Miðvikudagur 15.2.2017 - 01:07 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair og SAS í eina sæng?

Á sama tíma og hlutabréf Icelandair féllu um 60% lækkuðu bréf SAS um 50%. Bæði félögin eiga við sama vanda að stríða – kostnaðarstrúktúr sem ekki er samkeppnisfær. Þá eru félögin gamaldags og hafa stofnanalegan blæ yfir sér.

Þessi vandi er ekki nýr en virðist hafa komið Icelandair á óvart. Félagið er illa undirbúið undir nýjan markaðsraunveruleika. Fyrstu viðbrögð eru að benda á nýjar flugvélar og sveigjanlegri fargjaldastrúktúr sem lausn. En þetta mun ekki leysa vandann eins og SAS þekkir mæta vel. Lággjaldaflugfélögin eru nefnilega með nýjustu og hagkvæmustu flugvélarnar og leiðandi í bókunartækni.

Nýjar vélar Icelandair, 737 MAX hafa að mestu leyti verið pantaðar af lággjaldaflugfélögum og bandarískum flugfélögum til innanlandsflugs. Þetta eru þrengri vélar en t.d. Airbus 320/321 og því er hætta á að 737 vélarnar verði samnefnari fyrir lággjaldaþjónustu. Fáir farþegar eru tilbúnir til að borga extra fyrir að ferðast með 737 yfir hafið.

Stefna sem byggir á nýjum lággjalda 737, gömlum 757/767 og norrænum kostnaðarstrúktúr er vægast sagt áhættusöm í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á mörkuðum Icelandair. Icelandair er ekki lengur í þeirri stöðu að geta skilgreint sig sem „Boeing félag“ og þar með lokað á möguleika sem gæti fært þeim samkeppnishæfari flugvélar, eins og t.d. Airbus 321neo. Hagsmunir Boeing og Icelandair fara ekki endilega saman.

Ný félagsstjórn Icelandair verður að hafa þekkingu, reynslu og kjark til að setja félaginu samkeppnishæfa stefnu sem tryggir Icelandair áframhaldandi leiðandi stöðu meðal flugfélaga sem fljúga til og frá landinu. Það verður hvorki auðvelt né sársaukalaust verk eins og reynslan frá SAS sýnir. Það er ekki ósennilegt að á endanum muni samkeppnisþrýstingur frá Wow – Norwegian samfara endalokum 757 vélanna koma Icelandair og SAS í eina sæng.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.2.2017 - 01:41 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair – sofið á verðinum

Vonandi mun fall hlutabréfa Icelandair vekja stjórnendur og eigendur upp af djúpum svefni. Útlitshorfur hafa verið svartar hjá þessu fyrirtæki um langan tíma. Framtíðarstefna sem byggir á gömlum vélum og þjónustuframboði sem fær falleinkunn hjá Skytrax ár eftir ár er ekki sjálfbær, eins og afkomutölur núna sýna, þrátt fyrir bullandi uppgang í ferðaþjónustu.

Veikir stjórnarhættir eiga stóran hlut að máli, sem er ekkert nýtt á Íslandi, eins og Borgunarmál Landsbankans sýndi. Afleiðingarnar fyrir afkomu Icelandair eru hins vegar alvarlegri, því það starfar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði, ólíkt íslenskum bönkum.  Veikleikar Icelandair hafa galopnað markaðinn fyrir Wow og aðra keppinauta.

Aðaleigendur Icelandair, lífeyrissjóðirnir, verða að styrkja stjórnarhætti félagsins. Fyrsta skrefið er að ráða einstaklinga með alþjóðlega reynslu af rekstri og stefnumótun í flugrekstri og ferðaþjónustu. Það er áhættusamt fyrir félög sem starfa á alþjóðamarkaði að velja eingöngu stjórnarmenn úr þeim þrönga hópi einstaklinga sem hefur íslensku að móðurmáli.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.11.2016 - 07:41 - Lokað fyrir ummæli

Um Landsbankaskýrsluna

Fátt kemur á óvart í skýrslu Ríkisendurskoðunar á eignasölum Landsbankanum. Eigendum bankans mátti vera ljóst strax eftir söluna á Vestia að styrkja þyrfti umgjörð um ákvarðanatöku á sölu eigna og annarra þátta sem falla utan daglegs reksturs bankans. En því miður var ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir Borgunarklúðrið.

Þó vissulega þurfi að styrkja regluverkið og verkferla þarf einnig að huga hinum mannlega þætti og samskiptum þeirra aðila sem bera ábyrgð á ákvarðanatökunni. Eftir hrun var lögum um hlutafélög breytt með það í huga að taka fyrir hugtakið „starfandi stjórnarformaður“. Sami maður getur ekki bæði starfað sem forstjóri og stjórnarformaður. Fyrir þessu liggja góð rök, t.d. á stjórnarformaður að hafa eftirlit með störfum framkvæmdastjórnar. En þetta nýja ákvæði leysir ekki endilega vandann. Það er vel þekkt í sögu stjórnarhátta fyrirtækja að það getur skapað vandamál þegar samskipti forstjóra og stjórnarformanns verða of náin. Oft er talað um að þessir aðilar setjist einir í flugstjórnarklefann og fari á flug, með aðra stjórnarmenn á almennu farrými. Í þessari stöðu hefur hinn almenni stjórnarmaður fáa möguleika til að grípa inn í atburðarásina og vara eigendur við.

Landsbankaskýrslan afhjúpar veikleika í íslenskum stjórnarháttum. Mun betur þarf að standa að vali og þjálfun stjórnarmanna. Óháðir sérfræðingar þurfa að koma að þeirri vinnu líkt og tíðkast í nágrannalöndunum. Þá þurfa félagsstjórnir og löggjafinn að huga betur að því að vernda starfsmenn sem uppljóstra um raunveruleg vandamál og áhættuþætti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 3.11.2016 - 13:57 - Lokað fyrir ummæli

Launastefna í öngstræti

Launastefna íslenska ríkisins er komin í öngstræti. Ákvörðun kjararáðs sýnir vel hversu hættuleg íslensk sérviska er. Að vera leiðandi í launum þingmanna á Norðurlöndunum getur ekki verið skynsamleg stefna fyrir örríkið Ísland.

Rökin fyrir að reynslulausir þingmenn skulu fá sömu laun og reyndir dómarar halda ekki. Eru menn búnir að gleyma bankahruninu, en fyrir þann tíma voru íslenskir bankamenn með ein hæstu laun á Norðurlöndunum vegna þess að þeir báru svo mikla ábyrgð! Að láta ábyrgð trompa reynslu og þekkingu þegar kemur að launum er hættulegt eins og sagan ætti að kenna mönnum.

Það sem gerir málið núna enn vandræðalegra er sú fordæmalausa staða sem ríkir hjá íslenskum dómstólum. Dómstólar eru undir gríðarlegu álagi eftir hrunið en framboð af góðum og reyndum dómurum er mjög takmarkað. Framboð af reynslulausum þingmönnum er hins vegar nær ótakmarkað. Þegar kemur að ákvörðun launa verður að horfa heildstætt á viðfangsefnið.

Kjararáð verður að fá að starfa sjálfstætt og alþingi má ekki setja lög sem hindrar ráðið í að vinna skynsamlega og eftir viðurkenndum aðferðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 2.11.2016 - 08:32 - Lokað fyrir ummæli

Okkur vantar Elizabeth Warren

Nú eru það ekki bankamenn eða erlendir kröfuhafar sem ógna stöðugleika. Það gerir kjararáð og þeir 5 einstaklingar sem þar sitja og tóku ákvörðun sem þeir geta ekki eða vilja ekki útskýra eða verja.

Gaman væri að sjá formann kjararáðs fyrir framan Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmann frá Bandaríkjunum. Formaðurinn kæmist ekki upp með neitt múður þar. Því miður eru íslenskir stjórnmálamenn ekki með bein í nefinu þegar kemur að embættismannaelítu landsins. Menn fela sig á bak við „ráðið“ þó auðvitað séu það einstaklingar sem tóku ákvörðunina.

Það er hins vegar algjört lágmark að formaður kjararáðs útskýri vinnubrögð nefndar sinnar og birti þau gögn og rök sem hér liggja að baki. Þá þarf að upplýsa hvort allir 5 nefndarmenn hafi verið þessu samþykkir og hvort einhver þeirra hafi bókað áhyggjur af stöðugleikaógn samfara svona ákvörðun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.10.2016 - 10:51 - Lokað fyrir ummæli

Ríkið leiðir í hálaunastörfum

Ísland er komið í þann vafasama hóp ríkja þar sem meðallaun ríkisstarfsmanna eru hærri en á almennum markaði. Í nýlegum tölum frá Hagstofunni eru 23% ríkisstarfsmanna með heildarlaun yfir 800,000 kr á mánuði en aðeins 19% launamanna á almennum markaði ná þessu marki. Þá er ótrúlegur fjöldi ríkisstarfsmann sem eru með laun yfir 1.300,000 kr á mánuði og hlutfallslega næstum því eins margir og á almennum markaði.

Þegar vinstri flokkarnir tala um jöfnuð þá er ljóst að nýr hálaunaskattur þeirra mun leggjast harðast á ríkisstarfsmenn. Kannski er þetta þáttur í falli Samfylkingarinnar?

Mun heppilegra er að berjast fyrir aukningu á hálaunastörfum á almennum markaði. Það er “win-win” fyrir bæði launþega og ríkið. En þessi leið er ekki á stefnuskrá vinstri flokkanna. Aðeins einn flokkur hefur trúverðuga stefnu í þessu máli og það er Viðreisn.

Tölur Hagstofunnar tala sínu máli. Undanfarin ár hefur verið stöðugur brottflutningur á menntuðum Íslendingum til útlanda en aðflutningur af erlendu starfsfólki í störf sem fæst krefjast háskólamenntunar. Þetta á sinn þátt í að draga launameðaltalið á almennum markaði niður. Fátt bendir til að þessi staða breytist næstu árin eða áratugina! Erum við á leið til fortíðar þar sem embættismannaaðall og auðlindakóngar drottnar yfir launafólki sem vinnur í láglaunastörfum í auðlindageiranum?

Að skattleggja ríkisstarfsmenn til að ná “jöfnuði” er skrýtin efnahagsstefna, sem kjósendur eru ekki að kaupa!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.10.2016 - 09:28 - Lokað fyrir ummæli

Einsleitur hópur frambjóðenda

Þegar litið er yfir aldur, reynslu og menntun þeirra sem eru í kjöri til alþingiskosninga er sláandi hversu einsleitur hópur þetta er.

Algengustu starfsheitin eru kennari, lögfræðingur, stjórnmálamaður og nemi. Tengingar við stóra hópa í þjóðfélaginu eru veikar eða vantar. Fólk á besta aldri er vart að finna í efstu sætum sumra flokka og hjá flokkunum 4 vinstra megin við miðju – borgarstjórnarflokkunum – er mengi vinnuveitenda tómt. Þá er athyglisvert að þó flestir flokkar setji heilbrigðismálin efst á blað er leitandi með ljósi af frambjóðendum með menntun og reynslu úr heilbrigðisgeiranum. Sá tími þegar læknar og annað heilbrigðisfólk með reynslu af aðhlynningu sjúkra sátu á Alþingi virðist liðinn.

Það er stundum sagt að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina og vissulega hefur mikill árangur náðst í að bæta kynjahallann en á móti er sá hluti Alþingismanna sem kemur úr heimi raunvísinda og fjármála nánast að hverfa. Mikilvægi raunvísindagreina er hins vegar alltaf að aukast þegar kemur að verðmætasköpun sem er grundvöllur velferðar, og því er áhættusamt að þurrka þessar greinar út af þingi. Líkur á rangri ákvarðanatöku aukast og trúverðugleiki og sjálfstæði þingsins skaðast þar sem þingmenn þurfa í auknum mæli að reiða sig á utanaðkomandi sérfræðinga og embættismenn til að meta forsendur við ákvörðunartöku og lagasetningu í mikilvægum málum.

Það verður athyglisvert að sjá hver verður hin endanlega samsetning Alþings eftir kosningar, en ljóst að nýliðunin verður mikil og einsleitur hópur þingmanna með þrönga aldursdreifingu og litla reynslu sem setur markið á að “endurræsa Ísland” má vanda sig vel ef ekki á illa að fara.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 21.10.2016 - 11:43 - Lokað fyrir ummæli

Íslendingar plataðir

Enn er mál FIH bankans komið í umræðuna. Hvers vegna tapaði Seðlabankinn um 25 ma kr? Svarið er einfalt. Íslendingar voru plataðir, enn eina ferðina.

Listinn yfir fallnar fjárfestingar Íslendinga erlendis á þessari öld er langur. Yfirleitt er ástæðan sú sama. Erlendir aðilar sem eru að selja hafa yfirburðaþekkingu, reynslu og upplýsingar, en Íslendingar eru óskipulagðir með allt á síðustu stundu. Þetta er eitraður kokteill sem erlendir kaupsýslumenn hafa notað sér óspart til að græða á Íslendingum.

Hvert 10 ára barn getur áttað sig á þessu. Spurningin er einföld. Hver hefur, t.d., yfirburða þekkingu og reynslu af bankarekstri í Danmörku? Íslendingar eða Danir? Þegar aðrir eru með yfirburðaþekkingu og reynslu takmarka menn fjárfestingu við 5%. Þess vegna ættu menn alltaf að vera á varðbergi þegar erlendir aðilar reyna að selja fjárfestingar þar sem reynslu- og upplýsingahallinn er mikill. Í raun eru það aðeins sjávarútvegur og jarðvarmi þar sem Íslendingar hafa yfirburðaþekkingu og reynslu á heimsvísu.

Íslendingar hefðu getað sparað sér mikið tap á þessari öld, ef þeir hefðu aðeins lært af reynslu annarra. Fræg er fjárfestingasaga Breta og Frakka í Bandaríkjunum. T.d., hafa Bretar ítrekað reynt að hasla sér völl á bandarískum smásölumarkaði, en þær tilraunir hafa flestar mistekist með miklu tapi. Fátt kætir bandaríska kaupsýslumenn meira en Evrópubúar með opið tékkhefti sem eru að reyna að komast inn á bandarískan markað. Sama endurtók sig á Íslandi fyrir hrun þegar erlendir fjárfestar stóðu í röðum til að selja Íslendingum eignir á yfirverði. Sagan sýnir að útrás viðskiptamanna smáríkja yfir á þróaða erlenda markaði er þyrni stráð og ótrúlega áhættusöm.

Sjálfsagt er að bíða eftir skýrslu Seðlabankans um FIH bankann, en líklega verður hún tæknileg og menn munu gleyma að skoða ákvörðunarferlið og einsleitan íslenskan þankagang.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 20.10.2016 - 13:29 - Lokað fyrir ummæli

Er myntráð lausnin?

Vaxtaokur og verðtrygging er afleiðing af lélegri efnahagsstjórnun og rangri peningamálastefnu. Það er gríðarlegt hagsmunamál heimilanna að finna stjórnmálamenn sem geta tekið heilstætt á þessum málum og innleitt varanlegar lausnir.

Stjórn efnahagsmála hefur batnað frá hruni en peningamálastefnan hefur setið á hakanum. Það er engin lausn að láta Seðlabankann marka langtíma stefnu í peningamálum. Seðlabankinn á að sjá um tæknilega útfærslu á stefnu sem þjóðin ákveður, t.d. í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Í dag virðist peningamálastefnan byggja á einhvers konar flotgengi með verðbólgumarkmiði og stjórnum á fjármagnsflæði. Það getur vel verið að það sé einhver hagfræðilegur elegans yfir þessu mixi en svona stefna þjónar atvinnulífinu og heimilunum illa, en er aftur á móti afskaplega þægileg í útfærslu fyrir Seðlabankann. Það er enginn fyrirsjáanleiki í gengismálum og ekkert gert til að auka hann. Hvers vegna eru ekki gerðar meiri kröfur til Seðlabankans um að halda genginu stöðugu þegar hann er með öll stjórntæki til þess?

Þar sem íslenska krónan verður aldrei frjáls flotgengisgjaldmiðill er spurningin hvernig á að stjórna henni? Stjórnmálamenn verða að mynda sér skoðun á þessu máli og leiða umræðuna. Í þeirri umræðu á Seðlabankinn að miðla upplýsingum og leiðbeiningum.

Nú hefur einn stjórnmálaflokkur komið fram með hugmynd um myntráð sem er næsti bær við upptöku evru. Með myntráði hverfur verðtryggingin og vextir lækka, en málið er ekki alveg svona auðvelt. Myntráð krefst gríðarlegs samfélagslegs aga sem ekki er til staðar á Íslandi í dag. Þá tekur það áratugi að taka upp trúverðugt myntráð, eins og reynslan frá Danmörku og Hong Kong sýnir. En það breytir ekki því að myntráð getur verið skynsamlegt langtíma markmið. Fyrsta skrefið að myntráði er að finna skynsamlegt viðmiðunargengi á körfu helstu viðskiptamynta og láta Seðlabankann síðan fá það markmið að stjórna krónunni að þessu markmiði innan ákveðinna vikmarka, t.d +/- 15% í upphafi sem síðan má þrengja. Þessi leið myndi auka fyrirsjánleika í gengismálum og hjálpa við áætlanagerð í helstu atvinnugreinum landsins. Þá mun vaxtarstig smátt og smátt nálgast vexti í myntkörfu og vægi verðtryggingar minnka. En þetta gerist ekki á einu kjörtímabili, þetta er áratuga verkefni sem næsta kynslóð fær í arf.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.10.2016 - 10:30 - Lokað fyrir ummæli

Um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta er göfugt markmið sem er erfitt og dýrt að uppfylla. Þeir sem hafa kynnst slíku kerfi, t.d. í Bretlandi, vita að það hefur sína kosti og galla.

Í slíku kerfi er kostnaði oftast stjórnað með ítarlegum klínískum leiðbeiningum sem eiga að takmarka notkun á dýrum aðgerðum og lyfjum. Þá er gríðarlegt álag og viðvarandi langir biðlistar vandamál þegar allt er “ókeypis”. Niðurstaðan er að forgangsraða þarf þjónustunni. Fólk á vinnualdri gengur fyrir en aldraðir og öryrkjar sitja eftir. Dýrustu aðgerðirnar og lyfin takmarkast oft við 65 ára aldurinn.

Ein afleiðing af gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi í Bretlandi er að einkarekin heilbrigðisþjónusta blómstra. Vinnuveitendur geta ekki beðið eftir að starfsfólk fái tímanlega heilbrigðisþjónustu. Fyrirtæki bjóða því starfsfólki upp á einkatryggingar. Þannig er hluti af sjúklingum tekinn úr opinbera kerfinu sem aftur léttir á biðlistum þar.

Í umræðunni á Íslandi vill oft gleymast að í þeim löndum þar sem heilbrigðisþjónustan er gjaldfrjáls, gegnir einkarekin þjónusta og prívat sjúkratryggingar mikilvægu hlutverki. Spurningin sem alltaf vaknar er hvers vegna á fólk ekki rétt á að kaupa sér tryggingar fyrir þeirri þjónustu sem ríkiskerfið skammtar eða veitir aðeins gegn greiðslu. Á einkarekin heilbrigðisþjónusta aðeins að vera á færi þeirra sem hafa efni á að fara erlendis og borga fyrir hana úr eigin vasa?

Hvernig gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður innleidd á Íslandi skiptir öllu máli. Verður hún fjármögnuð með auknum fjárframlögum eða biðlistum og klínískum skömmtunum? Líklega verður hér um einhverja blöndu að ræða.

Svo ættu kjósendur nú að muna að varasamt er að treysta orðum stjórnmálamanna um gjaldfrjálsa þjónustu. Loforðið um gjaldfrjálsan leikskóla endaði með niðurskurði á mat til leikskólabarna!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is