Sunnudagur 17.7.2016 - 16:09 - Lokað fyrir ummæli

Íslensk þjónusta

Hugmyndir Íslendinga um góða þjónustu eru oft á skjön við nágranna okkar. Þetta er ekkert undarlegt í landi þar sem þrjóska hefur alltaf verið talin betri dyggð en þjónustulund. En þar með er ekki sagt að það sé ekki hægt að finna góða þjónustu á Íslandi. Vandamálið er að þjónustustigið er annað hvort í ökkla eða eyra. Það vantar oft heildstæða yfirsýn yfir hvað kúnninn vill og oft ríkir ónóg samkeppni til að þjónustan skipti máli. Einokunarþættir sjá til þess að hagnaðurinn rúllar inn. Þetta verður líka til þess að opinberir aðilar á Íslandi veita oft betri þjónustu en einkaðilar eins og dæmið hér á eftir sýnir.

En góð og samkeppnishæf þjónustu skiptir máli. Framtíð ferðaþjónustunnar mun byggja á þjónustuþættinum þegar tími tveggja tölustafa vaxtar líkur og meira jafnvægi kemst á framboð og eftirspurn. Því miður virðist þjónusta við ferðamenn ekki fá nóga athygli í því gullgrafaraæði sem nú ríkir um allt land. Allt er uppbókað og allt selst. En þegar þessu vaxtarskeiði líkur er hætt við að margir innlendir aðilar séu illa undirbúnir fyrir nýjan raunveruleika.

Í síðustu viku birti Skytrax sinn árlega lista yfir bestu flugfélög í heimi. Eina íslenska flugfélagið sem komst á lista yfir bestu 100 flugfélögin var Icelandair. En ólíkt flugstöðinni í Keflavík sem oft endar ofarlega eða efst á sambærilegum listum lendir Icelandair í 81. sæti annað árið í röð. Icelandair er þar í hópi með flugfélögum á við Saudi Arabian Airlines og Gulf Air. Nær öll erlendu flugfélögin sem fljúga til Íslands fá betri einkunn frá farþegum en Icelandair. Lufthansa lendir í 10. sæti, BA er númer 26, Norwegian nr. 30, Delta nr. 35, easyJet nr. 38, og SAS nr. 62.

Þessi staða Icelandair ætti að vera áhyggjuefni hluthafa. Hún skapar kjöraðstæður fyrir samkeppnisaðila að ná fótfestu á Keflavíkurflugvelli. Flugfélag sem flýgur gömlum og eldsneytisfrekum vélum og er ekki samkeppnishæft í þjónustu verður á endanum undir. Það eru litlir vaxtamöguleikar í framtíðarstefnu sem byggir á að mjólka lendingarleyfi á dýrum og yfirfullum flugvöllum. Vonandi hefur einhver stjórnarmaður í íslenskum lífeyrissjóði kjark til að spyrja krefjandi spurninga um framtíðarstefnu Icelandair á næsta aðalfundi félagsins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.6.2016 - 07:11 - Lokað fyrir ummæli

Brexit og EES

Það er kostulegt að lesa hvað margir íslenskir ráðamenn halda að EES sé lausn Breta nú þegar þeir eru á leið út úr ESB. En EES er engin lausn, þvert á móti. EES gefur Bretum ekki vald yfir eigin landamærum eða frelsar þá úr klóm skriffinna í Brussel. Að fara úr ESB og yfir í EES er að fara úr öskunni í eldinn. Þetta skilja Norðmenn, enda vöruðu þeir Breta við EES leiðinni fyrir kosningar.

Greiningaraðilar í Bretlandi hafa einnig bent á að EES henti ekki stórum lýðræðisþjóðum en geti verið lausn fyrir smáríki sem séu tilbúin að samþykkja þá sjálfstæðisskerðingu sem fylgir því að taka upp regluverk ESB án þess að hafa þar atkvæðisrétt. Þá sagði fjármálaráðherra Þýskalands í viðtali við Der Spiegel í byrjun júní að EES stæði Bretum ekki til boða ef þeir yfirgæfu ESB. Sú yfirlýsing er í sjálfu sér athyglisverð og sýnir að ESB lítur ekki á EES sem framtíðarmódel fyrir ríki utan ESB. Í dag er talið líklegar að Bretum verði boðinn samningur sem byggir á fríverslunarsamningi ESB við Kanada. Eitt er víst, það er lítil stemning fyrir því innan ESB að leyfa þjóðum að velja bestu bitana út ESB samstarfinu. Inn er inn og út er út, eins og menn segja í Þýskalandi.

Evrópuþjóðir sem vilja hafa áhrif innan eigin álfu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum gera það best sem hluti af þeirri heild sem ESB er, jafn ófullkomin og hún er. Þetta skilja Skotar og Norður-Írar sem og unga kynslóðin í Englandi og Wales. Það er hvíta gamla settið sem er til vandræða.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.6.2016 - 09:35 - Lokað fyrir ummæli

LÍN frumvarpið skoðað

Það fyrsta sem maður tekur eftir í nýju frumvarpi um námslán er að ríkisstjórn sem ætlaði að afnema verðtryggingu og 40 ára lán, er komin heilan hring og setur 40 ára verðtryggð lán sem undirstöðu undir framtíðarskipan námslána. Hér er auðvitað ekki við menntamálaráðherra að sakast. Raunheimi íslensks peningamálakerfis verður ekki svo auðveldlega stjórnað með yfirlýsingum stjórnmálamanna.

Það sem er skynsamlegt við frumvarpið er að reynt er að aðskilja lán frá styrkjum. Gamla kerfið hvetur námsmenn til að taka mikil “lán” og fresta greiðslum eins lengi og kostur er til að fá hina “innbyggðu” styrki í kerfinu. Þessu þarf að breyta enda byggir gamla kerfið ekki á neinni skýrri stefnu. Og það virðist líka hafa gleymst að móta skýra og metnaðarfulla stefnu sem rammar inn nýtt kerfi. Í staðinn hefur nefnd manna farið í að “laga” gamla kerfið með hliðsjón af kerfum í nágrannalöndunum. Þetta er gott svo langt sem það nær, en menn mega ekki gleyma að lítið, einsleitið og tungumála-einangrað land hefur aðrar þarfir en milljónmanna samfélög. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að 300,000 manna þjóð getur aldrei rekið fjölda háskóla sem bjóða upp á þá þekkingu og reynslu sem bestu háskólar í heimi hafa upp á að bjóða.

Einn stærsti gallinn við LÍN frumvarpið er að það virðist gengið út frá því að Íslendingar þurfi ekki lengur að sækja sér menntun erlendis. Kerfið er hannað að þörfum innlendra háskóla og sveigjanleikinn í gamla kerfinu er horfinn. Ef efnilegur stúdent fær inngöngu í einn af bestu háskólum Bandaríkjanna er eins gott að hann komi af efnuðum foreldrum sem geta fjármagnað skólagjöldin. Að veita öllum námsmönnum sömu styrkupphæð án tillits til aðstæðna eða hæfileika er of einföld lausn og sýnir best að stefnumótunina vantar. Betur má ef duga skal.

Annað vandamál við nýja kerfið er tengt hávaxtamynt landsins. 3% verðtryggðir vextir eru líklega með því hæsta í hinum vestræna heimi, þegar kemur að námslánum, en þegar þetta er skoðað út frá íslenskum fjármögnunarkostnaði, er vaxtaprósentan mjög hófsöm. Möguleikar háskólamenntaðra einstaklinga til að mæta þessum háa og ótekjutengda kostnaði eru hins vegar mun verri en í nágrannalöndunum þar sem launaávinningur við menntun er hærri. Hvernig menn ætlað síðan að eignast húsnæði með 10-15 m kr. ótekjutengd, 40 ára, 3% verðtryggð námslán á bakinu verður hægara sagt en gert. Kannski ættu ráðamenn að íhuga að bjóða upp á námslán í erlendri mynt fyrir þá nemendur sem ekki ætla sér að starfa í krónuhagkerfinu?

Kostnaður við að sækja sér háskólamenntun mun í mörgum tilfellum hækka með þessu frumvarpi, en það er vegna þess að dregið er úr vaxtaniðurgreiðslum og ógagnsæjum styrkveitingum. Kerfið er fært nær raunheimi íslensku krónunnar. Vandamálið er alltaf hið sama, það er illt að þurfa að taka lán í hávaxtaörmynt sem er óbeint stjórnað af erlendum spekúlöntum og innlendum hagsmunahópum. Ef menn vilja styrkja námsmenn er best að gera það með beinum en markvissum styrkjum, ekki vaxtaniðurgreiðslum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.4.2016 - 14:43 - Lokað fyrir ummæli

Hlutabréf falla

Hutabréf féllu hressilega í fyrir helgi. Hvers vegna? Vissulega hafði uppgjör Icelandair áhrif, en þar með er ekki öll sagan sögð. Hærri kostnaður vegna launahækkana er ekkert nýtt.

Það sem var nýtt var að fjámálaráðherra tilkynnti að ríkið ætlaði að selja um 60 ma kr af eignum, þar á meðal skráð bréf fyrir áramót. En það þarf ekki nema grunnskólaþekkingu í hagfræði til að skilja hvaða áhrif slík getur haft á markaðinn. Þegar menn auka framboð án þess að eftirspurn aukist á sama tíma, fellur verðið. Og með því að tímasetja söluna eins og gert var, líklega út frá pólitískum veruleika, er tryggt að verðfallið verður hámarkað. Þetta eru því góðar fréttir fyrir fjársterka aðila sem hafa aðgang að bankakerfinu og geta fjármagnað svona kaup með lánum þar sem bréfin eru sett að veði. Hér verður ríkið báðum megin við borðið, selur og fjármagnar. Allt á einum stað, eins og sagt er. Nú verður gaman að sjá hvernig ný bankaráð ríkisbankanna og FME höndla svona tækifæri! Er nýtt Borgunarklúður í uppsiglingu eða tekst nýju fólki að standa vörð um orðspor bankanna? Það á eftir að koma í ljós.

Hitt er víst að þegar ríkið selur eignir í tímaþröng er verið að bjóða upp á reyfarakaup – hámarks gróða með lágmarks áhættu. Það er engin furða að menn séu spenntir. Það sem stjórnmálamenn þurfa að svara er hvernig á að tryggja að almenningur fái að taka þátt í þessari sölu – og að hún takmarkist ekki við svokallaða “fagfjárfesta”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 19.4.2016 - 10:22 - Lokað fyrir ummæli

Rök konungssinna

Rök Ólafs Ragnars fyrir áframhaldandi setu á Bessastöðum eru rök konungssinna. Krafan um festu, ábyrgð, skyldur og reynslu byggða á tengingum við fortíðina eru allt rök sem eru ofaná í löndum eins og Danmörku og Bretlandi. Þessi rök eiga fyllilega rétt á sér, en þá þarf umgjörðin að passa.

Íslenska þjóðhöfðingaembættið á meira skylt við konungsembætti frá síðustu öld, en nútíma forsetaembætti lýðveldis. Rök Ólafs Ragnars passa vel inn í þessa gömlu skilgreiningu á embættinu. En ef þetta er það sem þjóðin vill, er þá ekki eðlilegra að kalla hlutina réttum nöfnum?

Ákall þjóðarinnar um áframhaldandi setu Ólafs Ragnars verður vart túlkað á annan veg en að Íslendingar sakni Konungsríkisins Íslands. Voru sambandsslitin við Dani þá mistök?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 7.4.2016 - 06:25 - Lokað fyrir ummæli

Höftin hjá Pírötum

Ríkisstjórnin taldi í byrjun kjörtímabils að létt yrði að afnema gjaldeyrishöftin. Það var vanmat og nú er stjórnin að falla á tíma.

Ein ástæða þess að erfitt er að dagsetja kosningar er að þá er komin föst tímasetning á afnám hafta, sem er eitt aðalmál ríkisstjórnarinnar, en AGS og aðrir sérfræðingar hafa varað við fastri dagsetningu.

Frá sjónarhóli fjárfesta er aðalvandamálið pólitísk óvissa á Íslandi. Enginn veit hver raunveruleg efnahagsstefna Pírata verður í nýrri ríkisstjórn. Það er mjög óvenjulegt að sá flokkur sem mælist með lang mesta fylgið hafi enga reynslu af efnahagsstjórnun landsins. Í því felst fjárhagsleg áhætta. Leið fjárfesta til að mæta þeirri áhættu er að færa krónur í gjaldeyrisskjól fram yfir kosningar þar til meiri reynsla er komin af stjórn Pírata. En útflæðisþrýstingur á krónuna er einmitt það sem þarf að varast þegar höftin eru afnumin. Þannig er ljóst að afnám hafta við núverandi pólitískan raunveruleika er hættulegt. Það þarf ekki annað en á líta á veika stöðu breska pundsins, rúmum tveimur mánuðum fyrir þjóðaratkvæðisgreiðslu um ESB aðild, til að sjá að gengi krónunnar gæti fallið hressilega, ef höftin verða losuð fyrir kosningar.

Hraðvirkasta leiðin til að losa höftin er að flýta kosningum og eyða þeirri óvissu sem stjórnarflokkarnir ráða ekki við, en er á borði Pírata.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.4.2016 - 15:04 - Lokað fyrir ummæli

Léleg enska

Það verður að gera þá lágmarkskröfu að þeir sem skrifa fyrir hönd forsætisráðherra Íslands séu sæmilega ritfærir á enska tungu.

Það sem fékk marga til að brosa yfir hinni dæmalausu tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gærkvöldi voru eftirfarandi orð:

“for an unspecified amount of time”

Hvernig á þetta að skiljast? Er Sigmundur Davíð nú farinn að mæla tímann í kílógrömmum? Er furða að erlendir aðilar klóri sér í höfðinu. En eins og allir vita sem hafa lært ensku í grunnskóla er talað um “period of time” ekki “amount of time”. Á íslensku tölum við ekki um “óákveðið magn af tíma”!

Nýr forsætisráðherra þarf að láta bæta prófarkalestur í ráðuneytinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.4.2016 - 08:03 - Lokað fyrir ummæli

Hver stjórnar Íslandi?

Varnarlaus eyja í Norður-Atlantshafi sem ekki getur stjórnað sér sjálf hlýtur að vera áhyggjuefni nágrannalandanna. Hver er forsætisráðherra Íslands, spyrja menn?

Eitt aðalsmerki þróaðs lýðræðis er að ef skipta þarf um forsætisráðherra er það gert fumlaust og faglega. Sú staða sem nú er komin upp á Íslandi sýnir að Lýðveldið Ísland er ekki eins sterkt og rótgróði og margir vilja halda. Leita þarf suður fyrir Miðjarðarhaf til að finna lönd sem geta telft fram fleiri óvissuþáttum þegar kemur að stjórnskipulagi.

Augu alheimsins eru á Íslandi og menn fylgjast glöggt með hvernig Íslendingar ætla að endurheimta glatað traust og trúverðugleika.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.4.2016 - 15:41 - Lokað fyrir ummæli

„The Fat Controller“

Aldrei hefur forsætisráðherra rústað orðspori Íslands erlendis eins og Sigmundur Davíð. Ísland er orðið að aðhlátursefni og því lengur sem þessi „sápuópera“ heldur áfram því meiri verður skaðinn.

Afnám hafta er í uppnámi og mun tefjast. Erlendir aðilar munu hika við að koma með fjármagn til Íslands, ekki vitandi hvort þeir munu verða fyrir smitáhrifum. Sama má segja um sölu ríkisins á bönkunum, það ferli verður allt erfiðara og flóknara. Ávöxtunarkrafa fjárfesta fer hækkandi, sem ekki styður við þá vaxtalækkun sem almenningur þarf á að halda.

Því miður er fátt sem bendir til að pólitísk óvissa minnki í náinni framtíð. Fjórflokkurinn er allur í rúst og fáir vita hvað Píratar bjóða upp á. Það má halda vel á spilum nú, ef ekki á að koma bakslag í efnahagsbatann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 31.3.2016 - 14:29 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn rassskelltur

Framtíðarsýn Landsbankans hefur síðustu árin byggst á frösunum “að vera til fyrirmyndar” og “svona á banki að vera”.

Nýjasta athugun FME varðandi viðskiptahætti Landsbankans, sýnir að himinn og haf er á milli frasastefnu ríkisbankans og raunveruleikans. En í áliti FME segir orðrétt:

“…að verklagi Landsbankans við sölu á 31,2% eignarhlut hans í Borgun á árinu 2014 hafi verið áfátt og það heilt á litið ekki hafa verið til þess fallið að skila bestri niðurstöðu fyrir bankann. Með vísan til þess er það mat Fjármálaeftirlitsins að verklag bankans við sölu á eignarhlut hans í Borgun hafi ekki að öllu leyti samræmst eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002”

Það er ljóst að mikil verkefni bíða nýs stjórnarformanns, sem verður sá fjórði frá 2008. Eitt það fyrsta er að marka bankanum raunverulega stefnu og stoppa klaufalegar frasaauglýsingar. Þá er ljóst að nýr stjórnarformaður verður að hafa augu og eyru opin, en umfram allt að hafa bein í nefinu og passa upp á að halda sér í ákveðinni fjarlægð frá framkvæmdastjórninni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is