Mánudagur 27.3.2017 - 08:47 - Lokað fyrir ummæli

Reykjavík er fullbyggð

Reykjavík er eins og San Francisco, báðar borgirnar eru byggðar á nesi. Landfræðilega takmarkast lóðaframboð því á 3 hliðar og þegar kemur að því að nesið er fullbyggt sprengir eftirspurnin upp verðið. Reykjavík er að komast á þetta stig. Fyrir utan flugvallarsvæðið eru aðeins rándýrir lóðabútar óbyggðir vestan Elliðaáa. Enda er markmið aðalskipulags Reykjavíkur til 2030 að fullbyggja nesið með þéttingu byggðar.

Þetta aðalskipulag á sinn þátt í hækkandi húsnæðisverði. Allt miðast við að gera nesið að kjarna borgarinnar, þar er öll athygli skipulagsyfirvalda. Samgönguframkvæmdir sem geta auðveldað aðgengi þeirra sem ekki búa á nesinu og aka bíl, fá engan hljómgrunn. Þeir sem ekki vilja sitja í endalausum umferðarsultum í Ártúnsbrekkunni eða á Breiðholtsbrautinni, og hafa fjármagn, geta keypt sig út úr vandanum og flutt. En það er dýrt og verðið fer síhækkandi. Þannig hjálpar hugmyndafræði vinstri meirihlutans að gera Reykjavík vestan Elliðaáa að virki fjármagnseigenda.

Það er því eðlilegt að nágrannasveitarfélögin taki að sér að mæta almennri húsnæðiseftirspurn, sérstaklega þegar kemur að hagkvæmum íbúðum. Framtíð höfuðborgarsvæðisins liggur fyrir utan Reykjavík. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar kemur að staðsetningu á nýju sjúkrahúsi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 22.3.2017 - 09:39 - Lokað fyrir ummæli

Áhættufjármagn ríkisins

Hátt í 500 ma kr. í eigu ríkisins liggja sem áhættufjármagn á bókum íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta er fjármagn í fyrstu víglínu og mun tapast fyrst lendi bankar í erfiðleikum eða taprekstri. Þetta er þvert á alþjóðlegar aðgerðir, sem frá 2008 hafa miðað að því að velta áhættunni í bankarekstri af ríki yfir til einkaaðila, enda gera þær reglur ekki ráð fyrir að skattgreiðendur séu t.d. aðaleigendur að fjárfestingabankastarfsemi, sem stundum er kölluð spilavíti bankageirans.

Menn segja stundum að íslenskir bankar séu með öruggustu bönkum heims því eiginfjárhlutfallið sé svo hátt. En öruggir fyrir hvern? Ekki íslenska skattgreiðendur heldur erlenda fjárfesta sem kaupa skuldabréf. Skuldabréfaeigendur vita að áður en kemur að þeim að taka á sig tap er íslenska ríkið í fyrstu röð með milljarða stuðpúða til varnar einkageiranum. Þá reyna yfirfjármagnaðir bankar lítið á stjórnendur og geta skapað falskt öryggi.

Á meðan vantar peninga í samgöngumál, heilbrigðismál osfrv. Þetta er nú frekar öfugsnúin forgangsröðun, sem þarf að taka á. Og viðvörunarljósin eru farin að blikka. Stærsti banki ríkisins, Landsbankinn, tilkynnti að arðsemin á síðasta ári hefði verið 6.6% í 7.2% hagvexti. Sumir fjárfestar eru farnir að íhuga hvert stefni hjá þessari stofnun þegar hagvöxtur fer að minnka, vanskil að aukast og vextir að lækka. Kannski ætti Bankasýslan að byrja á því selja fjárfestingabankastarfsemi Landsbankans og þar með einfalda reksturinn og minnka áhættugrunninn. Slík sala gæti líka hjálpað stjórn bankans að finna loksins hagkvæma lausn á áratuga húsnæðisvandamáli, enda er ekki forsvaranlegt að ríkisstofnun kaupi dýrustu lóð landsins og láti standa ónotaða árum saman, engum til gagns. Slíkt ber ekki merki um góða stjórnarhætti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.3.2017 - 06:41 - Lokað fyrir ummæli

Vogunarsjóðir: Eðlileg niðurstaða

Menn losa ekki höft og fara inn á alþjóðlegan fjármálamarkað með krónuna nema spila eftir leikreglum markaðarins. Það verður að ríkja sátt og samlyndi milli aðila.

Síðasta ríkisstjórn gat ekki lyft höftum en þessi gerir það á nokkrum vikum. Munurinn á vinnubrögðunum er sláandi. Nú tala menn saman í rólegheitum, en eru ekki með endalausar yfirlýsingar um hversu vondir vogunarsjóðirnir eru og hvernig loka eigi þá inni á meðan höft eru losuð á aðra.

Menn mega ekki gleyma að vogunarsjóðirnir eru að uppskera eins og þeir sáðu. Þeir tóku stöðu með Íslandi og keyptu íslenskar eignir þegar engir aðrir höfðu áhuga. Vogunarsjóðirnir höfðu trú á Íslandi og veðjuðu rétt. Hagnaður þeirra er í réttu hlutfalli við íslenskan hagvöxt. Þeir vissu að tíminn myndi vinna með þeim, og því hefði verið betra fyrir Ísland að sýna meiri sveigjanleika og lipurð í samningum á síðasta ári og klára málið sem fyrst.

Það er ekki bæði haldið og sleppt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.3.2017 - 12:11 - Lokað fyrir ummæli

Lífeyrissjóðir hækka fasteignaverð

Þegar vextir lækka getur fasteignaverð rokið upp, þ.e. vaxtalækkunin getur öll lent í vasa eigenda fasteigna. Þetta gerist þegar eftirspurn eftir fasteignum er meiri en framboð.

Það er alveg ljóst að ef raunvextir myndu lækka í dag færi öll sú lækkun til seljandans í formi hærra verðs. Þar með myndi útborgunarkrafan hækka og enn erfiðara yrði fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn. En þetta hefur einmitt verið að gerast frá hruni og á sinn þátt í hækkuðu fasteignaverði.

Ef litið er á tímabilið frá 2009 til 2016 sést að verðtryggðir vextir á húsnæðislánum voru nálægt 5% í byrjun kreppunnar en hafa síðan lækkað niður í 3.5% eftir því sem hagvöxtur hefur aukist. Þetta er vaxtarstig sem Seðlabankinn ræður illa við. Það eru í raun bankarnir og síðan lífeyrissjóðirnir sem hafa leitt þessa raunvaxtalækkun, sem á sér rætur í markaðsaðstæðum innan gjaldeyrishafta, á sama tíma og hagvöxtur hefur rokið upp og mikill ójöfnuður er á framboði og eftirspurn húsnæðis. Afleiðingin er mikil hækkun fasteignaverðs. Það sem vill stundum gleymast í umræðunni um fasteignaverð er hlutverk verðtryggðra lána og hvernig þau styðja við hækkun á eignaverði.

Lífeyrissjóðirnir eiga stóran hlut í hækkun fasteignaverðs síðan 2015, þegar þeir fóru að bjóða upp á enn hagstæðari lán en bankakerfið. En áhrif lífeyrissjóðanna á fasteignaverð eru líklega enn meiri en nemur lækkun vaxta og auðveldara aðgengi að lánum, því þeir eiga hluti í fasteignafélögum sem ryksuga upp eignir og draga því úr framboði eigna á hinum almenna markaði. Eldri meðlimir lífeyrissjóðanna, sem eru fasteignaeigendur, hafa tvímælalaust grætt á þessum inngripum sjóðanna. Einhver myndi hins vegar segja að lífeyrissjóðirnir hafi gert yngstu meðlimum sínum bjarnargreiða.

Það er orðið löngu tímabært að yfirhala lög um lífeyrissjóði. Sérstaklega þarf að huga að fjárfestingum lífeyrissjóðanna sem snerta húsnæðismarkaðinn. Það er t.d. umhugsunarvert hvort lífeyrissjóðir eigi að geta fjárfest í leigufélögum, sem kaupa íbúðir á endursölumarkaði, og leigja síðan út til félagsmanna sömu lífeyrissjóða? Ef lífeyrissjóðirnir vilja hjálpa meðlimum sínum sem leigja, er það best gert með því að stækka markaðinn og fjárfesta í nýbyggingum.

En lífeyrissjóðirnir þurfa líka að hjálpa þeim sem vilja eignast eigið húsnæði. T.d væri hægt að láta hluta af iðgjöldum í lífeyrissjóði renna inn í séreignarsjóð sem félagsmenn geta síðan ráðstafað upp í útborgun á fyrstu íbúð. Þegar íbúðin er síðan seld rennur útborgunarhlutinn ásamt hlutfallslegum ávinningi aftur inn í séreignasjóðinn. Þannig verður íbúðin hluti af lífeyrissparnaði fólks. Það þarf að hjálpa fólki með útborgunina. Allar aðgerðir sem miða að því að „niðurgreiða“ markaðsvexti fara strax út í verðlagið.

Og það er hlutverk lífeyrissjóðanna að hjálpa næstu kynslóð til að eignast þak yfir höfuðið, því þar liggur fjármagnið. Allt sem vantar er ný uppfærsla á lífeyriskerfinu, sem lagar það að raunveruleika 21. aldarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.3.2017 - 09:01 - Lokað fyrir ummæli

„Einkavæðing“ í heilbrigðiskerfinu

Umræðan á Íslandi um framtíð heilbrigðisþjónustunnar er ansi einhæf og í raun Orwellian. Ríkisrekið er gott, einkarekið er vont. En málið er ekki svona einfalt. Í hinum vestræna heimi eru í grunninn 4 heilbrigðiskerfi. Ísland tilheyrir hinu svokallaða breska kerfi sem er á undanhaldi í flestum ríkjum. Aðeins tvö ríki halda úti nær hreinræktuðu ríkiskerfi, Kúba og Ísland. Ef íslenska kerfið er svona gott, hvers vegna eru þá ríki sem tóku upp samskonar kerfið á síðustu öld, eins og t.d. Svíþjóð, að færa sig fyrir í blandað kerfi?

Í stuttu og einföldu máli eru kerfin 4, eftirfarandi:

  1. Breska kerfið, þar sem ríkið rekur bæði tryggingarþáttinn og þjónustuhlutann. Kúba er besta dæmið um land sem fylgir þessu kerfi til hins ítrasta.
  2. Þýska kerfið, þar sem sjúkratryggingarþátturinn er rekin af samvinnu- og góðgerðafélögum undir eftirliti ríkisins. Spítalar eru reknir af einkaaðilum eða hugsjónarfólki í góðgerðaskyni, líkt og Landakotsspítalinn var í upphafi. Meirihluti Evrópubúa eru í þessu kerfi.
  3. Kanadíska kerfið, þar sem ríkið sér um tryggingarþáttinn en einkaaðilar og góðgerðafélög sjá um þjónustuna.
  4. Prívat sjúkratryggingar og borgað úr eigin vasa.

Flest lönd nota blöndu af 2-3 kerfum. Bandaríkin nota öll 4 kerfin sem kemur líklega mörgum á óvart, en breska kerfið er notað af bandaríska hernum og kanadíska kerfið er í boði fyrir alla Bandaríkjamenn 65 ára og eldri.

Gallinn við breska kerfið er að sjúklingurinn hefur lítið val, allt er ákveðið af ríkinu. Menn fara á biðlista og svo er þeim skammtaður aðgerðartími. Þróunin á þessari öld hefur hins vegar öll verið á þann veg að gefa sjúklingum meira val og meiri upplýsingar til að hjálpa við ákvörðunartöku. Því hafa lönd eins og Svíþjóð og Bretland í auknu mæli tekið upp blandað kerfi þar sem grunnkerfið er breskt en sjúklingar fá aukið val í gegnum þætti sem eru undir kanadíska kerfinu.

Það er alveg ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið verður að fá að þróast með breyttum tímum og væntingum. Það er ekki hægt að ríghalda í hugsjónir frá síðustu öld, endalaust. Betra er að læra af reynslu nágrannalandanna og taka upp það besta þar, en að nota Kúbu sem hinn eina sanna áttavita í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.3.2017 - 13:21 - Lokað fyrir ummæli

Hvorki fugl né fiskur

Icelandair skilgreinir sig nú sem “hybrid”-flugfélag og telur að það sé pláss fyrir sig, á milli lággjaldafélaga og fullþjónustufélaga. Þetta er nú heldur vafasöm stefnumótun.

Afkomuviðvaranir og hríðfallandi hlutabréf styðja ekki við “hybrid” stefnu. Þá er samkeppnin alltaf að aukast á milli lágjalda- og fullþjónustufélaganna, þannig að það er alltaf að minnka plássið þarna á milli. British Airways og American eru t.d. að aðlaga sig að breyttri samkeppni. British Airways hefur nýlega tekið upp á að rukka fyrir mat á Evrópuleiðum og American tilkynnti að engin afþreyingarkerfi yrðu í nýjum 737 vélum þeirra. Afþreyingarkerfi framtíðarinnar byggja á þráðlausu neti. Þá eru lággjaldaflugfélögin að teygja sig yfir í viðskiptafarþega með því að bjóða upp á sveigjanlegri miða og betri sæti.

Farþegar vilja annað hvort lægsta verðið eða bestu þjónustuna. Á slíkum markað er erfitt að selja eitthvað “hybrid”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 1.3.2017 - 07:19 - Lokað fyrir ummæli

Borgun er ríkisfyrirtæki

63.5% af hlutafé Borgunar er í eigu ríkisins í gegnum Íslandsbanka.  Ríkiseignarhald er ekki sú gulltrygging sem margir halda.  Borgun, Landsbankinn og FME verða seint talin fyrirmyndir í góðum stjórnarháttum.

Borgun fór illa með Landsbankann, en sjaldan veldur einn þá tveir deila.  Hvers vegna var ekki skipt um stjórnarmenn í Borgun þegar ríkið fékk Íslandsbanka?

Hér hafa menn líklega sofið á verðinum og eru nú að súpa seyðið af því.  Það verður spennandi að sjá hvernig stærsti eigandi Borgunar hyggst koma böndum á þetta „enfant terrible“ íslenskrar viðskiptaflóru.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.2.2017 - 07:10 - Lokað fyrir ummæli

Neyðarástand hjá Icelandair

Á fimmtudaginn varð vél Icelandair til Manchester að lýsa yfir neyðarástandi vegna eldsneytisskorts. Þetta verða vélar að gera í breskri lofthelgi þegar þær eiga ekki meira eldsneyti en í 30 mín flug. Hvers vegna var vél Icelandair ekki með meira eldsneyti? Það er spurning sem vert er að velta fyrir sér.

Breska veðurstofan hafði gefið út viðvörun um mikla lægð sem gengi yfir Bretland þennan dag og gæti raskað flugi. Verst yrði veðrið um miðjan dag á norður Englandi í kringum Manchester og Liverpool. Það var því vitað að þetta yrði ekki venjulegur lendingardagur fyrir flugvélar á þessu svæði.

Vél Icelandair varð að hætta við fyrstu tilraun til lendingar í Manchester, tekur þá stefnu á Liverpool sem er næsti flugvöllur í 40 km fjarlægð en þar er ástandið ekki betra. Í þessari stöðu hefði einhver flugmaður sagt, við förum til Amsterdam og lendum þar. En vél Icelandair var ekki með nóg eldsneyti á þessum tímapunkti til að reyna annað en lendingu á Manchester flugvelli í aftakaveðri. Var Liverpool skráður neyðarflugvöllur í þessu flugi? Ef svo var, má spyrja hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá flugfélaginu miðað við aðvaranir bresku veðurstofunnar?

Oft þegar svona atvik koma upp á Bretlandi eiga í hlut lággjaldaflugfélög sem eru að reyna að gera vélarnar eins léttar og hugsast getur í sparnaðarskyni, og hafa oft ekki nóg eldsneyti í hringsól og biðflug. Hefur Icelandair lent í svona atviki áður, þ.e. að þurfa að lýsa yfir neyðarástandi vegna eldsneytisskorts? Hversu algengt er það?

Það er ljóst að ný félagsstjórn Icelandair sem tekur við í næsta mánuði fær næg verkefni. Hvernig ætlar sú stjórn að tryggja hámarks öryggi farþega og bætta arðsemi til fjárfesta? Eitt er víst, gamlar flugvélar sem fljúga eldsneytislitlar er engin lausn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 15.2.2017 - 01:07 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair og SAS í eina sæng?

Á sama tíma og hlutabréf Icelandair féllu um 60% lækkuðu bréf SAS um 50%. Bæði félögin eiga við sama vanda að stríða – kostnaðarstrúktúr sem ekki er samkeppnisfær. Þá eru félögin gamaldags og hafa stofnanalegan blæ yfir sér.

Þessi vandi er ekki nýr en virðist hafa komið Icelandair á óvart. Félagið er illa undirbúið undir nýjan markaðsraunveruleika. Fyrstu viðbrögð eru að benda á nýjar flugvélar og sveigjanlegri fargjaldastrúktúr sem lausn. En þetta mun ekki leysa vandann eins og SAS þekkir mæta vel. Lággjaldaflugfélögin eru nefnilega með nýjustu og hagkvæmustu flugvélarnar og leiðandi í bókunartækni.

Nýjar vélar Icelandair, 737 MAX hafa að mestu leyti verið pantaðar af lággjaldaflugfélögum og bandarískum flugfélögum til innanlandsflugs. Þetta eru þrengri vélar en t.d. Airbus 320/321 og því er hætta á að 737 vélarnar verði samnefnari fyrir lággjaldaþjónustu. Fáir farþegar eru tilbúnir til að borga extra fyrir að ferðast með 737 yfir hafið.

Stefna sem byggir á nýjum lággjalda 737, gömlum 757/767 og norrænum kostnaðarstrúktúr er vægast sagt áhættusöm í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á mörkuðum Icelandair. Icelandair er ekki lengur í þeirri stöðu að geta skilgreint sig sem „Boeing félag“ og þar með lokað á möguleika sem gæti fært þeim samkeppnishæfari flugvélar, eins og t.d. Airbus 321neo. Hagsmunir Boeing og Icelandair fara ekki endilega saman.

Ný félagsstjórn Icelandair verður að hafa þekkingu, reynslu og kjark til að setja félaginu samkeppnishæfa stefnu sem tryggir Icelandair áframhaldandi leiðandi stöðu meðal flugfélaga sem fljúga til og frá landinu. Það verður hvorki auðvelt né sársaukalaust verk eins og reynslan frá SAS sýnir. Það er ekki ósennilegt að á endanum muni samkeppnisþrýstingur frá Wow – Norwegian samfara endalokum 757 vélanna koma Icelandair og SAS í eina sæng.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.2.2017 - 01:41 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair – sofið á verðinum

Vonandi mun fall hlutabréfa Icelandair vekja stjórnendur og eigendur upp af djúpum svefni. Útlitshorfur hafa verið svartar hjá þessu fyrirtæki um langan tíma. Framtíðarstefna sem byggir á gömlum vélum og þjónustuframboði sem fær falleinkunn hjá Skytrax ár eftir ár er ekki sjálfbær, eins og afkomutölur núna sýna, þrátt fyrir bullandi uppgang í ferðaþjónustu.

Veikir stjórnarhættir eiga stóran hlut að máli, sem er ekkert nýtt á Íslandi, eins og Borgunarmál Landsbankans sýndi. Afleiðingarnar fyrir afkomu Icelandair eru hins vegar alvarlegri, því það starfar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, ólíkt íslenskum bönkum.  Veikleikar Icelandair hafa galopnað markaðinn fyrir Wow og aðra keppinauta.

Aðaleigendur Icelandair, lífeyrissjóðirnir, verða að styrkja stjórnarhætti félagsins. Fyrsta skrefið er að ráða einstaklinga með alþjóðlega reynslu af rekstri og stefnumótun í flugrekstri og ferðaþjónustu. Það er áhættusamt fyrir félög sem starfa á alþjóðamarkaði að velja eingöngu stjórnarmenn úr þeim þrönga hópi einstaklinga sem hefur íslensku að móðurmáli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is