maður eigi alltaf að byggja í samræmi við það sem er í tísku á hverjum tíma. Jafnvel er talað um að gömul hús eigi að víkja fyrir nýjum og nútímalegri húsum þegar þannig stendur á. Verndunarsinnar segja á móti að menningarstigið megi lesa af því hvernig menn fara með gömlu húsin og að næg tækifæri séu til þess að reisa byggingar sem eru í takt við tíðarandann utan gömlu borgarhlutanna.

Í öllu starfsumhverfinu eru lög og viljayfirlýsingar um hvernig byggja skuli innanum það sem fyrir er. Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er tekið á þessu skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feti „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni“. Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Þetta eru góð fyrirheit sem „uppbyggingarsinnar“ ættu að gefa sér tíma til að kynna sér og starfa eftir.

++++

Efst í færslunni og hér styrax að neðan koma dæmi um nýbyggingar sem byggðar eru í samræmi við markmið Aðalskipulag Reykjavíkur og Menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð.  Svo koma umdeildar byggingar við Laugaveg sem endurspegla sjónarmið „uppbyggingarsinna“. Neðst er svo ágæt nútímaleg bygging í Reykjavík, sem gæti staðið hvar sem er í víðri veröld.

++++

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.1.2018 - 12:25 - 14 ummæli

Landspítalinn og bílastæðabókhaldið.

Í Morgunblaðinu í morgun er farið yfir bílastæðabókhald þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut.

Þar kemur fram að reiknað er með  að einungis 3 til 4 af hverjum 10 komi til spítalans í einkabíl. Einungis er gert ráð fyrir 1600 bílastæðum fyrir spítalann í fyrsta áfanga hans en þá verða starfsmennirnir um 3900.

Ef ég skil rétt þá þarf framboð einkabílastæða ekki einungis að fullnægja þörfum starfsmanna heldur líka sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030 er gert ráð fyrir að 58% notfæri sér einkabílinn í framtíðinni, 12% almenningsflurninga og afgangurinn gangi, hjóli eða noti önnur samgöngutækifæri.

Í fljótu bragði verður ekki séð að bílastæðabókhald Landspítalans mæti þessum bjartsýnu áætlunum aðalskipulagsins. Það vantar mikið þar uppá.

++++

Eftir því sem maður kynnir sér betur áformin um uppbygginguna við Hringbraut því meira undrandi verður maður á þvi að þessu sé haldið áfram.

Það stendur nánast ekki steinn yfir steini í öllu þessu máli. Allar forsendur fyrir staðarvalinu eru brostnar og àætlarnirnar standast ekki lengur.

Menn á æðstu stöðum hafa halda fram í næstum áratug að allar staðarvalsgreiningar og áætlanir bendi á að Hringbraut sé besti staðurinn fyrir Þjóðarsjúkrahúsið. Nú vita allir sem hafa fylgst með umræðunni að þetta er rangt. Og hvað gera menn í því? Þeir bregðast við eins og oft áður með því að svara ekki gagnrýnisröddum.

++++

Rétt er að vekja athygli á því að þegar/ef hafist verður handa við byggingu meðferðarkjarnans þarf að leggja niður á annað hundrað bílastæði sem þarna eru núna.

++++

Efst er mynd sem fylgdi grein í Morgunblaðinu í morgun og skýrir sig sjálf og strax hér að neðan er greinin í heild sinni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.1.2018 - 13:17 - 18 ummæli

Skipulagsráð 1978-1982 og 2010-2014

Mér eru minnistæðar tvær skipulagsnefndir í Reykjavík sem mér þótti standa sig vel. Sú fyrri var skipulagsnefnd sem var á árunum 1978-1982 undir forystu Sigurðar Harðarsonar arkitekts. Það sem einkenndi störf þeirrar nefndar var áhuginn fyrir að draga úr útþennslu borgarinnar og ná böndum á hana,  þétta byggðina,  draga úr notkun einkabíla, efla almamannasamgöngur og vernda gömul hús og staðaranda sem það hét reyndar ekki þá.

Hin skipulagsnefndin sem sem ég hef haldið mikið uppá var sú sem var undir forystu Páls Hjaltasonar arkitekts á árunum 2010-2014. Sú nefnd vann algert þrekvirki hvað varðar aðalskipulagið AR2010-2030 og ruddi úr vegi einhverju lélegasta aðalskipulagi allra tíma AR2001-2024 þar sem tilraun var gerð til að festa einkabílinn í sessi með ótal flækjum og mislægum mislægum gatnamótum.  Miklubraut í stokk og göng undir Öskjuhlíð og Digranesháls og líka undir Skólavörðuholt. Og með öllum þessum tengingum einkabíla var með þessu skipulagi Landspítalinn festur í sessi við Hringbraut með öllum þessum forsendum sem eru sem betur fer allar horfnar. Þegar maður horfir á AR2001-2024 í dag finnst manni eins og höfundarnir hafi ekki þekkt hugtakið „vistvænn“ eða „sjálfbærni“. Skipulagi var í algerri andstöðu við allar ríkjandi stefnur nánast allstaðar undangengna marga áratugi.

Manni virtist þetta vera stjórnlaust bútasaumsskipulag. Það vantaði hryggarstykkið í AR2001-2024.

Nýtt aðalskipulag, AR2010-2030 tók á útþennslunni og stuðlaði að nauðsynlegri þéttingu byggðar og lagði drög að nýrri Reykjavík sem var línuleg og vistvæn. Fólk og samgöngur var sett í fyrsta sæti, ekki einkabílar. Meginhugmynd sem kom fram í skipulaginu er hugmyndin um samgönguás eftir borginni endilangri. Þarna voru lögð drög að Borgarlínunni sem binda átti borgina saman frá Vesturbugt að Keldum. Þessi hugmynd um að byggja línulega borg opnaði mörg tækifæri sem vísuðu til hagkvæmari, skemmtilegri og vistvænni borg fyrir fólk. Það var einhver stór hugsun þarna sem miklar vonir eru bundnar við og ber að fagna.

Meðfram samgönguásnum myndaðist tækifæri til þess að skapa mjög þéttann og lifandi ás frá miðborginni og austur að Keldum, þróunnarás. Iðandi af mannlífi og með háu þjónustu og almenningssamgöngustigi. Þarna meðfram línunni voru tækifæri til þess að auka nýbyggingaheimildir verulega.  Ég nefni meðfram Laugavegi frá Hlemmi, meðfram Suðurlandsbraut, í Skeifunni með 85.000 fermetra aukningu, Vogabyggð með 400 íbúðum og 40.000 m2 atvinnuhúsnæði, Ártúnsholti þar sem er alls 115 ha þróunarsvæði samkvæmt  AR2010-2030 og svo á hinu mikla Keldnalandi sem er líklega nálægt 90 ha eða 900.000 m2.  Bara Keldur og Ártúnsholt er  talsvert stærra svæði en Vatnsmýrin svo þetta sé sett í samhengi.

AR2010-2030 tók líka á staðarandanum og borgarvernd eins og skipulagsnefndin 1978-1982 gerði. Fjallað var um þetta í síðasta pistli.

Verst þótti mér að ekki var lagt til að byggja stærsta vinnustað landsins, Landspítalann við austurenda Borgarlínunnar og þróunarássins sem þungaviktarpól á móti miðborginni og stuðla þannig að stórum góðum farþegagrunni fyrir Borgarlinuna í báðar áttir. Þarna er möguleiki að tryggja rekstrargrundvöll austur/vesturlínu Borgarlínunnar.

Í Keldnalandi má líklega byggja 1-2 milljónir fermetra atvinnuhúsnæðis sem pól á móti Miðborginni með öllum sínum atvinnutækifærim. Þetta hefði getað orðið e.k. La Defense Reykjavíkur þar sem væri Þjóðarsjúkrahúsið og læknaháskólinn með öllum sínum stoðbyggingum við annan endann og miðborgin við hinn.  Svona landnotkun mundi tryggja rekstur Borgarlínunnar nánast frá fyrsta degi með vagnana fulla í báðar áttir kvölds og morgna. En það sem borgin þarf á að halda eru fleiri atvinnutækifæri austar í borginni og fleiri íbúðatækifæri vestar í borginni til þess að jafna álagið á samgöngukerfinu. Og sem mest ætti að byggjast meðfram Borgarlínunni.

++++

Á árum áður voru nefndirnar sem fjölluðu um skipulags- og byggingamál tvær. Annarsvegar bygginganefnd og hinsvegar skipulagsnefnd. Á árunum 1978-1982 var formaður bygginganefndar Magnús Skúlason arkitekt og formaður skipulagsnefndar Sigurður Harðarson arkitekt. Í skipulagsnefndinni var meirihlutinn arkitektar og voru ekki borgarfulltrúar frekar en formennirnir. Ég held að það hafi verið mistök að sameina þessar tvær nefndir í eitt ráð, Umhverfis- og skipulagsráð.

++++

Efst í færslunni er ljósmynd sem ég tók í haust af Borgarlínunni í Grenoble í Frakklandi. Hún líður nánast mengunar- og hljóðlaust um borgina full af fólki.  Iðagrænt gras er milli teinanna og fólk stígur úr vagninum og hoppar upp á reiðhjól sem ætluð eru borgarbúum, en ekki sérstaklega ferðamönnum. Neðst kemur svo fyrstu drög sem urðu á vegi mínum um legu borgarlínunnar með aðalskiptistöð á eðlilegum stað við Elliðaárósa. Gríðarlega fín hugmynd og raunsæ ef vel er á haldið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.12.2017 - 09:54 - 17 ummæli

Verndun staðarandans – Lög og reglugerðir.

 

Varðveisla staðarandans

Þó svo að friðun einstakra menningarminja og mannvirkja sé í ágætum farvegi verður það sama ekki sagt um staðarandann, það sem á latínu kallast „genius loci“. Staðarandinn nær til alls umhverfisins og finnst ekki bara í því sem mætir auganu. Hann tekur til alls sem maður sér og skynjar á einhverjum tilteknum stað — er einhverskonar flétta minninga og skynjunar. Allt hangir þetta saman og úr þessu er ofinn vefur sem er sérstakur fyrir hvern stað. Þegar byggt er einhvers staðar í borg eða landslagi er fléttað inn í þann vef sem fyrir er en ekki byrjað á nýjum vef.

Ef vel tekst til er það ekki hönnuðurinn einn sem ákveður útlit þeirra mannvirkja sem byggja skal. Útlitið ræðst öðru fremur af staðnum og staðarandanum. Þetta er kallað staðbundin nálgun eða staðbundinn arkitektúr (e. regionalism). Fræðimaðurinn Markús Vitrúvíus (80/70 f. Kr. –15/25 e. Kr.) taldi að ekki væri hægt að byggja með sama hætti í Egyptalandi og á Iberíuskaganum. Það væri m.a. vegna þess að veðurfar væri ekki það sama á báðum stöðum, byggingarefnið væri mismunandi, handverkið öðruvísi og menningin ólík.

Í hinu tvöþúsund ára meginverki sínu, Tíu bókum um arkítektúr, talaði Vitrúvíus um „venustas, firmitas og utilitas“. „Venustas“, eða fegurðin, er einskonar tungumál forma, rýmis og hlutfalla sem kalla á minnisstæða upplifun og tengsl við hvern stað og tengir verðmætamat kynslóðanna í efni, hughrifum, rými og formi. Vitrúvíus var tækni- og framfarasinnaður og fjallar því um „firmitas“, þ.e.a.s. hversu vel hannað og rammgert tiltekið mannvirki er. Einnig má halda því fram að Vitrúvíus hafi einna fyrstur manna vakið athygli á nytjastefnunni (funktionalismanum) þegar hann talar um „utilitas“, þ.e. nytsemi eða notagildi.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og við þekkjum af dæminu Laugavegi 2-4.

Í lögum um menningarminjar frá árinu 2012 er einkum fjallað um fornminjar ýmiskonar, einstök hús og mannvirki, skip og báta, samgöngutæki, menningarlandslag og nytjahluti sem eru vitnisburður um menningarsöguna. Ekki er í lögunum sérstaklega fjallað um næsta umhverfi þess sem á að vernda eða staðarandann.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð „á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ Í stefnunni segir að góð hönnun sé „nátengd stað og notkun“ og feta skuli „varlega um tímabundnar sveiflur tískunnar hverju sinni.“ Í raun er hér verið að hvetja til staðbundinnar byggingarlistar, „regionalisma“.

Í skipulagslögum er lauslega tekið á staðarandanum. Þar er talað um „hverfisvernd“, sem er nátengd stað og notkun, og þess óskað að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar. Þá segir í lögunum að í eldri hverfum skuli lagt mat á varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru (gr. 5.3.2.1.) Í lögum um umhverfisvernd er líka tekið á byggðamynstri og hverfisvernd og lögð áhersla á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í skipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“

Þegar horft er yfir málið í heild virðist ganga illa að framfylgja þeim góðu fyrirheitum og markmiðum sem er að finna í skipulagi, lögum og reglugerðum. Helstu steinarnir í þessari götu eru háværar raddir hinna svokölluðu uppbyggingarsinna, tíðarandinn og fjármagnið, ásamt veikgeðja stjórnmálamönnum og ráðgjöfum þeirra, sem sífellt láta undan. Draga má þá ályktun að vilji stjórnmálamanna til þess að móta stefnuna sé mikill en þrek þeirra til að fylgja henni eftir lítið.

++++

Þessi pistill er brot úr grein um varðveislu menningarminja sem birtist í SAGA, Tímariti Sögufélagsis í haust. Í þessu tímariti birtust nokkrar greinar um varðveislu menningarminja. Greinarnar eru afar fróðlegar og eru skrifaðar af Minjastofnun Íslands, Völu Garðarsdóttur fornleifafræðingi, Hilmari Þór Björnssyni arkitekt og  Helga Þorlákssyni sagnfræðingi.

++++

Þegar horft er á hið byggða umhverfi sýnist manni stundum að hönnuðir, skipulags og byggingafulltrúuar og kjörnir fulltrúar séu ekki sérlega meðvitaðir um þær leiðbeiningar  og laga og reglugerðarumhverfi sem fara á eftir. Með færslunni eru nokkrar skýringamyndir með tilheyrandi texta.

+++

Efst í færslunni er ljósmynd eftir Sigurgeir Sigurjónssonljósmyndara  sem sýnir kannski einmitt það sem Menningarstefna hins opinbera í mannvirkjagerð og Aðalskipulag Reykjavíkur er að vinna gegn. Þ.e.a.s. ósamræmi í byggðinni og að byggð séu hús þar sem „lögð er áhersla á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“  Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 þar sem sagt er að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ með áherslu á einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“

+++++

Dæmi.

Að neðan eru sýnd fjögur dæmi um hvernig góð fyrirheit í Menningarstefnu, Aðalskipulagi og reglugerðum hafa komið út í raun. Af þessum dæmum má álykta að hönnuðir, embættismenn, sjórnmálamenn og og ekki síst fjárfestar þurfi að lesa sig til og vanda sig betur.

 

 

Maður getur velt fyrir sér hvort fyrirhugaðar byggingar sem byggja á við Gamla garð samkvæmt verðlaunatillögu í samkeppni arkitekta samræmist fyrirheitum skipulagslaga, menningarstefnu og AR2010-2030 þar sem óskað eftir að farið sé varlega þegar tískusveiflur eru annarsvegar og lað leggja skuli áherslu á yfirbragð byggðar og verndun sérkenna eldri byggðar.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur AR2010–2030 er líka tekið á staðarandanum þótt það orð sé ekki notað. Í aðalskipulaginu er talað um „borgarverndarstefnu“ og að „í miðborg Reykjavíkur séu fólgin mikil menningarverðmæti sem byggja skal á til framtíðar“ og áhersla skuli lögð á „hið staðbundna.“ Þetta sé grundvallaratriði til þess að tryggja „hagsæld borgarinnar til framtíðar og sérstöðu hennar meðal borga.“ Í aðalskipulaginu er beinlínis sagt að nýjar byggingar í eldri hverfum skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Lögð er sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Við Hafnartorg virðist ekkert af þessum skilyrðum uppfyllt. Þvert á móti eru þau beinlínis brotin þar sem þarna er verið að byggja 6 hæða hús.

Þegar hugað er að friðun húsa og umhverfis þeirra skiptir staðarandinn meginmáli en eins og dæmin sanna missir friðun einstakra bygginga að sumu leyti marks ef samhengi þeirra í umhverfinu er rutt í burtu eins og dæmið af Laugavegi 2-4 sýnir.

Í menningarstefnu hins opinbera í mannvirkjagerð er fjallað um eitthvað sem fallið getur undir staðaranda. Þar segir meðal annars að áhersla skuli lögð á „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið“ og sagt að hér sé átt við „einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ og að hugað sé að  „heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð.“ Í stefnunni er talað um að „hvetja skuli til heildarhugsunar forms og rýmis, hlutfalla, efnis og litanotkunar í samspili við umhverfið.“ . Myndin sýnir fyrirhugaðar byggingar Landspítalans við Hringbraut og hvernig nýbyggingarnar falla að „heildarmynd og mælikvarða“ þar sem byggt er við og í eldri byggð.

++++

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.12.2017 - 13:45 - 24 ummæli

Flökkusaga um staðsetningu Landspítalans.

Nú hefur sú flökkusaga gengið í hartnær heilan áratug að „allar“ staðarvalsgreiningar hafi bent á að heppilegast sé að byggja upp þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut. Þessi fullyrðing á ekki við nein rök að styðjast og er tóm vitleysa eins og sést þega gögn málsins eru skoðuð.

++++

En þessi flökkusaga lifir og var líklega sett af stað af embættismönnum og hefur verið haldið á lífi af þeim sem eiga hagsmuni að gæta í ein tíu ár.  Alþingismenn, ráðherrar og hönnuðir hafa trúað þessu og flutt hana áfram í blaðaviðtölum og fundum og haldið henni lifandi.  Jafnvel nýr heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem ég hef miklar mætur á, trúir þessu enda er þessu eflaust haldið fast að henni eins og fyrirenurum hennar. Hún segist  telja að best sé að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut sem er eins og áður hefur verið farið yfir er þvert á álit flestra umsagnaraðila um framkvæmdina sem vijla helst að byggt verði nýtt sjúkrahús frá grunni. Hinn ágæti heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði líka á ársfundi Landspítalans fyrir tveim árum að „öll“ staðarvalsálit kæmust að sömu niðurstöðu,  þ.e.a.s. Hringbraut. Vonandi er ræðuskrifari Kristjáns ekki lengur við störf í ráðuneytinu.

+++

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að embættismenn hafi sett þessa flökkusögu af stað og haldið henni að málsaðilum af slíkum þunga að flestir trúa henni.  Allar tilraunur til þess að leiða hið sanna í ljós eru kæfðar með þöggun eins og dæmin sanna.

Opinberar stofnanir hafa verið kallaðar til að grafa upp rök gegn því að gerð verði ný staðarvalsgreining á grunvelli núverandi skipulagsumhverfis og efnahagsástands. Eins sjálfsagt og það ætti nú að vera þegar langstærsta opinbera fjárfesting sögunnar, sem varðar alla landsmenn til langrar framtíðar, er í undirbúningi.

+++

Og nú stefnir allt í að ekki verði aftur snúið.

Því miður fyrir þing, þjóð og sérstaklega sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar.

+++

Hér eru slóðar að þrem álitsgerðum sem allar benda á að best sé að byggja nýjan þjóðarspítala frá grunni. Enga sannfæringu er að finna um að Hringbraut sé besti staðurinn. Þvert á móti bendir viðamesta skýrslan á að heppilegra sé að byggja við í Fossvogi ef ekki er möguleiki á að byggja nýtt á nýjum stað. Ég held að af öllum skýrslum sem ég hef lesið sé bara ein sem bendir á Hringbraut sem eina og besta kostinn. En hún var samin árið 2002 á grunvelli aðalskipulags sem er allt annað en það sem er í gildi í dag.  Læknaráð LSH leggur til við heilbrigðis-og tryggingarnefnd Alþingis að sú skýrsla verði endurskoðuð eins og lesa má að neðan. (20. apríl 2004)

Skýrsla Ementors, okt. 2001,

Álit hjúkrunar- og læknaráðs LSH, febrúar 2004.

Álit stjórnar læknaráðs LSH til Alþingis, 20. apríl 2004,

+++

Efst í færslunni er ljósmynd af Keldnalandinu sem er í eigu ríkisins. Þarna sjá borgaryfirvöld tækifæri til þess að byggja allt að 480 íbúðir sem er ekki skynsamleg ráðstöfun á landinu. Það er líklega hægt að byggja um 500 íbúðir í lágri þéttri byggð á spildunni milli gömlu og nýju Hringbrautar vestast í borginni þar sem mikil þörf er fyrir fleiri íbúðir.  Slík uppbygging þar og nýtt þjóðarsjúkrahús í landi Keldna mundu leysa gríðarlega stór vandamál í borgarlandslaginu og væri í fullkomnu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðaskipulag höfuðborgarsvæðisins. Það blasir við að þetta er miklu betri staður en Hringbraut til þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús til framtíðar. Það er í góðum vegatengslum við Vestur- og Suðurland og til Suðurnesja. Það er í góðum tengslum við sveitarfélögin sunnan höfuðborgarinnar og gatnakerfi alls svæðaskipulagsins og svo er landið í eigu ríkisins.

Það er ekki of seinnt að grípa þetta tækifæri ef einhver er að velta því fyrir sér.

++++

++++

Viðbót dags 19.12.2017. kl 20:09

Nokkri aðilar hafa spurt í tölvupósti  hvenær ég hafi fyrst heyrt þessa flökkusögu um að öll álit hafi komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja við Hringbraut og hvenær síðast og hverjir hafi haldið þessu fram.

Ég vil svara því til að ég man ekki hvnær ég heyrði þetta fyrst en það er líklega um 2009. Hverjir hafa haldið þessu fram?  er spurt. Það eru svo margir að ég treysti mér ekki til að nefna þá því eflaust mundi ég gleyma einhverjum en síðast heyrði ég þetta á opnum fundi í Norræna húsinu þann 19. október 2017 þar sem einn af æðstu stjórnendum spítalans hélt þessu fram og sýndi við það tækifæri hjálagðar tvær skyggnur.:

Eins og sjá má á skyggnu í kynningu Landspítalans stendur orðrétt.:

„Hringbrautin hefur alltaf haft vinningin í staðarvalsgreiningum“.

Sem er ekki rétt eins og dæmin sem að ofan eru reifuð sýna.

Hér er að ofan vitnað í skýrslu erlendra ráðgjafa sem er sögð komast að þeirri niðurstöðu að byggja skuli upp við Hringbraut. Þarna stendur orðrétt:

“ 2001     Erlendir ráðgjafar leggja til að uppbyggingin verði við Hringbraut„.

Ég hef ekki fundið þessa skýrslu þó ég hafi leitað eftir henni hjá fyrirlesaranum. Hinsvegar finn ég skýrslu Ementor sem rökstyður af hverju ekki sé heppilegt að byggja við Hringbraut og telur að ef ekki er mögulegt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni sé Fossvogur besti kosturinn. Þarna skýtur skökku við.

Gera verður ráð fyrir að allir þessir aðilar hafi trúað því að þeir hafi farið með rétt mál, en sannleikurinn er annar. Þeir hafa líklega trúað flökkusögunni og ekki skoðað grunngögnin nægjanlæega vel.

++++

„Hvað EF menn hefðu…….“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.12.2017 - 18:36 - 7 ummæli

Innviðir ferðamannastaða – Viðhorfskönnun – Menn vilja staðbundar lausnir.

Sumarið 2017 stóð Landgræðslan fyrir könnun á meðal ferðamanna um viðhorf þeirra til innviða og náttúru á tveimur áfangastöðum. Landgræðslan tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands í samstarfi við Mosfellsbæ og Skaftárhrepp. Nýta á niðurstöðurnar til stefnumótunar fyrir áfangastaði í sveitarfélögunum tveim sem stóðu að könnuninni.Könnunin var hluti af svonefndu ASCENT verkefni, en það er samstarfsverkefni fimm landa um að efla fagþekkingu í uppbyggingu og náttúruvernd á áfangastöðum ferðamanna. Úrtakið var lítið á báðum stöðum eða samtals um 280 manns.

Könnunin var annarsvegar gerð í Eldhrauni í Skaftárhreppi, þar sem meirihluti gesta var erlendir ferðamenn, og hins vegar við Úlfarsfell þar sem langflestir gesta voru Íslendingar að stunda almenna útivist. Báðir staðirnir eiga það sameiginlegt, að þar blasa við ýmsar áskoranir vegna rofs eða ágangs, en þó með ólíkum hætti.

Grípum niður á þrem stöðum í skýslunni:

„Ferðamenn vilja ekki nútímaarkitektúr

Niðurstöðurnar könnunarinnar koma á margan hátt á óvart. Helst vekur það athygli hve mikill munur er á óskum ferðamanna um uppbyggingu á svæðunum og þess sem ráðgjafar telja alla jafna æskilegt. Þetta kom glöggt fram þegar gestir voru spurðir álits um æskilegt yfirbragð innviða eða mannvirkja á svæðinu, en þá nefndu einungis 2% svarenda nútímaarkitektúr, en mikill meirihluti vildi náttúrulegan, umhverfisvænan eða hefðbundinn arkitektúr. 12% svarenda merktu reyndar við staðbundinn (regional) nútímaarkitektúr, án þess að honum væri lýst nánar í spurningalistanum.

Tekið skal fram að ekki voru sýndar myndir af mismunandi stílbrigðum og því möguleiki á misskilningi, en í ljósi þess hve fáir vilja nútímalegt yfirbragð á ferðamannastöðum þá mætti jafnvel endurskoða hvernig staðið er að hönnun þeirra.“

„Ferðamenn vilja fjölbreytta göngustíga úr náttúrulegum efnum

Meirihluti svarenda vill hafa umhverfið sem náttúrulegast og að ekki séu notuð framandi efni við stígagerð. Með öðrum orðum kom fram að svarendur vilja frekar sjá möl, steinhellur eða grjót í stað timburs, malbiks eða plastgrinda (Ecogrid). Einnig kom fram eindregin ósk um að stígar væru sem fjölbreyttastir.“

„Möguleg niðurstaða

Niðurstöðurnar vekja þó upp ýmsar spurningar og þá sérstaklega um æskilegt yfirbragð og efnisval innviða á ferðamannastöðum, en miklu fjármagni er veitt í hönnun og uppbyggingu. Líklega er ekki alltaf vitað, þegar fé til framkvæmda hefur verið samþykkt, hvort framkvæmdirnar séu í samræmi við óskir og væntingar gesta og hvort þær jafnvel muni rýra umhverfið og þarmeð aðdráttarafl staðanna.“

+++++

Draga má þá ályktun af skýrslunni að ferðamenn koma hingað til lands til þess að upplifa íslensk sérkenni. Þeir vilja íslenskan staðaranda eða það sem kallað er regionalismi. Þeir vilja eitthvað sértækt og staðbundið. Þeir vilja að byggingarefnið í stígum og öðru sé að finna í nágrenninu. Þeir vilja síður nútímalegan alþjóðlegan arkitektúr sem á sér marga fylgjendur þegar kemur að hönnun innviða ferðaþjónustunnar. Þeir vilja frekar nútímalegan staðbundinn arkitektúr.

Myndirnar sem fylgja eru fengnar úr skýrslunni sem gefin var út í fyrradag.

 

 

 

Í skýrslunni kemur fram að á Úlfarsfelli þurfi að „taka á „sambúð“ vélknúinna ökutækja og göngufólks. Sumir vilja ganga á fjallið í náttúrulegri kyrrð meðan aðrir vilja þeysast um brekkurnar undir stýri.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is